Greinar

Hin dauða hönd.

Greinar

Íslendingar voru fyrir þrjátíu árum fremstir evrópskra þjóða í fiskeldi. Þá hafði Skúli á Laxalóni stundað laxarækt um skeið og var að byrja á regnbogasilungi til viðbótar. Norðmenn, sem nú eru öflugastir á þessu sviði, vissu varla, að laxarækt væri kleif.

Ef ríkisvaldið hefði látið Skúla á Laxalóni í friði með tilraunir hans, væru Íslendingar nú forustuþjóð í fiskeldi. Við ættum mörg og öflug innlend fyrirtæki á þessu sviði. Fiskeldið væri mikilvægasta atvinnugrein landsins og helzta gjaldeyrisuppspretta þess.

En í stað þessa hundelti ríkisvaldið Skúla í þrjá áratugi. Fremstir voru þar í flokki einræðisherrarnir Þór Guðjónsson veiðimálastjóri og Páll Pálsson yfirdýralæknir. Öllum tiltækum ráðum var beitt til að koma í veg fyrir, að hrogn og seiði væru seld frá Laxalóni.

Hámarki náðu þessar ofsóknir í tilraunum til að koma sjúkdómsorði á starfsemi Laxalónsmanna. Öll sú saga hefur birzt í fjölmiðlum og er ekki fögur. Þetta leiddi til, að ekki mátti selja hrogn og seiði frá Laxalóni, svo sem staðfest hefur verið með Hæstaréttardómi.

Í staðinn reisti ríkisvaldið eigin laxaræktarstöð í Kollafirði. Sú saga er samfelld harmsaga, allt frá því er ríkið varð að kaupa veiðiréttindi í eigin stöð. Stöðin var mjög dýr í byggingu og er enn dýr í rekstri, auðvitað á kostnað skattgreiðenda.

Í Kollafirði er ekki eingöngu notað lindarvatn eins og Laxalónsmenn nota við fiskeldi sitt í Fiskalóni. Hin gífurlega fjölmenna svartbakssveit, sem nærist á salmonella og coli frá holræsum Reykjavíkursvæðisins, verpir í Esjunni, þaðan sem vatnið rennur í laxeldisstöðina.

Svo alvarlegum augum er litið á slíkt ástand í Danmörku, að laxaræktarmönnum er með lögum bannað að haga málum á þann hátt, að sýking geti borizt með fugli í fiskinn. Hér hefur Kollafjarðarstöðin hins vegar náð einokun í dreifingu seiða um allt land.

Afleiðingin af einokun og skipulagi ríkisins er nú að koma í ljós. Sjúkdómar hafa komið upp í Kollafjarðarstöðinni og einni stöð, sem hefur fengið seiði þaðan. Um allt land eru laxaræktarmenn andvaka af áhyggjum út af því að lenda í Kollafjarðarbölinu.

Nú gildir ekki harkan sex eins og þegar sjúkdómsorðinu var logið upp á Laxalón. Landbúnaðarráðherra veltir vöngum meðan allt laxeldi í landinu rambar á barmi niðurskurðar. Kollafjarðarstöðin er rekin eins og ekkert hafi í skorizt. En enginn þorir að kaupa þaðan.

Svo mikil er einræðishneigð hinna opinberu embættismanna, sem stjórna þessum málum í skjóli duglítilla stjórnmálamanna, að 12. júní í fyrra bannaði Jón Helgason bréflega Laxalónsmönnum að rækta lax í fyrirhugaðri stöð í Hvalfirði. Það tók fimm mánuði að fá þessu breytt.

En nú er öldin að verða önnur. Samband íslenzkra samvinnufélaga hyggst skella sér út í umfangsmikla fiskirækt. Þess vegna má búast við, að Þór Guðjónssyni og Páli Pálssyni verði ýtt til hliðar og athafnamenn fái nú loksins útrás á þessu sviði.

Ef ríkisvaldið hefði ekki skipulagt þessi mál í þrjátíu ár og hefði látið atvinnugreinina í friði, værum við nú með gjaldeyrisuppsprettu, sem væri gjöfulli en sjávarútvegurinn. Og hún væri öll í eigu Íslendinga, en ekki erlendri, svo sem nú er að verða raunin.

Þetta er skólabókardæmi um hina dauðu hönd ríkisvaldsins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Séríslenzkt tækifæri.

Greinar

Efnahagserfiðleikar Íslendinga eru ekki meiri en svo um þessar mundir, að víðast hvar vantar fólk í vinnu fremur en fólk vanti vinnu. Daglega eru auglýstir tugir starfa í dagblöðunum, en mun minna er um, að fólk óski í auglýsingum eftir atvinnu.

Þessi þensla er mikil á Reykjavíkursvæðinu, en er ekki aðeins þar. Yfir 100 atvinnuleyfi hafa verið veitt útlendingum til starfa í fiskiðnaði úti um land. Öll þessi leyfi hafa verið veitt að höfðu samráði við stéttarfélög og eftir árangurslausa leit í röðum heimamanna.

Þjóðhagsstofnun spáði fyrir ári 2% atvinnuleysi árið 1984. Í raun varð atvinnuleysið ekki nema 1,3%. Það er að vísu aukning frá 1983, þegar atvinnuleysið var 1%. Eigi að síður er það mjög lítið og ekki nema brot af því, sem nágrannaþjóðir okkar verða að sæta.

Atvinnuleysið í fyrra jafngilti 1.500 störfum. Það er svo lítið, að á móti koma mun fleiri laus störf, sem ekki er unnt að skipa, svo sem auglýsingar í dagblöðunum og ráðning erlends fiskvinnslufólks hafa sýnt núna í svartasta og atvinnuminnsta skammdeginu.

Atvinnuleysi og atvinnuframboð eru til hlið við hlið, af því að sum atvinna er í sókn, en önnur á undanhaldi. Oft skortir fólk til starfa í nýjum greinum, sem eru á uppleið, þótt erfitt sé á sama tíma að fá vinnu í hefðbundnum greinum sem eru að dragast saman.

Tregðulögmálið hefur mikil áhrif í þessu eins og á öðrum sviðum. Til dæmis er skólakerfið yfirleitt lengi að átta sig á breyttum aðstæðum. Enn þann dag í dag lesa börnin í skólunum um atvinnuhætti og lífið í sveitinni, margfalt meira en um aðrar greinar.

Hins vegar hefur skólakerfið eindregið tregðazt við að viðurkenna fisk. Mjög seint kom til sögunnar Fiskvinnsluskóli. Hann hefur átt fjárhagslega erfitt uppdráttar. Og á háskólastigi er lítið um fræðslu, sem gæti til dæmis nýtzt í hinu upprennandi fiskeldi.

Af því að tölvur eru taldar heldur fínni en fiskur í skólakerfinu hefur tekizt mun hraðar og betur að koma upp tölvum og tölvufræðslu í skólum. Þetta ánægjulega framtak hefur þegar skilað töluverðum árangri í atvinnulífinu og mun gera það enn frekar í náinni framtíð.

Við sjáum fram á, að atvinnugreinar á borð við tölvutækni og fiskeldi muni í náinni framtíð geta sogað til sín mikið af starfskröftum og það á betri kjörum en tíðkast í hinum hefðbundnu greinum, sem eru á undanhaldi. Stjórnmálin ættu að styðja þessa þróun.

Þvert á móti er ausið fé í gersamlega úrelta grein á borð við hinn hefðbundna landbúnað. Þar er fjárfestur milljarður króna á hverju ári. Á sama tíma er næstum útilokað að svæla út krónu til stuðnings fjárfestingu í framtíðinni, tölvum og fiskeldi.

Í rauninni ætti hið litla atvinnuleysi að auðvelda markvissa sókn frá gömlu greinunum yfir í nýjar. Í löndum mikils atvinnuleysis eru slík umskipti miklu sársaukafyllri, svo sem sýnir verkfall kolanámumanna í Bretlandi, þar sem verið er að loka arðlausum námum.

Þjóð, sem býr við 1,3% atvinnuleysi meðan nágrannaþjóðirnar búa við 8-12% atvinnuleysi, getur hrósað happi, ef ráðamenn hennar magna með sér kjark til að nota tækifærið til að hætta að fjármagna fortíðina með valdboði og fara í staðinn að leyfa markaðinum að fjármagna framtíðina.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skrímslið magnast.

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra er sagður hafa svikið samkomulag um kjarnfóðurskatt, sem stjórnarflokkarnir gerðu í sumar. Í stað þess að lækka skattinn um áramótin, tvöfaldaði hann gjaldið á þá starfsemi, sem er fyrir utan hið gullna hlið Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við DV á laugardaginn, að þetta væru “veruleg mistök í samskiptaháttum stjórnarflokkanna, sem ekki er hægt annað en horfa mjög alvarlega á”.

Í sumar var fallizt á hækkun kjarnfóðurskattsins, en aðeins til áramóta. Jafnframt var bókað í ríkisstjórninni, að stefnt skyldi að afnámi alls skattsins á næsta vori. Ráðherra hefur nú “gengið á svig við þetta samkomulag án þess að leita samráðs”, sagði Þorsteinn í viðtalinu.

Vinnubrögð landbúnaðarráðherra veita nokkra innsýn í stöðu hins hefðbundna landbúnaðar. Hann er ekki ríki í ríkinu, heldur ríki yfir ríkinu. Þar drottnar heilög þrenning Búnaðarfélags Íslands, Framleiðsluráðs landbúnaðarins og landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins.

Framleiðsluráð landbúnaðarins annast svonefnda framleiðslustjórnun á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, sauðfjár og nautgripa. Afleiðing þessarar stjórnunar er, að upp hlaðast óseljanleg fjöll af ostum og smjöri, kindakjöti og nautakjöti.

Framleiðsluráðið hefur lengi ágirnzt sömu tök á afurðum fugla- og svínabænda. Þar ríkir ekki framleiðslustjórnun, heldur sjá markaðslögmálin um, að framboð og eftirspurn haldast í stórum dráttum í jafnvægi. Ennfremur hafa þessar vörur orðið hlutfallslega ódýrari með árunum.

Í rauninni hefur kjarnfóðurgjaldið frá upphafi falið í sér tilraun hinnar heilögu landbúnaðarþrenningar til að koma sínum aga á fugla- og svínabændur. Kjarnfóður er miklu þyngri kostnaðarliður í þessum greinum en í hinum hefðbundna landbúnaði. Þess vegna er það skattlagt.

Í fréttum hefur verið rakið, hvernig tekjurnar af þessu gjaldi hafa sumpart verið notaðar til að mylja undir þann hluta eggjabænda, sem vill hlýða þrenningunni og skipta við stofnunina Ísegg, sem ætlað er að verða hliðstæð einokunarstofnun og til dæmis Mjólkursamsalan.

Ísegg er meira eða minna byggt upp fyrir gjafa- og lánsfé úr kjarnfóðursjóði. Hinir sjálfstæðu framleiðendur, sem eru fyrir utan, verða að reisa sínar flokkunar- og dreifingarstöðvar á eigin kostnað. Það eru einmitt þeir, sem hafa haldið niðri verði á undanförnum árum.

Landbúnaðarráðherra hefur nú tvöfaldað kjarnfóðurskattinn á fugla- og svínabændur, en lækkað á móti um þriðjung í hinum hefðbundnu greinum, sauðfé og nautgripum. Með þessu er landbúnaðarþrenningin að reyna að efla hina óbeinu framleiðslustjórnun sína.

Markmiðið er að hækka egg, kjúklinga og svínakjöt um 12%, svo að neyzlan þar minnki og færist yfir til hins hefðbundna landbúnaðar, þar sem Framleiðsluráð situr á fjöllum sínum. Markmiðið er að koma í veg fyrir bráðnauðsynlegan samdrátt í hefðbundnum landbúnaði.

Fyrir helgina kom í ljós í lögfræðilegri úttekt, að hinn hefðbundni landbúnaður er ofan við þjóðfélagið og skammtar sér herfang sjálfur. Þetta skrímsli er ekki á undanhaldi. Þvert á móti er það magnaðra en nokkru sinni fyrr og er í þann veginn að éta þjóðina út á gaddinn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Félag stjórnar ríkinu.

Greinar

Búnaðarfélag Íslands hefur vaxið Stjórnarráði Íslands yfir höfuð á flestum sviðum landbúnaðarmála að mati Páls Líndal lögfræðings. Hann hefur að ósk Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra tekið saman skýrslu um greiðsluskyldur ríkisins eftir lögum um landbúnað.

Skýrsla Páls er mjög ítarleg og nær allt frá átjándu öld til allra síðustu ára. Þetta er fyrsta skrefið og stærsta í fyrirhugaðri úttekt á, hvernig fjárlög ríkisins þenjast út á sjálfvirkan hátt í kjölfar laga, sem sífellt leggja nýjar skyldur á herðar skattgreiðenda.

Í niðurstöðum rannsóknar Páls segir m.a. ; “Að forminu til fer landbúnaðarráðuneytið með yfirstjórn landbúnaðarmála, en þegar farið er að athuga löggjöfina nánar, kemur í ljós, að í raun er þetta á allt annan veg. Ákvörðunarmöguleikarnir og ákvörðunarvaldið eru í raun að mjög verulegu leyti hjá Búnaðarfélagi Íslands. Það hefur, ef svo má segja, vaxið Stjórnarráðinu yfir höfuð á flestum sviðum landbúnaðarmála.

Félagið hefur ekki tekjur til starfsemi sinnar utan það fé, sem það fær úr ríkissjóði, ýmist samkvæmt beinum ákvæðum laga eða árlegum fjárveitingum á fjárlögum. Þótt svona sé skipað málum, á ríkisvaldið engan íhlutunarrétt um stjórn félagsins eða starfshætti. Hefur það komið fram oftar en einu sinni hér að framan.

Félagið fer með beina stjórn á vissum þáttum ríkisvaldsins, það markar opinbera stefnu á vissum sviðum, stjórnar raunverulegum ríkisframkvæmdum, annast fjársýslu fyrir ríkið og svo framvegis. Það hefur á að skipa allfjölmennu starfsliði, sem ráðið er af stjórn félagsins og nýtur réttinda ríkisstarfsmanna, án þess að ríkisvaldið hafi nokkuð um þessi mál að segja.

Og sem dæmi um það, hvernig málum er skipað, er það, að reikningar félagsins ganga ekki til ríkisendurskoðunar.”

Um þetta ástand segir Páll, að það “virðist hálfkyndugt frá lögfræðilegu sjónarmiði, að félagsskapur með sjálfvirku stjórnkerfi fari með ákveðinn þátt ríkisvaldsins”.

Páll telur, að gildandi skipan landbúnaðarmála sé “beint afkvæmi hagfræðikenninga, sem voru ofarlega á baugi í Evrópu um og eftir miðja 18. öld”. Þá voru uppi svokallaðir fysiokratar eða búauðgismenn, sem töldu landbúnað vera undirstöðu annarra atvinnugreina.

Þessar kenningar höfðu veruleg áhrif í Danmörku og bárust þaðan til Íslands rétt fyrir móðuharðindi. Og Páll segir: “Þegar litið er á þróun landbúnaðarmála hér á landi, verður ekki annað sagt, en stefna sú, sem fylgt er nú, sé í mörgum atriðum hin sama og fest var í lögum á tímabilinu 1772-1783.”

Þá segir Páll: “Hlýtur það að vera íhugunarefni hvort kenningar fysiokrata eins og þær voru útfærðar í lögum af dönsku stjórninni seint á 18. öld eigi við öllu lengur.”

Athyglisvert er, að af mörgum tugum laga um landbúnað er það tiltölulega nýleg syrpa laga frá 1971-1973 sem er einna dýrust og felur í sér einna mest valdaafsal. Það eru lögin um jarðrækt, búfjárrækt og stofnlánadeild landbúnaðarins. Og loks eru nýjustu lögin um hið illræmda Framleiðsluráð landbúnaðarins frá 1981.

Krabbamein hins hefðbundna landbúnaðar er grunnmúrað í lagabókstafnum. Þetta krabbamein hefur breiðzt út á síðustu árum, þrátt fyrir andóf. En með skýrslu Páls er fengin handhæg skrá yfir lagagreinar, sem afnema þarf til að létta óbærilegri byrði af skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ný lota í vaxtastríði.

Greinar

Ný lota er hafin í baráttunni um sparifé landsmanna. Í þetta sinn eru það ekki viðskiptabankarnir, sem ríða á vaðið með fjölbreyttum freistingum. Það er ríkissjóður, sem þenur sig á heilli auglýsingaopnu um ferns konar ávöxtun peninga hjá sjálfu ríkinu.

Í rauninni eru þessar auglýsingar eins konar neyðaróp. Hinar miklu lántökur ríkisins á liðnum árum eru farnar að leiða til ört vaxandi endurgreiðslna á þessum fyrri lánum. Í ár þarf ríkið til dæmis að endurgreiða 3.800 milljónir í innlendum spariskírteinum.

Ríkið telur sig ekki hafa efni á að missa þessa peninga úr rekstri sínum. Í fjárlögum og óafgreiddri lánsfjáráætlun þessa árs er gert ráð fyrir, að eigendur fjárins taki ný bréf fyrir hin gömlu að verulegu leyti. Í því felst auðvitað töluverð bjartsýni.

Í fyrra gerði ríkið líka ráð fyrir að ná peningunum til baka. Í því skyni bauð það innleysendum spariskírteina 8% raunvexti fyrir að taka ný bréf. Þrátt fyrir þetta gylliboð missti ríkið 500 milljónir úr höndum sér, væntanlega til þeirra, sem buðu betri vexti.

Þetta sýnir, að ríkissjóður þarf í ár að taka á honum stóra sínum og yfirbjóða markaðinn með svokölluðum okurvöxtum, ef dæmi hans á að ganga upp. Hann ætlar þar að auki ekki aðeins að halda í gamla féð, heldur ná í 600 nýjar milljónir í spariskírteinum og ríkisvíxlum.

Þess vegna auglýsir ríkið nú “Lánsöm þjóð” yfir þverar opnur. Þar sem áður var bara réttur dagsins, er nú kominn heill matseðill. Ætlazt er til, að þeir, sem ekki falla fyrir einu tilboðanna, sjái sér þó hag í einhverju hinna. Bara að þeir láni ríkissjóði.

Nú geta lánsfjáreigendur valið um hefðbundin skírteini með 7% raunvöxtum eða vaxtamiðaskírteini með 6,71% raunvöxtum, sem verða hærri yfir árið hjá þeim, sem eru duglegir við að nota skærin. Eða þá gengistryggð skírteini með 9% vöxtum handa þeim, sem vilja spá í gengið.

Ekki er aðeins hugsað um spákaupmenn og skæraeigendur, heldur beinist eitt tilboðið að markaði viðskiptabankanna. Það eru tiltölulega stutt, 18 mánaða spariskírteini með hreyfanlegum vöxtum og 50% vaxtaauka. Með þeim er ætlunin að ná fé af bankareikningum.

Í þessu er eins dauði annars brauð. Bankarnir telja sig vafalaust hafa skyldum að gegna hjá viðskiptamönnum sínum. Þeir munu þrýsta fram kröfum um aukið frelsi til að hækka vexti til að ná inn peningum til að seðja síhungraða skuldunauta þessa lands.

Slagsmálin um takmarkað og hægt vaxandi lánsfé í landinu eru að verða ofsafengnari, af því að enginn telur lengur verjandi að auka erlendar skuldir þjóðarinnar. Þar að auki hafa menn komizt að raun um, að vextir eru alls ekkert lægri í útlöndum en hér.

Mál þetta kristallar ruglið í stjórnmálunum. Annars vegar sitja ráðumenn á löngum fundum til að finna leiðir til að fá Seðlabankann til að lækka raunvexti. Ábyrgir menn eru stórhneykslaðir á, að svonefnt vaxtaokur sé að sliga atvinnulíf og húsbyggjendur.

Á sama tíma á ríkið einskis annars úrkosti í peningavandræðum sínum en að taka af fullum krafti og flenniauglýsingum þátt í vaxtauppboðinu. En ríkinu dugar bara ekki að keppa við bankana um 8-10% vexti, þegar raunvextir markaðarins í verðtryggðum veðskuldabréfum eru 14-18%!

Jónas Kristjánsson.

DV

Gegn æðinu í Afganistan.

Greinar

Almenningur á Vesturlöndum þarf að taka Afganistan upp á arma sína. Beita þarf beinum þrýstingi gagnvart sendiráðum Sovétríkjanna og öðrum umboðsaðilum þeirra, hvenær sem fólk getur búið sér til tækifæri til þess, allt frá mótmælastöðum yfir í hanastél.

Ennfremur þurfum við að beita óbeinum þrýstingi á lingerð stjórnvöld og utanríkisráðuneyti á Vesturlöndum. Fólk þarf að knýja slíka aðila til að sýna meiri festu andspænis langsamlega hrikalegasta glæp gagnvart mannkyninu, sem framinn er um þessar mundir.

Engir slíkir glæpir komast í hálfkvisti við glæpi Sovétríkjanna í Afganistan. Glæpir leppa þeirra í Víetnam og Eþíópíu eru ekki eins þungvægir, hvað þá glæpir leppa Bandaríkjanna í Mið og Suður-Ameríku, sem raunar fara minnkandi um þessar mundir.

Sovétstjórnin rekur gersamlega miskunnarlausan hernað gegn almenningi í Afganistan. Þriðjungur þjóðarinnar, hvorki meira né minna en fjórar milljónir manns, er flúinn til nágrannalandanna, einkum Pakistan. Þessu flóttafólki þurfa Vesturlandabúar að sinna.

Enn hörmulegra er ástandið hjá þeim, sem eftir sitja. Vígvél Sovétríkjanna eyðir kerfisbundið uppskeru og leggur þorp kerfisbundið í rúst. Börnum og konum er smalað í hús, sem sprengd eru upp. Börn eru pynduð með raflosti fyrir framan foreldra sína.

Vestrænir blaðamenn hafa sumir hverjir sýnt mikið hugrekki við að afla upplýsinga af æði Sovétríkjanna í Afganistan. Hið sama er að segja um marga vestræna lækna, sem starfa við hinar hættulegustu aðstæður meðal fólks í landinu. Hvorir tveggja eru taldir réttdræpir.

Franskir blaðamenn og læknar hafa staðið sig vel á þessu sviði. Liður í tilraunum sovétstjórnarinnar til að aftra störfum þessara aðila var dómurinn yfir franska blaðamanninum Jacques Abouchar. Hann var gripinn hjá skæruliðum og fékk 18 ára fangelsisdóm.

Það var ekki leppstjórn Sovétríkjanna í Kabúl, sem fékk Abouchar náðaðan og fluttan vestur fyrir tjald. Það var Sovétstjórnin sjálf, sem annaðist þá framkvæmd. Skilaboðin, sem hann var látinn flytja vestur, voru, að næst yrði farið harkalegar í sakirnar.

Sovétstjórnin er að reyna að loka Afganistan, skrúfa fyrir hinn litla straum upplýsinga, sem berst úr landinu til Vesturlanda. Sovétstjórnin fyrirlítur auðvitað mannréttindi, en hún vill samt ekki, að á Vesturlöndum sé mikið fjallað um glæpi hennar.

Þetta er raunverulega hliðstæðs eðlis og ofsóknir sovétstjórnarinnar gegn mannréttindasinnum og öðrum stjórnarandstæðingum heima fyrir. Markmiðið er hið sama, að stöðva fréttirnar, fá þögn. Aðferðirnar eru bara ógeðslegri og villimannlegri hjá Rauða hernum í Afganistan.

Takmarkið er, að augu Vesturlandabúa lokist fyrir fjöldamorðum Sovétstjórnarinnar, en opnist þeim mun betur fyrir alvarlegum glæpum, sem drýgðir eru á vegum bandarískra leppa í Mið og Suður-Ameríku. Þessu herbragði verðum við að verjast og taka Afganistan sérstaklega á dagskrá.

Varaformaður stjórnmálanefndar Evrópuþingsins, Jean-Francois Deniau, fyrrum ráðherra í Frakklandi, er nýlega kominn úr leyniferð til Afganistan. Hann hvatti Vesturlandabúa til öflugri stuðnings við skæruliða, þar á meðal hernaðarlegs. Undir þá hvatningu er eindregið tekið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættur við að hætta.

Greinar

Svokallað Þorsteinsmál ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins hefur tekið enn eina kúvendingu um áramótin. Á ný er talið hugsanlegt, að þingflokkur sjálfstæðismanna kjósi Þorstein Pálsson flokksformann til stjórnarsetu í stað einhvers núverandi ráðherra.

Aðeins mánuður er síðan Þorsteinn gaf í blaðaviðtali þessa yfirlýsingu: .,Ég fer ekki í þessa ríkisstjórn og mun ekki gera neinar tillögur um breytingar á henni.” Ennfremur kvað hann löngu vera orðið tímabært, að menn hættu að velta vöngum yfir þessu.

Þorsteinn gaf desemberyfirlýsinguna, þegar komið hafði í ljós, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru hver fyrir sig ófúsir að standa upp fyrir honum. Til dæmis var Matthías Bjarnason, sem áður hafði boðið Þorsteini sinn stól, orðinn afhuga hinu fyrra boði.

Fram að þessum tíma virtust tilraunir til að koma Þorsteini í ríkisstjórnina hafa byggzt á þeim misskilningi, að formaður Sjálfstæðisflokksins gæti sjálfur ákveðið slíkt. En það er ekki landsfundur flokksins, sem velur ráðherra hans, heldur þingflokkurinn.

Landsfundur og þingflokkur eru ólíkar stofnanir. Landsfundur samþykkir til dæmis margvísleg hugsjónamál, sem þingflokkurinn hefur lítinn áhuga á að framkvæma. Til dæmis stendur þingflokkurinn hugmyndafræðilega mun nær Framsóknarflokknum en landsfundurinn gerir.

Þegar Þorsteinn og stuðningsmenn hans í máli þessu áttuðu sig á staðreyndunum, lagði hann niður þann hinn fyrri stuðning við ríkisstjórnina, sem hafði fært honum óformlegan titil blaðafulltrúa hennar. Hann hætti að tala fyrir hönd stjórnarsamstarfsins.

Eftir að hafa um haustið talað á Alþingi í öllum stórmálum ríkisstjórnarinnar, þagnaði hann skyndilega um mánaðamótin nóvember-desember. Hann varði til dæmis ekki gengislækkunina eða fjárlögin og sagði þetta ekki vera sín mál, heldur ríkisstjórnarinnar.

En Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sá fljótlega, að við svo búið mátti ekki standa. Hætta var á, að Þorsteinn og margir aðrir sjálfstæðismenn legðust í hreina stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin mundi smám saman flosna upp og nýjar kosningar yrðu í vor.

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa líka áttað sig á, að staða ríkisstjórnarinnar er slæm og fer hríðversnandi. Þeir hafa áhyggjur af slæmri útreið í næstu kosningum. Þeir eru opnari en áður fyrir mannaskiptum í ríkisstjórninni, ef það gæti lagað stöðuna.

Núverandi ráðherrar voru til skamms tíma vissir um, að meirihluti þingflokksins stæði að baki þeim, hverjum fyrir sig. Þess vegna neituðu þeir að standa upp. Nú hafa veður skipazt þannig, að hugsanlegt er, að einhver þeirra félli fyrir Þorsteini í atkvæðagreiðslu.

Verandi hættur við að hætta hefur Þorsteinn Pálsson ekki efni á að tapa þessari atrennu. Ef hann fær ekki stuðning, hefði hann betur staðið við desember-yfirlýsinguna. Steingrímur þarf líka á Þorsteini að halda, því að hann telur það geta blásið lífi í þreytta ríkisstjórn.

Niðurstaða málsins fer svo eftir, hvort nógu margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar, að þessi hugsanlega uppstokkun ríkisstjórnarinnar hafi í raun einhver umtalsverð áhrif, stjórnarflokkunum til góðs í næstu kosningum. Þeir velta sumir vöngum þessa dagana.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skipt um skoðun í Kína.

Greinar

Deng Xiaoping og aðrir helztu ráðamenn Kína hafa komizt að raun um, að kredda frá miðri nítjándu öld dugi ekki til lausnar á vandamálum og verkefnum á ofanverðri tuttugustu öld. Þeir hafa lagt niður trú á Karl Marx og eru að taka upp félagslegan markaðsbúskap.

Þessi sinnaskipti marka vatnaskil. Annað stórveldið. þar sem valdamenn byggðu tilverurétt sinn á kenningum Karls Marx, hefur vikið af þeirri hraut. Eftir standa Sovétríkin, þar sem ráðamenn halda enn dauðahaldi í kredduna, af því að hún réttlætir völd þeirra.

Enginn vafi er á, að fráhvarf kínverskra ráðamanna mun valda flokksforingjunum í Sovétríkjunum erfiðleikum. Þeir standa uppi með staðnað efnahagslíf meðan markaðstilraunir Kínverja hafa leitt til drjúgs hagvaxtar á síðustu árum.

Rétt er að taka fram, að Kína er ekki að verða frjálslynt ríki á vestræna vísu. Það verður áfram flokksrekið einræðisríki. En bændur og verkafólk geta nú tekið land, húsnæði og tæki á leigu og rekið fyrir eigin reikning, – geta spáð í markaðinn hverju sinni.

Tilraunir Kínverja í þessa átt hafa leitt til 30%. aukningar á framleiðslu landbúnaðar árin 1980-1983 og rúmlega 20% á framleiðslu iðnaðar. Þessar háu tölur stafa auðvitað af því, að frjálsari vindar leika nú um efnahagslíf Kínverja eftir langvinnt kreddutímabil.

Fylgiríki Sovétríkjanna og önnur ríki, sem sækja tilverurétt valdastéttanna til kenninga Marx og Leníns, neyðast til að taka mark á sinnaskiptum kínverskra valdhafa. Ef tilraun þeirra gengur vel, munu linast þau tök, sem ráðamenn í Kreml hafa á ríkjum Austur-Evrópu.

Raunverulega má öllum vera ljóst nema ofsatrúarmönnum, að engar kenningar frá miðri nítjándu öld geta verið svo góðar, að þær megi vera alfa og ómega vinnubragða á ofanverðri tuttugustu öld. Kenningar frá upphafi iðnbyltingar duga ekki löngu eftir iðnbyltingu.

Þekkingin hefur aukizt stórkostlega á þessu tímabili. Tækni, vísindi og efnahagur standa í allt öðrum sporum en hægt var að sjá fyrir, þegar Karl Marx var að semja Das Kapital. Þvert ofan í kenningar hans um hrun miðstéttarinnar hefur sú stétt raunar tekið völdin.

Kenningar Karls Marx væru nú úreltar, jafnvel þótt þær hefðu einhvern tíma verið ágætar. En þær voru aldrei byggðar á staðreyndum, heldur skoðunum, sem hann hafði áður sett fram í trúar- og áróðursritinu Kommúnistaávarpið. Hann safnaði ekki í kredduna, heldur byggði á henni.

Spár og trúboð Karls Marx komu fram árið 1848 í Kommúnistaávarpinu. Það var eftir það, sem hann settist inn á British Museum og fór að leita að upplýsingum, sem gætu hentað kenningakerfinu. Hann byrjaði á öfugum enda og því varð marxisminn strax vísindalega einskis virði.

Það hefur tekið kreddumenn ótrúlega langan tíma að í átta sig á þessum vanköntum. En skilningurinn hefur þó eflzt svo, að nú má marxisminn heita útdauður sem kenning á Vesturlöndum. Hann er þar aðeins til umræðu í afar þröngum og fámennum sérvitringaklúbbum.

Að sjálfsögðu reynist slíkt fráhvarf erfiðara ráðamönnum, sem byggja alræði sitt á kenningum af þessu tagi. Þeir taka með slíku töluverða áhættu. Þess vegna eru sinnaskipti Dengs og félaga hans í valdastólum Kína hrein tímamót í söguskoðun og hugmyndafræði nútímans.

Jónas Kristjánsson.

DV

Aðgangur að örlæti.

Greinar

Á tímamótum er stjórnmálamönnum gjarnt að berja sér á brjóst og fara fjálglegum orðum um vilja sinn til góðra verka. Nýjar atvinnugreinar eru það atriði, sem mest hefur verið í tízku, ekki sízt í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem segist sérstaklega hafa það á dagskrá.

Í verki sér þessa áhuga hvergi stað. Sem dæmi má nefna laxeldið, sem flestir eru sammála um. að eigi nokkuð örugga framtíðarmöguleika. Víða um land eru menn af vanefnum að berjast við að koma slíkum rekstri í gang. Opinberir sjóðir eru lokaðir þessu fólki.

Í rauninni ern áhugamál stjórnmálamanna allt önnur, bæði þeirra, sem nú skipa ríkisstjórn, og flestra hinna, sem um þessar mundir eru utan stjórnar. Þessi áhugamál má lesa út úr nýsamþykktum fjárlögum og lánsfjáráætluninni. sem nú liggur fyrir Alþingi.

Lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir, að í ár verði fjárfestur heill milljarður í landbúnaði, aðallega hinum hefðbundna landbúnaði, sem framleiðir lítt seljanlega vöru. Þessi milljarður verður auðvitað ekki notaður í annað, til dæmis ekki í brýna fjárfestingu í fiskeldi.

Samt veit ríkisstjórnin, að birgðir af landbúnaðarafurðum hlóðust upp í fyrra. Smjörfjallið er komið upp í 600 tonn og ostfjallið í sama magn. Til viðbótar hefur myndazt nautakjötsfjall og nemur það þegar meiru en 600 tonnum. Mjólkurframleiðsla jókst um tæp 3% í fyrra.

Það er aðeins í hinum frjálsu greinum landbúnaðar, að fjöll eru ekki að myndast. Framleiðsla á svínakjöti, kjúklingum og eggjum virðist vera í töluverðu samræmi við markaðinn. Enda eru ráðamenn landbúnaðarins að reyna að koma svonefndri framleiðslustjórn á þessar greinar.

Hin vaxandi vandræði við að koma í verð hinum hefðbundnu landbúnaðarafurðum hafa leitt til aukins álags á útflutningsuppbætur. Samkvæmt fjárlögum síðasta árs áttu þær að nema 280 milljónum króna, en urðu 468 milljónir. Í ár eiga þær að vera 380 milljónir, en verða vafalítið hærri.

Svo örvæntingarfull er þessi iðja, að ostur er seldur til Evrópu á verði, sem nemur 17% af framleiðslukostnaði. Alls átti í fyrra að flytja út um 1000 tonn af osti. Samt telja ráðamenn þjóðarinnar rétt að stuðla að eins milljarðs króna fjárfestingu í þessari grein.

Á fjárlögum þessa árs er ekki aðeins gert ráð fyrir rúmlega milljarði í uppbætur og niðurgreiðslur. Þar eru líka 139 milljónir til jarðræktarstyrkja og 18 milljónir til búfjárstyrkja, 26 milljónir til Búnaðarfélags Íslands og 31 milljón til Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Á þessu ári hyggst ríkið greiða niður vexti í landbúnaði upp á 81 milljón króna og greiða niður Lífeyrissjóð bænda upp á 111 milljónir króna. Þessir tveir liðir sýna ljóslega, að ráðamenn þjóðarinnar hafa langtum meiri ást á hefðbundnum landbúnaði en nokkurri annarri starfsemi.

Það er víðar en í landbúnaði, að menn vilja vinna hjá sjálfum sér en ekki neinum sérstökum atvinnurekanda. Aldrei hefur þó komið til mála, að ríkið tæki að sér lífeyriskostnað til dæmis bílstjóra og vinnuvélamanna, hvað þá að það tæki að sér lántökukostnað þeirra.

Þegar hefðbundin atvinnugrein hefur eins ljúfan aðgang að örlæti stjórnmálaaflanna í landinu og landbúnaðurinn hefur í raun. er ekki við því að búast, að peningar séu aflögu til að hvetja til framtaks í nýjum atvinnugreinum, er geti í framtíðinni greitt þær erlendu skuldir, sem ráðamenn eru nú að stofna til.

Jónas Kristjánsson

DV

Jól alvöruleysingja.

Greinar

Íslendingar eru sagðir trúaðastir manna, en gefum samt lítið fyrir Krist eða guð biblíunnar. Við erum sagðir manna hrifnastir af hjónabandinu, en erum samt sérstaklega afstæðir í viðhorfum til framhjáhalds. Við erum sagðir bera virðingu fyrir Alþingi, en vantreystum stjórnmálamönnum.

Íslendingar eru sagðir ekki trúa neinu, sem stendur í blöðunum, en eru samt manna ákafastir blaðalesendur. Við segjum okkur hamingjusamasta fólk í heimi, en getum þó viðrað fjárhagsvandræði okkar við spyrla frá virtum stofnunum, sem reyna að skyggnast inn í sálartötrið.

Þannig var nýlega búin til mynd af okkur. Hún sýnir einstaklega þrjózka þjóð, sem aldrei gefst upp. Hún sýnir heimsins mestu tækifærissinna, sem svara því, er hentar hverju sinni. Við virðumst laus við einlægnina, sem gerir slíkar kannanir kleifar úti í heimi.

Íslendingurinn er það, sem hann er. Eða það, sem hann þarf að vera. Eða það, sem hann ætti að vera. Altjend höfum við Gallup fyrir því, að við getum brugðið okkur í allra kvikinda líki eftir aðstæðum hverju sinni. Við þurfum ekki leikhús, af því að við erum leikhús.

Alvöruleysi okkar kemur fram í ótal myndum. Við veltum okkur til dæmis upp úr gamansögum um laxveiði landsbankastjóra, en gerum samt ekkert í því. Okkur þykir miður að þurfa að fjárfesta heilan milljarð í kúm og kindum á næsta ári, en gerum samt ekkert í því.

Við vitum, að framferði Sovétríkjanna í Afganistan og leppa þeirra í Eþiópíu er ekki tilviljun, heldur kerfislægur þáttur krabbameins, sem ógnar okkur. Samt sofum við á verðinum og veltum okkur upp úr alls kyns friðarrugli nytsamra sakleysingja á borð við þjóðkirkjuna.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við tillitsleysi okkar gagnvart lítilmagnanum heima fyrir. Við veltum okkur í vellystingum praktuglega, en gleymum því, að til er fólk, sem ekki á hlutabréf í þeirri hamingju, sem mölur og ryð fá að vísu grandað.

Mikill meirihluti Íslendinga er ríkur. Við erum það ýmist vegna menntunar eða ábyrgðar, aðstöðu eða áhættu, yfirvinnu eða uppmælingar eða þá að hjónin vinna bæði úti. Með einhverjum slíkum hætti verðum við okkur úti um þau lífskjör, sem við teljum okkur þurfa.

Innan um þessa velsæld er fólk, sem hefur orðið útundan. Það hefur ekki menntun eða aðstöðu, ekki ábyrgð eða áhættu í starfi, ekki yfirvinnu eða uppmælingu. Fjölmennastar í þessum hópi eru einstæðar mæður og börn þeirra, einnig aldrað fólk og öryrkjar.

Jafnvel samtök launþega sinna ekki hagsmunum einstæðra mæðra. Þessi samtök hafa stundum hátt og stunda jafnvel hópefli í verkfallsvörzlu. En niðurstaðan er jafnan sú, að uppmælingarfólk og annar slíkur aðall fær hagnaðinn, en láglaunafólkið minna en ekki neitt.

Meðan nokkur þúsund íslenzk börn eru ekki þáttakendur í allsnægtum þjóðarinnar, getum við ekki sagt, að við séum stéttlaust þjóðfélag, þótt við séum sífellt að gorta af því. Við vitum, að okkur er skylt að búa til stéttlaust þjóðfélag, en gerum lítið í því.

Við okkur blasir langt jólafrí og væntanlega nægur tími til að hugsa málin. Við gætum notað hátíð kærleikans til að gera upp reikningana við tækifærishneigðina og alvöruleysið. Í von um það óskar DV öllum landsmönnum gleðilegra jóla.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ömurleg áætlun.

Greinar

Við birtingu lánsfjáráætlunar ríkisins hefur sannazt, sem hér hefur verið haldið fram, að gatið á fjármálum þess verður ekki hálfur eða heill milljarður á næsta ári. Gatið verður hálfum þriðja milljarði stærra eða samtals annaðhvort þrír eða hálfur fjórði milljarður.

Samkvæmt lánsfjáráætlun hyggst ríkið og stofnanir þess taka að láni átta milljarða og endurgreiða fimm. Mismunurinn nemur þremur milljörðum. Og samkvæmt síðustu fréttum af gati sjálfs fjárlagafrumvarpsins er það vanmetið um hálfan milljarð, svo að heildargatið verður þrír og hálfur.

Hinn hálfi níundi milljarður, sem tekinn verður að láni á næsta ári, skiptist þannig : Í A-hluta fjárlaga 1.861 milljón, í B-hluta 1.288, hjá fyrirtækjum ríkisins 1.800, hjá húsbyggingarsjóðum ríkisins 1.558, hjá gæludýrasjóðum ríkisins 1.372 og um 500 milljónir í vanmatinu.

Til að sýna, hversu rosalegar þessar tölur eru, má nefna til samanburðar, að lántökur sveitarfélaga eru áætlaðar 153 milljónir og alls atvinnulífsins í landinu 1 .836 milljónir. Allar eru þessar tölur úr lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar frá því í fyrradag.

Í þessari áætlun næsta árs kemur fram einstök bjartsýni um, að hægt verði að afla innanlands hálfs þriðja milljarðs króna í lánsfé. Tilraunir ríkisstjórnarinnar til að draga úr raunvöxtum og gera þá öfuga gefa þó ekki mikla von um almennan sparnað fólks á næsta ári.

Til dæmis gerir áætlunin ráð fyrir, að innheimta og innlausn spariskírteina ríkisins standist á næsta ári þótt hlutfallið í ár hafi verið neikvætt fyrir ríkið um 500 milljónir. Bauð ríkið þó innleysendum upp á töluvert háa raunvexti á þessu ári eða 8%.

Ennfremur gerir áætlunin ráð fyrir, að lífeyrissjóðir þjóðarinnar láni 1.220 milljónir til húsnæðislánakerfis ríkisins, þótt þeir hafi í ár aðeins lánað ríkinu 430 milljónir til þessara nota. Draga verður í efa, að ríkinu takist að ná innanlands öllu þessu fé.

Ofan á þann innlenda sparnað, sem ríkið dreymir um, telur það sig þurfa 7.300 milljónir í löngum erlendum lánum og 1.200 í stuttum erlendum lánum. Við þessar tölur bætist 500 milljóna vanmatið á fjarlagagatinu og loks ótilgreint ofmat á innlendri öflun lánsfjár.

Um þessar mundir nema erlendar skuldir þjóðarinnar 42.660 milljónum og þjóðarframleiðsla ársins er að verða 67.300 milljónir, hvort tveggja samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar. Þar með eru erlendar skuldir þjóðarinnar komnar upp í 63,4%. þjóðarframleiðslunnar.

Hið stórfenglega gat á fjármálum ríkisins, stofnana þess, fyrirtækja og sjóða, svo og ráðagerðirnar um stórfelld lán í útlöndum eru skref til hækkunar erlendra skulda upp fyrir 63,4% þjóðarframleiðslu og til hækkunar erlendrar skuldabyrði upp fyrir 23% útflutningsverðmætis.

Sem eitt hrikalegt dæmi um, hvernig ráðgert er að sóa þessum mikla fjáraustri, má nefna, að lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir eins milljarðs króna fjárfestingu í landbúnaði á næsta ári, aðallega í hinum hefðbundna landbúnaði, sem framleiðir afurðir, er ekki finnast að neinir kaupendur.

Þegar milljarður er fjárfestur til að fá að borga árlega meira en milljarð í útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur, er ekki við því að búast, að milljarður finnist í nýjar atvinnugreinar. Þannig er lánsfjáráætlunin ömurlegt rugl, alveg eins og fjárlagafrumvarpið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rétt risna og röng.

Greinar

Allt frá því fyrir daga Snorra Sturlusonar hefur risna þótt sjálfsögð hér á landi. Íslenzkir kaupsýslumenn þakka stundum risnu góðan árangur í samningum við erlenda aðila. Og takist Seðlabankanum með risnu að ná hálfu prósenti hagstæðari vaxtakjörum í útlöndum, er vel að unnið.

Ekki er þó sama, hvenær risna er notuð, hjá hvaða aðilum og með hvaða hætti. Risna sætir oft ámæli, einmitt vegna þess að fólk verður vart við, að hún er notuð af mönnum, sem eru að gæla við sjálfa sig. Laxveiðibækur sýna til dæmis, að slík risna er algeng hjá bönkunum.

Reykjavíkurborg þarf mikla risnu, af því að hún hefur skyldum að gegna sem höfuðborg landsins. Ýmsir hópar, innlendir og erlendir, sem sækja boð ráðherra, þiggja líka af hefð boð hjá borginni. Þetta kostar mikið fé, líklega tvær milljónir á ári, en er óhjákvæmilegt.

Hitt er furðulegra, að Seðlabankinn, sem hefur litlum skyldum að gegna af þessu tagi, skuli þurfa svipaða risnu og Reykjavíkurborg. Hinir erlendu bankastjórar, sem hann býður, eru sárafáir í samanburði við hinn mikla fjölda, sem nýtur risnu Reykjavíkurborgar.

Aðrar stofnanir, sem hafa vakið athygli á þessu sviði, eru Landsvirkjun og Landsbanki. Þar er greinilega ekki litið á risnu fyrst og fremst sem liðkun viðskipta, heldur sem kjarabót fyrir yfirmenn. Sönnunargögn um óþarfa risnu af því tagi má sjá í bókum veiðihúsa.

Aftur á móti er risnu haldið óeðlilega mikið niðri hjá stofnun á borð við forsetaembættið. Er það þó stofnun, sem byggir starfsemi sína að töluverðu leyti á risnu. Erlendir virðingarmenn eru til dæmis undantekningalaust boðnir til forseta Íslands.

Þar að auki erum við svo lánsöm að hafa forseta, sem kann að nota risnu. Margoft kemur greinilega í ljós, að heimsókn á Bessastaði hefur verið hástig Íslandsferðar erlendra virðingarmanna. Þeir tala um forseta Íslands og Bessastaði í lýsingarorðum hástigs.

Þessa sérstöðu á að vera sjálfsagt að nýta meira en gert er. Um leið er nauðsynlegt, að hætt sé nöldri um, að risna hafi aukizt í tíð núverandi forseta, svo og ferðakostnaður. Vissulega hefur hvort tveggja aukizt verulega, en eigi að síður minna en vert væri.

Ekki er heldur sama, hvernig risna er framkvæmd. Hjá forsetaembættinu gætir þekkingar og smekkvísi á því sviði. Víða annars staðar er risnu sóað í vitleysu. Dæmi um það mátti sjá í hinni opinberu heimsókn forsætisráðherra Svíþjóðar til Íslands í síðustu viku.

Ástæðulaust er að kalla á hundrað manns til veizlu og bjóða þeim lélegan mat, þar á meðal hrygg af fóðurkálslambi, þar sem rúmlega helmingur er fita, – eða fisk, sem er innbakaður í smjördeig eins og tíðkaðist hjá Escoffier, en þekkist ekki lengur meðal siðaðra þjóða.

Svo vel vill til, að íslenzk veitingahús hafa matreiðslumenn, sem að jafnaði eru betri en starfsbræður þeirra á Norðurlöndum. Hvers vegna eru ekki Skúli Hansen eða Guðmundur Guðmundsson fengnir til að gæta sóma Íslands, þegar forsætisráðuneytið þarf á slíku að halda?

Þegar Frakklandsforseti þarf að nota risnu, kallar hann út í bæ eftir landsins beztu kokkum. Það eiga ráðamenn okkar líka að gera. Og þeir eiga að bjóða hráefnið, sem hefur gert íslenzka matreiðslumenningu þekkta úti í heimi, það er fiskinn úr sjó, ám og vötnum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óskhyggja og “okurvextir”.

Greinar

Seinkun nýrrar ákvörðunar um vexti á næsta verðbólgutímabili bendir til, að niðurstaðan verði eins konar málamiðlun. Í henni verði tekið tillit til þeirra, sem vilja raunvexti, og hinna, sem vilja vaxtakostnað atvinnulífs og húsbyggjenda sem allra minnstan.

Seðlabankinn hefur lagt fram varfærnar bugmyndir, sem andstæðingum raunvaxta finnst of háar. Þær fela þó í sér minnkun raunvaxta af verðtryggðum lánum og aukningu hinna öfugu vaxta af óverðtryggðum lánum. Hagfræðilega eru þær rangar, en diplómatískt hugsanlega nauðsynlegar.

Meðan umtalsverður hluti stjórnmálaafla og stjórnmálamanna landsins sér ekki samhengi milli framboðs og eftirspurnar að lánsfé, verður erfitt að rækta hér innlendan sparnað. Búast má við, að áfram verði að treysta á útlendan sparnað og taka stór lán í útlöndum.

Á næsta ári munum við þurfa að greiða 5-6 milljarða í vexti af erlendum lánum. Sú byrði mun síðan þyngjast ár frá ári, unz þjóðin verður gjaldþrota, ef til vill áður en ríkjandi kynslóð verður búin að velta byrðunum yfir á börnin sín. Við erum að sökkva í kviksyndi.

Útbreiddur er sá misskilningur, að erlend lán séu ódýrari en innlend. Vextir á Íslandi eru ekki hærri en í nágrannalöndunum og eru til dæmis lægri en í blómstrandi efnahag Bandaríkjanna. Í útlöndum er líka markaðsverð á vöxtum. Því þurfum við að sæta eins og aðrir.

Úr því að íslenzkir stjórnmálamenn og aðrir innlendir andstæðingar raunvaxta geta ekki ráðið vöxtum í útlöndum, vilja þeir stjórna vöxtum innanlands. Þeir líta í einstefnu á hagsmuni lántakenda og hafa ekki minnstu hugmynd um, að til sé lögmál framboðs og eftirspurnar.

Þeir, sem hafa atvinnu af ráðleggingum til fólks um meðferð fjármuna, ern byrjaðir að vara við afleiðingum þeirrar málamiðlunar í vöxtum, sem er á næsta leiti. “Sparifjáreigandi! Varúð! Óverðtryggt sparifé” var um daginn fyrirsögn á blaðagrein eins þessara manna.

Nú eru um 60% sparifjár á óverðtryggðum reikningum, sem munu verða mjög óhagstæðir á næstu mánuðum. Reiknað er með. að verðbólgustigið í janúar verði allt að 80%. Augljóst er, að margir munu færa peninga sína á verðtryggða reikninga til að verja þá þessari holskeflu.

Næsta skref andstæðinga raunvaxta verður svo atlaga gegn verðtryggingunni. Sú atlaga mun enn minnka innlendan sparnað ofan á þá minnkun, sem væntanleg málamiðlun mun hafa í för með sér. Í skorti á innlendu lánsfé munu háir vextir til útlendinga í vaxandi mæli taka við.

Ríkisstjórnin er að missa tökin á þessu eins og öðru, sem hún hefur fitlað við. Fyrr á þessu ári fór hún vel af stað í tilraunum til að hækka raunvexti og rækta innlendan sparnað. Sjálf bauð hún lífeyrissjóðum 9,29% raunvexti og innleysendum spariskírteina 8%. raunvexti.

Sparnaðarandinn hvarf eins og dögg fyrir sólu á þeim tveimur vikum, sem liðu, meðan ríkisstjórnin tregðaðist við að viðurkenna fall krónunnar. Skynsamt fólk kaus fremur að spekúlera í gengislækkun en raunvöxtum. Það keypti sér áþreifanlega hluti fyrir peningana.

Lítið dugar að hafa áhyggjur af vaxtabyrði atvinnulífs og húsbyggjenda, þegar sparnaður fer minnkandi. Ef misvitrir menn koma með handafli í veg fyrir það, sem þeir kalla “okurvexti” hér innanlands, verður ekki í önnur hús að venda en mun hærri raunvexti í útlöndum. Óskhyggja verður aldrei farsæl stjórnarstefna.

Jónas Kristjánsson

DV

Beðið um ófölsuð fjárlög.

Greinar

Umræður innan og utan Alþingis um niðurstöður fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar eru að mestu leyti marklausar. Enn hefur ríkisstjórnin ekki lagt fram neina fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir næsta ár. Og slík áætlun á einmitt að vera í föruneyti fjárlagafrumvarps.

Kominn er 13. desember og gert ráð fyrir, að önnur og næstsíðasta umræða um fjárlagafrumvarpið verði á Alþingi í dag. Samkvæmt venju má gera ráð fyrir, að þetta frumvarp verði að lögum eftir viku, í síðasta lagi á föstudaginn í næstu viku, daginn fyrir jólafrí Alþingis.

Í fyrra var fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þessa árs lögð fram 25. október. Og í hittifyrra var áætlunin lögð fram 17. október. Í báðum tilvikum gerðist þetta aðeins einni til tveimur vikum eftir að fjárlagafrumvarp viðkomandi árs hafði verið lagt fram.

Í inngangi áætlunarinnar í fyrra var sagt, að þá hafi mikið kapp verið lagt á, að hún fylgdi fjárlagafrumvarpi “án tafar” og “áður en fyrsta umræða fer fram um það á Alþingi”, þar sem slíkt sparaði vinnu og gæfi betri yfirsýn. Góð áform af þessu tagi hafa nú alveg gleymzt.

Í ljósi þessa er ekki auðvelt að meta, hvort sé fyndið eða sorglegt rifrildið um svokallað gat á fjárlagafrumvarpinu í þetta sinn. Menn leika sér að tölum um, hvort gatið sé einn eða hálfur milljarður. Og menn leika sér að tölum um, hvernig megi fylla þetta gat.

Samt vita menn, ef þeir vilja vita, að gatið á ríkisfjármálunum er miklu stærra en þetta. Það vantar nefnilega í myndina gatið á fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, sem enn hefur ekki litið dagsins ljós. Og allir vita, að það gat verður mun stærra.

Í eftirmála fjárlagafrumvarpsins er raunar gerð tilraun til að gera það upp að alþjóðlegum hætti í stað hinnar séríslenzku fölsunarleiðar. Þar er sagt, að greiðsluhalli ríkissjóðs sé rétt reiknaður upp á þrjá milljarða króna í stað hins hálfa milljarðs í frumvarpinu.

Þótt ríkisstjórnin hafi þannig lagt fram marklaust fjárlagafrumvarp með niðurstöðum út í bláinn, er samt fróðlegt að skoða einstaka liði þess og skýringar þeirra. Slíkt leiðir ýmislegt í ljós, sem stjórnvöld kæra sig ekki um, að haldið sé á lofti.

Lífeyrissjóður bænda hefur þá sérstöðu að vera algerlega á bakinu á skattgreiðendum. 30,6 milljón króna gjöf til sjóðsins er falin í liðnum “Stofnlánadeild landbúnaðarins” og 80 milljón króna gjöf til hans er sett á viðskiptaráðuneytið í liðnum “Niðurgreiðslur”.

Bætur fyrir niðurskurð á sjúku fé eru faldar í liðnum , ,Sauðfjárveikivarnir”, sem hefur rúmlega tvöfaldazt upp í 18,1 milljón króna. Niðurgreiðslur á lánsfé til landbúnaðar eru í frumvarpinu kallaðar “Lántökukostnaður” og eiga að nema 81,4 milljónum á næsta ári.

Ótal kostnaðarliðir, þar á meðal sumir fastir liðir á borð við milljónir í styrki til flokkspólitískra málgagna, eru utan við niðurstöðutölur fjárlagafrumvarpsins. Það er gert með því að hafa þá í sérstakri heimildargrein aftan við sjálft frumvarpið.

Á sumu þessu ber stjórnarandstaðan nokkra ábyrgð frá valdaskeiði fyrri ríkisstjórna. Það er sennilega skýringin á, að á Alþingi fæst engin vitræn umræða um raunverulegar tölur ríkisfjármála og engin markviss krafa um, að þær séu settar fram eftir alþjóðlegum og ófölsuðum staðli.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kveðjum Unesco.

Greinar

Þjóðum þriðja heimsins kæmi vel, að menntamálaráðherrar Norðurlanda, sem nú eru saman á fundi, tækju á sig rögg og legðu til, að þessi lönd færu úr Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, svo sem stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands hafa þegar ákveðið að gera.

Unesco er orðin fjárhagslega og hugsjónalega gerspillt stofnun. Þar ríkir forstjóri, M’Bow, sem hagar sér eins og auðkýfingur og brennir í höfuðstöðvunum í París 75 aurum af hverri krónu, sem kemur í kassann. Engin alþjóðastofnun nýtir fé sitt jafn illa.

Verra er þó, að M’Bow stjórnar í Unesco andlýðræðislegu bandalagi harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og járntjaldsríkjanna. Hagsmunir þessara harðstjóra stangast yfirleitt á við hagsmuni þjóða þriðja heimsins, sem harðstjórarnir kúga og arðræna.

Kúgurum þriðja heimsins er mjög illa við frásagnir fjölmiðla af framferði þeirra heima fyrir. Þeir nota fjölmiðla landa sinna sem áróðursstofnanir og leggja steina í götu vestrænna fjölmiðla, sem reyna að komast að sannleikanum um ástandið í löndum þriðja heimsins.

Harðstjórarnir hafa sett Unesco á oddinn í baráttunni gegn því, sem þeir kalla nýlendustefnu í fjölmiðlun. Þeir segja, að lýðræði og fjölbreytt fjölmiðlun eigi ekki erindi til fátækra þjóða, sem þurfi þjóðareiningu til að lyfta sér upp úr núverandi örbirgð.

Í rauninni vilja harðstjórarnir þögn. Þeir vilja ekki, að sagt sé frá ránskap þeirra, pyndingum og morðum. Þeir vilja ekki, að í ljós komi, að örbirgð þjóða þeirra stafar fyrst og fremst af ágirnd þeirra, mistökum, hroka og endalausri valdníðslu.

Á vegum Unesco er miklu fé varið til að hefta frjálsa fjölmiðlun í heiminum og breyta henni í áróðursstofnanir fyrir valdhafana. Einnig á öðrum sviðum starfar Unesco í umboði harðstjóranna, er reyna sem mest þeir mega að traðka á mannréttindum þjóða sinna.

Fyrir síðustu áramót gafst stjórn Bandaríkjanna upp á þátttöku í þessari sorastofnun. Brotthvarf þeirra kemur til framkvæmda nú um áramótin. Þá hefur stjórn Bretlands einnig ákveðið úrsögn, sem verður að ári liðnu.

Fulltrúar annarra lýðsræðisríkja hafa í vaxandi mæli haldið uppi gagnrýni innan Unesco á stjórn og stefnu stofnunarinnar. Til greina hefur komið, að Holland, Vestur-Þýzkaland og Danmörk fylgi fordæmi Bandaríkjanna og Bretlands og standi vörð um mannréttindi í heiminum.

Ísland hefur lítið lagt til þessara mála. Fulltrúar okkar hafa til skamms tíma kosið að setja kíkinn fyrir blinda augað eins og raunar svo margir aðrir. Meiri sómi væri að segja skilið við Unesco og hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að gera slíkt hið sama.

Fyrir tæpum áratug lenti ILO, alþjóða vinnumálastofnunin, í hliðstæðum vanda. Stjórn Bandaríkjanna hætti þá aðild að stofnuninni. Afleiðingin varð sú, að stjórnendur ILO tóku sér tak og hættu að vinna þvert gegn þeim hugsjónum, sem stofnunin byggðist á.

Að lokum gátu Bandaríkin aftur gerzt aðili að ILO. Hið sama getur gerzt í Unesco. Og því fleiri lýðræðisríki, sem nú hverfa á brott, þeim mun líklegra er, að stjórnendur Unesco sjái sína sæng upp reidda. Menntamálaráðherrar Norðurlanda eiga að átta sig á þessu.

Jónas Kristjánsson.

DV