Greinar

Fjórar stöðvar góðar.

Greinar

Sovézkum herflugvélum hefur í vaxandi mæli tekizt að fljúga undir ratsjárgeisla frá Keflavíkurvelli og Stokksnesi. Þetta hlýtur að vera töluvert áhyggjuefni, í fyrsta lagi vegna öryggis landsins. Það þýðir lítið að hafa hér viðbúnað, ef hægt er að læðast upp að landinu.

Flug sovézkra herflugvéla við Ísland hefur tvöfaldazt á síðustu sjö árum. Þetta flug er angi af ofbeldishneigð sovézka þjóðskipulagsins, sem í Afganistan kemur fram í beinni innrás, en hér meðal annars í hótun Þjóðviljans í fyrradag um sovézkan eiturhernað.

Í öðru lagi er leyniflug sovézkra herflugvéla hættulegt almennu farþegaflugi við landið. Þessar flugvélar senda engar flugáætlanir og afla sér engra flugheimilda hjá íslenzku flugstjórninni. Þær fljúga iðulega inn á leiðir farþegaflugvéla án viðvörunar.

Erlendis eru mörg dæmi um alvarleg flugslys, sem hlotizt hafa af slíku glæfraflugi herflugvéla. Bæði hér og annars staðar stríðir slíkt flug gegn alþjóðlegum samningum og hefðum. En reynslan sýnir, að mannslíf í farþegavélum skipta ofbeldiskerfið engu máli.

Bæði vegna öryggis landsins og vegna öryggis farþegaflugsins er mikilvægt, að því ratsjárgati verði lokað, sem myndaðist eftir lokun stöðvanna í Aðalvík og á Heiðarfjalli. Og nú eru einmitt uppi ráðagerðir um, að það verði gert í Stigahlíð og á Langanesi.

Awacs ratsjárflugvélarnar duga ekki einar sér. Ekki hefur verið hægt að tryggja, að ein þeirra sé jafnan á lofti. Þar að auki hafa þær verið sendar í burtu, þegar hætta hefur myndazt í öðrum heimshluta, svo sem gerðist í Persaflóa, er hófst styrjöld Írana og Íraka.

Samkvæmt ráðagerðunum á að setja upp fjórar nýtízku ratsjárstöðvar í stað hinna tveggja, sem fyrir eru. Í stað 110 manna flokks á Stokksnesi frá varnarliðinu mundu koma fjórir tíu manna eftirlitshópar Íslendinga á fjórum stöðum á landinu. Íslenzkir tæknimenn tækju við rekstrinum.

Gögn núverandi ratsjárstöðva fara ekki aðeins til varnarliðsins heldur einnig til íslenzku flugstjórnarinnar, sem byggir rekstur sinn á þeim. Endurbættar og nýjar ratsjárstöðvar mundu gera íslenzku flugstjórninni kleift að veita eins góða þjónustu og bezt gerist.

Þar með yrði líklega væntanlega tryggt, að Ísland héldi hinum arðbæra samningi við Alþjóða flugmálastjórnina um að annast flugstjórn á öllu svæðinu yfir Grænlandi og Íslandi. Dregið yrði úr líkum á, að þessi verðmæta þjónusta færðist upp í gervihnetti á næstu áratugum.

Nauðsynlegt er, að á hinum fjórum stöðum verði einnig komið upp sérstökum ratsjám til að fylgjast með umferð skipa og að þær hafi búnað til að fylgjast með úrkomu og hafís. Slíkar ratsjár mundu auka verulega öryggi íslenzkra sjómanna á fiskiskipum og kaupskipum.

Búizt er við, að fljótlega berist ósk bandarískra stjórnvalda um þessa eflingu ratsjárkerfisins við Ísland. Sú ósk byggist á, að framkvæmdirnar eru í þágu varna Atlantshafsbandalagsins sem heildar og Bandaríkjanna sérstaklega. Þess vegna vilja þessir aðilar borga.

Um leið eiga þessar stöðvar að tryggja okkur, að vitað verði um allt flug við landið og að sæmilegt öryggi komizt á í farþegaflugi og siglingum. Ennfremur mundu þær efla tækniþekkingu Íslendinga. Við eigum því að fallast á, að ratsjárstöðvarnar verði bæði fjórar og góðar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lærir Þorsteinn af Hermanni?

Greinar

Skortur formanns Sjálfstæðisflokksins á ráðherradómi er greinilega orðinn að varanlegu innanflokksböli. Síðast í fyrradag voru á miðstjórnarfundi flokksins ítrekaðar kröfur um, að hann tæki sæti í ríkisstjórn.

Nýjasti þáttur þessarar viðleitni er tilraun Morgunblaðsins til að stilla fjármálaráðherranum, Albert Guðmundssyni, upp við vegg og saka hann um fjárlagagatið til að veikja stöðu hans og auðvelda ráðherraskipti. Þurfti þó tíu ráðherra til að búa til svo stórt gat.

Helzti bandamaður Þorsteins í því, sem á ýmsum stöðum hefur verið kallaður “lífróður” hans til ráðherrastóls, er Steingrímur Hermannsson. Hann hefur margoft og árangurslaust lýst því yfir, að hann telji “mjög mikilvægt”, að Þorsteinn taki sæti í ríkisstjórninni.

Samstarf þeirra Steingríms og Þorsteins var um tíma mjög náið síðari hluta sumars og fram á haust. Þá sömdu þeir verkefnaskrá fyrir ríkisstjórnina og Þorsteinn kom opinberlega fram sem yfirráðherra Sjálfstæðisflokksins, ráðherra án ráðuneytis og blaðafulltrúi stjórnarinnar.

Til skamms tíma talaði Þorsteinn Pálsson eins og þungavigtarmaður í öllum mikilvægum umræðum á Alþingi um efnahagsmál. Og í byrjun nóvember sagði formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Ólafur G. Einarsson, að einungis um það bil vika væri til stefnu fyrir uppstokkun.

Þetta hefur gerbreytzt á skömmum tíma. Vikan er liðin og margar aðrar. Þorsteinn tók ekki til máls í umræðu Alþingis um gengislækkunina. Og í fyrradag sagði hann í blaðaviðtali um fjárlagadæmið, að bann hefði “ekki hugmynd um, hvernig þessi mál stæðu”.

Hann bætti um betur og sagði: “Fjármálaráðherra fer með fjármál ríkisins. Þau eru ekki mitt mál.” Daginn eftir, það er að segja í gær, kom í ljós, að þessi leiðinda fjármál eru ekki bara honum óviðkomandi, heldur einnig öllu liði eyðsluráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á því rúma ári, sem Þorsteinn Pálsson hefur verið flokksformaður. Í upphafi töluðu hann og aðrir um hugsanlegan ráðherradóm hans eins og það væri einkaákvörðun, er hann sem formaður tæki yfir kaffibollanum einhvern morguninn.

Nú eru menn hins vegar farnir að skilja, að þingflokkurinn er allt annar Sjálfstæðisflokkur en landsfundurinn er. Ennfremur, að Sjálfstæðisflokkurinn sem landsfundur hefur ekkert yfir Sjálfstæðisflokknum sem þingflokki að segja. Nema þingflokkurinn vilji.

Þingflokkurinn var búinn að velja sína sex ráðherra áður en Þorsteinn varð formaður. Þessir ráðherrar sækja ekki stöðu sína til landsfundar, heldur beint til þingflokksins og óbeint til stöðu sinnar sem smákónga heima í héraði. Þeir ráða, en ekki Þorsteinn.

Sem ráðherra er hver þeirra fyrir sig valdameiri en formaður flokksins. Þeir hafa hver fyrir sig reynzt ófúsir að víkja fyrir Þorsteini og munu komast upp með það. Þess vegna er það meira af vanmætti en öðru, að Þorsteinn og Morgunblaðið eru að abbast upp á Albert fyrir fjárlagagatið.

Þegar Hermann Jónasson flokksformaður var utan stjórnar Framsóknar og Sjálfstæðis 1953-1956, skipti hann sér ekki af stjórninni og gerðist aldrei blaðafulltrúi hennar. Þegar hún svo hrökklaðist frá 1956, var hann hins vegar tilbúinn með “hræðslubandalag” og nýtt stjórnarmynztur. Kannski Þorsteinn geti lært af Hermanni?

Jónas Kristjánsson.

DV

Gagnleg hliðarbúgrein.

Greinar

Þótt gengið hafi á ýmsu í samskiptum íslenzkra stjórnvalda og Alusuisse um álverið í Straumsvík, er form samstarfsins þar þó hið vænlegasta í stóriðjumálum hér á landi. Það felst í, að Íslendingar eiga orkuverin og hinir erlendu aðilar eiga sjálfa stóriðjuna.

Í slíku samstarfi er bezt, að íslenzka ríkið viti, hvorum megin það situr við borðið. Í Straumsvík er vitað, að ríkið vill fá sem hæst verð fyrir orkuna og að Ísal vill sleppa með sem lægst verð. Í þessari andstöðu felast hreinar línur, sem vantar annars staðar.

Þótt Áburðarverksmiðjan sé engin stóriðja, hefur hún ætíð fengið orku á undirverði, því að ríkið er eigandinn. Og fróðlegt verður að sjá, hvernig gengur að fá Grundartangaverið til að taka á sig hliðstæða hækkun og Straumsvíkurverið hefur lagt á sínar herðar.

Hvort sem fyrirhuguð kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði verður að meirihluta eða minnihluta í eigu ríkisins, þá er ljóst’ að sú eignaraðild mun leiða til mikillar tregðu á að láta þá verksmiðju greiða sanngjarnt verð fyrir orkuna. Eignaraðild dregur úr kröfuhörku í samningum um orkusölu.

Vatnsafl landsins rennur að mestu arðlaust til sjávar. Við vitum. að víða má virkja, þótt staðir á borð við Gullfoss séu látnir í friði. Ráðagerðir stjórnvalda og virkjunarmanna um orkusölu til stóriðju fram til aldamóta eru hóflegar og skynsamlegar.

Við getum hæglega tekið lán til virkjana, ef tryggt er, að orkuverin njóti öruggra viðskipta og á orkuverði, sem greiðir niður þessar virkjanir. Þetta er auðlind, sem sjálfsagt er að hagnýta eins og fiskimiðin. Að hafna stóriðju yfirleitt er óhugnanlegt afturhald.

Sem betur fer situr helmingurinn af erlendum skuldum þjóðarinnar í orkuverum, sem hafa trygg viðskipti, bæði við almenning og fyrirtæki í landinu. Orkuverin munu greiða niður þessar skuldir. Eftir síðasta samninginn við Alusuisse munu þau raunar gera það hraðar.

Eina stjórnmálaaflið, sem virðist andvígt stóriðju hér á landi, er Kvennalistinn. Sú stefna virðist meira byggð á tilfinningum en raunsæi. Eða þá, að ruglað sé saman orkufrekum iðnaði og færibandaiðnaðinum, sem er að flytjast frá iðnríkjunum til þróunarlandanna.

Orkufrekur iðnaður er fámennur, greiðir há laun og hefur yfirleitt gott samstarf við stéttarfélög, nákvæmlega eins og hér í Straumsvík. Allt er þetta gerólíkt útlendum færibandaiðnaði. Og mengun frá orkufrekum iðnaði má örugglega halda í skefjum. Er ekki ræktaður lax við Straumsvík?

Við eigum að hafna afturhaldi Kvennalistans, fráhvarfinu frá orkufrekum iðnaði. En við eigum líka að hafna eyðslustefnu Alþýðubandalagsins, kröfunni um íslenzka eignaraðild eða meirihlutaeign í þessum iðnaði. Við höfum nóg annað að gera við takmarkað fjármagn.

Við getum leyft okkur að slá fyrir orkuverum, sem hafa trygg viðskipti við stóriðju. En við eigum ekki sjálf að taka áhættu af sveiflum stóriðjunnar eða fara inn á markað, sem við ráðum alls ekki við. Á því sviði borgar sig að hafa allt á þurru og selja bara orku.

Við eigum að leggja fé okkar í viðráðanlegan iðnað. Við eigum að nýta hverja krónu vel í atvinnutækifærum. Við eigum að sinna iðnaði, sem er í tengslum við iðnþróun okkar, þekkingu og aðrar aðstæður. En við skulum líta á orkusölu til stóriðju sem gagnlega hliðarbúgrein.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ræktum fisk og tölvur.

Greinar

Efnahags- og atvinnuframtíð Íslendinga felst ekki í essunum fjölmörgu. Hún felst ekki í sykuriðju, steinullariðju, saltiðju, stáliðju og jafnvel ekki í stóriðju, nema að mjög takmörkuðu leyti. Hún felst yfirleitt ekki í neinu, þar sem ríkinu er ætlað að borga verulegan kostnað.

Orkufrekur iðnaður er nytsamlegur, ef ríkið lætur sér nægja að reisa orkuver út á trygg viðskipti, sem afskrifi orkuverin á hæfilegum tíma. Hins vegar er innlent fé svo lítið og erlendar skuldir svo miklar, að ekki er verjandi að leggja peninga í orkufrekan iðnað.

Þá peninga, sem þjóðin á, og þá, sem hún treystir sér til að taka að láni, á að nota í iðnað, sem ekki krefst mikillar fjárfestingar að baki hvers atvinnutækifæris. Við höfum skínandi dæmi um þá möguleika. Fiskeldi er komið á strik og tölvutækni fylgir fast á eftir, hvort tveggja af eigin rammleik.

Gæluverksmiðjurnar, sem verið er að byggja eða stendur til að byggja að verulegu leyti á kostnað ríkisins og skattborgaranna, þurfa mikla fjárfestingu á hvern starfsmann. Þetta er alvarlegt í járnblendinu á Grundartanga og verður enn verra í kísiliðjunni á Reyðarfirði.

Við sóum meira en nógu af takmörkuðu fé þjóðarinnar og af dýru lánsfé í hefðbundnar og úreltar atvinnugreinar á borð við sauðfé og kýr, þótt við bætum ekki á okkur byrðum á borð við hin nýju gæludýr ríkisins í steinull og salti, járnblendi og kísli, sykri og stáli.

Um þessar mundir er töluvert dreymt um glæsta framtíð í líftækni. Margir telja , að við getum þar farið sömu leið og í tölvutækninni, til dæmis notað sérstöðu okkar í sjávarútvegi til að þróa tækni á afmörkuðum sviðum, sem milljónafyrirtæki stórþjóðanna sinna ekki.

Til viðbótar dreymir menn um, að jarðhitinn færi okkur ekki aðeins orku til notkunar í líftækni, heldur einnig sérstæðar tegundir af örverum, sem þrífast í miklum hita og brennisteinssýru íslenzkra hvera. Allt er þetta mjög spennandi, en á auðvitað langt í land.

Verkefni okkar í líftækni ættu helzt að vera á sviði háskólakennslu og rannsókna til undirbúnings hugsanlegum efnahagsávinningi í framtíðinni. Um leið megum við ekki gleyma, að enn nærtækara er að efla háskólakennslu og rannsóknir í fiskeldi og tölvutækni.

Ekki dugir, að fiskeldi sé aðeins kennt við bændaskóla. Á háskólastigi þurfum við að efla líffræði og fiskifræði, sem gagnast í fiskeldi. Íslendingar eru með ráðagerðir um fiskeldi í öðrum hverjum firði, en skortir fólk með trausta þekkingu á þessu sviði.

Ekki er síður nauðsynlegt, að ríkið hætti að sóa dýrmætu fé í úreltar greinar og gæluverkefni og beini fjármagninu í staðinn að grein eins og fiskeldi, sem þegar hefur sannað gildi sitt, – sem vaxið hefur upp úr grasrótinni án umtalsverðrar opinberrar aðstoðar.

Tölvutæknin er ekki eins langt komin, en hefur þó sannað tilverurétt sinn í ýmsum smáfyrirtækjum, ekki bara í Reykjavík, heldur líka úti á landi. Meðan fiskeldið þarf bara venjulegt lánsfé, þarf tölvutæknin áhættufé, því að margar ráðagerðirnar munu mistakast.

Ríkið á ekki að sá peningum í grýtta jörð. Það á að hlúa að grasrótinni á þeim stöðum, þar sem grös hafa reynzt spretta af sjálfsdáðum. Það á vitanlega að halda opnum möguleikum á líftækni. En fyrst og fremst ber að magna kennslu, vísindi og fjármagn og aftur fjármagn í fiskirækt og tölvutækni. Þar er efnahags- og atvinnuframtíð okkar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Játning í fjórða fylgiskjali.

Greinar

Fjárlagafrumvarpið, sem nú er til umræðu á Alþingi, er að einu leyti merkilegra en fyrri slík frumvörp. Ekki er það vegna neins. sem stendur í hinu eiginlega frumvarpi, heldur vegna fylgiskjals, Athugasemda númer fjögur, sem er í föruneyti frumvarpsins í fyrsta sinn.

“Ríkisfjármál samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins” er fyrirsögn þessa fylgiskjals. Í textanum er gerð tilraun til að raða fjárlagafrumvarpinu saman að alþjóðlegum hætti. Ennfremur eru þar settir inn liðir, sem hingað til hefur verið haldið leyndum.

Markmið þessarar uppsetningar á alþjóðlega vísu er auðvitað að gera kleift að bera saman fjárlög íslenzka ríkisins og fjárlög annarra ríkja. Slíkur samanburður er jafnan einkar gagnlegur, en er marklaus, nema borin séu saman atriði, sem raunverulega eru sambærileg.

Vonandi er fylgiskjal þetta vísir að nýrri framsetningu fjárlagafrumvarpa í náinni framtíð. Eins og er hljóta fjárlög að teljast marklítil gögn, einkum vegna þess að þau loka ekki fjárhagsáætlun ríkisins, heldur skilja eftir gat til ráðstöfunar í svokallaðri lánsfjáráætlun.

Ef miðað er við upprunalega útgáfu þessa fjárlagafrumvarps eru tekjur ríkisins vanmetnar um 2.296 milljónir króna og gjöldin um 5.002 milljónir. Þetta þýðir, samkvæmt skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, að lántökur eru vanmetnar um 3.017 milljónir og hallinn um 2.706 milljónir.

Í ljósi þessara upplýsinga er óneitanlega dálítið fyndið, að miklum tíma skuli varið á Alþingi og rúmi í málgögnum stjórnmálaflokkanna um, hvort fjárlög eigi að vera greiðsluhallalaus eða hvort koma eigi hallanum úr tæpum 1.000 milljónum í einhverja lægri tölu.

Í leiðurum þessa blaðs hefur margoft verið bent á, að ekki sé heilbrigt að skilja eftir þann hluta fjárlaga, sem kalla mætti C-hluta, og afgreiða hann eftir áramót í svokallaðri lánsfjáráætlun. Með núverandi hætti eru niðurstöðutölur fjárlaga marklausar og ekki umræðuhæfar.

Ýmsar fleiri gagnlegar upplýsingar koma fram í þessu fjórða fylgiskjali. Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu eru niðurgreiðslur landbúnaðarfurða færðar af reikningi viðskiptaráðuneytisins yfir á reikning landbúnaðarráðuneytisins, þar sem þær eiga heima.

Af töflu númer þrjú í fylgiskjalinu má sjá, að í ár tekur landbúnaðurinn til sín 7,4% af öllum útgjöldum ríkisins, meðan fiskveiðarnar taka ekki nema 0,2% og iðnaðurinn 0,8%. Slíkar tölur hafa oft verið nefndar hér í blaðinu, en aldrei áður í gögnum hins opinbera.

Þessar tölur og aðrar verður nú hægt að bera saman við tölur í fjárlögum annarra ríkja. Fróðlegt verður að vita, hvort önnur ríki verja meira eða minna en 21%, ríkisútgjalda til sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva, 12% til fræðslumála og 10% til greiðslu vaxta, svo sem virðist gert hér.

Fjármálaráðuneytið hefur gert vel í að koma á framfæri skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þótt ekki sé nema í formi fylgiskjals. Við fáum af skjalinu innsýn í, að fjárlagagatið er allt annað en það, sem nú er rifizt um, og að kostnaður málaflokka er allur annar.

Í rekstri jafn umfangsmikils fyrirtækis, sem ríkið er, hlýtur að teljast nauðsynlegt, að fjárlagafrumvörp og fjárlög séu lokuð og sambærileg dæmi, þar sem atriðin heita sínu rétta nafni. Meðan svo er ekki vita menn óhjákvæmilega lítið, um hvað þeir eru að tala.

Jónas Kristjánsson.

DV

“Þeir, sem gjaldeyris afla”.

Greinar

“Geti ríkisvaldið ekki tryggt sjávarútveginum viðunandi rekstrargrundvöll, leggur aðalfundur Landssambands íslenzkra útvegsmanna til, að gjaldeyrisverzlun verði gefin frjáls, þannig að þeir, sem gjaldeyris afla, geti notið fulls arðs af sinni starfsemi.”

Þessi samþykkt nýafstaðins aðalfundar sýnir, að útgerðarmenn eru farnir að átta sig á, að umtalsverður hluti erfiðleika þeirra felst í óhóflegum auðlindaskatti, sem stjórnvöld leggja á sjávarútveginn í heild í formi of hárrar skráningar á gengi krónunnar.

Hugmyndinni um frjálsa gjaldeyrisverzlun hefur nokkrum sinnum verið haldið fram á síðustu árum, þar á meðal hér í leiðurum blaðsins. Hún stefnir að því, að þeir, sem afla gjaldeyris, fái fullan ráðstöfunarrétt yfir þeim gjaldeyri og geti selt hann á opnum markaði.

Í mismunandi mikilli, en oftast mikilli verðbólgu undanfarinna áratuga hefur gengi krónunnar jafnan verið fellt seint og illa. Þannig hefur þjóðfélagið sent verðbólgureikninginn til hinnar einu sönnu stóriðju landsins, hins afkastamikla sjávarútvegs.

Gjaldeyri og framleiðni sjávarútvegsins hefur þannig verið dreift út í þjóðfélagið til að skapa velmegun í landi. Lengi vel þoldi sjávarútvegurinn sæmilega þennan auðlindaskatt. Nú er hins vegar svo komið, að mjólkurkýrin hefur verið blóðmjólkuð og þolir ekki meir.

Svo illa er útgerðin stödd, að sumir útgerðarmenn og jafnvel forustumenn í þeim hópi halda fram, að gengislækkanir komi útgerðinni ekki að gagni. Þær hækki bara erlendar skuldir skipanna, svo og olíu og fleiri rekstrarvörur. Þetta éti upp hækkað fiskverð.

Með þessari skoðun er því haldið fram, að erlendur kostnaður flotans sé meiri en aflahlutur skipanna. En þar með er líka verið að segja, að útgerðin sé tómt rugl í sjálfu sér. Ef gengislækkun kemur útgerð ekki að gagni, þá er þar um óarðbæra útgerð að ræða.

Vitað er, að sum útgerð er tómt rugl, einkum nýrra togara, sem smíðaðir hafa verið innanlands á síðustu árum. Þau skip voru fjármögnuð af stjórnvöldum og keypt af útgerðarmönnum, þótt stöðugt væri bent á, að þessi skip væru óarðbær og mundu gera flotann of stóran.

Nú vita flestir í hjarta sínu, að ríkisvaldið getur “ekki tryggt sjávarútveginum viðunandi rekstrargrundvöll”, svo sem beðið var um í ályktun útgerðarmanna. Ríkisvaldið er alltaf að berjast við verðbólgutölur og hefur því ímugust á miklum lækkunum á gengi krónunnar.

Ríkið hefur tilhneigingu til stjórnsemi, sem alltaf leiðir til ofstjórnar. Á þessu ári hefur það reyrt allan sjávarútveginn í viðjar kvótakerfis, sem gengur svo langt, að það bindur upp á tonn aflasamsetningu hvers einasta fiskiskips í landinu.

Þáttur í stjórnsemi ríkisvaldsins er að vilja sjálft ákveða gengi krónunnar og þá alltaf með tilliti til hagsmuna þess sjálfs í slagnum við verðbólguna, en ekki með tilliti til aukinnar arðsemi í atvinnulífinu. Þessi ofstjórn er að drepa stóriðju landsins, sjávarútveginn.

Ef verðlag og vextir geta ákveðið sig sjálf á markaðstorgi lífsins, er sennilegt, að gengi krónunnar geti það líka. Búast má við, að þeir, sem gjaldeyri geta selt, og hinir, sem gjaldeyri vilja kaupa, geti samanlagt komizt að raun um, hvert sé sanngjarnt gengi krónunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Saltver í salt.

Greinar

Saltverksmiðjan á Reykjanesi virðist vera ein af draumaverksmiðjunum, sem hafa tilhneigingu til að rísa hér á landi í sameinuðu átaki stjórnmálamanna, sem eru fullir af óskhyggju, og sérfræðinga, sem hafa miklar aukatekjur af skýrslugerð á þessu sviði.

Orkuverið við Kröflu var hannað og reist í miklum flýti, án þess að gagnrýnin endurskoðun kæmi til mótvægis við takmarkalitla bjartsýni og stórhug þeirra stjórnmálamanna og sérfræðinga, sem komu orkuverinu á laggirnar. Enda er Krafla meiriháttar vandamál í þjóðfélaginu.

Steinullarverið á Sauðárkróki er önnur verksmiðja, sem er í smíðum og á eftir að verða skattgreiðendum og húsbyggjendum dýrt spaug. Hins vegar hefur saltverið á Reykjanesi, Sjóefnavinnslan hf., nú fengið þá gagnrýnu endurskoðun, sem líklega dugir til að stöðva framkvæmdir.

Iðntæknistofnun Íslands hefur gefið út mikla skýrslu um saltverið. Þar segir, að einfaldast sé “að leggja á hilluna öll áform um uppbyggingu efnavinnslu Sjóefnavinnslunnar um fyrirsjáanlega framtíð”. Í staðinn eigi að reyna að selja orkuna, til dæmis til fiskeldis.

Iðntæknistofnunin bendir á, að fyrirhugaðar afurðir verksmiðjunnar séu flestar mjög ódýrar á almennum markaði. Ennfremur geri aðstandendur versins ekki ráð fyrir, að samkeppnisaðilar bregðist á nokkurn hátt við með því að útvega betra eða ódýrara salt en nú.

Þá segir, að “torskilið” sé, hvers vegna ríkið hafi ákveðið að fjármagna 8000 tonna tilraunaverksmiðju að miklu leyti með erlendu lánsfé. Menn verði að gera ráð fyrir, að tilraunir geti leitt til neikvæðrar niðurstöðu. Annars þyrfti ekki að vera með neinar tilraunir.

Iðntæknistofnunin segist ekki sjá, að stjórn Sjóefnavinnslunnar hafi notað markaðskannanir til að meta hugsanlega markaðshlutdeild fyrirtækisins. Og “ráðgjafar fyrirtækisins telja furðu oft, að vandalaust sé að ryðja öðrum seljendum út af markaði”.

Áfram segir í skýrslunni: “Þá er heldur ekki gert ráð fyrir, að verðjöfnunarkerfi það, er nú gildir að nokkru leyti á fisksalti, breytist. Telja verður, að þetta viðhorf lýsi þekkingarleysi um eiginleika markaða almennt.” Þetta hlýtur að teljast nokkuð hörð gagnrýni.

Iðntæknistofnunin telur næsta ólíklegt, að saltverið nái nokkru sinni áætlaðri markaðshlutdeild og segir: “Ráðgjafar Sjóefnavinnslunnar reikna með því, að vandalaust sé að selja framleiðsluna. Vandinn virðist að þeirra mati fyrst og fremst vera að framleiða salt.”

Bent er á, að kostnaður við aðkeypta ráðgjöf, hönnun, eftirlit og rannsóknir nemi yfir 20% af stofnkostnaði tilraunaverksmiðjunnar. Þrátt fyrir alla þessa ráðgjafa virðist aldrei hafa verið til umræðu “sú staðreynd, að 40 þúsund tonna verksmiðja sé hæpin fjárhagslega”.

Loks segir, að saltverið hafi “aðeins um þriggja mánaða skeið haft tæknimann í starfi og aldrei kunnáttumenn á sviði markaðsfærslu”. Og erfitt sé að skilja, hvers vegna ekki sé í stjórninni “nokkur kunnáttumaður um efnaframleiðslu og sölu eða á sviði tilraunarekstrar”.

Þessari gagnrýnu skýrslu Iðntæknistofnunar Íslands fylgir hressandi gustur. Vonandi verða aðrar, fyrirhugaðar gæluverksmiðjur ríkisins látnar sæta hliðstæðri, gagnrýninni endurskoðun, áður en þær leggjast með fullum þunga á hrjáða skattgreiðendur landsins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sigur með semingi.

Greinar

Eina umtalsverða afrek kvótakerfisins er að ná staðfestingu á Fiskiþingi eftir tæplega eins árs reynslu. Þar vann það skrapdagakerfið í atkvæðagreiðslu með tölunum 17 á móti 12. Síðan mælti Fiskiþing með notkun þess á næsta ári með 14 atkvæðum gegn engu, en fleiri sátu hjá.

Þessi naumi sigur er ekki lítið afrek. Þegar kvótakerfið var tekið í notkun í upphafi þessa árs, bárust um 250 kærur og athugasemdir frá aðilum, sem töldu sig hlunnfarna. Samt hefur hinni svokölluðu kvótanefnd tekizt að halda svo á málum, að líf kerfisins hefur verið framlengt.

Það hlýtur að vera erfitt að skipta fyrirfram ráðgerðum afla á þorski, ýsu, ufsa, karfa og grálúðu nákvæmlega niður á hvert einasta fiskiskip landsins. Það er engin furða, þótt margir séu óánægðir. Enn meiri furða er, að þetta skuli hafa tekizt tiltölulega friðsamlega.

Þar með eru afrekin líka að mestu leyti upptalin. Með aflakvótakerfinu hefur ekki tekizt að ná meginmarkmiðinu. Þorskaflinn verður um 250 þúsund tonn á þessu ári, en ekki 200 eða 220 þúsund tonn eins og ráðgert hafði verið. Kvótakerfið hefur ekki verndað þorskstofninn.

Þetta er auðvitað afleiðing af því, að linað var á þrýstingi klögumála með því að stækka kvóta hér og þar. Nú hafa fiskifræðingar enn mælt með 200 þúsund tonna afla á næsta ári. Vafasamt verður að teljast, að kerfið megni að koma aflanum niður fyrir 250 þúsund tonn.

Á þessu ári hefur einnig verið staðfest, að aflakvótakerfið hefur ýmsa galla, sem spáð hafði verið fyrirfram. Til dæmis hefur smáfiski mikið verið hent fyrir borð, svo að skipin fengju sem hæst verð fyrir aflann og gengju sem minnst á hinn úthlutaða kvóta.

Ekki er síður alvarlegt, að kvótakerfið hefur gert sjávarútvegsráðherra að eins konar einræðisherra, sem úthlutar tonni hér og tonni þar. Margir kvarta sáran um, að kaupfélög og framsóknarfyrirtæki hafi betri aðgang að skömmtunarvaldinu en hinir, sem ekki hafi tekið trúna.

Verst er þó, að flestir aðilar málsins virðast vera sammála um að reyna að koma sem mest í veg fyrir, að kvótar gangi kaupum og sölum. Þetta er kallað brask. Jafnframt er kvartað um, að peningar séu í spilinu í slíkum viðskiptum! Það er eins og sumir lifi á steinöld.

Kvótakerfið væri miklu þjálla, ef greitt væri fyrir því, að kvótar væru keyptir af lakari skipum til hinna betri. Þá væri hægt að leggja hinum lakari um leið og hin betri fengju hagstæðari rekstur út á hærra aflamagn á nokkurn veginn sama úthald. Ekki ætti þeim að veita af.

Menn eru hættir að deila um, hvort fiskiskipastóllinn sé of stór. Viðurkennt er, að rekstur fiskveiða yrði mun betri, ef skipin væru mun færri. Rétt er að muna eftir þessu einmitt núna, þegar ráðgert er að hækka fiskverð verulega, ekki bara um áramót, heldur fyrr.

Vandræði sjávarútvegsins stafa að töluverðu leyti af því, að með aðgerðum stjórnvalda hefur verið búinn til allt of stór floti. Kvótakerfið hefur ekki haft hin minnstu áhrif til fækkunar skipa í flotanum. Þvert á móti hefur það fryst stærð flotans í núverandi stöðu.

Fiskiþing hefur með semingi gefið líf þessu vafasama skipulagi. Þar með er það traust í sessi. Samt mun það ekki koma sjávarútveginum eða þjóðinni að gagni, nema hvatt verði til líflegrar verzlunar með kvóta, svo að menn fái borgað fyrir að leggja lélegustu skipunum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Seinþreyttir neytendur

Greinar

Íslenzkir neytendur eru bljúgari en neytendur í nágrannalöndum beggja vegna Atlantshafsins. Þeir láta sig hafa það, sem að þeim er rétt. Þeir mögla stundum í hljóði. En það er af og frá, að þeir grípi til aðgerða.

Gott dæmi um þetta er hið misheppnaða verkfall Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, þegar mótmæla átti háu bensínverði og fara í strætisvagni einn dag. Félagið hefur raunar ekki borið sitt barr eftir þá útreið.

Ekki er við að búast, að Neytendasamtökin rísi upp til mótaðgerða, þegar hagsmunir neytenda eru í húfi. Reynsla bifreiðaeigenda og fleiri dæmi sýna, að íslenzkir neytendur eru sérdeilis seinþreyttir til vandræða.

Enda er ekki kallað í Neytendasamtökin, þegar borgaryfirvöld hugleiða breytingu á reglugerð um opnunartíma verzlana. Til eru kvödd Kaupmannasamtökin og Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, helztu andstæðingar reykvískra neytenda.

Þessi samtök hafa hingað til beitt áhrifum sínum í borgarstjórn til að halda þröngum afgreiðslutíma í verzlunum. Og það eru ekki Neytendasamtökin, heldur tveir kaupmenn ódýrrar vöru og góðrar þjónustu, sem eru að sprengja kerfið.

Ekki fór heldur mikið fyrir Neytendasamtökunum, þegar upp komst um víðtæka sölu Afurðadeildar Sambandsins á skemmdu dilkakjöti frá því í fyrra. Þau mótmæltu lítillega, en lögðu síðan niður rófuna eins og ævinlega.

Afurðadeildin hafði geymt kjötið án þess að fylgjast með hitastigi í frystigeymslunni og ætlaði síðan að losna við það á kjötútsölunni. “Ríkið ber ábyrgðina, ekki Afurðasalan,” sagði svo talsmaður landbúnaðarins, þegar upp komst.

Annað afrek unnu þessir höfðingjar, þegar gamla kjötið hætti að seljast. Í fyrsta skipti í veraldarsögunni var afurð hækkuð í verði við að reynast vera skemmd! Og senn hækkar hún enn og þá upp í verð á nýju kjöti.

Ef bein væri í nefi neytenda og Neytendasamtakanna, mundi nú vera skipulagt verkfall í kaupum á unnum kjötvörum. Það er nefnilega í kjötfarsið, sem hinu skemmda kjöti á að lauma í næstu tilraun Afurðasölunnar.

En væri þetta bein í nefinu, væri þegar búið að skipuleggja slíkt verkfall, því að rannsókn hefur leitt í ljós, að helmingur unninna kjötvara er ekki neyzluhæfur vegna gerlamergðar. En neytendur yppta bara öxlum.

Í þrjú til fjögur ár hafa ráðamenn landbúnaðarins verið að skipuleggja hliðstæða einokun í eggjasölu og þeir hafa á kjöt- og mjólkurvörum. Þeir hafa nú stigið fyrsta skrefið til aðgerða með 5,3 milljónum úr kjarnfóðursjóði.

Þessari mútu til smáframleiðenda er beint gegn stóru eggjabúunum, sem hafa haldið niðri verði á eggjum. Smám saman verður komið á opinberri verðlagningu, sem auðvitað verður töluvert hærri en nú tíðkast á frjálsum markaði.

Neytendasamtökin hafa ekki tjáð sig mikið um þetta mál, enda stirðna þau yfirleitt í hvert sinn, sem hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi. Þau sögðu ekki heldur margt, þegar forhituð neyzlumjólk reyndist full af rotnunargerlum og fúkkalyfjum.

Neytendasamtökunum er vorkunn í þessum málum og öllum öðrum, sem hér er ekki rúm til að rekja. Þau vita, sem er, að neytendurnir að baki samtakanna eru ekki reiðubúnir að snúa bökum saman, þegar landbúnaðurinn og aðrir sparka í þá.

Jónas Kristjánsson

DV

Hjól lýðræðisins snúast

Greinar

Blöðin eru aftur komin út eftir langt hlé, full af margvíslegum upplýsingum og sjónarmiðum. Margir munu vera fegnir komu þeirra, því að Íslendingar eru þjóða duglegastir blaðalesendur. Sennilega eru dagblöð hvergi í heiminum eins mikilvægur þáttur í lífi fólks og einmitt hér.

Þegar saman fer blaða- og útvarpsleysi, er eins og myrkur færist yfir þjóðfélagið. Menn reyndu að lýsa inn í þetta myrkur með litlum, fjölrituðum fréttablöðum og útvarpsstöðvum, sem spruttu upp víða um landið, en voru síðan stöðvaðar að undirlagi stjórnvalda.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Jón Helgason dómsmálaráðherra settu í gang Þórð Björnsson ríkissaksóknara og Hallvarð Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóra. Þessir fjórir framsóknarmenn létu leggja hald á senditækin “í þágu rannsóknarinnar”.

Í þessu fólst ekki upptaka á tækjunum, enda hefur enginn úrskurður verið kveðinn upp um, hvort stöðvar þessar væru “ólöglegar”. Það er aðeins fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem kveðið hefur upp slíkan úrskurð án dóms og laga, þvert ofan í eðlilegar starfsreglur.

Hinn tímabundni útvarpsrekstur einstaklinga varð strax mjög vinsæll. Skoðanakönnun, sem birt verður hér í blaðinu á morgun, leiddi í ljós, að þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar voru ánægðir með stöðvarnar og að tveir þriðju hlutar hennar töldu, að ekki hefði átt að loka þeim.

Rekstur þessara útvarpsstöðva varð einnig til þess, að opnað var fyrir tvo helztu fréttatíma Ríkisútvarpsins. Þeir fréttatímar hafa komið að töluverðu gagni, þótt fréttamenn hafi greinilega verið mjög vilhallir í fréttaflutningi af málum, sem komu þeim við.

Þetta kom ekki aðeins í ljós í orðavali þeirra í fréttum af málum annarra útvarpsstöðva, sem voru í samkeppni við þeirra útvarp. Þetta kom líka greinilega fram í fréttavali og fréttameðferð í sambandi við vinnudeilurnar, enda eru fréttamenn aðilar að verkfalli BSRB.

Nú hefur þessi einokun blessunarlega verið rofin af dagblöðunum. Lesendur þurfa ekki lengur að gera sér að góðu hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins og hinar mjög svo vanstilltu BSRB-fréttir, sem voru skrifaðar í heiftúðugum stíl Völkischer Beobachter.

Ýmislegt hefur lærzt í löngu dagblaðaleysi. Eitt er, að dagblöðin þurfa betri aðgang að stórvirkari fjölritunartækjum til að verjast tíðum vinnudeilum í pentiðnaðinum. Hinar fjölrituðu DV-fréttir voru merki þess, sem koma skal í slíkum vinnudeilum í framtíðinni.

Annað merkilegt, sem kom í ljós, var, að ýmsir aðilar áttu furðu auðvelt með að koma í skyndingu á fót faglega unninni útvarpsdagskrá og höfðu vald á tækni til að koma henni til eyrna meirihluta þjóðarinnar. Getan er til, ef þingflokkur Framsóknar leyfir.

Ef til væru fleiri útvarpsstöðvar en ríkisins eins, mundi flæði upplýsinga verða mun meira og öruggara en verið hefur, auk þess sem ósennilegt hlyti að teljast, að allar þær mundu stöðvast í vinnudeilum. Í því hlýtur að felast mikið öryggi fyrir fólkið í landinu.

En nú eru dagblöðin alténd aftur komin í hendur fólks. Aftur er völ á fleiri og fjölbreyttari fréttum en hægt er að koma við í útvarpi. Aftur er kostur á margvíslegum skoðanaskiptum í kjallaragreinum og í öðru formi blaðanna. Hjól lýðræðisins eru aftur farin að snúast á eðlilegan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Of lágt orkuverð.

Greinar

Nýjasti álsamningur íslenzkra stjórnvalda við Alusuisse um orkuverð og önnur mál Ísals er ekki hrifningarefni. Það bezta, sem um hann er hægt að segja, er, að hann er samningur. Sem slíkur bindur hann enda á margra ára deilu og veitir vinnufrið næstu fimm árin.

Hitt jákvæða atriðið í samningnum er, að sættir tókust um þau atriði, sem sett höfðu verið í gerðardóm. Ísal mun greiða ríkissjóði um 100 milljónir króna og viðurkenna þannig óbeint gamlar syndir. Þetta er um þriðjungur af því, sem íslenzk stjórnvöld höfðu krafizt.

Margir hafa gagnrýnt þetta og sagt eðlilegast, að látið yrði í gerðardómi reyna til fulls á hinar íslenzku bakkröfur. Hitt er þó líklegra, að í samstarfi sé betra að ná samkomulagi heldur en að láta sverfa til stáls. Það er lögmál, sem gildir á ótal sviðum.

Svarta og stóra atriðið í þessum nýja samningi er orkuverðið. Niðurstaðan hlýtur að valda verulegum vonbrigðum. Eftir mikið bjartsýnistal hinna íslenzku samningamanna allt þetta ár, bjuggust margir við hærri niðurstöðu en 13-14 eininga orkuverði.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur sagt, að “við höfum ekki efni á að selja raforku mikið undir 17-18 mills”. Og raunar er þegar vitað, að orkuverð frá Blöndu og öðrum nýjum orkuverum verður ekki undir 20 verðeiningum. Þetta stingur í stúf við samninginn.

Að vísu er því haldið fram, að Búrfell sé gamalt orkuver á gömlu kostnaðarverði. En óneitanlega fer að verða eftirsjá í að hafa látið orkuna frá ódýrasta orkuveri landsins í hendur fyrirtæki, sem statt og stöðugt neitar að borga nálægt gangverði fyrir hana.

Í sumar var ánægja íslenzku fulltrúanna svo mikil, eins og hún kom fram í fjölmiðlum, að almennt var búizt við niðurstöðu, sem væri einhvers staðar á milli síðustu kröfu um 17 verðeiningar og síðasta boðs um 15 einingar. Þessar tölur hafa greinilega verið ímyndun ein.

Fjölmiðlar eru auðvitað ábyrgir fyrir flutningi talna á borð við þessar. Hins vegar gáfu raunar viðræður við samningamenn tilefni til að ætla, að ágreiningurinn lægi á þessu 15-17 verðeininga bili. Útkoman er hins vegar í raun ekki nema 13-14 verðeiningar.

Eftir að íslenzkir fulltrúar ríkisvaldsins hafa nokkrum sinnum farið halloka fyrir fulltrúum Alusuisse er ekki nema eðlilegt, að úti í bæ fari að gæta nokkurrar svartsýni um framtíðina. Spurt verður, hvort búast megi við einhverju viti í verðandi álsamningum.

Sérstaklega er er ástæða til að draga í efa, að Alusuisse sé einmitt rétti aðilinn til að semja við um frekari álframleiðslu hér á landi. Er bætandi á þá þjóðarsundrungu, sem þegar hefur hlotist af óbilgirni Svisslendinga í viðskiptum við enn óreynda Íslendinga?

Alvarlegast er, að áldeilan hefur verulega dregið úr áhuga með þjóðinni á stóriðju yfirleitt. Hún er ekki lengur umtalsverður þáttur í framtíðarsýn þjóðarinnar. Það er miður, því að stóriðja er gagnleg, þótt hún sé ekki allra meina bót, frekar en önnur starfsemi.

Af því að sjálft orkuverðið skiptir mestu máli í samningum við nýtt álver, hlýtur hinn nýi samningur að valda vonbrigðum. Búið er að gera hann og við hann verður staðið. En fráleitt er, að hann stuðli að frekari áliðju eða annarri stóriðju hér á landi. Í því máli verður þjóðin áfram sundruð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Erfið lækning

Greinar

Um þessar mundir er íslenzka þjóðfélagið eins og áfengissjúklingur í þurrkví. Hinar efnahagslegu björgunaraðgerðir stjórnvalda reyna mjög á þolrifin í mönnum. Og enn er ekki séð fyrir enda lækningarinnar, því að freistingarnar sækja hart að þeim aðilum, sem hafa aðstöðu til að spilla fyrir afturbatanum.

Hinir erfiðu dagar læknisaðgerðanna eru rétt að byrja. Gengið hefur verið lækkað. Og söluskattur og benzínverð er um það bil að hækka. Ýmsar aðrar nauðsynlegar læknisaðgerðir bíða fram yfir viðræður ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðsins um ástand sjúklingsins.

Endurreisnin er sársaukafull, þegar þjóðin hefur lifað um efni fram og allir sjóðir orðnir tómir og stórskuldugir að auki. Þessi endurreisn kemur niður á lífskjörum hvers einasta Íslendings. Þetta erfiða ástand á enn eftir að versna, áður en það byrjar að batna aftur.

Lækningin er þungbær og á eftir að verða enn þungbærari. En hún er skárri kostur en stöðvun mikilvægra greina atvinnulífsins og víðtækt atvinnuleysi, sem hvort tveggja var í uppsiglingu, þegar lækningin hófst. Það er betra að horfast í augu við sársaukafullan raunveruleikann en fljóta sofandi að feigðarósi.

Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir þjóðfélagsins hafa misjafna aðstöðu til að bera byrðar lækningarinnar. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að létta láglaunafólki og lífeyrisþegum þessar byrðar. Eru nú hafnar viðræður hennar við aðila vinnumarkaðsins um, hvernig þetta megi gerast.

Vinnufriður er ennþá ótryggur, svo að enn er ekki hægt að spá, hvort lækningin tekst. En verði friður, má gera ráð fyrir, að ástandið fari fljótlega að batna. Atvinnulífið fer þá fljótlega að styrkjast og lífskjörin byrja að batna á nýjan leik strax í kjölfarið.

Þannig er unnt að kæfa kreppuna í fæðingunni, ef þjóðin hefur þol til að taka á sig tímabundnar byrðar. En það er vissulega ekkert gamanmál fyrir fólk að sjá allt verðlag vöru og þjónustu hækka án þess að fá það bætt í auknum tekjum. Þess vegna mun reyna mjög á þolrif þjóðarinnar næstu vikur og mánuði.

Efnahagssérfræðingar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar eru sammála um sjúkdómsgreininguna og læknisráðin. Leiðtogar stjórnmálanna, hvar í flokki sem þeir standa, hafa áttað sig á ástandinu. Það sést bezt af því, að vinstri flokkarnir höfðu í sínum viðræðum um stjórnarmyndun fallizt á nokkurn veginn sömu læknisráð og nú er verið að beita.

Við eigum því að sameinast um að láta lækninguna takast, þrátt fyrir allar freistingar. Með endurreisn efnahagslífsins leggjum við grundvöll að nýrri sókn til öryggis og auðlegðar í framtíðinni.

Þótt efnahagslífið sé sjúkt um þessar mundir, er það að eðlisfari heilsugott. Það hefur áður komizt í hann krappan, en jafnan rétt við aftur, stundum á löngum tíma og stundum á skömmum tíma. Í þetta sinn benda flest sólarmerki til þess, að batinn geti orðið skjótur.

Jónas Kristjánsson

DV

Kúfur á fjórþættu böli.

Greinar

Tillögur formanna stjórnarflokkanna ná afar skammt í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Endurbæturnar stefna eingöngu að afnámi útflutningsbóta og það á löngum tíma. Þær eru að vísu grófasti hluti landbúnaðarbölsins, en samt ekki nema lítill hluti þess alls.

Ríkið hefur einkum ferns konar afskipti af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi. Í fyrsta lagi bannar það innflutning á afurðum, sem gætu keppt við hinn hefðbundna landbúnað . Í öðru lagi styrkir það hinn hefðbundna landbúnað til aukinna umsvifa í fjárfestingu og rekstri.

Í þriðja lagi greiðir ríkið niður notkun innanlands á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar. Raunverulegur markaður er ekki til fyrir allar hinar dýru afurðir, en í staðinn býr ríkið til markað með niðurgreiðslum. Þær eru dýrasti hluti hins spillta kerfis.

Að svo miklu leyti sem þriðja leiðin nægir ekki til að eyða kjötfjöllum, smjörfjöllum og öðrum slíkum fjöllum, hefur ríkið beitt útflutningsbótum sem fjórðu leið til að losna við afurðir, sem eru svo dýrar, að þær eru ekki seljanlegar á neinum markaði.

Útflutningsbæturnar eru því aðeins kúfurinn á fjórþættu þjóðarböli, sem felst samanlagt í innflutningsbanni, styrkjum til framkvæmda og rekstrar, niðurgreiðslum og útflutningsbótum. Brottfall þeirra er betra en ekki neitt, þótt það feli ekki í sér stórt skref.

Samkvæmt tillögum formanna stjórnarflokkanna eiga samtök og stofnanir landbúnaðarins að fá völd til að beita kvótakerfi og búmarki til að eyða útflutningsbótaþörf mjólkurafurða á tveimur árum og kjöts á fjórum til fimm árum. Það þyngir nú skap þingmanna Framsóknar.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda var fallizt á vinnubrögð af þessu tagi. Ekki er þó þjóðfélagið sloppið fyrir horn. Stéttarsambandið vill koma upp kvótakerfi og búmarki í þeim greinum landbúnaðar, sem eru utan hins fjórverndaða, hefðbundna hluta.

Ef það tækist, mundi Stéttarsambandið skera niður framleiðslu eggja, kjúklinga og svínakjöts í von um að búa á þann hátt til aukinn ímyndunarmarkað fyrir niðurgreiddu vörurnar, kjöt og mjólkurvörur. Það kvartar þegar um, að hliðarbúgreinarnar taki frá hinum hefðbundnu.

Liður í því kvótakerfi sem öðrum yrði búmark, er einkum yrði notað gegn stóru framleiðendunum, sem hafa verksmiðjusnið á rekstrinum og halda niðri verði til neytenda. Stærð búa yrði takmörkuð við svokallaða fjölskyldustærð, sem Stéttarsambandið vill koma á.

Þá lýsa samþykktir Stéttarsambandsins einnig áhuga á að loka bændastéttinni til að útiloka þéttbýlismenn frá hliðarbúgreinum, þar á meðal ræktun á loðdýrum og laxi. Stofnun Íseggs er liður í tilraunum til að flytja einokunarkerfið yfir í hliðarbúgreinar.

Hagsmunasamtök landbúnaðarins telja ekki nóg, að fyrsta leið, innflutningsbann, ríki í hliðarbúgreinum. Kjarnfóðursjóðurinn er nýtt dæmi um, að þau vilja koma þar upp sams konar kerfi styrkja til framkvæmda og rekstrar og ríkir í hinum hefðbundna landbúnaði, – leið númer tvö.

Síðan verður reynt við þriðju leiðina, niðurgreiðslurnar. Þing Stéttarsambandsins byrjaði á því að heimta niðurgreiðslur á kartöflur. Lokastigið verður svo tilkoma fjórðu leiðarinnar, útflutningsbóta í öllum greinum landbúnaðar, ekki bara í þeim, sem eiga að njóta þeirra næstu tvö-fimm árin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Harðsóttir útlendingar.

Greinar

Við förum halloka í erlendum samskiptum okkar um þessar mundir. Eftir nokkra daga er ráðgert að bíða enn einn ósigurinn fyrir Svisslendingum í viðræðum um orkuverð og önnur kjör álversins í Straumsvík. Og nágrannar reynast okkur nokkuð ódælir í málum Jan Mayen.

Nú síðast gerði Jónatan Motzfeldt, formaður grænlenzku landsstjórnarinnar eða eins konar forsætisráðherra Grænlands, góðlátlegt grín í blaðaviðtali að sjónarmiðum okkar út af loðnunni, sem við vorum búnir að slá eign okkar á að mestu leyti eða 85%.

Motzfeldt sagði, að úr því að við hefðum fengið 200 mílur í átt til Jan Mayen, ættum við ekki að amast við, að Grænlendingar fengju slíkt hið sama. En það er einmitt samkomulag Norðmanna og Íslendinga, að Grænland hafi að þessu leyti minni rétt en Ísland.

Samkomulagið byggist á, að byggð strönd hafi meiri rétt en óbyggð. Þannig hafi strönd Íslands óskertan 200 mílna rétt í átt til óbyggðrar strandar Jan Mayen, en miðlína gildi aftur á móti milli óbyggðra stranda Jan Mayen og Grænlands. Þessu eru Grænlendingar ósammála.

Motzfeldt vísaði til þess, að loðnan hefði sundfæri og færi víða um hafið. Þess vegna væri merkilegt, ef Íslendingar héldu því fram, að þeir ættu einkarátt á 85% af loðnustofninum, sem meðal annars lifði og nærðist innan grænlenzkrar efnahagslögsögu.

Þá hefur reynzt minna haldreipi í bandalagi okkar við Norðmenn en ætlað var í upphafi. Þeir hafa nýlega gert munnlegan samning við Dani um veiðar úr loðnustofninum, en segjast ekki finna nein skrifleg gögn um slíkan samning. Þeir yppta bara öxlum.

Samkomulag Norðmanna og Dana hefur þær afleiðingar, að norsku veiðiskipin við Jan Mayen fá ekki að hafa nein afskipti af loðnuveiðum Dana og Færeyinga á hinu umdeilda svæði milli miðlínunnar og 200 mílna línunnar frá óbyggðri strönd Grænlands.

Í barnalegri trú á norræna samvinnu höfðum við uppi harmagrát út af aðild Færeyinga að málinu. Sögðum við það ójafna hegðun, að við leyfðum þeim veiðar í okkar lögsögu á meðan þeir hefðu með rangindum af okkur loðnu á umdeilda svæðinu við Jan Mayen.

Pauli Ellefsen, lögmaður eða eins konar forsætisráðherra Færeyja, var hinn kurteisasti og sagði Færeyinga ekki mundu biðja um stærri kvóta hjá Efnahagsbandalaginu en þeir hefðu þegar aflað við Jan Mayen. Við ættum því ekkert að vera að æsa okkur upp að óþörfu.

Hann segist svo bara ekkert geta við því gert, að færeyskir einkaaðilar geri sérsamninga við Konunglegu Grænlandsverzlunina um veiðar í grænlenzkri landhelgi. Hann ypptir bara öxlum eins og Norðmenn og brosir að okkur á bak eins og Motzfeldt og Norðmenn.

Ekki verður annað séð en íslenzka utanríkisþjónustan hafi komið fram af fullri einurð í hinum flóknu réttindamálum Jan Mayen-svæðisins. En atburðir síðustu vikna sýna greinilega, að nauðsynlegt er að gæta fiskveiðihagsmuna okkar af mikilli festu.

Slík festa virðist ekki vera til í viðræðum okkar manna við Alusuisse. Þeir virðast vera að semja um 14-15 eininga orkuverð og brottfall ýmissa klögumála okkar. Sú niðurstaða er gersamlega ófullnægjandi og gefur frekari áldraumum ekki byr undir báða vængi.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigurhátíð.

Greinar

Sigurhátíð var um helgina á Laugarvatni, þegar Stéttarsamband bænda minntist 40 ára afmælisins. Stjórnendur landbúnaðarins glöddust yfir atburðum ársins, sem treysta þá í sessi og tryggja, að straumar fjármagns um hendur þeirra verða heldur stríðari en áður var.

Alþingi setti um þetta lög í sumar. Þau lög túlkaði ráðherra síðan snarlega með reglugerðum og samningum við stjórnendur landbúnaðarins. Eftir þessa sumargleði opinberra ákvarðana er ástæða til að reikna með, að landbúnaðurinn verði ekki léttari byrði en áður.

Hingað til voru aðeins hefðbundnu búgreinarnar baggi á skattgreiðendum. Framleiðsluráð hefur fengið að ofskipuleggja offramboð á afurðum sauðfjár- og nautgripabúskapar. Nú fær það líka að leika sér að afurðum alifugla- og svínabúskapar, sennilega með sama árangri.

Kjarnfóðursjóður hefur verið festur í sessi. Með honum fá stjórnendur landbúnaðarins tækifæri til að taka fé hér og þar út úr landbúnaðinum og skammta því eða úthluta síðan á aðra staði. Það er einmitt þetta hlutverk skömmtunarstjóra, sem valdamenn sækjast oft eftir.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að skattgreiðendur eiga ekki að fá að njóta samdráttar í útflutningsbótum. Hægfara minnkun þeirra fylgir hliðstæð aukning á greiðslum skattgreiðenda í sjóð, sem aðallega kaupir af bændum svokallað búmark eða rétt þeirra til kinda og kúa.

Um þessa niðurstöðu er engin þjóðarsátt. Um hana er ekki einu sinni sátt í Framsóknarflokknum. Hún er ekki að vilja þeirra, sem vilja óbreyttar niðurgreiðslur, uppbætur og styrki, – sem telja skattgreiðendum skylt að halda uppi hefðbundnum búskap með óbreyttum hætti.

Hún er ekki heldur að vilja framsóknarmanna í þéttbýli og við sjávarsíðuna, sem vita, að flokkur þeirra stendur þar afar höllum fæti. Það mun áfram jafngilda sjálfspyndingahvöt hjá skattgreiðendum á þeim slóðum að kasta atkvæðinu á svo eindreginn landbúnaðarflokk.

Hinn pólitíski armur stjórnenda landbúnaðarins, með hinn öfluga Jón Helgason ráðherra í broddi fylkingar, þarf hins vegar ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu. Kjósendur við sjávarsíðuna og í þéttbýlinu hafa nefnilega ekki í svo mörg pólitísk skjól að venda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur dyggilega stutt stefnu Jóns Helgasonar og stjórnendaliðs landbúnaðarins. Hann barðist meira að segja fyrir því á lokadögum Alþingis í sumar, að mál þetta yrði knúið í gegn með ótrúlegum hraða. Hann er nákvæmlega jafn ábyrgur.

Stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar, Alþýðubandalagið, er ekki líklegt til að vera andvígt afturhaldi af þessu tagi. Lög, reglugerðir og samningar sumarsins eru einmitt í anda ríkisrekstrar og Alþýðubandalagsins. Miklu líklegra væri, að það reyndi að yfirbjóða.

Þannig eru skattgreiðendur þéttbýlis og sjávarsíðu fangar stefnu stjórnenda landbúnaðarins og verða svo enn um sinn. Sú stefna, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa meiri afskipti af landbúnaði en öðrum framleiðslugreinum, hefur að sinni litla möguleika á vettvangi stjórnmálanna.

Afnám útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, beinna styrkja og innflutningsbanns í landbúnaði er ekki í sjónmáli. Miðstýring stjórnenda landbúnaðarins er í sókn. Fjárhagsleg völd þeirra hafa verið aukin. Það var því full ástæða til sigurhátíðar að Laugarvatni um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV