Greinar

“Annarlegar hvatir”.

Greinar

Fjölmiðlamenn eru afar sjaldan staðnir að ærumeiðingum. Þeir eru atvinnumenn og kunna yfirleitt að haga orðum sínum innan ramma velsæmis. Annars yrði þeim ólíft í starfi. Þetta á jafnt við um þá, sem skrifa fréttir, og hina, sem láta frá sér fara skoðanir af ýmsu tagi.

Undantekninga hefur helzt gætt í blöðum eins og Þjóðviljanum. Það gerist, þegar skammhlaup verður milli pólitískra hugsjóna annars vegar og fjölmiðlunar hins vegar. Hinir áköfustu gæta ekki að sér og fjalla um pólitíska andstæðinga á þann hátt, að betur væri ósagt.

Hættan á ærumeiðingum í fjölmiðlum er að öðru leyti ekki hjá atvinnumönnunum, heldur hinum, sem hitnar í hamsi úti í bæ og senda blöðunum greinar til birtingar. Saka má fjölmiðlana um að vera of væga í fyrirstöðunni gegn slíkum greinum og hleypa þannig ýmsu ófögru í gegn.

Þetta er gert í anda lýðræðis. Blöð vilja ógjarna verða sökuð um að standa í vegi fyrir, að skoðanir komist á framfæri. En þau mættu líklega gera meira að því að benda höfundum á, að farsælast sé að sofa á málinu og láta ekki frá sér fara efni fyrr en æsingur hefur hjaðnað.

Í fyrravetur flutti formaður Lögmannafélags Íslands erindi, sem hann kallaði “kreppu í réttarfari”. Þar gagnrýndi hann seinagang og óvíst réttaröryggi hjá Hæstarétti. Hér í blaðinu voru þessar skoðanir formannsins gerðar að skoðun í leiðara, þar sem hvatt var til úrbóta.

Sami formaður lét nýlega hafa eftir sér í blaðaviðtali, að dómstólar geti “aldrei átt frumkvæði að því að ráðskast með fjölmiðla …”. Var þetta innlegg í deilur um yfirlýsingar forseta Hæstaréttar um meiðyrði í fjölmiðlum. Í leiðaranum var stuðst við þessa skoðun.

Síðan bregður svo við, að hér birtist frekar vanstillt grein formannsins, þar sem hann birtist gerbreyttur og stráir um sig yfirlýsingum um “annarlegar hvatir”, “þvætting” og “siðleysi” leiðarahöfundar. Hann gengur svo langt að kalla “þvætting”, að hann sjálfur hafi nokkurn tíma gagnrýnt Hæstarétt!

Greinin var skrifuð, áður en hún var hugsuð. Ef svo væri einnig í þessum leiðara, yrði spurt, hvort formaðurinn þyrði ekki að standa við þær skoðanir sínar, sem eru andstæðar skoðunum forseta Hæstaréttar, – þegar hann þarf að flytja mál fyrir dómstólnum.

En það er ekki gert, af því að ljóst er, að formaðurinn lenti bara í ógöngum í hita augnabliksins eins og svo margir gera, þegar þeir skrifa greinar. Sérstaklega er áberandi, að ásakanir um “annarlegar hvatir” eru í tízku hjá þeim, sem stinga niður penna við slíkar aðstæður.

Um svipað leyti sagði annálaður geðprýðisbóndi í grein hér í blaðinu, að gagnrýni á Framleiðsluráð landbúnaðarins væri óréttmæt og “byggð á annarlegum hvötum”. Annar geðprýðismaður sakaði annan ritstjóra Morgunblaðsins um að hafa brosað á benzínstöð, eins og það væri eitthvert málsefni.

Síðan festast menn í því, sem þeir skrifa í ógáti. Ekki alls fyrir löngu sakaði kunnur rithöfundur þetta blað um ákveðnar skoðanir á málum Mið-Ameríku. Þegar honum var sýnt, að blaðið hafði í raun haft alveg þveröfugar skoðanir, vildi hann ómögulega gefast upp.

Hann sagði á prenti, að þetta skipti ekki máli, af því að annars staðar í blaðinu hefðu birtzt skoðanir, sem almennt væru fasistískar. Þannig leiðir hvað af öðru í ógöngum, sem hefjast í vanhugsuðum fullyrðingum um “annarlegar hvatir” atvinnumanna fjölmiðlanna.

Jónas Kristjánsson

DV

70 króna þrælar.

Greinar

Þörungaverksmiðja var reist fyrir mörgum árum á Reykhólum til að vernda byggð í Austur-Barðastrandarsýslu. Rekinn var verkfræðingurinn, sem reiknaði út, að hún gæti ekki borið sig. Síðan hefur verksmiðjan verið starfrækt með harmkvælum og vafasömum bjargráðum.

Í stað þess að flytja á mölina eins og Íslendingar höfðu gert í sjö áratugi, var búseta heimamanna vernduð gegn svokallaðri “röskun” með því að láta þá hafa vinnu í hinni lánlausu verksmiðju. Þar vinnur nú fólk, sem hefur 70 krónur á tímann og kemst ekki hærra.

Þannig hafa heimamenn gengið í gildru byggðastefnunnar. Þeir hokra enn í sveitinni og skipta við kaupfélagið í Króksfjarðarnesi, þótt hagur þeirra væri nú mun betri ef þeir hefðu fylgt Íslandssögu þessarar aldar, flutt á mölina eins og þorri þjóðarinnar gerði.

Byggðagildran er ein umfangsmesta starfsemi og hin langdýrasta, sem rekin er hér á landi. Hún lýsir sér í ótal myndum, sem allar miða að því að hindra fólk í að flytja sig, þangað sem tækifærin eru. Öflugust og dýrust er gildran í hinum hefðbundna landbúnaði.

Ungir bændasynir eru studdir til að fjárfesta í gersamlega úreltum atvinnuvegi. Þeir eru látnir stofna til skulda í kaupfélaginu. Að meðaltali á fjögurra ára fresti lætur ríkið breyta þessum skuldum í föst lán, sem tryggja æviráðningu kaupfélagsþrælanna.

Sérstök búalög verið sett til að hindra bændur í að selja jarðir sínar á markaðsverði til að koma sér fyrir á mölinni. Slík lög stuðla að því að viðhalda veltu vinnslustöðva og sölufélaga landbúnaðarins og valdi hinna reykvísku yfirmanna landbúnaðarins.

Forstjórar Framleiðsluráðs og sjálfseignarstofnana þess, svo og Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, halda uppi sérstökum kennisetningum um, að sveitir landsins séu eins konar byggðasafn eða þjóðkirkja, sem haldi uppi leifum íslenzkrar menningar.

Bændum er sagt, að það sé hugsjón að hokra áfram, þótt sú iðja kosti ríkissjóð einan jafngildi heillar tveggja milljón króna íbúðar yfir hvern einasta bónda á fimm ára fresti, íbúðar, sem auðvitað ætti að reisa á mölinni til að varðveita verðgildi fjárfestingarinnar.

Þeir, sem benda þrælum landbúnaðarkerfisins á þessa gildru, eru kallaðir óvinir bænda. Sérstakar samþykktir eru gerðar um að vara bændur við að lesa dagblöð, þar sem sannleikurinn kemur fram. Og flestir bændur trúa enn klæðskerasaumuðum forstjórum sínum í Reykjavík.

Auðvitað hefði þjóðin á síðustu áratugum átt að raska sér jafnhratt á mölina og hún gerði áratugina þar á undan. Hún hefði átt að flytja, þangað sem hiti, rafmagn og önnur þjónusta var ódýrust, þangað sem hafnir voru beztar og sókn á miðin ódýrust.

Allur sá þorri þjóðarinnar, sem býr á Reykjavíkursvæðinu og í hinum kraftmeiri hluta þéttbýlis í öðrum landshlutum, kannast ekki við, að röskun sín eða foreldranna hafi orðið til ills. Það liggur í eðli dugmikils menningarsamfélags að vera í sífelldri röskun.

Forstjórar stöðnunarinnar eru hins vegar enn að reyna að byggja verksmiðjur ofan á hinn hefðbundna landbúnað til að fólk geti unnið fyrir 70 krónur á tímann og safnað skuldum í kaupfélaginu, – í stað þess að ganga á vit frelsisins í stöðum á borð við Reykjavík.

Jónas Kristjánsson.

DV

Langrækni.

Greinar

Þór Vilhjálmsson, forseti Hæstaréttar, er of langrækinn. Hann man enn níðskrifin í Þjóðviljanum og víðar um aðstandendur undirskriftasöfnunar Varins lands. Honum finnst, að meiðyrðadómarnir í því máli hafi verið of vægir. Og hann er enn að tala um þetta.

Flestir geta verið sammála um, að skrif um Þór og félaga hans í Vörðu landi gengu út í öfgar. Þau voru rætin, enda voru þau dæmd dauð og ómerk. Þar með ætti það mál að vera úr sögunni. Og forseti Hæstaréttar ætti að hafa önnur áhyggjuefni en það.

Ef fólk væri beðið um að tjá sig um dómana vegna Varins lands, mundu svörin fara eftir skoðunum manna á veru Varnarliðsins hér á landi. Andstæðingar þess mundu segja dómana hafa verið of stranga, en stuðningsmennirnir mundu segja þá hafa verið of væga.

Í þessu næstsíðasta stóra máli af því tagi, sem Þór Vilhjálmsson hefur áhyggjur af, er mat manna á þyngd dóma stjórnmálalegs eðlis. Einstaklingar geta haft á þeim ýmsar skoðanir. En það er mjög einkennilegt, að forseti Hæstaréttar skuli hafa opinbera skoðun.

Allir þeir, sem stinga höfðinu út um gluggann í stjórnmálum landsins, geta átt von á kárínum, ekki sízt í viðkvæmum tilfinningamálum á borð við Varnarliðið. Menn verða að taka slíku með ró og minnast þess, að rógur lýsir rægjendum betur en hinum rægðu.

Til dæmis eru tæplega til þær illu hvatir, sem höfundur þessa leiðara hefur ekki verið sakaður um af hálfu forstjóra hins hefðbundna landbúnaðar og mestu siðleysingja Stórstúkunnar, svona samanlagt. Samt hefur æran ekki látið neitt á sjá í þeirri orrahríð.

Þegar forseti Hæstaréttar finnur sér ástæðu til að rægja íslenzka fjölmiðla að ástæðulausu í útlöndum, fara menn að skilja hinn undarlega dóm Hæstaréttar í síðasta stóra málinu af því tagi, sem Þór Vilhjálmsson hefur áhyggjur af, hinu svokallaða Spegilsmáli.

Fátt var í rauninni athugavert við hið dæmda tölublað Spegilsins nema hinn algeri skortur á fyndni í blaðinu. En forseti Hæstaréttar mun hafa tekið eitthvað af efninu til sín og fallið það þungt. Fáir aðrir sáu blett falla á æru hans eða annarra.

Íslenzkir fjölmiðlar eru ekki eins og Þór Vilhjálmsson lýsir þeim í útlöndum. Í engu nálægu landi eru blöðin eins tillitssöm og varfærin og þau eru hér á landi. Og forseta Hæstaréttar væri nær að hafa áhyggjur af vandamálum, sem standa honum nær.

Í fyrra féll dómur í Hæstarétti eftir þrjú ár frá þingfestingu í undirrétti. Skuldakrafan, sem staðfest var, hafði þá rýrnað í verðbólgunni niður í fjórðung af upphaflegu verðgildi. Það væri verðugt verkefni fyrir forseta Hæstaréttar að hindra slíkt í framtíðinni.

Um síðustu áramót biðu 130 einkamál og 5 opinber mál flutnings í Hæstarétti. Seinagangur dómstólsins er meiriháttar vandamál í réttarfari landsins. Formaður lögmannafélagsins hefur talið sig knúinn til að víta þetta á opinberum vettvangi.

Það sæmir ekki forseta Hæstaréttar að vera persónulega langrækinn út af Vörðu landi og Speglinum. Meiðyrði eru ekki þjóðfélagslegt vandamál á Íslandi, hvað sem Þór Vilhjálmsson segir í útlöndum. Vinnubrögð Hæstaréttar eru hins vegar verðugt tilefni leiðréttinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Það bullsýður á kerfinu.

Greinar

Erlendar lausaskuldir bankanna og vanskil þeirra eða svokallaður yfirdráttur í Seðlabankanum hafa tvöfaldazt á aðeins þremur mánuðum og eru nú komin upp í 2,3-2,6 milljarða króna. Þeim, sem er orðnir ónæmir fyrir tölum, skal bent á, að þetta er rosaleg fjárhæð.

Bankastjórar landsins virðast upp til hópa ekki hafa stjórn á lánamarkaðinum. Þeir eru umsetnir fjárhungri atvinnuveganna og freistast til að veita miklu meiri lán en þeir geta í rauninni, jafnvel þótt slíkt kosti þungbæra refsivexti í Seðlabankanum.

Þetta jafnvægisleysi er ekki ný bóla, en hún er nú stærri en nokkru sinni fyrr. Til að komast framhjá aðhaldi Seðlabankans hafa stærstu bankarnir, með Landsbankann og Útvegsbankann í fararbroddi, tekið upp á að safna lausaskuldum í útlöndum til að seðja fjárhungrið.

Nú er verið að reyna að stífla þessa undankomuleið, enda geta bankarnir sett þjóðfélagið endanlega á höfuðið með gegndarlausri skuldasöfnun erlendis. Alkunnugt er, að ríkið hefur gert meira en nóg af slíku á undanförnum árum, þótt bankarnir bætist ekki við.

Mjög lítill hluti af undanlátsemi baukanna við þá, sem hrópa á lánsfé, fer í að bjarga illa stæðum einstaklingum, svo sem húsbyggjendum eða námsmönnum, eða fyrirtækjum, sem neitað er að viðurkenna, að komin séu á hausinn. Til dæmis eru aðeins 11% af útlánum Landsbankans til einstaklinga.

Hinn mikli þrýstingur, sem bankarnir fá ekki staðizt, kemur fyrst og fremst frá starfsemi, sem þarf að færa út kvíarnar og talin er geta staðið undir hinum háu og hækkandi vöxtum síðustu missera. Þannig er fjármagnsskortur stærri vandi en vaxtahæðin.

Við lesum daglega fréttir af þenslunni í þjóðfélaginu. Víða á Vestfjörðum vantar útlendinga í fiskvinnslu, þrátt fyrir kvótakerfið. Í auglýsingadálkum dagblaðanna er hrópað á fólk til vinnu. Á bak við þetta hlýtur að vera mikið af arðbærum verkefnum.

Á þessu ári eykst enn meðalstærð íbúða, sem lokið er og eru í byggingu. Og sóknin í lóðir er slík, að Reykjavík getur ekki annað eftirspurn, þótt úthlutað hafi þar verið 81 lóð meira en áætlað hafði verið. Margir umsækjenda hljóta að geta staðið undir fjármagnskostnaði.

Vöruinnflutningur og önnur gjaldeyrisnotkun hefur líka farið úr böndum. Í slíkt hafa verið notaðir peningar, sem ekki hefur verið unnt að seiða inn á lánamarkaðinn, þrátt fyrir hækkaða vexti. Og nú vilja sumir fá að kaupa gull í stað þess að nota sér vextina.

Samt eru til skottulæknar og að minnsta kosti heill stjórnmálaflokkur, Framsóknarflokkurinn, sem hvað eftir annað fárast út af of háum vöxtum, rétt eins og kaþólska kirkjan gerði hér af trúarástæðum á þjóðveldisöld, þegar raunvextir voru 10% og þóttu sjálfsagðir.

Háir og hækkandi vextir hljóta að vera virkasta leiðin til að draga úr hinni óheyrilegu umframeftirspurn eftir fjármagni og vinza brott hin síður arðbæru verkefni. Þeir eru mun betri en geðþóttaskömmtun af hálfu stjórnmálamanna í öllum framsóknarflokkunum.

Hinn rosalegi vöxtur lausaskulda bankanna er nýjasta og alvarlegasta aðvörunin um, að það bullsýður á kerfinu og að spennan undir niðri mun leita útrásar í verðbólgusprengingu, ef stjórnvöld ríkis og fjármagns megna ekki að snarminnka hungrið í lánsfé og seiða fram snaraukið sparifé.

Jónas Kristjánsson

DV

Þetta er bara áfangasigur.

Greinar

Margir kartöflubændur og kaupmenn eru nú að feta í fótspor Hagkaups og Jens Gíslasonar á Jaðri og hefja beina sölu kartaflna án milligöngu hinnar illræmdu Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Eiga neytendur því í mörgum verzlunum kost á ódýrari kartöflum en ella.

Mikilvægt er, að neytendur sýni nú samstöðu og beini viðskiptum sínum til aðila, sem verzla utan hins gamla einokunarkerfis. Þeir kaupi kartöflur, sem ekki eru á vegum Grænmetisverzlunarinnar, alveg eins og þeir kaupi egg og kjúklinga, sem ekki eru á vegum Íseggs og Ísfugls.

Neytendur hafa af þessu strax beinan hag, því að kartöflur Jens í Hagkaupi eru 14%. ódýrari en kartöflur frá Grænmetisverzluninni. Um leið gera þeir lífið léttara hjá kartöflubónda, sem hefur með framtaki sínu tekið tillit til hinna oft gleymdu hagsmuna neytenda.

Þetta geta neytendur raunar gert á fleiri sviðum. Þeir geta líka verðlaunað stóru eggjabændurna, sem hafa haldið niðri eggjaverði á undanförnum árum. Neytendur geta keypt egg frá þeim í stað þess að kaupa egg frá gæludýri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ár þetta verður minnisvert í verzlunarsögu landsins. Í tveimur áföngum hefur með harðfylgi tekizt að rjúfa kartöflueinokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, fyrst á innfluttum kartöflum og raunar öðru grænmeti í vor og síðan á innlendum kartöflum núna.

Um leið og neytendur fagna þessum áfanga er rétt að muna, að tiltölulega fáir einstaklingar í stétt heildsala, kaupmanna og bænda ruddu braut hinu aukna verzlunarfrelsi. Kerfið hopaði undan áhlaupi þeirra, en ekki af því að neytendur væru spurðir ráða.

Neytendur hafa fengið áfangasigur upp í fangið, en engan endanlegan sigur. Því fer enn fjarri, að kartöfluneytendur hér á landi njóti sama réttar og kartöfluneytendur annarra landa. Baráttunni um verzlunarfrelsið er ekki lokið og áfram mun reyna á samstöðu neytenda.

Þeir munu væntanlega geta á næstunni valið um fleiri stærðarflokka kartaflna, fleiri afbrigði þeirra og fleiri framleiðendur. Jafnframt geta þeir væntanlega forðazt kartöflur, sem úðaðar hafa verið thiabendazoli til að auka geymsluþolið fram eftir vetri.

En ný vandamál munu koma upp, þegar haustneyzlu lýkur og íslenzku kartöflurnar hætta að vera nýjar. Upp úr áramótum hlýtur að koma að þeim tímamótum, að gamlar, íslenzkar kartöflur verða orðnar lakari en ný uppskera frá öðrum löndum. Hver verður réttur neytenda þá?

Talið er, að í haust verði til tveggja ára birgðir af íslenzkum kartöflum. Spyrja má, hvaða ábyrgð neytendur beri á því ástandi. Og enn frekar, hver hafi rétt til að neita þeim um nýjar kartöflur á ofanverðum næsta vetri. Á Framleiðsluráð þá að fá að kúga?

Skylt vandamál kom upp í sumar, þegar fyrstu íslenzku kartöflurnar komu á markað og kostuðu þá 56,75 krónur. Þá vildu landbúnaðarráðuneytið og Framleiðsluráð hindra neytendur í að geta valið milli þessara kartaflna og innfluttra á 21 krónu kílóið.

Baráttunni fyrir rétti neytenda lýkur ekki fyrr en þeir geta á öllum árstímum valið milli nýrra kartaflna og gamalla, dýrra og ódýrra, úðaðra og ekki úðaðra, frá mörgum innlendum og erlendum framleiðendum. Og hið sama gildir um rétt neytenda á öðrum sviðum matvælakaupa.

Jónas Kristjánsson

DV

Framleiðsluráð rotnunarinnar.

Greinar

Komið hafa í ljós óeðlileg hagsmunatengsl á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þeirrar stofnunar, sem miðstýrir landbúnaðinum og ráðskast meðal annars með sjóði og millifærslur í því skyni. Eitt dæmi af þessu tagi var rakið hér í blaðinu nýlega.

Gísli Andrésson og sonur hans, Jón Gíslason, eru bændur á jörðinni Hálsi í Kjós. Þeir standa í miklum framkvæmdum við að auka framleiðslu býlisins, þótt Framleiðsluráð landbúnaðarins þykist vera að reyna að koma upp kvótakerfi til að draga úr offramleiðslunni.

Samt situr Gísli í Framleiðsluráði og þar á ofan í framkvæmdanefnd þess, æðsta ráðinu. Í Framleiðsluráði úthlutar hann meðal annars lánum og styrkjum úr Kjarnfóðursjóði. Þessi úthlutun er fræg fyrir, að hennar njóta einkum skjólstæðingar Framleiðsluráðs.

Gísli er einn af stofnendum fuglasláturhússins Hreiðurs hf. (Ísfugl), sem hefur fengið 3,3 milljón króna lán úr Kjarnfóðursjóði á núgildandi verðlagi. Til samanburðar hefur fuglasláturhúsið Dímon, sem afkastar meiru, fengið 1,3 milljón króna lán úr þessum sjóði.

Stærsti hluthafi Hreiðurs hf. er Sláturfélag Suðurlands. Það á líka fulltrúa í Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem úthlutaði láninu. Sláturfélagið tekur þannig þátt í að úthluta sér fjármagni umfram aðra. Í öðrum greinum væri þetta talin stórfelld spilling.

Hagsmunaflækjan er ekki fyllilega rakin enn. Jón á Hálsi er formaður Sambands eggjaframleiðenda, sem hefur reist eggjadreifingarstöð fyrir 4 milljón króna styrk úr Kjarnfóðursjóði, sem kallaður er lán til að byrja með. Öðrum hefur verið neitað um slíkt.

Og nú hefur Sláturfélag Suðurlands bréflega sagt upp viðskiptum við alla eggjabændur, sem ekki leggja inn hjá Ísegg, eggjadreifingarstöð Jóns og Sambands eggjaframleiðenda. Þannig lokast hagsmunahringur Sláturfélagsins, Framleiðsluráðs og Hálsbænda.

Rotnunin í Framleiðsluráði landbúnaðarins og umhverfis það mun halda áfram, af því að ráðið nýtur sérstakrar verndar Framsóknarflokksins, ekki bara hluta hans, sem er í Framsóknarflokknum, heldur líka hins, sem er í Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum.

Kjarnfóðursjóður er ekki eina illræmda stofnunin á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Ráðið gerir líka út Grænmetisverzlun landbúnaðarins, verst ræmdu einokunarstofnun landsins, sem hefur hvað eftir annað verið staðin að ofbeldi gagnvart neytendum.

Nú síðast er Framleiðsluráð landbúnaðarins að reyna að tefja fyrir, að einstakir kartöflubændur selji afurð sína beint til stórverzlana. Það svarar ekki leyfisbeiðnum til að vinna tíma fyrir Grænmetisverzlunina til að setja dreifikerfi sitt fyrst í gang.

Framleiðendur og neytendur eiga enga vörn í hinu pólitíska kerfi, sem hefur slegið skjaldborg um spillinguna í Framleiðsluráði landbúnaðarins. En neytendur eiga þó einn mótleik í stöðunni, ef þeir hafa siðferðilegan styrk til að fara í stríð við kerfið.

Neytendur geta neitað að skipta við gæludýr Framleiðsluráðs. Þeir geta skipt við óháða framleiðendur, sem ekki selja undir merkjum Ísfugls, Íseggs og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Þeir geta sprengt kerfið, ef þeir vilja og þora.

Jónas Kristjánsson.

DV

Notodirdjo er óvelkominn.

Greinar

Sendiherra lndónesíu á Íslandi, með aðsetri í Osló, heldur á mánudaginn hanastélsboð í Reykjavík fyrir vini og aðdáendur eins mesta fjöldamorðingja og rummungsþjófs, sem uppi er um þessar mundir. Sá er Suharto hershöfðingi og forseti og er fátt um hann prenthæft að segja.

lndónesía er land auðugt að olíu, málmum og timbri. Þar ætti að vera hægt að bæta lífskjör fólks eins og gerzt hefur í sumum nágrannalandanna. Hin fátæka þjóð þarf hins vegar að sæta sérlega grófri fjárpyndingu Suhartos, ættingja hans og nánustu klíkubræðra í hernum.

Í fáum löndum heims eru mútur eins veigamikill liður í aðgangseyri erlendra fyrirtækja. Einkum er það áberandi í olíunni. Um þetta er skrifað fullum fetum á prenti hér á Vesturlöndum. Ljóst er, að undan hefur verið komið fjárhæðum, sem eru hærri en við fáum skynjað.

Á móti þessu mútufé þarf gengi Suhartos að gera óhagstæða samninga fyrir hönd lndónesíu. Þannig tvöfaldast tjónið, sem hin fátæka þjóð verður fyrir af völdum hins umboðslausa hóps valdhafa, er brauzt til valda í heimsfrægu blóðbaði fyrir tæplega tveimur áratugum.

Talið er, að Suharto og félagar hafi slátrað um 300.000 manns í kringum valdatökuna. Það er meiri fjöldi en allir Íslendingar. Tugir þúsunda urðu að hírast við illa aðbúð í fangabúðum, flestir í tíu ár eða lengur. Af þeim hafa rúmlega 30.000 verið leystir úr haldi.

Allur þorri þessara manna fær ekki vinnu, annaðhvort af því að pólitiskrar fangavistar þeirra er getið í nafnskírteinum þeirra eða af því að þeir hafa ekki fengið nafnskírteini. sumir þeirra hírast í útlegð á fjarlægum eyjum án sambands við ættingja sína.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við þjóðarmorðið mikla á eyjunni Timor. Herlið Suhartos gerði innrás á austurhluta eyjarinnar fyrir níu árum og hefur síðan komið fyrir kattarnef 200.000 af 600.000 íbúum hennar. Þetta er eitt mesta þjóðarmorð síðustu áratuga.

Um leið hafa menning og þjóðhættir eyjarskeggja verið lögð í rúst. Frásagnir sjónarvotta að atburðum þessum eru ekki prenthæfar, svo ógeðslegar eru þær. En niðurstaða þeirra má vera öllum ljós, þar á meðal hanastélsliði Notodirdjos, sendiherra Suhartos.

Ríkisstjórn Reagans Bandaríkjaforseta hefur sætt réttmætu ámæli fyrir stuðning við ýmsa stórglæpamenn á valdastóli, bara ef þeir eru hægri sinnaðir. Þess vegna er athyglisvert, að Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvað eftir annað kvartað við Suharto.

Nú síðast afhenti utanríkisráðherrann mótmælabréf frá 123 bandarískum þingmönnum. Jóhannes Páll páfi hefur einnig nýlega gagnrýnt Suharto fyrir að standa þversum í vegi fyrir alþjóðlegu hjálparstarfi á Timor. Glæpalýður Suhartos tekur ekki mark á neinu af þessu.

Á alþjóðavettvangi er stjórn Suhartos í fremstu röð þeirra ríkja, sem eru að breyta Unesco, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, í svínastíu. Þeir beita stofnuninni til að reyna að hindra vestræna fjölmiðla í að afla frétta af óhugnaðinum hjá valdhöfum eins og Suharto.

Notodirdjo, sendiherra Suhartos, er ekki velkominn hér á landi. Hann er fulltrúi eins mesta rummungsþjófs og fjöldamorðingja nútímans. Enginn ætti að koma nálægt honum. Samt skulum við vona, að brennivínið standi ekki í stuðningsliði Suhartos á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Gætum okkar á gæludýrum.

Greinar

Tvær af gæluverksmiðjum hins opinbera eru nú í byggingu, steinullarverið á Sauðárkróki og stálverið á Vatnsleysuströnd. Samt linnir ekki deilum um gildi þessara verksmiðja. Í nýlegum blaðagreinum tveggja af helztu starfsmönnum Verzlunarráðs eru þær taldar varhugaverðar.

Stálverið hefur oftast ekki verið talið með í hópi hinna vafasömu ráðagerða í iðnþróun, enda aldrei hugsað sem atvinnubótatæki fyrir ákveðinn þéttbýlisstað eins og steinullarverið, sykurverið, pappírsverið, trjákvoðuverið og öll hin verin, sem menn hafa látið sér detta í hug.

Hagur stálversins þótti vænkast í fyrra, þegar það komst yfir notaða, sænska verksmiðju. Var þá talið, að stofnkostnaðurinn á Vatnsleysuströnd yrði ekki nema þriðjungur af upprunalegri áætlun. Þar með ætti arðsemin að verða mun meiri en ráð var fyrir gert.

Aftur á móti hefur danskt ráðgjafarfyrirtæki Iðnþróunarsjóðs úrskurðað stálverið óarðbært. Og ótrúverðugar eru fullyrðingar um, að danska fyrirtækið hafi hagsmuna að gæta.Þar að auki hefur verið sagt í sænska blaðinu Dagens lndustri, að Svíar hafi verið heppnir að losna við dótið hingað.

Mesti vandi innlendrar framleiðslu á steypustyrktarstáli er, að offramleiðsla er á því í nágrannalöndum okkar. Við slíkar aðstæður er yfirleitt hægt að fá innflutt stál á lægra verði en gildir í heimalandinu. Þetta er kallað undirboð, en er þó í þágu húsbyggjenda.

Þetta er ekki bara mál aðstandenda stálversins, sem aðeins hefur tekizt að safna broti af áætluðu hlutafé á almennum markaði. Ríkið hefur svo veitt verinu 45 milljónir í ríkisábyrgð og óbeint skyldað Framkvæmdasjóð ríkisins til að gerast hluthafi upp á 9 milljónir.

Við slíkar aðstæður er ástæða til að óttast, að ríkið verði síðar móttækilegt fyrir hugsanlegum klögumálum stálversins út af svokölluðum erlendum undirboðum og beiðnum þess um einhvers konar innflutningshöft á kostnað húsbyggjenda eða aðrar ívilnanir á kostnað skattgreiðenda.

Ef stálverið er slíkt áhyggjuefni, þá er steinullarverið margfalt stærra. Þar er á ferðinni byggðastefnuver, sem á að taka 60 atvinnutækifæri í plasteinangrun víðs vegar af landinu og breyta í 60 atvinnutækifæri í steinull á Sauðárkróki. Eins brauð verður annars dauði.

Ríkið leggur þar sjálft til 40% hlutafjárins og ábyrgist 25% af stofnlánum þess, auk þess sem það hyggst skylda taprekstrarfyrirtækið Ríkisskip til að flytja steinullina á einum fjórða hluta flutningsgjalda. Mun ríkið við slíkar aðstæður leyfa fyrirtækinu að rúlla?

Innflutningur á steinull fer ört minnkandi, enda fylgir henni viðurkennd hætta á lungnakrabba, kláða, útbrotum og hvarmabólgum. Í fyrra nam innflutningurinn tæpum 1.500 tonnum. Verksmiðjunni á Sauðárkróki er ætlað að framleiða 5.400 tonn á ári, það er meira en þrefalt magn!

Samkvæmt því er ætlunin, að steinullin frá Sauðárkróki útrými ekki aðeins innfluttri steinull, heldur mestallri glerull og þeirri plasteinangrun, sem framleidd er í landinu. Og þá má spyrja, hvort sú slátrun annarra atvinnutækifæra verði í skjóli ríkisvaldsins.

Ríkinu ber að halda opnum markaði byggingaefna, svo að byggingakostnaður verði sem lægstur og þjóðarhagur batni sem örast. Bein eða óbein aðild ríkisins að ýmsum gæluverkefnum má aldrei leiða til ívilnana eða hafta, sem skaða þjóðina í heild. Og nú er ástæða til að vera vel á verði.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstsíðasta vígið nærri fallið.

Greinar

Mismunandi tilkynningar bankanna um hærri og fjölhreyttari vexti benda til, að aukið vaxtafrelsi muni leiða til aukinnar samkeppni um sparifé landsmanna. Þær vekja vonir um, að einhvern tíma komist á jafnvægi milli framboðs á fjármagni og eftirspurnar.

Þegar raunvextir sex mánaða reikninga eru komnir upp í 10% í sumum bönkum, er fengin ástæða til að reikna með, að margir þeir, sem valið geta milli sóunar og sparnaðar, velji hið síðara. Þar með fást meiri peningar til ráðstöfunar handa síþyrstum lántakendum.

Að vísu eiga þessir raunvextir í harðri samkeppni við útsöluna á erlendum gjaldeyri, sem nú stendur yfir. Sú útsala freistar til kaupa á erlendum varningi og til ferðalaga í útlöndum. Peningarnir, sem fara í það, verða ekki lagðir inn á hagstæða bankareikninga.

Það er því rangt, sem einn bankastjórinn sagði, að síðasta vígi verðbólgunnar væri fallið með aukna vaxtafrelsinu. Fremur má kalla það næstsíðasta vígið. Síðasta vígi verðbólgunnar er traustara en nokkru sinni fyrr, hornsteinn stjórnarstefnunnar, sjálft fastagengið.

Núna felst verðbólgugróði í, að menn nota sér sem bezt útsöluverðið á erlendum gjaldeyri, meðal annars til að sitja uppi með gróða, þegar fastgengisstefnan springur í loft upp einhvern tíma eins og hún hefur alltaf gert. Og eftir lengra hlé verður jarðskjálftinn harðari.

Aukna vaxtafrelsið er ekki þáttur í markvissri stjórnarstefnu um að láta markaðinn leysa ofstjórn af hólmi. Markaðurinn fær að vísu meiri áhrif í bankakerfinu, en hann hefur ekki fengið tækifæri til að reyna að koma á jafnvægi milli íslenzks og erlends gjaldeyris.

Þetta ástand dregur úr, að árangur aukins vaxtafrelsis verði eins skjótur og mikill og æskilegt væri. Enn eru ýmsar freistingar á ferð, sem í mörgum tilvikum verða yfirsterkari viljanum til að hagnast á raunvöxtum. En spor hefur alténd verið stigið í rétta átt.

Ekki er þó fullur sigur unninn á þessu næstsíðasta vígi verðbólgunnar. Mörg áhrifamikil öfl í stjórnmálunum eru algerlega andvíg þeirri hækkun raunvaxta, sem óhjákvæmilega fylgir auknu vaxtafrelsi. Þessi öfl eru enn hávær og hafa ekki gefizt upp í stríðinu.

Vonandi sjá æ fleiri þó, að raunvextir geta hækkað núna, þegar eftirspurn er mun meiri en framboð á fé, framkvæmdir fyrir lánsfé eru miklar og atvinnuástand er ótrúlega gott. Það er greinilegt, að hærri vextir hafa ekki haldið aftur af athafnavilja manna.

Vonandi sjá líka æ fleiri, að raunvextir geta hækkað núna, þegar innflutningur og önnur notkun gjaldeyris er miklu meiri en ráð var fyrir gert og miklu meiri en hollt er. Viðskiptajöfnuðurinn gagnvart útlöndum er of óhagstæður og skuldasöfnun í útlöndum of mikil.

Búast má við, að næsta framhald hins aukna bankafrelsis felist í minnkuðum möguleikum stjórnmálamanna á að halda í forréttindavexti. Þegar afurðalánin hverfa inn í bankana í haust, virðist óhjákvæmilegt, að þar verði líka teknir upp samkeppnishæfir vextir.

Og þá eru bara eftir sjóðir Framkvæmdastofnunar og ýmsir stofnlánasjóðir. Til dæmis verður forvitnilegt að vita, hve lengi deildir Framkvæmdastofnunar komast upp með að gefa gæluverkefnum og vildarvinum peninga, þegar aðrir hlutar bankakerfisins eru að verða heilbrigðir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nálgast fjórði ósigurinn?

Greinar

Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af framvindu viðræðna Íslands og Alusuisse um orkuverð til Ísal og stækkun álversins. Þessum viðræðum átti að ljúka í apríl í vor, en þær hafa dregizt á langinn. Farið er að ganga verr hjá Sverri en hjá Hjörleifi þar á undan.

Óþægilegt er að sjá, hve mikla áherzlu samningamenn Íslands leggja á að reyna að sannfæra blaðalesendur um, að ýmsar verðhugmyndir séu of háar og að ýmis meðalverð á orku til áliðnaðar úti í löndum séu í raun ekki eins há og sumir hafa talið hér á landi.

Lægst hefur verið lagzt í tilraunum til að halda fram, að einhver viðmiðun sé í gamalli tillögu Hjörleifs Guttormssonar um 12,5 verðeiningar. Sú tillaga fjallaði ekki um endanlegt verð, heldur um millibilsverð á borð við þær hlægilegu 9,5 verðeiningar sem samið var um í vetur.

Þegar haldið er fram, að Hjörleifur hafi með tillögu sinni stefnt að 12,5 verðeiningum, er full ástæða til að ætla, að núverandi samningamenn telji sig vera komna í slíkan vanda, að óheiðarleg vinnubrögð séu þeim nauðsynleg. Skamma má Hjörleif fyrir margt, en ekki þetta.

Mest hafa samningamenn þó reynt að hampa orkuverði, sem samið var um í gamla daga, áður en olían hækkaði, og orkuverði, sem samið var um, þegar offramleiðsla var á áli fyrir örfáum árum. Þeir vekja minni athygli á orkuverðssamningum, sem nýjastir eru erlendis.

Metal Bulletin hefur skýrt frá, að lágt orkuverð til áliðnaðar sé liðin tíð. Offramleiðslan hafi vikið fyrir álskorti. Fjölþjóðahringarnir þurfi nú að afla sér sem fyrst aukinnar framleiðslugetu á hinum verðmæta málmi, sem stöðugt sækir inn á ný svið í iðnaði.

Vegna þessa eiga samningamenn Sverris Hermannssonar að vera í jafngóðri aðstöðu og samningamenn Hjörleifs Guttormssonar voru í vondri aðstöðu fyrir nokkrum árum. Krefjast verður þess af núverandi samninganefnd, að hún nái árangri og sé ekki með stöðugt múður.

Um þessar mundir dettur engum orkueiganda í hug að semja um lægra orkuverð til nýrra álvera en 20 verðeiningar. Það orkuverð er raunar aðeins lítillega yfir áætluðu framleiðsluverði nýrra, íslenzkra orkuvera á borð við Blöndu. Það er talið munu verða 17 verðeiningar.

Mjög undarlegt væri, ef Ísland færi að semja um lægra orkuverð en 20 verðeiningar til þeirrar stækkunar álversins, sem fyrirhuguð er. Hins vegar væri hugsanlegt að semja um rúmlega 17 verðeiningar fyrir hinn eldri hluta, sem nú er starfræktur. Allt, sem er undir 17, er gjöf.

Kostnaðarverð orku frá þeim orkuverum, sem við þurfum að reisa, af því að Ísal notar eldri og ódýrari orku, verður ekki lægra en 17 verðeiningar. Og alkunnugt er, að slíkar verðáætlanir hafa tilhneigingu til að reynast of lágar, þegar orkuverin eru komin í gang.

Ekki þarf mikinn kaupsýslumann til að sjá, að söluverð á orku ber ekki að miða við gamlan kostnað að baki, heldur við endurnýjunarkostnað, það er þann kostnað, sem mundi fylgja jafnmikilli nýrri orku frá nýju orkuveri. Þetta er eins og lögmálið um endurnýjun vörubirgða.

Fyrri mistök í samningum við Alusuisse hafa dregið hættulega úr áhuga Íslendinga á stóriðju. Ef nú í fjórða sinn tekst ekki að ná mannsæmandi samningum, er tímabært að strika yfir áldrauminn. Samningamenn ættu því að snúa sér að samningum og hætta að reyna að blekkja okkur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Noregur sveik okkur.

Greinar

Allar líkur benda til, að Noregur hafi svikið Ísland í Jan Mayen málinu. Hvert einstakt atriði er ekki fullt sönnunargagn, en sameiginlega leiða líkurnar til þeirrar óhjákvæmilegu niðurstöðu, að norsk stjórnvöld hafi svikið samkomulagið um Jan Mayen.

Í fyrsta lagi skýrðu norskir fjölmiðlar frá því fyrr í sumar, að norsk og dönsk stjórnvöld hefðu samið um veiðiheimildir fyrir Dani á Jan Mayen svæðinu. Var skrifað um þetta eins og hvert annað samkomulag, sem ríkisstjórnir gera um ýmis hagsmunamál.

Þegar Íslendingar fóru að malda í móinn og benda á, að samkvæmt samningi Íslendinga og Norðmanna gætu Norðmenn ekki einhliða gefið slík leyfi, sneru norsk stjórnvöld við blaðinu og héldu því blákalt fram, að alls ekki neitt samkomulag hefði verið gert við Dani.

Í öðru lagi hefur Árni Gíslason, útgerðarmaður í Danmörku, sagt, að Norðmenn og Danir hafi gert þegjandi samkomulag um svokallað gráa svæði, það er svæðið frá miðlínu milli Grænlands og Jan Mayen austur að 200 mílna mörkum frá Grænlandi. Og þar er einmitt veitt núna.

Í þriðja lagi er komið í ljós, að norsk varðskip á þessum slóðum hafa fyrirmæli um að vera norskum skipum til aðstoðar, en að skipta sér ekki af veiðum erlendra skipa. Þar með er ljóst, að koma norskra varðskipa á miðin á ekki að þjóna neinni landhelgisgæzlu.

Vegna þeirra staðreynda, sem hér hafa verið raktar, er óhætt að fullyrða, að einkar ógeðfellt er svar norskra stjórnvalda við fyrstu mótmælum íslenzkra stjórnvalda. Líta má á það sem eins konar Júdasarkoss. Innihald þess er fjarri staðreyndum.

Í svarinu fullyrtu norsk stjórnvöld, að ekki hafi verið gert neitt samkomulag við dönsk og að norsk varðskip yrðu send á miðin til eftirlits. Með bréfi þessu blekktu þau utanríkisráðherra okkar, sem lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu, að svarið væri jákvætt.

Nú er komið í ljós, að bréf norsku stjórnarinnar var að mestu leyti hrein lygi. Íslenzka utanríkisráðuneytið hefur sent viðeigandi mótmæli til Noregs og Danmerkur, sem svarað verður með meiri lygi. Og vandi okkar nú er að velja þessu viðbrögð við hæfi.

Stungið hefur verið upp á, að Ísland sendi varðskip á þessi mið til að halda uppi gæzlu umsaminna hagsmuna okkar. Þau gætu hrakið dönsku og færeysku skipin vestur yfir, en um leið magnað ágreininginn. Þessa hættulegu leið má fara, en að loknu vel athuguðu máli.

Færeyjum getum við auðveldlega svarað með því að lýsa yfir brottfalli veiðiheimildanna, sem þær hafa í fiskveiðilögsögu Íslands. Vegna framgöngu Færeyinga í málinu eiga þeir ekki annað skilið. Hins vegar eigum við fátt vopna eða skiptimyntar gegn Dönum og Efnahagsbandalaginu.

Við hljótum að telja hættu á ferðum, þegar Efnahagsbandalagið hefur einhliða lýst yfir 105 þúsund tonna laxakvóta handa sér á þessu svæði. Hyggst bandalagið til dæmis framselja þennan ímyndaða kvóta Sovétríkjunum gegn gjaldi eða í skiptum fyrir annað?

Við munum halda því stíft fram, að Noregur beri einn tjónið af þegjandi samkomulagi við aðra aðila, enda hafa norsk stjórnvöld ekki beitt varðskipum sínum. En óneitanlega er hart að sæta svikum nágranna við gerða samninga og þar á ofan óheiðarlegum bréfum þeirra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gerilsneyddur Stóri bróðir.

Greinar

Eitt af því, sem hefur á liðnum árum dregið úr óbeit manna á Grænmetisverzlun landbúnaðarins, er, að þeir hafa getað farið þangað og valið sér kartöflur í lausri vigt. Þannig hefur fólk keypt þær kartöflur, sem það vildi, og forðazt hinar, sem fljóta með í pokana.

Eftir að kartöfluverzlunin varð hálffrjáls í vor, hafa neytendur átt þess kost í mörgum búðum að kaupa kartöflur með sama hætti og gert er í útlöndum. Þeir hafa getað valið á milli kartöflutegunda á mismunandi verði, gæðum og stærð – og síðan milli einstakra kartaflna.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins vill meina okkur að kaupa kartöflur á þennan hátt. Það hefur dustað rykið af reglugerð um, að hvorki megi selja kartöflur ópakkaðar né í neti. Þær verði að vera í lokuðum pokum, það er að segja óséðar eins og þær finnsku í vor.

Vafalaust er það heilbrigðisráðuneytið, sem stendur að baki og vill forða Íslendingum frá svokölluðum sóðaskap og moldryki, sem talið er, að fylgi þeim viðskiptum með kartöflur, er tíðkast í öðrum löndum og við höfum fagnað, að hafa komizt á hér á landi.

Mörg fleiri dæmi eru um, að heilbrigðisráðuneytið vildi helzt gerilsneyða Ísland og Íslendinga, jafnvel þótt sú stefna muni á endanum leiða til þess, að við getum ekki farið til útlanda án þess að falla samstundis fyrir margs konar gerlum, sem við erum óvön.

Fyrir nokkrum árum tókst Stóra bróður í heilbrigðisráðuneytinu að banna sölu á kjúklingum hér á landi öðruvísi en frystum. Þar með var tekin frá okkur náttúruleg vara. Í staðinn fengum við frysta, bragðdaufa og seiga afurð úr verksmiðjum.

Með frystingunni var stefnt að því að spara mönnum rétta og vandaða meðferð viðkvæmrar vöru. Frystingin dregur úr tilfinningu framleiðenda, verzlunarfólks og neytenda fyrir því, að um viðkvæman mat sé að ræða. Færibandahugsunin er í algleymingi.

Sagt er, að gerlar berist með ófrystum kjúklingum til manna. Heilbrigðisráðuneytið ímyndar sér vafalaust, að Íslendingar nagi kjúklingana hráa eða borði þá með tólum, sem áður hafa verið notuð við meðferð hrárra kjúklinga. Þannig hugsar stóri bróðir.

Eitt skærasta ljósið í Hollustuvernd ríkisins, formaður Matsnefndar vínveitingahúsa, hefur skrifað bréf til bezta veitingahússins utan Reykjavíkur. Í bréfinu er gert að skilyrði fyrir fullu vínveitingaleyfi, að “húsgögn í setustofu verði endurnýjuð”, svo að þau verði “samstæðari”.

Í þessari setustofu eru nú gömul og falleg húsgögn af ýmsu tagi, sérstaklega vinaleg og þægileg. Auðvitað stingur slíkt í augu hins gerilsneydda Stóra bróður. Hann vill í staðinn stöðluð nútímahúsgögn, alveg eins og hann vill lokaða kartöflupoka og frysta kjúklinga.

Sama ráðuneyti hefur fengið sérálit sérstakrar bindindisnefndar um, að torveldaður verði aðgangur þjóðarinnar að bæði léttum vínum og sterkum, væntanlega með þeim afleiðingum, að áfengisbölið breytist í fíkniefnaböl. Nema landsmönnum sé ætlað að naga skósvertu eins og á bannárunum!

Hægt væri að gera grín að þessum og öðrum tiltektum, sem beint eða óbeint eru á vegum heilbrigðisráðuneytisins. En því miður er málið alvarlegra en svo. Stóri bróðir gengur hreinlega laus og vill gerilsneyða þjóðfélagið, búa til þjóðfélag, sem ekki þrífst í umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vandanum frestað.

Greinar

Ríkisstjórnin og þingflokkar hennar hafa áttað sig á, að hún getur ekki lengur vikið sér undan aðgerðum til að lina þjáningar sjávarútvegsins. Sumar aðgerðir gærdagsins eru góðar, en aðrar óljósar eða lakari, svona eins og oftast vill verða í slíkum tilvikum.

Ríkisstjórnin hallaði sér um síðir að hinni hefðbundnu niðurstöðu, skuldbreytingu. 500 milljón króna lausaskuldum verður breytt í löng lán. Það er engin lækning í sjálfu sér, en ýtir vandanum fram í tímann. Og um leið kostar það mikla aukningu erlendra skulda.

Við slíka skuldbreytingu skiptir miklu, að ekki séu verðlaunaðir þeir, sem ekki eiga fyrir skuldum. Tímabært er orðið, að vonlaus útgerð fái að andast í friði, jafnvel þótt það kosti bókhaldstjón í ýmsum sjóðum. Það lánsfé er hvort sem er týnt og tröllum gefið.

Grisjun í útgerð eykur svigrúm þeirra, sem áfram hafa bolmagn. Aðgerðir af slíku tagi eru sjávarútveginum mikilvægari en nokkuð annað, næst á undan réttri skráningu krónunnar. Skuldbreyting er gagnslaus til frambúðar, nema henni fylgi grisjun flotans.

Ein af ráðagerðum ríkisstjórnarinnar er að leyfa frestun á greiðslum vaxta og afborgana af skipum, sem láta veiðikvóta sinn af hendi til annarra skipa. Þetta stuðlar sennilega að því, að úrelt skip eða stórskuldug verði tekin úr umferð, – ein leið til grisjunar.

Vafasamar hugmyndir um niðurgreiðslu á olíu náðu ekki fram að ganga. Ríkisstjórnin gælir þó enn við hugmyndir um minniháttar aðgerðir af slíku tagi, svo sem lækkun eða afnám ýmissa opinberra gjalda af olíu. Slíkt er til bóta, en nær sennilega skammt.

Ein millifærsla ríkisstjórnarinnar felst í flutningi peninga af almennum lánamarkaði yfir í afurðalán til sjávarútvegs. Þessi afurðalán eiga að vísu að flytjast í haust frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna. En verða þau á samkeppnishæfum kjörum?

Til þess að leysa vanda sjávarútvegsins þarf að skilja hann. Flestir eru sammála um, að vandræðin felast einkum í, að skipum hefur fjölgað og fiskum fækkað. Þar af leiðandi er umfang sjávarútvegsins of mikið. Lausnir ríkisstjórnarinnar miða ekki nóg að samdrætti sóknar.

Því miður eru ekki allir sammála um hina orsök vandræðanna, en hún er sú, að ríkisstjórnin hefur haft erlendan gjaldeyri á útsölu um margra mánaða skeið. Hið háa gengi krónunnar hefur leitt til óhóflegs innflutnings, óhagstæðs viðskiptajafnaðar og skuldasöfnunar í útlöndum.

Við slíkar aðstæður má fastlega gera því skóna, að erlendur gjaldeyrir sé skráður á of lágu verði. Þegar hins vegar jafnvægi er í útflutningi og innflutningi og skuldum er ekki safnað í útlöndum, má gera ráð fyrir, að gengið sé rétt skráð. Svo er ekki núna.

Krampakennd fastgengisstefna hefur skaðleg áhrif á atvinnulífið. Verst leikur hún útflutningsatvinnuvegina, þar sem sjávarútvegurinn er í broddi fylkingar. Hann fær ekki nógu margar krónur fyrir dollarana, sem hann aflar í útlöndum. Þannig fjármagnar hann fastgengisstefnuna.

Vandræði sjávarútvegsins eru sérstaklega mikil núna, af því að saman fer óhæfilegt umfang útgerðar og útsala á erlendum gjaldeyri. Stjórnaraðgerðir gærdagsins eru fjarri því að vera markviss lausn á þessum vanda. Þær eru fyrst og fremst hefðbundin frestun vandans.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þjóðargjöfin étin enn.

Greinar

“Þegar flogið var með áburðinn, mátti víða sjá árangur baráttu við auðn og grjót, en vinsæll er blessaður nýgræðingurinn hjá sauðfénu, því víða var það að naga hann og helzt þar, sem hann er rétt að koma upp úr urðinni og er á viðkvæmu stigi.”

Þessi nýlega lýsing í dagblaði er eftir fréttaritara, sem fékk að fara í áburðarflug með Landgræðslu Íslands frá Aðaldalsflugvelli. Hann fór með sjálfboðaliðum úr hópi flugmanna Flugleiða, sem hafa kauplaust unnið að þessu í sumarleyfum í nokkur ár.

Í öðru dagblaði stóð um daginn: “Hafsteinn sagði þann 000 hektara blett, sem Landgræðslan hafi sáð í á Eyvindarstaðaheiði í fyrra og í vor, nú alveg hvítan af fé. Þetta er eins og í réttum, alveg kind við kind. … svo verður þetta nauðnagað fyrir veturinn.”

Alþingismenn Íslendinga samþykktu í þjóðernisvímu á ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar fyrir tíu árum að klæða landið gróðri á nýjan leik. Hefja átti skipulega endurgreiðslu á skuld við landið, sem safnazt hafði upp á ellefu alda skógarhöggi og ofbeit.

Síðan hafa menn unnið þindarlaust, sumir á kaupi og aðrir kauplaust, við stórvirka dreifingu fræs og áburðar úr lofti. Árangurinn hefur hins vegar ekki orðið sá, sem til var stofnað. Þjóðargjöfin mikla frá 1974 hefur verið notuð til að fjölga búfé á afréttum.

Hinn hefðbundni landbúnaður á Íslandi hefur étið þjóðargjöfina jafnóðum til að auka framleiðslu á óseljanlegum afurðum, sem losnað er við með óheyrilegum útflutningsuppbótum og niðurgreiðslum. Sjálft landið hefur verið svikið um hina frægu þjóðargjöf.

Fyrir nokkrum árum leiddu umfangsmiklar beitarrannsóknir í ljós, að gróður á afréttum er á hröðu undanhaldi. Stjórnandi þeirra sagði: “Rannsóknir okkar benda til, að það sé of margt sauðfé í landinu eins og dreifingu þess er háttað nú, jafnvel allt að þriðjungi of margt.”

Síðast í ár kom í ljós, að Auðkúluheiði var aðeins fær um að bera búfé, sem svarar til 10.500 ærgilda í stað 20.000 ærgilda beitarþunga, sem heiðin sætti í raun. Þar hefur verið sáð í um 700 hektara af þeim 3.000, sem Landsvirkjun tók að sér til að fá að virkja við Blöndu.

Þannig fara greiðslur Landsvirkjunar ekki til að græða upp land í stað þess, sem fer undir stíflulón. Það fer til að auðvelda bændum að halda áfram á sama tíma og fiskalíf fer að kvikna í nýjum vötnum.

Framkvæmdastjóri Landgræðslu ríkisins sagði í blaðagrein í þessari viku, að menn væru sammála um, “að alvarleg ofbeit hafi verið á Eyvindarstaðaheiði um árabil. Margítrekuðum aðvörunum og leiðbeiningum um gróðurverndaraðgerðir hefur ekki verið sinnt sem skyldi …”.

Þessa dagana eru gildir bændur í Húnaþingi og Skagafirði að reka hross sin á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði, þótt gefin hafi verið út reglugerð um bann við slíku. “Það verður þröngt í tugthúsinu”, sagði formaður þingflokks framsóknarmanna borginmannlega um þann rekstur.

Þjóðin og landið virðast ekki eiga neina vörn gegn ofbeldismönnum, sem eru staðráðnir í að nota hugsjónafé þjóðargjafarinnar og mútufé Blönduvirkjunar til að auka framleiðslu afurða, sem kosta skattgreiðendur tíunda hluta ríkisútgjaldanna og ekki er hægt að koma í verð.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjórar tímasprengjur.

Greinar

Nokkrar tímasprengjur hljóta að verða til umfjöllunar á væntanlegum fundum stjórnarflokkanna tveggja um næstu skref í stjórnarsamstarfinu. Það eru vandamál, sem ríkisstjórnin hefur látið hjá líða að fást við á fyrsta starfsárinu og hlaða nú upp á sig með vaxandi þunga.

Ein tímasprengjan er í sjávarútvegi. Þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar er haldið í sífellt harðari bóndabeygju, annars vegar með útsöluverði á erlendum gjaldeyri og hins vegar með útgerð of mikils skipaflota. Á hvorugum þessum vanda hefur verið snert.

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að létta af hömlum á verzlun með veiðikvóta. Virðist það þó vera einfaldasta leiðin til að fækka skipum í útgerð og auka afla þeirra skipa, sem áfram er haldið úti. Tímabært er orðið, að stjórnvöld stuðli að kvótaviðskiptum.

Formenn stjórnarflokkanna segjast halda fast við hið stöðuga gengi, sem ríkt hefur um margra mánaða skeið. Víst er slík festa gagnleg í baráttunni gegn verðbólgu. En það hefnir sín um síðir að senda sjávarútveginum reikning fyrir herkostnaðinum og setja hann á höfuðið.

Önnur tímasprengjan er í síversnandi lífskjörum nokkurs hluta þjóðarinnar, sem hefur ekki notið neins af launaskriði undanfarinna mánaða. Þessi kjararýrnun stingur mjög í stúf við lífsstíl launaskriðsmanna, sem halda uppi óhagstæðum viðskiptajöfnuði gagnvert útlöndum.

Fyrstu sporin að kjarasamningum haustsins benda ekki til, að hagsmuna undirstéttarinnar í landinu verði gætt í niðurstöðunni. Miklu líklegra er, að öflugir sérhagsmunahópar muni nota tækifærið til að ota sínum tota umfram aðra og að lífskjaramunurinn aukist.

Þriðja tímasprengjan felst í hinni gífurlegu gjá, er hefur myndazt milli tveggja kynslóða, þeirrar sem byggði sér íbúð fyrir neikvæða vexti verðbólguáranna og hinnar, sem nú getur ekki eignazt þak yfir höfuðið, af því að húsnæðislánakerfið hefur ekki verið lagað að nýjum aðstæðum.

Ríkisstjórnin hefur lofað að hafa frumkvæði að endurreisn húsnæðislánakerfisins úr núverandi rjúkandi rústum þess. En ekki hefur bólað á neinum efndum. Á meðan fjölgar sífellt árgöngunum, sem geta ekki byggt. Um síðir eru þeir vísir til að hefna sín á ríkisstjórninni, sem sveik.

Ráðamenn þjóðarinnar hafa sér það til afsökunar, bæði í láglaunahneykslinu og húsnæðishneykslinu, að minnkandi þjóðartekjur þrengi svigrúm til gagnaðgerða. Þjóðfélagið hafi hreinlega ekki fjárhagslegan mátt til að gera allt hið góða, sem menn séu sammála um, að gera þurfi.

Fjórða tímasprengjan felst í, að ríkisstjórnin virðist alls ekki fáanleg til að létta af þjóðinni hinu hrikalega kostnaðarsama böli, sem felst í að tíundu hverri krónu ríkisins er varið til að halda uppi óþarfri og rándýrri framleiðslu hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða.

Enginn vafi er á, að brennsla verðmæta í hinum hefðbundna landbúnaði, er nemur meira en einni Kröfluvirkjun á hverju einasta ári, takmarkar mjög möguleika stjórnvalda til að aftengja allar hinar tímasprengjurnar, sem lýst hefur verið í þessum leiðara.

Því miður benda fyrstu yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna og annarra framámanna þeirra ekki til, að ríkisstjórnin treysti sér til að reyna að aftengja tímasprengjurnar á næstunni. Þar með mun hún safna glóðum elds að höfði sér, hægt en örugglega.

Jónas Kristjánsson.

DV