Greinar

Kredda Verzlunarráðs.

Greinar

Sumar kreddur eru svo grunnmúraðar, að fólk étur þær hugsunarlaust upp hvert eftir öðru. Slíkar hugsanagildrur eru ekki síður í efnahagsmálum en á öðrum sviðum. Fyrir helgina datt Verzlunarráð Íslands í eina slíka. Í tillögum þess um næstu skref í efnahagsmálum segir meðal annars:

“Innlendur landbúnaður getur ekki keppt við innflutning landbúnaðarvara að óbreyttu styrkjakerfi í nágrannalöndunum. Hins vegar ætti innanlandsframleiðslan ekki að vera meiri en svo, að hún fullnægi innlendri eftirspurn í góðu árferði, og ekki komi til útflutnings, heldur verði sveiflur í árferði jafnaðar með innflutningi.”

Hér á landi deila menn þannig um, hvort innlend framleiðsla landbúnaðarafurða eigi að fullnægja innlendri eftirspurn rúmlega eða tæplega. Verzlunarráðið virðist vera á síðari skoðuninni. En hvorki það né aðrir rökstyðja, af hverju slík framleiðsla eigi yfirleitt að miðast við innlendan markað.

Ekki dettur fólki í hug, að sjávarútveginn eigi að miða við innlendan markað. Hann er rekinn sem stóriðja, er keppir við niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa. Markaðurinn innanlands skiptir sjávarútveginn litlu máli. Heimurinn er hans vettvangur.

Auðvitað fögnum við því, að í Bandaríkjunum og víðar skuli þarlend verzlunarráð og aðrir áhrifaaðilar ekki hafa þá stefnu, að þar skuli sjávarútvegurinn tæplega fullnægja innlendri eftirspurn. Þá sætum við uppi með óseljanlegan fisk og búið efnahagsspil.

Ef við höfum á boðstólum vöru eins og fisk, sem getur keppt við niðurgreiddan fisk annarra þjóða, viljum við ekki, að þær loki fyrir okkar fisk, heldur kaupi hann. Ef við svo hins vegar höfum ósamkeppnishæfar landbúnaðarvörur, vill Verzlunarráðið halda lokuðum höfnum hér.

Taka má fleiri dæmi en sjávarútveg og landbúnað. Ekki dettur neinum í hug að framleiða hér á landi bíla eða flugvélar, korn eða ávexti, er ’’fullnægi innlendri eftirspurn í góðu árferði, og ekki komi til útflutnings”, svo notað sé hugsunarlaust orðalag Verzlunarráðs.

Mörg ríki niðurgreiða sumar afurðir sínar, ekki bara landbúnaðarvörur. Evrópuríki greiða niður skip og bíla til að verjast samkeppni Japana og flugvélar og landbúnaðarvörur til að verjast samkeppni Bandaríkjamanna. En í öllum slíkum tilvikum er haldið í fortíðina, ekki horft til framtíðarinnar.

Telur Verzlunarráðið ef til vill ekki, að það mundi bæta lífskjör þjóðarinnar, draga úr ófriði á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni okkar, ef allar landbúnaðarafurðir væru fáanlegar hér á samkeppnishæfu heimsmarkaðsverði í stað núverandi einokunarverðs?

Verzlunarráð ættu að vera fyrstu stofnanir til að átta sig á, að engu ríki er nauðsynlegt að vernda innlenda framleiðslu fyrir niðurgreiddum innflutningi. Niðurgreiðslur á alþjóðavettvangi sýna, að um er að ræða offramleidda vöru, sem skynsamt fólk á ekki að búa til.

Verzlunarráð ættu líka að vera fyrstu stofnanir til að átta sig á, að viðmiðun við innlendan markað er þáttur í innilokunarstefnu, sem allar viðkomandi þjóðir tapa á, bæði þær, sem fá ekki að selja og fá ekki að kaupa.

Margt er viturlegt í hinum nýju tillögum Verzlunarráðs Íslands um ný skref í efnahagmálum. En hugmyndin um, að innlendan landbúnað skuli miða við tæpa innanlandsnotkun, er ekkert annað en hugsunarlaus endurtekning gamallar kreddu, sem of lengi hefur ráðið ríkjum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nærsýn góðmenni.

Greinar

Mörgum góðviljuðum mönnum er illa við þá breytingu á drykkjusiðum þjóðarinnar, sem meðal annars felst í, að út um borg og bý situr fleira fólk en áður í litlum veitingastofum og sötrar annaðhvort létt vín eða eins konar bjórlíki – og heimtar þar á ofan alvörubjór.

Sérstök nefnd hins opinbera hefur skilað bindindissinnuðu áliti um opinbera stefnu í áfengismálum. Þar kennir margra grasa, en mest áherzla er lögð á að torvelda aðgang þjóðarinnar að vínanda og að hækka verð á vörum, sem innihalda þetta umdeilda efni.

Með tveimur tillögum nefndarinnar, annarri um 20% hækkun á víni á veitingahúsum og hinni um 10% viðbótarhækkun á sterku áfengi á veitingahúsum, er óbeint stefnt að því að færa neyzlu víns og áfengis af opinberum stöðum inn í heimahús og að fjölgun næturveizla í svefnhverfum.

Með tillögu nefndarinnar um almenna hækkun víns og áfengis er óbeint verið að stuðla að því að út um borg og bý verði meira af matarpeningum margra fjölskyldna notað til kaupa á vörunum, sem hrella nefndina svo mjög. Þetta mun koma niður á mörgum börnum þessa lands.

Með tillögu nefndarinnar um torveldaðan aðgang þjóðarinnar að víni og áfengi er óbeint verið að ýta neyzluvenjum fólks yfir í önnur efni, það er að segja bæði veik og sterk fíkniefni, sem eru í vaxandi mæli á boðstólum hér á landi, seljendum þeirra til ómælds hagnaðar.

Með tillögu nefndarinnar um bann við heimilisiðnaði er reynt að sporna gegn því, að þjóðin geti sjálf bætt sér upp torveldari aðgang að dýrara víni, bjór og áfengi, en um leið auðvitað óbeint stefnt að því, að fólk afli sér bruggunartækja og efnis á ólöglegan hátt.

Svo er líka margt fyndið í tillögum nefndarinnar, til dæmis að þeir, sem sviptir hafa verið ökuleyfi vegna ölvunar einnar, geti fengið það aftur, þegar þeir geti lagt fram vitnisburði tveggja valinkunnra manna, að þeir hafi þá ekki neytt áfengis í tvö ár!

Enginn vafi er á, að nefndarmenn eru í fullri alvöru og og miklum góðvilja að reynda að bæta þjóðfélagið með því að fá Íslendinga ofan af grunnmúruðum ósið, sem hefur fylgt mannkyninu í að minnsta kosti sex þúsund ár. En þeir eru um leið afar óraunsæir.

Raunar er einkennilegt, að nefndin sjálf og þeir, sem völdu bindindismennina á hana, skuli ekki átta sig á, að hluta af menningarsögu heimsins verður ekki útrýmt með þessum hætti. Gagnlegra hefði nefndinni verið að kynna sér mjög svo misjafna meðferð þjóða á víni og áfengi.

Með torveldari aðgangi að víni og áfengi, með hækkun verðs á víni og áfengi, með banni við áfengum bjór og með banni við heimilisiðnaði á þessum sviðum fæst sú niðurstaða ein, að alls konar ólögleg starfsemi færir út kvíarnar og eykur gróðamöguleika sína.

Ef tillögur hinnar bindindissinnuðu nefndar yrðu að veruleika, mundi verksvið ýmissa ólöglegra athafna margfaldast svo hér á landi, að mafíur og aðrir alþjóðlegir glæpahringir mundu fá aukinn áhuga á Íslandi. Mafían náði sér einmitt á strik í Bandaríkjunum á bannárunum.

Ekkert er við það að athuga, að góðviljað fólk láti að sér kveða. En raunveruleikinn vill oftast og raunar nærri alltaf verða annar en draumsýnin gerði ráð fyrir. Þess vegna er stjórnvöldum ekki ráðlegt að taka mark á sérdeilis nærsýnum tillögum af því tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvíhöfða óvinur útgerðar.

Greinar

Til lengdar getur ekki gengið að halda sjávarútveginum í núverandi bóndabeygju. Útgerð og fiskvinnsla verða að fá tækifæri til að halda áfram að vera hornsteinn atvinnulífs þjóðarinnar, því að annan hornstein höfum við ekki, að minnsta kosti ekki í náinni framtíð.

Tvo óvini á sjávarútvegurinn. Í fyrsta lagi stjórnvöld margra síðustu ára, sem hafa með ýmsum fyrirgreiðslum látið flotann vaxa of mikið. Og í öðru lagi núverandi stjórnvöld, sem halda niðri tekjum sjávarútvegsins til að auðvelda sér baráttuna við verðbólgu.

Með ofsetningu skipa á fiskistofnana er verið að búa til eins konar landbúnaðarvanda í sjávarútvegi. Skipunum verður að fækka sem skjótast, svo að jafnvægi náist milli sóknar og stofna og sjávarútvegurinn nái sínu eðlilega ástandi sem arðbær atvinnuvegur.

Kvótakerfinu hefur ekki tekizt að minnka flotann. Þvert á móti virðist það stuðla að áframhaldandi útgerð sem flestra skipa. Ekki bætir úr skák, að sala kvóta og önnur tilfærsla þeirra hefur sætt skaðlegum hömlum og óréttmætri gagnrýni sem eins konar spilling.

Ef kvótakaup fengju að ýta verstu taprekstrar-útgerð- inni úr spilinu, mætti ætla, að róðurinn léttist hjá hinum. Afkoma sjávarútvegsins yrði betri en hún er nú. Og alls ekki má efla vitleysuna með uppbótum og millifærslum eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera.

Stuðningur við hinn vonlausa hluta sjávarútvegsins hefur svo búið til hina sérkennilegu stöðu, að sumir fullyrða, að lækkað gengi krónunnar hjálpi ekki útgerðinni. Þessi kenning er dæmi um, hversu annarlegt ástandið getur orðið, jafnvel í sjávarútvegi.

Útgerðin er sögð svo skuldug í erlendum gjaldeyri og sögð nota svo mikla olíu í erlendum gjaldeyri, að gengislækkun hjálpi henni ekki. Þetta gildir auðvitað ekki um venjulega útgerð, heldur eingöngu um útgerð grínistanna, sem gera út á ríkisstjórn og opinbera sjóði.

Þar með er líka komið að hinum þættinum, sem heldur sjávarútveginum niðri. Ríkisstjórnir, sem berjast við verðbólgu, telja sig þurfa að halda gengi krónunnar stöðugu. Það er skynsamlegt upp að vissu marki, en getur líka orðið dýrkeypt, þegar það gengur út í öfgar.

Í erfiðu varnarstríði gegn verðbólgu kemur oft að því, að ríkisstjórnir neita að viðurkenna, að baráttan hefur ekki borið árangur og atvinnulífið hefur skekkzt. Þá er áfram haldið dauðahaldi í stöðugt gengi til að varðveita þá ímyndun, að baráttan standi enn.

Þetta gerist alltaf á kostnað sjávarútvegsins. Atvinnugrein, sem í eðli sínu er hin arðbærasta, stendur andspænis hraðvaxandi skuldasúpu. Ríkisstjórnir reyna af veikum mætti að bjarga málum í horn með millifærslum og uppbótum. Sú heimska er einmitt að gerast núna.

Ríkisstjórnir eru hinn tvíhöfða óvinur sjávarútvegsins. Þær draga skóinn niður af útgerðinni með því að auðvelda auralausum grínistum að kaupa óþörf og skaðleg skip. Og þær láta sjávarútveginn greiða herkostnaðinn af mistökunum í baráttunni við verðbólgu.

Ef sjávarútvegurinn fengi að njóta eðlilegrar stærðar, ekki of mikillar, og ef hann fengi jafnan rétt gjaldeyrisskil fyrir afurðir sínar, ekki of lág skil, – þá sæist fljótlega, að í eðli sínu er hann hagkvæmasti, arðbærasti og öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Röngum aðferðum beitt.

Greinar

Fyrsta áratug þessarar aldar hafði Íslandsráðherra sextánföld verkamannalaun og sæmilegur kaupmaður hafði tuttuguföld verkamannalaun í hreinar tekjur. Þá voru árstekjur verkamannsins 500 krónur, ráðherrans 8.000 krónur og kaupmannsins 10.000 krónur.

Með vaxandi velmegun á þessari öld jöfnuðust tekjur manna og stéttaskipting minnkaði. Þjóðfélagið varð smám saman að einni stórri miðstétt. Sárafáir voru bónbjargamenn og sárafáir ofsaríkir í þeim stíl, sem þekktist í útlöndum. Íslendingar urðu jafningjar.

Líklega hefur þessi þróun náð hámarki snemma á sjöunda áratugnum. Sá tekjumunur, sem áður var tuttugufaldur, var þá ekki orðinn nema fimmfaldur. Íslendingar voru stoltir af því að hafa komið sér upp þjóðfélagi, þar sem stéttaskipting var að mestu úr sögunni.

Síðustu árin hafa svo sézt merki þess, að tekjuskipting og stéttaskipting fari vaxandi á nýjan leik. Hún felst ekki í, að hinir bezt stæðu hafi stungið fjöldann af, heldur í hinu, að hinn vel stæði fjöldi hefur skilið eftir um 10% þjóðarinnar í lífsgæðakapphlaupinu.

Breytingin varð hraðari eftir að þjóðartekjur fóru að minnka fyrir svo sem tveimur árum. Á þessum samdráttartíma hefur hinum vel stæðu tekizt að halda sínum lífskjörum, en samdrátturinn komið í auknum þunga niður á þeim, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Gagnaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafa mistekizt. Tilraunir til að þrengja launastiga hafa ekki borið árangur. Og samningsbundin eða lögbundin lágmarkslaun hafa gersamlega brugðizt þeim vonum, sem góðviljaðir menn hafa bundið við þau.

Enginn hefur ráðið við launaskriðið, sem eflist sjálfkrafa við þær aðstæður, sem verið hafa í tvö ár. Hinir betur settu hafa fengið kjarabætur umfram aðra, af því að fyrirtækin vilja ekki missa þá. Þeir halda sínum lífskjörum meðan lífskjör annarra rýrna.

Í Þjóðhagsstofnun er áætlað, að launaskrið verði um 4% á þessu ári. Þar sem sumir njóta einskis launaskriðs, er prósentan í raun hærri hjá þeim, sem skriðsins njóta. Og þetta launaskrið gerir meira en að éta upp möguleika atvinnulífsins á að bæta lífskjörin.

Launaskrið er ekki hægt að banna. Það gerist af sjálfu sér, af því að sumir eru fyrirtækjunum mikilvægari en aðrir. Það getur verið vegna verðleika, menntunar, reynslu, forréttinda eða tilviljunar. Fyrirtækin sjá um, að þetta fólk fari ekki til starfa hjá öðrum.

Gagnaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðsins hafa ekki byggzt á niðurstöðum könnunar Kjararannsóknanefndar í vetur. Þar kom í ljós, að vandamálið var félagslegt. Hin fátæki tíundi hluti þjóðarinnar fólst í fjölskyldum einstæðra foreldra og barnmörgum fjölskyldum.

Ef frá eru taldir öryrkjar og ellilífeyrisþegar, geta aðrir haldið sér í hinni vel stæðu miðstétt, annaðhvort vegna verðleika, menntunar, reynslu, forréttinda og tilviljunar, – eða með aukavinnu, – eða með því að fyrirvinnur fjölskyldunnar eru fleiri en ein.

Bæði hér og annars staðar hefur margoft verið bent á, að vænlegasta leiðin til að bæta kjör undirstéttarinnar er annars vegar að auka elli- og örorkubætur og hins vegar að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur. Á þann hátt megi minnka stéttaskiptingu á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV

Afnemum undanþágurnar.

Greinar

Herstöðin á Keflavíkurflugvelli er hvorki bandarískt sendiráð né bandarískt land. Hún er íslenzkt land, sem hefur um sinn verið lánað endurgjaldslaust til eftirlitsþarfa varnarbandalags, sem þorri Íslendinga styður heils hugar. Þar eiga að gilda íslenzk lög og íslenzkar reglur.

Því miður hafa þar verið veittar víðtækar undanþágur, sem tímabært er að afturkalla. Um leið þarf að skrúfa fyrir ýmsa spillingu, er byggist á þessum undanþágum, þar á meðal hermangið, sem felst í að ekki eru boðin út verk og siglingar á heilbrigðan hátt.

Í rauninni er fáránlegt, að íslenzk króna skuli ekki vera gjaldmiðill þessa hluta Íslands eins og annarra hluta. Viðskipti, launagreiðslur og bókhald á Keflavíkurflugvelli eiga að fara fram í krónum. Aðrar myntir eiga þar ekki erindi, meðan þær gilda ekki annars staðar í landinu.

Einnig er fáránlegt, að skattar, tollar og aðrar skyldur skuli ekki gilda á Keflavíkurflugvelli á sama hátt og í öðrum hlutum landsins. Á þessum sviðum gildir hæði að láta íslenzk lög gilda og að koma í veg fyrir spillingu, sem fylgir smygli út fyrir vallargirðingu.

Til dæmis ber að innheimta full aðflutningsgjöld af öllum vörum, nema beinum hernaðartækjum. Ennfremur bensíngjald og bifreiðaskatt. Svo og lögboðin tryggingagjöld. Einnig söluskatt og öll hin smáu og hugvitssamlegu gjöld, sem stjórnvöld hér hafa fundið upp.

Fáránlegt er, að lög og reglugerðir um innflutningsbann á ýmsum matvælum skuli ekki gilda á Keflavíkurflugvelli. Reglur þessar eru sagðar eiga að hamla gegn smiti og sjúkdómum. Meðan þær gilda í landinu í heild, eiga þær líka að gilda á þessum bletti þess.

Að vísu eru margir þeirrar skoðunar, að þessar hömlur séu óþarfar og jafnvel skaðlegar, eins og bannið við notkun á erlendum gjaldmiðlum innanlands. En hugsanlegt afnám slíkra hamla ætti þá að gilda fyrir landið í heild og ekki fyrir lítinn hluta þess.

Ennfremur er fáránlegt, að byggingaframkvæmdir, siglingar og önnur verk á vegum herstöðvarinnar skuli ekki hlíta siðferðilegum reglum frjálsra útboða. Við eigum ekki að þurfa að horfa á illa fengið hermangsfé að Höfðabakka 9, við anddyri Reykjavíkur.

Loks er fáránlegt, að Íslendingar skuli ekki með skipulegum hætti þjálfa fólk til að taka að sér margvísleg störf, sem nú eru unnin af útlendingum, önnur en rekstur ratsjár- og fjarskiptastöðvar, flugsveitar, ratsjárflugvéla og hergagnavarðveizlu.

Íslendingar eiga að taka að sér verklega framkvæmdadeild eftirlitsstöðvarinnar, birgðadeild, bókhald og endurskoðun, sjúkrahús, tómstundastofnanir, verzlunarmiðstöð, skemmtistaði, flugvélaviðgerðir og hluta flugrekstrar, svo að ýmis borgaraleg störf séu nefnd.

Tímabært er að endurskoða alla þessa hluti í kjölfar athyglinnar, sem hefur beinzt að yfirtöku bandarísks skipafélags á hermangi íslenzkra skipafélaga. Heiðarleg útboð á þeim vettvangi eiga að vera eðlilegur þáttur í ofanrakinni siðvæðingu á Keflavíkurflugvelli.

Íslendingar taka mikla áhættu af því örlæti að lána vinaþjóðum sínum endurgjaldslausan aðgang að hluta lands síns. Þeirri greiðasemi á fyrir engan mun að fylgja hið minnsta afsal á lögum þeim, reglugerðum og siðvenjum, sem gilda fyrir Ísland í heild. Undanþágurnar á að afnema.

Jónas Kristjánsson.

DV

Einokun eykst.

Greinar

Landbúnaðarmafían fullyrðir, að hækkun kjarnfóðurgjalds úr 19% í 89% sé tilraun til að draga úr offramleiðslu á mjólk. Ekki er aðgerðin þó áhrifameiri en svo, að í undirbúningi er aukin mjólkurframleiðsla á búi framleiðsluráðsmannsins á Hálsi og ráðherrans í Seglbúðum.

Hægt er að benda á mun áhrifameiri aðgerðir til að minnka mjólkurframleiðsluna. Til dæmis mætti hætta að niðurgreiða áburð með hinu fáránlega lága orkuverði til Áburðarverksmiðjunnar. Ennfremur mætti einfaldlega lækka verð til neytenda á mjólk og mjólkurvörum.

Kjarnfóðurgjald hefur hins vegar fyrst og fremst áhrif á framleiðslu eggja, kjúklinga og svína. Í þessum greinum er langmest notað af kjarnfóðri. Hin gífurlega hækkun gjaldsins mun einkum hafa þau áhrif, að egg, kjúklingar og svínakjöt hækka í verði.

Þegar landbúnaðarráðherra ákveður að stórhækka kjarnfóðurgjaldið samkvæmt tillögu Framleiðsluráðs hinna hefðbundnu greina landbúnaðarins, er hann fyrst og fremst að reyna að færa neyzlu frá kjarnfóðurgreinunum yfir í hinar hefðbundnu greinar kúa og kinda.

Um leið er stefnt að auknum tökum landbúnaðarmafíunnar á bændum í ræktun svína og alifugla. Það gerist á þann hátt, að hluta kjarnfóðurgjaldsins er skilað til baka í verkefni, sem njóta náðar mafíunnar. Við höfum þegar séð dæmið af eggjadreifingarstöðinni.

Í Kópavogi er verið að reisa stöð fyrir peninga, sem neytendur hafa í rauninni greitt, því að það eru þeir, sem að lokum borga kjarnfóðurgjaldið í hærra vöruverði. Að þessari stöð standa hinir þægari eggjabændur, sem eru þóknanlegir hinum einokunarsinnuðu.

Ætlunin er að þröngva hinum óþægari eggjabændum smám saman inn í þessa stöð. Niðurstaðan á að vera, að “jafnframt yrði undirboðum hætt”, svo sem einn blaðafulltrúa mafíunnar játaði í nýlegri lofgrein um eggjadreifingarstöðina. Fá orð hans segja langa sögu.

Einokunarlið landbúnaðarmafíunnar vill koma eggjaframleiðslu í sama ofsadýra skipulagið og ríkir í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins. Það vill hindra, að stórtækir eggjabændur geti blómstrað með tækni og hagræðingu og lækkað eggjaverð í landinu.

Athyglisvert er, að á tímum, þegar frjálsræði fer vaxandi á ýmsum sviðum, er einokun að færa út kvíarnar á öðrum sviðum. Á sama ári og miklar sprungur hafa myndazt í einokun á kartöflum er verið að koma á fót einokun í eggjum, þar sem áður ríkti frelsi.

Furðulegt er, að sex ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skuli ekki geta haldið aftur af einokunarstefnu landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Í þessum ráðherrum á þjóðin ekki nokkra vörn, þegar hagsmunir landbúnaðarmafíunnar eru í húfi. Þá blaktir einokunin.

Neytendur hafa enga pólitíska vörn í eggjastríðinu, sem einokunarliðið hefur blásið til. Hið eina, sem þeir geta gert, er að treysta á sjálfa sig. Þeir geta hafnað eggjum einokunarinnar og eingöngu keypt egg frá hinum frjálsu, sem enn hafna fjötrunum.

Alveg eins og í kartöflunum geta neytendur brotið eggjaeinokunina á bak aftur. Það mundu neytendur í útlöndum gera, ef þröngva ætti upp á þá einni dreifingarstöð með einu verði. Þeir geta neitað að skipta við einokunarstöðina, sem landbúnaðarmafían er að þröngva upp á þá.

Jónas Kristjánsson.

DV

Aronskan er útbreiddust.

Greinar

Höfundur nýbirtrar skoðanakönnunar um varnarliðið og Atlantshafsbandalagið segir drýgindalega í innganginum, að þetta sé “fyrsta fræðilega spurningarannsóknin” á íslenzkum stjórnmálaviðhorfum. Eins og svo margir telur hann sig þurfa að lasta aðra til að hrósa sjálfum sér.

Höfundurinn er þó ekki fræðilegri en svo, að hann birtir ekki mælikvarða sinn á stjórnmálaáhuga hinna spurðu, þótt hann sé með töflur um “mikinn”, “nokkurn”, “lítinn“ og “engan“ áhuga á stjórnmálum. Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Eigi að síður er skoðanakönnun hans afar mikilvæg, einkum af því að hún staðfestir fyrri kannanir um sama efni og gerir það með öðrum aðferðum. Þurfa menn því ekki lengur að efast um, hvernig þjóðin skiptist í afstöðunni til varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins.

Í könnun, sem gerð var fyrir sextán árum, 1968, kom í ljós, að 63% þjóðarinnar studdu dvöl varnarliðsins og 37% voru á móti. Árið 1980 voru hlutföllin 64% og 36%. Og í fyrra fann DV, að hlutföllin voru 64% og 36%. Í nýbirtu könnuninni eru hlutföllin einnig 64% og 36%.

Þótt margir kjósendur hafi andazt og aðrir náð kosningaaldri á þessum sextán árum, hafa viðhorfin í heild ekki breytzt. Komin er festa á það hlutfall, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar styðji dvöl varnarliðsins og einn þriðji hennar sé dvölinni andvígur.

Fyrir sextán árum voru 73% þjóðarinnar fylgjandi aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. Í fyrra mældi DV þessi hlutföli 79% og 21%. Og í nýbirtu könnuninni eru hlutföllin 80% og 20%. Fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru og hafa verið stuðningsmenn aðildarinnar.

Það eru heldur ekki nýjar fréttir, að meirihluti þjóðarinnar styðji svokallaða aronsku og vilji hagnast með einhverjum hætti á dvöl varnarliðsins. Samkvæmt nýbirtu könnuninni fer þessi hópur vaxandi frekar en hitt og telur nú um 63% þjóðarinnar á móti 29%, en 9% hafa blendna afstöðu.

Aronskan hefur stuðningsmenn meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka og bæði meðal þeirra, sem eru með og á móti varnarliðinu og Atlantshafsbandalaginu. Hlutfallslega fjölmennastir eru þeir þó meðal þeirra, sem styðja þessar stofnanir og flokkana, sem þær styðja.

Hugsjónirnar að baki núverandi stöðu eru samkvæmt þessu ekki öflugar. Að vísu eru öflugri hugsjónir með en móti Atlantshafsbandalaginu. En hugsjónir með varnarliðinu eru ekki öflugri en þær, sem eru á móti. Hinir hugsjónadaufu eru fjölmennasti hópurinn.

Sumir styðja til dæmis dvöl varnarliðsins, þótt þeir telji hervarnir ekki nauðsynlegar hér á landi. Telja þeir þá væntanlega, að Keflavíkurflugvöllur sé eftirlitsstöð, en ekki varnarstöð og að rétt sé að veita bandalagsþjóðum slíka aðstöðu hér á landi.

Þessir menn munu telja sig raunsæja frekar en hugsjónamenn. Það gildir auðvitað einnig um þá, sem styðja aronskuna. Þeir telja, að fyrir greiðasemi Íslendinga við bandalagsþjóðirnar megi koma gjald, enda sé Keflavíkurflugvöllur frekar í þágu þeirra en okkar.

Þar sem allir stjórnmálaflokkarnir hafa barizt gegn hugmyndum af þessu tagi, er athyglisvert, að ný skoðanakönnun skuli staðfesta, að aronskan er útbreiddasta skoðunin í viðhorfum Íslendinga til varnarmála. En það eru hins vegar engar nýjar fréttir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skýrar línur eru beztar.

Greinar

Þrátt fyrir hin langvinnu vandamál, sem fylgt hafa álverinu í Straumsvík, er samstarfsform ríkisins og útlendinga á þeim stað mun heppilegra en önnur form, sem reynd hafa verið eða rætt hefur verið um. Bezt er, að Íslendingar eigi orkuna og hinir erlendu aðilar stóriðjuna.

Við vitum, að íslenzkir samningamenn hafa stundum farið halloka í viðskiptum við Svisslendinga. Við vitum, að hinir síðarnefndu hafa reynzt frekir til fjárins. Og við vitum ekki, hvernig nú muni ganga tilraunir okkar manna til að leiðrétta illa skekkt orkuverð.

Eigi að síður eru línurnar skýrar í þessum viðskiptum. Við sitjum öðrum megin við borðið og þeir hinum megin. Við reynum að fá sem mest fyrir orkuna og þeir reyna að borga sem minnst. Þetta er venjulegt viðskiptaform, sem við hljótum að geta lært eins og aðrir.

Ekki eru fýsilegar nýjustu hugmyndir um, að hinir erlendu aðilar gerist líka aðilar að orkunni. Þær brjóta í bága við gamlan og gróinn þjóðarvilja, sem segir, að orkan skuli sem auðlind ætíð vera í eigu Íslendinga einna. Ekkert bendir til, að álit almennings á þessu hafi breytzt.

Ástæðan fyrir þessum hugmyndum er óttinn við, að virkjun á orku fyrir stóriðju muni auka hættulega mikið skuldir okkar í útlöndum, sem séu þegar orðnar of miklar. En þessi hætta ætti raunar að kalla á önnur viðbrögð en þau, að við látum útlendinga fjármagna virkjanir.

Hinn mikli fjármagnskostnaður orkuvera og tilheyrandi skuldasöfnun í útlöndum á að kenna okkur að fara varlega í samninga um stóriðju og að semja alls ekki um orkuverð, sem ekki nægir til að standa undir vöxtum og afborgunum af nýjum orkuverum.

Ekki er nóg, að orkuverðið standi undir gömlum og hálfafskrifuðum orkuverum, sem reist voru á hagkvæmari tímum. Verðið þarf að geta staðið undir jafngildum orkuverum, sem reist eru á samningstíma orkuverðsins, hugsanlega við verri aðstæður en hin fyrri.

Alveg eins óæskileg og eignaraðild útlendinga að orkuverum er óæskileg eignaraðild íslenzka ríkisins að stóriðjunni. Reynslan frá Grundartanga sýnir, að ríkið getur illa leikið það tvöfalda hlutverk að vera bæði seljandi og kaupandi orkunnar.

Við þær aðstæður skortir hinar skýru línur, sem eru í sambúðinni við Alusuisse í Straumsvík. Enda er þegar farið að koma í ljós, að erfiðara verður að koma upp sanngjörnu orkuverði til Grundartanga en Straumsvíkur. Höfum við ekki líka dæmið af Áburðarverksmiðjunni?

Ekki er viturlegra það afbrigði stefnu eignaraðildar að stóriðju, sem felst í kröfunni um íslenzka meirihlutaeign. Slík stefna er til þess eins fallin að soga brott stórfé, sem betur ætti heima í uppbyggingu atvinnu í léttari greinum iðnaðar.

Það er staðreynd, að sérhvert atvinnutækifæri í stóriðju er margfalt dýrara og sumpart mörgum tugum sinnum dýrara en atvinnutækifæri í léttum iðnaði á borð við laxarækt og tölvugerð. Við eigum að nota okkar takmarkaða fé í léttan iðnað fremur en í stóriðju.

Við eigum að láta útlendinga um að fjármagna hin dýru atvinnutækifæri í stóriðju. Við eigum einnig að hvetja þá til þess, svo að við fáum aukinn arð af orkunni, sem nú rennur að mestu arðlaus til sjávar. En við megum ekki heldur gera fleiri mistök í samningum um orkusölu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skjótráður sendiherra.

Greinar

Danska sendiráðið brá hart við, þegar starfsmaður um borð í dönsku herskipi hafði í ölæði unnið spjöll á reykvískum skemmtibáti. Það fékk skaðann bættan af opinberri hálfu, þótt áhöld væru um, hvort slíkt væri skylt. Auk þess bauð sendiherra tjónþola í mat með danska forsætisráðherranum.

Með þessu framtaki hefur sendiráðið eflt álit Danmerkur hér á landi. Það hefur snúið óþægilegu máli sér og landi sínu í hag. Starfslið þess hefur sýnt, að utanríkisþjónusta getur verið annað og meira en hefðbundinn menúett prótókollstjóra, sem snúast um sjálfa sig.

Franski sendiherrann hefur ekki staðið sig eins vel í starfi og hinn danski starfsbróðir hans. Franskir einstaklingar urðu að grípa fram fyrir hendur hans og bæta ungum drengjum bolta, sem hafði villzt inn á lóð sendiherrans og hann vildi ekki skila.

Ekki var nóg með, að franski sendiherrann vildi ekki skila boltanum. Þar á ofan kvartaði hann við utanríkisráðuneytið yfir framferði drengjanna, sem misstu boltann inn á lóðina. Af öllu þessu hefur hann orðið að maklegu aðhlátursefni í fjölmiðlum.

Franska sendiráðið hefur á liðnum árum oftar en einu sinni komizt í fréttir og þá sjaldnast á jákvæðan hátt. Lögreglan hefur til dæmis þurft að hafa afskipti af drukknum sendiráðsmönnum undir stýri. Þeir hafa jafnan hlaupið í fang hinnar diplómatísku friðhelgi.

Gera má ráð fyrir, að máttugt ríki eins og Frakkland telji sér skylt að hafa sendiráð í öllum ríkjum heims, jafnvel þótt verkefni margra slíkra sendiráða séu næsta lítil. Tímanum er þá eytt í hinn hefðbundna menúett, ef eigin málstaður er ekki beinlínis skaðaður, svo sem hér hefur gerzt.

Íslenzka utanríkisþjónustan getur lært af hyldýpinu, sem er á milli framgöngu danska og franska sendiherrans hér á landi. Hún þarf að gæta þess að halda sér við efnið, en leiðast ekki út í hinn innihaldslausa menúett, sem víða er stiginn á þessum vettvangi.

Sérstaklega ber að varast að kosta miklu til að halda uppi formsatriðum í samskiptum við fjarlæg utanríkisráðuneyti. Það hefur því miður færzt í vöxt, að sendiherrar á nytsamlegum stöðum séu látnir sóa tíma og fé í viðamiklar reisur til fjarlægra staða.

Íslenzkur sendiherra varði öllum febrúarmánuði þessa árs til að afhenda embættisskilríki sín í Nýju Dehli og stíga flókinn menúett, sem slíku virðist fylgja. Þar heimsótti hann meðal annars sendiherra ýmissa erlendra ríkja og bauð þeim til sín á móti.

Þess á milli var rætt um fjarstæðukennd atriði eins og gagnkvæm skipti á ferðamönnum, indverska þátttöku í álveri á Íslandi og íslenzka þátttöku í kaupstefnu í Indlandi, norrænt hús í Nýju Dehli, auk fróðlegra skoðanaskipta um gagnsemi Cambridge-háskóla.

Íslenzka sendiherranum, öðrum sendiherrum og indverskum embættismönnum hlýtur að hafa leiðst þessi menúett, sem allir stigu af stakri skyldurækni. Ef svo eitthvað kemur fyrir Íslending í Indlandi, mun hann hér eftir sem hingað til leita ásjár danska sendiráðsins.

Fámenn þjóð verður ekki bara að gæta þess að hafa ekki neikvæða utanríkisþjónustu eins og Frakkar hafa hér á landi, heldur að forðast einnig tilgangslausan menúett í fjarlægum löndum. Hún á að vera þar, sem hagsmunir eru í húfi, og þá eins skjótráð og danski sendiherrann á Íslandi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stöðnun er dýr í rekstri.

Greinar

Varið er í sumar 116 milljónum króna til að leggja sjálfvirkan síma í 620 sveitabæi. Það eru um 130 þúsund krónur á hvern síma. Þetta er lítið dæmi af mörgum um hinn mikla mun, sem er á kostnaði við fjárfestingu í sveitum annars vegar og ýmiss konar þéttbýli hins vegar.

Miklar fjárhæðir eru lagðar í vegagerð, sem ekki þjónar samgöngum milli þéttbýliskjarna. Mörg dæmi eru um, að dýrar brýr hafi verið smíðaðar til að bæta samgöngur til eins eða tveggja sveitabæja. Stundum sitja brýrnar einar eftir, því að fólkið hefur flutt í kaupstað.

Margfalt dýrara er að leggja hitaveitu í strjálbýli en í þéttbýli. Hið opinbera hefur einnig á því sviði komið til skjalanna. Í ár er varið af fjárlögum 230 milljónum króna til niðurgreiðslu á rafhitun til viðbótar við olíustyrkina og aðra jöfnun hitakostnaðar.

Hið sama gildir auðvitað um rafmagnið. Þar er að vísu brúsinn ekki borgaður af ríkinu sem slíku, heldur af rafmagnsnotendum í þéttbýli. Þeir greiða verðjöfnunargjald, en slík gjöld hafa einmitt mjög verið í tízku hjá landsstjórninni á undanförnum árum.

Þegar lagðar eru saman upphæðirnar, sem felast í verðjöfnunargjöldum á notendur, liðum á fjárlögum ríkisins og eigin umframkostnaði þeirra, sem búa í strjálbýlinu, er auðvelt að skilja, hvers vegna allir þessir aðilar eru svo peningalausir, sem raun ber vitni um.

Þungbærasti herkostnaður þjóðarinnar af viðhaldi byggðar í strjálbýli felst í hinum hefðbundna landbúnaði með kýr og kindur. Ríkið styrkir hann með 1.500 milljón króna uppbótum, niðurgreiðslum og öðrum styrkjum. Þetta er nærri tíunda hver króna á fjárlögum.

Stuðningurinn við hefðbundna landbúnaðinn einn út af fyrir sig jafngildir því, að á fimm ára fresti væri reist tveggja milljón króna íbúð yfir hvern einasta bónda, til dæmis í þéttbýlinu. Er þá ótalinn eigin fjárfestingarkostnaður hefðbundinna bænda.

Af þessum tölum má sjá, að kostnaður af flutningi fólks úr strjálbýli í þéttbýli er skiptimynt ein í samanburði við kostnaðinn af viðhaldi byggðar í strjálbýli. Á örfáum árum má greiða niður slíkan herkostnað með sparnaði á kostnaði við að halda úti dreifbýli.

Það er gert í eitt skipti fyrir öll að reisa íbúð í þéttbýli, tengja hana þjónustu þéttbýlisins og útvega atvinnutækifæri í þéttbýli. Niðurgreiðslur á orku, verðjöfnunargjöld og opinberir styrkir til dreifbýlis halda hins vegar áfram ár eftir ár og fara raunar vaxandi.

Sem dæmi um hina trylltu smábyggðastefnu, sem hér er rekin, má nefna, að Orkustofnun hefur eytt peningum til að reikna út, að það kosti 1.200 milljónir króna að bora 65 kílómetra vegagöng í fjöll. Framkvæmdastjóri byggðamála telur slíka iðju vel koma til greina.

Smábyggðastefnan er krabbamein í þjóðfélaginu. Hún kemur í veg fyrir, að þjóðin geti brotizt til álna og velmegunar. Hún kemur í veg fyrir þá röskun, sein er nauðsynleg hverju þjóðfélagi, er vill verða þátttakandi í framtíðinni. Hún ber dauðann í sér.

Íslenzkt þjóðfélag varð til fyrir röskun í öðrum löndum. Gott gengi okkar á fyrstu sjö áratugum þessarar aldar stafar af röskun, fólk flutti úr strjálbýli í þéttbýli. Eftir búsetustöðnun áttunda áratugarins er nauðsynlegt að horfa til framtíðarinnar á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ekki afskrifa ríkisstjórnina.

Greinar

Sagt hefur verið bæði í gamni og alvöru, að hið eina, sem stjórnarflokkarnir hafi getað og muni geta komið sér saman um, sé að skerða kjör almennings. Það hafi þeim tekizt snemma í þessu stjórnarsamstarfi og ríkisstjórnin sé nú verklaus. Hún geti eins pakkað saman og farið.

Upp á síðkastið hefur fjölgað spám um, að ríkisstjórnin sé feig. Ýmsir frammámenn í Sjálfstæðisflokknum hafa haldið á lofti efasemdum um, að svo íhaldssamur flokkur sem Framsóknarflokkurinn geti staðið að opnun hagkerfisins og öðrum framfaramálum af slíku tagi.

Þessar kvartanir hafa svo eflt þá trú margra framsóknarmanna, að lítið sé á sjálfstæðismenn að treysta í stjórnarsamstarfi. Þeir muni hlaupa út undan sér af minnsta tilefni. Þess vegna sé eins gott að búa sig undir breytt stjórnarmynztur eða nýjar kosningar.

Hugleiðingar af þessu tagi víkja hjá þeirri staðreynd, að ríkisstjórnin siglir tiltölulega sléttan sjó um þessar mundir og að haustblikurnar eru ekki eins uggvænlegar og sumir vilja vera láta. Þótt fylgi ríkisstjórnarinnar hafi minnkað, er hún enn í öflugum meirihluta.

Þjóðin hafði í vetur skilning á, að kjaraskerðing væri nauðsynleg. Hún viðurkenndi í raun, að hún hafði árum saman og í vaxandi mæli lifað um efni fram. Þess vegna tókst ríkisstjórninni að skerða lífskjörin án þess að spilla vinnufriði í landinu.

Eftir veturinn sér fólk ýmsar jákvæðar hliðar á kjaraskerðingunni. Það var orðið þreytt á óðaverðbólgunni og fagnar hinu tiltölulega stöðuga ástandi, sem nú ríkir. Það tekur líka eftir, að full atvinna hefur haldizt í landinu, einmitt vegna kjaraskerðingarinnar.

Og nú eru kröfur samtaka launafólks ekki þess eðlis, að spá þurfi harkalegu uppgjöri í haust. Kröfurnar felast í stórum dráttum í, að fólk vill vernda þau skertu kjör, sem samið var um í vetur. Það vill einfaldlega, að ekki sé haldið áfram að skerða lífskjörin.

Að baki liggur sú staðreynd, að þjóðin er að þessu sinni þolinmóð. Hún vill gefa ríkisstjórninni tækifæri til að hafa lengri tíma til að nýta lífskjaraskerðinguna til þeirrar sóknar í efnahagsmálum, er dugi til að leggja grundvöll að endurbættum lífskjörum.

Þjóðin veit vel, að Japanir og sumir aðrir hafa byggt sig upp efnahagslega með því að hafa lífskjörin fyrst lág til að efla samkeppnisaðstöðuna. Síðan hafa þeir notað efnahagssóknina til að búa til traustan grunn að hraðbatnandi lífskjörum í landinu.

Flestir aðrir en öfundsjúkir alþýðubandalagsmenn átta sig á, að gott er, að fyrirtækin græði, svo að þau geti eflzt að tækni og hagkvæmni og fært út kvíarnar. Það er einmitt vegna þessa, að nú helzt full atvinna í landinu og að mikil gróska er á ýmsum sviðum.

Hitt er svo laukrétt, að ríkisstjórnin hefur lítið gert til að flýta fyrir endurreisninni. Hún heldur dauðahaldi í hinn hefðbundna landbúnað. Henni hefur ekki tekizt að fækka fiskiskipum til að endurreisa arðsemi sjávarútvegsins. Hún á lítið fé aflögu til stuðnings hinu nýja.

Meðan ríkisstjórnin hjakkar þannig í sama farinu, sjást merki þess, að fólk vill framlengja friðinn, sem hún hefur til að nýta þegar gerða hluti til uppbyggingar. Ríkisstjórnin getur, ef hún vill, þegið þennan frið og komið sér saman um eitthvað fleira en að skerða lífskjörin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vinnufriður í haust

Greinar

Sé grannt skoðað, er ekki víst, að til átaka þurfi að koma á vinnumarkaði í haust vegna fyrirhugaðra uppsagna á kjarasamningum 1. september. Í rauninni hefur sjaldan verið eins lítið bil milli launafólks og atvinnurekenda og í þeim tölum, sem flaggað er að þessu sinni.

Ýmis samtök launafólks hafa lýst yfir, að áður umsamin 3% launahækkun 1. september muni ekki nægja til að halda þeim kaupmætti, sem var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. En það var einmitt andi febrúarsamninga þessa árs, að þeir ættu að varðveita þann kaupmátt.

Framkvæmdastjórn Verkamannasambandsins hefur nefnt, að 5-6% hækkun þurfi í stað 3% til að varðveita kaupmáttinn. Formannafundur Verkamannasambandsins telur hins vegar, að meira þurfi, eða 8%. Varaforseti Alþýðusambandsins hefur farið bil beggja og nefnt töluna 7%.

Ekki eru allir sammála þessum tölum annars hagsmunaaðilans. Í Þjóðhagsstofnun er því haldið fram, að kaupmáttur sé nú hinn sami og var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Ennfremur, að ekkert bendi til, að kaupmátturinn muni rýrna á næstunni, svo mælanlegt sé.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að málsaðilar kanni sameiginlega, hvort óbreyttum kaupmætti sé haldið í haust með áður umsaminni 3% hækkun eða með 7% hækkun eða einhverri tölu þar á milli. Þegar svo lítið ber í milli í upphafi, ætti að vera unnt að finna lausnina.

Samtök launafólks hafa einnig sett fram kröfur um, að lögbundin lágmarkslaun í þjóðfélaginu verði hækkuð úr 13.000 krónum í 14.000 krónur. Auðvelt er að rökstyðja þessa kröfu með því, að ekki sé hægt að ætlast til, að fólk lifi af 13.000 króna mánaðarlaunum.

Á móti þessum kröfum samtaka launafólks hafa atvinnurekendur teflt fram kostnaði af launaskriði, sem orðið hafi í vetur. Launaskriðið felst í, að mikilvægir starfsmenn í fyrirtækjum fá auknar yfirborganir umfram kjarasamninga, þegar almenn kjaraskerðing verður í þjóðfélaginu.

Til dæmis hafa verið sýndar tölur, sem benda til, að stjórnendum fyrirtækja hafi ekki aðeins verið bætt upp kjararýrnun vetrarins, heldur mikill hluti og jafnvel öll kjararýrnun undanfarinna ára. Hið sama mun vafalaust gilda um aðra starfsmenn, sem fyrirtækin vilja ekki missa.

Gallinn við þessa röksemdafærslu er, að það er fyrirtækjunum í sjálfsvald sett, hvort þau telja sig hafa efni á auknum yfirgreiðslum af þessu tagi. Markmið kjarasamninga er hins vegar fremur fólgið í að vernda hagsmuni hinna, sem mega sín miður en þessir lykilmenn.

Mjög erfitt er að verja, að samdráttur þjóðartekna eigi óbeint að leiða til aukins lífskjaramunar í þjóðfélaginu, af því að þeir haldi sínu, er betur mega sín. Þótt Þjóðhagsstofnun meti launaskrið ársins á 4% kjarabót, verður lítt hægt að halda slíku fram í samningum.

Sterkari er sú röksemd forsætisráðherra, að þjóðartekjur hafi haldið áfram að minnka og séu nú 1-2% minni en þær voru, þegar samið var í vetur. Þess vegna er eðlilegt, að þjóðin sætti sig við 1-2% lakari lífskjör en samið var um í samningunum í febrúar í vetur.

Þegar litið er á hinar lágu tölur, sem raunverulega felast í ágreiningi þeirra, sem um málið deila, verður ekki betur séð en að samkomulag eigi að geta náðst, án þess að vinnufriði sé spillt í haust. Málið snýst mest um, hvort taka eigi tillit til 1-2% rýrnunar þjóðartekna.

Jónas Kristjánsson

DV

Smáþjóðir vísa okkur veginn.

Greinar

Luxemborgarar settu í ár lög, sem eiga að gera landið að hliðstæðum griðastað erlendra tryggingafélaga og það hefur verið fyrir banka. Meðal annars eru í lögunum afskriftareglur, sem fela í sér freistandi skattfríðindi. Þannig soga þeir erlend fyrirtæki inn í landið.

Árið 1981 hertu Luxemborgarar bankalög sín, svo að þau eru enn strangari en í Sviss. Liggja nú harðar refsingar við brotum á trúnaði bankamanna við sparifjáreigendur, jafnvel þótt hinir síðarnefndu séu grunaðir um skattgreiðslutregðu í heimalöndum sínum.

Í bankalögum Luxemborgara eru líka ákvæði um skattfrelsi erlendra innstæðna. Með bankaleyndinni og skattfrelsinu hefur þeim tekizt að fá stofnuð í landinu útibú erlendra banka og erlent fjármagn á reikninga í þessum bönkum. Hið sama hyggjast þeir nú gera í tryggingum.

Dæmi Luxemborgara sýnir, að smáþjóðir geta haft drjúgar tekjur af starfsemi, sem stórþjóðir ráða af ýmsum ástæðum síður við. Þeir hafa fetað í fótspor annarrar smáþjóðar, Svisslendinga, sem hafa öldum saman verið eitt öflugasta fjármálavirki heimsins.

Slíka hluti er einnig hægt að gera hér á landi, þótt auðvitað muni taka langan tíma að byggja þá upp. Jón Sólnes, fyrrum alþingismaður, stakk á sínum tíma upp á, að Ísland yrði gert að eins konar fríhöfn fyrir erlenda peninga. Framsýni hans fékk lítinn hljómgrunn.

Erfiðast í þessum efnum er að vinna traust sparifjáreigenda í útlöndum. Það hefur Luxemborgurum tekizt. Bankaleynd þeirra hefur ekki verið rofin. Hér er hins vegar alltaf hætta á, að öfundsjúkir alþýðubandalagsmenn spilli sniðugum lögum, þegar þeir komast til valda.

Fleira geta smáþjóðir gert en að búa til fríhöfn handa erlendum peningum. Þær geta til dæmis komið á fót fríhöfn fyrir erlendar vörur og erlendan iðnað, eins og Írar hafa gert með góðum árangri. Hér á landi hafa komið upp hugmyndir um að gera Keflavíkursvæðið að slíkri fríhöfn.

Tollvörugeymslur og ýmis léttur iðnaður á fríhafnarsvæði við flugvöllinn í Keflavík og landshöfnina í Njarðvík yrði án efa lyftistöng íslenzkum fjárhag og efnahagsmálum. En því miður ríkir hér áhugaleysi á hægri kanti og tortryggni og fjandsemi á vinstri kanti.

Ekki má gleyma frímerkjunum, þegar rætt er um lífsbaráttu smáþjóða. San Marino og Monaco eru dæmi um ríki, sem hafa drjúgar tekjur af útsjónarsemi í útgáfu frímerkja. Hér á landi hafa menn aldrei haft vit á að kynna sér frímerkjastefnu þessara ríkja og læra af henni.

Liechtenstein er smáríki, sem hefur miklar tekjur af skattfríðindum fyrirtækja. Þótt allur rekstur þeirra sé í öðrum löndum, sækjast þau eftir því að koma höfuðstöðvum sínum fyrir í Liechtenstein eða að minnsta kosti svo sem einum póstkassa. Allt gefur þetta tekjur.

Í upphafi þessa leiðara var fjallað um lagni Luxemborgara í alþjóðlegum fjármálum. Ekki má heldur gleyma, að þeir eru orðnir stórveldi í fjölmiðlun. Útvarps- og sjónvarpsstöðin Radio Luxembourg er hin vinsælasta í allri Evrópu og rakar saman tekjum af auglýsingum.

Þegar fiskinum sleppir, höldum við hins vegar, að lífið sé refur og lax, lífefni og rafeindir. En það er svo ótalmargt fleira hægt að gera til að breyta láglaunaþjóð í auðþjóð. Við þurfum ekki annað en að læra af öðrum smáþjóðum, sem lifa góðu lífi af margvíslegri útsjónarsemi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Bandalag umboðslausra.

Greinar

Utan Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku er sjaldgæft, að ríkjum ráði menn, sem hafa til þess umboð. Sumir fengu á sínum tíma umboð þjóða sinna, en hafa síðan framlengt umboðið sjálfir í skjóli fenginna valda. Aðrir hafa hrifsað til sín völdin í hallarbyltingum og öðrum byltingum.

Sameiginlegt áhugamál allra þessara umboðslausu ráðamanna er að halda völdum. Þjóðum sínum halda þeir niðri með lögreglu og her. Í stað lýðræðis ríkir kvalræði og morðræði. Í flestum tilvikum ríkir einnig þjófræði, því að hinir umboðslausu ræna þjóðir sínar og rupla.

Á alþjóðavettvangi ríkir laustengt bandalag ýmissa tegunda umboðslausra ráðamanna. Í einum hópi bandlagsins eru Sovétríkin og fylgiríki þeirra, í öðrum Arabaríkin og hinum þriðja hin svonefndu hlutlausu ríki þriðja heimsins. Þessir hópar og aðrir blandast á ýmsa vegu.

Vesturlönd eiga lítinn þátt í þessu ástandi, en eru samt ekki saklaus með öllu. Bandaríkjastjórnir hafa til dæmis oft stutt glæpamenn í Suður- og Mið-Ameríku gegn lýðræðisöflum álfunnar. Þær studdu til dæmis Batista á Kúbu, Duvalier á Haiti og Somoza í Nicaragua.

Bandarískir bankar jusu fé í umboðslausa herforingja Argentínu, sem sóuðu peningunum í arðlausa fjárfestingu eða stálu þeim hreinlega. Þegar lýðræðislega kjörin stjórn kemst svo til valda í Argentínu, kippa þessir bankar að sér hendinni, heimta endurgreiðslur og hafa uppi hótanir.

Vesturlönd hafa þó einkum reynt að leggja lóð sitt á hina vogarskálina. Hæst ber þar vestræna upplýsingamiðlun. Fréttamenn frá fjölmiðlum Vesturlanda leggja sig í mikla hættu við að komast að hinu raunverulega ástandi í ríkjum hinna umboðslausu ráðamanna og að skýra frá því.

Hin vestræna fjölmiðlun er að vísu ekkert haldreipi, en þó tvinnaþráður milli kúgaðs almennings í þriðja heiminum og þess hluta heimsins, þar sem mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna er í heiðri höfð. Þessi tvinnaþráður fer ákaflega mikið í taugar umboðslausra ráðamanna.

Þeir hafa búið sér til kenningu um, að lýðræði á vestræna vísu henti ekki í sínum heimshlutum, þar á meðal henti ekki upplýsingafrelsi. Þeir segja, að fjölmiðlar eigi ekki að segja vondar fréttir, heldur stuðla að þjóðareiningu, uppbyggingu, friði og vináttu.

Sérstaklega er þeim illa við vondar fréttir á borð við þær, að eymd íbúanna hafi aukizt á valdatíma hinna umboðslausu ráðamanna, að fjölgað hafi pyndingum og morðum af hálfu þeirra og að fjársöfnun þeirra á bankareikninga í Sviss sé meiri en nokkru sinni fyrr.

Þeir segja, að þessar upplýsingar feli í sér nýlendustefnu af hálfu vestrænna þjóða. Í krafti auðs síns troði þær sinni fjölmiðlun upp á þjóðir, sem fátæktar sinnar vegna eigi menningarlega í vök að verjast. Þannig snúa hinir umboðslausu sannleikanum upp í þverstæðu sína.

Höfuðstöðvar bandalags hinna umboðslausu eru í Menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Þar hafa þeir komið upp forstjóra og embættismannaliði, sem vinnur að því að hafa hemil á flæði upplýsinga um hið hörmulega ástand í kvalræðis-, morðræðis- og þjófræðisríkjunum.

Vesturlandabúar þurfa að gera skarpan greinarmun á hinum umboðslausu ráðamönnum og fulltrúum þeirra á alþjóðavettvangi annars vegar og hins vegar hinum sárt leiknu þjóðum, sem bera þennan lýð. Hagsmunir þriðja heimsins eru allt aðrir en hagsmunir hinna umboðslausu ráðamanna hans.

Jónas Kristjánsson.

DV

Konunglegi forstjórinn.

Greinar

Langstærsta vandamál menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Unesco, er sjálfur framkvæmdastjórinn, M’Bow frá Senegal. Hann lítur ekki á sig sem forstjóra í vestrænum skilningi, heldur telur sig hafa alræðisvald eftir afrískum hefðum. Hofmóður hans lýsir sér í ýmsum myndum.

Forstjórinn getur hagað sér eins og alræðisherra, af því að hann hefur traustan stuðning ráðamanna Arabaríkja og Afríkuríkja og víðtækan stuðning ráðamanna annarra ríkja þriðja heimsins. Þessir ráðamenn líta á M’Bow sem hæfilega ögrun gegn vestrænni nýlendustefnu.

Forstjórinn hefur árum saman hagað sér eins og það sé fyrir neðan virðingu hans að ræða um fjárhagsáætlun Unesco, sem hans hágöfgi hefur sjálfur sett fram. Enda er nú svo komið, að vonlausar reynast tilraunir til að átta sig á bókhaldi stofnunarinnar, sem er í hreinni óreiðu.

Forstjórinn umgengst sendiherra þáttökuríkjanna af stakri fyrirlitningu og er ófáanlegur að tala við þá nema á eigin forsendum. Hann bannar starfsmönnum Unesco að gefa sendiherrunum upplýsingar. Samt eru nærri allar tillögur hans samþykktar orðalaust af meirihlutanum.

Forstjórinn hefur sjúklegan áhuga á leynd. Meira að segja úrklippusafn stofnunarinnar er leyndarskjal, þótt þar sé ekki annað en það, sem hefur birzt um Unesco á prenti. Eftir skjalabrunann mikla í höfuðstöðvunum í vetur hafa grunsemdir manna á þessu sviði aukizt í hans garð.

Forstjórinn hefur látið breyta tveimur, viðáttumiklum hæðum stórhýsis Unesco í París í einkaíbúð fyrir sig. Hann ekur um á sex glæsivögnum af dýrustu gerð. Þegar hann fer til útlanda, hefur hann um sig þrefalt stærri hirð en tíðkast hjá framkvæmdastjórum annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Forstjórinn er lélegur stjórnandi og hefur endurskapað Unesco í sinni mynd. Hann hefur ýtt í burtu hæfileikamönnum og ráðið í staðinn ættingja sína frá Senegal, aðra Senegala, Afríkumenn og Araba. Í því tekur hann ekkert tillit til hæfileika, heldur eingöngu hollustu við sig.

Um nokkurra ára skeið hefur ríkt andrúmsloft grunsemda, fordóma, umburðarleysis og skipulagsleysis í höfuðstöðvum Unesco í París. Þaðan flýja flestir þeir, sem eitthvað geta. Í staðinn eru ráðnir undirmálsmenn, sem ekki skyggja á konunglega tign forstjórans M’Bow.

Ástæðan fyrir því, hve léttilega honum hefur tekist að eyðileggja Unesco, er, að vestræn þáttökuríki hafa litið á stofnunina sem kjaftasamkundu. Þau hafa sent þangað þreytta embættismenn og lágt setta ráðuneytisfulltrúa, er hafa litið á starf sitt sem sumarfrí í París.

Hið bezta, sem komið hefur fyrir Unesco, er tilkynning Bandaríkjanna um, að þau muni yfirgefa stofnunina um næstu áramót. Vonandi framkvæma Bretar hótun sína um að gera slíkt hið sama. Þá er búizt við, að Vestur-Þjóðverjar fylgi í kjölfarið. En hvar er Ísland?

Í dálkum þessum hefur nokkrum sinnum verið hvatt til, að Ísland segi sig úr Unesco og verji menningaraðstoð sinni á annan hátt, svo að 50 aurar af hverri krónu brenni ekki ekki upp í höfuðstöðvunum í París. Nú ætti nóg að vera vitað til að taka mark á þessari ráðleggingu.

Ísland á sæti í nefnd þeirri innan Unesco, sem á að gera tillögur um björgun stofnunarinnar. Það starf er vonlaust frá grunni, því að sjúklingurinn getur ekki læknað sig, þegar um M’Bow, hinn konunglega forstjóra, er að ræða. Eina vonin er, að vestræn ríki hverfi úr samtökunum.

Jónas Kristjánsson.

DV