Greinar

Minnka ber skuldasúpuna.

Greinar

Lundúnafundur leiðtoga efnahagsveldanna sjö á Vesturlöndum varð ekki til að létta af þeirri ógn efnahagskreppu, sem vofir yfir hinum vestræna heimi í kjölfar gjaldþrota margra ríkja þriðja heimsins á næstu tveimur árum vegna óhóflegrar skuldasöfnunar þeirra.

Reagan Bandaríkjaforseti vildi ekki hlusta á þá röksemd allra hinna leiðtoganna sex, að hinn gegndarlausi halli á ríkisbúskap hans hvetti til hárra vaxta í Bandaríkjunum. Hann hugsar um það eitt að ná endurkjöri næsta vetur og er ekki móttækilegur fyrir hagfræði.

Reagan hefur lækkað skatta án þess að ná neinum umtalsverðum sparnaði í ríkisrekstri upp í gatið. Afleiðingin hefur orðið meiri halli á ríkisbúskapnum en menn hafa áður kynnzt. Þessi taprekstur getur ekki gengið endalaust, en getur gengið fram yfir kosningar.

Jafnframt hafa hinir háu vextir í Bandaríkjunum enn hækkað um þrjú prósentustig, það sem af er þessu ári. Þetta hefur svo aftur á móti haft tvennar afleiðingar. Annars vegar hefur evrópskt og annað lánsfé sogazt til Bandaríkjanna og tafið endurlífgun efnahagsþróunar í Evrópu.

Hitt er þó enn alvarlegra, að hvert einasta stig í hækkun bandarískra vaxta eykur skuldabyrði heimsins um fjóra milljarða dollara. Vaxtahækkun þessa tæplega hálfa árs hefur því aukið heildarbyrðina um tólf milljarða dollara. Og það lendir þyngst á herðum þriðja heimsins.

Töfin á endurlífgun efnahagsþróunar í Evrópu og raunar í fleiri iðnríkjum hefur svo aukið vanda þriðja heimsins. Iðnríkin hafa keypt minna af vörum frá þriðja heiminum og á lægra verði. Gjaldeyristekjur þriðja heimsins hafa því verið minni en reiknað hafði verið með.

Skuldir þriðja heimsins hrönnuðust upp, þegar olíudollarar Arabaríkjanna flæddu um heiminn og alþjóðlegu bankarnir kepptust um að lána á tvist og bast. Þá var ekki hugsað nóg um öryggið. Bankastjórar ímynduðu sér, að ríki gætu ekki orðið gjaldþrota, þótt annað sé nú að koma í ljós.

Ekki bætir úr skák, að sumt af lánsfénu fór beint á bankareikninga í Sviss, í margvíslegt sukk og svínarí eða í fáránlegar framkvæmdir. Stórtækastir í þessum efnum hafa verið herforingjar og aðrir þjófar, sem höfðu brotizt til valda og höfðu raunar ekkert umboð frá þjóðinni.

Í Argentínu er því til dæmis nú haldið fram, að hin nýja, lýðræðislega kjörna stjórn geti ekki borið ábyrgð á skuldum, sem fyrri herforingjalýður stofnaði til, sjálfum sér en ekki þjóðinni til framdráttar. Argentína er einmitt eitt þeirra landa, sem nú rambar á barmi gjaldþrots.

Ekki verður betur séð en vit sé í þessari röksemdafærslu. Hvaða rétt hafa bankastjórar til að ætlast til af fátækum þjóðum, að þær endurgreiði fé, sem þessir stjórar lánuðu umboðslausum glæpamönnum? Þeir áttu að vita betur og eiga skilið að glata öllu slíku fá.

Sanngjarnt er, að nokkrir vestrænir bankar verði gjaldþrota vegna fyrirhyggjulausra lána til umboðslausra hershöfðingja, einkum í Suður-Ameríku. Ástæðulaust er að láta banka komast upp með að lána öðrum ríkisstjórnum en þeim, sem hafa eitthvert umboð við komandi þjóða.

Hitt er svo enn mikilvægara, að sem fyrst linni óstjórninni á ríkisfjármálum Bandaríkjanna, svo að vextir megi sem fljótast lækka þar í landi. Á meðan þurfa vesturveldin að framkvæma tillögu Mitterrands Frakklandsforseta um fimmtán milljarða yfirdráttarréttindi handa þriðja heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimsins mesti matarforði.

Greinar

Gífurlegar birgðir sjávarafurða eru alltaf í geymslum fiskvinnslustöðva. Þótt sölur og siglingar gangi greiðlega, eru yfirleitt um þriggja mánaða birgðir í slíku millibilsástandi. Við síðustu talningu nam verðmæti sjávarafurða, sem biðu útflutnings, 3.730.000.000 krónum.

Þetta var þá fjörutíu sinnum meira verðmæti en fólst á sama tíma í óseldum og óseljanlegum landbúnaðarafurðum, sem biðu útflutnings. Matvælabirgðir landbúnaðarins eru aðeins lítið brot af matvælabirgðum landsins, þar sem uppistaðan er sjávarútvegurinn, okkar stóriðja.

Eitt mikilvægasta verkefni almannavarna á Íslandi ætti að felast í að tryggja geymslu sjávarvörubirgðanna, ef siglingar féllu niður af styrjaldarástæðum eða öðrum stórmælum. Af stríðinu við Persaflóa getum við lært, að við megum ekki treysta á endalausan olíustraum til landsins.

Ekki eru nema tveggja mánaða birgðir eldsneytis í landinu. Ef siglingar stöðvast, munu atvinnuvegirnir stöðvast og landbúnaður þar á meðal. Engin framleiðsla matvæla yrði, svo heitið geti, að þeim tíma liðnum.

Við slíkar aðstæður er mikilvægast, að frystigeymslur sjávarútvegsins gangi fyrir innlendri orku, en ekki innfluttri. Ef hægt er að halda geymslunum virkum á ófriðartíma, höfum við þar meiri matarbirgðir á mann en þekkjast hjá öðrum þjóðum.

Í löndum eins og Bretlandi og Svíþjóð er haldið uppi landbúnaði til að tryggja, að meiri matarbirgðir séu í landinu en ella væri. Og því hefur stundum verið haldið fram hér, að við þyrftum af öryggisástæðum að halda uppi óeðlilega miklum landbúnaði.

Bretar og Svíar eru ekki sérhæfðar fiskveiðiþjóðir eins og við erum. Þeir hafa ekki í landinu frystigeymslur með nokkurra ára matarbirgðum fyrir landsmenn eins og við höfum. Okkar matvælaöryggi í sjávarútvegi er margfalt meira en þeirra öryggi í landbúnaði.

Ef siglingar til landsins stöðvast, yrði það að sjálfsögðu mikið áfall. Neyzluvenjur okkar byggjast að verulegu leyti á matvælum, sem ekki eru framleidd í landinu og ekki hægt að framleiða í landinu. Sem dæmi um þetta má nefna kornmat og ýmislegt grænmeti og ávexti.

Hætt er við, að mörgum þætti einhæft að hafa fisk í öll mál. En á ófriðartímum verður oft að sæta öðru en því, sem bezt þykir. Þá skiptir meira máli, að fólk geti satt hungur sitt en að það gerist í formi, sem menn hafa vanizt. Og fiskurinn er það, sem við höfum við höndina.

Miklar birgðir af kjöti í landinu bæta ekki svo mjög stöðu okkar, því næringarefni eru nokkurn veginn hin sömu í fiski og kjöti. Það er því ekki haldbær röksemd, að við þurfum af öryggisástæðum að halda uppi offramleiðslu í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins.

Ekki má heldur gleyma, að tveggja mánaða eldsneytisbirgðir mundu gera fiskveiðiflotanum kleift að draga á land 2.400.000.000 króna matarbirgðir til viðbótar við þær, sem jafnan eru til í landinu. Annar eins matarforði á mann yrði hvergi til í heiminum.

Það, sem við þurfum að gera, er að tryggja, að matarbirgðirnar í landinu liggi ekki undir skemmdum, ef til ófriðar eða annarra hörmunga dregur. Við þurfum hins vegar ekki að hafa áhyggjur af, að þessar birgðir séu ekki nægar. Og við þurfum hvorki kjötfjöll né smjörfjöll.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við erum tvöfalt dýrari.

Greinar

Japanir verða manna elztir eins og Íslendingar. Þar eins og hér er ungbarnadauði ekki nema sjö af þúsundi fæðinga. Og þar eins og hér eru ævilíkur við fæðingu 77 ár. Engar þjóðir standa framar Íslendingum og Japönum á þessum mælikvörðum heilsugæzlu og heilsufars.

Til samanburðar má nefna, að ungbarnadauði í Vestur-Þýzkalandi er þrettán af þúsundi og tólf af þúsundi í Bandaríkjunum. Og ævilíkur Vestur-Þjóðverja við fæðingu eru 73 ár og 75 ár hjá Bandaríkjamönnum. Þessar tvær ríku þjóðir hafa lakari heilsu en við og Japanir.

Það skilur hins vegar á milli Íslendinga og Japana, að við höfum tvöfalt meiri kostnað af okkar heilbrigðisþjónustu. Í ár kostar íslenzk heilbrigðisþjónusta 1000 dollara á mann, en japönsk ekki nema 500 dollara. Mismunurinn felur í sér verulega fjárhæð í heild.

Gera má ráð fyrir, að kostnaður ríkis, sveitarfélaga, sjúkrasamlaga og einstaklinga af heilbrigðisþjónustu verði um 6,6 milljarðar króna á Íslandi á þessu ári. Þjóðhagsstofnun áætlar, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu sé um þessar mundir 9,8% af þjóðarútgjöldum.

Ef við hefðum japanska heilbrigðiskerfið, væri kostnaður okkar í ár 3,3 milljarðar í stað 6,6 milljarða. Þessi munur er svo hrikalegur, að margumtalað fjárlagagat bliknar í samanburði við hann. Hann bendir til, að við gætum lært sitthvað af Japönum á þessu sviði.

Með þessum samanburði er ekki verið að segja, að íslenzka heilbrigðiskerfið sé ómögulegt. Sem annað dæmi má nefna, að það nær fyrir 1000 dollara á mann mun betri árangri en bandaríska kerfið nær fyrir 1500 dollara á mann á ári. Við erum ekki dýrastir allra.

En þessar tölur sýna, að við eigum frekar að læra af Japönum en Bandaríkjamönnum. Vestan hafs hefur kerfi sjúkrasamlaga leitt til óhóflegrar áherzlu á sjúkrahús og á dýrustu tegundir rannsókna og lækninga. Í Japan er hins vegar mest áherzla lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir.

Yfirmaður við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina sagði nýlega, að við hefðum byggt sjúkrarými 10-15 ár fram í tímann. Þar að auki höfum við farið glannalega í smíði heilsugæzlustöðva, sem kostar of fjár að reka. Okkur dugði ekki minna en ein á Hvolsvelli og önnur á Hellu.

Sem dæmi um kostnað við sjúkrahús má nefna, að í Bretlandi þjóna þau 2% sjúklinga og nota til þess 67% af fé heilbrigðismála. Markvissar aðgerðir í heilsuvernd stuðla að því, að færri tilfelli en áður verði svo alvarleg, að leggja þurfi fólk á spítala.

Japanir leggja mikla áherzlu á skoðanir á heilbrigðu fólki í svipuðum dúr og ítarlegri en hér eru framkvæmdar af þjóðþrifastofnunum á borð við Hjartavernd og Krabbameinsfélagið. Þeir geta því varað fólk við í tæka tíð og fengið það til að breyta lífsháttum sínum til batnaðar.

Ólafur Ólafsson landlæknir hefur oft vakið athygli á, að heilsuvernd sé sparnaður og að vænlegra sé að fjárfesta í heilsuvernd en sjúkdómum. Þá hefur verið talað um, að verðreikna þurfi þjónustu sjúkrahúsa, svo að læknar og sjúklingar viti, hvað hlutirnir kosta.

Þegar heilbrigðisþjónusta landsins er komin upp undir 10% af þjóðarútgjöldum, er ljóst, að lengra verður ekki komizt. Eftir það verður bætt heilsugæzla þjóðarinnar að koma fram í tiltölulega ódýrum fyrirbyggjandi aðgerðum, þar sem ein króna í dag sparar þúsund á morgun.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeldi í eðlinu.

Greinar

Ofsóknir harðstjórnarinnar í Sovétríkjunum á hendur dauðveikum Sakarof-hjónunum eru eðlilegur þáttur hins ofbeldishneigða stjórnkerfis, sem þar hefur ríkt í rúmlega hálfa öld. Þessar ofsóknir eru ekkert sérstakt tilvik. Hið illa veldi tjáir sig jafnan með slíkum hætti.

Tsjernenko heldur áfram stefnu Andropovs og Brezhnevs við að brjóta á bak aftur sérvitra einstaklinga, ekki sízt ef þeir mynda samtök um að mæla með því, að Sovétríkin fari eftir mannréttindaákvæðum Helsinki-samkomulagsins frá 1975. Sá hópur er nú senn úr sögunni.

Ofbeldi hins illa veldis er hið sama út á við og inn á við. Harðstjórnin í Kreml hefur áratugum saman stefnt að heimsyfirráðum. Í hugmyndafræði ráðamanna Sovétríkjanna er slökun í samskiptum austurs og vesturs ekki annað en hlé á milli skrefa í útþenslunni.

Vaxandi viðgangur friðarhreyfinga á Vesturlöndum hvatti um tíma hið illa veldi til að fara glannalegar í útþenslustefnunni. Tveir vestrænir sjúkdómar, hollenzka veikin og kirkjulega veikin, eru meðal þess, sem mest hefur freistað stjórnar Sovétríkjanna á undanförnum árum.

Ofbeldisliðið er í fýlu um þessar mundir, af því að Vesturlöndum hefur tekizt að hrista af sér mók friðarhreyfinga og eru farin að taka höndum saman um að gæta lífshagsmuna sinna gegn útþenslustefnu hins illa veldis. Danmörk og Holland eru einu veiku hlekkir vestursins.

Fýlan kemur meðal annars fram í, að Sovétríkin hafa horfið frá þáttöku í ólympíuleikunum. Ráðamennirnir eru að hefna fyrir fjarveru Bandaríkjamanna og Breta á síðustu ólympíuleikum, þegar hin svívirðilega styrjöld Sovétríkjanna gegn Afganistan var fólki enn í fersku minni.

Fýlan kemur líka fram í, að Sovétstjórnin hættir að senda aðstoðarforsætisráðherra í sáttaferð til Kína til að hefna fyrir góðar móttökur, sem Reagan Bandaríkjaforseti fékk þar fyrir skömmu. Ofbeldisliðið hagar sér eins og börn, sem fá skyndilega ekki allt, sem þau vilja.

Harðstjórarnir í Kreml neita nú staðfastlega að taka þátt í að koma á viðræðum um bann við efnavopnum og eftirlit með slíku banni. Þeir neita líka að taka á ný þátt í afvopnunarviðræðum af ýmsu tagi, sem þeir hlupu frá í fyrra. Og þeir neita nýjum toppfundi stórveldanna.

Í öryggismálum móður jarðar flaggar hið illa veldi tillögum um marklausar viljayfirlýsingar á borð við loforð um að verða ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum. En það má ekki heyra minnzt á raunhæft eftirlit með því, að staðið sé við áþreifanlegan samdrátt í vígbúnaði.

Enginn vafi er á, að stjórnkerfið í Sovétríkjunum hefur í hálfa öld ræktað ráðamenn, sem hafa klifið valdastigann á tvíþættum hæfileika grimmdar og sleikjuskapar. Stalínisminn var hin mikla þolraun þeirra allra. Þess vegna er Kreml illt veldi, stórhættulegt umhverfi sínu.

Friðardúfur Vesturlanda magna ofbeldishneigð þessara ráðamanna, sem munu halda áfram uppteknum hætti, nema almenningur á Vesturlöndum fylki sér eindregið og um langan aldur að baki þeirri festu, sem felst í stefnu vestrænna leiðtoga á borð við Mitterrand Frakklandsforseta.

Ustinov stríðsráðherra hafði ekki mikið fyrir fjöldamorðinu, þegar hann lét í fyrra skjóta niður farþegaþotu frá Suður-Kóreu. Ofbeldisfélagar hans í Kreml munu ekki heldur hafa mikið fyrir að koma fyrir kattarnef einum nóbelsverðlaunamanni og konu hans. Þetta er í eðlinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ringulreið fyrir sauðburð.

Greinar

Hin óskráða regla, að Alþingi skuli slitið upp úr miðjum maí, byggist á, að í gamla daga þurftu þingmenn að taka hnakk sinn og hest og ríða til sauðburðar. Enn er haldið stíft við þessa reglu, þótt atvinnuhættir og samgöngur hafi gerbreytzt síðan á nítjándu öld.

Ráðherrar hafa vanið sig á að nota sauðburðartímann til að komast á óþarfa fundi í útlöndum. Og óbreyttir alþingismenn eru komnir með farseðla til sólarlanda. Þessi ferðaþrá hefur tekið við af sauðburði, sem forsenda þess, að Alþingi verður sér til skammar á hverju vori.

Aldrei hefur þó æðibunugangurinn og ringulreiðin verið meiri en að þessu sinni. Frumvörp og tillögur hafa verið afgreiddar í kippum, þótt mjög fáir þingmenn hafi kynnt sér innihald þeirra. Eitt dæmið um þetta er lögræðisfrumvarpið, sem varð að lögum fyrir misskilning.

Efri deild hafði breytt þeirri útgáfu frumvarpsins, sem kom frá neðri deild. Þurfti frumvarpið því að fara aftur til nefndar í neðri deild, hefðbundið skref til samræmingar á útgáfunum tveimur. Síðan hefði framsögumaður nefndarinnar kynnt niðurstöðuna á deildarfundi.

Fyrir misskilning milli Ingvars Gíslasonar þingforseta og Gunnars G. Schram nefndarformanns var vikið frá eðlilegri málsmeðferð. Að viðstöddum nefndarformanni var útgáfa efri deildar tekin til atkvæða af deildarforseta og samþykkt án athugasemda nefndarformanns.

Þetta kom þingmönnum auðvitað í opna skjöldu. Þeir héldu, að málið hefði fengið eðlilega meðferð. Þegar menn áttuðu sig á, að svo var ekki, var það orðið um seinan. Lögræðisfrumvarpið var orðið að lögum í útgáfu, sem alveg er óvíst, að sé í samræmi við vilja Alþingis.

Æðibunugangurinn og ringulreiðin lýsa sér á ýmsan annan hátt. Hrossakaupin blómstra í öðru hverju skoti, meðan þingforsetar gera hlé á fundum til að leysa ósamkomulag milli stjórnarflokkanna eða innan annars hvors stjórnarflokksins. Þessu fylgir ógeðfelldur blær.

Landsfrægt er, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gerðu með sér kaup um, að Mjólkursamsalan fengi áfram að brjóta skattalög gegn því, að húsnæðissamvinnufélögum yrði kippt úr húsnæðisfrumvarpinu. Þetta mangó-mál hnekkti áliti fólks á Alþingi.

Heilir þingflokkar og einstakir þingmenn notfæra sér tímahrakið á síðustu dögunum til að hindra. framgang mála, sem meirihluti er fyrir. Þannig var á síðustu stundu hindrað, að Alþingi samþykkti frumvarp um afnám einokunar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.

Stefán Valgeirsson hélt þinginu gangandi næturlangt með málþófi út af bankanum, þar sem hann vildi verða bankastjóri. Framsóknarmenn mættu ekki á fund í fjárveitinganefnd til að hindra, að Pálmi Jónsson yrði formaður nefndarinnar í störfum hennar í sumar.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, forseti Sameinaðs þings, hefur hvað eftir annað þurft að minna formenn nefnda á, að liggja ekki á málum. Samt tókst Ólafi Þ. Þórðarsyni að gera allsherjarnefnd óstarfhæfa með því að neita að halda fundi til að hindra bjórfrumvörp.

Eftir tíða kvöld-, nætur- og helgarfundi er þreyttum og vansvefta afgreiðslumönnum á þingi meira eða minna óljóst, hvað hefur verið afgreitt og hvað ekki. Hitt ætti ekki að vefjast fyrir þeim, af hverju þjóðin hefur lítið álit á þingmönnum og Alþingi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skemmdir kartöfluflokkar.

Greinar

Framsóknarflokkurinn gæti ekki haldið áfram að ofsækja neytendur, ef hann nyti ekki fyllsta stuðnings þingflokks sjálfstæðismanna. Sameiginlega hafa þessir tveir skemmdu kartöfluflokkar svæft frumvarpið um afnám Grænmetiseinokunar með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Hinn eini réttláti í þingflokki sjálfstæðismanna var Eyjólfur Konráð Jónsson, sem greiddi atkvæði gegn svæfingunni. Er nú ekki einu sinni Albert Guðmundsson lengur með á nótunum. Hann studdi þó fyrir stuttu með Eyjólfi Konráð tillögu um sölu ríkisbankanna.

Enginn ætlast til, að Framsóknal.flokkurinn geri nokkuð fyrir neytendur í landinu. Hann er einn af hornsteinum Landseigendafélagsins, sem lítur á neytendur sem ánauðugt fólk. Enda má segja, að hinir fáu kjósendur flokksins í þéttbýli séu haldnir eins konar sjálfskvalastefnu.

Hitt er athyglisverðara, að þingflokkur sjálfstæðismanna skuli standa öflugan vörð um hagsmuni einokunarinnar. Hann gerir grín að undirskriftum 20.000 neytenda með því að hunza þær. Hann telur vafalaust, að málið verði gleymt og grafið í næstu kosningum.

Varnarstríð Jóns Helgasonar landbúnaðarráðherra í kartöflumálinu vekur engar vonir um eðlilega framvindu málsins. Hann leyfði um síðir innflutninginn með því skilyrði, að hann yrði ekki frjáls. Hann skyldaði heildsalana til að mynda einokunarhring um innflutninginn.

Tvíokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins og hrings heildsala tryggir ekki hagsmuni neytenda. Við höfum þegar séð, að ítölsku kartöflurnar voru of smáar. Frjáls samkeppni heildsala mundi fljótlega þvo burt þá aðila, sem endurtækju slík mistök í innkaupum.

Markmið Jóns Helgasonar er auðvitað að sá til vantrúar almennings á afnámi kartöflueinokunar Grænmetisverzlunarinnar. Það gerir hann með því að leyfa innflutning til bráðabirgða, en gefa hann ekki frjálsan. Síðan hyggst hann endurnýja einokunina, þegar neytendur missa úthaldið.

Landbúnaðarráðherra hefur líka skipað í málið nefnd, sem á að drepa málinu á dreif. Í fyrstu bókun nefndarinnar varar hún einróma og eindregið við skipulagsbreytingu á sölukerfinu að svo komnu máli. Neytendur munu ekki geta sótt hald og traust í þessa afturhaldsnefnd.

Engin ástæða er til að ætla, að stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins takist að hindra ráðagerðir Jóns Helgasonar og Landseigendafélagsins. Ekki eru nema nokkrir dagar síðan þeir gáfust upp fyrir Framsóknarflokknum í söluskattsvikunum á kókómjólk.

Með verðlækkun á kókómjólk hefur verið viðurkennt, að árum saman hefur verið stolið undan söluskatti. Samt gerir þingflokkur sjálfstæðismanna samkomulag um að söluskattur verði ekki innheimtur að sinni. Menn eru komnir á lágt stig, þegar þeir semja um slík lögbrot.

Þeir voru líka langt niðri, þegar þeir samþykktu, að engin rekistefna yrði gerð út af samsæri Sambands íslenskra samvinnufélaga og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins um innflutning á ónýtum kartöflum, sem veldur neytendum fimm milljón króna tjóni um þessar mundir.

Dæmin sýna, að neytendur eiga ekki hauk í horni Sjálfstæðisflokksins, bandingja Framsóknarflokksins. Eina vopn þeirra í stríðinu við einokunina er að halda áfram viðskiptabanninu á Grænmetisverzlunina, ekki bara í nokkrar vikur, heldur árum saman, ef með þarf. Í svona máli dugar aðeins harkan sex.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rúm fyrir 2000 bændur.

Greinar

Loksins hafa stofnanir og samtök landbúnaðarins viðurkennt, að niðurgreiðslurnar séu sniðnar fyrir landbúnaðinn og haldi uppi óraunhæfum markaði fyrir afurðir sauðfjár og nautgripa. Hingað til hafa þessir aðilar haldið fram, að útflutningsuppbæturnar einar væru mælikvarði á offramleiðsluna.

Í fróðlegri grein í Tímanum í fyrradag komu fram tölur frá þessum aðilum um, að framleiðsla hinna hefðbundnu landbúnaðarafurða yrði að minnka um 30%, ef útflutningsbætur og niðurgreiðslur yrðu afnumdar. Þetta jafngildir 40% offramleiðslu, en ekki 10% eins og áður hefur verið haldið fram.

Er þá loksins öllum orðið ljóst, að niðurgreiðslur ákveðinna vörutegunda auka neyzlu þeirra á kostnað annarra vörutegunda og skekkja neyzluvenjur landsmanna. Þannig er búinn til falskur markaður, sem um síðir hefnir sín, þegar ríkið hefur ekki lengur efni á þessum stuðningi.

Samkvæmt tölum stofnana og samtaka landbúnaðarins yrði aðeins rúm fyrir 2000 alvörubændur á Íslandi í stað 4200, ef útflutningsbætur og niðurgreiðslur yrðu afnumdar. Tölunni 2000 hefur raunar stundum áður skotið upp í umræðum um framtíð hefðbundins landbúnaðar á Íslandi.

Þessir aðilar telja þannig, að fækkun bænda yrði töluvert meiri en samdráttur framleiðslunnar, þar sem líklegt sé, að smæstu og verst búnu býlin mundu fyrst týna tölunni. Þetta er sjálfsagt rétt athugað í höfuðdráttum, þótt fleiri atriði verði í reynd lögð á vogarskálarnar.

Að bændur skuli nú vera rúmlega tvöfalt fleiri en þörf er fyrir, samkvæmt tölum samtaka og stofnana landbúnaðarins, sýnir, hversu skammsýnt hefur verið að styðja hinn hefðbundna landbúnað áratug eftir áratug. Vandanum hefur verið ýtt áfram með miklum tilkostnaði.

Ef bændum hefði verið leyft að fækka síðustu þrjá áratugina með sama hraða og þeim hefur fækkað á sama tíma á öðrum Norðurlöndum og með sama hraða og þeim fækkaði hér á landi á fyrri áratugum þessarar aldar, væru þeir nú einmitt 2000 en ekki 4200.

Margvíslegum ráðum hefur verið beitt til að hamla gegn hinni eðlilegu þróun. Ungir menn hafa með fjárgjöfum verið ginntir til að stofna nýbýli og skuldasúpur. Eins hafa framtakssamir bændur verið með fjárgjöfum ginntir til að stofna skuldasúpur, áhyggjur og þrældóm.

Svo langt gengur þetta þrælahald, að sett hafa verið sérstök lög til að hindra bændur í að selja jarðir sínar á fullu markaðsverði. Þeir neyðast til að sæta lágu mati og hafa því ekki efni á að gera það, sem þeir helzt vildu, – að flytjast á mölina.

Þetta kerfi er ekki rekið í þágu bænda, heldur í þágu vinnslu- og dreifingarstöðva, sem þurfa veltu og aukna veltu til að standa undir stórfelldum framkvæmdum, sem allar eru þjóðhagslega óþarfar. Tíu hundraðshlutum fjárlaga ríkisins er varið í þessu skyni.

Hið opinbera á aldrei að verja fé til að vernda deyjandi atvinnugreinar. Það má hins vegar veita peningum til nýrra og upprennandi atvinnuvega, til iðngarða í bæjum og kauptúnum og til margvíslegrar endurmenntunar, sem gerir þjóðinni kleift að mæta nýjum tíma.

Íslendingar eiga ekki að sóa fé í að standa gegn röskun á háttum sínum. Byggðir eiga að fá að falla í eyði í friði. Við eigum að láta þrældóm byggðastefnunnar víkja fyrir heilbrigðri röskun, sem hefur verið og er enn undirstaða allra framfara, hér sem annars staðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjórar illar stofnanir.

Greinar

Grænmetisverzlun landhúnaðarins er ekki eina dæmið um ill áhrif einokunar á viðskiptahætti, þótt hún sé vafalaust hið versta þeirra. Einokun er í sjálfu sér þess eðlis, að ráðamenn hennar geta ekki staðið undir henni, jafnvel þótt þeir haldi sig gera sitt bezta.

Osta- og smjörsalan er stundum tekin sem dæmi um einokun, sem hafi lánast sæmilega og gæti ef til vill verið grænmetisverzluninni til fyrirmyndar. Þessa misskilnings gætir einkum hjá fólki, sem hefur lítinn áhuga á fjölbreyttri notkun osta og veit ekki, hvernig góðir ostar eiga að vera.

Hópur fólks hugðist nýlega halda ostaveizlu og keypti ostana til öryggis í sjálfri ostabúð einokunarinnar. Eftir eina nótt í kæli hafði Port Salut þrútnað og gaf frá sér ógeðslega fýlu. Það tókst að fá honum skipt í Osta- og smjörsölunni í tæka tíð og fá nothæfan í staðinn.

Í ostaveizlunni kom svo í ljós, að Dalayrja var mygluð út í rauða og svarta liti. Ennfremur var Búri tvílitur, gulur að hálfu og bleikur að hálfu. Þar með voru þrír af upprunalegu tíu ostunum ekki neyzluhæfir. 30% afföll hljóta aðteljast 30% of mikil afföll.

Aðeins einokunarstofnun getur leyft sér frammistöðu á borð við þessa. Aðeins slík stofnun getur haft á boðstólum osta, sem heita frægum nöfnum, en eru ólíkir hinum upprunalegu ostum og þar að auki mismunandi frá lögun til lögunar. Sú er einmitt reynslan hér á landi.

Osta- og smjörsalan hefur í mörgum tilvikum í boði ostategundir, sem framleiðendur hafa ekki náð tökum á. Stundum heppnast framleiðslan og stundum ekki. Gráðosturinn sveiflast til dæmis frá því að vera mjög góður yfir í að vera óætur frá hendi framleiðandans.

Mjólkursamsalan í Reykjavík er dæmi um einokun með orðspori, sem er einhvers staðar á milli Grænmetisverzlunar landbúnaðarins og Osta- og smjörsölunnar. Hún er hins vegar frægust fyrir verðlagningu, sem senn mun sjást í smíði stærstu mjólkurhallar Vesturlanda.

Mjólkursamsölunni hefur aldrei tekizt að búa til súrmjólk, er stenzt samanburð við þá, sem gerð er á Akureyri og Húsavík. Engin nothæf tilraun virðist hafa verið gerð til að brúa þetta sérkennilega bil, enda má ekki selja norðansúrmjólk á einokunarsvæði Mjólkursamsölunnar.

Síðustu árin hefur Mjólkursamsalan margoft verið staðin að því að dagstimpla mjólk lengra fram í tímann en þá þrjá daga, sem leyfðir eru. Einu sinni tókst með myndatöku að sýna fram á, að mjólk var stimpluð átta daga fram í tímann. Fimm dagar eru algeng stærðargráða í svindlinu.

Þótt forhitun mjólkur hafi verið bönnuð, hefur henni miskunnarlaust verið beitt til að hindra, að mjólkin súrni á hinum langa geymslutíma. Við það drepast mjólkursýrugerlarnir, og í staðinn dafna rotnunargerlarnir. Af þeim stafar hið fúla bragð, sem oft er að mjólkinni.

Landseigendafélag Íslands, sem stendur að þessum þremur einokunarstofnunum, er nú að koma á fót hinni fjórðu. Það er eggjadreifingarstöðin, sem mikill styr hefur staðið um. Hún verður senn sett upp í Kópavogi og þá mega neytendur búast við fúlum og skemmdum eggjum í fyrsta sinn.

Allar þessar stofnanir dafna, af því að neytendur hafa ekki dug og samtakamátt til að setja þær í viðskiptabann. Það er ekki fyrr en vitleysan gengur út í öfgar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, að neytendum tekst að fá einokunina mildaða um stundarsakir. Um stundarsakir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Undanþágur – í bili.

Greinar

“Grænmetisverzlunin veitir mjög góða þjónustu,” sagði Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, á fundi með blaðamönnum fyrir helgina út af skemmdu kartöflunum frá Finnlandi. Og hann flissaði ekki einu sinni á meðan.

Ummæli formannsins skýra betur en flest annað, hvernig komið er fyrir einokunarkerfi landhúnaðarins. Ráðamenn þess halda fram, að þeir gæti í hvívetna hagsmuna neytenda. Þeir telja enga ástæðu til að láta í frjálsum innflutningi reyna á, hvort svo sé.

“Við höfum engan áhuga á, að öðrum verði gefið leyfi til að flytja inn kartöflur,” sagði formaðurinn. Hann þykist vita, hvað sé neytendum fyrir beztu. Hann vill ekki viðurkenna, að bezt sé, að neytendur ákveði sjálfir, hvað þeim sé fyrir beztu. Hann segist bara vilja vel.

Ummælin, sem hér hefur verið vitnað í, endurspegla alla aðra röksemdafærslu til varnar hinu úrelta einokunarkerfi í sölu landbúnaðarafurða. Kerfisstjórarnir munu einbeita sér að því að koma í veg fyrir, að framhald verði á þeim undanþágum, sem nú verða veittar.

Hörð viðbrögð neytenda valda því, að Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra finnst ekki stætt á öðru en að veita einkaframtakinu undanþágur til innflutnings á nýjum, ætum kartöflum, sem víða fást á hagstæðu verði. Þetta er stórt skarð í varnarmúrinn.

Neytendur mega hins vegar ekki ímynda sér, að þeir geti látið við undirskriftasöfnunina sitja. Ef þeir sofna á verðinum, mun einokunin taka við á nýjan leik, þegar kerfisstjórar hennar telja, að mesta hættan sé liðin. Og þá fer allt í gamla farið aftur.

Það er engan veginn einsdæmi, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins veki hneykslun. Slíkt er að minnsta kosti árviss viðburður og ekki bara í kartöflunum, þótt þar sé ástandið verst. Grænmetiseinokunin í heild er í hróplegu ósamræmi við frelsi í innflutningi góðra ávaxta.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur hvað eftir annað lent í vondum málum. En hún hefur alltaf haft meira úthald en neytendur. Og sigur neytenda í nýjustu orrustunni mun ekki sjálfkrafa leiða til sigurs þeirra í stríðinu. Til þess þarf meira en undirskriftir.

Ef neytendur gætu hins vegar mannað sig upp í að sniðganga kartöflur Grænmetisverzlunar landbúnaðarins í varanlegan tíma, að minnsta kosti í eitt ár, er líklegt, að þeir gætu knúið stjórnendur einokunarkerfisins til uppgjafar. Neytendur mundu þá fá kartöflubændur til að endurmeta stöðuna.

Hið sama gætu neytendur raunar gert til að hrella einokunarkerfið á öðrum sviðum. Segja má, að núverandi ófremdarástand sé sumpart neytendum sjálfum að kenna. Þeir hafa þolað kúgunina, muldrandi í barm sér, en hafa ekki haft reisn eða mátt til að svara á sannfærandi hátt.

Varnarstríð einokunarinnar sjáum við í málgagni hennar, Nýja Tímanum. Þar var fyrst þagað þunnu hljóði. Síðan var skrifuð frétt um skemmd epli til að koma því inn hjá fólki, að slík vandamál fylgdu fremur hinum frjálsa innflutningi en einokunarkerfinu.

Neytendur harma að vonum 1,5 milljón króna tjón sitt af skemmdum kartöflum frá Finnlandi. En hvað mega skattgreiðendur segja um 7 milljón króna tjónið af hinni hliðinni, útflutningsuppbótunum af kjötinu til Finnlands? Og allur þessi herkostnaður er til þess eins greiddur, að SÍS fái skitnar 0,7 milljón krónur í umboðslaun.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lamaður stjórnmálaflokkur.

Greinar

Af fjölmennri þingmannahjörð Sjálfstæðisflokksins greiddu aðeins Eyjólfur Konráð Jónsson og Albert Guðmundsson atkvæði með tillögu Bandalags jafnaðarmanna um sölu ríkisbankanna. Er sú sala þó á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og nefndar, sem formaður flokksins átti sæti í.

Afdrif tillögunnar um sölu ríkisbankanna er aðeins eitt af mörgum dæmum um niðurlægingu þingflokks sjálfstæðismanna. Í þeim hópi eru sárafáir menn, sem hafa einhvern áhuga á stefnumálum flokksins og nenna að taka til hendi, þegar um þau er að tefla.

Hinn dæmigerði þingmaður sjálfstæðisflokksins er Egill Jónsson. Hann hefur sem formaður landbúnaðarnefndar efri deildar komið í veg fyrir, að frumvarp Alþýðuflokksins um afnám einokunar Grænmetisverzlunar ríkisins sé tekið til umræðu og afgreiðslu í nefndinni.

Þegar Eyjólfur Konráð kvartaði í fyrradag yfir þessari meðferð málsins, hafði Egill um hann hin hæðilegustu orð sem hlaupasmala Alþýðuflokksins. Var Eyjólfur Konráð þó aðeins að hreyfa við máli, sem allur þorri sjálfstæðismanna styður af hjartans sannfæringu.

Sérstaklega er áberandi undirlægjuháttur þingflokks sjálfstæðismanna gagnvart Framsóknarflokknum. Hann endurspeglar hliðstæðan undirlægjuhátt ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Um þetta lið í heild má segja, að það sé eins konar Framsóknarflokkur í Sjálfstæðisflokknum.

Matthías Bjarnason, framsóknarráðherra í Sjálfstæðisflokknum, leggur kapp á að fá Alþingi til að samþykkja ný fjarskiptalög, sem fela í sér aukna hörku í einokun Pósts og síma á fjarskiptum. Þetta frumvarp gengur þvert á anda og stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Á sama tíma nenna ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki að keyra í gegn útvarpslagafrumvarpið, sem gengur í hina áttina, aukið frjálsræði í anda stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins. Þeir hyggjast samþykkja fjarskiptafrumvarpið og salta útvarpslagafrumvarpið.

Frumvörp, sem eru í anda stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins, fá að velkjast um á Alþingi mánuðum saman og sofna í nefndum, sem stjórnað er af framsóknarmönnum, sem sumir hverjir eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en eru samt verri framsóknarmenn en hinir, er játa lit.

Frumvörp, sem hins vegar eru í anda einokunar, borin fram af sérstökum afturhaldsmönnum á borð við Pál Pétursson, formann þingflokks framsóknarmanna, á hins vegar að keyra í gegn á örfáum vikum. Eitt dæmið um það er frumvarpið um fríðindi Mjólkursamsölunnar í kakómjólk og fleiru.

Frekjan í þessum afturhaldsmönnum er svo gegndarlaus, að nú neita þeir að afgreiða kosningalagafrumvarp, sem formenn allra stjórnmálaflokkanna á síðasta þingi standa að á þessu þingi. Ætti afgreiðslan þó nánast að vera formsatriði, því að frumvarpið var samþykkt á síðasta þingi.

Afturhalds- og einokunarsinnar mundu ekki láta svona, ef þeir væru ekki búnir að átta sig á, að hrygginn vantar í þingflokk og ráðherralið sjálfstæðismanna. Þeir ganga á lagið, þegar þeir finna, að þessi dapurlega hjörð hefur næstum engan áhuga á eigin flokksmálum.

Einkennilegt er, að sjálfstæðisflokkurinn sem stofnun skuli orðalaust láta viðgangast, að fulltrúar hans á þingi hagi sér eins og sannfærðir framsóknarmenn. Það er eins og eymdin og niðurlægingin hafi líka lamað apparatið í Valhöll, meira að segja nýja formanninn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Verðbólgan vaknar.

Greinar

Ýmislegt bendir til, að ríkisstjórninni muni reynast erfitt að halda verðbólgunni niðri, þegar líður á seinni hluta þessa árs. Eftir það afreksverk að koma henni niður í 10% á skömmum inna, skortir hana úrræði til að verja árangurinn og nýta hann til frekari framfara.

Ríkisstjórninni hefur ekki tekizt að hindra, að samdráttur þjóðartekna leiddi til aukinnar hlutdeildar ríkisins í þjóðarbúskapnum. Henni hefur ekki tekizt að draga úr kostnaði við ríkisrekstur til samræmis við aðra aðila þjóðfélagsins, til dæmis heimilin í landinu.

Ríkisstjórnin hafði hálft ár til að koma fram fjárlögum og þrjá mánuði til viðbótar til að afgreiða lánsfjáráætlun og staga í fjárlagagatið. Niðurstaðan er, að fátt eitt hefur verið sparað, en hins vegar efnt til umtalsverðrar söfnunar skulda í útlöndum.

Umfangsmikill rekstur ríkissjóðs og sú nýbreytni að fjármagna daglegan rekstur hans með erlendu lánsfé eru til þess fallin að auka peningaþensluna án nokkurrar hliðstæðrar eflingar atvinnulífsins. Með þessu er verið að efna í nýja verðbólgu, sem mun leita framrásar.

Ríkissjóður stendur í harðri samkeppni við atvinnulífið um takmarkað sparifé landsmanna. Þegar tregða komst í sölu ríkisskuldabréfa, hóf ríkið öra útgáfu ríkisvíxla. Þetta hefur stuðlað að því, að framboð peninga í bönkunum er ekki neina þriðjungur af eftirspurn.

Slíkt misvægi er auðvitað ávísun á verðbólgu, þótt hún blundi enn undir niðri og hafi ekki komið upp á yfirborðið. Og það er ekki hin jákvæða verðbólga, sem byggist á miklum sóknarþunga þjóðarinnar í arðbærri fjárfestingu, heldur verðbólga fjármagnsskömmtunar.

Ríkisstjórnin hefur ekkert breytt kerfinu, sem sér um, að verulegur hluti fjármagns landsmanna renni framhjá brautum arðseminnar inn á brautir ríkisrekstrar og sjálfvirkrar fyrirgreiðslu við hefðbundna og lítt arðbæra starfsemi, sem löngum hefur notið pólitískrar náðar.

Ríkisstjórnin hefur náð verðbólgunni niður með því að gera landið að láglaunasvæði, en hún hefur ekki notað lagið til að gera neinn þann uppskurð í peninga- og atvinnumálum, sem veki vonir, að aukin arðsemi fjármagns og vinnu muni endurveita þjóðinni fyrri lífskjör.

Fréttirnar af Grænmetisverzlun landbúnaðarins og Mjólkursamsölunni eru tvö lítil, ný dæmi um, að hinn hefðbundni landbúnaður er í heild sinni gjaldþrota. Þegar slíkt krabbamein er ekki einu sinni skorið upp, er ljóst, að við munum áfram búa við kröpp kjör.

Margvíslegar upplýsingar um vafasama fjárfestingu hins opinbera, til dæmis í verksmiðjudraumórum og heilsugæzlustöðvum, hafa ekki leitt til neinnar viðleitni til að nýta betur fjármagnið í landinu. Þetta eru bara örfá dæmi um, að ríkisstjórnin er í sjálfheldu.

Í haust mun hún standa berskjölduð gagnvart launþegasamtökum, sem hafa lausa samninga og munu spyrja, hvernig ríkisstjórnin hafi notað svigrúmið, sem hún fékk við hófsemdarkjarasamninga liðins vetrar. Og ríkisstjórnin mun ekki geta veitt nein marktæk svör.

Þannig rennur tíminn frá ríkisstjórninni. Framkoma hennar gagnvart launþegum mun ýta undir óraunhæfa kjarasamninga síðar á þessu ári. Þeir munu svo aftur blása eldi í glæður verðbólgunnar, sem ríkisstjórnin hefur að undanförnu verið að safna í af hreinu ráðleysi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Seintekinn þjóðargróði.

Greinar

Nýlega kom fram á aðalfundi eins bankans, að eftirspurn eftir lánsfé sé þrefalt meiri en framboðið. Slíkt er ástandið enn, þótt vextir séu loksins orðnir jákvæðir og þótt bönkunum hafi verið heimilað að hefja samkeppni um að laða að sér sparifjáreigendur.

Verðbólgan hefur komið sér þægilega fyrir í 10% hægagangi og er ekki líkleg til að lækka frekar í bráð. Miðað við það er eðlilegt að túlka skakkan lánamarkað þannig, að vextir þurfi að hækka á nýjan leik. Þeir þurfi að verða jákvæðari en þeir hafa verið.

Steingrímur Hermannsson hefur að vísu sagt, að vaxtahækkun komi ekki til greina. Þar með er hann raunar að segja, að hann treysti sér ekki til að nálgast jafnvægi á lánamarkaði meira en orðið er. Eftirspurnin muni áfram verða þrefalt meiri en framboðið.

Það hefur sínar góðu hliðar, að Steingrími og félögum hans í ríkisstjórninni hefur tekizt að gera Ísland að láglaunasvæði. Fyrirtækjum er farið að vegna betur og kjarkur til athafna hefur aukizt. Þetta vekur vonir um efldan þjóðarhag og betri lífskjör í framtíðinni.

Aukinn máttur fyrirtækja leiðir til aukinnar sóknar þeirra í lánsfé til uppbyggingar. Ráðamenn þeirra telja fyrirhugaðar fjárfestingar svo arðbærar, að þær muni standa undir hinum jákvæðu vöxtum, sem nú ríkja. sumar gætu vafalaust staðið undir hærri vöxtum.

Hið fullkomna jafnvægi fælist í, að vextir yrðu svo háir, að framboð og eftirspurn væru jöfn. Þá mætti ætla, að einungis væri ráðizt í arðbærustu fjárfestinguna. Þannig mundi takmarkað sparifé landsmanna nýtast hraðast, endurnýjast örast til nýrrar fjárfestingar.

Þar sem ríkisstjórnin hefur ekki þessa hugsjón að leiðarljósi, reynir hún í staðinn að skammta lánsféð. Hún reynir að velja úr þennan eina af hverjum þremur, sem fær peningana. Þetta hafa ríkisstjórnir alltaf gert og sjaldnast út frá neinum arðsemissjónarmiðum.

Ríkisstjórnin hefur beðið Alþingi um heimild til að auka svokallaða bindiskyldu bankanna í Seðlabankanum um 10%.. Með því er ætlunin að taka lánsfé af hálfopnum markaði bankakerfisins og færa inn í sjálfvirka kerfið, sem forgangsgreinar njóta í Seðlabankanum.

Peningar eru raunar aldrei bundnir í þeim banka. Þeir fara út jafnharðan í formi sjálfvirkra lána á betri kjörum en tíðkast á almennum markaði. Þannig er tryggt, að gæludýrin fái sitt, meðan arðbær verkefni slást um niðurskorið fjármagn bankakerfisins.

Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á jafnvægi á lánamarkaði er ein af orsökum þess, að enn er krafizt 75% útborgunar í fasteignaviðskiptum, þótt verðbólgan hafi snarlækkað á einu ári. Þessi útborgun sýnir, að eftirspurn eftir steypu er meiri en framboðið.

Dæmin sýna, að hér ríkir ekki kreppa, heldur þensla. Hún gefur vonir um fulla atvinnu í náinni framtíð og bætt lífskjör í fjarlægari framtíð. Þetta er góða hliðin á annars þungbærri láglaunastefnu. En svo virðist, að ríkisstjórnin ætli að láta við þá stefnu eina sitja.

Núverandi svigrúm ætti hins vegar að nýta til að koma á jafnvægi og jafnrétti á lánamarkaði, svo að peningar renti sig sem örast og þjóðin verði aftur rík. Meðan framboð á lánsfé er aðeins einn þriðji af eftirspurn verður seintekinn þjóðargróðinn af þessari ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Harðlínan bifast ekki.

Greinar

Þess misskilnings hefur gætt undanfarna daga, að nú séu að linast tök landseigendafélags Íslands á stefnu stjórnvalda í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Er haft til marks um þetta, að deilt hafi verið um stefnuna á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um síðustu helgi.

Ráðamenn Framsóknarflokksins hafa lengi opinberlega verið þeirrar skoðunar, að framleiða skuli hefðbundnar landbúnaðarafurðir upp í meintar innanlandsþarfir og hafa í góðum árum afgang til útflutnings, svo að ekki komi til skorts á þessum vörum í vondum árum.

Ekki er minnzt á landbúnað í ályktun miðstjórnafundarins. Eftir fundinn lýsti svo Steingrímur Hermannsson formaður yfir, að æskilegt væri, að útflutningur landbúnaðarafurða væri sem minnstur. Þetta er áherzlubreyting í stefnu, en alls engin kúvending.

Ef frá eru taldir nokkrir áhrifalitlir Reykvíkingar, eru deilur Framsóknarflokksins um hinn hefðbundna landbúnað milli harðlínumanna annars vegar og grjótharðlínumanna hins vegar.Harðlínumenn á borð við Steingrím og Jón Helgason landbúnaðarráðherra hafa undirtökin í þeim deilum.

Harðlínumenn vilja í stórum dráttum halda óbreyttri stefnu í málum hins hefðbundna landbúnaðar, þótt gjaldþrot hennar sé sífellt að verða fleirum ljóst. Þeir vilja gefa eftir í smámunum eins og jógúrtmálinu, þegar þrýstingur verður óbærilegur, en sækja fram á öðrum sviðum eins og í eggjamálinu.

Grjótharðlínumennirnir reka hins vegar eins konar lngólfsku, sem er stefna óheftrar sjálfvirkni í offramleiðslu óseljanlegra afurða á þjóðarkostnað. Slíka menn er líka að finna í Sjálfstæðisflokknum og einkum þó í Alþýðubandalaginu, sem oft reynir að grafa undan Framsókn úr þessari átt.

Samanlagt ráða harðlínumenn og grjótharðlínumenn stefnu og gerðum allra þessara stjórnmálaflokka í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur meira að segja gert aðalþingmann stærsta landbúnaðarkjördæmisins, arftaka lngólfs, að flokksformanni.

Þessarar þriggja flokka varðstöðu um landseigendafélag Íslands sér greinileg merki á liðnum vetri. Hinn hefðbundni landbúnaður hefur verið varinn með kjafti og klóm, þrátt fyrir margvíslegar uppljóstranir. Og á sumum sviðum hefur honum tekizt að sækja fram gegn neytendum og þjóð.

Engin von er á, að afnumin verði einokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, þrátt fyrir hundraðasta hneykslið, er felst í hringrotna skepnufóðrinu, sem selt er undir heitinu kartöflur. Frumvarp Alþýðuflokksins um það efni hefur ekki einu sinni fengizt rætt.

Engin von er á, að afnumin verði einokun Mjólkursamsölunnar, þótt komið hafi í ljós ofsagróði í skjóli sjálfvirkrar verðlagningar á einokunarvörum, sem meðal annars er notuð til óheiðarlegrar samkeppni á öðrum sviðum. Það er varla, að söluskattur náist af mangó!

Þrátt fyrir virka andstöðu hefur harðlínumönnum tekizt að útvega lán af fé neytenda til eggjadreifingarstöðvar þeirrar, sem er fyrsta skrefið í að breiða einokun hins hefðbundna landbúnaðar yfir egg, kjúklinga og svín. Þar er á ferðinni hið hættulegasta mál.

Þjóðin hefur ekki og er ekki hið minnsta að nálgast afnám martraðar innflutningsbanns á búvöru og ríkisstuðnings við hinn hefðbundna landbúnað. Landseigendafélagið stendur við stjórnvölinn og lætur engan bilbug á sér finna. Þjóðin mun áfram borga og borga og borga.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þrotinn stjórnarkraftur.

Greinar

Eftir sex vikna þref í ríkisstjórninni er fengin léleg niðurstaða í tilraunum hennar til að koma á jafnvægi í ríkisbúskap ársins. Upp í 3.000 milljón króna gat á fjárlögum og lánsfjáráætlun fannst aðeins 300 milljóna sparnaður hjá hinu opinbera. Það er 10% árangur.

Að öðru leyti afgreiðir ríkisstjórnin málið með því að leggja 600 milljón krónur á aðra aðila og taka 2.100 milljón krónur að láni í útlöndum. Þessari dapurlegu niðurstöðu spáði DV raunar fyrir þremur vikum. Þá var ljóst, að ríkisstjórnin hafði misst hæði kjarkinn og flugið.

Ekki er einu sinni svo vel, að ríkisstjórninni sé fyllilega ljóst, hvernig hún spari 300 milljónir. Hún talar um 185 milljón króna lækkun í ráðuneytunum og 100 milljón króna sparnað í heilbrigðiskerfinu. Ekki fylgir sögunni, hvers konar sparnaður þetta sé í raun.

Rétt er að leggja áherzlu á, að 600 milljóna álögur á aðra aðila eru ekki sparnaður, heldur millifærsla í þjóðfélaginu. Þessar millifærslur kunna í ýmsum tilvikum að vera nauðsynlegar og jafnvel beinlínis gagnlegar. En þær fela ekki í sér samdrátt í rekstri ríkisins.

Sem dæmi um þetta má nefna niðurgreiðslurnar, sem sagt er, að eigi að lækka úr 945 milljónum í 760 milljónir eða um 185 milljónir. Þetta er gagnlegur niðurskurður, sem hefði raunar mátt vera margfalt meiri. En hann flokkast undir millifærslur, en ekki beinan sparnað.

Verra er, að ríkisstjórnin lítur á það eins og sjálfsagðan hlut, að þessar 185 milljónir lendi á herðum neytenda, en ekki framleiðenda. Þær lenda ekki á herðum vinnslustöðva, sem lifa í vellystingum praktuglega og fjárfesta grimmt í skjóli einokunar og aðhaldsleysis.

Þar sem unnt væri að fá mun ódýrari landbúnaðarvörur frá útlöndum, verður ekki séð, að neytendum beri að greiða herkostnað af minnkuðum niðurgreiðslum. Það er innflutningsbannið, sem gerir landbúnaðarvörur svo dýrar, að niðurgreiðslur eru notaðar til að láta þær ganga út.

Ef innflutningur landbúnaðarafurða væri frjáls, þyrftu neytendur ekki á neinum niðurgreiðslum að halda og mundu þar á ofan öðlast kjarabót í lækkuðu vöruverði. Niðurgreiðslurnar eru því einkamál ríkisins og hinna vernduðu framleiðenda. Þær á ekki að færa á herðar neytenda.

Sjálfvirknin við að koma niðurgreiðsludæminu á rangar herðar sýnir vel, að Sjálfstæðisflokknum svipar til Alþýðubandalagsins í að vera algerlega blindaður bandingi Framsóknarflokksins í málum hins hefðbundna landbúnaðar, hins íslenzka landseigendafélags.

Þessi blinda hlýðni kemur líka í veg fyrir, að ríkisstjórnin geti aflétt millifærslum á ýmsum öðrum sviðum, er varða landseigendafélagið, svo sem útflutningsuppbótum, innflutningsbanni, beinum styrkjum til eflingar offramleiðslu og ódýrum forgangslánum.

Þetta á verulegan þátt í, að ríkisstjórnin telur sig nauðbeygða til að taka að láni í útlöndum 2.100 milljón krónur af 3.000 milljóna gati fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Það er alvarlegasta hliðin á málinu og mun sennilega koma þjóðarskuldum yfir 60% af árlegri þjóðarframleiðslu.

Þótt ríkisstjórnin reyni nú að hagræða spátölum til að svo líti út sem þessi 60% múr hafi ekki verið rofinn með lélegri niðurstöðu í sparnaðaráformum hennar, má öllum öðrum vera ljós ósigur hennar. Eftir góða byrjun í fyrra er farið að síga á ógæfuhliðina. Ríkisstjórninni er þrotinn kraftur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óætar kartöflur einokunar.

Greinar

Í öllum borgum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku eiga neytendur greiðan aðgang að mörgum tegundum óskemmdra kartaflna árið um kring. Á útimörkuðum þessara borga er algengt að sjá tíu til fimmtán tegundir af húðsléttum og heilbrigðum kartöflum. Hvergi sést skemmd kartafla.

Ísland hefur þá sérstöðu, að hér er hins vegar einkum boðið upp á húðskemmdar kartöflur, sem sumar duga til skepnufóðurs, en aðrar eru hreinlega óætar. Þetta stafar af, að hér ríkir ekki verzlunarfrelsi með kartöflur, heldur einokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.

Kartöflur og annað grænmeti er skorið upp á öllum tímum árs eftir löndum og breiddargráðum. Nútíma samgöngutækni veldur því, að nýjar og fallegar kartöflur eru jafnan á boðstólum í öllum nágrannalöndum okkar í austri og vestri. Bara ekki hér á landi.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur hins vegar haft lag á að kaupa til manneldis erlendar fóðurkartöflur á sama verði eða hærra en mannamaturinn. Sem dæmi má nefna, að fyrr í þessum mánuði sýndi athugun Neytendasamtakanna, að þriðjungur kartaflna var þriðja flokks.

Nýjustu innkaupin á þremur sendingum af hringrotnum kartöflum frá Finnlandi eru bara yngsti kaflinn í langri harmsögu Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Meðal annars hefur hún flutt inn kartöflur frá sýkingarsvæðum hinnar illræmdu kóloradóbjöllu.

Stundum hefur verið hægt að sýna fram á, að innkaupsverð Grænmetisverzlunar landbúnaðarins eru óeðlilega há. Fyrir fjórum árum keypti hún til dæmis skemmdar kartöflur af Thorsen í Danmörku á 1,20 danskar krónur kílóið við skipshlið, þegar Færeyingar fengu óskemmdar af sömu tegund á 0,85 krónur.

Einnig hefur verið hægt að sýna fram á, að álagning Grænmetisverzlunarinnar er óeðlilega há. Meðan einkafyrirtækin fá 15% álagningu á hliðstæða vöru, er Grænmetisverzluninni ætluð 37% álagning. Dæmi eru svo um, að hún hafi í raun skammtað sér 54% álagningu.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur oft verið staðin að hreinum lygum. Hún hefur gefið upp ýktar tölur um innkaupsverð í útlöndum. Hún hefur logið upp útflutningsgjöldum í útlöndum. Hún hefur haldið því fram, að nýjar kartöflur séu ekki fáanlegar allt árið.

Dæmi um þetta hafa verið rakin hér í blaðinu og fyrirrennurum þess í um það bil áratug. Samt er mjög erfitt að kanna slík mál, því að Grænmetisverzlun landbúnaðarins er lokuð stofnun, sem stendur engum reikningsskap gerða sinna, ekki einu sinni Verðlagsstjóra.

Í 25 ár hefur verzlun þessi starfað á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það ráð er þungamiðja valdakerfis landeigendafélags Íslands, það er að segja fyrirtækja og stofnana hins hefðbundna landbúnaðar. Það rekur Grænmetisverzlunina eins og sjálfseignarstofnun.

Þannig hefur höllin Gullauga verið reist fyrir peninga, sem neytendur hafa neyðst til að greiða fyrir of dýrar, of gamlar og of skemmdar kartöflur. Íslendingar hafa neyðst til að borða skepnufóður meðan aðrar þjóðir hafa fengið úrval ódýrra, nýrra og óskemmdra kartaflna.

Ekkert vit er í, að þessi aðstöðumunur verði framlengdur. Neytendur þurfa að skera upp herör gegn einokuninni og kvelja trega stjórnmálaflokka til að létta af martröðinni. Verzlunarfrelsi er forsenda þess, að neytendur öðlist þau mannréttindi að fá ætar kartöflur.

Jónas Kristjánsson.

DV