Greinar

Upphafið að endalokunum?

Greinar

Ríkisstjórnin hefur stundað fálmkennt reiptog um fjárlaga- og lánsfjárlagagatið í rúmar þrjár vikur. Virðing hennar hefur hjaðnað við þessa iðju. Daglega lesa menn og heyra fréttir um, að einn ráðherrann vilji fara út og annar suður, þriðji norður og hinn fjórði niður.

Eftir hina miklu jóðsótt fjallsins er þegar orðið ljóst, að fæðast mun lítil mús. Ríkisstjórnin mun ná samkomulagi um aðgerðir, sem að minnstu leyti fela í sér niðurskurð, að meira leyti aukna skattheimtu og að mestu leyti hreina frestun vandans með skuldasöfnun.

Þetta er auðvitað ekki nokkur árangur. Niðurstaðan hlýtur að vekja menn til umhugsunar um, hvort reiptogið og útkoma þess séu ekki upphafið að endalokum ríkisstjórnarinnar. Eftir djarfa og vinsæla byrjun muni hún koðna niður og smám saman andast úr hræðslu og fylgisleysi.

Þegar reiptogið hófst fyrir hálfri fjórðu viku, voru tilbúnar hugmyndir embættismanna um 1.700 milljón króna bandorm, sem fól í sér bæði niðurskurð og nýjar álögur. Bandormurinn hefði fyllt gatið að verulegu leyti. Ríkisstjórnin hefði vel getað byggt á honum.

Í stað þess fengu flestir ráðherranna fyrir hjartað, þegar þeir sáu orminn. Þeir litu í barm sinna ráðuneyta og sáu fram á margvíslegar raunir við framkvæmd málsins. Þeir kusu að ganga ekki djarflega til verks, heldur stinga höfðinu í sandinn í von um, að vandinn hyrfi.

Eftir bandorminn hafa komið fram ýmsar tillögur aðrar um aukinn sparnað og niðurskurð hjá ríkinu. Lengst hefur verið gengið hér í leiðara, þar sem raktar voru fimmtán tillögur um samtals 3.089 milljón króna hreinan niðurskurð fjárlaga og lánsfjáráætlunar ársins.

Meðal annars var lagt til, að fjármagn til vegagerðar yrði lækkað úr 1.583 milljónum í 1.383, það er að spöruð yrði 200 milljón króna lántaka í ljósi erfiðleikanna. Samgönguráðherra fórnaði höndum í örvæntingu og spurði: Hvaða kjósandi vill sjá af nýja veginum sínum?

Einkennilegt er, að ráðherrarnir skuli halda dauðahaldi í 200 milljón króna framlag til virkjunar Blöndu, sem landeigendur hafa gert að dýru orkuveri og sem ekki hefur kaupanda að orkunni. Og í 104 milljón króna framlag til flugstöðvar, sem má bíða betri tíma.

Einnig er einkennilegt, að ráðherrarnir skuli halda dauðahaldi í 100 milljón króna framlag til kaupa á hlutabréfum í loftköstulum á borð við steinullarver. Og í 92 milljón króna framlag til flugfélags, sem á allt gott skilið, en hefur þó hagnað á þessum erfiðu tímum.

Þegar illa árar, er eðlilegt, að ríkið neiti sér um að þykjast hafa efni á að veita 61 og 230 milljónum króna til orkustyrkja, sem hamla gegn því, að innlendir orkugjafar taki við af innfluttum. Þessir styrkir urðu til, þegar Íslendingar voru ríkari en þeir eru nú.

Og af hverju má ekki sleppa því á einu erfiðu ári að verja 83 og 120 milljónum króna til Byggðasjóðs, sem virðist hafa það hlutverk helzt að hamla gegn því, að fjárfest sé í fyrirtækjum, er geti staðið undir fjárþörf hins opinbera í náinni og fjarlægri framtíð?

Loks virðast ráðherrarnir lítið sem ekkert geta höggvið í samtals 1.483 milljón króna styrki, niðurgreiðslur og uppbætur til landbúnaðar. Þeir hafa hins vegar orðið sammála um að greiða niður áburð til landbúnaðar um 80 milljón krónur! Og um frestun gatsins að verulegu leyti!

Þessi frammistaða er fyrir neðan allar hellur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nokkur skref fram á veg.

Greinar

Hver endurbótin í peningamálum hefur rekið aðra í vetur hjá ráðuneytum viðskipta og fjármála. Matthías Á. Mathiesen hefur komið á innlánsvaxtafrelsi í bankakerfinu og rýmkað hömlur á meðferð gjaldeyris og Albert Guðmundsson hefur byrjað sölu á ríkisvíxlum.

Fleiri umbætur eru í undirbúningi. Í fjármálaráðuneytinu er verið að einfalda tollakerfið úr sextán gjaldstofnum niður í tvo, toll og vörugjald. Þar er líka verið að koma á tollkrít og endurskoða hið flókna og tímafreka fyrirkomulag við tollafgreiðslu.

Þessi atriði eru til þess fallin að auka sveigjanleika í viðskiptum og hagþróun og koma Íslandi inn í þann peningalega nútíma, sem ríkir í nágrannalöndunum. Hefur raunar lengi verið beðið eftir þessum hreytingum, ekki sízt tollkrítinni, sem ætti þegar að vera komin í framkvæmd.

Hugsanlegt er, að samkomulag náist í ríkisstjórninni um almennari álagningu söluskatts, sem mundi auðvelda innheimtu hans. Minni horfur eru á, að virðisaukaskattur leysi söluskatt af hólmi, þótt hann hafi fyrir löngu gert það annars staðar og þyrfti að koma hér.

Með hverri vikunni daprast vonir um, að ríkisstjórnin ráðist af fullum krafti gegn fjárlagagatinu með því að leggja niður útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur og innflutningsbann, sem hafa takmarkað sveigjanleika peningakerfisins og þróunarmöguleika þjóðarbúsins.

Þannig verðum við enn um sinn eftirbátar annarra á ýmsum sviðum, þátt á öðrum sviðum höfum við náð umtalsverðum árangri í vetur. Eins og stundum áður getur ráðherrum daprast flugið, þegar þeir eru búnir að koma í framkvæmd allra brýnustu atriðunum.

Þeir Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen hafa vítin að varast frá viðreisnarstjórninni, sem vann flest sín afrek á fyrstu mánuðum ferilsins, en koðnaði síðan niður í aðgerða- og tilgangsleysi, sem varð henni um síðir að falli, þrátt fyrir miklar vinsældir í upphafi.

En við sjáum raunar strax árangur af því, sem tekizt hefur að koma í verk í vetur. Bankar, fjárfestingarlánasjóðir og ríki hafa tekið upp samkeppni um sparifé fólks. Sjóðirnir bjóða 5,5% raunvexti, bankarnir 6% vexti umfram sparisjóðsvexti og ríkið heldur uppboð á sínum vöxtum.

Sumt af fyrirganginum verður til lítils. Megináhrifin eru þó, að fólk áttar sig betur á, að hagkvæmt getur verið að leggja peninga í sjóð fremur en að verja þeim til kaupa á vörum og þjónustu. Þannig ætti að aukast ráðstöfunarfé á peningamarkaði.

Hækkun á heimiluðum yfirfærslum ferðamanna, almenn heimild til notkunar krítarkorta í útlöndum, svo og stóraukið svigrúm til eignayfirfærsla eru lagfæringar, sem samanlagt fela í sér stórfellda veikingu átthagafjötra og styrkingu krónunnar sem alvörugjaldmiðils.

Bezt væri, ef þessar aðgerðir leiddu til eðlilegs framhalds í erlendum bankaútibúum í landinu, svo sem Albert. Guðmundsson hefur lagt til. Enn er eftirminnileg vítamínsprautan, sem Íslandsbanki var fyrir þjóðarhag í upphafi þessarar aldar.

Ef til vill verður hægt að eygja frjálsa meðferð gjaldeyris, frjálsa notkun vaxta og frjálsa verzlun með allar afurðir, svo og afnám niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta, skatta- og tollamisvægis. Í þá átt hafa verið stigin nokkur skref að undanförnu.

Megi þau fljótt verða fleiri.

Jónas Kristjánsson.

DV

Blaðafulltrúar sérhagsmuna.

Greinar

Þeir, sem hafa farið í fjölmiðla með gagnrýni á kerfi hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda, eiga það sameiginlegt að hafa engra hagsmuna að gæta. Sem óháðir þáttakendur í opinberri umræðu telja þeir sig vera að verja almannahagsmuni fyrir sérhagsmunum.

Hinir, sem verja kerfið, eiga það svo aftur á móti sameiginlegt að vera launaðir starfsmenn þess og raunar stjórnendur þess. Þeir eru að verja atvinnu sína hjá stofnunum kerfisins og þau völd, sem þær hafa yfir landbúnaði og raunar þjóðfélaginu í heild.

Þetta eru formenn og framkvæmdastjórar og blaðafulltrúar þriggja stofnana, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Þar með eru taldir núverandi og fyrrverandi ritstjórar Freys, þegar þeir fara í aðra fjölmiðla.

Freyr er gefinn út sameiginlega af Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands. Með Framleiðsluráði landbúnaðarins hafa þessar stofnanir sameiginlegan blaðafulltrúa, er kemst þó ekki einn yfir að verja hinn þríhöfða þurs, sem rekinn er fyrir almannafé.

Til aðstoðar Agnari Guðnasyni blaðafulltrúa koma Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda, Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, Jónas Jónsson, forstjóri Búnaðarfélags Íslands, og Gunnar Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ef mikið liggur við eins og nú, þegar verja þarf fyrirhugaða eggjaeinokun, ern sóttir til viðbótar fyrrverandi og núverandi ritstjórar Freys, þeir Gísli Kristjánsson og Matthías Eggertsson. Einstaka sinnum koma í ljós aðrir starfsmenn hins þríhöfða þurs.

Það, sem allir þessir menn skrifa í fjölmiðla, eru ekki kjallaragreinar í venjulegum skilningi þess orðs. Þær eru ekki framlag óháðs borgara til opinnar umræðu í landinu. Þær eru skrif eins konar blaðafulltrúa til stuðnings sérhagsmunum vinnuveitanda hans.

Afleiðingin verður eins konar eintal hinna, sem skrifa út frá almannahagsmunum. Þeir hlaða upp ótal röksemdum, sem blaðafulltrúar sérhagsmunanna geta með engu móti svarað. Níu af hverjum tíu efnisatriðum gagnrýninnar er hreinlega aldrei svarað efnislega.

Í staðinn finna blaðafulltrúarnir sér önnur vopn. Algengast er, að þeir grípi til sálfræðinnar og úrskurði, að hatur á landbúnaði sé að baki gagnrýni manna á kerfi hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda. Hatursmennirnir eru sagðir ala á úlfúð og illgirni.

Einstaka sinnum færist meira útflúr í þessa sálgreiningu. Þá skýtur upp kenningum um, að hatur á landbúnaði sé ýmist ættgengt og þá frá Grenjaðarstað eða héraðsbundið og þá frá Austur-Húnavatnssýslu. Hjáfræði af þessu tagi hafa færzt í aukana upp á síðkastið.

Ennfremur er einokunarhneigð kerfis hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda varin með því að halda fram, að einokun ríki hjá DV, sem birtir flestar kjallaragreinarnar. Það er eins og þeim finnist DV vera eitt í heiminum, en ekki eitt af fimm dagblöðum og sjö fjölmiðlum alls.

Þegar þeir sjömenningar hafa lokið sálgreiningunni, ættfræðinni, landafræðinni og fjölmiðlafræðinni, er yfirleitt rokinn úr þeim allur vindur. Sem blaðafulltrúar sérhagsmuna hafa þeir nefnilega fátt til varna, ef ræða á efnislega um kerfi hins hefðhbundna landbúnaðar. Sá þríhöfða þurs er óverjandi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Smákóngur gabbar þingmenn.

Greinar

Mörg dæmi sýna, að stjórnmálamenn þjóðarinnar á Alþingi eiga erfitt með að standast snúning embættismönnum, sem búa til lagafrumvörp fyrir þá. Slík frumvörp fela oft í sér aukin völd hinna sömu embættismanna og stofnana, sem þeir veita forstöðu.

Sem dæmi um ástandið má nefna meðferð allsherjarnefndar efri deildar Alþingis á frumvarpi, sem nokkrir embættismenn sömdu fyrir dómsmálaráðherra. Felur frumvarpið í sér, að opinberar stofnanir þurfi ekki lengur að birta gjaldskrár sínar opinberlega.

Allsherjarnefndin leitaði álits Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Sambands íslenzkra rafveitna og Hafnarsambands sveitarfélaga, sem allt eru opinherir aðilar, er vilja hafa lög sem þægilegust fyrir sig. Enda mælti allsherjarnefnd með samþykkt frumvarpsins. Einum rómi!

Þessari nefnd Alþingis datt ekki í hug að leita álits á hinum vængnum, hjá viðskiptavinum þessara stofnana. Til dæmis var ekki beðið um álit Neytendasamtakanna, þótt sumar opinberar stofnanir séu þekktar að fyrirlitningu á rétti neytenda gagnvart þeim.

Sem dæmi um þessa fyrirlitningu má nefna, að Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur eru hættar að sýna einingaverð á áætlunarreikningum þeim, sem þær senda notendum. Þeir dólgslegu reikningar stinga mjög í stúf við hliðstæða bandaríska reikninga, sem við höfum birt hér í blaðinu.

Formaður Neytendasamtakanna, sem er nýkominn úr kynnisferð um Bretland, skýrði frá því hér í blaðinu í fyrradag, að þar í landi væri síminn neytendum þyngstur í skauti allra opinberra stofnana. Teljaraskref og annar ófögnuður benda til, að svo sé einnig hér á landi.

Embættismenn símans hafa greinilega haft tögl og hagldir í nefnd, sem bjó til fjarskiptafrumvarp, er samgönguráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi. Frumvarpið grunnmúrar einokun símans á fjarskiptum utanhúss og gerir meðal annars öll kapalkerfi ólögleg.

Til þess að villa um fyrir stjórnmálamönnum frumvarpsnefndarinnar og Alþingis segir í greinargerð frumvarpsins, að það taki ekki afstöðu til kapalkerfa, enda séu á döfinni breytingar á útvarpslögum, sem kunni síðan að leiða til breytinga á fjarskiptalögum.

Sama grandaleysi kom fram í ræðu samgönguráðherra um frumvarpið. Hann benti þar á kapalkerfin, sem tekin hafa verið í notkun víða um land, og hélt því fram, að fjarskiptafrumvarpið gengi í sömu frjálsræðisátt og útvarpslagafrumvarpið, sem sefur á Alþingi.

Gallinn er sá, að það eru frumvörp, sem verða að lögum, en ekki góðviljaðar greinargerðir eða framsöguræður, sem fylgja þeim. Og í nýja fjarskiptafrumvarpinu er hreinlega felld niður heimild, sem ráðherra hefur nú til að veita öðrum en Pósti og síma leyfi til fjarskipta.

Sigfús Björnsson prófessor sagði nýlega í útvarpserindi, að frumvarpið gerði einkarétt símans á fjarskiptakerfum og þar á meðal kapalkerfum ótvíræðari en nokkru sinni fyrr. Lokað yrði smugunni, sem opnast hefði við nýju útvarpslögin og óskerta ráðherraheimild.

Jón Skúlason símamálastjóri hefur sem sagt gabbað stjórnmálamennina. Hefði þó mátt ætla, að þeir hefðu nokkra reynslu af einræðishneigð smákónga í stétt embættismanna og kynnu að vara sig á henni. Frumvörpin um gjaldskrár stofnana og fjarskipti benda til, að svo sé ekki.

Jónas Kristjánsson.

DV

3089 milljóna sparnaður.

Greinar

Landsfeður okkar virðast vera í mestu vandræðum með að fylla í göt fjárlaga og lánsfjáráætlunar þessa árs. Þeir telja útilokað að spara þær 1845 milljónir, sem þurfi til að ná endum saman. Lausleg yfirferð á fyrirhuguðum útgjöldum bendir þó til, að spara megi 3089 milljónir.

Sú upphæð nýtist að vísu ekki til fulls. Þegar er liðinn nærri fjórðungur ársins, svo að búast má við, að þegar sé búið að greiða sumt, sem betur hefði verið sparað. Við þurfum því að draga frá 772 milljónir og fá út 2317 milljónir til að fjalla raunsætt um málið.

Hins vegar getum við mætt ýmissi röskun og öðrum herkostnaði af þessum niðurskurði með því að gefa frjálsan innflutning landbúnaðarafurða. Það mundi bæta hag neytenda um 500 milljónir að minnsta kosti og sennilega um 1000 milljónir.

En hverjir eru þeir liðir, sem óþarfir eru og samtals nema 3089 milljónum á fjárlögum og lánsfjáráætlun?

280 milljón króna útflutningsuppbætur landhúnaðarafurða hvetja til viðgangs peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis í kinda- og kúabúskap.

258 milljón króna beinir styrkir til kinda- og kúabúskapar hvetja einnig til framhalds á peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

945 milljón króna niðurgreiðslur á afurðum kinda og kúa skekkja verðkerfið í landinu. Neytendum má bæta þær upp með frjálsum innflutningi slíkra afurða.

83 milljón króna framlag til Byggðasjóðs hvetur til peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

120 milljón króna lántaka Byggðasjóðs hvetur einnig til peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

16 milljón króna styrkur við pólitísk sorprit stjórnmálaflokkanna stuðlar að því, að almenningur fái ekki upplýsingar á borð við þessar.

230 milljón króna niðurgreiðsla á raforku stuðlar að því, að fólk búi á óhagkvæmum stöðum á landinu.

61 milljón króna olíustyrkur tefur fyrir nýtingu innlendra orkugjafa.

200 milljón króna lántöku til vegagerðar má fresta um eitt ár af fjárhagsástæðum, enda standa þó eftir 1383 milljónir til vegagerðar á fjárlögum.

200 milljón króna lántaka til Blönduvirkjunar er óþörf, af því að frekja landeigenda hefur gert þá virkjun óhagkvæma og kaupanda vantar að orkunni.

104 milljón króna lántaka til flugstöðvar í Keflavík er óþörf, af því að það er ekki góður staður fyrir gróðurhús og núverandi flugstöð er nógu stór.

92 milljón króna samanlagðir styrkir til Flugleiða eru óþarfir, af því að það þjóðþrifafyrirtæki er komið á réttan kjöl að nýju.

200 milljón krónur getur Seðlabankinn gefið eftir af þeim vöxtum, sem hann tekur af ríkinu, og af öðrum gróða. Um leið getur hann frestað byggingu sinni.

200 milljón krónur má fá með því að beina skattrannsóknum frá smámálum yfir í söluskattinn.

100 milljón króna lántöku til hlutabréfakaupa í vitlausum fyrirtækjum á borð við steinullarverksmiðju má spara, enda er því fé að öllu leyti kastað á glæ.

Samtals eru þetta 3089 milljónir króna í hreinan sparnað án nokkurrar skattlagningar og erlendrar skuldasöfnunar. Þetta er hægt, ef landsfeðurnir hætta að tilbiðja heilögu kýrnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Tækninám er framtíðin.

Greinar

Skúringar og færibandavinna eru deyjandi starfsgreinar. Nýjasta iðnbyltingin felst í, að vélmenni eru látin taka að sér einföldustu störfin í atvinnulífinu. Lengst er þessi þróun komin í Japan, til dæmis í bílaiðnaðinum þar. Og senn flæðir hún yfir Vesturlönd.

Skúringar og færibandavinna eru láglaunastörf, sem eru lítils metin. Samt þykir hagkvæmara að búa til vélar til að annast þessi störf. Maðurinn er ekki lengur samkeppnishæfur í þessum starfsgreinum, þótt kaupið sé lágt og vinnan sé leiðinleg.

Tvennt er jákvæðast við þessa þróun. Í fyrsta lagi er séð fyrir endann á þeirri martröð iðnbyltingarinnar, að hún tæki mannkynið úr náttúrulegu umhverfi og hlekkjaði það við færibönd í ómannlegum verksmiðjum. Þvert á móti er iðnbyltingin nú að veita mönnum áður óþekkt frelsi.

Hitt jákvæða atriðið er, að framleiðni mun nú aukast hröðum skrefum á nýjan leik. Í evrópskum málmiðnaði er til dæmis gert ráð fyrir, að árið 1995 þurfi helmingi færra starfsfólk til að framleiða það vörumagn, sem framleitt var árið 1980. Þetta er bylting á fimmtán árum.

Ófaglærðir starfskraftar voru árið 1980 átta sinnum fleiri í málmiðnaði en þeir verða árið 1995. Og iðnaðarmenn voru fjórum sinnum fleiri árið 1980 en þeir verða árið 1995. Þær stéttir, sem voru þrír fjórðu hlutar mannaaflans árið 1980, verða aðeins einn fjórði árið 1995.

Stjórnendur munu halda tölu sinni og hækka hlutfall sitt af mannaflanum um helming vegna helmings samdráttar í mannafla fyrirtækja í málmiðnaði. Bezt mun reiða af tæknifræðingum, sem voru 6% starfsmanna í málmiðnaði árið 1980, en verða 40% árið 1995.

Samtals munu stjórnendur og tæknimenn verða 60% mannaflans í málmiðnaði árið 1995. Þetta eru stéttir framtíðarinnar, þær stéttir, sem munu hafa beztu tekjurnar og fjölbreyttustu vinnuna. Þetta eru stéttirnar, sem þjóðfélagið ætti að vera að mennta núna.

Til að mæta þessari framtíð og virkja hana í þágu velmegunar á Íslandi þurfum við að grípa til markvissra ráða í menntakerfinu. Við þurfum öldungadeildir, þar sem ófaglært fólk getur fengið iðnmenntun og iðnaðarmenn fengið tækniskólamenntun. Og jafnframt þurfum við að tryggja, að sem fæst ungmenni lendi í faglausum ógöngum.

Þetta þýðir, að okkur ber að stórefla Tækniskóla Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands. Í Tækniskólann fara nú um 100 manns á ári, en þyrftu að vera nærri 400 á ári. Þessar tölur sýna, hversu vanbúin við erum að mæta framtíðinni og hversu mikið verk er fyrir höndum.

Hér á landi er farið að bera á atvinnuleysi ungs fólks eins og tröllriðið hefur nágrannaþjóðunum á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er, að vélmennin og önnur hagræðing munu enn stórfækka störfum í atvinnulífinu. En það verða leiðinlegustu og verst launuðu störfin.

Á sama tíma verður vaxandi skortur á tækni- og verkfræðimenntuðu fólki. Á þeim sviðum eru nægir möguleikar handa ungu fólki til starfa að fjölbreyttum, skemmtilegum og vel launuðum viðfangsefnum. Við þurfum fljótt og vel að stórauka kennsluframboð á þessum sviðum.

Ein helzta skylda skólakerfisins er að staðna ekki í gömlum tíma, heldur sjá fyrir byltingarnar, þegar þær eru að renna af stað. Og núna ætti helzta verkefni þess að vera að mennta rúmlega helming unga fólksins í stjórnun, verkfræði og tækni. Þar er framtíðin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Einokunarhneigðin játuð.

Greinar

,Jafnframt yrði undirboðum hætt,” skrifaði ritstjóri búnaðarblaðsins Freys nýlega í lofgrein um eggjadreifingarstöð, sem reisa á fyrir fóðurbætisgjald, er neytendur hafa greitt í búvöruverði. Í tilvitnuninni felst játning á raunverulegu markmiði stöðvarinnar.

“Þá láðist eggjaframleiðendum gjörsamlega að koma skipulagi á þessa framleiðslugrein,” segir í sömu grein búnaðarblaðsins. Af hvoru tveggja má ljóst vera, að ætlunin er að koma eggjum í svipað kerfi og er í framleiðslu og dreifingu kindakjöts og mjólkurafurða.

Valdakerfi landbúnaðarins hefur mátt þola, að duglegir eggjaframleiðendur, sumir meira að segja af mölinni, hafa risið upp í landinu og komið á fót stórum búum, sem hafa síðan lækkað eggjaverðið. Þetta er fleinn í holdi hins hefðbundna landbúnaðar.

Neytendur hafa hins vegar fagnað því, að egg eru ekki eins dýr og þau voru áður, þegar kerfi hins hefðbundna landbúnaðar stjórnaði verði þeirra að mestu leyti. Samtök neytenda hafa líka mótmælt harðlega áformum einokunarsinna um eggjadreifingarstöð.

Neytendur og skattgreiðendur bera byrðarnar af “skipulagi” því, sem nú er á afurðum kinda og kúa. Skattgreiðendur borga með þessu kerfi um hálfan annan milljarð króna á þessu ári og neytendur minnst hálfan milljarð til viðbótar í verði umfram heimsmarkaðsverð.

Bændur hafa að vísu ekki orðið mjög feitir af þessu skipulagi. Hins vegar hafa risið upp hrikalegar vinnslu- og dreifingarstöðvar, sem að öllu leyti eru reiknaðar inn í verðið, sem neytendur og skattgreiðendur eru neyddir til að greiða fyrir afurðirnar.

Eitt gjaldið, sem neytendur borga í hinu útreiknaða verði, er fóðurbætisgjald, sem leggst þyngst á framleiðslu svína og alifugla. Gjaldið hefur síðan verið notað að geðþótta miðstjórnarmanna kerfisins og að engu leyti runnið til þeirra, sem hafa lækkað verð á svínakjöti og eggjum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur fyrir sitt leyti ákveðið að verja 5,3 milljónum króna af gjaldi þessu til að reisa eggjadreifingarstöð. Með henni á að refsa þeim, sem hafa lækkað og haldið niðri verði á eggjum og hygla hinum, sem ekki hafa áhuga á framleiðni.

Þvinga á ódýru framleiðendurna inn í þessa stöð. Síðan hefst sama skipulagning og í hinni hefðbundnu búvöru. Komið verður upp jöfnun flutningskostnaðar og annarri jöfnun, sem tryggir að markaðslögmálunum verði endanlega kippt úr sambandi, neytendum til stórtjóns.

Framleiðsluráð landhúnaðarins hefur vald til að gefa leyfi fyrir slíkum stöðvum. Ljóst er, að ráðið hefur ekki áhuga á að veita fleiri leyfi en þetta eina. Það þeytir upp moldviðri með lítt markvissu tali um nauðsyn á heilbrigðisaðhaldi í eggjaframleiðslu.

Auðvitað er heilbrigðiseftirlit allt annað mál en eggjadreifingarstöð. Auk þess vita neytendur, að þeir hafa stundum fengið fúla mjólk og skemmt kjöt frá hinum skipulagða landbúnaði, en að öllum jafnaði góð egg frá hinum óskipulagða hluta.

Ríkisstjórnin hefur ekki fallizt á að hleypa einokunarliðinu á fulla ferð í máli þessu, en þó heimilað, með ýmsum skilyrðum, tveggja milljón króna lán til stöðvarinnar. En mál þetta minnir á, að neytendur og skattgreiðendur þurfa að taka saman höndunum um að velta búvörukerfinu af herðum sér.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nýr hlekkur átthagafjötra.

Greinar

Fyrir Alþingi liggur stjórnarfrumvarp um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Þar sem þetta er stjórnarfrumvarp, má reikna með, að það verði senn að lögum. Enda eru báðir stjórnarflokkarnir hlynntir því, að sem mest sé af kúm og kindum í landinu.

Þetta verður þá í fimmta sinn á tveimur áratugum, að lausaskuldum er létt af landbúnaði. Reglan er orðin sú, að á fjögurra ára fresti kemst kinda- og kúabúskapur í þrot, þrátt fyrir árlega styrki, uppbætur og niðurgreiðslur upp á hálfan annan milljarð á núverandi verðlagi.

Kaupfélagsstjórar verða kátir á fjögurra ára fresti. Þá losna þeir við reikningsskuldir bænda. Í staðinn fá kaupfélagsstjórarnir skuldabréf, sem innlánsdeildir kaupfélaganna mega senda Seðlabankanum upp í bindiskyldu eins og um reiðufé væri að ræða.

Með þessum hætti fá sumir ungir menn og bændasynir þá flugu í höfuðið, að unnt sé að hefja búskap með kýr og kindur hér norður við heimskautsbaug. Þeir byrja á lausaskuldum í kaupfélaginu og sökkva síðan í skuldabréfahaug, sem reyrir þá fasta í viðjar búskapar.

Margt fleira er gert hér á landi til að halda bændum við orfið og gabba nýja menn út í fenið. Raunar er 8,4% fjárlaga ríkisins varið til að stuðla að fjárfestingu og framleiðslu í hinum hefðbundna landbúnaði kinda og kúa. Þetta er hálfur annar milljarður í ár.

Sérstök búalög banna, að bændur selji jarðir sínar á markaðsvirði aðilum í þéttbýlinu, svo sem samtökum og fyrirtækjum, er vilja fá sumarbústaðaland. Er þar flaggað þeirri hugsjón, að ríkisbubbar úr Reykjavík skuli ekki eignast landið.

Í staðinn verða bændur að sæta því, að góðbændur í héraði meti verðmæti jarða þeirra á hálfu markaðsvirði eða fjórðungi þess og að góðbændur í héraði hafi forkaupsrétt að jörðunum á því tilbúna verði. Þetta er ein leiðin til að halda bændum við orfið.

Komið hefur verið upp flóknu og hrikalega dýru verðjöfnunarkerfi, svo að mjólk sé fremur framleidd við Lómagnúp en í Mosfellssveit. Þannig er mönnum talin trú um, að byggileg séu héruð, sem eru langt frá markaði þéttbýlisins. Þannig er þeim haldið við orfið.

Hinn hefðbundni landbúnaður kinda og kúa á ekki neitt skylt við atvinnuvegi. Hann er viðamikið kerfi, sem einkum miðar að því að vernda veltu vinnslustöðva og sölufélaga og helzt að auka hana, svo að reisa megi grautarhallir í Borgarnesi og mjólkurhallir í Árbæjarhverfi.

Einnig miðar hinn hefðbundni landbúnaður kinda og kúa að því að efla í Reykjavík gengi manna, sem hafa atvinnu af að stjórna landbúnaði í Búnaðarfélaginu, Stéttarsambandinu, Framleiðsluráðinu og öllum hinum stofnununum, er þeir hafa reist í kringum sig.

Á prenti mælir ekki þessu kerfi bót nokkur maður, sem ekki hefur beinlínis atvinnu af því að mæla því bót. Stundum eru þó dregnir á flot raunverulegir bændur til að vitna um, að þrældómur þeirra og átthagafjötrar séu undirstaða íslenzkrar menningar.

Vinir bænda eru samt þeir, sem vara þá við skuldbreytingum og búalögum og öðrum átthagafjötrum, sem falsvinir bænda hafa komið upp til að halda þeim í þrældómi vinnslustöðva, sölufélaga, kaupfélaga og fínna manna í Reykjavík.

Fyrirhuguð skuldbreyting er nýr hlekkur í þessum átthagafjötrum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við þurfum meiri röskun.

Greinar

Enn sem fyrr eru Íslendingar á faraldsfæti. Í fyrra fluttust rúmlega ellefu þúsund manns milli sveitarfélaga eða nærri 5% allrar þjóðarinnar. Þetta jafngildir því, að öll þjóðin skipti um sveitarfélag á tuttugu ára fresti.

Síðustu tólf árin þar á undan, það er frá 1971 til 1982, færðu sig raunar tæplega 125 þúsund manns, ekki bara milli sveitarfélaga, heldur milli landshluta. Það voru nærri 60% þjóðarinnar – á aðeins tólf ára tímabili.

Þjóðflutningar Íslendinga fela núna aðeins að litlu leyti í sér sókn fólks til þéttbýlis. Sem dæmi má nefna, að á þessum tólf árum fluttust 9.917 manns frá Vestfjörðum, en 7.687 komu þangað í staðinn. Straumurinn er ekki einhliða.

Þetta er ólíkt því, sem var á fyrri hluta aldarinnar, þegar fólk fluttist unnvörpum úr sveitinni á mölina og þjóðin í heild breyttist úr dreifbýlisþjóð í þéttbýlisþjóð. Þá grisjuðust byggðir og eyddust, svo sem Hornstrandir.

Raunar tæmdust heil kauptún, sem urðu undir í lífsbaráttunni. Fáir muna nú eftir Skálum á Langanesi, Aðalvik og Hesteyri á Vestfjörðum eða Dritvík og Djúpalónssandi á Snæfellsnesi, þar sem eitt sinn var mannlíf í blóma.

Allar aldir hafa Íslendingar verið á faraldsfæti, ekki aðeins milli bæja og dala, heldur landsendanna milli. Þetta sést af manntölum og kirkjubókum. Ein afleiðingin var, að hér mynduðust ekki mállýzkur eins og til dæmis í Noregi.

Raunar urðu Íslendingar til sem þjóð vegna röskunar. Fólk sleit sig frá heimahögum nágrannalandanna og stefndi yfir úthafið á vit hins ókunna. Það var enn öflugri kraftbirting en sú, sem felst í flutningum Íslendinga nútímans.

Í þá daga var ekki rætt um, að sálræn eða félagsleg kreppa fylgdi röskuninni, sem olli upphafi Íslandsbyggðar. Þvert á móti vitum við, að hér blómgaðist fljótlega mun öflugri menning en ríkt hafði í fyrri heimahögum fólksins.

Brezki sagnfræðingurinn Arnold Toynbee heldur því meira að segja fram, að gullöld íslenzkra miðalda hafi verið bein afleiðing hin mikla átaks, sem fólst í að rífa upp rætur sínar og halda út á úfið Atlantshafið.

Nú á tímum sálgæzlu og félagsráðgjafar finnst mörgum hins vegar, að röskun sé af hinu illa. Það er eins og þeir vilji frysta þjóðfélagið í núverandi ástandi og jafnvel færa það aftur á bak til ímyndaðra betri tíma. Meðal annars vilja þeir frysta búsetuna.

Hér á landi eru stundaðar umfangsmiklar og gífurlega kostnaðarsamar tilraunir til að hindra röskunina, sem felst í búferlaflutningum. Undir kjörorði byggðastefnu er reynt að hindra þjóðina í að halda áfram að sækja fram.

Á þessu ári veitir ríkið hálfum öðrum milljarði króna til viðhalds atvinnu við búskap með kýr og kindur. Þar á ofan er varið hundruðum milljóna af opinberu fé til ýmiss konar aðstöðujöfnunar, sem ætlað er að hindra fólk í að flytjast til betri skilyrða.

Þessi frystingarstefna hefur sligað ríkissjóð. Kostnaðurinn skiptir þó minna máli en hin almennt skaðlegu áhrif á atvinnu- og menningarsögu þjóðarinnar. Það sem þjóðin þarf, er röskun, en ekki frysting. Hún þarf að mæta framtíð, en ekki fortíð.

Þær tölur Hagstofunnar, sem hér hafa verið birtar, sýna, að Íslendingar eru óhræddir við röskun og óragir við að flytjast milli landshluta. Þessa kraftbirtingu á ekki að fjötra í viðjar jöfnunar og byggðastefnu, kúa og kinda.

Röskun er framtíð, en frysting er fortíð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Reagan er óbærilegur.

Greinar

Háttsettur liðhlaupi úr öryggissveitum El Salvador hefur að undanförnu borið vitni fyrir bandarískri þingnefnd um morðæði dauðasveita öfgasinnaðra hægri manns í landi sínu. Vitnisburður hans staðfestir fyrri heimildir.

Dauðasveitirnar eru undir stjórn Roberto d’Aubuisson, forseta þings El Salvador og frambjóðanda til forsetaembættis landsins. D’Aubuisson er geðbilaður og fær útrás í morðæði að sögn fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador.

Með geðbiluninni er d’Aubuisson jafnframt mikill ræðumaður í stíl Hitlers og Mussolini. Hann hrífur með sér þá, sem eru veikir fyrir fasisma, og er talinn viss um eitt þriggja efstu sætanna í forsetakosningunum.

Ekki er nákvæmlega vitað, hversu marga d’Aubuisson hefur látið myrða, en talan 30.000 hefur verið nefnd. Nokkuð ljóst er þó, að árið 1983 voru fórnardýrin rúmlega 6.000 og spanna allt litróf stjórnmálanna nema tryllta hægri kantinn.

Frægasta morðið, sem d’Aubuisson fyrirskipaði, var á erkibiskupnum Oscar Arnulfo Romero, sem myrtur var fyrir altari dómkirkjunnar. En einkum eru myrtir kennarar og læknar og aðrir þeir, sem grunaðir eru um aðstoð við alþýðuna.

Að baki d’Aubuisson stendur landeigendavaldið, bæði það, sem heima situr, og hitt, sem hefur flutzt til Miami í Bandaríkjunum. Frá Miami eru morðin fjármögnuð fyrir milligöngu Nicolas Carranza höfuðsmanns, yfirmanns tollalögreglunnar í landinu.

Annar helzti stuðningsmaður morðsveitanna er fyrrverandi varnarmálaráðherra landsins, José Guillermo Garcia. Sá, sem sér um að koma morðingjunum undan réttvísinni er núverandi varnarmálaráðherra, Eugenio Vides Casanova.

Náfrændi Vides er höfuðsmaðurinn Oscar Edgardo Casanova, sem lét nauðga og myrða bandarískar nunnur, sem önnuðust hjálparstarf í El Salvador. Yfirmenn í hernum sjá d’Aubuisson yfirleitt fyrir óargadýrunum.

Þótt d’Aubuisson hafi gengið svo langt, að hann eigi ekki lengur upp á pallborðið hjá Reagan Bandaríkjaforseta, eru hinir fjöldamorðingjarnir nokkurn veginn allir skjólstæðingar Mið-Ameríkustefnu Bandaríkjastjórnar.

D’Aubuisson bætir sér upp þennan skort á stuðningi með hjálp frá tryllta hægri kantinum í stjórnmálum og trúmálum Bandaríkjanna, svo sem American Security Council og National Strategic lnformation Center.

Harmsaga tuttugustu aldarinnar í Mið-Ameríku er nánast öll á vegum bandaríska stjórnvalda, sem studdu til valda hrikalega glæpamenn á borð við Batista á Kúbu og Somoza í Nicaragua. Enda eru Bandaríkin hötuð af öllu ærlegu fólki í Mið-Ameríku.

Þannig undirbjuggu bandarísk stjórnvöld óafvitandi valdatöku Castro á Kúbu og Sandinista þeirra í Nicaragua, sem nú sigla landi sínu óðfluga í faðm kommúnismans. Bandaríkjamenn geta engum öðrum en sjálfum sér um kennt.

Ástandið var byrjað að batna og mest á kjörtímabili Carters Bandaríkjaforseta. Það hefur hins vegar versnað aftur hjá Reagan, sem talinn hefur verið nokkurn veginn viss um endurkjör. Sú tilhugsun er nánast óbærileg þeim, sem vilja hafa innihald í vestrænu samstarfi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gatakíttið er misdýrt

Greinar

Til viðbótar við falsanir og óskhyggju upp á 1845 milljónir króna í fjárlögum ríkisins fyrir þetta ár koma 700-800 milljón króna falsanir og óskhyggja í lánsfjáráætlun ríkisins, sem enn er til afgreiðslu á alþingi.

Samtals gæti því gat ársins numið um 2600 milljónum króna til viðbótar um 1200 milljón króna gati frá árinu í fyrra. Af þessum hrikalegu tölum má vera ljóst, að engin vettlingatök duga og engar kýr mega lengur vera heilagar.

Auðvitað hefði verið þægilegra að leggja niður styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til hvatningar á offjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði og á offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum, þegar allt lék í lyndi og röskunina mátti milda.

En á þessu ári er hin nakta staðreynd sú, að á fjárlögum er ráðgert að verja 1.500 milljónum til að styrkja landbúnaðinn. Öll sú upphæð er ekki aðeins óþörf, heldur er hún beinlínis skaðleg, andstæð lífshagsmunum þjóðarinnar.

Fleiri heilagar kýr eru á fjárlögum, þótt engin sé eins hrikaleg í sniðum og landbúnaðurinn. Sem dæmi má nefna 13 milljón króna styrk til sorprita stjórnmálaflokkanna og 230 milljónir til að hamla gegn orkuþróun í húshitun.

Ekkert bendir til, að ríkisstjórnin treysti sér til að létta heilögu kúnum af ríkissjóði. Ekkert bendir til, að hún treysti sér til að lækka útgerðarkostnað heimilanna með því að leyfa frjálsa verzlun með búvöru á heimsmarkaðsverði.

Þegar ekkert má gera, sem skynsamlegt getur talizt, stendur ríkisstjórnin auðvitað andspænis hugmyndum, sem kalla á skattahækkun, skuldaaukningu í útlöndum, verðbólgu í kjölfar seðlaprentunar og hrun sjálfseignarstefnu í húsnæði.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að hækka skatta á borð við benzíngjald, áfengis- og tóbaksgjald, svo og að finna upp nýja á borð við sjúkratryggingagjald, og loks að hækka skattstiga.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin komin í fremstu röð þeirra ríkisstjórna, sem mest hafa hækkað skatta á stytztum tíma. Og hún er þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að taka erlend lán og auka skuldabyrðina gagnvart útlöndum í meira en 60% af árlegri þjóðarframleiðslu, sem allir vita, að er stórhættulegt.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin komin í fremstu röð þeirra ríkisstjórna, sem mest hafa aukið skuldasúpuna á styztum tíma. Og er hún þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að draga stórlega úr fjármögnun húsnæðislánakerfisins og ganga af dauðri þeirri hugsjón, að borgarar þessa lands geti eignazt þak yfir höfuðið.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin orðin Íslandsmeistari allra ríkisstjórna í aðgerðum gegn sjálfsbjargarviðleitni Íslendinga í húsnæðismálum. Og er hún þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Að svo miklu leyti sem þetta siðferðilega hrun samanlagt dugir ríkisstjórninni ekki, neyðist hún til að láta prenta verðlausa seðla. Þá mun verðbólgan, sem nú blundar undir niðri, fá æðiskast á nýjan leik. Allt þetta vegna heilögu kúnna.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausar tölur játaðar.

Greinar

Marklaus fjárlög eru ekki nýjung hér á landi. Árum saman hafa fjármálaráðherrar, ríkisstjórnir og stjórnarmeirihlutar á alþingi beitt ýmsum ráðum til að falsa fjárlögin. Tölur hafa verið togaðar út og suður til að ná ímynduðum jöfnuði.

Bezt hefur hinum ómerkilegu stjórnmálamönnum gefizt að taka ráðgerðan kostnað opinberra stofnana út úr fjárlögunum og setja í sérstaka lánsfjáráætlun. Óskhyggjan hefur verið leyst með því að taka sligandi lán í útlöndum.

Ennfremur hafa pólitíkusarnir haft þann sið að skera niður lögbundnar fjárhæðir án þess að breyta lögunum, sem binda tölurnar. Síðan hafa lögbundnu upphæðirnar verið greiddar, þótt allt aðrar og lægri standi í fjárlögum.

Þessi leið hefur oft leitt til vanskila ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með seðlaprentun hefur verið framleidd verðbólga, einkaverðbólga íslenzkra stjórnmálamanna. En sú leið gengur ekki, þegar skera á verðbólguna niður í 10%.

Stundum hefur vandinn leyst sig sjálfur. Aukin velta í þjóðfélaginu hefur fært ríkissjóði tekjur til að fylla í götin og greiða vanskilin við Seðlabankann. Enda dreymir menn núna um stórar göngur þorska frá Grænlandi.

Fjárlög yfirstandandi árs eru mörkuð sömu óskhyggjunni og fölsunarhneigðinni og fjárlög fyrri ára. Munurinn er helzt sá, að þau eru óvenju vitlaus, alveg eins og lánsfjáráætlun ársins er sérlega heimskuleg.

Hin nýjungin er, að mikið af þessari vitleysu hefur verið játað að frumkvæði fjármálaráðherra. Hann hefur sennilega séð fyrir, að í þetta sinn yrði ástandið þannig, að ríkisstjórninni dygði ekki að loka augunum og biðjast fyrir.

Hitt er svo fráleitt að láta eins og götin séu einhverjar nýjar stórfréttir. Að verulegu leyti eru þau atriði, sem embættismenn, fjármálaráðherra, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn áttu auðveldlega að geta vitað.

Í fjárlögum var ákveðið að gera ráð fyrir sérstökum 350 milljón króna sparnaði í rekstri sjúkrahúsa, án þess að nokkur hefði hugmynd um, hvernig það mundi gerast. Menn hafa raunar ekki hugmynd um það enn.

Í fjárlögum var ákveðið að vanreikna kostnað við bæjarfógeta og sýslumenn um 150 milljónir. Þar var ákveðið að vanreikna lögskyldar útflutningsbætur landbúnaðarafurða um 120 milljónir og lögskyld námslán um 100 milljónir.

Ekki voru gerðar neinar lagabreytingar til að draga úr þessari lögskyldu til samræmis við fjárlög. Ekki var einu sinni gert ráð fyrir, að ríkissjóður þyrfti að borga vexti af skuldum við Seðlabankann.

Stærstu götin eru í húsnæðismálunum og utan fjárlaga. Lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar, sem liggur fyrir alþingi, er full af ímynduðum tekjuliðum húsnæðislánakerfisins, sem frá upphafi var vitað, að ekki mundu standast.

Ríkisskuldabréfin seljast ekki, atvinnuleysistryggingasjóður hefur öðrum hnöppum að hneppa, lífeyrissjóðirnir eru fjárvana. Á þessum og fleiri sviðum hafa verið settar á blað tölur, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum.

Til bóta er, að stjórnmálamenn skuli játa töluverðan hluta þessara synda. Enn betra væri þó, að þeir hættu fölsunum og óskhyggju í fjárlögum og lánsfjáráætlun. Þá gætu þeir vænzt meira trausts hjá langþreyttri þjóð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eftirlitið verður dýrt.

Greinar

Flest bendir til, að borgarstjórn Reykjavíkur sé komin á fremsta hlunn með að leyfa takmarkað hundahald í borginni. Er henni þó ljóst, að í skoðanakönnunum hefur yfirgnæfandi meirihluti manna verið andvígur hundahaldi í þéttbýli.

Ekki komu á óvart tölur síðustu könnunarinnar, sem gerð var í upphafi þessa vetrar. Þá reyndust 70% manna vera andvíg hundahaldi í þéttbýli og 24% fylgjandi. Aðeins 6% höfðu ekki skoðun á málinu og er það óvenjulega lág tala.

Niðurstaðan var hin sama og í fyrri könnunum. Hún er, að Íslendingar hafa skoðun á hundahaldi í þéttbýli og eru andvígir því, þrír á móti einum. Aukið hundahald í nágrenni Reykjavíkur hefur ekki breytt þessu eindræga almenningsáliti.

Hins vegar fara hundaeigendur sínu fram án tillits til almenningsálitsins. Í Reykjavík eru nokkur hundruð ólöglegra hunda. Yfirvöld hafa ekki treyst sér til að framfylgja hundabanni, nema hundar hafi beinlínis verið kærðir.

Í tölum leit dæmið þannig út í fyrra, að hundaeigendur greiddu samtals 279.500 krónur í 49 dómsáttum og 26 hundar voru aflífaðir. Þess vegna leita borgaryfirvöld að einhverri annarri lausn en hreinu hundabanni.

Eðlilegt er, að þau beini sjónum til sveitarfélaganna í nágrenninu, þar sem leyft hefur verið takmarkað hundahald. Þar hefur fengizt nokkur reynsla, sem getur verið borgarstjórn til leiðbeiningar við stefnubreytingu.

Rétt er þó að benda á, að í nágrannabæjum Reykjavíkur, Garðabæ, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, er byggðin mun gisnari en í Reykjavík. Þar er meira svigrúm fyrir hunda en er á flestum stöðum í höfuðborginni.

Hundahaldið hefur leitt til margvíslegra vandamála, þrátt fyrir svigrúmið. Helzta vandamálið er, að sumir hundaeigendur taka ekkert mark á reglum um hundahald og haga sér eins og þeir séu einir í heiminum.

Þetta hefur leitt til, að hundar ganga lausir og eru ekki í fylgd með fólki, sem hefur fullt vald yfir þeim. Sveitarstjórnarmenn, sem ábyrgðina bera, gera lítið úr vandamálinu og telja ranglega allt vera í fínu lagi hjá sér.

Hugsanlega yrði ástandið skárra, ef meiri vinna yrði lögð í eftirlit með hundahaldi. Ekki er nægilegt að hafa mann í hálfu starfi til eftirlits í bæjarfélögum, þar sem eru um og yfir 100 hundar. Til slíks þarf heilan mann.

Aukið eftirlit kostar peninga. Þær 1.600 og 1.500 krónur, sem hundaeigendur greiða í Mosfellssveit og á Seltjarnarnesi, eru ekki nema helmingur af því, sem vera þyrfti til að halda í skefjum þeim vandamálum, sem fylgja hundahaldi.

Fáránlega lág er tillaga Hundaræktarfélags Íslands um 500 króna árgjald fyrir hunda í Reykjavík. Hún endurspeglar á einkar skýran hátt, hversu erfitt áhugamenn um hundaeign eiga með að átta sig á vandamálunum.

Hætt er við, að ráðgjöf af 500 króna taginu, svo og ástæðulaus sjálfsánægja sveitarstjórnarmanna í nágrenni Reykjavíkur, valdi því, að borgarstjórn telji sér trú um, að hundahald í borginni verði vel viðráðanlegt vandamál.

Ef borgarstjórn treystir sér ekki til að fara að vilja yfirgnæfandi meirihluta borgarbúa, þarf hún að minnsta kosti að tryggja fjármagn til nægilegs eftirlits með því takmarkaða hundahaldi, sem leyft yrði. Og nægilegt eftirlit verður dýrt eftirlit.

Jónas Kristjánsson.

DV

Loforð er loforð.

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekkert raunhæft gert til að efna eitt kosningaloforða Framsóknarflokksins og helzta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Þak yfir höfuðið er nú jafnfjarlægur draumur og það var, þegar stjórnin tók við völdum.

Fyrir kosningar voru stjórnarflokkarnir og raunar fleiri aðilar sammála um stóraukna fjármögnun húsbygginga. Oftast var talað um heildarlán, sem næmu 80% af verði staðalíbúðar og væru til 40 ára með 2,5% raunvöxtum.

Loforðin voru viðurkenning á, að það væri réttmæt krafa kjósenda, að ungu fólki yrði á nýjan leik gert kleift að byggja, svo sem var fyrir hálfum öðrum áratug, áður en verðbólgan stökk úr 10% á ári upp í himinhæðir.

Sofandaháttur margra undangenginna ríkisstjórna hefur dregið mjög úr kjarki unga fólksins. Það treystir sér ekki lengur til að eignast þak yfir höfuðið. Sjálfseignarstefnan hefur rotazt á síðasta hálfum öðrum áratug.

Nú flykkist unga fólkið þúsundum saman í félag um búseturétt í leiguíbúðum. Það vonast til að fá þar svipuð kjör og veitt eru í félagslega lánakerfinu, sem eru stórkostlega miklu betri en þau, er Pétur og Páll þurfa að sæta.

Engin sérstök ástæða er til að ætla, að sú hugarfarsbreyting hafi orðið með þjóðinni, að hún taki búseturétt í leiguíbúð fram yfir íbúðareign. Hroðaleg meðferð stjórnvalda á eignarstefnunni er nægileg skýring á búseturéttaráhuganum.

Í sjálfu sér á ekki að vera nauðsynlegt að deila um, vort fólk vilji fremur kaupa eða láta sér nægja búseturétt. Aðalatriðið er, að því séu boðnir ýmsir möguleikar, allir með sams konar fjármögnun af opinberri hálfu.

Sumir vilja byggja sjálfir, sumir með öðrum í samvinnufélagi, sumir kaupa einir eða með öðrum og loks vilja sumir taka á leigu, ef þeir hafa tryggan búseturétt. Öll sjónarmiðin hafa sinn rétt og eiga ekki að sæta mismunun stjórnvalda.

Meðan fáeinir útvaldir njóta sérstakra kjara í kerfi félagslegra íbúða og aðrir þurfa að sæta kjörum, sem gera einkaeign óbærilega, er engin furða, þótt viðleitni til sjálfsbjargar verði útundan í þjóðfélaginu.

Nú eru sagðar hryllingssögur af erfiðleikum og þrældómi þeirra, sem eyði beztu árum ævinnar í misheppnaða tilraun til að eignast þak yfir höfuðið. Þessar sögur hafa síazt inn og dregið mátt og kjark úr fólki.

Því miður eru þessar sögur margar hverjar sannar. En það jafngildir ekki, að það sé lögmál, að fólk eyðileggi sig á eignarstefnu í húsnæðismálum. Með 80% lánum til 40 ára með 2,5%. raunvöxtum á fólk að geta byggt áfallalaust.

Brýnasta verkefni stjórnvalda í húsnæðismálum er ekki að fjölga þeim smám saman, sem njóta forgangskjara, heldur hækka og bæta almennu lánin upp á svipað stig og það í nokkrum myndarlegum stökkum á ekki allt of mörgum árum.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar klúðrað málinu svo, að fjármögnun húsnæðislánakerfisins er ýmissi óvissu háð. Fjárlög hennar og lánsfjárlög einkennast af takmarkalítilli óskhyggju, sem ekki mun rætast að fullu.

Ríkisstjórnin verður nú að taka í hnakkadrambið á sjálfri sér og gera húsnæðisdæmið að forgangsverki. Svik hennar við kjósendur eru alvarlegust á þessu sviði. Og ekki er síður alvarleg aðför hennar að sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Opni víxillinn.

Greinar

Hinn opni víxill, sem Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hefur samþykkt og afhent Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Dagsbrúnar, mun vafalaust draga dilk á eftir sér, jafnvel þótt ríkisstjórnin treysti sér til að hafna honum.

Albert hefur hvað eftir annað gagnrýnt ráðagerðir á þeim forsendum, að ekki sé ljóst, hvaða áhrif þær muni hafa á afkomu ríkissjóðs. Samt viðurkennir hann núna, að hann hafi ekki hugmynd um, hvaða tölur verði skrifaðar á víxilinn.

Þetta eru náttúrlega ekki traustvekjandi vinnubrögð, enda koma þau mörgum í opna skjöldu. Samráðherrar hans hafa almennt lýst andstöðu við víxilinn, svo og talsmenn sveitarstjórna. Engin samráð voru höfð við neinn af þessum aðilum.

Bent hefur verið á, að hjá Reykjavíkurborg einni starfi fjórum sinnum fleiri félagsmenn Dagsbrúnar en hjá ríkinu. Með víxli Alberts er því óbeint verið að efna í mun dýrari víxil hjá aðila, sem ekkert fékk um málið að segja.

Verra er þó, að samkomulag Alberts og Guðmundar er alvarlegasta áfallið, sem samkomulag heildaraðila vinnumarkaðsins hefur sætt. Það ógnar anda og innihaldi þess samkomulags og hótar að brenna kjarabætur þess í nýrri verðbólgu.

Heildarsamkomulagið byggðist á, að í rannsókn höfðu fundizt þeir, sem erfiðust höfðu lífskjörin. Það voru ekki hinir virku verkfallasinnar í Dagsbrún, heldur einstæðar mæður, barnmargar fjölskyldur, gamalt fólk og öryrkjar.

Í grein í Þjóðviljanum í fyrradag skýrði Guðrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri blaðsins, með ljósu dæmi, hvernig fyrri viðmælandi blaðsins, einstæð bankakona með tvö börn, fengi um 25% lífskjarabót úr heildarsamningunum.

Guðrún veitti Þjóðviljanum réttilega ráðningu fyrir ómerkilegar talnablekkingar og Jóhönnu Kristjónsdóttur, formanni félags einstæðra foreldra, ekki síður verðskuldaða ráðningu fyrir að kalla heildarsamningana froðu.

Í fyrsta sinn í manna minnum hefur sérstaklega verið gætt hagsmuna þeirra, sem minnst mega sín og jafnan hafa átt fæsta talsmennina. Þeir fá um og yfir 20% lífskjarabætur á sama tíma og aðrir fá 5% í sinn hlut.

Auðvitað er ljóst, að þeir, sem fá 5%, hefðu fengið meira, ef ekki hefði verið gætt sérstaklega hagsmuna hinna bágstöddu. Margir hinna virku í félögum launamanna eru sáróánægðir með sinn hlut í útkomunni.

Þetta hefur leitt til, að sums staðar hafa heildarsamningarnir ýmist verið felldir eða samþykktir gegn mótatkvæðum fjölmenns minnihluta. Einnig munu félög uppmælingaraðals sem fyrr reyna að auka lífskjarabilið í landinu.

Til skamms tíma hefur þótt ólíklegt, að óánægja hinna virku í Dagsbrún og félögum uppmælingaraðals muni leiða til verkfalla, nema þá í svarinni andstöðu við óskir mikils fjölda almennra félagsmanna, sem vilja fá að vera í friði.

Opni víxillinn í fjármálaráðuneytinu er hins vegar til þess fallinn að opna málið á nýjan leik og styrkja stöðu þeirra, sem gefa lítið fyrir lífskjarabætur smælingjanna og vilja ná þeim bótum til hinna, sem fengu 5%.

Þótt ríkisstjórnin kunni að hafa manndóm til að hafna víxlinum, er samt orðið af honum tjón. Ekki er ljóst, hversu alvarlegt það verður. En vonandi ber þjóðin gæfu til að verja mannúðar- og velferðarstefnu heildarsamninganna gegn verðbólgu.

Jónas Kristjánsson.

DV