Greinar

Langstærsta gróðurhúsið.

Greinar

Suður á Keflavíkurflugvelli er hús, sem stendur að mestu autt í tuttugu klukkustundir af hverjum sólarhring. Það er flugstöðin, sem vaknar til lífsins, þegar flugvélarnar fara á morgnana, og síðan undir kvöld, þegar þær koma aftur.

Ekki verður vart við, að þrengsli hrjái farþega á þessum tveimur tímabilum anna. Og auðvelt ætti að vera að semja við flugfélögin um meiri breidd í brottfarar- og komutímum, ef umferðin ykist mjög frá því, sem nú er.

Helzt verður vart þrengsla í litlu fríhöfninni, sem farþegar nota, þegar þeir koma til landsins. En þar er um að ræða þjónustu, sem er umfram þá, er flestar aðrar flughafnir veita. Hún ber vitni um mat á, að rýmið sé nægilegt.

Æskilegt væri að bæta aðstöðu þeirra, sem bíða eftir farþegum, koma upp salernum og biðstofu með sætum. En það verkefni má leysa með einfaldri og ódýrri viðbyggingu, eins og auka má rýmið í litlu fríhöfninni.

Nauðsynlegast af öllu er að byggja færanlega arma frá flugstöðinni út í flugvélar, svo að farþegar þurfi ekki að sæta óblíðri veðráttu. Einnig það verkefni er hægt að leysa við núverandi flugstöð á Keflavíkurflugvelli.

Hugmyndin um nýja flugstöð varð til á tíma meiri flugumferðar. Þá buðu Loftleiðir einar upp á ódýr fargjöld yfir Atlantshafið. Og þá var mikið um millilendingar erlendra farþegavéla. Báðar þessar forsendur eru úr sögunni.

Einhverjum hugmyndaríkum manni hefur dottið í hug, að efla mætti landkynningu og minjagripasölu, ef áningarfarþegar gætu rölt um í pálmalundum í stíl aldingarðsins Eden í Hveragerði. En það vantar bara þessa áningarfarþega.

Þótt forsendur hafi breytzt, er enn ráðgert að reisa flugstöð með langstærsta gróðurhúsi landsins. Hitun þess og loftræsting mun kosta nokkrar milljónir króna á hverju ári umfram það, sem kostar að hita núverandi flugstöð.

Ennfremur þarf her garðyrkjamanna til að sjá um, að pálmalundirnir leggist ekki í órækt og verði ekki að verri landkynningu en til var stofnað. Vafasamt er, að sá launakostnaður skili sér til fulls í sölu banana og vínberja.

Til að koma þessari vitleysu á fót hyggst ríkið taka 616 milljónir króna að láni. Það er gífurleg viðbót við skuldabyrðina gagnvart útlöndum, sem þegar er komin upp í 60% af eins árs þjóðarframleiðslu og má ekki hækka.

Fyrir sömu upphæð mætti ráðast í eitthvert arðbært verkefni, svo sem lagningu bundins slitlags á þrjá fjórðu hluta hringvegarins um landið. Í kaupbæti mætti ljúka smíði þjóðarbókhlöðunnar, sem stöðvast hefur vegna fjárskorts.

Talað hefur verið um, að ekki þurfi að nota alla þessa peninga. Áætlaður rúmmetrakostnaður sé tvöfaldur á við það, sem annars tíðkast hér á landi. En óskhyggja af slíku tagi hefur sjaldan orðið að veruleika hjá ríkinu.

Auðvitað væri æskilegt að skilja á milli farþegaflugs og hernaðarflugs. En í ljósi þess, að núverandi flugstöð er og verður nógu stór og að nýja flugstöðin verður ekki arðbær, getur þetta ekki talizt forgangsverkefni.

Gróðurhúsið mikla suður á Keflavíkurflugvelli verður ódauðlegur minnisvarði um fákænsku og skort á sveigjanleika. Það verður reist í hreinni þrjózku og andstöðu við heilbrigða skynsemi. Og síðan verða utanríkisráðherrar okkar jafnan kallaðir garðyrkjuráðherrar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Samið fyrir smælingjana.

Greinar

Velferðarríkið íslenzka hefur verið eflt á hættustund. Með þríhliða samkomulagi ríkisstjórnar og heildarsamtaka vinnumarkaðsins hefur tekizt að bæta verulega lífskjör hinna verst settu í þjóðfélaginu.

Niðurstaðan byggist á, að málsaðilar skildu til hlítar, að laun og lífskjör eru ekki sami hluturinn. Ungmenni í föðurgarði getur lifað af mun lægri tekjum en einstætt foreldri með nokkur börn á framfæri sínu.

Þáttur ríkisstjórnarinnar felst einkum í aðgerðum til aðstoðar barnafólki og mest til þeirra, sem eru einstæðir foreldrar. Lífskjör þeirra eiga að geta batnað um 25- 40%, þótt hin almenna launahækkun sé ekki nema 5%.

Minna er gert í þágu gamla fólksins og öryrkjanna. Lífskjör þessara hópa eiga þó að batna um 10% á sama andartaki og launin í landinu hækka um 5%. Þetta er mikilvægt spor í rétta átt, en hefði mátt vera meira.

Þegar búið er að gera ráð fyrir 10% verðbólgu frá upphafi til loka ársins, svo og kauphækkun í júní og september, ætti staðan um næstu áramót að vera sú, að hinir sæmilega stæðu hafi haldið óbreyttum kaupmætti frá árskokum 1983.

Allir hinir, sem minna mega sín, gamla fólkið, öryrkjarnir og einkum þó barnafólkið, eiga að geta haldið töluverðum hluta lífskjarabatans, þótt verðbólgan muni sneiða af nokkurn hluta. Þetta er afar mikilvæg niðurstaða.

Áður hafa hinir betur settu yfirleitt fengið meira úr kjarasamningum. Tilraunir með fastar krónutölur í stað prósentuhækkana hafa leitt til launaskriðs og óbreytts eða aukins launamunar í þjóðfélaginu.

Í þetta sinn hefur munur lífskjaranna verið minnkaður verulega og það á nýjan hátt, sem gefur síður tilefni til launaskriðs. Það stafar af, að hluti niðurstöðunnar rennur um tryggingakerfi velferðarríkisins.

Fólk ætti sérstaklega að taka eftir, að það eru umboðsmenn uppmælingaraðalsins og annarra forréttindahópa, sem einkum snúast gegn niðurstöðunni. Það eitt segir meiri sögu um eðli hennar en útlistanir í fjölmiðlum gera.

Þeir umboðsmenn launafólks, sem bera hag smælingjanna fyrir brjósti, svo sem Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir í láglaunafélaginu Sókn, styðja niðurstöður samninganna. Hún starfar heldur ekki á vegum stjórnmálaflokks.

Hinir, sem eru fremur umboðsmenn stjórnmálaflokks, eins og Guðmundur J. Guðmundsson, eru hins vegar andvígir, af því að þeir nærast á verkföllum. Nú sjá menn greinilega, hverjum þykir vænna um Alþýðubandalagið en alþýðuna.

Frá þætti ríkisins hefur ekki verið gengið endanlega. Mikilvægt er þó, að óhrekjanlegt er orðið, að breyting niðurgreiðslna í fyrirhugaðar bætur skilar sér að verulegu leyti til hinna verst settu, – að hún er ekki bara færsla milli vasa.

Forsætisráðherra hefur raunar játað, að breyting úr niðurgreiðslum komi til greina, enda þótt hún dragi úr spillingu kinda- og kúakerfis ríkisins. Aðrar leiðir mundu beint eða óbeint leiða til skattheimtu, verðbólgu og kjaraskerðingar.

Niðurgreiðslur þessa árs eiga samkvæmt fjárlögum að nema 945 milljónum króna. Hlutur ríkisins í lausn kjaradeilunnar á hins vegar ekki að nema meiru en 330 milljónum króna, svo í rauninni er af nógu að taka.

Jónas Kristjánsson

DV

Fúsk og leikir.

Greinar

Þótt allir sögukennarar væru jafngóðir og Ólafur Hansson var á sínum tíma, mundu margir nemendur láta sig það litlu varða. Þeir mundu ekki einu sinni fylgjast með, þótt fúsk og leikir leystu sögukennslu af hólmi.

Grunnskólarnir eru fullir af fólki, sem er þar meira eða minna til geymslu, svo að það sé ekki fyrir á vinnumarkaði. Í sjö ár er reynt að kenna því að lesa, skrifa og reikna, stundum raunar með takmörkuðum árangri.

Vafasamt er, að sögukennsla eigi brýnt erindi við þá, sem ekki vilja hlusta. Þeir geta samt orðið þjóðlegir og nýtir borgarar. Ekkert þekkt samhengi hefur fundizt milli kunnáttu í sögu Íslands og trúar á landið.

Íslenzka skólakerfið hefur í vaxandi örvæntingu beint athygli sinni að þessum erfiða hópi og þá venjulega á kostnað hinna, sem eiga erindi í skóla. Skólakerfið er að verða skólabókardæmi um mikið erfiði og lítið erindi.

Í tæpa tvo áratugi hefur menntamálaráðuneytið reynt að færa kennslu í sögu Íslands í form, er henti þeim, sem enga sagnfræði vilja sjá eða heyra. Hefur þar verið fylgt formúlum frá Svisslendingi að nafni Piaget.

Fúsk og leikir, sem gera skólana óþolandi sæmilega vel greindu fólki, geta ekki breitt yfir þá staðreynd, að án fyrirhafnar næst enginn árangur í námi frekar en í starfi. Og margir hljóta alltaf að vera andvígir fyrirhöfn.

Sagnfræði kemst ekki af án hjálpar ártala og mannanafna. Hún er í eðli sínu saga atburðarásar. Hún er samhengi í tímans rás. Sem slík verður hún að gagni aðeins kennd sem samfelld heild, en ekki sem bútasaga með löngum eyðum.

Saga Íslands á ekki fremur en mannkynssaga eða landafræði heima í samkrulli, sem kallað er samfélagsfræði. Hún á ekki heima þar, jafnvel þótt menntamálaráðuneytið hafi í tæpa tvo áratugi stefnt að því, undir leið- sögn sérfræðinga.

Félagsfræði, sálarfræði og skyldar greinar hafa ekki atburðarás að hornsteini eins og sagnfræðin og ekki flatarmál eins og landafræðin. Sagnfræðin og landafræðin mega ekki hverfa inn í greinar, sem eru byggðar á öðrum grunni.

Í rauninni eru félagsfræði, sálarfræði og skyldar greinar að töluverðu leyti safn tízkuhugmynda, sem eru sífelldum breytingum háðar. Eigi að síður geta bæði sagnfræði og landafræði haft gagn af slíkum hugmyndum, ef þær yfirtaka ekki.

Atburðasaga hefur ætíð haft tilhneigingu til að verða yfirstéttarsaga, alveg eins og saga byggingarlistar hefur tilhneigingu til að verða saga kirkjubygginga. Um slík atriði eru heimildir auðvitað mestar og beztar.

Sagnfræði nútímans þarf að fylla myndina og bæta hana með sögu alþýðunnar og sögu kvenna, svo að dæmi séu nefnd. Hún á ekki að vera aðeins saga styrjalda og stjórnmála, heldur líka efnahags, vísinda, tækni, félagsmála og menningar.

Saga Íslands og mannkyns, svo og landafræði, eiga að vera sjálfstæðar greinar í skólakerfinu. Þær eiga að fá þar meiri tíma og meiri alvöru í stað fúsks og leikja samfélagsfræðinnar. Við þurfum að losna undan oki Piaget.

Sumir nemendur munu ekki hlusta. En greindir krakkar geta tekið við margfalt meiri sagnfræði en lærisveinar Piaget telja óhætt að láta í té. Hinir, sem engan áhuga hafa, munu, hvort sem kennslan er gamaldags eða nýmóðins, aldrei geta útskýrt, hver var Jón Sigurðsson.

Jónas Kristjánsson.

DV

Enga innrætingu!

Greinar

Ólafur Hansson, menntaskólakennari og prófessor, samdi í mannkynssögu stífustu kennslubækur, sem um getur. Þær voru sneisafullar af nöfnum og ártölum, eins konar handbækur fyrir raunverulega áhugamenn um mannkynssögu.

Kennsla Ólafs var allt önnur, þótt hann styddist við bækurnar. Í leiftrandi fyrirlestrum hans voru bækurnar bara þjónar, ekki húsbændur. Hann vildi, að nemendur læsu nöfnin og ártölin, án þess endilega að leggja þau á minnið.

Í prófum skiptu ártöl Ólaf litlu. Spyrði hann um líflát Jóns biskups Arasonar, þótti honum jafnvel vænna um svarið: Um miðja sextándu öld, heldur en svarið: 1550, ef hann taldi fyrra svarið sýna meiri skilning á sögulegu samhengi.

Dæmið um Ólaf Hansson sýnir, að deilur með og móti nöfnum og ártölum í sögu Íslands geta skotið yfir markið í báðar áttir. Hinar grunnhörðu staðreyndir nafna og ártala eru mikilvægar, ef þær eru ekki gerðar að alfa og ómega.

Dæmið um Ólaf sýnir líka, að það er kennarinn sjálfur, sem skiptir mestu, en ekki hinn ytri umbúnaður í kennslugögnum. En því miður hlýtur ætíð að vera skortur á slíkum hæfileikamönnum, sem blása lífi í dauð ártöl.

Í framhjáhlaupi má harma, að Ólafur skyldi ekki hafa verið uppi á öld myndbanda og tölva. Þá hefði verið hægt að margfalda kennsluhætti hans fyrir allt skólakerfið, fyrirlestrana á myndböndum og spurningarnar í tölvum, sem vænta svars.

En sjálfur hefði Ólafur harmað mest, að nafn hans skuli nú vera notað til framdráttar þingsályktunartillögu Eiðs Guðnasonar og fleiri um, að í sögu Íslands í skólum eigi hin hreina sagnfræði að víkja fyrir innrætingu.

Eiður, sem skilur Ólaf eins og andskotinn biblíuna, vill, að þessi kennsla miðist við, að nemendur öðlist “trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag, sem hér hefur þróazt í ellefu aldir”.

Sögukennsla sem innræting hentar án efa forræðissinnum á borð við Tsjernenko, Khomeini og d’Aubuisson, alveg eins og hún hentaði Mussolini, Hitler og Stalín. En hún á ekki heima í vestrænu þjóðfélagi, sem hvílir á jákvæðri vísindahyggju.

Sagnfræði Jónasar frá Hriflu leiftraði af hugsjónum, sem kunna að hafa hentað kynslóð aldamótanna í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þeirri fullyrðingu verður þó aldrei svarað, því að ekkert er til samanburðar.

Sagnfræði hans í stjórnmálasögu síðari hluta 19. aldar og upphafs hinnar 20. verður aldrei endurtekin, meðal annars vegna útreiðarinnar, sem hún hefur fengið í bókum Þorsteins Thorarensen, svo að varla stendur lengur steinn yfir steini.

Það er þjóðfélagið sjálft, allt umhverfi unga fólksins og sjálft lýðræðisformið, sem á að leiða til föðurlandsástar. Hún verður ekki kennd í skólum. Hún kemur þvert á móti af sjálfu sér, ef þjóðfélagið er í stórum dráttum í lagi.

Ekki er heldur verkefni skólanna að kenna nemendum frið í samræmi við þingsályktunartillögu Guðrúnar Agnarsdóttur og fleiri þingmanna. Gegn þeirri innrætingu gilda sömu rök og gegn innrætingu Eiðs Guðnasonar.

Vonandi ber alþingi gæfu til að fella allar hugmyndir um að saurga hina hreinu og tæru sagnfræði Ólafs Hanssonar, hinnar gildislausu vísindahyggju, sem ein megnar að bægja ofsatrú og fordómum frá veiklunduðu mannkyni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Góð Grænlandstillaga.

Greinar

Væntanlega verður í dag samþykkt samhljóða á Alþingi tillaga Eyjólfs Konráðs Jónssonar og ellefu annarra þingmanna úr öllum þingflokkum um ræktun sameiginlegra hagsmuna með Grænlendingum, sérstaklega í fiskimálum.

Stefnumörkun Alþingis í dag getur orðið til að efla samskiptin við Grænlendinga hraðar en verið hefur á undanförnum árum. Við höfum verið of seinir að átta okkur á skyldum okkar og samstarfsmöguleikum á þeim vettvangi.

Fyrir nokkrum árum efndi Alþingi til Grænlandssjóðs til eflingar kynnisferða, námsdvala, listsýninga, íþróttasýninga og annarra hliðstæðra samskipta Grænlendinga og Íslendinga. Þennan sjóð þarf nú að efla til muna.

Grænlendingar hafa á undanförnum árum verið að fóta sig á heimastjórn og eru nú á leið úr Efnahagsbandalaginu. Við eigum að reyna að verða þeim að liði í tilraunum þeirra til að leysa ýmis vandamál á þessari braut.

Grænlendingar hafa notið verulegra framlaga úr ríkissjóði Danmerkur og sjóðum Efnahagsbandalagsins. Þetta hefur ekki nýtzt þeim að fullu, meðal annars vegna skorts á jafnstöðu gagnvart Dönum í menntun og atvinnulífi.

Þá hafa dönsk stjórnvöld notað fiskveiðimið Grænlendinga sem skiptimynt í samningum sínum um bætt skilyrði danskra landbúnaðarafurða á markaði Efnahagsbandalagsins. Grænlendingar urðu að biðja í Bruxelles um að fá að veiða á eigin miðum.

Nú þegar Grænlendingar eru að losna undan þessari nýlendukúgun Efnahagsbandalagsins, býðst það til að taka á leigu fimm ára aflakvóta við Grænland fyrir sem svarar 450 milljónum íslenzkra króna á ári. Í kvótanum eru 23,5 þúsund tonn af þorski og rúmlega 63 þúsund tonn af öðrum sjávarafla.

Þetta eru auðvitað of miklir kvótar fyrir of lítið fé. Auk þess fela þeir í sér rányrkju á grænlenzkum miðum. En bandalagið býður þetta, af því að það telur Grænlendinga ekki hafa efni á að hafna molunum af borði þess.

Það veikir stöðu Grænlendinga, að þeir búa nú við þriðja kuldaveturinn í röð og að spáð er miklum hafís við landið mörg ár fram í tímann. Það spillir möguleikum þeirra til að afla sér viðurværis á sjó og landi.

Okkur ber að veita Grænlendingum siðferðilegan, menntunarlegan og fjárhagslegan stuðning við að standast freistingar Efnahagsbandalagsins og við að taka í þess stað yfirráð fiskimiðanna í þeirra eigin hendur.

Þetta fer saman við hagsmuni okkar af, að Efnahagsbandalagið komist ekki upp með rányrkju á fiskimiðum, sem á stóru svæði liggja að fiskveiðilögsögu Íslands. Við þurfum að stuðla að verndun fiskistofna á þessum miðum.

Samstarf okkar við Grænlendinga um skynsamlega nýtingu fiskimiða á öllu hafinu milli landanna ætti raunar að vera þáttur í víðtæku samstarfi um slíka nýtingu allt frá Noregi til Kanada og suður yfir Færeyjar. Við erum á miðju þessu svæði.

Grænlendingum getum við boðið upp á ókeypis þjálfun og menntun í fiskveiðum, fiskvinnslu, iðnaði og öðrum störfum, sem fylgja þjóðfélagsháttum nútímans. Við getum á ýmsan hátt aðstoðað þá við að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðum.

Allra brýnast er að bregðast skjótt gegn tilraunum Efnahagsbandalagsins til að koma sér fyrir í grænlenzkri fiskveiðilögsögu. Samþykkt Grænlandstillögunnar á Alþingi er mikilvægt skref í þá átt.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sýnið mannlegt vit.

Greinar

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur að undanförnu talað af léttúð og takmörkuðum skilningi um vandræði þeirra, sem ekki hafa lengur til hnífs og skeiðar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Vandræði einstæðra foreldra og barnmargra foreldra eru ekki þess eðlis, að Steingrímur geti beðið eftir bænarskrám frá aðilum vinnumarkaðarins um félagsmálapakka, sem liðki fyrir undirritun nýrra kjarasamninga á síðustu stundu.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ber ábyrgð á að hafa kosið að skera niður verðbólguna og umframeyðsluna á kostnað láglaunafólks. Það er vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, að fólk með þunga framfærslu er að komast á vonarvöl.

Þetta verða Steingrímur og ríkisstjórnin að skilja. Þeirra á frumkvæðið að vera. Komið er í eindaga, að ráðamenn sýni “mannlegt vit”, svo sem Björn Þórhallsson, varaforseti Alþýðusambandsins, hvatti til í fyrra.

Ráðherrunum hefur réttilega verið hrósað fyrir harða atlögu að verðbólgu og umframeyðslu. En ríkisstjórnin má ekki verða svo drukkin af eigin velgengni, að hún sjái ekki hinar sorglegu afleiðingar fyrir lítilmagnann.

Tilraunir til að leysa vandann með lögbundnum lágmarkslaunum og þrengingu launastigans eru dæmdar til að mistakast, jafnvel þótt samningsaðilar á vinnumarkaði reyni slíkt í einlægni, sem sagan segir okkur, að þeir gera ekki.

Þeir, sem vegna eigin verðleika, menntunar, forréttinda eða tilviljunar gegna mikilvægum störfum, verða reynslu sinnar vegna svo verðmætir, að fyrirtækin hleypa þeim á launaskrið, svo að þeir fari ekki til annarra.

Minnstu máli skiptir, hvort hálaunafólkið fær sinn launamismun í kjarasamningum eða í launaskriði í kjölfar kjarasamninga. Óraunsætt væri að halda, að lögfest lágmarkslaun og þrenging launastiga hamli gegn slíku. Það framleiðir bara verðbólgu.

Sem betur fer gegnir mikill meirihluti verkfærs fólks störfum, sem eru þess eðlis, að tekjur duga fyrir nauðþurftum og töluverðu af óþarfa þar á ofan. Þetta fólk hefur getað mætt erfiðleikunum með því að spara ýmsan óþarfa.

En 25% niðurskurður lífskjara er meira en sumt fólk þolir. Það er minnihluti þjóðarinnar, ef til vill um tíundi hver Íslendingur. Þessi undirstétt er svo fámenn, að fáir verða til að gæta hagsmuna hennar.

Ítrekað hefur verið bent á, að ein bezta leiðin til hjálpar sé að breyta niðurgreiðslum landbúnaðarafurða í fjölskyldu- eða barnabætur til láglaunafólks. Lífskjörin mótast nefnilega meira af framfærslubyrði en láglaunastöðu.

Slík tilfærsla bætir mjög hag þeirra, sem drekka vatn, af því að þeir hafa ekki efni á mjólk; borða fisk og hrossakjöt, af því að þeir hafa ekki efni á dilkakjöti; og borða smjörlíki, af því að þeir hafa ekki efni á smjöri.

Þessi lausn hefur þann kost, að hún býr ekki til peninga, sem ekki eru til, heldur færir þá frá vel stæðu fólki til illa stæðs. Ríkisstjórnin getur svo sem farið aðrar leiðir, ef það hentar henni, en hún má ekki sitja með hendur í skauti.

Vonarvöl fólks er hliðarverkun aðgerða ríkisstjórnarinnar, en ekkert sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um í frjálsum samningum. Á þessu þurfa Steingrímur og ríkisstjórnin að átta sig. Nú þarf að sýna mannlegt vit og það strax.

Jónas Kristjánsson

DV

Stutt skref í rétta átt.

Greinar

Flest bendir til, að stjórnmálamaðurinn og alþingismaðurinn Lárus Jónsson fái ekki hina lausu stöðu bankastjóra við Búnaðarbankann. Þrír af fimm bankaráðsmönnum hafa lýst stuðningi við bankamanninn Jón Adolf Guðjónsson.

Að vísu er hugsanlegt, að forustu Sjálfstæðisflokksins takist að snúa upp á handlegg einhvers hinna þriggja bankaráðsmanna, sem allir eru í öðrum stjórnmálaflokkum. En sinnaskipti af því tagi verða að teljast ótrúleg.

Ef Lárus nær ekki stöðunni, er það í annað sinn á skömmum tíma, að stjórnmálamaður og alþingismaður verður að víkja fyrir bankamanni. Þá átti Framsóknarflokkurinn í hlut og bankinn var hinn sami og nú, Búnaðarbankinn.

Það var stjórnmálamaðurinn og alþingismaðurinn Stefán Valgeirsson, sem fyrir áramót beið lægri hlut í samkeppni við bankamanninn Stefán Pálsson um stöðu bankastjóra. Þau úrslit mörkuðu tímamót í samdrætti pólitískrar spillingar.

Sem betur fer þykir ekki lengur sjálfsagt, að þreyttir alþingismenn hafi forgang að stöðum bankastjóra. Þetta er í sama dúr og í utanríkisþjónustunni, þar sem ekki þykir lengur sjálfsagt, að þreyttir ráðherrar verði að sendiherrum.

Að vísu er enn litið svo á, að embætti bankastjóra séu eign stjórnmálaflokka í hefðbundnum hlutföllum. Stefán Pálsson var ráðinn sem framsóknarmaður og Jón Adolf Guðjónsson verður ráðinn sem sjálfstæðismaður.

Það, sem gerist, er, að fulltrúar hinna stjórnmálaflokkanna, sem ekki “eiga” hina lausu stöðu, koma sér saman um að ákveða sjálfir, hver skuli vera fulltrúi eignarflokksins. Og þeir taka fagmenn fram yfir þingmenn.

Þetta er minnkun spillingar, en ekki afnám hennar. Enn er næstum útilokað fyrir bankamenn að verða að bankastjóraefnum, nema með stuðningi valdamikils stjórnmálaflokks, helzt annaðhvort Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks.

Þá eru einnig mjög fá dæmi um, að menn, sem hafa getið sér gott orð í starfi úti í þjóðlífinu, annars staðar en á Alþingi, komi til greina, þegar bankaráð velja nýja bankastjóra. Væri slík tilfærsla þó mjög heilbrigð.

Og ekki má gleyma því, að stjórnmálamenn helztu flokka á alþingi telja sig hafa forgang að kosningu í bankaráð. Það eru enn alþingismenn, sem persónulega ákveða, hverjir verði bankastjórar og helztu deildarstjórar banka.

Eðlilegra væri, að flokkarnir á Alþingi kveddu til starfa í bankaráðum sérfróða flokksmenn utan úr bæ. Þá yrði líklegt, að fagmenn yrðu jafnan ráðnir í mikilvæg embætti, annaðhvort úr röðum bankamanna eða utan úr bæ.

Bezt væri, að niður legðist hugmyndin um, að stjórnmálaflokkar eigi ákveðin sæti í bankaráðum og bankastjórnum, svo og hliðstæð sæti í Framkvæmdastofnun og ýmsum sjóðum, sem skammta fé eins og bankarnir gera.

Alþingismenn hafa nægilegt vald í löggjöfinni og með afskiptum sínum af framkvæmdavaldinu, sem felast í þingræðinu. Þeir eiga ekki að vera að vasast á öðrum valdasviðum til viðbótar, svo sem í fjármálum og fjölmiðlum.

Ráðning tveggja fagmanna sem bankastjóra Búnaðarbankans er skref, en stutt skref, í rétta átt. Verulegum árangri verður ekki náð, fyrr en bankastjóraefni hætta að þurfa að veifa stuðningi við valdamikinn stjórnmálaflokk.

Jónas Kristjánsson.

DV

Félagsmálastofnun í útgerð.

Greinar

Ofskipulag leiðir yfirleitt til þverstæðna, vegna þess að skipuleggjendur geta aldrei gert sér fyrirfram grein fyrir hliðarverkunum skipulagsins. Lausn á einu vandamáli býr til ný vandamál á öðrum sviðum, oft hrikalegri vandamál.

Landbúnaðurinn er dæmi um fyrrverandi atvinnuveg, sem hefur verið skipulagður að ofan og breytt í félagsmálastofnun, sem kostar ríkissjóð næstum tíundu hverja krónu á fjárlögum. Og nú er sjávarútvegurinn kominn í sömu hættu.

Að undanförnu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum, að vandi útgerðarinnar yrði ekki leystur með hækkun fiskverðs. Hver er skýringin á, að atvinnuvegur hagnast ekki á að fá hærra verð fyrir afurðir sínar? Í ljós kemur, að 80% útgerðarinnar eru í eigu fiskvinnslunnar í landinu.

Í flestum tilvikum er því aðeins bókhaldsatriði, á hvaða verði fiskvinnslan kaupir fiskinn af útgerðinni. Peningarnir fara ekki langt í burtu.

Sjómenn fá hluta aflaverðmætis í eigin vasa. Þess vegna hefur verið búið til kerfi til að bæta hag útgerðarinnar framhjá hlutaskiptum. Þeir peningar haldast alveg innan fyrirtækjanna og ekkert af þeim lekur til sjómanna.

Þess vegna vill útgerðin núna ekki endilega, að fiskverð hækki svo mjög, heldur fari ríkið að styrkja hana með einhverjum hætti og hafi forgöngu um, að strikað verði yfir vanskil hinna helstu grínista í greininni.

Að undanförnu hefur einnig verið haldið fram í fjölmiðlum, að vandi útgerðarinnar yrði ekki leystur með lægra gengi krónunnar. Hver er skýringin á, að atvinnuvegur hagnast ekki á að fá hærra innlent verð fyrir afurðir sínar?

Í ljós kemur, að flest nýjustu skipin nota svo mikla olíu og skulda svo mikið í gengistryggðum lánum, að jafnþungt er á metunum og sjálft aflaverðmæti þeirra. Útgerð þeirra er svo glórulaus, að dæmið bítur í skott á sjálfu sér.

Þetta gildir aðeins um hluta flotans, til dæmis skipin, er skulda meira en sem nemur tryggingaverði þeirra sjálfra. En þessi útgerð virðist ráða ferðinni, þegar efast er um, að lægra gengi flytji fé til sjávarútvegs.

Að undanförnu hefur komið fram í fjölmiðlum, að um 150 ástralskar stúlkur hafa verið ráðnar til fiskvinnslu, þótt meira en 3.000 manns séu á atvinnuleysisskrá. Erlenda farandverkafólkið er eins fjölmennt og á fyrri árum.

Í ljós kemur, að í sumum plássum hefur verið offjárfest svo mjög í sjávarútvegi, að heimafólk ræður ekki við aflamagnið. Á sama tíma er atvinnuleysi á öðrum stöðum, af því að takmarkaður afli dreifist á of mörg fiskiskip.

Með nýju fiskiskipunum hefur dregið úr aflanum, sem er til skiptanna milli skipanna, sem fyrir eru. Með sjálfvirku lánakerfi og góðu sambandi við lina sjávarútvegsráðherra hafa sum sjávarpláss tekið til sín afla frá öðrum plássum.

Þetta hefði ekki komið svo mjög að sök á fyrri árum, þegar Íslendingar létu sér ekki bregða við að flytjast búferlum milli byggðarlaga og landshluta. Nú eru menn smám saman að glata sveigjanleikanum og farnir að kalla hann röskun.

Þverstæðurnar í sjávarútvegi, sem hér hefur verið bent á, sýna, að hætta er á, að hann verði ofskipulagður yfir í félagsmálastofnun eins og landbúnaður. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins mælir í áramótagrein með útgerðarskatti á þjóðina er fokið í flest skjól.

Jónas Kristjánsson.

DV

Grínistar verðlaunaðir.

Greinar

Helzti kostur aflakvótastefnunnar er, að hagsmunaaðilar eru í stórum dráttum fylgjandi henni og báðu raunar um hana. Þess vegna má búast við, að þeir styðji hana í verki og að afli haldist innan skynsamlegra marka.

Einnig má búast við, að aflakvótastefnan lækki útgerðarkostnað. Hún gefur útgerðarmönnum svigrúm til að draga úr olíunotkun og halda öðrum sóknarkostnaði í lágmarki. Þessi kostur er þjóðhagslega mikilvægur.

Loks fylgir stefnunni, að leyfilegt er að auka enn hagkvæmnina með því að færa kvóta milli skipa. Sjávarútvegsnefndir alþingis hafa þó dregið úr þessum kosti með því að setja skorður við flutningi kvóta milli verstöðva.

Þrátt fyrir hina ýmsu kosti er aflakvótastefnan engin himnasending. Hún eykur hættuna á, að smáfiski verði kastað í sjóinn til að nýta aflamarkið betur. Og hún eykur hættuna á, að fiski verði smyglað framhjá vigtun og þar með framhjá kvóta.

En reynslan sýnir líka, að skipulagning vandamála er alltaf tvíeggjuð. Við tilfæringar á borð við aflakvóta eru ný vandamál búin til um leið og önnur eru leyst. Og þetta gerist því fremur sem meira er kippt úr sambandi markaðslögmálum.

Til dæmis virðist mönnum hætta til að gleyma, hver er hinn raunverulegi vandi, sem varð tilefni aflakvótastefnunnar. Fiskiskipaflotinn var orðinn of stór í hlutfalli við þann afla, sem óhætt er að taka úr fiskistofnunum.

Þann vanda mátti leysa með því að skipuleggja hann ekki, heldur láta hann í friði. Vandann mátti leysa með því að leyfa útgerð mestu vanskilaskipanna að verða gjaldþrota, svo sem tíðkast í flestum öðrum atvinnuvegum.

Af minni togurunum er rúmlega helmingurinn annað hvort utan sjóðakerfis, í fullum skilum við það eða næstum því í fullum skilum. Þá eru eftir 38 skip. Af þeim eru svo aftur átta, sem skulda helming allra vanskilanna.

Þetta eru skipin, sein hafa verið smíðuð innanlands á síðustu þremur árum. Þeim hefur verið bætt við flotann, þótt öllum hafi verið ljóst í að minnsta kosti sex ár, að flotinn væri of stór og að nýju skipin mundu ekki bera sig.

Ábyrgðina bera stjórnmálamennirnir, Fiskveiðasjóður og útgerð þessara skipa. Stjórnmálamenn verða ekki dregnir til ábyrgðar frekar en endranær. Og allra sízt verða sjávarútvegsráðherrar Framsóknarflokksins gerðir ábyrgir!

“Þetta hefur lengi verið glórulaust dæmi,” sagði einn þessara útgerðarmanna í blaðaviðtali um daginn. Slík glórulaus dæmi eiga auðvitað að fá að eiga sína eðlilegu og heilbrigðu niðurstöðu í formi gjaldþrots.

Fiskveiðasjóði er þetta tapað fé. Eitt skipið skuldar sjóðinum hærri upphæð en sem nemur tryggingarverðmæti þess. En það er líka ósköp eðlilegt, að glórulaus lánastefna leiði til tjóns fyrir þennan lánveitanda eins og aðra.

Í stað þess að fara þessa leið, sem tíðkast í venjulegu atvinnulífi, eru sjávarútvegsráðherra og aðrir stjórnmálamenn að gamna sér við að gefa hinum glórulausu eftir skuldirnar að meira eða minna leyti, – verðlauna skussana.

Afleiðingin verður, að útgerð grínistanna leggst ekki niður. Hún mun áfram standa í vegi heilbrigðrar útgerðar, sem getur staðið í skilum. Hún mun áfram koma í veg fyrir meiri nýtingu skipa, sem standa undir sér.

Þannig nær aflakvótastefnan ekki tilgangi sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Nauðsynleg millifærsla.

Greinar

Fólkið, sem ekur um göturnar á nýlegum bílum, er bara venjulegt fólk úr ýmsum stéttum og störfum í þjóðfélaginu. Og fólkið, sem flykkist í sólarlandaferðir, er heldur ekkert auðfólk, heldur eins og hver annar í þjóðfélaginu.

Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur vel til hnífs og skeiðar, þrátt fyrir rýrða afkomu. Við sáum þetta á jólavertíðinni. Og við sjáum þetta daglega allt í kringum okkur. Fólk barmar sér að vísu, en það ræður við vandann.

Þessi þorri þjóðarinnar þarf ekki nauðsynlega á 4% til 6% kauphækkun að halda. Að minnsta kosti ekki á meðan lífskjör stefna í óefni hjá fátækasta hluta þjóðarinnar, sem ef til vill telur um tíunda hvern borgara.

Því miður er vandi undirstéttarinnar þess eðlis, að hann verður ekki leystur með því að rugla launastiga meira en gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstarfsmanna og gagntillögum fjármálaráðuneytisins undanfarna daga.

Ekki er heldur nokkur leið að ætlast til, að ríkið, fyrir hönd skattgreiðenda, leggi út fyrir mismuninum. Hugmyndir um að nota hluta söluskatts í afkomutryggingu eru marklausar, ef ekki er um leið bent á sparnað á móti.

Eina færa leiðin til að lina vandræði einstæðra foreldra og barnmargra foreldra, sem er langstærsti hluti lágstéttarinnar, er að færa fé til þess frá venjulegu fólki, sem hefur til hnífs og skeiðar, þrátt fyrir kjaraskerðingu.

Slíka millifærslu getur ríkið tekið að sér með því að breyta niðurgreiðslum að hluta eða öllu í fjölskyldubætur af einhverju tagi. Slík millifærsla kostar ríkissjóð ekki neitt og hún ruglar ekki heldur mun á launatöxtum.

Niðurgreiðslur eiga á þessu ári að nema tæpum milljarði króna. Ef þær væru lagðar niður, mundu nokkrar vörur hækka í verði, þar á meðal kindakjöt, rjómi og smjör, það er að segja vörur, sem ekki eru mikið á borðum fátækra.

Verðhækkun þessara afurða mundi éta upp hluta af prósentuhækkun launa, sem um verður samið í yfirstandandi kjaraviðræðum. Fólk getur þá, ef það vill, hliðrað til neyzluvenjum sínum til að eyða áhrifum verðhækkunarinnar.

Auðvitað er hætt við, að rétt verð á ofsadýrum afurðum hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda mundi draga úr sölu þeirra. Menn mundu sjá betur en áður, að framboð þessara rándýru afurða er ekki í neinu samhengi við þarfir.

Ef við ímyndum okkur, að 40.000 börn séu í landinu og að ríkissjóður greiddi 12.000 krónur með hverju barni á ári, án tillits til fjárhagsaðstæðna foreldra, mundi samt verða afgangs helmingur niðurgreiðslnanna til annarra þarfa, til dæmis skattalækkunar.

Slíkar fjölskyldubætur hafa áður verið reyndar hér á landi og voru einfaldar í meðförum, einkum af því að ekki þurfti að velja, hverjir njóta skyldu og hverjir ekki. Sérstakt val leiðir hins vegar til mistaka og misnotkunar.

Í fjölskyldubótum felst þátttaka þjóðfélagsins í hinum mikla kostnaði, sem foreldrar hafa af börnum. Þessi þátttaka er ekki mikil, en auðveldar foreldrum að lifa á kjörunum, sem atvinnulífið getur boðið láglaunafólki.

Deila má um réttmæti slíkrar þátttöku. En hún er þó himinhátt skynsamlegri en árlegur milljarður í niðurgreiðslur, sem skekkja vöruverð og atvinnulíf. Og um leið mundu fjölskyldubætur lina alvarlegasta böl líðandi stundar, hina sáru fátækt mitt í velsældinni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Að hindra sult og seyru.

Greinar

Vandamál undirstéttarinnar í landinu verða ekki leyst í kjarasamningunum, sem nú er verið að undirbúa hjá ríkinu og á almennum vinnumarkaði. Ef hindra á sult og seyru hjá fámennum hópi fólks, verður að fara aðrar leiðir að auki.

Fjármálaráðuneytið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja deila um, hvort lágmarkslaun eigi að vera 12.420 krónur eða 15.000 krónur á mánuði. Báðir aðilar eru hlynntir lágmarkslaunum og í rauninni ber furðu lítið á milli í tölum.

Virðingarvert er, að í opinbera geiranum skuli menn í raun fylgja hugsjóninni um lágmarkslaun. Á almenna vinnumarkaðinum hafa menn einnig haft þetta mjög á orði, en allir vita um leið, að lítt vottar fyrir því á borði.

Vinnuveitendasambandinu þykir rétt að styðja málstaðinn opinberlega, þótt ráðamönnum þess séu ljósir gallar lágmarkslauna. Meðal annars stuðla þau að launaskriði. Einnig hafa þau tilhneigingu til að verðleggja láglaunafólk út af vinnumarkaði.

Alþýðusambandinu er enn meiri nauðsyn að þykjast fylgja lágmarkslaunum í stað flatrar prósentuhækkunar launa. En allur þorri ráðamanna þess er samt í raun ráðinn til að gæta hagsmuna þeirra, sem betur mega sín, svo sem uppmælingaraðals.

Svo kann að fara, að framtakið í opinbera geiranum þvingi almenna vinnumarkaðinn til að semja um hliðstæð lágmarkslaun þar, jafnvel þótt það minnki prósentuhækkun þeirra launþega, sem Alþýðusambandið er í raun að semja fyrir.

Samt sem áður mun það ekki leysa vandamál undirstéttarinnar í landinu. Það er sérhæft vandamál, sem ekki fellur vel að möguleikunum, sem kjarasamningar bjóða. Og það mun einmitt koma í ljós í láglaunakönnun Kjararannsóknanefndar.

Undirstéttin í landinu er mjög fámenn, ef til vill um tíundi hluti þjóðarinnar. Langsamlega mestur hluti hennar eru sumar fjölskyldur einstæðra foreldra og sumar barnmargar fjölskyldur. Einnig er dálítið af öldruðu fólki og örkumla.

Ef láglaunamarki fylgir hliðstæð hækkun ellilífeyris og örorkubóta, er líklegt, að mestur hluti vandans, sem eftir er, sé hjá fjölskyldum einstæðra foreldra og barnmörgum fjölskyldum. Og sá vandi verður seint leystur með láglaunamarki.

Einstæð móðir, sem aðeins getur unnið hálfa vinnu utan heimilis, mun áfram búa við sult og seyru. Og hið sama má segja um barnmargar fjölskyldur, þar sem aðeins annað foreldrið getur unnið fulla vinnu, en hitt aðeins hálfa.

12.420 króna lágmarkslaun geta hugsanlega nægt einstaklingi. Barnlaus hjón, sem bæði vinna úti, geta enn frekar lifað af 24.840 krónum, því að ódýrara er fyrir tvo að lifa saman á heimili en fyrir einn. Það eru börnin, sem breyta myndinni.

Einstæð móðir getur ekki lifað af meðlagi og 6.210 króna launum fyrir hálfan vinnudag utan heimilis. Og fjögurra barna fjölskylda getur ekki lifað af 18.630 króna launum fyrir hálfan annan vinnudag utan heimilis.

Staðreyndin er, að það er dýrara að skilja og dýrara að eiga mörg börn en atvinnulífið getur staðið undir í öllum tilvikum. Það er vandamál, sem verður að leysa með millifærslu hins opinbera, með barnabótum til undirstéttarinnar.

Sí og æ er verið að benda á, að rétta leiðin er að breyta niðurgreiðslum búvöru í fjölskyldubætur, barnabætur eða afkomutryggingu. Það er einföld leið til að hindra sult og seyru hinna fáu, á kostnað hinna mörgu, sem sæmilega hafa til hnífs og skeiðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þegar ísinn varð ódýr.

Greinar

Þegar sjálfstæð ísgerð utan kerfis tók til starfa á sínum tíma, hætti ísinn frá Mjólkursamsölunni að hækka í takt við aðrar mjólkurvörur. Á nokkrum árum breyttist mjólkurís úr dýrri einokunarvöru í ódýra samkeppnisvöru.

Ekki er vitað, hvort mjólkurísinn var seldur of dýrt á sínum tíma eða er seldur of ódýrt um þessar mundir. Athugun á bókhaldi samsölunnar hefur sýnt, að ekki er unnt að greina skiptingu kostnaðar milli einstakra afurða.

Enginn veit, hvort kostnaður við bíla, sem flytja mjólkurvörur til smásölunnar, skiptist í réttum hlutföllum á vörurnar. Enginn veit, hvort ísinn er fluttur á kostnað mjólkurinnar, sem síðan er verðreiknuð á neytendur.

Vélakostur samsölunnar er bæði notaður til að pakka mjólk og ávaxtasafa. Engin leið er að átta sig á, hvort fjármagnskostnaðurinn hefur lent í eðlilegum hlutföllum á safa og mjólk, sem er verðreiknuð á neytendur.

Um ávaxtasafann gildir svo hið sama og um ísinn. Hann er fluttur með sömu bílum og mjólkin, án þess að bókhaldslega séu nein mörk dregin milli kostnaðar af hverri afurð fyrir sig. Slíkt er þó gert annars staðar á Norðurlöndum.

Í reikningum samsölunnar er fjármagnskostnaður, sem meðal annars hefur verið notaður til að kaupa stórvirkar vélar til brauðgerðar. Enginn veit, í hvaða mæli þessi kostnaður hefur lent í verðreikningi á mjólk til neytenda.

Um brauðið gildir líka hið sama og um ísinn og safann. Það er flutt í verslanir með samgöngutækjum fyrirtækisins, án þess að nokkur viti, hver sé eðlileg hlutdeild brauðsins í flutningskostnaði frekar en öðrum tilkostnaði.

Ástæðulítið er að gera því skóna, að samsalan misnoti þessa sérstöðu á vísvitandi hátt. En dæmið um ísinn sýnir, að við skort á bókhaldslegum upplýsingum er freistandi að hafa lágt verð á hliðarafurðum á samkeppnismarkaði.

Sá markaður ákveður, hvaða verð samsalan getur sett á ís, ávaxtasafa og brauð. Sé þetta verð undir tilkostnaði, fer mismunurinn í verðreikning á mjólkinni, sem síðan er seld neytendum á útreiknuðu einokunarverði.

Skoðun á bókhaldi samsölunnar og nokkurra annarra mjólkurbúa bendir einmitt til, að kostnaður við vinnslu mjólkur sé tiltölulega hátt metinn í samanburði við rjóma og smjör, hugsanlega af hreinu athugunarleysi.

Þessi sama athugun hefur einnig leitt í ljós, að kostnaður við mjólkuriðnað hefur aukist meira en almennt verðlag í landinu síðan 1975 og að starfsfólki hefur fjölgað þar þrátt fyrir minnkað framleiðslumagn.

Dæmið af samsölunni sýnir vel, hversu sjúklegt er að búa við einokun á afmörkuðum sviðum. Verð á einokunarvörum hneigist til hækkunar, meðal annars til að halda uppi samkeppni á öðrum sviðum, án tilheyrandi framleiðni.

Mjólkursamsalan er nú í skjóli einokunar að reisa eina stærstu höll landsins. stofnkostnaður báknsins verður reiknaður inn í mjólkurverðið, því að samsalan þarf áfram að hafa brauðið, safann og ísinn á samkeppnishæfu verði.

Engin leið er að komast að hinu rétta í kostnaðar- og markaðsverði einokunarafurða, nema veitt sé verslunarfrelsi, þar á meðal í sölu milli landshluta og milli landa. Á þann hátt einan fæst aðhaldið sem nú skortir.

Þannig verða vörur ódýrar eins og ísinn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þúsund glötuð störf.

Greinar

Um áramótin voru 1.868 konur og 1.490 karlar atvinnulaus hér á landi. Samtals eru þetta 3.358 manns eða um 3% af öllum mannaflanum. Þetta eru mun hærri tölur en sézt hafa í mörg undanfarin ár og fela í sér aðvörun.

Í samanburði við útlönd er 3% ekki há tala. En hún er ekki í okkar stíl. Hún er ekki í samræmi við stefnu fullrar atvinnu, sem hefur verið einn af hornsteinum stjórnmálaflokka og ríkisstjórna á Íslandi um langt skeið.

Hlutfall, sem var 2% í fyrra og er 3% um þessar mundir, getur verið komið upp í 4% eftir ár. Senn getur liðið að því, að hér myndist stétt, jafnvel ættgeng stétt atvinnuleysingja, utangátta í þjóðfélaginu og án umtalsverðrar vinnuvonar.

Slíkt ástand þurfum við umfram allt að forðast. Við sjáum í öðrum löndum, hvílík breiðfylking félagslegra vandamála fylgir kerfislægu atvinnuleysi, einkum hjá ungu fólki, sem aldrei hefur haft vinnu og hefur enga von um hana.

Upp að vissu marki eru tölur um atvinnuleysi marklitlar. Á móti þeim vega mörg laus störf, sem ekki er hægt að fylla, einkum í nútímalegum atvinnugreinum, þar sem sérþekkingar er krafizt. Atvinnuauglýsingar blaðanna sýna þetta.

Misræmið er eðlileg afleiðing sífelldra breytinga á atvinnuháttum landsmanna. Aðlögunin tekur alltaf tíma. Þess vegna er fólk atvinnulaust á einu sviði á sama tíma og starfskrafta vantar á öðrum sviðum.

Aukna atvinnuleysið hér á landi stafar nær eingöngu af minnkun fiskistofna og tilheyrandi aflabresti. Sennilega hafa um þúsund störf glatast af þessari ástæðu og kemur það afar þungt niður á mörgum sjávarplássum.

Nú er verið að reyna að skipuleggja sjávarútveginn að nýju. En kvótakerfi eða eitthvert annað kerfi breytir ekki aflabrestinum. Hann er staðreynd, sem mun fylgja okkur næstu árin, því að langan tíma tekur að vinna stofnana upp að nýju.

Þjóðfélagið þarf því að finna um þúsund ný og arðbær störf í stað þeirra, sem glatazt hafa í sjávarútvegi. Og þetta er hrein viðbót við þau tvö þúsund störf, sem finnast þurfa á ári hverju til að mæta aukningu mannafla.

Það gerist ekki í landbúnaði. Verulegur hluti hans, kinda- og kúabúskapurinn, er ekkert annað en dulbúið atvinnuleysi, sem ríkið rekur með margfalt meiri tilkostnaði en það mundi hafa af tilsvarandi atvinnuleysisbótum.

Aukningin þarf að vera í iðnaði og margvíslegri þjónustu, sem óhjákvæmilega fylgir iðnþróun. Þar er von okkar um, að full atvinna verði í framtíðinni eins og hún var til skamms tíma. Þar er nýgræðingurinn, sem þjóðin þarf að hlúa að.

Gengislækkunin í fyrrasumar og endurteknar kjaraskerðingar valda bættri samkeppnisaðstöðu íslenzks iðnaðar á innlendum og erlendum vettvangi og auknu bolmagni hans til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum.

Ef fyrirtæki hagnast, hvort sem það stafar af kjaraskerðingu eða öðru, getur það aukið fjárfestingu sína í vélum, tækjum og öðrum búnaði, sem skapar nýja atvinnu. Þetta er jákvæða hliðin á annars neikvæðri kjaraskerðingu.

Við verðum að vona, að það, sem þegar hefur harkalega verið gert, dugi til að tryggja að fullu nýja atvinnu og bægja frá okkur vandamálum atvinnuleysis, sem við sjáum við sjóndeildarhringinn. Þá munu lífskjörin smám saman batna af sjálfu sér á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sveitarfélögin svikust um.

Greinar

Sveitarfélögin í landinu, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa ekki lagt sitt af mörkum í baráttunni við verðbólguna. Sérstaklega hafa þau svikizt um að svíða fjárhagsáætlanir sínar til að halda niðri skattbyrði ársins.

Munurinn á framgöngu ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar kemur vel fram í þeim hundraðshluta skatta, sem mönnum er ætlað að reiða fram í svonefnda fyrirframgreiðslu opinberra gjalda á fyrri hluta ársins.

Niðurstöðutölum fjárlaga ríkisins hefur verið haldið svo mikið niðri, að ríkinu hefði nægt 57% fyrirframgreiðsla. Sveitarfélögin þurfa hins vegar 68% í sína hít, svo að millileiðin upp á 63% varð fyrir valinu.

Í meðförum fjárlagafrumvarpsins var áætluð tekjuhækkun manna milli ára lækkuð úr 20% í 16%, sem er mun nær réttu lagi. Þjóðhagsstofnun gerir einmitt ráð fyrir, að atvinnutekjur og ráðstöfunartekjur hækki um 16% milli ára.

Í þessum tölum er gert ráð fyrir ótryggu launaskriði. Stofnunin gerir ekki ráð fyrir, að kauptaxtar hækki nema um 13% milli ára. Margir munu ekki geta reiknað með neinu launaskriði ofan á þá prósentutölu.

Hér er rétt að minna á, að þessi hækkun kauptaxta milli ára er að mestu leyti þegar komin fram. Þjóðhagsstofnun reiknar aðeins með 4% hækkun yfir árið í heild.

Af þessu má ljóst vera, að þeir, sem ekki njóta launaskriðs að ráði eða tilfærslu skattbyrðar frá láglaunafólki til hálaunafólks, munu bera nokkru þyngri skatta til ríkisins á þessu ári en á hinu síðasta.

Munurinn er þó svo lítill, að ekki er hægt að neita því, að ríkisstjórnin hefur með fjárlögum sínum gert markvissa tilraun til að hlífa hart leiknu láglaunafólki við aukinni skattbyrði ofan á aðrar kárínur vetrarins.

Grimmdin í niðurskurði ríkisútgjalda átti sér enga hliðstæðu í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn veinuðu um slæma afkomu sveitarsjóða, en höfðu færri orð um slæma afkomu heimila útsvarsgreiðenda.

Ef útsvarsbyrði hefði átt að verða óbreytt milli ára, hefði álagningarprósentan orðið að lækka úr 11,9% í 9,5% eða úr 11% í 9%, svo að algeng dæmi séu nefnd. Mjög fá sveitarfélög lækkuðu sig og ekkert í þessum mæli.

Í Reykjavík verður útsvarsprósentan í ár 11% og í flestum öðrum sveitarfélögum Reykjavíkursvæðisins verður hún 10,5%. Yfirleitt eru þetta sömu tölur og í fyrra og jafngilda verulega þyngdri útsvarsbyrði á þessu ári.

Þessi skortur á aðhaldi og sparsemi í eigin rekstri er sveitarfélögum landsins til skammar. Þeim ætti ekki að vera vandara um en öðrum aðilum þjóðfélagsins að skera svo niður útgjöldin, að undan svíði.

Sem skýring á nöturlegri forystu Reykjavíkur í of harðri skattheimtu á erfiðum tímum hefur verið nefnt, að borgin axli þungar fjárhagsbyrðar af Grafarvogslóðum, sem ekki hafa gengið út. Slík mistök eru náttúrlega ekki til bóta.

Sveitarfélögum ber ekki skylda til að fylgja ríkisstjórnarstefnu á hverjum tíma. En þau verða auðvitað að sæta því, að almenningur telji þau ekki hafa staðið sig sem skyldi, þegar allir aðrir hertu sultarólarnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Raunvextir eða frjálsir.

Greinar

Í fyrsta skipti um langan aldur eru vextir almennt orðnir jákvæðir og fjárskuldbindingar verðtryggðar. Þetta stafar af, að tekizt hefur á ótrúlega skömmum tíma að ná verðbólguhraðanum úr rúmlega 100% niður fyrir 20%.

Vextir af óverðtryggðum lánum hafa um leið verið lækkaðir á skipulegan hátt. En sú breyting hefur orðið tiltölulega hægari. Og nú er svo komið, að útsölulán til forréttindagreina eru að mestu úr sögunni að sinni.

Ekki er tryggt, að þetta ástand sé varanlegt. Ef verðbólga vex aftur, er líklegt, að upp hefjist að nýju raddir um, að atvinnulífið þoli ekki fjármagnskostnað, sem er í takt við verðbólguna, og að vexti beri að niðurgreiða á nýjan leik.

Hugmyndin um, að vextir eigi að vera jákvæðir og fjárskuldbindingar verðtryggðar, byggist ekki nema að litlu leyti á tillitssemi við sparifjáreigendur. Þeir eru út af fyrir sig ekki of góðir til að bera byrðar á við aðra.

Það, sem máli skiptir, er, að jafnvægi sé í framboði og eftirspurn lánsfjár. Til þess að svo verði, þarf að fá fólk til að leggja peninga fyrir í stað þess að nota þá til eigin þarfa. Og slíkt hefur fólk ekki gert á undanförnum árum.

Ekki er til nein töfratala raunvaxta, sem markar þetta jafnvægi. Fjárfestingarlánasjóðirnir bjóða um þessar mundir 4,2% raunvexti af fé, sem þeir fá að láni. Samt er enn sár skortur á fjárstreymi til allra þessara sjóða.

Einn bankastjórinn sagði nýlega, að 4,2% raunvextir væru of lágir. Þeir megnuðu ekki að breyta eyðslu í sparnað. Enda vitum við, að víða í útlöndum eru raunvextir tvöfalt hærri eða á bilinu frá 8% til 10%.

En raunvextir geta líka orðið of háir. Í öðrum löndum hafa þeir í sumum tilvikum dregið úr getu fyrirtækja til að færa út kvíarnar fyrir lánsfé og búa þannig til atvinnu. Þar hefur afleiðingin verið þrálátt atvinnuleysi.

Hins vegar er ljóst, að hér á landi er enn langt í, að eftirspurn eftir lánsfé komist niður í jafnvægi við framboð á lánsfé. Þess vegna er ekki fráleitt hjá bankastjóranum, að raunvextir þurfi enn að hækka nokkuð.

Samt er hugsanlegt, að hækkaðir raunvextir geti dregið svipaðan dilk á eftir sér og gerzt hefur í útlöndum. Mikill fjöldi húsbyggjenda mun til dæmis ekki geta greitt meira en núverandi 2,5% raunvexti af húsnæðislánum.

Í rauninni má segja, að 2,5% raunvextir af húsnæðislánum, 0,5% raunvextir af lánum til verkamannabústaða og hliðstæð vildarkjör á ýmsum lánum til atvinnuvega feli í sér bara eina niðurgreiðsluna af mörgum.

Ef til vill stafar tregða sparifjáreigenda gagnvart 4,2% gylliboðum af rótgróinni og eðlilegri ótrú á, að stefna raunvaxta og verðtryggingar sé varanleg. Ef til vill kemur smám saman í ljós, að þessi 4,2% verði nógu freistandi.

Hitt er svo merkilegt, að menn skuli þurfa að vera að velta vöngum yfir, hverjir vextir og verðtrygging eigi að vera. Miklu nær væri að spyrja markaðinn álits. Það er að segja, að hafa vextina hreinlega frjálsa.

Á þann hátt eru mestar líkur á, að sparifjáreigendur leggi fram það fjármagn, sem lántakendur telja sig þurfa til að framkvæma og reka arðbær fyrirtæki í nægilega miklum mæli til að full atvinna sé í landinu.

Jónas Kristjánsson.

DV