Greinar

Ánægjuleg úrsögn.

Greinar

Flestum ríkjum þriðja heimsins ráða harðstjórar, sem kúga almenning af mun meiri harðneskju en nýlenduveldin gerðu á sínum tíma. Þeir beita her og lögreglu til að þverbrjóta hvert einasta mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna.

Glæpamennirnir, sem stjórna meirihluta ríkja heims, vilja ekki sæta því, að vestrænir fjölmiðlar skýri frá framferði þeirra, allt frá morðum og misþyrmingum yfir í stuld á þróunarfé til innlagnar í svissneska banka.

Í stað mannréttinda tala þeir um þjóðréttindi. Þeir segja, að þjóðir þeirra sæti enn óbeinni nýlendukúgun, þar á meðal skoðanakúgun hinna öflugu fjölmiðla á Vesturlöndum, sem velti sér upp úr ótíðindum frá þriðja heiminum.

Hugmyndafræðingar harðstjóranna hafa náð sérstaklega miklum árangri í Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar í stofnun skilja menn ekki, að hin svonefndu þjóðréttindi eru í raun kúgunarréttindi harðstjóranna.

Undir stjórn M’Bow, forstjóra Unesco, hefur verið hrúgað upp vanhæfu starfsliði, sem rekur and-vestræna hugmyndabaráttu í þágu glæpamannanna, er ráða flestum ríkjum þriðja heimsins. Engin stofnun Sameinuðu þjóðanna er verr rekin.

Ferðinni ræður bandalag sovézkra leppríkja, arabaríkja og harðstjórnarríkja þriðja heimsins. Sem dæmi um ofstopann má nefna, að Unesco styrkir ekki fornleifagröft í Ísrael, þótt þar sé eftir meiru að slægjast en víðast hvar.

Fulltrúar vestrænna menntamálaráðuneyta hafa staðið sig illa í Unesco. Þeir eiga erfitt með að skilja, að hinir sléttgreiddu þriðjaheimsmenn í stofnuninni eru að gæta hagsmuna harðstjóra, en ekki kúgaðrar alþýðu.

Sem dæmi um þetta skilningsleysi má nefna fulltrúa Íslands, sem nýlega var verðlaunaður með stjórnarsæti í þessari furðulegu stofnun. Andri Ísaksson sagði í blaðaviðtali, að úrsögn Bandaríkjanna hefði komið sér á óvart!

Öðrum kemur þessi úrsögn ekki á óvart. Menn hafa verið meira hissa á langlundargeði Bandaríkjamanna sem hafa greitt fjórðung kostnaðarins við skipulegar árásir Unesco á helztu hugsjónir vestræns þjóðskipulags.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið lagt til, að Ísland segi sig úr hinni ömurlegu stofnun. Fráleitt er, að lýðræðisþjóð eins og við sé að styðja stofnun, sem traðkar á mannréttindahugsjón Sameinuðu þjóðanna.

Þetta hefur ekki náð fram að ganga, enda eru í húfi ferðahagsmunir íslenzkra embættismanna. Og úrsögn Íslands hefði litla athygli vakið í samanburði við hin gleðilegu stórtíðindi, að Bandaríkin séu nú að kveðja Unesco.

Vonandi feta Bretar í kjölfar Bandaríkjamanna og síðan fleiri þeirra 25-30 þjóða, sem búa við mannréttindi í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá væri von á, að fljótlega færu að kólna stjórnarstólar íslenzkra fulltrúa.

Við þyrftum ekki frekar en Bandaríkjamenn að draga úr fjárstuðningi við góð mál, sem eru á starfssviði Unesco. Við getum afhent þessa peninga beint og milliliðalaust, án þess að brenna þá upp í skriffinnskunni.

Íslendingar eiga að vísa til mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ganga úr Unesco, sem er hin krumpaðasta af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Síðan getum við kannað, hvort ástæða sé til að kveðja fleiri harðstjóraklúbba af því tagi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Fastir í forneskjunni.

Greinar

Þessa dagana er Björn Einarsson raftæknifræðingur að flytjast til Danmerkur. Ástæðan er sú, að danska tæknistofnunin og danskt fyrirtæki hafa áhuga á að nýta uppfinningar hans á sviði rafkerfa og koma þeim á alþjóðlegan markað.

Fyrir hálfu öðru ári fluttist Jóhannes Pálsson uppfinningamaður til Danmerkur. Ástæðan var sú, að danska tæknistofnunin og ýmis fyrirtæki höfðu áhuga á að nýta uppfinningar hans á borð við rafgeymaklemmur og lyfjaglasalok.

Næst má búast við, að erlendir aðilar taki upp á sína arma fiskimjölsþurrkara Hauks Baldurssonar vélaverkfræðings. Þessir þurrkarar nota gufuna frá hráefninu til hitunar og spara orku í mæli, sem nemur tugum prósenta.

Um áramótin er okkur umhugsunarefni, hve erfitt er að virkja hugkvæmni manna hér innanlands til eflingar margvíslegum nýiðnaði. Uppfinningamenn verða að hrekjast úr landi til að finna peninga til að framkvæma hugmyndirnar.

Sums staðar í útlöndum er þessu á annan veg farið. Í Danmörku hafa menn til dæmis lengi vanizt að þurfa að halda uppi nútímaþjóðfélagi án þess að hafa auðlindir á borð við málma, kol og olíu. Þeir nota heilabúið í staðinn.

Hvergi er nýting uppfinninga þó öflugri en í Bandaríkjunum. Þar starfa um 600 fyrirtæki að því að sóa fjármunum í áhættusamar hugmyndir. Þessi fyrirtæki fara jafnvel á mannaveiðar í háskólum til að finna uppfinningamenn.

Þar í landi gerast enn draumarnir um blaðsöludrenginn, sem varð að milljónamæringi. Ekki eru ýkja mörg ár síðan upphafsmenn Apple tölvunnar voru í bílskúr að dunda við að koma saman fyrsta eintakinu af hinni mögnuðu söluvöru.

Skynsamir braskarar í bandarískum áhættuiðnaði reikna með að tapa peningum á fjórum verkefnum af hverjum tíu og halda jöfnu í fimm þeirra. Í einu tilviki af tíu vænta þeir ofsagróðans, sem knýr allt þetta uppfinningastarf.

Sem dæmi um áhættuna, sem tekin er í Bandaríkjunum, má nefna, að tölvuverkfræðingurinn Gene Amdahl hefur samtals fengið sem svarar fimm milljörðum íslenzkra króna til að framleiða nýja tölvu, sem ætlað er að skáka IBM.

Í Evrópu eru menn að byrja að reyna að líkja eftir Bandaríkjamönnum, þótt hefðir frumkvæðis og brasks séu þar ekki eins öflugar. Í Svíþjóð eru til dæmis komnir til skjalanna tólf áhættusjóðir, flestir stofnaðir í fyrra.

Hvort sem þetta brask í nýjungum og uppfinningum er á vegum einstaklinga, fyrirtækja, sjóða eða opinberra stofnana, þá er hugsunin sú, að framtíðin felist í nýjum hlutum, en ekki í því gamla, sem of margir vasast í.

Auðvelt er að sjá, að grónar auðframleiðslugreinar á borð við smíði bíla, heimilistækja og véla eru að verða til vandræða. Og langt er síðan framleiðsla kola og smíði stáls og skipa varð að ómaga í mörgum löndum heims.

Við höfum í að minnsta kosti fimm ár sóað fjárfestingu og erlendu lánsfé í þegar ofvaxinn fiskiskipaflota. Og áratugum saman höfum við sóað forgangsfé í hringavitlausa framleiðsluaukningu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Vegna forgangs úreltra verkefna að fjárfestingu hér á landi er ekkert aflögu til annarra og merkari hluta, svo sem að koma upp nýjungum, nýiðnaði, – gera uppfinningar að alþjóðlegri markaðsvöru. Við horfum aftur á bak, en ekki fram á við.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vestræn ábyrgð á morðæði.

Greinar

Átakanlegasti álitshnekkir hins vestræna heims stafar af stuðningi stjórnar Bandaríkjanna við hægri sinnuð öfgaöfl í Rómönsku Ameríku, einkum Mið-Ameríku. Hörmungarnar í El Salvador eru skýrasta dæmið um þetta.

Þar í landi hafa dauðasveitir hersins myrt upp undir 40.000 óbreytta borgara á síðustu fjórum árum. Sum morðin hafa verið tilviljanakennd, en önnur beinzt að hverjum þeim, sem hefur viljað styðja lítilmagnann.

Í bandaríska læknaritinu New England Journal of Medicine hefur rækilega verið skýrt frá, hvernig dauðasveitirnar hafa reynt að útrýma læknum, hjúkrunarkonum og sjúkraliðum, sem hafa stundað fátæka fólkið í landinu.

Að baki dauðasveitanna er yfirstétt hinna gömlu og ofsaríku landeigenda, sem eru að reyna að hindra, að jarðnæði verði að hluta skipt meðal leiguliða. Þeir eru að reyna að stöðva þróun, sem hófst í valdatíð kristilegra demókrata.

Vinstri menn þorðu ekki að taka þátt í síðustu kosningum í El Salvador af ótta við æði morðsveitanna. Þá misstu kristilegir meirihluta sinn í hendur róttækra hægri flokka á borð við þann, sem vitfirringurinn d’Aubuisson stýrir.

Þá var búið að skipta 20% jarðnæðis landsins milli fátækra bænda. Eftir kosningar hafa verið sett lög, sem stöðva þessa þróun, þannig að ríkir landeigendur haldi eftir að minnsta kosti þremur fjórðu alls lands.

Bandaríkjastjórn veit vel, að fyrri umbætur í landbúnaði voru forsenda þess, að unnt væri að rækta í landinu miðjustefnu, sem væri laus við öfgarnar til hægri og vinstri. Þetta hefur mistekizt síðan Reagan varð forseti.

Hernaður stjórnar El Salvador gegn skæruliðum, kostaður af Bandaríkjastjórn, gengur verr með hverjum mánuði. Enda er blóðferill hersins slíkur, að hann er hataður af allri alþýðu manna. Reglan er, að herinn þorir ekki í skæruliðana og myrðir þorpsbúa í staðinn.

Upp á síðkastið er Bandaríkjastjórn farin að átta sig á, að ekki er einhlít sú stefna Reagans forseta og Kirkpatricks sendiherra að styðja alla þá, sem segjast vera á móti kommúnistum, hversu ógeðslegir sem þessir skjólstæðingar eru.

Sendimenn Bandaríkjastjórnar, þar á meðal Bush varaforseti, hafa flutt stjórnvöldum í El Salvador lista yfir verstu morðvargana í hernum. Farið hefur verið fram á, að þeir verði settir af og gerðir útlægir. En án árangurs.

Hinn síðbúni partaskilningur Bandaríkjastjórnar hefur minni áhrif en ella fyrir þá sök, að margvísleg öfgaöfl í Bandaríkjunum styðja hinar blóðugu ofsóknir yfirstéttarinnar í El Salvador gegn langsoltinni alþýðu landsins.

Bandarísku öfgaöflin styðja fyrirbæri á borð við d’Aubuisson með peningum, ráðum og dáð. Í þeim hópi eru Council on lnter-American Security, American Security Council og National Strategic lnformation Center.

Öfgaöflin í Bandaríkjunum og El Salvador eru sammála um, að útrýma þurfi kommúnistum. Þar með taldir eru kristilegir demókratar, sem hingað til hafa verið álitnir fremur hægri sinnaðir. Þeir hafa kerfisbundið verið myrtir.

Með sama áframhaldi hverfur hin lýðræðislega miðja í El Salvador og Bandaríkjastjórn fær þá niðurstöðu. sem hún óttast. Róttækir vinstri menn eflast og steypa í byltingu morðsveitum róttækra hægrisinna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sukksöm fjárlög.

Greinar

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að verja fé til byggingar leikskóla, þegar það telur sig þurfa að hækka blaðastyrki á næsta ári um 85%. Það er meira en tvöföld meðaltalshækkun annarra liða á fjárlögum þess árs.

Þær þrettán milljónir króna, sem verja á til stuðnings pólitískum sorpritum, er almenningur vill ekki kaupa, renna auðvitað ekki til annarra þarfa, þar á meðal leikskóla. Alþingi hefur ákveðið sitt verðmætamat.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að verja fé til margvíslegra framfaramála, þegar það telur sig þurfa að verja 280 milljónum króna í útflutningsuppbætur, svo að unnt sé að gefa útlendingum íslenzkt kjöt á flutningskostnaðarverði.

Verðmætamat Alþingis felst meðal annars í að hækka á síðustu stund framlög til jarðræktar, svo að neytendur og skattgreiðendur megi í framtíðinni þola byrðar af enn aukinni offramleiðslu á rándýrum landbúnaðarafurðum.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að blása lífi í framtíðaratvinnu þjóðarinnar í iðnaði og tækni, þegar það telur sig þurfa að verja 8,4% alls fjárlagadæmisins til að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í hinum hefðbundnu búgreinum.

Aðeins í beinum styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum á hvatning Alþingis til aukinnar offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum að nema 1.500 milljónum króna á næsta ári. Þessi hálfi annar milljarður felur í sér einkennilegt verðmætamat.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að nota fjölskyldubætur til að leysa hnútinn á vinnumarkaðnum, þar sem finna þarf leiðir til að bæta kjör hinna verst settu, en finnast ekki, af því að samtök launafólks gæta hinna betur settu.

Margsinnis hefur verið bent á, að lykillinn að félagslegum sáttum í þjóðfélaginu að þessu sinni sé fólginn í að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur, sem koma hinum lakast settu mun betur að gagni en niðurgreiðslurnar.

Þessi fáu dæmi sýna, að það er út í hött, þegar þingmenn éta hver upp eftir öðrum, að fjárlögin nýju fyrir næsta ár séu fjárlög aðhalds og sparnaðar. Í rauninni eru þau eins og fyrri slík. Þau eru fjárlög sukks og svínarís.

Í rauninni mætti breyta nafni fjárlaganna í fjár- og nautgripalög, því að sauðfé og nautgripir eru ær og kýr þeirra. Fyrirferðin á þessum húsdýrum í fjárlögum íslenzka ríkisins er fyrir löngu komin út fyrir allan þjófabálk.

Afleiðingin af sukki fjárlaga ársins 1984 verður hin sama og við höfum áður orðið að þola. Ríkið verður að prenta verðlausa peningaseðla og taka lán í útlöndum til að borga fyrir óráðsíu, sem þjóðin hefur alls engin efni á.

Alþingi og ríkisstjórn loka augunum fyrir því, að prentun verðlausra seðla og lán í útlöndum auka verðbólguna. Eftir afgreiðslu fjárlaga má búast við, að hjöðnun verðbólgunnar stöðvist á ofanverðum vetri og nýtt ris taki við.

Þegar eru komin í ljós merki þess, að hvatning síðustu gengislækkunar á innlenda framleiðslu sé að fjara út. Skaðlegt er að bíða of lengi með lagfæringu í formi nýrrar gengislækkunar, sem auðvitað styður verðbólguna.

Ofan á allt sukkið í nýju fjárlögunum er haldið utan þeirra greiðslum á borð við vexti af 1200 milljón króna skuld ríkisins við Seðlabankann og svo gæluverkefnunum, sem sett verða í lánsfjárlög eftir áramótin í samræmi við brenglað verðmætamat Alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kvótar í þrjá mánuði.

Greinar

Alþingi hefði átt að veita sjávarútvegsráðherra leyfi til kvótaskiptingar alls fiskafla aðeins til næstu þriggja mánaða. Alþingi hefði líka átt að setja ákveðin skilyrði til að hefta alræðisvald eins manns.

Dapurlegt var að sjá Alþingi afgreiða þetta mál á handahlaupum í tímahraki, einmitt þegar fjárlög og mál þeim skyld eiga að njóta þar óskiptrar athygli. Kvótaskipting alls fiskafla er ekki mál, sem má samþykkja í fáti.

Með því að leyfa kvóta í þrjá mánuði í stað eins árs hefði Alþingi unnið sér tíma til að fjalla í alvöru um málið eftir jólahlé. Þá hefði verið unnt að brjóta þetta flókna mál til mergjar á skynsamlegan og frambærilegan hátt.

Þriggja mánaða kvótar hefðu annars vegar verið miðaðir við hina nýju áætlun um ársveiðina úr helztu fiskistofnunum og hins vegar reynslu síðustu þriggja ára af hlutdeild fyrstu þriggja mánaða ársins í heildaraflanum.

Til viðbótar hefði Alþingi getað ákveðið sjálft, að kvótar röðuðust á skip í hlutfalli við afla þeirra á síðustu þremur árum, svo sem lagt hefur verið til, í stað þess að selja sjávarútvegsráðherra sjálfdæmi.

Um leið hefði Alþingi getað tekið fram í lögunum, að þessi þriggja mánaða kvótaskipting gæfi ekkert fordæmi um, að framvegis yrðu auðlindir hafsins gefnar útgerðum fiskiskipa í hlutfalli við afla skipa þeirra á undanförnum árum.

Í sérstakri grein laganna hefði mátt taka fram, að Alþingi áskildi sér rétt til að fara á allt annan hátt með auðlindirnar að loknu hinu þriggja mánaða umþóttunarskeiði með ofangreindu bráðabirgðafyrirkomulagi.

Ennfremur hefði Alþingi getað falið sjávarútvegsráðherra að leggja eftir áramótin fram þingsályktunartillögu um frekara framhald málsins hina níu mánuði, sem eftir yrðu ársins. Um þá tillögu hefði mátt ræða á þingi fram í marz.

Með slíkum hægari vinnubrögðum hefði Alþingi í senn tryggt skjóta afgreiðslu brýnasta þáttar málsins og ekki afsalað sér rétti til ítarlegrar umfjöllunar og endanlegrar ákvörðunar innan ramma þingræðisins.

Það væri svo verðugt verkefni Alþingis að taka málið upp að nýju, þegar það kemur saman í lok janúar, og gefa sér tíma fram í marz til að finna lausn, sem hlífir þorskinum og tryggir um leið hagkvæmasta sókn í hann.

Kvótar koma að takmörkuðu gagni, ef þeir snerta ekki þann kjarna málsins, að skipin eru of mörg. Dreifing kvóta til allra skipa tryggir öllum tap, því að bandarískir neytendur fást ekki til að borga útgerðarkostnað alls flotans.

Við verðum að skilja þá staðreynd, að á næsta ári verður aðeins hægt að gera út helming eða tvo þriðju fiskiskipaflotans. Það er ekki kvótum eða öðrum reglum að kenna, heldur of litlum þorskstofni í sjónum.

Kvótana ætti að selja á uppboði, þar sem beztu útgerðarfyrirtækin með traustustu bakhjarlana mundu eiga hæstu boðin. Þar með yrðu 220 þúsund þorsktonnin veidd með minnstum tilkostnaði og mestum þjóðararði.

Alþingi ætti að hafa reisn til að sjá niður úr yfirborðinu. og taka vitrænar hugmyndir á borð við uppboð á kvótum til alvarlegrar umfjöllunar í stað þess að kasta fjöregginu í fáti til lítt öfundsverðs einræðisherra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Klúðra þeir kvótunum?

Greinar

Deilurnar um kvótakerfi fiskveiða eru farnar að taka á sig broslega mynd. Sérstaklega er gaman að kenningunni um, að verið sé að þjóðnýta þorskinn og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þannig svikið málstað frjálshyggjunnar.

Þetta hlýtur að vekja hugsun um, hver eigi þorskinn um þessar mundir, rétt áður en hann verður “þjóðnýttur”. Ekki er ljóst, hvort það eru sjómennirnir, skipstjórarnir, skipin eða framsóknarhafnirnar. Og hvað með Sölumiðstöðina?

Ef tekið er mið af öðrum fiskistofnum, sem miðstýrðir hafa verið á vegum þjóðnýtingarhugsjónar Sjálfstæðisflokksins og nokkurra annarra flokka, sýnist ljóst, að í þjóðfélaginu sé þegjandi samkomulag um kvótastefnu.

Þegar ríkisstjórnin leggur til, að útvegsmönnum sé gefin þessi þjóðareign í hlutfalli við veiði skipstjóra þeirra og sjómanna á undanförnum þremur árum, er hún ekki að þjóðaýta þorskinn, heldur gefa hann mönnum úti í bæ.

Nær væri að selja það, sem eftir er af þorskinum, eftir að sjómenn, skipstjórar, framsóknarhafnir, útgerðarmenn, sölumiðstöðvar, sjávarútvegsráðherrar og stjórnmálamenn hafa klappað honum mildilega í lögreglubílum sínum, skuttogurunum.

Langt er síðan Kristján Friðriksson benti greindastur manna á, að rétt væri að selja gamansömum útgerðarmönnum þessa lands hinn sögufræga þorsk á uppboði, þar sem hnossið fengju þeir, sem bestan hefðu reksturinn og hæst gætu boðið.

Enginn hefur haldið fram, að Kristján hafi í þessu frekar en öðru verið að ganga erinda Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Hins gæti þó meðal einkaframtaksmanna, að ekkert óttist þeir meira en framtak þeirrar stofnunar.

Engu máli ætti að skipta, hvort miðstýringin heitir kvóti, veiðileyfi eða auðlindaskattur, bara ef hún er ekki miðstýring. Og það er einmitt kjarni vandamálsins, að þjóðin veit ekki, hvort verið sé að opna nýja skömmtunarstofu.

Grundvallargallinn að baki kvótafrumvarpsins, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram, að því er virðist gegn eigin vilja, er, að í sjálfu sér fjallar framvarpið ekki um málið sjálft, of stóran fiskiskipaflota.

Grínistana í hópi útgerðarmanna má grisja á annan hátt, til dæmis með því að leyfa þeim að verða gjaldþrota, eins og þeir eiga margfaldlega skilið. Og eru þá ekki undanskildar útgerðir kaupfélaga og sveitarfélaga.

Hitt væri fáránlegt að lögfesta hverju skipi afla, sem gulltryggir, að það geti ekki staðið undir sér. Þess vegna er kvótakerfið stórhættulegt, nema það feli í sér, að þorskurinn geti gengið kaupum og sölum, leigum og lánum.

Gagnrýnendur spyrja réttilega, hvort ekki sé nær að miða kvótann við sjómenn eða skipstjóra, hafnir eða stjórnmálaflokka. Af hverju á að gefa skipunum einum hina sameiginlegu, fyrrverandi auðlind þjóðarinnar?

Að tala hins vegar um kvóta á aflaverð er hins vegar jafngaman og að tala um þjóðnýtingu þorsksins. Kvóti á aflamagn, fremur en á aflaverð, hlýtur einmitt að kalla á mestu hugsanlegu aflagæði til að koma tekjunum upp í hámark.

Slæmt er, að þingmenn hafa engan tíma til að fjalla um einstakar hliðar nauðsynjamáls kvótaskiptingarinnar. Verst er þó, að þeir eru vísir til að banna einu glóruna í kvótunum, hina frjálsu verzlun – með klinki í tóman ríkissjóð.

Þeir geta klúðrað þessu eins og öðru.

Jónas Kristjánsson.

DV

Saumað að fólki.

Greinar

Beiðnum um aðstoð Mæðrastyrksnefndar hefur fjölgað verulega frá því í fyrra. Þetta er eitt dæmið um, að hinir verst settu í þjóðfélaginu sigla nú inn í sárari fátækt en í fyrri kreppuskeiðum síðustu tveggja áratuga.

Ekki er unnt að búast við, að þetta hörmulega ástand verði leyst á vettvangi atvinnulífsins. Í samtökum launafólks viðurkenna forustumenn opinberlega, að enginn vilji sé til vinnudeilna á næstu mánuðum að minnsta kosti.

Í þessum samtökum hefur líka komið fram andstaða hinna betur settu gegn hugmyndinni um 15.000 króna lágmarkslaun, nema hækkunin færi að einhverju leyti upp stigann og kæmi einnig fram í yfirvinnu og ákvæðisvinnu.

En þar með væri eyðilögð hugmyndin um að einbeita kröftunum að kjörum þeirra, sem sitja á botni pýramídans. Aukin verðbólga mundi fylgja í kjölfar hækkunar upp launastigann. Hinir aumustu sætu eftir sem áður með sárt ennið.

Ekki er heldur unnt að sjá, að lækkaðar álagningarprósentur opinberra gjalda muni lina þetta vandamál. Deilur stjórnmálamanna um skattbyrðina hafa leystst upp í almenna viðurkenningu á, að hún muni hækka á næsta ári.

Það þyngir svo vandann, að spár um minnkandi þorskafla á næsta ári hafa leitt til síðbúinnar lækkunar á spá fjárlagafrumvarpsins um launahækkanir. Þar með er enn ólíklegra en fyrr, að hægt verði að halda óbreyttri skattbyrði.

Enn verra er ástandið í útsvörunum. Almennt munu sveitarfélögin, þar á meðal Reykjavík, ekki telja sér kleift að lækka útsvarsprósentuna um þau 2-3 stig, sem þyrfti til að halda óbreyttri útsvarsbyrði á næsta ári.

Þetta kemur hart niður á hinum verst settu, sem hafa útsvarsskyldar tekjur, en ekki nógu háar tekjur til að tekjuskattur mælist. Þessi byrði bætist ofan á aðra lífskjaraskerðingu, sem þegar er orðin og á eftir að verða.

Þannig er saumað að fólki á allar hliðar. Sumt hefur bjargað sér fyrir horn með því að fá sér krítarkort fyrir jólavertíðina. En það er skammgóður vermir, því að syndagjöldin koma síðar og þá er kreppan orðin harðari.

Í þessum mikla vanda verður æ fleiri hugsandi mönnum litið til rúmlega eins milljarðs króna, sem samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að renna til niðurgreiðslna á kjöti og mjólkurvörum. Á því sviði er örlætið enn í hámarki.

Bent hefur verið á, að illa stöddu barnafólki kæmi betur að fá fjölskyldubætur en að njóta niðurgreiðslna. Fjölskyldubætur má nota til kaupa á ódýrri vöru á borð við fisk og kornmat, en niðurgreiðslur eru bundnar við rándýra vöru.

Til þess að þetta sé unnt þarf að lögleiða hinn nýja vísitöluútreikning, sem þegar er tilbúinn og byggist á nýlegri neyzlukönnun. Þar vega kjöt og mjólkurvörur ekki óeðlilega þungt og eru því ekki lengur ódýr leið til vísitölufölsunar.

Um leið er engin furða, þótt spurt sé, hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin hafi í kreppunni og niðurskurðinum efni á að verja 8.4% fjárlagafrumvarpsins í hvatningu til aukinnar offramleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum.

Kreppan hefur ekki verið og verður ekki umflúin. Samt er ekki ástæða til að hleypa henni með fullum krafti á þá, sem minnst hafa efnin og þyngst heimilin. Á slíkum tímum er brýnna en endranær að draga úr fóðrun gæludýra ríkisjötunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Breytið kvótafrumvarpinu.

Greinar

Lagafrumvarpið um kvótakerfi á öllum fiskveiðum er eitt magnaðasta framfaramál þjóðarinnar um þessar mundir. Það gefur vonir um, að loksins verði unnt að ná tökum á sókninni í helztu fiskistofnana og stemma stigu við ofveiði.

Frumvarpið hefur að vísu þann annmarka, að sjávarútvegsráðherra eru falin of mikil völd. Hann á að verða eins og landsliðseinvaldur í boltaíþróttum. Hann á einn að ráða heildarafla og skiptingu hans á veiðarfæri, skipategundir og skip.

Hagsmunaaðilar treysta Halldóri Ásgrímssyni vel til að fara með þessi völd. En ekki má klæðskerasauma lög utan á einstaka menn. Til dæmis gæti Matthías Bjarnason aftur orðið sjávarútvegsráðherra og misbeitt hinu víðtæka valdi.

Landssamband útvegsmanna hefur samþykkt, að aflakvótanum verði skipt á skip í hlutfalli við veiði þeirra á undanförnum þremur árum. Þessa tegund kvótaskiptingar hefði átt að binda í lögum í stað fríspils ráðherrans.

Þessi verður sennilega niðurstaða kvótaskiptingarinnar. Hún ætti að geta létt þrýstingi af sjávarútvegsráðherranum. Einföld þríliða kemur í stað ferðalaga þrýstihópa á fund ráðherra. Reikningsdæmi kemur í stað pots.

Viðmiðunin við afla þriggja síðustu ára leiðir til, að hinir duglegu fá meira í sinn hlut. Aðrar tegundir kvótaskiptingar hefðu fremur kynt undir meðalmennskunni og þar með hækkað heildarkostnaðinn við útgerð íslenzkra fiskiskipa.

Tryggja þarf, að útgerðarmenn geti ekki látið fylla kvótann á hálfu ári og síðan vælt út viðbótarleyfi í ráðuneytinu á þeim forsendum, að atvinnuleysi blasi við. Hinn upphaflegi kvóti verður að gilda undanbragðalaust.

Einnig þarf að tryggja, að aflatillögur Hafrannsóknastofnunarinnar verði ekki notaðar bara til hliðsjónar. Ástand samra stofna er orðið svo alvarlegt, að niðurstöðutölur vísindamanna verða að fá að gilda klárt og kvitt.

Ennfremur ætti frumvarpið að leyfa, að handhafar kvóta geti skipzt á þeim, selt þá, lánað eða leigt, án afskipta opinberra aðila, en séu þó skyldir að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu slík viðskipti eða millifærslur.

Kvótaverzlun er líkleg til að gera kerfið sveigjanlegra og færa útgerðina í auknum mæli til þeirra, sem hafa arðbærastan rekstur, mestan árangur með minnstum tilkostnaði. Kvótakerfi ber einmitt að stuðla að slíkri tilfærslu.

Loks ætti frumvarpið að gera ríkinu beinlínis kleift að selja kvótana í stað þess að gefa þá. Kvótaskipting er í eðli sínu viðurkenning á, að um sé að ræða takmarkaða auðlind, sem á að vera í eigu þjóðarheildarinnar.

Hér hefur verið lagt til, að kvótalögin veiti ráðherra ekki frelsi til að velja aðra kvótaskiptingu en þá, sem miðuð er við skip og fyrra aflamagn. Og ekki frelsi til að velja annað aflahámark en fiskifræðinganna. Og ekki svigrúm til að anza væli plássapotara.

Hér hefur líka verið lagt til, að kvótalögin veiti svigrúm til sölu ríkisins á kvótum og frjálsri verzlun með þessa kvóta, svo að sjávarútvegurinn sé ekki frystur í núverandi ástandi, heldur haldi áfram að þróast.

Með slíkum breytingum væri frumvarpið um kvótaskiptingu orðið að virku tæki til að efla fiskistofnana, auka hagkvæmni í sjávarútvegi og losna við slagsmál þrýstihópa. En í óbreyttu formi er það þó betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Létt verk að létta lífið.

Greinar

Krafa launþegasamtaka um 15 þúsund króna lágmarkslaun á mánuði er afar eðlileg. Hún endurspeglar almennan skilning á, að í kreppunni sé brýnast að verja kjör hinna verst settu. En hinir betur megandi geti beðið að sinni.

Einnig er eðlileg ábending atvinnurekenda um, að samningur um 15 þúsund króna lágmarkslaun muni ekki hafa tilætluð áhrif. Prósentuhækkun láglaunafólks verði notuð til viðmiðunar, þegar hálaunafólkið fer að gæta sinna hagsmuna.

Reynslan sýnir, að pennastrik á borð við 15 þúsund leiða til sprenginga upp launastigann. Í kjölfarið koma svo opinberar ráðstafanir í efnahagsmálum og verð bólgusprenging. 15 þúsund króna fólkið sæti eftir með sárt ennið.

Þessi fyrirvari þýðir samt ekki, að vonlaust sé að bæta hag hinna nauðstöddu, sem hafa innan við 15 þúsund króna mánaðartekjur. Slíkt þarf bara að gera á þann hátt, að ekki leiði til sprengingar, sem eyðileggi ásetninginn.

Skynsamlegasta undirbúningsaðgerðin er þegar hafin. Það er könnun Kjararannsóknanefndar á kjörum láglaunafólks. 3.500 spurningalistar hafa verið sendir, og vonað er, að svörin verði komin til baka um miðjan mánuð.

Líklegt er, að könnunin leiði í ljós, að neyðarástandið sé að verulegu leyti bundið við ákveðna þjóðfélagshópa. Kæmi slíkt í ljós, væri tiltölulega auðvelt að beita hliðaraðgerðum til að létta byrðar þessa fólks.

Fyrirfram má gera ráð fyrir, að ástandið sé alvarlegast hjá fjölskyldum, einkum barnafólki, þar sem fyrirvinna launa er aðeins ein og hefur innan við 15.000 krónur á mánuði. Flestir aðrir ættu að geta varizt áföllum.

Reikna má með, að einkennispersóna neyðarástandsins sé einstæð móðir á lágum launum og í dagvinnu einni saman. Það er til dæmis fáránlegt að telja tveggja barna móður geta lifað af 12.000 króna mánaðarlaunum.

Ein aðferðin við að bæta úr þessu er að færa meðlagsgreiðslur nær raunveruleikanum. Þær eru nú svo lágar, að kostnaður við börn leggst að verulegu leyti á foreldrið, sem annast börnin. Það er verulega ósanngjarnt.

1.615 króna meðlag á mánuði með barni er allt of lágt. Þeir, sem slíkt meðlag greiða, sleppa alltof ódýrt. Lögskipað meðlag ætti því að tvöfaldast. Það mundi mjög bæta hag hinna einstæðu mæðra, sem nú ramba á barmi gjaldþrots.

Þetta mundi hafa í för með sér nokkurn kostnað ríkissjóðs, því að sumir geta ekki eða vilja ekki standa við fjárhagslegar skuldbindingar af þessu tagi. En ríkið getur náð því fé í tengslum við hina aðferðina við lausn málsins.

Sú aðferð er fólgin í að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur. Niðurgreiðslur eiga á næsta ári að nema rúmum milljarði króna. Þær verða vafalaust mun hærri, því að reynslan sýnir, að þær margsprengja ramma fjárlaga.

Fjölskyldubætur eru miklu áhrifameiri aðferð við að bæta kjör þungra heimila. Þær nýtast betur til kaupa á ódýrum, hollum vörum á borð við fisk og kornmat, svo sem brauði, heldur en niðurgreiðslur á rándýru kjöti og mjólkurvörum.

Með tvöföldum meðlögum og millifærslu niðurgreiðslna yfir í fjölskyldubætur er auðvelt að ná árangri, sem er betri en sem svarar hækkun láglauna upp í 15.000 krónur. Og það gerist án þess að í kjölfarið fylgi launasprenging hálaunafólks og síðan óðaverðbólga.

Jónas Kristjánsson

DV

Tíupútnamenn rufu friðinn.

Greinar

Neytendum verður jafnan óglatt, þegar Framleiðsluráð og aðrar einokunarstofnanir landbúnaðarins tjá ást sína á þeim. Svo er einnig nú, þegar ráðið hyggst taka upp framleiðslustjórn á eggjum, auðvitað í þágu neytenda.

Í Tímanum benti greindur framsóknarmaður nýlega á, að neytendur hafa ekki beðið um fyrirhugaðar aðgerðir Framleiðsluráðs. Hann benti líka á, að markmið búskapar geti aldrei orðið annað en að sinna þörfum neytenda.

Hann sagði: “Sé einhver þörf fyrir eggjadreifingarstöð, er það ekki vegna þess að neytendum þyki verðlagið á eggjum of hátt, ekki vegna þess að kvartað hafi verið yfir gæðum á íslenzkum eggjum og ekki vegna þess að kvartað hafi verið yfir eggjadreifingunni.”

Hins vegar hafa neytendur oft haft ástæðu til að kvarta yfir vörum, sem eru undir einokunarvæng Framleiðsluráðs. Skemmt kjöt hefur verið hakkað ofan í neytendur og svokölluð nýmjólk oft verið tíu daga gömul og fúl.

Reynsla þjóðarinnar af svokallaðri framleiðslustjórn í landbúnaði er með endemum. Í reynd miðar hún meðal annars að framleiðslu mjólkur sem lengst frá markaði þéttbýlisins. Í því skyni er beitt verðjöfnun á mjólkurflutningum.

Framleiðslustjórnin byggist á, að hinn endanlega reikning er hægt að senda neytendum og skattgreiðendum, jafnvel þótt undanrenna ofan í sunnlenzka kálfa sé flutt norðan úr landi á flutningskostnaði, sem er hærri en söluverðið.

Elskhugar neytenda í Framleiðsluráði hafa líka misst á prent hugsjónir sínar um, að egg skuli aðeins framleidd á svokölluðum lögbýlum. Þannig eiga kinda- og kúabændur að taka við af núverandi iðnrekendum í greininni.

Þessir makalaust fallega hugsandi einokunarsinnar hafa líka misst á prent hugsjónir sínar um svokallað búmark í eggjaframleiðslu. Það felur í sér, að stórtæk framleiðsla víki fyrir tíupútnaútgerð við annað hvert fjárhús í landinu.

Launamenn landbúnaðarkerfisins keppast um að lýsa yfir, að þeir stefni ekki að einokun á eggjamarkaðnum. En Framleiðsluráð hefur samt ekki veitt Vallá, Holtábúi, Reykjagarði og Nesbúi heildsöluleyfi.

Úr því að ráðið getur ekki stillt sig um að reyna að bregða fæti fyrir þessa stórframleiðendur, sem framleiða ódýrari egg en aðrir, ber Alþingi skylda til að taka leyfisveitingavaldið af ráðinu og það í grænum hvelli.

Annað vald ber einnig að taka af einokunarstofnunum landbúnaðarins. Það er valdið til að taka kjarnfóðurgjald af duglegum framleiðendum og nota það í þágu hinna, sem eru dragbítar. Slík skömmtun er gerspillt.

Ekkert er sjálfsagðara en að tíupútnamenn fái að setja upp eggjadreifingarstöð. Ófrávíkjanleg skilyrði eru þó, að ekki verði notað til þess fé úr kjarnfóðursjóði og að ekki verði hindruð umsvif hinna, sem fást ekki til að vera ómagar á neytendum og skattgreiðendum.

Kominn er tími til, að neytendur og skattgreiðendur taki í karphúsið stjórnmálaflokka á borð við Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkinn, sem þora ekki á landsfundum að álykta gegn fyrirhuguðum eggjaglæp Framleiðsluráðs.

Þá er einnig kominn tími til, að neytendur og skattgreiðendur skeri ekki aðeins upp herör gegn eggjaeinokuninni fyrirhuguðu heldur einnig allri núgildandi einokun í landbúnaði. Það er Framleiðsluráð, sem hefur rofið friðinn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lögregla á glapstigum.

Greinar

Margir íslenzkir lögregluþjónar eru mannþekkjarar og lipurmenni, sem vinna störf sín óaðfinnanlega. Þeir geta með orðum sínum og framkomu stillt til friðar milli hjóna og sefað æsingamenn, svo sem mörg dæmi sýna.

Hitt er svo líka rétt, að ofbeldismenn sækjast eftir störfum við löggæzlu. Það er alkunnugt vandamál um allan heim. En hér er það sérstaklega erfitt viðureignar, af því að slíkir menn hafa ekki her til að ganga í.

Brezk yfirvöld lögreglumanna hafa lagt sérstaka áherzlu á að halda þessum vanda í skefjum. Þau vilja halda góðu sambandi borgara og lögreglu. Og það hefur tekizt nógu vel til að gera brezka lögregluþjóna heimskunna.

En jafnvel þar verða mistök. Lögreglumenn á vettvangi kynþáttaóeirða brutust inn í óviðkomandi íbúðir til að brjóta og bramla. Og konur þora vart að kæra nauðgun, af því að mörgum lögregluþjónum finnst hún fyndin.

Í nýbirtri skýrslu Policy Studies lnstitute eftir fjögurra ára rannsókn á atferli lögreglunnar í Lundúnum kemur margt ófagurt í ljós. Áberandi er, hve hraðlygnir lögregluþjónar eru fyrir rétti, þegar þeir reyna að verja hver annan.

Skýrsla þessi sýndi, að meðal lögregluþjóna var útbreitt hatur á minnihlutahópum, konum og yfirleitt öllum þeim, sem eru minni máttar í þjóðfélaginu. Þetta er hugarfar valdshyggjumanna, sem sumir eru ofbeldismenn.

Borgarinn, sem sætti misþyrmingum reykvísks lögregluþjóns fyrir rúmri viku, var heppinn, að vitni voru nærstödd. Annars hefði mátt búast við, að lögreglumennirnir hefðu logið hver um annan þveran um tildrög málsins.

Ofbeldisárás lögreglumannsins á handjárnaðan borgara sýnir, hvernig farið getur, þegar yfirvöld lögreglumanna missa tök á aga og skipulagi. Þá brýzt í gegn ofbeldiseðlið, sem blundar í sumum lögregluþjónum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur tekið dauflega á þessu máli og reynt að bera blak af “sínum” manni. Þessi glöp hans eru til þess fallin að telja lögregluþjónum trú um, að þeir séu ríki í ríkinu, ofan laga og réttar.

Mörg fleiri dæmi eru um þennan agaskort. Þegar blaðafréttir sögðu frá efasemdum læknis um meðferð lögregluþjóna á blóðprufum, var ekki farið að innsigla slíkar blóðprufur, heldur höfðað kærumál á hendur blaðinu.

Hvað eftir annað eru lögregluþjónar staðnir að stórhættulegum eltingaleik við drukkna ökumenn. Þeir margfalda hættuna, sem stafar af þessum mönnum.

Áberandi er, að lögregluþjónar taka yfirleitt trúanleg orð ofbeldishneigðra dyravarða á veitingahúsum fram yfir orð venjulegra borgara.

Yfirstjórn löggæzlu í Reykjavík er slík, að borgarar þekkja lögregluþjóna helzt sem stimpingamenn, er reyna að hindra fólk í að komast í búðir á vissum tímum, eða þá sem felumenn, er reyna að gefa út ökuhraðakærur á breiðgötum á góðviðrisdögum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík ætti að draga sig í hlé fyrir aldurs sakir. Í staðinn þarf til skjalanna að koma einhver, sem getur komið skipulagi og aga á liðið. Til dæmis sýslumaðurinn á Ísafirði, sem ekki tvínónaði við að taka á lögregluþjónavandanum þar vestra.

Altjend er orðið tímabært að vernda borgarana fyrir lögreglunni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Arðsemi er mannúðlegri.

Greinar

Fiskiþing, sem nú situr – á kostnað ríkisins – er svo annars hugar í fiskveiðimálum, að menn kvarta þar um ómaklegan áróður gegn fjölda fiskiskipa. Þetta er eitt grófasta dæmi nútímans um menn, sem stinga höfðinu í sandinn.

Allir aðrir, þar á meðal samtök útgerðarmanna og sjávarútvegsráðherra, eru sammála um, að nauðsynlegt sé að fækka fiskiskipum, einkum togurum, og nálgast á þann hátt fyrra jafnvægi afkastagetu og aflamagns flotans.

Þeir, sem skilja þessa nauðsyn, deila hins vegar um, hvernig togurum eigi að fækka. Er þar stillt upp sem andstæðum arðsemisstefnu og svonefndri byggðastefnu, sem er smábyggðastefna. Fer sjávarútvegsráðherra fyrir hinum síðarnefndu.

Arðsemissinnar mundu fremur vilja fækka togurum á Þórshöfn en Akureyri, af því að útgerðin gengur skár á Akureyri. Smábyggðasinnar vilja hins vegar frekar fækka togurum á Akureyri en á Þórshöfn af eins konar mannúðarástæðum.

Smábyggðasinnar segja, að togarinn sé í sumum smáplássum eini hornsteinn atvinnulífsins. Stöðvun hans muni leiða til almenns atvinnuleysis og fólksflótta til þéttbýlis, þar sem tryggari horfur séu á sæmilegri afkomu.

Þeir segja líka, að í þéttbýli sé auðveldara að byggja upp atvinnutækifæri á öðrum sviðum. Sem dæmi hefur verið nefnt, að stækkun álversins í Straumsvík geti komið í stað útgerðar nokkurra togara á Suðurnesjum.

Hin sögulegu sjónarmið gleymast yfirleitt í þessari röksemdafærslu. Til skamms tíma voru togararnir fyrst og fremst einkenni þéttbýlisins, einkum Reykjavíkur, en einnig Akureyrar, Hafnarfjarðar, Ísafjarðar og Akraness.

Litlu plássin eins og Þórshöfn og Hólmavík hafa hins vegar fengið sína togara á allra síðustu árum. Þau hafa því ekki eins mikinn sögulegan rétt til togaraútgerðar og hinir rótgrónu togaraútgerðarbæir þéttbýlisins.

Engin leið er að verja, að óhófskaup á togurum til strjálbýlisstaða eigi að leiða til, að refsað sé tiltölulega traustri togaraútgerð á gömlum merg í þéttbýli. Smábyggðastefnan væri þá komin út yfir allan þjófabálk.

Allir nema Fiskiþing vita, að í um það bil fimm ár hefur sífellt verið bent á, að nýir togarar séu ekki aðeins óþarfir, heldur beinlínis skaðlegir þeirri útgerð, sem fyrir er, svo og gersamlega vonlausir í rekstri.

Þeir, sem hafa keypt slík skip á síðustu fimm árum gegn heilbrigðri skynsemi, hafa réttilega verið kallaðir grínistar, enda hafa þeir ekki miðað við útgerð á fisk, heldur á kerfið, sem veitir ljúfar fyrirgreiðslur.

Þessir grínistar síðustu fimm ára eiga að súpa seyðið af gerðum sínum, enda þótt telja megi kerfið meðábyrgt. En sjávarútvegsráðherrar síðustu ríkisstjórna verða líklega ekki dregnir til ábyrgðar frekar en stjórnmálamenn yfirleitt.

Útgerð grínistanna er gjaldþrota. Þetta ber að viðurkenna á formlegan hátt með viðeigandi uppboðum á skipunum, hvort sem þau eru gerð út í þéttbýli eða strjálbýli. Í sumum tilvikum er unnt að hjálpa mönnum við að hætta.

Ýmsir halda, að svonefnd byggðastefna, sem er smábyggðastefna, sé mannúðlegri en arðsemisstefna. Í því brenglaða mati sjá þeir ekki, að arðsemin ein getur bjargað sjávarútveginum frá ómannúðlegum hörmungum aflakreppunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stöðvum steinullina.

Greinar

Samkvæmt lögum um steinullarverksmiðju er ríkisstjórninni því aðeins heimilt að leggja fram fé til fyrirtækisins, að hlutaféð í heild verði að minnsta kosti 30% af stofnkostnaði hinnar fyrirhuguðu verksmiðju á Sauðárkróki.

Núverandi ríkisstjórn braut þessi lög um daginn, þegar hún samþykkti ríkisaðildina, enda þótt hlutafé fyrirtækisins eigi ekki að vera nema tæp 5% af stofnkostnaði í stað 30% eða 30 milljónir króna í stað 192 milljóna.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur ríkisstjórnin ákveðið að útvega á næsta ári 80 milljónir króna í erlendum lánum til verksmiðjunnar. Er þá enn eftir að útvega 530 milljón króna lán í þetta 640 milljón króna gælufyrirtæki.

Ábyrgð núverandi ríkisstjórnar er þyngri en hinnar, sem fékk lögin um steinullarverksmiðjuna samþykkt fyrir hálfu þriðja ári. Í lögunum eru fyrirvarar, sem ekki hefur verið staðið við. Samt ætlar ríkið að taka þátt.

Þyngsta ábyrgð á þátttöku mundu bera Albert Guðmundsson í fjármálaráðuneytinu og Sverrir Hermannsson í iðnaðarráðuneytinu. Hinn fyrrnefndi á að ábyrgjast lánin og hinn síðarnefndi kaupa hlutaféð – fyrir lánsfé.

Hlægilegt er, að annar þessara ráðherra, sem er að reyna að selja ríkisfyrirtæki, á að taka þátt í að útrýma um 50 atvinnutækifærum í sautján einkafyrirtækjum í framleiðslu einangrunar og færa yfir í eina ríkiseinokun.

Hin makalausa verksmiðja núverandi ríkisstjórnar á að framleiða úrelta vöru, sem hvarvetna er á hröðu undanhaldi í byggingaiðnaði. Í útlöndum eru slíkar verksmiðjur reknar með aðeins 50% afköstum.

Mikla afhygli hefur vakið á síðustu árum, hversu hættulegt er að vinna í steinullarverksmiðjum. Í Danmörku einni létust í fyrra ellefu starfsmenn úr krabbameini vegna mengunar af steinullarryki. Svo kvarta sumir út af álverum!

Enginn hefur í alvöru haldið fram, að unnt verði að selja nokkuð af framleiðslunni til útlanda. Samt er verið að stofna verksmiðju, sem á að framleiða 6.000 tonn á ári upp í heimamarkað, sem var 610 tonn í fyrra.

Greinilegt er, að níu tíundu hlutar framleiðslunnar munu ekki seljast, nema þrengt verði að öðrum einangrunarefnum á markaðnum, svo sem glerull og plasti. Það verður fyrst gert með tollum og kvótum og síðast með einokun.

Húsbyggjendur munu borga brúsann í hækkuðum byggingakostnaði. 50 starfsmenn í 17 einkafyrirtækjum munu borga brúsann í atvinnumissi. Skattgreiðendur og erfingjar landsins munu borga brúsann í ríkisútgjöldum og erlendum skuldum.

Heimamenn á Sauðárkróki ætla aðeins að leggja fram 0,6% kostnaðar eða fjórar milljónir af 640 milljónum. Það eru 13% af hlutafénu. Finnar eiga að leggja fram 17%. Sambandið 30% og ríkið 40%. Þannig er búið til gælufyrirtæki.

Allir útreikningar á arðsemi verksmiðjunnar eru út í hött, enda hafa margir sérfróðir aðilar varað við feigðarflaninu. Til dæmis hefur Skipaútgerð ríkisins ekki samþykkt að flytja steinullina á 75% afslætti af farmgjöldum.

6.000 tonna verksmiðja fyrir 610 tonna markað er vitlausasta iðnaðarævintýri Íslandssögunnar, vonlausara en Kröfluvirkjun. Þar verður kastað á glæ 640 milljónum króna.

Þetta gæludýr verður að stöðva. Albert getur það, ef hann vill.

Jónas Kristjánsson.

DV

Handarbök Hagvangs.

Greinar

Þrátt fyrir slæma reynslu af skoðanakönnunum Hagvangs hefur fyrirtækið enn einu sinni komið til skjalanna með tíu þumalfingur og fjögur handarbök. Árangurinn er sá, að forsætisráðherra er að ástæðulitlu ákaflega glaður.

Hagvangur spurði: “Ef kjaraskerðing getur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu, ertu þá sjálfur tilbúinn eða ekki tilbúinn, að launahækkanir verði ekki umfram það, sem ríkisstjórnin hefur boðað á næstu 12 mánuðum?”

Spurning þessi brýtur flest lögmál um orðalag í vönduðum skoðanakönnunum. Í fyrsta lagi er hún grautargerð, sem hinn spurði getur hæglega misskilið. Og í öðru lagi er hún hreinlega leiðandi í hag ríkisstjórninni.

Í spurningunni er tveimur innri spurningum ósvarað: Hefur kjaraskerðingin áhrif til lækkunar á verðbólgu? Og mun ríkisstjórnin sjá um launahækkanir á næstu tólf mánuðum? Svona stór EF er ekki leyfilegt að gefa sér í skoðanakönnunum.

Í heild lítur spurningin út eins og mafíutilboð, sem ekki er hægt að hafna. Með tveimur EF-um er búin til aðstaða, sem hinn spurði á sálrænt erfitt með að svara með neii, án þess að telja sig hálfgerðan eiginhagsmunasegg.

Berum spurningu Hagvangs saman við spurningu DV í fyrra mánuði: “Ertu fylgjandi eða andvígur efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar frá í júní?”. Þessi síðari spurning er einföld og auðskilin. Hún kallar ekki á annað svarið umfram hitt.

Með því að heimila óprúttnum forsætisráðherra að nota villandi tölur úr flókinni og leiðandi spurningu hefur Hagvangur lagt stein í götu skoðanakannana og gert hinum erfitt fyrir, sem stunda slíkar kannanir af alvöru.

Skoðanakannanir eru vandasöm vísindi, sem útilokað er að umgangast eins og fíll í glervörubúð. svo sem Hagvangur hefur gert. Það tekur skamman tíma að eyðileggja álit og traust, sem aðrir hafa byggt upp á löngum tíma.

Í þjóðfélaginu eru valdahópar, einkum í stjórnmálum, sem vilja skoðanakannanir feigar. Þeir vilja skipuleggja þær með lagasetningu og banna þær í sumum tilvikum. Þessir aðilar munu nú fara á kreik á nýjan leik.

Hagvangur hefði gjarnan mátt reyna að læra dálítið af niðurstöðum skoðanakannana þriggja aðila fyrir alþingiskosningarnar í vor. Þá reyndist fyrirtækið hafa á bakinu niðurstöðu, sem var lengst frá úrslitum kosninganna.

Auðvitað var niðurstaða skoðanakönnunar DV fyrir kosningarnar í vor sú hinna þriggja, sem kom langsamlega næst úrslitum kosninganna. Enda var þar að baki fjórtán ára reynsla í slípun aðferðafræði slíkra kannana.

Á þessum fjórtán árum var smám saman unnt að byggja upp traust almennings á skoðanakönnunum. Réð þar miklu, hve nálægt kosningakannanir reyndust vera úrslitum eftirfylgjandi kosninga. Nú taka menn almennt mark á könnunum.

Þess vegna er hart að sjá fílinn ryðjast inn í glervörubúðina undir fínu nafni hagfræðinnar og fara að brjóta verðmætt glerið, til þess eins að forsætisráðherra ímyndaði sér, að 65% þjóðarinnar telji hann á réttri leið.

Tíu þumalfingur og fjögur handarbök eru ekki vænleg til árangurs í skoðanakönnunum, jafnvel þótt tölvur séu hafðar til aðstoðar. Þegar þvæla er sett inn í tölvur, kemur þvæla út, íslenzkum vísindum til varanlegs tjóns.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þjóðin kjósi um bjór.

Greinar

Sum mál eru þess eðlis, að fólk hefur afstöðu til þeirra, sem er meira eða minna óháð öðrum skoðunum þess, til dæmis á stjórnmálum. Gott dæmi um þetta eru viðhorf manna til þess, hvort leyfa skuli sölu á venjulegum, þ.e.a.s. áfengum bjór.

Erfitt er að hugsa sér, að Sjálfstæðisflokkurinn eða Alþýðubandalagið, svo dæmi séu nefnd, geti haft flokkslega skoðun á slíku máli. Innan allra flokka hljóta að vera þverstæð og ósættanleg sjónarmið í máli af þessu tagi.

Stjórnmálaflokkarnir hafa á Alþingi fulltrúafjölda í hlutfalli við stuðning kjósenda í síðustu kosningum. Þannig endurspeglar Alþingi almenn stjórnmálaviðhorf landsmanna, en ekki viðhorf þeirra til venjulegs bjórs.

Ef slík þverpólitísk mál eru tiltölulega einföld í sniðum, ef almenningur á tiltölulega auðvelt með að svara þeim með einföldu jái eða neii, – þá eru þau kjörið viðfangsefni í þjóðaratkvæðagreiðslu til hliðar almennum kosningum.

Íslendingar eiga áreiðanlega auðvelt með að svara, hvort þeir vilji eða vilji ekki, að sala á áfengum bjór verði leyfð í búðum áfengisverzlunarinnar og á vínveitingastöðum. Þetta er einföld spurning um já eða nei.

Magnús H. Magnússon alþingismaður hefur ásamt nokkrum þingmönnum úr öðrum flokkum lagt fram tillögu um, að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um bjórinn samtímis næstu almennum kosningum.

Þetta er þörf tillaga um eðlilega meðferð á viðkvæmu deilumáli, sem Alþingi getur ekki leyst sjálft, af því að það er mannað á öðrum forsendum, pólitískum. Hvað er betra en að vísa slíku máli til þjóðarinnar í heild?

Auk þess er bjórmálið kjörið tækifæri til að dusta rykið af heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hefur alltof lítið verið notuð, þótt ýmis þverpólitísk mál hafi komið til háværrar umræðu bæði innan þings og utan.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um þverpólitísk mál getur orðið mikilvægur þáttur í efldu lýðræði í landinu. Það hlýtur að draga úr spennu vanmáttar, ef fólk fær að taka þátt í ákvörðunum, hver svo sem úrslitin verða að lokum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki dýrt lýðræði, ef hún fer fram samhliða annaðhvort alþingiskosningum eða byggðakosningum. Raunar væri tiltölulega ódýrt að kjósa um ýmis slík sérmál samhliða venjulegum kosningum.

Um þessar mundir benda líkur til, að meirihluti þingmanna sé annaðhvort beinlínis hlynntur sölu á venjulegu öli eða hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hinir eru færri, sem hvorki vilja bjór né þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að vísu er ekki vitað, hvernig atkvæði munu falla að lokum, þegar búið er að rökræða og rífast um málið á Alþingi og öðrum opinberum vettvangi. Má búast við heiftúðugri umræðu, ef þjóðkunnir bjórhatarar verða sjálfum sér líkir.

Bent verður á, að skoðanakannanir sýni stuðning tveggja þriðju hluta landsmanna við bjórinn gegn einum þriðja hluta. Sagt verður, að þingmenn séu í raun að samþykkja þjóðarfyllirí með því einu að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þingmönnum ber að standa af sér þá orrahríð. Þeim ber að vísa bjórmálinu til þjóðarinnar allrar. Á þann hátt einan fæst brýn niðurstaða í ósættanlegu deilumáli, sem gengur eins og fleinn gegnum alla stjórnmálaflokka landsins.

Jónas Kristjánsson.

DV