Greinar

Þjóð í kreppu?

Greinar

Bjartsýni og svartsýni vógu salt um helgina í ræðum manna á ráðstefnu Lífs og lands um “Þjóð í kreppu”. Einkum var þetta áberandi í misjöfnum viðhorfum til félagslegra og sálrænna vandamála nútímans á Íslandi.

Annars vegar var tíundað, hvernig einstaklingurinn væri að rofna úr tengslum við fortíð og framtíð, hvernig eining fjölskyldulífs og atvinnulífs hefði rofnað og ýmis hefðbundin hlutverk fjölskyldunnar færzt til annarra aðila.

Gegn þessu var minnt á, að kúgun hefði verið mikil í stórfjölskyldum og smáþorpum gamla tímans. Nútíma borgarlíf hefði drepið fólk úr dróma. Það lifði nú betra lífi en áður og væri hamingjusamara en í þá daga.

Sannleikurinn er sennilega sá, að vaxandi umsvif fræðinga félags og sálar eru ekki merki um kreppu eða hrun á þessum sviðum, heldur dæmi um, að vandamálum er meira sinnt en áður, þegar þau voru látin vera í friði.

Umfjöllun ráðstefnunnar um skóla og listir benti ekki til, að unnt væri að tala um kreppu á þeim sviðum. Þvert á móti var sagt, að menntun færi smám saman batnandi, þótt auðvitað væri hún ekki eins og bezt yrði á kosið.

Hin vaxandi umsvif í listum eru augljós. Hins vegar var einnig bent á, að þetta mikla magn væri svo til eingöngu handverk án snilligáfu. Því var jafnvel haldið fram, að snilldin kafnaði í magni handverks í listum.

Dregið var í efa, að sjálf kreppan, sem allir tala um, kreppan í efnahagsmálum, bæri nafn með rentu. Sagt var, að alveg eins og góðærið væri hún eðlilegur þáttur í framvindunni, tímabil gagnrýni og endurmats.

Bent var á, að Íslendingar gætu hert sultarólina margumtöluðu og væru að gera það. Við værum að draga úr sóun í ýmsan óþarfa, minnka fjárfestingu í skaðlegum gæluverkefnum – og án þess að atvinnuleysis hefði orðið vart.

Dregin var upp dökk mynd af andlegu hruni, sem fylgt hefur atvinnuleysi í nálægum löndum. Lögð var áherzla á, að slíkt mætti ekki koma fyrir hér. Í því felst, að varla er hægt að tala um efnahagskreppu hér enn sem komið er.

Samt má ekki gleyma, að peningaskortur er þegar farinn að valda mörgu fólki alvarlegum vanda. En á ráðstefnunni var líka sagt, að þessu fólki hafi tekizt tiltölulega vel að klóra í bakkann og mundi flestu takast það áfram.

Fullyrt var, að Íslendingar gætu, ef þeir beittu sér, náð tökum á svokallaðri vistkreppu, sem kemur fram í ofbeit á afréttum og ofveiði á miðum. Ennfremur væri ástæðulaust að óttast mengun af völdum iðnaðar eða stóriðju.

Guðfræðingarnir á ráðstefnunni voru einna óánægðastir með stöðuna. Nefnt var, að hin “mjúku” gildi ættu að leysa hin hörðu af hólmi. Og úr öðrum áttum var viðurkennt, að velmegunin hefði ekki skilað sér nægilega í aukinni lífshamingju.

Samkvæmt ráðstefnunni er kreppan ef til vill skæðust í vörnum séríslenzkrar menningar og séríslenzks þjóðernis. Erlendir straumar flæða yfir okkur og unga fólkið er upptekið af öllu útlendu, titrandi af eftirvæntingu.

Á ráðstefnunni fékkst auðvitað ekki neitt eitt svar við spurningunni um, hvort þjóðin væri í kreppu. Á mörgum sviðum eru blikur á lofti, en víða þar og annars staðar sjást teikn þess, að þjóðin geti kunnað fótum sínum forráð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Nú þarf vel að grisja.

Greinar

Vestfirzkir sérfræðingar í smáfiskadrápi hafa lagt til, að ekki verði á næsta ári veitt miklu meira en 400 þúsund tonn af þorski. Þetta óráðshjal var sett fram á þingi farmanna og fiskimanna fyrir helgina.

Einnig fyrir helgina reyndu fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar að kasta rýrð á fiskifræðinga okkar. Var þó ferill þessara ráðherra slíkur, að þeir ættu sem minnst að opna munninn, þegar sjávarútveg ber á góma.

Sömu dagana sögðu raunsæir útgerðarmenn á sínu þingi, að tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um 200 þúsund tonna afla á næsta ári væru því miður nálægt raunveruleikanum. Raunar yrði varla hægt að skrapa miklu meira.

Tímabært er orðið, að menn hætti að skeyta stirðu skapi á fiskifræðingum og taki heldur til óspilltra málanna við að reyna að mæta hruni flestra mikilvægustu stofna nytjafiska við landið, – áður síldar og nú þorsks og loðnu.

Forsenda gagnaðgerða er, að menn lyfti höfði upp úr sandinum og opni augun, svo að þeir sjái, að ástandið er vissulega hrikalega alvarlegt, hvað sem ráðherrarnir Matthías Bjarnason og Steingrímur Hermannsson segja.

Brýnasta verkefnið er að minnka sóknina og laga hana að stærð fiskistofnanna. Það er virkasta aðferðin við að minnka tilkostnaðinn niður að samræmi við aflamagn, svo að fiskveiðar verði arðbærar á nýjan leik.

Stöðva þarf útgerð skipanna, sem grínistar hafa á undanförnum árum látið ríkið gefa sér. Fiskveiðasjóður á að viðurkenna, að lánsféð er að mestu glatað. Hann á að taka þessi gjaldþrota skip upp í skuldir.

Um leið þarf að tryggja, að skipunum verði raunverulega lagt eða öðrum skipum í þeirra stað. Ekki er nóg að skipta um útgerðaraðila, heldur þarf að taka skip úr samkeppni um hinn litla afla, sem verður á næstu árum.

Jafnframt þarf ríkið að verja nokkrum fjármunum til að hjálpa útgerðarmönnum við að leggja úreltum skipum, sem helzt virðast gerð út, af því að á þeim hvíla skuldir. Þetta mundi hjálpa til við að grisja hinn of stóra flota.

Í þriðja lagi er hugsanlegt, að losna megi við sum skip með því að selja þau úr landi. Styðja þarf við bakið á sölumennsku á því sviði með vinsamlegri meðhöndlun skulda. Það munar um hvert skip, sem fer úr samkeppninni.

Að svo miklu leyti sem þessar aðgerðir duga ekki til að laga sóknina að aflanum þarf að auka kerfi skrapdaga eða koma á kvótum, þótt hvorugt sé fýsilegt. Slíkar leiðir eru verri en grisjun, en geta samt verið nauðsynlegar.

Munurinn felst í, að minnkun flotans eykur arðsemi hans, en skömmtunarkerfið dregur hins vegar úr henni. En um leið vitum við, að skömmtunin verður ofaná, af því að pólitíska kerfið skortir kjark til nægilegrar grisjunar.

Til viðbótar við grisjun og skömmtun þurfa ráðamenn þjóðarinnar að gæta þess, að gengi krónunnar sé jafnan svo lágt skráð, að arðbær sé útgerð vel rekinna fiskiskipa, sem ekki eru upp fyrir haus í erlendum skuldum.

Sumri útgerð getur ekki einu sinni lágt gengi krónunnar bjargað. En slíkri útgerð getur ekkert bjargað. Við þurfum sem fyrst að losna við hana, svo að betra svigrúm verði um þann hluta útgerðar, sem bezt er settur. Á slíkri útgerð getum við byggt okkar framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Útsæðið er á enda.

Greinar

Undanfarin ár hefur Hafrannsóknastofnunin alltaf reynzt of bjartsýn í tillögum um leyfilegt aflamagn úr helztu fiskistofnum Íslandsmiða. Reynslan hefur sýnt, að tölur hennar hafa verið of háar, en ekki of lágar.

Þessu hefur forstjóri stofnunarinnar ráðið. Hann gerir þetta til að þóknast ístöðulitlum sjávarútvegsráðherrum, sem vilja með engu móti horfast í augu við óþægilegar staðreyndir, hvað þá sársaukafullar gagnaðgerðir.

Einn versti sjávarútvegsráðherra Íslandssögunnar er núverandi forsætisráðherra. Hann sagði líka í blaðaviðtali í fyrradag; “Vonandi eru þessar tillögur eins vitlausar og aðrar, sem komið hafa frá þeim.”

Steingrímur Hermannsson notar þá staðreynd, að tölur Hafrannsóknastofnunarinnar hafa verið rangar upp á við, til að gera því skóna, að þær séu nú rangar niður á við. Til stuðnings þess hefur hann ekki eitt gramm af röksemdum.

Við annað tækifæri sagði þessi ístöðulitli ráðherra: “Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.” Þá var hann sem sjávarútvegsráðherra að stuðla að áframhaldandi ofveiði.

Ráðherraun átti við, að þjóðarhagur kynni að krefjast þess, að áfram verði gengið á þorskstofninn. Það er sama og að segja, að nauðsynlegt kunni að vera að éta útsæðið. Og svo látum við svona menn stjórna þjóðinni.

Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur ekki talað út í hött um hina nýju “svörtustu skýrslu” eins og hinn fyrrverandi hefur gert um þessa og aðrar fyrri. En auðvitað er nú sem fyrr freistandi að stinga höfðinu í sandinn.

Ef Halldór Ásgrímsson vill víkja frá stefnu útsæðisáts fyrirrennaranna, verður hann að gera sér grein fyrir, að lítill munur er á þoli þorsksins og þoli þjóðarbúsins. Ef hið fyrra brestur, er hið síðara brostið um leið.

Sjávarútvegurinn hefur alla þessa öld verið eina arðbæra auðlindin okkar. Hann hefur byggt upp þjóðarauðinn og borgað velmegunina. Við stöndum nú andspænis því, að auðlindina sé að þrjóta og að það sé okkur sjálfum að kenna.

Í skjóli sjávarútvegsins höfum við leyft okkur að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í fáránlegum landbúnaði kúa og kinda. Í skjóli hans höfum við líka leyft okkur að hægja á iðnvæðingunni, sem ein getur tryggt framtíð okkar.

Nú er þetta skjól að hverfa. Þorskveiðin mun hrynja úr 290.000 tonnum á þessu ári niður í 200.000 tonn á næsta ári. Loðnuveiðin mun hrynja úr 375.000 tonnum á þessum vetri niður í 100.000 tonn á næsta vetri.

Útgerðarmennirnir, sem eru raunsærri en stjórnmálamennirnir, hafa verið að þinga á Akureyri. Þar hafa komið fram tillögur um að leggja flotanum í þrjá mánuði til að hvíla sóknina. Þetta sýnir, hve alvarleg staðan er.

Þetta kann að vera nauðsynlegt. En bezt væri að stöðva útgerð skipanna, sem grínistar hafa verið að kaupa á undanförnum árum, gegn ráðum útgerðarmanna og annarra. Þessi skip gera ekkert annað en að spilla fyrir útgerð hinna.

Ljóst er, að gífurlegur samdráttur verður í sjómennsku og fiskvinnslu ofan í þá kreppu, sem fyrir er. Lífskjör okkar munu versna enn meira en þegar er orðið. Það er meðal annars herkostnaður okkar af ístöðulitlum ráðamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Pennastrikum fjölgar.

Greinar

“Pennastrikin’, eru að komast í fullan gang í útgerðarstefnu ríkisstjórnarinnar. Þessi stefna felst í að þjóðnýta tap þeirra útgerðarfyrirtækja, sem lagt hafa í vonlausa og vitlausa fjárfestingu á undanförnum árum.

Nýjasta pennastrikið er eftirgjöf á vöxtum af fjárfestingarlánum útgerðarinnar í Fiskveiðasjóði. Í tölum nemur eftirgjöfin 100 milljónum króna og í prósentum 30% af eins árs vöxtum. Þetta var samþykkt í ríkisstjórninni í fyrradag.

Áður hafði frétzt af öðru pennastriki. Það felst í, að ríkissjóður losi útgerðina Þormóð ramma á Siglufirði við 65-70 milljón króna skuldir og breyti þeim í aukið hlutafé ríkisins í fyrirtækinu. Þetta hefur ekki enn verið afgreitt.

Óneitanlega eru slíkar aðgerðir dálítið kostulegar eftir allt talið um sölu ríkisfyrirtækja og sölu hlutabréfa ríkisins í atvinnulífinu. Svo virðist sem raunveruleikinn muni felast í auknum ríkisumsvifum, en ekki minnkuðum.

Að baki hugmyndarinnar um pennastrik er sá sannleikur, að peningarnir, sem verið er að tala um, eru í rauninni glataðir. Hinir opinberu sjóðir, sem eru lánardrottnar útgerðarinnar, munu ekki fá peninga skattgreiðenda til baka.

Sem dæmi um þetta öngþveiti má nefna, að samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar þarf Fiskveiðasjóður að taka 400 milljón króna lán vegna áætlaðs greiðsluhalla á næsta ári til viðbótar við 483 milljóna halla á þessu ári.

Að baki þessara talna felst, að Fiskveiðasjóður þarf að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum, sem hann hefur tekið til að lána í skipakaup, en hefur ekki fengið á móti vexti og afborganir af þeim útlánum.

Raunar hafa útlán Fiskveiðasjóðs um nokkurt árabil verið með þeim endemum, að ráðamenn sjóðsins ættu að sæta málshöfðun fyrir meinta óráðsíu í meðferð opinberra fjármuna. Allir vissu, að sum lánin voru hrein endaleysa.

Langt er síðan bent var á, að engin von væri á, að skip, sem smíðuð væru innanlands, gætu aflað upp í afborganir og vexti. Og nokkuð er síðan bent var á, að sama regla væri einnig farin að gilda um skip frá útlöndum.

Bæði lánveitendur og lántakendur vissu vel, að lán til margra nýrra skipa mundu aldrei verða endurgreidd. Enda er nú komið í ljós, að í sumum tilvikum eru skuldir fiskiskipa orðnar mun hærri en verðmæti sömu skipa.

Sumpart er eðlilegt, að menn bendi á, að skuldir þessar séu glataðar. Þær séu orðnar að bókhaldsatriði, sem bezt sé að beita pennastriki. En þetta er samt ekki rétta leiðin til að létta af öngþveitinu í útgerðinni.

Með pennastrikum á borð við eftirgjöf vaxta í Fiskveiðasjóði er verið að verðlauna skussana. Verið er að hossa þeim, sem hafa keypt óþörf og skaðleg skip, á kostnað hinna, sem fyrir ráku heilbrigða og arðsama útgerð.

Miklu nær er að leyfa óðs manns útgerðaræðinu að verða gjaldþrota eins og Fiskveiðasjóður hyggst nú gera. Síðan þarf að tryggja, að ekki verði gerð út fleiri skip en svo, að aflinn á skip verði nægilega mikill.

Öngþveitið í útgerð stafar að verulegu leyti af offjölgun skipa umfram þol fiskistofna. Pennastrik í þágu skuldakónga gera illt verra. Þau fresta vitrænum aðgerðum til aukningar á svigrúmi vel rekinnar og heilbrigðrar útgerðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Rafmagn verður áfram dýrt.

Greinar

Nýjasta greinargerð Orkustofnunar staðfestir, sem haldið hefur verið fram hér í þessum dálkum, að martröð hins háa orkuverðs hjá íslenzkum notendum á sér nokkrar samverkandi orsakir, sem menn gerðu sér litla grein fyrir.

Í fyrsta lagi hafa orkuverin ekki reynzt eins ódýr og reiknað var með. Hin ungu jarðlög landsins eru laus í sér og lek. Jökulár láta treglega temja sig, auk þess sem þær leika grátt hverflana í orkuverunum.

Í öðru lagi eru flest orkuverin ung að árum og hafa að öllu leyti verið reist með lánsfé. Það hefnir sín núna að hafa ekki fyrr á árum notað rétt verð á rafmagni og myndað á þann hátt eigið fé í orkufyrirtækjunum.

Þessar tvær ástæður valda því, að orkuverð í heildsölu er miklu hærra hér á landi en í öðru, nálægu vatnsaflslandi, Noregi. Þar er verðið um 20 mills, en hér er það 33 mills. Þetta er óneitanlega verulegur munur.

Um leið má ekki gleyma, að víða um heim, þar sem minna er um vatnsafl, er orkuverð í heildsölu mun hærra en hér. Til dæmis er það 58 mills í Bandaríkjunum og 75 mills í Englandi. Við megum því sampart vel við una.

Þá kemur að þriðju ástæðunni, sem hækkar orkuverð til íslenzkra notenda. Það er hin gífurlega dýra dreifing orkunnar, sem ræðst af stærð landsins, fámenni þjóðarinnar og óblíðu veðurfari. Þetta tvöfaldar verðið.

Þegar svo bætist við hinn myndarlegi, íslenzki söluskattur, er orkuverðið í heimilisnotkun manna komið upp í um 100 mills að meðaltali. Hluti af þessu verði felst í mikilli verðjöfnun milli þéttbýlis og strjálbýlis.

Að baki þessa verðs upp á 100 mills er svo einnig fjórða ástæðan. Hún er fólgin í misheppnuðum samningum um orkuverð til stóriðju. Það verð er um það bil að hækka upp í 10 mills, sem er hlægilegt í samanburði við 100 mills almennra notenda.

Stóriðja er að vísu stór viðskiptavinur og á sem slíkur að fá sérstök kjör. En einstakar rafveitur eru líka stórir viðskiptavinir orkuvera og þurfa þó að greiða margfalt hærra heildsöluverð eða í kringum 40 mills.

Stóriðja getur um takmarkaðan tíma stuðlað að fullnýtingu orkuvers, það er að segja frá þeim tíma, að það tekur til starfa, og fram að þeim tíma, er fjármagna þarf annað nýrra orkuver. Þessi hagur er því skammvinnur.

Sum stóriðja er betri en önnur að því leyti, að hún getur notast við afgangsorku í stað forgangsorku. Að svo miklu leyti sem hún fyllir upp í lægðirnar milli toppanna í orkunotkun, kallar hún ekki á nýja fjárfestingu í orkuöflun.

Slíkri stóriðju mætti selja orku á verði, sem væri innan við 20 mills, en annarri ekki. Til dæmis væri ekkert vit í að selja forgangsorku til stækkunar álversins í Straumsvík á minna en 20 mills frá Blöndu eða Þjórsá.

Samkeppnisaðstaða okkar við lönd lágs orkuverðs er ekki svo góð, að við getum búizt við að létta af okkur martröð orkuverðsins með nýjum samningum um sölu til gamallar eða nýrrar stóriðju. Þaðan koma engar himnasendingar.

Almennir notendur verða áfram að sætta sig við heimsmetsverð á rafmagni og bíða eftir, að erlendar orkuskuldir greiðist niður. Þá getum við um síðir vænzt þess, að orkuverð til heimilisnota mjakist niður fyrir meðalverð í nálægum löndum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vestrænir sem fyrr.

Greinar

Viðhorf Íslendinga til Varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins hafa ekki breytzt. Af þeim, sem afstöðu taka í skoðanakönnunum, eru tveir af hverjum þremur fylgjandi Varnarliðinu og fjórir af hverjum fimm fylgjandi Atlantshafsbandalaginu.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun um Varnarliðið, sem birtist hér í blaðinu á fimmtudaginn, og um Atlantshafsbandalagið, sem birtist í dag. Þetta eru nokkurn veginn sömu tölur og verið hafa frá upphafi slíkra kannana árið 1968.

Sérstaklega er þessi festa áberandi í viðhorfum manna til Varnarliðsins. Árið 1008 voru 63,3% því fylgjandi og 36,7% andvígir. Árið 1980 voru 63,6% fylgjandi og 36,4% andvígir. Og nú eru 63,6% fylgjandi og 36,4% andvígir.

Frávik frá þessum stöðugleika hafa einungis komið í ljós í þorskastríðum okkar við Breta. Þá rýrnaði stuðningurinn, bæði við Varnarliðið og Atlantshafsbandalagið, en fór samt aldrei niður úr öruggum meirihluta.

Með því að bera saman skoðanir Íslendinga á Varnarliðinu annars vegar og Atlantshafsbandalaginu hins vegar má skipta þjóðinni í þrjá misstóra hluta í afstöðunni til þessa mikilvæga þáttar í utanríkismálum okkar.

Fjölmennastir eru þeir, sem bæði styðja varnarliðið og Atlantshafsbandalagið. Þeir eru 64%. Á hinum kantinum eru svo þeir, sem hvorki styðja Varnarliðið né Atlantshafsbandalagið. Þeir eru aðeins 21% þjóðarinnar.

Á milli þessara póla er svo fámennasti hópurinn, sem fylgir Atlantshafsbandalaginu, en ekki Varnarliðinu. Þeir eru 15%. Það eru þeir þjóðernissinnar sem eru fylgjandi vestrænu varnarsamstarfi, en vilja ekki her í landi.

Athyglisvert er, að andstæðingar aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu og veru Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eru litlu fjölmennari en kjósendur Alþýðubandalagsins. Hinir fyrrnefndu eru 21% og hinir síðarnefndu 18% þjóðarinnar.

Festan í fimmtán ára tímabili skoðanakannana um þessi mál verður enn athyglisverðari, ef tekið er tillit til, að margt hefur gerzt í heiminum síðan 1968. Forsendur viðhorfanna hljóta að hafa breytzt að einhverju leyti.

Sovétstjórnin er nú berari en áður sem hættulegt óróaafl í heiminum. Nú orðið þarf að leita með logandi ljósi að fólki, sem styður atferli sovétstjórnarinnar heima fyrir, í leppríkjunum og úti um allan heim.

Hin aukna óbeit manna á Sovétstjórninni hefur samt ekki orðið til að fjölga stuðningsmönnum vestræns varnarsamstarfs. Þar hljóta að hafa komið til sögunnar atriði, sem vega á móti skilningi manna á eðli Sovétstjórnarinnar.

Annars vegar gæti verið um að ræða áhrif hinnar meira eða minna einhliða friðarhreyfingar á Vesturlöndum. Óttinn við kjarnorkuvopn hefur dregið úr áhuga margra á, að Vesturlönd etji vígbúnaðarkappi við fangabúðarstjórana.

Hins vegar gæti einnig verið um að ræða tímabundin áhrif af setu Ronald Reagan í stóli forseta Bandaríkjanna. Margir óttast, að hann sé síðri friðarsinni en undanfarandi forsetar. Þeir bíða eftir öðrum skárri.

Allar hugleiðingar um ýmsar slíkar forsendur eru þó lítils virði í samanburði við tölurnar sjálfar. Þær sýna, að almenningsálit Íslendinga styður eindregið vestrænt varnarsamstarf og þátt Keflavíkurflugvallar í því samstarfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Siðlaus slagorðabæklingur.

Greinar

Svonefndur Upplýsingabæklingur ríkisstjórnarinnar, sem sendur var til allra heimila landsins, er ómerkilegur áróðursbæklingur af því tagi, er stjórnmálaflokkarnir senda kjósendum til að rugla þá fyrir kosningar.

Bæklingurinn er greinilega framleiddur á auglýsingastofu, þar sem umbúðir eru taldar brýnni en innihald. Enda hefur hún ekki séð ástæðu til að merkja sér bæklinginn, svo sem slíkar gera, þegar þær eru ánægðar með sig.

Bæklingurinn felst í skreytingum og slagorðum til varnar bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar og öðrum gerðum hennar í sumar. Hann gerir enga tilraun til að útskýra gerðirnar eða rökstyðja þær á annan hátt.

Ríkisstjórnir hér og erlendis hafa einstaka sinnum gefið út svonefndar Hvítar bækur til að skýra meiriháttar stefnubreytingar. Þar hefur verið beitt rökum og útreikningum til að koma umræðunni á málefnalegt stig.

Ekkert fordæmi er hins vegar fyrir hinum nýkomna auglýsingabæklingi ríkisstjórnarinnar. Í honum eru eingöngu tuggin upp gömul slagorð úr stjórnmálarimmum sumarsins. Hann er gersamlega laus við að vera málefnalegur.

Áróður þessi fyrir stjórnarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kostar skattgreiðendur í landinu 320 þúsund krónur. Stjórnarflokkarnir hyggjast nefnilega ekki borga sinn áróður sjálfir.

Steingrímur Hermannsson hefur hér í blaðinu reynt að verja þennan óverjandi slagorðabækling með því að verið sé “að reyna að upplýsa fólk sem mest um það, sem verið sé að gera”. Hvílíkt endemis rugl.

Hugsanlega hefði verið verjandi að gefa út Hvíta bók með ítarlegum upplýsingum um gerðir ríkisstjórnarinnar ásamt útskýringum á þeim og þá ekki síður athugasemdum og efasemdum, sem komið hafa úr ýmsum áttum.

Bæklingur með einhliða upphrópunum um ágæti stjórnarstefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og engu öðru innihaldi á hins vegar ekkert skylt við Hvítar bækur og á auðvitað að greiðast úr flokkssjóðunum.

Stjórnarandstaðan á alþingi þarf að fylgja þessu hneykslismáli vel eftir alla leið yfir í ríkisendurskoðun, – með kröfum um, að 320 þúsunda reikningurinn verði sendur þeim tveimur flokkum, sem peningunum stálu.

Hitt er svo athyglisvert, að ráðherrar tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna skuli vera á svo lágu siðferðisstigi, að þeir sjái ekki, hvað er athugavert við útgáfu pólitískra áróðursbæklinga á kostnað skattgreiðenda.

Þetta er alveg í stíl við þá yfirlýstu skoðun forsætisráðherra, að honum finnist óviðkunnanlegt og raunar ófært að fara á skíði í ríkisbíl. Þess vegna hefur ríkið þurft að gefa honum hálfan bíl og skatt af hlunnindunum.

Meðan íslenzk stjórnmál eru á þessu stigi sjálftektar á fjármunum almennings, er engin von til, að almenningur öðlist traust á stjórnmálamönnum og hætti að líta á þá sem lukkuriddara og hálfgildings sjóræningja.

320 þúsund króna slagorðabæklingur í umbúðum frá auglýsingastofu og alls engu efnislegu innihaldi er dapurlegur áróður fyrir ríkisstjórn, sem með þessu hefur einkum auglýst, að hún þurfi á siðvæðingu að halda.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ekki lengur fasteignir.

Greinar

Skoðanakönnunin í DV í dag um fylgi stjórnmálaflokkanna staðfestir, að kjósendur bera takmarkað traust til þeirra. Nærri helmingur hinna spurðu treysti sér ekki til að lýsa yfir fylgi við neinn þeirra.

Þetta stafar ekki af tregðu fólks til þáttöku í skoðanakönnunum sem þessari. Við sama tækifæri var einnig spurt um afstöðuna til ríkisstjórnarinnar og efnahagsaðgerða hennar. Allur þorri manna treysti sér til að svara þeim spurningum.

Í mörg ár hafa skoðanakannanir sýnt, að kjósendur hafa losað um tengslin við flokkana og ákveða sig ekki fyrr en rétt fyrir kosningar og jafnvel ekki fyrr en í kjörklefanum. Þeim fækkar, sem flokkarnir geta gengið að sem vísum.

Afleiðingin hefur komið í ljós í miklum sveiflum á fylgi flokkanna. Í vor sigruðu Sjálfstæðisflokkurinn og nýju framboðin. Þar á undan hafði Framsóknarflokkurinn verið sigurvegari og þar áður Alþýðuflokkurinn.

Hinn mikli fjöldi, sem ekki svaraði spurningunni um fylgi við flokka í þessari nýjustu könnun, veldur því að erfitt er að túlka niðurstöðurnar, bera þær saman við síðustu kosningaúrslit og spá um horfurnar í hinum næstu.

Þeir, sem nú eru óvissir, munu í næstu kosningum ekki raðast á flokkana í sömu hlutföllum og hinir, sem nú eru ákveðnir í vali sínu. Reynslan sýnir til dæmis, að slíkar kannanir vanmeta fylgi Alþýðubandalagsins og ofmeta Sjálfstæðisflokkinn.

Með þessum fyrirvara er þó hægt að benda á sérstaklega góða útkomu Sjálfstæðisflokksins í könnuninni. Fjórðungur hinna spurðu og helmingur hinna ákveðnu lýsti yfir stuðningi við þennan flokk harkalegra efnahagsaðgerða.

Að meðtöldum sérframboðum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 39,2% atkvæða í kosningunum í vor. Í hinni nýju könnun náði hann 47,9% þeirra, sem afstöðu tóku. Þetta er hvorki meira né minna en 8,7 prósentustiga aukning.

Ekki er þetta eingöngu aðgerðum stjórnvalda að þakka, því að hinn stjórnarflokkurinn fær í könnuninni verstu útkomu allra flokka. Það er Framsóknarflokkurinn, sem fékk í vor, að meðtöldum sérframboðum, 19% atkvæða.

Í könnuninni hlaut Framsóknarflokkurinn hins vegar ekki nema 14,8% stuðning þeirra, sem afstöðu tóku. Það er 4,2 prósentustiga minnkun. Hún hlýtur að kynda undir óánægju framsóknarmanna með stjórnarsamstarfið.

Næst Sjálfstæðisflokknum eru það Samtök um kvennalista, sem beztum árangri náðu í könnuninni. Þau fengu nú í sinn hlut 7,2% þeirra, sem afstöðu tóku, en höfðu 5,5% atkvæða í kosningunum í apríl síðastliðnum.

Þetta bendir til, að Samtök um kvennalista séu ekki dægurfluga einna kosninga, heldur varanlegra stjórnmálaafl. Þá koma Alþýðuflokkurinn og Bandalag jafnaðarmanna illa út úr þessari skoðanakönnun.

Að venju snerta sveiflurnar, sem hér hefur verið lýst, Alþýðubandalagið minnst allra flokka. Það hlaut 18% fylgi þeirra, sem afstöðu tóku. Það er örlitlu betra en 17,3% útkoma flokksins í kosningum ársins.

Öllum þessum niðurstöðum þarf að taka með fyrirvara, nema þeirri, að kjósendur eru ekki trúir flokkunum og eru til alls vísir í næstu kosningum. Þeir eru ekki lengur fasteignir flokkanna og geta í mesta lagi talizt lausafé þeirra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Með ær og kýr við barm.

Greinar

Ríkissjóður er alls ekki eins fátækur og almennt virðist vera talið. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru ýmsir liðir, sem bera vitni um örláta ríkisstjórn, er hyggst dreifa þjóðarsilfri út um holt og hæðir.

Að vísu hafa ýmsir þarfir eða réttlátir liðir verið skornir niður eða hreinlega strikaðir út. En það stafar ekki af fátækt, heldur breyttu verðmætamati. Þannig fer þjóðarbókhlaðan út og millilandaflugstöðin inn.

Óbeit ríkisstjórnarinnar nær allt frá sjóðum til eflingar iðnaðar yfir í flugbjörgunarsveitir og námsstuðning við munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga. Þetta er krumpaða útgáfan af hugsjóninni um ríkissparnað.

Eina verulega stóra hugsjón á ríkisstjórnin í fjárlagafrumvarpinu. Hún er að sem allra mest verði framleitt af óþörfum afurðum kinda og kúa. Til þeirrar hvatningar á að verja 8,4% af öllum útgjöldum fjárlaga á næsta ári.

Þessi hluti af útgjöldum ríkisins til landbúnaðar á að nema hálfum öðrum milljarði króna á næsta ári. Þetta eru beinu styrkirnir, niðurgreiðslurnar og útflutningsuppbæturnar, aðeins þrír af mörgum landbúnaðarliðum.

Stundum hefur verið deilt um, fyrir hverja niðurgreiðslurnar séu. Það breytir ekki því, að áhrif þeirra eru fólgin í meiri neyzlu og meiri framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum en væri við ófalsaðar aðstæður.

Ef við hugsum okkur, að þessar vörur væru ekki framleiddar hér frekar en korn og sykur, þyrfti engar niðurgreiðslur, enga styrki og engar útflutningsuppbætur. Og þá ætti ríkissjóður 1,5 milljarða í árlegan afgang.

Þessi upphæð er svo rosaleg, að hún mundi nægja til að veita öllum kúa- og kindabændum landsins einnar milljónar króna húsnæðislán á næstu þremur árum. Samt væri afgangur í smotterí á borð við íslenzkan iðnað og munaðarleysingja.

Einnig er hugsanlegt, að skattgreiðendur vildu renna hýru auga til upphæðarinnar. Hún mundi rúmlega nægja til að fella niður allan tekjuskatt íslenzkra launþega. Segjum svo ekki, að kotungsbragur sé á ríkissjóði.

Loks má benda á, að þessi 8,4% fjárlaga mundu nægja til að greiða öllum kinda- og kúabændum landsins heil þingmannslaun. Og losa þá um leið undan ánauð vinnslustöðva, sem heimta síaukna veltu upp í offjárfestinguna.

Þjóðarsilfur þetta fellur ekki aðeins í grýtta jörð. Það hvetur til framleiðslu á rándýrum afurðum, sem þjóðin getur ekki notað. Þannig bindur það ekki aðeins fjárlagafrumvarp næsta árs, heldur ókominna ára líka.

Meðan 1.500.000.000 krónum er varið á ári til að halda úti skaðlegum kindum og kúm, eru auðvitað ekki aflögu 5.000 krónur til námsstuðnings við munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga. Þetta er spurning um forgangsröð.

Ef leiftursókn ríkisstjórnarinnar gegn ofneyzlu á að ná árangri, verður hún að hafa fé til þess annars vegar að vernda smælingjana og hins vegar til að stuðla að eflingu arðbærrar iðju og flutningi starfskrafta til hennar.

En það hefur hún ekki meðan hún hefur önnur eins gæludýr og ær og kýr sér við barm. Og fjárlagafrumvarpið er einmitt ömurlegast fyrir þá sök, að það byggist á úreltu verðmætamati og úreltri forgangsröð.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórn í helgum steini.

Greinar

Ríkisstjórninni hefur gengið vel að ná þjóðinni úr skýjunum niður á jörðina, – að laga hana að raunveruleika þjóðarteknanna. En stjórnin virðist í bili ekki hafa ráð til að hjálpa þjóðinni við að vinna sig upp á nýjan leik.

Að þessu leyti staðfesti þjóðhagsáætlunin í gær það, sem kom fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir viku. Og þar sem þjóðhagsáætlunin er skrifuð í stíl pólitískrar stefnuskrár, er við því að búast, að forsætisráðherra segi hið sama í stefnuræðunni í kvöld.

Stefnan felst í stórum dráttum í, að á næsta ári haldi lífskjör þjóðarinnar áfram að vera í lægðinni, sem þau eru í núna. Árið 1984 á þjóðin ekki að lifa um efni fram og þar af leiðandi ekki safna skuldum í útlöndum.

Þetta er út af fyrir sig nauðsynlegt. En þó hefðu margir kosið, að þessari “lausn” efnahagsvandans fylgdu tilraunir til að gera atvinnulífinu kleift að leggja nýjan grundvöll að bættum lífskjörum á næstu árum.

Raunar hlýtur það að vera eitt helzta atriði sérhverrar stefnu í efnahagsmálum, að lífskjörin batni. Þess vegna er dálítið sorglegt, ef ríkisstjórnin ætlar nú að sitja með hendur í skauti og láta fyrsta skrefið nægja.

Fjárlögin hafa að vísu verið skorin niður til að halda óbreyttum hlut ríkisins af þjóðartekjum og stöðva hina árvissu aukningu hans. Ef lánsfjáráætlunin gerir slíkt hið sama, hefur ríkisstjórnin sýnt örlitla sparsemi.

Hins vegar er ekki hægt að lofa ríkisstjórnina fyrir fjárlagafrumvarpið að öðru leyti. Eins og fyrri frumvörp verndar það heimskulegustu útgjaldaliði ríkissjóðs, en sparar margt af því, sem er þarft og nauðsynlegt.

Til dæmis er gert ráð fyrir að verja hálfum öðrum milljarði króna til að hvetja til aukinnar framleiðslu á mjólkurvörum og kindakjöti, sem þjóðin þarf ekki hið minnsta á að halda. Þessi hvatning felst í styrkjum, niðurgreiðslum og uppbótum.

Þarna fara ekki aðeins 1,5 milljarðar í súginn á tímum sparnaðarhyggju. Fjárútlátin hafa varanlegri afleiðingu. Meira en ella verður um kinda- og kúabúskap, sem ríkissjóður þarf að standa undir á næstu árum og áratugum.

Í þjóðhagsáætlun gærdagsins var ekkert fjallað um, hvernig ríkisstjórnin hyggst létta þessu fáránlega oki af þjóðinni. Aðeins er sagt, að laga þurfi landbúnaðinn að markaðsaðstæðum, en ekkert minnst á aðferðir.

Í þjóðhagsáætluninni er ekki heldur fjallað um, hvernig eigi að minnka togaraflotann. Þar er ekki einu sinni minnzt á, að hann þurfi yfirleitt að minnka. Aðeins er sagt, að veita þurfi aðhald í skipakaupum.

Fjárlagafrumvarp, þjóðhagsáætlun og stefnuræða forsætisráðherra, sem ekki taka á hrikalegustu vandamálum þjóðarinnar, eru ekki nógu góð plögg handa þjóð, sem hefur af stakri þolinmæði sætt sig við umtalsverða kjaraskerðingu.

Ríkisstjórnin og ráðstafanir hennar njóta enn nokkurs stuðnings með þjóðinni. Sumir skilja vandann og vilja taka þátt í að bera byrðar hans. En það er ríkisstjórninni skammgóður vermir, ef hún ætlar að setjast í helgan stein.

Framkomin gögn hennar benda ekki til, að hún hyggist opna augun árið 1984. Ef til vill hefur hún ekki haft til þess nægan tíma. Kannski tekur hún við sér í ráðagerðum fyrir árið 1985. Betra er seint en aldrei.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjóra í nýtingu.

Greinar

Deilurnar í borgarstjórn um skipulagshugmyndir við Skúlagötu snúast að verulegu leyti um keisarans skegg. Þær fjalla um svokallað “nýtingarhlutfall”, það er að segja gólfflatarmál húsa deilt með flatarmáli byggingareita.

Meirihlutinn vill geta komið þessu nýtingarhlutfalli upp í tvo, meðan minnihlutinn vill einn eða hálfan annan. En þessar tölur skipta í rauninni minna máli en að yfirvöld láti skoða nákvæmlega allt samhengi málsins.

Nýtingarhlutfall gæti sem bezt verið fjórir, ef rétt er að farið. Slíkt hlutfall gæti stuðlað að samningum við hina mörgu lóðaeigendur, sem eiga sumir hverjir litla skika og hafa ekki áhuga á endurreisn svæðisins.

Við skulum ímynda okkur, að kjallarar fylltu út í alla byggingareiti svæðisins frá Skúlagötu upp fyrir Laugaveg. Í þessum kjöllurum væru bílastæði fyrir íbúa svæðisins, starfsfólk fyrirtækja og viðskiptavini þeirra.

Þar með væri þegar fengið nýtingarhlutfallið einn, áður en komið væri upp úr jörðinni. Ef svo við hugsuðum okkur áfram, að allir byggingareitirnir væru þaktir jarðhæð með verzlunum út að götu, væri hlutfallið komið upp í tvo.

Ef við enn hugsuðum okkur, að ofan á verslunarjarðhæðinni væru sums staðar ein og sums staðar tvær hæðir undir skrifstofur og ýmsa þjónustu við íbúana, svo og skjólsæl leiksvæði og önnur opin svæði, væri hlutfallið komið í þrjá.

Ef við loks hugsuðum okkur, að upp úr þessum mannvirkjum risu í öllu norðanverðu Skólavörðuholti um tuttugu íbúðaturnar, fimmtán hæða og með sex íbúðum á hverri hæð fyrir ofan þá þriðju, væri nýtingarhlutfallið komið upp í fjóra!

Nóg svigrúm væri samt um þessa íbúðaturna, hátt til lofts og vítt til veggja. Úr öllum íbúðum væri gott útsýni og andrúmsloft væri gott. Skjót leið væri með lyftu niður í þjónustustofnanir og sjálfa miðborg Reykjavíkur.

Ef svæðið væri þar á ofan skipulagt á þann hátt, að íbúar turnanna og viðskiptavinir miðborgarinnar gætu komizt innanhúss inn á yfirbyggðan Laugaveg, væri í fyrsta sinn á Íslandi búið að reisa byggð með tilliti til hnattstöðunnar.

Í framhjáhlaupi má minna á, að kostnað við gagnsæ þök á götum má greiða með ódýrari einangrun húsveggja, sem snúa að götunni, og með lægri hitunarreikningum húsanna, svo framarlega sem komið er í veg fyrir dragsúg á götunum.

Þetta dæmi um skipulagshugmynd er rakið hér til að sýna fram á að nýtingarhlutfall skiptir litlu máli, en heildstæð skipulagshugsun miklu. Minnihlutinn í borgarstjórn er á villigötum í gagnrýni á nýtinguna.

Það er meirihlutinn líka, ef hann hyggst skipuleggja út frá einum byggingareit við Skúlagötu. Slíkt er ekki hægt að gera af viti, nema vitað sé, hvernig endanleg mynd norðurhlíðar Skólavörðuholts eigi að vera.

Til dæmis er hugsanlegt, að útidyr íbúðaturna við Skúlagötu ættu ekki að vera eingöngu á fyrstu hæð, heldur til dæmis einnig á þriðju eða fjórðu hæð til að létta samgöngur gangandi fólks við verzlanir, og þjónustu ofar í hlíðinni.

Norðurhlíð Skólavörðuholts gefur svo stórfenglega möguleika á vönduðu skipulagi veðursællar miðborgar með þéttri íbúðabyggð, að því má ekki glata í vinstra rugli um nýtingarhlutfall eða í hægri asa skipulags á of afmörkuðum reitum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Árangur er takmarkaður.

Greinar

Eftir velheppnaða leiftursókn gegn verðbólgu og lífskjörum er ástæða til að óttast, að hin nýja ríkisstjórn hafi ekki kjark til að ráðast af sama krafti gegn ýmsum óvættum í vegi endurnýjaðrar hagþróunar í landinu.

Nokkuð er til í því, sem Ásmundur Stefánsson hjá Alþýðusambandinu hefur sagt, að ríkisstjórnin hafi raunar ekki gert annað en að ráðast gegn kaupi almennings. Altjend er ljóst, að hún hefur gert það af miklum krafti.

Snúið hefur verið við þróun síðustu þrettán ára, þegar kaupmáttur jókst umfram aukningu þjóðartekna og safnað var til skulda í útlöndum til að kosta umframeyðsluna. Þessi falski kaupmáttur hefur verið tekinn aftur.

Á einu sviði til viðbótar hefur ríkisstjórnin látið til sín taka. Hún hefur lagað ýmsar gjaldeyrisreglur í átt til þess, sem tíðkast í nágrannalöndunum. Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hafa sýnt lofsvert framtak.

Lagt hefur verið niður hið tvöfalda gengi krónunnar, sem fólst í sérstöku álagi á ferðamannagjaldeyri. Bönkum og sparisjóðum hafa almennt verið heimiluð gjaldeyrisviðskipti. Og nú er krónan orðin skiptifrjáls í útlöndum.

Allt er þetta til bóta. Og ástandið mundi batna enn frekar, ef þetta nýja frelsi næði einnig til fjármagnshreyfinga og ef heimilað yrði að gera viðskiptasamninga innanlands í erlendri mynt. Þá yrði erfitt að endurreisa verðbólguna.

Á öðrum sviðum fer lítið fyrir afrekum ríkisstjórnarinnar, enda hefur hún ekki setið lengi að völdum. Eftir helgina verður lagt fram frumvarp til fjárlaga og áætlun um lántökur, sem fela í sér takmarkaðan árangur.

Hið jákvæða í þessum plöggum er, að þau gera ráð fyrir stöðvun hinnar árvissu útþenslu ríkisbáknsins á kostnað launafólks og atvinnuvega. Þessi útþensla varð óbærileg, þegar þjóðartekjur byrjuðu að dragast saman á síðasta ári.

Að vísu er aldrei fyllilega að marka áætlanir af þessu tagi. Það er til dæmis alveg sama, hverju ráðgert er að sóa í landbúnað, – sukkið fer alltaf langt upp fyrir mörkin, einnig eftir tilkomu þessarar ríkisstjórnar.

Samanlagt gera fjárlagafrumvarpið og lánsfjáráætlunin ráð fyrir, að Ísland taki ekki erlend lán fyrir vöxtum af fyrri erlendum lánum og ekki hærri erlend lán en sem svarar afborgunum af fyrri erlendum lánum.

Allt er þetta árangur, en takmarkaður árangur. Það er út af fyrir sig gott að geta stöðvað öfugþróunina, en þá hefði verið enn betra að snúa henni við. Vonandi tekst það í hliðstæðum plöggum, sem verða lögð fram að ári.

Leiftursóknin gegn verðbólgu og lífskjörum verður ekki að leiftursókn fyrir atvinnuuppbyggingu og endurreistum lífskjörum í kjölfarið, nema hið opinbera hætti að vernda úrelta starfsemi gegn innreið nýrrar.

Í staðinn þarf að beina starfskröftum þjóðarinnar frá tilgangslausri iðju á borð við sauðfjárrækt og mjólkurbúskap og að framtíðargreinum á borð við laxarækt og örtölvutækni. Og togurunum þarf að fækka hið bráðasta.

Í frumvörpunum tveimur felst nokkur niðurskurður á sóun fjármagns hins opinbera í sjálfvirka sjóði vonlausrar fjárfestingar. En í stórum dráttum er þó enn í gildi peningaforgangur hefðbundinnar vitleysu á borð við kýr og kindur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hundaeigenda-vandinn.

Greinar

Hundahald í tiltölulega dreift byggðu nágrenni Reykjavíkur hefur sumpart haft jákvæð áhrif. Börn hafa til dæmis víða vanizt hundum og eru að mestu hætt að stríða þeim. Þannig hafa hundar að nokkru leyti fallið inn í þetta umhverfi.

Um leið hefur aukið hundahald haft í för með sér aukin vandamál. Hluti hundaeigenda fer ekki eftir neinum reglum, hverjar svo sem þær eru, og jafnvel ekki þeim, sem beinlínis eru settar til að liðka fyrir hundahaldi.

Flestir eigendur hunda fara eftir reglum og eru ekki til vandræða. Á milli er þó fólk, sem á erfitt með að stunda mannleg samskipti á jafnréttisgrundvelli. Það hefur fengið sér hund, svo að til sé þá einhver, sem líti upp til þess.

Sumt þetta fólk tekur ekkert mark á hefðum í mannlegum samskiptum, til dæmis ekki þeim, sem felast í lögum og reglum. Það fer sínu fram, hvað sem tautar og raular. Það tekur sér hreinlega rétt, sem það á ekki.

Raunar er sumt af þessu fólki hið viðskotaversta, sem hugsast getur. Hundarnir draga síðan dám af húsbændum sínum. Þeir geta ekki umgengizt ókunnuga og valda óhjákvæmilega vandræðum, þótt bæjarstjórnir kjósi að loka augum.

Konan, sem viðraði hundinn í Gróttu, alfriðaðri um varptímann, er dæmi um fólk, sem er lokað fyrir umhverfi sínu. Ekkert kemst að, nema þess eigin sjálfselska. Þetta fólk er hið raunverulega vandamál hundahaldsins.

Sumir halda því fram, að hundahald með skilyrðum í nágrenni Reykjavíkur, það er í Garðabæ, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, hafi gefizt vel. Staðreyndin er hins vegar, að ástandið hefur í heild versnað.

Eftirlit með, að farið sé eftir skilyrðum hundahalds, er í lágmarki. Þótt eftirlitsmenn séu allir af vilja gerðir, er ógerlegt að sinna þessu í hlutastarfi. Í 3000 manna bæjarfélögum á þetta að vera minnst fullt starf.

Á sumum tímum kann að vera þörf á enn harðara eftirliti. Um varptímann er til dæmis nauðsynlegt að hafa 24 klukkustunda vakt í Gróttu og Suðurnesi til að stöðva hundaeigendur í að útrýma fuglalífi í þessum vinjum.

Svo að hægt sé að herða eftirlitið, þarf að hækka árgjöldin, sem hundaeigendur greiða. 1.500 króna gjald er gersamlega ófullnægjandi til að standa undir nauðsynlegum kostnaði, þar á meðal hertu eftirliti.

Auk þess þarf að setja reglur um háar fjársektir þeirra, sem láta sér ekki segjast. Á núverandi verðlagi mætti til dæmis sekt við fyrsta broti vera um 10.000 krónur og fara síðan ört hækkandi við endurtekin vandræði.

Raunar væri snöggtum skynsamlegra að beina þannig refsingunni að hinu raunverulega vandamáli, heldur en hundunum. Í stað þess að lífláta óábyrga hunda er miklu heppilegra að sekta hundaeigendur, sem eiga að vera hinir ábyrgu aðilar.

Ef á slíkan hátt reynist unnt að hindra hinn sjálfselska hluta hundaeigenda í að sleppa hundum sínum lausum, væri stigið mikilvægt skref í að gera hundahald þolanlegt öðru fólki í tiltölulega dreifðri nágrannabyggð Reykjavíkur.

Hins vegar verður að draga í efa, að unnt yrði að lina hundavandann á sama hátt í tiltölulega þéttri byggð Reykjavíkur. Ef til þess kæmi, þyrfti örugglega að hafa fleiri og harðari skilyrði en þau, sem mistekizt hafa í nágrenninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Bíll Steingríms.

Greinar

Vel getur verið, að Steingrímur Hermannsson sé á þessu ári fimmtán Sóknarkvenna virði. Vel getur verið, að hann ætti að fá í laun á þessu ári tvær milljónir króna í stað einnar milljónar króna ráðherralauna.

Opinberlega hefur forsætisráðherra um einnar milljónar króna laun á þessu ári, auk margvíslegra fríðinda, sem fylgja. En í ofanálag hefur hann nú gefið sér skattfrjáls 0,6 milljóna innflutningsgjöld af 1,2 milljóna bíl.

Þar sem þessar 0,6 milljónir eru skattfrjálsar, jafngilda þær um einni milljón króna í skattskyldum tekjum. Þannig tvöfaldar Steingrímur laun sín á þessu kjaraskerðingarári með því að beita úreltum spillingarákvæðum.

Eðlilegra væri, að almennt samkomulag ríkti í þjóðfélaginu um laun forsætisráðherra, svo að þeir séu ekki eins og útspýtt hundsskinn við að komast yfir undirborðsfé með aðferðum, sem samrýmast ekki sómatilfinningu manna.

Meðal stjórnmálamanna er ekki einu sinni eining um, að þeir eigi að fá að krækja sér í svart fé með þeim hætti, sem Steingrímur hefur gert. Það eru aðeins ráðherrar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem haga sér svona.

Alþýðuflokkurinn hætti þátttöku í þessari spillingu árið 1970 og Alþýðubandalagið gerði það árið 1974. Spillingarstimpillinn stendur eftir á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, sem nú virðast raunar telja sér flest leyfilegt.

Hér er verðugt verkefni fyrir áhrifamenn í þessum tveimur flokkum. Þeir mættu gjarna reyna að leiða ráðherrum sínum fyrir sjónir, að þeir séu ekki riddarar úr þrjátíu ára stríðinu, sem megi taka það, sem þá langar í.

Þjóðinni ber auðvitað að greiða ráðherrum sínum gott kaup í þeirri von, að það skili sér á annan hátt. En skilja ber á milli þeirrar nauðsynjar annars vegar og meðferðar hins opinbera á þessum tekjum hins vegar.

Alltof mikið er um, að ráðherrar og raunar stjórnmálamenn yfirleitt láti gilda um sig aðrar reglur en aðra landsmenn. Þingmenn hafa til dæmis hert skattheimtu um leið og þeir hafa ákveðið að undanskilja sig sömu ákvæðum.

Þannig eru ýmis fríðindi þingmanna ekki skattlögð, þátt sömu fríðindi annarra manna séu skattlögð. Þingmenn greiða ekki í lífeyrissjóð með sama hætti og aðrir menn gera. Að baki alls þessa er sjúk hugsun.

Reglan á að vera sú, að sömu lög, reglugerðir og hefðir gildi um alla landsmenn, hvort sem þeir heita Jón eða séra Jón. Sérstaklega er nauðsynlegt að koma þessu jafnvægi á í lögum, reglugerðum og hefðum um skatta og tolla.

Hitt er svo annað mál, að vert er að kanna, hvort kjör stjórnmálamanna séu nógu góð. Ef þeir eiga meira skilið en þeir fá með sömu reglum og annað fólk, eiga þeir að fá meira fé á sama hátt, en ekki undir borðið.

Siðbót er raunar orðin mjög brýn, þegar samtrygging stjórnmálaflokkanna hefur rofnað á þann hátt, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið treysta sér ekki til að taka þátt í verstu útgáfu spillingarinnar.

Og ekki verður séð, að milljón króna sjálfsgjöf forsætisráðherra stuðli að þjóðarsátt um lífskjaraskerðinguna. Samkomulag stjórnarflokkanna um afnám hinna fáránlegu toll- og skattsvika mundi hins vegar stuðla að vinnufriði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gunnar Thoroddsen.

Greinar

Gunnar Thoroddsen var í hópi merkustu stjórnmálamanna landsins á þessari öld. Hann var einn sá allra síðasti af hinum stóru, sem gnæfðu upp úr meðalmennsku íslenzkra stjórnmála og gáfu þeim reisn umfram hið hversdagslega.

Stjórnmálaferill Gunnars var óvenju langur, spannaði hálfa öld. Hann var kjörinn á þing árið 1933, aðeins 23 ára, þá enn laganemi í háskóla. Á þessari hálfu öld sat hann samtals 43 þing og var því reyndasti þingmaðurinn.

Gunnar aflaði sér líka þekkingar og reynslu á öðrum sviðum þjóðlífsins. Hann var lengst af prófessor við Háskóla Íslands. Einnig var hann um tíma sendiherra í Kaupmannahöfn og ennfremur hæstaréttardómari.

Hinn óvenju næmi skilningur Gunnars á kjósendum kom fljótt í ljós, þegar hann varð borgarstjóri í Reykjavík árið 1947, aðeins 37 ára gamall. Þá jók hann meirihluta flokks síns í hverjum kosningunum á fætur öðrum.

Í þá daga var þröngsýni flokkanna meiri en nú. Gunnar vék sér undan flokksaga í forsetakosningunum 1952 og mátti æ síðan þola hatur ýmissa flokksmanna. Nú á tímum þættu atvik af þessu tagi varla í frásögur færandi.

Hámarki ferils stjórnmálanna náði Gunnar sem forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sat fram á þetta ár. Óvíst er, að nokkur ríkisstjórn hafi notið eins mikilla vinsælda lengst af valdatímanum, þótt ósamstæð væri.

Hæfileikar Gunnars nutu sín vel í þeirri ríkisstjórn. Meðalmennin í ráðherrastólunum vildu yfirleitt fara í hár saman, eins og þeir höfðu áður vanið sig á, en honum tókst með kurteisi að koma þeim upp úr slíku.

Gunnar var meiri ræðumaður en aðrir stjórnmálamenn síðustu ára. Hann forðaðist þras og illindi og hafði lag á að lyfta sér í orðaval, sem almenningur skildi og samþykkti.

Á réttum tímamótum flutti hann setninguna: “Vilji er allt, sem þarf”. Þessi fimm orð áttu áreiðanlega meiri þátt en þúsund önnur í að afla skilnings á gerðum þáverandi ríkisstjórnar og veita henni endurnýjaðan vinnufrið.

Einnig skar Gunnar sig úr í æðruleysi. Þegar aðrir sýndu óþolinmæði og jafnvel angist, var hann hinn rólegasti. Hann vissi, að einstakir bardagar skiptu minna máli en styrjöldin í heild og lét sér því hvergi bregða.

Þetta var þáttur í nákvæmri taflfléttulist Gunnars. Hann hafði lag á að flétta saman leikjum og tefla skákum í stöður, þar sem hann gat valið milli leikja, eftir viðbrögðum þeirra stjórnmálaafla, sem hann tefldi við hverju sinni.

Alla tíð ræktaði Gunnar önnur áhugamál en stjórnmálin ein. Hann var mikill tónlistarmaður og samkvæmismaður. Hann var menntaður í þess orðs víðasta og bezta skilningi, enda hvatti hann stjórnmálamenn til að skilja hið mannlega.

Mesta lán Gunnars var að vera kvæntur Völu Ásgeirsdóttur, sem stóð við hlið hans í blíðu og stríðu og naut persónulegrar hylli í svipuðum mæli og hann sjálfur. Hún átti mikinn þátt í að gera heimili þeirra að miðstöð í þjóðlífinu.

Við andlát og útför Gunnars Thoroddsen vill DV flytja Völu og börnum þeirra, öðrum ættingjum og vinum sérstakar samúðarkveðjur og minna um leið þjóðina á síðustu hvatningu Gunnars: “Hið mannlega sjónarmið verður að fá að njóta sín.”

Jónas Kristjánsson.

DV