Greinar

Múrinn víttur

Greinar

Alþjóða rauði krossinn vék á miðvikudaginn frá meginreglunni um að skipta sér ekki af stjórnmálum. Þá gagnrýndi hann Ísrael harðlega fyrir aðskilnaðarmúrinn mikla sem verið er að reisa í Palestínu og nær í mörgum tilvikum langt inn í landið til að ná til ólöglegra byggða ísraelskra landnema.

Rauði krossinn segir, að ólöglegt sé að reisa slíkan múr á landi Palestínu. Hann sundri byggðum Palestínumanna og loki þá frá vatnsbólum sínum og ökrum, skólum og heilsugæzlu. Bygging hans fari langt út fyrir mörkin, sem hernámsríki séu leyfð samkvæmt alþjóðalögum um meðferð hernumins fólks.

Dæmi eru um, að bændur, sem áður fóru yfir veginn til að sinna ökrum sínum, þurfi nú að fara marga tugi kílómetra. Þetta tekur lifibrauðið af þeim. Það hefur einmitt verið stefna Ísraels að kúga Palestínumenn til hlýðni með því að eyðileggja innviði efnahagslífs og stjórnsýslu Palestínu.

Ísrael tekur vatnið úr Jórdan til sinna þarfa og skilur lítið eftir handa Palestínu. Ísrael notar líka mestallt vatn úr borholum í Palestínu og skilur lítið eftir handa heimamönnum. Ísraelsher rústar fyrirtæki og opinberar stofnanir og eyðir meira að segja sjúkraskrám og skólaskrám.

Ofbeldisfull framganga Ísraels í Palestínu, þar á meðal bygging múrsins mikla, stríðir gegn mikilvægustu reglum alþjóðalaga um meðhöndlun fólks á hernumdum svæðum. Þær mæla svo fyrir, að stuðlað sé að efnahagslegum innviðum þjóðfélagsins og velferð íbúanna og opinberri þjónustu.

Í stórum dráttum er hernám Ísraels á Palestínu svipað hernámi nazista í Austur-Evrópu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Ísraelskar útgáfur af SS-sveitum nazista fara um Palestínu til að brjóta og brenna mannvirki og drepa fólk. Herskyldufólki í Ísrael er breytt í skrímsli.

Allir gerast glæpirnir í skjóli Bandaríkjanna, sem hafa áratugum saman haldið Ísrael fjárhagslega og hernaðarlega á floti. Alvarlegast er, að Bandaríkin hafa beinlínis stuðlað að eignarhaldi Ísraels á kjarnorkuvopnum, sem magna öryggisleysi fólks á afar viðkvæmu svæði heimsmálanna.

Með valdatöku George W. Bush í Bandaríkjunum hefur stefna velvildar gagnvart Ísrael magnazt í eindreginn stuðning, sem hefur slæm áhrif á Ísraela, eykur hryðjuverk á vegum Ísraelshers og er hornsteinn múrsins mikla. Þetta er eitt alvarlegra dæma um, að Bandaríkin skaða öryggi heimsins.

Lengi var það nefnt gyðingahatur, ef menn leyfðu sér að gagnrýna Ísraelsstjórn. Með breyttum tímum og auknu ofbeldi Ísraels verður erfitt að saka Rauða krossinn um slíkt.

Jónas Kristjánsson

DV

Landvörnum er lokið

Greinar

Þá er loksins komið að varnarlausu Íslandi. Orion-flugvélar svonefnds varnarliðs eru horfnar og áhafnir þeirra líka. Að venju hafði Bandaríkjastjórn ekkert samband við íslenzku ríkisstjórnina, sem hún fyrirlítur eins og aðra útlendinga yfirleitt. Utanríkisráðuneytið kom að venju af fjöllum.

Flugvélarnar verða ekki vistaðar hér aftur, enda er horfinn óvinurinn mikli, sem var forsenda þeirra. Sovétríkin eru dauð og Rússland er ekki hættulegt öðrum en landamæraríkjum sínum. Atlantshafsbandalagið er í tilvistarkreppu og reynir með döprum árangri að afla sér framhaldslífs í Afganistan.

Lengi hefur verið ljóst, að varnarliðið mundi fara, ekki fyrir tilverknað herstöðvaandstæðinga af ýmsu tagi, heldur vegna þess að Bandaríkin hlutu fyrr eða síðar að uppgötva, að hún hefði meiri þörf fyrir hernaðarmátt á öðrum slóðum en á köldu landi, sem er ekki lengur hernaðarlega mikilvægt.

Baráttan með og móti her í landi hefur um langt skeið verið íslenzkt innanríkismál. Ríkisstjórnarflokkarnir telja Suðurnesjamönnum betur borgið í vinnu á Vellinum heldur en á frjálsum markaði. Þessi vinnuvernd hefur verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga eins lengi og elztu menn muna.

Forsætis- og utanríkisráðherra töldu sig mundu vinna prik hjá George W. Bush Bandaríkjaforseta með því að styðja hryðjuverk Bandaríkjahers í Írak, þar sem tíuþúsund borgarar létu lífið. Stríðsyfirlýsingu Davíðs og Halldórs var ætlað að bræða hjörtu ofbeldishneigðra ráðamanna í Washington.

Sú von hefur brugðizt, enda lúta heimsveldi ekki sömu lögmálum og venjuleg ríki. Heimsveldi taka það sem þeim þóknast og þakka ekki fyrir sig. Undirlægjuháttur ríkisstjórna smárra eyríkja er svo sjálfsagður, að ekki er talin ástæða til að veita ráðamönnum þeirra áfallahjálp.

Því miður er enn ekki hægt að tímasetja með vissu þann sagnfræðilega merkisatburð, er vörnum Íslands lauk. Milli jóla og nýárs var tilkynnt, að viðhaldsdeildir flugvélanna á Keflavíkurvelli yrðu lagðar niður. Þá mátti ljóst vera, að varnarflugvélarnar yrðu ekki framar vistaðar hér á landi.

Fróðlegt er að fylgjast með fálmi stjórnvalda, sem reyna að láta eins og ekkert hafi gerzt og allt sé eins og það hafi alltaf verið. Þótt Bush svari bara alls ekki í símann.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjölmiðlafælni

Greinar

Lítið hefur birzt í fjölmiðlum af upplýsingum um rannsókn bryggjumorðsins í Neskaupstað. Annað hvort gengur rannsókn lögreglunnar nánast ekkert eða þá að lögreglan telur ekki heppilegt, að almenningur viti, hvað sé að gerast, nema hvort tveggja sé. Sögusagnir fylla svo tómarúm upplýsinga.

Yfirvöld hafa á undanförnum árum í auknum mæli tekið upp þá stefnu við rannsókn mála, að láta lítið vita um efnisatriði hennar. Oft er því borið við, að birting upplýsinga skaði rannsóknina, en það er ekki rökstutt og enginn óháður aðili utan lögreglunnar getur staðfest ágæti kenningarinnar.

Þetta er ekki sama vinnulag og sjá má af fréttum annars staðar á Vesturlöndum. Hvort sem um er að kenna ljósfælni lögreglu eða vangetu fjölmiðlunga, nema hvort tveggja sé,

þá er hér á landi almennt minna vitað um framvindu lögreglurannsókna í stórum málum, sem almenning varðar.

Þótt fjölmiðlafælni lögreglunnar á Íslandi eigi sér fáar hliðstæður annars staðar á Vesturlöndum, á hún hliðstæður meðal annarra valdahópa hér á landi. Ýmsir aðilar reyna markvisst að halda upplýsingum frá almenningi. Til dæmis er líðan sjúklinga að sögn lækna oftast “eftir atvikum”.

Með samanburði á fjölmiðlum hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum má sjá ýmsan mun. Ljósmyndir af sakborningum eru minna birtar hér á landi og minna sagt frá nöfnum grunaðra manna. Þetta hefur verið stutt heldra fólki, sem er í siðanefnd á vegum blaðamannafélags í fínimannsleik.

Athyglisvert er, að snemma á síðustu öld stóðu íslenzkir fjölmiðlar nær vestrænum fjölmiðlum þess tíma, en þeir gera nú. Mynd- og nafnbirtingar voru þá ekki sömu bannorðin og þau urðu á síðari hluta aldarinnar. Til dæmis má minnast áhrifaríkrar ljósmyndar af líkum skipverja á Pourqui Pas.

Einhvern tíma á síðustu öld náðu hræsni og yfirdrepsskapur fastari tökum á þjóðinni. Sjálfsvíg urðu þá bannorð og eru enn. Prestar fengu nánast sjálfdæmi um, hve langan tíma mætti taka að hafa samband við skyldmenni, sem leiddi oft til meira en sólarhrings tafar á birtingu nafna og mynda.

Hugsanlegt er, að tök stjórnmálaflokka á fjölmiðlum hafi smitað þá þá af hræsni og yfirdrepsskap, sem stjórnmálum er eiginlegur. Nú hafa tök stjórnmála linast, svo að fjölmiðlar ættu að geta gengið vestrænu götuna fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Doktor Atkins

Greinar

Megrunarkóngurinn Robert Atkins var 117 kíló, þegar hann dó. Það sannar ekki, að kúr hans sé óhollur, því að hann dó af slysförum 72 ára gamall. Hann hefði getað orðið 80 ára með sín 117 kíló. Hins vegar sýnir þyngdin, að aðferðin virkaði ekki til lengdar sem megrunarkúr fyrir hann sjálfan.

Atkins-kúrinn skiptir máli, því að hann er með vinsælli kúrum megrunarsögunnar og hefur öðlast áhrifamikla áhangendur hér á landi. Miklu fleiri megrunaraðferðir eru notaðar, einkum í Bandaríkjunum, þar sem menn hafa mest vit á megrun og næringarfræðum og eru feitastir allra manna.

Í venjulegri bókabúð í Bandaríkjunum eru í boði yfir hundrað mismunandi titlar megrunarbóka með yfir hundrað mismunandi kúrum. Ef ein af þessum aðferðum virkaði, væru ekki allar þessar hundrað bækur á boðstólum. Þetta eitt segir raunar allt sem segja þarf um árangur megrunarkúra yfirleitt.

Eitthvað er það, sem vantar í allar þessar bækur. Og það er ekkert leyndarmál. Sumir kúrar gefast sæmilega eða vel í fyrstu, en enginn dugar til lengdar. Bækurnar megna ekki að halda fólki í þyngdinni, sem það nær með átaki. Bækurnar og kúrarnir í þeim hjálpa notendum ekki í langtíma úthaldi.

Næringarfræðin er engu skárri. Hún þykist vera fræðileg og telur hitaeiningar, þótt sýnt hafi verið fram á, að hitaeining er ekki sama og hitaeining. Og hún er að því leyti verri en megrunarkúrarnir, að hún veitir engan andlegan, sálrænan eða félagslegan stuðning í þjáningunni.

Einfalt er að geta sér til um ástæðuna fyrir vandræðum megrunarfólks. Hana er að finna í biblíunni, þar sem segir: Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki. Menn geta einfaldlega ekki staðist allar freistingar. Sumir geta það lengur, aðrir skemur, en fáir geta það ævinlega, ekki einu sinni Atkins.

Eðlilegasta skýringin á ástandinu er, að fíkniefni séu í fæðunni, alveg eins og fíkniefni eru í áfengi, tóbaki og ýmsum efnum, sem fást samkvæmt lyfseðli eða eru seld á svörtum markaði. Fíkniefni í fæðunni þarf að skilgreina, aðallega sykur og líklega nokkur fleiri, og vara við þeim.

Sumir hafa líkamlegar, andlegar, sálrænar eða félagslegar forsendur, sem kallaðar eru áhættuþættir fíkna. Þetta hefur ekkert með viljastyrk að gera. Sumir viljahundar drekka sig í hel, meðan viljadaufir sleppa úr klóm áfengis. Þetta er reynslan af þeim fíknum, sem mest hafa verið kannaðar.

Gegn offitu gagnast hvorki hefðbundin næringarfræði né megrunarkúrar Atkins eða annarra. Leita verður í þekkingarforða meðferðar á sviði annarra fíkna. Ennfremur þarf að finna fíkniefnin í fæðunni og kippa þeim út.

Jónas Kristjánsson

DV

Hávær grafarþögn

Greinar

Nokkur hundruð milljónir króna, sennilega 700 milljónir, hafa horfið í Panama á vegum deCode Genetics, bandaríska fyrirtækisins, sem á og rekur Íslenzka erfðagreiningu og hefur fengið heimild alþingis Íslendinga til að veðsetja börn okkar og barnabörn fyrir stjarnfræðilegum fjárhæðum.

Algengt er, að fjölþjóðafyrirtæki sendi peninga út og suður til að komast hjá skyldum við þjóðfélagið eða til að hygla forstjórum eða til að liðka fyrir sérstökum fyrirgreiðslum á borð við þá, er alþingi Íslendinga vildi láta veðsetja börn okkar og barnabörn fyrir stjarnfræðilegum fjárhæðum.

Hins vegar fór Kári Stefánsson klaufalegar að tilfærslunni en fyrirmyndir hans úti í heimi. Þeir passa dagsetningar í skjölum, en Biotek var ekki stofnað fyrr en hálfum mánuði eftir að deCode Genetics undirritaði samninginn við lánardrottna, sem Biotek fékk borgað fyrir að annast.

Samkvæmt skriflegum heimildum fékk Biotek þessa miklu peninga fyrir að annast milligöngu um samninga við íslenzka lánadrottna. Þeir kannast ekki við að hafa heyrt þetta fyrirtæki nefnt og ljósmyndir sýna, að það var forstjóri deCode, sem undirritaði samningana, það er Kári Stefánsson.

Ekki er vitað, hvort hann undirritaði þá fyrir hönd deCode Genetics eða hins ófædda Biotek, sem fékk aurana fyrir milligönguna. Enginn veit, hvers vegna ófætt fyrirtæki fékk svona mikla peninga, hver átti fyrirtækið og hvers vegna það gufaði síðan upp í Panama, sem er heimsfrægt skálkaskjól.

Kári Stefánsson neitar að hafa sjálfur fengið krónu út úr þessum undarlegu viðskiptum. En það er marklaust að berja sér á brjóst, þegar menn neita að skýra dularfullt misræmi í upplýsingum, þar á meðal í skráningu af hálfu deCode á Nasdaq-markaðinum, sem hlýtur að teljast alvarlegt mál.

Einkar athyglisvert er, að lítið hefur verið fjallað um mál þetta í fjölmiðlum landsins, öðrum en DV, og ekki á alþingi Íslendinga, sem heimilaði veðsetningu barna okkar og barnabarna fyrir stjarnfræðilegum upphæðum í þágu fyrirtækis, sem rambar á yzta jaðri áhættufjárfestingar.

Eðlilegt er, að sá aðili, sem vildi veðsetja börn okkar og barnabörn, hundskist til að láta kanna, hvers vegna fyrirtæki, sem ekki var til, fékk hundruð milljóna fyrir milligöngu í fjármálum og hvers vegna enginn fær að vita, hver átti þetta fyrirtæki og hvers vegna það hvarf sjónum.

Þetta minnir líka á, hversu brýnt er, að sett verði lög, sem tryggi gegnsæi í fjárhagslegum tengslum fyrirtækja annars vegar og stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hins vegar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sölumenn dauðans

Greinar

Sölumenn dauðans

George W. Bush Bandaríkjaforseti féll um helgina frá fyrri fullyrðingum um, að Saddam Hussein Íraksforseti hafi ráðið yfir gereyðingarvopnum við upphaf stríðsins gegn Írak og einnig verið viðriðinn árásina á World Trade Center 11. september 2001. Nú réttlætir Bush stríðið með því, að Hussein hafi verið brjálæðingur.

Þetta er léleg forsenda, því að mikið er af hættulegum brjálæðingum við stjórnvölinn í löndum þriðja heimsins og sumir þeirra beinlínis skjólstæðingar Bandaríkjanna. Umheimurinn mun aldrei fallast á, að ofstækisfull Bandaríkjastjórn ákveði einhliða, hvaða þjóðir verði frelsaðar undan oki meintra brjálæðinga og hvaða þjóðir ekki.

Þeir, sem gerzt þekkja, hafa allir tjáð sig síðustu daga. Hans Blix, yfirmaður vopnaleitar Sameinuðu þjóðanna, segir, að Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafi ýkt hættuna af Hussein til að selja þjóðum sínum stríðið. Fyrirrennari hans, Bandaríkjamaðurinn Scott Ritter, segir, að enginn gereyðingarvopn hafi verið í Írak.

Þyngst vegur á metaskálunum, að David Kay, sem Bush sendi til Íraks með ótakmörkuð fjárráð, mannskap og tæki til að finna gereyðingarvopnin, hefur sagt starfi sínu lausu og segir engin gereyðingarvopn að finna í Írak og hafi engin verið. Kenningar um slík vopn hafi byggzt á röngum kenningum frá leyniþjónustum.

Einnig hefur verið hrakin kenning þeirra Bush og Blair um, að Saddam Hussein hafi verið viðriðinn hryðjuverkasamtökin Al Kaída og árásina 11. september. Skjöl hafa fundizt í Írak, sem sýna, að Saddam Hussein varaði sína menn beinlínis við samskiptum við Al Kaída, þar sem það væru hættuleg samtök trúarofstækismanna.

Af ýmsum ástæðum fóru Bandaríkin og Bretland á fölsuðum forsendum í stríð, sem kostaði um tíuþúsund borgara lífið. Þyngsta ástæðan er, að Bush og Blair vildu eindregið fá ástæðu til að fara í stríð og beittu leyniþjónustur miklum þrýstingi til að afhenda röksemdafærslur, sem styddu þegar tekna ákvörðun um stríð.

Leyniþjónusturnar voru milli steins og sleggju. Þær tóku trú á ýmsar lygar frá leyniþjónustu Ísraels og Ahmed Sjalabi, dæmdum fjárglæframanni, sem Bandaríkin gerðu að ráðgjafa sínum og ráðamanni í leppstjórn Íraks. Bæði Ísrael og Sjalabi höfðu beina hagsmuni af að falsa og skálda gögn um stöðu mála í Írak.

Niðurstaða sorgarleiksins er, að enginn trúir lengur neinu frá bandarísku og brezku leyniþjónustunum, ekki einu sinni hinni margtuggðu kenningu um, að gereyðingarvopn séu í Norður-Kóreu.

Þar á ofan óttast margir, að illa staddur Bush þurfi að ljúga nýju stríði upp á heiminn til að afla fylgis í forsetakosningunum í haust. Hann sagðist um helgina vera stríðsforseti.

Jónas Kristjánsson

DV

Hjartadrottningin

Greinar

Hirðspil hjartadrottningarinnar í Undralandi reyna að telja Lísum landsins trú um, að eðlilega hafi verið staðið að krokketi ríkisráðsfundarins fáheyrða. Fer þar fremst Morgunblaðið, sem að gömlum sið er jafn hlutdrægt í forsíðufréttafyrirsögnum og það er sannfært í leiðurum.

Hjartadrottningin fer að venju á kostum. Hún hefur breytt hirðsiðabókinni á þann hátt, að nú er ekki lengur talað um hæstvirtan forseta Íslands, heldur blessaðan forsetann. Ekki er reynt að leyna fyrirlitningunni á persónunni, sem gegnir æðsta embætti Undralands og skyggir því á drottninguna.

Með krokketinu hefur hjartadrottningin rækilega náð sér niður á forsetanum, sem ekki hafði kært sig um að taka þátt í innansveitarhátíð Sjálfstæðisflokksins til minningar um fyrsta ráðherrann, þann sem drottningin telur endurfæddan í sér. Hirðspilin hrópa í kór: Forsetinn er á skíðum.

Sumir eru á skíðum, kolkrabbinn í golfi og aðrir í krokketi, þar sem leikreglum breytt eftir dyntum drottningarinnar í Undralandi. Ekki virðist sjáanlegur neinn valdamaður, sem geti með virðulegum og óhlutdrægum sóma haldið upp á aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi og fyrsta ráðherrans.

Hirðspilin eru önnum kafin við að mála hvítu rósirnar rauðar eins og hjartadrottningin vill hafa þær. Fjarvera forsetans á skíðum í Bandaríkjunum er móðgun við íslenzku þjóðina, ekki sízt ef hann er í Aspen, segja þau og bugta sig til jarðar, þegar drottningin birtist á krokketvellinum.

Lísur landsins hafa um langt skeið getað kynnzt dyntum drottningarinnar, sem er með fjölda manns á heilanum og getur af þeim völdum ekki á heilli sér tekið. Hún hefur fílsminni á allar mótgerðir og heldur nákvæmar skrár yfir alla þá, sem ekki hafa bugtað sig nógu djúpt fyrir henni.

Nú fer senn að líða að valdalokum hjartadrottningarinnar, en áfram munu starfa flestir þeir, sem hún hefur óbeit á, þar á meðal forsetinn. Þessa dagana fer þeim fjölgandi, sem telja, að Undraland byrji að breytast í eðlilegt þjóðfélag að nýju í haust, þegar vænta má, að reiðiköstunum fari að linna.

Hjartadrottningin hefur verið svo lengi við völd, að sumir voru farnir að gleyma, hvernig er að búa í venjulegu landi, en ekki í hugarfóstri Lewis Carroll. Eigi að síður mun núverandi Undralandi linna, því að ekki er lengi rúm fyrir slíkt ástand í vestrænu landi á tuttugustu og fyrstu öld.

Af með hausinn, hrópaði drottningin í réttarhöldunum yfir Lísu, sem svaraði að bragði: Þú skiptir engu máli, þú ert bara spil.

Jónas Kristjánsson

DV

Sömu óvinir

Greinar

Vegna sameiginlegs áhugamáls er vel við hæfi, að landsfaðir vor fari í opinbera heimsókn til landsföður Úkraínu. Hvorki Davíð Oddson né Leoníd Kuchma geta dulið gremju sína í garð fjölmiðla, sem sitja ekki og standa eins og landsfaðirinn skipar fyrir. Kuchma hefur frá mörgu að segja á því sviði.

Það er líka gott, að einhver útlendingur gleðji Kuchma um þessar mundir, því að fáir verða til þess. Um helgina kvartaði Evrópusambandið yfir stórfelldum kosningasvikum á vegum landsföðurins og lýsti áhyggjum út af tilraunum hans til að breyta stjórnarskránni í átt til aukins einræðis.

Nokkrum dögum áður hafði Evrópuráðið lýst yfir, að Úkraína yrði rekin úr ráðinu, ef Kuchma bætti ekki ráð sitt. Um svipað leyti hætti Alþjóðlegi eyðni-, berkla- og malaríusjóðurinn að styrkja Úkraínu eina af 121 ríki vegna þess að styrktarféð hafði tilhneigingu til að gufa upp.

Í desember kvartaði Alþjóðlega fjölmiðlastofnunin yfir morðinu á Volodymyr Karachevtsev, ritstjóra dagblaðsins Kuryer. Undanfarin ár hefur Kuchma látið drepa því sem næst einn blaðamann á ári til að vara hina við. Átján blaðamenn hafa verið myrtir í Úkraínu á valdatíma gestgjafa Davíðs.

Kuchma er afar einmana. Meira að segja Atlantshafsbandalagið vill ekki fá hann á fundi, þótt Úkraína hafi fengið aðild. Þótt finna megi Evrópufræðinga, sem telja hugsanlegt, að Rússland verði um síðir aðili að Evrópusambandinu, hefur enginn þeirra látið sér detta í hug síðari aðild Úkraínu.

Því er gott, að landsfaðir Íslands komi til að hugga hann. Davíð getur sagt honum frá vondum peningaköllum, sem kaupi upp fjölmiðla til að níða niður skóinn af Hannesi Hafstein nútímans. Það er akkúrat sama vandamálið og Kuchma hefur við að stríða. Þeir geta því grátið lengi hvor á öxl annars.

Þeir munu ekki tala um Volodymyr Karachevtsev, né heldur um Ihor Jenin, Mykhailo Kolomiets eða Georgi Gongadze eða önnur fyrri fórnardýr Leoníd Kuchma. Hins vegar verður mikið skálað og fagrar ræður fluttar um sameiginlegt verðmætamat tveggja undirmálsríkja á jaðri evrópskrar siðmenningar.

Líklega er Kuchma eins og Davíð traustur bandamaður George W. Bush Bandaríkjaforseta í félagi hinna stríðsfúsu, sem studdu innrás í Írak á forsendum gereyðingarvopna, sem ekki voru til. Mikið er um duglega landsfeður smáríkja í þeim hópi, enda vonuðu margir, að mikið væri upp úr því að hafa.

Samkvæmt alþjóðlegri stigagjöf er í 121 ríki heimsins minni spilling en í Úkraínu. Meiri háttar yfirlýsing felst í að fara í opinbera heimsókn einmitt til þessa rumpuríkis.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveggja tíma líf

Greinar

Að hætti íslenzkra smælingja nutu flestir skólafélagar seðlabankastjórans tveggja tíma aðildar að spillingu yfirstéttarinnar í tilefni stúdentsafmælis. Þeirra maður var orðinn seðlabankastjóri. Loks var röðin komin að þeim að fá að njóta aðildar að illri meðferð opinberra fjármuna.

Að minnsta kosti sýndist mér annar árangur verða harla léttbrýnn, þegar þáverandi viðskiptaráðherra lét freyðivín skattgreiðenda fljóta í afmælisfagnaði miðaldra stúdenta. “Þetta er lífið” sögðu menn. Sárafáir, tveir eða þrír, létu freyðivínið eiga sig til að verða ekki þjófsnautar.

Í öðrum stúdentsárgangi hafa menn það helzt sér til unaðar á afmælisárum að skrölta um landið í rútum til að heimsækja stofnanir á borð við orkuver, þar sem einhver samstúdentinn getur misnotað aðstöðu sína til að láta stofnunina borga brennivín ofan í smælingja, sem koma henni ekkert við.

Í hópum af þessu tagi er sjaldgæft, að menn staldri við og spyrji sig, hvort eðlilegt sé, að seðlabankastjórinn, ráðherrann eða yfirverkfræðingurinn séu svona örlátir á annarra manna fé. Almennt er þjóðin hlynnt spillingu, en sárnar helzt að fá ekki að taka marktækan þátt í henni.

Einn af fjármálaráðherrum fortíðarinnar og síðar landsvirkjunarstjóri orðaði þjóðarsálina einkar vel, þegar hann var gagnrýndur fyrir að bjóða stúdentsárgangi sínum í ráðherrabústaðinn. “Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir.”

Í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs er markvisst gerður greinarmunur á persónulegum fjárhag valdamanna og fjárhag opinberra stofnana. Ef bandarískur ráðherra fer í farartækjum ríkisins á flokkspólitískan fund, sendir ríkið ferðareikningana til viðkomandi flokks eða ráðherrans.

Þar í landi og á Norðurlöndum greiða ráðherrar sjálfir fyrir boð, sem þeir halda ættingjum, vinum eða skólafélögum. Ríkið greiðir bara fyrir risnu, sem er í þágu ríkisins sem stofnunar, en ekki fyrir persónulega risnu eða flokksrisnu. Um rétta og ranga risnu gilda skráðar reglur í alvöruríkjum.

Þetta sjónarmið hafa Íslendingar aldrei skilið. Þegar til kastanna kemur, eru flestir hlynntir spillingu og fagna ákaft, þegar slíkir molar hrjóta af borðum þeirra, sem hafa komið sér fyrir við ríkisjötuna. Þetta er “okkar maður” segja samstúdentar og sturta í sig illa fengnu freyðivíni.

Í frumstæðum þjóðfélögum er litið á aðstöðu hjá ríkinu sem herfang, þar sem eðlilegt sé, að sérvaldir hópar smælingja öðlist tveggja tíma líf við að narta í mola af nægtaborðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Lyfjabólgan

Greinar

Verðbólga lyfja er ein orsaka erfiðs rekstrar Landspítalans. Lyfjareikningur hans hækkar árlega og yfirleitt um nokkur hundruð milljónir króna umfram áætlun. Verðbólgan stafar af botnlausu siðleysi stóru lyfjarisanna, sem fjallað hefur verið um í valinkunnum erlendum fjölmiðlum á síðustu árum.

Washington Post og New York Times hafa fjallað um, hvernig lyfjarisar borga heilar læknaráðstefnur, allan ferðakostnað og uppihald lækna, svo og sérstakar mútur til að kynna ný lyf fyrir öðrum starfsbræðrum. Þannig var komið á framfæri verkjalyfinu Oxycontin, sem varð hundruðum að fjörtjóni.

Einnig kom í ljós, að lyfjafyrirtækin greiddu virðulegum háskólasjúkrahúsum og sérfræðitímaritum stórfé til að koma á framfæri fölsuðum rannsóknaniðurstöðum. Sumar rannsóknir voru með hlöðnum forsendum, í öðrum var skautað yfir hliðarverkanir og enn aðrar voru skáldskapur frá grunni.

Þegar kom í ljós, að New England Journal of Medicine hafði birt grein eftir lækni, sem var á mála lyfjarisanna, var farið að kanna málið. Þá uppgötvuðu fleiri læknarit, svo sem Lancet, Annals of Internal Medicine og Journal of the American Medical Association, að víðar var maðkur í mysunni.

Athuganir læknablaðanna leiddu í ljós, að rangt var staðið að ýmsum rannsóknum, sem þau höfðu fjallað um. Dæmi voru um, að þekktir læknar höfðu verið fengnir til að setja nafnið sitt undir rannsóknarniðurstöður, sem þeir höfðu ekki séð.

British Medical Journal hefur skýrt, hvernig lyfjarisar framleiddu ímyndaðan sjúkdóm kynkulda kvenna til að selja meira af lyfinu viagra. Þeir kostuðu ótal ráðstefnur og fagrit, þar sem flaggað var ímynduðum niðurstöðum rannsókna um, að 43% kvenna þjáðust af þessum ímyndaða sjúkdómi.

Journal of the American Medical Association rannsakaði 108 háskólasjúkrahús og komst að raun um, að lyfjarisarnir réðu þar ferðinni og stjórnuðu í 99% tilvika, hvort niðurstöður rannsókna voru birtar eða ekki. Markmiðið var að telja öllum trú um, að ný lyf virki rosalega vel og séu án aukaverkana.

Lyfjarisarnir teygja anga sína til íslenzkra lækna, kosta tímarit þeirra og ráðstefnur, styrkja þá til utanferða, borga þar uppihald þeirra og útvega þeim gistingu. Af öllu þessu sannfærast sumir læknar um ágæti nýrra lyfja og koma þeirri sannfæringu á framfæri við innlenda starfsbræður.

Af þessu leiðir, að fólk er látið nota ýmis rándýr sérlyf, þótt ódýr lyf geri sama gagn. Á hverju ári koma ný og dýrari lyf til sögunnar og hækka lyfjakostnað Landspítalans, þótt engin ástæða sé til að trúa niðurstöðum rannsókna, sem segja frá kraftaverkum þessara lyfja og skorti á aukaverkunum.

Heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn virðast ekki hafa burði til að hafa hemil á flóði gagnslítilla okurlyfja.

Jónas Kristjánsson

DV

Sóðalegt óskabarn

Greinar

Þótt verktakinn Impregilio við Kárahnjúka hafi slæmt orð á sér í þriðja heiminum, eru syndir hans smávægilegar í samanburði við langt syndaregistur eiganda fyrirhugaðrar álbræðslu á Reyðarfirði. DV hefur birt nokkra kafla úr hrikalegri framgöngu Alcoa gegn umhverfi og heilsu fólks.

Syndir Impregilio felast einkum í mútum til að ná verkefnum í þriðja heiminum og þrælahaldi starfsmanna á þeim slóðum. Við höfum fylgst með anga af miður fagurri starfsmannastefnu fyrirtækisins við Kárahnjúka og auðsveipri fylgisspekt íslenzka vinnueftirlitsins og viðkomandi ráðherra við hana.

Alcoa hefur hins vegar haft forustu í umhverfismengun, til dæmis í Texas, þar sem fyrirtækið hefur hvílt í faðmi Bush-forsetaættarinnar. Þar á það álver, sem spýr 100.000 tonnum á ári af eitri út í andrúmsloftið, það er að segja 5 kílóum á hvern íbúa ríkisins. Þetta hefur leitt til milljarðasekta.

Álvinnsla Alcoa við Dallas spýr 20.000 tonnum af eitri yfir höfuðborgina og nágrenni hennar. Þetta er um 10% af allri mengun á svæðinu. Með góðum samböndum við Bush hefur það fengið sama frest til að minnka þessa mengun um helming og aðrar vinnslur fá til að minnka sína mengun um þrjá fjórðu.

Alcoa hefur gert St. Lawrence fljót að holræsi og gert ókleift að veiða þar fisk. Sama er að segja um Ohio-fljót og fljót í Louisiana. Alls hafa bandarísk stjórnvöld höfðað tæplega 50 mál gegn Alcoa vegna lögbrota. Málið út af Ohio-fljóti leiddi eitt sér til 8,8 milljón dala sektargreiðslu.

Rannsókn hefur leitt í ljós, að starfsmenn Alcoa í Ástralíu og í Quebec í Kanada hafa beðið heilsutjón af skorti á aðgerðum fyrirtækisins til að stemma stigu við rykmengun í álverum. Allt þetta, sem hér hefur verið rakið, eru syndir fyrirtækisins í ríku löndunum, þar sem eftirlit er mikið.

Í þriðja heiminum er ástandið verra, en minna vitað um það. Frestað hefur verið álveri, sem Alcoa átti að fá að reisa í Amazon fljóti í Brasilíu, þar sem ein stífla fyrirtækisins hefur þegar leitt til brottflutnings 6000 manna, sem misstu hús sín og veiðilendur og fengu 20 krónur í skaðabætur hver.

Þótt Alcoa hafi á allra síðustu árum hafið ímyndarherferð til að breyta ömurlegri stöðu í almenningsálitinu, er ljóst, að fyrirtækið hefur hvarvetna reynt að gernýta grá svæði í reglum og beinlínis brotið lög til að komast undan sómasamlegu hreinlæti í tengslum við verksmiðjur sínar.

Óvíst er hvort Reyðfirðingar fari betur út úr samskiptum sínum við Alcoa en íbúar Dallas í Texas. Reynslan segir þó, að þeim beri að vera á varðbergi gagnvart óskabarni sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Endalaus einokun

Greinar

Einokun og hringamyndun er ekki ný á Íslandi, þótt meira sé talað um hana en nokkru sinni fyrr. Alltaf eru það sömu, gömlu kolkrabbafyrirtækin, sem stjórna henni. Olíufélögin lækka sig, þegar Atlantsolía kemur inn á markaðinn og hækka sig strax aftur, þegar nýja félagið er búið með benzínið.

Þannig hefur það alltaf verið. Þegar lággjaldafélög koma í millilandaflug, lækkar gamla einokunin sig á þeim leiðum, en ekki öðrum. Þegar lággjaldafélögin gefast upp, hækkar einokunin sig upp í gamla okrið. Þannig var þetta í grænmeti og bílatryggingum, vöruflutningum og innanlandsflugi.

Ráðherrar helmingafélags kolkrabbans og smokkfisksins hafa aldrei sýnt neinar áhyggjur af einokun og okri, hringamyndun og samráðum í benzíni og grænmeti, vöruflutningum og tryggingum og á ýmsum öðrum mikilvægum sviðum. Þeir hafa áhyggjulaust látið heimska kjósendur borga brúsann.

Nú segjast ráðherrar hins vegar hafa feiknarlegar áhyggjur af upprennandi einokun og hringamyndun í atvinnulífinu almennt og sérstaklega í matvöruverzlun og fjölmiðlun. Þeir segja, að setja þurfi lög til að stemma stigu við illum öflum, sem hafa rutt sér til rúms framhjá kolkrabbanum.

Þetta eru ekki alvöru sinnaskipti, heldur byggjast þau á, að ráðherrar geta ekki dulið gremju sína út af hnignun kolkrabbans. Sérstaklega svíður þeim að hafa glatað fyrri yfirburðum í fréttamiðlun og misst tækifæri til að bæta sér það upp með því að eignast fjölmiðla, sem misstu fótanna.

Breytingin í fréttamiðlun er þó ekki meiri en svo, að kolkrabbinn stjórnar enn rúmlega þriðjungi hennar í landinu, bláskjá og mogga, skjá eitt og sögu. Opnunin nægir bara til að hindra kolkrabbann í að stjórna því, sem þjóðinni er sagt vera í fréttum. En sú breyting svíður og Davíð veinar.

Viðnám gegn einokun og hringamyndun er mikilvægt, þótt annarleg sjónarmið ráði sinnaskiptum valdamanna. Sérstaklega er brýnt að gera samskipti peningavalds og stjórnmála öllum almenningi gegnsæ. Til þess þarf lög um gegnsæjar fjárreiður stjórnmálaflokka, frambjóðenda og annarra pólitískra afla.

Hingað til hafa einokun og hringamyndun, okur og samráð dafnað í skjóli leyndarinnar, sem hvílir yfir fjárreiðum stjórnmálanna. Kolkrabbinn og smokkfiskurinn hafa rekið flokka eins og pólitísk útibú, sem gæta annarlegra hagsmuna. Þetta lagast ekki fyrr en spilin verða lögð á borðið.

Núverandi valdhafar hafa aldrei tekið í mál, að spilin verði lögð á borðið. Þeir meina ekkert með nýjum orðum sínum um einokun og hringamyndun. Þeir eru sjálfir versta afsprengi hennar. Þeir hafa alltaf varið hana, þegar á reyndi. Einokun og hringamyndun er sjálfur hornsteinn valdakerfis þeirra.

Þetta má fá staðfest með sólskinslögum, sem draga tengsli fyrirtækja, stofnana og stjórnmála fram í dagsljósið.

Jónas Kristjánsson

DV

Árvisst upphlaup

Greinar

Við höfum áður heyrt af fjárhagsvanda Landsspítalans, ekki bara í fyrra og hittifyrra, heldur svo langt sem minnið nær. Árvisst er, að tekjur spítalans nægja ekki fyrir gjöldum og að hlaupið er upp til handa og fóta, sumpart til að sýnast, sumpart til að spara og sumpart til að minnka þjónustu.

Nú er hvellurinn hærri og niðurskurðurinn meiri en venjulega. Í stórum dráttum er þó málið kunnuglegt. Einhver grundvallarmisskilningur hlýtur að vera í rekstrarforsendum og rekstri aðalspítala landsins, eitthvað sem hægt er að læra af, svo að eðlilegt rennsli náist í rekstrinum.

Spítalinn er rekinn á vegum heilbrigðisráðuneytisins, sem á að vita, hvort hann sé að gera það, sem hann á að gera eða eitthvað annað og meira. Stöðugt rekstrartap er áfellisdómur yfir vanmáttugu ráðuneyti, þar sem greinilega er allt í ólagi í senn, pólitík, stjórnsýsla og viðskiptafræði.

Annað ráðuneyti kemur að þessu rugli eins og svo mörgu rugli í opinberum rekstri. Það er fjármálaráðuneytið, sem meira að segja lét af hendi ráðuneytisstjóra sinn fyrir nokkrum árum, svo að hann mætti verða forstjóri ríkisspítalanna. Toppmaður kerfisins var fenginn til að koma skikki á erfiðleikana.

Síðan hefur staðan versnað. Fjölgað hefur verið tegundum af silkihúfum og stofnað til margvíslegrar úlfúðar milli ýmissa tegunda yfirmanna. Því er freistandi að ætla, að embættisbákn ríkisins hafi ekki upp á neitt mannval að bjóða í forstjórastóla, sem sé sambærilegt við einkageirann.

Unnt hlýtur að vera að skilgreina, hvað sé að á spítalanum. Er önnur hönd ríkisins að minnka velferðina með fjárlögum, meðan hin höndin eykur hana með sérlögum, reglugerðum eða öðrum ákvörðunum? Er samræmi milli verkefna spítalans og fjármagnsins, sem til þeirra er ætlað á fjárlögum?

Er innbyggð verðbólga í kerfinu, sem veldur því, að velja þarf milli óbreytts þjónustustigs á hærra verði og lægra þjónustustigs á óbreyttu verði? Er tilviljanakennt, hvort ný og dýrari lyf eða hvort ný og dýrari lækningatækni er tekin í notkun? Er enginn, sem velur og hafnar breytingum?

Þótt ráðherrar og Alþingi skipi stjórnarnefnd, sem lengi hefur ekki verið starfi sínu vaxin, eru það eigi að síður ráðuneytin tvö, sem eiga að hafa spítalann í gjörgæzlu. Þaðan á að koma leiðsögn um, hvers konar athafnir rúmast og rúmast ekki innan heilbrigðisþáttar velferðarkerfisins.

Vandinn er, að ráðuneytin hafa ekki burði til að viðurkenna, að einhver þarf að skilgreina jafnóðum, hvað eigi að rúmast innan velferðarinnar og hvað eigi að standa utan hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofreist hönnun

Greinar

Þegar verðtrygging Ólafslaga kom til sögunnar fyrir aldarfjórðungi, gerðu fáir sér grein fyrir, að hún mundi koma Sambandi íslenzkra samvinnufélaga fyrir kattarnef. Æ síðan hafa lög Ólafs Jóhannessonar framsóknarmanns verið skólabókardæmi um, að erfitt er að hanna þróun.

Nú höfum við annað dæmi um stórfellda skekkju í hönnun þróunar. Einkavinavæðing stjórnvalda byggðist á, að fjölskyldurnar fjórtán eða kolkrabbinn svokallaði hefði einn efni á að kaupa, þegar bankar og aðrar stóreignir yrðu seldar hæstbjóðandi. Annars staðar væri ekki til fé.

Þessi hönnun þróunar bilaði af ýmsum ástæðum og einkum vegna innflutnings á Bretagulli og Rússagulli. Ríkisbankarnir komust í hendur aðila utan kolkrabbans, svo og Eimskip, Burðarás og hugsanlega Skeljungur. Allt í einu er kolkrabbinn ekki lengur þungamiðja valds á Íslandi.

Miklar eigur eru enn í höndum fjölskyldnanna, sem sagðar voru mynda kolkrabbann á velmektardögum hans. En þetta eru sundurlausar eignir, sem ekki mynda samþjappaða valdastöðu, ef frá eru talin örfá stórfyrirtæki á borð við Íslandsbanka og Sjóvá-Almennar, svo og ýmis hversdagsfyrirtæki.

Sárastur var valdamissirinn, þegar út um þúfur fór tilraun Morgunblaðsins til að kaupa þrotabú DV og tilraunir þess til að koma upp gildu sjónvarsfyrirtæki, sem mundi kaupa væntanlegt þrotabú Norðurljósa. Bretagullið hataða keypti bæði fyrirtækin og yfirtók skuldir Norðurljósa.

DV hætti að láta prenta hjá Morgunblaðinu. Þannig ruglaðist hrikalegt fjármögnunardæmi nýbyggingar og risaprentvélar á frægu sprungusvæði við Rauðavatn. Hættulegur hallarekstur blasir því við risaeðlu kolkrabbans, sem fór á sama tíma endanlega halloka fyrir Fréttablaðinu í lestrarmælingum.

Samanlagt hefur innflutningur fjármagns umturnað hefðbundnu valdakerfi stjórnmálanna, sem byggðist á samfléttuðu afli ýmissa stærstu fyrirtækja landsins. Þetta hefur lagzt þungt á marga og einkum þá, sem stóðu pólitísku vaktina, þegar veldissól kolkrabbans ósigrandi hneig óvænt til viðar.

Andlegt áfall vaktstjóra þjóðfélagsins af völdum hinnar ófyrirséðu þróunar hefur einkennt þjóðfélagið í auknum mæli á síðustu mánuðum og vikum. Það hefur farið hamförum í áramótagreinum og öðrum virðulegum tækifærum til að líta yfir farinn veg og horfa inn í ótrygga framtíð þessa árs.

Afleiðingar Ólafslaga fyrir aldarfjórðungi og afleiðingar einkavæðingar síðustu missera sýna, að oft rennur pólitískt hannað ferli aðrar hrossagötur en því er ætlað. Mannkynssögunni hættir til að hlaupa út undan sér, þótt pólitískir snillingar reyni að girða fyrir undankomu hennar.

Engum þarf að koma á óvart, að svona fari fyrir ofrisi í hönnun þróunar. Hins vegar er minnisstætt að fylgjast með, hversu hratt sagan ryður pólitískri hönnun úr vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skálkaskjólið

Greinar

Guði sé lof fyrir okkar Lúterskirkju. Hún er róleg og frjálslynd, leggur meira upp úr manngæzku og góðverkum Nýja-Testamentisins en mannvonzku og hryðjuverkum Gamla-Testamentisins. Víða annars staðar leggja trúfélög lóð sitt á vogarskál illsku og ofbeldis, haturs og hefnigirni.

Sumar erlendar mótmælendakirkjur eru síður en svo til fyrirmyndar. Nærtækast er að minnast klerksins Ian Paisley, sem hefur lagt nótt við dag að koma illu af stað á Norður-Írlandi. Víða í Bandaríkjunum hafa söfnuðir af meiði mótmælenda orðið ofsafengnir og róttækt hægri sinnaðir.

Sama er uppi á teningnum í öðrum trúarbrögðum. Ísrael er orðið ríki ofsatrúar og hryðjuverka, þar sem heilar kynslóðir ungra manna eru settir til misþyrminga og manndrápa. Sumir breytast í sturlaða ofbeldismenn, sem hér á landi væru settir á Sogn til að hlífa samfélaginu.

Einna lengst á þessu sviði ganga sumir erkiklerkar og ofsatrúarmenn Íslams. Þar er frægastur Osama bin Laden, sem lætur heilaþvo þúsundir ungra manna til að fremja sjálfsmorð með ofbeldisverkum úti um víða veröld. Mannvonzkan spyr ekki um tegundir trúarbragða. En hún sogast greinilega að þeim.

Skýringin er ljós. Skálkur, sem hefur illt í hyggju, völd eða gróða, finnur sér skjól í trúarsöfnuði og klæðist þjóðfánanum. Þannig eru stjórnmál í Bandaríkjunum orðin keppni í trúarlegri hræsni og þjóðernisrembingi. Íslenzkir pólitíkusar eru hrein fermingarbörn í þeim samanburði.

Verst er, þegar slíkir menn fara að trúa hræsni sinni og verja gerðir sínar með því að segja guð hafa talað við sig og sagt sér fyrir verkum. Þannig hefur grimmdarguð Gamla-Testamentisins talað við George W. Bush og sagt honum að fara í krossferð gegn Íslam til að tryggja sér endurkjör.

Til samanburðar getum við ekki ímyndað okkur, að heilbrigðisráðherra hafi fengið bein fyrirmæli frá guði um að svíkja samning við öryrkja, taka sérfræðiþjónustu við fátæklinga úr sambandi, lama ýmsar deildir Landspítalans og hækka ýmis sjúklingagjöld. Hann felur sig ekki bak við guð.

Stundum verðum við vör við anga bandarísks trúarrugls í sértrúarsöfnuðum hér á landi. Á kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega sést stuðningur við ofbeldi, hryðjuverk og önnur fólskuverk Ísraela gegn Palestínumönnum, að því er virðist á þeim forsendum, að Gamla-Testamentið boði illvirkin.

Vandi trúarbragðanna er, að stofnanir, sem almennt eru taldar góðar og fagrar, soga til sín þá, sem vilja leita skjóls til að fá útrás fyrir fólsku, græðgi eða valdafíkn.

Jónas Kristjánsson

DV