Greinar

Full atvinna í verðhjöðnun.

Greinar

Hingað til hefur þótt tíðindum sæta, ef ríkisstjórn nær einhverju markmiði sínu. Því er það núna töluvert ánægjuefni, að fátt virðist geta komið í veg fyrir, að núverandi ríkisstjórn nái verðbólgunni niður í 30% um áramót.

Enn gleðilegra er, að þetta virðist munu takast án atvinnuleysis. Hingað til hafa menn trúað, að leiftursókn gegn verðbólgu mundi óhjákvæmilega leiða til stórskertrar kaupgetu og samdráttar í atvinnulífinu.

Í iðnaði ríkir bjartsýni. Gengisskráningin er nær raunveruleika en oftast áður og styrkir á þann hátt samkeppnisgetu íslenzkrar framleiðslu. Hið sama á sér stað í sjávarútvegi, þar sem skortur er á vinnuafli, þrátt fyrir barlóminn.

Meira að segja byggingariðnaðurinn, sem talinn er viðkvæmur fyrir sveiflum, er enn á fullri ferð með rífandi atvinnu, þótt kreppt hafi að húsbyggjendum. Með auknu fjármagni til íbúða í vetur á þessi grein að blómstra áfram.

Gagnrýnendur aðgerða ríkisstjórnarinnar harma, að hún hefur einhliða ráðizt gegn kaupmætti launataxta, en ekki lagt hliðstæðar byrðar á atvinnulífið. Launþegar hafi orðið einir að bera byrðarnar, en fyrirtækin ekki.

Ef til vill er þetta einmitt lykillinn að þeirri velgengni aðgerðanna, að full atvinna hefur haldizt í hruni verðbólgunnar. Vel stæð fyrirtæki geta frekar en illa stæð haldið uppi atvinnu og fært út kvíarnar til aukinnar atvinnu.

Segja má, að um nokkurra mánaða skeið hafi ríkt hér japanskt kerfi. Það felst í, að fyrirtækjum er leyft að blómstra, en kaupmætti er haldið í skefjum. Þannig urðu Japanir ríkir á nokkrum áratugum og komu sér fyrir á heimsmarkaði.

Bætt lífskjör fylgdu í kjölfarið, en ætíð í kjölfarið og ekki fyrirfram. Japanir öfluðu fyrst og eyddu svo. Með þessu tókst þeim á furðanlega skömmum tíma að koma lífskjörum sínum upp í þau, sem ríkja á Vesturlöndum.

Sumir gagnrýnendur geta viðurkennt þetta, en telja of geyst hafa verið farið í sakirnar hér. Þeir hafa sagt í allt sumar, að heimilin þoli ekki þessa leiftursókn gegn lífskjörum og verði hreinlega gjaldþrota.

En raunar er merkilegt, hversu lítið hefur borið á samdrætti í lífskjörum. Mjög margir höfðu raunar svigrúm til að spara kaup á vörum og þjónustu, sem ekki geta talizt til nauðsynja. Þetta svigrúm hafa þeir notað.

Samdráttur í innflutningi bifreiða og heimilistækja, svo og tízkuvarnings, er dæmi um, hvernig fólk hefur búið sér til svigrúm til að mæta erfiðleikunum. Mikil aukning krítarkorta bendir til hins sama.

Ríkisstjórnin má samt ekki gleyma, að til eru fjölskyldur, þar sem fyrirvinnan er aðeins ein og hefur aðeins hið lága taxtakaup Sóknar eða Iðju og fær hvorki yfirvinnu né yfirgreiðslur. Það er til undirstétt í landinu.

Það er hinn mannlegi þáttur, sem ríkisstjórnin þarf nú að láta kanna sérstaklega, svo að leiftursóknin verði ekki að hreinum harmleik hjá þeim minnihluta íslenzkra fjölskyldna sem býr við 11.000 króna raunveruleika.

Ef hægt er að hindra slíkan harmleik, er sennilegt, að ekki verði unnt að framleiða verkfallsáhuga hjá þjóðinni upp úr næstu áramótum, þegar samningar verða lausir. Þá getur ríkisstjórnin fengið vinnufrið til framhaldsins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kindur víki fyrir hrossum

Greinar

Langt er síðan beitarþolsrannsóknir á íslenzkum afréttum leiddu í ljós, að mikil ofbeit er á flestum íslenzkum afréttum. Helzta undantekningin er á norðanverðum Ströndum, sem eru í eyði og sæta ekki ágangi sauðfjár.

Kindasinnar hafa lengst af neitað að viðurkenna þessa staðreynd. Þeir hafa einnig reynt að kenna öllu öðru en sauðfé um rýrnandi gróður á afréttum. Fyrrum búnaðarmálastjóri sagði raunar, að kindur bættu gróðurinn.

Á sama tíma hefur ástandið sums staðar orðið svo alvarlegt, að félög bænda hafa neyðst til að beita ítölu, það er að segja ákveða hámarkstölu leyfilegra kinda á afrétt. Þessi aðgerð hefur sums staðar dregið úr ofbeit.

Í leitinni að öðrum skaðvöldum hafa kindasinnar upp á síðkastið einkum beint geiri sínum að hrossum. Þeir segja, að frekar sé rúm fyrir sauðfé á afréttum, ef fækkað sé hrossum og helzt bannað að hafa þau þar.

Í fyrradag var upplýst hér í blaðinu, að 747.000 ær og 1.045.000 lömb þurfa 107,5 milljón fóðureininga sumarbeit. Ennfremur var upplýst, að 52.000 hross og 5.000 folöld þurfa 19 milljón fóðureininga sumarbeit.

Ekki er því fjarri lagi að álykta, að kindur noti 85% af gæðum afréttanna og hrossin 15%. Kindasinnar telja að vísu, að hrossin noti töluvert meira og fari verr með landið. En einkum segja þeir, að hesturinn sé efnahagslega óæðri skepna.

Sú er trú og firra þessara manna, að kindur og kýr séu sá landbúnaður, sem máli skipti, enda er hann hinn eini, sem hefur málfrelsi á þingum Stéttarsambands bænda. Hrossin eru hins vegar á óæðri bekk með svínum og hænsnfuglum.

Staðreyndin er hins vegar þveröfug. Hrossarækt á Íslandi er ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera. Hún þarf ekki á neinum niðurgreiðslum að halda, útflutningsuppbótum, beinum styrkjum né sérstökum lánafyrirgreiðslum.

Ræktun reiðhesta er raunar orðin að arðbærum atvinnuvegi, sem er samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði. Árlega koma inn tugir milljóna í gjaldeyri fyrir sölu hrossa og önnur viðskipti, sem byggjast á þeirri sölu.

Erlendir eigendur íslenzkra hesta hafa á þessu ári ferðast um landið fyrir 40 milljónir króna, keypt hesta fyrir 10 milljónir, auk lopapeysa og íslenzka hundsins, sem orðinn er að stöðutákni hinna erlendu hestaeigenda.

Margir kindasinnar viðurkenna mikilvægi ræktunar reiðhesta. Þeir segja hins vegar, að ekki þurfi nema 19.000 hross af 52.000 til að standa undir þeirri útgerð. Aðrir hafa nefnt töluna 38.000 um heppilega stofnstærð.

Hvora töluna, sem menn nota, er ljóst, að hrossin í landinu eru fleiri en nauðsynlega þarf til að ná upp reiðhestum. Afgangurinn er notaður til framleiðslu á hrossakjöti, sem kindasinnar telja heldur tilgangslitla iðju.

En staðreyndin er hins vegar sú, að hrossakjöt er framleitt og selt, án þess að ríkið komi þar til skjalanna. Hrossakjötsframleiðsla byggist ekki frekar en reiðhestaútflutningur á niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum, beinum styrkjum eða sérstökum lánafyrirgreiðslum.

Skattgreiðendur og neytendur þurfa því ekki að hafa áhyggjur af hrossarækt, þótt hún sé umfram það, sem þarf til að fá reiðhesta. En ofbeit kindanna á afréttum kostar hins vegar neytendur og skattgreiðendur á annan milljarð á hverju ári.

Kindurnar eiga því að víkja, fremur en hrossin.

Jónas Kristjánsson

DV

Víða leynist gjaldeyrir.

Greinar

Árum saman hafa Íslendingar haft ómældan arð af alþjóðlegri flugstjórn á Atlantshafi og Dumbshafi milli Noregs og Grænlands alla leið til norðurpóls. Alþjóða flugmálastofnunin hefur greitt vel fyrir þessa þjónustu.

Ríkið hefur beinan hagnað af þessu. Þar að auki hafa margir menn hálaunaðar stöður við flugstjórn og greiða tilsvarandi háa skatta til hins opinbera. Þannig græðir ríkið tvisvar á að veita þessa nauðsynlegu þjónustu.

Þetta er gott dæmi um, að miklar gjaldeyristekjur má hafa af fleiru en fisksölu í útlöndum. Fiskurinn er að vísu og verður hornsteinninn, en hann er þegar afar mikið nýttur. Við þurfum fleiri þætti til að lifa á í framtíðinni.

Í kjölfar þátttöku 10.000 manna í alþjóðlegu móti íslenzkra hesta í Þýzkalandi höfum við verið minntir á gífurlegar tekjur, sem við höfum beint og óbeint af hestasölu. Í ár hafa 230 hestar verið seldir á 10 milljónir króna.

Jafnframt hefur aukizt sala á lopapeysum til erlendra hestaeigenda og meira að segja sala á íslenzkum hreinræktarhundum. Yfir 300 slíkir hafa verið seldir og er verðið nú 8.000 krónur á hundinn heima í hlaði.

Þá hefur verið áætlað, að erlendir ferðamenn, sem hingað hafa komið á þessu ári vegna íslenzka hestsins eingöngu, hafi varið hér rúmlega 40 milljónum króna. Það munar um allar þessar tölur, þegar gjaldeyrisdæmi þjóðarinnar er gert upp.

Um langt skeið hafa íslenzkir verkfræðingar selt þjónustu til útlanda. Sérstakt fyrirtæki hefur verið stofnað til að efla þessi viðskipti. Íslenzkir verkfræðingar hafa smám saman unnið sér traust, einkum í jarðhitafræðum.

Sérfræðiþjónusta er dýr. Hún fjölgar hátekjumönnum, sem greiða háa skatta og eru umhverfi sínu þarfir á annan hátt. Þeir hafa tiltölulega mikinn kaupmátt og auka því veltuna í þjóðfélaginu á vöru, þjónustu og menningu.

Á síðasta ári voru 115 sjúklingar fluttir til hjartaskurðaðgerða í útlöndum á kostnað hins opinbera. Í Bandaríkjunum er kostnaður á sjúkling 400-900 þúsund krónur. Það er dýrt að leyfa sér að nýta erlenda sérhæfingu.

Íslenzkir læknar segjast geta þetta sjálfir og vilja flytja hjartaskurðaðgerðirnar heim. Skrifstofa ríkisspítalanna hefur reiknað út, að með sjö ára afskriftatíma mundi arður ríkisins af þessu nema 20% á ári.

Þetta mundi einnig spara gjaldeyri og fjölga íslenzkum hátekjumönnum. Gera má ráð fyrir, að ríkið nái í beinum og óbeinum sköttum til baka um helmingi af launum læknanna. Hinn óbeini hagnaður ríkisins yrði því mun meiri en tölurnar sýna.

Því miður er ekki til handbært fé til að ráðast í hinn mjög svo arðbæra innflutning þessarar dýru sérfræðiþjónustu. Ríkið hefur ekki efni á að spara á þessu sviði og einstaklingar hafa ekki bolmagn til að koma upp þjónustunni.

Á Bretlandi og Írlandi eru heilsugæzlustofnanir í eigu hins opinbera og einstaklinga farnar að bjóða útlendingum þjónustu framhjá eigin heilbrigðiskerfi. Þetta hefur reynzt arðbær þjónusta og ætti að verða okkur til fyrirmyndar.

Við getum fengið fleiri íslenzka lækna frá útlöndum og hreinlega lagt fé í að byggja upp heilsugæzlustofnanir handa erlendu fólki til að auka gjaldeyristekjur okkar og til að fjölga hátekju- og háskattamönnum heima fyrir.

Jónas Kristjánsson.

DV

140 húsnæðismilljónir.

Greinar

Eftir linnulaus loforð forsætis- og félagsmálaráðherra um gull og græna skóga húsbyggjendum og kaupendum til handa, er hversdagslegur raunveruleikinn kominn í ljós. Ekki fundust nægir peningar til að efna loforðin.

Í fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram fyrir ári, féllu 220 milljónir í hlut Húsnæðisstofnunar ríkisins og Byggingasjóðs verkamanna. Í frumvarpinu, sein nú verður lagt fram, eiga 400 milljónir að fara í þessa tvo staði.

Ef fé til húsnæðismála hefði aukizt milli ára um 20% eins og fjárlagafrumvarpið í heild, stæði talan 260 milljónir í frumvarpinu, sem nú verður lagt fram. Það þýðir, að stjórnin hyggst leggja fram 140 milljónir umfram verðbólgu.

Árangurinn af húsnæðishvellinum er, að ríkið hyggst spara 140 milljónir á öðrum sviðum til að auka húsnæðisfé milli ára um 50% í stað 20%, sem ella hefði verið. Þetta er takmarkaður árangur, en árangur samt.

Svo er það aftur á móti hrein sjónhverfing, þegar ríkisstjórnin bókar 1.200 milljónir til húsnæðismála á lánsfjáráætlun. Þetta fé á nefnilega að koma frá lífeyrissjóðunum, sem hvort sem er lána fé sitt til húsnæðismála.

Með þessum 1.200 milljónum er ekki beinlínis verið að auka húsnæðisfé. Það er verið að færa þær frá einum lánveitanda til annars. Þær fela ekki í sér neitt nýtt átak ríkisstjórnarinnar til fjármögnunar íbúða.

Raunar segir félagsmálaráðherra, að þetta sé einmitt upphæðin, sem lífeyrissjóðirnir mundu hvort sem er láta af hendi í samræmi við gildandi nauðungarsamninga um, að þeir afhendi ríkinu 40% af ráðstöfunarfé sínu.

Hinar sjálfvirku peningauppsprettur og 140 milljón króna aukaátak ríkissjóðs þýða, að á næsta ári getur Húsnæðisstofnunin lánað húsbyggjendum tæplega 30% af verði staðalíbúðar í stað 20%, sem verið hefur á þessu ári.

Þessi 30% eru öflugri tala en virðist við fyrstu sýn. Þau jafngilda nefnilega tæplega 50% af verði vísitöluíbúðar, af því að svokölluð staðalíbúð er miklu stærri en vísitöluíbúð. Það munar því töluvert um peningana.

Lán veðdeildar til tveggja-fjögurra manna fjölskyldna munu hækka úr 389 þúsund krónum í 584 þúsund krónur. Þetta er veruleg framför, þótt enn sé langt í milljónina, sem húsbyggjendur töldu, að sér hefði verið lofað.

Ofangreindar tölur fjalla eingöngu um vanda þeirra, sem hyggjast varpa sér út í kviksyndi húsnæðiskaupa eða -byggingar. Hinn stærri og áþreifanlegri vanda þeirra, sem berjast þegar um í kviksyndinu, á að létta á annan hátt.

Ríkið hyggst bjóða út skuldabréfalán á almennum, innlendum markaði upp á 200-250 milljónir króna. Það fé á að duga til að veita húsnæðislánþegum síðustu tveggja. ára 50% viðbótarlán ofan á þau lán, sem þeir höfðu áður fengið.

Þetta nær skemur aftur í tímann en menn höfða vonað. Ennfremur tekur lausnin ekki tillit til verðbólgunnar frá þeim tíma, er þeir tóku upphaflegu lánin og þangað til þeir fá þessi 50% viðbótarlán.

Í rauninni er þó með öllu þessu búið að gera stórátak í húsnæðismálum, sem ber að lofa. Hitt má svo lasta, að ríkisstjórnin skuli í leiðinni hafa vakið falskar vonir um enn gylltari úrlausn, sem engin leið var að láta rætast.

Jónas Kristjánsson

DV

Þinghald á að lengja.

Greinar

Nýlega krafðist stjórnarandstaðan þess, að alþingi yrði kallað saman í byrjun þessa mánaðar. Þetta er eðlilegt framhald af fyrri kröfu hennar um sumarþing, sem mikill hluti þingflokks sjálfstæðismanna studdi.

Ríkisstjórnin vísaði hins vegar þessum kröfum á bug í bæði skiptin. Hafði hún uppi margvísleg mótrök. Ný stjórn þyrfti starfsfrið. Og þinghald í september kæmi í veg fyrir, að fjárlagaframvarp yrði til við byrjun þings, svo sem stjórnarskráin mælir fyrir.

Ljóst er, að álit þingmanna og almennings skiptist mjög í tvö horn. Allir ættu þó að vera sammála um, að slæmt sé að ekki gildi fastmótaðar reglur um samkomutíma alþingis. Það eigi ekki að vera geðþáttaákvörðun ríkisstjórnar, hvort þing sé kallað saman eða ekki.

Í stjórnarskrá lýðveldisins segir, að “reglulegt alþingi skal saman koma ár hvert hinn 15. dag febrúarmánaðar eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti lýðveldisins ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu”.

Engin ákvæði eru um lengd þingtímans önnur en þau að “forseti stefnir saman alþingi ár hvert og ákveður hvenær því skuli slitið”. Forseti getur hins vegar kvatt alþingi til aukafunda þegar nauðsynlegt er.

Ekki er fjallað um það í stjórnarskránni hvernig haga skuli málum, þegar þingkosningar eru á óvenjulegum tíma, svo sem var á þessu ári.

Sú hefð hefur mótazt á undanförnum áratugum, að þing er kallað saman 10. október ár hvert og stendur með hléum í sjö mánuði eða fram í maí. En nú hefur alþingi ekki setið síðan í mars.

Eina stjórnarskrárbundna skylda ríkisstjórnarinnar er að leggja frumvarp til fjárlaga fyrir þingið, þegar það er saman komið. Hefur það verið skilið svo, að frumvarpið skuli liggja frammi í upphafi þings.

Meðan þjóðfélagið var einfaldara í sniðum og þingmennska var hliðarstarf flestra, ef ekki allra þingmanna, var ekki óeðlilegt, að þinghald væri stutt. Nú er svo komið, að þingmennska er aðalstarf, launað allt árið. Og óneitanlega eru þingstörf flóknari en áður var.

Af þeim ástæðum sýnist það vera tímaskekkja að binda þinghald við sjö mánuði og veita þingmönnum fimm mánaða sumarleyfi, svo ekki sé talað um sjö mánaða leyfi eins og er á þessu ári.

Þau rök eru einnig þung á metunum, að í togstreitu framkvæmdavalds annars vegar og löggjafar- og fjárveitingavalds hins vegar eigi hið síðarnefnda, það er alþingi, undir högg að sækja.

Ríkisstjórnin, stjórnarráðið, embættismennirnir, – framkvæmdavaldið í heild sölsar stöðugt undir sig aukin völd og á auðveldara með það, þegar þinghaldið takmarkast við vetrarmánuðina.

Ef þjóðin vill hamla gegn þessum breytingum og reyna að stuðla að virkara lýðræði með jafnara vægi milli valdaþátta, þá er ljóst, að samkomutíma alþingis verður að lengja og hætta misbeitingu bráðabirgðalaga.

Samkomutími þingsins á ekki að vera þrætuepli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin á ekki að hafa það í hendi sér, heldur eiga að vera fastar reglur um slíkt. Og til eflingar þingræðinu er rétt að lengja þingið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Æðibuna í skipulagi.

Greinar

Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur með borgarstjórann í broddi fylkingar er að gera stórfelld skipulagsmistök á Skúlagötusvæðinu. Mistökin byggjast á æðibunugangi kosningasigurvegara, sem engin ráð vilja þiggja.

Hinn mikli sigur í síðustu borgarstjórnarkosningum hefur stigið meirihlutanum til höfuðs. Slíkur sigur gefur meirihlutanum auðvitað umboð til að bylta ákvörðunum fyrirrennaranna, en ekki til að kasta allri skynsemi fyrir róða.

Um síðir kemur að því, að meirihlutinn verður að standa kjósendum reikningsskap gerða sinna. Þá gæti verið betra að hafa farið með gát að byltingum í skipulagi og hafa gefið sér tíma til að huga að fróðra manna ráðum.

Yfirleitt er grundvallarhugsunin rétt í stefnubreytingu núverandi meirihluta í skipulagsmálum, en útfærslan ekki nógu góð. Þetta má bæði segja um skipulagið í Grafarvogi og nýsamþykkta skipulagið við Skúlagötu.

Í Grafarvogi átti að ná þeim merka áfanga, að framboð lóða yrði meira en eftirspurn. Í æðibunuganginum var eftirspurnin rangt metin. Nú er komið í ljós, að í nánustu framtíð verður ekki reist neina annað hvert hús á svæðinu.

Þetta þýðir, að borgin verður að greiða stórfé í kostnað við undirbúning alls hverfisins án þess að fá meira en helminginn til baka í gjöldum húsbyggjenda. Þetta hefði mátt forðast, ef varlegar hefði verið farið í sakirnar.

Við Skúlagötu á nú að ná þeim merka áfanga að hefja raunhæfa þéttingu byggðar í Reykjavík. Rokið er með látum í að skipuleggja einn byggingarreit án tillits til heildarsvæðisins og gegn ráðum margra fróðra manna.

Afleiðingin getur orðið sú, að um síðir verði að beita loftpressum gegn steinsteyptum mistökum í stað hinna eðlilegu vinnubragða, sem felast í að beita strokleðri á teikniborði með tiltölulega litlum kostnaði.

Út af fyrir sig getur vel verið hægt að fara með nýtingarhlutfall úr 0,5 og 1,0 upp undir 2,0. En svo róttæka ákvörðun má aðeins gera að yfirveguðu ráði og alls ekki með flumbrugangi á hlaupum milli hæða.

Ennfremur getur vel verið hugsanlegt að hafa átta hæða steinsteypuvegg við Skúlagötu. En svo róttæka ákvörðun má aðeins gera með fullri hliðsjón af allri norðurhlíð Skólavörðuholtsins, en ekki Völundarlóðinni einni.

Í samráði við landeigendur á öllu svæðinu þarf að finna formúlur fyrir hlutfallsverðmæti lóða á svæðinu. Niðurstöðuna þarf að finna, áður en samið er við einn um nýtingarhlutfallið 2,0 og reynt að neyða annan í 0,5.

Fyrst þegar borgin er búin að ná samkomulagi eða hlutlausum úrskurði um hlutfallsverðmæti lóða í allri norðurhlíð Skólavörðuholtsins, er unnt að byrja skipulagningu og þá út frá svæðinu í heild en ekki út frá einum reit.

Borgin þarf að hafa frelsi til að skipuleggja á þann hátt, að nýtingarhlutfall geti verið 2,0 á einum stað og 0,0 á öðrum. Til þess þarf borgarstjórnin að vinna þætti málsins í réttri röð, en ekki ana út í kelduna.

Fjölmennur fundur arkitekta hefur varað sterklega við “óðagoti” í skipulagsmálum Skúlagötunnar. Við þau ráð má bæta, að meirihlutinn megi gjarna fara að afsanna, að hann sé skipaður æðibunustrákum, sem séu enn útbelgdir frá síðustu kosningum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Loforðin í erminni.

Greinar

Undarlegt er, hversu mikið stjórnmálamenn, og þar með taldir ráðherrar, geta talað án þess að hafa hugmynd um, hvað þeir eru að tala um. Viðbrögðin við vandræðum húsbyggjenda og -kaupenda eru skýrt dæmi um þetta.

Linun húsnæðisvandans var eitt helzta kosningamál flestra flokka í vor. Einna harðast gekk fram Sjálfstæðisflokkurinn, sem lofaði 80% lánum til 42 ára. Afhyglisverð var nákvæmnin í að tala um 42 ár, en ekki 40.

Þá þegar kom þó í ljós, að loforðasmiðir höfðu ekki minnstu hugmynd um, hvernig þeir ætluðu að framkvæma loforðið. Þeir lögðu ekki fram neinar áætlanir um fjármögnun eða aðrar áþreifanlegar upplýsingar.

Ekki hefur tekið miklu betra við hjá ríkisstjórninni, sem tók við eftir kosningar og lofaði að lána húsbyggjendum og -kaupendum 50% af verði staðalíbúðar til lengri tíma. Hún hefur verið í vandræðum með þetta loforð.

Til skamms tíma hefur loforðið yfirleitt verið skilið svo, að veðdeildarlán ríkisins ættu að hækka úr tæplega 20% í 50% og að lán lífeyrissjóða væru þar fyrir utan. Engin svör hafa þó fengizt, þegar um þetta hefur verið spurt.

Ef hins vegar öll lán ættu að vera innifalin í 50% loforðinu, væri sennilega ekki um neina aukningu lána að ræða, heldur eingöngu yfirfærslu úr frjálsu kerfi lífeyrissjóða inn í ríkisrekstur Húsnæðisstofnunarinnar.

Fyrri skýringin var raunar viðurkennd óbeint í fyrradag, þegar sagt var, að markmiðið mundi ekki nást í einum áfanga, heldur mundu veðdeildarlánin fyrst um sinn hækka í 30% af verði hinnar margumtöluðu staðalíbúðar.

Má þá líta svo á, að 50% markmiðið gildi fyrir kjörtímabilið í heild. Ríkisstjórnin ætli að hækka veðdeildarlánin í áföngum á fjórum árum úr 20% í 50%. Virðist það óneitanlega raunhæfara en kosningaloforðin voru.

Jafnframt hefur ríkisstjórnin samið við lánastofnanir um tiltölulega einfalda og ódýra breytingu á lausaskuldum húsbyggjenda og -kaupenda í fyrst fimm ára og síðan átta ára lán. Þetta hafa fáir notað sér enn.

Af þessum neyðarlánum er aðeins greitt 0,8% lántökugjald, en ekki 1,5% stimpilgjald. Um þessi lán má semja í þeim banka einum, sem er stærstur lánardrottinn, þótt lausaskuldirnar séu í hinum og þessum stöðum.

Ríkisstjórnin hyggst réttilega ganga lengra í að létta róður þeirra, sem hafa ráðizt í byggingu eða kaup síðan verðtrygging hófst. Vandi þeirra, sem sitja í súpunni, er áþreifanlegri en hinna, sem ekki eru byrjaðir.

Því miður virðist ríkisstjórnin og ráðgjafar hennar ekki hafa hugmynd um, hvernig eigi að framkvæma þessa afturvirkni, þótt hún sé mikilvægari en hækkun nýrra lána og ætti raunar að sitja í fyrirrúmi aðgerða.

Einnig er illt, að ríkisstjórnin skuli ekki finna neina leið til sparnaðar í fjárlagafrumvarpi og lánsfjáráætlun, sem rúmi húsnæðismálaloforð upp á 1,6 milljarða króna, – aðra en að mjólka lífeyrissjóðina.

Hætt er við, að ríkisstjórnin reyni að “leysa” vandann með því að taka húsnæðisfé af lífeyrissjóðunum og ríkisreka það, þannig að menn fái meira fé ríkismegin en minna lífeyrissjóðamegin. Heildarféð verði hins vegar lítið aukið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Blanda er of dýr.

Greinar

Stjórnvöld eru um þessar mundir að herða upp hugann og ákveða að fresta virkjun Blöndu um að minnsta kosti eitt ár. Með þessu og ýmsu öðru á að stöðva skuldasöfnun í útlöndum eftir margra ára eyðsluveizlu.

Virkjun Blöndu má gjarna bíða í eitt ár og helzt lengur. Fullgert orkuver við ána verður mun dýrara en upphaflega hafði verið reiknað með. Orkan þaðan verður svo dýr, að engum dettur í hug að byggja stóriðju á henni.

Samningar við land- og kindaeigendur hafa reynzt miklu dýrari en ráð var fyrir gert. Samningarnir áttu að nema 5% af virkjunarkostnaði, en eru nú komnir í tæp 10%, sem er hvorki meira né minna en 300 milljónir króna.

Inni í þessari tölu eru samningar um ræktun, vegi, girðingar og fleira, en ótalinn er kostnaður við kaup á vatnsréttindum, sem enn hefur ekki verið samið um. Svokallað landeigendaauðvald á því eftir að verða enn dýrara.

Þessar 300 milljónir einar, sem búið er að semja um, jafngilda einnar milljónar króna húsnæðisláni til þrjúhundruð húsbyggjenda. Af þessum samanburði má sjá, að orkuveri við Blöndu er ætlað að verða heimamönnum gullnáma.

Hið fyndna í málinu er, að minnkun kindahaga er ein helzta forsenda þessara samninga. Mönnum gæti því dottið í hug, að bezt væri að virkja sem mest til að losna við sem mest af högum, svo að ríkið hafi færri kindur á framfæri!

Annar hængur á virkjun Blöndu er, að ekki hefur tekizt að ná heildarsamningum um kjör við framkvæmdir. Heimamenn vilja hafa forgang að allri vinnu, en verktakar vilja nýta þjálfað starfslið, sem kann til slíkra verka.

Meðan ekki nást samningar um, að leyfilegt sé að nýta reynslu og þjálfun við virkjun Blöndu, er ekki nokkur ástæða til að byrja á neinu. Orkuver eru til að framleiða orku, en ekki til að framleiða uppgrip hjá heimamönnum.

Staðreyndin er líka sú, að baráttan fyrir virkjun Blöndu hefur löngum borið keim af, að verið sé að hugsa um atvinnu frekar en orku. Sú hefur líka verið reynslan af sumum fyrri virkjunum, til dæmis í Grímsá.

Menn eru þegar búnir að kaupa sér þunga flutningabíla og stofna bílaleigu til að vera tilbúnir, þegar gullæðið á að hefjast. Af Kröflu þykjast menn hafa lært, hvernig orkuver í byggingu sáldri peningum í kring.

Ekki virðist vera nein fyrirsjáanleg þörf á rafmagni frá Blöndu. Krafla er komin upp í 25 megawatta afl, sem enginn þarf að nota. Hún getur hæglega farið í 30 megawött. Samt hefur aðeins verið sett þar upp önnur vélasamstæðan.

Þá eru framkvæmdir við Þjórsársvæðið að leiða til betri nýtingar á orkuverum á þeim slóðum, orkuverum, sem ekki eru keyrð á fullu vegna skorts á viðskiptavinum. Því ætti nú að vera kominn tími til að hægja orkuvæðinguna.

Vafasamt hlýtur að teljast, að Svisslendingarnir í Alusuisse tími að kaupa Blöndurafmagn á hinu háa kostnaðarverði. Og markmið orkuvera getur tæpast verið að selja niðurgreitt rafmagn til stóriðju á kostnað almennings.

Við skulum því opna augun, setja kostnað Kröflu og rafmagnslína inn í dæmi Landsvirkjunar og komast að því, hversu dýrt rafmagn er í rauninni hér. Á meðan getum við sem hægast frestað virkjun Blöndu og reynt að finna ódýrari kost.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfölduð laxarækt.

Greinar

Laxarækt er að taka við sér hér á landi um þessar mundir. Í stöðvunum hafa í sumar komið á land tvöfalt fleiri laxar en í fyrrasumar. Þá voru laxarnir 5.400 samtals, en eru nú farnir að nálgast töluna 11.000.

Gaman væri, ef unnt væri að magna laxaræktina í þessum mæli ár eftir ár. Við ættum að geta það eins og Norðmenn, sem hafa aukið sína laxarækt úr 100 tonnum árið 1971 upp í 16.000 tonn á þessu ári og virðast hafa nægan markað.

Samt hafa Norðmenn haldið aftur af sínum laxaræktarmönnum. Þeir hafa orðið að sækja um leyfi til stjórnvalda, sem hafa verið afar spör á veitingar af ótta við, að allt færi úr böndum og markaðurinn hryndi.

Reynslan er hins vegar sú, að markaðurinn hefur aukizt í stíl við framleiðsluna. Norðmenn telja, að langt sé í, að markaðurinn fyllist. Þeir búast við stöðugu verði á laxi í náinni framtíð og eru bjartsýnni en áður.

Búizt er við, að eftir tvö ár verði laxarækt í Noregi orðin stærsta grein sjávarútvegsins. Það er ekki lítið afrek á skömmum tíma og hlýtur að vekja Íslendinga til hugsunar um, hvort ekki sé hægt að leika sama leikinn hér.

Richard F. Severson hjá Oregon Aqua Foods í Bandaríkjunum sagði nýlega í blaðaviðtali, að Ísland væri heppilegasta land í heimi til laxaræktar. Benti hann meðal annars á jarðhitann og hreina ferskvatnið á Íslandi.

Pétur Bjarnason sjávarútvegsfræðingur, sem kennir fiskeldi við Hólaskóla, hefur bent á, að Ísland liggi betur en Noregur við markaði í Bandaríkjunum, sem eru stærsta viðskiptaland norskra laxaræktarmanna.

Hið fáránlega sjóða- og forgangskerfi hér á landi hefur tafið framfarir í laxarækt. Menn fá sjálfvirk lán, ef þeir hyggjast rækta óþörf tún eða kaupa óþarfa skuttogara. Túnræktarmenn fá svo styrkina í ofanálag.

Fyrir bragðið eru ekki til peningar í lán handa laxaræktarmönnum. Við erum svo uppteknir við að styðja fortíðina, að við höfum ekki aðstöðu til að hyggja að framtíðinni. Þessu þarf umsvifalaust að breyta.

Við getum ímyndað okkur, hversu mikið væri hægt að gera í laxarækt, ef á hverju ári væri til ráðstöfunar andvirði svo sem eins óþarfs skuttogara. Við værum þá í fljúgandi framför eins og Norðmenn hafa verið undanfarin ár.

Mikil reynsla hefur þegar safnast fyrir í ræktunarstöðvum. Skúli á Laxalóni hefur verið í slagnum í þrjátíu ár. Jón í Lárósi hefur stundað reksturinn í tæpa tvo áratugi. Kollafjarðarstöð ríkisins er farin að skila árangri.

Farið er að kenna laxarækt við bændaskólana, svo að búast má við örari dreifingu þekkingar á næstu árum en verið hefur að undanförnu. Þessa kennslu mætti efla með samstarfi við laxaræktarmenn um verklega þjálfun.

Við höfum ekki bara hreina ferskvatnið og jarðhitann. Við höfum fóðrið í úrgangi fiskvinnslustöðvanna. Og við höfum daglegar flugsamgöngur til beggja átta yfir Atlantshafið. Við getum tekið forustu í laxarækt.

Á þessu ári munu Norðmenn hafa 3.800.000.000 króna gjaldeyristekjur af laxarækt. Okkur mundi muna um töluvert minna á tímum ofveiði og ofbeitar. Við skulum læra af Skúla á Laxalóni og Jóni í Lárósi og feta í fótspor þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiftursóknar-tíðindi.

Greinar

Ríkisstjórninni gengur vel að framkvæma leiftursókn sína. Það verða allir að játa, hvort sem þeir líta á stjórnarstefnuna sem leiftursókn gegn lífskjörum eða leiftursókn gegn verðbólgu og óhófslífi um efni fram.

Í síðasta mánuði hækkaði byggingarvísitalan ekki nema um 2,55% og lánskjaravísitalan aðeins um 1,34%. Skrautfjöðrin í hatti ríkisstjórnarinnar var þó framfærsluvísitalan, sem hækkaði nánast ekki neitt eða um 0,74%.

Sérstakar aðstæður hjálpa til að gera þessar tölur svona ótrúlega lágar. Ekki má búast við, að tölur næstu mánaða verði alveg jafnlágar. En engum getur dulizt, að verðbólgan er á dúndrandi niðurleið hér á landi.

Ýmislegt fleira hefur verið lagað en verðbólgan ein. Mikið af óskhyggju hefur verið skorið úr fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Samt má fullyrða, að enn séu þar inni óþarfir og skaðlegir liðir upp á hundruð milljóna.

Í gengismálum hefur ýmislegt verið lagfært. Sérstakur skattur á ferðamannagjaldeyri hefur verið lagður niður, svo að nú ríkir ekki tvöfalt gengi. Þá eru góðar horfur á, að gjafakjörum afurðalána verði breytt í gengistryggingu.

Ríkisstjórnin má þó hafa í huga, að gengisskráning er ónákvæmari mælikvarði en vísitala. Ríkisstjórnir geta til dæmis haft þá rangsnúnu hugsjón að falsa gengið með því að halda því föstu eins og þessi er að gera.

Þess vegna er út í hött að taka upp gengisviðmiðun á spariskírteinum ríkissjóðs í stað vísitölu. Við slíka breytingu er meiri hætta á krukki ríkisstjórna, sem hefur skaðleg áhrif á vilja manna til að spara peninga.

Óbeit á vísitölum getur gengið út í öfgar. Til dæmis er nú töluverð hætta á, að vextir verði lækkaðir örar en hjöðnun verðbólgunnar gefur tilefni til. Aldrei má ganga svo langt á því sviði, að vextir verði öfugir.

7% vaxtalækkunin fyrir helgina er örugglega á yztu nöf hins gerlega. Ríkisstjórnin má ekki verða of bráðlát í leiftursókninni. Enn hefur hún þó ekki hróflað við vöxtum á verðtryggðum reikningum né við þeim reikningum sem slíkum.

Sparnaðarandi verður seint ræktaður með Íslendingum, nema ár eftir ár og áratug eftir áratug sé þess gætt, að hagkvæmara sé að spara peninga en að eyða þeim. Sú er forsenda þess, að fólk leggi inn fé, sem síðan má lána út.

Ríkisstjórnin stefnir réttilega að óbreyttri skattabyrði. Nóg hefur verið lagt á fólk á þessu ári, þótt skattheimta sé ekki aukin í ofanálag. En slík stefna er auðvitað erfið á tíma ört minnkandi verðbólgu.

Erfiðast mun ríkisstjórninni reynast að standa við loforð sín og stjórnarflokkanna um lengri og hærri lán til íbúða. Þar sem fjárlagafrumvarpið er enn í óhæfilegum halla, hefur vandanum verið ýtt í lánsfjáráætlunina.

Þar verður ekki heldur um auðugan garð að gresja. Þegar skuldabyrði þjóðarinnar er komin upp undir 60%, er í mesta lagi hægt að slá ný lán fyrir afborgunum, en ekki til að auka byrðina. Eitthvað verður því undan að láta.

Einhver dráttur verður því væntanlega á, að ríkið byggi orkuver og draumóraverksmiðjur fyrir lánsfé á næstunni. Því má segja, að fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Peningaleysið er okkur raunar bráðhollt.

Jónas Kristjánsson

DV

Réttmæt útboð.

Greinar

Undanfarna daga hafa þeir í fjármálaráðuneytinu setið með sveitta skalla og kutana á lofti. Þeir hafa barið ráðherrana til niðurskurðar og sparnaðar. Með góðu eða illu á að takast að leggja fram hallalaust fjárlagafrumvarp, án þess að nýjum sköttum verði bætt við.

Fátt eitt hefur spurzt út um einstök sparnaðaráform. Eflaust mun mörgum kerfiskarlinum bregða illilega í brún, þegar hann sér rekstur og fjárfestingar skornar niður við trog. Þá munu einhverjir reka upp ramakvein.

Eitt slíkt heyrðist um leið og fréttist af sparnaðarhugmyndum í heilbrigðiskerfinu. Ákveðið hefur verið að bjóða út ýmsa þjónustu á vegum ríkisspítalanna, þar á meðal mötuneyti og þvottahús.

Hlaupið er upp til handa og fóta, kyrjaðir stríðssöngvar yfir starfsfólki og hótað harkalegum viðbrögðum. Starfsmönnum þvottahúsa og mötuneyta er smalað á fundi, þar sem rekinn er harður hræðsluáróður. Uppsagnir eru sagðar vofa yfir hundruðum starfsmanna.

Von er, að starfsfólkinu bregði í brún og að það sjáist með áhyggjusvip við svo alvarleg tíðindi. Nú er það auðvitað ekkert gamanmál, ef rétt reynist, að hundruð manna missi vinnu og laun nánast fyrirvaralaust. Slíku tekur enginn með þögninni einni.

En sem betur fer er ekkert slíkt í uppsiglingu. Það eina, sem gerzt hefur, er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að bjóða út þá þjónustu, sem hér um ræðir. Hún vill vita, hvort til séu þeir aðilar, sem treysta sér til að veita þjónustuna fyrir minni kostnað.

Ef það er rétt, sem fullyrt er á framangreindum vinnustöðum, að ekki sé unnt að lækka rekstrarkostnað mötuneyta og þvottahúsa, þá þarf enginn að óttast neitt.

Ef tilboð bera það hins vegar með sér, að sparnaður sé framkvæmanlegur, þá hlýtur starfsfólk að geta unað því, enda felst rekstrarkostnaður allrar þjónustu í fleiru en launum einum.

Ennfremur hlýtur að vera ljóst, að engin ástæða verður til að hrófla við núverandi fyrirkomulagi, ef tilboðin reynast aðeins óverulega lægri en núverandi kostnaður.

Altjend er augljóst, að upplýsingar, sem fást úr tilboðunum, verða ríkjandi rekstrarformi til styrktar, ef þau verða hærri eða jafnhá. Þær eyða þá í eitt skipti fyrir öll þeim misskilningi, að rekstur þessara stofnana sé of dýr.

Ef á hinn bóginn kemur fram, að framleiða megi sjúkrafæði og annast þvotta sjúkrahúsa fyrir upphæðir, sem séu mun lægri en þær, sem nú tíðkast, verður ekki séð, hvernig ríkisstjórn eða starfsliði sé stætt á að koma í veg fyrir sparnað.

Skattborgarar geta ekki tekið því með þögninni, að bruðlað sé með opinbert fé á þann hátt, að rekstrarformi sé ekki breytt, þótt breyting jafngildi lægri útgjöldum ríkissjóðs. Flest viljum við borga minni skatta. Flest viljum við minnka óþörf umsvif.

Flest viljum við, að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi. Ríkisfyrirtæki mega ekki hafa leyfi til að halda uppi atvinnubótavinnu fyrir meira fé en þarf til þjónustunnar, eins og aðrir geta rekið hana.

Hvernig sem á mál þetta er litið, er ekki eðlilegt að gagnrýna, að útboða sé leitað. Hver eftirleikurinn verður, fer auðvitað eftir tilboðum. Við skulum anda rólega á meðan. Ramakveinin mega bíða síðari tíma.

Jónas Kristjánsson.

DV

Mörg er matarholan ósnert

Greinar

Þrefaldur vandi steðjar að ríkisstjórninni í tilraunum hennar við að koma frá sér skynsamlegum frumvörpum til fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Ólíklegt er, að henni takist þetta nema með róttæku hugarfari niðurskurðar.

Einn vandinn er, að í eindaga er komið að stöðva frekari útþenslu ríkisbáknsins, sem orðin er öðrum aðilum þjóðarbúsins óbærileg, bæði almenningi og fyrirtækjum. Nú er ekki seinna vænna fyrir ríkið að taka sig á eins og aðrir.

Annar vandinn er, að í eindaga er komið að stöðva frekari stækkun skuldasúpu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, sem farin er að stefna efnahagslegu sjálfstæði okkar í voða. Þetta takmarkar svigrúm lánsfjáráætlunar.

Þriðji vandinn er, að í eindaga er komið að stöðva hrun sjálfseignarstefnunnar í húsnæðismálum, sem farin er að leiða til gjaldþrota margra fjölskyldna. Finna þarf peninga til að auka lánin og lengja þau.

Til þess að verjast þessum þrefalda vanda á skynsamlegan hátt verður ríkisstjórnin að skera niður ýmsa liði, sem hingað til hafa þótt heilagir í fjárlagafrumvörpum, þótt þeir séu í rauninni beinlínis skaðlegir þjóðarhag.

Fyrst er að nefna niðurgreiðslur landbúnaðarafurða, sem náðu 839 milljónum króna í síðasta fjárlagafrumvarpi. Þetta fé skekkir neyzluvenjur þjóðarinnar og dylur fyrir henni, hve sjúklega dýrt er að halda kindur og kýr.

Næst má geta útflutningsuppbóta landbúnaðarafurða, sem námu 263 milljónum króna í síðasta fjárlagafrumvarpi. Þessu fé er hreinlega hent í sjóinn, enda vilja útlendingar tæpast borga flutningskostnaðinn einan.

Í þriðja lagi eru margir liðir, sem hvetja til aukinnar fjárfestingar í landbúnaði kúa og kinda, þar sem fjárfesting er of mikil fyrir. Í rauninni er brýnt að stöðva frekari fjárfestingu á þessu rándýra sviði.

Í síðasta fjárlagafrumvarpi námu jarðræktarframlög, Stofnlánadeild landbúnaðar, búfjárræktarframlög, jarðeignir ríkisins, Jarðasjóður og Landnám ríkisins 101 milljón króna, stærstur hlutinn í fyrstu tveimur liðunum.

Í fjórða lagi hefur ríkið létt af bændum byrðum, sem aðrar stéttir þjóðfélagsins verða að bera, þar á meðal aðrir einyrkjar. Í síðasta fjárlagafrumvarpi nam Lífeyrissjóður bænda 10 milljónum og afleysingaþjónusta bænda 6 milljónum.

Í fimmta lagi greiðir ríkið kostnað stofnana í landbúnaði og sjávarútvegi umfram hliðstæðan kostnað í öðrum greinum, svo sem iðnaði og verzlun. Í síðasta fjárlagafrumvarpi nam Búnaðarfélagið 12 milljónum og Fiskifélagið 8 milljónum.

Í sjötta lagi greiðir ríkið niður lán til landbúnaðar umfram aðra atvinnuvegi í þjóðfélaginu. Í síðasta fjárlagafrumvarpi hét einn liðurinn “lántökukostnaður vegna landbúnaðar” og nam 55 milljónum króna.

Í sjöunda lagi ver ríkið hrikalegum fjárhæðum til að hvetja til hvers konar óarðbærrar fjárfestingar. Í síðasta fjárlagafrumvarpi nam Ríkisábyrgðasjóður 20 milljónum og Byggðasjóður 69 milljónum króna, allt í sandinn og sjóinn.

Samanlagt nema þessar tölur 1.383 milljónum króna og er þó ótalmargt ekki talið, svo sem blaðastyrkir upp á 4 milljónir. Ríkisstjórnin getur því af ýmsu skaðlegu tekið til að létta sér lausnina á hinum þrefalda vanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Ósigurinn má lagfæra.

Greinar

Enn einu sinni sjá menn ekki handaskil í moldviðri stjórnmálamanna út af Alusuisse. Fremur lélegt bráðabirgðasamkomulag í Zürich kallar Sverrir Hermannsson “ótrúlegt afrek” og Hjörleifur Guttormsson “kverkatak”.

Hvorugt er rétt, fremur en aðrar fullyrðingar slagsmálaliðs flokkanna í máli þessu. Samkomulagið er hvorki algott né alvont, heldur bara lélegt. Það er hversdagslegur ósigur, svo sem rakið var hér í blaðinu fyrir réttri viku.

Athyglisvert er, að þrasararnir eru sammála um, að samkomulag á borð við þetta hefði getað náðst fyrir tæplega þremur árum, þegar Hjörleifur Guttormsson, þáverandi orkuráðherra, var hinn stirðasti í viðræðum.

Hækkun orkuverðs upp í 9,5-10 verðeiningar hefði verið sanngjörn bráðabirgðalausn fyrir tæpum þremur árum, þótt Hjörleifur segi annað. En þar með er ekki sagt, að slík bráðabirgðalausn sé sanngjörn nú, þótt Sverrir segi það.

Fyrir þremur árum var álmarkaður og álverð á niðurleið. Álverum var lokað víða um heim. Þá bundust álhringar fastari samtökum í vörninni. Árangurinn er orðinn sá, að álverð fer ört hækkandi og álskorts verður vart.

Við þessar nýju aðstæður hefði 13 eininga bráðabirgðaverð mátt leysa þriggja ára gamalt 10 eininga verð af hólmi. En svo virðist því miður, að ráðuneyti og samninganefnd hafi ekki hirt um að kynna sér síðustu þróun mála.

Svo kærulaust er ráðuneytið, að nýjasta skýrsla Coopers & Lybrand, sem barst ráðuneytinu fyrir síðustu mánaðamót, var látin liggja þar ólesin og ekki einu sinni afhent samninganefnd Íslands til sálarstyrkingar.

Athyglisvert er, að af hálfu uppgjafarliðs hins opinbera hefur meiri áherzla verið lögð á að sannfæra þjóðina um, að úti í heimi sé orkuverð sums staðar eins lágt og hér, heldur en að sannfæra svissneska viðsemjendur um íslenzka einurð.

Hvað sem þetta lið segir, þá hefur heimsmarkaðsverð á orku til álvera verið um og yfir 20 verðeiningar í nokkur ár. Það kann að hafa farið lítillega niður fyrir 18 einingar í fyrra í kjölfar mesta offramboðsins á áli.

Nú er hins vegar álverð á uppleið sem fyrr segir. Eðlilegt er að búast við, að orkuverðið fylgi fast á á eftir og að á allra næstu árum verði samið um hærra en 20 eininga verð til nýrra álvera og stækkaðra.

Hjörleifur Guttormsson átti fyrir tæpum þremur árum að láta semja um 9,5-10 verðeiningar, sem hann reyndist ekki geta. Nú í ár átti Sverrir Hermannsson að láta semja um 13 verðeiningar, sem hann hefur ekki reynzt geta.

Samningamenn Íslands hafa sér það réttilega til afsökunar, að samkomulagið er aðeins til bráðabirgða og felur í sér, að samið verði upp á nýtt fyrir 1. apríl á næsta ári. Þá er ætlunin að semja um heimsmarkaðsverð.

Sá galli er að vísu á gjöf Njarðar, að verðið dettur aftur niður í 6,5 einingar ef ekki næst heildarsamkomulag um nýtt orkuverð, stækkun álversins, nýjan eignaraðila og um sættir í nokkrum illræmdum ágreiningsefnum.

En á þessu stigi er ekki hægt að afskrifa samkomulag í marz um 17-20 eininga orkuverð til álversins í Straumsvík. Þess vegna er Zürich-samkomulagið ekki vont, heldur bara lélegt. Það er ósigur, sem unnt er að laga í vetur.

Jónas Kristjánsson

DV

Æði máttar og megins.

Greinar

Tveimur vikum eftir fjöldamorðið á 269 manns í kóreanskri farþegaþotu hafa sovézk stjórnvöld ekki enn beðizt afsökunar. Það gerðu þó búlgörsk stjórnvöld árið 1955, þegar þar var skotin niður ísraelsk farþegaþota með 58 manns.

Eftirleikur fólskuverskins mikla er næstum því eins athyglisverður og verkið sjálft. Sovézk stjórnvöld hafa flutt hinar fjölbreyttustu útleggingar. Þau hafa jafnan haft nýjar á hraðbergi, þegar hinar eldri hafa verið hraktar.

Í fyrstu þóttust þau ekkert vita um málið. Næst sögðu þau, að villuráfandi þota hefði fengið aðvörun og horfið á brott út yfir Japanshaf. Í þriðja lagi sögðu þau, að skotið hefði verið aðvörunarskotum og þotan farið í burtu.

Fjórða útgáfan var, að Boeing 747 farþegaþotan hefði verið tekin í misgripum fyrir RC-135 njósnaþotu frá Bandaríkjunum. Samt er hin síðarnefnda helmingi minni og hefur ekki kryppu á bakinu eins og farþegaþotan.

Síðasta útgáfan kom svo viku eftir fólskuverkið. Þá sögðu sovézk stjórnvöld, að “stöðvað” hefði verið flug kóreönsku farþegaþotunnar. Ennfremur sögðu þau, að þotan hefði verið í njósnaflugi fyrir Bandaríkin.

Þannig séð hafi sovézk hermálayfirvöld aðeins verið að gera skyldu sína við að verja sovézk landamæri gegn sífelldum ágangi bandarískra heimsvaldasinna, sem bæru einnig ábyrgð á aftöku 269 manns. Svo einfalt var það.

Í öllu þessu flókna safni undanbragða héldu sovézk stjórnvöld því meira að segja fram, að kóreanska þotan hefði verið ljóslaus á flugi. Hljóðupptökur sýndu þó, að sovézku flugmennirnir gátu lýst ljósum þotunnar.

Augljóst er af hljóðupptökum samskipta sovézku herþotumannanna og yfirmanna þeirra á jörðu niðri, að fólskuverkið var ekki stundaræði, heldur beinlínis skipulagt af sjálfu kerfinu, sovézku vígvélinni.

Mál þetta er jafnóþægilegt, hvort sem Andropov og æðstu valdamenn Sovétríkjanna hafa fengið að vita um það fyrirfram eða ekki. Ef ekki, þá er sýnt, að vígvélin getur leikið lausum hala, varin af síðari undanbrögðum stjórnvalda.

Komið hefur í ljós, að fjöldamorðið hefur lítil áhrif á almenningsálitið í Sovétríkjunum. Jafnvel þeir, sem heyra sannleikann í málinu, eru svo meðteknir af innilokunaræði kerfisins, að þeir láta sér fátt um finnast.

Fjöldamorðið er óhjákvæmileg afleiðing kerfis, sem hefur áratugum saman magnað með sér innilokunaræði, er einnig kemur fram í skipulegu ofbeldi þess út á við. Meira að segja fólkið í landinu hefur snert af þessu æði.

Einnig hefur komið betur en áður í ljós, að sovézk stjórnvöld láta sér alls ekki bregða við almenningsálit á Vesturlöndum. Þau yppta öxlum, þegar allt fer á annan endann í fordæmingu á viðurstyggð þeirra.

Ef sovézk stjórnvöld telja sig geta notað vestrænt almenningsálit til að bæta hlutfallsstöðu sinnar vígvélar, eru þau ánægð og notfæra sér það. Ef þetta álit er þeim hins vegar andsnúið að öðru leyti, er þeim fjandans sama.

Þeir, sem láta myrða 269 manns í farþegaþotu til að sýna mátt sinn og megin, glotta við tönn, þegar vestrænir friðarsinnar hamla gegn viðbúnaði vestrænna stjórnvalda. Þeir sjá þá fram á að geta enn betur sýnt mátt sinn og megin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Verðmætt kálfafóður

Greinar

Aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkti í síðustu viku að hvetja bændur til að draga ekki úr framleiðslu mjólkur. Þetta lýsir sérstæðum skoðunum stjórnenda landbúnaðarins á því, hver sé hæfilegur markaður fyrir mjólkurvörur.

Nærri helmingur allrar mjólkur á Íslandi fer í vinnslu af ýmsu tagi. Sú vinnsla er í flestum tilvikum svo rosalega dýr, að afurðirnar væru óseljanlegar, ef þær þyrftu að sæta samkeppni við hliðstæðar vörur innfluttar.

Verst er ástandið í smjörinu. Neytendur og skattgreiðendur þurfa að borga fyrir það um það bil tíu sinnum hærra verð en væri á innfluttu smjöri, ef markaðurinn væri frjáls.

Í vetur eiga að hefjast umfangsmiklir flutningar á mjólkurvörum á milli landshluta. Það stafar ekki af skorti á neyzlumjólk á einokunarsvæði Mjólkurbús Flóamanna, heldur er það til að gera búinu kleift að framleiða duft úr undanrennu.

Flutningar þessir eiga að kosta um tvær milljónir króna. Ofan á vinnslukostnað, sem nemur rúmum sjö krónum á kílóið, á að koma fjórtán króna flutningskostnaður. Þar með komast tveir kostnaðarliðir upp í 21 krónu á kílóið.

Þetta duft er síðan selt ofan í kálfa fyrir tæpar þrettán krónur á kílóið. Mismunurinn verður greiddur úr svokölluðum flutningsjöfnunarsjóði, sem er þáttur í verðlagningu búvöru, auðvitað greiddur af neytendum og skattgreiðendum.

Hinir fyrirhuguðu flutningar á undanrennu eru gott dæmi um takmarkalausa óskammfeilni ráðamanna landbúnaðarins. Þeir líta á neytendur og skattgreiðendur sem viljalausa þræla í eigu landbúnaðar kúa og kinda.

Um leið eru flutningarnir alvarlegur vitnisburður um svokallaða framleiðslustjórnun í hinum hefðbundna landbúnaði kúa og kinda. Stjórnunin felst í að framleiða mjólk við Lómagnúp og kindakjöt í Mosfellssveit.

Auðvitað samþykkti aðalfundur Stéttarsambands bænda, að slík framleiðslustjórnun með tilheyrandi margföldun flutningskostnaðar yrði einnig tekin upp í framleiðslu kjúklinga, eggja, svínakjöts og annarra óæðri búgreina.

Kjúklinga-, eggja- og svínabændur eru auðvitað ekki taldir menn með mönnum í þessum hópi. Þeir hafa ekki einu sinni málfrelsi á fundum Stéttarsambandsins, hvað þá tillögu- og atkvæðisrétt. Þar gilda aðeins kýr og kindur.

Enginn mannlegur máttur virðist geta komið í veg fyrir, að ráðamenn landbúnaðarins komi á fót framleiðslustjórnun í fleiri búgreinum. Eggjaeinkasalan verður fyrsta skrefið og síðan mun svínakjötseinkasalan fylgja í kjölfarið.

Þá verður hafin framleiðsla á eggjum í smáum stíl í afdölum sem lengst frá markaðinum. Hinn mikli kostnaðarauki verður reiknaður inn í verðið, fyrst á kostnað neytenda og síðan einnig skattgreiðenda, þegar niðurgreiðslurnar koma.

Ævintýri á borð við flutninga kálfafóðurs milli landshluta eru einmitt að hefjast í þann mund, er tekjur heimilanna hafa skerzt um 20% eða meira. Þannig ríkir hinn hefðbundni landbúnaður utan og ofan við íslenzkan raunveruleika.

Spurningin er, hvort neytendur og skattgreiðendur rísi einhvern tíma upp eins og húsbyggjendur og -kaupendur gerðu um daginn. Munu þeir einhvern tíma varpa af sér okinu?Jónas Kristjánsson

DV