Greinar

Röskun er góð

Greinar

Íslendingar eru stöðugt á faraldsfæti. Þeir kippa sér ekki upp við að taka saman föggur sínar og flutjast til annarra landshluta eða milli landa. Þeir hlusta ekki á lélega fræðinga, sem harma þessa röskun á háttum manna.

Um 60% þjóðarinnar eða samtals um 124.500 manns hafa fluzt búferlum milli landshluta á síðustu tólf árum. Hefur þetta síðasta tímabil samt þótt fremur rólegt í samanburði við fyrri áratugi aldarinnar þegar þjóðin flúði á mölina.

Athyglisvert er, að hinn hægfara flutningur fólks úr strjálbýli í þéttbýli og af landsbyggðinni til suðvesturhornsins er ekki nema brot af hinum gífurlega flutningi fólks milli landshluta, sem mældur var í tölum hér að ofan.

Tökum Vestfirði sem dæmi. Þeir töpuðu bókhaldslega séð 1.166 manns á þessum tólf árum. En í rauninni töpuðu Vestfirðir 7.687 manns og fengu 6.521 í staðinn. Niðurstöðutalan upp á 1.166 manns segir ekki nema brot af allri sögunni.

Við getum sagt sem svo, að Vestfirði hafi skort aðstæður til að halda 7.687 manns. En þeir hafa líka haft aðstæður til að krækja í 6.521 mann, því að sá mikli fjöldi hefur auðvitað verið að sækjast eftir einhverju.

Sumt af þessu er líklega sama fólkið, sem flyzt oft búferlum. En það breytir því ekki, að Íslendingar eru að meðaltali afar fúsir til að flytja sig um set og freista gæfunnar á nýjum stað, fjarri fyrri rótum.

Ef til vill er þetta sögulegur arfur þjóðarinnar. Forfeður okkar tóku sig upp í öðrum löndum fyrir ellefu öldum og lögðu í tvísýna ferð yfir úthafið til að setjast að í ókunnu landi. Það var gífurleg röskun á högum þeirra.

Í þá daga sóttust ungir Íslendingar líka eftir því að komast úr landi um árabil til að afla sér fjár og frama, áður en þeir komu aftur til að setjast í helgan stein. Sú röskun þótti sjálfsagt uppeldisatriði.

Konan Guðríður Þorbjarnardóttir sló þó öllum við með því að halda heimili í Ameríku, Grænlandi og Íslandi og hafa samt tíma til að heimsækja Rómaborg. Enginn jarðarbúi var jafnvíðförull á þeim tíma og þessi íslenzka kona.

Brezki sagnfræðingurinn Arold Toynbee hefur tekið Íslendinga sem eina röksemd kenningar sinnar um, að röskun sé einn helzti hvati eða þróunarvaldur menningarsögunnar. Hlutirnir gerist, þar sem fólk sé á faraldsfæti.

Hann telur, að ritlist Íslendinga á miðöldum hafi blómstrað sem afleiðing röskunarinnar að fara yfir úthafið, – að brjóta allar brýr að baki sér, – að yfirgefa norska eða brezka heiðardalinn og halda á vit hins ókunna.

Enn á okkar tíma eru Íslendingar að flytjast. Námsfólk lætur sér fátt um finnast, þótt það þurfi að yfirgefa ættingja og vini og halda með eina eða tvær ferðatöskur til ókunnra landa til margra ára námsvistar.

Og innanlands flytja menn sig um set í samræmi við breyttar aðstæður og nýja möguleika. Á meðan einn er að fara úr sveit á möl og annar af mölinni á suðvesturhornið eru tveir aðrir að fara þessa slóð í hina áttina.

Við skulum ekki trúa lélegum fræðingum, sem segja þessa röskun óholla. Við skulum hallast að hinum, sem segja, að stöðug röskun lífshátta okkar sé ein helzta forsenda efnahagslega og menningarlega öflugs þjóðfélags á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir skilja ekki.

Greinar

Stundum eiga stjórnmálamenn erfitt með að skilja, hvers vegna þeir verða viðskila við fólkið. Þeir halda, að alþingi sé nafli alheimsins og flokkssamþykktir hinn endanlegi sannleikur.

Þeir taka sjálfa sig hátíðlega og líta á kjósendur sem atkvæði til valdabrúks. Þeir loka sig inni í eigin hugarheimi og týna sjálfum sér í innbyrðis karpi um orð og tölur.

Pólitískar skylmingar, orðaskak og smásmugulegt þref á vettvangi stjórnmálanna á sjaldnast mikið erindi til almennings, enda fara slíkar deilur oftast fyrir ofan garð og neðan.

Allt hefur þetta orðið til þess, að fólkið fjarlægist pólitíkina og hefur takmarkað álit á flokksnefnunum. Það er engin tilviljun, að risið hafa upp hreyfingar utan við alla stjórnmálaflokka, þá sjaldan almenningi verður heitt í hamsi.

Þannig varð til jafnréttishreyfing kvenna, þannig var friðarhreyfingu hrundið af stað, borgarasamtökum skattgreiðenda og nú síðast hagsmunasamtökum húsbyggjenda og húskaupenda.

Allar þessar hreyfingar hafa fundið sér farveg framhjá hinum hefðbundnu pólitísku samtökum af þeirri einföldu ástæðu, að þáttakendur þeirra telja vonlaust, að nokkur flokkur geti eða vilji leiða slík mál fram til sigurs.

Flokkarnir hafa svosem flaggað fögrum fyrirheitum og fallegum flokkssamþykktum um allt milli himins og jarðar, en því miður hefur reynslan sýnt, að orð og efndir eru sitthvað. Kosningaloforðin eru fljót að gleymast, þegar atkvæðin hafa verið talin.

Tökum dæmi: Sjálfstæðisflokkurinn gerði það að einu höfuðmáli sínu í kosningabaráttunni í vor, að tekjuskattar skyldu lækkaðir á almennum launatekjum. Í orði kveðnu var því haldið fram, að ríkisstjórnin hefði samið um þetta.

Menn hafa beðið spenntir eftir efndunum. En viti menn. Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Ráðherrarnir kvarta og kveina undan slæmri stöðu ríkissjóðs.

Skyndilega hafa þeir uppgötvað, að ekkert svigrúm verður fyrir skattalækkanirnar marglofuðu. Þær verða að bíða betri tíma, segja þeir og stynja þungan undan ábyrgðinni. Já, hvers virði er eitt stykki kosningaloforð, þegar sjálfur ríkiskassinn er annars vegar?

Þetta er gömul saga og ný. Þeim snýst hugur, blessuðum stjórnmálamönnunum, þegar á hólminn er komið. Aðalatriðið er að blekkja kjósendur með fögrum loforðum fyrir kosningar, í þeirri von, að atkvæðin fleyti frambjóðendum til æðstu metorða.

Þá tekur alvaran við, að þeirra mati. Þá mega loforðin sín lítils frammi fyrir sjálfri alvörunni. Sjálfstæðisflokkurinn er hvorki betri né verri en aðrir í þessum loddaraleik. Það vill bara svo til, að skattalækkunarloforðið var óvenju hástemmt í síðustu kosningabaráttu og fólk hefur ekki enn gleymt því.

Ekki þarf almenningi að koma svo mjög á óvart þótt enn eitt loforðið verði svikið. Sjálfsagt kippir sér enginn upp við væntanlegan hringsnúning. Hann er ekki nýr af nálinni. Hann er meira að segja það sem fólk gerir ráð fyrir.

Í því liggur einmitt skýringin á máttleysi stjórnmálaflokkanna. Fólk hefur glatað trausti sínu á þeim. Það veit sem er, að stjórnmálamennirnir renna á rassinn, kokgleypa fullyrðingar og hafa lítið sem ekkert þrek til að standa við gefin loforð og háleitar hugsjónir.

Þegar fólkið vill sjá hagsmunum sínum borgið, grípur það til eigin ráða og stofnar sín eigin samtök. En flokkarnir skilja ekki.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kinda- og kúafrumvarp.

Greinar

Ekki er við að búast, að ný ríkisstjórn geri nein kraftaverk við smíði fyrsta fjárlagafrumvarpsins. Til þess hefur hún of skamman tíma. Enda hefur gerð frumvarpsins fyrir árið 1984 að flestu leyti verið með hefðbundnum hætti.

Safnað hefur verið saman óskhyggju allra ráðuneyta og opinberra stofnana í einn pakka, sem reynist eins og venjulega vera allt of stór. Hingað til hefur vandinn verið “leystur” með því að þenja út ríkið á kostnað annarra.

Samneyzlan eða rekstur hins opinbera hefur vaxið á hverju ári að undanförnu, meðan þjóðartekjur hafa minnkað. Atvinnuvegir og almenningur hafa tekið allar byrðarnar, en hið opinbera engar. Þetta er auðvitað út í hött.

Ekki er vitað, hver samneyzlan verður á þessu ári. Tekjur ríkisins hafa minnkað, til dæmis af innflutningi hátollavöru á borð við bíla. En þjóðartekjurnar hafa einnig minnkað, svo að hlutdeild ríkisins gæti vel hafa staðið í stað.

Með tveggja milljarða króna niðurskurði á óskhyggju hins opinbera, sem ríkisstjórnin þykist geta náð, ætti hlutdeild ríkisbúsins í þjóðarbúinu ekki að vaxa á næsta ári. Segja má, að það sé sæmilegur árangur í fyrsta áfanga.

Hitt er svo forkastanlegt að ná þessum árangri með því að skera niður ótal gagnlega hluti, en halda inni óbreyttum stuðningi við fáránlegan búskap með kindur og kýr. Sá stuðningur hefur oft verið um 10% fjárlaganna.

Fjármögnun framkvæmda og rekstrar í kúa- og kindabúskap er stærsta verkefni ríkissjóðs. Krabbameinsþensla hins opinbera verður ekki stöðvuð af alvöru, fyrr en landbúnaðarstuðningurinn verður skorinn niður.

Þá hefur í vaxandi mæli tíðkazt sá ósiður að láta fjárlög ganga upp hallalaust á yfirborðinu, en setja afganginn af óskhyggjunni í lánsfjáráætlun. Því er marklaust að tala um niðurstöður fjárlagafrumvarps einar sér.

Hinar hrikalegu lánsfjáráætlanir hins opinbera eru einmitt meginþáttur hinnar óbærilegu skuldasöfnunar í útlöndum. Mikið af því fé fer til gagnlegra hluta, en menn verða að sníða sér stakk eftir vexti og gera ekki allt í einu.

Ekki verður hægt að meta fjárlagafrumvarpið og væntanlegan niðurskurð þess, nema hafa lánsfjáráætlunina til hliðsjónar. Raunar ætti að vera föst regla að hafa þessi tvö frumvörp í einu og sama frumvarpinu.

Nú eins og áður er vandinn sá, að ríkissjóður er eini aðilinn í landinu, sem skammtar sár tekjur. Heimili og fyrirtæki landsins eru vön að láta tekjurnar ráða útgjöldum, en ríkið lætur útgjaldaóskhyggju ráða tekjunum.

Þessi vandi er óviðráðanlegur, þangað til ráðamenn fara að byrja fjárlagagerð á að ákveða, hver skuli vera hluti opinbers rekstrar og opinberra framkvæmda af þjóðarbúinu í heild og finni sér á þann hátt lokaðan ramma.

Síðan á að skipta niðurstöðutölunum milli ráðuneyta og svo milli stofnana og verkefna, en ekki öfugt eins og nú er gert. Þá verða fjárlagasmiðir að sæta því að leggja niður gamla starfsemi, ef þeir telja nýja brýnni.

Við skulum vona, að næst verði svigrúm til slíkra vinnubragða. Á meðan skulum við meta þetta fjárlagafrumvarp eftir því, hvernig ríkisstjórnin velur þar milli fjármögnunar kúa og kinda annars vegar og íbúðalánakerfisins hins vegar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðji ósigurinn.

Greinar

Við höfum beðið þriðja ósigurinn í þremur samningum við Alusuisse. Í Zürich í gær var aðeins samið um 50% bráðabirgðahækkun rafmagnsverðs til Ísals. Það er hækkun úr tæplega sjö verðeiningum upp í tæplega tíu.

Þetta er að vísu aðeins bráðabirgðasamningur, sem á að gilda, meðan frekari samningaviðræður standa yfir. Ekki er því loku fyrir það skotið, að sanngjarnt orkuverð til Ísals náist eftir um það bil eitt ár eða svo.

Fyrir tveimur og hálfu ári og jafnvel fyrir einu ári hefði verið í lagi að semja við Alusuisse um svo sem 9,5 verðeiningar fyrir rafmagnið til bráðabirgða, meðan samið væri í alvöru. Þá voru tímarnir allt aðrir en nú.

Til skamms tíma var töluverð kreppa í álframleiðslu í heiminum. Birgðir hlóðust upp, hægt var á vinnslu í mörgum álverum og öðrum var hreinlega lokað. Verð á áli var lágt og fór lækkandi. Þá var erfiðara að réttlæta orkuhækkun.

Nú hefur þetta breytzt með samstilltu átaki einokunarhrings hinna sex stóru fjölþjóðafyrirtækja, sem ráða álmarkaðnum. Þau eru Alcan, Aloca, Reynolds, Kaiser, Pechiney og svo auðvitað Alusuisse, sem við þurfum að glíma við.

Ál hefur tekið við af tini sem aðalefni í dósum. Ál hefur tekið við af kopar sem aðalefni í köplum. Og ál hefur tekið við af stáli sem aðalefni í sumum hlutum bifreiða. Þetta hefur auðveldað hinum sex stóru að laga álverðið.

Í fyrsta skipti í sögunni er ál orðið dýrara en kopar. Í síðustu viku komst verð áls á Lundúnamarkaði upp í 46 krónur á kílóið. Álskorturinn er svo mikill, að Alcoa varð nýlega að kaupa ál til að standa við sölusamninga.

Þetta eru auðvitað kjörnar aðstæður til samninga um hækkað verð á rafmagni til álvera. Aftur eru komnir gróðatímar í álframleiðslu. Og allir vita, að bókfært tap á einu álveri er einfaldur bókhaldsleikur fjölþjóðafyrirtækja.

Við áttum því að ná betri samningum í Zürich í gær en raun varð á. Verðið, sem samið var um, hefði raunar átt að vera í gildi síðasta hálft þriðja árið. En nú átti að vera hægt að semja um hærra verð, til dæmis 13 verðeiningar.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra er bjartsýnn og segist búast við, að rafmagnsverðið til Ísal nái að lokum 17-20 verðeiningum. Vonandi verður honum að þeirri ósk, þótt samningurinn í Zürich gefi ekki tilefni til bjartsýni.

Ekki eru ámælisverð önnur atriði þess samnings en rafmagnsverðið eitt. skynsamlegt var að setja ágreininginn um skattana annars vegar og súráls- og rafskautaverð hins vegar í einfalda og tiltölulega fljótvirka gerðardóma.

Ennfremur var rétt að fallast á hugmyndir Alusuisse um stækkun álversins og nýjan hluthafa, sem gæti orðið Norsk Hydro. Ástæðulaust er þó að gera sér neinar grillur um, að Norðmenn verði ljúfari í samningum en Svisslendingar.

Sú stækkun er alténd háð því, að endanlega náist samkomulag um orkuverð, sem Íslendingar geta sætt sig við. Og það sanngjarna orkuverð er örugglega ekki innan við 17 verðeiningar eins og forsætisráðherra hefur réttilega sagt.

En á meðan við hírumst mánuðum og misserum saman við tæplega tíu verðeiningar, er rétt að ítreka efasemdir um, að hinir ljúfu samningamenn okkar eigi nokkurt erindi í hörkutólin frá Sviss, sem hafa þrisvar leikið á okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Akureyri og Þórshöfn.

Greinar

Eðlilegri endurnýjun fiskiskipaflotans á Akureyri er haldið niðri af gegndarlausri smábyggðastefnu, sem vill togara í hvert sjávarpláss kjördæmisins. Þessi stefna hefur leitt til offjölgunar togara og síðan til banns á nýjum togurum.

Hinir gífurlegu fjármunir sem runnið hafa úr Framkvæmdastofnun og öðrum sjóðum til smábyggðanna, hafa um leið heft viðgang hinna lífvænlegri byggða. Þær hafa orðið undir í samkeppninni um skömmtunarfé hins opinbera.

Akureyri hefur verið í of hægum vexti vegna forgangs smábyggðastefnunnar. Þar er þó tækniþekking til eflingar margvíslegs iðnaðar og ýmis þjónusta, sem hann þarf. Auk þess er þar betri útgerðarþekking en víða annars staðar.

Ef menn vilja beina fjármagni úr eðlilegum markaðsfarvegi í farveg byggðastefnu, er miklu nær að efla staði eins og Akureyri, sem hafa grunn til að byggja á, – sem hafa aðstöðu til að gera útlagða peninga arðbæra.

Í staðinn hefur fénu verið brennt á báli smábyggðastefnunnar. Ber þar hæst hina gífurlegu offjárfestingu í kindum og kúm annars vegar og í togurum hins vegar. Sú smábyggðastefna hefur gert þjóðina hartnær gjaldþrota.

Íslendingar eru hvorki nógu fjölmennir né nógu ríkir til að halda uppi smábyggðastefnu til að tryggja búsetujafnvægi í hverjum dal og hverju plássi. Tilraunir til slíks stórspilla afkomumöguleikum þjóðarinnar í heild.

Offjölgun togara í smáplássum hefur leitt til skrapdagakerfis og minnkandi aflaverðmætis á hvern togara. Þetta hefur kippt fótunum undan arðsemi togaraútgerðarinnar í heild, þar á meðal útgerðarinnar frá Akureyri.

Fé neytenda og skattgreiðenda er án afláts sóað í kindur og kýr, sem haldið er uppi af innflutningsbanni, beinum og óbeinum styrkjum til framkvæmda og rekstrar, niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, verðjöfnun og harðindafé.

Þetta fé, sem nemur nokkrum Kröfluverum á hverju ári, væri betur komið í framtíðargreinum en fortíðargreinum. Það væri betur komi í fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt svo og í stórum og smáum iðnaði af ýmsu tagi.

Um leið væri þetta fé betur ávaxtað á stöðum, sem hafa grunn til að byggja á. Grunnurinn getur verið margvíslegur, allt frá úrgangi fiskvinnslustöðva yfir í jarðhita – allt frá handbærri þjónustu yfir í iðnaðarreynslu.

Á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga að undanförnu hefur sáralítið verið fjallað um, hvernig smábyggðastefnan hefur gert byggðastefnuna gjaldþrota. Þar er talið óviðurkvæmilegt að ræða um, hvort Þórshöfn troði af Akureyri skóna.

Í staðinn er hlustað á ráðamenn Framkvæmdastofnunarinnar, hálfruglaða af óhóflegum peningaumsvifum, fjalla um hve gott væri að bora fjöllin til samgöngubóta. Þannig er óraunsæið ræktað enn, þótt gjaldþrotið blasi við.

Íslendingar eiga að búa þar sem hafnir eru góðar og stutt er á fiskimiðin. Þeir eiga að búa þar sem kostur er á ódýrum jarðhita. Þeir eiga að búa þar sem vinnuafl er til nýrra verkefna og markaður er fyrir afurðirnar.

Akureyri er dæmi um stað, sem hefur upp á flest þetta að bjóða og ætti að vera í örum vexti. En hún vex mjög hægt, af því að hið opinbera dregur að sér lungann úr fjármagni þjóðarinnar og kastar því á glæ smábyggðastefnunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hart í ári.

Greinar

Nýjustu mælingar sýna, að jöklar eru farnir að skríða fram að nýju eftir samdráttinn í hlýviðrinu um miðja öldina. Þetta framskrið mun aukast í kjölfar harðindaára á borð við það, sem nú stendur yfir, landsmönnum til mikils ama.

Allra næstu áratugina getum við ekki búizt við röðum mildra ára í líkingu við það, sem var um miðja öldina. Miklu frekar þurfum við að búa okkur undir að mæta röðum erfiðra ára með köldum vetrum og vætusumrum.

Í hinum hefðbundnu landbúnaði kúa og kinda og í garðyrkju utan gróðurhúsa jafngildir þessi loftslagsbreyting, að framleiðslubrestur verður mörg árin. Landið sem heild færist nær jaðri freðmýrabeltisins.

Þetta ár veldur bændum og skattgreiðendum þungum búsifjum. Ríkissjóður hefur veitt 15 milljónum króna í harðindastyrki til bænda og nú síðast 20 milljónum í niðurgreiðslur umfram áætlun á ársgömlu og illseljanlegu dilkakjöti.

Leitin að nýjum leiðum til að koma kinda- og kúabúskap til aðstoðar er að fá á sig hinar undarlegustu myndir. Nú síðast á að fella niður innflutningstolla og söluskatt af vélum og varahlutum til landbúnaðar.

Þetta er gert rétt áður en undanþágulaus virðisaukaskattur leysir söluskattinn af hólmi. Auk þess kallar það á kostnaðarsamt eftirlit með því, hvort innflutt dráttarvél sé notuð í landbúnaði eða í einhverri annarri starfsemi.

Allar slíkar gerðir eru sagðar í þágu neytenda, svo að verð landbúnaðarafurða hækki minna en ella. Sú hugsun byggir á sælli trú á, að neytendum og skattgreiðendum sé skylt að borga brúsann af fáránlegum landbúnaði.

Hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda lafir í skjóli innflutningsbanns, tollmúra, útflutningsuppbóta, framkvæmdastyrkja, vildarlána, rekstrarstyrkja og niðurgreiðslna; – og borgar fyrir sig með ofbeit og landeyðingu.

Fyrir bragðið þurfa neytendur og skattgreiðendur að borga tvisvar sinnum meira fyrir osta og tíu sinnum meira fyrir smjör en þeir slyppu með, ef þeir fengju vörur frá landbúnaði, sem ekki kúrir við jaðar freðmýrabeltisins.

Ábyrgðarmenn landbúnaðarins segja mjólkurframleiðslu vera orðna of litla og kalla á flutning milli landshluta. Sannleikurinn er samt sá, að nærri helmingur mjólkurinnar fer í ýmsa vinnslu, þar á meðal í smjör og osta.

Ábyrgðarmenn landbúnaðarins segja, að sumir bændur muni gefast upp í þessu árferði. Með því rökstyðja þeir, að skattgreiðendur verði enn að leggja harðar að sér til að létta skuldabyrði hinna verst settu bænda.

Miklu nær væri, að skattheimta kinda- og kúabúskapar væri notuð til að hjálpa þessum bændum til að hætta tilgangslausu striti í óþökk þjóðarinnar og til að hefja annan og arðbærari búskap eða önnur störf, sem að gagni koma.

Ábyrgðarmenn landbúnaðarins hafa undanfarna áratugi hvatt til sívaxandi framleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum, þótt öll rök hafi lengi hnigið að því, að sem allra mest þyrfti að draga saman seglin á þessum sviðum.

Í staðinn eiga að koma búgreinar, sem standast íslenzkt veðurfar, svo sem fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt. Kominn er tími til að huga að hnattstöðu okkar og hætta að sligast undir framleiðslu, sem tekur meira en hún gefur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Turnar við Skúlagötu.

Greinar

Skynsamlegt var að fresta samþykkt borgarráðs Reykjavíkur á nýju skipulagi milli Skúlagötu og Hverfisgötu. Skoða þarf málið betur en gert hefur verið og þá í víðara samhengi allrar norðurhlíðar Skólavörðuholts.

Vandinn er ekki sá að tillögur hafi verið gerðar um of þétta byggð á Völundarreitnum, þar sem nýtingarhlutfallið á að verða 1,8-1,9. Þetta er að vísu tvöfalt hærra en mest hefur tíðkazt, en getur þó átt rétt á sér.

Dæmi eru um það frá útlöndum, að miður hafi tekizt að þétta byggð í miðbæjum. Slík hverfi hafa sums staðar reynzt ómanneskjuleg. Andrými hefur verið af skornum skammti, birta léleg og útsýni fremur lítið.

Hins vegar hníga mörg rök að þéttari byggð í Reykjavík. Búið er að þenja hana um of til austurs og mynda óhóflega langar og fjölfarnar akstursleiðir milli heimila og vinnustaða. Þetta kostar borg og borgara mikið fé.

Lausn þessa vanda felst ekki í að leita uppi auða bletti í borginni vestan Elliðaáa og byggja á þeim, svo sem gert var á síðasta kjörtímabili. Oft sjá menn um síðir eftir slíkum aðgerðum, þegar nota þyrfti rýmið til annars.

Hins vegar felst lausnin í að byggja upp svæðið frá Skúlagötu upp fyrir Laugaveg, frá Seðlabanka inn að Hlemmi. Að því leyti eru tillögur meirihluta skipulagsnefndar Reykjavíkur á réttri leið, þótt gallaðar séu.

Allt þetta landsvæði þarf að hugsa í heild. Við landeigendur þarf að semja í heilu lagi, svo að svigrúm myndist til að reisa svæðið á þann hátt, að nýtingarhlutfall geti verið breytilegt milli byggingareita.

Um leið þarf að nota tækifærið til að búa til borgarhverfi, þar sem heimafólk og aðkomumenn geta farið um án yfirhafna, í skjóli fyrir vindi, regni og snjókomu, – hverfi, þar sem tekið er tillit til veðurfars á Íslandi.

Eðlilegast er að hugsa hverfið út frá Laugavegi sem bjarta göngugötu undir gegnsæju þaki. Frá Skúlagötu ætti að vera hægt að ganga undir þaki inn að þessum miðbæjarás, til dæmis úr nokkrum myndarlegum háhýsum við Skúlagötu.

Einnig þarf að vera hægt að aka frá Skúlagötu inn í nokkur bílastæði undir þaki við Laugavegsásinn. Þar með gætu viðskiptavinirnir stigið út og rekið erindi sín án þess að mæta veðri og vindum.

Á þessu svæði þurf ekki aðeins að gera ráð fyrir verzlunum og skrifstofum, heldur einnig kvikmyndahúsum, leikhúsi, kaffihúsum, veitingastofum og öðrum afþreyingarstöðum, til dæmis hóflegu tívolísvæði undir gegnsæju þaki.

Þar þarf einnig að vera nægileg þjónusta fyrir íbúa svæðisins, leiksvæði, skólar og annað slíkt, sem fylgir íbúðahverfum. Upp úr svæðinu mættu síðan gnæfa íbúðaturnar, sem gæfu hið háa nýtingarhlutfall, sem sótzt er eftir.

Íbúðaturnar í röð við eða í nágrenni Skúlagötu gætu reynzt eftirsóknarverðir. Í fyrsta lagi vegna útsýnis og góðs svigrúms. Í öðru lagi vegna nálægðar við miðbæjarþjónustu. Í þriðja lagi vegna útilokunar misviðra.

Um leið kæmi borgin á betra jafnvægi milli atvinnutækifæra á svæðinu innan Hringbrautar. Hún mundi spara sér samgöngumannvirki og margvíslegan kostnað við ný hverfi í austri. Því þurfa borgaryfirvöld að hugsa Skúlagötumálið mun nánar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Varðhundar verzlunarvaldsins.

Greinar

Ástandið í verzlunarmálum höfuðborgarinnar hefur löngum verið aðhlátursefni utanbæjarmanna, en sorgarsaga fyrir Reykvíkinga. Opnun og lokun sölubúða er sniðin að duttlungum kaupmanna og verzlunarfólks.

Viðskiptavinunum er gert að kaupa í matinn, þegar innanbúðarfólki þóknast að vera við. Hefði þó mátt ætla, að einhverju máli skipti, hvenær viðskiptavinirnir geta komið því við að gera sín innkaup.

Sú meginregla hefur því miður gilt, að einmitt þegar fólk hefur frí frá störfum á laugardögum, er verzlunum höfuðborgarinnar harðlæst.

Í hvert skipti sem neytendur hafa kvartað undan þessu fáránlega fyrirkomulagi hafa varðhundar verzlunarvaldsins og fulltrúar þess í borgarstjórn risið upp á afturfæturna og gefið neytendum langt nef.

Einstaka kaupmaður, einyrkinn á götuhorninu, hefur komizt upp með að hafa verzlun sína opna til hagræðis fyrir viðskiptavini sína. Að öðru leyti hefur þjónusta smásöluverzlunarinnar í Reykjavík verið að þessu leyti í hörmangarastíl.

Í bæjarfélögum nágrennisins hafa kaupmenn og bæjaryfirvöld gert sér grein fyrir, að verzlun getur illa þrifizt án viðskipta, enda hafa verzlanir þar verið opnar, almenningi til hagræðis, eins og vera ber.

Fyrir vikið hefur stöðugur straumur höfuðborgarbúa legið til þessara verzlana á laugardögum og öðrum þeim tímum, þegar fólk hefur yfirleitt tök á að gera sín innkaup.

Ekki er fjarri lagi að álíta, að verzlanir á Seltjarnarnesi og í Mosfellssveit hafi séð stórum hópum Reykvíkinga fyrir nauðsynjum á undanförnum árum. Þar hefur ekki ríkt sú stefna í verzlunarrekstri, að bægja eigi kúnnunum frá!

Um síðustu helgi var opnaður nýr stórmarkaður í Seltjarnarnesbæ, rétt utan við landamörk Reykjavíkur. Sú verzlun verður ekki bundin á klafa úreltra reglugerða um opnunartíma sölubúða. Raunar er ekki ólíklegt, að henni sé einmitt valinn staður af þeirri ástæðu.

Sjá nú allir fram á, að enn muni vaxa straumur Reykvíkinga út fyrir bæjarmörk til að kaupa sér í soðið. Þetta mega reglugerðarmennirnir auðvitað ekki heyra nefnt.

Enn á ný senda þeir bænarbréf til bæjaryfirvalda og krefjast stöðvunar á þeirri ósvinnu, að verzlanir taki tillit til viðskiptavina. Duttlungavaldið í höfuðborginni skal og lagt á sveitarfélög í nágrenninu.

Ef að líkum lætur, mun bæjarfélagið á Seltjarnarnesi ekki láta hneppa sig í fjötra afturhalds. Þar verður ekki áhugi á að hverfa aftur til verzlunarhátta valdboðsins.

Í nútímaþjóðfélagi er það þjónustan, samkeppnin og frjálsræðið, sem situr í fyrirrúmi, enda er flestum ljóst, að frjáls verzlun er einn af hornsteinum velmegunar og framfara.

Ef reykvískir kaupmenn hafa áhyggjur af nýjum stórmarkaði á Seltjarnarnesi, sem dragi til sín viðskipti í stórum stíl, eiga þeir aðeins eitt svar: Þeir eiga að rýmka opnunartíma sinn, mæta nýrri samkeppni í skjóli eigin getu og þjónustu.

Reglugerðir og þrælalög eru engin vörn, einfaldlega vegna þess að viðskiptavinirnir, reykvískir neytendur, láta ekki bjóða sér upp á slíkt. Úreltar reglugerðir um fáránlegt fyrirkomulag á opnunartíma sölubúða mega syngja sitt síðasta. Viðskiptavinurinn á að ráða.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vélræn grimmd.

Greinar

Hin vélræna grimmd sovézka kerfisins kom greinilega í ljós á fimmtudaginn. Þá voru 269 manns myrtir um borð í farþegaþotu á þann hátt að sovézk stríðsþota “eyddi” henni með eldflaug.

Þetta einstæða fjöldamorð verður ekki skilið, nema menn átti sig á kerfinu, sem liggur að baki. Þetta kerfi er ekki neitt venjulegt þjóðskipulag, heldur öflug stríðsvél með innilokunaræði.

Nógur tími var fyrir sovézku morðingjana að átta sig á, að skotmarkið var farþegaþota, en ekki njósnaþota, enda komu þeir svo nálægt, að þeir gátu séð það með berum augum.

Innilokunaræði stríðsvélarinnar er svo algert, að hún reynir að hneppa í varðhald alla þá íbúa ríkisins, sem ekki hafa nákvæmlega sömu skoðun og valdhafarnir á hverjum tíma.

Friðarsinnar eru teknir fastir, af því að stjórnin og flokkurinn eru einfær um að stunda friðarstefnu. Friðarsinnar eru aðeins nothæfir á Vesturlöndum, en ekki í sæluríki friðarins.

Innilokunaræði stríðsvélarinnar er svo algert, að þeir eru hreinlega taldir geðveikir, sem ekki hafa nákvæmlega sömu skoðun og valdhafarnir á hverjum tíma.

Slíkir menn eru settir á geðveikrahæli, þar sem dælt er í þá eiturlyfjum til að brjóta þá andlega. Hvar sem finnst ögn af sjálfstæðri hugsun, þá skal henni eytt eins og farþegaþotunni.

Hin vélræna grimmd stríðsvélarinnar kemur einnig greinilega í ljós í tregðu sovézkra stjórnvalda við að hleypa fólki úr landi og leyfa fjölskyldum að sameinast. Í kerfinu örlar hvergi á mannúð.

Jafnskjótt og einhver biður um að fá að flytjast af landi brott, er hann rekinn úr starfi og neitað um vinnu. Um leið eru hafnar ofsóknir gegn honum og hans nánustu.

Morðið á 269 manns var ekki einkaframtak geðveiks stríðsmanns. Sovézki morðinginn fór nákvæmlega eftir fyrirmælum af jörðu niðri. Fyrst var honum sagt að miða og síðan að skjóta. Þetta var endurtekið þrisvar sinnum.

Það er kerfið sjálft, sem er sjúkt, en ekki fjöldamorðinginn einn, sem fór bara eftir fyrirmælum. Það er sovézka stríðsvélin, sem þolir engin nágrannaríki án þess að kúga þau.

Þannig hefur vélræn stríðsvélin lagt undir sig Austur-Evrópu og er nú að leggja undir sig Afganistan. Hún skilur ekkert nema valdið nakið. Og hún hefur kláða í gikkfingrinum.

Í hvert skipti, sem friðarsinni opnar munninn á Vesturlöndum, lítur Sovétstjórnin á það sem enn eina sönnun þess, að Vesturlönd muni bogna og játast undir valdið, bara ef hún hafi meira úthald og gefi hvergi eftir.

Friðarhreyfingin á Vesturlöndum styrkir þá forlagatrú stríðsvélarinnar, að hún muni sigra heiminn, svo sem segir í biblíu Leníns. 269 manns í þotu skipta engu máli í svo víðfeðmri hugsjón.

Eitt einkenna innilokunaróðu stríðsvélarinnar er að undirrita alls konar samninga við önnur ríki án þess að taka meira mark á slíku en eigin stjórnarskrá. Þannig undirritaði hún mannréttindaákvæði Helsinki-samningsins.

Hin illræmda leyniþjónusta Sovétríkjanna er um það bil að taka öll völd í stríðsvélinni. Höfundur innrásarinnar í Ungverjaland og geðveikrahæla fyrir andófsmenn er kominn í æðsta valdasess. Það er sjálfur Andropov.

Fjöldamorðið á fimmtudaginn er bara eitt dæmi af mörgum um hina vélrænu grimmd stríðsvélar með innilokunaræði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Fé skortir og fé er til.

Greinar

Seðlabaukinn er sveigjanleg stofnun, sem reynir að þjónusta óskhyggju allra ríkisstjórna. Hann hikar ekki við að framleiða verðbólgu í því skyni. Til dæmis er helzta verkefni hans að prenta seðla, sem ekki er til fyrir.

Annað veigamesta verkefni Seðlabankans er að taka peninga af bankamarkaði og endurlána þá með sérstökum gjafakjörum, sem framleiða verðbólgugróða. Bankinn hefur verið öflugasti verðbólguframleiðandinn á síðustu áratugum.

Þegar Seðlabankinn skiptir skyndilega um hagfræðikenningar, er ástæða til að óttast, að hann sé að þjónusta nýja óskhyggju nýrrar ríkisstjórnar. Og nú er komin ríkisstjórn, sem vill sumpart leysa húsnæðislánavandann með sjónhverfingum.

Bankinn sagði um daginn, að meta þyrfti “hvort ekki sé æskilegt að draga kerfisbundið úr notkun verðtryggingar á lánamarkaði, einkum innan bankakerfisins …”. Þetta er hættulega verðbólguhvetjandi yfirlýsing.

Að vísu bætir bankinn ákveðnum skilyrðum við: “ … en þó ekki fyrr en verðbólgan hefur minnkað svo mikið, að eðlilegir vextir nægi til þess að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda og viðunandi framboð á innlendu fjármagni”.

Í ríkisstjórninni eru uppi ímyndanir um, að verðbólgan sé að lækka hraðar en raun er á. Albert Guðmundsson lagði í síðustu viku til 30% húsnæðisvexti þótt verðbólga tíðandi stundar nemi enn sem svarar 100% á ári.

Þá eru í ríkisstjórninni hugmyndir um, að sparifjáreigendur verði að blæða eins og aðrir í þjóðfélaginu. Steingrímur Hermannsson hefur lýst þessari skoðun, þótt engir hafi sætt grófara arðráni á liðnum árum.

Það eru ekki fyrst og fremst hagsmunir sparifjáreigenda, sem valda því, að þjóðfélagið verður að verð tryggja sparifé. Miklu frekar er í þágu lántakenda, að sparifé haldizt í bönkum og renni helzt inn í stríðum straumum.

Ekki finnast þeir, sem hafa beðið um nýja aukningu verðbólgugróða. Ekki voru það húsbyggjendur og húskaupendur, sem héldu fundinn fræga í síðustu viku. Þeir tóku sérstaklega fram, að þeir vildu endurgreiða sín lán að fullu.

Þeir voru ekki heldur að mæla með sjónhverfingum, sem litlu máli skipta, svo sem hagræðingu á prósentum og tilfærslum milli mánaða. Þeir voru að leggja til, að lán yrðu hækkuð og lánstími lengdur, svo sem flokkarnir hafa lofað.

Meira fjármagn er það, sem þarf. Fram hjá meira fjármagni verður ekki komizt. Það kostar peninga að efna kosningaloforð um 80% húsnæðislán til 40 ára. Það finnst ekki með því að magna verðbólgugróða að nýju.

Hins vegar eru þessir peningar til. Þeir eru bara brenndir í óþarfri fjárfestingu í landbúnaði kúa og kinda, er síðan brennir rekstrarfé, og í óþarfri togarafjárfestingu, er dregur úr arðsemi þeirrar útgerðar, sem fyrir er.

Peningarnir eru einnig til í útflutningsuppbótum og beinum styrkjum til landbúnaðar kúa og kinda. Þeir eru í eyrnamerktum lánveitingum ýmissa sjóða til arðlausra verkefna, fyrst og fremst á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Nú þegar brenna Seðlabankinn og Framkvæmdastofnunin og ýmsir aðrir peningafarvegir stjórnvalda mun meira fé en þarf til að leysa lánavanda húnnæðismarkaðarins og til að efna kosningaloforð um 80% lán til 40 ára.

Jónas Kristjánsson.

DV

Fundur fólksins.

Greinar

Yfirleitt eru menn sammála um, að hinn frægi fundur húsbyggjenda í Sigtúni á dögunum hafi verið tímabær og þarfur. Kröfurnar, sem settar voru fram, eru réttmætar og raunsæjar. Segja má, að ríkisstjórnin hafi brugðizt skjótt við og hafi góð áform á prjónunum.

En þessi atburður hefur á sér aðra og athyglisverða hlið. Með stuttum fyrirvara og takmörkuðum auglýsingum sjá rúmlega tvö þúsund manns ástæðu til að leggja leið sína á fund um húsnæðismál.

Til fundarins var boðað af ungum og tiltölulega óþekktum mönnum. Engin samtök eða skipulagðar fylkingar standa að baki þeim. Hér mættu ekki menn af skyldurækni við stjórnmálaflokk eða af áhuga á spennandi uppákomu. Hvorki þurfti trúða né bingóvinninga.

Það, sem dró tvö þúsund manns á þennan fund, var uppsöfnuð örvænting, langvarandi áhyggjur, sem sérhver fundarmanna hefur legið andvaka yfir um langt skeið.

Flestir þeirra hafa þreytt píslargöngu milli lánastofnana, eytt frítímum sínum við byggingastrit, hlustað á loforðarullur stjórnmálamanna og hlaðið upp skuldaböggum út yfir öll fjárráð.

Þeir hafa sumir háð sitt skuldastríð án samráðs við aðra, trúir þeirri landlægu skoðun, að hver sé sjálfum sér næstur, þegar kemur að íbúðakaupum og byggingavafstri.

Flestir þeirra eru af hinni ungu kynslóð, sem tekur verðbólguspákaupmennskuna í arf. Þeir fengu það heilræði í veganesti úr föðurhúsum, að skuldirnar borguðu sig; að verðbólgan mundi hjálpa þeim yfir þröskuldana.

Fundarmennirnir tvö þúsund eru í engu frábrugðnir foreldrum sínum og öðrum Íslendingum að trúa því, að eigið húsnæði væri hornsteinninn að velmegun þeirra og sjálfstæði, enda er enginn talinn maður með mönnum, nema eiga þak yfir höfuðið.

Þeir áttuðu sig bara ekki á þeirri staðreynd, að hin hefðbundna sjálfstæðisbarátta í húsnæðismálunum væri orðin að þrælataki skuldaklafans.

Hér var þetta fólk komið á fund hjá sjálfu sér, ef það mætti verða til þess, að eitthvað rofaði til, ef bjargirnar væru ekki allar bannaðar, þrátt fyrir allt. Þetta var þeirra eigin fundur, þeirra eigin fylking.

Einn stjórnmálamaður vogaði sér að kveðja sér hljóðs með flokkssamþykkt upp á vasann. Hann var samstundis púaður niður. Ekki vegna þess, að hann væri verri en aðrir stjórnmálamenn, heldur af hinu, að hann var ímynd og persónugervingur þeirra pólitíkusa, sem lofað hafa fundarmönnum og öðrum kjósendum gulli og grænum skógum án frekari efnda eða úrræða.

Í raun og veru skeyttu fundarmenn skapi sínu á þessum seinheppna þingmanni til þess eins að lýsa vanþóknun sinni á stjórnmálaflokkunum öllum.

Menn nenna nefnilega ekki lengur að hlusta á loforð. Fallegar flokkssamþykktir koma að litlu gagni, þegar heimilið er gjaldþrota og þolinmæðin er þrotin.

Fundurinn í Sigtúni er fyrsta, en sennilega ekki síðasta vísbendingin um, að almenningur taki fram fyrir hendurnar á stjórnmálasamtökunum og reiði til höggs í krafti sinnar eigin örvæntingar.

Hann leiðir tvennt í ljós: Annars vegar er verðbólgan að leggjast af fullum þunga á lífskjörin. Hins vegar hafa stjórnmálaflokkarnir enga vitneskju um hræringarnar í þjóðfélaginu.

Alvarlegri aðvörun er vandfundin.

Jónas Kristjánsson

DV

Aga þarf sendiráðin.

Greinar

Erlend sendiráð hafa tilhneigingu til að verða eins konar ríki í ríkinu. Því valda einkum ýmis sérréttindi þeirra, allt frá friðhelgi starfsmanna og tollfrelsi yfir í eigin lögsögu sendiráðanna á lóðum sínum og húsakosti.

Íslenzkum stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að sjá um, að sérstaðan sé ekki misnotuð. Þau eiga að beita gagnaðgerðum, ef sendiráðin láta ekki segjast. Þau geta beitt brottvísunum og öðrum takmörkunum til að halda uppi aga.

Hávaði, slagsmál, leynivínsala og næturkúbbsrekstur bandarískra sendiráðsmanna í Þingholtunum er dæmi um vandamál af þessu tagi. Þegar lögreglan kemur til skjalanna, hlaupa berserkirnir inn í hús sitt og þykjast hólpnir.

Tafarlaust ber að vísa úr landi sendiráðsmönnum af þessu tagi. Jafnframt er nauðsynlegt að neita um tíma að samþykkja nýja í staðinn, unz sendiráðið áttar sig á, að það þarf að koma miklum mun strangari aga á sitt fólk.

Oft hefur komið fram, að erlendir sendiráðsmenn hafa reynzt hættulegir í umferðinni, einkum vegna ölvunar. Til dæmis hafa Frakkar þótt fréttnæmir á því sviði. Slíka friðhelgismenn á að senda úr landi eins og slagsmálaliðið.

Áfengisflaumur sendiráðanna er töluvert vandamál. Innan dyra eru sífelld hanastélsboð fyrir ístöðulitla ríkisstarfsmenn, sem hafa lítið að gera í vinnunni. Og utan dyra eru hálfrónarnir, sem vilja hlutdeild í ódýrum leka.

Stundum mætti ætla, að erlendir sendiráðsmenn telji þessar tvær sérhæfðu stéttir vera venjulega Íslendinga. Það væri þá skýringin á herraþjóðarhneigðum, sem lýsa sér í fyrirlitningu á tilraunum til aðhalds af íslenzkri hálfu.

Áfengisvelta sumra sendiráðanna er með slíkum ólíkindum, að staðarmenn komast tæpast yfir hana í eðlilegum gestakomum. Mismunurinn gæti farið í bein og óbein brot á tollalögum og telst tæpast til eðlilegra sendiráðsfríðinda.

Rétt væri að setja áfengishámark á vandræðasendiráðin og tolla síðan umframmagnið. Það er ófært, að fríhöfn af þessu tagi sé í öðru hverju húsi við sumar miðborgargötur. Skömmtun á tollfrelsinu er líklegasta viðnámið.

Allra verst er svo eignasöfnun sendiráða og misnotkun þeirra á fjölda sendiráðsmanna. Þar er í broddi fylkingar sovézka sendiráðið. Umsvif þess í eignum og mannahaldi eru langt umfram það, sem eðlilegt má teljast.

Setja ber skorður við frekari útþenslu sovézka sendiráðsins á fasteignamarkaði og koma á einhverju hámarkshlutfalli í samanburði á fjölda íslenzkra sendiráðsmanna í Moskvu og sovézkra sendiráðsmanna í Reykjavík.

Til dæmis væri hægt að setja þá reglu, að hinir sovézku væru aldrei meira en fimm sinnum fleiri en Íslendingarnir. Altjend er brýn nauðsyn að koma á reglu, sem gerir íslenzkum stjórnvöldum kleift að fækka sovézkum sendiráðsmönnum.

Svipaða hlutfallsreglu þarf að setja um hinn friðhelga sendiráðspóst, sem er ótrúlegur að magni hjá sovézka sendiráðinu. Við megum ekki gleyma, að í sumum löndum hafa sovézku sendiráðin reynzt hernaðarlega viðsjárverð.

Aðhaldsskortur íslenzkra stjórnvalda að forréttindum erlendra sendiráða felur í sér óhóflega kurteisi. Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna, að nauðsynlegt er að koma aga á sendiráðin, því að þau gera það ekki sjálf.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lífsreyndir landsknegtar.

Greinar

Þegar Tómas Árnason var ráðherra í síðustu ríkisstjórn, hélt hann verndarhendi yfir Sverri Hermannssyni kommissar í Framkvæmdastofnun ríkisins. Nú heldur Sverrir Hermannsson ráðherra verndarhendi yfir Tómasi Árnasyni kommissar.

Framkvæmdastofnunin er makalaust ríki í ríkinu. Ef kommissörum hennar finnst þjóðkjörnir alþingismenn ekki leggja nægilegt skattfé til vega, heimta þeir að fá að lána ríkinu mismuninn, þótt ríkið vilji ekki þiggja.

Sverrir Hermannsson sagði þá: “Þetta eru með öllu ótæk vinnubrögð eins og framkvæmdaþörfin er mikil.” Hann vildi, að kommissarinn úrskurðaði, hverjar væru almannaþarfir, en ekki þjóðkjörið alþingi eða ríkisstjórn.

Svona hugsa menn í stofnun, sem beinlínis er komið á fót til að hafa “félagslegan” banka, geti úthlutað ódýrum lánum til fáránlegra framkvæmda í því skyni að hjálpa vildarvinum í strjálbýlinu. Slíkt mega venjulegir bankar tæpast lengur.

Sverrir Hermannsson hefur í kosningaræðum bent Austfirðingum á að kjósa sig, af því að hann hafi útvegað þeim hitt og þetta í Framkvæmdastofnun. Þeir þurfi að þakka sér þetta og efla sig um leið til áframhaldandi örlætis.

Auðvitað er ódýrt að vera gjafmildur á kostnað annarra. En alvarlegra er þó, að sumir stjórnmálamenn líta á sig sem eins konar landsknegta, er eigi að fá að lifa á landinu og hafa það að herfangi, sem þeir koma höndum yfir.

Framkvæmdastofnunin er hornsteinn hinnar pólitísku spillingar á Íslandi. Þar eru stjórnmál og fjármál hnýtt saman í rembihnút. Þar hafa stjórnmálamenn frjálsar hendur við að hafna venjulegum arðsemissjónarmiðum.

Þetta eru ekki nýjar kenningar. Framkvæmdastofnunin hefur alltaf verið umdeild. Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan verið andvígur henni í orði, þótt hann hafi notað hana til fulls á borði með því að skipa kommissar og Haukdal.

Þeir, sem Sverrir Hermannsson kallar stuttbuxnadrengi Sjálfstæðisflokksins, komu því til leiðar, að í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er fjallað um, að þingmenn hætti að vera í forsvari fjármálastofnana. Þar er einkum átt við Framkvæmdastofnunina.

Skömmu eftir myndun ríkisstjórnarinnar reis deila milli nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um, hvort þetta atriði og önnur í verkefnaskránni væru bindandi eða marklaust hjal út í loftið.

Geir Hallgrímsson og Friðrik Sophusson sögðu þetta bindandi, en Steingrímur Hermannsson og Tómas Árnason sögðu það “á engan hátt” bindandi. Sverrir Hermannsson sagði fátt, en hló með sjálfum sér að stuttbuxnadrengjunum.

Steingrímur hefur síðan bætt gráu ofan á svart með því að skipa Tómas Árnason þingmann sem formann nefndar, sem á að rannsaka Tómas Árnason kommissar og Framkvæmdastofnun hans! Landsknegtunum er greinilega ekki klígjugjarnt.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins svöruðu í fyrstu þessari köldu vatnsgusu með því að fresta skipun manna í hina furðulegu rannsóknarnefnd Tómasar á hinum sama Tómasi. En Sverrir er nú búinn að láta þá beygja sig.

Stjórnmálamenn úr öllum flokkum nema spillingarflokki Framsóknar hafa oft vakið máls á að leggja bæri niður kommissara og Framkvæmdastofnun. En slíkir stuttbuxnadrengir hafa því miður ekki roð við lífsreyndum landsknegtum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Auðlindar-martröð.

Greinar

Sagan segir, að einu sinni hafi Grímsá á Héraði þrotið, þegar nota átti vatn úr henni í steypu við smíði orkuversins við ána. Flytja varð vatn langar leiðir til að reisa orkuver, sem hin þurra Grímsá skyldi knýja.

Þetta er dæmi um, að stjórnmálamenn hafa ekki eingöngu látið virkja ár til að búa til rafmagn, heldur einnig til að búa til atvinnu. Þeir vissu vel, að Grímsá yrði afar óáreiðanlegur orkugjafi, en lokuðu augunum fyrir því.

Nú hyggjast margir komast í feitt, þegar byrjað er að virkja Blöndu. Menn hafa keypt sér flutningabíla og sett upp bílaleigur til að ná í flís af væntanlegu gullflóði framkvæmdanna. Þetta er gamalkunn saga frá fyrri orkuverum.

Virkjun Blöndu hefur tafizt, meðal annars vegna deilna um forgang heimamanna að vinnu við framkvæmdirnar. Verkalýðsfélög svæðisins vilja, að verkreyndir virkjanamenn víki fyrir óreyndum heimamönnum.

Atvinnubótastefnan er aðeins einn af nokkrum þáttum, sem hafa spillt draumi Einars Benediktssonar og allrar þjóðarinnar um gullkistu fossanna, um hina ódýru orku, sem átti að verða hornsteinn framtíðar Íslendinga.

Annar þáttur er, að stóriðjan, sem átti að taka á sig kostnaðinn við að beizla kraftinn, hefur orðið mun lakara búsílag en reiknað hafði verið með. Því valda einkum endurtekin mistök í samningum við stóriðjumenn.

Svo er nú komið, að álverið í Straumsvík er orðið baggi á Landsvirkjun og veldur því, að orkuverð til almennra neytenda er hærra en ella hefði verið. Þessu hefðu fáir trúað fyrr á árum, þegar skáldin ortu.

Þriðji þátturinn er, að náttúrlegar aðstæður hafa reynzt lakari en reiknað var með. Jökulárnar haga sér eins og ótemjur og spilla auk þess hverflum með aurburði. Einnig hverfur vatnsforði gegnum lek jarðlög.

Orkuver Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu eru skýrasta dæmið um þessi vandræði. Búrfellsvirkjun varð hálfu dýrari en áætlað hafði verið. Og enn er varið stórfé á sumri hverju til að reyna að þétta lónið við Sigöldu.

Fjórði þátturinn er hinn mikli kostnaður við flutning raforkunnar um dreifbýlið. Hann kemur fram í svo háu verðjöfnunargjaldi, að rafmagn hjá veitendum er sums staðar orðið dýrara en hjá sumum hinna, sem þiggja.

Fimmti þátturinn og ekki hinn sízti er skortur á pólitísku hugrekki til að láta núverandi kynslóð borga orkuver sín. Erlendar lántökur hafa verið notaðar í óhófi til að draga úr þörfinni á eigin fjármögnun orkuveranna.

Hjá Landsvirkjun er hin uppsafnaða afleiðing sú, að 80% rekstrarkostnaðarins er hreinn fjármagnskostnaður, – afborganir og vextir af lánum. Pólitískt hugleysi fyrri ára er byrjað að hefna sín í háu orkuverði.

Afleiðingin af öllu þessu er, að íslenzkir notendur orkunnar þurfa að greiða hana hærra verði en nágrannarnir á Norðurlöndum. Rafmagnið í Reykjavík er þrefalt dýrara en rafmagnið í Osló, hvort tveggja frá vatnsaflsstöðvum.

Draumurinn um auðlind fosskraftsins er orðinn að martröð, þegar rafmagn í Reykjavík er orðið mun dýrara en frá kolakyntum orkuverum Kaupmannahafnar. Við verðum þó að vona, að framvegis skorti ekki vatn í steypuna, þegar orkuver eru reist.

Jónas Kristjánsson

DV

Of sveigjanlegir.

Greinar

Ástæða er til að óttast, að íslenzku samningamennirnir verði ekki nógu harðir á fundi Íslands og Alusuisse, sem hefst í London á morgun. Nær hefði verið að senda þangað nokkra laxabændur eða hrossaprangara, sem kunna að semja.

Í samninganefnd okkar eru vinsælir stjórnmálamenn og varfærnir embættismenn. Hvorir tveggja hafa tilhneigingu til að líta of sáttfúst á sjónarmið hins aðilans. En slíkt er eitt hið versta, sem getur komið fyrir samningamenn.

Andspænis Íslendingunum sitja þrautreyndir samningamenn, sem hafa tvisvar áður hlunnfarið okkur. Þeir fara nú á kostum í vörninni, meðan við treystum á vinnuaðferðir, sem við höfðum áður farið flatt á í slíkum samningum.

Okkur gagnar ekki að losna við stífni Hjörleifs, ef við fáum óhóflegan sveigjanleika í staðinn. Okkar menn þurfa að kunna að rata hinn gullna meðalveg, sem felst í að halda kurteislega, en samt grjóthart, á málum.

Við höfum farið illa út úr viðskiptum okkar við Alusuisse. Ef við getum nú ekki samið eins og menn um alþjóðlegt orkuverð, ættum við að strika yfir áldrauminn og stefna að því að losna úr samstarfi við Svisslendingana.

Við fáum nú tæpar 7 verðeiningar, mills, fyrir orkuna, meðan heimsmarkaðsverð nemur 22 einingum, verðið í Bandaríkjunum 22 einingum, í Vestur-Evrópu 21 einingu og meðalverð hjá dótturfyrirtækjum Alusuisse nemur 20 einingum.

Hvergi í heiminum fær Alusuisse jafnlágt orkuverð til dótturfyrirtækis eins og hjá Ísal í Straumsvík. Það er því marklaust bókhaldsatriði fjölþjóðafyrirtækis, þegar sagt er vera tap á rekstri útibúsins á Íslandi.

Einnig er marklaust að segja, að Ísal muni greiða upp orkuverið við Búrfell á svo og svo löngum tíma. Í viðskiptum á að miða við endurnýjunarverð, það er að segja stofnkostnað nýs orkuvers, sem byggt væri á þessu ári.

Þótt allt sé slétt á yfirborðinu í nýjustu viðræðum Svisslendinga og Íslendinga, er óbilgirni hinna fyrrnefndu hin sama og áður. Þeir ætla sér ekki að gefast upp á þjarki, fyrr en þeir hafa kreist úr síðasta dropann.

Þetta eru fagmenn, sem eru beinlínis ráðnir til að halda meðalorkuverði dótturfyrirtækja Alusuisse í 20 verðeiningum, meðan aðrir fjölþjóðahringir á sama sviði borga 22 einingar. Slíkir samningajálkar eru gulls ígildi.

Óstaðfestar fregnir herma, að þeir hafi teygt sig upp í 15 verðeiningar í síðustu viðræðunum í Reykjavík og að íslensku samningamennirnir hafi teygt sig niður í 17 einingar. Þetta er hörmulega slappt, ef rétt er.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sagði í vor, að “við höfum ekki efni á að selja raforku mikið undir 17-18 mills”. Oft hefur verið nefnt, að 18 einingar væru í hæfilegri samkeppnisfjarlægð frá 20-22 eininga heimsmarksverði.

Ef hins vegar samningamenn Íslands stefna að samkomulagi mitt á milli 17 eininga og 15, það er að segja í 16, hafa þeir beðið enn einn ósigurinn fyrir refunum frá Sviss. Og verður eindregið að vara við slíkri niðurstöðu.

Nýlega leigðu nokkrir bændur Svisslendingum tvær laxveiðiár fyrir 900 þúsund króna veiðihús og sem svarar 13 þúsund krónum á laxinn. Væri ekki hægt að fá þá snillinga til að skipta um stóla við samningamenn okkar í London?

Jónas Kristjánsson.

DV