Greinar

Tvo þarf til.

Greinar

Misjafnlega gagnlegar eru tillögur um traustari frið í heiminum og minnkandi hættu á ragnarökum kjarnorkustyrjaldar. Beztar eru þær, sem byggja á, að tvo þarf til, svo að nothæft samkomulag megi nást milli austurs og vesturs.

Reynslan sýnir, að ráðamenn Sovétríkjanna eru ekki gefnir fyrir að standa við loforð, þótt skrifleg séu. Eitt skýrasta dæmið er Helsinki-samningurinn frá 1975, þar sem Brezhnev lofaði auknum mannréttindum heima fyrir.

Marklaust er að semja um frystingu og samdrátt vígbúnaðar, nema um leið sé samið um traust eftirlit, er jafnóðum geti leitt í ljós, hvort settum reglum sé fylgt. Til slíks hafa ráðamenn Sovétríkjanna verið tregir.

Mest gagn er að byggja á grunni, sem lagður hefur verið í viðræðum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um takmörkun á ýmsum sviðum kjarnorkuviðbúnaðar. Talið er, að Sovétríkin hafi staðið sæmilega við svonefnda SALT-samninga.

Komið hafa fram tillögur um, að Bandaríkin geti gefið gott fordæmi með því að lýsa yfir einhliða frystingu slíks viðbúnaðar af sinni hálfu um nokkurra mánaða skeið, meðan þeir gefi Sovétríkjunum tækifæri til að svara í sömu mynt.

Þetta byggist á þeirri skoðun, að Bandaríkin hafi þegar nóg kjarnorkuvopn til að hræða ráðamenn Sovétríkjanna frá leiftursókn til langþráðra heimsyfirráða, svo að frekara kapphlaup af bandarískri hálfu muni ekki auka öryggið.

Þetta er umdeilanlegt atriði, en freistandi, því að svo er nú komið, að fjöldi og hraði kjarnorkuvopna er orðinn svo mikill, að tæknileg mistök geta leitt til óviljandi kjarnorkustríðs og tilheyrandi ragnaraka.

Auðvitað er að minnsta kosti eins líklegt og hitt, að ráðamenn Sovétríkjanna fái vatn í munninn og reyni að bæta viðbúnað sinn á tíma bandarískrar frystingar. Þeir hafa hingað til hneigzt til að taka áhættu í útþenslustefnu.

Verst er þó, að ráðamenn Sovétríkjanna hafa á undanförnum áratug litið á alla eftirgjöf af vestrænni hálfu sem dæmi um linkind og úrkynjun, er færa eigi í nyt hugsjónarinnar um óhjákvæmilegan heimssigur þeirra.

Hina svonefndu þíðu áttunda áratugarins notuðu þeir til innrásar í Afganistan, aukins þrýstings á Austur-Evrópu, niðurskurðar mannréttinda heima fyrir og til að beita leppríkjum til hernaðar í Kampútseu, Angóla og Eþíópíu.

Þess vegna er líklegra, að þeir taki fremur mark á tilboðum um gagnkvæma frystingu heldur en einhliða bandaríska frystingu. Friðarvilja vesturs verður að fylgja fullkomin festa, ef takast á að mjaka austrinu til sátta.

Versti þrándur í götu samkomulags um frystingu og samdrátt vígbúnaðar undir ströngu eftirliti er þó friðarhreyfingin á Vesturlöndum. Tiltölulega einhliða starf hennar hefur gert ráðamenn Sovétríkjanna fastari fyrir.

Aðgerðir vestrænna friðarhreyfinga gegn vestrænum viðbúnaðaráformum hafa komið því inn hjá ráðamönnum Sovétríkjanna, að þeir geti haldið ótrauðir áfram vígbúnaði og útþenslu, meðan Vesturlönd logi í kjarnorkusundrungu.

Þannig er friðarhreyfing síðustu ára í rauninni meiri háttar friðarspillir og styrjaldarhvati, þótt óviljandi sé. Hún verður fyrst til gagns, er hún beinir þunga áherzlunnar að ráðamönnum Sovétríkjanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Reagan er vandamál.

Greinar

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tekur lífinu með ró, byrjar daginn seint og endar hann snemma. Slíkt gekk vel hjá Eisenhower forseta, sem kunni að velja sér ráðgjafa og ráðherra, en gengur miður hjá manni, sem kann það ekki.

Reagan vill helzt ekki hlusta á aðra en þá, sem deila með honum lífsskoðun í megindráttum. Tilgangslaust er að leggja fyrir hann álitsgerðir, sem stangast að einhverju leyti á við hans eigin dóma og fordóma.

Jafnvel hægri sinnaðir embættismenn í utanríkisþjónustunni hafa orðið að víkja, ef þeir hafa bent á aðrar leiðir en þær, sem falla í kramið hjá innsta hringnum í Hvíta húsinu, þar sem mikil áherzla er lögð á hóphyggju.

Þannig urðu að víkja Thomas O. Enders, aðstoðarráðherra Ameríkumála, og Deane R. Hinton, sendiherra í El Salvador. William P. Clark, öryggismálafulltrúi forsetans, grunaði þá um að hneigjast að sáttastefnu í El Salvador.

Clark er gott dæmi um embættismennina, sem Reagan safnar kringum sig. Ásamt hinni herskáu Jeane J. Kirkpatrick, sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, ræður hann mestu um utanríkisstefnu, sem spillir sambúð vestrænna ríkja.

Sjálfur hefur forsetinn lítinn áhuga á utanríkismálum og lætur sér nægja að vera á móti kommúnisma. Hin einfalda heimsmynd Reagans, Clarks og Kirkpatrick ræður ferðinni, en ekki hinn flókni raunveruleiki mannanna í utanríkisráðuneytinu.

Með naumindum tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir, að forsetinn veldi þekktan andstæðing mannréttinda, Ernest Lefever, í embætti aðstoðarráðherra mannréttindamála. En frú Kirkpatrick heldur uppi merki hans.

Frægur að endemum er innanríkisráðherrann, James G. Watt, sem vinnur ósleitilega að sölu námuréttinda í bandarískum þjóðgörðum og er frægur fyrir óbeizlaðar fjölmiðlayfirlýsingar, sem harðri gagnrýni hafa sætt.

Svipuð stefna var rekin af Anne Gorsuch, sem forsetinn réð til að stjórna umhverfisverndarstofnuninni. En hún gekk svo langt í að auka mengun, að forsetinn neyddist til að láta hana fara og kvaddi hana með tárum.

Sjálfur er Reagan ekki maður hugleiðinga. Hann hefur fáar og tiltölulega einfaldar skoðanir á lífinu og tilverunni og getur, að sögn bandarískra blaðamanna, ekki einbeitt sér að neinu máli lengur en í sjö mínútur í senn.

Hann les alls ekki langar álitsgerðir. Ekki þýðir að senda honum lengri plögg en upp á eina vélritaða síðu. Og þegar hann les þau, er það ekki til að kynna sér málið, heldur til að finna úr þeim auglýsingapunkta.

Anthony Lewis, dálkahöfundur New York Times, segir, að forsetinn telji ekki vera hlutverk sitt að taka ákvarðanir, heldur sé hann að leita að orðasamböndum, sem hann geti endurtekið, þegar hann þarf að “selja” kjósendum stefnuna.

Sem forseti er hann þannig ekki framkvæmdastjóri ríkisins, heldur sölumaður þess. Hann trúir blint á dóma sína og fordóma og kemur fyrir í sjónvarpi af traustvekjandi einlægni, alveg eins og bílasalinn í auglýsingunum.

Alvarlegasta vandamálið er, að vaxandi líkur eru á, að Ronald Reagan verði aftur í kjöri til forseta á næsta ári og hljóti þá endurkosningu. Þar með verður framlengdur í fjögur ár sá mikli vandi, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þynning í Madrid.

Greinar

Rangt væri af fulltrúum Vesturlanda á 35 ríkja Evrópufriðarráðstefnunni í Madrid að fallast á óbreyttar málamiðlunartillögur hlutlausu ríkjanna um mannréttindi. Þær eru bitlausar og þjóna óbeint hagsmunum Sovétríkjanna.

Heimsins bezti samningur um mannréttindi er í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Orðalag hennar hefur ekki verið endurbætt og verður ekki endurbætt. Það var ekki endurbætt í Helsinki árið 1975 og verður ekki endurbætt í Madrid árið 1983.

Fulltrúar Vesturlanda ættu að gera meira af því að nudda fulltrúum Sovétríkjanna upp úr stöðugum, ósvífnum, augljósum og upp á síðkastið vaxandi brotum ráðamanna þeirra á mannréttindaákvæðum stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Slíkt væri meira virði en að taka þátt í undirritun samninga, sem kenndir eru við Helsinki, Belgrað, Madrid og Ottawa og fjalla um þynntar útgáfur af stofnskrá Sameinuðu þjóðanna – í von um, að við þynntari útgáfur verði staðið.

Reynslan af undirritun Brezhnevs í Helsinki árið 1975 er afar slæm. Eftir hana fóru ráðamenn Sovétríkjanna að auka mannréttindabrot sín, þvert ofan í skýr ákvæði samkomulagsins. Þeir tóku aldrei hið minnsta mark á þeim.

Í ljósi reynslunnar tókst á framhaldsfundinum í Belgrað árið 1978 að koma fram sérstökum ákvæðum um, að ekki skyldu ofsóttir þeir hópar, sem fylgjast með, að mannréttindaákvæði Helsinki-samkomulagsins séu ekki brotin.

Eftir að hafa undirritað þetta viðbótarsamkomulag sneru ráðamenn Sovétríkjanna sér einmitt að því að ofsækja og uppræta hópa, sem höfðu það eitt að markmiði að mæla með því, að staðið væri við Helsinki.

Þannig sýnir reynslan, að ráðamenn Sovétríkjanna láta sig ekki muna um að brjóta sérstaklega það, sem þeir undirrita, jafnvel fremur en það, sem þeir undirrita ekki. Svo krumpuð er skoðun þeirra á lífinu og heiminum.

Tillögur Svíþjóðar, Sviss og sjö annarra hlutlausra ríkja á yfirstandandi fundi í Madrid eru að flestu leyti þynnri en samkomulagið í Helsinki, sem aftur á móti var mun þynnra en ákvæði stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Brott eru fallin ákvæðin um rétt fólks til að fara í verkfall, um bann við ofsóknum gegn eftirlitshópum Helsinni-samkomulags og um bann við gerræðislegri brottvísun fréttamanna, svo að nefnd séu nokkur dæmi.

Sovétríkin hafa fallizt á þessar tillögur, enda fela þær í sér, að á Evrópufriðarráðstefnu eftir Evrópufriðarráðstefnu þynnast sífellt samingarnir um mannréttindi í álfunni. Smám saman fá ráðamenn Sovétríkjanna sitt fram.

Í stað þess að benda stíft á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna eru fulltrúar Vesturlanda smám saman að láta friðarvilja sinn ýta sér út í að samþykkja óbeint með undirskriftum svívirðileg svik ráðamanna Sovétríkjanna við mannréttindi.

Ef fulltrúar Vesturlanda fallast á hinar aumlegu friðartillögur hlutlausu ríkjanna, kalla þeir þar á ofan yfir sig og okkur enn eina marklausa Evrópufriðarráðstefnu, í Ottawa, þar sem sérstaklega verður fjallað um mannréttindi.

Í sérhvert skiptið ganga ólánsríkin hlutlausu á milli og ráða úrslitum um orðalag, sem verður sífellt þynnra og fjarlægara stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Þannig vinnur rangsnúinn friðarvilji hægt og örugglega gegn mannréttindum í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammhlaup ríkissaksóknara.

Greinar

Þjóðkirkjan hefur formlega neitað allri aðild og ábyrgð á skammhlaupi því, sem varð í embætti ríkissaksóknara, er hann höfðaði opinbert mál á hendur gamanblaðinu Speglinum fyrir meint guðlast, klám og ýmislegt fleira.

Þjóðkirkjunni er vel kunnugt um, að veraldleg vandamál fylgja fermingum. Frammámenn hennar hafa sjálfir kvartað um, að fermingar séu gerðar að féþúfu unglinga. Þeim kemur því ekki á óvart, að grín sé gert að fermingum.

Þjóðkirkjan er auðvitað betur fær en ríkissaksóknari um að meta, hvort dregið hafi verið dár að trúarkenningum hennar og guðsdýrkun. Og hún hefur réttilega komizt að þeirri niðurstöðu, að svo hafi ekki verið.

Enginn stjórnmálamanna landsins hefur tjáð sig á þann veg, að hann telji sér hafa verið minnkun gerð með klámi eða á annan hátt í því tölublaði Spegilsins, sem olli hinu furðulega skammhlaupi í embætti ríkissaksóknara.

Í áratuga langri sögu Spegilsins hafa stjórnmálamenn ekki frekar en aðrir vanið sig á að gera veður út af innihaldi tímaritsins. Þeir hafa talið gamanmál þess vera eðlilegan eða að minnsta kosti þolanlegan þátt þjóðlífsins.

Hlægilegastur hefur ríkissaksóknari orðið af þeim þætti málshöfðunarinnar, sem snýr að meintu klámi. Samtök kvenna hafa nefnilega tekið saman stóran bunka innlendra og erlendra tímarita með mun hrikalegra klámi.

Af þeim bunka má sjá, að ríkissaksóknari heldur verndarhendi yfir sölu á hinu ógeðslegasta klámi í annarri hverri sjoppu landsins. Hans er ábyrgðin á því klámi, af því að hann hirðir ekki um að hafa hemilinn, sem honum ber.

Aðgerðaleysi ríkissaksóknara gegn klámritum hefur verið skýrt með því, að almenningsálitið telji ástæðulaust að elta sérstaklega ólar við klám í þjóðfélagi, þar sem kynferðismál eru að hætta að vera feimnismál.

Árum saman hafa ráðamenn og almenningur látið klámritin í friði. Kvartanir hafa verið fáséðar og vægar. Ríkissaksóknari hefur með aðgerðaleysinu verið talinn taka tillit til almenningsálitsins fram yfir bókstafinn.

Svo verður skyndilega það skammhlaup, að ríkissaksóknari fer að fetta fingur út í meinleysislegt klám í gamanstíl, sem stingur í stúf við ógeðslegt og alvörugefið klám, er þessi embættismaður hefur hingað til verndað.

Öll meðferð ríkissaksóknara á Spegilsmálinu er hreint og tært rugl. Hún hlýtur að vekja umhugsun um, að nauðsynlegt kunni að verða að búa svo um hnútana, að ekki sé frekari hætta á skammhlaupi í hinu valdamikla embætti.

Ef dómstólar vísa ruglinu út í yztu myrkur, svo sem réttmætt er, má telja líklegt, að ríkissaksóknari hafi bakað ríkissjóði og skattgreiðendum fjárhagstjón með afbrigðilegum skoðunum á trúmálum, klámi og ýmsu fleiru.

Ríkissaksóknari tók sér heilan mánuð til að grafa upp kæruatriði út af því tölublaði Spegilsins, sem hann lét gera upptækt í maílok. Hann hefur haft nógan tíma til að láta þjóðkirkjumenn, stjórnmálamenn og siðferðismenn hafa vit fyrir sér.

Af ákærunni er ljóst, að þetta hefur ríkissaksóknara ekki tekizt. Hann situr því uppi sem dæmigert Spegilsefni, aðhlátursefni almennings. En í alvörunni eiga ekki að geta gerzt skammhlaup af þessu tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Reynt að vitka Reagan.

Greinar

Ráðamenn í Mexíkó, Kólumbíu, Venezúela og Panama hafa tekið saman höndum um að reyna að koma á sáttum milli stríðandi afla í smáríkjum Mið-Ameríku og reyna að fá stjórn Bandaríkjanna ofan af stuðningi við hægri öfgaöfl landeigenda.

Þeir hafa fengið til liðs við sig Felipe Gonzales, hinn unga og vel metna forsætisráðherra Spánar. Hann hefur átt viðræður við Reagan Bandaríkjaforseta, sem ber hluta ábyrgðarinnar á, hve illa þessi mál standa.

Sögur eru á kreiki í Washington um, að tilraunirnar hafi borið nokkurn árangur. Bandaríkjastjórn sé til dæmis í kyrrþey að reyna að koma á samstarfi við uppreisnarmenn í El Salvador um þátttöku þeirra í kosningum.

Ef þetta er rétt, stangast það blessunarlega á við hörmulega róttækar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um stuðning við ógnarstjórnina í El Salvador og um meintan kommúnisma þeirra afla, sem risið hafa gegn henni.

En ástæða er til að óttast, að sögusögnum um rénandi einstrenging Bandaríkjastjórnar sé ætlað að draga úr andstöðu meirihluta bandarísku þjóðarinnar og bandaríska þingsins við kúgunarstefnuna gegn alþýðu manna í Rómönsku Ameríku.

Í stórum dráttum eru átökin í Mið-Ameríku og raunar víðar í Rómönsku Ameríku milli hægri sinnaðra öfgaafla landeigenda annars vegar og alls litrófs stjórnmálanna hins vegar, allt frá kommúnistum yfir í kristilega demókrata.

Þáttaka bandarískra stjórnvalda í þessari togstreitu er ein samfelld harmsaga. Það voru til dæmis bandarískir landgönguliðar, sem komu í Nicaragua til valda hinni mjög svo illræmdu Somoza-ætt, er rændi og kúgaði þjóðina í fjóra áratugi.

Og enn þann dag í dag eru það bandarískir hernaðarsérfræðingar, sem reyna að koma fótunum undir uppreisnarher gamalla morðsveita Somozas, svo að þær geti gert strandhögg frá Honduras inn í landamærahéruð Nicaragua.

Það voru líka bandarísk stjórnvöld, sem svældu löglega stjórn Guatemala frá völdum og tróðu upp á þjóðina langri röð meira eða minna geðbilaðra glæpamanna, þar sem einna verstur er núverandi landsfaðir, Ríos Montt.

Samanlögð áhrif þessara afskipta hafa verið þau, að alþýðan í Rómönsku Ameríku hefur smám saman farið að setja jafnaðarmerki milli Bandaríkjanna og hinna öfgafullu og morðgjörnu landeigenda á hægra kanti stjórnmálanna.

Þannig voru Kúbumenn hraktir til fylgis við kommúnisma og punkturinn yfir i-ið settur með Svínaflóaárásinni, sem magnaði stuðning þjóðarinnar við vinstri öfgarnar, kommúnistastjórn Fidels Kastró.

Og þannig er nú verið að hrekja þjóð og stjórnvöld í Nicaragua frá miðjusinnuðu lýðræði yfir í hreina einræðisstjórn kommúnista með stuðningi allrar alþýðu manna. Ofsóknir Bandaríkjastjórnar framkalla þessa atburðarás.

Í El Salvador hefur ógnarstjórn hægri manna hrakið um 10.000 smábændur af jörðum þeirra og afhent þær hinum gráðugu landeigendum, sem fyrr og síðar hafa getað treyst á hernaðarlegan og pólitískan stuðning bandarískra stjórnvalda.

Vonandi leiða sáttatilraunir stjórnvalda á Spáni og í Mexíkó, Kólumbíu, Venezúela og Panama til, að Reagan Bandaríkjaforseti sjái villu síns vegar og hætti að láta Bandaríkin haga sér í Rómönsku Ameríku eins og Sovétríkin í Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vilmundur Gylfason.

Greinar

Vilmundur Gylfason alþingismaður hafði markað djúp spor í stjórnmálasögu landsins, þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram hinn 19. júní síðastliðinn – eftir aðeins tíu ára starfsævi, þar af aðeins fimm ár sem þingmaður.

Stundum er sagt, að stjórnmál gangi í ættir á Íslandi. Vilmundur var einn þeirra, sem fæddist inn í þjóðmál. Faðir hans og báðir afar voru innst í hringiðu stjórnmálabaráttu og þjóðmálaumræðu þessarar aldar.

Föðurafi Vilmundur var Þorsteinn Gíslason ritstjóri og móðurafi Vilmundur Jónsson landlæknir, báðir þjóðkunnir fyrir störf sín og þáttöku í landsmálum. Faðir hans er Gylfi Þ. Gíslason, einn merkasti stjórnmálamaður landsins.

Þá var Vilmundur kvæntur dóttur Bjarna Benediktssonar, sem var einn allra merkasti stjórnmálamaður aldarinnar. Þannig lifði Vilmundur og hrærðist í þjóðmálum, var í senn fæddur inn í þau og tengdur þeim – í bókstaflegri merkingu.

Vilmundur fæddist 7. ágúst 1948, sonur hjónanna Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lagði síðan stund á háskólanám í sagnfræði.

B.A. prófi lauk hann frá háskólanum í Manchester árið 1971 og M.A. prófi frá háskólanum í Exeter árið 1973. Sama ár varð hann kennari í sagnfræði við Menntaskólann í Reykjavík og gegndi því starfi unz hann var kjörinn á þing árið 1978.

Vilmundur lét til sín taka á mörgum sviðum. Hann var kunnur greinahöfundur, sjónvarpsmaður og útvarpsfréttamaður, ritstjóri Alþýðublaðsins og Nýs lands, hvatamaður að stofnun Helgarpóstsins og höfundur tveggja ljóðabóka.

Hann var þegar orðinn landskunnur, er hann hellti sér út í kosningabaráttuna árið 1978, tæplega þrítugur að aldri. Þá bauð hann sig fram fyrir Alþýðuflokkinn, sem vann frægan sigur í þeim kosningum.

Óhætt mun vera að fullyrða, að Vilmundur átti, að öðrum ólöstuðum, manna mestan þátt í sigrinum. Honum fylgdi inn í stjórnmálin nýr og ferskur andi, sem mikill fjöldi kjósenda kunni vel að meta.

Í Alþýðuflokknum hlaut Vilmundur ekki þann frama, sem eðlilegur hefði mátt teljast. Hann varð þó einn af ráðherrum flokksins í minnihlutastjórn Benedikts Gröndal, sem sat skamma hríð um áramótin 1979-1980.

Vilmundur sagði skilið við þingflokk Alþýðuflokksins í desember 1982 og stofnaði síðan Bandalag jafnaðarmanna í janúar á þessu ári. Hinn nýi flokkur vann strax það afrek að ná fjórum mönnum inn á þing í vor.

Margir hafa vafalaust kosið Bandalagið vegna stefnunnar og frumbjóðendanna. En þyngst á metunum var þó persóna Vilmundar sjálf. Um allt land, líka þar sem hann var ekki í framboði, sögðust menn vera að kjósa Vilmund.

Bandalag jafnaðarmanna á nú um sárt að binda, þegar fallinn er frá hinn mikli persónuleiki, sem var kjölfesta þess og árar. En missirinn er um leið þjóðarinnar allrar, því að Vilmundur var jákvætt þjóðmálaafl.

Sárastur er harmur vina og ættingja Vilmundar. Sérstakar samúðarkveðjur vill DV flytja konu hans, Valgerði Bjarnadóttur, og tveimur börnum þeirra hjóna. Missir okkar allra er mikill, en þeirra er missirinn mestur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þeir hóta okkur.

Greinar

Til marks um aukna ofbeldishneigð Kremlverja í samskiptum þjóða eru nýjustu hótanir þeirra um beitingu kjarnorkuvopna gegn Dönum, Norðmönnum og Íslendingum. Þær birtust í Rauðu stjörnunni, málgagni hersins.

Dönum, Norðmönnum og Íslendingum má vera ljóst, að Andropov og félagar eru ekki að minna okkur á að hindra Atlantshafsbandalagið í að gera Norðurlönd að skotpalli árásar á Sovétríkin, þótt þeir hafi það að yfirvarpi.

Arftakar Brezhnevs og herforingjar þeirra vita vel, að hvorki Atlantshafshandalagið né Norðurlönd ráðgera hernaðarlegt ofbeldi gegn Sovétríkjunum. Hins vegar langar Kremlverja að víkka valdsvið sitt, með eða án ofbeldis.

Einn þáttur í vaxandi ágengni sovézkra hernaðarsinna eru ferðir kjarnorkukafbáta í landhelgi norrænna ríkja. Þær hafa gengið svo langt, að einn báturinn strandaði uppi í fjöru langt inni í firði í Svíþjóð.

Þessi sérstæða frekja hefur leitt til hugleiðinga innan og utan Svíþjóðar um, að tímabært sé fyrir Svía að endurskoða stöðu sína í heiminum, áður en þeir eru nauðugir farnir að sitja og standa eins og Andropov þóknast.

Hlutleysi Svía var á sínum tíma reist á grundvelli töluverðs varnarmáttar þeirra. Nú er hins vegar svo komið, að útþenslumenn austursins hafa þennan mátt í flimtingum og athafna sig eftir þörfum í sænskum fjörðum.

Hótun Rauða hersins er meðal annars ætlað að vara Svía við að láta hugleiðingar um endurmat ganga svo langt, að þeir taki upp samstarf við Atlantshafsbandalagið. Þá verði þeir sprengdir eins og Danir, Norðmenn og Íslendingar.

Um leið er hótunum þessum ætlað að styðja við bak fimmtu herdeildanna í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Þessar deildir eru skipaðar nytsömum sakleysingjum, sem halda, að þeir stuðli að friði með þáttöku í ýmsum hreyfingum.

Ein skæðasta “friðar”-plágan er hugmyndin um samkomulag um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Hún byggist á þeirri firru, að mark sé takandi á undirskriftum Kremlverja undir alþjóðlega eða fjölþjóðlega samninga.

Sönnu er nær, að slíkar undirskriftir eru fremur vísbending um, að Andropov og félagar hugsi sér til hreyfings í hina áttina. Mannréttindabrot þeirra hafa til dæmis stóraukizt eftir undirritun Helsinki-sáttmálans.

Kjarnorkuvopnalaus lönd á borð við Norðurlönd þurfa engar yfirlýsingar Kremlverja um kjarnorkuvopnalaus svæði, ekki fremur en gagn er að hliðstæðum yfirlýsingum um, að þeir verði ekki fyrri til að beita kjarnorkuvopnum.

Yfirlýsingar af þessu tagi eru verri en marklausar. Til dæmis er dómur reynslunnar, að “ekki-árásarsamningur” er af hálfu slíkra stjórnvalda talinn eðlilegur aðdragandi árásar, – hluti af vinnubrögðum þeirra.

Á sama tíma og Andropov var að skipuleggja geðveikrahælin fyrir leyniþjónustuna lærði hann að fullkomna utanríkisstefnuna, sem felst í útþenslu með góðu og illu til skiptis. Nú hentar honum að byrja að hóta okkur.

Til þess að varðveita friðinn er okkur affarasælast að standa þétt saman í vörninni og láta “friðar”-hreyfingum ekki takast að rjúfa nein þau skörð í múrinn, sem Kremlverjar eru að blekkja þær til að reyna að gera.

Jónas Kristjánsson.

DV

Léttum á ríkinu.

Greinar

Þegar ríkisfyrirtæki verða seld, er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra, sem hingað til hafa notið fyrirtækjanna, ýmist sem meðeigendur í þeim, starfsfólk þeirra eða sveitarfélögin, þar sem þau starfa.

Bezt gerist þetta með því að hvetja meðeigendur, starfsfólk og sveitarfélög til að gerast hluthafar og taka fulla ábyrgð á rekstrinum. Hvatning gæti til dæmis fólgizt í að bjóða afborgunarkjör á hlutabréfum.

Að þessari tillitssemi fullnægðri á ekkert að vera því til fyrirstöðu, að ríkið geti losað sig við margvíslegan rekstur, sem ekki er auðsjáanlega í verkahring þess, svo sem Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hefur lagt til.

Tæpast er lengur ágreiningur um, að ríkisrekstur hefur tilhneigingu til að vera óhagkvæmari en annar rekstur. Það stafar einfaldlega af því, að meira er í húfi fyrir stjórnendur og starfsfólk einkafyrirtækja en ríkisfyrirtækja.

Ótal dæmi eru til um þennan samanburð. Hér nægir að minna á, að íslenzk og erlend reynsla bendir til, að sorphirða verði að minnsta kosti helmingi ódýrari við, að einkafyrirtækjum sé gefinn kostur á að bjóða í reksturinn.

Beinast liggur við, að ríkið selji hlutabréf sín í atvinnufyrirtækjum um allt land, svo sem lagmetisiðjum, raftækjaverksmiðju, skipaútgerð, skipasmíðastöð, flugfélagi og olíumalarfyrirtæki, svo að nokkur kunnustu dæmin séu nefnd.

Þótt ríkið hafi á sínum tíma ýmist stuðlað að stofnun þessara fyrirtækja út á hugsjón byggðastefnu eða hlaupið síðar undir bagga, þegar þau hafa rambað á barmi gjaldþrots, má ekki líta á þau sem eilífðar-hvítvoðunga.

Eftir nokkurra ára þáttöku hlýtur að vera eðlilegt, að ríkið geti endurheimt fjármagn sitt, þótt ekki sé nema til að geta notað það til að stuðla að nýjum fyrirtækjum, sem hugsanlega eru ofviða einstaklingum einum saman.

En ríkið verður einnig að gæta sín á þeirri braut. Svo virðist sem ríkið stefni að þáttöku í ýmsum vafasömum iðnaðarævintýrum, sem eiga eftir að vera ríkissjóði og þar með skattgreiðendum allt of þung í skauti.

Um leið og ríkið losar sig við hlutafé í grónum fyrirtækjum, er ekki síður mikilvægt að koma í veg fyrir, að það verji enn meira fé til að koma á fót rekstri, sem ekki stendur undir sér og hækkar þar á ofan vöruverð í landinu.

Svo eru líka heilu fyrirtækin, sem ríkið á sjálft og þarf að losa sig við. Hvaða erindi eiga til dæmis vélsmiðja, ferðaskrifstofa, bókaútgáfa, síldarverksmiðjur, graskögglaverksmiðjur og ýmis verktakastarfsemi í ríkisrekstrinum?

Við vitum af reynslu rafvæðingar og vegagerðar, að yfirleitt er ódýrara að bjóða framkvæmdir út en að láta ríkið hafa þær sjálft með höndum. Sama er að segja um ýmsa þjónustu ríkis og sveitarfélaga, eins og sést af dæminu um sorphirðu hér að ofan.

Af nógu er að taka, áður en menn byrja að deila um, hvort selja eigi áfengisverzlunina, skólana eða sjúkrahúsin. Miklu augljósari eru hin nærtæku dæmi Landssmiðjunnar, Ferðaskrifstofu ríkisins og Síldarverksmiðja ríkisins.

Hugmyndin er ekki að leggja slíka starfsemi niður, heldur að losa ríkið við áhyggjur af henni og gefa stjórnendum, starfsfólki, sveitarfélögum og öðrum lysthafendum tækifæri til að spreyta sig á eigin ábyrgð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Snjöll peðsfórn.

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra leit í síðustu viku yfir skákborð landbúnaðarkerfisins og sá ýmsar hættur leynast í taflinu. Eins og góðum skákmanni sæmir létti hann á stöðunni með því að fórna peði, svo að einokunarkerfið mætti standa.

Þegar Jón komst til valda, hafði einokunarkerfi landbúnaðarins nýlega rofið langt þrátefli og blásið til sóknar á tveimur stöðum í senn. Annars vegar átti að koma upp einokun á eggjum og hins vegar efla svæðiseinokun á jógúrt.

Athyglisvert var, að í umræðum um þetta mál tók enginn stjórnmálaflokkur upp hanzkann fyrir neytendur, hvorki í jógúrtinni né eggjunum, – ekki frekar en í öðrum tilraunum einokunarkerfis landbúnaðarins til að níðast á neytendum.

Eggjaeinokunin heitir úthlutun heildsöluleyfa. Hún miðar að samdrætti verksmiðjubúskapar í þágu heimilisbúskapar í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Þetta á að venju að gera á kostnað neytenda, – í mynd hækkaðs eggjaverðs.

Svæðiseinokunin á jógúrtsölu átti að leggja seljanda þá skyldu á herðar að koma í veg fyrir, að kaupendur færu með jógúrt út fyrir einokunarsvæðið, – með því að neita að selja slíkum kaupmönnum jógúrtina.

Hvort tveggja olli töluverðri reiði neytenda og efldi þá til dáða í vörninni. Einkum áttu menn erfitt með að kyngja hliðstæðunni við Hólmfast á Brunnastöðum, sem hýddur var fyrir að selja þrettán fiska utan einokunarsvæðisins.

Neytendur vildu ekki láta hýða Harald Gíslason, mjólkurbússtjóra á Húsavík, fyrir að leyfa jógúrtsölu til Hagkaups, sem flutti hana suður yfir heiðar og seldi þar á lægra verði en einokunarkaupmaður svæðisins, Mjólkursamsalan.

Í þessu máli eiga neytendur erfitt með að kyngja því, að við dreifingu landbúnaðarafurða sé árið 1983 beitt sömu svæðiseinokuninni og danska einokunarverzlunin beitti árið 1698, fyrir tæplega þrjúhundruð árum.

Um leið mættu menn muna, að jógúrt er aðeins lítill þáttur búvörusölunnar. Hún komst í sviðsljósið, af því að hún er ódýrari á Húsavík en í Reykjavík. Ef svo væri ekki, hefði svæðiseinokunin ekki vakið jafnmikla athygli.

Öll verzlun með hefðbundnar landbúnaðarafurðir sauðfjár og nautgripa er ófrjáls eins og öll verzlun yfirleitt var fyrir þremur öldum. Sérhver framleiðandi hefur einkarétt á þeim neytendum, sem teljast innan hans svæðis.

Þetta týnist í skákinni, þegar verðið er hið sama alls staðar. Þá taka menn hvorki eftir svæðiseinokuninni, né eftir því, að hún er aðeins hluti einokunarinnar sjálfar, innflutningsbannsins á hliðstæðum afurðum.

Með innflutningsbanni er komið í veg fyrir, að neytendur hafi til samanburðar ódýrari afurðir frá útlöndum, þaðan sem til dæmis er hægt að fá smjör, er kostar aðeins einn tíunda hluta af því, sem það kostar hér í einokuninni.

Þannig er nauðsynlegt, að neytendur átti sig á, að hin afturkallaða svæðiseinokun á jógúrt var bara hluti svæðiseinokunar landbúnaðarafurða, sem svo aftur á móti er ekki nema hluti alls einokunardæmis landbúnaðarins.

Þetta veit Jón Helgason. Sem góður skákmaður stöðvaði hann umsvifalaust sókn jógúrteinokunarinnar. Hann fórnaði því peði í von um, að neytendur legðust aftur í dvala og gleymdu afganginum af allri einokuninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Skömmtunarspilling á flótta.

Greinar

Spillingin hefur orðið að víkja í fyrsta skipti um áratuga skeið við úthlutun lóða hjá Reykjavíkurborg. Boðnar hafa verið fleiri sérbýlislóðir í Grafarvogi en lysthafendur treysta sér til að taka, 978 boðnar og 910 þegnar.

Hingað til hefur úthlutun lóða verið eins konar gjöf borgarinnar til þeirra, sem náðarinnar fengu að njóta. Lóðirnar hafa síðan gengið kaupum og sölum undir borði. Margir hafa hagnazt vel á úthlutuninni.

Dæmi eru um, að yfirverð lóða í Fossvogi hafi komizt upp fyrir 200.000 krónur. Sá var hagnaður þeirra, er fengu úthlutað þar lóðum og seldu réttinn síðan öðrum, sem ekki voru jafn lánsamir, en vildu byggja.

Formlega séð er ekki heimill slíkur markaður á lóðum borgarinnar. En löng reynsla sýnir, að ókleift er að hafa hemil á honum. Skjöl um viðskiptin koma ekki í ljós fyrr en löngu seinna og þá í formi sölu á húsi í byggingu.

Á sínum tíma fólst í skömmtuninni pólitísk spilling. Þeir, sem voru í náðinni hjá meirihluta borgarstjórnar, áttu auðveldara með að fá lóðir en aðrir. Þetta var ljótur blettur á orðstír hægri borgarstjórna fyrri ára.

Vinstri borgarstjórnin breytti þessu í sjálfvirka punktagjöf, sem tók pólitíkina út úr spillingunni og setti fáránleikann í staðinn. Menn urðu nánast að sanna, að þeir hefðu ekki ráð á að byggja til að fá að byggja!

Fyrir bragðið jókst mjög undirborðssala á lóðarétti í Reykjavík. Menn sóttu ekki um til að byggja, heldur til að ná sér í fríar 200.000 krónur í krafti punktafjölda. Skömmtunin hélzt og þar með spillingin líka.

Vandinn er nefnilega, að sérhverri skömmtun fylgir óhjákvæmilega spilling, hvernig svo sem reynt er að skipuleggja hana. Skömmtun stríðir gegn gamalkunnu lögmáli framboðs og eftirspurnar, sem vinstri menn skilja illa.

Reykjavíkurborg hefur tvær leiðir til að ná nauðsynlegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lóðum til að útrýma svartamarkaði í sölu lóðaréttinda. Annars vegar er hægt að fjölga lóðum og hins vegar hækka þær í verði.

Hvort tveggja var gert, þegar lóðirnar í Grafarvogi voru boðnar. Það hefur leitt til hins frábæra árangurs, að allir geta fengið þar lóðir, sem vilja, og án þess að þurfa að kaupa réttinn undir borði á svörtum markaði.

Hitt er svo líka rétt, að þessi úthlutun er ekki endanlegur sigur á lóðaspillingu. Ekki hefur enn komið í ljós, hvort hinn nýi, hægri meirihluti í borgarstjórn getur líka boðið upp á markaðsjafnvægi í öðrum tegundum lóða.

Lóðirnar í Grafarvogi voru fyrst og fremst ætlaðar fremur stórum sérbýlishúsum, sem auðvitað eru ofviða öllum þorra manna, ekki sízt á tímabili samdráttar í lífskjörum. Þessar lóðir eru bara hluti dæmisins.

Í skipulagi Reykjavíkur þarf að leggja mikla áherzlu á millistig blokkalóða og stórra sérbýlislóða. Millistigið felst einkum í lóðum undir lítil og einföld sérbýlishús fyrir venjulegt fólk, eins konar Smáíbúðahverfi nútímans.

Ef nýja meirihlutanum tekst að koma á jafnvægi í framboði og eftirspurn á öllum tegundum íbúðarhúsalóða, einnig blokkalóða og lóða fyrir lítil sérbýlishús, eru það markverð og ánægjuleg tímamót í undanhaldi spillingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Bjartsýnisstofnunin.

Greinar

Hafrannsóknastofnunin er óneitanlega með seinni skipunum, er hún mælir með 300 þúsund tonna þorskafla á ári, sem þegar er hálfnað og þegar hefur sýnt, að aflinn verður ekki meiri, hvað sem of stór floti skarkar.

Rétt fyrir áramótin mælti stofnunin með 350 þúsund tonna þorskafla á þessu ári, þótt þá þegar væri ljóst, að hættumörkin voru mun neðar eða við 300 þúsund tonn. Þetta gerði hún til að þóknast þáverandi sjávarútvegsráðherra.

Steingrímur Hermannsson, sem nú er orðinn forsætisráðherra, gaf um þetta leyti út minnisstæða yfirlýsingu, sem hljóðaði svo: “Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.”

Steingrímur taldi tímabundna ofveiði réttlætanlega vegna erfiðleika þjóðarbúsins. Hann vildi ekki eða gat ekki séð fyrir sér, hvernig ofveiði þorskstofnsins mundi fyrr eða síðar leiða til enn meiri vandræða þjóðarbúsins.

DV sagði þá í leiðara:

“Vandséð er, að það sé í verkahring fiskifræðinga að spá um þol þjóðarbúsins eða Steingríms Hermannssonar. Enda væri nú mikið hlegið að Hafrannsóknastofnuninni, ef mönnum væri hlátur í hug í aðvífandi kreppu.

Hafrannsóknastofnunin átti auðvitað að leggja til 300 þúsund tonna þorskafla á næsta ári og láta pólitíska valdið í landinu um að lyfta þeirri tölu upp í það, sem þjóðarbúið þolir að mati Steingríms Hermannssonar.

Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti, sem Hafrannsóknastofnunin ruglast í hlutverki sínu. Löngu er orðið tímabært, að Jón Jónsson hætti að leika stjórnmálamann og fari í staðinn að snúa sér að fiskifræðinni.”

Það hefur löngum verið böl íslenzkra fiskistofna, að Hafrannsóknastofnunin gefur út gífurlega bjartsýnar tölur, sem byggja ekki á vísindum, heldur á mati forstjórans á, hvað viðkomandi sjávarútvegsráðherra vilji heyra.

DV sagði við sama tækifæri:

“Ekki þarf mikla greind til að sjá, að auðveldasta leiðin til að setja þjóðarbúið á höfuðið er að halda áfram að ofveiða þorskinn. Það verður ekki mörgum sinnum hægt að veiða 350 þúsund tonn úr 1.500 þúsund tonna heildarstofni.

Sjálfur hrygningarstofninn er kominn niður í 560 þúsund tonn og fer ört minnkandi. Enda eru stórir árgangar alveg hættir að bætast við. Fljótlega verður 300 þúsund tonna ársafli meira að segja of mikill.”

Þessi síðasta aðvörun var raunar nærtækari en þá var vitað. Hafrannsóknastofnunin segir nefnilega núna, að þorskstofninn sé kominn niður í 1.300 þúsund tonn og hrygningarstofn hans niður í 420 þúsund tonn.

Það sígur því hratt á ógæfuhliðina, meðan hver ístöðulítill sjávarútvegsráðherra á fætur öðrum rekur þá ofsafengnu smábyggðastefnu að láta veita togarakaupendum um 100% lán, sem aldrei verða endurgreidd.

Þannig var þurrkuð upp síldin og þannig var þurrkuð upp loðnan. Næstur er þorskstofninn, sem verið er að útrýma með opinberum lánum til kaupa á skipum, sem þjóðin þarf ekki og sem raunar eru stórkostlega skaðleg þjóðinni.

Við slíkar aðstæður er hart, að Hafrannsóknastofnunin skuli gefa út bjartsýnar tölur, sem ólánsmenn vilja heyra.

Jónas Kristjánsson.

DV

3% eða 26%

Greinar

Eitt hið ahyglisverðasta við talnaflóð gærdagsins frá Þjóðhagsstofnun er, að kjaraskerðinguna má meta allt frá 3% upp í 26% eftir forsendunum, sem menn gefa sér. Þetta er auðvitað mikið bil, þótt við séum ýmsu slíku vanir.

Alþýðusamband Íslands bendir á hæstu töluna og segir hana vera nokkurn veginn í samræmi við sína útreikninga. Sú tala á að sýna, hversu miklu lægri verður kaupmáttur taxta í júlí-september á þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Lægri talan á hins vegar að sýna, hversu miklu lægri verða ráðstöfunartekjur á mann á þessu ári en þær hefðu orðið, ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu ekki komið til sögunnar, að meðtöldum svokölluðum mildandi aðgerðum.

Fyrir skömmu sagði Þjóðhagsstofnun í þjóðhagsspá, að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi að óbreyttu lækka um 8-9% á þessu ári. Sú spá hefur skyndilega hrokkið upp í 11%, sem er töluvert reikningsstökk á aðeins tveimur mánuðum.

Þau 26%, sem nefnd voru hér að framan, eru kjaraskerðing þriðja ársfjórðungs þessa árs. Ef miðað er við allan seinni helming ársins, fer talan niður í 24%. Sé miðað við allt árið fer talan niður í 20% og miðast enn við kauptaxta.

Síðan metur Þjóðhagsstofnun gildi hinna mildandi aðgerða upp á 4% fyrir almenning og 6% fyrir þá, sem eru á lægstum launum. Loks gerir hún ráð fyrir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækki minna en kaupmáttur taxta.

Ekki er ljóst, hvernig það á að gerast. Sennilega átt við launaskrið, sem felst í, að mikilvægir starfsmenn fái hækkanir umfram kerfi. Eins og áður mun það fyrst og mest gagnast þeim, sem hæst launin hafa fyrir.

En með þessum aðferðum kemur Þjóðhagsstofnun reikningslegri kjaraskerðingu ársins niður í 14%, sem er aðeins þremur prósentum hærra en þau 11%, sem stofnunin segir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði minnkað um að óbreyttu.

Þannig getur fólk valið sér ýmsar prósentur við hæfi. Stjórnarsinnar geta dásamað, að kjaraskerðing af ríkistjórnarinnar hálfu sé ekki nema 3% og stjónrarandsæðingar geta bölsótast yfir, að hún sé 26%. Allir hafa sínar tölur.

Lægri talan vekur að vísu eina spurningu: Ef 3% er rétt, til hvers var þá allt bramboltið? Var ekki meiningin að skerða lífskjörin, svo að þjóðin hætti að lifa um efni fram? Borgar sig að setja allt á hvolf út af 3% í viðbót?

Ef skerðing bráðabirgðalaganna er ekki nema 3%, hefði áreiðanlega verið betra að skerða kjörin með hliðaráðstöfunum, svo sem hækkun orkuverðs upp í raunvirði, hækkun vaxta upp í raunvirði og lækkun gengis niður í raunvirði.

Slík kjaraskerðing hefði lagfært verðkerfið í landinu, án þess að um leið væri efnt til stóksotlegra átaka á vinnumarkaði. Hún hefði runnið betur niður hjá launafólki og umboðsmönnum þess í kjarasamningum.

Hærri talan vekur svo aðra spruningu: Hvernig á fólk að lifa síðari hluta ársins á 24% lægri kaupmætti kauptaxta en það hafði síðari hluta ársins í fyrra? Hvaða 24% af rekstri sínum á láglaunafólk að skera niður?

Þess vegna er óhætt að ráðleggja láglaunafólki nú þegar að skera niður útgjöld eftir fremsta megni og reyna jafnvel að breyta lausaeignum á borð við bíla í handbært fé til að greiða taprekstur heimilanna á næstu mánuðum.Jónas Kristjánsson

DV

Skaðlegur einstrengingur.

Greinar

Hugmynd ríkisstjórnarinnar um jöfnun húshitunarkostnaðar er ein afleiðingin af einstrengingslegri baráttu hennar gegn verðbólgunni og er um leið gott dæmi um skaðleg áhrif opinberra aðgerða á efnahag þjóðarinnar.

Hitaveita Reykjavíkur sækir reglulega um að fá að hækka gjaldskrána. Þessar beiðnir miða að því, að fyrirtækið geti varið fé til rannsókna til undirbúnings stækkunar og fé til fjárfestingar af eigin rammleik.

Þessar hækkunarbeiðnir eru yfirleitt skornar niður, af því að gjaldskrá Hitaveitunnar hefur töluverð áhrif á vísitölur. Hækkun hennar leiðir til aukinna verðbóta á laun og þar með til aukinnar verðbólgu.

Afleiðingin er sú, að Hitaveitan hefur ekkert fé til undirbúnings nývirkjana og verður að taka erlend lán til að standa undir brýnustu framkvæmdum til að sjá núverandi viðskiptavinum fyrir vatni að vetrarlagi.

Þannig hefur myndast gífurlegur skuldahali í útlöndum. Hann er hliðstæður skuldahala Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja, sem orðinn er til á sama hátt. Allir skuldahalarnir eru afleiðing baráttunnar við verðbólguna.

Um helmingur af skuldum Íslendinga við útlönd er orðinn til á þennan hátt. Vegna verðbólgunnar mega orkufyrirtæki ekki taka sannvirði fyrir orkuna, heldur verða börnin okkar síðar að borga núverandi niðurgreiðslur á orkuverði.

Allir vita nú orðið, að skuldasöfnun í útlöndum er orðin að einu allra hættulegasta meini Íslands. Hún er orðin svo rosaleg, að einungis helmingur af útflutningstekjum okkar nýtist til kaupa á innfluttum nauðsynjum.

Ein hliðaráhrifin enn eru, að vegna Hitaveitunnar og annarra slíkra skuldara er ekki hægt að lækka gengi krónunnar nægilega. Tap Hitaveitunnar á síðustu gengislækkun einni nam meira fé en allri fjárfestingu hennar á þessu ári.

Um leið hefur hinn alltof ódýri hiti frá Hitaveitu Reykjavíkur þau áhrif, að annars staðar á landinu kvartar fólk um aðstöðumun. Það vill ekki borga margfaldan húshitunarkostnað og heimtar, að hann sé jafnaður.

Vandamálið er þó ekki, að hiti víða úti á landi sé of dýr miðað við tilkostnað, heldur er hitinn á Reykjavíkursvæðinu of ódýr, því að umtalsverðum hluta kostnaðarins er velt yfir á börnin okkar með skuldasöfnun í útlöndum.

Eins og aðrar ríkisstjórnir, en í einstrengingslegri mæli, er þessi ríkisstjórn upptekin af verðbólgunni einni saman. Þess vegna hyggst hún jafna húshitunarkostnað niður á við í stað þess að jafna hann upp á við.

Ríkisstjórnin kaus að magna kjaraskerðingu ársins úr 8-9% í hærri, ótilgreinda tölu, sem gæti numið 16-18% og efna þannig til stórfelldra átaka á vinnumarkaði á næstu misserum. Lækkun húshitunarkostnaðar á að vera ein sárabótin.

Nær hefði verið að reyna að skerða kjörin með óbeinum leiðum, svo sem hækkun húshitunarkostnaðar upp í raunvirði, og öðrum hliðstæðum aðgerðum, svo sem lækkun gengis niður í raunvirði og hækkun vaxta upp í raunvirði.

En ríkisstjórnin starir bara á verðbólguna. Slíkur einstrengingur hefur skaðleg áhrif á efnahag þjóðarinnar, svo sem dæmið um Hitaveitu Reykjavíkur og húshitunarkostnaðinn sýnir. Íslendingar mega því búast við hinu versta.

Jónas Kristjánsson.

DV

Andfélagsleg hegðun.

Greinar

Launþegar, neytendur og skattgreiðendur ættu að trúa sem fæstu af því, sem talsmenn landbúnaðarins halda fram, þegar þeir leggjast í vörnina. Þeir hafa nefnilega hvað eftir annað verið staðnir að ósannindum á undanförnum árum.

Ekki alls fyrir löngu fullyrtu þeir, að mjólkin væri fúl vegna rangrar meðferðar í verzlunum og heimahúsum. Hins vegar kom í ljós, að þetta stafaði af óheimilli forhitun og óheimilli dagstimplun fimm daga fram í tímann.

Forhitunin drepur sýrugerla og hleypir rotnunargerlum á skrið, svo að mjólkin fúlnar í stað þess að súrna. Þetta er gert til að neytendur taki ekki eftir, að mjólkin er stundum orðin tíu daga gömul, þegar hún er drukkin.

Ekki alls fyrir löngu sögðu talsmenn landbúnaðarins, að erlendar kartöflur væru í fyrsta lagi ófáanlegar, í öðru lagi of dýrar, í þriðja lagi afgreiddar með útflutningsgjaldi og í fjórða lagi þaktar kólóradóbjöllum.

Hins vegar kom í ljós, að erlendar kartöflur eru fáanlegar allt árið. Einnig kom í ljós, að danskar kartöflur, sem voru seldar hingað á 1,20 krónur kílóið, voru seldar til Færeyja á 0,85 krónur kílóið. Enginn veit, hvert verðmunurinn rann.

Eini munurinn á kartöflunum var, að þær, sem fóru til Íslands, voru sýktar sveppum, en hinar, sem fóru til Færeyja, voru lausar við sveppi. Talsmenn landbúnaðarins treystu sér ekki til að segja, að sveppirnir væru svona dýrir.

Ennfremur kom í ljós, að ekkert útflutningsgjald er lagt á kartöflur, sem seldar eru til Íslands. Loks kom í ljós, að Grænmetisverzlunin flutti sjálf inn kartöflur frá Mexíkó, einu frægasta svæði kólóradóbjöllunnar.

Ekki alls fyrir löngu héldu talsmenn landbúnaðarins því fram, að þeir væru hættir að fleygja tómötum á haugana. Það höfðu þeir gert til að þurfa ekki að selja þá neytendum á niðursettu verði, enda er þeim fremur illa við neytendur.

Hins vegar kom í ljós, að þeir héldu áfram að fleygja tómötum, en gerðu það í skjóli nætur og mokuðu sagi ofan á, svo að ekki kæmist upp. Þetta varð samt uppvíst og olli töluverðri reiði almennings.

Talsmenn landbúnaðarins fullyrtu þá, að þessir tómatar hefðu verið ofþroskaðir og ónýtir. Einnig þetta reyndist vera ósatt. Það voru hinir beztu tómatar, sem bornir voru á veizluborð fyrir rottur öskuhauganna.

Nú standa talsmenn landbúnaðarins á því fastar en fótunum, að fyrirhuguð einokun á eggjum sé raunar engin einokun og alténd neytendum til hagsbóta. Þessu ættu menn ekki að trúa frekar en öðrum fullyrðingum talsmannanna.

Þetta eru sömu mennirnir og eru að hindra fólk á Reykjavíkursvæðinu í að fá betri jógúrt í betri umbúðum frá Húsavík. Þeir halda því meira að segja fram, að umbúðirnar á Húsavík séu ekki nógu góðar. Það er ósatt eins og annað.

Kerfi landbúnaðarins kemur fram í ýmsu gervi, sem Sölufélag garðyrkjumanna, Grænmetisverzlun ríkisins, Framleiðsluráð landbúnaðarins og Sex manna nefnd, svo að dæmi séu nefnd. Á öllum þessum stöðum er logið eftir þörfum.

Kerfi þetta lítur á launþega, neytendur og skattgreiðendur sem herfang, er misþyrma megi í skjóli innflutningsbanns, einokunar og sjálftektar á verði. Einn mikilvægasti þáttur þessarar andfélagslegu hegðunar er fólginn í að fara með rangt mál.

Jónas Kristjánsson

DV

Utan og ofan veruleikans.

Greinar

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á bændum,” sagði talsmaður landbúnaðarins á blaðamannafundi, þar sem hann reyndi að útskýra, af hverju landbúnaðarvörur þurfa að hækka um 22-33% meðan laun hækka um 8%.

Launþegar og neytendur telja margt fleira “ógerlegt” en þetta eitt, en þeir hafa ekki sama vald og talsmaður landbúnaðarins hefur, með starfsmann landbúnaðarráðuneytisins sér á aðra hlið og Torfa Ásgeirsson sem “fulltrúa neytenda” sér á hina.

Launþegar og neytendur telja fleiri en bændur hafa orðið fyrir “áorðnum hækkunum” á síðustu þremur mánuðum. Og ofan á þau 22% hefur nú bætzt enn ein “áorðin,’ hækkun, sem felst í 22-33% hækkun á verði landbúnaðarafurða.

En launþegar og neytendur hafa ekki sömu stöðu í kerfinu og landbúnaðurinn. Þeir verða að sæta Torfa Ásgeirssyni, sem enginn kannast við, að launþegar eða neytendur hafi valið til að gæta hagsmuna sinna gegn úlfum kerfisins.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á launþegum,” gæti forseti Alþýðusambandsins reynt að segja. En slík skoðun utan úr bæ hefur ekki ákvörðunargildi eins og tilskipanir talsmanns landbúnaðarins hafa.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á neytendum,” gæti formaður Neytendasamtakanna reynt að segja. En slík skoðun utan úr bæ hefur ekki ákvörðunargildi eins og tilskipanir talsmanns landbúnaðarins hafa.

Sá valdamikli maður veit líka, að fleira er “ógerlegt” en frávik frá ýtrustu verðhækkunum einokunarafurða landbúnaðarins. En þau “ógerlegu” atriði varða öll hagsmuni kerfisins, sem myndað hefur verið um hinn hefðbundna landbúnað.

Það er til dæmis “ógerlegt” að leyfa í Reykjavík sölu á ódýrari jógúrt í betri umbúðum frá Húsavík, því að samkvæmt lögum hefur Mjólkursamsalan í Reykjavík einkarétt á að nauðga launþegum og neytendum á því svæði.

Það er einnig ,”ógerlegt” að leyfa frjálsa sölu á eggjum, því að eggjaverð, sem er lægra en “gerlegt” verð að mati landbúnaðarstjóra, er að mati þeirra ekki í þágu neytenda, svo sem þeir hafa rakið í löngu máli að undanförnu.

Það er einnig “ógerlegt” að leyfa frjálsa sölu á svínakjöti af sömu ástæðum. Því miður fyrir talsmanninn felldu svínabændur með eins atkvæðis meirihluta að níðast á neytendum á sama hátt og hinn hefðbundni landbúnaður gerir.

En það kemur dagur eftir þennan dag. Og talsmaður landbúnaðarins hefur auðvitað góðar vonir um, að svínabændur sýni sama félagsþroska og eggjabændur og falli í faðm hins sjálfvirka kerfis, þar sem allt óþægilegt er “ógerlegt”.

Það er ennfremur “ógerlegt” að selja neytendum aðrar kartöflur en smælki, af því að það er of smávaxið fyrir verksmiðjurnar, sem framleiða franskar kartöflur. Og ekki má flytja inn stórar kartöflur, meðan smælkið er ekki uppselt.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á bændum,” er dæmigerð yfirlýsing úr lokuðu kerfi, sem ekkert tillit þarf að taka til umheimsins og telur raunar umheiminn hafa þann eina tilgang að þjónusta þetta kerfi.

Utan og ofan við veruleika íslenzks þjóðfélags er kerfi, sem fléttað hefur verið úr innflutningsbanni á búvörum, einokun á sölu þeirra og sjálfdæmi um verð. Því er leyft að “dynja” með ofurþunga á launþegum, neytendum og ekki sízt skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV