Greinar

Umhyggjusamir hörmangarar.

Greinar

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur bannað sölu á jógúrt frá Húsavík í verzlunum í Reykjavík, af því að lög byggðastefnuþingmanna um framleiðsluráð ákveða, að einn aðili skuli hafa einkarétt á heildsölu landbúnaðarafurða á hverju markaðssvæði.

Jógúrtin frá Mjólkursamsölunni, hörmangara Reykvíkinga, hefur verið óhæfilega dýr, meðal annars vegna dýrra umbúða. Þessar dýru umbúðir hafa átt það til að bresta í innkaupapokum, svo að jógúrtin hefur runnið út um aðrar vörur.

Þetta komst Mjólkursamsalan upp með vegna einkaréttarins á Reykjavíkursvæðinu. Þessi einkaréttur er angi af rotnu og spilltu kerfi, sem miðar að því, að opinberir styrkþegar fái að framleiða það, sem þeim þóknast, af óhæfilega dýrri vöru.

Um tíma keypti Hagkaup aðra jógúrt út úr búð á Húsavik og flutti suður á eigin kostnað. Um tíma gátu neytendur því fengið í verzluninni jógúrt, sem bæði var mun ódýrari og einnig í mun öruggari umbúðum, sem ollu ekki tjóni.

Nú hefur þetta verið formlega bannað. Framvegis getur Mjólkursamsalan því selt óhæfilega dýra jógúrt í óhæfilega dýrum og forkastanlega lélegum umbúðum, undir verndarvæng framleiðsluráðs og byggðastefnuþingmanna allra flokka.

Framleiðsluráð landbúnaðarins er um leið að reyna að færa út kvíarnar á öðrum sviðum. Jafnframt heldur það uppi áróðursherferð um, að allar þess gerðir séu í rauninni í þágu neytenda og til þess fallnar að lækka verð á landbúnaðarafurðum.

Þetta minnir á árið 1602, þegar Danakonungur kom á fót einokunarverzlun á Íslandi af einstæðri umhyggju fyrir Íslendingum, svo að þeir fengju “óspilltan varning á sanngjörnu og kristilegu verði”. En nú er árið 1983.

Framleiðsluráð landbúnaðarins vinnur skipulega að stofnun einokunarverzlunar á eggjum. Þetta gerir ráðið til að hindra nokkra stóra framleiðendur í að halda niðri verði fyrir hokrurunum, neytendum í landinu til mikils sparnaðar.

Þegar einokunin er komin á legg, geta hokrararnir framleitt eins og þeim þóknast af eggjum á hinu háa verð- lagi kerfisins. Síðan mun ríkið neyðast til að greiða niður eggin á kostnað skattgreiðenda til að koma vörunni í lóg.

Framleiðsluráð landbúnaðarins ætlar ekki að láta sitja við eggin ein. Nýlega var fellt með aðeins eins atkvæðis meirihluta á fundi svínabænda að biðja um að fá að falla í faðm ráðsins eins og eggjabændur höfðu þegar gert.

Um svínabændur gildir hið sama og um eggjabændur, að hokrararnir eru margir, en stórframleiðendurnir fáir. Því má búast við, að fyrr eða síðar verði sjónarmið framleiðsluráðs einnig þar ofan á, svo að skattgreiðendur fái einnig þá framleiðslu á bakið.

Krumla einokunarinnar er á kafi í fleiri þáttum. Einkaréttur Grænmetisverzlunar landbúnaðarins á kartöflum hefur nú gengið svo langt, að á almennum markaði er ekki lengur til nema smælki, því að stóru kartöflurnar fara allar í verksmiðjurnar.

Þetta sama gæludýr framleiðsluráðs og byggðastefnuþingmanna ræður því einnig, hvaða tegundir grænmetis Íslendingar mega kaupa og af hvaða gæðum. Hinir kristilega umhyggjusömu hörmangarar spyrja neytendur aldrei neins.

Svo er það verðugt umhugsunarefni fyrir neytendur og skattgreiðendur, að enginn stóru stjórnmálaflokkanna hefur minnsta áhuga á að rjúfa þessa sautjándu aldar einokun, sem kostar þjóðina nokkrar Kröfluvirkjanir á ári hverju.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vasatölvumenn og -tölur.

Greinar

Margt er skrýtið í kýrhaus kosningabaráttu og stjórnarmyndunartilrauna. Eitt hið merkilegasta er, að við stjórnarmyndun fer mestur tími í að reikna, hvaða tölur komi út úr kosningaloforðum, sem flokkarnir gáfu fyrir kosningar.

Á samningafundum stjórnmálaflokkanna bar einna mest á svokölluðum efnahagssérfræðingum, það er að segja mönnum, sem kunna á vasatölvur. Verkefni þeirra var að reikna margvísleg dæmi, sem stjórnmálamennirnir voru að velta milli sin.

Ekki hvarflar að neinum, að stjórnmálaflokkarnir gætu haft not af mönnum með vasatölvur, þegar þeir búa til kosningaloforð og stefnuskrár fyrir kosningar. Það gæti sparað töluverða vinnu í tilraunum til stjórnarmyndunar eftir kosningar.

Hin raunverulega ástæða gildandi kerfis er sú, að stjórnmálaflokkarnir kæra sig ekkert um að láta reikna kosningaloforðin. Þeir vilja bara geta slegið fram fullyrðingum um, að þeir muni útvega 80% húsnæðislán til 42 ára.

Mennirnir með vasatölvurnar gætu auðveldlega upplýst loforðasmiðina um, að slík húsnæðislán kosti gífurlegar fjárupphæðir, sem einhvers staðar verði að taka og þá á kostnað einhvers annars, sem ekki væru þá til peningar fyrir.

Staðreyndir af slíku tagi henta ekki stjórnmálamönnum fyrir kosningar, þegar þeir eru að gera hosur sínar grænar fyrir almenningi. Þær koma þá fyrst til skoðunar, þegar stjórnmálamennirnir neyðast til að reyna að mynda ríkisstjórn.

Hitt er svo annað mál, að kjósendur gætu, ef þeir vildu, vanið stjórnmálamenn af þeim ósið að slá fram marklausum loforðum fyrir kosningar og kalla þau stefnuskrá. Kjósendur gætu beðið um vasatölvutækt innihald.

Annað athyglisvert atriði er, að vasatölvumenn eru misjafnlega frjálslyndir í spádómum, eftir aðstæðum hverju sinni. Þeir gefa út þjóðhagsspár einu sinni eða oftar á ári, en geta nú ekki spáð kjaraskerðingunni.

Fyrir stjórnarmyndunartilraunir höfðu stjórnmálamenn í höndunum þjóðhagsspá um, að þjóðartekjur á mann mundu minnka um 8% samtals árin 1982 og 1983 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi minnka um 8-9% árið 1983.

Eftir stjórnarmyndunartilraunir virðist nánast ókleift að fá upplýsingar um, hvaða áhrif stjórnarsáttmálinn muni hafa á kaupmátt ráðstöfunartekna, í hreinum tölum reiknað, hvort kjaraskerðingin sé 3% eða 30%.

Óneitanlega væri fróðlegt að vita, hver sé kjaraskerðing stjórnarsáttmálans sérstaklega og einnig samanlögð kjaraskerðing þeirra tveggja ríkisstjórna, sem skipt var á í síðustu viku. Það kæmi sér vel fyrir fólk að vita þetta.

Í upplýsingaskortinum fara atvinnulygarar stjórnmálaflokkanna á kostum. Á einum stað er talað um 30% kjaraskerðingu og á öðrum um 3% kjaraskerðingu, sem sé í rauninni kjarabót miðað við fyrri 8-9% kjaraskerðingu.

Auðvitað kæmi sér vel fyrir fólk að vita, hvað vasatölvurnar segja um þetta mál, hver sé þeirra kjaraskerðingarspá. Það kæmi sér vel að hafa spá til að byggja á gagnráðstafanir, svo sem sölu á bíl eða íbúð.

Vasatölvur, vasatölvumenn og tölur úr vasatölvum eru allt nytsamleg fyrirbæri, sem æskilegt væri að nota meira í stjórnmálum bæði fyrir og eftir kosningar. Bezt væri það fyrir kosningar, en eftir kosningar er betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV

150 daga vinnufriður.

Greinar

Nýja ríkisstjórnin er þegar tekin til starfa með súpu bráðabirgðalaga, sem eru fyrsta skrefið í átt til höfuðmarkmiðs hennar, hjöðnunar verðbólgunnar. Líklegt er og sanngjarnt, að hún hafi um þetta vinnufrið fram á haust.

Stundum er talað um, að ríkisstjórnir þurfi 100 daga frið til að koma sér fyrir. Í þessu tilvíki má búast við, að friðurinn geti í stórum dráttum staðið í 150 daga, – til næsta alþingis og birtingar fjárlagafrumvarps.

Að minnsta kosti verður Svavar Gestsson að hafa hægt um sig og Alþýðubandalagið á næstu vikum. Hann er búinn að reyna að mynda stjórn upp á engar vísitölubætur í júní, sem er snöggtum harðneskjulegra en stjórnin býður.

Í júní verður Svavar í mínus í hinum kunna samanburði um misjöfn svik við samninga. Kjörorðið um samningana í gildi fer því tæpust að sjást í Þjóðviljanum fyrr en á ofanverðu sumri. En svona er að geta ekki verið fullkomlega ábyrgðarlaus.

Raunar er athyglisvert, að Svavar skyldi ganga svona langt í tilraun til stjórnarmyndunar, sem fyrirfram var dauðadæmd. Í tíu daga tilraun Geirs Hallgrímssonar hafði nefnilega þegar komið í ljós, að núverandi stjórnarflokkar næðu saman.

Viðbótartími stjórnarkreppunnar fór sumpart í hinn hefðbundna hringdans formanna og sumpart í tilraunir til að fá Alþýðuflokkinn inn í samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Að stjórnarkreppan stóð einungis í mánuð sýnir, að vel var á málum haldið. Geir Hallgrímsson hefur þakkað fyrir síðast, er Ólafur Jóhannesson myndaði stjórn fyrir hann. Nú hefur hann í staðinn myndað stjórn fyrir Steingrím Hermannsson.

Ríkisstjórnin hefur náð fyrsta markmiði sínu – að fæðast í tæka tíð til að setja bráðabirgðalög gegn hinum meinta dómsdegi, 1. júní. Við verðum að bíða og sjá, hvort ferill verðbólgunnar verður eins og stjórnin vonar.

Fleiri atriði skipta starfsfrið ríkisstjórnarinnar máli. Framhald fullrar atvinnu mundi styrkja stöðu hennar. Einnig mundi það hjálpa til, að í ljós kæmi, að heimili hinna verst settu færu ekki að ramba á barmi gjaldþrots.

Almenningsálitið með eða móti ríkisstjórninni mun á næsta vetri að verulegu leyti mótast af þessu þrennu, verðbólgustiginu, atvinnuástandinu og stöðu hinna verst settu. Um allt þetta ríkir nú óvissa.

En ríkisstjórnin verður ekki búin að bíta úr nálinni, þótt hún komist yfir þessa þröskulda. Varnarstríðið vinnst ekki til langs tíma nema með sókn. Og málefnasamningurinn vekur afar litlar vonir á því sviði.

Málefnasamningurinn fjallar að verulegu leyti um ráðgert stríð við vísitölur og um bráðabirgðaaðgerðir, sem eru þættir í því stríði. Hans vegna gæti ríkisstjórnin staðið uppi málefnasnauð eftir svo sem eitt ár.

Langlífi ríkisstjórnarinnar byggist hins vegar á, að hún noti ár vísitölustríðsins til að sannfæra sjálfa sig um, að opna þurfi hagkerfið og leggja niður verðskekkingu af hálfu hins opinbera, ef ná eigi hagvexti á nýjan leik.

En í bili hafa menn fengið nóg af stormasömum stjórnmálum vetrarins. Stjórnin og bráðabirgðalögin eru orðin að veruleika. Sumarið er komið með gúrkutíð. Á stundum munu heyrast púðurskot, en alvöruslagur hefst ekki fyrr en um miðjan október.

Jónas Kristjánsson

DV

Annar framsóknaráratugur.

Greinar

Hið jákvæðasta við nýju ríkisstjórnina er, að hún mun, eftir fimm ára hlé, koma aftur á skynsamlegri stefnu í varnarmálum og stóriðju. Hún mun á þessum sviðum reka stefnu, sem er í samræmi við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar.

Hætt verður þráteflinu um olíugeyma í Helguvík og flugstöð á Keflavíkurvelli. Hvort tveggja verður reist, olíugeymarnir til að draga úr mengunarhættu og flugstöðin til að skilja á milli herstöðvar og utanlandsflugs.

Gerð verður einlæg tilraun til að semja um, að orkuverð til álversins hækki verulega og að álverið verði stækkað með fjármagni nýs eignaraðila. Um leið verður reynt að fitja upp á nýrri stóriðju, er gæti komið okkur að gagni.

Í efnahagsmálum er minni ástæða til bjartsýni. Hin nýja stjórn er engin viðreisnarstjórn, sem rífur niður múra skipulags- og ríkishyggju. Hún opnar ekki hagkerfið og færir ekki verðmyndun í eðlilegt markaðshorf.

Lífskjaraskerðing er skammgóður vermir, ef henni fylgir ekki frelsisþeyr í efnahagslífinu, svo að innan tíðar hverfi skerðingin í öldu nýrrar lífskjarasóknar, svo sem varð þegar á fyrsta kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar.

Hin nýja ríkisstjórn hefur gert málefnasamning í anda Framsóknarflokksins. Samningurinn er gegnsýrður ríkis- og skipulagshyggju, svo sem ljósast kemur fram í, að laun á landi og sjó verða að verulegu leyti ákveðin með lögum fram á næsta vor.

Með þessu á að auka kjaraskerðingu ársins úr 10% í 15% eða töluvert umfram minnkun þjóðartekna á mann. Um leið viðurkenna stjórnarflokkarnir með margvíslegum hliðarráðstöfunum, að láglaunafólkið mun ekki þola skerðinguna.

Verðstöðvunarstefna hinnar nýju stjórnar mun vafalaust, eins og allar fyrri slíkar, leiða til skakkrar verðmyndunar, meðal annars til niðurgreiðslu á orku með erlendum lánum, sem börnum okkar verður gert að endurgreiða.

Engin tilraun verður gerð til að hrófla við verðkerfi landbúnaðarins, sem kostar þjóðina árlega nokkrar Kröflur í formi innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, fjárfestingarstyrkja, forgangslána og lánskjara.

Hinir bjartsýnu mættu gjarna hugleiða, hvort þeir telji líkur á, að hin nýja ríkisstjórn muni stöðva tilraun hagsmunasamtaka hins hefðbundna landbúnaðar til að koma á Kröflukerfinu í framleiðslu og sölu á eggjum.

Miklu meiri líkur eru á, að krumla afturhaldsins muni einnig ná til kjúklingaræktar og svínaræktar, svo að neytendur og skattgreiðendur megi þola enn frekari kárínur af landbúnaði en þeir hafa mátt þola hingað til.

Engin alvarleg tilraun verður gerð til að hindra hrun sjávarútvegsins niður í eymd landbúnaðar. Engin róttæk leið verður farin til að samræma sókn og stofna, gæði og verð. Hin dauða skipulagshyggja mun áfram ríkja.

Meðal annars vegna framangreindra atriða verður í landinu litil fjármunamyndun til að efla margvíslegan iðnað, svo sem orkufrekan iðnað, rafeindaiðnað, fiskirækt og ylrækt. Skorta mun forsendur nýrrar lífskjarasóknar.

Í efnahagsmálum táknar hin nýja stjórn, að annar framsóknaráratugurinn bætist við. Haldið verður fast við ríkis- og skipulagshyggju, en frelsis- og markaðshyggja kemst ekki að. Þannig er málefnasamningurinn ömurlegt veganesti.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tvenn skólabókar-mistök.

Greinar

Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen gerði tvenn örlagarík mistök við leiðarenda lélegs ferils. Þessi mistök eru skólabókardæmi um, hvernig lélegir stjórnmálamenn hafa vanið sig á að misþyrma efnahagslífinu og spilla framtíðarvonum þjóðarinnar.

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra fækkaði skrapdögum togaranna og fjölgaði þar með dögunum, sem þeir geta verið á þorskveiðum. Þetta gerði hann vegna lélegra aflabragða og slæmrar afkomu togaranna.

Þessi stefna Steingríms er vítahringur, af því að léleg aflabrögð og slæm afkoma stafa af fækkun þorska í sjó. Leyfi til aukinnar sóknar hlýtur að leiða til enn hraðari minnkunar þorskstofnsins og aukinnar útrýmingarhættu.

Við höfum áður eyðilagt síldarstofninn og loðnustofninn og erum nú að eyðileggja þorskstofninn, mestu auðlind þjóðarinnar. Vegna framtíðarhagsmuna okkar verðum við að minnka sóknina í þorskinn í stað þess að auka hana.

Til of mikils er ætlazt, að Steingrímur skilji samhengi af þessu tagi. En hið alvarlega er, að Steingrímur heldur áfram að vera ráðherra, þótt ríkisstjórnir komi og fari. Hann heldur áfram að gera mistök af þessu tagi.

Þriggja manna ráðherranefnd ákvað að skera hækkun á taxta Landsvirkjunar úr 31% í 10% og búa þannig til 360 milljón króna hallarekstur á þessu ári. Þetta gerðu þeir til að draga úr verðbólguáhrifum raforkuverðsins.

Þessi stefna Hjörleifs Guttormssonar, Pálma Jónssonar og Tómasar Árnasonur er röng. Orku á ekki að selja á útsöluverði og skuldum á ekki að safna í útlöndum. Við erum þegar komin út á yztu nöf og getum hæglega hrapað.

Framleiðsla og dreifing raforku og jarðhita á að standa undir sér, ekki aðeins daglegum rekstri, heldur einnig uppbyggingu. Það er fáránlegt að ætla börnum okkar að greiða rafmagnið og hitann, sem við notum núna.

Verulegur hluti af skuldaaukningunni í útlöndum stafar af stefnu útsöluverðs á rafmagni og hita. Við höfum árum saman og í vaxandi mæli notið of ódýrrar orku og sent reikninginn til afkomenda okkar. Þetta hefur verið svívirðilegt.

Og nú hefur ríkisstjórnin gengið enn lengra á þessari ógæfubraut. Erlendar skuldir eru komnar upp í 50% af árlegri þjóðarframleiðslu. Með sama áframhaldi verðum við senn ósjálfbjarga og síðan seld á uppboði eins og Nýfundnalendingar.

Erlendar skuldir að vissu marki eru í lagi, ef þær eru myndaðar til að koma á fót rekstri, sem stendur undir vöxtum og afborgunum. En að nota skuldasöfnun til að greiða niður orkuverð er heimskulegt og glæpsamlegt.

Ráðherradagar Hjörleifs og Pálma eru taldir, en Tómas flytur kannski hina röngu stefnu inn í nýja ríkisstjórn. Ekki bætir úr skák, að sú ríkisstjórn er mynduð um eina stóra hugsjón: Að ná niður háum vísitölum á pappír.

Verðbólgustríð af slíku tagi veldur því, að lélegir ráðherrar fresta og neita nauðsynlegum verðbreytingum, svo sem hækkun orkuverðs og erlends gjaldeyris. Þeir spilla hagkerfinu í stríði sínu við háar vísitölur á pappír.

Ríkisstjórnir koma og fara. En því miður er ekki í augsýn nein sú ríkisstjórn, er snúi frá feigðarvegi vísitölufölsunar og verðkerfisskekkingar og herleiðingu barna okkar í þrældóm vaxta og afborgana af skuldasúpu í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir gera vandann verri.

Greinar

Þegar stjórnmálamenn sjást ekki fyrir í baráttunni við verðbólguna, tregðast þeir við að fella gengi krónunnar. Gengislækkun flyzt nefnilega smám saman yfir í verðlagið og magnar verðbólguna, sem þeir vilja umfram allt forðast.

Af því að íslenzkir stjórnmálamenn eru nánast samfellt í stríði við verðbólguna, með hinum frábæra árangri, sem frægur er um allan heim, er gengi íslenzku krónunnar alltaf of hátt skráð og erlendur gjaldeyrir seldur á útsöluverði.

Þegar þeim er bent á þetta, segja þeir, að það skipti engu máli, ekki einu sinni fyrir útflutningsatvinnuvegina, því að dæmið elti skottið á sjálfu sér. Gengislækkun leiði til verðbólgu, sem leiði til nýrrar gengislækkunar.

Þetta er þó ekki nema hálfur sannleikurinn. Innlendu verðhækkanirnar koma smám saman á þremur til tólf mánuðum. Á meðan hefur gefizt tækifæri til að lækka gengi krónunnar enn frekar. Sú gerð getur alltaf verið einu skrefi á undan.

Hvort sem verðbólga er engin, lítil eða mikil, er alltaf nauðsynlegt að gæta þess, að gengi krónunnar sé skráð við lægri mörk þess, sem raunhæft má teljast. Eða það, sem er enn betra, hreinlega að gefa gengið frjálst.

Lágt gengi gerir innflutta vöru og þjónustu dýrari en ella og bætir samkeppnisaðstöðu innlendrar vöru og þjónustu. Almenningur ver sig nefnilega gegn kjaraskerðingu gengislækkunarinnar með því að snúa viðskiptum sínum að hinni ódýrari innlendu framleiðslu.

Við lággengi má til dæmis búast við, að eldavélar, sem sumpart eru smíðaðar og alveg samsettar hér á landi, nái aukinni markaðshlutdeild á kostnað algerlega innfluttra eldavéla. Hið sama má segja um innlenda skipasmíði.

Við lággengi má einnig búast við, að ferðalög innanlands aukist á kostnað ferðalaga til útlanda. Þannig má rekja dæmin endalaust. Lággengið breytir markaðshlutdeildinni frá erlendri framleiðslu og þjónustu til innlendrar.

Þetta magnar innlendan iðnað og treystir atvinnu í landinu. Um leið eykur þetta tekjur ríkissjóðs af söluskatti, tekjuskatti og öðrum gjöldum, sem tengjast atvinnu og framleiðslu, en rýrir um leið tekjur útlendra ríkissjóða.

Ekki skiptir minna máli, að lággengi hlýtur að bæta verulega stöðu útflutningsatvinnuvega. Það á bæði að gera þá samkeppnishæfari í útlöndum og að bæta fjárhagslega afkomu þeirra. Þetta gildir bæði um sjávarvöru og iðnvarning.

Varanlegt lággengi leiðir vegna alls þessa til minnkunar og hvarfs viðskiptahalla gagnvart útlöndum og til minnkunar og hvarfs skuldasöfnunar í útlöndum. Hvort tveggja er skilyrði fyrir góðri afkomu barna okkar í framtíðinni.

Verðbólguhatur stjórnmálamanna hindrar ekki aðeins bráðnauðsynlegt lággengi krónunnar, heldur kemur líka í veg fyrir, að verðtrygging fjárskuldbindinga komist á leiðarenda, – að bankarnir fyllist af sparifé.

Stjórnmálamennirnir rembast eins og rjúpan við staurinn undir misvitrum hvatningarorðum efnahagssérfræðinga, sem sjá ekki heldur neitt annað en verðbólguna. Þess vegna er árangur beggja hafður í flimtingum um heim allan.

Stjórnmálamenn og efnahagssérfræðingar leysa engan vanda með því að stinga hitamæli efnahagslífsins inn í frysti. En þeir gera vandann verri með því að tregðast við að auka verðbólguna með réttu krónugengi og réttum vöxtum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lausnarinn er kominn.

Greinar

Hinn mikli lausnari efnahagsvandræða er kominn aftur. Hann reyndi að stjórna íslenzka lýðveldinu fyrir nokkrum árum. Nú ætlar hann að reyna aftur, brynjaður reynslu úr útlendu alvöru-efnahagslífi lítillar verðbólgu.

Styrkur lausnarans felst í að skilja fordóma lélegra stjórnmálamanna og koma þeim í vitrænt form, svo að misþyrma megi efnahagslífinu á skipulegan og formlegan hátt, í stað þess að láta verðbólguna eina um að gera það.

Einn höfuðvandi líðandi stundar er, að stjórnmálamenn hafa svo mikla óbeit á verðbólgunni, að ætla mætti, að hún hafi gert þeim eitthvað. Hinn vandinn felst í svo mikilli óbeit þeirra á alþýðunni, að ætla mætti, að hún hafi gert þeim eitthvað.

Þess vegna má búast við, að undir öruggri handleiðslu lausnarans verði mynduð sterk meirihlutastjórn um tvær fagrar hugsjónir. Önnur er fólgin í að afnema hitamæli efnahagslífsins og hin í að skerða lífskjör fólksins.

Eitt af því, sem hlýtur að hljóma eins og svanasöngur á heiði í eyrum Framsóknarflokksins, er gengiskafli síðustu prédikunar lausnarans. Þar var mælt með festingu gengis íslenzku krónunnar um nokkurra mánaða skeið í senn.

Ef lausnarinn vildi nú flytja nýja prédikun og mæla þar með lækkun vaxta, væri síðustu hindruninni rutt úr vegi Framsóknarflokksins. Hann gæti gengið fagnandi inn í ríkisstjórnarsælu með mikilvægustu fordóma sína óskerta.

Þjóðhagslega æskilegra hefði samt verið, að lausnarinn prédikaði um, að hvernig sem verðbólgunni líði, sé alltaf nauðsynlegt að skrá gengi krónunnar í lægri kanti raunvirðis hennar. Slíkt hafa aðrir gert með góðum árangri.

Þá mundi notkun Íslendinga á vöru og þjónustu mjakast frá innfluttri til innlendrar. Útflutningsatvinnuvegirnir færu að græða á nýjan leik. Viðskiptahallinn mundi hverfa og skuldasöfnun í útlöndum minnka eða hverfa.

Þjóðhagslega æskilegra hefði líka verið, að lausnarinn prédikaði ítarlegar um, að hvernig sem verðbólgunni líði, sé alltaf nauðsynlegt að skrá vexti svo háa, að þeir séu jákvæðir um 1-4% í raun.

Þá mundi minnka notkun Íslendinga á ýmissi óþarfri vöru og þjónustu, einkum innfluttri. Í þess stað mundi streyma sparifé inn í bankana til nauðsynlegrar blóðgjafar í atvinnulífinu. Tilraun í þessa átt gafst vel í hittifyrra.

En lausnarinn prédikar ekki nógu mikið um slíkt, af því að hann veit, að þetta fellur ekki að fordómum hinna lélegu stjórnmálamanna og þráhyggju þeirra í garð verðbólgunnar og alþýðunnar. Þess vegna talar hann um fast gengi.

Á þessu ári einu mun kaupmáttur tekna rýrna um 8- 9% á mann, sem er heldur meira en samanlagður 8% samdráttur þjóðartekna á tveimur kreppuárum, 1982 og 1983. Og þetta gerist án frekari aðgerða stjórnmálamanna, 1. júní eða síðar.

Nær væri þeim að viðurkenna, að hvorki verðbólgan né alþýðan hefur gert þeim neitt. Þeir ættu að láta þessa sakleysingja í friði og snúa sér að einhverri gagnlegri iðju, til dæmis snúa sér að því að rétta gengið og vextina.

En lausnarinn mikli er kominn frá útlöndum til að segja lélegum stjórnmálamönnum það, sem þeir vilja heyra. Þannig fá þeir þá efnahagsráðgjöf, sem þeir eiga skilið, – við taumlausan fögnuð síðasta Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Plúsar og mínusar.

Greinar

Stjórnarsamstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks mundu bæði fylgja kostir og gallar, sem menn meta vafalaust á misjafnan hátt. Skiptir þá ekki miklu, hvort Alþýðuflokkur fær að fljóta með, því að hann getur litlu ráðið.

Þar sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa samtals drjúgan meirihluta á alþingi, geta þeir hvenær sem er sagt Alþýðuflokknum að hafa sig burt úr ríkisstjórn, ef hann þykist ekki vera ánægður með gang mála.

Hins vegar eru ákveðin þægindi af að hafa Alþýðuflokkinn með. Það dregur úr samanburði við fyrri stjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem yfirleitt hafa verið óvinsælar. Enn er í minni stjórnin frá 1974 til 1978.

Stundum eru stjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kallaðar helmingaskiptastjórnir vegna mikils bróðernis við að skipta bitlingum og annarri spillingu. Flokkarnir mundu til dæmis una sér vel saman í Framkvæmdastofnun.

Stundum eru þessar stjórnir kallaðar hægri stjórnir vegna lítils áhuga þeirra á vanda lítilmagnans, þegar ætlunin er að telja niður lífskjörin. Enda hafa þær oftast átt í útistöðum við samtök launþega í landinu.

Stundum eru þessar stjórnir kallaðar sterkar stjórnir vegna öflugs þingmeirihluta og hins mikla þjóðarvilja, sem hlýtur að standa þar að baki. Sú er í rauninni forsenda þess, að margir mæla nú með slíkri stjórn.

Stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks mundi strika yfir tvískinnung undanfarinna ára í varnarmálum. Flugstöð yrði reist á Keflavíkurflugvelli, olíugeymar í Helguvík, svo og flugskýli við önnur mannvirki eftir þörfum.

Hún mundi líka semja við Ísal um að strika yfir deilur Hjörleifs og hækka orkuverðið. Jafnframt mundi hún endurvekja stóriðjustefnuna, að vísu í varfærnari mynd en áður, þegar menn töldu orkufrekan iðnað allra meina bót.

Hún mundi halda núverandi kerfi landbúnaðar, sem er að sliga þjóðina og að skerða lífskjör hennar úr hófi fram. Hún mundi líklega meira að segja láta viðgangast, að fyrirhuguð eggjaeinokun nái fram að ganga.

Hún mundi halda áfram að dekra við hugmyndir ýmissa þrýstihópa um að koma sér upp gæluiðnaði, sem yrði bæði reistur og rekinn á kostnað skattborgaranna, – af því að Framsókn vill slíkan iðnað í hvert pláss.

Hún mundi ekki geta stigið tvö mikilvægustu skrefin til efnahagslegrar viðreisnar, – að verðtryggja fjárskuldbindingar til fulls og að skrá gengi krónunnar í lægri kantinn, – af því að Framsókn er andvíg efnahagslegri skynsemi.

Þannig fylgja bæði kostir og gallar stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, eins og raunar fylgja öðrum stjórnarmynztrum, sem nefnd hafa verið undanfarna daga. Kostirnir og gallarnir breytast bara eftir mynztrum.

Þeir, sem leggja mesta áherzlu á varnarmál og stóriðju, gætu fagnað stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þeir, sem vilja draga úr vitlausum atvinnurekstri og koma á réttu gengi og vöxtum, gætu ekki fagnað.

Umfram allt mega menn ekki búast við, að “sterk”, “hægri sinnuð” “helmingaskiptastjórn” mundi leysa efnahagsvandann. Og um leið mega menn ekki heldur reikna með, að eitthvert annað stjórnarmynztur mundi gera það.

Jónas Kristjánsson.

DV

Niður með Framleiðsluráð.

Greinar

Á næstu mánuðum reynir á, hvort Framleiðsluráð landbúnaðarins kemst upp með það á níunda tug tuttugustu aldar að skipuleggja einokun á eggjasölu og umtalsverða hækkun á eggjaverði á vegum Sex manna nefndar.

Samtök neytenda, húsmæðra, bakara og kaupmanna hafa mótmælt ráðagerð Framleiðsluráðs, svo og þeir eggjaframleiðendur, sem hingað til hafa getað selt egg ódýrar en á skráðu viðmiðunarverði hins illræmda ráðs.

“Það er tímaskekkja að ögra hagsmunum neytenda með umræddum einokunaráformum í eggjasölu … Munu Neytendasamtökin ekki sitja aðgerðalaus, heldur berjast gegn slíkum reglum af öllu afli”, segir í einum mótmælunum.

Í sömu mótmælum Neytendasamtakanna segir, að þessi viðbótareinokun þýði, að afnema verði hin áratuga gömlu einokunarlög, því að til þeirra megi rekja mörg vandamálin í framboði, verði og gæðum landbúnaðarafurða.

Sí og æ hefur komið í ljós, að einokunarvara á borð við mjólk stenzt ekki gæðakröfur, meðan aldrei heyrist, að frjáls vara á borð við egg sé ekki í góðu lagi. Í þessu sem öðru sést hinn skýri munur frelsis og einokunar.

Kerfi Framleiðsluráðs teflir fram hagsmunum sumra framleiðenda á kostnað hagsmuna neytenda og skattgreiðenda. Afleiðingin hefur orðið óstjórnleg sóun verðmæta á undanförnum áratugum. Í samanburði er sóunin í Kröflu bara smámunir.

Í framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða ríkir lokað kerfi innflutningsbanns, framleiðslustyrkja, einkasölu, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta, sem er svo dýrt, að ekki er til stærri meinsemd í þjóðfélagi okkar.

Frekjan og yfirgangurinn í þrýstihópi Framleiðsluráðs ganga svo langt, að ráðið hyggst færa út kvíarnar, þrátt fyrir gagnrýnina, sem núverandi einokun hefur sætt. Síðar ætlar það að ná undir sig kjúklingum og svínakjöti.

Neytendur og skattgreiðendur eiga að láta eggjaeinokunina verða kornið, sem fyllir mælinn. Markmiðið á ekki aðeins að vera að koma í veg fyrir hina nýju einokun, heldur einnig að brjóta hina gömlu á bak aftur.

Stjórnmálamenn kyrja nú sem ákafast sönginn um, að þjóðin sé að verða fátækari og þurfi að herða sultarólina. Um leið láta þeir viðgangast verðmætabrennslu, sem nemur nokkrum Kröfluverum á hverju einasta ári.

Stjórnmálamenn framseldu á sínum tíma til Framleiðsluráðs vald, sem neytendur og skattgreiðendur höfðu ekki heimilað þeim að framselja. Þetta vald ber stjórnmálamönnum nú að afturkalla með afnámi laga um Framleiðsluráð.

Nú reynir á, hvort stjórnmálamennirnir, sem nú sitja á þingi, meta meira dýrustu hagsmunaklíku landsins eða sameinaða hagsmuni neytenda og skattgreiðenda. Nú reynir líka á, hvort eitthvað er að marka kreppusöng þeirra.

Þjóðin má ekki lengur sætta sig við að láta Framleiðsluráð og stjórnmálaflokka hafa sig að fífli. Hún getur notað eggjahneykslið til að mótmæla því, að lífskjör séu skert, meðan margfalt fleiri fjármunum er sóað í kindur og kýr.

Landsmenn mættu meðal annars fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum næstu vikna og reyna að gera sér grein fyrir, hvort landsfeðurnir hafi einhvern áhuga á að gæta hagsmuna alls þorra þjóðarinnar.

Niður með Framleiðsluráð!

Jónas Kristjánsson.

DV

Dómsdagur er ekki í nánd.

Greinar

Stjórnmálamenn Íslands hafa espað hver annan upp í þá múgsefjun, að dómsdagur íslenzkra efnahagsmála verði 1. júní. Þá muni hin séríslenzka verðbólga stökkva upp til áður óþekktra hæða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Að vísu er 20% verðbólgustökk há tala. Fyrir skömmu fannst okkur 10% stökk vera há tala, en nú fyndist okkur hún bara notaleg, ef við ættum kost á henni. Tölur eru bara tölur og dómsdagar vilja láta á sér standa.

Ekki er nema hálfur annar áratugur síðan 3% verðbólgustökk þótti svo rosalegt, að erlendir fréttamenn komu til Íslands til að kynna sér, hvernig þjóðin færi að því að lifa af. En þá kom enginn dómsdagur og kemur ekki nú.

Hinir sefjuðu stjórnmálamenn telja sig knúna til að mynda nýja ríkisstjórn á næstu tveimur vikum, svo að hún fái um það bil tveggja vikna tækifæri til að koma í veg fyrir dómsdaginn, sem spámenn efnahagsmála hafa dagsett 1. júní.

Galdralæknar stjórnmálaflokkanna bíða óþreyjufullir með töfralyfin sín. Sumir ætla að stytta vandamálin út á brotastriki. Aðrir ætla að telja þau niður. Enn aðrir vilja banna vandamálin með lögum gegn vísitölum.

Allt eru þetta gagnslausir læknisdómar. Sjúklingi batnar ekki, þótt hitamælar séu bannaðir, taldir niður eða styttir út. Verðbólgan er nefnilega ekki vandamálið sjálft, heldur afleiðing af baráttu þjóðarbúsins við ýmsa sjúkdóma.

Ef ný ríkisstjórn verður mynduð mjög snemma, er hætt við, að hún telji sig hafa tíma til að beita einhverju ofangreindra læknisráða fyrir 1. júní, og magni þannig hina raunverulegu sjúkdóma efnahagslífsins.

Í flestum hinum gagnslausu læknisdómum eru tveir þættir einna hættulegastir. Annar er, að stjórnmálamenn tregðast við að lækka gengi krónunnar. Hinn er, að þeir tregðast við að verðtryggja fjárskuldbindingar.

Afleiðingin er sú, að fólk leggur ekki fyrir og kaupir ekki innlenda vöru í stað erlendrar. Afleiðingin af afleiðingunni er sú, að verðbólgan eykst, skuldasöfnun í útlöndum eykst og galdralæknarnir fá ný tækifæri til að spilla fyrir.

Ísland hefur verið stjórnlaust ríki í 142 mánuði. Okkur munar ekkert um einn eða tvo mánuði í viðbót, sérstaklega þegar fyrirhuguð læknisráð eru líkleg til að gera sjúkdómana enn skæðari. Æðibunugangur er ekki til góðs.

Enginn stjórnmálamaður þorir að segja, að skynsamlegt sé að skrá gengi krónunnar lægra en raunvirði og skrá vexti hærra en raunvirði. Þegar stjórnmál eru á svo lágu stigi, er ódýrast að láta reka á reiðanum.

Þjóðin mun lifa af hækkun verðbólgu úr 10% í 20% á þriggja mánaða tímabili, alveg eins og hún lifði af hækkun hennar úr 3% í 10% á slíku tímabili. Hitt er meira vafamál, hvort hún muni lifa af fyrirhuguð læknisráð galdralæknanna.

Satt er, að þjóðin hefur endurnýjað umboð til stjórnmálaflokkanna að halda áfram að misþyrma þjóðarhag með því að stytta út verðbólguna, telja hana niður eða banna hana hreinlega, allt eftir því hverjir bræða sig saman í stjórn.

Ástæðulaust er að bíða niðurstöðunnar með óþreyju og eftirvæntingu. Stjórnmálamennirnir þurfa tíma til að finna, hvaða samkomulag sé minnst óþægilegt. Ef 1. júní rennur hjá á meðan, mun hann ekki reynast sá dómsdagur, sem spáð hefur verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Orð standa ekki.

Greinar

Svíar eru sagðir afar óánægðir með siglingar sovézkra kafbáta í sænskri landhelgi. Þeir telja þær sýna fyrirlitningu á hlutleysi Svía. Þeir telja þær einnig sýna, að ekki sé unnt að treysta orðum sovézkra stjórnvalda.

Merkilegast í máli þessu er, að nokkrum Svía eða nokkrum Vesturlandabúa yfirleitt skyldi detta í hug, að sovézk stjórnvöld mundu gera annað hvort eða hvort tveggja – að virða hlutleysi annarra og að virða eigin orð.

Sovétstjórnin telur hlutleysi ríkja vera skref á óhjákvæmilegri þróunarbraut þeirra úr herbúðum andstæðinganna í faðm Sovétríkjanna. Þetta hlutleysi er ranglega kallað “Finnlandisering”, en ætti að heita “Svíþjóðarísering”.

Lygin er einn helsti hornsteinn sovézka stjórnkerfisins. Undirskriftir sovézkra ráðamanna eru ekki marklausar, heldur verri en engar undirskriftir. Sem dæmi um þetta má nefna sovézku stjórnarskrána og Helsinki-samkomulagið.

Með undirskriftum í Helsinki lofuðu sovézk stjórnvöld að virða almenn mannréttindi heima fyrir. Í raun hafa þau síðan hægt og bítandi verið að draga úr mannréttindum, sem eru nú minni en þau voru fyrir samkomulagið.

Þar er jafnvel ofsóttur hinn fámenni hópur manna, sem hafði það eitt til saka unnið að mæla með, að sovézkir ráðamenn virtu sínar eigin undirskriftir í Helsinki. Þessum hópi hefur nú öllum verið komið á bak við lás.

Í stjórnarskrá Sovétríkjanna eru ýmis fögur orð um mannréttindi. Ekkert mark er á þeim tekið frekar en öðrum orðum. Nýjasta viðbótin við svikin eru geðveikrahælin, sem sjálfur Andropov úr leyniþjónustunni kom á fót.

Allir þeir, sem komast til valda í Sovétríkjunum, eru brenndir af klifri sínu upp frumskóg sleikjuskapar og grimmdar. Eðlileg afleiðing þessa er að yfirglæpamaður leyniþjónustunnar skuli vera orðinn framkvæmdastjóri flokksins.

Andropov verður ekki illskárri en Brezhnev, heldur verri. Sovétríkin eru lokað kerfi, þar sem eingöngu fúlmenni komast í hátind valdanna. Þetta mættu Svíar, lúterskir klerkar, íslenzkir hernámsandstæðingar og annað friðsamt fólk hafa í huga.

Einfeldni vestrænna afvopnunarsinna nær hámarki, þegar þeir eru farnir að trúa loforðum kjarnorkuvelda um að beita ekki kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Slík loforð eru bara fyrir auglýsingamarkaðinn.

Þvert á móti er aukin hætta á ferðum, þegar sovézk stjórnvöld segjast ekki muni beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Þau mundu nefnilega ekki beita slíkum vopnum að fyrra bragði, nema einmitt að undangenginni slíkri yfirlýsingu.

Kjarnorkuvopnalaus svæði, hvort sem er á Norðurlöndum eða Atlantshafi, eru marklaus, af því að þau eru einhliða. Sovézk stjórnvöld munu ekki hlífa slíkum svæðum frekar en þau virða nú hlutleysi ríkis á borð við Svíþjóð.

Auk þess munu þau láta skip sín og kafbáta valsa með kjarnorkuvopn um Atlantshafið, hvað sem öllum yfirlýsingum líður. Og lýsi þau sjálf yfir friðhelgi hafsins, er ástæða til að líta á það sem aðdraganda aukins kjarnorkubúnaðar þeirra á hafinu.

“Orð skulu standa” eru hornsteinn viðskipta og mannlegra samskipta á Vesturlöndum. Í helvíti Sovétríkjanna gilda önnur lögmál. Þar hafa stjórnvöld annað og verra að leiðarljósi: “Orð skulu ekki standa”.

Jónas Kristjánsson

DV

Of snemmt að spá.

Greinar

Þótt tilraun Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til myndunar ríkisstjórnar hefjist ekki formlega fyrr en nú, hefur hún raunar staðið að minnsta kosti síðan á þriðjudagsmorgni og þá með formlegum fundum.

Þetta forskot á vinnuna er góðs viti. Það bendir til, að Geir vilji forðast mistökin frá því síðast, er tilraun hans stóð vikum saman og leystist síðan upp í ekki neitt. Enginn tími er til slíks hægagangs um þessar mundir.

Geir Hallgrímsson veit, að ástandið verður farið að nálgast suðupunkt eftir svo sem tíu daga, ef ekki sér þá fyrir endann á tilraun hans. Fljótlega verður forseta Íslands þá ekki stætt á öðru en aðvísa umboðinu annað.

Í öllum hefðbundnu flokkunum hefur komið í ljós nokkur, en mismikill, áhugi á samstarfi við Geir um stjórnarmyndun. Erfiðast er að meta stöðuna innan þingflokks sjálfstæðismanna, þótt ótrúlegt kunni að virðast við fyrstu sýn.

Þar sjá menn fram á forsætisráðherradóm og áframhaldandi flokksformennsku Geirs Hallgrímssonar og telja sumir sjálfa sig eða aðra betur til þess fallna, – eftir allt, sem á undan er gengið. Þetta getur reynzt þungt á metunum.

Athyglisvert er, að samhliða tilraun Geirs hefur staðið önnur og að því er virðist sjálfstæð tilraun af hálfu manna úr þingflokknum. Það gæti bent til, að menn séu að undirbúa komu númer tvö á svokölluðum stjórnarmyndunarbolta.

En um leið hlýtur að vera erfitt fyrir þingflokkinn að finna sér annan forsætisráðherra, því að margir eru kallaðir. Saman við þetta blandast tafl um formennsku í þingflokknum og hugsanlega síðar í flokknum sjálfum.

Framsóknarflokkurinn er klofinn á þingi. Annars vegar fer Ólafur Jóhannesson fyrir þeim armi, sem mælir með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Fyrir hinum, sem eru andvígir, fer Steingrímur Hermannsson.

Í báðum flokkum tala menn um, að nú sé nauðsyn á “sterkri stjórn” með 37 þingmenn að baki. Aðrir telja andlitslyftingu nauðsynlega til að rjúfa stjórnarmynztrið frá 1974. Er þá helzt talað um að bæta Alþýðuflokknum við.

Sá fegurðarauki er takmarkaður, en gæti þó styrkt varnarstríðið í samtökum launafólks. Auk þess vill Alþýðuflokkurinn í stjórn, af því að forustan telur það munu gagnast flokknum í næstu kosningum að hafa sýnt ábyrgð og þor.

Þingmenn Alþýðuflokksins hafa sýnt meiri áhuga á öðru mynztri samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, með Kvennalistann sem þriðja aðila. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins hefur sá möguleiki einnig verið ákaft kannaður.

Sumpart er þar að baki eðlilegur áhugi á að finna, hvernig hugmyndir Kvennalistans falli að hefðbundnum stjórnmálaágreiningi í landinu. Og sumpart er að baki aðvörun til Framsóknarflokksins um, að fleiri stjórnarkosta geti verið völ.

Minnstar líkur eru á, að áhugi launamannaforingjans Guðmundar J. Guðmundssonar og ýmissa sjálfstæðismanna á “sögulegum sáttum” hinna kraftmiklu afla til hægri og vinstri nái fram að ganga. Þar ber hreinlega of mikið á milli.

Almennt er talað um sjálfstæðis- og framsóknarstjórn, hugsanlega útvíkkaða og snyrta, sem líklegustu niðurstöðuna. En lausu endarnir eru svo margir, að alveg eins getur verið, að um síðir verði í skyndingu eitthvað allt annað ofan á.

Jónas Kristjánsson

DV

Tapið túlkað á brott.

Greinar

Í túlkun hinna sauðtryggu málgagna á kosningaúrslitunum þykir hverjum sinn fugl fagur að venju. Sjónhverfingamenn færa þar langsótt rök að sigri sinna manna og ósigri annarra, þvert ofan í sjálf kosningaúrslitin.

Í Morgunblaðinu er fall Geirs Hallgrímssonar af þingi orðið að persónulegum sigri hans úti á landi, væntanlega einnig í kjördæmum stjórnarsinnanna Friðjóns og Pálma, en ósigurinn í Reykjavík hins vegar ómögulegum Albert að kenna.

Hin raunverulega ástæða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn vann ekki á í Reykjavík eins og víðast úti á landi, er samt sú, að hópur sjálfstæðismanna kastaði atkvæði sínu á Alþýðuflokkinn í innanflokks mótmælaskyni.

Þetta hefur oft komið fyrir áður og af ýmsum ástæðum. Í þetta sinn voru ýmsir hörðustu Gunnarsmennirnir að þakka Geir fyrir frægan Ísafjarðarfund og senda honum sína síðustu kveðju, í von um, að hann félli af þingi.

Þeim tókst þetta, nánast fyrir tilviljun. Á það má líta sem eins konar áminningu til flokksforustunnar um, að hún hefur ekki enn gert upp við fortíðina, jafnvel þótt Morgunblaðið tali ekki að sinni um maðka í mysunni hjá Friðjóni og Pálma.

Í Þjóðviljanum er ósigur Alþýðubandalagsins orðinn að frækilegum raunsigri, bæði almennt séð og í ýmsum sérmálum á borð við Ísal. Þar tala menn t.d. um varnarsigur í samanburði við það, sem búizt hafi verið við fyrir kosningar.

Í stað þess að leggja áherzlu á samanburð milli þingkosninga sér á parti, byggðakosninga sér á parti, skoðanakannana sér á parti og fróðra manna áliti sér á parti, er þessu öllu grautað saman eftir hentugleikum.

Að vísu hefur nokkurt gildi að bera kosningaúrslit í alþingiskosningum saman við úrslit í byggðakosningum, niðurstöður skoðanakannana og fróðra manna mat á stöðunni. En aðalsamanburðurinn hlýtur að vera við fyrri þingkosningar.

Þannig vann Bandalag jafnaðarmanna 7,3%, Samtök um kvennalista 5,5% og Sjálfstæðisflokkurinn 3,3%, en Alþýðubandalagið tapaði 2,4%, Alþýðuflokkurinn 5,8% og Framsóknarflokkurinn 5,9%. Þetta eru hinar undanbragðalausu staðreyndir.

Alþýðubandalagið sá fyrir ósigurinn og varaði kjósendur við svokallaðri “hægri sveiflu”, sem væri að gleypa landið. Þessi sveifla var auðvitað að mestu leyti ímyndun, en var máluð á vegginn til að auðvelda síðari túlkun.

Eftir kosningar gat Þjóðviljinn svo barið sér á brjóst og sagt, að hægri sveiflan hafi verið stöðvuð í frækilegri lokasókn Alþýðubandalagsins í kosningabaráttunni. Tapið upp á 2,4% er gersamlega fallið í skuggann.

Með þessu er raunverulega verið að reyna að strika yfir nokkur síðustu árin og láta líta svo út sem öll fortíðin hafi ekki verið meiri en ein eða tvær vikur, það er að segja tíminn frá síðustu skoðanakönnunum.

Auðvitað brosa gamlir jálkar í skoðanakönnunum, þegar reiknimeistarar flokkanna vilja taka þær til samanburðar frekar en síðustu eða fyrri alþingiskosningar. Jálkarnir vita nefnilega, að kannanir eru ekki kosningar, þótt góðar séu.

Skemmtilegust var þó túlkun úrslitanna hjá frambjóðandanum, sem fékk 411 atkvæði og kolféll. Að hans mati voru það skoðanakannanirnar, sem biðu ósigur, en ekki hann sjálfur. Nei, að sjálfsögðu lýtur enginn í lægra haldi í kosningum!

Jónas Kristjánsson

DV

Um næstu ríkisstjórn.

Greinar

Ríkisstjórnin átti að segja af sér á sunnudaginn var, þegar kosningaúrslit höfðu þegar sýnt, að hún var í miklum minnihluta á nýkjörnu alþingi. Drátturinn til fimmtudags er engin skrautfjöður í hatti forsætisráðherra.

Undanbrögð og véfréttir hans í fjölmiðlum voru ekki í samræmi við tilfinningu þjóðarinnar fyrir réttum vinnubrögðum. Enda tóku samráðherrar hans af skarið, fyrst í fjölmiðlum og síðan á ríkisstjórnarfundi í gær.

Ólafur Jóhannesson sagði í blaðaviðtali eftir kosningarnar: “Þótt það sé bókstaflega rétt, að ríkisstjórn þurfi ekki að víkja nema fyrir vantrausti, hefur það ekki tíðkazt hér langalengi annað en að stjórn fari frá, þegar hún er komin í minnihluta.”

Nógu erfitt verður að mynda nýja ríkisstjórn, þótt fráfarandi forsætisráðherra sé ekki um leið að gefa í skyn, að vel sé hugsanlegt, að hann sitji áfram um óákveðinn tíma og gefi jafnvel út bráðabirgðalög, sem enginn þingmaður styður.

Eðlilegt er, að utanþingsmaðurinn Geir Hallgrímsson hafi fyrsta umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar, þar sem hann er formaður stærsta og raunar langstærsta flokksins, hins eina, sem getur myndað tveggja flokka stjórn.

Að vísu unnu Bandalag jafnaðarmanna og Samtök um kvennalista meira á en Sjálfstæðisflokkurinn. Segja mætti, að boltinn ætti fyrst að fara til þeirra sem meiri sigurvegara. En þingstyrkur beggja er hreinlega of lítill til slíks.

Rétt er að taka fram, að í hæsta máta er óeðlileg sú skoðun Geirs, að vel komi til greina, að hann myndi minnihlutastjórn, ef ekki tekst að koma á meirihlutastjórn. Engan veginn er tímabært að gefa í skyn, að minnihlutastjórn komi til álita.

Á hugsanlega minnihlutastjórn þýðir ekki að minnast fyrr en leiðtogar flokkanna hafa hver á fætur öðrum gefizt upp við að mynda meirihlutastjórn. Og satt að segja yrði minnihlutastjórn 23 þingmanna flokks ósjálfbjarga í núverandi efnahagsástandi.

Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa möguleika á að ná samkomulagi um meirihlutastjórn, þótt hann sé til hægri í hinu pólitíska litrófi. Til dæmis er hann að þingmannaskipan í miðjunni í jafnvægi suðvesturhornsins og strjálbýlisins.

Hann getur myndað tveggja flokka dreifbýlisáttarstjórn annaðhvort með Framsókn eða Alþýðubandalagi eða þriggja flokka suðvesturhornsstjórn með Alþýðuflokki og öðrum nýju flokkanna, svo að flókið dæmi sé einfaldað.

Að vísu er torvelt að sjá, að samstarf geti tekizt með Sjálfstæðisflokki og Alþýðubandalagi. Hið síðarnefnda yrði að fórna svo miklu í varnarmálum og álmálum, að það yrði ekki þar á ofan til viðræðu um raunhæfar efnahagsaðgerðir.

Þá er ekki auðvelt að sjá, að Bandalag jafnaðarmanna geti farið í stjórn með neinum eftir yfirlýsingu Vilmundar Gylfasonar fyrir kosningar. Stjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Kvennalista er því minna ólíklegur kostur.

Einfaldast væri, ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gætu komið sér saman um stjórn og efnahagsstefnu, sem hæfist með niðurtalningu í stíl Framsóknarflokksins. Þar með hefði Framsókn náð sér í forsendu fyrir stjórnarþátttöku.

En nauðsynlegt er, að nýkjörið alþingi verði nú þegar kallað til starfa, hvort sem gengur illa eða mjög illa að mynda nýja ríkisstjórn, því að hin gamla þarf sem starfsstjórn aðstoð þess í aðkallandi efnahagsaðgerðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Nákvæmnin var mest í DV.

Greinar

Enn einu sinni hefur skoðanakönnun DV reynzt nákvæmust þeirra, sem gerðar voru fyrir alþingiskosningarnar um helgina. Meðalfrávik hinna átta framboðslista reyndist vera 2,2 prósentustig í DV, en 2,8 í Helgarpóstinum og 3,1 í Morgunblaðinu.

Skoðanakannarinn Gallup sagði fyrir nokkrum árum, að menn ættu að reikna með 2-3 prósentustiga frávikum í skoðanakönnunum: Samkvæmt því eru frávik kannana dagblaðanna þriggja innan marka, sem eðlileg mega teljast.

Hinn sami Gallup sagði einnig: “Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Samkvæmt því eru vinnuaðferðir DV nokkru áreiðanlegri en Helgarpóstsins og Morgunblaðsins.

Síðastnefnda blaðið hafði grun um þetta fyrirfram og tryggði sig gegn staðreyndum með því að gagnrýna þá skoðun, að úrslit kosninga væru nokkur mælikvarði á áreiðanleika vinnuaðferða í skoðanakönnunum.

Morgunblaðið sagði: “Þetta er fráleit kenning. Fyrir liggja rannsóknir um þetta atriði og aðferðir við slíkar kannanir hafa verið þaulreyndar og niðurstöður á þeim liggja fyrir. Úrslit kosninga á Íslandi í apríl 1983 breyta þar engu um … “

Vonandi ber Hagvangur hf. enga ábyrgð á þessari vísindakenningu Morgunblaðsins, enda er hætt við, að Gallup og fleiri gætu ekki dulið kátínu sína, ef kenningin væri kynnt á erlendum vettvangi meðal vísindamanna í greininni.

Þvert á móti er einmitt gagnlegt að bera úrslit saman við skoðanakannanir, til dæmis til að reyna að finna, hvort frávik fari eftir einhverjum formúlum. Þannig væri unnt að auka spágildi skoðanakannana og gera þær nákvæmari.

DV gerði tilraun til þessa, en tókst ekki að auka nákvæmnina. Kannski verður það síðar hægt, þegar byggt verður á fleiri kosningaúrslitum en unnt var í þetta sinn.

Nákvæmni upp á 2-3 prósentustiga frávik er samt nægileg til að kveða niður deilur um réttmæti og gildi skoðanakannana. Stjórnmálamenn viðurkenna, að reynt er að vanda til þeirra og að þær sýna sveiflur í stórum dráttum.

Sumir þeirra eru mjög trúaðir á skoðanakannanir, þegar þeim gengur vel, en hafa svo allt á hornum sér, þegar þeim gengur miður. Þetta er bara mannlegt og fer minnkandi í hverri kosningabaráttunni á fætur annarri.

Helzt er mark takandi á kenningum sumra stjórnmálamanna um skoðanamyndandi eða “skoðanahannandi” áhrif skoðanakannana. Flokkarnir hagræða til dæmis kosningabaráttunni með hliðsjón af nýjustu skoðanakönnunum hverju sinni.

Um leið mega menn ekki gleyma, að skoðanakannanir koma í veg fyrir, að óprúttnir kosningastjórar geti haldið fram fáránlega útbelgdum tölum um fylgi flokka sinna. Þær auka upplýsingaforðann, sem kjósendur hafa aðgang að.

Menn eiga ekki að óttast þekkinguna, allra sízt ef hún stingur göt á óraunhæfan hugmyndaheim. Og íslenzkir stjórnmálamenn eru flestir í stórum dráttum hættir að óttast þekkingaraukann, sem felst í vel gerðum skoðanakönnunum.

DV hafnar engan veginn vinnubrögðum annarra aðila, sem kanna skoðanir, heldur telur þau þvert á móti vera frambærileg. En auðvitað fagnar DV því að hafa náð sínu fráviki niður í 2,2 prósentustig, meðan aðrir voru í 2,8- 3,1 prósentustiga frávikum.

Jónas Kristjánsson

DV