Greinar

Þjóðin vill ekki 63.

Greinar

Enda þótt mikill meirihluti Íslendinga telji, að jafna beri atkvæðisrétt landsmanna, eru flestir þeirrar skoðunar, að skrefið til jöfnunar, sem nú verður stigið, sé sanngjarn meðalvegur í hagsmunum dreifbýlis og þéttbýlis.

Stjórnarskrárnefnd og formannanefnd þingflokkanna hafa metið þessa stöðu rétt í ýmsum tillögum um minnkun misvægis atkvæðisréttar úr 4,1 í 2,6 eða þar um bil. Þetta er skref, sem þjóðin sættir sig við eins og málin standa.

Skoðanakönnun DV í kjördæmamálinu, sem birt var í gær, bendir til, að af þeim, sem skoðun hafa, séu 46% sammála þessari lausn, 34% vilji ganga lengra til jöfnunar og 20% styttra. Og þessi styrkleikahlutföll eru marktæk.

Í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi er að vísu meirihluti fylgjandi frekari jöfnun. En á móti því vegur landsbyggðin, sem eindregið er andvíg frekari jöfnun en þeirri, sem gert er ráð fyrir, að samkomulag verði um á þingi.

Þetta er stjórnmálalegt mat kjósenda á núverandi stöðu og breytir ekki því, að flestir telja jöfnun atkvæðisréttar vera æskilegt framtíðarmarkmið, þótt þjóðarsátt geti tekizt um aðeins eitt skref að þessu sinni.

Í skoðanakönnun DV um kjördæmamálið í október voru 83% þeirra, sem skoðun höfðu, samþykkir jöfnun atkvæðisréttar og 17% voru henni andvígir. Og nú hefur fundizt leið, sem meirihluti fyrrnefnda hópsins getur sætt sig við.

Í sömu könnun í október kom í ljós, að 86% þeirra, sem skoðun höfðu, voru andvígir fjölgun þingmanna úr 60 og aðeins 14% voru fjölgun fylgjandi. Á þessu atriði málsins voru skoðanir enn eindregnari en á hinu fyrra.

Það kemur svo í ljós í skoðanakönnun DV, er birt var í gær, að Íslendingar halda fast við þá skoðun, að þingmönnum eigi ekki að fjölga, og sætta sig ekki við töluna 63, sem hefur verið ofan á hjá formönnum þingflokka í vetur.

Þótt hinir óákveðnu og þeir, sem ekki vilja svara, séu taldir með, vildu 70% hinna spurðu alls ekki neina fjölgun og aðeins 18% voru fylgjandi þriggja þingmanna fjölgun. Enn meiri fjölgun hafði aðeins stuðning tæpra 4%.

Afar óvenjulegt er í skoðanakönnunum, að einungis tæplega 9% séu óákveðnir eða vilji ekki svara. Þess vegna er ljóst, að landsmenn hafna eindregið eins konar þjóðarsátt, sem feli í sér fjölgun þingmanna upp í 63.

Ef Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra leggur nú fram frumvarp að stjórnarskrá að meðtöldum kosningaákvæðum, sem fela í sér óbreytta þingmannatölu og áðurnefnda jöfnun atkvæðisréttar, er sú tillaga í nánu samræmi við þjóðarvilja.

Í þingmannatölunni hefur formannanefndin því metið þjóðarviljann skakkt. Hún hefur líka sóað vikum og mánuðum í rislágar tilraunir til að tölvukeyra sem flesta núverandi þingmenn inn á þing á ný við hinar breyttu aðstæður.

Þess vegna hurfu þeir frá tiltölulega skynsamlegri og einfaldri hugmynd um 63 þingmenn, er allir væru kjördæmakosnir, yfir í hugmynd um jafnmarga þingmenn, sem kosnir væru á illskiljanlegan og jafnvel óskiljanlegan hátt.

Þetta kalla Íslendingar ekki þjóðarsátt, heldur hrossakaup innan alþingis og hafa á þeim hið sama lága álit og þeir hafa á þingmönnum yfirleitt. Ef þingmenn keyra í gegn töluna 63, breikka þeir gjána milli sín og þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óheppileg uppákoma.

Greinar

“Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Þetta sagði George Gallup, hinn kunnasti í heiminum af þeim, sem hafa fengizt við að mæla í tölum skoðanir fólks.

Vinnuaðferðin, sem DV notar í skoðanakönnunum, hefur frá upphafi eða fimm sinnum í röð verið svo nálægt raunverulegum kosningaúrslitum, að meðalskekkjan hefur aðeins verið 0,4 prósentustig, minni en hjá Gallup sjálfum.

Þegar búið er að reyna aðferðina fimm sinnum, tvisvar í alþingiskosningum, tvisvar í borgarstjórnarkosningum og einu sinni í forsetakosningum, alltaf með sama frábæra árangrinum, eiga öfundarmenn að hafa hljótt um sig.

DV notar önnur vinnubrögð en Gallup, af því að íslenzka þjóðfélagið er öðruvísi en hið bandaríska. Í upphafi var skiljanlegt, að sumir félagsvísindamenn efuðust um aðferðina, sem síðan hefur sí og æ staðizt dóm reynslunnar.

Gagnrýni háskólakennara hefur hljóðnað, enda telja þeir sig verða að taka mark á staðreyndum. Hið sama er ekki hægt að segja um ýmsa stjórnmálamenn, sem hvað eftir annað rugla út í loftið um þessar skoðanakannanir.

Hin raunverulega orsök gremju stjórnmálamanna er, að skoðanakannanir draga úr möguleikum þeirra til að ljúga að fólki um strauma fylgis og sigurlíkur þeirra eigin flokka, svo sem þeir gerðu fyrir tilkomu skoðanakannana.

Síðasta haldreipi þessara manna hefur verið að krefjast banns við skoðanakönnunum síðustu dagana fyrir kosningar, þar sem birting niðurstaðna kunni að hafa áhrif á hina óákveðnu kjósendur og endanlega ákvörðun þeirra.

Þetta var mest til umræðu í aðdraganda síðustu forsetakosninga. Sumir bjuggust þá við, að birting niðurstaðna mundi beina straumi ákveðinna kjósenda í meira mæli að tveimur efri frambjóðendunum en að hinum tveimur.

Í rauninni kom í ljós, að hinir óákveðnu skiptust á alla frambjóðendurna í svipuðum hlutföllum og hinir, sem höfðu ákveðið sig fyrir skoðanakönnun. Birting niðurstaðna fældi kjósendur ekki frá þeim, sem minni möguleika höfðu.

Enda var fyrir skömmu svo komið, að ekki heyrðust lengur neinar raddir, sem gagnrýndu aðferðafræði og áhrif skoðanakannana. En þá kom skoðanakönnun Helgarpóstsins eins og fjandinn úr sauðarleggnum í síðustu viku.

Þar voru upplýsingar fjórtán kjósenda á Vestfjörðum notaðar til að raða þingsætum niður á flokka. Tveir kjósendur Sjálfstæðisflokksins gáfu einn þingmann og einn kjósandi Sigurlaugarlistans gaf engan þingmann.

Sjálfstæðiskjósendurnir tveir voru svo notaðir til að reikna flokksfylgið, ekki upp á 4% og ekki 4,0%, heldur 4,00%! Að baki talnameðferðinni er eitt höfuðeinkenni félagsvísindamanna, skortur á skilningi á takmörkum líkindareiknings.

Til að bæta gráu ofan á svart forðaðist skoðanakönnun Helgarpóstsins strjálbýlið, þar sem fylgi Framsóknarflokksins er eindregið mest. Þetta leiddi til hrikalegs vanmats könnunarinnar á fylgi flokksins, svo sem bent hefur verið á.

Því miður hefur uppákoma Helgarpóstsins hleypt púkunum út á nýjan leik. Þeir hafa slegið upp ofangreindum göllum og notað tækifærið til að lasta aðrar, óskyldar skoðanakannanir, eins og þeir telji sig geta gleymt dómi reynslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fylgið kvarnast.

Greinar

Ríkisstjórninni ætlar að endast kjörtímabilið til að komast í minnihluta í hugum kjósenda. Í skoðanakönnun DV í dag kemur fram, að fylgismenn hennar eru 55% og andstæðingar 45% þeirra, sem afstöðu hafa í málinu.

Þessar tölur eru marktækari en tölurnar um fylgi flokkanna, sem birtust á miðvikudaginn. 53% hinna spurðu gátu ekki eða vildu ekki taka afstöðu til flokkanna, en aðeins 25% höfðu ekki skoðun með eða móti ríkisstjórninni.

Þar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru tiltölulega fjölmennir í þeim hópi, sem ekki hefur gert upp hug sinn til flokkanna, má að öðru jöfnu búast við, að flokkakönnunin hafi lítillega vanmetið fylgi stjórnarflokkanna.

Hin tiltölulega góða staða ríkisstjórnarinnar endurspeglaðist einnig í skoðanakönnuninni um bráðabirgðalögin, sem birtist í DV á föstudaginn. Af þeim, sem skoðun höfðu, voru 63% fylgjandi lögunum og 37% andvígir.

Fylgi bráðabirgðalaganna hefur raunar aukizt síðan í október, þegar 54% studdu þau og 46% voru á móti. Þetta kemur ekki á óvart eftir útreiðina, sem stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins fékk á lokaspretti málsins.

En ríkisstjórnin má muna fífil sinn fegri, þrátt fyrir þessar jákvæðu tölur. Hún hóf göngu sína fyrir rúmlega þremur árum með nærri 90% stuðning og hefur mestallt tímabilið haft 60-70% fylgi í skoðanakönnunum.

Um þetta er ekki hægt að segja annað en, að ríkisstjórnin hafi verið vinsælli en hún á skilið. Verk hennar hafa ekki verið betri en ríkisstjórna áttunda áratugarins, en landsmenn hafa sýnt henni ótrúlega þolinmæði.

Þegar fylgi ríkisstjórnarinnar dettur nú úr 60% í 55%, er það greinileg afleiðing þess, að ráðherrar eru byrjaðir að leggja niður mannasiði og farnir að haga sér eins fíflalega og þeir gerðu í vinstri stjórninni árin 1978-1979.

Skeytin milli ráðherra Alþýðubandalags og Framsóknarflokks birtast daglega á forsíðum Þjóðviljans og Tímans. Og í forustugreinum taka þessi blöð hraustlega undir taugaveiklunarlegan áburð, ásakanir og dylgjur af ýmsu tagi.

Báðir flokkarnir eru komnir í kosningaham og kunna sér ekki hóf frekar en fyrri daginn. Hjörleifur og Alþýðubandalagið telja til dæmis enn, að sér verði það til framdráttar að saka samráðherra um landráð og auðhringaþjónkun.

Hjörleifur og Alþýðubandalagið verða auðvitað að fá að meta menningarstig væntanlegra kjósenda þess. En framkoma af þessu tagi fælir vitanlega kjósendur frá ríkisstjórninni og þarmeð Alþýðubandalaginu einnig.

Með frekara framhaldi hnífs-í-bak stefnu ráðherranna, með Hjörleif í broddi fylkingar, mun fylgið halda áfram að kvarnast. 55% fylgið verður senn komið niður í 50%. Spurningin er bara, hvort því marki verði náð fyrir kosningar.

Kjósendur ern nefnilega ekki eins vitlausir og margir stjórnmálamenn streitast enn við að halda. Margir kjósendur vilja, að ráðherrar séu ábyrgir, traustir og orðvarir, og hafa skömm á tilraunum til að búa til kosningastöðu.

Þess vegna ætti ríkisstjórnin að nota þessa síðustu daga meirihlutafylgisins til að koma sér að ábyrgum verkum, svo að eitthvað liggi eftir hana, sem geti mildað dóma manna um hana í náinni og fjarlægri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjósendur bíða átekta.

Greinar

Þingmenn og aðrir forustumenn hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka hafa ekki náð sér eftir niðurstöðu skoðanakönnunar DV í gær, þar sem kom í ljós, að ríflegur meirihluti þjóðarinnar vildi ekkert hafa saman við þá að sælda.

Verst er áfall forustusveitar Alþýðuflokksins. Hún sér nú fram á, að Vilmundur Gylfason kunni að geta þurrkað hana út af þingi og setzt þar í staðinn með sína sveit sem einn af stóru stjórnmálaflokkum landsins.

En þeir gráta of seint, er nú fyrst átta sig á, að þeir hafa síðan 1978 ranglega ímyndað sér, að þeir ættu aðild að sigrum Vilmundar og gætu leyft sér að ýta honum til hliðar sem sérvitringi, þegar þeir væru búnir að nota hann.

Skoðanakönnunin var einnig mikið áfall lausafylgisflokksins mikla, Sjálfstæðisflokksins. Þar geta menn auðveldlega séð af tölunum, að tveir þriðju hlutar Vilmundarfylgisins koma beint úr röðum sjálfstæðiskjósenda.

Þótt prófkjör flokksins hafi sums staðar megnað að plástra yfir helzta klofninginn í honum, svo að hann býður þar fram í einu lagi, þá hafa þau ekki dugað til að halda utan um lausafylgið, er jafnan svífur umhverfis hann.

Áfallið er um leið flokkanna allra. Skoðanakönnunin bendir til, að fjögurra flokka kerfið sé að riðlast, því að Vilmundur tekur sitt fylgi frá flokkunum, en ekki þeim helmingi kjósenda, sem er fráhverfur flokkunum.

Þessi helmingur, sem er óbreyttur frá síðustu könnunum, stafar ekki af göllum í könnununum sjálfum, svo sem sést af því, að verulegur hluti þessa fólks getur tekið afstöðu til ríkisstjórnarinnar og annarra pólitískra mála.

Þessi helmingur kjósenda, er gefur stjórnmálaflokkunum öllum langt nef og hefur ekki einu sinni sætt sig við framboð Vilmundarbandalagsins, mun ráða úrslitum í alþingiskosningunum, sem verða 23. apríl í vor.

Hugsanlegt er, að Vilmundarbylgjan magnist og sogi til sín fylgi úr þessum hópi. Þá er ekki síður líklegt, að framboð svonefndra Gunnarsmanna, ef af verður, muni skjóta nokkurri sveit þingmanna inn í húsið við Austurvöll.

Ofan á allan þennan flokkaharm bætast fréttir af kvennaframboði í Reykjavík og hugsanlega einnig víðar. Reynslan frá byggðakosningunum í fyrra bendir til, að slíkt framboð verði ekki í vandræðum með að ná mönnum inn á þing.

Þessi mikli og óútreiknanlegi vandi steðjar að sextíu manna þingliði, sem er svo illa á sig komið, að heyrst hafa rök fyrir því, að einungis einn tíundi þeirra eigi nokkurt erindi fyrir þjóðina inn á þing í annað sinn.

Og þessum um það bil sex núverandi þingmönnum, sem hægt er að treysta til góðra verka, mun fækka um 17% við þá staðreynd eina, að Guðmundur G. Þórarinsson er ekki lengur í framboði. Þannig getur lengi vont versnað.

Ef einhverjir stjórnmálamenn hafa í rauninni áhuga á að skilja, hvers vegna þjóðin er að snúast gegn þeim, ættu þeir að setjast niður og lesa í einum rykk fréttirnar af grátbroslegum störfum þeirra á þingi í vetur.

Síðan ættu þeir að láta spila fyrir sig svo sem tíu sinnum myndbandið af kvöldfundinum með atkvæðagreiðslunni um bráðabirgðalögin, svo að inn síist sú grimma staðreynd, að fólk vill ekki, að alþingi sé málfundur í leikaraskóla.

Jónas Kristjánsson

DV

Löður á þingi.

Greinar

Vegna fátæktar skemmtideildar sjónvarpsins er tilvalið að nýta betur þingfréttirnar með því að klippa vikuskammt þeirra niður í gamanþátt í stíl Löðurs, sem nýtur einna mestrar hylli sjónvarpsáhorfenda.

Þinglöðurþátt vikunnar mætti til dæmis hefja með þessari kynningu: “Í síðustu viku var lagt fram lagafrumvarp um sölu jarðarinnar Þjóðólfshaga 1 í Holtahreppi og kvartað var yfir aðgerðaleysi í að greiða götu votheysverkunar.

Þar var svarað fyrirspurn um lestur veðurfrétta á metrabylgjum og fluttar tillögur um undirbúning brúa yfir Kúðafljót og Gilsfjörð. Fram kom nefndarálit um yfirráð Íslands á Rockall-svæði og mælt var fyrir frumvarpi um rútubíla.”

Við mál af þessu tagi var alþingi að dunda sér í síðustu viku, meðal annars til að þurfa ekki að taka bráðabirgðalögin um efnahagsmál til umræðu. Þannig líður hver þingvikan af annarri með spjalli um votheysverkun og veðurfréttir.

Þennan biðtíma mátti vel nota til að ræða hinar nýju tillögur að stjórnarskrá. Þær voru lagðar fram með orðalagi frumvarps og í ýmsum liðum gefinn kostur á mismunandi útgáfum, sem auðvelt á að vera að velja um.

Unnt er að halda því fram, að ekkert liggi á að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Meira að segja er hægt að rökstyðja, að þjóðin þurfi alls ekki nýja stjórnarskrá. Hin gamla muni duga hér eftir sem hingað til.

En hitt er svo markleysa, þegar þingmenn fara að fullyrða, að þeir hafi ekki haft tíma til að ræða stjórnarskrána. Þeir hafa haft og hafa enn nógan tíma til slíks. En þeir vilja bara ekki fyrir nokkurn mun ræða hana.

Söltun stjórnarskrárinnar á þessu þingi stafar af skorti á vilja, en ekki af skorti á tíma. Nauðsynlegt er, að kjósendur muni þetta síðar, þegar annað fullyrða þingmenn, sem nú eru að reyna að þegja stjórnarskrána í hel.

Innan um langhunda votheysverkunar og veðurfrétta á alþingi brjótast svo fram bylgjur baktjaldamakks um bráðabirgðalögin. Dæmigert er, að allt fer á hvolf, þegar óbundnir varamenn leysa aðalmenn af hólmi.

Þetta tafl er orðið svo öfugsnúið, að stjórnarandstaðan er að reyna að tefja fyrir þeim örlögum sínum að þurfa að fella bráðabirgðalögin og tókst loks í gærkvöldi að bjarga sér á þurrt land hjásetunnar.

Flækjan hefur aukizt vegna misjafnra hagsmuna einstakra flokka, einstakra kjördæma og einstakra þingmanna af nýskipan kjördæma. Sumir vilja snöggt þingrof til að losna við breytingar og aðrir vilja breytingar fyrir kosningar.

Þess vegna er nóg efni til í framhald kynningarinnar á Löðri alþingis, sem byrjað var á hér að ofan. Það gæti hljóðað svo:

“Bjargar Sigurlaug bráðabirgðalögunum? Semur Eggert um að hleypa Siggeiri aftur inn? Verður mikið fundað í þingflokki Bandalags jafnaðarmanna? Semja Geir og Ólafur Ragnar um fjölgun Reykjavíkurþingmanna fyrir kosningar? Leggur Gunnar fram einkafrumvarp um vísitölu? Leyfir Alexander Birgi Ísleifi að tala? Eða verður að sækja Sverri? Mun Tómas skilja kjördæmastefnu Steingríms? Hættir Garðar að greindarmæla þingflokksbræður? Verður boðið fram fyrir hönd Blöndu? Finnur tölvan reikningsaðferð, sem kemur öllum núverandi þingmönnum aftur inn á þing?

Ruglaður í ríminu? Ekki eftir þennan vikuþátt af Þinglöðri!”

Jónas Kristjánsson

DV

Kennt að verzla.

Greinar

Mörg og misjafnlega þokkuð eru verk Verðlagsstofnunar. Verst er varðstaða hennar við vísitölufalsanir stjórnvalda, sem í ýmsum tilvikum felur í sér bein lögbrot, svo sem verðlagsstjóri hefur orðið að játa fyrir dómstóli.

Komið hefur í ljós, að Verðlagsráð hefur lagt til niðurskurð verðhækkana án þess að kanna afkomu vel rekinna fyrirtækja í viðkomandi greinum, þótt lög mæli svo fyrir. Þetta var á sínum tíma staðfest í málaferlum gegn dagblöðum.

Nýjasta dæmið um varðgæzluna eru tilraunir stofnunarinnar og Verðlagsráðs, stjórnar hennar, til að ákveða, hversu mikill taprekstur Strætisvagna Reykjavíkur eigi að vera, þótt slíkt sé langt fyrir utan verksviðið.

Á sama tíma er Verðlagsstofnun að efla þjónustu á öðrum og jákvæðari sviðum. Þar er ekki um að ræða þjónustu við vísitölufalsanir stjórnvalda, heldur aðstoð við neytendur til eflingar almennu verðskyni í verðbólgunni.

Verðkynningar stofnunarinnar hafa smám saman verið að slípast. Þær, sem birzt hafa síðustu mánuðina, hafa verið einkar fróðlegar og hafa ekki gefið tilefni til rökstuddrar gagnrýni á borð við þá, sem heyrðist í upphafi.

Fimmta verðkynningin, sem birtist í upphafi desember í vetur, vakti mikla athygli. Þar voru áætluð ársútgjöld meðalfjölskyldu í mat og hreinlætisvörum eftir því, hvar á höfuðborgarsvæðinu var verzlað.

Í ljós kom, að verðmunurinn í ódýrustu og dýrustu verzluninni nam tæplega 16% eða 8.759 krónum á árinu. Marga fjölskylduna munar um minna í útgjöldum til matar og hreinlætisvöru en sem svarar algengum mánaðarlaunum.

Ýmsar verzlanir, sem hlutu góða niðurstöðu í kynningunni, notfærðu sér hana í auglýsingum og öðrum áróðri. Sumar þeirra fjölguðu meira að segja vörum, sem neytendum voru boðnar á tilboðsverði í jólakauptíðinni.

Í stað þess að eyða miklu benzíni í akstur milli verzlana til að grípa ódýra vöru á mörgum stöðum, gátu neytendur valið sér einhverja ódýra verzlun, sem lá vel við samgönguleiðum milli heimilis og vinnustaðar.

Enginn vafi er á, að margir neytendur notuðu þetta og fluttu viðskipti sín til þeirra kaupmanna, sem betur buðu. Þannig varð kynningarstarfið til að færa viðskipti til verzlana, sem bezt hafði tekizt að gæta hagsmuna neytenda.

Enn fór Verðlagsstofnun inn á nýja og athyglisverða braut í janúar, þegar birtur var samanburður á verði Reykjavíkur og Kaupmannahafnar á ýmsum matvörum og nokkrum fleiri vörum. Þar skar ýmislegt í augu.

Ýmis verðmunur sýndi, hve hart Íslendingar eru leiknir af græðgi hins opinbera í tolla, vörugjald og söluskatta, sem m.a. leiðir til óhófsverðs á grænmeti. Hún sýnir líka, hve illa einokunin fer með okkur.

Hún veldur því, að jógúrt úr niðurgreiddri mjólk er meira en tvöfalt dýrari hér en í Danmörku.Hún veldur því, að niðurgreitt dilkakjöt hér er helmingi dýrara en kjúklingar í Danmörku, hliðstæður matur þar í landi.

Gott væri, að Verðlagsstofnun gerði hliðstæðan samanburð á vöruverði hér og í Bandaríkjunum, svo að enn betur komi í ljós, hvernig okur hins opinbera, verzlunareinokun og innflutningsbann hefur íslenzka neytendur að fífli.

Jónas Kristjánsson.

DV

Heilir og hálfir kjósendur.

Greinar

Málamiðlun stjórnmálaflokkanna í kjördæmamálinu slakar lítið á spennunni, sem misvægi atkvæðisréttar hefur hlaðið upp á nýjan leik eftir lagfæringuna árið 1959. Málamiðlunin gengur of skammt til að endast lengi.

Margir fylgjendur jöfnunar atkvæðisréttar eru tilbúnir að kaupa samstöðu allra stjórnmálaflokkanna því verði, sem nú er að verða ofaná, það er að atkvæðisréttur verði 2,6 sinnum gildari á Vestfjörðum en í Reykjavík.

Á mánudaginn gerði þingflokkur framsóknarmanna atlögu að málamiðluninni með því að krefjast afgreiðslu bráðabirgðalaganna margfrægu í síðasta lagi í dag, á miðvikudegi. Þetta var tilraun til að knýja fram þingrof.

Þingflokkurinn gerði þetta í voninni um, að bráðabirgðalögin yrðu felld og þingrof yrði þar af leiðandi yfirvofandi, án þess að tími ynnist til að ganga frá samkomulagi um minnkun á misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu.

Þetta kann að leiða til gamalþekktrar niðurstöðu, að hinir stjórnmálaflokkarnir leiðrétti málið gegn atkvæðum Framsóknarflokksins, sem léki þá ekki lengur tveimur skjöldum eins og hann hefur leikið að undanförnu.

Ef Framsóknarflokkurinn verður utan samkomulags, mun svo fjölga þeim, sem telja málamiðlunina ná of skammt. Of dýrt sé að þola 2,6-falt misvægi, ef flokkurinn verði eigi að síður á móti lagfæringunni.

Í skoðanakönnun DV í vetur kom í ljós, að 82% þeirra, sem svöruðu, vildu jafnan atkvæðisrétt. Utan suðvesturhornsins var líka mikill meirihluti með jöfnun, meira að segja í sveitum landsins, sem nú njóta misvægisins.

Niðurstaðan sýnir, að þjóðin sem heild telur jöfnun atkvæðisréttar vera sanngirnismál, hafið yfir hagsmuni einstakra landshluta eða tegunda byggða. Hún sýnir, að þjóðin sem heild vill, að allir hafi fullgild atkvæði.

Fyrir munn landsbyggðarinnar tala því ekki þeir, sem á opinberum vettvangi verja misvægið með því að rekja margvíslegan annan hag íbúa þéttbýlis, einkum á suðvesturhorninu, sem vegi á móti skertum atkvæðisrétti þeirra.

Slík rök eru raunar málinu ekki viðkomandi. Fáum eða engum dettur í hug að mæla með skertum atkvæðisrétti tekjuhárra manna, af því að önnur aðstaða þeirra í lífinu sé betri en þeirra, sem lægri hafa tekjurnar.

Fáum eða engum dettur heldur í hug að mæla með, að karlar hafi minni atkvæðisrétt en konur, af því að önnur aðstaða þeirra sé betri, né heldur að langskólagengnir hafi af sömu ástæðum minni atkvæðisrétt en hinir lítt skólagengnu.

Hver maður hlýtur að eiga rétt á heilu atkvæði, hver sem er búseta hans, alveg eins og hver sem er efnahagur hans eða tekjur, kyn eða aldur, skólaganga eða atvinnugrein. Þessa forsendu lýðræðis viðurkennir allur þorri manna.

Til bráðabirgða munu menn ef til vill sætta sig við minnkun misvægis atkvæðisréttar úr 5-földu í 2,6-falt, en það verður skammvinn slökun á spennu, sérstaklega ef sú málamiðlun felur ekki einu sinni í sér stuðning Framsóknarflokksins.

En hvaða rök eru svo fyrir 2,6-földu misvægi frekar en einhverju öðru? Er það nokkuð annað en rangt áætlað verð á stuðningi Framsóknarflokksins? Að honum frágengnum, af hverju ekki fullan jöfnuð? Er það óhóflegt lýðræði að mati þingmanna?

Jónas Kristjánsson

DV

Margt er mannanna braskið.

Greinar

Braskið á alþingi varð landsfrægt um daginn, þegar stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins bauðst til að hleypa næstum hálfs árs gömlum bráðabirgðalögum í gegn, ef negldir yrðu dagar þingrofs, kosninga og nýs þings.

Ríkisstjórnin hafnaði þessu boði, ekki vegna þess að siðgæði hennar sé orðið svo miklu hærra en stjórnmálamanna almennt, heldur vegna þess að mjög óljóst er orðið, hverjir hafa og hafa ekki hag af staðfestingu laganna.

Meðalgreindum mönnum og hinum greindari hefur lengi verið ljóst, að Sjálfstæðisflokknum sem verðandi stjórnarflokki bráðliggur á, að lögin verði staðfest, þrátt fyrir langvinna og harða andstöðu þingmanna flokksins.

Í stað þess að nota tækifæri varaþingmanns Eggerts Haukdal og hleypa málinu í gegn, þæfðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins málið svo lengi, að þeir neyddust síðan til að gera ríkisstjórninni tilboð um brask.

Á hinn bóginn hefur daufur stuðningur Alþýðubandalagsins við bráðabirgðalögin smám saman verið að dofna, því nær sem dregur kosningum. Þar mundu margir þingmenn gráta þurrum tárum, ef lögin féllu á jöfnum atkvæðum.

Þá eru stuðningsmenn þegar farnir að brýna Gunnar Thoroddsen og segja honum, að stöðvun þingmanna Sjálfstæðisflokksins á bæði stjórnarskránni og bráðabirgðalögunum sé meira en næg ástæða fyrir sérframboði hans.

Og almennt eru stjórnarsinnar síður en svo kvíðnir kosningabaráttu, þar sem unnt væri að nudda stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins upp úr því að hafa snöggeflt verðbólguna með því að fella bráðabirgðalögin.

Í þetta flókna brask blandast svo margvíslegir hagsmunir, sem tengjast stjórnarskrá og kosningalögum. Ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins mundu ekki gráta snöggt þingrof, sem hindraði lagfæringar á kosningarétti.

Aftur á móti er það útbreidd skoðun í Sjálfstæðisflokknum, að ekki megi tefla málum í svo snöggt þingrof, að ekki vinnist tími til að lagfæra atkvæðisrétt Reykvíkinga og Reyknesinga, með breyttum kosningalögum hið minnsta.

Þá er orðið sameiginlegt hagsmunamál Geirs Hallgrímssonar í sjöunda sæti og Ólafs Ragnars Grímssonar í fjórða, að með lagabreytingu fyrir kosningar verði gert kleift að hafa fleiri en einn uppbótarþingmann í hverju kjördæmi.

Hins vegar sjá ýmsir þingmenn úti á landi hættu á, að þeir verði að víkja fyrir flokksbræðrum í fjölmennari kjördæmum, jafnvel þótt stærðfræðingar sitji með sveittan skallann við að reikna alla þingmenn aftur inn á þing.

Slíkir misvísandi hagsmunir strjálbýlis og þéttbýlis skera þvert á flokkslínur. Innan hvers flokks valda þeir misjöfnum skoðunum á, hversu miklum tíma eigi að verja til að reyna að semja um lagfæringu atkvæðisréttar.

Þessir hagsmunir hafa bein áhrif á skoðun sömu þingmanna á því, hversu snöggt þingrof megi bera að. Þeir, sem kæra sig ekki um breytingar, vilja undir niðri, að bráðabirgðalögin falli og að þing verði strax rofið í kjölfarið.

Þess vegna er mikið braskað þessa dagana á þingi. Þess vegna er friður ótryggur innan þingflokka og hætta á hliðarhoppum einstakra þingmanna. Við slíkar aðstæður örvast vafasamt viðskiptalíf á Alþingi, svo sem dæmin sanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Höggvið á hnútinn.

Greinar

Ekki vannst tími í gær á alþingi til að afgreiða næstum hálfs árs gömul bráðabirgðalög um efnahagsmál, því að menn þurftu nægan tíma til að tjá sig um nokkurra daga gamla tillögu um mótmæli gegn hvalveiðibanni.

Við verðum því enn að bíða fram yfir helgi til að komast að, hvort alþingi fellir bráðabirgðalögin á jöfnu til að koma verðbólgunni úr 70% upp í 100%, – sem nýju veganesti fyrir þá ríkisstjórn, er tekur við eftir kosningar.

Hitt vitum við nú þegar, að alþingi samþykkti með eins atkvæðis meirihluta að mótmæla ekki hvalveiðibanninu. Meirihlutann mynduðu tólf sjálfstæðismenn, níu alþýðubandalags-, fjórir framsóknar-, þrír alþýðuflokks- og einn jafnaðarmaður.

Í minnihlutanum lentu þrettán framsóknarmenn, níu sjálfstæðismenn og sex alþýðuflokksmenn. Þannig féllu atkvæði þvert á flokkslínur í voldugri leiksýningu, þar sem þingmenn gerðu í heilum ræðum grein fyrir atkvæði sínu, – til að komast á skjáinn.

Hvalamálið hefur alténd fengið lýðræðislega afgreiðslu, tilskilinn og löglegan meirihluta á alþingi. Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra þarf ekki að bera ákvörðun sína á bakinu um aldur og ævi.

Alþingi komst að annarri niðurstöðu en Steingrímur og meirihluti ríkisstjórnarinnar, af því að þingmenn töldu víðtæka, en óljósa hagsmuni af freðfiski mikilvægari en þrönga og ljósa hagsmuni af hvalveiðum.

Sumpart er gott, að svona fór. Erfiðara hefði verið að vera klofin þjóð um hina niðurstöðuna, sérstaklega, ef illa hefði farið í utanríkisviðskiptum. Nú erum við hins vegar á lygnum sjó í skjóli diplómatískrar niðurstöðu málsins.

Bæði stjórnvöld og þrýstihópar í Bandaríkjunum beittu sér í málinu. Í þrýstingnum fóru bandarísk stjórnvöld út fyrir velsæmismarkið, þegar þau buðu fiskveiðifríðindi í skiptum fyrir samþykki hvalveiðibannsins.

Þetta ósæmilega tilboð var hvorki Bandaríkjunum né okkur til sóma. Við teljum okkur ekki vera neitt bananalýðveldi. Og vonandi verða okkar menn aldrei til þess að rifja upp boðið, þótt niðurstaða málsins hafi orðið þessi.

Að baki boðinu lá tvöfalt siðgæði stjórnar, sem vill banna öðrum hvalveiðar, en neitar sjálf að undirrita hafréttarsáttmála, – sem vill neita viðskiptum við þá, sem skjóta hvali, þótt hún eigi blómleg viðskipti við þá, sem skjóta menn.

Eyjólfur Konráð Jónsson hafði rétt fyrir sér í gær, er hann sagði, að við hefðum átt að mótmæla fyrr, ef við ætluðum það, en ekki geyma afstöðu fram á síðustu stund og taka hana undir þrýstingi í brennidepli heimsfrétta.

Samt læðist að sú hugsun, að ríkisstjórn með véfréttamenn á borð við Gunnar Thoroddsen og Ólaf Jóhannesson innan borðs hefði getað sent virðulegt og óskiljanlegt skeyti án mótmæla, en með ýmsum torskildum fyrirvörum.

Annað eins hefur gerzt í diplómatíu, að menn sendi svör, er aðrir túlka sem já, þótt höfundar geti síðar túlkað þau sem nei, ef aðstæður breytast á þann hátt, að auðveldara verði að fylgja eftir eigin hagsmunum.

En hvað sem Talleyrand hefði gert, þá hefur nú verið höggvið hreinlega á hnútinn. Við höfum fórnað peði fyrir tryggara framhald skákarinnar um þjóðarhag og getum byrjað að ræða þann leiða hag eftir helgi. Eða eftir þar næstu. Altjend síðar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Prófkjör eru nauðsyn.

Greinar

Um nokkurt skeið hefur verið í tízku að finna prófkjörum flest til foráttu. Upphlaup sjálfstæðismanna á Vestfjörðum bendir þó til, að fjölmennir flokkar komist ekki hjá prófkjörum, ef þeir vilja mæta kosningum í heilu lagi.

Kjördæmisþing sjálfstæðismanna á Vestfjörðum sýnir, að fulltrúar ýmissa tveggjamannafélaga geta ekki lengur komið saman til að ráðskast með framboðslista. Hinir óbreyttu taka þá til sinna ráða og bjóða fram sér á parti.

Prófkjör eru ekki trygging fyrir innanflokkssáttum um framboðslista. En reynsla þessa vetrar bendir eindregið til, að þau stuðli að slíkum sáttum, að minnsta kosti milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga í Sjálfstæðisflokknum.

Því hefur verið haldið fram, að konur eigi erfitt uppdráttar í prófkjörum. Nær væri að segja þær eiga erfitt uppdráttar í stjórnmálaflokkunum, hvort sem þar eru prófkjör eða ekki. Prófkjörin eru ekki sökudólgurinn.

Prófkjörsleysi sjálfstæðismanna á Vestfjörðum var einmitt notað til að sparka konu þeirri, sem hafði verið í baráttusæti flokksins í kjördæminu. Það bendir ekki til, að konur græði á fámennisræði í stjórnmálaflokkunum.

Því hefur einnig verið haldið fram, að nýir og efnilegir menn treysti sér ekki til að taka þátt í prófkjörum og nái heldur ekki árangri í þeim. Prófkjörin festi bara gömlu og úrbræddu skrjóðana í sessi.

Víst eru reyndir stjórnmálamenn fyrirferðarmiklir í prófkjörum, alveg eins og þeir eru í kjördæmisráðum og öðrum fámennisstjórnum. En þess eru einnig dæmi, að nýir menn taki þá gömlu á beinið í prófkjörum.

Hjá sjálfstæðismönnum á Suðurlandi lentu nýir menn í tveimur efstu sætum, þeir Þorsteinn Pálsson og Árni Johnsen. Og á Norðurlandi eystra náði Björn Dagbjartsson þriðja sæti, sem telja verður vonarsæti hjá sjálfstæðismönnum.

Því hefur ennfremur verið haldið fram, að með prófkjörum hafi peningaaustur, lýðskrum og uppákomur haldið innreið sína í stjórnmálin. Illa fjáð hæglætisfólk eigi ekki lengur von um frama í stjórnmálunum.

Réttara er, að oft fer fé og fyrirhöfn fyrir lítið í prófkjörum. Fyrirferðarmikil og skrautleg kosningabarátta dugði til dæmis Guðlaugi Tryggva Karlssyni skammt í prófkjöri Alþýðuflokksins á Suðurlandi.

Prófkjörsmenn hafa yfirleitt ekki beðið fjárhagslegan hnekki af kosningabaráttu. Stuðningsmennirnir, sem ýttu þeim úr vör, hafa ekki verið í vandræðum með að slá saman í kostnað af þeirri stærðargráðu, sem hér tíðkast.

Því hefur loks verið haldið fram, að óviðkomandi fólk úr öðrum flokkum taki þátt í prófkjörum og rugli niðurstöðurnar. Bent hefur verið á, að í sumum tilvikum hefur þátttakan verið heldur meiri en stuðningurinn í síðustu kosningum.

Samt hefur ekki tekizt að leiða rök að því, að flokksandstæðingar hafi náð að breyta sætisröð í prófkjörum þessa vetrar, ekki einu sinni hjá sjálfstæðismönnum á Norðurlandi vestra, þar sem framsóknarmenn voru grunaðir um þátttöku.

Að þessu leyti hafa opin prófkjör ekki reynzt verr en hálfopin. Hin síðarnefndu eru mun betri en engin. En opnu prófkjörin eru bezt, ekki sízt ef flokkarnir gætu sætzt á svo sjálfsagðan hlut að halda þau sameiginlega.

Jónas Kristjánsson

DV

Hér er lausnin.

Greinar

Á tímum stjórnleysis og efnahagsöngþveitis, verðbólgu og atvinnuskorts getum við huggað okkur við, að þetta eru að töluverðu leyti mannanna verk, einkum stjórnmálamannanna. Þetta eru því verk, sem má endurbæta.

Okkur ættu að duga tvö ár til að ná verðbólgunni niður í næstum ekki neitt og fjögur ár til að verða ein allra tekjuhæsta þjóð í heimi. Það getum við með því að framkvæma sumpart strax og sumpart í áföngum það, sem hér verður rakið:

Niðurgreiðslur landbúnaðarafurða ber að leggja niður og nota sparnaðinn til að lækka söluskatt, einkum á matvælum. Staða neytenda mundi haldast óbreytt, um leið og verulega yrði dregið úr verðmætabrennslu í landbúnaði.

Alla styrki og útflutningsuppbætur til aldraðra atvinnugreina ber að leggja niður og nota sparnaðinn til að styðja aukningu atvinnutækifæra í nýjum greinum, til dæmis sem svarar tekjum ríkisins af þessum nýju tækifærum.

Til þess að draga úr búseturöskun mætti hafa stuðninginn meiri en ella í þeim tilvikum, að hin nýju tækifæri væru í sömu héruðum og nú búa við hið dulbúna atvinnuleysi, sem felst í sumum öldruðum atvinnugreinum, einkum landbúnaði.

Ríkið fær auknar skatttekjur af flutningi atvinnutækifæra frá forréttinda- og skattfríðindagreinum yfir í arðbærar greinar. Það getur gefið muninn eftir með því að greiða hluta launa viðbótarstarfsliðs hinna nýju greina.

Innflutningsbann á landbúnaðarvörum og útflutningshömlur á ferskum fiski ber að afnema, svo að verðlag afurða innanlands komist í samhengi við alþjóðlegt verð á sömu afurðum eða hliðstæðum afurðum, og innlend framleiðni verði mælanleg.

Samhliða frjálsum siglingum með afla ber að hætta opinberri skráningu verðs á erlendri mynt og heimila frjálsa notkun hennar í innlendum viðskiptum, svo að ekki sé lengur með seðlaprentun hægt að búa til séríslenzka verðbólgu.

Samhliða þessu ber ríkinu að hætta afskiptum af fiskverði og taka upp sölu eða útboð veiðileyfa, svo að útgerð færist úr höndum grínista til þeirra, sem bezta afkomu hafa í greininni. Þannig verði tryggð markaðsgeta sjávarútvegsins.

Vexti ber að gefa frjálsa og banna auk þess sérstaklega allar lánveitingar, sem ekki eru að fullu verðtryggðar, þar á meðal afurðalán og lán úr ýmsum sérsjóðum forréttindagreina, svo að féð renni til arðbærrar iðju.

Taka ber upp fastar reglur um notkun innlendrar framleiðslu umfram erlenda upp að vissu marki, t.d. upp að 10% af innlendu vinnsluvirði eða öðru því marki, sem jafngildir tekjum hins opinbera af innlendri framleiðslu umfram erlenda.

Núllgrunnsaðferð ber að taka upp við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlana hins opinbera. Það hafi fasta hlutdeild í þjóðartekjum og deili þeim hluta síðan niður í einstakar, meintar þarfir, í stað þess að hlaða upp óskhyggjupökkum.

Hagnýta ber reynslu ýmissa smáþjóða af þægilegum tekjuöflunarleiðum, svo sem mótun skattaparadísar fyrir erlent fjármagn, markvissari útgáfu frímerkja og markvissari útgerð á ráðstefnumarkað í ferðamannaþjónustu.

Hér er ekki rúm til að nefna fleiri atriði, en þessi ættu að duga til að stöðva verðbólguna, tryggja fulla atvinnu í næstu áratugi, gera Íslendinga að tekjuhæstu þjóð á Vesturlöndum og grunnmúra forsendur fullveldis okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ónæði af atkvæðum.

Greinar

Í forustugreinum og fréttum Morgunblaðsins á undanförnum mánuðum hefur borið á bráðskemmtilegum skoðunum á prófkjörum. Biða menn nú eftir, að Morgunblaðið túlki nýjustu prófkjör á suma hátt og það hefur áður gert í vetur.

“Maðkar í mysunni”, sagði Morgunblaðið í fyrirsögn desemberleiðara um kosningasigur Pálma Jónssonar landbúnaðarráðherra á Norðurlandi vestra. Í leiðaranum sagði blaðið, að þáttakan í prófkjörinu væri “magnað pólitískt hneyksli”.

Forsenda þessara athyglisverðu kenninga er, að þátttakan var 15% meiri en kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu í síðustu alþingiskosningum. Slíkt kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra að mati Morgunblaðsins:

“Ekki fer hjá því, að í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi vestra hafi þeir menn greitt atkvæði, sem áður hafa stutt andstæðinga Sjálfstæðisflokksins.” Þetta er orðrétt úr annarri forustugrein blaðsins.

Um leið krafðist Morgunblaðið þess, að kjördæmisráðið léti ekki hneykslið “sem vind um eyru þjóta”. Áfram hélt blaðið og sagði: “Er ekki eðlilegt, að rannsókn fari fram og þá væntanlega undir forustu miðstjórnar …”

Í framhaldi af þessu þurfa allir vel innrættir menn að leggja höfuðið í bleyti til að finna lausn á þeim vanda, sem myndast af því, að kjósendur, er áður hafa stutt aðra flokka, fara allt í einu að ónáða Sjálfstæðisflokkinn með atkvæði sínu.

Auðvitað getur verið vont fyrir litla, sæta stjórnmálaflokka, ef alls konar pakk fer að kjósa þá og gera þá að stórum og ljótum flokkum, sem gætu álpazt til að hafa aðrar skoðanir á stjórnmálum en Morgunblaðið hefur.

Spurningin er bara, hvað hægt sé að gera til að losa mysuna við ásókn maðkanna. Ekki er hægt að mæla framsóknartilhneigingar með blóðprufu, svo að sennilega er heppilegast að leita aðstoðar Morgunblaðsins.

Þeir kjósendur, er hefðu í huga að ónáða Sjálfstæðisflokkinn með atkvæði sínu, gætu þá snúið sér til Morgunblaðsins, sem gæfi þá út siðferðisvottorð, er veitti hjartahreinum kjósendum aðgang að hinum skelfilegu prófkjörum.

Morgunblaðið gleymdi að taka þráðinn upp af fullri hörku, þegar þátt tóku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Vesturlandi 9% fleiri en þeir, sem greiddu þar flokknum atkvæði í síðustu kosningum. En þá kom annað á bátinn:

“Friðjón Þórðarson dómsmálaráðherra hlaut kjör í efsta sæti lista sjálfstæðismanna á Vesturlandi með 1007 atkvæði í það sæti, sem er aðeins 54% af gildum atkvæðum, er Friðjón þó vel kynntur í kjördæminu.”

Þegar stórfelldur kosningasigur er túlkaður á þennan hátt, biða menn auðvitað í ofvæni eftir, að Morgunblaðið haldi áfram og túlki nýjustu prófkjörsúrslit sem svo, að Þorsteinn Pálsson hafi “aðeins” fengið 33% á Suðurlandi. Og hvað um prósentur Geirs?

En prófkjörið á Suðurlandi gefur Morgunblaðinu kjörið tækifæri til að rifja aftur upp kenninguna um “maðka í mysunni”, því að þar kusu 21% fleiri en samtals kusu báða lista flokksins í síðustu kosningum.

Hér með er auglýst eftir lausnum á þeim vanda Morgunblaðsins, að alls konar siðlaust pakk skuli leyfa sér að láta af stuðningi við aðra flokka og taka upp á að ónáða Sjálfstæðisflokkinn og óhreinka hann með atkvæði sínu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Grínisti ársins.

Greinar

Um og upp úr áramótum er vinsælt að líta yfir farinn veg og velja menn ársins á ýmsum sviðum, bæði almennt og í mörgum listgreinum, svo að dæmi séu tekin af framtaki DV. En grínisti ársins hefur ekki enn komizt á þá skrá.

Erfitt verður að sigra Jón Kr. Jóhannesson, útgerðarmann á Þórshöfn, sem grínista ársins 1983. Hann lét nýlega hafa eftir sér nokkur fleyg orð, sem skara framúr öðrum í skemmtilegri ósvífni, – öfugmæli af nýtízkulegri gerð.

Hann sagði: “Ætli að Þórshafnartogarinn sé bara ekki eini togarinn, sem algerlega hefur staðið við afborganir af sínum lánum til sjóðanna síðan hann byrjaði.” Og alla áhugamenn um sjávarútvegsmál rak í rogastanz.

Hvernig var þetta með hinn illræmda Þórshafnartogara, sem hefur hlotið fleiri fermetra af vondu umtali á prenti en nokkurt annað íslenzkt skip? Hafði þjóðin fundið nýjan kraftaverkamann í Jóni Kr. Jóhannessyni útgerðarmanni?

En í rauninni hafði það eitt gerzt, að samkvæmt venju voru tekin 20% af verðmæti afla skipsins til þess að tryggja lánveitendum hluta af vöxtum af hinu gífurlega lánsfé, sem hafði verið lagt til skipsins.

Þessar 1,6 milljón krónur á hálfu ári eru auðvitað bara krækiber af þeim 8,4 milljónum króna, sem útgerð Stakfells átti á þessu sama hálfa ári að greiða í vexti og afborganir, 4,1 milljón í vexti og 4,3 í afborganir.

Ósagða grínið í þessu stórkarlalega dæmi er þó hitt, að heildarverðmæti alls afla Þórshafnartogarans á þessu hálfa ári nam 8,2 milljónum króna. Það var heldur minna en vextir og afborganir skipsins á sama tíma!

Hér sjáum við vandamál nýrra togara í hnotskurn. Skattgreiðendur fjármagna togara, sem fiskar ekki einu sinni upp í vexti og afborganir, hvað þá upp í olíu, veiðarfæri, aflahlut sjómanna og annan óhjákvæmilegan rekstur.

Afleiðingin er, að útgerð togarans getur einungis staðið í skilum með 19% af fjárskuldbindingum sínum, 1,6 milljón krónur af 8,4. Hinar 6,8 milljónirnar lenda á herðum marghrjáðra skattgreiðenda þessa lands.

Hin afleiðingin er ekki síður alvarleg, að úthald þessa togara rýrir aflamagn annarra togara, sem þyrftu ekki nema smávægilega aflaaukningu til að geta staðið í skilum. Togara, sem eru reknir af alvörumönnum.

Sum útgerðarfélög eru rekin með hagnaði, meðan önnur eru rekin með dúndrandi tapi. Togarar Útgerðarfélags Akureyringa hafa 18% afgangs af tekjum til greiðslu vaxta og afborgana, meðan Bæjarútgerð Reykjavíkur hefur minna en ekkert afgangs.

Því miður hafa Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra og Sverrir Hermannsson framkvæmdastofnunarstjóri haft forustu um að koma því inn hjá grínistum, að þeir geti gert út á skattgreiðendur fyrir meira en milljón á mánuði.

Sennilega er enginn maður svo skemmtilega frakkur, að hann geti þar á ofan barið sér á brjóst eins og útgerðarstjóri Stakfells, nema hann haldi í einlægni, að skattgreiðendur hafi hreinlega gefið sér hinn sögufræga togara.

Ef ekki verður snarleg snúið af braut þeirra Steingríms og Sverris, verður alvöru útrýmt úr íslenzkum sjávarútvegi og grínistarnir taka við. Og þá verður sjávarútvegurinn að sams konar kvígildi og landbúnaðurinn hefur löngum verið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ný stjórnarskrá er auðveld.

Greinar

Eymd íslenzkra stjórnmálaflokka kemur vel fram í viðtökunum, sem ágætar tillögur stjórnarskrárnefndar hafa hlotið. Ýmist þegja málgögnin þunnu hljóði eða veifa eingöngu sértillögum sinna flokksmanna í stjórnarskrárnefnd.

Þremur dögum eftir opinberun tillaga nefndarinnar höfðu þær enn hvergi birzt á prenti nema hér í DV. Við birtum á miðvikudaginn lið fyrir lið hina gömlu stjórnarskrá, hinar nýju tillögur, skýringar á þeim og sérálit.

Morgunblaðið lætur hins vegar eins og þessar tillögur séu ekki til. Blaðið er eins og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins algerlega andvígt því, að sett verði stjórnarskrá, sem fólk kunni að tengja nafni Gunnars Thoroddsen.

Alþýðublaðið og Þjóðviljinn hafa fátt að segja um sameiginlegar tillögur stjórnarskrárnefndar, en breiða sig þeim mun meira út um sértillögurnar. Þau blöð hafa meiri áhuga á flokkspólitísku áróðursstríði en stjórnarskrá fyrir lýðveldið.

Ef stjórnmálamenn og málsvarar þeirra á prenti vildu nú gera svo vel að líta upp úr eymd sinni, er hægur vandi að ná víðtæku samkomulagi um nýja stjórnarskrá, því að tillögurnar eru komnar í aðgengilegt form til afgreiðslu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, tveggja stærstu flokkanna, í stjórnarskrárnefndinni standa að sameiginlegu tillögunum og hafa ekki sett fram neinar sértillögur. Þar er grunnur til að byggja á.

Sértillögur fulltrúa Alþýðuflokksins eru bæði fáar og stinga í fæstum tilvikum verulega í stúf við sameiginlegu tillögurnar. Yfirleitt er ágreiningurinn aðeins um orðalag, sem þolinmóðir menn ættu að geta samið um.

Að öðru leyti er sanngjarnt að byggja á þeirri meginreglu, að ná samkomulagi um þá leið, sem víkur minnst frá núgildandi stjórnarskrá. Þeim atriðum, sem ágreiningur er um, á að breyta sem minnst, svo að kjölfestan sé sem mest.

Efnislega séð víkur Alþýðuflokkurinn aðeins í tveimur atriðum frá hinum sameiginlegu tillögum. Hann vill afnema bráðabirgðalög og opna nefndafundi alþingis. Hvort tveggja er lýðræðislega rétt, en tæpast framkvæmanlegt.

Alþýðuflokknum ber að viðurkenna, að hann er lítill flokkur í samanburði við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, og að falla frá slíkum sértillögum, ef honum tekst ekki að fá stóru flokkana á sitt band með góðu.

Öðru máli gegnir um tillögur Alþýðubandalagsins. Þær eru hreinlega óbein beiðni um, að hinir flokkarnir þrír afgreiði nýja stjórnarskrá gegn ellefu atkvæðum Alþýðubandalagsins. Það er líka miklu meira en nógur meirihluti.

Alþýðubandalagið vill geta barið sér á brjóst og veifað tillögum sinna manna um friðlýst land, afvopnun og frið, útivist og ókeypis fræðslu, svo og helgan rétt manna til vinnu að eigin vali og annað áróðurshjal út í loftið.

Stjórnmálamenn annarra flokka verða að átta sig á, að Alþýðubandalagið er í eðli sínu ábyrgðarlaust. Þeir verða að sætta sig við, að bandalagið misnoti stjórnarskrármálið til að dansa kosningastríðsdans á hliðarspori.

Í heild sinni gefa tillögur stjórnarskrárnefndar öllum ábyrgum stjórnmálamönnum tækifæri til að lyfta gömlu flokkunum upp úr eymdinni og sýna kjósendum fram á, að þeir geti staðið saman, ef málið er nógu merkilegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðar tillögur um stjórnarskrá.

Greinar

Um það bil fimm þingsæti eru á vergangi milli kjördæma vegna núverandi aðferðar við úthlutun uppbótarþingsæta. Þetta veldur þeim óþægindum, að kjósendur vita ekki fyrirfram, hve margir þingmenn falla í hlut kjördæmisins.

Samkvæmt nýju aðferðinni, sem forustumenn stjórnmálaflokkanna hafi samið um, má búast við, að einungis eitt þingsæti verði á slíkum vergangi. Er til mikilla bóta að draga þannig úr pólitískum happdrættisvinningum.

Annar kostur samkomulagsins um nýja kjördæmaskipun er, að þingmönnum mun aðeins fjölga um þrjá, sem er mun minna en menn óttuðust fram eftir vetri. Fjölgun um 5% er ekki mikil á þessum tíma hárra prósentutalna.

Hinu er ekki að leyna, að samkomulagsleiðin er lakari en annar 63ja þingmanna kostur, sem virtist ætla að verða ofan á fyrir áramótin. Þar var ekki gert ráð fyrir neinum uppbótarmönnum með tilheyrandi happdrættisóvissu.

Nauðsynlegt er að minna á, að það var um síðir af annarlegum ástæðum, að forustumenn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags höfnuðu betri aðferðinni. Þeir óttuðust, að hún mundi um síðir spilla meirihluta í Reykjavík og á Norðfirði.

Auðvitað var unnt að girða fyrir þetta, svo sem gert er annars staðar, þar sem þessi aðferð hefur lengi verið notuð með góðum árangri. En þetta sýnir, að litlir kallar ráða ferðinni hjá okkur, jafnvel í stjórnarskrármáli.

Að beztu leiðinni frágenginni er hin endanlega niðurstaða hin næstbezta og frambærileg sem slík. Sérstaklega ber að fagna, að samkomulag skuli yfirleitt hafa tekizt um svo viðkvæmt og erfitt mál sem kjördæmamálið.

Önnur atriði, sem stjórnarskrárnefnd hefur meira eða minna orðið sammála um að leggja til, að verði í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins, eru yfirleitt til bóta. Þau hæfa nýjum aðstæðum betur en hin eldri ákvæði gera.

Helzt eru það ákvæði um eignarétt, sem þvælzt hafa fyrir nefndinni. Þar að baki er grundvallarágreiningur pólitískra hugmyndakerfa. Á því sviði verður seint fundin samkomulagsleið, sem þingmenn samþykki einum rómi.

Samkvæmt tillögunum á að skerða rétt til þingrofs, þrengja heimild til setningar bráðabirgðalaga og banna afturvirkni skattalaga. Sérstakur ármaður alþingis á að gæta réttar borgara ríkisins. Alþingi á að verða ein málstofa.

Mannréttindi eiga að verða í samræmi við sáttmála Evrópuþjóða og Sameinuðu þjóðanna. Nefndir alþingis eiga að fá aukinn rétt til aðhalds að framkvæmdavaldi. Þjóðaratkvæðagreiðslum á að vera unnt að beita í auknum mæli.

Við fyrstu sýn virðist mega allt gott segja um þessar tillögur og ýmsar fleiri. Að sjálfsögðu þarf að skoða þær rækilega á þingi, í nefndum þess og úti í þjóðfélaginu. Við gerð stjórnarskrár er flas ekki til fagnaðar.

Ekki eru menn á eitt sáttir um, hvort unnt sé að ná samkomulagi um fleira en kjördæmamálið fyrir þingrof, ef kosningar verða í apríl. Meiri líkur eru á, að það takist, ef kosningarnar verða ekki fyrr en í júní.

Á allra næstu vikum mun koma í ljós, hvort unnt verður að ljúka stjórnarskrármálinu á þessu þingi. Að fengnu samkomulagi um kjördæmamálið er vafasamt, að efnisleg rök séu haldbær gegn slíkri heildarafgreiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV