Greinar

Leyfið þeim að deyja.

Greinar

Jafnvel á þessum síðustu og verstu tímum eru til í sjávarútvegi öndvegisfyrirtæki, sem skila hagnaði, meðan önnur ramba á barmi gjaldþrots. Það er flókinn veruleiki, sem býr að baki meðaltölum um afkomu í sjávarútvegi.

Gott væri að lifa í þessu landi, ef öll útgerð í landinu væri á vegum þeirra fyrirtækja, sem standa sig bezt. Þá væri hér sælutíð í stað svartnættis. Og unga fólkið gæti þá horft fullt af bjartsýni fram á veg.

Framfarir, framleiðniaukning og vaxandi velsæld þjóðarinnar byggjast ekki hvað sízt á “úrvali tegundanna” í fyrirtækjum. Vel rekin fyrirtæki eiga að þenjast út á kostnað hinna lélegu, sem eiga að dragast saman og hverfa.

Þessi töfrasproti samkeppninnar kostar auðvitað mikla röskun. En hvar væru Íslendingar nú staddir, ef tuttugasta öldin hefði ekki einkennzt af hnignun og risi fyrirtækja, búferlaflutningum og atvinnuskiptum manna?

Sárt er að missa vinnu og sárara er að flytja í önnur byggðarlög. En þetta hafa menn mátt þola hér á landi, með þeim ánægjulegu afleiðingum, að betri vinna hefur fengizt í öflugara plássi. Og öll sár hafa gróið.

Í seinni tíð gætir mjög þeirrar tilhneigingar að stöðva þessa þróun og frysta ástandið eins og það er. Þetta er gert undir merkjum byggðastefnu og atvinnuverndunar. Óskin er sú, að hagir fólks raskist sem minnst.

Svo er nú komið, að fyrirtækjum í sjávarútvegi er nánast bannað að verða gjaldþrota og hljóta eðlilegan dauðdaga. Ríkið hleypur upp til handa og fóta með lánum og styrkjum til að framlengja dauðastríð vonlausra fyrirtækja.

Með þessu er tafið fyrir, að umsvifin í sjávarútvegi færist í hæfari hendur. Með þessu er gefin út ávísun á stöðnun í framleiðni og léleg lífskjör. Í stað óþægilegrar röskunar til framfara kemur þægileg frysting stöðnunar.

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hyggjast nú verja 50-60 milljónum króna af svokölluðum gengismun til að styðja fimmtán hallærisfyrirtæki í sjávarútvegi með lánum á hagstæðum vaxtakjörum.

Gengismunur ætti raunar að renna til fyrirtækja í sjávarútvegi í réttu hlutfalli við framlag þeirra til gjaldeyrisöflunar. En ríkisstjórnir hafa í vaxandi mæli seilzt til þessa fjár til hvers konar millifærslu.

Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur réttilega mótmælt þessari síðustu ráðagerð, enda vita forustumenn þess, að hún hamlar gegn eðlilegri þróun atvinnugreinarinnar og gerir dýrari hvern þann fisk, sem unnt er að ná úr sjó.

Ef rökum Steingríms um byggðastefnu og atvinnuverndun væri beitt á fleiri sviðum, þannig að hvergi mætti fyrirtæki verða gjaldþrota í friði og hvergi mætti neinn verða fyrir röskun, yrði þjóðin öll fljótlega gjaldþrota.

Íslendingum bráðliggur raunar á, að fyrirtæki í sjávarútvegi fái á nýjan leik að verða gjaldþrota. Við þurfum að losna við sum þau fyrirtæki, sem nú flækjast fyrir öðrum. Ef til vill fimmtán, ef til vill fleiri.

Rekstur grínista á kostnað skattgreiðenda þarf að leggja niður á náttúrlegan hátt, svo að batni vaxtarskilyrði þeirra umsvifa, sem alvörumenn hafa með höndum. Og sjávarútvegsráðherradóm Steingríms þarf að leggja niður sem allra fyrst.

Jónas Kristjánsson.

DV

Smjörfjöll og borðvínsvötn

Greinar

Kjarnorkusprengjan á alþjóðamarkaði landbúnaðarafurða er bandaríska smjörfjallið, sem nemur 300-400 þúsund tonnum. Bandarísk stjórnvöld hafa hvað eftir annað hótað að selja það fyrir slikk til að laga markaðsverðið.

Aðallega er það Efnahagsbandalag Evrópu, sem á undanförnum árum hefur haft forgöngu um að halda uppi óeðlilega háu verði á smjöri til að vernda fjárhag bænda sinna. Þess vegna hafa myndazt smjörfjöll beggja vegna hafsins.

Stundum hefur Efnahagsbandalagið grynnkað á smjörfjallinu og létt þrýstingi af smjörmarkaði með því að selja Sovétríkjunum mikið magn á verði, sem nemur innan við einn tíunda af kostnaði við smjörframleiðslu á Íslandi.

Þessi óbeina efnahagsaðstoð við Sovétríkin hefur farið mjög í taugar bandarískra stjórnvalda, auk þess sem evrópska smjörútsalan hefur valdið örari vexti bandaríska smjörfjallsins en verið hefði að öðrum kosti.

Smjördæmið er aðeins eitt af mörgum um, að heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum mun enn lækka á næstu árum vegna mikillar offramleiðslu í Bandaríkjunum og Efnahagsbandalagi Evrópu. Þessi offramleiðsla er kerfisbundin.

Aðstæður valda því, að margar greinar landbúnaðar eru hagkvæmastar í rekstri í Bandaríkjunum. Aðeins á afmörkuðum sviðum geta einstök lönd þriðja heimsins keppt við hinn sérstaklega öfluga bandaríska landbúnað.

Efnahagsbandalagið hefur byggt upp gífurlega flókið og dýrt varnarkerfi gegn hinni bandarísku framleiðni. Miklum meirihluta fjárlaga bandalagsins er varið til margs konar niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta.

Kerfi Efnahagsbandalagsins er að mörgu leyti svipað íslenzka kerfinu. Tilgangurinn er hinn sami. Reynt er að hindra búferlaflutninga með því að halda uppi duldu atvinnuleysi í landbúnaði, – halda uppi þarflausri framleiðslu.

Efnahagsbandalagið kaupir hinar óseljanlegu afurðir, svo sem korn, mjólkurvörur, kjöt, borðvín, ávexti og grænmeti og myndar úr þeim hin frægu smjörfjöll og borðvínsvötn, sem leita síðan útrásar með ýmsum hætti.

Ein leiðin er að hvetja til aukinnar neyzlu innan bandalagsins með niðurgreiðslum, sem skekkja vöruverðið. Önnur er að losna við afurðirnar af markaði með því að selja þær fyrir slikk út úr bandalagssvæðinu.

Þannig hefur borðvínsvatnið verið eimað og selt sem spritt á flutningskostnaðarverði til Sovétríkjanna, nákvæmlega eins og gert hefur verið við smjörfjallið. Þetta er sama og við höfum gert við íslenzka kjötfjallið og ostafjallið.

Sem dæmi um kostnað við allt þetta má nefna, að útflutningsuppbæturnar nema árlega sem svarar átta íslenzkum fjárlögum, ýmsir styrkir átján íslenzkum fjárlögum og birgðahaldið eitt nemur þremur íslenzkum fjárlögum.

Þegar Efnahagsbandalagið varð í fyrra að skera niður fjárlög sín, kom það niður á öllum öðrum liðum en landbúnaðarvitleysunni. Vaxandi offramleiðsla heldur því áfram að vera orsök viðskiptastyrjalda og sífelldrar útsölu landbúnaðarafurða.

Stuðningsmenn íslenzkrar framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum geta ekki vænzt betri tíðar um fyrirsjáanlega framtíð. Alþjóðamarkaðurinn og útsölur hans munu framvegis sem hingað til hossa kaupendum á kostnað framleiðenda.

Jónas Kristjánsson

DV

Eins árs neyðarbirgðir.

Greinar

Með vaxandi ófriði í þriðja heiminum og með vaxandi spennu austurs og vesturs þurfa Íslendingar að leggja aukna áherzlu á að undirbúa neyðaraðgerðir til að mæta hugsanlegri stöðvun á aðflutningum til landsins.

Hér í landinu þurfa jafnan að vera til matvæli til langs tíma. Ennfremur nauðsynlegustu rekstrarvörur atvinnuveganna og ber þar hæst olíur og bensín. Þessa þörf er skynsamlegt að meta og safna síðan birgðum til samræmis.

Grundvöllur matvælabirgðanna eru frystigeymslur fiskvinnslustöðvanna. Þar eru matarbirgðir til mjög langs tíma. Telja má líklegt, að fáar þjóðir eigi svo miklar birgðir í hlutfalli við innanlandsneyzlu.

Þetta þarf auðvitað að staðfesta með því að gera úttekt á birgðunum árið um kring. Jafnframt þarf að kanna, að hve miklu leyti olíuskortur gæti dregið úr möguleikum á að halda frosti á fullu í frystigeymslunum.

Þetta tengist aðgerðum til að láta innlenda orku leysa olíuvörur af í sem allra mestum mæli og aðgerðum til að gera innlend orkuver sem allra minnst háð olíuvörum. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þessa átt.

Því hefur verið haldið fram, að rangt sé að treysta um of á frystigeymslurnar í neyðarástandi. “…hætt er við, að það þætti fábreyttur kostur til lengdar”, var sagt í kjallaragrein hér í blaðinu fyrr í vetur.

Á hitt ber þó að líta, að í neyðarástandi á borð við stöðvun aðflutninga hafa menn sennilega veigameiri áhyggjur en þær, hvort fiskurinn, sem þeir borða, sé einhæfur eða ekki. Meginatriðið er að hafa einhvern mat.

Til viðbótar væri að vísu æskilegt að hafa matvæli, sem geymast vel og gefa fjölbreytni á móti fiskinum. Þar kemur helzt til greina hveiti og annað korn, sem geyma mætti í þar til gerðum kornhlöðum mánuðum saman og jafnvel lengur.

Sennilega verður olíuskortur langsamlega hættulegasta vandamál okkar. Öll samgöngutæki okkar ganga fyrir olíuvörum. Landbúnaðurinn byggist á olíu. Og síðast en ekki sízt eru fiskveiðarnar keyrðar á olíu.

Olíubirgðir í landinu hafa farið vaxandi á síðustu misserum og nema nú um 60-70 daga notkun. Þrátt fyrir aukninguna eru þetta augljóslega allt of litlar birgðir, því að neyðarástand getur staðið miklu lengur.

Spor í rétta átt felst í frumvarpi, sem liggur fyrir alþingi, um aðild Íslands að Alþjóða orkustofnuninni. Meðal annars gerir frumvarpið ráð fyrir, að Íslendingar skuldbindi sig til að auka olíubirgðir upp í 90 daga notkun.

Þetta á að taka okkur fimm ár og ekki að kosta neitt viðbótarrými í geymum, því að þeir eru nú nýttir minna en 60%. Hins vegar þýðir þetta 1,6% hækkun olíuverðs, sem er lítið gjald fyrir aukið öryggi.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram, að flest aðildarlönd Alþjóða orkustofnunarinnar eru komin með um 130 daga olíubirgðir. Við þurfum að feta sömu braut til að auka öryggi okkar við óvænta stöðvun aðflutninga.

Í rauninni þurfum við að eiga hér bæði mat og olíur til að minnsta kosti heils árs. Við erum í hópi þeirra þjóða, sem mest eru háðar utanríkisviðskiptum. Við verðum því að kunna að bregðast við stöðvun slíkra viðskipta.

Jónas Kristjánsson

DV

Gutenbergs Hus.

Greinar

Í frelsisbaráttu Íslendinga var einn hornsteinninn, að verzlunin skyldi verða innlend. Jón Sigurðsson lagði sérstaka áherzlu á þetta í ritum sínum á síðustu öld. Og smám saman hefur það tekizt að verulegu leyti.

Enn eimir þó eftir af tilhneigingu danskra stórkaupmanna að líta á Ísland sem hluta Danaveldis. Þeir beita framleiðendur og rétthafa í öðrum löndum kúgun til að fá Íslandsviðskipti þeirra til að fara um Kaupmannahöfn.

Ein kunnasta prentvélategund í heimi er bandarísk og nefnist Goss. Danskt fyrirtæki að nafni Bie þykist eiga íslenzka markaðinn fyrir þessar vélar. Íslenzkar prentsmiðjur hafa hins vegar ekki kært sig um viðskipti við Bie.

Þar sem Goss lætur Bie kúga sig, hafa slíkar vélar ekki verið teknar í notkun hér á landi nema í einu tilviki, þegar tókst að komast framhjá Bie. Síðan hefur Bie verið mjög á verði við að gæta nýlendu sinnar.

Danskir umboðsmenn eru ekki einir um þessa hitu. Á sínum tíma voru Compugraphic tölvusetningarvélar taldar hagkvæmastar í verði og gæðum. Norskur heildsali þóttist hins vegar eiga Ísland og lagði þar að auki 100% ofan á tækin.

Fyrir bragðið var mjög dræm sala á þessum tækjum til Íslands, unz hinn bandaríski framleiðandi áttaði sig á, að ástandið var ekki eðlilegt. Hann fékk sér íslenzka umboðsmenn og hafa viðskiptin síðan verið skapleg.

Fyrir um það bil áratug reyndi prentsmiðjan Hilmir að fá leyfi til útgáfu Andrésar andar á íslenzku. Umboðsmaður Walt Disney sat í Kaupmannahöfn og fór undan í flæmingi til að gæta hagsmuna hins danska útgefanda.

Enn á ný hefur verið reynt að flytja þennan útgáfurétt til Íslands. Útgáfufélagið Vaka hefur staðið í langvinnum samningum við Walt Disney umboðið og taldi sig fyrir skömmu vera komið á lokastig samkomulags.

Þá setti hið danska útgáfufélag, Gutenbergs Hus, í annað sinn flein í hjólið. Það sá fyrir missi á sölu hinnar dönsku útgáfu til Íslands. Og í þetta sinn þykist Gutenbergs Hus sjálft ætla að gefa Andrés út á íslenzku.

Sem betur fer hefur sala á hinum danska Andrési á Íslandi fallið úr rúmum 7.000 eintökum í 3.000. En betur má, ef Íslendingar vilja losna við þessa nýlendustefnu, sem heitir “kúltúrimperíalismi” á skandinavisku.

Gutenbergs Hus er með puttana í fleiri krukkum. Útgáfufélagið Fjölvi missti nýlega umboðið fyrir Ástríksbækurnar. Að yfirvarpi var höfð neitun Fjölva að greiða þrefalt hærri réttindaprósentu en áður var í gildi.

En Gutenbergs Hus var þar raunar að baki. Það er nú byrjað að gefa Ástrík út á íslenzku. Þannig heldur hið stórdanska fyrirtæki ekki aðeins markaði fyrir íslenzkum fyrirtækjum, heldur sækir beinlínis fram til vaxandi áhrifa.

Innkaupasamband bóksala hefur gert Gutenbergs Hus þessar innrásir kleifar. Það hefur tekið að sér að vera söluþjónn hins danska verzlunarvalds og hefur af því lítinn sóma.

Reynslan frá öðrum sviðum sýnir þó, að Íslendingar geta staðið gegn innrásum af þessu tagi, ef þeir kæra sig um. Og nú reynir á, hvort nýlendustefna Gutenbergs Hus nær fótfestu í þessari lotu. Við getum hafnað vörum þess.

Til dæmis Anders and, Alt for damerne, Hendes verden, Hjemmet og bókinni Hrakningasaga Ástríks.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ferskfiskur og framtíðin.

Greinar

Fiskur er matur og sem slíkur með þeim ósköpum gerður, að hann batnar ekki og verður ekki verðmeiri, hversu mjög sem hamazt er á honum í fiskvinnslustöðvum. Hann er beztur og dýrastur í fersku ástandi beint upp úr sjó.

Vinnsla sjávarafurða er því ekki iðnaður í almennum skilningi þess orðs. Þar er ekki verið að breyta hráefni í fullunna vöru, heldur er verið að bjarga mat undan skemmdum. Varan er varðveitt, en ekki verðaukin.

Á erlendum markaði fæst hæst verð fyrir ferskan fisk, sem ekki er orðinn að freðfiski, saltfiski, skreið, dósamat, mjöli eða lýsi. Menn þurfa ekki að vera undrandi á þessu, því að hér heima vilja neytendur helzt kaupa ferskan fisk.

Aðalvandinn við sölu á ferskum fiski á alþjóðlegum markaði er, að fiskurinn er oft ekki lengur sómasamlega ferskur, þegar hann er borinn á borð neytenda. Hann er síðri en freðfiskur, sem hefur verið þíddur rétt fyrir neyzlu.

Þrátt fyrir þennan vanda hefur oft reynzt hagkvæmast fyrir veiðiskipin að sigla með aflann ferskan, varðveittan í ís. Þrátt fyrir langa siglingu, olíukostnað og veiðitap hafa slíkar sölur gefið meiri arð en aðrar.

Ekki er óalgengt, að á erlendum ferskfiskmarkaði fáist þrisvar sinnum meira verð fyrir aflann en á innlendum fiskvinnslumarkaði, þrefalt hærra en úrskurðað er í hinni virðulegu Yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Árum saman hafa menn leitað leiða til að nýta þennan mikla verðmun, minnka fyrirhöfnina við hann og jafnvel að auka verðmuninn. Þessar tilraunir eru margs konar og miða flestar að skilnaði veiða og flutnings á afla.

Fiskiskipin eru sérhæfð til veiða, en ekki siglinga. Með aukinni verkaskiptingu milli þeirra og flutningatækja, það er kaupskipa og vöruflugvéla, ætti að vera unnt að minnka tilkostnaðinn við hinn verðmæta ferskfiskmarkað.

Eimskipafélagið hefur gert ýmsar tilraunir með flutninga í gámum. Þær benda til, að heppilegt sé að flytja ferskfisk í venjulegum gámum á veturna, í frystigámum á sumrin og í sérstökum einangrunargámum þess á milli.

Jónas Elíasson prófessor og hafnarstjórnarmaður hefur hér í blaðinu bent á Grandaskála sem rétta staðinn til umskipunar á góðum ísfiski úr veiðiskipum yfir í kæligáma eða aðra gáma kaupskipanna, í stórum og hagkvæmum stíl.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og fleiri aðilar hafa í rúmt ár sent vikulega flugfarma með ferskan fisk til Bandaríkjanna. Flugið er dýrt, en á móti kemur verðmeiri fiskur, því að bil veiða og neyzlu styttist að mun.

Skelfiskur er viðkvæm sjávarafurð, sem tapar sér meira í frystingu en þorskfiskar gera og þolir enn síður margra daga siglingu. Íslenzk matvæli í Hafnarfirði senda ferskan hörpudisk tvisvar í viku í flugi til Bandaríkjanna.

Víða erlendis fjölgar þeim, sem taka ferskan fisk fram yfir frosinn, alveg eins og íslenzkir neytendur gera sjálfir. Ennfremur vaxa þar upp kynslóðir, sem líta ekki við saltfiski eða skreið, fremur en ungt fólk hér.

Flutningur á ferskum fiski til útlanda, hvort sem er með fiskiskipum, kaupskipum eða vöruflugvélum, er afar æskilegur kostur til viðbótar vinnslu heima fyrir. Og getur raunar skilið milli taps og gróða í sjávarútveginum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fiskverð er í ógöngum.

Greinar

Af blaðaummælum er ekki ljóst, hverjir sáu mestan kost eða löst á nýju fiskverði áramótanna, þeir tveir, sem sátu hjá í yfirnefndinni, sá sem studdi oddamann ríkisstjórnarinnar eða sá, sem greiddi atkvæði á móti.

Hins vegar er ljóst, að maðkar eru í mysunni, þegar aðeins einn af fjórum meðnefndarmönnum oddamannsins styður niðurstöðuna. Enda er æ fleirum að verða ljóst, að pólitísk nefndarákvörðun fiskverðs hefur gengið sér til húðar.

Nærri allir, ef ekki allir yfirnefndarmenn voru sammála um, að óheppilegt væri að auka niðurgreiðslur á olíu til fiskiskipa, og bentu á aðrar betri leiðir að sama marki. Samt fór svo, að niðurgreiðslur voru auknar.

Fyrir áramót var útgerðinni gefinn fimmti hver olíulítri. Eftir áramót er henni gefinn þriðji hver olíulítri. Þessi breyting er andstæð stefnu orkusparnaðar. Hún leiðir til meiri olíunotkunar á hvert fiskkíló en ella væri.

Eftir því sem olíukostnaður verður þungbærari á að nota slíkar millifærslur til að draga úr olíunotkun, en ekki til að halda henni við. Að minnsta kosti er nauðsynlegt að hafa þær óháðar olíunotkun, svo að þær magni ekki sóun.

Í nefndinni hafði verið bent á óháða leið af því tagi, það er álag á fiskverð, sem fiskvinnslan greiddi útgerðinni framhjá hlutaskiptum, alveg eins og niðurgreiðsla olíunnar, með tilsvarandi útflutningsgjaldi, er framkjá þeim.

Verið getur, að fulltrúum sjómanna þyki ekki eins hart aðgöngu, að verðmæti séu flutt framhjá hlutaskiptum með þeim dapurlega hætti, sem varð ofan á. En ummæli þeirra benda ekki til, að þeir láti blekkja sig í þessu.

Auðvitað er skynsamlegt, að aukið vægi olíu í kostnaði sjávarútvegs endurspeglist á einhvern hátt. En heilbrigðara er að gera það í nýjum hlutaskiptum útgerðar og sjómanna en í auknu framhjáhaldi undir stjórn ríkisvaldsins.

Árið 1976 var þetta framhjáhald komið í ógöngur með 16% utan skipta. Þá keyptu sjómenn af sér sjóðafarganið með um 4% lækkun skiptaprósentu. Nú er farganið komið upp í 9,5% og kominn tími til að færa það aftur inn í hlutaskiptin.

Að vísu er nauðsynlegt að minna á í leiðinni, að ráðstafanir yfirnefndar, þar á meðal um framhjáhaldið, væru algerlega ónauðsynlegar, ef svo sem þrjátíu dýrustu skipin væru tekin úr umferð, svo að aflinn dreifðist á færri skip.

Hið eina jákvæða við þessa nýjustu ákvörðun fiskverðs er, að dálítið er breikkað verðbilið milli fyrsta, annars og þriðja flokks fisks, slægðs og óslægðs, stórs og lítils. Þannig færði yfirnefndin sig nær raunvirði.

Eftir breytinguna er verðmunurinn samt of lítill. Áfram mun skorta nægilegt samhengi milli gæða og verðs. Netabátar munu til dæmis áfram koma að landi með tveggja nátta fisk og skuttogarar með tveggja vikna fisk.

Ekkert hefur heldur verið gert af hálfu stjórnvalda til að fjölga leyfum til beinnar sölu á ísfiski í útlöndum, svo að betri samanburður fáist milli verðs yfirnefndar og ýmiss þess verðs, sem frjáls markaður vill greiða í útlöndum.

Leiðin út úr ógöngum fiskverðsins er annars vegar að veita frelsi til sölu á ísfiski í útlöndum og hins vegar að koma hér heima á hliðstæðum markaði fyrir fisk upp úr sjó og beitt er með góðum árangri í öðrum löndum.

Jónas Kristjánsson

DV

KGB tekur völdin.

Greinar

Ekki er nóg með, að rótgróinn yfirmaður sovézku leyniþjónustunnar er orðinn framkvæmdastjóri kommúnistaflokksins og æðsti valdamaður austurblakkarinnar, heldur er nú eftirmaður hans í leyniþjónustunni orðinn innanríkisráðherra.

KGB-maðurinn Andropov hafði ekki lengi setið í veldisstóli Brezhnevs, er hann leiddi KGB-manninn Fedorsjuk til sætis í hið valdamikla ráðherraembætti, sem meðal annars felur í sér að halda uppi aga hjá íbúum Sovétríkjanna.

Svo er nú komið, að greiðasta leiðin til æðstu valda í Sovétríkjunum liggur um embætti yfirmanns leyniþjónustunnar, KGB. Það segir nokkra sögu um ástand mála þar eystra og auðveldar spádóma um frekari þróun þeirra.

Í Póllandi var það herinn, sem hljóp í skarðið, þegar virðing kommúnistaflokksins var að engu orðin. Í Sovétríkjunum er leyniþjónustan byrjuð að gegna sama hlutverki. Völdin hafa að hluta færst frá flokki til leyniþjónustu.

Andropov hefur langa reynslu í að halda uppi aga. Hann gekk í flokkinn í þann mund, er samyrkjustefnan olli dauða fjórtán milljóna sveitamanna. Hann kleif svo metorðastigann á hinum magnaða hryðjuverkatíma Stalíns.

Prófraunin mikla var sendiherrastaðan í Ungverjalandi, þegar hann barði niður í blóðbaði uppreisnina árið 1956. Eftir það var hann um skeið ekki mjög áberandi, unz hann var gerður að yfirmanni leyniþjónustunnar.

Í því embætti hefur hann hert tökin frá því, sem var á frjálslyndara skeiði Khrústsjovs. Hann hefur skipulega barið niður allt andóf í landinu, þar á meðal tilraunir til að krefjast trúnaðar Kremlverja við Helsinki-samkomulagið.

Undir handarjaðri Andropovs var farið að beita nauðungarlyfjum á geðveikrahælum til að halda andófsmönnum í skefjum. Undir handarjaðri hans var allri manngæzku hafnað, þegar fólk bað um að fá að flytjast úr landi til ættingja.

Leyniþjónusta Andropovs hefur jafnframt leikið hlutverk stóra bróður meðal slíkra stofnana í Austur-Evrópu, þar á meðal Búlgaríu, þar sem leyniþjónustan er grunuð um að hafa átt þátt í tilraun til morðs á Jóhannesi Páli páfa.

Óskhyggjumenn geta gamnað sér við hugmyndir um, að Andropov og félagar hans á borð við Fedorsjuk muni létta á þrælahaldi innanlands og bæta sambúð við Vesturlönd. Sú von byggist þá eingöngu á, að hann sé greindari en Brezhnev.

Engin leið er að halda fram, að Andropov sé frjálslyndur mannvinur, þótt óskhyggjumenn hafi þrifið dauðahaldi í þær upplýsingar, að hann kunni ensku og viti margt um Vesturlönd. Hann hefur að baki áratuga blóðferil.

Hugsanlegt er, að hann reyni að dreifa athygli þræla Sovétríkjanna frá miklu og vaxandi efnahagsöngþveiti heima fyrir með ævintýramennsku á alþjóðavettvangi í stíl við dæmin frá Kúbu, Angóla, Eþiópíu og Afganistan.

Ennfremur er mögulegt, að nú verði þekking KGB notuð til að brjóta á bak aftur neðanjarðarhagkerfið í landinu, sem heldur hinu opinbera gangandi. Þar með gæti hann gert illt efnahagsástand enn verra og magnað þörfina á athyglisdreifingu.

En svo kann líka að fara, að hann beiti ungverskum frjálslyndisskrefum í innanlandsmálum og stefni að traustari sambúð við vestrið. Ef hann sýnir viðleitni í slíka átt, til dæmis í samdrætti vígbúnaðar, er rétt að reyna að hjálpa til.

Jónas Kristjánsson

DV

Þróttur og reisn í veganesti.

Greinar

Við áramótin er ánægjulegast að minnast mikils og vaxandi menningarþróttar Íslendinga. 230 þúsund manna þjóð hefur komið sér upp óperu og nýrri sinfóníu og gefur út fleiri ný skáldrit en á nokkurri annarri jólavertíð.

Þessi þróttur birtist í tónlist, bókmenntum og myndlist. Á öllum þessum sviðum eru Íslendingar athafnasamir framleiðendur og neytendur. Ragnar í Smára blundar í brjósti ótrúlega margra með menningarlegri reisn.

Halldór Laxness þorir meira að segja í blaðaviðtali að telja Skandinava og Þjóðverja vera 800 árum á eftir Íslendingum í bókmenntum. Hann er ekki feiminn við að bera saman París og Reykjavík sem menningarmiðstöðvar.

Á Íslandi er mikill markaður fyrir hvers konar menningu. Fólk kaupir bækur, sækir tónleika, listsýningar og leikhús. Úr breiðum hópi frístundafólks rísa raunverulegir listamenn, sem geta helgað sig snilligáfu sinni.

Hliðstæð er reisnin í íþróttum. Íþróttasalir eru fullir af frístundafólki, sem einnig kaupir sér aðgang að keppnisleikjum. Í handbolta og knattspyrnu etja menn á jafnréttisgrundvelli kappi við stórþjóðir Evrópu.

Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna og sanna tilverurétt Íslendinga sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar. Hér er á mörgum sviðum meiri þróttur og reisn en hægt er að finna hjá sumum milljónaþjóðunum hér í kring.

Í vísindum og uppfinningum hafa Íslendingar reynzt liðtækir, þótt árangurinn sé ekki eins augljós og í listum og íþróttum. Hinn ungi rafeindaiðnaður er gott dæmi um hugvit, sem verður í askana látið á næstu árum.

Helzt er það í stjórnmálum, sem við höfum dregizt aftur úr. Ef til vill hafa hæfileikar sogazt svo mjög að listum, íþróttum og vísindum, að ekki sé nóg aflögu í stjórnmálin. Altjend skortir okkur mikilhæfa stjórnmálamenn.

Við höfum sjávarútvegsráðherra, sem vill ekki láta skrá rétt gengi á krónunni og telur fiskiskipaflotann ekki vera of stóran. Við megum jafnvel vera fegin, að hann skuli skorta bein í nef til að fullkeyra vitleysuna.

Ástandið í stjórnmálunum er bagalegra en ella fyrir þá sök, að þar hefur hlaðizt upp vald á öðrum sviðum, svo sem í fjármálum og atvinnulífi. Það eru stjórnmálamenn, sem ráða peningum og efnahag þjóðarinnar.

Eitt mikilvægasta verkefni þjóðarinnar er að laða efnisfólk að stjórnmálum til að efla þjóðarhag og sigla þjóðarskútunni inn í mjög svo ótrygga og hættulega framtíð, þar sem kreppuský hrannast upp við sjóndeildarhring.

Meðal auðþjóðanna beggja vegna Atlantshafs hleðst upp atvinnuleysi. Því fylgir doði og svartsýni, skortur á reisn og þrótti. Draugur haftastefnu er farinn að bæra á sér, þótt menn viti, að allir tapa á viðskiptastríði.

Vonandi bera Vesturlandabúar gæfu til að snúa við, láta bjartsýni taka við af svartsýni, atvinnu taka við af atvinnuleysi, reisn og þrótt taka við af doða, – og framlengja þannig blómaskeið stjórnmála og menningar.

Enn eitt gott ár er senn að baki. Við höfum í stórum dráttum haft ljúfan byr í rúma tvo áratugi. Fyrir óvissuna, sem framundan er, höfum við fengið næði til að safna þrótti og reisn í veganesti, vonandi svo mjög að dugi.

Jónas Kristjánsson

DV

Sláturhús eitt, tvö og þrjú.

Greinar

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti var nýlega á ferð um Rómönsku Ameríku og átti meðal annars vinsamlegar viðræður við Efraín Ríos Montt, forseta Guatemala, einn stórkarlalegasta fjöldamorðingja, sem nú er uppi.

Þeir Afríkumenn Bokassa og Amin voru smámunir í samanburði við hryðjuverkastjórnina í Guatemala, sem stundar skipulega útrýmingarherferð gegn indíánum, hinum upprunalegu íbúum landsins. Herferðin er rekin af miklum krafti.

Hersveitir Guatemala koma vel vopnaðar, oft í þyrlum, umkringja þorp, brytja niður vopnlausa íbúana og leggja síðan eld í húsin. Slíkt þykir hetjuskapur eða “macho” hjá herjum flestra ríkja Rómönsku Ameríku.

Árum saman neitaði Bandaríkjastjórn hryðjuverkastjórninni í Guatemala um hernaðaraðstoð. Þá var réttilega talið, að Bandaríkin mættu ekki óhreinka sig á samstarfi við hálfgeggjaða herforingja á hægri kanti.

Þetta breyttist við valdatöku Reagans. Þá var aftur tekin upp hin gamla stefna að styðja alla, sem segjast vera andkommúnistar, jafnvel þótt þeir væru verri en Amin og Bokassa. Siðleg reisn Bandaríkjanna hrundi á einni nóttu.

Montt er ekki eini vinur Reagans í Rómönsku Ameríku. Í ár hefur Bandaríkjastjórn veitt 311 milljón dollurum í hernaðar- og efnahagsaðstoð við hryðjuverkastjórnina í El Salvador, sem hefur látið slátra 25.000- 30.000 borgurum.

Mannréttindahatarinn frú Kirkpatrick, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur sótt heim aðmírálinn Pinochet, sem hefur haldið uppi ógnarstjórn í Chile í tæpan áratug og látið myrða um 30.000 manns.

Um þessar mundir fer ástandið í Chile heldur versnandi með fjöldahandtökum, pyndingum, nauðgunum og mannshvörfum. Pinochet er orðinn svo truflaður, að hann er kominn með kaþólsku kirkjuna á heilann, ofan á kommúnismann.

Þar að auki hefur hann lagt efnahag landsins í rúst, svo sem algengast er hjá herforingjum þeim, er komast til valda í Rómönsku Ameríku. Við beitingu hagfræðikenninga Milton Friedman hefur atvinnuleysi rokið upp í 35%.

Hliðstætt ástand í mannréttindum og efnahag er í grannríkinu Argentínu, þar sem ráða herforingjar, er frú Kirkpatrick sýndi einnig þá vinsemd að sækja heim. Þar hafa 7.000-15.000 manns hreinlega horfið, þar á meðal kornabörn.

Argentínski herinn lærði á sínum tíma hryðjuverkastefnuna af nasistum, magnaði hana og flutti til annarra herja Rómönsku Ameríku. Þessir herir eru gagnslausir í stríði, en mjög öflugir í slátrun innlendra borgara.

Ein illskásta stjórnin í þessum heimshluta er í Nicaragua, þótt hún þætti ekki til fyrirmyndar á Vesturlöndum. Gegn henni hefur leyniþjónusta Bandaríkjanna eflt sveitir Somozista, gamalla hryðjuverkamanna úr þjóðvarðliðinu.

Allt frá Monroe-kenningu hefur verið litið á Rómönsku Ameríku sem eins konar bakgarð Bandaríkjanna. Vegna afskipta þeirra í álfunni verður ekki hjá því komist að kenna þeim að hluta um hið hroðalega ástand.

Það var farið að lagast, einkum á valdatíma Carters Bandaríkjaforseta. Nú hefur það snöggversnað svo, að sannkristnum mönnum ber að biðja fyrir því, að kjörtímabil Reagans verði bara þetta eina, sem nú er hálfnað.

Jónas Kristjánsson

DV

Fiskað í gruggugu vatni

Greinar

Kirkjumenn á Vesturlöndum óttast vaxandi sambandsleysi við unga fólkið. Sumir þeirra leita sambands eftir leiðum, sem verða ekki kristni út af fyrir sig. Einu sinni voru reyndar poppaðar messur. Nú er það poppaður friður.

Hér á landi hefur kirkjan fetað með gát þessa slóð. Í nágrannalöndum austan hafs og vestan hefur meira borið á, að þessar sálnaveiðar hafi verið stundaðar í gruggugu vatni. Slík örvænting væri ekki æskileg hér á landi.

Þegar hollenzkir og aðrir kirkjuhöfðingjar eru farnir að þramma í mótmælagöngum gegn meðaldrægum kjarnorkuflaugum í Vestur-Evrópu, er kominn tími til að staldra við og reyna að meta, hver verði friðaráhrifin af öllu þessu.

Nánast aldrei er mótmælt, þegar Sovétríkin renna sér á nýtt skrið í kjarnorkukapphlaupinu, til dæmis þegar þau hófu framleiðslu á eitt þúsund meðaldrægum SS-20 kjarnorkuoddum. En allt varð vitlaust, þegar svara átti með Pershing 2.

Ráðamenn í Kreml líta á vaxandi mátt friðarstefnu á Vesturlöndum sem skref í átt til einhliða afvopnunar Vestur-Evrópu. Þeir sjálfir geti beðið rólegir og þurfi ekki að undirrita neitt um gagnvæma afvopnun.

Þannig dregur friðarhreyfing Vesturlanda úr friðarhorfum. Hún hefur aðeins tilætluð áhrif á fremur friðsama, vestræna ráðamenn, sem hafa áhyggjur af atkvæðunum. En hún hefur um leið öfug áhrif á viðsemjendurna austan tjalds.

Það er nefnilega ekki nóg að vilja frið og reyna að sýna það í verki. Ekki er sama, hvernig er á friðarstefnunni haldið. Finna verður leiðir til að draga úr kjarnorkuógninni án þess að draga úr jafnvægi í heiminum.

Á síðasta áratug lærðu Bandaríkjamen af stríðinu í Víetnam um takmörk heimsvaldstefnu og drógu saman seglin. Og vígbúðanarstefna Reagans verður jafnskammlíf og embættistíð hans. Til langs tíma litið ógna Bandaríkin ekki friðnum.

Á þessum sama áratug fóru Sovétríkin langt fram úr Bandaríkjunum í kjarnorkukapphlaupinu. Og verra var, að þau lögðu áherzlu á viðkvæma og hittna odda, sem hæfa betur til fyrsta höggs en til andsvars við því.

Bandaríkin hafa hins vegar leitað skjóls í öryggi flöktandi kafbáta með tiltölulega ónákvæma odda, sem hæfa betur til andsvars en fyrsta höggs. Þá stefnu hefur bandaríska þingið óbeint staðfest með því að neita Reagan um MX odda á landi.

Út af fyrir sig geta Bandaríkjamenn tekið rólega kapphlaupi Sovétmanna. Ameríska kjarnorkuvirkið er nógu öflugt til að hræða Kremleverja frá árás. Þess vegna eiga Bandaríkjamenn að geta rætt gagnvkæma frystingu kjarnorkuvígbúnaðar.

Vandi Vestur-Evrópu er annar og meir, síðan Sovétríkin beindu hinum meðaldrægu SS-20 kjarnaoddum í þá átt. Spruningin er, hvort Bandaríkjamenn fórni sér fyrir Vestur-Evrópu, þegar til kastanna getur komið.

Vestur-Evrópa er þegar örlítið byrjuð að Póllandíserast, svo sem í ljós kemur í deilum hennar við Bandaríkin um viðskiptastefnu gagnvart austri. Og tök Sovétríkjanna munu áfram eflast, meðan Vestur-Evrópa er hernaðarlea máttlítil.

Ómeðvitaðar framvarðsveitir Póllandíseringar Vestur-Evrópu eru friðargöngur, þar sem fyrst þramma krikjuhöfðingjar, er reyna að fylla tómar kirkjur með því að poppa friðinn, – með því að fiska í gruggu vatni.Jónas Kristjánsson

DV

Höggvið á hnútinn.

Greinar

Alþingi á nú margra kosta völ á nýrri kjördæmaskipan. Stjórnarskrárnefnd hefur lagt fram ýmsar hugmyndir og aðrar hafa fæðst í viðræðum flokksformanna og þingflokksformanna. Spilin liggja á borðinu og bíða ákvörðunar.

Fjölmargir kjósendur yrðu ákaflega vonsviknir, ef þingflokkarnir næðu ekki að mynda meirihluta um einhverja leið til að draga úr misvægi atkvæðisréttar. Slík vonbrigði mundu stórefla óbeit kjósenda á stjórnmálaflokkunum.

Beztur er kostur, sem varð ofan á í viðræðum Kjartans Jóhannssonar, Ólafs G. Einarssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann hefur verið kynntur rækilega hér í blaðinu og fengið góðar undirtektir manna á meðal.

Þessi kostur gerir ráð fyrir þriggja þingmanna fjölgun, sem er tiltölulega hóflegt í samanburði við flesta aðra kosti. Af átta þingmanna fjölgun á suðvesturhorninu yrðu þá ekki nema fimm á kostnað fimm fámennustu kjördæmanna.

Í þessu felst eins konar tilraun til meðalvegs milli þeirrar meirihlutaskoðunar þjóðarinnar, að ekki skuli fjölga þingmönnum, og þess álits margra þingmanna, að ekki megi fækka þingmönnum dreifbýlisins.

Persónulegir hagsmunir eru í húfi. Sein dæmi má nefna, að í síðustu kosningum hefði Karvel Pálmason orðið að víkja fyrir tveimur flokksbræðrum sínum, Ólafi Björnssyni og Finni Torfa Stefánssyni, ef þessi aðferð hefði þá gilt.

Þetta veldur því, að ekki er eining í flokkunum þrem, sem líklegastir voru til að styðja kostinn. Andófsmenn í þingflokkunum hafa margvíslegt annað á hornum sér, en raunveruleg orsök er nagandi ótti um atvinnumissi.

Slíkur vandi mun fylgja öllum hugmyndum, sem gera ráð fyrir einhverri tilfærslu núverandi þingsæta til suðvesturhornsins, – sem gera ráð fyrir minni heildarfjölgun þingmanna en sem nemur fjölguninni í Reykjavík og á Reykjanesi.

Stjórnarskrárnefnd hefur bent á ýmsa aðra kosti, sem fela í sér um það bil þriggja þingmanna fjölgun, og eru þannig svipuð málamiðlun og sá kostur, sem hér er mælt með. Þeir munu sæta sams konar andófi þingmanna.

Til viðbótar hafa þeir þann galla, að samkvæmt þeim á að fjölga uppbótarmönnum á kostnað kjördæmiskosinna þingmanna. Í einni útgáfunni er gert ráð fyrir 41 kjördæmakosnum og 22 landskjörnum þingmönnum af samtals 63.

Miklu hreinlegra er að hafa alla þingmenn kjördæmakosna, því að þá vita kjósendur, hverja þeir styðja til þingsetu með atkvæði sínu. Á móti kemur svo ný reikningsaðferð, sem gætir hagsmuna þeirra flokka, er minna mega sín.

Þingmenn Framsóknarflokksins eru flestir andvígir minnkun á misvægi atkvæða, þótt þeir fari varlegar með þá skoðun en í hin fyrri skipti, sem nýjar kosningareglur hafa verið í undirbúningi. Og þeir hugsa vel sitt ráð.

Dæmigert er útspil Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra, er segir fáránlegt, að Alþýðubandalagið sem samstjórnarflokkur Framsóknar sé að krunka við stjórnarandstöðuflokkana sér á parti um kjördæmamálið.

Með ýmsum slíkum hætti verður reynt að bregða fæti fyrir eina umtalsverða málið, sem gæti orðið þingmönnum þessa kjörtímabils til nokkurs álitsauka. Og senn eða ekki verða breytingasinnar á þingi að höggva á kjördæmahnútinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Rýnt í moldviðrið.

Greinar

Deilunni um álsamningana fylgir svo þétt moldviðri, að fólk á erfitt með að greina raunveruleikann í dimmunni. Stjórnmálamennirnir stunda ekki hefðbundið þras, heldur æpa beinlínis hver á annan, sumpart ókvæðisorðum.

Dæmigert fyrir vitleysuna er Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, sem falsaði setningu úr leiðara DV, setti fölsunina í gæsalappir og gagnrýndi síðan. En slík vinnubrögð eru fremur dæmi um óðagot en beina fölsunaráráttu.

Alvarlegri er rangtúlkun Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra og Þjóðviljans á tillögu Guðmundar G. Þórarinssonar eins og hún fjalli um 20% hækkun orkuverðs um aldur og ævi, en ekki aðeins til 1. apríl 1983.

Ekki er heldur sjáanlegt neitt samhengi milli þessarar 20% bráðabirgðahækkunar í nokkra mánuði og kröfu Svisslendinga um lækkun kaupskyldu á orku úr 85% í 50%, þótt Hjörleifur og Þjóðviljinn reyni að láta líta svo út.

Kjarni málsins er, að Hjörleifur er ekki eins góður samningamaður og hann er góður skýrsluöflunarmaður. Hami hefur engum árangri náð í álviðræðunum, annað hvort af því að hann getur ekki samið eða vill ekki semja.

Það breytir því ekki, að sjálfsagt, eðlilegt og lærdómsríkt var að fá endurskoðunarstofu Coopers & Lybrand og fleiri aðila til að fara ofan í saumana á viðskiptum Alusuisse og Ísal, það er viðskiptum Alusuisse við sjálft sig.

Morgunblaðið hefur verið sínöldrandi út af þessari endurskoðun. Sú gremja hefur endurspeglazt í þingflokki Sjálfstæðismanna og víðar. Hún hefur haft þau óbeinu áhrif að stappa stálinu í viðsemjendur Íslendinga.

Vel hefur verið nýtt féð, sem farið hefur í vinnu endurskoðendanna. Úttektin hefur leitt til aukinnar þekkingar Íslendinga á starfsháttum fjölþjóðafyrirtækja, sem lifa einkum á að færa peninga milli landa.

Eftir skýrslur Coopers & Lybrand eru Íslendingar mun betur í stakk búnir en áður að ræða málin við forstjóra Alusuisse og aðra erlenda aðila, sem vilja semja við okkur um orkunýtingu til álvinnslu og annarra nota.

Hitt var svo alveg óþarfi hjá Hjörleifi að fara upp á háa sé, í hvert skipti sem hann opnaði umslögin frá Coopers & Lybrand. Opinberlega kallar maður ekki viðsemjendur sína þjófa og bófa, þótt maður telji, að svo sé.

Hinar sífelldu árásir Hjörleifs á Alusuisse hafa smám saman vakið grun um, að ekki sé heldur allt með felldu í hans herbúðum, að fremur sé verið að stunda pólitískt keiluspil en að gæta til hlítar íslenzkra hagsmuna.

Fyrst og fremst þurfum við að koma orkuverði til Ísals úr 6,45 verðeiningum í 19, sem er samkeppnishæft verð, miðað við það sem tíðkast í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Og viðræður um verðið eru ekki hafnar enn!

Fyrst þarf til þrautar að reyna að fá Svisslendinga með góðu til að semja um þetta, svo að samstarfið við þá og aðra geti framvegis verið með þolanlegum hætti. Tillaga Guðmundar var aðferð til að finna vilja þeirra.

Að því búnu og árangurslausu koma einhliða aðgerðir sterklega til greina, en ekki fyrr. En Hjörleifur, sem ýmislegt gott hefur gert til undirbúnings málsins, er ekki rétti maðurinn til að finna, hvort unnt er að semja.

Jónas Kristjánsson.

DV

Höftin magna kreppuna.

Greinar

Þegar erlendur gjaldeyrir er seldur á útsöluprísum, er engin furða, þótt innflutningur sé mikill og ekki eingöngu á þörfum hlutum. Við höfum búið við magnaða slíka útsölu frá miðju síðasta ári og súpum nú af því seyðið.

Reynslan og hagfræðin sýna, að bezta ráðið gegn óhæfilega miklum innflutningi er að hafa rétt gengi á gjaldmiðlinum. Á íslenzku þýðir það, að lækka beri gengi krónunnar, unz innflutningur og útflutningur standast á.

Hið rétta gengi krónunnar finnst bezt með því að gefa það frjálst, láta krónuna skrá sig sjálfa. Hún yrði þá ætíð á raunhæfu markaðsverði og þannig sambærileg við annan gjaldmiðil, sem mælir verð á innfluttum vörum.

Þeir, sem skilja ekki samkengi gengis og innflutningsmagns, hafa tilhneigingu til að biðja um innflutningshöft, ekki sízt ef þeir eru veikir fyrir miðstýringu. Þetta eru nú freistingar Framsóknarflokks og Alþýðubandalags.

Hvorugt vekur furðu. Alþýðubandalagið á rætur í hugmyndafræði, sem er andvíg opnu hagkerfi. Og Framsóknarflokkurinn er hinn dæmigerði kreppuflokkur, sem kann bezt við sig í skömmtunarnefndum og fjárhagsráðum.

Haftastefnumenn flokkanna tveggja eru ekki einir í heiminum. Um allan heim er frjáls verzlun á undanhaldi um þessar mundir. Hún beið ósigur á dögunum í GATT, alþjóðlegum samtökum um tolla og viðskipti.

Á fundi samtakanna í Genf náðist ekki samkomulag um varnir gegn sífellt þrálátari haftastefnu. Hægfara stefna Vesturlönd í viðskiptastríð, þar sem allir eru gegn öllum og þar sem allir bíða ósigur að lokum.

Höft eru nefnilega ekki einstefnugata. Sú þjóð, sem mætir höftum gegn sínum útflutningi, hefur tilhneigingu til að bæta sér upp ójöfnuðinn í viðskiptum, með höftum á innflutningi frá þjóðinni, sem höftin setti.

Haftastefnan magnaði heimskreppuna milli styrjaldaráranna. Allir vita, að hún er að magna kreppuna um þessar mundir. Samt standast stjórnmálamenn og embættismenn ekki þrýsting hagsmunaaðila, sem heimta vernd.

Í hvert sinn sem Mitterand Frakklandsforseti finnur ný innflutningshöft, til verndar atvinnutækifæri í úreltri grein, er hann um leið að eyða atvinnutækifæri í samkeppnishæfri grein, sem gæti selt á erlendum markaði.

Ein afleiðingin er, að neytendur um allan heim sitja uppi með dýrari vörur en ella. Þar með eflist verðbólgan, sem íslenzkir stjórnmálamenn halda að þeir séu að tempra með því að neita að skrá krónugengið rétt.

Jafnvel í Bandaríkjunum gengur haftadraugur kreppuáranna ljósum logum. Meðal þess, sem þar er heimtað, er, að innflutningur frá hverju landi sé ekki meiri en útflutningur þangað. Slíkt væri Íslandi gífurlegt áfall.

Ísland er í hópi þeirra ríkja, sem mest eru háð utanríkisviðskiptum. Þau eru 40-50% þjóðarframleiðslunnar. Slík ríki verða yfirleitt fyrst til að súpa seyðið af alþjóðlegri haftastefnu.

Við eigum því ekki að biðja um höft í stjórnmálaályktunum, heldur skrá gengi krónunnar rétt og taka frumkvæði í alþjóðlegu samstarfi um eflingu fríverzlunar, eins og við gerðum í hafréttarmálunum á sínum tíma.

Jónas Kristjánsson.

DV

Klúðrari afhjúpaður.

Greinar

Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra hefur misst tökin á viðræðunum við forstjóra Svissneska álfélagsins um fjármál Íslenzka álfélagsins. Fulltrúi Framsóknarflokksins, Guðmundur G. Þórarinsson, hefur sagt sig úr álviðræðunefnd.

Hjörleifur gat látið sér andóf í léttu rúmi liggja, meðan það birtist á síðum Morgunblaðsins og í stefnu þingflokks sjálfstæðismanna. Það andóf fól í sér í sumum myndum óbeinan stuðning við hið erlenda fjölþjóðafyrirtæki.

Hitt er ekki bara verra, heldur allt annar handleggur, þegar fulltrúi stærsta samstarfsflokksins í ríkisstjórn lýsir fullkomnu frati á meðferð Hjörleifs á samningum við Svisslendinga á öndverðum þessum vetri.

Guðmundur G. Þórarinsson er ekki að gagnrýna réttmæta endurskoðun Coopers & Lybrand á bókhaldi viðskipta Alusuisse við sjálft sig á kostnað Ísals og þar með íslenzkra skattgreiðenda. Hann deilir á síðustu málsmeðferð.

Hann sagði sig í gær úr álviðræðunefnd, af því að Hjörleifur tók ekki mark á vilja meirihluta nefndarinnar, sem vildi brjóta ísinn í viðræðunum við forstjóra Svissneska álfélagsins, – og kippti þar með forsendum undan nefndinni.

Guðmundur hafði í stórum dráttum lagt til, að Svisslendingum yrði gert skriflegt tilboð um 20% hækkun orkuverðs til Ísal 1. febrúar og um frekari samninga fyrir 1. apríl um orkuverð í samræmi við verð í Evrópu og Ameríku.

Ennfremur hafði Guðmundur gert ráð fyrir, að Íslendingar gætu fallizt á stækkun álversins, ef samningar næðust. Jafnframt gætu þeir hugsað sér nýjan meðeiganda Alusuisse að Straumsvíkurverinu, ef samningar næðust.

Guðmundur og meirihluti álviðræðunefndar töldu sig hafa ástæðu til að ætla, að slíkar tillögur væru ekki fjarri hugmyndum Alusuisse um frekari málsmeðferð og væru um leið prófsteinn á góðan vilja þess eða illan.

Síðasta bréf Svisslendinga fyrir nýjustu viðræðurnar benti til, að þeir áttuðu sig á staðreyndum og vildu semja. Samt hafa nokkrir fundir við þá farið í það eitt, hvort ræða skuli, en ekki í neinar samningaviðræður.

Guðmundur telur, að Hjörleifur hafi staðið rangt að þessum síðustu viðræðum við forstjóra Alusuisse. Hann geti ekki samið við Svisslendinga eða vilji það ekki, nema hvort tveggja sé. Er það hin alvarlegasta ásökun.

Hjörleifur hefur boðað mótleik í formi upplýsinga, sem hingað til hafa ekki legið á lausu. Ef til vill getur hann sýnt fram á, að hann hafi efnislega eitthvað til síns máls, þótt teljast verði fremur ótrúlegt.

Ósigur Hjörleifs felst fyrst og fremst í að opinberast landslýð sem einstrengingur, er getur ekki agað álviðræðunefnd sem einhuga samningsaðila við Svissneska álfélagið. Hann virðist skorta lipurð stjórnmálamannsins.

Hjörleifur gat látið stjórnarandstöðuna liggja milli hluta, meðal annars í því skyni að koma á hana óþjóðlegum stimpli. En innan stjórnar varð hann að halda einingu og taka eitthvert mark á rökstuddum tillögum um meðferð viðkvæms máls.

Hugsanlegt er, að Hjörleifur haldi Íslendinga svo vitlausa, að Alþýðubandalagið geti brunað út í kosningabaráttu með þá kolröngu fullyrðingu, að allir aðrir stundi landráð í álmálinu. En það væri hrapalleg villuspá.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjögur frumvörp Vilmundar.

Greinar

Eitt af fjórum athyglisverðum frumvörpum Vilmundar Gylfasonar alþingismanns fjallar um, að komið verði á frjálsum samningum um fiskverð í stað verðákvörðunar sendimanns ríkisstjórnarinnar, svonefnds oddamanns.

Vinnubrögð við ákvörðun fiskverðs eru nú þau, að oddamaðurinn býður fiskseljendum upp á bandalag um 20% hækkun, ella geri hann bandalag við kaupendur um 16% hækkun. Jafnframt býður hann kaupendum hliðstætt bandalag um 16% hækkun.

Báðir aðilar eru óánægðir. Fiskseljendur höfðu viljað 24% hækkun og fiskkaupendur 12%. Að lokum fellur annar aðilinn fyrir freistingu oddamanns til þess að hindra samkomulag hans við hinn samningsaðilann.

Niðurstaðan er ekki í neinu samhengi við efnahagslegar forsendur eins og þær mundu mælast á frjálsum markaði. Mikið og vaxandi ósamræmi er milli verðs á gæðaflokkum, fisktegundum og veiðiaðferðum.

Fiskverðið er í þess stað reist á byggðasjónarmiðum, hagsmunum þrýstihópa og öðrum annarlegum forsendum. Þetta er ein af mikilvægustu orsökum síaukinnar rýrnunar fiskgæða, sem mjög hefur verið í fréttum að undanförnu.

Þess vegna er nauðsynlegt að afnema sendimann ríkisstjórnarinnar og gera samningsaðila sjálfa ábyrga fyrir fiskverði. Oddamannskerfið þótti sniðugt á sínum tíma, en til lengdar hefur það leitt til ábyrgðarleysis.

Annað frumvarp Vilmundar fjallar ekki um afnám einnar lagagreinar, heldur heilla laga, númer 17 frá árinu 1936. Þau fjalla um, að sveitarstjórnum sé heimilt að setja reglur um opnunartíma verzlana.

Í reynd hafa sum sveitarfélög, þar á meðal Reykjavík, verið bandingjar þrýstihóps, myndaðs af hinum latari kaupmönnum og samtökum verzlunarmanna, á kostnað neytenda.

Afleiðingin er í Reykjavík sú, að verzlanir eru helzt ekki opnar nema yfir hádaginn, meðan neytendur eru í vinnu. Frumvarp Vilmundar stefnir að frelsi kaupmanna til að hafa opið, þegar þeim og neytendum sýnist.

Þriðja frumvarpið fjallar um, að launþegar á stærri en 25 manna vinnustöðum geti með tveimur þriðju hlutum atkvæða í skriflegri og leynilegri atkvæðagreiðslu ákveðið að taka kjarasamninga í eigin hendur.

Þetta er raunar rökrétt framhald stefnu Alþýðusambands Íslands frá árunum 1956 til 1962, er vinnustaðurinn átti að vera undirstaðan í uppbyggingu verkalýðssamtakanna. En lítið hefur orðið úr framkvæmdum.

Skref í þessa átt hafa verið stigin í kjarasamningum hjá stóriðjuverunum í Straumsvík og á Grundartanga. Þar hefur vinnustaðarreglan gefizt vel, leitt til vinnufriðar og kjarabóta umfram aðra vinnustaði.

Merkasta frumvarp Vilmundar fjallar loks um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdavalds í líkingu við Frakkland og Bandaríkin. Forsætisráðherra verði þjóðkjörinn í tveimur umferðum á fjögurra ára fresti.

Forsætisráðherra skipi sjálfur ríkisstjórn og sé utanríkisráðherra staðgengill hans. Alþingi sjái um fjárveitingar, löggjöf og eftirlit. Ýmislegt fleira athyglisvert er í þessu frumvarpi frjóasta þingmannsins á alþingi.

Jónas Kristjánsson

DV