Greinar

Morkinn og maðkétinn fiskur.

Greinar

Þegar fiskiskip selja ísfisk í erlendum höfnum, fer fiskurinn yfirleitt á markað, þar sem hann er seldur hæstbjóðanda. Skipverjar kappkosta fiskgæðin til að ná góðri sölu, helzt metsölu, því að verðið er afar misjafnt.

Þetta nána samhengi verðs og gæða er ekki til hér heima, hvorki þegar afla er landað, né þegar hann er metinn til útflutnings. Dæmigert er, að talað er um að “afsetja” fisk, alveg eins og sala sé sjálfvirk athöfn.

Fiskverð upp úr sjó er framreikningur á eldra samkomulagi í nefnd, þar sem oddamaður ríkisins ræður úrslitum. Þetta fiskverð endurspeglar ekki markaðinn, heldur pólitískt mat á þægilegri hagræðingu vandamála.

Til þess að hlífa mönnum við afleiðingum af vondu hráefni er hafður of lítill verðmunur á góðum og lélegum verðflokkum. Og til að varðveita netaveiði er hafður of lítill verðmunur á línufiski og netafiski.

Þessi tvö dæmi sýna kerfi, sem óhjákvæmilega hlýtur að deyfa tilfinningu manna fyrir fiskgæðum og leiða til ástandsins, sem verið hefur í fréttum: Hálfu og heilu skipsfarmarnir eru gerðir afturreka frá markaðslöndunum.

Netabátar eru nánast hættir að koma að landi með einnar nætur fisk. Fiskurinn er tveggja nátta og jafnvel eldri, því að helgarfrí eru komin til sögunnar. Þar að auki er fiskurinn dreginn blóðsprengdur af miklu dýpi.

Skuttogararnir eru nánast hættir að koma að landi einu sinni í viku. Nýjung ískassanna hefur verið misnotuð til að halda togurunum úti í tveggja vikna veiðiferðum. Þar að auki er varpan oft dregin allt of lengi.

Þessi misþyrming á eðlisgóðu hráefni heldur svo áfram í fiskvinnslustöðvunum. Þar liggur fiskurinn í marga daga til viðbótar, sumpart vegna þess að menn hafa ekki lengur efni á að láta vinna nætur- og helgidagavinnu.

Ýmis atriði af þessu tagi mætti bæta með nýjum reglugerðum og matsmannaherjum hins opinbera. Til dæmis má banna lengri en einnar viku veiðiferðir togara og banna, nema veður hamli, að net liggi meira en nótt í sjó.

Einnig mætti afnema ýmis vinnuverndarákvæði, svo sem reglur um helgarfrí. Í stað þess má safna fríum saman í stærri pakka og viðurkenna, að sjávarútvegur og fiskvinnsla eru í eðli sínu skorpugreinar, en ekki kontórismi.

Ennfremur mætti banna fiskvinnslustöðvunum að taka við meiri fiski í einu en þær ráða við að vinna á hverjum tilskildum hámarkstíma. Og loks mætti ráða hóp opinberra embættismanna til að hafa eftirlit með öllum reglugerðunum.

Slíkar tilraunir til lausnar eru betri en ekki neinar. Núverandi ástand er óþolandi og hlýtur fyrr eða síðar að leiða til hruns á mörkuðum. Aðrar fiskveiðiþjóðir eru að bæta gæðin, meðan þeim hrakar hjá okkur.

Mun betra væri þó að nota verðlagningu til að tryggja gott hráefni inn í fiskvinnslustöðvarnar og góðar afurðir út úr þeim. Verðlagningin á að meta fiskgæði og markaðsgildi, en ekki byggðastefnu og aðra pólitík.

Beztur væri frjáls markaður eins og í erlendum fiskihöfnum, svo og frelsi til ísfisksölu í útlöndum. Þar með væri unnt að koma á margfölduðum verðmun á góðum og vondum fiski og fá samanburð og aðhald af erlendu markaðsverði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þol þorsks og þjóðar.

Greinar

“Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.” Þessi vísdómsorð mælti Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra nýlega í blaðaviðtali um aflatillögur fiskifræðinga.

Samkvæmt orðunum mætti ætla, að þol þjóðarbúsins og þorskstofnsins þurfi ekki að fara saman. Til dæmis kunni þjóðarhagur að krefjast þess, að gengið sé á þorskstofninn, því að þjóðin þoli ekki nema svo og svo mikla tekjurýrnun.

Þorskstofninn fer nú svo ört minnkandi, að í ár munu ekki nást nema tæplega 380 þúsund tonn af þeim 450 þúsundum, sem heimilt var að veiða. Ef stöðva á stofnminnkunina, má ekki veiða nema 300 þúsund tonn á næsta ári.

Auðvitað er það gífurlegt áfall, þegar tölur um leyfilegt aflamagn lækka um þriðjung milli ára. Enda virðist Steingrímur telja, að skárra sé að halda áfram ofveiði á þorski en að taka alla tekjurýrnunina á herðar þjóðarinnar.

Svipuð hugsun er að baki tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar um 350 þúsund tonna aflaleyfi á næsta ári. Stofnunin leggur sem sagt til, að veitt verði 50 þúsund tonnum meira en hún telur sjálf, að þorskstofninn þoli.

Vandséð er, að það sé í verkahring fiskifræðinga að spá um þol þjóðarbúsins eða Steingríms Hermannssonar. Enda væri nú mikið hlegið að Hafrannsóknastofnuninni, ef mönnum væri hlátur í hug í aðvífandi kreppu.

Hafrannsóknastofnunin átti auðvitað að leggja til 300 þúsund tonna þorskafla á næsta ári og láta pólitíska valdið í landinu um að lyfta þeirri tölu upp í það, sem þjóðarbúið þolir að mati Steingríms Hermannssonar.

Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem Hafrannsóknastofnunin ruglast í hlutverki sínu. Löngu er orðið tímabært, að Jón Jónsson hætti að leika stjórnmálamann og fari í staðinn að snúa sér að fiskifræðinni.

Nógir eru stjórnmálamennirnir samt og fremstur þar í flokki Steingrímur sá, sem gerir greinarmun á því, sem þjóðarbúið þolir og þorskstofninn þolir. Hann er þjóðinni nægur baggi, þótt Jón forstjóri bætist ekki við.

Ekki þarf mikla greind til að sjá, að auðveldasta leiðin til að setja þjóðarbúið á höfuðið er að halda áfram að ofveiða þorskinn. Það verður ekki mörgum sinnum hægt að veiða 350 þúsund tonn úr 1.500 þúsund tonna heildarstofni.

Sjálfur hrygningarstofninn er kominn niður í 560 þúsund tonn og fer ört minnkandi. Enda eru stórir árgangar alveg hættir að bætast við. Fljótlega verður 300 þúsund tonna ársafli meira að segja of mikill.

Á sama tíma höfum við efni á að fjölga togurum, sem stunda smáfiskadráp og eru svo lengi í veiðiferðum, að gæði aflans minnka. Ennfremur höfum við efni á að gera út netabáta, sem koma að landi með tveggja nátta fisk.

Á sama tíma höfum við efni á fiskvinnslu, þar sem menn virðast ekki hafa hugmynd um, að einhvers staðar á leiðarenda eru neytendur, sem eiga að borga. Morkin og maðkétin skreið er afsökuð með því, að hún sé fyrir Nígeríu!

Ef við færum betur með aflann, hefðum við góð efni á að minnka þorskveiðina niður í það, sem stofninn þolir. Og þol þjóðarbúsins fer eftir þoli þorsksins, hvað sem Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra segir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óvænt úrslit.

Greinar

Hin óvænta niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hlýtur að draga dilk á eftir sér. Sjöunda sætið er engan veginn frambærileg útkoma fyrir formann flokksins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Geir Hallgrímsson.

Ekki er hægt að sjá, að flokkadrættir hafi ráðið miklu í þessari niðurstöðu, því að tíu efstu menn náðu bindandi kjöri, rúmlega helmingi greiddra atkvæða. Svo mikil samstaða um efstu menn er sjaldgæf í prófkjöri.

Úrslitin eru svo eindregin, að kjörnefnd er skylt að gera tillögu um tíu efstu menn framboðslistans í Reykjavík í sömu röð og tölurnar sýna. Samkvæmt því yrði Geir í baráttusætinu, næst á eftir Pétri Sigurðssyni.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins getur breytt tillögu kjörnefndar eða hafnað henni. Því er hugsanlegt, að upp komi hugmyndir um að lagfæra stöðu formannsins á listanum, ef menn telja slíkt ekki bara vera salt í sárin.

Albert Guðmundsson varð efstur í prófkjörinu með 6027 atkvæði af 8155 mögulegum. Þessi útkoma hlýtur að teljast mikill sigur Alberts, sem greinilega er ekki eins umdeildur í flokknum og hann hefur oft áður verið.

Næst á eftir Albert fylgja varaformaður flokksins, Friðrik Sophusson, með 5670 atkvæði, og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Birgir Ísleifur Gunnarsson með 5608 atkvæði. Þeir fá góða traustsyfirlýsingu.

Í fjórða og fimmta sæti komu svo Ellert B. Schram og Ragnhildur Helgadóttir með glæsibrag á ný inn í stjórnmálin eftir nokkurra ára hlé. Ellert hlaut 5386 atkvæði og Ragnhildur 5137, hvort tveggja öflugt fylgi.

Sinn hvorum megin við sjöunda sæti Geirs Hallgrímssonar urðu svo Pétur Sigurðsson í sjötta sæti með 4698 atkvæði og Guðmundur H. Garðarsson í áttunda með 4199 atkvæði. Hvort tveggja er mjög frambærilegt í samanburði við 4414 atkvæði Geirs.

Síðastir með bindandi kosningu urðu tveir af ungu mönnunum. Jón Magnússon hafði vinninginn með 4173 atkvæði, en Geir H. Haarde fékk 4107 atkvæði. Aðrir frambjóðendur í prófkjörinu hlutu innan við 3000 atkvæði.

Allir þessir tíu menn, sem hér hafa verið nafngreindir, hlutu yfir helming atkvæða og þar með almennt traust stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Í þessum hópi er Geir Hallgrímsson, svo að ósigur hans er alls ekki alger.

Of snemmt er að gera því skóna, að úrslitin muni leiða til, að Geir leggi niður formennsku í flokknum. Í prófkjörinu var verið að velja þingmannsefni, en ekki flokksforustu. En niðurstaðan veikir stöðu hans.

Þátttaka í prófkjörinu reyndist verða eftir vonum og gefur Sjálfstæðisflokknum tilefni til bjartsýni á fylgi í alþingiskosningum, þveröfugt við Alþýðuflokkinn, sem náði ekki einu sinni 2000 manns í prófkjöri um helgina.

Þannig voru bæði skin og skúrir í prófkjöri sjálfstæðisflokksins. Til að byrja með munu skúrirnar vekja mesta athygli, meðan flokksforustan í Reykjavík er að átta sig á, hvernig beri að bregðast við breyttum aðstæðum.

Til langs tíma verður þó meira skin af góðri þátttöku kjósenda og glæsilegri útkomu ýmissa frambjóðenda, sem greinilega munu láta að sér kveða á næsta kjörtímabili alþingis, næsta tímabili stjórnmálasögunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

39.275 eintök í dag.

Greinar

Af DV eru í dag prentuð 39.275 eintök eins og fram kemur hægra megin í blaðhaus á forsíðu. Þetta er venjulegt mánudagsupplag. Á laugardögum eru prentuð 37.800 eintök af DV og 37.000 hina fjóra útkomudaga vikunnar.

Tölur þessar eru lesnar beint af teljara prentvélar Árvakurs. Á sama hátt væri unnt að lesa af teljurum prentvéla upplag annarra dagblaða, sem gefin eru út hér á landi. En þær tölur eru leyndarmál, af augljósum ástæðum.

Á upplýsingaöld ætti að vera liðinn sá tími, er upplag dagblaða var feimnismál, þar sem sannleikurinn var falinn að baki óljósra lausafregna, af því að menn töldu sig þurfa að koma ýktum hugmyndum á framfæri.

Aðstandendur ýmissa annarra dagblaða mættu gjarna fylgja frumkvæði DV á þessu sviði eins og þeir hafa gert í svo mörgu öðru. Þeir ættu að gefa út sannanlegar tölur um prentað upplag og hætta gagnslitlum blekkingum.

Bezt væri samkomulag dagblaðanna og auglýsingastofanna um reglubundið upplagseftirlit fyrir opnum tjöldum, svo sem tíðkast í öllum nálægum löndum. En því miður hafa feluleiksmennirnir kæft tilraunir af því tagi.

Í þessu óeðlilega ástandi hefur DV tekið frumkvæðið. Í rúma viku hafa daglega birzt á forsíðu tölur um prentað upplag, 37.000 eintök, 37.800 og 39.275 eintök. Ætlunin er, að þetta verði áfram dagvissar upplýsingar.

Frumkvæði af þessu tagi er auðvitað aðeins tekið af dagblaði, sem er í sókn. Að baki liggur vaxandi upplag undanfarna mánuði og spá um enn vaxandi upplag á næstu mánuðum. Í birtingu talnanna er styrkleikamerki.

Hinn nýi háttur var einmitt tekinn upp á eins árs afmæli sameiningar Dagblaðsins og Vísis í eitt blað. Hann er staðfesting á, að eins árs reynsla er komin á gæfu og gengi, í stað fyrri óvissu um árangur sameiningarinnar.

Hún hefur gert kleifa útgáfu blaðs, sem er mun stærra og fjölbreyttara en forverarnir voru hvor um sig, – blaðs, sem er mun betur búið undir hina hörðu samkeppni á íslenzka fjölmiðlamarkaðinum en forverarnir voru hvor um sig.

Ekki hafa rætzt hrakspárnar um framtíð hins sameinaða dagblaðs. Það hefur traust og vaxandi lesendafylgi, enda hefur það kappkostað að vera frjálst og óháð í afstöðu til hinna margvíslegu valdastofnana þjóðfélagsins.

Sem dæmi um sérstöðu blaðsins á þessu sviði má nefna, að það þiggur ekki ríkisstyrkinn, sem veittur er á fjárlögum til blaðaútgáfu, hvorki fyrir 250 eintökin, sem hin blöðin senda hvert um sig, né fyrir 200 eintökin, sem hvorki eru prentuð né send.

DV er blað, sem vill veita fólki upplýsingar og fróðleik í efni og auglýsingum. Það er blað, sem vill vera vettvangur skoðanaskipta í greinum og bréfum. Það er blað, sem vill vera aðhald með því, sem stundum er kallað “kerfið”.

Á þessum forsendum hefur fyrsta ár sameiningarinnar lánast svo vel, sem birting upplagstalna sýnir. 39.275 eintökin í dag samsvara eintaki á þrjú heimili af hverjum fjórum í landinu. Slík útbreiðsla þekkist ekki í útlöndum.

Svo er nú komið einu ári eftir sameiningu, að DV er víða um land orðið útbreiddasta blaðið. Þau nánu tengsl blaðs og þjóðar viljum við treysta og efla með því að síauka þá þjónustu, sem DV veitir lesendum sínum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þrjátíu laus þingsæti?

Greinar

Að þessu sinni verða kosningarnar stjórnmálaflokkunum þungur róður. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun DV getur ekki eða vill ekki helmingur kjósenda taka afstöðu til flokkanna. Hefur það hlutfall aldrei verið hærra.

Þetta stafar ekki af, að fólk hafni skoðanakönnunum eða að pólitískan áhuga skorti. Til samanburðar má til dæmis nefna, að einungis fjórðungur kjósenda getur ekki eða vill ekki taka afstöðu til ríkisstjórnarinnar.

Ólíklegt er, að sá helmingur kjósenda, sem ekki hefur gert upp hug sinn til flokkanna, komi til skila í kosningunum í sömu hlutföllum og hinir, sem þegar hafa valið sér flokk. Auk þess er ekki enn vitað um öll sérframboð.

Í upphafi kosningabaráttunnar hafa þingflokkarnir aðeins tök á 30 þingsætum af 60. Er þá ekki gert ráð fyrir sérstökum framboðum Bandalags jafnaðarmanna, kvenna og stjórnarsinnaðra sjálfstæðismanna, sem gætu höggvið skörð í þetta.

Samkvæmt tilgreindri skoðanakönnun eru stjórnarsinnar um fjórðungur Sjálfstæðisflokksins, en stjórnarandstæðingar og óvissir þrír fjórðungar. Þar með er fengin aðferð til að raða 30 þingsætum í fimm staði.

Skoðanakönnunin gefur þá Sjálfstæðisflokknum langsum 12 þingsæti, Sjálfstæðisflokknum þversum 4 þingsæti, Framsóknarflokknum 7 þingsæti, Alþýðubandalaginu 4 þingsæti og Alþýðuflokknum 3 þingsæti.

Gamanið kann enn að kárna við hugsanleg framboð Bandalags jafnaðarmanna og kvennalista. Þau gætu tekið þingsæti, sem könnunin gaf hefðbundnu stjórnmálaflokkunum. Hin 30 þingsæti eru því engan veginn í húsi.

Svo getum við spáð í afganginn af þingsætunum með því að líta á þann fimmtung kjósenda, sem styður ríkisstjórnina, en ekki ákveðinn flokk, og þann tíunda hluta kjósenda, sem styður stjórnarandstöðuna, en ekki ákveðinn flokk.

Ef við gerum ráð fyrir, að hvor hlutinn renni til viðkomandi flokka í sömu hlutföllum og ákveðnu kjósendurnir, vænkast hagur hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka. Við getum þá skipt 17 þingsætum til viðbótar hinum 30.

Sjálfstæðisflokkurinn langsum mundi þá fá 17 þingsæti, Sjálfstæðisflokkurinn þversum 6, Framsóknarflokkurinn 12, Alþýðubandalagið 8 og Alþýðuflokkurinn 4. Er þá enn ekki tekið tillit til annarra framboða.

Eftir eru þá enn 13 þingsæti, sem hefðbundnu flokkarnir yrðu að bítast um, hugsanlega í samkeppni við Bandalag jafnaðarmanna, kvennaframboð og sérstakt framboð Sjálfstæðisflokksins þversum, sem gæti reynzt drjúgt á þessum markaði.

Niðurstaða þessara hugleiðinga er, að nánast útilokað sé að spá um úrslit komandi alþingiskosninga. Traustafylgi hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka dugir þeim tæpast til að ná samanlagt helmingi þingsætanna.

Um afganginn verða flokkarnir að bítast, bæði innbyrðis og í samkeppni við tilraunaframboð, sem gætu orðið af fleiru en einu tagi. Og lausafylgið mun raðast mjög misjafnlega niður á listana, sem í boði verða.

Atvinna margra stjórnmálamanna er í bráðri hættu. Sama er að segja um valdastöðu einstakra þingflokka. Um áratuga skeið hefur barátta fyrir alþingiskosningar ekki hafizt í eins mikilli óvissu og eimmitt nú.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrjú tilraunaframboð.

Greinar

Liðin er sú tíð, að kosningastjórar flokkanna gátu spáð atkvæðatölum með nokkurri nákvæmni. Kjósendur hafa glatað flokkstryggð og ákveða sig þar á ofan ekki fyrr en á síðustu stundu. Þetta má sjá af skoðanakönnunum.

Um helmingur kjósenda er orðinn þreyttur á stjórnmálaflokkunum og er reiðubúinn að taka þátt í tilraunum á borð við einnar nætur framboð. Þetta veit Vilmundur Gylfason og því hefur fæðst Bandalag jafnaðarmanna.

Einn þjóðkunnur maður getur hæglega náð kjördæmiskosningu í Reykjavík og dregið með sér nokkra uppbótarmenn, ef hann kemur einnig saman lista í Reykjaneskjördæmi og helzt víðar. Að þessu virðist Vilmundur stefna.

Að vísu hefur hann ekki farið vel af stað. Fjölmiðlar hafa leitað með logandi ljósi að þjóðkunnum stuðningsmönnum hans og fáa fundið. Og sum fyrri bardagatröll hans eru ekki með honum í tilraunaframboðinu.

Ennfremur hafa sum mismæli Vilmundar að undanförnu ekki verið til þess fallin að soga að kjósendur í stórum stíl. Þar hefur borið á nöldurstón, svo sem í gagnrýni hans á notkun orðsins “sérframboð”. Það er óþörf viðkvæmni.

Of snemmt er að spá neinu um árangur tilraunaframboðs Vilmundar. Slík ævintýri geta náð árangri einu sinni og jafnvel oft, en þau geta líka fallið um sig sjálf. Spennandi verður að fylgjast með framvindu málsins.

Annað tilraunaframboð, sem verið hefur til umræðu, er kvennaframboð í kjölfar árangursins í byggðakosningunum í Reykjavík og á Akureyri. Slíkt framboð mundi ekki skorta nöfn á lista í neinu kjördæmi.

Kvennaframboð til alþingis er rökrétt framhald kvennaframboðs til bæjarstjórna, hvort sem slík framboð eru yfirleitt tímaskekkja eða ekki. Að minnsta kosti er ekki síður skortur á konum á alþingi en í bæjarstjórnum.

Ef sæmilega er haldið á málum, er hægðarleikur fyrir kvennalista að ná að minnsta kosti einum kjördæmiskosnum þingmanni í Reykjavík og þá um leið nokkrum uppbótarmönnum til viðbótar. Nóg er af lausafylginu þessa dagana.

Þriðja sérframboðið, sem hefur verið til umræðu, er hugsanlegt framboð Gunnars Thoroddsen. Það myndi ekki skorta þekkta frambjóðendur í neinu kjördæmi, né myndarlega hlutdeild í hinum óákveðnu flokksleysingjum.

Sumir hafa meira að segja gamnað sér við þá hugsun, að Sjálfstæðisflokkurinn langsum og Sjálfstæðisflokkurinn þversum geti náð sameiginlegum meirihluta í komandi kosningum. Það væri óneitanlega skrítin uppákoma.

En enginn veit, hvað Gunnar hugsar í þessum efnum. Ef að líkum lætur, lokar hann engum dyrum og metur aðstæður, þegar líður að lokum á framboðsfresti. Altjend verða einhverjir aðrir en hann með taugarnar í ólagi.

Áhuginn á öllum þessum tilraunaframboðum. byggist á , að hálf þjóðin hefur sagt skilið við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka, ákveður sig ekki fyrr en á síðustu stundu og er reiðubúin að taka þátt í einnar nætur ævintýrum.

Auðvitað er einnig hugsanlegt, að einhver flokkurinn hali inn lausafylgi út á nýjan þrótt, þótt slíkt lífsmark sé ekki sjáanlegt í bili. Einhver verður sveiflan í næstu kosningum, þótt enginn viti, hver hún verður.

Jónas Kristjánsson

DV

Spámenn og spekingar.

Greinar

Einn spámanna félagsspekinnar nýtur í kennsluskrá Háskóla Íslands virðingar umfram aðra slíka. Allir hinir verða að sæta hengingu á tvær fyrirlestrakippur, meðan þessi hefur heila kippu út af fyrir sig. Það er Karl Marx.

Maður þessi var þýzkur sérvitringur, sem var uppi á fyrri hluta síðustu aldar. Hann var sérhæfður í að misþyrma þýzkri tungu í þykkum bindum, sem enginn skildi eða hefur skilið og allra sízt Karl Marx sjálfur.

Slíkir spámenn eru til á mörgum tungumálum. En bezt tekst þeim uppi í rugli á þýzkri tungu. Má þar nefna Friðrikana Hegel og Nietzsche, sem eru nokkurn veginn eins torskildir og hinn umræddi ástmögur Háskóla Íslands.

Höfuðverkur Karl Marx, “Das Kapital’,’ er yfirleitt gefinn út á rúmlega eitt þúsund síðum. Ekki er vitað til, að nokkur Íslendingur hafi komizt gegnum allt það rugl, nema Kristmann Guðmundsson, að vísu að eigin sögn.

Við slíkar aðstæður myndast oft fjölmenn hjörð túlkenda, sem gjarna raða sér í öndverðar fylkingar, líkt og skólaspekingar miðalda, er deildu um, hvort dúfurnar í biblíunni hefðu flogið steiktar eða í öðru ástandi.

“Vísindi” Marxtúlkenda minna á skólaspekina. Þau felast í deilum um útleggingu textans, til dæmis hvort hinn yngri eða hinn eldri Marx hafi verið réttari. Enda ekki unnt að búast við samræmi í þúsund síðna rugli.

Virða má Marx lélega sagnfræði til vorkunnar. Fyrir sex aldarfjórðungum var fornleifafræði tæpast til og sagnfræði var á lágu stigi, meðal annars vegna þess að þá gátu menn ekki lesið sumar tungur fornþjóðanna.

Einnig má virða Marx lélega hagfræði til vorkunnar. Fyrir sex aldarfjórðungum var iðnbyltingin ný af nálinni í Þýzkalandi og stefna félagslegra trygginga í burðarliðnum. Þá var útilokað að sjá fyrir framhaldið.

Erfiðara er að fyrirgefa, hvað Marx er leiðinlegur. Hann er eins og fótgönguliðsmaður í samanburði við ýmsa riddara félagsspekinnar, sem hafa þeytzt um á snarpri hugsun og skýru máli, jafnvel gamansömu.

Af hverju ekki alveg eins láta Þjóðverjann Max Weber fá fyrirlestrakippu út af fyrir sig? Hann var alténd gamansamur, enda var höfuðkenning hans sú, að græðgi kapítalismans stafaði af Kalvínstrú Hollendinga, Svisslendinga og Skota.

Merkilegast er, að ekki hefur enn tekizt að hrekja gamansemi Webers, þótt mikið hafi verið reynt. Hann var líka uppi á þessari öld, svo hann hafði meiri þekkingarforða að byggja á en félagsspekingar liðinna alda.

Og af hverju ekki veita Bretanum Arnold Toynbee sömu virðingu? Hann geystist þó með neistaflugi hugans fram og aftur um veraldarsöguna. Margar spár hans munu ekki standast tímans tönn, en þær eru þó ekki þoka, ekki rugl frá grunni.

En sagan líður hægt í Háskóla Íslands. Þar eru í kennsluskrá nefndar stríðsárarannsóknir Frankfúrtaranna Horkheimers og Adornos sem nútímakenningar. Og þar er líka getið hins bandaríska heimsmeistara í þokugerð, Talcott Parsons.

Sá ruglukollur afrekaði mörg þykk bindi um nánast alls ekki neitt. Samanlagt innihald hefur aðeins reynzt vera ein setning, sem á mæltu máli hljóðar svo: “Samfélag byggist á samkomulagi”. Auðsjáanlega tilvalinn félagi Marx í Háskóla Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV

Hálf milljón á bónda.

Greinar

Galdurinn við að draga sem örast og með sem minnstum óþægindum úr hefðbundnum landbúnaði er að nota á annan hátt fjármagnið, sem nú brennur þar, – nota það í hvatningu til minni framleiðslu í stað aukinnar framleiðslu.

Reiknað er með, að fjármunamyndun í landbúnaði verði í ár um 11% allrar fjármunamyndunar í landinu. Þetta tiltölulega stöðuga hlutfall nemur um 900 milljónum króna á árinu og sennilega 1300-1400 milljónum á næsta ári.

Ef við gerum ráð fyrir, að tveir þriðju hlutar þessarar fjárfestingar fari í hinn hefðbundna landbúnað sauðfjárræktar og kúabúskapar, mun fjármunabruninn á þessu sviði nema um 900 milljónum króna á næsta ári.

Ekki er nóg með, að peningabruni þessi sé gagnslaus, heldur stuðlar hann að offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum. Hann veldur því, að ríkið verður að koma til skjalanna með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum.

Innfluttar afurðir af þessu tagi mundu spara ríki og skattgreiðendum allar niðurgreiðslur og þar á ofan lækka verð til neytenda. Niðurgreiðslur eiga á næsta ári að nema 840 milljónum króna og uppbæturnar 260 milljónum.

Í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum tekur ríkið 1100 milljón króna árlegan kostnað á skattgreiðendur til að greiða tjónið af 900 milljón króna árlegri fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði dilkakjöts og mjólkurafurða.

Samtals verður þetta 2000 milljón króna peningabruni á næsta ári. Þetta er nokkur upphæð, sem sést bezt af, að hún nemur 500.000 krónum á hvern bónda í landinu. Í gömlum krónum eru þetta 50 milljónir á mann.

Ef við ímyndum okkur, að einn góðan veðurdag stöðvaðist öll fjárfesting og framleiðsla í hefðbundnum landbúnaði, mundu sparast 500.000 krónur á ári á hvern bónda og í heildina 2000 milljónir króna á ári.

Í þessum tölum eru ekki ýmsir opinberir styrkir til landbúnaðar. Ekki heldur margvíslegur, óbeinn kostnaður af samgöngum, verðjöfnun rafmagns og síma eða annar byggðastefnukostnaður, sem ekki nýtist sjávarsíðunni.

Arðsemi hins hefðbundna landbúnaðar er svo neikvæð, að þénanlegt væri að greiða mönnum full laun fyrir að hætta fjárfestingu og framleiðslu. Aðgerðaleysið er nefnilega ódýrara í rekstri en peningabruninn.

En svo er líka unnt að nota sparaða féð í annað en aðgerðaleysi. Það er hægt að nota það til að stuðla að framleiðslu, sem leggur eitthvað af mörkum til þjóðarbúsins, og jafnvel til arðbærrar framleiðslu á eigin fótum.

Nefnd hefur verið fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt sem heppilegur arftaki. Slík starfsemi veldur ekki búseturöskun í landinu, svo heitið geti. Og reynslan sýnir, að reksturinn getur verið arðbær, ef vel er á spöðunum haldið.

Svo er ekki endilega neikvætt, að áfram haldi sú búseturöskun, sem einkennt hefur alla tuttugustu öldina. Í þéttbýli sjávarsíðunnar eru mörg atvinnutækifæri, sem má auka, til dæmis með byggingu iðngarða.

Ef ríkið styrkti nýjar búgreinar og léti byggja iðngarða í sjávarplássum – af því fé, sem annars brynni í hefðbundnum landbúnaði, er fundin aðferð til að losna smám saman við mesta böl þjóðarinnar fyrr og síðar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Burt með níu Kröflur.

Greinar

Eitt viturlegasta, sem unnt er að gera til eflingar þjóðarhag, er að vinna skipulega að því að láta innflutning landbúnaðarafurða leysa sem mest af hólmi af hinum hefðbundna landbúnaði okkar á kindakjöti og mjólkurvörum.

Landið sjálft mundi rétta við eftir margra alda rányrkju sauðfjárbeitar. Unnt yrði að létta svo á afréttum, að gróðureyðing stöðvaðist og landið fengi að klæðast á nýjan leik, svo sem gerzt hefur í eyðibyggðum Strandasýslu.

Vegna legunnar á jaðri freðmýrabeltisins er Ísland einkar óheppilegt landbúnaðarland. Enda hefur landbúnaður hér ætíð verið rányrkja. Mjög snemma á öldum varð sjávarútvegurinn að taka við sem raunverulegt lifibrauð þjóðarinnar.

Bændur mundu losna úr ánauð búalaga og vinnslustöðva, styrkja og niðurgreiðslna, er miða að því að halda þeim við hokrið sem annars flokks borgurum. Þeir gætu gerzt frjálsir menn í nýjum búgreinum eða öðru arðbæru starfi.

Þrælahald bænda gengur svo langt, að sérstök búalög ákveða, að þeir geti ekki selt jarðir sínar á markaðsvirði, til dæmis undir sumarbústaði, heldur verða þeir að sæta sölu til nágrannabænda á lágu matsverði búnaðarfélaga.

Ríkissjóður skattborgaranna mundi losna við 9-10% allra sinna útgjalda, þegar ekki þarf lengur að greiða beina styrki, útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur til landbúnaðarins. Innflutta varan yrði ódýrari en hin niðurgreidda.

Á næsta ári er ráðgert, að ríkið verji 100 milljónum til beinna landbúnaðarstyrkja, 260 milljónum til útflutningsuppbóta og 840 milljónum til niðurgreiðslna. Samtals eru þessar 1.200 milljónir tæplega 10% fjárlagafrumvarpsins.

Neytendur mundu fá ódýrari matvörur, jafnvel þótt allar niðurgreiðslur féllu niður og ekkert kæmi í staðinn nema frjáls innflutningur. Landbúnaðarvörur eru nefnilega og verða á stöðugu útsöluverði á alþjóðamarkaði.

Nú þurfa neytendur hins vegar að sæta óeðlilega háum framfærslukostnaði út af dýrum afurðum í skjóli innflutningsbanns. Til að bæta gráu ofan á svart er þeim sagt, að niðurgreiðslurnar sáu fyrir þá, en ekki landbúnaðinn!

Efnahagskerfi þjóðarinnar mundi fá nauðsynlega blóðgjöf. Í stað þess að eyða starfskröftum og peningum í hið dulbúna atvinnuleysi hefðbundins landbúnaðar væri unnt að byggja upp atvinnuvegi, sem legðu eitthvað af mörkum.

Á þessu ári er reiknað með, að 900 milljónir króna fari í fjármunamyndun í landbúnaði. Þetta eru 11% allrar íslenzkrar fjárfestingar og fara að mestu í hefðbundinn landbúnað. Sá hluti er ekki til einskis, heldur til stórskaða.

Samanlagt má búast við, að 2.000 milljónir króna sökkvi á næsta ári í fjárfestingum, niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum í hefðbundnum landbúnaði. Þar sem vextir og afborganir Kröflu verða 220 milljónir, eru þetta níu Kröflur.

Óbeint þurfum við að taka lán í erlendum gjaldeyri vegna þessa dulbúna atvinnuleysis. Þar að auki kosta aðföng hins hefðbundna landbúnaðar meira í gjaldeyri en fæst fyrir unnar útflutningsafurðir hans, þar með talin ullar- og skinnavara.

Þess vegna höfum við ráð á ódýrum innflutningi, ekki sízt ef ríkisvaldið liðkaði málið með því að nota sparað niðurgreiðslufé um tíma til að auðvelda bændum umskiptin yfir í að verða fyrsta flokks borgarar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Förum á útsöluna.

Greinar

Með því að heimila innflutning landbúnaðarafurða getur ríkið sparað sér og skattgreiðendum allar niðurgreiðslur, sem samtals eiga að nema 840 milljónum króna á næsta ári. Slíkt mundi auk þess lækka verð til neytenda.

Innflutningsbannið á kjöti og afurðum úr mjólk er einn mesti óleikur, sem Íslendingum hefur verið gerður í lífsbaráttunni. Það hindrar ódýran aðgang okkar að offramleiðslu Bandaríkjauna og Efnahagsbandalagsins.

Ljóst er, að mikil og vaxandi offramleiðsla landbúnaðarafurða er og verður um ófyrirsjáanlegan tíma eitt af einkennum iðnríkja Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Efnahagsbandalagið er raunar orðið að sjálfvirkri offramleiðsluvél.

Vegna birgðafjalla á alþjóðamarkaði landbúnaðarafurða er betra að vera kaupandi en seljandi. Útflutningsverð eru mjög lág, í Bandaríkjunum einkum vegna innri framleiðni og í Efnahagsbandalaginu einkum vegna útflutningsuppbóta.

Að undanförnu hefur Efnahagsbandalagið magnað landbúnaðarstyrkina, þrátt fyrir þrengri fjárhag. Það telur sig þurfa að keppa við þrefalt framleiðnari landbúnað Bandaríkjanna, sem er sex sinnum framleiðnari en íslenzkur.

Til viðbótar er svo víða staðbundin offramleiðsla, sem keyrir heimsmarkaðsverðið niður. Þar á meðal er nýsjálenzkt dilkakjöt, sem hefur gert íslenzkt óseljanlegt. Á þessu varanlega ástandi hagnast kaupendur.

Smjör og ostur frá útlöndum mundu ekki kosta neytendur nema brot af núverandi verði og þar að auki spara niðurgreiðslurnar. Innflutt mjólk mundi veita aðhald innlendu mjólkurverði og einnig spara niðurgreiðslurnar.

Erlent kjöt af svínum, kjúklingum og jafnvel lömbum mundi lækka fæðiskostnað íslenzkra heimila og létta niðurgreiðslum af ríkinu. Innlenda lambakjötið er nefnilega næstum því eins illa samkeppnishæft og mjólkurvörurnar.

Innflutningsbannið gleymist oft. Margir ímynda sér, að hinn hefðbundni landbúnaður hér á landi sé atvinnuvegur, en ekki dulbúið atvinnuleysi. En hann er raunar óvenju dýr tegund atvinnuleysis, sem lifir í skjóli skorts á samanburði.

Dulbúna atvinnuleysið er mun dýrara í rekstri en venjulegt atvinnuleysi. Fjárfestingar, uppbætur og niðurgreiðslur í hefðbundnum landbúnaði munu nema meira en 500.000 krónum á hvert býli á næsta ári.

Ekki er svo vel, að hinn hefðbundni landbúnaður afli gjaldeyris. Erlend aðföng hans í formi eldsneytis, véla, fóðurbætis og áburðar eru töluvert dýrari en útfluttar afurðir hans í formi uppbótavöru, ullar- og skinnavöru.

Að svo miklu leyti sem atvinnubótaframleiðsla væri látin víkja fyrir innflutningi mundi sparast gjaldeyrir, sem unnt væri að nýta til að kaupa hinar erlendu landbúnaðarafurðir á útsöluverði.

Svo má ekki gleyma, að beina má umtalsverðum hluta starfsorkunnar og peninganna, sem nú brenna upp í hefðbundnum landbúnaði, til arðbærra verkefna, til dæmis í landbúnaði á borð við ylrækt og loðdýr, er aflar gjaldeyris.

Fátt vitlegra er hægt að gera í efnahagsmálunum en láta frjálsan innflutning skera hefðbundinn landbúnað niður við trog, íslenzkum neytendum, skattgreiðendum og raunar einnig bændum til margfaldrar blessunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sex seigar afturgöngur.

Greinar

Nokkrar röksemdir ganga sífellt aftur, þegar menn reyna að koma skildi fyrir hinn hefðbundna landbúnað sauðfjárræktar og kúabúskapar. Í hvert sinn sem þær eru slegnar í kaf, koma þær jafnskjótt aftur upp á yfirborðið.

Því er oft haldið fram, að nauðsynlegt sé að hafa mikla framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum, svo að þjóðin verði ekki matarlaus í einangrun, sem kynni að fylgja næstu heimsstyrjöld eða einhverri annarri óáran.

Í rauninni væru hér hlutfallslega meiri matarbirgðir en í öðrum löndum, jafnvel þótt engar væru birgðir af kindakjöti og mjólkurvörum. Í geymslum frystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva eru jafnan margra ára matarbirgðir.

Því er oft haldið fram, að okkur sé ekki vandara um en Norðmönnum, sem styrki hvern bónda jafnmikið og við, eða Efnahagsbandalaginu, sem ver miklum meirihluta fjárlaga sinna til stuðnings við landbúnað.

Í rauninni eru þetta víti til að varast. Meðan iðnríki jarðar fylgja offramleiðslustefnu í landbúnaði, er skynsamlegra að vera kaupandi heldur en seljandi landbúnaðarafurða á undirboðsmarkaði alþjóðaviðskiptanna.

Því er oft haldið fram, að hinn hefðbundni landbúnaður afli nokkurs gjaldeyris, sem sé betri en alls enginn gjaldeyrir. Hver á líka að fá gjaldeyri til að borga þær innfluttu afurðir, sem ættu að koma í staðinn, spyrja menn.

Í rauninni er gjaldeyrisdæmið neikvætt. Innflutt aðföng á borð við eldsneyti, vélar, fóðurbæti og áburð eru mun dýrari í gjaldeyri en útfluttar afurðir á borð við ullar- og skinnavöru, mjólkurduft, osta og kjöt.

Því er oft haldið fram, að í hinum hefðbundna landbúnaði felist atvinna, sem sé betri en alls engin atvinna sama fólks. Líta megi á opinberan stuðning við landbúnað sem þátt í baráttunni fyrir fullri atvinnu.

Í rauninni væri ódýrara að borga sauðfjár- og kúabændum fyrir að framleiða ekki í stað þess að framleiða. Þar að auki væri unnt að nota féð, sem nú brennur í hefðbundnum landbúnaði, til að efla aðra atvinnu í sveit og við sjávarsíðu.

Því er oft haldið fram, að niðurgreiðslur séu hafðar fyrir neytendur og einkum þó til að auðvelda stjórnvöldum að ráða við efnahagsmálin. Talsmenn landbúnaðarins hafi ekki beðið um niðurgreiðslur og beri enga ábyrgð á þeim.

Í rauninni gætu stjórnvöld losnað við niðurgreiðslurnar og þar á ofan lækkað vöruverð með því að leyfa innflutning afurða í stað hinna niðurgreiddu. Stjórnvöld geta náð meira en sama árangri án þess að eyða krónu í niðurgreiðslur.

Því er oft haldið fram, að hinn hefðbundni landbúnaður sé nauðsynlegur hornsteinn byggðastefnu. Ekki megi miklu fleiri jarðir fara í eyði, án þess að flótti bresti í heilar sveitir og landauðn verði á stórum svæðum.

Í rauninni er fólksflótti úr sveitum aðeins eðlilegt framhald flóttans. sem einkennt hefur alla þessa öld. Og víglína byggðastefnu liggur ekki um sveitirnar, heldur um sjávarplássin og höfuðborgarsvæðið.

Ef við viljum koma í veg fyrir, að þúsundir manna flytji til útlanda í hinni séríslensku kreppu, verðum við að bæta lífsskilyrði við sjávarsíðuna og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem einhver von er á, að varnir komi að gagni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þriðji heimurinn – ekki Kortsjnoj.

Greinar

Um borð í bátnum frá flugvelli til Feneyja voru tveir farþegar, leiðarahöfundur og kornungur Filippseyingur, Art Panganiban, skyldur eða tengdur Marcosi forseta. Hann útbýtti tveimur nafnspjöldum, öðru úr silki og hinu úr balsavið.

Úr því að Panganiban átti ferðaskrifstofu ríkisins á Filippseyjum og Ferdinand Marcos á um fjörutíu milljón manns á Filippseyjum, því skyldi ekki Florenico Campomanes eiga svo sem eitt alþjóðasamband, til dæmis í skák.

Í Luzern tók þriðji heimurinn völdin af Vestur-Evrópu í Alþjóða skáksambandinu, alveg eins og hann hefur gert í öðrum stofnunum, þar á meðal Unesco. Þetta getur þriðji heimurinn í krafti meirihluta atkvæðanna.

Sigur Campomanesar yfir Friðriki Ólafssyni var svo mikill , að austantjaldsatkvæðin réðu ekki einu sinni úrslitum. Munurinn nam 22 atkvæðum, svo að Friðrik hefði fallið, þótt hann hefði ekki lent í vandamálum Kortsjnojs.

Austantjaldsríkin geta ekki frekar en Vestur-Evrópa ráðið ferðinni í Alþjóða skáksambandinu. Þau sjá sér því hag í að fá aðild að nýjum meirihluta Campomanesar í stað þess að styðja vonlausan minnihluta Vestur-Evrópu.

Arabaríkin, sem hafa nóga peninga og þurfa ekki á mútum Campomanesar að halda, sáu sér líka hag í að styðja þriðja heiminn. Í staðinn hafa þau fengið loforð um tilraunir til að útiloka ísraelska skákmenn frá alþjóðamótum.

Bandalagið milli þriðja heimsins, arabaríkjanna og austurblokkarinnar í Alþjóða skáksambandinu er nákvæmlega sama bandalagið og myndað hefur verið í ýmsum alþjóðasamtökum, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum og hliðarstofnunum þeirra.

Þriðji heimurinn lítur á Vestur-Evrópu sem vígi gamalla nýlenduherra, er enn skirrist við að láta af hendi lönd á borð við Falklandseyjar og Gíbraltar. Að baki Friðriks sáu þriðja heims mennirnir Keene hinn enska og Levy hinn skozka.

Alls staðar þar sem þriðji heimurinn tekur völdin, breytast leikreglurnar. Í stað siðvenja, lagareglna og drengskapar kemur villimennska í ýmsum myndum, þar á meðal í mútum og öllum öðrum tegundum fjármálaspillingar.

Við slíkar aðstæður er Campomanes auðvitað rétti maðurinn. Hann kemur með peningana og villimennirnir með atkvæðin. Dæmið gengur upp, af því að arabaríkin sjá sér í því pólitískan hag. Austurblökkin er bara aukahjól.

Allt er svo varið með því, að ríku löndin einoki skákina og að tímabært sé orðið að flytja þungamiðjuna til þriðja heimsins, til dæmis til vöggu skáklistarinnar í Asíu. Maður sér í huganum höfug tár Campomanesar.

En það voru ekki ríku löndin, sem réðu Alþjóða skáksambandinu í krafti fjármagns, heldur í krafti reynslu og skákmannafjölda. Það eru fátæku löndin, sem hafa tekið völdin í krafti fjármagns og ríkjafjölda.

Við hörmum auðvitað ósigur Friðriks, sem var góður forseti. Hins vegar er starfsdegi hans og annarra Vestur-Evrópumanna ekki lokið. Margt verkið þarf að vinna í samstarfi skákmanna innan Vestur-Evrópu.

Enn meiri ástæða er til að harma örlög Filippseyinga. Þeir verða að svelta, svo að Panganiban geti haft nafnspjöld úr silki og balsavið, – svo að Marcos geti útbýtt þjóðarauði til ættingja og vina, – svo að Campomanes eignist alþjóðasamtök.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki bara hópsálir.

Greinar

Eins og önnur flókin þjóðfélög þurfum við mikið af góðum embættismönnum, varðveizlumönnum kerfisins. Þeir þurfa ekki að vera menn athafna og átaka, heldur þjálfaðir í góðu, hnökralausu samstarfi svo að allt gangi sinn vanagang.

Enginn skortur er á slíku fólki, enda hafa skólarnir, alla leið upp í háskóla, frá ómunatíð lagt mesta áherzlu á að framleiða embættismenn, slétta og fellda menn, sem engum vandræðum valda og eru góðir til samstarfs.

Einnig þurfum við mikið af góðum tæknimönnum, sem þekkja vel sérgreinar sínar án þess að vera þar menn nýjunga eða uppfinninga. Þjóðfélag okkar er orðið svo tæknivætt, að sérfræðingar þurfa að vera á hverju strái.

Til skamms tíma skorti sérfræðinga á mörgum sviðum. Það er ört að breytast, enda einstefnir skólakerfið að háskólanámi sem flestra. Straumurinn í Háskóla Íslands er orðinn svo stríður, að skólinn er nánast að springa.

Við erum jafnvel svo lánsöm að vera farin að eignast útgerðartækna, fiskiðnfræðinga og iðnaðarverkfræðinga, auk allra hefðbundnu fræðinganna og embættismannanna. Við stefnum að því að eiga þrautskólaða tæknimenn á öllum sviðum.

Meira að segja Háskóli Íslands, sem lengst af var embættisvígi guðfræðinga, lækna og lögfræðinga, er að verða að tæknistofnun. Hann er farinn að útskrifa lokaprófsmenn í ýmiss konar verkfræði og tækni í stórum stíl. Sem betur fer.

Þannig hefur skólakerfið víkkað svo, að það stefnir ekki lengur eingöngu að framleiðslu deildarstjóra opinberra stofnana, heldur einnig að framleiðslu sérfræðingaliðs fyrir svokallaða starfshópa á vegum ráðuneytanna!

Skólakerfið er kjörið til ræktunar þessara tveggja nytsamlegu manngerða. Það leggur áherzlu á samstarf í hópum. Kennslan er miðuð við þarfir miðjunnar. Til viðbótar er stundum reynt að lyfta upp eftirbátunum.

Hinir, sem eitthvað geta umfram hið venjulega, eru að mestu látnir afskiptalausir. Sumu neistafólki leiðist svo aðgerðaleysið í skólunum, að það hrökklast þaðan brott. Annað lætur skólana draga sig niður í meðalhófið.

Í þessum hópi eru efni í hugvitsmenn, sem gætu hvert orðið þjóðinni meira virði en hundrað embættismenn og tæknimenn. En þeir rekast illa í meðalhjörð og þeim leiðist hópvinna, þar sem enginn ber ábyrgð á neinu.

Við vitum, að hugvitsmenn hafa sumir bylt hag heilla þjóða eða jafnvel allra þjóða jarðar. Við getum reiknað með, að það borgi sig að reyna að rækta þá í skólakerfinu, en samt lyftum við ekki litla fingri.

Í hópnum, sem skólakerfið viðurkennir ekki, eru líka efnin í braskara, mennina, sem hafa lag á að finna smugur og göt og að búa til auð úr engu. Slík efni veslast líka upp í áherzlu skólanna á hópvinnu og meðaltalsmennsku.

Við vitum samt, að þjóðfélag eins og Sovétríkin mundi hrynja, ef ekki væru til braskarar til að útvega í hvelli þessar tíuþúsund skrúfur í dráttarvélar, sem völundarhús kerfisins ræður ekki við að afhenda fyrr en eftir þrjú ár.

Nú þegar við erum að verða birgir af tæknimönnum, til viðbótar gífurlegu framboði embættismanna, væri ekki úr vegi, að skólarnir færu að reyna að stuðla að útvegun hugvitsmanna og braskara, sem eru raunar enn mikilvægari.

Jónas Kristjánsson

DV

Brauðið og bókmenntirnar.

Greinar

Brauðgerð og brauðneyzla hafa gerbreytzt hér á landi á fáum árum. Til viðbótar við svokölluð vísitölubrauð er kominn fjöldi áður óþekktra brauða, sem renna út eins og heitar lummur, þótt þau séu dýrari.

Brauðneyzlan hefur færzt úr sigtuðum hvítahveitisbrauðum í heilkornsbrauð af ýmsu tagi. Þannig hefur brauðbyltingin stuðlað að hollara mataræði. Mega bakarar því vera stoltir af sínum hlut, sinni fagmennsku.

Brauðbyltingin varð ekki vegna tilskipunar að ofan. Hún óx af sjálfu sér í samskiptum bakara og neytenda. Markaðurinn fyrir ný og betri brauð var til. Bakarar þekktu sinn vitjunartíma og hafa náð að stækka markað inn ört.

Nú er svo komið, að brauðgerð á Íslandi skarar fram úr brauðgerð frændanna á Norðurlöndum. Aðeins Þjóðverjar eru enn fremri, enda stendur brauðmarkaður þar á aldagömlum merg, en er hér nýr af nálinni.

Vel menntaðir fagmenn og vel upplýstur almenningur eiga samleið á ýmsum fleiri sviðum. Annað augljóst dæmi um byltingu í víxlverkun framleiðenda og notenda eru veitingahúsin, sem hafa gerbreytzt á jafnskömmum tíma og bakaríin.

Fyrir fimm árum voru íslenzk veitingahús stöðnuð í gamalli, danskri matargerð. Síðan er eins og hvirfilvindur hafi farið um kokkastéttina. Saman fer faglegt stolt, tilraunagirni og virðing fyrir hráefnum og hollustu.

Þannig eru dæmi þess, að heilar starfsstéttir hafi umturnazt á fáum árum. Þær hafa rifið sig upp úr hefðbundnum doða, ruðzt framhjá vísitölubrauðum og verðlagseftirliti. Fagmenn hafa breytzt úr embættismönnum í athafnamenn og listamenn.

Eldra dæmi um slíkan markað, gagnkvæman skilning framleiðenda og notenda, er íslenzk myndlist. Hún hefur ekki magnazt fyrir velvilja hins opinbera, því að það hefur ekki haft ráð á að halda til jafns við hið opinbera á Norðurlöndum.

Það er fólkið í landinu, sem hefur keypt málverk á frjálsum markaði. Þessi sala er svo mögnuð, að ótrúlegur fjöldi listamanna hefur um langt skeið getað lifað af verkum sínum, auk allra hinna, sem hafa af þeim hlutatekjur.

Eitt elzta dæmið eru bókmenntirnar, sem blómstra áratug eftir áratug, þótt fámennið geri skilyrðin hér á landi óvenjulega erfið, nánast óyfirstíganlega erfið. Hér er hreinlega jarðvegur fyrir kraftmiklar bókmenntir.

Eftir þessi handahlaup leiðarans úr bakstri í bókmenntir er kannski ekki úr vegi að taka dæmi úr enn annarri átt. Það er tölvubyltingin, sem virðist renna greiðar inn í okkar þjóðfélag en við sjáum dæmi um annars staðar.

Risið hafa mörg smáfyrirtæki, þar sem ferskir menn finna upp nýjungar, þróa þær og koma í framleiðslu. Að verki er ungt fólk, laust úr viðjum vanans. Það berst til sigurs, að mestu án aðstoðar hins opinbera.

Tölvukynslóðin hefur ekki þegið þetta vegarnesti í skólunum, sem enn búa við sárustu fátækt á þessu sviði. Við sjáum það bezt af, að tölvuskólar í einkaeigu hafa sprottið eins og gorkúlur á þessu ári.

Íslendingar stefna óðfluga að þrælkun tölvunnar sem hornsteins að atvinnulífinu. Það er enn eitt dæmið um, að gegnum erfiðleika okkar skín innri kraftur fagmennsku, sem á sér hljómgrunn og mun flytja okkur langt fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Gert út á okkar veski.

Greinar

Smám saman er að koma í ljós, að mesta óráð er fólgið í margvíslegum iðnaðarævintýrum, sem fyrirhugað er að koma hér á fót að meira eða minna leyti á kostnað ríkissjóðs, neytenda og skattgreiðenda. Þau munu draga langan dilk á eftir sér.

Þegar reiknuð var meint arðsemi steinullarverksmiðju, vildi svo heppilega til, að gleymdist að gera ráð fyrir 24% vörugjaldi, sem yrði að vera á framleiðslunni, svo að hún skaðaði ekki núverandi tekjur ríkissjóðs.

Þótt ríkið vildi fórna þessu vörugjaldi til að losna við að styrkja steinullarframleiðsluna með sömu upphæð á annan hátt, dugir það ekki, því að vörugjaldið yrði þá líka að falla niður af innfluttri steinull.

Ísland er nefnilega í Fríverzlunarsamtökunum og hefur viðskiptasamning við Efnahagsbandalagið, hvort tveggja til að tryggja aðgang íslenzkra afurða að erlendum mörkuðum. Og því miður gildir ekki einstefna í slíkum viðskiptum.

Vegna alls þessa er fyrirsjáanlegt 24% tap á steinullarverksmiðjunum, sem kunna að verða reistar hér á næstu árum. Þar á ofan bætist, að margt hefur verið vefengt í arðsemisútreikningunum, til dæmis flutningskostnaður.

Auk þess er steinull almennt á undanhaldi fyrir glerull, perlusteini og plasti. Illa seljanlegar birgðir steinullar hlaðast upp hjá verksmiðjum nágrannalandanna, svo að verðið fer lækkandi og á eftir að lækka meira.

Að svo miklu leyti sem við þurfum á steinull að halda, eigum við að sýna heilbrigða skynsemi og kaupa útlenda steinull á útsöluprísum á kostnað útlendra ríkissjóða, í stað þess að kasta okkur líka út í kviksyndið.

Ástandið í sykrinum er enn verra en í steinullinni. Þar er um að ræða landbúnaðarafurð með öllum þeim forréttindum, sem við vitum, að slíkum fylgja. Hin verndaða sykurframleiðsla eykst hröðum skrefum í kringum okkur.

Það kostar 4,95 danskar krónur að framleiða eitt kíló af dönskum sykri. Þessi sykur er seldur úr landi, til dæmis hingað, fyrir 1,80 danskar krónur kílóið. Mismuninn, 3,15 krónur, fá danskir framleiðendur í útflutningsuppbótum.

Sykurframleiðsla Efnahagsbandalagsins hefur á að eins einum áratug aukizt úr níu milljónum tonna í sextán milljónir. Engin leið er að stöðva þessa offramleiðslu frekar en annað landbúnaðaröngþveiti Efnahagsbandalagsins.

Til viðbótar við þennan vanda eru Bandaríkjamenn farnir að framleiða sætuefni úr maís-sýrópi. Þeirri uppgötvun er lýst sem hinni mikilvægustu síðan framleiðsla sykurrófna hófst fyrir tæpum 200 árum. Verðið á því enn eftir að lækka.

Mjög er skiljanlegt, að finnsku hugmyndafræðingarnir að baki fyrirhugaðri sykurgerð á Íslandi hafi heimtað innflutningsbann á sykri til Íslands og tryggingu á 10% arðgreiðslum til sín. Þeir vita, að fyrirtækið er vonlaust.

Reiknað hefur verið, að tapið á sykurverinu muni nema um 30 milljónum króna á ári. Innflutningsbanninu er ætlað að velta tapinu yfir á neytendur. Þetta er því ekki iðnaður, heldur útgerð á veski almennings.

Sameiginlegt með ýmsum slíkum iðnaðaráformum er, að í framkvæmd munu þau ýmist hækka vöruverð í landinu eða soga fé úr ríkissjóði, nema hvort tveggja verði. Við þurfum að stöðva útgerðarævintýri af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV