Greinar

Eins og hálshöggvin hænsni.

Greinar

Svo er nú komið fyrir þessari þjóð, að Seðlabankinn og Jóhannes Nordal hafa neyðzt til að taka ráðin af ríkisstjórn, sem er svo máttvana, að hún getur ekki einu sinni mótmælt vaxtahækkun, er sumir ráðherrarnir segjast vera á móti.

Verst er frammistaða Steingríms Hermannssonar og Svavars Gestssonar, sem þjóta um ríkisstjórnarportið eins og hálshöggvin hænsni, út af því að gróðapungarnir að baki þeim munu nú hafa minni gróða af öfugum vöxtum en að undanförnu.

Þegar slíkir umboðsmenn forréttindahópa væla um, að hærri vextir setji atvinnulífið á höfuðið, eru þeir aldrei nógu heiðarlegir til að viðurkenna, að óverðtryggð lán eru jafnan endurgreidd í ódýrari krónum en hinar upphaflegu.

Jafnvel afurðalánin, höfuðvígi vaxtagróðamanna, eru þessu marki brennd. Vörumar, sem lánin eru veitt út á, hækka í verði á lánstímanum. Og þrátt fyrir vaxtahækkunina munu þessar vörur áfram hækka meira en sem nemur vaxtakostnaði.

Vaxtahækkun Seðlabankans var raunar alltof lítil. Hún hefði þurft að vera mun meiri, sérstaklega á afurðalánum. Jákvæðir vextir eru eina leiðin til að soga á ný fé inn í bankakerfið, svo að aftur verði þar fé til útlána.

Íslenzka þjóðfélagið er ekki lengur unnt að reka með 10% halla. Og ekki heldur með þeim 6% halla, sem ráðgerður er á næsta ári. Við höfum nefnilega ekki ráð á að taka fleiri lán í útlöndum, því að þau eru að sliga okkur.

Hið eina, sem getur komið í staðinn fyrir erlend lán, er innlendur sparnaður. Í stað þess að eyða öllu jafnóðum verðum við að fara að spara. Og það gerum við ekki, nema stjórnvöld hætti að brenna upp þennan sparnað.

Fyrir hálfu öðru ári voru vextir um tíma nálægt því að vera jákvæðir. Þá var blómaskeið útlána, því að bankarnir fylltust af sparifé, sem annars hefði horfið út í buskann. Þá var tiltölulega auðvelt að fá lán.

Síðan hefur sigið hratt á ógæfuhliðina. Nú er svo komið, að menn leggja helzt ekki fé í banka. Þar af leiðandi geta bankarnir ekki lánað fé þessa mánuðina, mörgum manninum til sárrar raunar. Þessu þarf að breyta.

Bezt væri að hafa vexti frjálsa, svo að þeir finni á hverjum tíma sitt rétta jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé. Ákvarðanir opinberra aðila hljóta hins vegar að koma bæði seint og illa eins og dæmin sanna.

Pólitísk samstaða næst því miður ekki um frjálsa vexti, því að stjórnmálamennirnir þurfa jafnan að gæta hagsmuna ljúflinganna, sem hvísla í eyru þeirra. Steingrímur og Svavar eru dæmi dagsins um eymd stjórnmálanna.

Við þessar aðstæður er einkar heppilegt, að seðlabanka okkar hefur, eins og seðlabönkum nálægra ríkja, verið falið töluvert vald til ákvörðunar vaxta. Það hlífir lélegum pólitíkusum við ábyrgð, sem þeir geta ekki staðið undir.

Þar að auki eru til hér sérstök Ólafslög, sem fjalla meðal annars um, að fjárskuldbindingar skuli vera verðtryggðar. Seðlabankinn verður því ekki sakaður um valdarán, heldur um of mikla linku í meðferð valdanna.

Dapurlegast er að sjá aumingjaskap ríkisstjórnarinnar, þar sem hinir vitmeiri ráðherrar horfa í gaupnir sér, segjandi ja og humm við vöxtum, meðan eftirhermur hálshöggvinna hænsna verða sér til skammar fyrir alþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ókeypis óskhyggja.

Greinar

Fyrsta grein þingmannafrumvarps til orkulaga hljóðar svo: “Ráðherra sá, sem fer með orkumál, hefur yfirstjórn þeirra mála, sem lög þessi fjalla um.” Með slíkum orðum má draga úr efa á, að orkuráðherra fari með orkumál!

Að baki hins rökvísa upphafs koma svo 47 greinar og raunar sjö greinar til viðbótar í hliðarfrumvarpi um jarðboranir. Samanlagt er þar gert ráð fyrir umtalsverðum kerfisbreytingum í orkumálum, vonandi jafn rökföstum og upphafsorðin.

Samkvæmt frumvarpinu ber að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins og fela verkefni þeirra öðrum stofnunum, einkum Landsvirkjun. Þá beri að taka jarðboranir úr höndum Orkustofnunar og fela þær sérstakri stofnun.

Margt fleira er í frumvarpinu, sumt torskilið, þótt því fylgi bæði almenn greinargerð og útskýringar á einstökum liðum, svo sem venja er í frumvörpum á alþingi. Með greinargerðum er þetta orðið að 54 síðna bók.

Í öllum þessum texta er hvergi vikið að fjármálum. Engin tilraun er gerð til að meta, hvað kerfisbreytingin muni kosta í stofni og í árlegum rekstri. Ætti slíkt þó að vera mikilvægur þáttur í mati alþingis á frumvörpum.

Augljóst má vera, að fjórtán manna orkuráð verður dýrara en fimm manna. Einnig má vera augljóst, að jöfnun gjaldskrár um allt land hlýtur að kosta mikið fé. Þannig má áfram telja ýmislegt dýrt spaug í þessu þingmannafrumvarpi.

Samkvæmt fjárlögum hafa þingflokkarnir peninga til ráðstöfunar í sérfræðiaðstoð. Í þessu tilviki hefði verið ábyrgara og heiðarlegra að nota hluta af því fé til að láta reikna frumvarpið til fjár, svo að menn viti, um hvað það fjallar.

Ekki er síður ástæða til að gera sömu kröfu til frumvarpa, sem koma frá ríkisstjórninni. Á bak við hana er mikill fjöldi hagfræðinga og viðskiptafræðinga. Kostnaðarreikningur á skilyrðislaust að fylgja öllum frumvörpum hennar.

Stjórnarfrumvarp um mál aldraðra er eitt slíkra. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu á það að “leysa” þau mál með því “að auka afskipti og skyldur ríkisins” með “stórátaki á skömmum tíma”. Ekki vantar, að hátt sé stefnt.

Hvergi er í frumvarpinu, greinargerð né skýringum þess getið, að lausnin, afskiptin og átakið kosti einhverja peninga. Gert er ráð fyrir, að alþingi samþykki stórfelldan stofnkostnað og rekstrarkostnað án þess að vita um hann.

Annað stjórnarfrumvarp fjallar um heilbrigðisþjónustu. Þar er meðal annars gert ráð fyrir fjölgun lækna og flutningi heilsugæzlustöðva milli virðingar- og kostnaðarþrepa. Það frumvarp er áreiðanlega jafn fallega hugsað og hið fyrra.

Hið sama gildir um þetta og fyrrnefnd frumvörp, að hvergi er þess getið, að hin aukna heilbrigðisþjónusta kosti nokkurt fé. Hafa menn þó reynslu af, að lög um heilsugæzlustöðvar geta valdið ríkissjóði miklum búsifjum.

Hér hefur verið getið tveggja frumvarpa ríkisstjórnarinnar og eins frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þau eru ekki einsdæmi, heldur raunar dæmigerð fyrir frumvörp og lög fyrr og síðar. Og við eigum eftir að sjá fleiri.

Þrátt fyrir hefðina eru þetta siðlaus vinnubrögð á alþingi. Forkastanlegt er að ætlast til, að þingið geri frumvörp að lögum, án þess að það geri sér einhverja grein fyrir kostnaði við stofnun og rekstur óskhyggjunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Er vilji í sandkassanum?

Greinar

Ekkert svigrúm er til sandkassaleikja á alþingi, þegar mæta þarf þjóðarteknamissi, sem mun samtals nema tíundu hverri krónu á þessu ári og hinu næsta. Við slíkar aðstæður dugar engum að fara með ábyrgðarlaust rugl út í loftið.

Alþingi hefur í löggjafarvaldinu töluverð áhrif á dreifingu tapsins. Með því að gera ekki neitt hefur alþingi einnig áhrif, sem í því tilviki birtast í örari skuldasöfnun í útlöndum, svona rétt á meðan lánstraustið endist.

Nú þegar fer fjórða hver króna af útflutningstekjum okkar til greiðslu afborgana og vaxta af erlendum skuldum. Við getum ekki haldið lengra eftir þeirri braut án þess að lenda í vítahring, sem er mun verri en núverandi vandi.

Hluti af lausn vandans er, að alþingi samþykki bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar. Þar með fylgja þrjú hliðarfrumvörp, sem í sjálfu sér eru ekki lífsnauðsynleg, en eru alténd mikilvægur þáttur í friði á vinnumarkaðinum.

Þar sem þjóðartekjurnar fara að tveimur þriðju hlutum í einkaneyzlu, er óhjákvæmilegt, að áfallið í hinu fyrra hafi veruleg áhrif á hið síðara. Þjóðin verður að herða svonefnda sultaról, þótt lýðskrumarar haldi öðru fram.

Bráðabirgðalögin hafa í för með sér 6% minnkun kaupmáttar ráðstöfunartekna fólks á næsta ári, til viðbótar því 1%, sem verður á þessu ári. Þetta eru harðir kostir og ná þó ekki sama tíunda hlutanum og samdráttur þjóðarteknanna.

Ástæðulaust er að gera lítið úr byrðunum, sem bráðabirgðalögin leggja á herðar þjóðarinnar. Margar fjölskyldur berjast í bökkum nú þegar og sjá enga greiða leið til að taka á sig 6% kaupmáttarrýrnun til viðbótar.

En tapi þjóðarinnar verður að dreifa, hvað sem tautar og raular. Bráðabirgðalögin gera ráð fyrir, að þjóðin taki sem neytendur á sig tæplega helming þjóðartapsins. Lögin eiga að minnka 10% viðskiptahalla þessa árs í 6% á hinu næsta.

Bráðabirgðalögin eru bráðnauðsynleg forsenda þess, að þjóðin sigrist á erfiðleikunum. En við þau ein má ekki sitja. Ríkið sjálft verður að taka þátt í samdrættinum, sem forráðamenn þjóðarinnar ætla heimilunum að bera.

Svonefnd samneyzla, það er ríkisrekstur, hefur aukizt ár frá ári, mælt í raunverulegum verðmætum. Nýja fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, að dokað verði við á þessari leið, að samneyzlan standi í stað á næsta ári.

Þetta er til bóta, en ekki nægilega. Óbreytt samneyzla þýðir, að samdrátturinn kemur þyngra niður annars staðar, þar á meðal á ráðstöfunartekjum almennings. Alþingi ber því að skera niður samneyzluáform frumvarpsins.

Svo er enn ekki komið fram á alþingi þriðja lykilmálið, lánsfjáráætlunin. Þar mun koma fram, hve mikið ríkisstjórnin hyggst taka að láni á næsta ári til að kosta framkvæmdir. Þar hefur oft afgangi vandans verið kastað á herðar barna okkar.

Hin gífurlega þörf ríkisins á erlendu lánsfé til ótal nytsamlegra verkefna stafar af, að innlendum sparnaði hefur meira eða minna verið sóað í landbúnað, nýja skuttogara og önnur gæluverkefni, næstum því sykurver!

Sú liðna sóun verður ekki aftur tekin. Í staðinn verðum við nú að þola nauðsynlegan niðurskurð erlendra lána til nytjaverka, meðan verið er að afnema viðskiptahallann. Í því eins og öðru er vilji allt, sem þarf. En er hann til í sandkassa alþingis?

Jónas Kristjánsson.

DV

Bjargið nú andlitinu.

Greinar

Lesendum er vorkunn að átta sig ekki á stjórnmálasviptingum síðustu vikna. Þingmenn gera sér sjálfir tæpast grein fyrir stöðunni. Enn síður geta þeir spáð um næstu leiki refskákar, sem hefur verið illa tefld af flestra hálfu.

Hinir fáu, sem nenntu að hlusta á eldhúsumræður á mánudaginn, gátu þó staðfest, að margir talsmenn flokkanna ráfa árið 1982 í þoku, hrópandi slagorð frá því fyrir stríð, eins og þeir væru á leiksviði að skopast að stjórnmálum.

Það ætti ekki að vera sextíu mönnum ofraun að fara að vilja þjóðarinnar, sem er, að þeir samþykki bráðabirgðalögin og þrjú fylgifrumvörp þeirra, samþykki ný og sanngjarnari kosningalög og hafi kosningar fljótlega upp úr áramótum.

Margir leiðtogar á þingi haga sér eins og tíminn sé nægur. Sumir hverjir vilja helzt fresta öllum mikilvægum afgreiðslum fram í desember og helzt lengur. Þeir halda, að tíminn leysi mál, sem þeir eru feimnir við.

Ríkisstjórnin og hennar lið hefur lofað fylgifrumvörpum bráðabirgðalaganna, þar á meðal einu um nýja vísitölu, sem aðilar vinnumarkaðsins voru þegar búnir að semja um í ágústbyrjun, hver svo sem nú eru undanbrögð Ásmundar Stefánssonar.

En það eru fleiri en Ásmundur, sem fá hland fyrir hjartað, þegar þeir minnast eigin gerða. Svo fór einnig fyrir formanni Alþýðubandalagsins og þingflokksformanni þess, þegar þeir hlupu út undan sér í faðm stjórnarandstöðunnar.

Fyrir hálfum mánuði voru þeir svo hræddir við eigin verk, að þeir buðu leiðtogum stjórnarandstöðunnar, að sameiginlega flýðu þeir fyrir 1. desember frá ábyrgð á efnahagsmálum og semdu aðeins um kosningalög og nýjar kosningar.

Sem betur fer komst upp um Svavar Gestsson og Ólaf Ragnar Grímsson og höfðu þeir af lítinn sóma. Millispil af þeirra tagi var aðeins til þess fallið að spilla viðræðum stjórnar og stjórnarandstöðu um snertifleti misjafnra áhugamála.

Þær viðræður urðu síðan að einu af hinum frægu “námskeiðum” forsætisráðherra, þaðan sem menn ganga út, vitandi hvorki í þennan heim né annan. Þegar leiðtogar stjórnarandstöðunnar áttuðu sig á þessu, heimtuðu þeir, að stjórnin færi frá.

Síðan hafa foringjarnir brallað áfram, veifað ýmsum hugmyndum um kosningar í febrúar, apríl eða júní, en sem mest forðazt að fjalla um nauðsynlegasta verkefnið, afgreiðslu bráðabirgðalaga og fylgifrumvarpanna fyrir 1. desember.

Inn í vitleysuna kemur svo óbeit þingflokks sjálfstæðismanna á, að Gunnar Thoroddsen hafi einhvern veg af nýrri stjórnarskrá. Fremur vill þingflokkurinn enga stjórnarskrá en þá, sem tengd yrði nafni hans!

Hugsanlega gæti Gunnar boðið Geir Hallgrímssyni upp á að hætta þingmennsku eftir kjörtímabilið gegn því, að stjórnarskrá nái fram að ganga og að kosningar verði að fullgerðu slíku samkomulagi, jafnvel í febrúar eða marz, ef vel er unnið.

Slíkt samkomulag mætti gera samhliða heildarsamkomulagi um afgreiðslu bráðabirgðalaga og helztu fylgifrumvarpa þeirra, afgreiðslu nýrra kosningalaga og loforði forsætisráðherra um þingrof og kosningar á umsömdum degi.

En hvað sem líður stjórnarskrá og innanhússmálum Sjálfstæðisflokksins, er kominn tími til, að sextíumenningarnir á alþingi hætti lélegri taflmennsku í refskák og snúi sér að því að bjarga andlitinu með því að gera það, sem gera þarf.

Jónas Kristjánsson

DV

Megi útvarp blómstra.

Greinar

Hugsum okkur, að alþingi kysi okkur ríkisútgáfuráð til að sjá um ríkisútgáfu á öllu prentuðu máli hér á landi, svo að það geti, eins og hljóðvarp og sjónvarp, verið “í eigu allra Íslendinga”, svo notuð séu orð Helga Péturssonar.

Sjálfsagt eru til menn, sem hafa þessa skoðun. Sumir vilja til dæmis hindra, að einstaklingar úti í bæ séu að græða á prentun og útgáfu blaða, tímarita og bóka, af því að það sé svo ljótt að græða á því, sem ætti að vera “í eigu allra Íslendinga”.

Hljóðvarp og sjónvarp komu til sögunnar á tímum, þegar sú var tízkan, að ríkið ætti að eiga sem flest, auk þess sem menn töldu, að ríkið eitt réði við mikinn stofnkostnað. Ríkistízkan var ekki, þegar hófst útgáfa prentaðs máls.

Þetta er meðal annars athyglisvert fyrir þá sök, að í rauninni er prentun mun dýrara fyrirbæri en hljóðvarp og sjónvarp. Búa þarf til sérstakt eintak fyrir hvern viðskiptamann og koma því til hans sérstaklega.

Pappír, prentun og dreifing eru dýr. Þar að auki hafa pappír og dreifing hækkað í verði langt umfram verðbólgu á undanförnum áratugum. Þá er nú munur að hafa ódýran ljósvakann til að senda efnið öllum viðskiptamönnum í senn.

Samt hafa prentun og útgáfa blómstrað eins og þúsund rósir. Hér koma út fimm dagblöð, tugir héraðsblaða, hundruð tímarita og árlega hundruð bóka. Varla er til svo sérhæfður smekkur, að honum falli ekki eitthvað af þessu.

Andspænis þessu fjölskrúði höfum við svo eina dagskrá hljóðvarps og einnig eina dagskrá sjónvarps. Sú einhæfni á vegum ríkis “í eigu allra Íslendinga” stingur mjög í stúf við blómskrúðið í prentmálsgörðum íslenzkra einstaklinga.

Af fimm dagblöðum eru tvö gefin út með hagnaði. Og væru hin þrjú sameinuð í eitt, mætti láta þau skila hagnaði. Í samanburði við þetta er fráleitt, að ekki sé hægt að hafa tvö landshljóðvörp hið fæsta og sennilegast þrjú.

Því miður gerir nýja útvarpsfrumvarpið ekki ráð fyrir, að svo sjálfsagður hlutur sé leyfður. Þar er hins vegar gert ráð fyrir svæðisbundnu útvarpi, sem er mikill akur óplægður, eins og við sjáum af mergð héraðsblaða og tímarita.

Svæðisbundið hljóðvarp er ódýrt í stofnun og rekstri. Þar er kjörið tækifæri til að efla svæðisbundna fjölmiðlun, sem ekki á erindi í landsfjölmiðlun eða kemst þar ekki að. Þetta er tilraunaverkefni fyrir áhugafólk.

Héraðsblöðin vitna um, að fimm dagblöð á landsvísu duga ekki til að þjónusta landið til botns. Hví skyldi þá eitt landsútvarp duga? Og hvað um allar séróskirnar, hliðstæðar þeim, sem hundruð tímarita þarf til að þjóna?

Sjónvarpið er þegar farið að blómstra í formi kapla, sem verið er að leggja í mörgum þéttbýliskjörnum. Þessir kaplar eru líklega allir tólf rása hið minnsta. Þeim mun fjölga og síðan munu þeir tengjast á ýmsa vegu.

Sem dæmi um möguleikana má nefna rás fyrir skólasjónvarp, til dæmis háskólasjónvarp, svo sem rekið er með góðum árangri í Bretlandi og sparar þar mikinn háskólakostnað. Þaðan er unnt að fá frábært efni á þessu sviði.

Nú reynir á, að þingmenn átti sig á, að gott er að hafa fjölskrúðugan rósagarð í útvarpi alveg eins og í prentuðu máli. Þá munu þeir sníða af nýja útvarpsfrumvarpinu ýmsa hræðslu og fordóma og gera það enn betra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgðin borgar sig.

Greinar

Í þessari viku hafa aukizt líkur á, að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar komizt að fullu til framkvæmda. Er það vel, því að lögin munu auðvelda næstu ríkisstjórn að hafa forustu í vörnum gegn vaxandi efnahagsvanda.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa smám saman verið að átta sig á, að heimurinn er ekki eins einfaldur og forustumenn þeirra hafa látið hafa eftir sér á undanförnum vikum. Þeir skilja jafnvel, að ábyrgðarleysi getur kostað fylgi.

Mitt í þessari upplýsingu er Alþýðubandalagið komið með bakþanka. Forustumenn þess telja sér ranglega trú um, að þeir tapi fylgi á að vera ábyrgir. Að baki liggur gamalkunnt vanmat stjórnmálamanna á kjósendum.

Forustumenn Alþýðubandalagsins segjast vilja fá bráðabirgðalögin strax í eldvígslu í neðri deild, svo að misvitrir stjórnarandstæðingar fái tækifæri til að fella þau og losa þar með bandalagið við hinn ímyndaða glæp.

Þetta sjónarmið nær vitanlega ekki fram að ganga. Alþýðubandalagið fær þar með ágætt tækifæri til að átta sig á, að kjósendur hafa áhuga á fleiru en kröfuhörku, yfirboðum og ábyrgðarleysi. Slík uppgötvun er mikilvæg.

Bezt er, að ríkisstjórnin flýti sér nú að ná saman framvörpum um hliðarmál bráðabirgðalaganna, svo sem nýjan vísitölugrundvöll, láglaunabætur og aukið orlof. Þessu hefur verið lofað og ríkisstjórnin verður að efna.

Tæpast er unnt að þola meira en tveggja vikna töf á, að þessi frumvörp líti dagsins ljós. Þau eiga ekki að þurfa að vera flókin. Til dæmis er nýi vísitölugrundvöllurinn tilbúinn, hvenær svo sem stjórnmálamenn þora.

Hins vegar liggur ekki á að leggja bráðabirgðalögin fyrir efri, ekki neðri, deild fyrr en þessi hliðarmál eru einnig tilbúin til meðferðar á alþingi. Því meiri tími sem gefst, þeim mun raunsærri eru menn líklegir til að verða.

Stjórnarandstaðan ætti nú að snúa frá villu síns vegar, éta ofan í sig ruglið og fara að huga að raunverulegum afglöpum ríkisstjórnarinnar, sem munu brátt líta dagsins ljós í gengdarlausri lánsfjáráætlun.

Stjórnarandstaðan ætti að láta sómasamleg bráðabirgðalög í friði og reyna í þess stað að hindra, að lélegt fjárlagaframvarp og afleit lánsfjáráætlun eyðileggi hið góða, sem felst í bráðabirgðalögunum.

Heppilegast er, að stjórn og stjórnarandstaða stefni að afgreiðslu allra þessara mála rétt fyrir jól, annars vegar bráðabirgðalaganna og fylgifrumvarpa þeirra og hins vegar fjárlaga og niðurskorinnar lánsfjáráætlunar.

Um leið er hægt að ná samkomulagi um, að kjósendur komist að í marz eða apríl. Sú tímasetning kemst næst því að brúa bil ýmissa sjónarmiða um skjótar og seinar kosningar. Sú steingrímska er skynsamleg.

Í kosningum í marz eða apríl fá svo stjórnmálamenn kjörið tækifæri til að átta sig á, að kjósendur eru ekki eins vitlausir og hingað til hefur verið haldið. Atkvæðin munu hrannast upp, þar sem ábyrgðartilfinningin verður mest.

Allir flokkarnir geta komið með hattinn, þar sem atkvæðunum rignir. Aðalatriðið er, að stjórnmálamennirnir hætti að þrugla og byrji að vinna. Við þurfum á því að halda, því að bráðabirgðalögin eru bara fyrsta skrefið.

Jónas Kristjánsson.

DV

“Mjög fáar nýjar stöður”!

Greinar

“Mjög fáar nýjar stöður bætast við,” segir með barnalegu stolti í athugasemdum með fjárlagafrumvarpinu nýja. Þessi orð segja í raun, að fjármálaráðherra og ríkisstjórn hefur ekki tekizt að draga saman seglin í ríkisgeiranum.

Um þessar mundir rýrna þjóðartekjurnar um meira en 5% á hverju ári. Við svo hrikalegar aðstæður dugir engan veginn að ráðast eingöngu að fjárhag heimilanna með því að höggva skörð í verðbótavísitöluna, sem reiknuð er á laun manna.

Um leið og dregið er úr einkaneyzlunni þarf einnig að minnka samneyzluna. Það má gera sumpart með því að ráða ekki opinbera starfsmenn í stöður, sem losna í eðlilegri hringrás lífsins. Þannig má fækka án mikils sársauka.

Einnig er nauðsynlegt að stöðva sóknina í átt til velferðarþjóðfélagsins. Eftir áratuga, hraða útþenslu “góðu” málaflokkanna er kominn tími til að staldra við um stund og bíða þess, að efnahagslega óveðrið gangi niður.

Samneyzlan jókst um 2% í hittifyrra, 1% í fyrra og mun sennilega aukast um 2% í ár. Þessi síðustu tvö stig koma þvert ofan í öra tekjurýrnun þjóðarinnar. Og því miður bendir fjárlagafrumvarpið ekki til minni samneyzlu á næsta ári.

Gallinn er, að stjórnvöld gera svo litlar kröfur til sín, að þeim finnst vera afrek að halda samneyzlunni niðri í nærri engum vexti. En alltaf hafa þótt linir þeir höfðingjar, sem gera minni kröfur til sjálfs sín en almennings.

Eina jákvæða við fjárlagafrumvarpið er, að minnka á fjárfestingar þess um 8% í viðbót við 6% samdrátt á þessu ári. Þetta er þó ekki eins hörkulegt og atvinnuvegirnir hafa mátt þola, 8% samdrátt í fyrra og 9% samdrátt í ár.

Þessi samdráttur opinberra framkvæmda segir svo ekki nema hluta sögunnar, því að flestar dýrustu frumkvæmdir hins opinbera ern ekki á fjárlögum, heldur á lánsfjáráætlun, sem ekki kemur í ljós fyrr en eftir nokkrar vikur.

Samkvæmt fyrri reynslu má búast við, að lánsfjáráætlunin fyrir næsta ár geri ráð fyrir mikilli söfnun skulda í útlöndum. Hún verður svo afsökuð með, að lánin fari til arðbærra framkvæmda í orkumálum og öðru slíku.

Ráðamenn þjóðarinnar munu þá gæta þess að nefna ekki, að erlenda lánaþörfin til orkumála byggist á, að of mikill hluti innlenda sparnaðarins hefur verið tekinn til gæluverkefna, annarra óarðbærra mála og jafnvel þjóðhættulegra.

Á næsta ári hyggst ríkið til dæmis nota tíundu hverja krónu til útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna og beinna styrkja til landbúnaðarins. Þetta verða rúmlega 1.200 milljónir króna, sem varið er til að búa til enn frekari vandamál.

Þannig eiga heilögu kýrnar áfram að sliga þjóðina. Þær vaða í fóðrinu meðan landslýður verður sjálfur að herða sultarólina. Fjárlagafrumvarpið nýja markar enga stefnubreytingu í þessu, þótt samdráttur þjóðartekna krefjist þess.

Í heild má segja, að fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár sé í svipuðum og jafnvel heldur drýgri sparnaðaranda en það frumvarp, sem lagt var fram fyrir ári. En þessi sparnaðarandi endurspeglar aðeins hluta nauðsynjarinnar.

Frá miðju síðasta ári hefur þjóðarhagur verið á hraðri niðurleið. Einn mikilvægasti þáttur varnarstríðs fælist í róttækum niðurskurði ríkisútgjalda. Slíks kjarks sér engin merki í frumvarpinu. Þess vegna er það aumlegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Verra en glæpur.

Greinar

Þetta er verra en glæpur, það er heimska. Þannig má á máli, sem stjórnmálamenn skilja, lýsa ráðagerðum stjórnarandatöðunnar gegn bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar. Þær munu nefnilega koma stjórnarandstöðunni sjálfri í koll.

Að gamalli hefð stjórnmálamanna hefur stjórnarandstaðan hið fullkomna ábyrgðarleysi að leiðarljósi. Hún sést ekki fyrir í kappinu við að koma ríkisstjórninni frá og telur sig komast upp með það fyrir dómi kjósenda.

Með því að fella bráðabirgðalögin getur stjórnarandstaðan hindrað aðlögun þjóðarneyzlu að rýrðum þjóðartekjum. Það væri illt verk, sem mundi gefa verðbólgunni lausan tauminn og torvelda stjórn efnahagsmála á næstu árum.

Skammsýnir þingmenn stjórnarandstöðunnar eru sumir hverjir í slíkum ham, að þeir eru að auki farnir að gamna sér við hugmyndir um að hindra lagfæringar á stjórnarskránni. Menn, sem hata og hefna, ættu ekki að koma nálægt stjórnmálum.

Engin efnisleg rök eru til gegn stefnu bráðabirgðalaganna, enda hefur stjórnarandstaðan ekki reynt að veifa slíku. Ljóst má telja, að hún hefði gert hið sama og að hún neyðist til að gera meira af sama, þegar hún kemst til valda.

Hið eina, sem út á lögin er að setja, er, að þau ganga ekki nógu langt. Um slíkt ættu þingmenn stjórnarandstöðunnar að setja fram breytingartillögur, ef þeir vildu haga sér eins og ætlazt er til af ábyrgum stjórnmálamönnum.

Að vísu gæti það rofið sjálfheldu stjórnarandstöðunnar í ábyrgðarleysinu, ef ríkisstjórninni mistækist að framkvæma loforð um hliðarráðstafanir á borð við frumvörp um nýja vísitölu, aukið orlof og láglaunabætur.

Eitt helzta einkenni þingmanna, sem valda ekki hlutverki sínu, er, að þeir eiga erfitt með að sjá lengra fram í tímann en nokkra daga eða vikur. Dæmigerðast er, að stjórnarandstaða hagar sér yfirleitt eins og andstöðuhlutverkið verði eilíft.

Núverandi ríkisstjórn á skammt eftir ólifað. Stjórnarmynztur hennar hefur gengið sér til húðar og verður ekki endurtekið eftir kosningar. Hver ímyndar sér til dæmis, að Framsóknarflokkurinn taki aftur þátt í slíkri ríkisstjórn?

Líklega mun Sjálfstæðisflokkurinn sem stærsti flokkurinn skipa næstu ríkisstjórn. Og hugsanlegt er líka, að Alþýðuflokkurinn verði þar. Altjend mun einhver hluti núverandi stjórnarandstöðu fá vandann í hausinn á næsta ári.

Ef þessir væntanlegu ráðherrar fella nú bráðabirgðalögin, eru þeir um leið að magna eigið böl. Þeir munu þá standa andspænis stóraukinni verðbólgu og stóraukinni skuldasöfnun í útlöndum. Þá munu þeir iðrast illra verka.

Ekki er núna hægt að sjá fyrir, að þingmenn stjórnarandstöðunnar og væntanlegir ráðherrar geti skotið sér undan gagnrýni fyrir að hafa gert illt ástand verra með því að fella bráðabirgðalögin. Illt verk mun mælast illa fyrir.

Tímabært er orðið, að áhrifamiklir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í atvinnulífinu átti sig á, að alvara er á ferðum, reyni að koma vitinu fyrir þingmenn flokksins og forði þeim frá blindu og vígamóðu ani út í ófæruna.

Það er nefnilega vanhugsað hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þegar þeir ímynda sér, að gagnvart kjósendum komist þeir upp með fyrirhugað ábyrgðarleysi. Þess vegna er ráðagerð þeirra verri en glæpur, hún er heimska.

Jónas Kristjánsson

DV

Paradísarstefnan.

Greinar

Að ýmsu leyti er gott að vera fámenn þjóð í Atlantshafinu, miðja vega milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, – hafa gott samstarf í báðar áttir án þess að axla ýmsar byrðar, sem fylgja stórríkjum og efnahagsbandalögum.

Frægasta dæmið um þetta er flugævintýri Loftleiða, sem gátu hliðrað sér hjá alþjóðlegu flugfélagasamtökunum IATA og eigi að síður rekið flug yfir hafið upp á eigin býti. Um tíma var þetta meginþáttur í þjóðarbúskapnum.

Við höfum ágætt viðskiptasamstarf við Efnahagsbandalag Evrópu án þess að afsala hluta af fullveldi okkar. Þess vegna getum við sjálfir veitt í fiskveiðilögsögunni án þess að veita bandalaginu veiðileyfi eða íhlutunarrétt.

Mörg dæmi eru um, að smáríki komast upp með hluti, sem burðarásar heimsviðskiptanna gætu ekki. Sum gefa út frímerki í stríðum straumum. Önnur gefa fjölþjóðafyrirtækjum kost á lágum sköttum, ef þau taka sér þar heimilisfang.

Til eru smáríki, sem reka miklar fríhafnir eða eru sjálf ein allsherjar fríhöfn. Einnig smáríki, er soga til sín gjaldeyri, sem er að leita að öruggum hvíldarstað, í friði fyrir gráðugum greipum ríkisstjórna í fjarlægum löndum.

Engin utanaðkomandi atriði ættu að vera því til fyrirstöðu, að Íslendingar notfærðu sér einhverja af þessum möguleikum. Hvorki í Vestur-Evrópu né í Norður-Ameríku mundu stjórnvöld telja rétt að reyna að setja okkur stólinn fyrir dyrnar.

Helzta skilyrðið er, að hér heima sé útbreitt og varanlegt samkomulag um stefnuna. Hinir erlendu aðilar mundu vilja geta treyst því, að skyndileg stefnubreyting spillti ekki þeirri stöðu, sem þeir voru að sækjast eftir.

Svisslendingum er treyst, af því að þeir eru íhaldssamir, hvort sem þeir eru til vinstri eða hægri. Þar koma ríkisstjórnir og fara, án þess að nokkur taki eftir breytingu. Þannig er ástandið líka í skattaparadísinni Lichtenstein.

Hér á landi er of mikill hávaði í stjórnmálum, þótt ríkisstjórnir séu hver annarri líkar. Hætt er við, að öfundsýki í garð erlendra fyrirtækja og erlends fjármagns sé að sinni meiri en svo, að við getum lært af Sviss og Lichtenstein.

Við gerumst ekki paradís fyrir peninga, heimilisföng fyrirtækja, vörubirgðir og fríhafnariðnað, nema við bægjum frá okkur öfundsýki og hugarfari eignaupptöku. Viðskiptavinir okkar verða að geta treyst því að paradísin sé varanleg.

Ef fyrr eða síðar kemur í ljós, að við séum undir það búin að feta sumar brautir annarra smáþjóða, er nauðsynlegt að vanda vel til verka. Meðal annars er nauðsynlegt að þiggja ráðgjöf frá löndum, sem hafa langa reynslu.

Seðlabankinn er kjörin stofnun til að stjórna skattlausum og vaxtalausum gjaldeyrisreikningum erlendra aðila. Þar á bæ er til þekking á alþjóðlegum fjármálum og alþjóðlegum bankarekstri, sem að öðru leyti er of lítill hér á landi.

Fjármálaráðuneytið mætti gjarna senda menn til Lichtenstein til að læra, hvernig lágir skattar eru notaðir til að ná í fyrirtæki, sem annars mundu greiða skatta í öðrum löndum. Og einnig senda menn til Hong Kong til að læra á fríhafnir.

Ef við vildum, gætum við sett upp fríhöfn við Keflavíkurflugvöll, Straumsvík, Grundartanga og við væntanlega stóriðju á Reyðarfirði. Á ýmsum sviðum getum við orðið paradís í Atlantshafi, af því að við erum nógu litlir og nógu fjarlægir til að ráða okkur sjálfir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við höfum tromp á hendi.

Greinar

Ekki er ástæða til að örvænta, þótt þunglega gangi að venjast stöðnun þjóðartekna. Margt er heilbrigt í þjóðarhag, svo sem full atvinna. Og ýmis ónotuð tromp geta fært okkur góða slagi í bú, ef við höldum rétt á spilunum.

Með hinum sögulegu sáttum á vinnumarkaðinum í sumar hefur þjóðin dregið úr lífskjörum sínum sem svarar helmingi af þeirri skuldasöfnun í útlöndum, er annars var yfirvofandi. Þetta er afar mikilvægt upphaf að nýrri sókn þjóðarhags.

Ef stjórnvöld draga nú verulega úr þeirri fjárfestingu, sem þau stjórna beint og óbeint, má komast langt í að losna við hinn helminginn af skuldasöfnuninni, án þess að draga úr arðbærri fjárfestingu, sem skilar vöxtum og afborgunum.

Full atvinna er það jákvæðasta í efnahagslífinu. Hún gerir okkur kleift að hugsa um framtíðina á annan hátt en þær nágrannaþjóðir geta, sem búa við mikið og vaxandi atvinnuleysi. Hennar vegna getum við hugsað djarfar en ella.

Að vísu er hér dálítið af duldu atvinnuleysi. Annars vegar er hinn hefðbundni landbúnaður mjólkur og kjöts og hins vegar er hinn bólgni opinberi geiri. Hvoru tveggja er haldið uppi með óeðlilegum álögum á skattgreiðendur.

Þess sjást merki, að bændur og forustumenn þeirra eru að byrja að átta sig á sínum hluta vandans. Þeir eru farnir að rifa seglin í hefðbundnum landbúnaði og flýta sér í nýjar búgreinar, þar á meðal iðnað á borð við minka- og refarækt.

Ráðamenn þjóðarinnar gera sér líka grein fyrir, að þeir hafa þanið opinberan rekstur á síðustu árum. Þeir vilja draga af því sama lærdóm og bændur eru farnir að gera. En þeir eiga um leið manna erfiðast með að standast útgjaldafreistingar.

Ekki er nóg að stöðva fjárfestingu í fiskiskipum og draga saman seglin í hefðbundnum landbúnaði og opinberum rekstri. Um leið þarf að hlúa að atvinnutækifærum, bæði fyrir þá, sem koma úr dulda atvinnuleysinu, og þá sem bætast við vinnumarkaðinn.

Ranga leiðin til þess er að nota fjárhagslegt bolmagn ríkisins til að koma á fót iðnaði, sem þegar er of mikið af í heiminum, svo sem vinnslu á salti, sykri, steinull og hugsanlega stáli. Slíkt er bara ávísun á ríkisstyrk.

Rétta leiðin er að búa almennt í haginn fyrir þann iðnað, sem þegar er fyrir, svo að hann geti aukið framleiðsluna og fært út kvíarnar, til dæmis í nýjar greinar. Þetta er alténd sá iðnaður, sem hingað til hefur lifað af súrt og sætt.

Þáttur í þessu er að jafna aðstöðu atvinnuvega í opinberum álögum og lánakjörum. Eyrnamerking í fjárfestingu ætti raunar að hverfa og vextir að verða frjálsir, svo að fjármagnið beinist í auknum mæli í arðbærar áttir.

Ekki er síður mikilvægt, að gengi krónunnar sé jafnan rétt skráð. Hin hefðbundna tregða á að viðurkenna staðreyndir og lækka gengið hefur öðru fremur ruglað þjóðhagsrímið og valdið hrikalegum skaða. Á þessu sviði er siðbótar þörf.

Bezt væri að hætta að skrá gengi krónunnar og láta hana sjálfa um það. Jafnframt væri æskilegt að leyfa notkun annarra gjaldmiðla innanlands til að draga úr möguleikum stjórnmálamanna á að búa til séríslenzka verðbólgu með seðlaprentun.

Heimsins minnsta verðbólga er í Panama, sem prentar enga seðla, hefur engan gjaldmiðil. Flestum mun finnast slíkt nokkuð gróft. En það er kominn tími til, að við losum okkur við verðbólguna. Og til þess þarf að hugsa djarft.

Jónas Kristjánsson

DV

Búskaparraunir til bölvunar.

Greinar

Mitterand forseti og ríkisstjórn Frakklands eru að leika sér að eldinum í tilraunum til að tefja fyrir og helzt hindra aðild Spánar að Efnahagsbandalagi Evrópu. Sú aðild er nefnilega nauðsynleg til að tryggja lýðræði í sessi á Spáni.

Frönsk stjórnvöld eru að gæta hagsmuna eigin landbúnaðar, sem nýtur mikils stuðnings Efnahagsbandalagsins. Meirihluti peninga bandalagsins fer í að kaupa offramleiðslu landbúnaðarafurða, sem er mest í Frakklandi af löndum þess.

Fulltrúar Bretlands hafa með vaxandi þunga barizt gegn þessum fjáraustri. Hingað til hefur árangur þeirra verið fremur lítill. Hins vegar má búast við, að þeim takist að hindra, að innganga landbúnaðarríkja magni peningabrennsluna.

Frakkar sjá því fram á, að minna renni til franskra bænda, þegar spænskir og portúgalskir bændur þrýsta sér að kjötkötlum Efnahagsbandalagsins. Sérstakar áhyggjur hafa þeir af Spáni, af því að það er mun fjölmennara en Portúgal.

Af þessum ástæðum er hugsanlegt, að þröngsýn offramleiðslustefna í landbúnaði, sem við þekkjum mæta vel hér norður við heimskautabaug, geti hindrað fulla þátttöku Spánar í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja.

Skammt er síðan Franco einræðisherra lézt og Jóhanni Karli Spánarkonungi tókst að lauma lýðræði inn um bakdyrnar. Donkíkótar gamla tímans eru enn magnaðir í stjórnmálum, dómstólum og einkum þó í meira eða minna falangískum hernum.

Nauðsynlegt er, að spænskir herforingjar fái tækifæri til að stunda stríðsleiki út á við í Atlantshafsbandalaginu til að draga úr óviðurkvæmilegum áhuga þeirra á spænskum innanríkismálum, sem eiga ekki að koma þeim neitt við.

Ef aðild að Efnahagsbandalaginu bætist ofan á þáttökuna í Atlantshafsbandalaginu, eru Spánverjar orðnir svo grunnmúraðir í vestrænu samstarfi, að útilokað má telja, að falangistum í hernum takist að koma fram stjórnarbyltingu.

Einræði og herræði hefur til skamms tíma þótt næsta hversdagslegt í löndum Suður-Evrópu. Portúgalir fylgdu Spánverjum úr myrkri einræðis. Ekki er langt síðan Grikkir máttu þola herforingja við stjórnvölinn. Og það mega Tyrkir nú.

Eina Miðjarðarhafsland Evrópu, sem á eftirstríðsárunum hefur sloppið við einræði og herræði, er Ítalía. Hafa þó pólitík og efnahagur löngum verið þar á ferð og flugi, kjörinn jarðvegur fyrir patentlausnir einfeldninga í hernum.

En Ítalía hefur allar þessar götur verið einn af hornsteinum samstarfs Vestur-Evrópu, virkur aðili Atlantshafsbandalagsins og Efnahagsbandalagsins. Sú staðreynd hefur fremur en annað tryggt lýðræði og velsæld í sessi á Ítalíu.

Ný aðild Grikklands að Efnahagsbandalaginu er trygging gegn því, að herforingjar nái þar aftur völdum. Með væntanlegri aðild Portúgals verður lýðræði einnig þar fest í sessi. Æskilegt væri að drífa líka Tyrkland inn fyrir dyrnar.

En slagurinn stendur nú um Spán, þar sem framundan er kosningasigur sósíalista og tilheyrandi angist í hernum. Það er siðferðileg skylda Efnahagsbandalagsins að slá skjaldborg um lýðræðisfræið með því að létta Spáni inngönguna.

Lýðræðisþjóðir heims eru fáar og fer fækkandi. Ein ótryggasta víglína þess þjóðskipulags er við suðurströnd Evrópu. Þröngsýn landbúnaðarsjónarmið mega ekki hindra Efnahagsbandalagið í því meginhlutverki að gæta hagsmuna lýðræðis við Miðjarðarhafið.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjármál óskhyggjunnar.

Greinar

Gaman væri að vita, hvort mikið af starfshópum Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra verður enn á lífi á næsta ári á kostnað skattgreiðenda, úr því að talað er um, að sérstök áherzla hafi verið lögð á sparnað við gerð yfirvofandi fjárlagafrumvarpa.

Einu sinni inni, alltaf inni, er almenna reglan um útgjöld fjárlaga. Sparsamir fjármálaráðherrar geta með sæmilegum árangri þvælzt fyrir nýjum útgjaldaliðum. En þeim hefur reynzt nánast ógerlegt að losna við þætti, sem fyrir eru.

Munur aðhalds og eyðslu í rekstri ríkisins er einkum fólginn í, að á sparnaðartímum er nýjum útgjaldaliðum ekki bætt við, heldur er þeim frestað til sóunarskeiðanna. Sparnaðurinn felst nánast aldrei í niðurskurði umsvifa.

Ríkið hefur allt aðra aðstöðu en heimilin, sem verða að haga útgjöldum eftir tekjum. Heimili geta ekki ákveðið að auka tekjur sínar til að mæta útgjöldum. Það getur ríkið hins vegar með skattlagningu og gerir óspart.

Í flestum tilvikum telja fjölskyldur útgjaldaþörf sína mun meiri en tekjur þeirra eru. En óskhyggjan verður að bíða átekta, því að fjárhagsdæmið verður að ganga upp mánuð eftir mánuð. Sumir útgjaldadraumar ná aldrei fram að ganga.

Þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna fjölskyldna dregst saman, svo sem gerist hér á næstu mánuðum, verða fjölskyldur landsins að draga saman seglin, fækka útgjaldaliðum, svo að áfram verði slétt útkoma í mánaðarlegu fjárhagsdæmi heimilisins.

Með skattheimtuvaldinu er ríkið eini aðili þjóðfélagsins, sem hefur aðstöðu til að falla í þá freistni að auka tekjur sínar upp í þau útgjöld, sem ráðamenn ímynda sér, að séu brýn. Og oftast verður freistingin ofan á.

Smám saman leiðir þetta til stækkunar ríkisgeirans á kostnað annarra geira, einkum á kostnað ráðstöfunartekna almennings. Þetta getur þolazt á uppgangstímum, en leiðir á samdráttartímum til óánægju og öngþveitis.

Smíði fjárlaga ætti að hefja með því að ákveða, hver skuli vera hlutur ríkissjóðs í þjóðarbúinu. Er spáð hefur verið í verðbólgustig næsta árs, mundu ráðamenn hafa fyrir sér niðurstöðutölur fjárlaga.

Með samningum ætti síðan að deila fénu niður á einstök ráðuneyti og síðan milli málaflokka og stofnana innan ráðuneyta. Þá loks standa menn andspænis þeim raunveruleika, að einhvern rekstur verði hreinlega að leggja niður.

Þetta er sama hugsun og gildir við meðferð fjármuna heimilanna í landinu. Þetta er heilbrigð fjármálastefna í samræmi við raunveruleika hvers tíma. Þar að auki hamlar hún gegn verðbólgu, með því að draga úr freistingum seðlaprentunar.

Í stað þessa sendir fjármálaráðuneytið öðrum ráðuneytum bréf með beiðni um óskalista. Ráðuneytin senda síðan stofnunum sínum hliðstæð bréf. Þegar allir óskalistarnir hafa safnazt saman, eru niðurstöðutölurnar auðvitað hrikalegar.

Í vandræðum sínum ákveður fjármálaráðuneytið að taka ekki mark á óskalistunum, heldur slengja áætlaðri verðbólguhækkun á alla liði ríkisrekstrarins, hversu misjafnlega þarfir sem þeir eru. Bastarðurinn er svo kallaður fjárlagafrumvarp.

Þau brýnu erindi, sem ekki rúmast í frumvarpinu, eru síðan sett í frumvarp til lánsfjárlaga, svo að óskhyggja ráðamanna megi fá skjóta útrás, þótt það verði á kostnað afkomenda okkar, sem verða að borga skuldasúpuna í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þegar peningar valda tjóni.

Greinar

Þjóðhagsstofnun hefur spáð, að samdráttur fjárfestingar á þessu ári verði minni í landbúnaði og fiskveiðum en í öðrum greinum atvinnulífsins. Við festum fjármuni einkum í greinum, þar sem þegar er búið að fjárfesta of mikið.

Tæpur milljarður króna fer í ár í súginn í fjárfestingu í landbúnaði og fiskveiðum. Annars vegar er atvinnuvegur, sem situr uppi með óseljanlega vöru, og hins vegar atvinnuvegur, sem býr við takmarkaða fiskstofna.

Í hvorugu tilvikinu kemur fjárfest króna að gagni. Þvert á móti spillir hún fyrir. Í landbúnaði stuðlar hún að óþarfri framleiðslu, sem síðan þarf að styrkja með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum á kostnað almennings.

Á móti hverri krónu, sem bóndi fjárfestir í búskap sínum, verða skattgreiðendur að leggja til nokkrar krónur, ekki bara á einu ári, heldur ár eftir ár. Þannig fara raunar í súginn mun meiri peningar en fjárfestingin ein.

Í fiskveiðum stuðlar fjárfesting að minni afla á hvert skip. Hún gerir rekstur útgerðarinnar í heild óhagkvæmari en ella. Hún dregur úr möguleikum sjávarútvegsins á að standa undir þeim lífskjörum, sem Íslendingar hafa tamið sér.

Það gildir því hið sama í fiskveiðum og landbúnaði, að til spillis fer ekki aðeins fjárfesta krónan, heldur margar krónur að auki. Svipað má óbeint segja um ýmsa fjárfestingu hins opinbera, að hún dregur dilk á eftir sér.

Í hvert sinn, sem opinbert hús er reist, er það fyllt af opinberum rekstri, sem ekki var fyrir. Framkvæmdirnar kalla á rekstur, er skattgreiðendur verða að borga ár eftir ár og verður fljótlega margfalt dýrari en sjálf fjárfestingin.

Í þessu tilviki er ekki beinlínis hægt að tala um óþarfa fjárfestingu, því að það er matsatriði, hversu mikil opinber þjónusta eigi að vera. En það gildir þó, að fjárfestingin sjálf er bara byrjunin á útgjöldunum.

Þegar harðnar í ári og almenningur verður að sæta lakari lífskjörum, er eðlilegt, að efazt sé um, að nauðsynlegt sé að fjárfesta fjórðung þjóðarteknanna. Fimmtungur væri nær lagi, þegar ástandið er eins og það er nána.

Ef fjárfesting þjóðarinnar væri minnkuð úr fjórðungi í fimmtung þjóðartekna, mundi hallinn á þjóðarbúinu hverfa og skuldasöfnun í útlöndum stöðvast. Og það er einmitt eitt allra brýnasta verkefni okkar um þessar mundir.

Auðvitað er hægara sagt en gert að minnka fjárfestinguna. Heppilegast væri að minnka einkum þann hluta hennar, sem felst í innkaupum frá útlöndum, svo að samdrátturinn komi síður fram í minni vinnu við framkvæmdir innanlands.

Ríkisstjórn og alþingi hafa bein tök á fjárfestingu hins opinbera með fjárlögum og lánsfjáráætlun, auk allra hinna laganna, sem hafa óbeint fjárlagagildi, af því að þau hafa í för með sér útgjöld til fjárfestingar.

Ríkisstjórn og alþingi hafa óbein tök á fjárfestingu í offjárfestum greinum á borð við landbúnað og fiskveiðar. Byggt hefur verið sjálfvirkt sjóðakerfi með ódýrum lánum, sem þrýsta fjármagni til þessara greina.

Tímabært er orðið, að ráðamenn þjóðarinnar átti sig á, að ýmis fjárfesting, sem beint eða óbeint er á þeirra vegum, felur ekki aðeins í sér sóun peninga, heldur veldur beinlínis skaða þar á ofan. Á slíkri hugljómun er hægt að spara stórfé.

Jónas Kristjánsson.

DV

Næsta skref.

Greinar

Ef hallinn á þjóðarbúinu minnkar úr 10%, sem hann er á þessu ári, í 5% á næsta ári, hefur ríkisstjórnin náð hálfum árangri með bráðabirgðalögunum í ágúst og september. En hinn helminginn þarf líka, ef duga skal.

Hægt er um tíma að reka þjóðarbú með halla, ef skuldasöfnunin í útlöndum er notuð til arðbærra verkefna, sem skila auknum gjaldeyristekjum, þegar kemur að skuldadögunum. En sú hefur ekki verið raunin hér.

Fyrir bragðið hefur skuldabyrðin aukizt óhugnanlega hratt. Hún er nú komin í eða yfir 20% af útflutningstekjunum. Lengra verður ekki gengið á þeirri braut án þess að lenda í vítahring Póllands og Mexíkó.

Á hverju sviðinu á fætur öðru rekum við okkur undir þak. Landbúnaðurinn hefur löngum framleitt vörur, sem enginn þarf á að halda. Sjávarafli er kominn upp fyrir það hámark, sem fiskistofnarnir þola.

Við verðum að gera ráð fyrir, að þjóðartekjur muni ekki vaxa á næstu árum og jafnvel enn skreppa saman. Við verðum því að draga hressilega úr þjóðarútgjöldum og koma þeim niður í sömu tölur og þjóðartekjurnar.

Í ár verður um þriggja milljarða munur á þjóðartekjum og þjóðarútgjöldum. Á næsta ári getur munurinn komizt vegna bráðabirgðalaganna niður í hálfan annan milljarð á núverandi verðlagi. Og þá þarf að finna annan eins sparnað til viðbótar.

Það, sem nú hefur gerzt, er, að ríkisstjórnin hefur þvingað samtök launþega til að sætta sig við skerðingu kaupmáttar, sem nemur um 2% á þessu ári og 6% á hinu næsta. Þjóðin hefur samþykkt að herða mittisólarnar.

Það er sögulegur atburður, að átaka- og verkfallalaust skuli vera unnt að ná víðtæku samkomulagi um, að þjóðin hætti að lifa um efni fram. En jafnframt verður í náinni framtíð erfitt að höggva í sama knérunn.

Hvar á þá að taka hinn helminginn af umframeyðslu þjóðarinnar? Ekki verður hann tekinn af óvenjulega illa stæðum atvinnuvegum. Þeir verða að hafa mátt til að standa undir fullri atvinnu og þjóðarframleiðslu.

Þegar litið er yfir helztu stærðir þjóðarbúsins, sker í augun, að fjórðungur þjóðarteknanna er lagður til hliðar í fjárfestingu – eða svokallaða fjármunamyndun. Þetta er allt of hátt hlutfall á erfiðum tíma.

Hin mikla fjárfesting væri í lagi, ef hún öll skilaði sér aftur í aukinni þjóðarframleiðslu. En það gerir hún ekki, af því að áratugum saman hefur ríkið talið í sínum verkahring að beina henni til forgangsverkefna.

Fjárfestingar ríkisins hafa aukizt ár frá ári að undanförnu. Sem betur fer verður þar um 6% samdráttur í ár og þarf enn að verða á næsta ári. Þar verður næsta þolraun ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpi og lánsfjáráætlun.

Hróplegt dæmi um vitleysu íslenzkrar fjárfestingar er, að í ár er spáð minni samdrætti í fjárfestingu landbúnaður og útgerðar en í öðrum atvinnuvegum. Peningarnir renna til þátta, þar sem þegar er búið að fjárfesta of mikið.

Ríkið hefur stuðlað að þessu og stuðlar enn með því að veita fjárfestingu í landbúnaði og fiskveiðum forgang umfram aðra fjárfestingu. Þetta kemur m.a. fram í sjálfvirkum og háum lánum með ljúfum kjörum.

Ef ríkisstjórnin sparar óþarfa fjárfestingu með því að hætta að veita fjárstraumum í ákveðnar áttir og með því að efla strangan niðurskurð í opinberri fjárfestingu, er hægt að ná jafnvægi í þjóðarbúinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Akkerið trausta.

Greinar

Kristján Eldjárn var traustur persónugervingur hins menningarsögulega akkeris, sem nauðsynlegt er hverri þjóð, er velkist fyrir hömrum torráðinnar framtíðar. Góður byr getur snögglega breytzt í mótvind, en fortíðin er ein og hin sama.

Enginn maður var Kristjáni fjölfróðari á þeim sviðum, sem kölluð eru íslenzk fræði eða íslenzk menningarsaga. Hann var í reynd fornleifafræðingur, sagnfræðingur, þjóðháttafræðingur, bókmenntafræðingur og málfræðingur.

Fræðirit hans fjalla sum um rústir og grafir, önnur um híbýli og hagleiksgripi, einnig um þjóðlíf og atvinnuhætti, enn um örnefni og gildi frásagna og loks um bókmenntir í bundnu máli og lausu. Í öllu þessu var hann á heimaslóðum.

Kristján hafði manna bezt tök á íslenzku máli í ræðu og riti. Í framsetningu vísindalegs efnis hafði hann lag á að gæða mál sitt slíku lífi, að leikmenn gátu hæglega notið þess. Menn lásu rit hans sér til ánægju.

Áður en hann tók við embætti forseta, var hann með almenningi þekktastur fyrir frábæra sjónvarpsþætti um fornleifar. Þar kom ekki aðeins fram vísindamaður og málsnillingur, heldur einnig hjartahlý og alþýðleg persóna.

Kristján Eldjárn stóð traustum fótum í bændamenningu landsins. Hann fór ekki í manngreinarálit og kom vingjarnlega fram við alla. Í góðum hópi var hann sögumaður snjall og gamansamur, hrókur alls fagnaðar.

Gróðurmold Svarfaðardals var honum jafnan hjarta næst. Oftar en einu sinni gat hann þess, að helzt hefði hann viljað vera bóndi. Sem forseti horfði hann meira inn til dala en út til nesja, þótt hann vildi gæta jafnvægis í því sem öðru.

Um leið var Kristján hinn mikli heimsmaður, veraldarvanur í þess orðs beztu merkingu. Málakunnáttu hans var við brugðið. Meðfædd kurteisi og kunnátta í umgengni reyndist honum gott vegarnesti í æðsta embætti þjóðarinnar.

Hann átti því láni að fagna að vera kvæntur Halldóru lngólfsdóttur, rólegri, skarpri og traustri konu, sem létti honum langan vinnudag. Þar sameinuðust sveitin og sjávarsíðan í farsælu hjónabandi og bústjórn á Bessastöðum.

Þjóðin kaus Kristján Eldjárn sem þjóðhöfðingja sinn af því að mannkostir hans og lífssaga gerðu hann að persónugervingi íslenzkrar menningarsögu. Af því ábyrgðarstarfi óx hann eins og af hverju öðru, sem hann tók sér fyrir hendur.

Í tólf ár sat Kristján að Bessastöðum, með ári hverju vinsælli af þjóðinni. Þar naut sín þétt handtak hans, óvenjuleg samræðulist, hispurslaus framganga við erlenda höfðingja og látlaus umgengni við samlanda.

Kristján hafði manna bezt lag á að kynnast fólki. Á þjóðminjaferðum og í forsetastóli eignaðist hann smám saman mun stærri vinahóp en vitað er um aðra Íslendinga. Aldrei sást hann reiðast og alltaf fylgdi honum lífsgleði.

Upphefð steig honum ekki til höfuðs. Til þess var hann of heilsteyptur og öfgalaus, of rótgróinn og víðsýnn, of lærður og listrænn. Þegar hann fór úr embætti var hann hinn sami og hann var, þegar hann tók við því.

DV samhryggist ættingjum og vinum Kristjáns Eldjárns og óskar þjóðinni þess, að áfram muni hún eignast traust akkeri, sem tengja nútíð og framtíð, svo að saga okkur verði heilsteypt á siglingu út á ókunn höf.

Jónas Kristjánsson

DV