Greinar

Þúsund sára dauðinn

Greinar

Eina vikuna hækkar hlutdeild sjúklinga í komugjöldum; aðra vikuna hækkar hlutdeildin í lyfjaverði; þriðju vikuna hækka prófgjöld Háskólans; fjórðu vikuna túlkar ríkisstjórnin dómsúrskurð á þann hátt, að dráttarvextir séu örorkubætur; fimmtu vikuna er sérfræðiþjónusta lækna aftengd kerfinu.

Þetta er stefna þúsund sára dauðans. Jafnt og þétt er höggvið á velferðarkerfi, sem þjóðin kom sér upp, þegar hún var fátæk og taldi eðlilegt, að heilsa, menntun og öryggi væri ókeypis fyrir alla. Nú er þjóðin hins vegar orðin rík og nízk og telur sig ekki hafa efni á þessu gamla kerfi.

Meintur fjárskortur er raunveruleg ástæða flestra áverkanna, sem velferðarkerfið hefur sætt á undanförnum árum. Ríkið þarf að ná endum saman og leysir málið með því að auka beinan og óbeinan hlut fólks í kostnaði við opinbera þjónustu. Hver stunga fyrir sig er óskipulögð redding.

Rök eru til fyrir niðurskurði velferðar. Talið er, að fólk telji sig síður þurfa þjónustu, til dæmis tilvísanir á lyf, ef það veit, hvað hún kostar og þarf að borga hluta af kostnaðinum. Sagt er, að þetta spari þjóðfélaginu ekki bara hluta sjúklingsins, heldur lækki það heildarveltu lyfja.

En það eru líka til rök gegn niðurskurðinum. Talið er, að fátækt fólk neiti sér og sínum um opinbera þjónustu vegna hlutdeildar sinnar í kostnaði. Sagt er, að opinber þjónusta verði smám saman að forréttindum þeirra, sem hafa efni á að leggja fé á móti þeim peningum, sem ríkið tímir að greiða.

Upplýsingar og rökstuddar spár vantar um þessi ferli. Ekki er vitað, á hvaða stigi kostnaðarhlutdeildar fólk hættir að afla sér óþarfrar þjónustu og á hvaða stigi það hættir að afla sér brýnnar þjónustu. Ekki er vitað til, að stefna þúsund sára dauðans byggist á neinni meðvitund um þetta.

Eðlilegt er, að pólitísku öflin í landinu láti skoða skurðpunkta ferlanna, sem hér hefur verið lýst, svo að þau geti, hvert á sínum forsendum, tekið afstöðu til þess, hvenær hámarksárangri er náð í sparnaði óþarfrar þjónustu og hvenær farið er að reka fátæklingana úr velferðarkerfinu.

Í andvaraleysinu magnast stéttaskiptingin. Hluti þjóðarinnar getur ekki notað sér opinbera þjónustu á borð við heilsugæzlu og framhaldsmenntun, af því að það hefur ekki ráð á að leggja fé á móti. Smám saman snýst velferðarkerfið í andstæðu sína og verður að styrkjakerfi fyrir vel stæða.

Með stefnu þúsund sára dauða velferðarkerfisins breytumst við í stéttskipta og sundraða þjóð með nýrri stéttabaráttu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótti og skelfing

Greinar

Ótti og skelfing

Það, sem við köllum hryðjuverk, kalla flestar evrópskar þjóðir terrorisma. Íslenzka orðið nær aðeins hluta hins vestræna innhalds orðsins, hluta af vopnabúri terrorista. Markmið þeirra eru ekki hryðjuverkin sjálf, heldur óttinn og skelfingin, sem stafar af ítrekuðum ógnunum terrorista.

Mikill þýðingarvandi af þessu tagi stafar sumpart af orðafæð íslenzkrar tungu og sumpart af leti þeirra, sem snara erlendum fréttum á íslenzku. Til dæmis lýsa þeir vegakorti friðar í Miðausturlöndum sem vegvísi. En vegvísir er allt annað en vegakort og skekkir upphafshugtakið “road map”.

Vegna notkunar íslenzka orðins hryðjuverk fyrir hugtakið terrorisma hættir okkur til að telja sjálfum okkur trú um, að markmið svonefndra hryðjuverkamanna sé að fremja hryðjuverk. Við skiljum ekki, að markmiðið er að framkalla hughrif og gagnaðgerðir, sem þjóna hagsmunum terrorista.

Ef frá eru taldar ýmsar ríkisstjórnir eru Al Kaída skelfilegustu ógnarsamtök nútímans. Þau dafna frá degi til dags og nærast mest á aðgerðum Bandaríkjanna gegn ýmsum ríkjum Íslams og eindregnum stuðningi þeirra við Ísrael, róttækt hryðjuverkaríki, sem níðist á Palestínumönnum.

Bandaríkin einbeita sér ekki að Al Kaída með fjölbreyttum aðgerðum, sem hæfa andstæðingi, er kemur og fer eins og þjófur á nóttu. Í staðinn senda þau hefðbundinn her til að níðast á Írökum, sem ekki hafa árum saman haft nein gereyðingarvopn og höfðu engin samskipti við Al Kaída.

Osama bin Laden finnst ekki. Engu máli skiptir, hvort hann er lifandi eða dauður. Aðferðafræði hans þenst út með ógnarhraða. Hún er þegar farin að hafa umtalsverð áhrif á lífshætti Vesturlandabúa, einkum Bandaríkjamanna, sem sætta sig við, að ríki þeirra er að breytast í lögregluríki.

Gegn vilja alþjóðasamtaka flugmanna og fjölmargra ríkisstjórna verða vopnaðir vígamenn settir um borð í allar flugvélar, sem fljúga til og frá Bandaríkjunum. Fólk verður fyrir margvíslegum óþægindum, sem ná hámarki í að vera fangelsaður árum saman án dóms og laga vegna misskilnings.

Varaforseti Bandaríkjanna faldi sig neðanjarðar vikum saman. Töluverður hluti þjóðarinnar hefur látið skelfinguna heltaka sig og sér óvini í hverju horni. Þetta notar ríkisstjórnin sér til að afla stuðnings við ofbeldi gegn umheiminum, sem leiðir til sívaxandi straums í raðir sjálfsmorðssveita.

Hér getum við lítið gert gegn vítahringnum annað en að reyna að forðast að láta terrorista komast upp með að sá ótta og skelfingu í hugsun og viðbrögð okkar og ráðamanna okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagstætt og hættulegt

Greinar

Hættulegt er fyrir fólk að taka íbúðalán í erlendri mynt. Þeir, sem hafa launatekjur í krónum eiga að taka lán í krónum. Allt öðru máli gegnir um fyrirtæki, sem hafa tekjur í erlendri mynt. Þau eiga að taka sín lán í erlendri mynt í sama mæli og tekjur þeirra. Þannig jafna þau áhættu sína.

Gengi krónunnar og gengi annarra mynta breytist. Oft valda þessu aðstæður í umheiminum, sem ekki voru fyrirsjáanlegar, þegar lánið var upphaflega tekið. Sem dæmi má nefna dollarann, sem hefur lækkað ört á undanförnum misserum vegna breyttrar stefnu ríkisfjármála, um 16% á síðasta ári.

Þegar launamenn taka íbúðalán í erlendri mynt, eru þeir farnir að spekúlera í of stórum stíl til of langs tíma. Spurning er, hvort þeir hafi allir næga þekkingu til að braska þannig með fjöregg sitt. Fólk getur hæglega orðið gjaldþrota, ef dollari hækkar snöggt í fyrra verðgildi.

Hins vegar er ánægjulegt, að íbúðalán eru að hækka og vextir þeirra að lækka. Það stafar auðvitað af aukinni samkeppni á markaði lánastofnana. Bankarnir eru farnir að seilast inn á verksvið Íbúðalánasjóðs og valda titringi, sem leiðir til lægri vaxta og greiðari aðgangs að hærri fjárhæðum en áður.

Málin þróast ört í átt að því eðlilega ástandi, að fólk geti á einum stað fengið um 100% lán á um það bil 4% vöxtum og tekið á sig 5.000 króna greiðslubyrði á mánuði á hverja milljón. Þá verður greiðslubyrði fólks af 15 milljón króna íbúðaláni komið niður í 75.000 krónur á mánuði í 25 ár.

Þetta er í samræmi við ástandið í kringum okkur. Þar þarf fólk ekki að hafa neitt handbært fé til íbúðakaupa, ef það getur sýnt fram á fastar tekjur. Þar þarf ríkið ekki að niðurgreiða vexti, af því að þar eru 4% vextir eðlilegir. Hærri vextir hafa lengi verið séríslenzkt fyrirbæri.

Breytingar á íbúðalánum eru angi af aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu og gegnum hana af óbeinni aðild okkar að hnattvæðingunni. Stjórnvöld eiga erfiðara með að halda uppi séríslenzkum vandamálum og verða í auknum mæli að haga sér eins og þykir vera sjálfsagt í viðskiptalöndum okkar.

Frjálsari fjármagnsstraumar hnattvæðingarinnar eru bæði hagstæðir og hættulegir. Í húsnæðiskaupum eru þeir almenningi hagstæðir, af því að þeir munu fyrr eða síðar gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið á hóflegum vöxtum án þess að þurfa að vera á tauginni árum saman.

En frelsið er líka hættulegt þeim, sem ekki hafa þekkingu eða aðstöðu til að átta sig á, hvernig gengi mynta muni breytast á næstunni. Þeir ættu að halda sig við krónuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsæi er bezt

Greinar

Góð reynsla er af að láta sömu lög og reglur gilda hér á landi og í þeim löndum, sem við höfum mest samskipti við. Þess vegna höfum við tekið upp og erum enn að taka upp aragrúa af evrópskum reglum, sem meðal annars hafa að markmiði að auka í senn frelsi og aðhald í efnahagslífinu.

Slæm reynsla er hins vegar af þeirri skoðun, að Ísland sé öðru vísi en önnur ríki og þess vegna eigi að hafa hér öðru vísi lög og reglur en í nágrannalöndunum, svo sem haldið var fram í svonefndri Eysteinsku. Þá ríktu hér Fjárhagsráð og fleiri skömmtunarstofur, svo og margs konar krónugengi.

Vegna þessa er ekki skynsamlegt að setja hér á landi séríslenzk lög og séríslenzkar reglur gegn einokun og hringamyndun í atvinnulífinu í heild eða í einstökum greinum þess. Miklu betra er að láta kanna, hvort íslenzki ramminn sé öðru vísi en annars staðar og laga hann að Evrópu.

Á Vesturlöndum hafa stjórnvöld almennt áttað sig á, að boð og bönn eru ekki rétta leiðin til árangurs. Boð og bönn framleiða grá svæði. Fyrirtækin ráða sérfræðinga til að finna, hvernig megi túlka gráu svæðin sér í hag, teygja þau og toga, oftast í skjóli leyndar um framferði fyrirtækja.

Hneyksli á borð við Enron í Bandaríkjunum og Parmalat á Ítalíu hafa leitt til aukins fylgis ráðamanna vestrænna ríkja við tærara gegnsæi í þjóðfélaginu. Meðal annars hafa fjármálaráðherrar Evrópu einróma samþykkt að afnema bankaleynd í áföngum og skiptast á upplýsingum um skatta.

Með því að varpa hulu af leyndarmálum fyrirtækja og stofnana geta allir og þar á meðal almenningur séð, hvernig er í pottinn búið og tekið afstöðu til þess. Menn telja reynsluna sýna, að gegnsæi sé áhrifaríkari leið en boð og bönn til að fá fyrirtæki og stofnanir til að haga sér skikkanlega.

Sem dæmi um gegnsæi má nefna, að alltaf séu til aðgengilegar upplýsingar um, hverjir eigi fyrirtæki í hvaða hlutfalli, hvaða samband sé milli fyrirtækja í sama geira og hvaða greiðslur eða fríðindi renni til stjórnmálaflokka, stjórnmálamanna og annarra valdaaðila í þjóðfélaginu.

Ekki er trúverðugt, þegar forsætisráðherra vill setja lög um einokun og hringamyndun, af því að það voru ekki réttir aðilar, sem keyptu. Meira traust mundi stafa af aðgerðum til að taka upp sama gegnsæi í fjármálum og viðskiptum og aðrar þjóðir eru að gera. En þá færi gamli kolkrabbinn að gráta.

Jónas Kristjánsson

DV

Ár hins illa

Greinar

Fyrir nokkrum árum virtist mannkynið á leið til betra heims undir forustu Vesturlanda. Heimsveldi Sovétríkjanna og leppríkja þeirra var hrunið til grunna og eftir stóðu lýðræði, markaðsbúskapur og velferðarstefna sem algild markmið mannkyns. Mannkynssagan er á enda, sögðu fræðimenn.

Menn gældu meira að segja við þá hugmynd, að lýðræðisríki heimsins mundu bindast samtökum á borð við Evrópusambandið, veita hvert öðru aðgang að fjármagni, markaði, velferð og pólitískum stuðningi. Velgengni þessa hóps mundi soga að sér önnur ríki og harðstjórnir mundu hrynja um allan heim.

Þetta fór ekki svo. Margt hefur bilað í hinni vestrænu heimsmynd. Fáokun markaðsrisa hefur haldið innreið sína. Hér á landi skipta litlir risar með sér markaði og erlendis etja stærri risar til kapps við þjóðríki um völd og áhrif.

Hnattvæðingin sýnir dökkar hliðar, þar á meðal græðgisvæðinguna, sem við þekkjum við hér, allt frá forsætisráðherra yfir í bankastjóra. Í nokkur ár hafa dæmi um óheyrilega græðgi erlendra stórfyrirtækja komið í ljós í dómsmálum. Mikið vill ekki bara meira, heldur margfalt meira.

Efling þjóðarhags fer í flestum vestrænum ríkjum eingöngu í vasa hinna gráðugu. Í Bandaríkjunum versnar hagur millistétta og hinir fátæku komast á vonarvöld. Víðast á Vesturlöndum er byrjað að saxa niður velferð. Almenningur hættir senn að hafa hag af viðgangi vestræns hagkerfis.

Hræsnin tengir græðgina við völdin. Lengst hefur þetta gengið í bandarískri pólitík, þar sem menn þykjast vera andstæðan við það, sem þeir eru. Undir fölskum flöggum rústa bandarísk yfirvöld umhverfinu, samstarfi við vestræn ríki og fjölþjóðastofnanir og efna til átaka við þriðja heiminn.

Undir yfirskini baráttu gegn hryðjuverkum á Vesturlöndum og gereyðingarvopnum í höndum harðstjóra, var háð mannskætt stríð við Írak, þar sem þúsundir óbreyttra borgara létu lífið. Þar í landi voru hvorki nein gereyðingarvopn né nein miðstöð Al Kaída eða annarra slíkra samtaka gegn vestrinu.

Vaxandi ofbeldi hangir á sömu spýtu og vaxandi græðgi og hræsni í heiminum, einkum af hálfu Vesturlanda og allra mest af hálfu Bandaríkjanna, þar sem komið hafa til sögunnar ráðamenn, er flétta ofbeldi, græðgi og hræsni saman við trúarofstæki og róttæka hægri stefnu stéttaskiptingar.

Yfirstéttin hefur öðlazt aukna tækni við að villa um fyrir fólki og slá skjaldborg margslunginnar hræsni um hagsmuni sína. 2003 var árið, þegar hin illu öfl ofbeldis og græðgi, hræsni, trúarofstækis og stéttaskiptingar komust á flug vestan hafs, mögnuðust í Evrópu og brennimerktu Ísland.

Jónas Kristjánsson

DV

Verri en Vítisenglar

Greinar

Til þess eru Vítisenglar að varast þá. Það getum við lært af mistökum löggæzlu annars staðar á Norðurlöndum. Andvaraleysi stjórnkerfisins á fyrri árum hefur gert vélhjólagengjum kleift að verða ríki í ríkinu. Þarlend yfirvöld sjá eftir linkind sinni og vara okkur við að lenda í sömu ógæfu.

Ísland er eyja með góðri aðstöðu til að hafa hemil á innflutningi hættulegs fólks og hættulegs varnings. Rétt er að nota þessa aðstöðu til að vísa frá landinu fólki, sem tengist þrautreyndum glæpasamtökum á borð við Vítisengla, og hafa strangt eftirlit með aðdáendum þeirra innanlands.

Vítisenglar eru sams konar fyrirbæri og mafían. Þau leggja til atlögu við ríkisvaldið með því að verða ríki í ríkinu. Í undirheimum þeirra ríkja lög og reglur, sem meira eða minna stangast á við lög og reglur þjóðskipulagsins og ógna öryggi skjólstæðinga þess, hinna almennu borgara landsins.

Á jaðri undirheimanna eru fíklar, sem fjármagna neyzlu sína með innbrotum, ránum, ofbeldi og aðstoð við dreifingu eiturefna og síðast en ekki sízt með því að þegja um vitneskju sína. Þetta jaðarfólk er hræddara við handrukkara og ofbeldismenn undirheimanna en við verði laga og réttar.

Þannig myndast verndarhjúpur utan um gengin, sem grafa undan lögum og rétti. Hér á landi hefur gengið illa að rjúfa þennan hjúp, þótt flestir glæpir, sem komast upp, tengist neyzlu vímugjafa. Lögreglunni hefur gengið illa að rekja sig upp eftir söluþráðum til kóngulóa fíkniefnamarkaðarins.

Hingað til hafa hér á landi einkum verið klófestir milligöngumenn og smásalar, en fáir heildsalar, nema þá bjánar, sem ekki kunnu að dyljast, notuðu til dæmis stéttartákn á borð við BMW-bíla. Lögreglan hefur náð of litlum árangri í að negla höfuðpaura undirheimanna.

Norrænir vítisenglar eru harðari í horn að taka en þeir, sem hingað til hafa verið gripnir hér. En þeir eru sömu bjánarnir, bera til dæmis tákn, sem auðvelda gagnaðgerðir. Auðvelt er að finna þá og snúa þeim frá, sem hafa áður verið myndaðir með einkennistáknum glæpagengja í bak og fyrir.

Aðgerðum gegn Vítisenglum ber að halda áfram af krafti. En þeir standa ekki efstir á glæpahaugnum. Lögreglan þarf að finna leiðir til að rekja sig upp eftir markaðsþráðum fíkniefnaheimsins og finna þá, sem eru enn verri og dyljast í einkennisbúningi jakka og bindis góðborgarans.

Mikilvægast er í fyrstu að fá jaðarmenn til að segja frá. Til þess þarf að vera hægt að tryggja öryggi þeirra og aðstandenda þeirra fyrir refsingum undirheimanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Þetta taumlausa ég

Greinar

Græðgin hefur ekki aðeins heltekið forsætisráðherra okkar, nokkra bankastjóra og einkavæðingarforstjóra. Að mati ríkisskattstjóra nær græðgisvæðingin einnig til fyrirtækja, er ráða sérfræðinga til að komast undan hinni sáralitlu hlutdeild, sem fyrirtækjum er ætlað af skattbyrði landsins.

Viðbrögð sérfræðinga og forstjóra eru eins og í pólitík, bönkum og einkavæðingu. Forkláraðir farísear jesúsa sig í bak og fyrir og furða sig á grófu orðbragði ríkisskattstjóra. Það jaðrar raunar við meintan dónaskap fjölmiðla, sem níðast á ráðherra, er segist ramba við dauðans dyr.

Græðgisvæðingin er raunar ekki neitt séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur hún á síðustu misserum orðið að svinghjóli alþjóðastjórnmála. Ríkisstjórn Bandaríkjanna tók snemma eindregna forustu á þessu sviði, en nú eru ríkisstjórnir annarra auðríkja farnar að taka hana sér til fyrirmyndar.

Liðinn er tíminn, þegar Bandaríkin veittu Evrópu Marshall-aðstoð, Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar á grunni fagurra sáttmála og Evrópusambandinu var hvað eftir annað ýtt á æðra tilverustig að undirlagi pólitískra embættismanna, sem höfðu markmið sameiginlegs ávinnings allra aðila að leiðarljósi.

Ekki eru mörg ár síðan ríki fórnuðu hiklaust ýmsum sérhagsmunum í þágu meiri sameiginlegra hagsmuna. Þannig borguðu Bretland og Þýzkaland gustukafé til fátækra héraða Evrópu. Nú dettur engum í hug að fórna fimmeyringi fyrir hugsjónir, sem hafa flutt mannkynið fram eftir vegi.

Nú tala Bandaríkin aðeins með hótunum og ógnunum við fyrrverandi bandalagsríki í Evrópu. Bandaríkin neita nánast öllu samstarfi við umheiminn, allt frá Kyoto-bókun yfir í stríðsglæpadómstól. Viðkvæðið er alltaf það sama: Samstarfið getur skaðað hagsmuni Bandaríkjanna og heft svigrúm þeirra.

Evrópa er að verða eins. Frakkland og Þýzkaland neita að borga sektir fyrir meiri halla á fjárlögum en myntbandalag Evrópu leyfir og komast upp með það í krafti stærðar sinnar. Spánn og Pólland neita að samþykkja jafnari atkvæðisrétt í Evrópusambandinu, af því að þau hugsa bara um eigin hag.

Frakkland og Þýzkaland ná sér niðri á Spáni og Póllandi með því að frysta greiðslur til þróunar fátækra svæða í Evrópu. Smáseiði á borð við Tékkland og Ungverjaland segjast í skelfingu sinni enga aðild eiga að græðgi Spánar og Póllands og bjóða fram aðild sína að fransk-þýzkri innherjaklíku.

Þegar bandaríki og ríkjasamtök tapa áttum vegna taumlausrar græðgi einstakra ríkja, er skiljanlegt, að íslenzk fyrirtæki ráði skattleysisfræðinga og forsætisráðherra láti klæðskerasauma fyrir sig lög um himinháan starfslokasamning. Það er tíðarandinn. Þetta taumlausa ég.

Jónas Kristjánsson

DV

Hausinn af Hussein

Greinar

Óræstilegur og einmana Saddam Hussein hafði ekki stjórnað einu eða neinu, þegar hann var dreginn upp úr rottuholu sinni í nágrenni Tikrit, allra sízt skæruliðum gegn bandaríska hernáminu. Í landinu eru að minnsta kosti 15 virk samtök skæruliða gegn hernáminu. Flest þeirra börðust gegn Hussein, þegar hann var við völd.

Þetta var ekki lengur reigður harðstjóri, heldur einmana öldungur, sem hafði mánuðum saman haldið til í skúmaskotum og rottuholum með kreppta hendi um fulla tösku af dollurum. Þetta var enginn Osama bin Laden eða Múhammeð Ómar, heldur uppgefinn flóttamaður, sem varðist ekki einu sinni, þegar hann var tekinn.

Myndirnar sýna, að mannkynið hefur lítið breytzt undir slæðu siðmenningarinnar. Ekki er lengur hægt að draga hinn sigraða í hlekkjum á eftir sigurvagni keisarans eins og í Róm fyrir tvöþúsund árum eða setja afhöggvinn haus hans á spjótsodd í borgarhliði. En það er hægt að niðurlægja hann með myndum.

Bush-ættin hefur sigrað Hussein-ættina, drepið synina og sýnt úfinn hausinn á föðurnum. Bandaríkjamenn gleðjast og sýna í könnunum aukinn stuðning við forseta sinn. Vinsældamælir hans hrökk úr 52 prósentum í 58 prósent og jafnsnöggt fjölgaði þeim úr 47 prósentum í 64 prósent, sem telja stríðið gegn Írak ganga vel.

Saddam Hussein verður dreginn fyrir dóm og sennilega drepinn, af því að George W. Bush vill það og af því að tugþúsundir Íraka eiga um sárt að binda af völdum harðstjórans. Heimamenn munu dæma um málið, en ekki fjölþjóðlegur dómstóll eins og áður, svo sem í Nürnberg, Kosovo, Austur-Tímor, Bosníu, Rúanda og Sierra Leone.

Ef alþjóðadómstóll færi með málið, mundu stríðglæpir Saddam Hussein gegn Íran komast í sviðsljósið. Hvattur af Bandaríkjunum og Bretlandi efndi hann til stríðs, þar sem milljón manns féllu, meðal annars fyrir efnavopnum, sem hann fékk hjá glæpamönnum, sem nú eru varaforseti og stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna.

Saddam Hussein var vondur harðstjóri eins og margir aðrir, þar á meðal harðstjórarnir, sem Bandaríkin styðja í langtburtistan-ríkjunum norðan Afganistans. Haus hans var ekki sýndur, af því að hann er skíthæll, heldur af því að einu sinni var hann “okkar” skíthæll, sem hélt að hann gæti verið skíthæll fyrir eigin reikning.

Ekki hentar sigurvegurunum, að stríðið gegn Íran verði rifjað upp. Því munu réttarhöldin láta það liggja milli hluta, enda af nógu að taka. Réttlæti nær stundum fram að hluta, en hræsnin er eilífur sigurvegari. Og framhjá því verður ekki litið, að Saddam Hussein á ekki skilið neina samúð fyrir, að nú sé úr honum allur vindur.

Jónas Kristjánsson

DV

Græðgi og gullfiskar

Greinar

Eins og eldur í sinu um óðul yfirstéttarinnar fer græðgisvæðingin, sem fylgir einkavæðingunni. Bankastjórar bera sig saman við erlenda bankastjóra og forsætisráðherra vill ekki vera minni en bankastjórar. Hans starfslokasamningur á að nema rúmlega hálfum milljarði samkvæmt reikningi Alþýðusambandsins.

Skemmtilegar eru röksemdir græðginnar. Forsætisráðherra segist nánast liggja við dauðans dyr og telur ævi sína muni enda um sextugt. Aðrir ræða, hversu nauðsynlegt sé langþreyttum ráðherrum og þingmönnum að setjast snemma í helgan stein eftir að hafa verið á tauginni árum saman í pólitísku vafstri.

Ekki skal dregið í efa, að það getur tekið á taugar að lifa tvöföldu og jafnvel margföldu lífi, telja sig þurfa að lofa fólki gulli og gersemum upp í ermina á sér og þurfa síðan að útskýra svikin loforð. Það er líka þreytandi að þurfa að muna, hvenær maður laug hverju og hvernig maður geti haldið áfram að spinna vefinn.

En einnig getur verið þreytandi að vinna láglaunavinnu. Erfitt getur verið að skúra gólf í tvo áratugi, vita ekki, á hverju á að lifa síðustu viku mánaðarins, og fá síðan uppsagnarbréf í starfslokasamning. Ekki hefur verið borin saman streita og meðalævi stjórnmálamanna og bankastjóra annars vegar og púlsmanna hins vegar.

Í meira en öld hefur ekki verið eins mikill munur á Jóni og séra Jóni og þau jól, sem nú ganga í garð með hundruðum milljóna í jólasokki forsætisráðherra. Þeir, sem stjórna tekjum toppanna í þjóðfélaginu virðast markvisst vilja gera þeim kleift að éta þúsund kanilsnúða og drekka þúsund kaffibolla á dag í ellinni.

Hvað á bankastjóri að gera við treikvart milljarð krónur í bónus og hvað á forsætisráðherra að gera við hálfan milljarð í eftirlaunasjóð? Hvort tveggja er langt umfram það, sem almenningur getur ímyndað sér að hægt sé að eyða. Ekki eru þetta kröfur markaðsins, því að nóg er af fólki, sem býðst til stjórnmálastarfa.

Ekki alls fyrir löngu var sagt í fúlustu alvöru, að toppurinn í þjóðfélaginu eigi að hafa tvöfaldar tekjur botnsins. Raunveruleiki græðgisvæðingarinnar er tuttugufaldur munur, þrítugfaldur og fertugfaldur, þegar fríðindi á borð við starfslokasamninga og kauparétt eru talin með. Og munurinn fer ört vaxandi.

En þetta er hægt, af því að pólitíkusar vita af langri reynslu, að flestir kjósendur eru bjánar með gullfiskaminni. Eftir uppistand aðventunnar verður græðgisvæðing stjórnmálanna gleymd og grafin, þegar kemur fram á nýtt ár. Hvað þá þegar koma nýjar kosningar með ný loforð handa öryrkjum og sjúklingum á sífellt lengri biðlistum.

Græðgisvæðing stjórnmálanna er bein afleiðing þeirrar ógæfu, að nógu margir bjánar með gullfiskaminni leyfa fámennri yfirstétt að stjórna stóru og smáu í þágu yfirstéttarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Gin ljónsins

Greinar

Vanhugsað er að senda Íslendinga til starfa í Afganistan um þessar mundir. Þetta er enginn Balkanskagi, þar sem hjálparfólk safnar blómvöndum, heldur einn hættulegasti staður heims, vígvöllur vestræns hernámsliðs, grimmra herstjóra og framleiðenda meirihluta alls ópíums í heiminum.

Hatursfullir Afganar gera lítinn greinarmun á hernámsliði Vesturveldanna og borgaralegum starfsmönnum, sem eru beint eða óbeint á vegum þess, þar á meðal flugumferðarstjórum. Íslenzka utanríkisráðuneytið getur ekki ábyrgzt líf og limi fólks, sem fer til Afganistan á þess vegum eða Nató.

Ástandið í Afganistan er orðið verra en það var á valdatímum Talíban. Innlendu herstjórarnir, sem komust að nýju til valda í skjóli hins vestræna hernáms, lifa á framleiðslu og sölu eiturlyfja og sjá til þess, að lög og réttur er hvergi nokkurs metinn utan við borgarmiðjuna í höfuðstaðnum Kabúl.

Að minnsta kosti ellefu hjálparstarfsmenn hafa verið myrtir síðustu þrjá mánuði og margir tugir hafa særzt. Andstæðingar leppstjórnar Bandaríkjanna í Kabúl beina í auknum mæli spjótum sínum að borgaralegu starfsfólki vestrænu til að sýna fram á, að landinu verði ekki stjórnað án þeirra.

Bandaríska hernámsliðið gerði þau mistök að skipa ekki neinn ráðherra af þjóðflokki Pastúna, annan en forsætisráðherrann Hamid Karzai, sem almennt er talinn leppur Bandaríkjanna. Fólk af þessum langfjölmennasta þjóðflokki Afganistans telur sig ekki hafa öðlast neina aðild að stjórn landsins.

Bandaríska hernámsliðið drepur óbreytta borgara í auknum mæli. Framganga þess hefur magnað andstöðu og hatur alls almennings í landinu, ekki bara Pastúna. Morð þess á fimmtán börnum um síðustu helgi urðu ekki til að bæta ástandið. Það er tómur þvættingur, að íbúar í landinu styðji hernámið.

Ekki má gleyma, að allar líkur eru á, að Osama bin Laden, leiðtogi Al Kaída, og Múhammeð Ómar, leiðtogi Talíban, leiki enn lausum hala, ýmist í Afganistan eða í Pakistan, sem er bandalagsríki Bandaríkjanna. Hryðjuverkasamtök, sem átti að uppræta, lifa góðu lífi og hlaða að sér nýjum fylgismönnum.Bjánaleg stefna íslenzka utanríkisráðuneytisins í óviðkomandi deilumálum í fjarlægum heimshlutum felur í sér aðild að blóðugri og misheppnaðri styrjaldarstefnu Bandaríkjanna, sem sætir almennri fordæmingu um allan heim, jafnt meðal almennings á Vesturlöndum sem annars staðar.

Vanhugsuð aðild íslenzka utanríkisráðuneytisins að hataðri stríðsstefnu er ekki til þess fallin að slá skjaldborg um fólkið, sem ráðgert er að senda er beint í gin ljónsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Vegurinn til vítis

Greinar

Venjulegir stjórnmálamenn og illa skaffandi fyrirvinnur vilja láta meta sig eftir góðum vilja sinum til góðra verka, en ekki eftir raunverulegum verkum, sem standa viljanum oft langt að baki. Þetta er samkvæmt enska spakmælinu, sem segir, að vegurinn til vítis sé varðaður góðum áformum.

Ég lofa að drekka ekki á jólunum segir heimilisfaðirinn og meinar það í alvöru. Þegar annað hefur komið á daginn og hann er kominn í vandræði á heimilinu, sýnir samanlögð reynsla ráðgjafarbransans, að hann vill vera metinn af góðum vilja sínum og að strikað sé yfir fótaskort á góðviljanum.

Raunar er ævi stjórnmálamannsins enn flóknari. Hann er ekki bara það, sem hann vill vera og það, sem hann er í raun. Hann er líka það, sem hann þarf að vera til að svara kröfum gengisins, stjórnmálaflokksins og ríkisstjórnarinnar í hans tilviki, en vonds félagsskapar í tilvikum sumra annarra.

Dæmi um þetta er nýr þingmaður, sem áður var talsmaður stúdenta og heimtaði meira fé til háskólans, en greiðir nú atkvæði gegn auknu fé til hans. Á vefsíðu sinni segist hann vera í liði, eins konar fótboltaliði, verði að fylgja sínu liði og ekki samþykkja neitt frá andstæðingum á þingi.

Við þetta bætist, að hefðir lýðræðis segja æskilegt, að stjórnmálamaður sé góðra manna fyrirmynd. Hann eigi helzt að vera eins konar Móses, sem leiðir þjóðina yfir eyðimörkina, unz fyrirheitna landið er í augsýn, eða eins konar Jón Sigurðsson, sem segir á örlagastundu: Vér mótmælum allir.

Þannig búa margar persónur í einum ráðherra, hvort sem hann er heilbrigðisráðherra eða einhver annar. Hann er í senn það, sem hann vill vera; það, sem hann er í rauninni; það, sem hann verður að vera vegna aðstæðna; og það, sem hann ætti að vera, ef hann færi eftir háleitum hugsjónum.

Vegna samsláttar þessara persóna gefur heilbrigðisráðherra ýmis svör, sem fela efnislega í sér, að hann sé góðmenni, sem vilji öryrkjum vel, sé þeim betri en aðrir hefðu orðið, en erfiðar aðstæður á borð við sambandsleysi í stjórnkerfinu og vondur félagsskapur hans hindri fullnustu góðviljans.

Skilja má persónuklofning ráðherrans. En góðmenni fást í kippum. Hrifnari hefðu menn orðið, ef hann hefði barið í borðið í ríkisstjórninni og sagt efnislega: Ég mótmæli allur.

Jónas Kristjánsson

DV

Lögregluofbeldi

Greinar

Simon Chapman hefur setið í fangelsi síðan hann var gripinn í lögregluóeirðum í tengslum við toppfund Evrópusambandsins í Saloniki í júní. Myndskeið sjónvarpsstöðvar sýnir hann þar með bláan bakpoka. Annað myndskeið sýnir lögreglumenn troða sprengiefni í svartan bakpoka. Lögreglan lýgur, að Chapman hafi verið með svarta pokann, þegar hann var handtekinn.

Ítalskir lögreglumenn urðu að játa, að þeir höfðu sjálfir komið fyrir benzínsprengjum í skóla, þegar fundur auðríkja heims var haldinn í Genova í júlí árið 2001. Þeir notuðu fölsunina til að ráðast á sofandi hóp ungmenna, sem höfðu tekið skólann á leigu fyrir svefnskála. Lögreglan misþyrmdi þeim, svo að gera varð að sárum 60 ungmenna.

77 lögreglumenn voru dæmdir fyrir óeirðirnar. Fyrir dómstóli kom fram, að meðal annars höfðu þeir falsað sönnunargögn og látið líta út fyrir, að einn lögreglumaðurinn hefði orðið fyrir hnífstungu. Engin furða er, þótt víða vantreysti menn lögreglunni á þessum síðustu tímum mikils ágreinings og mótmæla út af grundvallaratriðum í stjórnmálum.

Eftir auðríkjafundinn í Genova kom í ljós, að lögreglan hafði stöðvað þúsundir friðsamra mótmælenda við landamærin en hleypt inn þekktum nýnazistum, sem síðan fengu að brjóta rúður í borginni og kveikja í bílum til að koma óorði á mótmælendur, svo að lögreglan fengi tækifæri til að efna til lögregluóeirða víðs vegar um borgina.

Sama ár voru spænskir lögreglumenn áminntir í Barcelona fyrir að klæða sig í gervi mótmælenda og brjóta rúður á veitingahúsum til að koma illu af stað. Í Washington í Bandaríkjunum fann lögreglan svokallaðan piparúða og benzínsprengjur á skrifstofu mótmælenda. Sönnunargögnin reyndust síðan vera þurrkaður chili-pipar og terpentína.

Við sjáum framhaldsþætti í sjónvarpi, þar sem hetjur í brezkri leyniþjónustu eiga í höggi við stórhættulegt fólk, sem mótmælir umhverfisspjöllum, kjarnorkuúrgangi, hnattvæðingarfundum og fleiru slíku. Slíkir þættir eiga að telja fólki trú um, að friðsamir borgarar, sem hafa skoðanir, megi gjarnan vera fórnardýr lögregluóeirða.

Nýlega sáum við í sjónvarpi myndskeið af hópi lögreglumanna í Charleston ganga með barsmíðum af offitusjúklingi dauðum. Slík myndskeið hafa verið árviss í fréttum af lögregluofbeldi í Bandaríkjunum, sem smám saman eru að breytast í lögregluríki í kjölfar ótta við hryðjuverk.

Í ljósi vaxandi vanda á þessu sviði er ástæða til að fagna, að ráðamenn í lögreglunni á Íslandi skuli ekki bera blak af skallabullum, sem stunda lögregluofbeldi og skjalafals.

Jonas Kristjansson

DV

Að hætti Hittíta

Greinar

Nýjasta og flóknasta tölvukeyrsla á samanburði tungumála sýnir, að íslenzka er eins og önnur indóevrópsk mál ættuð frá fornþjóðinni Hittítum, sem komu til sögunnar í Litlu-Asíu fyrir níu þúsund árum. Ef við erum þjóð á þeim forsendum, að við tölum sérstaka íslenzku, eigum við rætur að rekja til austurhéraða landsins, sem nú heitir Tyrkland.

Alltaf er fróðlegt að kanna, hvaðan sé komið og hvert sé farið. Við erum á eyju úti fyrir Evrópu, ef til vill á leið til Ameríku. Við búum við stjórnkerfi, sem er ættað frá hefðum meginlands Evrópu, en hvorki frá Bretlandi né Bandaríkjunum. Rammi lífs okkar felst í reglum frá Róm og Napóleon, sífellt yngdum upp og endurnýjuðum á skrifstofum í Bruxelles.

Hagkerfi nútímans í þessum heimshluta er ættað frá Ludwig Erhard, sem var efnahagsráðherra og síðar kanzlari Þýzkalands upp úr miðri síðustu öld. Hann fínslípaði hinn félagslega markaðsbúskap, sem átti að sætta vinnu og fjármagn, nýta kosti markaðarins og setja öryggisnet undir þá, sem minna mega sín. Þessa stefnu reka vinstri og hægri flokkar enn í dag.

Í Bandaríkjunum styður hálf þjóðin sjónarmið, sem eru langt út af þessu korti, eins konar villt vestur, sem rekið er í þágu auðmanna, er búa í afgirtum hverfum, styðja kristilegt trúarofstæki og róttæka einkavæðingu án félagsfjötra, vilja gjarna senda unga menn í tilefnislaus stríð við aðrar þjóðir og fyrirlíta vilja annarra ríkja og fjölþjóðasamtaka.

Mest selda hetjudúkka í Bandaríkjunum um þessar mundir er 30 sm eftirlíking af George W. Bush Bandaríkjaforseta í herklæðum. Fjölmargir Bandaríkjamenn trúa, að Saddam Hussein hafi tengzt hryðjuverkahópum Al Kaída og árásinni á World Trade Center, svo og að Írak hafi búið yfir gereyðingarvopnum. Ekkert af þessu reyndist rétt vera, en það truflar ekki hetjur.

Kanadamenn hneigjast að evrópskum hefðum, sem Bandaríkjamenn hafna. Þeir styðja til dæmis félagslegan markaðsbúskap eins og vinstri og hægri menn í Evrópu. Ruglaður væri talinn hver sá stjórnmálamaður í Kanada, sem tæki undir sjónarmið helztu ráðherra Bandaríkjanna. Vaxandi reginmunur er á afstöðu þessara nágrannaþjóða til flestra mikilvægra mála.

Í Bretlandi hefur kristilegur trúarofstækismaður leitt ríkið gegn vilja þjóðarinnar til stuðnings við hernaðarlegt ofbeldi Bandaríkjanna, en ekki við ofbeldi þeirra á öðrum sviðum, svo sem í heimsviðskiptum og umhverfismálum, málum fjölþjóðastofnana og afstöðunni til hryðjuverka Ísraelsmanna í Palestínu. Brezka þjóðin er enn evrópsk upp til hópa.

Guðbergur Bergsson sagði nýlega í viðtali við Guardian, að Íslendingar gangi með bandaríska glýju og hnattvæðingarglýju í augum. Sumir segja, að bandarísk landnemahugsun höfði til íslenzkra afkomenda landnámsmanna, en langsótt má það teljast í rauðskinnalausu landi. Líklegra er, að atvinnuástand á Vellinum ráði undirgefni Davíðs og Halldórs.

Græðgisvæðing fjármála sannar ekki, að við séum að sigla frá Evrópu yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna. Líklegra er, að við finnum fyrir evrópskt Kanada á þeirri leið og höldum áfram að harma einelti stjórnvalda gegn öryrkjum og annað fráhvarf frá evrópskri sátt um félagslegan markaðsbúskap að hætti Hittíta.

Jónas Kristjánsson

DV

Spakmæli Kolkrabbans

Greinar

Ekki er nóg að eiga Ræsi, Nóa-Síríus, 20% í Mogganum, þjónustufólk í Ríkissjónvarpinu og nokkuð af reiðufé. Slíkt stendur ekki lengur undir nafnbótinni Kolkrabbinn. Ekki eru þar sjáanlegir þvílíkir viðskiptajöfrar, að þeir geti snúið við nánast lóðréttri leið fyrrverandi hornsteins hagkerfis okkar niður á botn í hafi gleymskunnar.

Fyrir fáum árum hefði enginn trúað spádómum um, að Kolkrabbinn væri á leiðarenda sem valdamiðstöð þjóðfélagsins. Nokkrar ættir áttu þjóðfélagið og notuðu Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið til að gæta hagsmuna sinna. Nafn fyrirbærisins eitt og sér segir mikla sögu um ofurefli þess í þjóðfélaginu.

Kolkrabbinn stjórnaði til skamms tíma fáokunarfyrirtækjum í nokkrum mikilvægustu greinum efnahagslífsins. Hann átti tryggingarnar, benzínið, fragtskipin, farþegaflugið og margvíslegt fleira, sat í stjórnum fjármálastofnana. Nú er hann skyndilega hvarvetna á útleið og þarf að leita skjóls hjá nýjum valdhöfum í viðskiptalífinu.

Þetta minnir á örlög Sambandsins. Það hrundi á skömmum tíma sem valdamiðstöð. Leifar þess lifa þó sómasamlegu lífi í svokölluðum Smokkfiski undir handarjaðri Kolkrabbans, rétt eins og Kolkrabbinn mun lifa enn um sinn undir handarjaðri nýs máttarvalds, sem heitir Samson, en kalla mætti Styrjuna, af því að vald þess fæddist í Austurvegi.

Sambandið hrundi, af því að það var gróðurhúsajurt, sem þreifst aðeins í skjóli hins pólitíska valds Framsóknarflokksins, sem gaf því rekstrarfé í formi neikvæðra vaxa. Þegar raunvextir komu til skjalanna, hrundi Sambandið, af því að það var gæludýr, sem gat ekki lagað sig að nýjum tíma og nýjum leikreglum, sem kölluðu á framtak.

Ráðgert var, að Kolkrabbinn gæti setið einn að beztu bitum einkavæðingarinnar. Svo virtist í fyrstu, þegar ríkið sá til dæmis til þess, að hann fengi síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar. En síðan voru leikreglur færðar í óhlutdrægara horf og þá reyndust utangarðsmenn klárari í sviptingunum en makráðir laukar Kolkrabbans.

Eins og Sambandið var hann í náðinni í stjórnmálunum, hafði vanið sig á hlýjuna og gat ekki lifað úti í kuldanum. Þegar kallað var á flóknari snilligáfu í fjármálavafstri en Kolkrabbinn hafði fram að færa, beið hann lægri hlut fyrir nýjum valdamiðstöðvum, sem höfðu risið með ógnarhraða í einkavæðingu heima og heiman.

Allt er þetta í samræmi við Íslandssöguna. Hin miklu efnahagsveldi fyrri alda, svo sem Skarðverjar, áttu hlutfallslega miklu meira af þjóðarauðnum en þau efnahagsveldi, sem hér hafa verið rædd. Samt hvarf ofurauður þeirra á örfáum kynslóðum og svo mun einnig verða um veldin, sem taka við af Kolkrabba og Smokkfiski.

Tvö spakmæli segja alla söguna. Annað er, að á misjöfnu þrífast börnin bezt. Hitt er, að allt er í heiminum hverfult.

Jónas Kristjánsson

DV

Greiðslufall

Greinar

Heilbrigðisráðherra telur sér heimilt greiðslufall kosningaloforða. Gildir þá einu, hvort loforðin eru munnleg eða skrifleg. Svikin við öryrkja eru stærsta, en ekki eina dæmið um, að ráðherrann telur lofsvert að efna slík loforð að hluta á umsömdum tíma og lýsa yfir vilja sínum til að ljúka dæminu síðar.

Ekki er nýtt, að ráðherrar telji sér heimilt að svíkja tímasetningar í gefnum loforðum. Frægasta dæmið um slíkt var í einni þjóðarsáttinni milli aðila vinnumarkaðarins, þegar ríkisstjórnin lofaði skriflega að efna það, sem hún hafði lofað skriflega í fyrri þjóðarsátt þessara sömu aðila.

Svikin við öryrkja eru afsökuð með, að samkomulagið við þá í fyrravor hafi byggzt á skökkum útreikningum á kostnaði. Í ljós hafi komið við gerð fjárlaga í haust, að dæmið sé 500 milljón krónum dýrara en ráðuneytið hafði ætlað. Þessi mismunur er ekki á fjárlögum næsta árs og felur í sér svikna tímasetningu, greiðslufall.

Stundum er ekki staðið við gerða samninga, þótt útreikningar séu réttir. Í vor reiknaði ráðuneytið útistandandi upphæðir í tengslum við þjónustusamning ríkisins um Heilsustofnun í Hveragerði. Ráðuneytið gerði skriflegt samkomulag um, hvernig þær skyldu greiddar. Aðeins var staðið við hluta af því og borið við fjárskorti.

Ráðherrann sagðist mundu halda áfram að reyna að efna samkomulagið eins og hann segist nú muni halda áfram að reyna að efna samkomulagið við öryrkja. Hann er þekktur geðprýðismaður, en tekur þó óstinnt upp, að greiðslufall við framkvæmd munnlegra og skriflega loforða sé sagt vera svik. Og ekki býðst hann til að greiða dráttarvexti.

Engir fyrirvarar um getuleysi ráðuneytisins eru í slíkum samningum við aðila úti í bæ. Ekki er fyrirvari um ranga útreikninga ráðuneytisins, um erfiðan fjárhag ríkisins eða um andstöðu í öðrum og æðri ráðuneytum. Enda hefðu viðsemjendur sennilega ekki skrifað undir, ef ráðuneytið hefði haft slíka fyrirvara á sínum undirskriftum.

Þegar heilbrigðisráðherra vísar á bug, að vanefndir séu á samkomulaginu við öryrkja, er hann að segja, að handsal eða undirskrift hans feli aðeins í sér loforð um að vinna að málinu, en ekki að framkvæma það á tilsettum tíma. Við getum ímyndað okkur hrunið í viðskiptalífinu, ef slíkir siðir yrðu teknir þar upp.

Ef ráðherrar taka upp á þeim óskunda að telja greiðslufall ekki vera svik við gerða samninga, skaða þeir ekki bara virðingu ríkisvaldsins sem samningsaðila, heldur magna þeir siðleysi í þjóðfélaginu. Margir munu vilja apa eftir siðskökkum höfðingjum.

Jónas Kristjánsson

DV