Greinar

Slíðrið sverðin.

Greinar

Ágætt var, að Steingrímur Hermannsson fór utan í miðjum viðræðum um útgerðarvandann. Enn betra hefði verið að hafa Steingrím lengur í burtu. Og allra bezt hefði verið að senda með honum Kristján Ragnarsson.

Alltaf er leiðinlegt, þegar greindir menn taka upp á digurmælum í sandkassastíl. Og slíkt á sízt heima í viðkvæmri og torleystri deilu. Þeir Steingrímur og Kristján máttu gjarna hvíla sig og kæla þar með viðræðurnar.

En Steingrímur var ekki búinn að vera heima nema í nokkra daga, þegar aftur byrjaði hanaslagur hans og Kristjáns. Er ekki kominn tími til að fá málið í hendur einhverjum tveimur, sem ekki er svona uppsigað hvorum við annan?

Fyrir helgina stóðu málin þannig, að með ýmsum sjónhverfingum til skamms tíma var búið að koma meðaltapi útgerðarinnar úr 16% í 8%. Þær aðgerðir duga ekki til langs tíma, en gefa svigrúm til hugleiðinga um varanlegri pennastrik.

Að baki þessara 8% er ákaflega misjafn raunveruleiki. Sum skip eru rekin hallalaust, en önnur á margföldu þessu tapi. Sem heild er bátaflotinn mun betur settur en 8%-in segja og togaraflotinn aftur á móti verr settur.

Um 20-30 togarar eru í svo vonlausum rekstri, að engin leið er að koma þeim nálægt réttu striki og hvað þá yfir það. Yfirleitt eru þetta nýjustu skipin, keypt af fullkomnu skeytingarleysi um helztu lögmál í rekstri.

Þessum skipum þarf að leggja sem fyrst, svo að þau séu ekki að flækjast fyrir hinum, sem ekki eru vonlaus. Með tilheyrandi fækkun skrapdaga á að vera hægt að bæta verulega stöðu þess hluta togaraflotans, sem þjóðin þarf á að halda.

Ekkert annað en þetta eitt getur komið íslenzkum sjávarútvegi í eðlilegan rekstur við núverandi aðstæður. Og þetta eitt er líka nægilegt til að ná eðlilegum rekstri á skömmum tíma. Allt annað er kák og sumt vitleysa.

Að vísu má segja, að útgerðin stæði betur, ef þjóðin hætti að lifa um efni fram. En heilbrigð skynsemi segir, að launþegar muni ekki í bili sætta sig við frekari skerðingu lífskjara en þá, sem þegar hefur náðst um víðtækur friður.

Ekki er heldur hægt að ætlast til, að sættir næðust um skerðingu á hlut sjómanna, þótt alltaf geti menn gamnað sér við hugmyndir um að ná svo sem nokkrum prósentum fiskverðs framhjá hlutaskiptum. Slíkt leysir lítið af vandanum.

Fiskvinnslan mundi að vísu þola svo sem 2% hækkun fiskverðs, sem veita mætti framhjá hlutaskiptum, eins og áður hefur verið gert. Sú hækkun væri þá túlkuð sem hluti björgunaraðgerða í þágu útgerðarinnar.

Lægra og réttara gengi krónunnar mundi bæta stöðu þeirrar útgerðar, sem ekki er í botnlausum erlendum skuldum vegna glæpsamlegrar offjárfestingar undir verndarvæng hins opinbera. Og gengissig mundi efla iðnað, sem líka skiptir okkur máli.

En raunsætt er að álykta, að ekki megi skerða lífskjör þjóðarinnar hraðar en gert hefur verið að undanförnu og gert verður á næstunni. Um þá skerðingu hefur náðst samkomulag. Og friðinn mega menn helzt ekki rjúfa.

Að öllu samanlögðu eiga Steingrímur og Kristján að slíðra sverðin, reyna að troða örlítilli fiskverðshækkun framhjá hlutaskiptum, en leggja mesta áherzlu á að hindra togaraútgerð grínista, svo að hinir megi lifa.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hinn tvíþætti galdur.

Greinar

Eins og aðrir þurfum við að hafa sem mest af atvinnuvegum, sem leggja sem mest til þjóðarbúsins, og sem minnst af atvinnuvegum, sem soga sem mest úr þjóðarbúinu. Til skamms tíma var þetta krafa um sem mestan sjávarútveg og sem minnstan landbúnað.

Hið eiginlega hlutverk atvinnuveganna er að standa undir öllu öðru, allt frá einkaneyzlu þjóðarinnar yfir í opinber skrímsli heilbrigðis-, skóla- og félagsmála Atvinnuvegur á framfæri hins opinbera er þverstæða í sjálfu sér.

Með því að fjölga fiskiskipum um of höfum við búið til ástand, sem hindrar sjávarútveginn í að standa undir þjóðfélaginu. Hrikaleg fjárfesting liggur bundin við bryggju, þar af togararnir í marga mánuði á hverju ári.

Svo er nú komið, að við erum farin að tala um styrki til sjávarútvegs og vonum, að það sé aðeins til bráðabirgða. Þegar hornsteinninn riðar þannig til falls, eru komin síðustu forvöð að fækka skipum og losna við suma útgerð.

Þar á ofan verðum við að fást til að horfast í augu við, að hámarksafli sjávarútvegsins er takmarkaður, jafnvel þótt okkur lánist á öllum sviðum að koma á jafnvægi í stærð hrygningarstofna og stærð flotans, sem sækir í þá.

Hingað til hafa vonir manna um fleiri hornsteina þjóðfélagsins helzt beinzt að orkufrekum iðnaði. En sú þróun er og verður hægari en bjartsýnir menn töldu, þegar samningar voru hafnir um álverið mikla í Straumsvík.

Við eigum að hagnýta okkur möguleika á þessu sviði, án þess að einblína á þá. Við sjáum í kísilgúr, áli og járnblendi, að verðsveiflur geta verið langar og þungbærar. Mögur ár og offramboð eru gamalkunnir draugar.

Allra sízt megum við gamna okkur við hugmyndir um að verða ríkir á að framleiða sykur, steinull, stál og salt. Þetta eru yfirleitt gamalkunnar greinar, þar sem oftar ríkir offramboð en umframeftirspurn. Framtíðin er ekki þar.

Einu sinni var fataiðnaður einn helzti hornsteinn velsældar Vesturlanda. Nú er hann að verða að vandræðabarni, ófær um að keppa við ódýra framleiðslu ríkja Suðaustur-Asíu. Aðeins sérhæfðir þættir standast þessar sviptingar.

Einu sinni voru skipasmíðar mikill hornsteinn, til dæmis í Svíþjóð. En heimurinn stendur ekki kyrr. Nú er öll skipasmíði þar í landi komin á framfæri hins opinbera, einnig í þessu tilviki vegna samkeppninnar frá Suðaustur-Asíu.

Finnar björguðu sínum skipasmíðum hins vegar með því að sérhæfa þær í olíupöllum og ísbrjótum. Á afmörkuðum sviðum hafa þeir tekið forustu og haldið henni. Ef til vill getum við gert slíkt í afmörkuðum tegundum fiskiskipa.

Í lífsbaráttu þjóðanna er tvenns konar galdur. Annar felst í að komast sem hraðast úr gömlum atvinnugreinum yfir í nýjar. Hinn felst í að finna afmarkaðar sérgreinar, sem Japanir, Hong Kongarar og Suður-Kóreumenn sinna ekki.

Hjá okkur er sérhæfður rafeindaiðnaður einna nærtækasta dæmið um þennan tvíþætta galdur. Sú atvinnugrein er á fleygiferð og alls staðar eru tækifæri á sérhæfðum sviðum. Við höfum menntun og mannskap og erum að feta fyrstu sporin.

Ef hið opinbera er á annað borð að skipta sér af atvinnulífinu, á það ekki að gera slíkt til að vernda hið úrelta, heldur hlúa að framtíðargreinum á borð við rafeindaiðnað og reyna að hraða því, að þær geti tekið þjóðarbúið á herðarnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ýmis ráð koma til greina.

Greinar

Sjávarútvegurinn var að umtalsverðu leyti skilinn eftir, þegar ríkisstjórnin skar þjóðhagshætturnar niður um helming með bráðabirgðalögum og óskalista, sem samanlagt eiga að draga um helming úr uggvænlegri söfnun skulda við útlönd.

Vandi sjávarútvegsins skyggir á friðinn, sem í stórum dráttum ríkir á vinnumarkaðinum og almennt í þjóðfélaginu í kjölfar ráðstafana ríkisstjórnarinnar. Nú er stóra viðfangsefnið að koma sjávarútveginum í samt lag. Og það verður erfitt.

Til skamms tíma var talað um, að tap útgerðarinnar yrði um 300 milljónir króna á þessu ári. Nú tala forustumenn hennar um mun hærri tölu, jafnvel tvöfalt hærri. Á móti þessu kemur 100 milljón króna gengismunur að takmörkuðu gagni.

Nauðsynlegt er, að frekari ráðstafanir séu í senn bráðabirgðalausnir og langtímalausnir. Þær þurfa í senn að tryggja veiðiskap og lífsbjörg á næstu mánuðum og leggja um leið hornstein að skynsamlegri útgerð á næstu árum.

Útgerðarmenn segja, að halli litlu togaranna sé um 16%, stóru togaranna meiri og bátanna minni. Þessi tala er alténd af réttri stærðargráðu og felur í sér, að mikill hluti útgerðarfyrirtækja verði fyrr eða síðar gjaldþrota.

Afhyglisvert er, að tapið samsvarar nokkurn veginn því tjóni, sem talið er að útgerðin verði fyrir af völdum of stórs fiskiskipaflota. Það væri hægt að gera út, ef skipin væru töluvert færri. Að því þurfa lausnir að stefna.

Kominn er tími til, að allir, líka byggðastefnumenn, horfist í augu við, að sum útgerð hljóti að verða gjaldþrota. Á síðustu árum hafa verið keypt skip, sem alltaf var vitað, að gætu engan veginn staðið undir sér.

Grínistarnir, sem eiga þessi skip, hafa notfært sér fáránlega ljúfar fyrirgreiðslureglur hins opinbera og misjafnlega mikið dugleysi ýmissa sjávarútvegsráðherra við að berja í borðið, einkum þess, er nú situr í súpunni.

Hin sjálfvirka fyrirgreiðsla kerfisins og ístöðuleysi ráðherra varpa ekki ábyrgðinni af þeim, sem keyptu þessi skip, annað hvort í algeru óráði eða í þeim markvissa tilgangi, að gera þau út á ríkissjóð og skattborgarana.

Gallinn er, að samdráttur þjóðartekna veldur því, að ríkið og borgararnir geta ekki leyst vanda grínistanna. Þeir verða hreinlega að fá að verða gjaldþrota, svo að aðrir og hæfir útgerðarmenn geti varpað öndinni léttar við stórminnkað tap.

Með því að dreifa gengishagnaði hlutfallslega mikið til skipa með hlutfallslega mikinn fjármagnskostnað, var ríkisstjórnin að verðlauna grínistana. Ef nú verður farið út í að létta vöxtum og öðrum fjármagnskostnaði, er útkoman hin sama.

Skárra er að draga úr olíukostnaði fiskiskipa, þótt þar með sé óbeint verið að verðlauna þá, sem mest sóa olíunni. En hitt vegur þyngra á metunum, að ekki er sanngjarnt að láta útgerðina greiða niður olíu fyrir aðra.

Olía á kostnaðarverði leysir lítinn hluta vandans. Líklega verðum við að fara sömu leið og Norðmenn, ef hægt er að tryggja, að það verði aðeins til mjög skamms tíma. Ennfremur, að það verði ekki gert með sköttum, heldur ríkissparnaði.

Ríkissjóður getur greitt niður laun áhafna fiskiskipa. Þar með dreifist stuðningurinn á eðlilegan hátt, án verðlauna til skussa. Þar að auki er farið framhjá hlutaskiptavandanum. Þetta þarf að skoða, ef allt er í óefni. En hröð og markviss fækkun skipa er höfuðmálið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Orkuverðið er aðalmálið.

Greinar

Þá er blessuð Ísalsdeilan byrjuð á nýjan leik með nýrri endurskoðun á nýju bókhaldsári. Í þetta sinn ber ekki eins mikið á milli og fyrri árin og reyndar ekki nógu mikið til að geta haft áhrif á skattgreiðslur Ísals til ríkiskassans.

Hvor aðili hefur sína skýringu á minni ágreiningi um árið 1981 en var um árin þar á undan. Ísal segir, að endurskoðendurnir Coopers & Lybrand séu komnir nær jörðinni en áður. Hjörleifur ráðherra segir, að ósvífni Alusuisse hafi minnkað.

Augljóst er, að gífurlegt aðhald í bókhaldi og endurskoðun þarf að veita fjölþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Alusuisse. Ráðgjöf kunnáttufyrirtækja á borð við Coopers & Lybrand er því mikils virði, þótt þeim geti skjátlazt eins og öðrum.

Endalaust má deila um, hvert sé sanngjarnt uppgjör milli dótturfyrirtækisins Ísals og móðurfyrirtækisins Alusuisse. Og vafasamt er, að efna þurfi til opinbers bófahasars í hvert sinn, sem árlegri endurskoðun lýkur.

Raunar má gruna Hjörleif um að efna til þessara uppþota til að egna Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn til stuðnings við Ísal og þar með hið óvinsæla Alusuisse að baki. Þannig eru uppþotin meira pólitísk en efnisleg.

Margsannað er um allan heim, að ein helzta rekstrarforsenda fjölþjóðafyrirtækja á borð við Alusuisse er að færa peninga milli landa. Að segja Ísal vera í taprekstri er álíka marklaust og að segja tunglið vera úr osti.

Hitt er svo jafnrétt, að erfitt er eltast við þetta, ekki sízt þegar Alusuisse neitar að gefa upplýsingar. Þess vegna er skynsamlegra að semja um fastar greiðslur en um breytilegar greiðslur eftir meira eða minna umdeildu bókhaldi.

Komið hefur í ljós, að leiðrétting árið 1975 á hörmulega lélegum samningi frá 1966 gerði bara illt verra. Þá var föstum greiðslum breytt í hreyfanlegar. Og þá hófst darraðardansinn um bókhaldið, sem aldrei fæst úr nein niðurstaða.

Nær væri fyrir Íslendinga að snúa sér í auknum mæli að áþreifanlegri hlutum á borð við orkuverð. Þar hefur hið átakanlega komið í ljós, að verð orkunnar til Ísals er ekki nema einn þriðji af því, sem það ætti af sanngirni að vera.

Raforkuverðið er nú 6,5 verðeiningar á orkueiningu, en ætti að vera 18 einingar. Sú skoðun byggist á, að í upphafi var verðið 2,5 einingar, þegar heimsmarkaðsverð var 3 einingar, það er að segja aðeins nokkru hærra.

Nú er meðalverð raforku til álvera í heiminum 22 einingar. Ef Bandaríkin eru tekin sérstaklega, er verðið líka 22 einingar. Á aðalmarkaði Ísals, í Vestur-Evrópu, er meðalverðið 21 eining. Verð Ísals ætti að vera rétt innan við það.

Einnig til staðfestingar á þessu er, að Alusuisse og dótturfyrirtæki þess greiða að meðaltali 20 einingar annars staðar. Engin verksmiðja hringsins greiðir eins lágt verð og Ísal greiðir til Landsvirkjunar. 6,5 eininga verð er hreint hneyksli.

Ef rétt er, að samkeppnisfært raforkuverð til álvera sé 20 einingar og muni fara hægt hækkandi upp í 24 einingar á næstu árum, eigum við að reyna að fá nýjan samstarfsaðila um eignarhald og rekstur Ísals og sölu afurða þess.

Sé Ísal ekki fáanlegt til að semja um heiðarlegt orkuverð, til dæmis 18 einingar, er fullljóst, að Alusuisse sést ekki fyrir í græðgi í viðskiptum við Íslendinga og hefur það þó þegar nóg spillt nauðsynlegum áhuga Íslendinga á erlendu samstarfi um stóriðju.

Jónas Kristjánsson.

DV

Orð eru til alls.

Greinar

Stjórnmálamönnum og stjórnmálaskrifurum tekst sjaldnast að finna lykilorðið, sem opnar Sesams-klettinn, orðavalið, sem fólk skilur og samþykkir. Menn hafa skoðun, sem þeir vilja koma á framfæri, en finna ekki rétta búninginn.

Í kosningabaráttu fyrir nokkrum árum ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að vera sniðugur með orðinu “leiftursókn”. Degi síðar slátraði Alþýðubandalagið slagorðinu með því að breyta því í “leiftursókn gegn lífskjörum”.

Lengi mæltu greindir menn með nýju fyrirkomulagi fiskveiða og kölluðu “auðlindaskatt”. Fyrir bragðið fengu þeir alla sjómenn og útgerðarmenn á móti sér, af því að allir óttast hugmynd, sem lýst er með orðinu “skattur”.

Enda eru þessir menn og aðrir farnir að tala um “sölu veiðileyfa” og jafnvel “sölu kvóta” til að færa hugsunina nær raunveruleika, sem sjómenn og útgerðarmenn þekkja af rækjuveiðum, síldveiðum og ýmsum öðrum veiðum.

Höfundur þessa leiðara hefur um langan aldur tekið miklar rokur í landbúnaði á um það bil tveggja ára fresti. Þar hefur núverandi kerfi hins hefðbundna landbúnaðar verið rifið í tætlur og annað byggt upp í þess stað.

Í þessu skyni hafa hvað eftir annað verið settar fram fastmótaðar tillögur upp á krónu um hvernig breyta mætti í áföngum stuðningi hins opinbera við útþenslu mjólkur- og kjötframleiðslu í stuðning við samdrátt í þessum greinum.

Árangurinn af þessu langvinna þjarki lýsir sér vel í nýlegum ummælum Sighvats Björgvinssonar hér í blaðinu. Hann “minnist engrar slíkrar tillögu” frá hinum úthaldsgóða tillögumanni og virðist meina það í einlægni.

En þannig fer oftast, einnig fyrir þeim, sem vilja telja sig fagmenn í að koma hugsunum á framfæri. Við æpum upp í vindinn og bíðum svo eftir svari. En það lætur á sér standa.

Raunar voru leiðarahöfundur og Sighvatur einu sinni samherjar með Vilmundi Gylfasyni í að mæla með svokölluðum “raunvöxtum”. Við hömuðumst á þessu nauðsynjamáli vikum og mánuðum saman, en höfðum ekki erindi sem erfiði.

Andstæðingar raunvaxta héldu hugmyndinni í skefjum með því að segja þá vera hið sama og “hávexti”. Það var ekki fyrr en stjórnmálamönnum úr Framsóknarflokknum datt í hug að nota “verðtryggingu fjárskuldbindinga” að vindur kom í seglin.

Enn er til fólk, sem telur að “raunvextir” séu of háir vextir, en samþykkir, að sanngjarnt sé, að þeir sem lána peninga, fái þá aftur í sömu verðmætum. Þetta sýnir gleggst, hvað orðin skipta miklu máli.

Líklega var Tómas Árnason einna þyngstur á metunum, þegar Framsóknarflokkurinn tók opinberlega trú á “verðtryggingu fjárskuldbindinga”. Og Steingrímur Hermannsson heldur enn, að hann hafi verið gabbaður. Eða “plataður”.

Engin furða er, að baráttumönnum “raunvaxta” á borð við Sighvat og Vilmund gremjist, að framsóknarmönnum, ótraustum í trúnni, sé þakkað orðalagið “verðtrygging fjárskuldbindinga”. En svona eru örlögin, þegar um orð er að ræða.

Hinir ágætu kjallarahöfundar DV, Sighvatur og Vilmundur, verða bara að vanda sig betur næst, þegar þeir leita að lykilorði í góðum málstað. Og höfundur þessa leiðara er enn að leita að lykilorðinu í landbúnaði.

Orð eru til alls, ekki bara fyrst.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rambað á yztu nöf.

Greinar

Þegar Eggert Haukdal var eftir dúk og disk búinn að sjá, að ríkisstjórnin er léleg og svifasein, lýsti sú uppgötvun sér í andstöðu hans við bráðabirgðalögin, sem eru þó sennilega hið skásta, sem ríkisstjórnin hefur gert.

Þetta má hann auðvitað. Alveg eins og Alþýðuflokkurinn má vera á móti aðgerðum, sem þingflokksformaður hans hefði sagt stolin úr vopnabúri sínu. Og alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn má heimta hærra kaup á herðar atvinnuveganna.

Það er hefðbundinn réttur stjórnarandstöðu að fá að vera ábyrgðarlaus. Þess vegna skrifaði Geir Hallgrímsson langa grein í gær, þar sem ekki kemur fram ein einasta tillaga um, hvað hefði nú átt að gera í stað ráðstafana stjórnarinnar.

Hins vegar er réttilega til umræðu, hvort ríkisstjórnin hafi með bráðabirgðalögunum gengið út á yztu nöf siðgæðis eða fram af henni. Ekki dugir henni að segja nauðsyn brjóta lög, því að í lýðræði verður ætíð að fylgja leikreglum.

Svo virðist sem ríkisstjórnin og þá fyrst og fremst forsætisráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að tryggja bráðabirgðalögunum atkvæði annað hvort Eggerts Haukdal eða Alberts Guðmundssonar til að koma þeim gegnum neðri deild alþingis.

Síðan komið hefur í ljós, að Eggert er á móti lögunum og Albert hallast frekar gegn þeim, verður auðvitað þyngri á metunum krafa stjórnarandstöðunnar um, að alþingi komi nú þegar saman til að staðfesta eða fella bráðabirgðalögin.

Flest mikilvægustu atriði bráðabirgðalaganna eru þó afturkræf, ef lögin verða felld. Launaprósentur hafa til dæmis oft verið greiddar aftur í tímann. Það veldur óþægindum og er ekki til fyrirmyndar, en er unnt.

Ef bráðabirgðalögin yrðu til dæmis felld í neðri deild um áramótin, er hægur vandi að greiða opinberum starfsmönnum vísitöluuppbót fjóra mánuði aftur í tímann og öðrum launamönnum landsins uppbót fyrir desember.

Sama er að segja um hina auknu tollheimtu í bráðabirgðalögunum. Gegn framvísun reikninga verður hægt að endurgreiða álögur marga mánuði aftur í tímann. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar, en hafa þó tíðkazt hér á landi.

Fræðilega séð væri líka unnt að dreifa gengishagnaði með skilyrði um endurkröfu, ef bráðabirgðalögin yrðu felld. En það er ekki auðvelt að sjá, hvernig stjórnvöldum tækist að ná til baka 80 milljón króna framlagi til togara.

Heppilegast væri fyrir ríkisstjórnina að fresta dreifingu gengishagnaðar. Í staðinn gæti hún t.d. falið Kristjáni Ragnarssyni að útvega skriflega yfirlýsingu úr stjórnarandstöðunni um stuðning við þær greinar bráðabirgðalaganna.

Þar með kæmi stjórnin líka stjórnarandstöðunni í bobba. Geir Hallgrímsson og Kjartan Jóhannsson yrðu auðvitað kindarlegir, þegar þeir færu að neita Kristjáni um stuðning við greiðslu 80 milljón króna gengishagnaðar til togaraútgerðar.

Hitt óafturkræfa atriðið í bráðabirgðalögunum er skerðing verzlunarálagningar. Þar á ríkisstjórnin sama kostinn, að fresta framkvæmdinni til annaðhvort staðfestingar alþingis eða til yfirlýsingar um stuðning frá einhverjum úr stjórnarandstöðunni.

Önnur umdeilanleg atriði eru ekki í bráðabirgðalögunum, heldur í aðgerðum utan þeirra. Ef frestað er framkvæmd þessara tveggja óafturkræfu atriða, hefur stjórnin léttilega mætt ásökunum um, að ósiðlegt sé, að alþingi komi ekki saman fyrr en 10. október.

Jónas Kristjánsson

DV

Betra seint en aldrei.

Greinar

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til bóta, þótt þær gangi ekki eins langt og æskilegt hefði verið. Í samsteypustjórnum ólíkra flokka er yfirleitt erfitt að ná samkomulagi um meira en minnstu hugsanlegu aðgerðir.

Kjarni aðgerðanna er skerðing lífskjara þjóðarinnar. Þessi skerðing var orðin mjög brýn. Í rúmt ár að minnsta kosti höfum við lifað um efni fram, svo sem greinilega kom í ljós í óhóflegum innflutningi og skuldasöfnun.

Skerðing verðbóta um tæp þrjú prósentustig um næstu mánaðamót og um allt að tíu stigum 1. desember er verulegt skref í þá átt að laga lífskjör þjóðarinnar að samdrætti þjóðartekna, sem sumpart er þegar orðinn og sumpart fyrirsjáanlegur.

Einhverjir munu hafa hátt um þetta kauprán. En tiltölulega mild viðbrögð stjórnarandstöðunnar og launþegaforustunnar eru dæmi um, að menn vita almennt, að þjóðin hefur að undanförnu lifað langt um efni fram, hættulega langt um efni fram.

Þrettán prósent gengislækkun krónunnar er skref, en of lítið skref í átt til raunhæfrar verðlagningar á erlendum gjaldeyri. Hann verður áfram á útsöluverði. Tuttugu prósent hefði verið nær raunveruleikanum, en þrettán er betra en ekkert.

Samanlagt ættu kaupskerðingin og gengislækkunin að draga verulega úr kaupum okkar á erlendri vöru til samræmis við útflutningstekjur, svo að minnki eða stöðvist hin ógnvekjandi skuldasöfnun í útlöndum síðustu mánuðina.

Að svo miklu leyti sem skuldasöfnun heldur áfram, þótt á hægari ferð sé, hafa efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki tekizt nógu vel. Um þetta er ekki auðvelt að spá. Tíminn verður að leiða í ljós, hvort við náum tökum á skuldasúpunni.

Dapurlegt er, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa náð samkomulagi um eitthvað af 5% vaxtahækkuninni, sem Seðlabankinn lagði til. Það verður því áfram útsala á peningum á verulegum hluta lánamarkaðarins, þrátt fyrir svokallaða verðtryggingarstefnu.

Meðan vextir haldast neikvæðir, verður alltaf umframhungur eftir fjármagni, með tilheyrandi fjármagnsskömmtun og fjárfestingu um efni fram. Þetta hamlar líka gegn því, að við náum jafnvægi í viðskiptum okkar við útlönd.

Þessi bilunareinkenni á verðtryggingarstefnunni sýna skort á pólitísku hugrekki í ríkisstjórninni, sérstaklega hjá ráðherrum Framsóknarflokksins. Hugrekki borgar sig, þegar til lengdar lætur, en getur virzt of dýrt í bili.

Í staðinn hyggst ríkisstjórnin draga úr fjárfestingu með takmörkun á lánum til kaupa á erlendri vöru, vélum og tækjum og til skipasmíða innanlands og með hreinu tveggja ára banni á innflutningi fiskiskipa.

Innflutningsbannið er í rauninni hrossalækning, en nauðsynlegt, þegar svona seint er í rassinn gripið. Nú loksins er hægt að horfa fram til minnkaðs fiskiskipastóls og betri tíðar í sjávarútvegi, hornsteini lífskjara okkar.

Með 175 milljón króna láglaunabótum og 85 milljón króna framlagi til Byggingasjóðs á að milda áhrif aðgerðanna. Ríkisstjórnin þorir ekki að standa við fulla hörku og ætlar að senda skattgreiðendum reikninginn fyrir hugleysið.

Í stórum dráttum eru aðgerðirnar til mikilla bóta. Eftir að hafa sigið í fenið í rúmt ár finnum við nú fast land undir fótum. Aðgerðirnar koma einu ári of seint og verða því mun óþægilegri en þurft hefði að vera. En betra er seint en aldrei.

Jónas Kristjánsson.

DV

Raunhæf stjórnmál óskast.

Greinar

Meðan þingmenn hlaupa með kjósendavíxla til bankastjóra og kría út einn kílómetra af slitlagi í kjördæmið, eru ráðherrar að ákveða, hvort reisa eigi steinullarver á Sauðárkróki eða í Þorlákshöfn og hvort gefa eigi skuttogara til Þórshafnar.

Hins vegar sinna þeir síður raunverulegum stjórnmálum, eins og hvert skuli vera hlutfall einkaneyzlu og samneyzlu í þjóðfélaginu, hver skuli vera hlutur hins opinbera af þjóðartekjum og hvað óhætt sé að fjárfesta mikið af þjóðartekjum.

Til dæmis hafa fjárlagafrumvörp ríkisstjórna frá ómunatíð verið byggð upp sem samanlögð óskhyggja ótal stjórnmálamanna og embættismanna. Þar af leiðandi verða niðurstöðutölurnar jafnan of háar og kalla oft á skattahækkanir.

Þegar búið er að skera fjárlögin niður í upphæð, sem stjórnmálamenn þykjast geta komizt upp með, er afgangurinn af óskhyggjunni settur í lánsfjáráætlun. Þeim hluta baggans er velt yfir á herðar afkomenda okkar.

Nær væri að byrja á að ákveða, hver skuli vera hlutur ríkisins af þjóðartekjum. Út frá því má finna niðurstöðutölur fjárlaga eftir verðlagi á hverjum tíma. Þeirri upphæð má svo skipta niður á ráðuneyti og síðan í einstök verkefni.

Með slíkum vinnubrögðum sjá embættismenn og stjórnmálamenn, hvaða fjármunir eru raunverulega til ráðstöfunar, burtséð frá óskhyggjunni. Þeir neyðast til að læra að haga sér innan ramma, alveg eins og önnur heimili landsins verða að gera.

Hin raunverulegu stjórnmál mundu þá felast í, að vinstri flokkar vildu fá hækkaðan hlut ríkisins af þjóðartekjum, en hægri flokkar vildu hins vegar fá hann lækkaðan. Kjósendur hefðu þá um eitthvað áþreifanlegt að velja.

Ef stjórnmálaflokkur lýsti því yfir, að hann vildi hafa einkaneyzluna 65% af þjóðartekjum, samneyzluna 10% og fjárfestinguna 25%, væri hann að bjóða upp á áþreifanleg stjórnmál, áherzlu flokksins á misjafnt mikilvægi þessara þátta.

Ef þessi ímyndaði flokkur héldi því einnig fram, að af fjárfestingunni ættu 50% að vera hjá atvinnuvegunum, 35% hjá ríkinu og 15% í íbúðum, þá væri hann einnig að bjóða upp á raunveruleg stjórnmál, áþreifanleg undirstöðuatriði.

Með töluverðri nákvæmni má spá fyrirfram um þjóðartekjur næsta árs. Ef um sveiflur er að ræða, má til dæmis ákveða að reyna að halda óbreyttu hlutfalli einkaneyzlu og samneyzlu, en láta sveiflurnar koma niður á fjárfestingunni.

Með vaxtastefnu og íbúðalánastefnu má hafa áhrif á fjárfestingu í atvinnuvegum og íbúðum. Enn hægari eru heimatökin hjá ríkinu sjálfu, sem gæti, ef það vildi, raðað framkvæmdum sínum í fjárlög og lánsfjáráætlun í samræmi við rammann.

Að gefnum rammanum mundu stjórnmálamenn til dæmis vita, hvað þeir geti leyft sér að framkvæma mikið af óskhyggjunni, án þess að auka skuldir og skuldabyrði þjóðarinnar. Í núverandi stjórnleysi óskhyggjunnar hefur enginn tök á neinu.

Þegar niðurstöðutölur og rammar, þau atriði, sem hafa raunverulegt stjórnmálagildi, eru tilbúin fyrirfram, væri um leið fengin knýjandi hvatning til að meta, hvað sé í rauninni nauðsynlegt og hvað megi bíða eða gleymast.

Þá væri auðveldara að meta, hvort þjóðin hafi efni á að verja rúmlega 4% fjárfestingarinnar til offramleiðslu á kjöti og mjólk og tæplega 7% til óþarfra fiskiskipa og hvort ekki sé nær að draga eitthvað úr erlendum lántökum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir ná saman.

Greinar

Ríkisstjórnin er komin lengra en í mitt fljótið og sér samkomulag um efnahagsmál blasa við á bakkanum. Hún fer tæpast að snúa við úr þessu, þótt hart hafi verið og sé enn deilt um, hvar á bakkanum skuli komast á þurrt.

Með væntanlegu samkomulagi verður ríkisstjórnin búin að tryggja sér líf fram yfir áramót. Þá er kjörtímabilið senn á enda og ævi stjórnarinnar orðin töluvert lengri en flestir spáðu í upphafi. Það er raunar ekki lítið afrek.

Hvorki Framsóknarflokkurinn né Alþýðubandalagið hafa áhuga á kosningum að sinni. Báða flokkana skortir enn tíma til að búa sér vígstöðu til kosningabaráttu, ekki sízt Alþýðubandalagið, sem situr enn í kengnum frá kosningunum í vor.

Að vísu hefur flokksvél Alþýðubandalagsins sent út herhvöt kosningaundirbúnings til flokksdeildanna. En sú hvöt minnir sumpart á neyðaróp og er að öðru leyti innihaldslítil aðvörun til samstarfsmanna í ríkisstjórn.

Þingmenn Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins hafa að undanförnu þjálfað sig vel í þeirri list heimsveldanna að keppast um, hvor geti stigið lengra út á yztu nöf. Það er talin hyggileg slægvizka í slíkum kreðsum.

Efnislega er skynsamleg megintillaga Alþýðubandalagsins um heimild handa ríkisstjórninni til að draga um allt að helmingi úr hækkun búvöruverðs, fiskverðs og verðbóta á laun á verðbólguþrepinu, sem verður 1. desember eða 1. janúar.

Framsóknarmenn hafa tekið orðalagið óþarflega óstinnt upp og segjast vilja fasta ákvörðun í stað óljósrar heimildar. Stjórnmálamenn ættu að hafa séð það svartara í ágreiningi um orðalag, svo að á þessu hlýtur að finnast einhver lausn.

Sjálfsagt er ráðamönnum Framsóknarflokksins undir niðri verr við skerðingu búvöruverðs, þótt þeir flaggi því ekki. En raunsæjum mönnum hlýtur að vera ljóst, að ekki er hægt að skerða laun endalaust, án þess að fleira fylgi.

Þá fagna framsóknarmenn vafalaust ekki skynsamlegum tillögum Alþýðubandalagsins um innflutningsbann fiskiskipa og takmörkun fiskiskipastólsins, né um afnám Framkvæmdastofnunar ríkisins, að Byggðasjóði undanskildum.

Allra sízt hefur glatt augu framsóknarmanna ágæt tillaga Alþýðubandalagsins um, að dregið verði úr rétti til útflutningsbóta landbúnaðarafurða. En því miður er þetta fremur gert til að stríða en til að ná þjóðhagslegum árangri.

Annað í tillögum Alþýðubandalagsins er minna virði og sumt jafnvel spaugilegt. Mönnum getur til dæmis verið illa við húsasmíði Seðlabankans, þótt þeir séu ekki að bera þann harm á torg ráðstafana í efnahagsmálum.

Á líðandi stund skiptir mestu máli að ákveða nýtt gengi krónunnar, sem sé töluvert nær raunveruleikanum, og nýja vexti, sem séu töluvert nær raunveruleikanum. Að vísu verður skref stjórnarinnar of skammt, en betra en ekki neitt.

Stöðvun útsölu á gjaldeyri og lánsfé skiptir meira máli en baráttan við verðbólguna. Ef þar á ofan næst samkomulag um verulegt áramótauppgjör á kröfum helztu hagsmunaaðila þjóðfélagsins, hefur verðbólgan líka beðið nokkurn hnekki.

Samkomulag um þetta mun auka veg ríkisstjórnarinnar, sem þarf á slíku að halda eftir óhóflegt aðgerðaleysi síðustu mánaða. Ríkisstjórnin hefur ekki efni á öðru en að ná samkomulagi. Og hún var þegar um helgina komin meira en hálfa leið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Veiðileyfin ekki umflúin.

Greinar

Hugmyndin um úthlutun og sölu veiðileyfa eða veiðikvóta nýtur vaxandi fylgis um þessar mundir. Í dagblöðunum birtast greinar þjóðkunnra manna, sem reyna að gera sér og öðrum grein fyrir, hvernig framkvæma megi hugmyndina.

Markmið hugmyndarinnar er að koma á jafnvægi í sókn og afla, svo að sjávarútvegurinn verði rekinn með sem minnstum tilkostnaði. Nú er sóknin of mikil, skipin of mörg, en aflinn úr flestum fiskistofnum í hámarki og rúmlega það.

Sumir tala um kvóta, en aðrir um veiðileyfi. Þetta eru í rauninni tvö orð um sama hlutinn, skiptingu takmarkaðs aflamagns. Fyrst er ákveðinn leyfilegur hámarksafli úr fiskistofni og honum síðan skipt niður með ýmsum hætti.

Þeir, sem vilja miðstýringu að ofan, tala um opinbera úthlutun veiðileyfa eða kvóta, til dæmis fyrst til landshluta eða veiðarfæra og síðan til einstakra skipa. Útgáfur af þessu hafa verið reyndar með sæmilegum árangri á loðnu og síld.

Hinir, sem vilja láta markaðslögmálin ráða, tala um sölu veiðileyfa eða kvóta og jafnvel um uppboð þeirra. Þessi aðferð hefur ekki verið reynd, enda er hún nýstárlegri en hin, en ætti að hafa innbyggða hvata umfram hina.

Í seinni tíð er þó mest talað um blöndu beggja aðferðanna, um úthlutun að parti og sölu að parti. Áherzlan fer þó yfirleitt eftir því, hvort menn eru hlynntari miðstýringu eða markaði. En hugmyndin um aukna hagkvæmni sjávarútvegs er hin sama.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, kynnti nýlega í blaðagrein nýtt afbrigði hugmyndarinnar, það er að segja úthlutun vinnsluleyfa til fiskvinnslunnar í stað veiðileyfa til útgerðarinnar.

Hann vill skipta leyfilegu aflamagni niður á hafnir eftir vinnslugetu frystihúsa á staðnum, en þessi leyfi séu svo ef til vill framseljanleg innan landshluta eða kjördæma. Skipin megi svo landa, hvar svo sem vinnsluleyfi séu laus.

Að baki þessarar hugmyndar liggur byggðastefna. Hún á að tryggja ákveðið atvinnumagn í öllum sjávarplássum landsins eða að minnsta kosti í öllum kjördæmum. En um leið heldur þetta aftur af nauðsynlegri byggðaröskun.

Ef hugmyndin hefði verið frumkvæmd fyrr á þessari öld, væri nú mikil útgerð úr Skálum á Langanesi og Viðey í Kollafirði. Og binding frá fyrri öldum þýddi útgerð frá Dritvík, Djúpalónssandi og Malarrifi.

Björn Dagbjartsson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, kafaði nýlega í grein í DV ofan í blandað kerfi úthlutunar og sölu á veiðileyfum eða veiðikvótum. Meginhugmyndinni lýsir hann þannig:

“Leyfilegum hámarksafla af hverri tegund er skipt niður í aflaeiningar, eins konar verðbréf, sem seld eru á opnum markaði. Til að byrja með er útgerðum fiskiskipa selt eða úthlutað aflaeiningum eftir ákveðnum reglum og síðan geta handhafar skipzt á aflaeiningum, selt þær, lánað eða leigt, en verða að tilkynna það stjórnvöldum eða skrifstofu, sem fylgdist með eignarhaldi á veiðileyfum.”

Björn telur þó, að hugmyndin eigi erfitt uppúráttar, því að reynslan sýni, að bæði sjómenn og útgerðarmenn séu logandi hræddir við hana “hversu skynsamleg, sem hún kunni að virðast”. En menn verði þó að horfast í augu við, að veiðileyfi verði ekki lengur umflúin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Verzlunartap og -gróði.

Greinar

Gjaldeyrisútsölu ríkisstjórnarinnar er lokið í bili. Hún stóð frá miðju síðasta ári og olli gífurlegum innflutningi um efni fram. Menn tóku út sparifé og keyptu innfluttar vörur. Aðrir reyndu að slá lán til að geta notfært sér útsöluna.

Afleiðingarnar voru margar. Bankarnir lentu í vanskilum í Seðlabankanum og hættu að geta lánað með venjulegum hætti. Skuldir þjóðarinnar jukust í 40% af eins árs þjóðarframleiðslu og greiðslubyrði þeirra í 20% af eins árs útflutningi.

Verstar voru afleiðingarnar í sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum, sjálfu haldreipi þjóðarinnar. Með útsölunni var verið að breyta haldreipinu í hálmstrá, búa til geigvænlegan halla í greinum, sem standa undir lífskjörum.

Á hinn bóginn fylltist ríkissjóður af tolltekjum, sem leystu margan vanda á þeim græðgisbæ. Þess vegna leyfði ríkisstjórnin útsölunni að standa í heilt ár, auk þess sem hún var undirstaða að umfangsmikilli vísitölufölsun.

Verzlunin var annar aðili, sem óvart hafði hag af gjaldeyrisútsölunni. Veltan jókst bæði í heildsölu og smásölu, án þess að fyrirhöfn og kostnaður við verzlun ykist að sama skapi. Í mörgum tilvikum gat sami mannafli annazt meiri veltu.

Þetta leiddi til svonefnds “verzlunargróða”, sem töluvert hefur verið til umræðu að undanförnu. Margir hafa kvartað um, að verzlunin hafi á þessu útsöluári bætt stöðu sína, meðan aukizt hafi taprekstur í sjávarútvegi og víðar.

Hinir öfundsjúku ættu þó ekki að gleyma, að það, sem gefið var á sjálfvirkan hátt, verður auðveldlega aftur tekið á sjálfvirkan hátt. Svavar Gestason viðskiptaráðherra þarf ekki að leggja hart að sér við að spilla fyrir verzlun.

Timburmennirnir eru nefnilega að koma. Síðari hluta þessa árs og allt næsta ár verður ekki hægt að hafa útsölu á gjaldeyri. Rétta þarf af viðskiptin við útlönd og stöðva frekari skuldasöfnun og aukningu greiðslubyrðar.

Dæmið snýst við, en áfram gildir, að brauð eins verður dauði annars. Með minni innflutningi mun verzlunin dragast saman. Hún mun, eins og reynslan sýnir í flestum greinum, eiga erfitt með að breyta mannafla í samræmi við nýjar aðstæður.

Öfundarmönnum og Svavari Gestssyni verður því sjálfkrafa að óskinni. Sá verzlunargróði, sem myndazt hefur á einu ári, mun étast upp á næsta hálfa öðru árinu og vel það. Sérstakar aðgerðir í því skyni eru gersamlega óþarfar.

Þetta er ágætt dæmi um, að ýmsa stjórnmálamenn og aðra skortir skilning á náttúruöflum eða markaðsöflum atvinnulífsins. Þeir vilja alltaf láta krukka í strauma, sem betur fengju að renna með sjálfvirkum hætti.

Bezta dæmið um eymd miðstýringar, millifærslu og krukks er landbúnaðurinn. Til hans eru sogaðar hrikalegar fjárhæðir, sem annars mundu koma þjóðinni að gagni á þeim sviðum, sem arðbærastar væru í atvinnulífinu hverju sinni.

Vel meint krukk hins opinbera hefur ætíð hliðarverkanir, sem landsfeður virðast yfirleitt eiga sérstaklega erfitt með að sjá fyrir. Þeir einblíndu til dæmis á tolltekjugróða og hagstæða vísitölufölsun af völdum gjaldeyrisútsölu.

En vísitölufölsunin og tolltekjubraskið leiddu jafnframt til taps í sjávarútvegi, hruns í bankaþjónustu, flóðs í þjóðarskuldasúpunni, – og óvart um leið til skammvinns verzlunargróða.

Svo læra þessir menn aldrei neitt að ráði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Það gustar af Þresti.

Greinar

Frá landbúnaðinum hefur smitazt sú sjúklega hugsun, að réttlætisstefna geti verið hornsteinn í atvinnulífinu. Þess vegna tala stjórnmálamenn um, að hinir og þessir staðir eigi skilið að fá hinar og þessar verksmiðjur eða skuttogara.

Ríkið hefur löngum rekið hinn hefðbundna landbúnað mjólkur- og kjötframleiðslu á þeirri forsendu að bændur ættu skilið að selja allar afurðir sínar og á tilgreindu verði, sem veiti þeim réttlát kjör í samanburði við aðra.

Þetta hefur gert landbúnaðinn þjóðinni dýrari en vígbúnaðarkapphlaupið er stórveldunum. Ár eftir ár hefur meira en tíundi hluti ríkisteknanna farið í þessa vitleysu, svo og meiri fjárfestingarpeningar en runnið hafa til alls iðnaðar.

Alvöru atvinnuvegir verða hins vegar aðeins reknir á forsendum hagkvæmni, framleiðni og samkeppni. Enn einn hagfræðingurinn, sem bendir á þetta, er Alþýðubandalagsmaðurinn Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Í nýlegri blaðagrein um sjávarútveg lýsir hann áhyggjum vegna smitunar byggðastefnu og réttlætishyggju til undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar, er leiði meðal annars til of stórs fiskveiðiflota, sem rekinn er á of óhagkvæman hátt.

Þröstur segir: “Félagshyggju og réttlæti má aldrei rugla saman við hagkvæmustu framleiðsluaðferðir og árangursríkastar leiðir, meðan enn er hrópað á óbreytt eða bætt lífskjör”. Ennfremur segir Þröstur í greininni:

“Viljum við ná sem mestri hagkvæmni út úr efnahagslegum athöfnum manna, auka hagvöxtinn, þá verðum við að leyfa samkeppninni að njóta sín betur en nú, eða réttara sagt láta hana skipta um athafnasvið.”

Enn segir Þröstur í hinni miskunnarlausu tímamótagrein Alþýðubandalagsins: “Ef við ætlum að verja lífskjörin hér á landi, verðum við að snúa blaðinu algjörlega við. Beita hagkvæmninni í sjávarútveginum, en réttlætinu annars staðar.”

Aftur og aftur hnykkir Þröstur á sömu meginatriðunum: “Aðhald samkeppninnar hefur nú reynzt hvað drýgzt, þegar til lengdar lætur.” Með samkeppni vill hann fá “innbyggða hvata” í sjávarútveg og raunar atvinnulífið almennt.

Annað mikilvægasta atriðið til úrbóta í sjávarútvegi, sem Þröstur mælir með, er, að frjáls verðlagning verði tekin upp á fiski milli útgerðar og fiskvinnslu, í stað ákvörðunar að ofan í verðlagsráði að undirtagi stjórnvalda.

Þarna slær Alþýðubandalagsmaðurinn við flestum, ef ekki öllum hagfræðingum hægri stefnu og leiftursókna. Engin leið er að rifja upp, að þessi skynsamlega og rökfasta stefna hafi verið í sviðsljósi annarra, sem lagt hafa orð í belg.

Þröstur telur ekki aðeins, að markaðsstefna á þessu sviði muni, samfara öðrum aðgerðum, leiða til nauðsynlegrar fækkunar fiskiskipa og til eftirsóknarverðrar hagkvæmni og framleiðni útgerðar Hún höggvi líka að rótum skipulagsbölsins:

“Gæði íslenzka fisksins hafa farið dvínandi. Mikið af þeim fiski, sem berst að landi, er rusl, sem ekki á að greiða nema lítið fyrir. Nú er greitt fullt verð fyrir þetta rusl.” Sem stafar auðvitað af, að verðlagsráð ákveður.

Í annars oft flatneskjulegri umræðu um blessuð efnahags- og atvinnumálin er hressandi gustur af grein Þrastar Ólafssonar hagfræðings. Hann talar enga tæpitungu og bendir á trúverðugar úrbætur, sem aðrir hafa lítt eða ekki hampað.

Jónas Kristjánsson.

DV

Símstöð fólksins

Greinar

Frjáls fjölmiðill er ekki tæki til sigurs í opinberum málum. Hann getur t.d. ekki knúið fram þjóðstjórn, svo sem lagt var til í annars ágætum kjallara hér í blaðinu á fimmtudaginn. Frjáls fjölmiðill er e.k. símstöð, en alls ekki málgagn.

Tilvist frjálsra fjölmiðla ein breytir þó aðstæðum í þjóðfélaginu, þar á meðal í stjórnmálunum. Hún leysti t.d. málgagnslítinn Alþýðuflokk og málgagnslausan Gunnarsarm undan fjölmiðlaeinokun, veitti þeim, eins og öðrum, aðgang að þjóðinni.

Um leið hafa frjálsir fjölmiðlar hér sem annars staðar reynzt geta orðið að kraumandi skoðanapotti kjallara, leiðara og ekki sízt beinna stjórnmálafrétta, þar sem rætt er við stjórnmálamenn um gang þjóðmála.

Ef við berum saman aðgang almennings að öllum þessum skoðunum og upplýsingum eins og hann er nú og var fyrir áratug, er auðvelt að sjá, að miklu auðveldara er nú að átta sig á því, sem er að gerast og taka skynsamlega afstöðu til þess.

Úr suðupotti stjórnmálanna getur stundum komið eins konar pólitískur vilji. Ákveðnar hugmyndir ná svo almennri útbreiðslu, að stjórnmálaflokkar, helzt fleiri en einn, taka þær upp á sína arma og ná samstarfi um framkvæmd þeirra.

Verðtrygging fjárskuldbindinga hafði lengi kraumað í stjórnmálaflokkum og frjálsri fjölmiðlun, þegar Framsóknarflokkurinn gerði hana að sínu máli í stjórnmálalega aðgengilegu formi og fékk henni framgengt að verulegu leyti.

Þetta var ekki verk frjálsra fjölmiðla, frekar en kosningasigur Alþýðuflokksins árið 1978, Framsóknarflokksins 1979 og Sjálfstæðisflokksins 1982. Í öllum tilvikum lágu að baki straumar, sem endurspegluðust í frjálsri fjölmiðlun.

Mál verða seint knúin til sigurs af einum manni eða fáum. Nokkrir menn geta t.d. sýnt skaðsemi hins hefðbundna landbúnaðar mjólkurvara og lambakjöts ár eftir ár og áratug eftir áratug, án þess að til verði nægur pólitískur vilji.

Í slíku máli dugir ekki, að Alþýðuflokkurinn geri feimnislegar tilraunir til að taka undir nokkur atriði málsins. Meðan aðrir stjórnmálaflokkar standa vörð um vitleysur í landbúnaði, miðar úrbótum mjög hægt, svo sem dæmin sanna.

Hvar er svo hinn pólitíski vilji fyrir þjóðstjórn, sem Bragi Sigurjónsson sækist eftir í kjallaragreinum sínum? Hvergi finnanlegur. Og um hvað ættu svo þessir fjórir flokkar að semja allir saman í einni sæng? Um núll.

Við höfum hins vegar nýtt dæmi um, að myndazt hafi nægur pólitískur vilji. Það er í meðferð aðila vinnumarkaðarins á kjarasamningum. Í sumar kom í ljós á bak við slagorðin, að þeir voru að ræða um hinn raunverulega vanda, skiptingu þjóðartekna.

Annað dæmi er um, að pólitískur vilji sé að verða nægur, – í minnkun fiskiskipastólsins. Fyrirstaða Framsóknarflokksins ætti að bresta um leið og flokkurinn hættir að þurfa að verja linku sjávarútvegsráðherra síns.

Rétt er af Braga að halda áfram baráttu sinni fyrir þjóðstjórn. Kannski taka fleiri undir og um síðir svo mjög, að stjórnmálaflokkarnir fallast á, að nægur þjóðarvilji sé að baki, og breyta þeim vilja í pólitískan vilja.

Um öll slík mál, hvort sem þau eru ný af nálinni eða gömul, hvort sem þau eru fjarri eða nálægt nægum pólitískum vilja, á einmitt að fjalla hér í DV. Hér er suðupotturinn, sem við getum öll hrært í, símstöðin, sem við getum öll hringt í.

Jónas Kristjánsson.

DV

Verra en verðbólga.

Greinar

Barátta stjórnmálamanna við verðbólguna er að verða mikilfenglegasta böl þjóðarinnar. Þeir eru orðnir svo uppteknir við að reyna að hindra ris kvikasilfursins í hitamælinum, að þeir forðast allar raunhæfar aðferðir til lækninga.

Ekki má skrá gengi krónunnar rétt, né hafa vexti rétta á fjárskuldbindingum forréttindagreina, af því að þá rís kvikasilfrið í hitamæli verðbólgunnar. Ekkert má gera af viti, af því að það framreiknast í prósentum á verðbólgumæli.

Að vísu er verra að hafa 55% verðbólgu en 30% og verra að hafa 80% verðbólgu en 55%. En vandamálin eru fleiri en verðbólgan ein. Aðgerðir gegn henni eiga ekki að dreypa eitri á rætur góðrar framtíðarheilsu efnahagslífsins.

Núverandi útsala ríkisstjórnarinnar á ódýrum gjaldeyri er ein alvarlegasta framleiðsla hennar á eitri. Þessi útsala krossfestir útflutningsatvinnuvegina, heldur uppi óhófseyðslu og stefnir að óbærilegri skuldabyrði þjóðfélagsins.

Ef skyndilega ætti að skrá gengið rétt, mundi verðbólgan taka stökk. Prósenturnar mundu flæða um þjóðfélagið og að lokum búa til þörf fyrir nýja gengislækkun. Vegna þessara verðbólguáhrifa halda ráðamenn okkar að sér höndum.

Slæmt er, að gengislækkun skuli þurfa að leiða til annarrar gengislækkunar. En samt verður ekki af neinu viti komizt hjá því að skrá gengi krónunnar rétt á hverjum tíma. Slaginn við verðbólguna verður að heyja á öðrum vígstöðvum.

Önnur alvarleg eiturframleiðsla stjórnvalda er tregða þeirra við að gera verðtryggingu fjárskuldbindinga að fastri reglu. Enn eru flestar forréttindagreinar reknar á ódýrum útsölulánum, sem skekkja strauma fjármagns um æðarnar.

Margir stjórnmálamenn eru þar á ofan svo forstokkaðir, að þeir muldra sí og æ um, að vextir hafi risið úr hófi fram og séu að sliga atvinnulífið. Þeir eru að reyna að grafa undan þeim verðtryggingarvotti, sem kominn er.

Þessir arftakar Lúðvíks Jósepssonar ættu að líta til Bandaríkjanna, þar sem forvextir eru hvorki meira né minna en 8% umfram verðbólgu. Verða stjórnvöld þar vestra þó seint sökuð um andstöðu við hagsmuni atvinnulífsins.

Ef skyndilega ætti að skikka forréttindagreinar til að endurgreiða lán í jafngildum verðmætum og þær fengu upphaflega að láni, mundi verðbólgan taka stökk, auk þess sem rekið yrði upp ramakvein um fyrirsjáanlegt gjaldþrot.

Í rauninni er orðið bráðnauðsynlegt að fara að leyfa sumum fyrirtækjum að verða gjaldþrota, svo að betra rými verði fyrir hin, sem eru í frambærilegum rekstri. Hvaða vit er til dæmis í að láta grínista stunda togaraútgerð?

Ef lán væru á raunvirði, mundu peningar síður streyma til óarðbærra hluta og meira fé verða aflögu til verkefna, sem geta staðið undir lánum og skilað arði. Þetta mundi líka draga úr sjúklegri þörf fyrir skuldasöfnun í útlöndum.

Ef allar fjárskuldbindingar og ekki bara sumar fengju að fljóta á raunverulegu markaðsvirði, og ef gengi íslenzku krónunnar fengi líka að fljóta á raunverulegu markaðsvirði, mundi minna máli skipta hvaða hitastig er sýnt á verðbólgumælinum.

Stjórnmálamenn okkar eru ófáanlegir til að sjá, að verðbólgan er ekki sjúkdómurinn sjálfur, heldur aðeins hiti, sem honum fylgir. Forsenda raunverulegra læknisaðgerða er að skrúfa fyrir eitur á borð við útsöluverð á lánsfé og gjaldeyri.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíðskan.

Greinar

Með borgarstjórann í broddi fylkingar var nýr meirihluti í Reykjavík ekki nema fjórar vikur að brjóta niður mikilvægustu þætti stefnubreytingarinnar, sem tekið hafði fráfarandi meirihluta fjögur ár að byggja upp.

Verk síðustu fjögurra ára munu fljótt gleymast með lkarus-strætisvögnum og Rauðavatns-íbúðabyggð. Senn verður fjögurra ára valdaskeið vinstri manna í Reykjavík svo gersamlega þurrkað út, að eftir stendur gat í borgarsögunni.

Ekki fer framhjá neinum, sem fylgist með, að ný vinnubrögð hafa tekið við hjá borgaryfirvöldum. Nýr stíll leiftursóknar hefur tekið við af hægfara skotgrafahernaði nefnda og starfshópa, – bæði til góðs og ills fyrir borgarbúa.

Í fjögur ár var borginni stjórnað í stíl Alþýðubandalagsins, sem einnig mætti kalla Hjörleifskan stíl, af því að hann sést í ýktri mynd hjá núverandi orkuráðherra. Í hlutlausum orðum sagt er þetta eins konar ráðuneytisstíll.

Stíllinn einkennist af fjölda nefnda og starfshópa, sem framleiða mikið pappírsflóð. Ákvarðanir eru teknar mjög hægt og í fljótu bragði séð á grundvelli vandaðra upplýsinga, hverrar sérfræðiskoðunarinnar ofan á annarri.

Þessi hæga meðferð kom þó ekki í veg fyrir, að keyptir voru ófullnægjandi strætisvagnar og að tekin var röng ákvörðun um þróun byggðar austur til heiða í stað norðurs með ströndum, sem áður hafði verið á dagskrá.

Hinn nýi Davíðski stíll er hins vegar eins konar fyrirtækjastíll. Skorin er niður aðild og umfjöllun nefnda og starfshópa, pappírsframleiðsla er takmörkuð og ákvarðanir teknar nánast á hlaupum milli hæða eða bara í síma.

Stefnubreytingin frá Rauðavatni til Korpúlfsstaða var tekin án samráðs við Borgarskipulagið, þar sem búast mátti við fyrirstöðu embættismanna frá vinstra valdaskeiðinu. Davíð tilkynnti bara nýjan kúrs. Búið mál.

Davíðskan hefur það fram yfir Hjörleifskuna, fyrirtækjastíllinn fram yfir ráðuneytisstílinn, að áratuga reynsla hér og erlendis sýnir, að fyrirtæki í samkeppni er ekki hægt að reka á annan hátt, ef þau eiga að vera arð- bær.

Í efnahagslífinu verður oft að taka skjótar ákvarðanir til að fljóta ofan á í lífsins ólgusjó. Opinberar stofnanir eru hins vegar yfirleitt ekki reknar á neinum arðsemiskröfum. Þar gefa menn sér langan tíma, stundum endalausan.

Kennslubækur í stjórnun segja, að ákvarðanir sé ekki hægt að taka með pappír og nefndum. Einhver einn, sem til þess er ráðinn eða kjörinn, verði að taka af skarið og bera ábyrgð, þótt hann geti þegið ráð nefnda og starfshópa.

Í stórum dráttum er hinn hraði og harði fyrirtækjastíll betri en hinn hægi og daufi ráðuneytisstíll, jafnvel í opinberum rekstri. Að vísu getur hann gengið út í öfgar, – hjá Reykjavíkurborg eins og annars staðar.

Þegar ákveðið er að gera deiliskipulag að nýju íbúðahverfi, er rétt að gefa sér tíma til að efna til víðtækrar verðlaunasamkeppni til að geta valið úr nokkrum fjölda hugmynda, en vera ekki alveg háður tveggja mánaða vinnu tveggja arkitekta.

Misheppnað hverfi verður seint strokað út með loftpressum. Davíð borgarstjóri hefur tekið mikla og óþarfa áhættu, því að sérfræðileg umfjöllun og ekki sízt samkeppni hugmynda hljóta að leika lykilhlutverk í hraða stílnum, ef hann á að takast.

Jónas Kristjánsson

DV