Greinar

Við höfum leyfi til að læra.

Greinar

Þeir yrðu dýrir, ráðherrarnir okkar, ef gerðir þeirra ættu að binda hendur þjóðarinnar og afkomenda hennar allt til enda veraldarinnar. Ráðherrar eru mistækir eins og annað fólk. Og þjóðin vill fá að nýta lærdóminn af reynslu sögunnar.

Við súpum enn seyðið af viðamiklu og sjálfvirku landbúnaðarkerfi, sem Ingólfur Jónsson setti í fastar skorður á viðreisnar-áratugnum. Einhvern tíma tekst okkur að losna við þá byrði, hvað sem Ingólfur sagði á sínum tíma.

Enn er byrjað að vitna í einokunarloforð, sem Hannibal Valdimarsson gaf Flugleiðum, þegar hann lét sameina Flugfélagið og Loftleiðir árið 1973. En loforð Hannibals getur ekki bundið hendur Steingríms Hermannssonar eða þjóðarinnar árið 1982.

Einokunarstefna Hannibals náði ekki þeim árangri, sem til var ætlazt. Flugleiðum efldist ekki ásmegin. Þær voru ekki nógu fljótar að átta sig á breyttum aðstæðum í flugmálum Vesturlanda og enduðu á framfæri íslenzkra skattgreiðenda.

Óhætt er að slá því föstu, að samkeppni sé betri en einokun. Við einkaréttaraðstöðu breytast fyrirtæki í opinberar stofnanir, æðarnar harðna og hjartað stirðnar. Við sjáum þetta á öllum sviðum, heima og erlendis, einnig í fluginu.

Steingrímur Hermannsson sté aðeins stutt skref í samkeppnisátt, þegar hann leyfði Íscargo að fljúga til Amsterdam, borgar, sem Flugleiðir höfðu í skjóli einokunar ekki nennt að sinna. Þetta var örsmár liður í öllu flugdæminu.

En Flugleiðir brugðust við eins og einokunarstofnanir gera jafnan. Þær fóru líka að fljúga til Amsterdam, keyrðu verðið niður og biðu í trausti stærðar sinnar eftir því, að litli uppáþrengjandinn yrði gjaldþrota á ævintýrinu.

Þessa forsögu verður að hafa í huga nú, þegar leyfið til Amsterdam hefur verið tekið af Flugleiðum. Þetta er borg, sem Flugleiðir sinntu ekki, fyrr en keppinautur hafði beðið um leyfi til að fljúga þangað – og fengið það.

Inn í þetta mál flæktist síðan óviðurkvæmileg sala á flugleyfi Íscargo til Arnarflægs. Síðara félagið var vel að Amsterdam-fluginu komið, en átti ekki að þurfa að kaupa út framsóknarmenn, sem höfðu farið flatt á spekúlasjónum.

Arnarflug er fyrirtæki, sem hefur staðið sig vel í leiguflugi og innanlandsflugi. Það er miklu heppilegri tilraun en Íscargo til heilbrigðrar samkeppni við Flugleiðarisann. Það er líka arðbært og þiggur ekki ríkisstyrk.

Með skiptingu meginlands Evrópu milli Flugleiða og Arnarflugs hefur Steingrímur Hermannsson komið upp óbeinni samkeppni í stað annars vegar beinnar og hins vegar engrar. Þetta er varfærin aðferð, sem dregur úr grimmd samkeppninnar.

Óbein samkeppni verður milli flugs til Amsterdam og Luxemborgar. Ennfremur milli flugs til Düsseldorf og Frankfurt. Þetta ætti að nægja til að tryggja neytendum eðlileg fargjöld til meginlandsins, þótt útsölufargjöldum ljúki.

Ef vel gengur, mætti vel hugsa sér að færa út óbeina samkeppni, veita til dæmis öðrum en Flugleiðum leyfi til að fljúga til Glasgow í Bretlandi, Osló á Norðurlöndum og Chicago í Vesturheimi. Einnig mætti endurskoða innanlandsflugið.

Hvað sem Hannibal Valdimarssyni líður, má öllum vera ljóst, að einokun í flugi stríðir gegn hagsmunum íslenskra neytenda og skattgreiðenda. Steingrímur Hermannsson þarf að standa af sér gerningaveðrið og halda áfram á sömu braut.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzka sérstaðan

Greinar

Tímabært er orðið að kanna, hver mundu verða áhrifin á Íslandi af kjarnorkuárás á kafbáta í Norður-Atlantshafi. Við þurfum að vita, hvernig við eigum að bregðast við slíkri árás og hvernig við eigum að búa okkur undir hana.

Þetta er jafn tímabært og útekt Almannavarna var fyrir tæplega áratugum á hættunni af kjarnorkuárás á Keflavíkurflugvöll. Þá var skýrlsunni að vísu stungið undir stól. Og nú er viðkvæmnin meiri en svó, að úttekt sé gerð.

Við þurfum að vita, hvort búast megi við miklum flóðbylgjum af völdum kjarnorkuspreinginga í hafinu og hvort spillt yrit til lanframa dýralífi á stórum eða litlum hafsvæðum. Íbúar eylands í miðju hafi verða að afla sér þekkingar á þessu.

Ef til vill eru kjarnorkuspreningar í hafinu svo staðbundnar, að jafnvel margar saman mundu þær ekki hafa nein umtalsverð áhrif hér. Alténd ætti hættan ekki að vera nema brot af hættunni af kjarnorkuspreingum á landi og yfir því.

Hafið er í vaxandi mæli að verða geylsustaður kjarnorkuvopna. Þar er hægt að hafa þau á stöðugri hreyfingu til að spilla mögulium andstæðinganna á að miða þau út. Þau eru þar öruggari en á föstum skotpöllum á landi.

Kjarnorkuvopn eru í flugvélum yfir hafni, í skipum og í kafbátum neðansjávar. Hættulegastir og öflugastir eru kafbátarnir, sem Bandaríkin hafa nú á svimi í höfunum, eru frærir um að eyða Sovétríkjunum, þótt Bandaríkin sjálf og eitthvað af kafbátum þeirra hafi roðið kjarnorkuárás að bráð. Og vopnabúnaður kafbátaflotans mun aukast hratt.

Ef svo fer sem horfir, að Sovétríkin leggja mesta áherzlu á magn kjarnorkuviðbúnaðarins, en Bandaríkin á gæði, má búsat við, að kjarnorkuvopn í hafinu verði sífellt mikilvægari hindrun í vegi hugsanlegrar ævintýtamennsku í austri.

Einnig kann svo að fara, að óbeit friðarsinna á að hafa kjarnorkuvopn nálægt sér uppi á landi muni hraða flutingi viðbúnaðarins yfir hafið. Við þurfum að vita, hvort það eykur eða minnkar hættu eyþjóðar í norðanverðu Atlantshafinu.

Mikil áherzla er lögð á viðræður austurs og vesturs um gagnvkæma frystingu og síðan samdrátt í meðaldrægum kjarnorkuflaugum í Evrópu. Og sífellt er verið að minna á gamlar hugmydnir um kjranorkuvopnalaus svæði.

Af hálfu nokkurra íslenzkra friðarsinna hefur verið talað um svokallaða “íslenzka sérstöðu”, er krefst kjarnorkuvopnalauss hafs. Sú krafa felur í sér lítið annað en góðan vilja og virðist hafa einn árangursríkan farveg að falla í.

Að lýsa yrif kjarnorkuvopnalausu hafsvæði er ósköp svipað og að lýsa yfir, að viðkomandi ætli ekki að verða fyrri til að beita kjarnorkuvopnum. Hvort tveggja má svíkja á augnabragði, þegar talið verður nauðsynlegt, hernaðarins vegna.

Fræðilega séð ætti að vera hægt að hreinsa landsvæði af kjarnorkuvopnum eins og hægt er að semja um frystingu, samdrátt og eftirlit. En haf verður ekki hreinsað meðp sama hætti, því að þar er allt á hreyfingu.

En við eigum að viðurkenna staðreyndir og hætta að stinga höfðinu í sandinn.Við eigum að leggja aukna vinnu í að meta hættur, sem staðja að okkur, ekki bara af jarðskjálftum og eldgosum, heldur einnig af kjarnofkuvopnum, þar á meðal í hafi.Jónas Kristjánsson

DV

Að vilja eða gera

Greinar

Viljayfirlýsingar eru ekki mikils virði í alþjóðlegum samskiptum. Samkvæmt Helsinki-samkomulaginu hefur stjórn Sovétríkjanna tekið að sér að gæta mannréttinda heima fyrir. Samt hefur hún aukið mannréttindabrot sín eftir undirskriftina.

Auðvelt er að sjá, að viljayfirlýsing Kremlverja um, að þeir verði ekki fyrstir til að grípa til kjarnorkuvopna, er jafmarklaus og viljayfirlýsing þeirra í Helsinki-samkomulaginu. Hún er bara lélegt áróðursbragð.

Þar á ofan er líklegt, að menn reyni að forðast að efna viljayfirlýsingar, þegar til kastanna kemur, jafnvel þótt þeir hafi í upphafi gefið þær af góðum vilja.Rökstyðja má, að nausðyn brjóti yfirlýsingar, ekki síður en lög.

Það hernaðrarbandalag, sem fer halloka í stríði hefðbudninna vopna, feistast áreiðanlega til að beita kjarorkuvopnum til þess að komast hjá ósigri. Við slíkar aðstæður mundu jafnvel ráðamenn á Vesturlöndum freistast til að gleyma viljayfirlýsingum.

Furðulegt er, að fullorðnir og ábyrgir menn á Vesturlöndum skui hafa mælt með gagnkvæmum viljayfirlýsingum austurs og vestur af þessu tagi. Það er tímaeyðsla að eyða samingafundum í tal um yfirlýsingar, en ekki áþreifanlegar gerðir.

Hins vegar er áþreifanlegt að tala um frystingu núverandi kjarnorkuviðbúnaðar, þarð er að segja stöðvum tilrauna, framleiðslu og uppsetningar kjarnorkuvopna undir eftirliti, sem undanfara síðari niðurskurðar þessara vopna udnir eftirliti.

Þar er verið að tala um áþreifanlegar gerðir, sem eru umfræðuhæfar, þótt þær séu engan vegin auðveldar. Gömul reynsla er á, að erfitt er að ná samkomulagi um virkt eftirlit með efndumá frystingu og niðurskurði.

Raunar gæði Reagan Bandaríkjaforseti, ef hann væri sniðugur, ákveðið einhliða frystingu af hálfu Bandaríkjanna í ákveðinn tíma, meðan Kremlverjar fengju tíma til að hugleiða, hvort þeir ættu að svara í sömu mynt kjarnorkufriðar.

Þetta mundi flýta fyrir samdrætti herafla, ef Kremlverjar hafa á honum áhuga, sem er alveg óvíst. Að vísu yrði frystingin bara upphafið að löngum og flóknum viðræðum, en þær færu þó fram í mun betra andrúmslofti en ella væri.

Reagan gæti tekið frumvkæði í málinu, af því að han hefur nóg af kjarnorkuvopnum til að gæta öryggis vesturs, þótt hann frysti ný vopn í bili. Hinir hreyfanlegu kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna eru örugg ógnun gegn leifursókn.

500 kjarnaokkar Bandaríkjanna í kafbátum í hafinu eru næg ástæða til að halda Kremlverjum frá leifursókn gegn Bandaríkjunum. Bátarnir mundu gera svo mikinn usla, að sigur Sovétríkjanna yrði enginn, heldur sameiginlegur ósigur.

Hitt er svo íhugunarefni, hvort hinar nýju SS-20 kjarnorkuflaugar Kremlverja geti ekki eingangrað Vestur-Evrópu, af því að ráðamönnum Bandaríkjanna þyki ekki taka því að fóna heilum borgum heima fyrir til að verja bandamenn handan hafsins.

Alténd er ljóst, að þessar flaugar fela í sér gífurlegan pólitískan þrýsting á ríkisstjórnir Vestur-Evrópu, sem þegar þurfa að sæta öflugum áganfi friðarhreyfinga, er stefna sumpart að einhliða afvopnum frekar en engri.

vonandi sjá Kremlverjar, að lokaslysið mikla verður ekki í þágu þjóðskipulags þeirra frekar en annarra. Vonandi ganga þeir með því hugarfari til viðrænanna, sem nýlega hófust í Genf um gagnvkæman samdrátt hernaðarógnunar austurs og vesturs.

Jónas Kristjánsson

DV

Hæg er leið til helvítis.

Greinar

Ísland er að verða gjaldþrota, meðan gersamlega ábyrgðarlausir landsherrar spjalla um, hvort veita eigi 80 milljónum króna í styrki til útgerðar og 30 milljónum í viðbótarstyrki til landbúnaðar. Þeir haga sér sem þeir væru á tunglinu.

Fyrir aðeins þremur árum, 1979, fóru 13% af útflutningstekjum okkar í að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum. Í ár munu 19-20% af útflutningstekjunum hverfa í þessa hít. Þetta er rosalegt stökk á aðeins þremur árum.

Heildarskuldir Íslands hafa á þessu skamma árabili hækkað úr 35% í 40% þjóðarframleiðslu eins árs. Þær jafngilda nú orðið fimm mánaða þjóðarframleiðslu og nema um 80.000 nýkrónum á hvert mannsbarn í landinu, þar á meðal börn og gamalmenni.

Svo virðist sem þetta ástand eigi enn eftir að versna. Landsherrarnir hafa fyrir framan sig tölur Þjóðhagsstofnunar, þar sem spáð er 7,5% viðskiptahalla á næsta ári og 7,5% árið þar á eftir. Fyrir þessum halla þarf að slá erlend lán.

Þetta getur aðeins endað með skelfingu, nema landsherrarnir vakni af sætum draumum skuttogarakaupa og annarra fyrirgreiðslna Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs. Þeir verða að hætta að ímynda sér, að þeir vaði í peningum.

Landsherrarnir eru að veðsetja börnin okkar. Þeir spara sér erfiðið við að stjórna eins og menn með því að varpa ábyrgðinni á þá, sem eiga að taka við á næstu áratugum. Þetta mun örugglega leiða til landflótta og hruns þjóðfélagsins.

Það kemur ekki til nokkurra mála, að við getum leyft landsherrunum að halda áfram með þessum hætti. Viðskiptahallinn á næsta ári má ekki verða neinn, né heldur árin þar á eftir. Stöðva verður hina hægu leið til helvítis.

Við getum hjálpað landsherrunum með því að viðurkenna sjálf, að við lifum um efni fram. Við kaupum erlendan gjaldeyri á útsöluverði til að afla okkur lúxusvarnings. Við verðum að átta okkur á, að fyrir þessari eyðslu er ekki nokkur grunnur.

En það má ekki nefna orðið “gengislækkun” í eyru sumra ráðherranna, svo fjarri eru þeir hinum efnahagslega raunveruleika. Ef skrá ætti gengið rétt og stöðva útsölu gjaldeyris, mundi þurfa að minnsta kosti 30% gengislækkun.

Önnur aðferð til að stöðva hrunið er að draga úr fjárfestingu. Hún nemur nú 25% eða fjórðungi þjóðarframleiðslunnar. Þetta er of hátt hlutfall, jafnvel þótt svo vel væri, að fjárfestingin væri í nytsamlegum og arðbærum hlutum.

En ríkið hefur byggt upp flókið kerfi Seðlabankafrystingar, Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar, Fiskveiðasjóðs og Veðdeildar landbúnaðarins til að tryggja, að fjármagnið festist ekki í arðbærum hlutum, heldur gæluverkefnum.

Árum saman hefur fjárfesting í hinum hefðbundna landbúnaði, offramleiðslunni á kjöti og mjólkurvörum verið hin sama eða meiri en fjárfestingin í iðnaði. Þessi rányrkja fær sjálfvirk fjárfestingarlán svo að styrkirnir megi dafna og blómgast.

Á sama tíma hefur ríkið stuðlað að rányrkju hafsins og óhóflegri stækkun fiskiskipaflotans með því að útvega 85-105% lán til skipakaupa. Ofan á þetta eru landsherrarnir svo að gamna sér við steinullarver, sykurver og önnur vonlaus ver.

Ef stöðvuð verður hin geðveikislega fjárfestingarstefna landsherranna og þjóðin áttar sig á, að gengið er rangt skráð, er hægt að hindra þjóðargjaldþrot. En það verður ekki gert með núverandi japli, jamli og fuðri.

Jónas Kristjánsson

DV

Framúrstefnumenn.

Greinar

“Það er mín skoðun, að það sé affarasælast, að við, sem upphaflega vorum kosnir í nefndina, sitjum í henni áfram. Ég álít, að þeir, sem síðar voru kosnir, muni reyna að tefja framgang mála og þæfa þau.”

Þessi þunga og markvissa rökhyggja kom nýlega fram í blaðaviðtali við fyrrverandi Blöndusamráðs-nefndarmann í Svínavatnshreppi. Hann neitar þess vegna að víkja fyrir nýjum mönnum, sem kosnir hafa verið af nýrri hreppsnefnd.

Kosturinn við þessa framkvæmd mála, að mati nefndarmannsins fyrrverandi, er, að “við munum þess í stað vinna þannig að málum, að þau leysist farsællega, bæði fyrir okkur sveitungana, okkar nágrannasveitir og þjóðina alla”.

Það er víðar en í Svínavatnshreppi, að heimur versnandi fer. Hvarvetna taka verri nefndir við af skárri, verri sveitarstjórnir og verri landsstjórnir. Nefndarmaðurinn fyrrverandi hefur fundið einfalt og algilt ráð til varnar þessu.

Þannig hefði Sigurjón Pétursson, fyrrverandi forseti borgarstjórnar í Reykjavík, getað hætt að hafa áhyggjur af stefnubreytingu nýs meirihluta með tilheyrandi útstrikun Rauðavatnsbyggðar og Íkarusvagna. Hann gæti hafa sagt:

“Það er mín skoðun, að það sé affarasælast, að við, sem upphaflega vorum kosnir í borgarstjórn, sitjum í henni áfram. Ég álít, að þeir, sem síðar voru kosnir, muni reyna að tefja framgang mála og þæfa þau.”

Að vísu er orðið of seint fyrir Sigurjón að neita að standa upp fyrir Albert. En Gunnar Thoroddsen getur, ef á þarf að halda, brugðið á ráð fyrrverandi nefndarmannsins úr Svínavatnshreppi og neitað að standa upp, – með þessum orðum:

“Það er mín skoðun, að það sé affarasælast, að við, sem upphaflega vorum valdir í ríkisstjórn, sitjum í henni áfram. Ég álít, að þeir, sem síðar voru valdir, muni reyna að tefja framgang mála og þæfa þau.”

Kosturinn við þetta væri náttúrlega hinn sami og norður í Svínavatnshreppi: “Við munum þess í stað vinna þannig að málum, að þau leysist farsællega, bæði fyrir okkur stjórnarsinnaða sjálfstæðismenn, okkar þjóð og heim allan.”

Slík vinnubrögð mundu auðvitað spara þjóðinni mikinn kostnað, mikla hugaræsingu og miklar kollsteypur í kosningum. Allir þeir, sem fyrir eru, mundu sitja áfram og koma á þann hátt í veg fyrir, að heimur versnandi fari.

Svo myndast um leið möguleikar á, að alls konar áhugamenn, sem betur vita en hinir, geti gripið fram fyrir hendur ráðamanna, er ekki standa sig nógu vel. Á þessu hafa áttað sig framkvæmdastjórar og stjórnarmenn Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs.

Þeir hafa eins og aðrir þungar áhyggjur af tilraunum ríkisstjórnar og alþingis til “að tefja framgang mála og þæfa þau” á sviði vegagerðar. En þeir Rauðarárstígsmenn eru hugmyndaríkari en svo, að þeir láti slíka smámuni standa í vegi.

Þeir komu saman og ákváðu að verja sjö milljónum króna af fé Byggðasjóðs til vegaframkvæmda, umfram þær þrjátíu milljónir, sem sjóðurinn á að borga samkvæmt vegaáætlun alþingis. Þeir vissu, að þetta var “affarasælast”.

Ef ríkisstjórnin heldur áfram að þrjózkast við “að tefja framgang mála og þæfa þau”, er líklega “affarasælast”, að Byggðasjóðsmenn fari norður og sæki nefndarmanninn fyrrverandi til að leysa þessi mál “farsællega”, bæði fyrir …”.

Jónas Kristjánsson.

DV

Drepinn í styrkjadróma?

Greinar

Vandamál Íslendinga í sjávarútvegi eru heimagerð og stafa ekki af samkeppni af hálfu Norðmanna og Kanadamanna’ sagði dr. Björn Dagbjartsson í einkar athyglisverðri kjallaragrein hér í Dagblaðinu & Vísi á fimmtudaginn var.

Björn bendir á, að í framantöldum nágrannalöndum sé sjávarútvegurinn ekki alvöru atvinnuvegur, heldur félagsleg byggðastefna. Aðrir hafa kallað þetta dulbúið atvinnuleysi. Útgerðin á að halda uppi atvinnu og byggð á vonlausum stöðum.

Björn segir það liðna tíð, að Norðmenn haldi uppi samkeppni við okkur í sölu fiskafurða á erlendum markaði. Síðan þeir tóku upp hina margumræddu og vonlausu styrkjastefnu, hafi þeir ekki verið samkeppnisfærir á þessu sviði.

Ástand norska þorskstofnsins sé orðið slíkt, að norskur þorskur muni ekki þvælast fyrir okkur á erlendum markaði í náinni framtíð, jafnvel þótt styrkir við norska útgerð verði enn auknir til að vernda atvinnu og byggð.

Kanadamenn séu sumir hverjir að átta sig á, að þeir sitja í sömu súpunni og Norðmenn. Ástandið á austurströndinni er þannig, að vonlaust sé að finna fiskveiðistefnu, er geti tryggt 75.000 manns og 32.000 fleytum þolanlega afkomu.

Formaður Fiskifélags Kanada segir, að um árabil hafi sjávarútvegsstefna stjórnvalda einkum beinzt að meintum félagslegum þörfum þjóðfélagsins, en heilbrigð efnahagsþróun fyrirtækja í sjávarútvegi hafi setið á hakanum.

Kanadíska styrkjastefnan hafi þær afleiðingar einar að halda uppi of fjölmennum og of fjárfrekum sjávarútvegi. Björn rökstyður, að samkeppnisaðstaða batni ekki við þetta, heldur versni því lengur sem þessu sé haldið áfram.

Reynsla margra atvinnugreina í mörgum löndum er, að opinberir styrkir hamla gegn hagþróun og viðhalda dulbúnu atvinnuleysi. Reynt er að breiða yfir vandaun með undirboðum á erlendum markaði. Samt sökkva þessir atvinnuvegir alltaf dýpra.

Atvinnuvegur, sem stendur á eigin fótum, getur keppt við hliðstæðan, styrktan atvinnuveg í öðrum löndum. Sá fyrri sigrar, af því að hann fylgir heilbrigðum arðsemiskröfum. Hinn síðari tapar, af því að hann er í rauninni bara byggðastefna.

Björn bendir á nokkur atriði, sem draga úr möguleikum íslenzks sjávarútvegs á að standa á eigin fótum. Það er samkeppnin um vinnuaflið hér heima, samkeppnin um fjármagnið hér heima og samkeppnin um takmarkaðan fiskinn í sjónum.

Hættulegast af þessu er vafalaust samkeppnin um fiskinn. Alltof mörg skip hafa verið keypt með opinberri fyrirgreiðslu til að berjast um takmarkaðan afla, stunda ofveiði. Allir tapa auðvitað í þessari ríkishvöttu samkeppni og rányrkju.

Á síðustu árum hefur æ oftar heyrzt það markmið í sjávarútvegi að tryggja búsetu í ákveðnum plássum með jöfnum og þéttum löndunum fiskafla. Byggðastefnan er að víkja til hliðar þeirri skoðun, að sjávarútvegur sé til að græða á.

Því miður er ekki nægur fiskur í sjónum til að tryggja búsetu í öllum víkum, né til að tryggja öllum atvinnu. Fækka verður skipum og mannskap, svo að sjávarútvegurinn haldist arðbær og að ofveiði verði stöðvuð.

Grein Björns er gott dæmi um, að þoka byggðastefnu og rányrkju er ekki allsráðandi hér á landi. Hér og þar skín gegnum þokuna í hugsun, sem gefur okkur nokkra von um, að hið opinbera nái ekki að drepa sjávarútveginn í styrkjadróma.

Jónas Kristjánsson.

DV

Atómfriður á enda

Greinar

Þjóoðir austurs og vesturs hafa búið við kjarnorkufrið í aldarþriðjung. Kalda stríðið hefur verið mismunandi kalt, en aldrei öðru vísi en kalt, þótt sundum hafi hitnað í kolunumm hér og þar í heiminum, stundum með þátttöku heimsveldanna.

Þessi kjarnorkufirður gagnkvæmur ógnunar er sífellt að verða ótryggari. Áður stafaði hætta aðallega frá hugsanlegum árásaraðila, en nú eru vopni sem slík í vaxandi mæli að verða veigamesta ógnunin við heimfriðinn.

Árin 1979 og 1980 sýdni bandarískur tövlubúnaður þrisvar sinnum, að sovézk kjarnokruárás væri hafin. Þetta ókst að leiðrétta í tæka tíð. En smám saman styttist tíminn, sem menn hafa til að grópa í hina sjálfvirku viðbúnaðarvél.

Ef Bandaríkjamenn koma Pershing 2 kjarnorkuvopnum fyrir í Vestur-Evrópu árið 1984, geta þeir rústað kjarnorkuvarnir Sovétmanna á sex mínútum. Þetta er svo skammur tími, að Sovétmönnum gefst ekki tími til að skoða málið.

Þess vegna munu þeir koma sér upp algerlega sjálfvirkum viðbúnaði til varna. Þeir verða að treysta á tölvur sínar, sem eru lakari en hinar bandarísku. Þegar ljósin fara að blikka, er ekki tími til að leita að hugsanlegri bilun.

Þannig er hinn aldarþriðjungs gamli og tryggi kjarnorkufriður smám saman að breystast í öruggan ófrið. Tæknin og tímahrakið hafa tekið völdin af stjórnmálamönnum og herforingjum. Á endanum leiðir lítil bilun til sjálfvirks stríðs.

Þetta er ástandið, sem hefur leitt til víðtækrar friðarhreyfingar á Vesturlöndum. Menn eru að vakna upp við hinn vonda draum, að kalda stríðið milli austurs og vesturs getur aðeins endað með ósköpum, þótt enginn sækist eftir þeim.

Hin nýja friðarhreyfin er víðtækari en hinar fyrri. Hún nær til hægri manna og vinstri, ungar og gamalla. Hún nær til hægri manna og vinstri, ungra og gamalla. Hún nær meira að segja til áhrifamikilla stjórnmálamanna. frystigarstefna Edwards Kennedys er eitt kunnasta dæmið um það.

Þessi friðarhreyfing hefur líka aðgang að betri upplýsingum en hinar fyrri. Hún hefur aðgang að rannsóknastofnunum og vísindamönnum, sem geta dregið í efa fullyrðingar hernaðarkerfa um, að þau séu að dragast aftur úr.

Samkeppni upplýsinga á Vesturlöndum um hermál er smám saman að leiða til samkomulags friðarhreyfingar og hernaðarkerfa um, hvað séu réttar upplýsingar og hvað ekki. Hvorugur aðilinn getur lengur haldið fram algerum firrum.

Einn hrikalegan veikleika hefur þó friðarhreyfingin. Og hún hefur enn sem komið er lítið gert til að horfast í augu við hann. Spurningin er, hvort hún stirðnar og koðnar niður, ef hún kemst ekki yfir veikleikann.

Hann er sá, að friðarhreyfingin hefur aðeins friðaráhrif öðrum megin við járntjaldið. Fyrir austan er litið á friðarhreyfinguna sem dæmi um, að Vesturlönd séu að grotna innan frá og því megi sýna þeim meiri fetu á alþjóðavettvangi.

Keremlverjar eru að komast á þá skoðun, að þeir þurfi ekki að semja um gagnkvæma afvopnun. Vesturlönd muni smám saman afvopnast einhliða. Vestrænr sjtórnmálamenn og síðan heilar ríkisstjórnir muni ganga friðarhreyfingunni á hönd.

Slíkar freistingar Kremlverja magnar friðarhreyfingin og því meira sem hún verður öflugri. Á þessu þarf hún að finna lausn, ef hún á ekki sjálf að bætast í hóp alls þess sem þegar stuðlar að endalokum siðmenningarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherra á kreppuvegi.

Greinar

Ef stjórnmálamenn standa sig, þegar á reynir, má fyrirgefa þeim margt, jafnvel byggingu Þörungavinnslunnar handa kjósendum og sölu opinberra flugleyfa til að bjarga flokksbróður frá gjaldþroti. Spilling verður seint upprætt.

En Steingrímur Hermannsson stendur sig ekki einu sinni, þegar á reynir í embætti sjávarútvegsráðherra. Hann grípur ekki til augljósra aðgerða til að gera sjávarútveginn samkeppnishæfan á hörðum og ófrávíkjanlegum alþjóðamarkaði.

Hruni loðnustofns og samdrætti þorskstofns þarf að mæta með fækkun skipa með hjálp úreldingarfjár og gjaldþrotaskipta, endurhæfingu skipa til kolmunnaveiða með hjálp endurbótafjár, sölu veiðileyfa og gengislækkun eða gengisfloti.

Í þess stað hefur Steingrímur neytt þeirri stefnu upp á Framsókn, að fiskiskipaflotinn sé í rauninni ekki of stór! Þessu hélt Lúðvík Jósepsson raunar fram á sínum tíma, en hafði sér til afsökunar, að þá vissu sumir ekki betur.

Þessi flokksfirra er líka eingöngu sett á flot til að breiða yfir þá staðreynd, að Steingrímur hefur verið sjávarútvegsráðherra linastur að standa gegn kaupum á nýjum skipum, sem útilokað er, að geti nokkru sinni staðið undir sér.

Framundan eru svo gælur Steingríms við hugmyndir um að sóa 300 milljónum króna til útgerðaruppbóta af fé skattgreiðenda eða afkomenda okkar. Þetta væri hreint sársaukalyf, sem stuðlaði ekki hið minnsta að raunverulegum bata.

Í framhjáhlaupi er svo í forustugrein Tímans minnt á fyrra flokksrugl um ríkisútgerð togara. Það er eins og þetta ömurlega lið ætli ekki að hætta, fyrr en það er búið að koma útgerðinni á sömu vonarvöl og landbúnaðurinn hefur löngum verið.

Að bakgrunni höfum við svo kaldar staðreyndirnar. Loðnan hefur sama sem verið þurrkuð upp og þar með verið höggvið á lífkeðju þorsksins. Jafnframt hefur á tveimur árum verið veitt 30% meira af þorski en fiskifræðingar vildu.

Enginn sterkur þorskárgangur hefur komið síðan 1976. Nú fer sá árangur senn að hætta að geta haldið uppi veiðinni. Enn frekara hrun þorskveiða er því fyrirsjáanlegt á næstu árum, ef ráðamenn og ráðgjafar þeirra vilja ekki taka sönsum strax.

Þegar eru komin í ljós bein áhrif á útgerðina. Vanskil hennar við Fiskveiðasjóð hafa hrannazt upp. Þau jukust úr 132 milljónum í 220 milljónir á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Og eiga eftir að hraðvaxa á næstu mánuðum.

Á sama tíma er Steingrímur Hermannsson að hleypa inn í landið togurum, sem kosta 50 milljónir króna og þaðan af meira, en mættu ekki kosta meira en 20 milljónir, ef nokkur minnsta von ætti að vera á endurgreiðslu vaxta og afborgana.

Enda er ljóst, að útgerðarmenn hinna nýju skipa eru ekki bara að taka spón úr aski þeirra skipa, sem fyrir eru. Þar á ofan ætla þeir sér ekki að endurgreiða krónu af þeim 95%-105%, sem þeir hafa fengið lánuð af kaupverði skipanna.

Hugarfarið er svipað og í baráttunni fyrir alls konar verksmiðjum, sem eiga að rísa á næstu árum, sumpart á kostnað skattgreiðenda og sumpart á kostnað afkomenda okkar, til að framleiða vonlausar vörur á borð við steinull og sykur.

Steingrímur verður þjóðinni margfalt dýrari en ein Þörungavinnsla og eitt Íscargo, ef hann slítur sjávarútveginn úr alþjóðlegu markaðssamhengi og gerir hann að próventukarli við hlið landbúnaðar. Og hann er einmitt á þeim kreppuvegi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sjálfboðavinna bönnuð.

Greinar

Ríkisútvarpið hefur borgað fyrir leyfi til að senda beint til viðskiptavina sinna hvern einasta leik heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu. Þetta leyfi hafa landsmenn greitt í formi afnotagjalda til ríkisútvarpsins.

Fyrir löngu var vitað, að sendingarkostnað um gervihnött má greiða með auglýsingum. Samt sáu Albaníumenn ríkisútvarpsins ekki einu sinni ástæðu til að svara bréfi frá Pósti og síma um pöntun á tíma gervihnattarins.

Svo fer sjónvarpið í frí í miðju kafi og segir viðskiptavinum sínum, að þeir fái að sjá leikina í ágúst og september, mörgum vikum eftir að heimsmeistarakeppninni lýkur. Þá verður óneitanlega farið að slá mjög í efnið.

Bein útsending er auðvitað það, sem áhugamenn um þessa keppni vilja helzt. Enda eru leikirnir sendir beint, hvarvetna þar sem tæknin er til. Albaníumenn hafa þó ekki viljað þetta, enda vita ráðamenn þar vel, hvað sé fólki fyrir beztu.

Hitt landið, þar sem ráðamenn sjónvarps vita, hvað er viðskiptavinum sínum fyrir beztu, er Ísland. Þess vegna eru þeir réttnefndir Albaníumenn ríkisútvarpsins, handhafar hins opinbera valds til að hafa vit fyrir almenningi.

Áhugamenn úti í bæ hafa hlaupið í skarðið og útvegað leikina til sýningar í kapalsýningakerfi Videoson, daginn eftir að þeir voru háðir. Enginn tók eyri fyrir þetta og Videoson sendi án endurgjalds til viðbótar venjulegri dagskrá.

Þetta er auðvitað ekki hið sama og að sjá leikina í beinni útsendingu, eins og þessir og aðrir viðskiptavinir ríkisútvarpsins voru í rauninni búnir að borga fyrir. En þetta gerist þó, meðan spennan stendur enn í keppninni.

Þeir, sem hafa lagt hönd á plóginn, voru í sjálfboðavinnu að vinna verkin Albaníumanna ríkisútvarpsins. Þeir voru við erfiðar aðstæður að gera það, sem sinnulausir starfsmenn hins opinbera áttu að vera búnir að gera.

Það er auðvitað mun skárra að sjá leiki heimsmeistarakeppninnar degi síðar og áður en úrslit keppninnar eru kunn, heldur en að sjá þá mörgum vikum eftir niðurstöðuna. Þetta var ókeypis þjónusta fyrir hluta viðskiptavina ríkisútvarpsins.

Í stað þess að þakka fyrir framtakið, sem felst í að útlagður kostnaður nýtist betur en ella, rjúka hinir annars mjög svo syfjulegu Albaníumenn ríkisútvarpsins upp til handa og fóta og fá sett lögbann á sjálfboðavinnuna.

Þetta eru dæmigerð viðbrögð embættismanna, sem kunna ekki að skammast sín, þótt margoft hafi verið komið að þeim sofandi á verðinum og þótt þeir hafi á undanförnum vikum reynzt margsaga í tilraunum til að vísa frá sér sökinni.

Albaníumenn ríkisútvarpsins geta nú lagzt aftur á græna eyrað, sælir í þeirri trú, að komið hafi verið í veg fyrir, að viðskiptavinir þeirra fái að njóta 450.000 króna útlagðs kostnaðar, fyrr en heimsmeistarakeppnin er gleymd og grafin.

Slíkt hugarfar og slík framkoma væri óhugsandi, ef hér ríkti ekki einokun. Ef frelsi ríkti á þessu sviði, kæmust Albaníumenn ríkisútvarpsins ekki upp með að kasta hálfri milljón króna og læsa vöruna vikum saman niðri í skúffum.

Axarsköft Albaníumanna ríkisútvarpsins væru þó einhvers virði, ef þau hafa opnað augu viðskiptavina þeirra, það er landsmanna allra, fyrir því, að núverandi einokunarkerfi hefur gengið sér til húðar og þarf að líða undir lok.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðleystur útgerðarvandi.

Greinar

Nefnd var það kallað fyrr á árum, þegar blanda þurfti saman misviturra manna ráðum. Síðan Hjörleifur kom til skjalanna hefur það heitið starfshópur. En Steingrími dugir ekki minna en stormsveit. Má segja, að þar hæfi skel kjafti.

Steingrímur og sérfræðingar hans eru að reyna að telja okkur trú um, að þeir séu að fást við mjög torleyst mál, þar sem sé afkoma sjávarútvegsins. Í raun eru þeir ekki að leysa neitt, heldur að hlaða ofskipulagi ofan á ofskipulag.

Ekkert er auðveldara en að leysa vandamál sjávarútvegsins. Gallinn er bara sá, að pólitísk bannhelgi hvílir á skynsamlegum lausnum, auk þess sem Steingrímur þarf að breiða yfir almennt getuleysi sitt sem sjávarútvegsráðherra.

Það er einföld lygi, þegar stormsveitin segir, að gengislækkun leysi engan vanda. Gjaldeyrir er einmitt á útsölu um þessar mundir, svo að fela megi hluta verðbólgunnar. Þetta kemur fyrst og fremst niður á útgerð og fiskiðnaði.

Til þess að sjá þetta þarf að kunna samlagningu og frádrátt. Venjulegt fiskiskip greiðir aflahlut til sjómanna auk afborgana, vaxta, veiðarfæra og olíu. Margt af þessu er innlendur kostnaður, aðeins í óbeinum tengslum við gengi krónunnar.

Það eru bara hinir steingrímsku skuttogarar síðustu missera, sem hafa svo fáránlegan rekstrargrundvöll, að ekkert getur bjargað þeim, ekki einu sinni rétt gengisskráning. Enda eru þeir eingöngu gerðir út á Byggðasjóð og Fiskveiðasjóð.

Það er líka lygi, að ekki megi hagnast á útgerð á kolmunna. Það dugir bara ekki að veiða hann með hangandi hendi, heldur verður að læra af Færeyingum og gera það í fullri alvöru. Það má sem sagt ekki veiða kolmunnann í bræðslu.

Samræmdar rannsóknir Norðmanna, Færeyinga og Íslendinga hafa sýnt, að arðbært er að veiða kolmunna í frost, skreið og marning. Færeyingar hafa í framkvæmd staðfest þetta og Eldborgin er að sýna fram á hið sama hér heima.

Kolmunnaveiðar henta stærstu þorsk- og loðnuveiðiskipunum, einmitt þeim, sem erfiðast er að reka um þessar mundir. Það er kjörið og arðbært verkefni fyrir um 30 skip að ná sama aflaverðmæti í kolmunna og áður fékkst af loðnu.

Ef ríkið hefur aflögu 300 milljónir króna, á ekki að sóa þeim í uppbættur til útgerðar, heldur verja þeim til að styrkja breytingar á þessum skipum, svo að þau henti betur til kolmunnaveiða. Frystivélar um borð ættu að henta vel.

Loks er það lygi, að yfirvofandi gjaldþrot nokkurra grínista í útgerð sé eitthvert vandamál sjávarútvegsins. Það er einmitt bráðnauðsynlegt, að grínistarnir fari á höfuðið, svo að rýmra verði um hina, sem kunna að gera út.

Ef Steingrímur og stormsveit hans ætla að gera sjávarútveginn að próventukarli á borð við landbúnaðinn, getum við öll pakkað saman og farið. Ef sjávarútvegurinn á ekki að fá að halda uppi þjóðfélaginu, getur ekkert komið í staðinn.

Vandumál sjávarútvegsins er fyrst og fremst óhæfur sjávarútvegsráðherra. Steingrímur afsakar linkuna gegn offjölgun fiskiskipa með því að gera það að flokksmáli, að um offjölgun sé í rauninni alls ekki að ræða.

Við þetta bætist, að ríkisstjórnin má ekki til þess hugsa, að í ljós komi, hver verðbólgan er í raun og veru. Þess vegna þarf hún að falsa gengi krónunnar og sóa þeim gjaldeyri, sem safnazt hafði.

Og svo klóra stormsveitarmenn sér í höfðinu yfir afleiðingunum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Biðja um bull um Helsinki.

Greinar

Nokkrir kaupsýslumenn og embættismenn hafa sent ríkisstjórn og utanríkismálanefnd alþingis bænarskjal um, að samþykktur verði við Sovétríkin samningur um efnahagssamvinnu, er hafi hina fræga Helsinkisamning að leiðarljósi.

Orðrétt segir í upphafi efnahagssamningsins, að ríkisstjórnir Íslands og Sovétríkjanna hafi “að leiðarljósi ákvæði lokasamþykktar ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem undirrituð var í Helsinki 1. ágúst 1975″.

Menn muna ef til vill enn að tæpum sjö árum liðnum, að í Helsinki-samningnum var meðal annars fjallað um frelsi fólks og hugmynda til að fara yfir landamæri, Sovétríkjanna og ríkja Austur-Evrópu jafnt sem annarra.

Samningur þessi er frægastur fyrir, að engan annan hafa Sovétríkin brotið jafn hrikalega á skömmum tíma. Þar hefur frá 1. ágúst 1975 verið þrengt mjög að möguleikum pólitísks utangarðsfólks á að flytjast úr landi.

Frá undirritun Helsinki-samningsins hefur líka verið þrengt mjög að straumi hugmynda yfir landamæri Sovétríkjanna. Skipulega hafa verið teknir úr umferð allir Sovétmenn, sem vildu fylgjast með efndum á þessum sama Helsinki-samningi.

Dæmigert fyrir hugmyndastífluna á landamærum Sovétríkjanna er, að sovésk skoðanasystkini friðarsinna á Vesturlöndum hafa skipulega verið tekin úr umferð, sennilega á þeim forsendum, að ríkisstjórnin þar sé einfær um friðarstefnuna.

Í ljósi harmsögu Helsinki-samningsins má ef til vill líta á það sem þáttaskil, að nokkrir kaupsýslumenn og embættismenn á Íslandi skuli að sjö árum liðnum mæla með því, að ríkisstjórn Sovétríkjanna hafi Helsinki-samninginn að leiðarljósi.

Raunar er hin umrædda setning í uppkasti efnahagssamningsins við Sovétríkin ekki þangað komin fyrir mannréttindahugsjónir íslenzkra kaupsýslu- og embættismanna, heldur að undirlagi Kremlverja eins og uppkastið í heild.

Kremlverjar hafa unun af því að koman slíku ástarhjali í hvers kyns óskylda samninga, rétt svona til að troða því niður í kok á útlendingum, að svart skuli vera hvítt eftir mati Kremlverja á aðstæðum hverju sinni.

Engin ástæða er fyrir ríkisstjórn Íslands að nudda sér utan í Helsinki-samninginn með þessum hætti, nema nánar væri útskýrt, hvernig Kremlverjar hygðust bæta fyrri brot sín og koma í veg fyrir fleiri slík.

Að öðrum kosti stendur málsgreinin í uppkasti efnahagssamnings ríkisstjórna Íslands og Sovétríkjanna eins og nakin ögrun, lélegur brandari eða hnefahögg í andlit þeirra, sem eru eru að væla um, að Sovétríkin eigi að standa við samninga.

Auðvitað eiga Íslendingar að stunda viðskipti við Sovétríkin eftir efnum og ástæðum, en einkum þó í svo miklu hófi, að ekki sé hætta á pólitískum eða hernaðarlegum þrýstingi, sem er sérgrein Kremlverja í viðskiptum og efnahagssamvinnu.

Sumir kaupsýslumenn hafa mikinn áhuga á viðskiptum við Sovétríkin og mega gjarna koma fram sem þrýstihópur í því skyni. Hitt er furðulegra, að embættismenn úr viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og seðlabanka séu í þeim þrýstihópi.

Það er verkefni þrýstihópa úti í bæ að senda bænarskrár til alþingis og ríkisstjórnar. Þær skrár mega gjarna biðja um bull í viðskiptasamningum. En það er ekki verkefni opinberra embættismanna að undirrita bænarskrár þrýstihópa.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vesturströndin vann.

Greinar

Í ríkisstjórn Reagans Bandaríkjaforseta var Haig utanríkisráðherra eins konar fulltrúi austurstrandarinnar, hinnar hefðbundnu utanríkisstefnu Eisenhowers og Nixons, stefnunnar sem horfði austur yfir hafið til Evrópu.

Austurstrandarmenn réðu þátttöku Bandaríkjanna í tveimur Evrópustyrjöldum. Þeir tóku með Marshallaðstoð þátt í að endurreisa Evrópu ettir síðara stríðið. Þeir stofnuðu Atlantshafsbandalagið með þeim ríkjum, sem þeir töldu standa næst sér.

Bæði fyrr og síðar hefur gengið á ýmsu í samstarfi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. En beggja vegna hafsins hafa menn þó til skamms tíma munað eftir sameiginlegum menningararfi og hugmyndaarfi og ekki látið ágreiningsefnin ná of langt.

Vesturstrandarmenn, sem hafa verið við völd í Bandaríkjunum í hálft annað ár, hafa annan sjóndeildarhring. Sumir þeirra líta yfir Kyrrahafið og láta sig meiru skipta bandalög á þeim slóðum en á hinu fjarlæga Atlantshafi.

Aðrir láta sig eingöngu varða meginland Bandaríkjanna og tala jafnvel eins og New York sé í Evrópu. Upp úr þessum jarðvegi heimalninga eru sprottin sjónarmiðin, sem Haig barðist við af fullri hörku, unz hann féll af stalli.

Í Bandaríkjunum hefur breiðzt út sú skoðun, að Vestur-Evrópa sé lélegur bandamaður, sem komi hernaðarútgjöldum sínum yfir á Bandaríkin og sé á bólakafi í kaupsýslu við Sovétríkin. Bandaríkin eigi að láta Vestur-Evrópu eiga sig.

Mörg eru dæmin, sem styðja kenninguna. Vestur-Evrópa sér Kremlverjum fyrir tækni og fé til að leggja langmestu gasleiðslu í heimi. Um leið gleyma Bandaríkjamenn, að þeir sjálfir sjá þessum sömu Kremlverjum fyrir kornmat.

Einnig er sífellt rifjað upp, að útgjöld Vestur-Evrópu til varnarmála eru lægri á hvern íbúa en í Bandaríkjunum. Það gleymist svo, að sum mikilvægustu ríki Vestur-Evrópu eru í alvöru að reyna að minnka bilið.

Gagnkvæmt nöldur af þessu tagi vill magnast, ef menn gæta sín ekki. Bandaríkjamenn segja, að Evrópumenn geti háð sín stríð án bandarískra drengja. Og Evrópumenn segja, að Bandaríkjamenn geti háð sín stríð annars staðar en í Evrópu.

Fyrir hálfu öðru ári komust til valda í Bandaríkjunum menn, sem freistast til að láta Evrópu fara í taugarnar á sér. Þetta eru vesturstrandarmennirnir í kringum Reagan forseta, sem skortir þekkingu og áhuga á utanríkismálum.

Þetta hefur ekki sézt vel á yfirborðinu, af því að í reynd hefur Haig utanríkisráðherra meira eða minna stjórnað utanríkisstefnu Bandaríkjanna og kúgað vesturstrandarmenn með harðri hendi í opinskárri valdabaráttu.

En enginn má við margnum. Hvað eftir annað varð Haig að beita bragði afsagnarhótunar. Slíkar hótanir reynast gjarna digna við notkun. Og þar kom, að Haig var tekinn á orðinu. Hann var látinn standa við áttundu hótunina.

Schulz sá, sem við tekur, kemur ekki úr hinum herbúðunum. Þess vegna er ekki beinlínis ástæða til að óttast kúvendingu í samstarfi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. En hann skortir hörku Haigs í slaginn við vesturstrandarmennina.

Vonandi verður valdaskeið vesturstrandarmanna ekki langvinnt. Vonandi átta Bandaríkjamenn sig á, að samstarfið við Vestur-Evrópu er mikils virði, þótt brösótt hafi verið á köflum. Sameinuð standa Vesturlönd og sundruð falla þau.

Jónas Kristjánsson.

DV

Handvirkt krukk hæfir í bili.

Greinar

Brotinn hefur verið ísinn í kjaraviðræðunum. Vinnumálasamband samvinnufélaganna hefur ekki tekið upp nýjustu kröfur Viunuveitendasambandsins um sjálfvirka vísitöluskerðingu vegna aflabrests og vill í þess stað semja á fyrri grunni.

Fyrir uppákomu Vinnuveitendasambandsins lá í rauninni aðeins eitt lítið prósentustig milli deiluaðila. Alþýðusambandið gat sætt sig við 2,5% vísitöluskerðingu 1. september í haust, en Vinnuveitendasambandið vildi 3.5%.

Líta má á það sem tímamót, að unnt skuli vera að ræða og jafnvel semja um vísitöluskerðingu í kjarasamningum. Er það gott dæmi þess, að viðræður um kjaramál eru smám saman að færast nær raunveruleika efnahagslífsins.

Út af fyrir sig er rökrétt að hugsa málið lengra og slá fram hugmyndum um einhver sjálfvirk tengsl efnahagsástands, til dæmis aflabragða annars vegar og launagreiðslna hins vegar. Slíkt samhengi er æskilegt markmið.

Menn eru smám saman að átta sig á, að kjarasamningar hafa lítil áhrif haft á lífskjörin. Þau ákveðast meira á öðrum vettvangi, sumpart af gerðum stjórnvalda, en einkum af gengi efnahagslífsins, þegar litið er til langs tíma.

Í stað þess að semja um lífskjörin eru menn í almennum kjarasamningum meira að semja um verðbólgustig næstu mánaða. Háir samningar valda meiri verðbólgu og lágir samningar minni, en lífskjör launafólks ern hin sömu í báðum tilvikum.

En lok samningaviðræðna eru ekki rétti tíminn til að kasta fram kröfum um tengingu verðbóta við aflasveiflur. Slíkar hugmyndir þarf að viðra með góðum fyrirvara og gefa öllum málsaðilum tíma til að skoða þær í krók og kring.

Auk þess er engan veginn sjálfsagt, að á verksviði samtaka, sem fjalla um stóran hluta vinnumarkaðsins, en ekki hann allan, sé sjálfvirkt vísitölukrukk og aðrar gerðir, er snerta alla landsmenn, líka þá, sem ekki er verið að semja fyrir.

Hitt er svo líka rétt, að skammt er orðið í sjálfvirkt vísitölukrukk eins og aflabrestsviðmiðunina, þegar aðilar vinnumarkaðsins eru byrjaðir að ræða handvirkt vísitölukrukk á borð við vísitöluskerðingu um 2,5 eða 3,5%.

En hin raunverulega ástæða handvirka krukksins var önnur. Með því að færa launahækkun láglaunafólks upp í samninga byggingamanna og láta almenna vísitöluskerðingu koma á móti, var verið að reyna að láta láglaunafólkið ekki dragast aftur úr.

Þetta var fyrst og fremst krókur Alþýðu- og Vinnuveitendasambandsins á móti bragði meistara og sveina í byggingaiðnaði, sem ætluðu að maka krókinn á kostnað láglaunafólks í krafti þess, að þeir voru að semja við sjálfa sig.

Í lokahríð samninganna áttuðu ráðamenn Vinnuveitendasambandsins sig svo á, að þeir gátu gengið lengra, af því að launafólk vildi ekki fara í verkfall og að öflug andstaða var gegn verkföllum í mörgum aðildarfélögum Alþýðusambandsins.

Vinnuveitendasambandið sneri þá við blaðinu og sló fram kröfunni um tengsl aflabragða og verðbóta. Það vissi, að verkfallsvopnið hafði dignað í höndum Alþýðusambandsins og að líklega mætti þæfa málin til hausts án verkfalla.

Miðað við allt þetta er gott og sanngjarnt, ef Alþýðusambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaganna geta fundið meðaltalið milli 2,5 og 3,5% og náð samkomulagi á fyrra grunni. Aðrir hljóta að fylgja á eftir og vinnufriður verða að nýju. Um sjálfvirkt vísitölukrukk má ræða síðar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hamslaus herraþjóð.

Greinar

Smám saman eru að koma í ljós hinar hroðalegu afleiðingar af hamslausum hernaði Ísraelsmanna í Líbanon. Um tíu þúsund manns hafa verið drepin og um sautján þúsund særð. Sumt eru þetta palestínskir skæruliðar, en mest óbreyttir borgarar.

Allar stærstu borgir Suður-Líbanon eru í rjúkandi rústum eftir innrás Ísraelsmanna. Í Sídon standa úthverfin ein. Í hinni fornu hafnarborg Tyrus er tæpast hægt að finna neitt hús uppistandandi. Í Damour er ekkert lífsmark.

Sex hundruð þúsund manns eru heimilislaus í kjölfar hernaðar, sem meðal annars byggðist á hamslausum sprengjuárásum á borgir og bæi. Þetta er einn fimmti hluti allra íbúa landsins, jafngildir rúmlega fjörutíu þúsund Íslendingum.

Ísraelsmenn hindruðu ferðir blaðamanna í kjölfar innrásarinnar til að koma í veg fyrir, að fréttir bærust af útreið almennings til annarra landa, sérstaklega Bandaríkjanna, sem standa undir útþenslustefnu Ísraelsstjórnar.

Lengi fruman af þessu stríði eða fjöldamorðum var alþjóðlegum hjálparstofnunum meinaður aðgangur að hinum hrjáðu svæðum. Meira að segja barnahjálp Sameinuðu þjóðanna fékk ekki að starfa, þótt börn hafi fengið slæma útreið í stríðinu.

Ofan á aðra grimmd hefur Ísraelsher neitað að viðurkenna Palestínumenn sem stríðsfanga, – segir þá vera hryðjuverkamenn. Virðist það gilda bæði um börn og gamalmenni. “Das Herrenvolk” í Ísrael setur sér eigin siðareglur.

Sigurvegari og þjóðhetja Ísraelsmanna í þessu viðbjóðslega stríði er Ariel Sharon varnarmálaráðherra. Hann er gamall hryðjuverkamaður úr hinum illa þokkuðu lrgun-samtökum og á sér jafnvel verri feril en Begin forsætisráðherra.

Árið 1953 framdi hryðjuverkaflokkur undir stjórn Sharons morð á 69 manns, þar á meðal börnum, með því að loka fólkið inni í 46 húsum og sprengja þau í loft upp. Þetta var hefnd í stíl nasistanna í Lidice og víðar.

Hér fyrr á árum réðu fyrir Ísrael vitrir menn á borð við Ben Gurion. Þá nutu Ísraelsmenn mikils stuðnings gegn yfirgangi nágranna, sem áttu erfitt með að sætta sig við þetta nýja og framandlega ríki á aldagömlu arabísku landi.

Eftir því sem Ísraelsmönnum jókst fiskur um hrygg, jukust hernaðaryfirburðir þeirra í heimshlutanum. Fyrst háðu þeir stríð sín sem varnarstríð. En smám saman hefur varnarstefnan breytzt í yfirgang og nýjasta stríðið er sóknarstríð.

Við gömlu og vitru mönnunum hafa tekið menn eins og Begin og Sharon. Vegur þeirra byggist á, að nógu margir Ísraelsmenn hafa látið velgengnina hlaupa með sig í svipaðar herraþjóðargönur og Þjóðverjar voru leiddir í fyrir stríð.

Geta þeirra Begins og Sharons til að láta drepa óbreytta borgara í Líbanon byggist einnig á fjárhagslegum og hernaðarlegum stuðningi stjórnar Reagans í Bandaríkjunum, sem undir niðri lætur sér vel líka landvinninga síðustu vikna.

Að formi til er Líbanonsstríðið háð gegn samtökum Palestínumanna, sem hafa smám saman þróazt frá því að vera samtök hryðjuverkamanna yfir í að vera viðurkenndur og raunverulegur höfuðmálsvari hinna hrjáðu Palestínumanna.

Í raun er stríð Ísraelsmanna aðallega háð gegn óbreyttum, óviðkomandi og áhrifalitlum Líbanonsmönnum. Þeir hafa verið drepnir þúsundum saman og land þeirra lagt í rúst af stríðsvélarþjóð, sem komin er út af sporinu og lítur á sig sem “herraþjóð”.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hornsteinn í húfi.

Greinar

Hugsum okkur, að í Blaðamannafélagi Íslands yrði lagt til, að Árna Bergmann yrði vikið úr félaginu og Þjóðviljamönnum bannað að starfa með honum, af því að hann hafi lýst þeirri skoðun, að nóg væri að hafa einn mann á blaðinu í íþróttafréttum.

Auðvitað mundi slík tillaga ekki fá eitt einasta atkvæði í félaginu, enda er blaðamönnum ljóst, að ekki er í verkahring félags þeirra að hafa afskipti af skoðunum félagsmanna í þjóðfélagi, sem hefur skoðanafrelsi að hornsteini.

Hugsum okur, að kennara yrði vikið úr stéttarfélagi og kennurum bannað að starfa með honum, af því að hann hafi lýst þeirri skoðun, að allt í lagi væri að hafa 30 nemendur í bekk, þótt aðrir kennarar teldu 25 nemendur vera hámark.

Auðvitað mundi slík tillaga ekki ná fram að ganga í samtökum kennara, af því að einnig þar er mönnum ljóst, að einstaklingar geti og megi hafa aðra skoðun á málum en samtök þeirra hafa sem heild, án þess að slíkt varði útlegð úr starfi.

Hins vegar hafa flugumferðarstjórar í vanhugsaðri frekju látið sér detta í hug að reka mann úr stéttarfélagi og neita að vinna með honum, af því að hann hefur neytt þeirra mannréttinda að hafa sérstaka skoðun.

Þetta óviðfellda mál á að verða ýmsum aðilum í þjóðfélaginu tilefni til að taka afstöðu til þess og annarra slíkra mála, sem upp mundu koma, ef atlaga flugumferðarstjóra að sjálfsögðum lýðréttindum nær fram að ganga að fullu eða að hluta.

Hvað verður til dæmis um þá almennu reglu, sem hér á landi er um þegjandi samkomulag, að allir menn séu í stéttarfélagi og að bara eitt stéttarfélag starfi á hverju sviði? Er ekki verið að rjúfa þann frið í þjóðfélaginu?

Er ekki verið að stíga skref í þá átt, að menn raði sér í stéttarfélög eftir skoðunum, til dæmis stjórnmálaskoðunum, þannig að sjálfstæðismenn verði í einu félagi, alþýðubandalagsmenn í öðru og svo koll af kolli?

Er ekki líka verið að stíga skref í þá átt, að matsatriði sé, hvort einstaklingar séu í stéttarfélögum eða utan þeirra, til dæmis ef skoðanir þeirra fara ekki saman við ríkjandi skoðanir í því stéttarfélagi, sem þeir standa næst?

Stéttarfélögum í landinu ber siðferðileg skylda til að taka afstöðu til yfirgangs flugumferðarstjóra, sem í krafti aðstöðunnar við öryggisstörf ætla að taka þjóðfélagið í gíslingu til að kúga félagsmann fyrir að hafa eigin skoðanir.

Hugsanlega stendur næst Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja að reyna að hafa vit fyrir ríkisstarfsmönnum á villigötum. En ekkert hefur sézt til ráðamanna bandalagsins, sem bendir til, að þeir hafi skilning á hornsteini sem þessum.

Þetta varðar einnig samtök á borð við Alþýðusamband Íslands. Það hlýtur einnig að verða að láta sig skipta, hvort vegið er að þeirri almennu reglu, að menn séu í stéttarfélögum, hvaða skoðanir sem þeir svo hafa á umdeildum atriðum.

Hvert svo sem siðferðisstigið reynist vera hjá heildarsamtökum stéttarfélaga, þá hvílir um síðir sú ábyrgð á ríkisvaldinu að koma í veg fyrir, að fram nái að ganga glæpir á borð við þann, sem flugumferðarstjórar eru að reyna að drýgja.

Ríkisvaldið hlýtur og verður fyrir hönd okkar allra að berjast með hnúum og hnefum gegn því, að samtök geti rutt til hliðar einum helzta hornsteini þjóðfélagsins, sjálfu skoðanafrelsinu. Til slíks höfum við einmitt ríkisvald.

Jónas Kristjánsson.

DV