Greinar

Réttlætið sigraði.

Greinar

Réttlætið hafði sigur á Falklandi rétt í þann mund, er síðasta og helzta blóðbaðið var að hefjast. Argentínska herliðið sýndi skynsemi, þegar kreppti að. Það gafst upp, þegar ósigur var vís fyrir brezku lokasókninni.

Mannfallið í þessu stríði nemur mörgum hundruðum, en hefði getað skipt þúsundum, ef umtalsverð átök hefðu orðið á landi. Vel undirbúin sókn Breta og síðbúið raunsæi Argentínumanna gerðu mannfallið minna en búast mátti við.

Margir spyrja vafalaust, hvort Bretum sé 250 fallinna sona virði að hafa aftur náð tangarhaldi á þessum 1.800 manna eyjum. Slíkar spurningar eru áleitnar í heimi friðarhreyfinga og endurvakningar kristilegra lögmála.

Flestir eru þó enn nógu raunsæir að viðurkenna, að ofbeldi í samskiptum þjóða og ríkja geti þvingað þann, sem fyrir því verður, til að grípa til vopna, rétti sínum og lífsháttum til varnar, jafnvel þótt mannslíf fari fyrir lítið.

Heimurinn væri ólíkur því, sem hann er nú, ef bandamenn hefðu ekki um síðir mannað sig upp í að standa gegn yfirgangi og útþenslu nasista. Þá voru færðar gífurlegar mannfórnir til að verja lífshætti vestrænnar mannréttindastefnu.

Ljóst er, að íbúar Falklands eru og vilja vera brezkir. Þeir kæra sig ekki um að verða þegnar í harðstjórnarríki argentínskra hershöfðingja, sem eru slík illmenni, að Kremlverjar eru eins og kórdrengir í samanburði.

Frelsun Falklands og upphitun brezka flotaveldisins eru eins og krepptur hnefi framan í alla harðstjóra heimsins, hvort sem þeir heita Galtieri, Brezhnev eða Obote. Hún er yfirlýsing um, að enn sé blóð í vestrænu kúnni.

Ef villimennirnir, sem stjórna Argentínu, hefðu haft sitt fram á Falklandi, mundu þeir bæði hafa treyst sig í sessi og fundið hvatningu til að halda áfram á sömu braut ofbeldis inn á við og út á við. Eftir því voru þeir að sækjast.

Tugir harðstjóra um allan heim biðu eftir, að Galtieri hershöfðingja tækist að sýna fram á, að bezt væri að taka með valdi það, sem mann langar í. Lexían hefur hins vegar orðið önnur í reynd, svo er þrjózku Breta fyrir að þakka.

Mikilvægast er þó, að Kremlverjum hefur óbeint verið bent á, að Vesturlönd eru ekki ein allsherjar friðarsæng nytsamra sakleysingja í Hyde Park, hæfilega þroskuð til að gleypa. Falklandsstríðið linar útþensluþrá Kremlverja.

Falkland er svo engan veginn úr sögunni, þótt Bretar hafi unnið orrustu. Þeir verða nú að halda þar úti setuliði fyrir 300 milljónir punda á ári. Og satt að segja er það of dýrt á erfiðum tímum að verja svo fjarlægar eyjar.

Svo lengi sem argentínskir hershöfðingjar þurfa að dreifa athygli kúgaðs lýðsins frá óstjórn og hryðjuverkum stjórnvalda, er alltaf hætta á, að ný atlaga verði gerð að Falklandi. Sigur Breta er engan veginn endanlegur.

Bezt væri því að nota friðinn til að koma á viðræðum um varanlega skipan mála, sem tekur tillit til, að Falkland kemst næst því landfræðilega að teljast suðuramerískur eyjaklasi og varðar því hagsmuni þar í álfu.

Ef Bretar vilja hins vegar fórna peningum um ófyrirsjáanlegan tíma til að tryggja Falklendingum það ríkisfang, sem þeir vilja, og þau mannréttindi, sem þeir vilja, þá eigum við ekki að lasta Breta, heldur hrósa þeim.

Jónas Kristjánsson

DV

Grín og martröð.

Greinar

Íslenzkir grínistar, sem kalla sig útgerðarmenn, eiga ekki fyrir flugfarinu, þegar þeir fara utan að kaupa sér togara. Þeir fá sumt 105% lán til kaupanna og þurfa svo að slá fyrir olíu og veiðarfærum í fyrstu veiðiferðina.

Fyrirfram er vitað, að togarinn getur með engu móti náð helmingnum af þeim afla, sem hann þarf til að standa undir sér. Allir vita, að grínistarnir geta hvorki greitt vexti né afborganir. Og flugfarið er auðvitað enn ógreitt.

Þetta er hægt, af því að íslenzku stjórnmálaflokkarnir hafa komið sér saman um að reka risavaxna banka á borð við Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð, þar sem engar kröfur um arðbærni eru gerðar, aðeins pólitískar kröfur.

Stjórnmálamennirnir nota slíka sjóði til að þjónusta grínista, sem þykjast bjóða upp á jafnvægi í byggð landsins, en manna síðan togarana í öðrum landshlutum og sigla loks með aflann. Þetta heitir byggðastefna og er heilög kýr.

Í Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði kristallast fjármálaspilling íslenzkra stjórnmála. Hún felst í, að núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn sólunda fé almennings í endalausa röð gæluverkefna í útgerð, landbúnaði og iðnaði.

Menn, sem hafa verið kjörnir til að sitja á Alþingi að semja lög og álykta um þjóðmál, en hafa lítið viðskiptavit, verja lunganum úr deginum til að reyna að stjórna atvinnulífinu, til dæmis með hinu risavaxna sjóðakerfi.

Þannig voru reistar Olíumalir og Kröflur. Þannig verða reist Sykurver, Steinullarver og Saltver. Þannig er viðhaldið martröð hins hefðbundna landbúnaðar með tilheyrandi kjöt- og smjörfjöllum. Og þannig er togurunum hlaðið upp.

Ekki er í þágu sjómanna og útvegsmanna, að grínistum eru gefnir togarar. Sérhver nýr tekur afla frá hinum, sem fyrir eru. Afkoma flotans, sem fyrir er, verður lakari við tilkomu nýrra skipa, því að fiskistofnarnir eru takmarkaðir.

Eini arðbæri þáttur togaraaflans er þorskurinn. Af honum veiðist minna í ár en í fyrra. Menn sjá fram á frekari samdrátt á næstu árum. Þorskveiðibann svonefndra skrapdaga er komið upp í 150 daga á ári hjá togaraflotanum.

Við slíkar aðstæður er lífsnauðsyn að minnka flotann, minnka sóknina, minnka olíunotkunina og spara veiðarfærin. Gera þarf upp þá grínista, sem gera út á kostnað almennings, svo að rýmra sé um hina, sem kunna til verka.

Risabönkum á berð við Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð ber skylda til að ganga hart eftir, að staðið sé í skilum með fé almennings. Og að hörmungarfyrirtæki séu gerð gjaldþrota, svo að rekstur færist smám saman í hæfari hendur.

Ennfremur væri til bóta að leggja þessa sjóði niður og beina fjármagninu inn í bankakerfið, þar sem tilraunir eru gerðar til að meta arðsemi. Sjóðirnir starfa af fullkomnu ábyrgðarleysi í fjármálum og eiga sér því ekki tilverurétt.

Hitt er svo spurning, hvort ekki varði við lög að sólunda peningum almennings, misfara með opinbert fé. Hvort ekki megi draga fyrir dóm þá menn, sem stjórna fjárveitingum Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs með vinnubrögðum útgerðar-grínista.

Meðan íslenzkir stjórnmálamenn furða sig á, af hverju þeir njóta ekki álits almennings, eru átta nýir togarar að bætast við flotann. Allir eru þetta pólitískir togarar. Sú martröð er öll á ábyrgð íslenzkra stjórnmálamanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Friðrik tókst það.

Greinar

Fyrst og fremst er að þakka Friðriki Ólafssyni, forseta Alþjóða skáksambandsins, að Bella og Igor Kortsjnoj hafa fengið fararleyfi úr Gúlaginu mikla eftir fimm ára tilraunir til að komast vestur fyrir tjald til Viktors Kortsjnoj.

Íslenzkir utanríkisráðherrar sem aðrir töluðu fyrir daufum eyrum steinrunninna fangabúðastjóra sovézka kerfisins, er hefur það að hornsteini, að einstaklingurinn skuli aldeilis fá að finna fyrir skorti á aðlögun að kerfinu.

Í málum sem þessum skiptir engu, þótt Sovétríkin séu aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi þar á ofan undirritað sérstakt Helsinki-samkomulag, sem meðal annars telur ferðafrelsi til mannréttinda.

Úrslitum réði, að í fyrra frestaði Friðrik heimsmeistaraeinvígi Karpovs og Kortsjnojs á þeim forsendum, að fjölskyldumál Kortsjnojs stæðu í vegi þess, að fyllsta jafnræði ríkti í öllum atriðum milli keppanda.

Eftir hatrammt málastapp var Friðrik lofað persónulega, að fjölskyldumál Kortsjnojs skyldu verða leyst að vori. Og nú er að renna upp eitt dæmi þess, að kerfið getur staðið við loforð og er ekki alls varnað.

Á móti varð Friðrík að fórna meginreglunni, að keppni fari ekki fram við þær aðstæður, að fjölskyldu annars aðilans sé haldið í gíslingu af hálfu útgerðarmanna hins aðilans. Hann varð að láta halda marklaust einvígi í Merano.

Auk þess varð Friðrik að gefa fúlar yfirlýsingar, sem menn keppast nú við að gleyma, þegar menn telja fegnir dagana til endurfæðingar Bellu og Igors út úr Gúlaginu mikla. Þær áttu bara að gleðja illmennin á lokastigi samninganna.

Hitt stendur eftir, að frá siðferðislegu sjónarmiði er enginn heimsmeistari í skák um þessar mundir. Karpov hefur aldrei varið titil sinn á jafnréttisgrundvelli, heldur hefur hann orðið að láta halda fólki í gíslingu.

Slíkt framferði þekkist ekki í öðrum keppnisgreinum á alþjóðlegum vettvangi og er ljótur blettur á Alþjóða skáksambandinu. Sú niðurlæging blífur, þótt fjölskyldumál Kortsjnojs verði nú leyst eftir fimm ára baráttu.

Sjálfur hefur Karpov ekki hugmynd um eðli drengskapar í leik. Ofan á illa fengna tign hefur hann heima fyrir haft forustu í að kúga skákmenn undir kerfið. Hann er skákinni til skammar eins og heimsmeistarinn Aljekin á sínum tíma.

Ekki er auðvelt fyrir Friðrik að hafa valdamikla sovétmenn innanborðs í Alþjóða skáksambandinu. Ekki er hægt að ætlast til, að hann hreinsi andrúmsloftið á einu kjörtímabili. Sambandið var of djúpt sokkið, þegar hann tók við.

Töluverðar horfur eru á, að Friðrík fái annað kjörtímabil til að draga úr siðferðislegri eymd Alþjóða skáksambandsins. Frelsun Bellu og Igors verður ef til vill sú rós í hnappagatinu, er dugi honum til endurkjörs.

Kortsjnoj væri sennilega heimsmeistari, ef leikreglur hefðu verið virtar. Hans tími er liðinn, en nýir taka við. Ef næsti áskorandi má keppa á jafnréttisgrundvelli, fær skákin aftur raunverulegan heimsmeistara.

Slíkt væri jafnframt lokasigur Friðriks Ólafssonar í torsóttri viðleitni hans við að efla reisn Alþjóða skáksambandsins. Íslendingar vilja gjarna bera nokkurn kostnað af forsæti Friðriks og styðja hann með ráðum og dáð.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stöðvið þessa menn.

Greinar

Byggingamenn njóta þeirra forréttinda að þurfa ekki að semja um kjör við hina raunverulegu vinnuveitendur, það er að segja húsbyggjendur. Þeir semja við verkstjóra sína, svonefnda meistara, sem lifa á prósentum af kaupi sveinanna.

Í hvert sinn sem sveinar og meistarar semja, er niðurstaðan reiknuð inn í uppmælinguna og lendir beint á herðum húsbyggjenda. Meistarar hafa ekki annarra hagsmuna að gæta en þeirra, að tekjur þeirra hækka í sama hlutfalli og sveinanna.

Það liggur því í hlutarins eðli, að Meistarasamband byggingamanna er ekki aðili að Vinnuveitendasambandinu og á þar ekki heima. En húsbyggjendur eru ekki heldur í Vinnuveitendasambandinu og hafa raunar engan til að gæta hagsmuna sinna.

Í núverandi kjaraviðræðum hafa sveinar og meistarar samið um að nota þessi forréttindi til að bæta kjör sín umfram aðra og á kostnað húsbyggjenda. Þetta hefur tafið samninga Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins.

Allsherjarverkfallið stafar af því, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið ráða ekki við byggingamenn. Friður væri nú á vinnumarkaðinum, ef byggingamenn hefðu ekki ákveðið að misnota aðstöðu sína til sjálftektar á kjarabótum.

Forkastanlegt er, að þjóðfélagið skuli ekki geta varið sig og húsbyggjendur gegn sjóræningjaaðgerðum eins og einkasamkomulagi byggingamanna. Þar verður ríkisstjórnin að koma til skjalanna og beita bráðabirgðalögum.

Bann við einkasamningi sveina og meistara um sjálftekt á kjarabótum umfram aðra er verðugt viðfangsefni bráðabirgðalaga, þótt slík lög hafi verið sett í óhófi á öðrum sviðum. Nú er ekki bara þörf, heldur nauðsyn.

Ríkisstjórnin þarf ekki aðeins að gæta hagsmuna varnarlausra húsbyggjenda, heldur einnig hinna almennu þjóðfélagshagsmuna, að samdrátturinn í efnahagslífinu komi mildar niður á þeim, sem miður mega sín, en á hinum, sem betur mega.

Þegar þjóðartekjur minnka um 2-3% á einu ári, ætti öllum að vera ljóst, að lífskjör hljóta að rýrna, hversu mjög sem menn blása á kjaramálafundum. Spurningin er aðeins sú, hvort kjararýrnunin eigi að vera jöfn eða misjöfn.

Almennur vilji er í þjóðfélaginu fyrir því, að á samdráttartíma séu ekki aðstæður til að bæta kjör þeirra, sem betur eru settir. Þvert á móti sé sanngjarnt, að þeir taki á sig þyngri hluta byrðanna en láglaunafólkið.

Í kjaramálaumræðu síðustu daga hefur tölunni 8.000 krónum stundum verið slegið fram sem eins konar girðingu milli mánaðarlauna láglaunafólks og annarra. Og uppmælingarmenn byggingaiðnaðarins eru langt fyrir utan þessa girðingu.

Oft hefur verið reynt að gæta hagsmuna láglaunafólks sérstaklega í kjarasamningum, en yfirleitt ekki tekist, til dæmis af því að hálaunastéttirnar njóta forréttinda, svo sem aðstaða byggingamanna sýnir bezt.

Eins og fyrri daginn virðist munu reynast erfitt að vernda láglaunafólkið í þessari lotu kjarasamninga. Í stórum dráttum fær það sömu prósentuhækkun kaups og aðrir, sem þýðir í raun sömu prósentu kjararýrnunar og aðrir.

Við slíkar aðstæður er hneykslanlegt og blóðugt, að forréttindastéttir, sem taka virkan þátt í gjaldeyrisnotkun og öðru lífskjarakapphlaupi, skuli geta fyllt aska sína á kostnað hinna fátækari. Því verður að stöðva byggingamennina.

Jónas Kristjánsson.

DV

Stríðsglaðir virkisbúar

Greinar

Ísraelsmenn hafa dálæti á fjallavirkinu Massada við Dauðahaf, þar sem flokkur gyðinga barðist til síðasta manns gegn óvígum her Rómverja. Gestum og ferðamönnum í Ísrael eru sagðar þjóðsögur og ævintýri frá Massada.

Í viðskiptum við nágrannaríkin virðast Ísraelsmenn haldnir eins konar Massada-duld, þar sem allt Ísrael er eins konar virki, umkringt hersköum fjandsamlegra araba, er bíða færis að taka virkið og hneppa þjóðina í þrældóm.

Ísraelsmenn hafa ástæðu til grunsemda í garð nágrannaríkjanna. Þau reyndu að kæfa Ísrael í fæðingunni og efndu síðan til ófriðar við það. En smám saman náðu Ísraelsmenn undirtökunum, svo sem bext kom í ljós í sex daga stríðinu.

Þeir hafa unnið stríðin, en hafa átt erfitt með að vinna friðinn. Þeir hafa ekki haft lag á að skapa sér friðsamlegt umhverfi með því að rækta bætta sambúð við araba. Þeir hafa ekki getað losað sig við Massada-duldina.

Örlagaríkast var, að samsteypa hægri flokka undir forustu Menachem Begin tók við stjórnarforustu af verkamannaflokki Ben Gurion og Goldu Meir. Áður hafði örlað á sáttfýsi í garð nágrannanna, en nú tók stífnin völdin.

Begin fékk kjörtið tækifæri, þegar Sadat Egyptalandsforseti hóf friðarsókn með heimsókn til Jerúsalem árið 1977. Henni lauk með friðarsamingi að undirlagi Carter Bandaríkjaforseta. Öflugasti nágranninn var ekki lengur svarinn óvinur.

En samkomulagið í Camb David varð aldrei að grundvelli friðar og sáttfýsi á landamærum Ísraels. Begin skorti víðsýni og hugrekki til að koma út úr sínu sálræna Massada-virki og byggja á þeim grunni, sem Sadat og Carter höfðu lagt.

Í frelsisstríði Ísraels var Begin foringi fremur illa þokkaðra skæruliða. Hann vriðist ekki hafa getað losað sig við uppeldið þaðan. Ruddaskapur hans hefur komið skýrt fram í endurteknum og tilhæfulausum árásum á Schmidt Þýzkalandskanslara.

Fyrir þingkosningarnar í fyrra var meirhluti Begins í bráðri hættu. Hann fann þá upp á því oþokkabragði að hefja loftárásir á nágrannan til að æsa upp þjóðernisvitund heim a fyri rog slá skjaldborg um þingmeirihlutann.

Það er gamalt bragð óprúttinna ríkisleiðtoga að dreifa athyglinni frá innanlandsmálum m eð því að hefja ófrið út út á við. Þetta gerði Galtieri hershöfðingi nýlega í Argentínu. Og þetta gerði Begin einmitt í Ísrael í fyrra.

Með því að æsa upp frumstæðar hvatir heimamanna tókst Begin að halda forsætisráðherrastólnum.En jafnframt eyðilagði hann áratuga viðleitni betri manna við að koma á eðlilegum samskiptum þjóða fyrir botni Miðjarðarhafs.

Innrás Begins í Líbanon um helgina er í samræmi við önnur vinnubrögð hans. Friðinn getur hann ekki unnið, heldur sáir hann eitri haturs, hvaélar hans og skriðdrekar fara yfir. Og þetta Massada hefur þjóð hans kosið yfir sig.

Margið Vesturlandabúar hafa dáðst að dugnaði Ísraelsmanna við að byggja upp landið og breyta eyðimörkum í aldingarða. Samúð heimsins var með Ísrael langt fram yfir sex daga stríðið. En á síðustu árum hefur Begin rifið hana í tætlur.

Hið vígvædda og stríðsglaða Massada nútímans, Ísrael, er gífurlegur siðferðisbaggi á Vesturlöndum. Það heldur uppi óeðlilegri spennu milli arabískra og vestrænna ríkja, einkum Bandaríkjanna, sem hafa látið Begin teyma sig út í kviksyndið.Jónas Kristjánsson

DV

Einn prentaður fjölmiðill.

Greinar

Enginn fjölmiðill komst með tærnar, þar sem Dagblaðið & Vísir hafði hælana í upplýsingaþjónustu fyrir byggðakosningarnar nýafstöðnu. Þetta blað eitt hafði blaðamenn á þönum um landið þvert og endilangt til að ná öllum sjónarmiðum.

Árangurinn varð sá, að Dagblaðið & Vísir gat birt viðtöl við fulltrúa allra flokka og lista í öllum þeim 53 kjördæmum, þar sem framboð komu fram, og auk þess birt viðtöl við óbreytta kjósendur á öllum þessum stöðum.

Auk þessa hlaut Reykjavík sérstaka umfjöllun í kjallaragreinum, sem frambjóðendur allra flokka höfðu jafnan aðgang að og notfærðu sér í ríkum mæli. Þannig komust á framfæri í Dagblaðinu & Vísi einum fjölmiðla öll sjónarmið um land allt.

Í þessum viðtölum kom greinilega fram, að engar tvær byggðir eru eins. Hver byggð hefði sín sérstöku verkefni og vandamál og sínar sérstöku hugmyndir að lausnum af hálfu frambjóðenda. Allt þetta litróf birtist í Dagblaðinu & Vísi einu.

Þetta varð að gerast, af því að Dagblaðið & Vísir tekur alvarlega hlutverk sitt sem fjölmiðils. Þáttur þess hlutverks er að segja lesendum fréttir af sjónarmiðum í þjóðlífinu, alveg eins og að segja fréttir af öðrum þáttum þjóðlífsins.

Ríkisfjölmiðlarnir, útvarp og sjónvarp, tóku ekki að sér svona víðtækt hlutverk í aðdraganda kosninganna. Þeir létu sér nægja eins og jafnan áður að reyna að gæta óhlutdrægni milli flokka. Þeir sinntu kosningunum raunar lítið.

Morgunblaðið, Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið komu ekki fram sem fjölmiðlar síðustu vikurnar fyrir kosningar, heldur sem einhliða baráttutæki einstakra framboðslista í Reykjavík, líkt og kosningablöðin úti á landi.

Móðurinn var til dæmis svo mikill á Morgunblaðinu, að hann rann ekki af því eftir kosningar. Einstefnan var þá enn svo mögnuð, að blaðið lét fulltrúa síns flokks um land allt, en enga aðra, túlka kosningaúrslit hvers staðar.

Hvergi þekkist í hinum vestræna heimi, að þau dagblöð, sem eru í hópi hinna útbreiddustu í landinu, kasti fyrir borð fjölmiðlahlutverki sínu og gerist einhliða baráttutæki fyrir hinn stóra sannleik eins framboðslista.

Óhugsandi væri, að hægri sinnuð stórblöð á borð við Berlingske Tidende í Danmörku og Aftenposten í Noregi gerðust baráttutæki á borð við Morgunblaðið. Hins vegar mundu þau telja sig sæmd af upplýsingaþjónustunni, sem Dagblaðið & Vísir veitti.

Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið eru lítil blöð, sem henta sínum sértrúaflokkum. Fólk lítur ekki á þau sem upplýsingamiðla, eiginlega fjölmiðla, heldur sem áróðurstæki stjórnmálaflokka. Þar er hlutverkið ekki misskilið.

Morgunblaðið er hins vegar stórt blað, sem reynir að vera fjölmiðill og áróðurstæki í senn. Stundum er fjölmiðillinn yfirsterkari og stundum áróðurstækið. Slíkur tvískinnungur getur ekki gengið endalaust hér, frekar en annars staðar.

Sú er líka skýringin á vexti og viðgangi Dagblaðsins & Vísis á hálfs árs sameinaðri ævi, að þjóðin hefur áttað sig á, að blaðið vill skilyrðislaust vera fjölmiðill, en ekki eitthvað annað og allra sízt áróðurstæki.

Eðlilegt er, að hver flokkur vilji hafa sitt áróðurstæki, samtals fjögur smáblöð. Þar fyrir utan þarf svo þjóðin einn prentaðan fjölmiðil að minnsta kosti, fjölmiðil, sem segir ekki pass í kosningum eins og ríkisfjölmiðlarnir, heldur veitir alhliða upplýsingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Einn prentaður fjölmiðill

Greinar

Engin fjölmiðill komst með tærnar, þar sem Dagblaðið & Vísir hafði hælana í upplýsingaþjónustu fyrir byggðakosningarnar nýafstöðnu. Þetta blað eitt hafði blaðamenn á þönum um landið þvert og endilangt til að ná öllum sjónarmiðum.

Árangurinn varð sá, að Dagblaðið & Vísir gat virt viðtöl við fulltrúa allra flokka og lista í öllum þeim 53 kjördæmum, þar sem framboð komu fram, auk þess birt viðtöl við óbreytta kjósendur á öllum þessum stöðum.

Auk þess hlaut Reykjavík sérstaka umfjöllun í kjallaragreinum, sem frambjóðendur allra flokka höfðu jafnan aðgang að og notfærðu sér í ríkum mæli. Þannig komust á framfæri í Dagblaðinu & Vísi einum fjölmiðla öll sjónarmið um land allt.

í þessum viðtölum kom greinilega fram, að engar tvær byggðir eru eins. Hver byggð hafði sín sérstöku verkefni og vandamál og sínar sérstöku hugmyndir að lausnum af hálfu frambjóðenda. Allt þetta litróf birtist í Dagblaðinu & Vísi einu.

Þetta varð að gerast, af því að Dagblaðið & Vísir tekur alvarlega hlutverk sitt sem fjölmiðils. Þáttur þess hlutverks er að segja lesendum fréttir af sjónarmiðum í þjóðlífinu, alveg eins og að segja fre|ttir af öðrum þáttum þjóðlífsins.

Ríkisfjölmiðlarnir, útvarp og sjónvarp, tóku ekki að sér svona víðtækt hlutverk í aðdraganda kosninganna. Þei létu sér nægja eins og jafna áður að reyna að gæta óhlutdrægni milli flokka. Þeir sinntu kosningunum raunar lítið.

Morgunblaðið, Tíminn, Þjóðvíljinn og Alþýðublaðið komu ekki fram sem fjölmiðlar síðustu vikurnar fyrir kosningar, heldur sem einhliða baráttutæki einstakra framboðslita í Reykjavík, líkt og kosningablöðin úti á landi.

Móðurinn var til dæmis svo mikill á Morgunblaðinu, að hann rann ekki af því eftir kosningar. Einstefnan var þá enn svo mögnuð, að blaðið lét fulltrúa síns flokks út um land allt, en enga aðra, túlka kosningaúrslit hvers staðar.

hvergi þekkist í hinum vestræna heimi, að þau dagblð, sem eru í hópi hinna útbreiddustu í landinu, kasti fyrir borð fjölmiðlahlutverki sínu og gerist einhliða baráttutæki fyrir hinn stóra sannleik eins framboðslista.

Óhugsandi væri, að hægri sinnuð stórblöð á borð við Berlingske Tidende í Danmörku og Afteposten í Noregi gerðust baráttutæki á borð við Morgunblaðið. Hins vegar mundu þau telja sig sæmd af upplýsingaþjónusunni, sem Dagblaðið & Vísir veitti.

Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið eru lítil blöð, sem henta sínum sértrúaflokkum. Fólk lítur ekki á þau sem upplýsingamiðla, eiginlega fjölmiðla, heldur sem áróðurstæki stjórnmálaflokka. Þar er hlutverkið ekki misskilið.

Morgunblaðið er hins vegar stórt blað,s em reynir að vera fjölmiðill og áróðurstæki í senn. Stundum er fjölmiðillinn yfirsterkari og stundum áróðurstækið. Slíkur tvískinnungur getur ekki gengið endalaust hér, frekar en annars staðar.

Sú er líka skýringin á vexti og viðgangi Dagblaðsins & Vísis á háls árs sameiðari ævi, að þjóðin hefur áttað sig á, að blaðið vill skilyrðislaust vera fjölmiðill, en ekki eitthvað annað og allra sízt áróðurstæki.

Eðlilegt er, að hver flokkur vilji hafa sitt áróðurstæki, samtals fjögur smáblöð. Þar fyrir utan þar svo þjóðin einn prentaðan fjölmiðil að minnsta kosti, fjölmiðil, sem segir ekki pass í kosningum eins og ríkisfjölmiðlarnir, helfur vietir alhliða upplýsingar.

Jónas Kristjánsson

DV

UNESCO eflir kúgun.

Greinar

Bláeygir seminaristar úr kennsluráðuneytum ýmissa vestrænna ríkja virðast eiga erfitt með að skilja raunveruleika þriðja heimsins að baki vel menntaðra og demantsleginna harðstjórnarfulltrúa á alþjóðlegum samkundum.

Í flestum löndum þriðja heimsins þjáist almenningur mun meira en á nýlendutímanum. Í stað vestrænna og veiklundaðra nýlenduherra eru komnir sérlega grimmir og gráðugir heimamenn, sem kúga og kvelja þjóðir sínar.

Harðstjórum þriðja heimsins er mikið í mun að skrúfa fyrir alla fjölmiðlun, sem ekki er á vegum þeirra sjálfra, innan lands, inn í það og út úr því. Með þeim hætti gengur þeim betur að rupla og ræna þjóðir sínar í friði.

Þeir halda því fram, að Vesturlönd beiti þjóðir þeirra upplýsingakúgun í krafti yfirburðastöðu í fjölmiðlun. Vestrænar athafnir á þessu sviði spilli þjóðareiningu og þjóðarsál á grýttri framfarabraut ríkja þriðja heimsins.

Harðstjórarnir hafa árum saman einkum beitt sléttgreiddum fulltrúum sínum á vettvangi Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þar hefur þeim tekizt að slá ryki í augu manna, sem ekki sjá muninn á þjóðum og harðstjórum þriðja heimsins.

Mikilvægasta árangrinum náðu harðstjórarnir fyrir hálfu öðru ári, þegar UNESCO ákvað að vinna að nýskipun fjölmiðlunar í heiminum. Í kjölfarið hefur fylgt aukin ríkisumsjá í þriðja heiminum, bönn og ritskoðanir og fangelsanir.

Nú hefur UNESCO komið á fót svokallaðri þróunaráætlun fjölmiðlunar. Allir styrkir, sem hingað til hafa verið veittir samkvæmt áætluninni, hafa runnið til eflingar áróðursráðuneyta einstakra ríkja og svæðissambanda.

Þessi áróðursráðuneyti sigla sumpart undir fölsku flaggi fréttastofa. Markmið þeirra er samt allt annað en þeirra stofnana, sem kallast slíkum nöfnum á Vesturlöndum. Þær vinna ekki að því að upplýsa, heldur að hindra upplýsingar.

Með fjárhagsaðstoð Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna stefna margir harðstjórar þriðja heimsins markvisst að útilokun vestrænna fréttastofa, annarra fjölmiðla og innlendra umboðsmanna þeirra frá ríkjum þeirra.

Þannig þykjast harðstjórarnir geta rofið haldreipið eða tvinnaþráðinn, er liggur milli kúgaðs og ruplaðs almennings í þriðja heiminum og þess hluta veraldar, þar sem mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna er helzt í heiðri höfð.

Í stað vestrænna frásagna af raunveruleika rána, pyndinga og morða í þriðja heiminum eiga að koma glansmyndir áróðursráðuneyta af brosandi harðstjórum að klappa litlum börnum á kollinn. Í þessa þágu hefur UNESCO verið virkjað.

Íslendingar fara í stórum dráttum eftir mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal ákvæðum hennar um tjáninga- og upplýsingafrelsi. Við þolum að vísu enn ríkiseinokun á fjölmiðlum ljósvakans, en ræðum um hana sem vandamál.

Fulltrúar okkar á alþjóðlegum samkundum eiga að benda fulltrúum harðstjóranna á, að mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna eigi ekki aðeins við um fámennan hóp vestrænna ríkja, heldur eigi að gilda fyrir mannkynið í heild.

Fulltrúar okkar eiga að átta sig á, að hinir vel menntuðu þriðja heims menn eru hirðmenn harðstjóra og ekki umboðsmenn almennings í þriðja heiminum. Þeir eru blóðsugur á þriðja heiminum og þá á að umgangast sem slíkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Vont veður er sumpart gott.

Greinar

Þegar láglendi verður alhvítt um mikinn hluta landsins og heiðar verða ófærar eða illfærar í byrjun maí, er eðlilegt, að margir hugsi til suðrænna stranda og láti sig dreyma um að dveljast þar í sólskini og blíðu.

Þegar hvassir vindar blása dægrum og jafnvel dögum saman í byrjun maí, er eðlilegt, að margir hugsi til suðrænna skóga og láti sig dreyma um þýðar golur og öflugan gróður, þar sem jarðarberin eru þegar orðin þroskuð.

Sem betur fer hafa margir Íslendingar efni á að veita sér veðursælu paradísar í tvær-þrjár vikur á fárra ára fresti og sumir jafnvel á hverju ári. Þetta er vel þegið hlé á sleitulausri menningar-og lífsbaráttu hér norður í höfum.

En paradís ferðamannsins þarf ekki nauðsynlega að vera paradís heimamannsins. Við Miðjarðarhafið eru lífskjör mun síðri en hér og raunar þeim mun lakari, sem nær dregur miðbaug. Það er ekki allt fengið með gróðursæld og sólarblíðu.

Hitinn lamar athafnavilja og starfsgetu, ekki bara dag eftir dag og ár eftir ár, heldur kynslóð eftir kynslóð. Miðjarðarhafsbúar geta verið dag að koma því í verk, sem Íslendingar eru vanir að afgreiða á stundarfjórðungi.

Forfeður okkar fórnuðu ættartengslum og heimahefðum, þegar þeir fóru yfir úfið haf til fjarlægs lands, sem bauð upp á síðri skilyrði til kornræktar en voru heima fyrir. Þetta getur ekki hafa verið auðveld ákvörðun.

Hingað komnir öfluðu þeir sér menningar, sem bar langt af fyrri heimahögum. Þeir hófu ritlist til vegs, bæði í skáldverkum og sagnfræði. Þessi sérstaða hefur risið og dalað á ellefu öldum og er enn merkjanleg.

Þeir, sem ekki skrifa bækur, stunda tónlist, myndlist eða leiklist. Það eru ekki margar borgir í heiminum, sem bjóða upp á 70 málverkasýningar á aðeins einu ári.

Að baki verklegrar og andlegrar menningar Íslendinga stendur óblíð náttúra, er heldur okkur sífellt við efnið, þegar við viljum slaka á. Allt er hér stöðugum breytingum undirorpið, meira að segja loftþrýstingurinn.

Með þessu er ekki sagt, að bezt sé að hafa sem verst og breytilegust skilyrði frá hendi móður jarðar. Norrænir menn urðu að sætta sig við hrun landnáms í Grænlandi, af því að þar fóru hin ytri skilyrði niður fyrir það, sem þeir réðu við.

Forvitnilegt er þó, að þar eins og hér neituðu þeir að falla inn í náttúruna og héldu áfram að haga sér eins og heimsborgarar fram í rauðan dauðann. Í gröfum þeirra hafa klæðin reynzt vera í samræmi við nýjustu Parísartízku þess tíma.

Líklegt má telja, að hæfilega harðskeytt náttúra, samfara hæfilegri þrjózku gegn því að lagast að þessari náttúru, veiti mönnum og þjóðum aðhald eða áskorun til að rísa upp í óvenjulegu framtaki, verklegu og andlegu.

Suðurgöngur okkar eru margfalt öflugri en þær voru á tímum Guðríðar Þorbjarnardóttur eða Jóns Indíafara. Íslendingar nútímans sætta sig ekki við náttúru heimalandsins. En þeir koma yfirleitt allir til baka norður í garrann.

Við erum líka þolinmóð, þótt sumarið ætli seint að koma að þessu sinni. En auðvitað mundum við taka því með fögnuði, ef vind tæki nú að lægja, sól að skína og snjó að renna. Af því að síðan er skammt í næsta vetur.

Jónas Kristjánsson

DV

Endurreistur miðbær.

Greinar

Dönsku verkfræðingarnir, sem á sínum tíma skipulögðu gatnakerfið fyrir þáverandi meirihluta borgarstjórnar, eru nú að gera hið sama fyrir núverandi meirihluta og hafa lagt til, að Laugavegur verði að göngugöngu.

Þetta er hin bezta hugmynd, sérstaklega ef hún verður þáttur í víðara samhengi, þéttingu byggðar í Reykjavík, – án draumóra um byggingasvæði á Reykjavíkurflugvelli og á ýmsum auðum stöðum, þar sem betra væri að hafa gras.

Skynsamlegar hugmyndir um þéttingu byggðar hafa lent á villigötum hjá núverandi meirihluta, sem virðist ófáanlegur til að leiða hugsunina til rökréttrar niðurstöðu. Og minnihlutinn hefur að venju lítið til málsins að leggja.

Reykjavík ætti að þétta með því að endurreisa Laugavegssvæðið frá Grettisgötu niður að Skúlagötu. Þar eru ekki götubútar, er þarf að varðveita á staðnum. Og unnt er að flytja annað þau einstöku hús, sem menn kunna að sjá eftir.

Laugavegur yrði göngugata þessa miðbæjar, Skúlagata bílabrautin og Hverfisgata strætisvagnaleiðin. Frá Skúlagötu þyrfti að vera hægt að aka á nokkrum stöðum inn í bílageymslur undir þaki við gönguás Laugavegsins.

Mikilvægt er, að þeir, sem koma á bílum og í strætisvögnum, geti stigið út undir þaki og komizt í skjóli fyrir veðrum og vindi inn á Laugaveginn, sem auðvitað þarf að vera yfirbyggður með gleri eða gegnsæju plasti.

Á jarðhæð við Laugaveginn yrðu eins og nú margar litlar verzlanir. Og þar að auki inngangur til annarrar líflegrar starfsemi, svo sem veitingahúsa, kvikmyndahúsa, leikhúsa og danshúsa, er gætu verið í kjöllurum og bakhúsum.

Á næstu hæðum fyrir ofan yrðu skrifstofur í heldur meiri mæli en nú er. Efst kæmu svo íbúðir í háhýsum, nógu margar til að jafngilda atvinnutækifærum á svæðinu. Íbúafjöldi og atvinnutækifæri eiga að standast á í miðbænum.

Margir munu áfram búa í Breiðholti og sækja vinnu niður í bæ, meðan aðrir munu búa í þessum endurreista miðbæ og sækja vinnu upp í Breiðholt. En í heild draga íbúðir í miðbæ mjög úr umferð milli hverfa og spara umferðarmannvirki.

Til þess að þetta megi gerast verða yfirvöld borgarinnar að ná eða knýja fram samstöðu lóðaeigenda á Laugavegssvæðinu um heildarskipulag, er gjarna mætti hvíla á grundvelli alþjóðlegrar samkeppni með háum verðlaunum.

Lóðaeigendur þyrftu þá að fá fermetrarétt í byggingum svæðisins í hlutfalli við verð lóða þeirra, en án tillits til, hvernig þeirra eigin blettur nýtist, svo að smálóðasjónarmið bindi ekki hendur þeirra, sem svæðið skipuleggja.

Þessi rökrétta niðurstaða hugmynda um þéttingu byggðar í Reykjavík hefur ýmsa kosti. Einn hinn mikilvægasti er, að hún tekur tillit til veðurfars. Hún viðurkennir þá staðreynd, að hér er kaldi, blástur eða rigning meirihluta ársins.

Hugmyndir um blómlegt gangstéttalíf í göngugötu geta orðið að veruleika í sólríkum og veðursælum útlöndum. Hér verður hins vegar að búa til hin ytri skilyrði með því að byggja yfir göturnar og hita þær upp.

Annar kostur niðurstöðunnar er, að þetta er ekki nýr miðbær, heldur endurreisn miðbæjar, sem þegar er til með fjölbreyttu lífi, ótal verzlunum og annarri atvinnu. Þótt niðurstaðan sé róttæk, er hún um leið íhaldssöm, því að hún byggist á grunni þess, sem fyrir er.

Jónas Kristjánsson

DV

Arftakar nasista á ferð.

Greinar

Argentína hefur löngum verið vestrænu lýðræði erfiður biti í hálsi. Í síðari heimsstyrjöldinni veitti hún öxulveldunum óbeinan stuðning. Eftir styrjöldina varð hún griðland illræmdra nasista, sem þar hafa síðan markað djúp spor.

Nasistar kenndu argentínskum herforingjum hinar skefjalausu ofsóknir gegn stjórnmálaandstæðingum. Smám saman urðu nemendurnir kennurunum færari í grimmdinni. Nú er Argentína orðin eitt helzta forusturíki illmennskunnar í heiminum.

Við Argentínu er kennd sú aðferð að smala stjórnmálaandstæðingum upp í flugvélar, fara með þá langt út yfir Atlantshafið og varpa þeim þar lifandi útbyrðis, svo að dánarorsökin verði drukknun, ef svo ólíklega vildi til, að þeir fyndust.

Þannig hafa þúsundir Argentínumanna horfið án tangurs né teturs. Herforingjarnir yppta bara öxlum og segjast hvergi hafa komið nærri. Eins og önnur grimmd hefur þessi aðferð breiðzt út frá Argentínu um aðra hluta Rómönsku Ameríku.

Forustumenn af þessu tagi eru auðvitað ekki gjaldgengir í vestrænu samfélagi, þótt siðblindir menn á borð við Reagan Bandaríkjaforseta virðist halda það. Dapurlegt er að horfa upp á fulltrúa hans viðra sig upp við herforingjana.

Steininn tók þó úr á kvöldi innrásarinnar í Falklandseyjar. Þá sat veizlu argentínskra herforingja annar siðblindinginn til, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, frú Kirkpatrick. Slíkt mega menn ekki gera.

Ekki getur Bandaríkjastjórn samt hrósað sér af miklum áhrifum á herforingjana. Þeir hlupu í skarðið, þegar Bandaríkjamenn hættu að selja Sovétríkjunum korn eftir innrásina í Afganistan. Og nú hafa þeir hótað aðstoð Kremlverja.

Staðreyndin er sú, að illmenni til hægri eiga samleið með illmennum til vinstri. Argentínskir herforingjar eru nú á dögum náttárulegir bandamenn Kremlverja, ekki síður en þeir voru stuðningsmenn Hitlers á sínum tíma.

Bandaríkin og önnur lýðræðisríki eiga hins vegar samleið með argentínskum lýðræðissinnum, sem hugsanlega geta komizt til valda, ef óstjórn herforingjanna rennur út í sandinn við misheppnaða herför til Falklandseyja.

Þorskastríðin eru svo langt að baki, að Íslendingar hafa efni á að viðurkenna, að í máli Falklandseyja slær hjarta þeirra með Bretum, einum bandamanna okkar í fámennri sveit lýðræðisríkja í ofbeldishneigðum heimi harðstjóra.

Villimenn í austri og vestri og suðri eru reiðubúnir að draga lærdóm af Falklandseyjadeilunni. Sigur herforingjanna mun leiða til aukins ofbeldis í samskiptum ríkja. Ósigur þeirra mun hins vegar draga úr slíku ofbeldi.

Tilkall Breta til Falklandseyja er svo sem ekki mikið eða merkilegt. En íbúarnir þar líta þó á sig sem brezka og hafa hingað til kosið að vera brezk nýlenda. Þannig eru Falklandseyjar ekki sambærilegar við Jan Mayen.

Friðsamlegasta og bezta lausn deilunnar er bráðabirgðastjórn þrívelda, Bandaríkjanna, Bretlands og Argentínu, eftir skjóta brottför argentínska hersins. Síðan gæti Bretland fengið eyjarnar að láni í Hong Kong stíl til 30 til 50 ára, en Argentína fengi endanlegan yfirráðarétt.

Þetta er það, sem málsaðilar voru að reyna að semja um, áður en ofbeldið varð ofan á. En hvernig sem deilan fer, þá er samúð okkar öll með Bretum og engin með arftökum nasistanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Meirihlutavíxl eru möguleg.

Greinar

Landsmenn hafa enn sem komið er tæplega tekið eftir, að sveitarstjórnakosningar eru á næsta leiti. Að minnsta kosti eru Reykvíkingar lítið farnir að hugsa um þessar kosningar, svo sem kemur fram í skoðanakönnun DV í dag.

Þetta kemur heim og saman við upplýsingar frá vinnustaðafundum frambjóðenda. Þar hafa menn lítinn áhuga á að ræða borgarmál við frambjóðendur, en þeim mun meiri áhuga á landsmálunum. Samt er ekki nema mánuður til kosninga.

Þegar rúmlega helmingur hinna spurðu segist vera óákveðinn í afstöðu til framboðslista eða svarar ekki af öðrum ástæðum, er greinilegt, að áhugaleysið er gífurlegt, miklu meira en áður hefur mælzt í skoðanakönnunum.

Sumpart getur þetta stafað af landsmálahörku undanfarinna vikna, sem hefur skyggt á hin tiltölulega friðsamlegu sveitarstjórnamál. Hvert upphlaupið hefur rekið annað, Helguvík, álverið, Blanda, steinull og skyldusparnaður.

Búast má við, að landsmálin yfirgnæfi sveitarstjórnamál í tvær eða þrjár vikur til viðbótar, meðan alþingismenn taka endasprettinn við afgreiðslu allra nauðsynlegustu mála, í tímahraki, sem er meira en nokkru sinni fyrr.

Ef hér er rétt til getið, hafa sveitarstjórnamenn ekki nema tvær eða þrjár vikur til að beina athygli landsmanna að kosningunum, sem verða 22. maí. Þær vikur verða örlagaríkar, er hinir óákveðnu fara að gera upp hug sinn.

Áhugaleysið um borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík getur þó einnig stafað sumpart af hinum óljósu línum milli flokka og milli fyrrverandi og núverandi meirihluta. Kjósendur eiga vafalaust erfitt með að finna mun.

Hugsanlegt er, að þetta komi í könnuninni harðar niður á meirihlutaflokkunum en Sjálfstæðisflokknum á þann hátt, að sumir hinna óákveðnu ætli að kjósa einhvern meirihlutaflokkinn, en viti ekki enn, hver þeirra verði fyrir valinu.

Með þessum fyrirvörum er þó óhjákvæmilegt að vekja athygli á mjög traustri útkomu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnuninni. Hann fékk síðast 47,4% atkvæða, en fær nú 31,5% allra hinna spurðu og 66% þeirra, sem skoðun hafa.

Gera má ráð fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi von í hluta af fylgi hinna óákveðnu. Þannig bendir könnunin til, að flokkurinn eigi raunverulega möguleika á að endurheimta meirihluta sinn í borgarstjórn Reykjavíkur.

Önnur athyglisverð niðurstaða skoðanakönnunarinnar er, að framboð kvenna hefur skotið rótum. Sá listi fékk jafngóða útkomu og Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn og mun betri útkomu en lánlítill Framsóknarflokkurinn.

Horfur eru því á, að framboð kvenna ónýtist ekki á þann hátt, að atkvæðin falli dauð. Listi þeirra er jafnlíklegur til að koma manni eða mönnum að eins og sumir aðrir listar. En glæstur sigur er ekki í mynd könnunarinnar.

Af meirihlutaflokkunum er það Alþýðubandalagið, sem fær alvarlegustu viðvörunina í könnuninni. Það fékk 29,8%% atkvæða í síðustu kosningum, en í þessari könnun aðeins 4,8% hinna spurðu og 10,1% þeirra, sem afstöðu tóku.

Kosningabaráttan er tæplega hafin og margt á eftir að gerast fram að kjördegi. Vonandi getur DV í síðari könnun komizt nær hinum raunverulegu úrslitum. Þá verða fleiri búnir að ákveða sig og sú viðbót ætti að sýna straumana.

Jónas Kristjánsson

DV

Þær skipta samt máli.

Greinar

Baráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sér enn sem komið er lítil merki í dagblöðum stjórnmálaflokkanna. Landsmálin sitja þar enn í fyrirrúmi, enda reka bomburnar hver aðra á síðustu vikum alþingis fyrir sumarleyfi.

Hvernig ættu flokkarnir líka að geta magnað með sér hliðstæðan ágreining og í alþingiskosningum? Sveitarstjórnamál eru að öllum þorra til ópólitísk tæknimál, þar sem skilin milli sjónarmiða flokka hljóta að vera ógreinileg.

Undir yfirborðinu er þó kosningabaráttan komin í fullan gang. Flokksdeildirnar í sveitarfélögunum eru að dusta rykið af titlum innansveitarblaða, sem yfirleitt koma aðeins út í stuttan tíma fyrir kosningar hverju sinni.

Þessi kyndugu kosningablöð eru dæmi um hið mikla starf, sem grunneiningar flokkanna vinna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga. Og þessar virku grunneiningar eru flokksdeildirnar í einstökum sveitarfélögum.

Hið raunverulega flokksstarf fer að mestu leyti fram innan ramma sveitarfélaga, ekki aðeins í sveitarstjórnakosningum, heldur líka í alþingiskosningum. Kjördæmastarfið er aðeins lausleg tenging grasrótarstarfsins í sveitarfélögunum.

Flokkarnir eru nú að setja upp hin furðulega flóknu og viðamiklu kerfi til kosningaundirbúnings, er seint hætta að vekja undrun og jafnvel aðdáun utangarðsmanna, sem á horfa. Spjöldum og pappírum er raðað sitt á hvað.

Ef til vill er dálítill sannleikur í þeirri fullyrðingu, að hinum umfangsmikla kosningaundirbúningi sé fyrst og fremst ætlað að búa til verkefni fyrir flokksfólkið, svo að því finnist það vera sjálft í kosningabaráttu.

Pólitískt mikilvægi sveitarstjórnakosninga felst ekki hvað sízt í samstarfi virkra flokksmanna. Það er mikilvægara en sá málefnaágreiningur, sem menn geta með ærinni fyrirhöfn komið sér upp gagnvart öðrum flokkum á staðnum.

Þetta stuðlar að einingu innan flokka, eins og við sjáum nú bezt af Sjálfstæðisflokknum, sem er hrikalega klofinn í afstöðu til ríkisstjórnar, en gengur í flestum, ef ekki öllum sveitarfélögum sameinaður til kosninga.

Þegar stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar sitja og starfa saman, þótt ekki sé nema til að raða spjöldum og pappírum, er fengin einkar gagnleg aðalæfing fyrir alþingiskosningar, sem verða í síðasta lagi að ári.

Sveitarstjórnakosningar nokkrum mánuðum eða einu ári fyrir alþingiskosningar eru nefnilega fyrst og fremst aðalæfing eða liðskönnun. Þær eru tækifæri til að smyrja ótal ryðgaðar flokksvélar í grasrótarstarfi heima fyrir.

Næstmerkasti þáttur kosninganna er svo túlkun flokkanna á kosningaúrslitunum: mat þeirra á, hvaða vísbendingar úrslitin gefi um möguleika flokkanna í alþingiskosningum. Og á slíku mati geta ríkisstjórnir staðið eða fallið.

Hin eiginlegu málefni sveitarstjórna koma langt að baki í þriðja sæti. Kosningabaráttan núna er einmitt væg á yfirborðinu, af því að flokkarnir eiga í mörgum tilvikum erfitt með að finna sér ágreiningsefni til að rífast um.

Þetta dregur ekki úr mikilvægi sveitarstjórnakosninga. Menn bíða að vísu ekki spenntir eftir, hvort ofan á verði ný hverfi á Korpúlfsstaðatúni eða norðan Rauðavatns.

En flokkarnir fá sína liðskönnun. Og menn bíða eftir sveiflu í fylgi flokkanna og áhrifum hennar á tilveru ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þá eyðsla – nú doði.

Greinar

Samsteypustjórnin í Reykjavík hefur enn sem komið er lítt flaggað áþreifanlegasta afreksverki sínu á kjörtímabilinu. Hún ber sér ekki á brjóst fyrir að hafa mokað snjó af gangstéttum ekki síður en götum borgarinnar.

Kannski stafar hógværðin af því, að hún hefur jafnframt leyft hjólreiðar á gangstéttum. Þannig hefur hún auðveldað hinum fótgangandi umferð að vetrarlagi, en gert hana erfiðari og hættulegri að sumarlagi.

Í samgöngumálum eru hjólreiðamenn því hinir raunverulegu sigurvegarar kjörtímabilsins, meðan hinir fótgangandi hafa bæði fengið plús og mínus. Og stóru orðin gegn blikkbeljum hafa sem betur fer ekki leitt til ofsókna gegn akandi fólki.

Í framkvæmdum hefur ruglazt hinn hefðbundni skilningur á hugtökum um hægri og vinstri. Hin fyrri einsflokksstjórn hafði hrósað sér af einu stóru og eftirminnilegu átaki á svo sem hverjum tveimur kjörtímabilum.

Á þessu kjörtímabili samsteypustjórnar hefur hins vegar ekki vottað fyrir neinu átaki á borð við hitaveitu, malbikun og Breiðholt. Framhald grænu byltingarinnar hefur verið hægfara og skolpleiðslumálið sefur værum svefni.

Keyptir hafa verið togarar, reist dagheimili fyrir börn og dvalarheimili fyrir aldraða, svo og opnaðar æskulýðsmiðstöðvar. Umfang slíkra framkvæmda er hvorki meira né markvissara en Reykvíkingar þekkja frá fyrri kjörtímabilum.

Samsteypustjórnin hefur varpað fyrir róða hugmyndum einsflokksstjórnarinnar um undirbúning nýrra hverfa á Korpúlfsstaðatúni. Hún hefur drepið slíkum kostnaðarmálum á dreif og bjargað lóðum fyrir horn með því að fylla í eyður byggðra svæða.

Átökum einsflokksstjórnarinnar hafði fylgt fjáraustur og tilsvarandi tómahljóð í borgarkassanum. Í rósemi samsteypustjórnar þessa kjörtímabils hefur fjárstreymið hjaðnað og hinn sameiginlegi sjóður eflzt.

Þannig hefur hægrisinnuð varfærnisstefna í fjármálum hjá svokölluðum vinstri flokkum tekið við af vinstrisinnaðri útgjaldastefnu hjá svokölluðum hægri flokki. Getur svo hver kjósandi metið fyrir sig, hvað honum finnst betra. Eða skrítnara.

Þegar doði og sparnaður leysa átök og eyðslu af hólmi, kemur það einna harðast niður á skipulagi og þróunarstefnu. Þar hafa líka vonbrigðin orðið mest, því að margir reiknuðu með nýjum straumum hjá nýjum stórlöxum.

Að vísu kostar mikið fé að skella sér út í framkvæmdir við ný hverfi. En einnig er eftirsjá að eyðunum í gamla borgarlandinu, sem verið er að fylla. Framsýnna væri að eiga þessi svæði til óútreiknanlegrar framtíðar.

Orkan hefur farið í að kæfa Korpúlfsstaðastefnuna og taka upp Rauðavatnsstefnu í skipulagsmálum. Samfara draumórahjali um flutning flugvallar og íbúðabyggð í Vatnsmýrinni hefur þetta drepið nýju skipulagi á dreif.

Hin góða hugmynd um þéttingu byggðar hefur fengið lélega útrás í blettafyllingu og flugvallarskýrslum. Á meðan hefur verið frestað átaki við að semja um lóðir Laugavegssvæðisins og að efna þar til alþjóðlegrar samkeppni um þétta byggð.

Í dauflegri kosningabaráttu eins flokks og samsteypu hefur ekki verið fjallað nægilega um hin mikilvægu atriði, sem hér hafa verið rakin.

Hins vegar hefur þar í löngu máli verið fjallað um atriði, sem staðfesta, að stjórnir komi og fari, en stjórnarhættir séu í stórum dráttum eins.

Jónas Kristjánsson

DV

Liðskönnun í vor.

Greinar

Stjórnmálaflokkar okkar eru myndaðir um afstöðu til landsmála og sumpart utanríkismála. Samt er ekki auðvelt að sjá raunverulegan mismun þeirra, eins og hann kemur fram í hverju stjórnarsamstarfinu á fætur öðru.

Enn síður er hægt að sjá skýran mun stjórnmálaflokkanna í sveitarstjórnamálum, þar sem viðfangsefnin eru minna pólitísk og meira tæknileg. Enda gengur samstarfið þar milli fulltrúa oft þvert á flokkslínur.

Þegar skipti urðu á meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir fjórum árum, töldu sumir, að borgarhrun væri framundan, og aðrir, að Iðavöllur mundi rísa í borginni. Hvorug spáin varð að raunveruleika.

Í stórum dráttum hafa borgarmálin gengið sinn vanagang. Breytingar hafa orðið færri og viðaminni en búast hefði mátt við. Ekki hefur til dæmis orðið vart sveiflu frá hægri til vinstri, ef þær áttir hafa þá einhverja merkingu.

Sumpart stafar þetta af, að fyrrverandi meirihluti hafði gengið lengra til félagshyggju en títt er um flokka, sem taldir eru starfa á hægri væng stjórnmálanna. Gamli meirihlutinn var búinn að stela glæpnum frá hinum nýja.

Einnig veldur þessu, að í Reykjavík hefur mótazt öflug sveit embættismanna, sem eru tæknimenn og hafa oft betri lausnir á hraðbergi en þeir, sem hugsa í hugmyndafræðilegu mynztri. Enda eru borgarmál aðallega tæknileg.

Raunar er athyglisvert, hversu heppin Reykjavík hefur verið með embættismenn. Þeir falla ekki sem heild í hið kunnuglega alþjóðamynztur hinnar dauðu handar opinbers rekstrar, þótt hér eins og annars staðar sé misjafn sauðurinn.

Meirihluti þessa kjörtímabils hefur reynt að auka umsvif stjórnmálamanna í borgarmálum. Fjölgun borgarfulltrúa er sú afleiðing, sem mest ber á, en hugmyndir um víðtækar breytingar á stjórnkerfinu hafa ekki náð fram að ganga.

Ekki verður hins vegar séð, að þessum meirihluta hafi fylgt meiri losarabragur fjármála, sem stundum þykir fylgja svokölluðum vinstri flokkum. Þvert á móti hafa fjármálin verið í tiltölulega traustu horfi á kjörtímabilinu.

Núverandi meirihluti hefur hneigzt að því að spara undirbúningskostnað með því að leyfa byggingar á auðum svæðum í borginni. Fyrri meirihluti vildi hins vegar eiga slík svæði til góða til að mæta seinni tíma aðstæðum.

Meirihlutinn vill stækka borgina til austurs upp á svæðið norðan Rauðavatns, en fyrri meirihluti hafði ráðgert að stækka hana til norðurs á svæðið umhverfis Korpúlfsstaði. Þetta er eitt aðaldeilumál borgarstjórnar.

Hér hefur dæmigert tæknimál verið gert pólitískt. Annar hópurinn verður að vera á móti því, sem hinn er með, og öfugt. Þannig er búin til pólitísk deila, sem ekki á sér hugmyndafræðilega stoð í flokkakerfinu.

Í rauninni verður aðeins að litlu leyti kosið um borgarmál í kosningunum í maí. Alveg eins og í flestum öðrum sveitarfélögum landsins eru kosningarnar aðalæfing fyrir næstu alþingiskosningar, eins konar liðskönnun.

Stjórnmálaflokkarnir fá tækifæri til að kanna, hversu vel vélar flokksdeildanna eru smurðar; hvort flokksmenn geti náð saman til átaks, þrátt fyrir ýmsar innanflokkserjur: og hvernig jarðvegurinn er hjá almennum kjósendum.

Um þetta snýst kosningaspennan í vor.

Jónas Kristjánsson

DV