Greinar

Ríkisstjórnin er brostin.

Greinar

Undarlegt er, að ríkisstjórnin er búin að fá leiða á sjálfri sér, áður en kjósendur eru búnir að fá leiða á henni. Venjubundin atburðarás á hnignunarskeiði ríkisstjórna hefur ruglazt og sumpart snúizt við.

Venjan er, að misjafnlega snemma á kjörtímabili fara kjósendur að skilja, að ekki er unnið af alvöru að efndum loforða og stjórnarsáttmála. Þeir snúast smám saman gegn ríkisstjórn og valda tæringu í samstarfinu.

Þegar viðreisnarstjórnin var við völd, þurfti raunar nokkur kjörtímabil til að snúa kjósendum gegn henni. En þá, eins og jafnan, fór samstarfið innan stjórnar ekki að bila, fyrr en fráhvarf kjósenda var orðið ráðherrum ljóst.

Síðasta skoðanakönnun bendir til, að ríkisstjórnin hafi enn traust meirihlutafylgi með þjóðinni, þótt saxazt hafi á meirihlutann í vetur. Slík staða ætti að vera ráðherrum hvatning til framhalds á samstöðu og sáttfýsi.

Í stað þess hafa ráðherrarnir tekið upp á að misbeita valdi til að reyna að hindra gerðir hver annars. Jafnframt velja þeir hver öðrum hin verstu orð í ræðu og riti. Ástandið er að verða verra en í síðustu vinstri stjórn.

Fyrst skipaði Svavar Gestsson nýja skipulagsnefnd fyrir Suðurnes 8. marz, þótt önnur væri þar fyrir. Vildi hann með því bregða fæti fyrir áform Ólafs Jóhannessonar um gerð olíuhafnar og olíugeyma í Helguvík fyrir herinn.

Síðar skipaði Ólafur Jóhannesson sérstaka bygginganefnd fyrir athafnasvæði hersins 15. marz til að koma í veg fyrir sókn Svavars. Segja má, að Ólafur hafi því ekki slegið fyrst, heldur verið að launa kinnhestinn.

Alvarlegasta uppákoman var millispil Hjörleifs Guttormssonar 12. marz, er hann skipaði Orkustofnun að efna ekki að sinni samning um jarðboranir í Helguvík. Þetta var einstæð tegund valdbeitingar í samskiptum ráðherra.

Fram að þessu hafði deilan snúizt um, hvort skipulagsráðherra eða varnamálaráðherra stjórnaði skipulagi varnarframkvæmda. Með framtaki Hjörleifs varð deilan að frjálsri fjölbragðaglímu allra ráðherra, sem skoðun vildu hafa.

Eftir hin þungu orð, sem fallið hafa á þingi og utan þings um gagnkvæma misbeitingu ráðherravalds til að spilla hver fyrir öðrum, er ljóst, að hinar innri forsendur samstarfsins eru brostnar, þótt formið haldi áfram.

Ráðherrar, sem sitja á svikráðum hver við annan, gera þjóðinni ógagn með því að halda formlegu lífi í ríkisstjórn, er hér eftir getur varla talizt annað en biðstjórn til að brúa bilið til nýrrar stjórnar eftir kosningar.

Úr því að töfrasproti Gunnars Thoroddsen megnar ekki lengur að halda ráðherrunum í álögum samstarfs og sáttfýsi, á hann nú að segja af sér fyrir sig og ráðuneytið og efna til nýrra þingkosninga á komandi sumri.

Auk þess sem afsögnin væri í réttu lýðræðislegu samhengi, ætti hún að geta orðið stjórnarflokkunum að töluverðu gagni. Þeir gætu gengið til kosninga, áður en innbyrðis erjur þeirra hafa leitt til fylgishruns.

Meirihlutafylgi ríkisstjórnarinnar getur aldrei haldizt lengi, eftir að ráðherrar eru farnir að haga sér eins og þeir hafa gert í þessum mánuði. Þeir, sem reka hníf inn í bak hver annars, munu smám saman fæla kjósendur á brott.

Jónas Kristjánsson

DV

Einangrun verndar spillingu.

Greinar

Við skulum ímynda okkur fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu hins brezka Guardian eða hins bandaríska New York Times: “Íslenzki samgönguráðherrann selur áætlunarflugleyfi til að bjarga pólitískum skjólstæðingi frá gjaldþroti.” Við skulum einnig ímynda okkur, að undir fyrirsögninni séu staðreyndir málsins raktar í smáatriðum, eins og þær hafa komið fram í okkar fjölmiðlum, allt niður í yfirlýsingar manna um, að þeir kannist ekki við fundi, sem þeir hafa setið. Við skulum loks ímynda okkur, að hjólgrimmir dálkahöfundar sömu blaða rektu sögu Steingríms Hermannssonar langt aftur fyrir hina átakanlegu þörungavinnslu, sem hann reisti á Reykhólum fyrir vestfirzka kjósendur sína. Við sjáum fyrir okkur niðurstöður dálkahöfundanna, þegar þeir berja í borðið og segja: “Hvers konar pakk er það, sem stjórnvöld okkar gera að bandamönnum sínum?” Engilsöxum er nefnilega afar illa við spillingu. Ef Steingrímur og aðrir stjórnmálamenn þessa lands ættu von á slíkum kjöldrætti í heimspressunni, myndu þeir ekki þora að haga sér eins og þeir gera. Í útlöndum vilja þeir líta út sem fínir menn, vammlausir þjóðarleiðtogar. Landsfeður okkar vilja halda virðingu sinni, þegar þeir hitta starfsbræður á þingum Norðurlandaráðs og annars staðar í heiminum. Þeir vilja ekki láta hía á sig sem eins konar þriðja heims pólitíkusa, rangeyga af spillingu. Hitt skiptir þá minna máli, hvað heimamenn halda, einfaldlega af því að hér ríkir ekki hinn sterki þjóðarímugustur á spillingu, sem ræður ferðinni hjá engilsöxum og Norðurlandabúum. Hér yppta menn bara öxlum. Menn brosa í kampinn og segja: “Já, hann Steingrímur. alltaf eru framsóknarmennirnir samir við sig. Þetta er þeirra siðferði.” En hina gamansömu gagnrýni vantar þá kjölfestu, er dugi til að stöðva sífellda endurtekningu spillingar. Vandinn felst í einangrun okkar og skorti á aðhaldi frá útlöndum. Straumur upplýsinga og skoðana rennur aðeins í aðra áttina. Við vitum um það, sem gerist í útlöndum, en útlendingar vita ekki um það, sem gerist hér á landi. Nágrannar okkar skilja ekki íslenzku, lesa ekki íslenzk blöð, hlusta ekki á íslenzkt útvarp og sjá ekki íslenzkt sjónvarp. Þeir vita þess vegna ekki, að hér á landi er fréttaflutningur og umræða um það, sem betur megi fara. Nágrannar okkar á Norðurlöndum virðast til dæmis halda, að hér sé eins konar norrænn þjóðgarður eða Árbæjarsafn, lítill og sætur Iðavöllur, þar sem menn sitji í heitum pottum og mæli fornnorræn ljóð af munni fram. Engilsaxar hafa ekki svona afvegaleidda mynd af okkur, ef þeir hafa þá nokkra. En þeir telja þó, að Ísland, sem eitt Norðurlanda, hljóti að vera áreiðanlegt land, traust velferðarríki vammlausra stjórnmálamanna. Í skjóli þessa misskilnings getur samgönguráðherra okkar veitt Arnarflugi leyfi til áætlunarflugs til Amsterdam, gegn því að félagið kaupi á uppsprengdu verði gagnslitlar eignir gjaldþrota framsóknarflugfélags. Ef starfsbræður hans í útlöndum læsu í blöðum sínum, hvað Steingrímur er í rauninni að gera, mundu þeir hugsa sig um tvisvar, áður en þeir heilsuðu honum. En það gerist ekki, – einangrunin verndar spillinguna.

Jónas Kristjánsson

DV

Deila hart um herfangið.

Greinar

Steinullarmálið sýnir í hnotskurn, hvílíkur vandi getur fylgt tilraunum hins opinbera til að taka forustu í atvinnumálum. Það er eins og verið sé að úthluta herfangi, enda brjótast hagsmunaaðilarnir um fast.

Ekki hefur tekizt að sýna fram á, að steinullarverksmiðja sé svo mikilvæg, að skattgreiðendum beri að greiða verulegan þátt hlutafjárins. Arðsemisútreikningarnir eru í meira lagi vafasamir, svo sem flutningsdæmið sýnir.

Gert er ráð fyrir, að Ríkisskip flytji steinullina á einum fimmta hluta taxta, svo og að skipafélagið fái tvö ný skip og bætta hafnaraðstöðu. Enda hefur Ríkisskip neitað að skuldbinda sig til að standa við slíka útreikninga.

Mikilvægasta hættan, sem fylgir gæluverkefnum hins opinbera, svo sem þessu, er forréttindin, sem fylgja í kjölfarið, þegar illa gengur og stjórnmálamennirnir fara að reyna að bjarga mistökum sínum fyrir horn.

Þá eru settir tollar og kvótar á innflutning til að búa til falsaða markaðsstöðu fyrir innlenda gæludýrið. Afleiðingin er sú, að húsbyggjendur byggja dýrar en verið hefði, ef skattgreiðendur hefðu verið látnir í friði.

Hinn sami, nagandi kvíði fylgir öðrum gælufyrirtækjum, sem ríkið ætlar að eiga hlut að á kostnað skattgreiðenda. Verður saltveri og stálveri haldið í rekstri með því að búa til falsaða markaðsstöðu?

Það er ekki í þágu þjóðarhags að eyða fé og orku í að láta innlenda afurð koma í stað innfluttrar, ef hinir innlendu notendur verða fyrir bragðið að sæta hærra verði. Með slíku er aðeins verið að framleiða vandamál.

Við sjáum af Olíumöl hf., hvernig fer, þegar gæludýr hins opinbera fara flatt á uppsafnaðri heimsku stjórnmálamannanna, sem um fjalla. Slíkt leiðir einfaldlega til síhækkandi bakreikninga til skattgreiðenda.

Í steinullarmálinu má þó hrópa húrra fyrir, að ríkið hefur séð, að áætlanir um útflutning voru draumórar, þótt hinir forhertari stjórnmálamenn telji í lagi að veita útflutningsuppbætur, auðvitað á kostnað skattgreiðenda.

Deilurnar um steinullina fjalla þó hvorki um atriðin, sem hér hafa verið nefnd, né nokkuð það annað, sem máli skiptir. Þær eru eingöngu um, hvort Sauðárkrókur átti að fá herfangið fremur en Þorlákshöfn.

Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra hefur lagt Sauðárkrók til við ríkisstjórnina. Mikill meirihluti þingflokks framsóknarmanna hefur samþykkt að styðja þessa tillögu, þótt sumir gangi berserksgang á móti.

Athyglisvert og dæmigert er, að tillagan gerir ráð fyrir, að dúsu verði stungið upp í hinn sigraða og auðvitað á kostnað skattgreiðenda. Þeir eiga að borga herkostnaðinn af steinullarundirbúningi Sunnlendinga.

Það eru svo hugsjónir af þessu tagi, sem fá Suðurlandsþingmann Alþýðubandalagsins til að taka flokksbróðurinn, iðnaðarráðherrann, rækilega í bakaríið, meira að segja með duldum hótunum um að refsa honum í Helguvík!

Skattgreiðendur ættu að fylgjast vel með burtreiðum steinullarmálsins. Þær sýna vel, hvað stjórnmálamennirnir hafa gert að verksviði sínu. Það eru hatrammar deilur um skiptingu herfangsins frá skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eitrun af Ísalsböli.

Greinar

Þegar kaupmaður reiknar álagningarþörf sína, þykir honum miður að þurfa að reikna birgðakostnað á tólf ára gömlu verði. Hann vill fá að meta endurnýjunarkostnað birgðanna á núgildandi verði, því verði, sem hann þarf nú að greiða.

Út frá þessu sjónarmiði er marklítið að tala um, að Ísal borgi niður gamalt orkuver við Búrfell og línur frá því á einhverju árabili. Miklu nær væri að miða slíkar greiðslur við kostnað orkuvers, sem reist væri á þessu ári.

Sama niðurstaða fæst með því að bera saman orkuverð til Ísals og til almennra notenda. Þegar Ísal tók til starfa, var verðmunurinn 81%, en er nú orðinn 413%. Þannig hefur orkan til Ísals smám saman orðið óhæfilega ódýr.

Í rauninni ætti orkuverðið til Ísals að fimmfaldast úr 6,5 mills í rúmlega 30 mills. Það er því í rauninni hófleg krafa Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra, að verðið þrefaldist í nýjum samningum við Ísal.

Ef verðið hækkaði í 20 mills, væri það orðið sambærilegt við meðalverð slíkrar orku í Bandaríkjunum. Við eðlilegar aðstæður á sæmilega afskrifað, en þó nýtízkulegt álver að geta greitt slíkt verð og komizt vel af.

Því miður eru litlar líkur á, að Svisslendingarnir, sem eiga Ísal, fáist til að ræða þetta af skynsemi. Þeir eru svo gírugir til fjár, að þeir taka upp dónaskap, ef amazt er við verðmyndun í viðskiptum þeirra við Ísal.

Með óbilgirninni hafa Svisslendingar spillt mjög fyrir stóriðjuþróun á Íslandi. Þeir hafa sáð til magnaðrar andstöðu, sem meðal annars lýsir sér í stóriðjuhatri í hverri skáldsögunni á fætur annarri.

Þetta hefur líka farið illa með þá, sem telja sér skylt að verja auðmagnið á sjálfvirkan hátt gegn meintum árásum kommúnista. Þannig hafa Morgunblaðið og þingflokkur sjálfstæðismanna orðið fyrir barðinu á Svisslendingunum.

Þar á ofan hefur Verzlunarráð Íslands bætt Ísalsbölinu á herðar verzlunarinnar sem þarf þó síst á slíku að halda á torsóttri leið að jafnrétti atvinnugreina. Verzlunarráðið virðist haldið eins konar sjálfseyðingarhvöt.

Þannig hafa Svisslendingarnir á ýmsan hátt eitrað út frá sér. Þeir hafa óbeint komið óorði á ýmsa hluti, sem við þörfnumst, á stóriðju, auðmagn, fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf og meira að segja á frjálsa verzlun í landinu.

Hins vegar hafa vinnubrögð Hjörleifs Guttormssonar ekki leitt til þeirrar hræðslu útlendinga við íslenzk stjórnvöld, sem stuðningsmenn Svisslendinganna hafa gefið í skyn. Af íslenzkri hálfu hefur málið ekki verið ofkeyrt.

Álmenn í Noregi, Vestur-Þýzkalandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum hafa upp á síðkastið lýst áhuga á samstarfi við Íslendinga annars vegar um nýtt álver og hins vegar um yfirtöku og tvöföldun álversins í Straumsvík.

Ef þessi áhugi helzt, væri æskilegast að semja við Svisslendingana um kaup Íslendinga og nýrra erlendra aðila á Ísal, um leið og orkuverð yrði stórhækkað. Skiptir þá íslenzk meirihlutaeign mun minna máli en heiðarlegt samstarf.

Svissneski kaflinn í stóriðjusögu okkar hefur sumpart verið dapurlegur. Við þurfum að geta strikað yfir hann og snúið okkur ótrauð að hraðri uppbyggingu stóriðju, svo að börn okkar og barnabörn megi áfram vilja búa í landi þessu.

Jónas Kristjánsson

DV

Skrítin tík, pólitík.

Greinar

Nú má rifja upp þau orð kerlingar, að pólitíkin sé skrítin tík. Darraðardansinn um Blöndu og Helguvík hefur verið með þeim hætti, að tilviljun hefur fremur en rökrétt samhengi ráðið afstöðu og gerðum stjórnmálamanna.

Segja má, að Hjörleifur Guttormsson orkuráðherra hafi hefnt sín fyrir Helguvíkina á Framsóknarflokknum og Ólafi Jóhannessyni utanríkisráðherra með því að semja á bak við ríkisstjórnina við Norðanmenn um virkjun Blöndu.

Á ríkisstjórnarfundi á mánudagsmorgni báðu ráðherrar Framsóknarflokksins um frestun undirritunar samninga um Blöndu, þar til formleg afstaða þingflokks þeirra væri fengin. Vissu þeir ekki betur en að svo mundi verða.

Síðdegis hinn sama dag gekk Hjörleifur hins vegar frá samkomulagi við fimm af sex hreppum, sem hagsmuna hafa að gæta á virkjunarsvæðinu. Kom þingmönnum Framsóknarflokksins í opna skjöldu, að allt skyldi búið og gert án þeirra afskipta.

Reiðastur var Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna. Hann er einn svarnasti andstæðingur þeirrar virkjunartilhögunar, sem nú hefur verið staðfest með undirskriftum. Hann vandaði Hjörleifi ekki kveðjurnar:

“Það kom okkur að sjálfsögðu á óvart, að maðurinn gripi til þessa ráðs. Við framsóknarmenn erum að vísu að verða vanir því á þessum síðustu og verstu dögum, að Hjörleifi Guttormssyni detti óskynsamlegir hlutir í hug.”

Þar var Páll um leið að vísa til afskipta Hjörleifs af Helguvíkurmálinu, er hann, í tilraun til að tefja málið, bannaði Orkustofnun að sinni að standa við undirritaðan samning um boranir til jarðvegskönnunar.

Páll sagði þingflokk framsóknarmanna standa einhuga að baki Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra í Helguvíkurmálinu, þar sem Ólafur hefur gengið berserksgang, vaðið yfir sveitarstjórnir og skipað sérstaka skipulagsnefnd fyrir sig.

Þetta er athyglisverður stuðningur, því að Páll hefur hingað til verið hinn mesti hernámsandstæðingur. Hann hefur að því leyti fremur átt samleið með Hjörleifi og Alþýðubandalaginu en utanríkisráðherra síns eigin flokks.

Þannig hefur spennan út af Blöndu milli Hjörleifs og Páls stuðlað að stuðningi hins síðarnefnda við framkvæmdir, sem hann hefði raunar átt að vera andvígur, ef mark væri tekið á fyrri ummælum hans um varnarmál.

Þetta er ekki eina skrítna tilviljunin í darraðardansinum. Merkilegast af öllu er, að Hjörleifur er ekki að hefna sín á Framsóknarflokknum með því að ota fram virkjun sinni og sinna heimamanna, Fljótsdalsvirkjun.

Nei, þvert á móti beitir Hjörleifur brögðum til að berja í gegn virkjun Pálma Jónssonar landbúnaðarráðherra og hans heimamanna við Blöndu, einmitt þá virkjun, sem var í samkeppni við heimavirkjun orkuráðherrans.

Hinn raunverulegi sigurvegari leiftursóknar Hjörleifs í Blöndumálinu er Pálmi Jónsson, sem er oddamaður virkjunarsinna í héraði, gegn virkjunarandstæðingum Páls. Enda sagði Páll um Hjörleif af þessu tilefni:

“Hann er látinn gera þetta. Pálmi Jónsson er eiginlega orðinn allt annað en landbúnaðarráðherra. Ég hygg, að Hjörleifur sé tæplega tekinn við embætti iðnaðarráðherra af Pálma síðan á Norðurlandaþinginu.”

Já, það er skrítin tík, þessi pólitík.

Jónas Kristjánsson

DV

Do do í sandkassanum.

Greinar

Ráðherrar eru nú farnir að haga sér eins og börnin í sandkassanum, líkt og gerðist, þegar Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn sátu saman í síðustu vinstri stjórn. En nú eru það Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn.

Á sínum tíma mátti deila um það, hvort ósættið væri meira Alþýðubandalaginu eða Alþýðuflokknum að kenna. En í báðum tilvikum er Alþýðubandalagið annar málsaðilinn, svo að böndin hljóta að berast að því sem óhæfum stjórnaraðila.

Sérstaklega er það Hjörleifur Guttormsson orkuráðherra, sem nú hefur misst ráð og rænu við að sjá Ólaf Jóhannesson utanríkisráðherra komast upp með að halda áfram undirbúningi að smíði olíugeyma hersins í Helguvík.

Almenna verkfræðistofan hafði tekið að sér þætti hönnunarinnar, þar á meðal töku jarðvegssýnishorna. Á miðvikudaginn var samdi stofan við Orkustofnun um afnot af jarðbor í hálfan annan mánuð í þessu skyni.

Á föstudaginn lét orkuráðherra svo stöðva málið í bili eða að minnsta kosti fram yfir næsta fund í ríkisstjórninni. Þar hyggst hann þrasa með Svavari Gestssyni félagsmálaráðherra um, að þetta sé skipulagsskylt mál.

Á meðan mun hinn bandaríski aðalverktaki fá bor að utan til að framkvæma þennan þátt verksins. Og Almenna verkfræðistofan kannar, hvort höfða beri mál gegn Orkustofnun fyrir samningsrof, ef orkuráðherra situr áfram í sandkassanum.

Það sem eftir mun sitja af framtaki Hjörleifs er, að innlendur rannsóknaraðili víkur fyrir erlendum. Ekki fær hann Ólaf Jóhannesson til að gefa eftir í málinu, svo mjög sem Ólafur hefur mátt þola skítkast Alþýðubandalagsmanna.

Allt er þetta í “fresta og stöðva”-stíl orkuráðherra, sem hefur haft meira dálæti á skriffinnsku en framkvæmdum, allar götur síðan hann sendi Landsvirkjun bréfið með fyrirspurninni um, hvort ekki mætti fresta virkjun Hrauneyjarfoss.

Hingað til hefur Alþýðubandalagið virzt átta sig á, að það hefur innan við 20% fylgi þjóðarinnar og getur því ekki ráðið ferðinni í málum hersins, þar sem hinir flokkarnir og kjósendur þeirra eru saman á öðru máli.

En það er eins og Hjörleifur og Svavar Gestsson séu ekki nógu lífsreyndir til að átta sig á þessum einfalda hlutfallareikningi. Þeir brjótast um hart, alveg eins og samstarfið í ríkisstjórn skipti þá engu máli.

Ólafur Jóhannesson hefur bæði í Helguvíkurmálinu og flugskýlamálinu gætt þess að auka ekki umsvif varnarliðsins og þar með haldið sér við þann ramma, sem samkomulag er um, að gildi, meðan Alþýðubandalagið er í ríkisstjórn.

Samt hafa ráðherrar Alþýðubandalagsins samspil um, að Svavar Gestsson segi Helguvíkina skipulagsskylda og Hjörleifur Guttormsson segi Orkustofnun ekki mega flækja sig inn í mál, þar sem brotin kunni að vera skipulagsskylda.

Allt eru þetta tilraunir til að koma í veg fyrir eða tefja að minnsta kosti þessar framkvæmdir á vegum varnarliðsins. Ólafur Jóhannesson telur réttilega, að þeir félagar hafi seilzt of langt, og heldur því ótrauður áfram.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra segir mál þetta ekki munu valda stjórnarslitum. Eigi að síður hljóta fíflalætin í sandkassanum að valda nokkurri eitrun í stjórnarsamstarfi, sem að öðru leyti hefur haldizt nokkuð gott.

Jónas Kristjánsson.

DV

Keflavíkurundrin.

Greinar

Ef stjórnarslit verða út af Keflavíkurundrum síðustu daga, er brotin hin pólitíska hefð, að Alþýðubandalagið hlaupi úr ríkisstjórnum á öllum öðrum forsendum en ágreiningi um herinn og Atlantshafsbandalagið.

Ekki er líklegt, að frá hefðinni verði vikið að þessu sinni, þrátt fyrir töluverðan hávaða í félagsmálaráðherra flokksins og nokkurn í formanni þingflokksins. Þeir bölva að vísu upphátt, en geta raunar aðeins bitið á jaxlinn.

Utanríkisráðherra hefur þrætt yztu nöf stjórnarsamstarfsins í Keflavíkurundrunum. Hann segist hafa tekið tillit til sjónarmiða Alþýðubandalagsins og segist jafnframt bara vera að gera það, sem honum hafi verið falið.

Ólafur Jóhannesson hefur löngum verið talinn klókur maður. Þess vegna mætti ætla, að einhver torskilin klókindi fælust í að haga þannig meðferð mála, að ekki aðeins Alþýðubandalagið fari á hvolf, heldur einnig sveitarstjórnir syðra.

Hingað til hefur verið efnt til varnarliðsframkvæmda í góðum sáttum við sveitarstjórnir nágrennisins, enda hafa þær haft tilhneigingu til að meta atvinnuástand sem mikilvægasta þáttinn í svokölluðu varnarsamstarfi.

Að þessu sinni er urgur í bæjarstjórnum Keflavíkur og Njarðvíkur út af staðsetningu flugskýla og í sveitarstjórnum Garðs og Sandgerðis út af staðsetningu olíugeyma. Hvort tveggja var óþarfi, ef betur hefði verið á málum haldið.

Flugskýlin hefði mátt reisa annars staðar, þar sem minni líkur eru á flugtaki yfir þéttbýli. Fullyrðingar um annað eru bara tilraun til að breiða yfir alvarleg mistök í skipulagsmálum á athafnasvæði hersins.

Að því er varðar olíugeymana er staðsetningin ekki vandamálið, heldur skorturinn á samráðum við Garðinn og Sandgerði. Með heldur meiri lipurð hefði utanríkisráðherra sparað sér mótmæli annarra en Alþýðubandalagsins.

Kannski er Ólafi Jóhannessyni bara alveg sama. Ef til vill þykir honum ágætt að fá sem mestan hávaða út af málum þessum, svo að síðara undanhald Alþýðubandalagsins verði þeim mun meira áberandi. Hann kann að vera að hefna sín.

Þegar litið er yfir feril þessarar ríkisstjórnar, má sjá, að innri friður hefur verið með bezta móti, að öðru leyti en því, að Alþýðubandalagið hefur stundum verið að agnúast út í meðferð Ólafs á varnarmálum.

Hvað sem hann hugsar undir niðri, þá hefur hann gætt þess að halda sig innan hins óskrifaða ramma, að herinn megi efla, þegar Alþýðubandalagið er utan stjórnar, en máttur hans eigi að standa í stað, meðan það er í ríkisstjórn.

Ef Alþýðubandalagið ætlaði nú úr stjórn vegna rangrar staðsetningar á flugskýlum eða tilfærslu olíugeyma án stækkunar þeirra, væri það sjálft að fara úr hinum óskrifaða ramma, sem hefur gert það að samstarfshæfum flokki í ríkisstjórnum.

Flokkur, sem hefur um og innann við 20% af fylgi og er ekki meirihlutaflokkur í ríkisstjórn, getur ekki vænzt þess að ráða ferðinni í málum, þar sem allir hinir flokkarnir og kjósendur þeirra eru í stórum dráttum samferða.

Keflavíkurundur Ólafs munu því sennilega ekki leiða til, að Alþýðubandalagið taki ákvörðun, er stimpla mundi það sem ósamstarfshæfan flokk um ríkisstjórn og er þrengja mundi mynztur stjórnarmyndana í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Þetta er Grænlandsár.

Greinar

Brottförin úr Efnahagsbandalaginu var samþykkt með svo naumum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grænlandi, að ekki er víst, hvort af henni verður. Það fer eftir úrslitum þingkosninganna á næsta ári.

Stjórnarflokkur vinstri manna í Grænlandi hefur stutt úrsögnina, en stjórnarandstaða hægri manna verið á móti. Ef skipti verða á meirihluta í kosningunum, má búast við, að fráhvarfið verði afturkallað.

Auðvelt er að skilja, að mörgum Grænlendingum sé illa við Efnahagsbandalagið. Það hefur ráðskazt með fiskimið þeirra og jafnvel verzlað með þau. Grænlendingar verða að fara til Bruxelles til að semja um að fá að veiða á eigin miðum.

Þá hafa Danir samið um aukin fríðindi fyrir sínar landbúnaðarafurðir í Efnahagsbandalaginu í skiptum fyrir veiðikvóta á grænlenzkum fiskimiðum. Eins og hvert annað nýlenduveldi hafa þeir þannig misnotað grænlenzkar auðlindir.

Á ýmsan hátt hafa Danir komið fram sem herraþjóð í Grænlandi. Aðeins fá ár eru síðan heimamenn fengu sömu laun fyrir sömu vinnu. Og flestum beztu störfunum gegna Danir, enda hefur lítil áherzla verið lögð á menntun Grænlendinga.

Svo er nú komið þar í landi, að Íslendingar á ferð voru ávarpaðir á lélegri ensku af heimamönnum, af því að þeir voru taldir danskir. Þá fyrst er hið sanna þjóðerni kom í ljós, fengust Grænlendingar til að mæla á sinni góðu dönsku.

Allt segir þetta sína sögu um nýlendu, sem er að reyna að brjótast undan herrum sínum í Kaupmannahöfn og Bruxelles. Grænlendingar eru að magna þjóðernisvitund sína og vilja verða húsbændur í eigin landi.

Ekki má skilja þetta svo, að áhrif Dana á Grænlandi hafi eingöngu verið neikvæð. Danska ríkið veitir gífurlegu fé til uppbyggingar á Grænlandi og Efnahagsbandalagið leggur einnig töluvert af mörkum.

Ef litið er á tölurnar, má halda fram, að Grænland geti ekki komizt af án Danmerkur og Efnahagsbandalagsins. Á þetta var rækilega bent í baráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sennilega með töluverðum árangri.

En einnig má líta á þennan stuðning sem gjald fyrir misnotkun fiskimiða Grænlendinga. Hugsanlegt er, að Grænland gæti haft sömu tekjur af því að leigja aðgang að þeim afla, sem Efnahagsbandalagið tekur nú endurgjaldslaust.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var ekki svo eindregin, að ljóst sé, hvort gjáin breikki milli Grænlands og meginlands Evrópu. En ástandið er alténd þannig, að Íslendingum ber skylda til að koma til skjalanna.

Við þurfum að margfalda nýstofnaðan Grænlandssjóð til að efla samskipti þjóðanna á sem fjölbreyttastan hátt og ekki sízt til að styðja Grænlendinga til náms á Íslandi. Menntun er einmitt það, sem þeim kemur bezt í nútímanum.

Íslendingar eru ekki grunaðir um gæsku á Grænlandi. Þess vegna er ekki hætta á, að misskilin verði velviljuð aðstoð af okkar hálfu. Og við getum orðið að miklu gagni, ekki sízt vegna reynslu okkar í fiskveiðum.

Í sumar ætla Grænlendingar að minnast landnáms Eiríks rauða. Þeir ætla meira að segja að safna með almennum samskotum í minnismerki um hann í Brattahlíð. Við eigum að nota þetta afmælisár til að snúa okkur í alvöru að Grænlandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Við getum hrósað happi.

Greinar

Í þjarki okkar um erfiðleika hversdagslífsins gleymum við oft velgengninni, sem við raunar njótum. Þótt margt fari miður, eru ýmsir mikilvægir þættir þjóðlífsins í mun betra lagi hjá okkur en hjá mestu velferðarþjóðum heims. Hæst ber þar fulla atvinnu, sem greinir Ísland frá öðrum löndum. Auglýsingar eftir fólki til starfa eru fleiri en umsóknir um þau. Í kringum okkur verða þjóðir hins vegar að þola um og yfir 10% atvinnuleysi. Á Norðurlöndum er atvinnuleysið gífurlegur baggi á sameiginlegum sjóðum. Það hefur stuðlað að ofvexti ríkisþungans á herðum atvinnulífsins. Ennfremur gerir það stjórnvöldum nánast ókleift að reka framleiðnistefnu. Þar sem atvinnuleysi ríkir, er ekki auðvelt að tala um að draga úr arðlausum og úreltum atvinnugreinum í þágu nýrra og framleiðinna. Viðkvæðið þar er jafnan, að hallæris- og taprekstur sé betri en alls enginn rekstur. Hér getum við hins vegar, ef við viljum, horft til framtíðarinnar. Hér er t.d. hægt að leggja til, að hinn hefðbundni landbúnaður víki smám saman fyrir nýjum atvinnugreinum, sem ekki eru þegar ofsettar úti í heimi. Á Norðurlöndunum sem annars staðar hefur atvinnuleysið fleiri og alvarlegri afleiðingar en kostnaðinn einan. Það tætir líka í sundur þjóðfélagsvefinn og býr til stéttir fólks, sem tekur tæpast þátt í samfélaginu. Atvinnuleysi verður þar ættgengt. Félagsleg vandamál fara hamförum, einkum hjá unga fólkinu, sem ekki fær verkefni til að glíma við. Í hvert sinn, sem við opnum dagblað frá Norðurlöndum, blasa þessi vandamál við. Hér eru að vísu einnig félagsleg vandamál. Og unglingarnir hafa of lítið fyrir stafni. En í samanburði við nágrannalöndin erum við í himnaríki. Þjóðfélagsvefurinn hefur ekki rofnað. Allur þorri manna tekur einhvern þátt. Við höfum keypt þetta með verðbólgu, sem er þrisvar til fjórum sinnum meiri en annarra þjóða, svo sem raunar hefur verið í fjóra áratugi. Verðbólgan hefur leikið okkur grátt, en smám saman hefur okkur lærzt að draga úr henni tennurnar. Lengi höfum við vísitölutengt laun og skyldar greiðslur. Undanfarin misseri höfum við hikandi einnig leiðzt út í að vísitölutengja fjárskuldbindingar. Með þeim nýstárlegu afleiðingum, að bankarnir fóru að fyllast af sparifé. Stjórnvöld hafa ekki enn öðlazt kjark til að stíga þessa verðtryggingu til fulls. Og enn er lítið talað um að vísitölutengja gengið, svo að útflutningsatvinnuvegirnir megi líka njóta þess að láta verðbólguna rúlla á hliðarspori. Með fullri atvinnu og verðbólgu á hliðarspori höfum við góða aðstöðu til að fást við hin ytri skilyrði, – kreppuna, sem riðið hefur húsum um allan heim í nokkur ár. Við getum, ef við viljum, leyft okkur að hugsa til langs tíma. Að sinni er allt með kyrrum kjörum. Þjóðarframleiðslan og þjóðartekjur standa í stað. Viðskiptahallinn er að vísu að aukast úr 2,5% í 5%. En gjaldeyrisstaðan er öflugri en oft áður, dugir til þriggja mánaða í stað tveggja. Unga fólkið vex upp og þarf að fá þátt í atvinnulífinu. Til þess þurfum við aukið framtak, annars vegar meiri orkuvinnslu og stóriðju, hins vegar ýmiss konar nýiðju, t.d. rafeindaiðnað og fiskirækt, sem hentar litlum einingum. Með því gerum við gott ástand enn betra.

Jónas Kristjánsson

DV

Of langt gengið.

Greinar

Norræn samvinna gengur of langt, þegar félagsmálaráðherra undirritar samkomulag um sameiginlegan vinnumarkað á Norðurlöndum og þegar lagt er fyrir alþingi frumvarp um þátttökurétt norrænna ríkisborgara í byggðakosningum á Íslandi.

Milli Dana, Finna, Norðmanna og Svía er jafnræði að því leyti, að hjá öllum er íbúafjöldinn talinn í nokkrum milljónum. Við slíkar aðstæður geta þjóðir leyft sér að slá dálítið af fullveldi sínu í þágu norrænnar samvinnu.

Fámennt ríki eins og Ísland getur síður leyft sér að hrófla við fullveldi sínu. Enda var það á sínum tíma eitt helzta ágreiningsefnið í fullveldisviðræðunum við Dani, að Íslendingar neituðu algerlega að samþykkja gagnkvæman rétt.

Niðurstaðan þá varð sú, að Íslendingar höfðu sitt fram og veittu Dönum engan rétt umfram aðra útlendinga. Aðfluttir Danir urðu eins og aðrir að bíða eftir íslenzkum ríkisborgararétti til að fá réttindi á borð við heimamenn.

Sama hugsun réði, þegar upp komu hugmyndir um aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Menn sáu strax að 200.000 manna þjóð gat ekki veitt milljónaþjóðum Vestur-Evrópu gagnkvæm, efnahagsleg réttindi, til dæmis í fiskveiðum.

Eins er það nú, að við getum ekki tekið við hundruðum þúsunda atvinnulausra frænda af Norðurlöndum. Til þess höfum við ekki bolmagn, hvorki fjárhagslegt né þjóðernislegt. Við getum ekki tekið þátt í sameiginlegum vinnumarkaði.

Játa verður, að Íslendingar hafa átt greiðan aðgang að norrænum vinnumarkaði. En betra er að fórna slíkum gæðum en að þurfa að sæta gagnkvæmni. Svíar gátu leyft sér að taka 1% Íslendinga í vinnu, en við ráðum ekki við 1% Svía.

Þegar vel áraði í Svíþjóð, en miður hér, fóru yfir 2.000 Íslendingar utan til starfa. Nú þegar illa árar í Svíþjóð, en atvinna er næg hér, getum við ekki tekið við 80.000 Svíum, sem þó er aðeins brot af þeirra atvinnuleysi.

Til hemlunar á þessu er sagt í samningnum um vinnumarkaðinn, að norrænir menn þurfi atvinnuleyfi hér á landi. Verður þá í valdi ráðherra, en ekki laga og stjórnarskrár að gæta fullveldis Íslendinga á þessu sviði.

Þetta kann að vera ódýr leið til að öðlast landsréttindi í öðrum löndum án þess að þurfa að fórna þeim hér. En það er ólykt af henni, eins og svo mörgu, sem stjórnmálamenn okkar gera, þegar þeir reyna að vera sniðugir.

Betra er að ganga hreint til verks og segja við frændur okkar á Norðurlöndum, að við ráðum fámennis vegna hreinlega ekki við ýmsa þá þætti norrænnar samvinnu, sem lengst ganga, því að fullveldi okkar sé viðkvæmara en þeirra.

Hið sama má segja um frumvarpið, að norrænir ríkisborgarar hér á landi geti kosið í byggðakosningum án þess að hafa öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt. Þetta er fráleitt, jafnvel þótt Íslendingar hafi notið slíks réttar ytra.

Nokkur hópur norrænna manna með tímabundna búsetu við fiskvinnslu hér á landi getur ráðið úrslitum í bæjarstjórnarkosningum, ekki sízt þegar búið er að hvetja til aðflutninga með samningi um sameiginlegan vinnumarkað.

Við skulum heldur fórna kosningarétti okkar á Norðurlöndum. Við skulum halda fast í hugsun þeirra, sem sömdu á okkar vegum um fullveldi Íslendinga. Þess vegna ber ríkisstjórn að fella vinnumarkaðinn og alþingi að fella atkvæðisréttinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrátt fyrir allt…

Greinar

Að loknu enn einu þingi Norðurlandaráðs má vekja máls á spurningunni, hvort Ísland eigi heima í félagsskap Norðurlanda, hvort við höfum utan veizluhalda eitthvað þaðan að sækja og jafnvel annað þangað að leggja.

Halldór Laxness talar tæpast nema í hálfri alvöru, þegar hann sagði nýlega í blaðaviðtali, að í bókmenntum hefði Ísland ekkert til Norðurlanda að sækja. Það væri mörg hundruð árum á undan þeim og bæri sig saman við stórveldin.

Þetta fer saman við þá útbreiddu skoðun íslenzkra sjónvarpsnotenda, að norrænt menningarefni sé fremur hvimleitt, enda framleitt í þjóðfélagi, þar sem listamenn séu launaðir embættismenn fremur en kaupmenn á markaði.

Nýlega heyrði leiðarahöfundur íslenzkan blaðamann, sem búsettur var ytra, segja norrænum starfsbræðrum, að sjónvarp þeirra væri jafnvel ennþá leiðinlegra en hið íslenzka. En þeir virtust ekki skilja vandann.

Annað útbreitt sjónarmið hér á landi er, að Norðurlönd hafi farið offari í félagsmálum. Danir séu þegar búnir að sliga sig á sósíalismanum og Svíar komi í humátt á eftir. Atvinnulífið standi ekki undir yfirbyggingunni.

Síðast en ekki sízt er því haldið fram hér á landi, að mismunur íslenzkra og norskra blóðflokka, svo og samræmi íslenzkra og írskra sanni vísindalega, að Íslendingar séu ekki einu sinni líkamlega grein af norrænum meiði.

Í öllu þessu og ýmsum öðrum efasemdum er hluti af sannleika, en ekki hann allur. Rekja má önnur dæmi, sem benda til, að Ísland sé lifandi þáttur Norðurlanda, hafi áður og muni enn hafa gagn af tengslum við þau.

Varla er til það félag á landsvísu, sem ekki er í tengslum við systurfélög á Norðurlöndum. Af þessum félagsskap um einstök áhugamál hefur myndazt fjörlegur samgangur, sem í mörgum tilvikum hefur leitt til vináttu.

Enginn vafi er á, að vináttutengsl Íslendinga við útlendinga eru meiri til Norðurlanda en til afgangsins af heiminum. Fremur en allt annað er þetta mælikvarði á, hvort Ísland sé eða sé ekki eitt Norðurlandanna.

Ekki er heldur vafi á, að lagasetning okkar og stjórnkerfi dregur mjög dám af Norðurlöndunum. Sum lög okkar eru nánast þýðingar úr málum þeirra. Og þjóðskipulag okkar í heild er byggt á sameiginlegum grunni Norðurlanda.

Við höfum haft og munum enn hafa gagn og gleði af þessu samstarfi. Þar með er ekki nauðsynlegt, að við gleypum hrátt allt, sem frá Norðurlöndunum kemur. Við getum líka lært að vara okkur á neikvæðri reynslu þeirra.

Sérstaklega er varasöm sú hugsun, að einstaklingurinn sé fruma í líkama, að hann sé ekki sinnar gæfu smiður, heldur eigi hann kröfu til viðurværis af hálfu hins opinbera, hvort sem hann er listamaður eða eitthvað annað.

Við megum ekki láta félagsmálin sliga atvinnulífið, ofgera verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu. Og við megum ekki heldur telja, að Norðurlöndin séu einhver þungamiðja heimsins í listum og bókmenntum.

Að þessum fyrirvörum töldum, getum við snúið okkur heils hugar að norrænni samvinnu. Við höfum margt til Norðurlanda að sækja og getum ef til vill lagt eitthvað á móti. Þegar til kastanna kemur, eru þetta okkar vinaþjóðir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Næst heimta þeir fráfærur.

Greinar

Búnaðarþing hefur samþykkt að láta prófa að taka fráfærur upp á ný til að framleiða osta úr sauðamjólk. Ekki fylgdi samþykktinni, að prófað skyldi, hvort sauðskinnsskór gætu hentað við störf að þessari nýstárlegu og gamalkunnu búgrein.

Samþykktin er dæmi um, að forustumenn landbúnaðarins eru smám saman að gera sér óljósa grein fyrir ógöngum hins hefðbundna landbúnaðar lambakjöts og kúamjólkur. Þeir seilast æ lengra í örvæntingarfullri leit að nýjum búgreinum.

Vegna hinna síðustu köldu ára hefur offramleiðsla landbúnaðarafurða haldizt að meðaltali í horfinu. Offramleiðsla mjólkur hefur minnkað og offramleiðsla lambakjöts hefur aukizt. Hvað gerist svo, ef gott ár kemur?

Ríkið sækir æ fastar að innlendum neytendum að koma þessum afurðum í lóg. Það reynir að auka söluna með niðurgreiðslum. Þær eiga á þessu ári að nema 466 milljónum króna. Þar er verið að búa til markað, sem ekki fær staðizt til lengdar.

Nú er svo komið, að við greiðum 5,70 krónur fyrir mjólkurlítrann yfir borðið og 3,14 krónur til viðbótar í formi skatta, – að við greiðum 56,50 krónur fyrir smjörkílóið yfir borðið og 57 krónur til viðbótar í formi skatta.

Þegar við getum ekki torgað meiru, er afgangurinn fluttur til útlanda, þar sem enginn vill kaupa hann, ekki einu sinni Norðmenn, sem hafa einnig komið sér upp offramleiðslu á eigin dilkakjöti. Því er fátt til ráða.

Á þessu ári hugðist ríkið greiða 160 milljónir króna til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, einkum lambakjöt. Þetta dugir hvergi til og því ætlar ríkið að gefa 34 milljónir króna til viðbótar, sumpart á kostnað afkomenda okkar.

Hingað til hefur offramleiðslustefnan einkum verið rekin á kostnað skattgreiðenda. En nú hefur landbúnaðarráðherra upplýst, að tekin verði lán upp í viðbótina, svo að börnin okkar fái líka að borga kjötið handa útlendingunum.

Nýlega rak á fjörur ríkisins bandarískan kaupmann, sem vildi kaupa 1.500 tonn af dilkakjöti á 10 krónur kílóið. Við athugun kom í ljós, að tilboð hans dugði varla fyrir kostnaði við sjálfa slátrunina, hvað þá fyrir öðru.

Vondar eru niðurgreiðslurnar og uppbæturnar. Verri eru þó styrkirnir, sem ríkið veitir til fjárfestingar í hinum hefðbundna landbúnaði, svo að endaleysan fái að framlengjast sem lengst. Þeir eiga að nema 78 milljónum króna á árinu.

Með þessum styrkjum er stuðlað að umfangsmikilli fjárfestingu í landbúnaði, þrátt fyrir aðrar tilraunir til að draga úr framleiðslu hans. Á þessu ári er reiknað með, að fjárfesting í landbúnaði verði svipuð og í fiskiðnaði.

Með öllu þessu er ríkið að stuðla að framleiðslu á afurðum, sem eru gífurlega offramleiddar í iðnríkjunum beggja vegna Atlantshafs, í stað þess að reyna að nota ríkidæmi skattgreiðenda til að stuðla að skynsamlegri framleiðslu.

Við innflutningsfrelsi landbúnaðarafurða og afnám niðurgreiðslna, útflutningsuppbóta og framkvæmdastyrkja munum við ekki þurfa nema þriðjung núverandi framleiðslu mjólkur og lambakjöts. Við gætum beint kröftunum að arðbærari verkefnum.

Í landi fullrar atvinnu má tala um þetta og benda ríkinu á að nota landbúnaðarpeningana heldur til að byggja iðngarða í strjálbýli og til að efla fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt.

Meðan talað er um fráfærur á Búnaðarþingi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgar ávísanir.

Greinar

Loksins er hafin útgáfa ávísanahefta með ábyrgðarskírteinum á svipaðan hátt og tíðkast yfirleitt í nálægum löndum. Það er Útvegsbankinn, sem á heiðurinn af því að hafa brotið ísinn, eftir fimm ára vangaveltur bankakerfisins.

Skírteinin eru að því leyti öruggari en þau, sem menn þekkja frá útlöndum, að á þeim er ekki aðeins undirskrift handhafa ávísanaheftisins heldur einnig mynd af honum. Ætti fölsun slíkra tékka að verða nánast óframkvæmanleg.

Með þessum ávísunum gerist það einnig, að banki tekur töluverða ábyrgð á viðskiptavinum sinum. Kaupendur slíkra ávísana ættu mun síður en kaupendur venjulegra ávísana að þurfa að sæta því að sitja uppi með þær.

Þetta er ekki síður merkileg hlið málsins, því að útgáfa innistæðulausra ávísana er miklu algengara vandamál en fölsun ávísana. Á aðeins tveimur fyrstu mánuðum ársins þurfti að loka 140 ávísanareikningum vegna þessa.

Innistæðulausu ávísanirnar koma sérstaklega hart niður á rekstri, sem veitir þjónustu utan hins skamma opnunartíma bankakerfisins, svo sem leiguakstri, veitingahúsum og skemmtistöðum. Þar hlaðast upp bunkar af slíkum pappírum.

Ávísanir eru slíkt vandamál hér á landi, að rannsóknarlögreglustjóri ríkisins varð nýlega að boða til sín fulltrúa bankanna til að mæla með aukinni aðgát, þar á meðal útgáfu sérstakra skírteina til að sýna við ávísanaviðskipti.

Um hina nýju útgáfu sagði hann nýlega í viðtali við DV: “Ég tel því, að þessi viðleitni Útvegsbankans sé spor í rétta átt til að draga úr ávísanamisferli, bæði innistæðulausum ávísunum og ávísanafalsi.”

Hinir bankarnir segja aftur á móti, að núverandi ástand sé í lagi. Það hafi batnað verulega við hið daglega uppgjör, sem Reiknistofa bankanna hefur annazt um árabil. Ísland sé eina landið, sem hafi tekið upp þann hátt.

Bankastjóri Landsbankans hafði í viðtali við DV orð fyrir þessum sjónarmiðum. Hann sagði m.a.: “við teljum okkur nú hafa náð þeim tökum á því vandamáli, svo viðunandi sé.” 140 lokaðir reikningar á tveimur mánuðum benda þó til annars.

Bankastjóri Iðnaðarbankans sagði, að ekki væri hægt að hafa í gangi tvenns konar kerfi, venjulegt og ábyrgðarkerfi. Hann sagði: “að annars væri verið að gera þá tortryggilega, sem hefðu bara venjulegt tékkhefti”.

Æskilegt væri, að bankakerfið hefði þessi síðustu ummæli að leiðarljósi og bankarnir tækju almennt upp ábyrgðarkerfi Útvegsbankans, svo að viðskipti með ávísanir geti framvegis orðið lipurri og vandaminni en nú er.

Í Samvinnunefnd banka og sparisjóða hafa menn raunar verið í fimm ár að velta fyrir sér hugmyndum um eitthvert slíkt kerfi. Þegar hinar seinvirku hugsanir kerfisins runnu út í sandinn, ákvað Útvegsbankinn að brjóta ísinn.

Auðvitað fóru hinir um leið í fýlu og fundu ábyrgðarkerfinu allt til foráttu. Það er broslegt dæmi um þá áráttu manna, grænna af öfund, að berjast gegn öllum endurbótum og nýbreytni, sem þeir framkvæma ekki sjálfir.

Með því að hafa mynd á skírteininu stígur Útvegsbankinn skrefi lengra en danskir og brezkir bankar og tekur upp kerfi þýzkra banka. Skynsamlegt var að taka málið svo föstum tökum, öðrum bönkum landsins til fyrirmyndar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherra með skiptimynt.

Greinar

Mútur eru að færast í vöxt í stjórnmálum þessa lands. Meðan sumir ráðherranna leika fína menn á fundum Norðurlandaráðs eru aðrir þeirra að beita fé og aðstöðu ríkisins til að auðga skjólstæðingana eða hindra gjaldþrot þeirra.

Pálmi Jónsson og Ragnar Arnalds, ráðherrar og kjördæmisþingmenn, hafa látið ríkið gefa graskögglaverksmiðju Blöndubænda stórfé til að brjóta á bak aftur andstöðuna við virkjun Blöndu. Um það var fjallað í leiðara í gær.

Steingrímur Hermannsson hefur veitt Arnarflugi leyfi til að fljúga í áætlun til Düsseldorf og Zürich og óbeint leyfi til Amsterdam – í skiptum fyrir að kaupa hið milljónagjaldþrota Íscargo í eigu eins helzta flokksgæðingsins.

Til gamans má geta þess, að fulltrúi ráðherrans í samningunum um kaupin er stjórnarmaður í Flugleiðum! Hefur hann að undanförnu stjórnað næturlöngum fundum til að reka endahnútinn á hin stórkarlalegu viðskipti.

Svo að Íscargo renni ljúfar í háls Arnarflugs hefur bankavaldið verið hvatt til að bjóða fram vænar fyrirgreiðslur. Þær hafa freistað Arnarflugsmanna til þessa leiks og slegið birtu á svartnætti fjármála Íscargo.

Þegar ráðherra gaf fyrr í vetur ádrátt um leyfi til millilandaflugs Arnarflugs, var honum hrósað fyrir. Hann var sagður stuðla að auknu flugi og flugfrelsi og að mjög svo nauðsynlegu aðhaldi að einokun Flugleiða.

Menn vísuðu til nýfenginnar reynslu frá Bandaríkjunum, þar sem aukið flugfrelsi hefur leitt til aukins flugs og lægri fargjalda – og eflt mjög ung og lítil og hress flugfélög á kostnað hinna gömlu og þreyttu risa.

Arnarflug er félag, sem hefur staðið sig vel og vaxið ört. Sjálfsagt var að veita því tækifæri að spreyta sig á fleiri sviðum, til dæmis í áætlunarflugi á milli landa. En ósæmilegt var að hengja á spýtuna greiðasemi við ráðherra.

Nú er það svo komið í ljós, sem okkur hefur lengi grunað hér á blaðinu, að ráðherrann var ekki að hugsa um að draga úr einokun, efla flug og þjónusta neytendur. Hann var bara að hugsa um að bjarga skjólstæðingi sínum.

Sem leyfisveitandi notar ráðherrann aðstöðu sína eins og skiptimynt. “Ef þú gerir þetta fyrir mig, þá geri ég þetta fyrir þig”, er boðorðið sem gildir á siðferðisstigi hans og raunar ýmissa annarra stjórnmálamanna.

Gallinn er sá, að það er ekki ráðherrann, Framsóknarflokkurinn eða skjólstæðingar hans, sem eiga flugleyfi hér á landi. Það er þjóðin, sem á þau. Flugmálaráðherrann fer bara með þau í sjálfteknu umboði.

Auðvitað væri bezt, að landsmenn áttuðu sig á, hve hættulegt er að þola stjórnmálamönnum að soga til sín rétt til skömmtunar, úthlutunar, leyfisveitinga. Við áttum að hafa fengið nógu slæma reynslu af slíku á haftatímanum.

Þjóðin þarf að rísa gegn spillingu af því tagi, sem upp hefur komizt síðustu daga. Hún þarf að láta stjórnmálamennina finna, að þeir komist ekki upp með siðferði stéttarbræðranna úr þriðja heiminum.

Ekki er nóg að fitja upp á trýnið, þegar minnzt er á stjórnmálamenn. Ekki er nóg að lýsa vantrausti á stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn í skoðanakönnunum. Þeir halda samt, að þeir njóti virðingar með þjóðinni!

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnarandstaða í sókn.

Greinar

Stjórnarandstæðingar eru í mikilli sókn í Sjálfstæðisflokknum, Alþýðuflokkurinn er farinn að hjarna við og fylgissig Alþýðubandalagsins heldur áfram. Þetta eru breytingarnar, sem komu í ljós í nýjustu könnun blaðsins á fylgi flokkanna.

Aðrir þættir eru óbreyttir, þar á meðal hinn mikli fjöldi, sem ekki getur eða vill taka afstöðu til flokkanna. Þriðjungur hinna spurðu sagðist vera óákveðinn í afstöðu til þeirra. Flokkarnir höfða ekki til þessa fjölmenna liðs.

Mikill meirihluti hinna óákveðnu mun þó fara á kjörstað í næstu alþingiskosningum, því að þáttaka í kosningum reynist jafnan vera um 90% hér á landi. Þetta er fólkið, sem sveiflast milli flokka og ræður úrslitum kosninga.

Engin ástæða er til að ætla, að hinn óákveðni hópur muni skipa sér á flokkana í sömu hlutföllum og hinir ákveðnu hafa þegar gert. Í aðdraganda kosninga er oftast einhver pólitísk sveifla í gangi, sem beinir stórum hluta hinna óákveðnu í einn farveg, frekar en annan.

Þess vegna er ekki ástæða til að taka bókstaflega hina hlutfallslegu skiptingu hinna ákveðnu milli flokka eða þingmannatöluna, sem reiknuð er út frá því. Menn mega hafa hliðsjón af slíkum tölum, en ekki taka trú á þær.

Miklu fremur ættu forustumenn hvers flokks að horfa til hins fjölmenna hóps óákveðinna og reyna að skilja, hvernig standi á stærð hans og hvernig hægt sé að nálgast hann, viðkomandi flokki til hagsbóta.

Kosningabarátta við þessar aðstæður er orðin að áhættusömum slagsmálum um fylgi hinna óákveðnu. Í aðdraganda kosninga hljóta flokkarnir í vaxandi mæli að reyna að tefla stjórnmálunum í stöðu, sem auðveldi þeim að ná til þessa hóps.

Í sjö skoðanakönnunum Dagblaðsins & Vísis frá síðustu alþingiskosningum hefur fylgi Framsóknarflokksins verið einna stöðugast. Hann hafði nú síðast 23% hinna ákveðnu, svipað þeim 25% atkvæða, sem hann fékk í kosningunum.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur líka reynzt traust á þessu tímabili. Í könnun eftir könnun segist um það bil helmingur hinna spurðu styðja flokkinn. Það er mun öflugra en þau 37% atkvæða, sem hann fékk í kosningunum.

Ef flokkurinn finnur leið til að ná svipuðu eða hærra hlutfalli af hinum óákveðnu, er hann á grænni grein. Hann getur barizt fyrir hreinum meirihluta í kosningunum. En hvaða Sjálfstæðisflokkur verður það?

Ef til vill verður það ekki hreinn Geirsflokkur, en flest bendir til, að það verði eindreginn stjórnarandstöðuflokkur. Nýjasta könnunin, sem birtist í blaðinu í dag, sýnir mikla sókn og meirihlutafylgi stjórnarandstæðinga í flokknum.

Spurningin er þá sú, hvort flokknum tekst sem slíkum að halda fylgi þess minnihluta, sem innan flokksins fylgir ríkisstjórninni. Örugglega þarf stjórnkænsku til að ná slíkum árangri í næstu kosningum.

Tölur kannana blaðanna sýna hægfara rýrnun fylgis Alþýðubandalagsins frá því í fyrravor. Og síðasta könnunin sýnir snöggan fjörkipp í fylgi Alþýðuflokksins, sem hafði búið við fylgisdoða á öllu síðasta ári.

Þannig má lesa ýmsan fróðleik úr niðurstöðutölum skoðanakannana af þessu tagi. Þær gera bæði stjórnmálamönnum og kjósendum hægar um vik að átta sig á flóknum straumum stjórnmálanna milli kosninga.

Jónas Kristjánsson.

DV