Greinar

Er þetta “skásta” stjórnin?

Greinar

Tvíeggjað er að túlka niðurstöður skoðanakönnunar dagsins um fylgi ríkisstjórnarinnar. Í stjórnmálum hafa menn á öllum köntum lag á að túlka slíkar kannanir sér í hag. Og þessi síðasta gefur til þess gott tilefni.

Athyglisvert er, að ríkisstjórnin nýtur enn stuðnings mikils meirihluta þeirra, sem á henni hafa einhverja skoðun. Munurinn á 61% stuðningsmönnum og 39% andstæðingum er marktækur. Meirihlutinn verður ekki vefengdur.

Þessi 61% stuðningur er hinn sami og kom fram í könnun frá október 1980, fyrir sextán mánuðum. Á þessum langa tíma hefur ríkisstjórnin haldið stöðu sinni, þótt almenna reglan sé, að stuðningurinn dvíni, þegar líður á kjörtímabilið.

Ríkisstjórnin er hin fyrsta, síðan kannanir af þessu tagi hófust, sem sífellt reynist njóta stuðnings meirihluta þeirra, sem skoðun hafa. Bæði hægri stjórn Geirs Hallgrímssonar og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar voru í minnihluta.

En þetta er aðeins önnur hlið málsins. Einnig er athyglisvert, að síðan í janúar í fyrra hefur stuðningurinn við ríkisstjórnina minnkað jafnt og þétt um meira en fjögur prósentustig á fjögurra mánaða fresti.

Með sama framhaldi á þessu ári verður ríkisstjórnin komin í minnihluta á þriggja ára afmæli sínu. Það er að minnsta kosti einu ári of snemmt, ef litið er til kjörtímabilsins í heild, auk þess sem margt getur gerzt á þeim tíma.

Einnig er nauðsynlegt, að menn taki eftir, að stuðningur við ríkisstjórnina er ekki sama og ánægja með hana. Það kemur greinilega fram í ummælum sumra hinna spurðu, að þeir styðja ríkisstjórnina með hangandi hendi.

Fjórðungur hinna spurðu gat ekki tekið afstöðu til ríkisstjórnarinnar. Að viðbættum þeim, sem ekki vildu svara, bendir könnunin til, að þriðjungur kjósenda sé óskrifað blað. Það er svipað hlutfall og verið hefur.

Þessi þriðjungur skiptir auðvitað máli, þegar gengið verður næst til þingkosninga. En það snýr fremur að fylgi stjórnmálaflokkanna. Þeim mun án efa takast misjafnlega að nýta sér stöðuna í lok kjörtímabilsins.

Það flækir svo stöðuna, að hluti stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar segist jafnframt styðja Sjálfstæðisflokkinn að málum. Á þessu stigi veit enginn, hvernig þau atkvæði munu falla inn í stjórnarmynztur eftir kosningar.

Eftir stendur sú meginniðurstaða könnunarinnar, að ríkisstjórnin hefur nú étið upp stuðningskúfinn, sem hún aflaði sér með áramótaaðgerðunum fyrir rúmu ári. Hún hefur nú sömu stöðu og hún hafði fyrir þær aðgerðir.

Þetta bendir til, að ríkisstjórnin gæti, ef hún vildi, snúið gengissigi sínu í gengisris með því að koma sér saman um einbeittari og ákveðnari aðgerðir en þær, sem fólust í hinum nýlega þorrabakka hennar.

Almenningur sér margt jákvætt í þjóðfélaginu, svo sem fulla atvinnu. Hann hefur ekki eins miklar áhyggjur af verðbólgunni og stjórnmálamenn og hagfræðingar hafa, enda þekkir hann ekki annað ástand. Ríkisstjórnin nýtur þessara viðhorfa.

“Ég er fylgjandi þessari stjórn, vegna þess að ég held, að við fáum enga skárri”, sagði dæmigerður kjósandi í könnun blaðsins. Þetta lýsir viðhorfi, sem haldizt hefur stöðugt í tvö ríkisstjórnarár, hvað sem síðar verður.

Jónas Kristjánsson

DV

Lágt ris á lánardrottnum.

Greinar

Kominn er tími til, að stjórnvöld og bankar á Vesturlöndum lýsi yfir gjaldþroti Póllands. Annars verða lánin senn að gjöfum. Pólland skuldar yfir 250 milljarða króna í vestri og getur ekki einu sinni greitt vexti, hvað þá afborganir.

Vesturlönd eiga að velta fjármagnskostnaði herlaganna í Póllandi af sínum herðum og yfir á herðar Sovétríkjanna. Enda er þar í austri að leita ábyrgðarinnar á efnahagsástandinu og mannréttindaástandinu í Póllandi.

Sovétríkin hafa þegar neyðzt til að láta herforingjastjórnina í Póllandi hafa 19 milljarða króna til að fleyta sér frá degi til dags. Þetta er þung byrði, enda hafa Sovétríkin nú í fyrsta sinn í 37 ár beðið um greiðslufresti í vestri.

Samtals skulda Austur-Evrópuríkin 750 milljarða króna í vestri. Þótt tillit sé tekið til verðbólgunnar, er þetta langtum meira en öll Marshallaðstoðin við Vestur-Evrópu, sem kom að miklu gagni og fékkst endurgreidd.

Efnahagsaðstoðin við austrið hefur hins vegar ekki komið að neinu gagni, enda er sjálft hagkerfið þar alls staðar í ólestri. Þessari innspýtingu peninga á að hætta og láta Sovétríkin greiða kostnaðinn af harðstjórnarlúxusinum.

Ef Sovétríkin yrðu sjálf að kosta yfirráðin í Austur-Evrópu, mundu þau mjög lítið fé hafa aflögu til vígbúnaðar, þar á meðal hinnar hrikalegu fjölgunar kjarnorkuvopna. Um leið gætu Vesturlönd létt verulegum vígbúnaðarkostnaði af skattgreiðendum.

Bann við kornsölu til Sovétríkjanna og við gaskaupum af þeim mundi valda Kremlverjum miklum vandræðum, en ekki eins miklum og fjármagnsfrysting. Hún ein út af fyrir sig mundi skekkja hornsteina heimsvaldastefnu Sovétríkjanna.

Að vísu mundi gjaldþrot Póllands setja banka á Vesturlöndum út af sporinu. Það er óhjákvæmilegur herkostnaður, sem ríkisstjórnir viðkomandi landa geta mildað með því að kaupa kröfurnar á hendur Jaruzelski fyrir hálfvirði.

Því miður er hjartað deigt í vestrænum stjórnvöldum. Sú ríkisstjórn, sem mest froðufellir út af Póllandi, hin bandaríska, hefur í kyrrþey greitt bönkum landsins 700 milljón króna vanskil Póllands til að hindra yfirlýsingu um gjaldþrot þess!

Í rökréttu framhaldi má búast við, að ríkissjóður Bandaríkjanna borgi til viðbótar 4000 milljón króna vanskil Póllands á þessu eina ári. Orkan fer sem sé öll í að spara Sovétríkjunum kostnaðinn af pólsku herlögunum.

Sama sagan er alls staðar á Vesturlöndum. Taugaveikluð umhyggja ríkisstjórna fyrir bönkum, sem hafa rekið ranga lánastefnu veldur því, að þær þora ekki að lýsa í orði því gjaldþroti Póllands, sem þegar liggur á borði.

Allt tal um, að lán til Austur-Evrópu mundi milda stjórnarfar þar og gera stjórnvöld háðari Vesturlöndum, er að reynast bull og vitleysa. Það er lánveitandinn, en ekki skuldunauturinn, sem er veiki aðilinn.

Rétttrúarmenn austurs fyrirlíta Vesturlönd fyrir óttann við missi áhættufjárins í Póllandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu. Þeir telja þetta enn eina staðfestingu á kenningu Leníns um, að vestrið muni selja reipið í eigin hengingaról.

Stóru orðin í Póllandsþáttum sjónvarps eru einskis virði. Annað hvort eiga menn að þegja í máttleysi sínu eða reyna að snúa taflinu við með því að lýsa Pólland gjaldþrota og rukka Kremlverja um skuldirnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kosið um fólk.

Greinar

Prófkjör og forkosningar vegna byggðakosninganna í maí eru nú háð um hverja helgi. Stjórnmálaflokkarnir taka allir meiri eða minni þátt í þessum persónulega kosningaundirbúningi, sem ætti að auka stjórnmálaáhuga kjósenda.

Sums staðar eru prófkjörin lokuð öðrum enn flokksbundnum, en annars staðar opin öllum. Sums staðar eru úrslitin bindandi að vissu marki, en annars staðar ekki. Enda er kjarkur ráðamanna misjafn eftir flokkum og stöðum.

Bezta og lýðræðislegasta einkenni kosningaundirbúningsins að þessu sinni eru forkosningar, sem eru að ryðja sér til rúms. Þær eru eins konar opið og sameiginlegt prófkjör flestra eða allra flokkanna á staðnum.

Þegar hafa forkosningar verið háðar á Akranesi og í Borgarnesi. Um þessa helgi verða þær í Keflavík og Njarðvík. Síðar verða slíkar kosningar í Kópavogi og Bolungarvík, á Siglufirði, Egilsstöðum og Ísafirði og ef til vill víðar á landinu.

Sameiginlegar forkosningar hafa meðal annars þann kost fram yfir opin prófkjör einstakra flokka, að kjósendur geta aðeins tekið þátt hjá einum flokki og þá væntanlega þeim flokki, sem þeir hyggjast styðja í kosningunum.

Þegar opin prófkjör flokka í byggðarlagi eru háð á ýmsum tímum, er hugsanlegt, að stuðningsmenn óviðkomandi flokka fjölmenni til leiks og ráði úrslitum. Um þessa hættu hefur verið fjölyrt, en sönnunargögn eru fátækleg.

Víða verða flokkar að sætta sig við slík prófkjör, af því að hinir flokkarnir vilja ekki taka þátt í forkosningum eða treysta sér aðeins til bundinna prófkjara eða þá, að samkomulag næst einfaldlega ekki.

Hvergi verður séð, að illa hafi farið í prófkjörum að þessu sinni frekar en fyrri daginn. Það eru bara sárindi yfir einstökum úrslitum, sem fá gjarna þægilega útrás í marklausum dylgjum um smölun á kjósendum annarra flokka.

Samt er þessi hætta til, sérstaklega hjá litlum flokkum, sem mega ekki við mikilli þátttöku stuðningsmanna stærri flokka. Þess vegna eru sameiginlegu forkosningarnar umtalsverð endurbót á annars ágætri hefð opinna prófkjara.

Minna er varið í bundnu prófkjörin, þar sem flokksmenn einir fá aðgang. Þau taka ekki tillit til, að margir kjósendur hafa óbeit á að vera varanlega eyrnamerktir einum flokki, þótt þeir vilji styðja hann að sinni.

Raunveruleg höfuðástæða bundinna prófkjara er hin sama og alls engra prófkjara. Ráðamenn á staðnum eru dauðhræddir við að missa völd. Þeir óttast, að upp rísi vinsælir og sjálfstæðir frambjóðendur, sem ekki sé hægt að hafa í vasanum.

Önnur ástæða fyrir andstöðu við opin prófkjör og forkosningar er, að þau gera nánast ókleift að snyrta framboðslista. Þannig geta t.d. karlmenn lent í öllum efstu sætum á viðkvæmum tímum kvenréttinda og kvennaframboða.

Þrátt fyrir þetta eru sameiginlegar forkosningar lýðræðisleg og mannleg nýjung í stjórnmálastarfinu. Jafnframt eru þær eðlilegur undanfari þess, að persónuvalið færist inn í sjálfar kosningarnar, – í formi óraðaðra framboðslista.

Ef kjósendur fá í hinum eiginlegu kosningum að raða sjálfir frambjóðendum þeirra lista, sem þeir kjósa, er komið í veg fyrir, að sárindi út af úrslitum forkosninga hafi annarleg áhrif á kosningaþátttöku einstakra flokksklíkna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Loftleiðir nútímans knésettar.

Greinar

Þúsundir áhrifamanna beggja vegna Atlantshafsins minnast enn Loftleiða með hlýju fyrir að hafa gert þeim kleift að ferðast, þegar þeir voru fátækir námsmenn. Íslendingar njóta þess enn að hafa átt forustu í lágum fargjöldum yfir hafið.

Á síðustu árum hefur Laker gegnt hlutverki Loftleiða, fengið fólk til að ferðast, sem gat það ekki áður. Þess vegna er harmur kveðinn að neytendum um allan heim, nú þegar stóru flugfélögin hafa komið honum á kné.

Við hrun Lakers voru fargjöldin yfir Atlantshafið komin niður í 1.600 krónur. Ef hann hefði ekki komið til skjalanna, væru fargjöldin að minnsta kosti þrisvar, ef ekki fjórum sinnum hærri. Og nú verða þau vafalaust hækkuð.

Laker gekk of langt. Ef hann hefði stöðvað sig við 2.000 króna fargjöld, væri flugfélagið hans ekki komið á höfuðið. Hann taldi sér ranglega trú um, að hann gæti hrist af sér hin stóru, feitu og illa reknu flugfélög.

Þau ákváðu hins vegar að drepa hann, hvað sem það kostaði. Þau buðu sömu fargjöld og hann, hver sem þau voru hverju sinni. Þau töpuðu miklu meiri peningum en hann, en höfðu fjárhagslegt bolmagn til að þola það lengur.

British Airways og ýmis önnur flugfélög gerðu þetta á kostnað skattgreiðenda. Önnur færðu miklar fórnir, svo sem Pan American, er seldi nær allar eignir sínar í landi. Og niðurstaðan varð, að Laker sprakk fyrstur á limminu.

Margt var skrítið í þessu stríði. Af því að Laker flaug frá London til Los Angeles, buðu stóru félögin farið á 3.000 krónur. Af því að hann flaug ekki hina skemmri leið til New Orleans, var gjaldið þangað 5.600 krónur.

Þetta minnir á, að í sumar buðu Flugleiðir um 2.200 króna fargjald til Amsterdam, meðan fargjaldið til Kaupmannahafnar var yfir 5.000 krónur. Að Íscargo knésettu verður gjaldið hækkað aftur, ef þetta flug. verður á annað borð á boðstólum.

Hrægammarnir eru eins, hvar sem er í heiminum. Hætt er við, að nú verði í alþjóðlegu flugi smám saman horfið til fyrri tíðar, er makráðir forstjórar sömdu um rosafargjöld til að halda uppi sérlega illa reknum fyrirtækjum.

Laker var maðurinn, sem var þeim hættulegur. Hann stefndi ekki aðeins í voða gróða stóru flugfélaganna af Norður-Atlantshafinu. Hann var einnig kominn á fremsta hlunn með að brjóta einokun þeirra á öðrum mikilvægum leiðum.

Hann var kominn með flugleyfi yfir Kyrrahafið frá Los Angeles til Hong Kong. Meira máli skipti þó, að hann var kominn með flugleyfi frá London til Berlínar og Zürich og hafði góðar vonir um leyfi til Rómar, Mílanó og Aþenu.

Krafturinn í Laker var slíkur, að hann var kominn með glæpafélagið IATA á höggstokkinn hjá Efnahagsbandalaginu með því að benda á, að verðákvarðanir þess brytu í bága við ákvæði Rómarsamningsins um verzlunarfrelsi.

Með meira úthaldi hefði Laker skotið í kaf rosafargjöldin, sem tíðkazt hafa á flugleiðum innan Evrópu og Íslendingar hafa meðal annarra áþreifanlega orðið varir við. Þessum fargjöldum verðum við nú að sæta enn um sinn.

Úlfarnir hafa náð Laker og myrkir tímar eru sennilega framundan í fluginu. Og sorglegt er að hugsa til, að gjaldþrot hans skuli stafa af, að hann fór með Atlantshafsfargjaldið niður í 1.600 krónur, þegar allir hefðu verið ánægðir með 2.000 krónur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Um Svissara og sveitamenn.

Greinar

Í Straumsvík er undarlegt álver, sem tapar ógnvekjandi upphæðum, þótt það búi við eitt heimsins lægsta orkuverð slíkra fyrirtækja og óvenjumikla sjálfvirkni í vinnslu, hvort tveggja tilefni hagkvæms rekstrar.

Ísal greiðir Landsvirkjun tæplega 0,7 sent fyrir kílówattstundina. Ný álver austan hafs og vestan þurfa að greiða rúmlega sjö sinnum meira eða 5 sent á kílówattstundina. Samkeppnisforskot Ísals er því gífurlegt.

Þegar aðstaðan er frábær og útkoman hörmuleg, er eðlilegt, að menn leiti skýringa í kunnum aðferðum fjölþjóðafyrirtækja við að millifæra tap og hagnað til að gera skatta sem lægsta. Þær aðferðir eru bæði margar og sniðugar.

Tap má búa til hjá dótturfyrirtækjum með háu verði móðurfyrirtækis á hráefnum, rekstrarvörum og fjármagni annars vegar og lágu verði til móðurfyrirtækis á fullunninni afurð dótturfyrirtækjanna hins vegar.

Eftir að hafa tekið tillit til sumra athugasemda móðurfyrirtækis Ísals hefur brezk endurskoðunarstofa íslenzka ríkisins komizt að þeirri niðurstöðu, að með ýmsum brögðum hafi um 42 milljón króna skattgreiðslur gufað upp.

Af þessu verður íslenzka ríkið að bera um 15 milljónir frá árunum 1975-1979 undir alþjóðlegan gerðardóm. 27 milljónum ársins 1980 hefur fjármálaráðuneytið hins vegar náð með millifærslum, sem álmenn munu kæra fyrir sama dómstóli.

Engin ástæða er til að óttast niðurstöðu gerðardómsins. Hin brezka endurskoðunarstofa hefur unnið mikið og vandað starf. Og dómstóllinn getur vafalaust fengið gögn, sem Ísal hélt fyrir endurskoðendunum.

Þetta mál er lærdómsríkt, þótt fjárhæðirnar í húfi séu ekki umtalsverðar í samanburði við gjána, sem er milli lágs orkuverðs til Ísals annars vegar og taprekstrar fyrirtækisins hins vegar. En lærdómurinn þarf að vera réttur.

Tilgangslaust er að reka hið meinta skattsvikamál frekar í fjölmiðlum, þótt stuðningsmenn og andstæðinga Ísals langi til að skiptast á skeytum. Til þess er dómstóll á borð við gerðardóm, að unnt sé að fá botn í svona mál.

Mikilvægara er að kanna, hvort unnt verði að lagfæra hið sérdeilis lága orkuverð. Opinber svör álmanna um daginn voru ekki sérlega jákvæð, en Steingrímur Hermannsson ráðherra telur meira hafa komið út úr einkasamtölum.

Komið hefur fram, að fulltrúar móðurfyrirtækisins telji tvöföldun álversins vera eina helztu forsendu hækkaðs orkuverðs. Um slíkt á auðvitað að ræða, því að álver eru þjóðhagslega hagkvæm, þótt ekki komist hver eyrir til skila.

Gaman væri að kynnast hinum bókhaldslegu töfrabrögðum, er tvöföldun hallarekstrarfyrirtækis og hækkun á orkugreiðslum þess á að leiða til nýs og betra gróðafyrirtækis í hjartkærri sameign Svisslendinga og Íslendinga.

Með álsamningnum gamla sögðu álmenn skák og mát. Fróðlegt væri að vita, með hvaða rétti samningamenn Íslendinga telja sig geta teflt sómasamlega í næstu skák um orkuverð og stækkun. Altjend ekki hinir sömu og áður.

Ósigrar okkar í Straumsvík hafa lengi verið hemill á eðlilegri orkuiðnvæðingu landsins. Það væru því bæði merkileg og æskileg tímamót, ef nú væri hægt að ganga svo til samninga, að sveitamaðurinn sé ekki hafður að fífli.

Jónas Kristjánsson

DV

Öryggisgæslu þarf strax.

Greinar

Líkamsárásin í Þverholti hefur opnað augu manna fyrir, að lengur verður ekki unað við, að geðveikir afbrotamenn gangi lausir. Þjóðfélagið krefst varna gegn slíku og mannúðarstefna krefst tilrauna til lækninga.

Brýnast er að mæta vandanum eins og hann er, hverju svo sem hann er að kenna, með því að taka úr umferð þá 1-2 geðveiku afbrotamenn, er koma í ljós árlega að meðaltali. Þjóðfélagið sættir sig ekki við síbrot af Þverholtstagi.

Eftir því sem föng eru á hverju sinni verður einnig að gera tilraunir til að lækna hina geðveiku afbrotamenn. Í sumum tilvikum kann að leynast von, þótt venjulega séu þeir orðnir ólæknandi, þegar þeir eru handteknir.

Að undanförnu hafa embættismenn og yfirmenn geðheilbrigðismála skýrt sjónarmið sín á þessum vanda hér í blaðinu og sýnist sitt hverjum. Endurspeglast þar togstreita, sem hefur sett svip sinn á þetta ástand árum saman.

Geðveikir afbrotamenn eru yfirleitt dæmdir til svokallaðrar öryggisgæzlu. Hún er ekki hugsuð sem refsing, heldur í fyrsta lagi til að vernda umhverfið fyrir hinum geðveiku og í öðru lagi til að veita þeim læknishjálp.

Slík aðstaða er ekki til í fangelsum, þótt til þess sé raunar ætlazt í fangelsislögum. Því hafa yfirvöld dómsmála fengið yfirvöld heilbrigðismála í lið með sér við að reyna að koma öryggisgæzlunni á geðsjúkrahúsin.

Ólafur Ólafsson landlæknir sagði hér í blaðinu, “að vista eigi geðsjúka afbrotamenn á geðsjúkrahúsum eða á deildum, sem reknar eru í nánum tengslum við þau”. Átaldi hann þessar stofnanir fyrir að tregðast við.

Skúli Johnsen borgarlæknir sagði við sama tækifæri, að “réttarúrskurður um öryggisgæzlu einstaklings getur einn sér alls ekki skotið heilbrigðisyfirvöldum eða heilbrigðisstofnunum undan hlutverki sínu”.

Hann lagði ennfremur til, að borið verði undir Hæstarétt, hvort vald dómstóla nægi eða nægi ekki til að skylda geðsjúkrahús til að hlíta úrskurði um að taka við geðveikum afbrotamanni til öryggisgæzlu.

Yfirlæknar geðsjúkrahúsa neita harðlega að fá þessa menn til sín. Þeir sögðu, að öryggisgæzla geðveikra fanga eigi “ekki samleið með meðferð á almennum geðdeildum”, auk þess sem ekki sé einu sinni rými fyrir aðra sjúklinga.

Þeir sögðu í svörum sínum hér í blaðinu: “Ætti geðdeild að taka að sér öryggisgæzlu, þó ekki væri nema eins eða tveggja sjúklinga, fyrir dómsvöld, mundi meðferðarumhverfið eyðileggjast fyrir aðra sjúklinga.”

Ennfremur segja þeir, að það sé “starfsskylda yfirlækna geðdeilda að vernda hagsmuni þeirra þúsunda sjúklinga, sem engin afbrot hafa framið”, m.a. með því að vinna gegn því, að deildirnar og umhverfi þeirra fái á sig fangelsisbrag.

Yfirlæknarnir eru einnig andvígir því, að við geðsjúkrahús eða spítala eins og Vífilstaði verði reist deild fyrir öryggisgæzlu, svo sem landlæknir hefur lagt til. Mikið ber því á milli embættismanna þessa kerfis.

Í ár hefur í fyrsta sinn verið veitt fé á fjárlögum til undirbúnings sérstakrar stofnunar fyrir öryggisgæzlu geðsjúkra afbrotamanna. Þeirri framkvæmd þarf að hraða sem mest. Og vernda á meðan þjóðfélagið fyrir þessum mönnum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vísað skakkt til Jalta.

Greinar

Jalta er í tízku um þessar mundir, 37 árum eftir hinn fræga fund, er Stalín, Churchill og fárveikur Roosevelt skiptu með sér áhrifasvæðum í Evrópu, – auðvitað að forspurðum öllum þeim, sem málið varðaði í raun og veru.

Schmidt Þýzkalandskanzlari vísar til Jalta-samkomulagsins til að verja aumlega framgöngu sína í Póllandsmálinu. Hinir einbeittari, Mitterrand Frakklandsforseti og Jóhannes Páll páfi, segja þetta samkomulag hins vegar úrelt.

Í þessari umræðu felst sá misskilningur, að Sovétríkin hafi fengið fullt umboð til að ráðskast með Austur-Evrópu eins og þeim sýnist. Í Teheran árið 1944 og Jalta árið 1945 var aðeins talað um áhrifasvæði, ekki eignarsvæði.

Jalta-samkomulagið gerði meira að segja ráð fyrir frjálsum kosningum í Austur-Evrópu. Þar átti að vera lýðræðislegt stjórnarfar, þótt ríkisstjórnirnar skyldu í utanríkismálum taka tillit til sovézkra hagsmuna.

Ef staðið hefði verið við Jalta-samkomulagið, væri stjórnarfar í Austur-Evrópu ekki fjarri því, sem er í Finnlandi, frjáls samkeppni stjórnmálaflokka um völd, en þegjandi samkomulag þeirra um tillitssemi við Sovétríkin.

Herlögin í Póllandi eru ekki í samræmi við Jaltasamkomulagið, eins og margir virðast halda. Þau eru þvert á móti brot á samkomulaginu, alveg eins og innrásirnar í Ungverjaland árið 1956 og Tékkóslóvakíu árið 1968.

Ekki er heldur rétt, að Helsinki-samkomulagið frá 1975 hafi staðfest eignarhald Sovétríkjanna á Austur-Evrópu. Það staðfesti aðeins gildandi landamæri í Evrópu, þar á meðal skiptingu Þýzkalands í tvö ríki.

Í Helsinki-samkomulaginu er hins vegar kafli um mannréttindi, sem stjórnvöld í Sovétríkjunum, Póllandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu hafa þverbrotið. Herlögin í Póllandi eru nýjasta brotið á mannréttindakaflanum.

Hvergi er fótur fyrir, að hegðun Sovétríkjanna og skósveina þeirra í Austur-Evrópu sé í samræmi við samkomulag um skiptingu áhrifasvæða. Framferði þeirra brýtur bæði í bága við Jalta-samkomulagið og Helsinki-samkomulagið.

Að vísu hefur takmarkað gildi að ræða um undirskriftir Kremlverja. Þeir taka sjálfir ekkert mark á slíku, svo sem dæmin sanna. Í rauninni ættu herlögin að vera viðvörun þeim, sem ímynda sér, að hægt sé að gera við þá marktæka samninga.

Sovézkir ráðamenn undirrita samninga, þegar það hentar þeim í hléum baráttunnar fyrir heimsyfirráðum, til dæmis þegar þeir vilja örva til dáða fimmtu herdeildir sínar í Vestur-Evrópu, friðarhreyfingarnar svonefndu.

Þess á milli sýna Sovétríkin hramminn, bæði beint og óbeint. Þau beita fyrir sig Kúbu í yfirganginum í Angóla frá 1975 og Eþiópíu frá 1977. Í Póllandi hefur heimamaðurinn Jaruzelski verið settur á oddinn.

Í annan tíma ganga þau beint til verks, svo sem í Ungverjalandi 1956, Tékkóslóvakíu 1968 og nú síðast í Afganistan allt frá 1978. Þær innrásir sýna hið rétta andlit heimsvaldastefnunnar milli samninga um afvopnun, grið og frið.

Ekki er fyrirséð, hvort Vesturlönd geta einhvern tíma stöðvað útþenslu- og heimsvaldastefnu Sovétríkjanna. En á meðan er ástæðulaust að telja sér trú um, að hún sé í einhverju samræmi við gamla eða nýja samninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Loðvík 16. í Hvíta húsinu.

Greinar

Í dýrð Versala fyrir Bastilludaginn sagði María drottning, að fólk, sem heimtaði brauð, skyldi bara borða kökur. Og brosmildur kóngurinn, Loðvík sextándi, skildi ekkert í, að æstur múgurinn væri að trufla veizlufriðinn í Versölum.

Ef Versalabóndi nútímans er ekki beinlínis andvígur smælingjum, er hann að minnsta kosti laus við áhuga á högum þeirra. Á aðeins einu valdaári Reagans í Hvíta húsinu hefur stefna hans breikkað gjána milli vel og illa stæðra Bandaríkjamanna.

Fjárlagastjóri forsetans, David Stockman, rekur svonefnda lekastefnu, sem byggist á þeirri trú, að gjafir hins opinbera til ríka fólksins muni smám saman sáldrast niður til hinna fátæku, til dæmis í formi aukinnar atvinnu.

Í stóru og smáu hyglar stjórnin í Washington hinum auðugu, sker niður millifærslur til hinna félausu og leggur þær sumpart beinlínis niður. Stjórn Reagans er stjórn forréttindahópa í þágu forréttindahópa.

Aftur er orðið fínt að bera auðinn utan á sér, síðan nýja matarstellið kom í Hvíta húsið. 1,5 milljón króna gullúr voru auglýst í blöðunum fyrir jólin. Og þá var túnfiskur í kattamat í auknum mæli notaður sem fæða fólks, er átti aðeins 400 krónur fyrir dósinni.

Ríka fólkinu í Ford Lauderdale lízt illa á að sjá aðra næra sig upp úr öskutunnunum. Fram hefur komið tillaga um að úða eitri í tunnurnar. Greinarhöfundur í New York Times telur þetta hugarfar vera í samræmi við stjórnarfarið.

Enn verri hafa afleiðingar Reaganismans verið í Rómönsku Ameríku, þar sem stjórnvöld eru víða undir svipuðum handarjaðri Bandaríkjanna og stjórnvöld í Póllandi og öðrum löndum Austur-Evrópu eru undir handarjaðri Sovétríkjanna.

Ættir auðs og hermennsku í Rómönsku Ameríku hafa beinlínis tryllzt við valdatöku Reagans. Villimennskan í garð alþýðunnar hefur stóraukizt á einu ári, svo sem sanna dæmin frægu frá El Salvador og Guatemala.

Árið 1954 bylti bandaríska leyniþjónustan löglegum forseta Guatemala og kom þar á fót herforingjastjórn, sem Bandaríkin bera alla ábyrgð á. Þessi stjórn gekk í fyrra og gengur enn berserksgang við að útrýma hófsömum mönnum.

Millistéttirnar í landinu hafa ýmist verið drepnar eða hraktar úr landi, þannig að eftir eru auðmenn og öreigar. 2% þjóðarinnar njóta 25% teknanna meðan 50% hennar verða að sætta sig við 15%, samkvæmt upplýsingum bandaríska sendiráðsins.

Framferði herforingjastjórnarinnar í Póllandi er hreinn barnaleikur í samanburði við grimmdaræði hliðstæðra skjólstæðinga Bandaríkjanna í Rómönsku Ameríku. Þar fá starfsbræður Lech Walesa og Glemp erkibiskups ekki að halda lífi.

Kaldhæðnislegt er, að ofsóknirnar í Rómönsku Ameríku skuli í vaxandi mæli hafa beinzt gegn forvígismönnum verkalýðsfélaga og kaþólsku kirkjunnar. Og við skulum að minnsta kosti vona, að Jaruzelski fari ekki þangað í smiðju.

Ömurlegt er fyrir hinn vestræna heim að þurfa að sæta forustu hins brosmilda manns, sem kúgar fátæka heima fyrir og lætur sér líka ofsóknir gegn þeim í bakgarði Bandaríkjanna, Rómönsku Ameríku. En við getum þó talið dagana til kosninga.

Sá munur er alténd á brosmildum Loðvík 16. og Reagan, að mál hins fyrra leystist fyrst á höggstokknum, en Vesturlönd hafa komið sér upp frábærri aðferð til að skipta um óhæfa valdhafa. Brezhnev situr og situr, en Reagan fer eftir tæp þrjú ár.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lakari pakkar hafa sézt.

Greinar

Sumt er gott í efnahagspakka ríkisstjórnarinnar, en annað lakara, svona rétt eins og gengur með slíka pakka. Þeir minna á fallegu páskaeggin, sem reynast hafa misjafnlega gómsætt innihald, en eru þó áfram keypt.

Satt að segja hafa oft sézt lakari pakkar en þessi. Stundum hefur töluverður hluti reikningsins verið sendur skattgreiðendum. Nú á hins vegar að láta ríkið sjálft borga mest, með því að skera niður eigin rekstur þess.

Matið á pakka sem þessum fer auðvitað eftir þeim kröfum, er menn gera. Miðað við það, sem hægt væri að gera, er pakkinn lélegur eins og fyrri daginn. Hann er aðeins bráðabirgðalausn til tæplega hálfs árs.

Ef við hefðum samstæða ríkisstjórn, þar sem í senn væri starfað af dirfsku og einlægni, gæti þjóðin fengið betri og varanlegri pakka. En ekki er von á góðu, þegar samstarfsflokkarnir eru farnir að gjóta hornauga til kosninga.

Ef matið á pakkanum byggist hins vegar á samanburði við afrekaskrár fyrri ríkisstjórna og spá um afrek þeirra, sem síðar munu fylgja, má segja, að ríkisstjórnin hafi komizt nokkuð laglega fyrir horn, eins og stundum áður.

Nú verður vinnufriður í landinu fram í miðjan maí. Ekkert í pakkanum er til þess fallið að reita launamannafélögin til reiði. Þvert á móti gefur hann örlítið tóm og svigrúm til að þjarka dálítið um vísitöluna.

Efnislega er vit í hugmyndum um, að taka þurfi meira tillit til viðskiptakjara í útreikningi verðbóta. Sömuleiðis að taka þurfi orkukostnaðinn út, svo að fölsunarnáttúra stjórnvalda sé ekki hemill á innlendri orkuvinnslu.

Um langt skeið hafa rafveitur og hitaveitur, svo og orkuverin að baki þeirra, verið í fjársvelti til að halda vísitölunni niðri. Afleiðingin er í fyrstu umferð of mikil og dýr erlend lán og síðan hreinn orkuskortur.

Versti þáttur efnahagspakkans er aukning niðurgreiðslna landbúnaðarafurða um 375 milljónir króna. Þetta er elzta og algengasta aðferð stjórnvalda við fölsun vísitölunnar. Aðferðin er lífseig af því að hún er ódýrust.

Að vísu hafa niðurgreiðslur áður verið þyngri baggi. Þær komust upp í 11 % af vægi í framfærsluvísitölu árið 1978, eru nú 5% og verða 9% í kjölfar pakkans. En í rauninni eru allar þessar hlutfallstölur of háar.

Tollalækkanir pakkans eru skref í rétta átt, en ósköp stutt. Enn eru nauðsynlegar hreinlætisvörur í hátollaflokki. Og enn eru tölvurnar, sjálfur lykill framtíðarinnar, í hátollaflokki. Það er hrein landráðastefna.

Lækkun og jöfnun launaskatts er spor í rétta átt, því að atvinnuvegum á ekki að mismuna. Aukið svigrúm til verðlagningar með hliðsjón af hagkvæmum innkaupum er einnig spor í rétta átt, þótt framkvæmdin sé ekki enn ljós.

Til bölvunar verður hin svonefnda sveigjanlega bindiskylda í Seðlabankanum og þáttaka lánastofnana í opinberum fjárfestingaráætlunum. Slíkar aðgerðir taka fé af arðbærum markaði til notkunar í óarðbær gæluverkefni.

Bezti þáttur pakkans er hinn fyrirhugaði niðurskurður ríkisútgjalda um 120 milljónir króna. En ríkisstjórnin má um leið minnast þess, að vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum, sem menn heykjast á að framkvæma.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný óminnisleið.

Greinar

Fjórtán ára krakki hefur um nokkurt skeið legið meðvitundarlaus á gjörgæzludeild Borgarspítalans eftir hjartastanz af völdum svokallaðs sniffs, sem er í vaxandi notkun hjá sumum hópum unglinga á 12-16 ára aldri. Ýmis rokgjörn efni eru notuð til að komast í vímu, bensín, frostlögur, lím, þynnir og mörg fleiri, en algengast er kveikjaragasið orðið. Eftir kvikmyndasýningar þarf oft að hirða nokkurn fjölda tómra gasbrúsa. Læknar eru sammála um, að þetta séu hin hættulegustu vímuefni. Bæði landlæknir og borgarlæknir bentu á hér í blaðinu fyrir helgina, að bráðhætt er við bæði lifrarskemmdum og heilasköddun af hinum ýmsu sniffefnum. Þetta er ekki auðvelt viðfangs. Öldum og árþúsundum saman hafa menn leitað skjóls frá gráum hversdagsleika inn í draumaheim og óminni fíkniefna og áfengis. Krakkarnir í sniffinu eru að feta í fótspor langfeðganna. Unglingar á hinum óvissa breytingaaldri milli bernsku og fullorðinsára eru án efa veikari fyrir þörfinni á flótta heldur en flestir aðrir hópar þjóðfélagsins, einkum í hálffirrtu stórborgarumhverfi nútímans. Krakkarnir eiga erfitt með að komast yfir áfengi og hefðbundin fíkniefni, bæði vegna takmarkana og banns á sölu, svo og vegna eigin auraleysis. Sumir þeirra eiga þá eftir versta kostinn að eyðileggja sig á ódýru sniffi. Þetta er gamla sagan. Þeir, sem minnst mega sín, fá verstu útreiðina. Þeir, sem minnst hafa peningaráðin, verða að sæta ódýrustu og verstu lausninni. Á bannárunum var það skósverta. Nú er það lím og kveikjaragas. Fyrirsjáanlega verður mjög erfitt að hindra beina eða óbeina sölu þessara efna til íslenzkra unglinga. Flest gegna efnin nytsömu og nánast nauðsynlegu hlutverki á öðrum sviðum og verða því seint bönnuð algerlega. Samt hlýtur bann að vera aðferð, sem kemur til álita. Fíkniefni eru alténd bönnuð og áfengi hefur jafnvel verið bannað, þar á meðal einnig létt vín um tíma. En bann við rokgjörnum efnum í daglegri notkun er langtum erfiðara. Fræðsla er önnur aðferð, sem ekki hefur náð tilætluðum árangri á skyldum sviðum. Við sjáum það af tóbaksfræðslunni. Í sumum gagnfræðabekkjum reykir meirihlutinn, þrátt fyrir kvikmyndasýningar á eyðilögðum lungum. Kannski þarf að reyna að beita nýjum aðferðum, reyna til dæmis að virkja unglingana sjálfa, fá þá til að taka upp skipulega andstöðu. Sums staðar hefur tekizt að koma á því almenningsáliti, að ekki sé fínt að reykja. Þetta er hugsanlega líka hægt að gera til að verjast sniffinu, ekki eingöngu með því að fræða ofan frá, heldur með því að vinna gegn því innan frá, með eigin kröftum unglinganna, einkum þeirra, sem forustuna hafa. Erfiðasti þröskuldurinn er, að veröld margra krakka er grá og leiðinleg. Þeim leiðist heimili og skóli og hafa við lítið að vera. Þeir hafa ekki heldur þá staðfestu, er hinir eiga að hafa, sem komnir eru til fullorðinsára. Margir hinna fullorðnu eiga erfitt með að umgangast áfengi og sækja stíft í gleymskuna. Því er auðvelt að skilja, að sumir krakkar freistist til að nota efni, sem eru enn hættulegri, en mun ódýrari. Að þeim vanda verður þjóðin nú að snúa sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn linkind og hræsni.

Greinar

Herlögin í Póllandi hafa ekki leitt til neins stjórnmálaágreinings í Austur-Evrópu. Þvert á móti eru það Vesturlönd, sem hafa sundrazt. Hérna megin járntjalds er hver höndin uppi á móti annarri út af við- brögðum við herlögunum.

Gagnkvæmar ásakanir um linkind og hræsni ríða húsum. Engar tvær ríkisstjórnir þramma í takt. Hver fer sínar eigin leiðir, oftast með hliðsjón af heimavandamálum fremur en sameiginlegum hagsmunum hins vestræna heimshluta.

Hörðust er hin bandaríska gagnrýni á hendur Vestur-Þýzkalandi. Hún á sumpart við rök að styðjast. Ríkisstjórn Þjóðverja hefur veðjað of ákveðið, bæði stjórnmálalega og peningalega, á austurstefnu og ímyndaða slökun.

Þjóðverjar eiga 5% viðskiptahagsmuna sinna í Austur-Evrópu. Þeir eru í fararbroddi samtaka ýmissa ríkja Vestur-Evrópu um stóraukin kaup á gasi frá Sovétríkjunum. Þeir virðast ekki geta litið upp úr kaupsýslunni í austurvegi.

Vesturþýzk stjórnvöld hafa lagt sig í líma við að gera lítið úr herlögunum í Póllandi og þætti Kremlverja að baki þeirra. Þau hafa æmt minna en margir kommúnistaflokkar í Vestur-Evrópu, svo sem hinn fjölmenni Ítalíuflokkur.

Að þessu sinni hafa Frakkar verið harðari af sér. Þótt undarlegt megi virðast, er sósíalistinn Mitterand forseti mun eindregnari í afstöðu sinni til kommúnismans í Austur-Evrópu en hinir hægri sinnuðu forverar hans voru.

Frakkar hafa þó ekki alveg hreinan skjöld. Í Efnahagsbandalagi Evrópu börðust fulltrúar þeirra gegn stöðvun á sölu niðurgreiddrar mjólkur og kjöts til Sovétríkjanna í kjölfar herlaganna, en fengu því ekki framgengt.

Mest er hræsni Bandaríkjastjórnar, sem ber sér á brjóst á opinberum vettvangi, en tekur í raun viðskiptahagsmuni fram yfir hugsjónir. Dæmi þess er leyfi lnternational Harvester til að selja 300 milljón dala tæknibúnað til Sovétríkjanna.

Verra er þó, að stjórnin vill ekki beita þeim efnahagslegu refsiaðgerðum, sem mundu verða Kremlverjum óþægilegust. Það væri bann við hinni miklu kornsölu, sem Reagan forseti leyfði í sumar eftir þrýsting frá bændasamtökum.

Carter, fyrrum forseti, hafði stöðvað kornsöluna eftir hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í Afganistan. Bannið hafði og mundi enn hafa verulegt gildi, því að uppskerubrestur er kerfislægur þar eystra ár eftir ár.

Í ósamlyndinu væri Vesturlöndum nær að sameinast um einfaldari og beinni aðgerðir gegn þeim aðila, sem ber formlega ábyrgð á herlögunum, það er herstjórninni í Póllandi, til dæmis með því að framlengja ekki vanskilalán og veita ekki ný.

Auðvitað væri betra, ef Vestur-Evrópa og Bandaríkin gætu komið sér saman um að færa fórnir, Bandaríkin með því að neita sér um kornsölu og Evrópa með því að neita sér um gaskaup. En um slíkt er tæplega raunhæft að biðja.

Staðreyndin er, að Vesturlönd búa feitar og saddar þjóðir, sem óðum hrekjast út í að vilja friðinn, hvað sem hann kostar. Þær geta ekki neitað sér um neitt til að halda uppi merki mannúðar og mannréttinda.

Hver þjóð heldur dauðahaldi í smáaura, sem hún telur sig geta hagnazt um í viðskiptum við grjótharðar ríkisstjórnir Austur-Evrópu. Eins og Lenín spáði munu þær í græðgi sinni selja Kremlverjum naglana í sínar eigin líkkistur.

Íslendingar ekki síður en aðrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Næturævintýri Geysisbænda.

Greinar

Pylsusala hefur stóraukizt í Haukadal síðustu daga. Innlent ferðafólk þyrpist á staðinn til að sjá Geysi skvetta úr sér. Biðin getur oft orðið æði löng og þá við lítið annað að vera en að úða í sig varningi úr sjoppunni.

Orsökin fyrir þessu aukna lífi er, að þeir sem settir höfðu verið til að vernda Geysi, fóru sjálfir að næturþeli með loftpressu, dýpkuðu, breikkuðu og lengdu rauf, sem verið hefur í Geysisskálinni síðan 1935.

Vonandi nær aukin pylsusala því senn að jafna loftpressukostnað og næturtaxta, því að fleiri verkefni í sama anda þarf að kosta, ef rökrétt framhald á að verða af ferðamálaframtaki gæzlumanna Geysis gamla.

Enginn vafi er á, að fréttir af næturævintýri og afleiðingum þess munu berast til útlanda. Munu senn þyrpast hingað erlendir ferðamenn til að líta með eigin augum hinn forna hver, sem gefið hefur tegundarheiti öðrum goshverum heims.

Í rökréttu framhaldi verða Geysisbændur þá enn að taka sig upp að næturlagi og sprengja fyrir sápuleiðslu úr sjoppu og upp í Geysi. Jafnframt þyrfti að setja upp dælubúnað til að koma svo sem 50 sápukílóum í hvelli í hverinn.

Þá mætti hafa rofa í sjoppunni, svo að koma megi Geysi í gang, þegar langferðabíla ber að garði. Yrði þó að gefa þreyttu ferðafólki tíma til að fá sér nokkrar pylsur og komast í hæfilegt hugarástand fyrir gosið.

Síðan mætti koma fyrir sjálfvirkum tölvubúnaði, sem setti sápu og gos af stað við þúsundustu hverja pylsu, sem afgreidd er yfir diskinn. Væri þá á sérstökum teljara hægt að fylgjast með, hversu margar pylsur þyrfti enn.

Þetta mundi auðvitað treysta ferðamannaþjónustuna í landinu og stórefla bæði landbúnað og kjötiðnað, innlenda gosgerð og sælgætisiðnað, enda yrði eingöngu þjóðleg vara á boðstólum í sjoppunni í Haukadal.

Fjölmiðlarnir mundu birta frásagnir og myndir af óþolinmóðum ferðalöngum, sem væru að sporðrenna tíundu pylsunni til að keppast við að fá gosið sem fyrst. Sumir þeirra og þá Haukadalur líka gætu fyrir vikið komizt í heimsmetabókina.

Fyrir tekjurnar mætti svo reisa gríðarstórt veitingahús og hótel með víðum gluggum í átt til Geysis. Ekki dugir að laða hingað ferðamenn með djörfum næturævintýrum, nema sjá þeim fyrir fyrsta flokks aðstöðu og þjónustu.

En þá vaknar líka sú spurning, hvort ekki sé of dýrt og þunglamalegt að flytja allan mannskapinn austur í misjafnri tíð og færð. Sumir mundu vafalaust kjósa að sjá hliðstæða dýrð án þess að þurfa að fara úr höfuðborginni.

Fyrir framan Hótel Esju eru margar og ágætar borholur með heitri gufu. Enginn vandi væri að grafa þar niður gosbúnað, sem þeytti gufu hátt í loft upp eftir sérstakri dagskrá, sem kynnt væri í ferðamannabæklingum.

Og þá er vitanlega engin ástæða til að binda sig við þessa 30 eða 50 metra, sem Geysir gamli ræður við. Af hverju ekki koma upp einum rækilegum 100 metra Geysi fyrir framan Esju? Og síðan 200 metra flóðlýstum við Hótel Loftleiðir?

Þegar tæknin er á annað borð farin að halda innreið sína í goshverabransann, er engin ástæða til að neita sér um að hugsa málið til enda. Mest samræmi væri í að losa Haukadalsbændur úr seinteknum pylsugróða og gera þá að yfirmönnum íslenzkra ferðamála.

Jónas Kristjánsson

DV

Forganga í stað sporgöngu.

Greinar

Aðþrengdar iðngreinar eru í vaxandi mæli að reyna að koma því á framfæri, að tryggja beri innlendri framleiðslu forskot umfram erlenda keppinauta. Málmiðnaðurinn er nýjasta og alls ekki eina dæmið um þessa viðleitni.

Rökstyðja má, að skylda beri útboðsaðila til að taka innlendu tilboði, ef mismunur þess og erlends fer ekki fram úr einhverju ákveðnu marki.

Menn greinir hins vegar á um, hversu breiður þessi munur megi vera. Einnig má rökstyðja, að vernda beri innlenda framleiðslu fyrir erlendum undirboðum, einkum ef þau stefna að því að vinna markaðinn, ryðja keppinautum úr vegi og hækka síðan verðið í skjóli síðar fenginnar einokunar.

Um leið er þessi verndarhugsun afar hættuleg. Enda er þegar farið að brydda á því hugarfari, að betra sé að vernda vinnu í gamalli og ofsetinni atvinnugrein heldur en að starfsfólk í henni missi atvinnu sina.

Aðgerðir, sem hyggjast á þessari hugsun, leiða til dulbúins atvinnuleysis um leið og þær draga úr straumi fólks og fjármagns til þeirra atvinnugreina, sem hafa á hverjum tíma mestan vaxtarbrodd, mestan arð og mesta framlegð til þjóðarhags.

Við sjáum slíkar aðgerðir hvarvetna í nágrannalöndunum. Þar eru veittir aðlögunarstyrkir, vaxtaeftirgjafir, útflutningsstyrkir, þjálfunarstyrkir, flutningastyrkir, jöfnunarstyrkir og fjárfestingarstyrkir.

Slíkar aðgerðir sjáum við líka hér í hinum hefðbundna landbúnaði. Við verjum meira en tíunda hluta sameiginlegra ríkisútgjalda til að halda uppi úreltum atvinnuvegi og hindra krafta hans í að beinast að öðrum verkefnum.

Í Noregi er ekki aðeins landbúnaðinum haldið úti á þennan hátt, heldur einnig sjávarútvegi. Hið opinbera greiðir sem svarar öllum launum í sjávarútvegi. Þar eru það olíulindirnar, sem standa undir kostnaði við byggðastefnu.

Í Svíþjóð, Bretlandi og víðar halda skattgreiðendur uppi ýmsum greinum málmiðnaðar, einkum þar sem samkeppni er orðin of mikil, svo sem í skipaðsmíðum. Margar fleiri greinar ramba á brún náðarfaðms hins opinbera.

Þjóðir þessara landa hafa það sér til afsökunar, að atvinnuleysi er þar mikið og vaxandi, víða komið í eða upp fyrir 10%. Þar er því fremur ólíklegt, að starfsfólk hallærisgreina geti fengið vinnu við arðbær störf.

Um leið búa þessar þjóðir sér til vítahring. Með kjarkleysi og óhóflega félagslegri hugsun hafa þær veikt hag sinn og samkeppnisaðstöðu gagnvart öðrum, sem óhræddari hafa verið við hreyfiaflið í atvinnulífinu.

Bezt sett væri sú þjóð, er hefði ráð á að draga úr starfsemi sinni á öllum þeim sviðum, sem leggja til offramleiðslu á heimsmarkað. Er hefði sem kaupandi ráð á að nota sér undirboð og meðgjafir, sem fylgja offramleiðslu hinna.

Slík þjóð hefði ráð á að hasla sér jafnan völl í vaxtargreinum, í nýjungum, – yfirleitt í greinum, þar sem verðlag á heimsmarkaði stjórnast meira af seljendum en kaupendum. Slík þjóð væri í senn djörf og raunsæ.

Utan verkfalla er ekki atvinnuleysi á Íslandi. Sú sérstaða gefur okkur betri færi en öðrum á að loka eyrum fyrir beiðnum um styrki og verndun og opna augun fyrir nauðsyn þess að búa í haginn fyrir hið nýja og óþekkta.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þefnæmið að daprast?

Greinar

Svo virðist sem hið áður mikla þefnæmi ríkisstjórnarinnar sé farið að daprast. Fiskverð fæddist á afturfótunum um helgina. Ráðherrar eru farnir að deila opinberlega, fyrst Svavar og Tómas, nú Ragnar og Steingrímur.

Sennilega hefur enginn verið að ljúga að neinum, þegar sjómannasamningar og fiskverð fæddust andvana á fimmtudaginn, í fyrri atrennu. Menn hafa bara misskilið hver annan. En slíkt er ekki heldur neitt dæmi um stjórnvizku.

Að moldviðri gengnu niður má þó sjá, að niðurstaða sjómannasamninga og fiskverðs er harla góð, svo langt sem hún nær. Hver hefði til dæmis trúað því fyrirfram, að úr þessum hnút yrði fiskverð endanlega ákveðið með atkvæðum allra málsaðila?

Munur fimmtudags og laugardags felst í, að hækkun fiskverðs, sem átti að verða 13,5%, verður 17,9% og að lækkun olíugjalds framhjá hlutaskiptum, sem átti að verða 2%, verður 0,5%. Má telja þetta tiltölulega ódýrt leystan hnút.

Á dögunum tveimur bættu sjómenn stöðu sína um 2,5% og útgerðin sína um 5,5%. Sú skipting er harla sanngjörn, því að olía er og verður margfalt stærri kostnaðarliður en var, þegar hlutaskipti voru á sínum tíma ákveðin.

Hækkun fiskverðs er hagað þannig, að í raun fá togarar 15% hækkun og bátar 21%. Fyrir þessum mun eru ekki færð nein viðskiptaleg rök, heldur hin félagslegu, að bátasjómenn hafi það ekki eins gott og togarasjómenn, sem felldu svo samkomulagið.

Í framhjáhlaupi má geta þess, að munurinn gerir enn erfiðari en ella rekstur hinna mörgu nýju togara, sem sjávarútvegsráðherra hyggst af örlæti gefa landsbyggðinni. Er það skattgreiðendum lítið tilhlökkunarefni.

Á móti fiskverðshækkuninni hefur ríkisstjórnin lofað fiskvinnslunni gengislækkun, sem sennilega verður um 3%, til viðbótar þeim 12%, sem áður voru komin. Geta þá allir unað við sitt, við nokkru hærra verðbólgustig en ella.

Eftir stendur svo spurningin um, hvort ekki hafi verið gengið af of mikilli taugaveiklun að lausn þessa máls. Að mörgu leyti var ágætt að hafa flotann bundinn, því að það sparaði skrapdaga og netavertíð var ekki hafin.

Þeir dagar, sem töpuðust, munu ekki leiða til minna aflaverðmætis úr sjó á þessu ári. Og þeir munu gera sóknina ódýrari en ella hefði orðið. Hið sama má segja, ef stóru togararnir liggja í tvær eða þrjár vikur enn.

Þannig er nú komið fyrir ofskipulagi sjávarútvegs, að landlegur á borð við þessa eru í þágu þjóðarhags. Það stafar auðvitað aðallega af því, að sjávarútvegsráðherrar eru of örlátir við að fjármagna ný skip.

Helzti gallinn við stanzinn er, að fiskvinnslufólk fór af launum á atvinnuleysisbætur. Það kostar nokkuð af sameiginlegu fé landsmanna og sáir þeirri hugsun, að slíkar bætur geti verið lifibrauð.

Ríkisstjórnin er ekki búinn að bíta úr nálinni, þótt hún hafi komizt lítt sár úr þessum háska. Fiskverðið nýja er ekki alveg komið í höfn og gildir aðeins til loka febrúar. Munu þá þrýstihóparnir geggjast á nýjan leik.

Nærtækari vandi er þó efnahagsmálapakkinn, sem orðinn er að opinberri deilu milli ráðherra. Annaðhvort er siðameistarinn að missa tökin á strákunum sínum. Eða þá að menn eru farnir að tefla sig úr samstarfi inn í kosningar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hversu miklu betri kjör?

Greinar

Sjómenn eiga að hafa betri kjör en landverkamenn. Þeir hafa verri aðbúð við vinnu og búa við meiri hættur í starfi. Og einkum þurfa þeir að sæta meiri fjarvistum frá heimili en hinir, sem geta sofið heima á hverri nóttu.

Gera mætti tilraun til að meta, hversu miklu betri kjör sjómanna ættu að vera til að bæta upp allan þennan mun. Þess konar samanburður, en miklu flóknari, hefur verið gerður í starfsmati samninga opinberra starfsmanna.

Samkvæmt nýlegum Hagtíðindum voru meðalatvinnutekjur kvæntra sjómanna 42-43% hærri en meðalatvinnutekjur kvæntra verkamanna árin 1978-1979. Samkvæmt fréttum ríkisfjölmiðla um helgina getur þetta hlutfall þó verið lægra en hér segir.

Hér verður hvorki fullyrt, hvaða tölur séu réttar, né heldur hver munurinn ætti að vera til að fullnægja öllu réttlæti. Aðeins er bent á, að þetta sé markverðara umræðuefni í sjómannasamningum en sumt, sem nú er þar þrasað.

Af þessum samanburði leiðir annað merkilegt: Breytingar á kjaramismun sjómanna og landverkamanna stafa einkum af, að framleiðni er innifalin í kjarasamningum landmanna, en utan samninga sjómanna, utan aflahlutar þeirra.

Síðasta áratug breyttist framleiðni í sjómennsku verulega. Fiskveiðilögsagan var víkkuð í 200 mílur og samkomulag náðist um nálega fullkominn einkaaðgang Íslendinga að miðunum. þetta endurspeglaðist í meiri afla á hvern sjómann.

Upp á síðkastið hefur þessi framleiðniaukning stöðvazt vegna offjölgunar skipa. Eigi að síður hefur kjaraforskot sjómanna aukizt úr 11-14% árin 1969-1970 í áðurnefnd 42-43% árin 1978-1979, hvort tveggja samkvæmt Hagtíðindum.

Á þessum sama tíma hafa kjarasamningar sjómanna yfirleitt fylgt kjarasamningum í landi. En með því að fá sama og aðrir hafa sjómenn í rauninni fengið meira en aðrir, bara af því að þeir eru á hlutaskiptum á tíma aflaaukningar.

Þetta sýnir, að samanburður prósentuhækkana í landi og á sjó segir ekki alla söguna. Fyrir sjómenn væri miklu mikilvægari þáttur í kjarabaráttu að reyna að fá sjávarútvegsráðherra ofan af offjölgun nýrra fiskiskipa.

Þriðja atriðið, sem í rauninni ætti að vera forsenda hlutaskipta, eru breytingar á samsetningu útgerðarkostnaðar. Margföldun olíuverðs á undanförnum áratug er atriði, sem hefur kollvarpað fyrra grundvelli hlutaskipta.

Útgerðin hefur ekki haft bein í nefinu eða kraft við samningaborðið til að fá þetta viðurkennt í nýjum hlutaskiptum. Ríkisvaldið hefur komið til skjalanna og vikið hluta útgerðarkostnaðar undan hlutaskiptum með olíugjaldi og fleiru.

Hér verður ekki fullyrt, hvort þetta undanskot sé of mikið eða of lítið til að koma á jafnvægi milli rekstrarkostnaðar og aflahlutar. Aðeins, að aflahlutur sjómanna á að endurspegla tilkostnað víð fiskveiðar á hverjum tíma.

Ágreiningsefni útgerðar og sjómanna ætti í rauninni að vera það helzt, hvernig túlka beri útgerðarkostnað og hvernig báðir aðilar geti við eðlilegar aðstæður fengið sómasamlegan hlut frá borði, – komizt í félagi yfir núllpunktinn.

Síðan eiga þeir að snúa bökum saman og beina því til stjórnvalda, að hin ytri skilyrði búi sjómönnum einhvern umsaminn kjaramun umfram landverkamenn, annars vegar með réttari skráningu gengis og hins vegar með markvissari takmörkun flotans.

Jónas Kristjánsson

DV