Greinar

Kirkjan dreifi, ekki herinn.

Greinar

Þeir, sem standa fyrir söfnun handa Pólverjum, verða að leggja harðar að sér við að tryggja, að réttir aðilar annist dreifingu varningsins í Póllandi, það er að segja kaþólska kirkjan, en ekki herforingjastjórnin.

Þótt ástandið í Póllandi sé mjög slæmt, hafa stuðningsmenn Samstöðu, hinna frjálsu verkalýðssamtaka, reynt að koma því á framfæri í vesturveg, að hjálp verði ekki veitt á þann hátt, að hún auðveldi framgang herlaga í landinu.

Menn Samstöðu hafa líka sagt, að Pólverjar séu reiðubúnir að færa efnahagslegar fórnir sem eina af óhjákvæmilegum afleiðingum efnahagslegra aðgerða Vesturlanda gegn pólsku herforingjastjórninni og Kremlverjum að baki hennar.

Söfnunarmenn hafa tilhneigingu til að fullyrða, að þeir hafi full tök á dreifingu. Þeir gerðu það í söfnuninni til Nicaragua eftir jarðskjálftana miklu, þótt síðar kæmi í ljós, að Somoza harðstjóri hafði stungið nær öllu í eigin vasa.

Í söfnunum til þriðja heimsins þykir í rauninni nokkuð gott, ef meira en helmingur gjafanna kemst til réttra aðila. Í mörgum tilvikum lendir meirihlutinn í höndum landsherra, sem safna bankareikningum í Sviss.

Pólland er ekki í þriðja heiminum. En herforingjastjórnin þar er jafnforhert og aðrar slíkar í heiminum. Hún er líkleg til að nota vestrænar gjafir í sína eigin þágu, svo sem til að halda uppi hernum í landinu.

Þetta vita Pólverjar sjálfir. Þegar herlög voru sett, sáu þeir, að verzlanir fylltust skyndilega af varningi, sem ekki hafði sézt vikum og mánuðum saman. Þessar vörur hafði stjórnin beinlínis falið fyrir almenningi.

Þetta staðfesti þá trú Pólverja, að kommúnistaflokkurinn hefði verið að reyna að svelta þjóðina til hlýðni og síðan losað um hluta birgðanna til að mýkja hug þjóðarinnar í garð herforingjastjórnar og herlaga.

Neyðin í Póllandi er kommúnistaflokknum og Kremlverjum að kenna. Hún byggist á óstjórn um áratugi. Eftir setningu herlaga er eðlilegt, að Sovétríkin beri kostnaðinn, því að þau settu pólsku stjórninni úrslitakostina.

Skynsamlegt er að svara eins og Genscher, utanríkisráðherra Vestur-Þýzkalands, hefur gert. Hann hefur boðið mikla aðstoð við Pólverja, þegar herlögum hefur verið aflétt, pólitískir fangar verið leystir og Samstaða endurreist.

Einnig er skynsamlegt, að Vesturlönd neiti öllum óskum herforingjastjórnarinnar í Póllandi um ný vestræn lán og þægilegri greiðslukjör eldri lána, nema uppfyllt séu sömu skilyrði og fylgja boði Genschers um aðstoð.

Hins vegar eru ákvarðanir um annars konar efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Sovétríkjunum ekki trúverðugar, sízt af hálfu Reagans Bandaríkjaforseta, sem sjálfur tók á ný upp gífurlegar kornsölur til Sovétríkjanna hálfu öðru ári eftir innrás þeirra í Afganistan.

Íslendinga skiptir nú máli að vita, að vestrænum hjálparstofnunum hefur í nokkrum tilvikum tekizt að fá Póllandsaðstoð sinni dreift á vegum kaþólsku kirkjunnar. Engin ástæða er fyrir norræn hjálparsamtök að sætta sig við minna.

Eftir lömun Samstöðu er kaþólska kirkjan í Póllandi eina frelsisljósið í landinu. Aukið athafnafrelsi hennar í dreifingu hjálpargagna frá Vesturlöndum er um leið til þess fallið að varðveita frelsisljósið.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólgu á að viðurkenna.

Greinar

Nokkur er kaldhæðni hagfræðinnar, þegar okkur er sagt, að 1% hækkun fiskverðs leiði til 1% verðhækkunar erlends gjaldeyris, sem aftur á móti hafi í för með sér 1% hækkun launa í landinu, er endurspeglist í nýrri 1% hækkun fiskverðs og …

Verst er, að enginn veit, hvar þessi vítahringur byrjaði, ekki frekar en hægt er að upplýsa, hvort hafi verið til á undan, hænan eða eggið. Við heyrum bara hverju sinni, að hækkun sé nauðsynleg vegna þess, sem á undan hafi gerzt.

Stjórnvöld reyna yfirleitt að grípa hentug tækifæri til afskipta af vítahringnum. Þegar bezt lætur, tekst þeim að skera ofurlítið af bólgunni á öllum sviðum, svo að enginn geti sagt, að meira sé af sér tekið en öllum hinum.

Þetta var gert með nokkurri lagni fyrir ári, þegar efnahagskrukki var hagað á þann hátt, að launþegar misstu nokkuð, atvinnuvegir dálítið og hið opinbera svolítið líka. Með þessu komst bólgan niður í “aðeins” 40% árið 1981.

Nú er hraðinn aftur að aukast. Talað er um, að á nýja árinu verði bólgan 55% og jafnvel enn meiri, nema eitthvað nýtt finnist til að draga úr bratta spíralsins. Áhrifamáttur gömlu lyfjanna fer minnkandi frá ári til árs.

Landsfeður og hagfræðingar þeirra brjóta heilann um ný tilþrif í millifærslum og niðurfærslum eða þá bara hreinum vísitölufölsunum, ef ekki eru betri ráð tiltæk. Slík kraftaverk eru aðall íslenzkrar efnahagsstjórnar.

Lækningar þessar eiga flestar það sameiginlegt að vera hættulegri en sjálf bólgan, sem verið er að glíma við. Algengast er, að þær skekki einhverjar grundvallarforsendur í efnahagslífinu og ýti því út á rangar brautir.

Eitt alvarlegasta dæmið um krukk af þessu tagi eru þrálátar hugmyndir stjórnvalda um að hagræða taprekstri í fiskvinnslu með því að færa milli deilda verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og rjúfa þannig hagkvæmnissamhengið.

Annað dæmi felst í jafnþrálátum hugmyndum þeirra um að létta greiðslubyrði atvinnulífsins með því að stöðva frekari þróun í átt til verðtryggingar fjárskuldbindinga og stíga jafnvel nokkur skref til baka.

Við höfum séð dæmi þess, að slík óskhyggja hafi náð fram að ganga. Greinar fiskiðnaðarins greiddu í fyrra misjöfn útflutningsgjöld. Og nú síðast hefur Seðlabankinn tekið upp aukna meðgjöf í afurðalánum útflutningsatvinnuvega.

Aldrei hefur heyrzt orð til efnislegrar varnar gegn þeirri gagnrýni, að kraftaverk af þessu tagi brjóti í bága við grundvallarreglur heilbrigðs ramma um atvinnulífið. Dýpri skilningur er bara ekki til umræðu í stjórnkerfinu.

Í stórum dráttum hefur þó ýmislegt lærzt í hörðum skóla verðbólgunnar. Vinnufriður hefur árum saman haldizt að mestu á þann hátt, að kaupmáttur launa hefur verið verndaður með því að vísitölubinda launin.

Upp á síðkastið hefur líka verið reynt að efla innlendan sparnað og þar með þjóðarauð með því að vísitölutryggja fjárskuldbindingar. Á fáum árum höfum við komizt rúmlega hálfa leið, – með því að viðurkenna þannig tilvist verðbólgu.

Þetta kemur þó ekki útflutningsatvinnuvegunum að gagni, því að gengi erlendra gjaldmiðla er ekki vísitölutryggt. Þar hefur hnífurinn oft staðið í kúnni og gerir einmitt á þessum síðustu dögum. Kannski vantar okkur einmitt gengisvísitölu, – nýja á mánaðarfresti.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lesið milli áramótalína.

Greinar

Áramótahugleiðingar eru gott dæmi um, að orð má nota til að dylja skoðanir. Í breiðsíðum stjórnmálaleiðtoganna um þessi áramót var ekki vikið einu orði að krossgötum stjórnarsamstarfsins milli jóla og nýárs.

Alþýðubandalagsmenn höfðu þá frumkvæði að hugmyndum um þingrof í janúar og kosningar í marz. Þeir þóttust vita, að ríkisstjórnin væri enn í svo góðu áliti, að hún mundi fá nýtt fjögurra ára umboð í kosningum.

Samt kom í ljós, að hugmyndin átti ekki nægu fylgi að fagna. Meðal stjórnarsinna í Sjálfstæðisflokknum er vaxandi óbeit á tilhugsuninni um sérstakt framboð. Og án slíks væri tilgangslaust að efna til kosninga.

Albert Guðmundsson hefur sagt, að af hans hálfu komi ekki til greina að bjóða sérstaklega fram til borgarstjórnar. Og Friðjón Þórðarson hefur skýrt tekið fram, að sérframboð hans til alþingis komi ekki til greina.

Svo gæti vel farið, að marzkosningar mundu einmitt sameina Sjálfstæðisflokkinn og þar með fella ríkisstjórnina, en ekki veita henni það nýja fjögurra ára umboð, sem stuðningsmenn þingrofs sækjast eftir.

Hugmyndir þessar um þingrof og kosningar hafa tafið samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir um áramótin. Alþýðubandalagið ljáði ekki máls á neinu, meðan hugmyndirnar væru viðraðar milli stjórnaraðila.

Marklaust er að spá einkunnarorðunum, sem ríkisstjórnin hefði gengið undir til kosninga. Þau hefðu vafalaust orðið töluvert hressilegri en þau, sem við sáum í áramótahugleiðingum leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna.

En nú virðist ljóst, að ekki verði gengið til kosninga. Og þeir Svavar Gestsson og Steingrímur Hermannsson hafa tjáð okkur, að fiskverð muni hækka og gengi krónunnar lækka, hugsanlega samhliða ýmsu krukki á öðrum sviðum.

Enn einu sinni er ástæða til að vara við sumum hugmyndum ráðherra. Til dæmis væri hreint glapræði að víkja af vegi fullrar verðtryggingar fjárskuldbindinga, núna þegar við erum þó komin meira en hálfa leið til árangurs.

Í sjálfu sér er ástandið ekki afleitt og allra sízt, ef miðað er við fyrri áramót og fyrri ríkisstjórnir. Þjóðin hefur það í stórum dráttum mjög gott, svo sem brjáluð jólakauptíðin leiddi greinilegast í ljós.

Hverju sem það er að þakka, þá hefur þjóðarhagur og kaupmáttur launa gert örlítið betur en að standa í stað og einnig örlítið betur en hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum. Slíkt má teljast gott í kreppunni.

Mismunur okkar og nágrannanna er, að við höfum fulla atvinnu og fjórfalda verðbólgu. Hið fyrra er sumpart fengið með því að flytja út atvinnuleysi til þeirra. Og hið síðara er áratuga gömul staðreynd, nánast hornsteinn.

Leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu eru í stórum dráttum sammála um, að tvær hættur séu alvarlegar. Önnur er þensla ríkisbáknsins umfram burðarmátt atvinnulífsins. Hin er vöxtur erlendra skulda umfram innlendar orkuframkvæmdir.

Ef hægt er að stöðva þetta tvennt, svo og halda fullri atvinnu og koma á fullri verðtryggingu, er ekki svo nauið, hvort verðbólgan er þreföld eða fimmföld. Hún er og verður raunar eins hefðbundin og áramótagreinar leiðtoga, er dylja það, sem þeir meina, og skilja okkur eftir engu nær um neitt, sem máli skiptir.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við lítum í eigin barm.

Greinar

Við áramót horfum við til beggja átta. Við lítum yfir farinn veg og horfum fram á veg. Við þökkum samferðafólki félagsskapinn og lofum sjálf bót og betrun á nýju ári. Við brennum út gamla árið og tökum vongóð við hinu nýja.

Sjóndeildarhringurinn er misjafnlega stór. Örlagaríkir atburðir í útlöndum, í okkar eigin þjóðlífi, í starfi eða einkalífi gera misjafnlega vart við sig í hugum okkar. Flestir hugsa mest um það, sem stendur þeim næst.

Hörmuleg valdataka hersins í Póllandi í lok ársins er flestum í fersku minni, þótt hún hafi gerzt handan við hafið og handan við járntjaldið. Við vonum, að með nýju ári verði lát á því ofbeldi, sem hefur gert Jaruzelski að þjóðníðingi.

Hér heima fyrir eru efnahagsmálin í brennidepli áramótanna samkvæmt venju. Spennan er þó minni en oft áður, af því að stjórnvöld telja að þessu sinni kleift að fresta ýmsum aðgerðum fram yfir áramótin.

Einn eftirminnilegasti atburður ársins var sameining Dagblaðsins og Vísis í þetta stóra blað, sem lesendur hafa fengið í hendur í rúman mánuð. Og í áramótaleiðara þessa sama blaðs er auðvitað freistandi að fjalla um það sjálft.

Sameinaða blaðið er enn gefið út í 38.000 eintökum, en fer sennilega niður í 34.000-35.000 eintök, þegar búið er að samræma dreifinguna. Þessari gífurlegu útbreiðslu má einnig lýsa á þann hátt, að blaðið nái til tveggja þriðju hluta þjóðarinnar.

Enn merkilegri er kannski sú staðreynd, að áskrifendur blaðsins eru 23.000 eða tveir á móti hverjum einum, sem fær það í lausasölu. Þessi háa tala stafar af, að mjög lítið var áður um, að fólk væri áskrifendur að báðum blöðunum.

Semjendur hins sameinaða dagblaðs þurfa að taka tillit til sjónarmiða tveggja lesendahópa, sem eru töluvert ólíkir. Og það reynum við að gera með því að halda öllum mikilvægum sérkennum hvors blaðs í einu stóru blaði.

Þær vikur, sem liðnar eru, sýna þennan ásetning ekki að fullu. Auglýsingaflóð jólavertíðarinnar setti efnisskipan úr skorðum. Margir efnisþættir voru skornir niður og sumir urðu ekki nema svipur hjá fyrirhugaðri sjón.

Hið jákvæða við flóðið er, að það veitir hinu sameinaða og stækkaða dagblaði fjárhagslegan mátt til að auka efnisvalið og bæta þjónustu við lesendur á nýju ári. Þess munið þið væntanlega sjá merki hér í blaðinu á næstu vikum og mánuðum.

Dagarnir milli jóla og nýárs eru engan veginn hversdagslegir, þótt auglýsingaflóðið hafi sjatnað nokkuð. Þetta síðasta tölublað er til dæmis fullt af annálum auk annars áramótaefnis, sem birtist bara einu sinni á ári.

Við væntum þess, að strax eftir áramót færist hið sameinaða dagblað í þann farveg, sem lesendur muni kannast við. Og við væntum þess, að ykkur finnist ákjósanlegt að hafa með okkur samflot við beggja skauta byr á nýju ári.

Þetta dagblað á að vera fyrir alla, unga og gamla, vinstri og hægri, konur og karla, háa og lága. Það á að vera frjáls og óháður þjóðarfjölmiðill. nytsamur ykkur öllum, lesendum og samferðafólki Dagblaðsins & Vísis.

Við biðjum ykkur að veita okkur aðhald til að efna þessi nýársloforð og segjum: Farsælt nýtt ár.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ljós í skammdegi.

Greinar

Vikum saman höfum við búið við fjúk og frost. Öndverður veturinn hefur verið sá næstkaldasti á öldinni. Í gær varð svo skammdegið svartast, á vetrarsólstöðum. Nú er hins vegar farið að birta aftur og hátíð ljóssins er á morgun.

Við höfum varla haft tíma til að hugsa um myrkrið og kuldann. Ofan á dagleg störf bætast annir og útréttingar jólaundirbúnings. Í dag er athafnasamasti dagur ársins hjá verzlunarfólki og fjölda annarra landsmanna.

Á morgun væntum við svo þess, að á komist friður og ró hjá sem flestum, einnig þeim sem ekki hafa tækifæri til að dveljast með sínum nánustu. Fyrst og fremst eru jólin þó samverustund fjölskyldna og hátíð barnanna.

Flestir Íslendingar hafa ástæðu til að hugleiða lán sitt á þessum jólum. Erlendir talnaleikir benda til, að lífsgæði í heiminum séu næstmest hér á landi, þegar saman eru tekin hin heilsufarslegu, félagslegu og efnislegu gæði.

Á tímum stöðnunar og atvinnuleysis úti í heimi er enginn bilbugur á landanum. Utanferðir hafa verið með mesta móti á þessu ári. Innflutningur á vörum hefur aukizt verulega síðari hluta ársins. Við kaupum bíla og bensín sem ekkert sé.

Hamingjan fylgir að vísu ekki með í kaupbæti, hversu mikil auraráð sem menn hafa. Að baki kaupgleðinnar ríkir þó hið eftirsóknarverða ástand, að allur þorri þjóðarinnar tekur þátt í velmeguninni, ekki bara fáir útvaldir.

Margir lyklar eru að þessari þáttöku. Aðstaða er einn þeirra, ábyrgð annar og menntun hinn þriðji. Enn aðrar fjölskyldur eignast lykil með mikilli yfirvinnu, uppmælingu eða með því að fleiri en einn vinnur utan heimilis fyrir tekjum.

Allir þeir, sem hafa einhvern þessara lykla, mynda eina stétt vel stæðra Íslendinga. Það er grundvöllur þess, að talað er um stéttlaust þjóðfélag á Íslandi. En því miður eru ekki allir í þessum lánsama hópi.

Hér á landi býr undirþjóð opinberra styrkþega og láglaunafólks. Annars vegar eru þar fjölmennastir sumir öryrkjar, sjúklingar og aldraðir. Hins vegar sumar fjölskyldur einstæðra foreldra og auðnuleysingja af ýmsu tagi.

Ellistyrkir og eyðilagðir lífeyrissjóðir koma í veg fyrir, að aldrað fólk komist beinlínis á vonarvöl. En þeir duga ekki til að lyfta öllu fólki, að loknum vinnudegi, upp í hið stéttlausa þjóðfélag íslenzkrar velsældar.

Hið sama gildir um fjölskyldur einstæðra foreldra, sem verða að lifa á einföldum láglaunum einnar fyrirvinnu og hafa vegna heimilisanna ekki tækifæri til að sinna yfirvinnu eða eiga hennar kannski alls ekki kost.

Hlutfallslega eru það fá börn og fá gamalmenni, sem verða útundan í efnahagsundrinu. En þetta fámenni ætti einmitt að verða okkur hvatning til úrbóta. Það er svo lítið, sem vantar til að gera þjóðina alla að einni stétt.

Hin stéttlausa þjóð, sem heldur jól í vellystingum praktuglega, ætti á hátíð ljóssins að gefa sér tíma til að hugleiða, að það er ekki meira afrek en önnur, sem hér hafa þegar verið unnin, að lyfta undirstéttinni úr skammdegi í tilverunni.

Með þessari hvatningu sendir Dagblaðið & Vísir öllum landsmönnum hinar beztu óskir um gleðileg jól.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rúm fyrir nýtt blað.

Greinar

Reynslan sýnir, að unnt er að stofna dagblöð hér á landi og sameina þau, hvort tveggja með ágætum árangri. Þessi staðreynd hefur síazt inn í hugi manna og leitt til athyglisverðra hugmynda um frekara framtak á því sviði.

Einkum eru það vinstri menn, sem harma veika og klofna blaðaútgáfu sína. Á hægra kanti sjá þeir fyrir sér trausts og vel rekið Morgunblaðið á gömlum merg. Hví skyldu vinstri menn ekki reyna að sameinast um eitthvert mótvægi?

Við núverandi aðstæður má reikna með, að hér á landi sé rúm fyrir þrjú vel rekin dagblöð, sem standi undir sér. Fyrir eru tvö, hægri sinnað Morgunblaðið og óháð og frjálst Dagblaðið & Vísir. En þriðja dagblaðið vantar.

Í stað þess er kraðak þriggja lítilla blaða, Alþýðublaðsins, Tímans og Þjóðviljans. Öll eru þau vanmáttug málgögn svonefndra vinstri flokka. Fjárhagslega hafa þau yfirleitt verið sligandi byrði á herðum trúrra flokksmanna.

Rökréttust er hugmynd Árna Stefánssonar, sem birtist í Þjóðviljanum, um sameiningu blaðanna þriggja í eitt öflugt og almennt vinstra dagblað, er byði bæði upp á almennt fréttaefni og sérstakar síður fyrir flokkana.

Sameinaður lesendahópur litlu blaðanna þriggja er sennilega grundvöllur fyrir um eða rúmlega 20 þúsund eintaka alvörublað. Og hingað til hefur slíkt upplag verið talið nægja til bærilegrar afkomu og frekari útbreiðslu.

Með sæmilegum lesendafjölda fylgja líka stórauknar auglýsingar. Þær kalla aftur á móti á fleiri lesendur og búa til fjármagn, sem leiðir til aukins og bætts efnis, er skapar svo grundvöll fyrir enn stærri lesendahóp.

Þetta er eins og spírall, sem flytur menn upp á við. Hann kemur í stað núverandi vítahrings litlu blaðanna, þar sem allt rennur í einn farveg, fjármagnsskortur, lélegt efni, dvínandi lesendahópur og lítill áhugi auglýsenda.

En rökréttasta hugmyndin er ekki endilega sú, sem er næst raunveruleikanum. Vinstra samstarf í viðskiptum hefur gengið hörmulega í Blaðaprenti, þrátt fyrir myndarlega byrjun. Þar hafa rýtingarnir óspart verið fægðir.

Sennilega vantar víðsýni í hóp þeirra manna, sem helzt gætu sameinað vinstri blöðin í eitt almennilegt blað. Þröngsýnir menn geta ekki gripið hið mikla, af því að þeir hafa krampakennt tak á hinu litla og lélega.

Hið raunverulega frumkvæði er nú í höndum Alþýðuflokksmanna, sem undirbúa útkomu Síðdegisblaðsins upp úr áramótum. Ráðgert er, að Alþýðublaðið renni inn í hið nýja blað sem hið flokkspólitíska akkeri þess.

Aðstandendurnir voru nógu hugdjarfir að bjóða Tímanum og Þjóðviljanum aðild. Þar með gafst rakið tækifæri fyrir vinstri menn að þora að sameinast um eitt öflugt blað í stað þriggja aumra. En gæsin hefur ekki verið gripin.

Alþýðublaðið eitt er auðvitað ákaflega ótraustur grunnur nýs dagblaðs, því að lesendahópurinn er næstum ekki neinn. Og Alþýðuflokkurinn má mikið puða til að ná öllum þorra vinstri sinnaðra lesenda undir hatt Síðdegisblaðsins.

Þeim mun meiri ástæða er til að óska aðstandendum hins nýja blaðs velfarnaðar í undirbúningsstarfi þeirra. Markmiðið er fjarlægara en það þyrfti að vera. En það er til. Fyrir þriðja blaðið er rúm á íslenzkum markaði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Kveðja til Pólverja.

Greinar

Íslendingar senda Pólverjum innilegustu samúðarkveðjur í síðustu þrengingum þeirra. Við sendum þeim óskir um, að leiðtogar þeirra verði látnir lausir, – að linni ofbeldi kommúnistaflokksins að baki hersins, – að friður ríki að nýju.

Kommúnistaflokkurinn pólski gafst upp á landsstjórninni í gær og fékk herinn til að taka völdin í landinu. Flestir helztu leiðtogar verkalýðsins voru handteknir. Birtir voru tugir tilskipana í skjóli herlaga.

Herinn í Póllandi er ekki eins mikið fyrirlitinn og flokkurinn. Það á sínar sögulegu forsendur, auk þess sem herinn hefur að mestu leyti verið laus við hina gegndarlausu spillingu, sem einkennt hefur flokkinn um margra ára skeið.

Sú var skýringin, er hershöfðinginn Jaruzelski var fenginn til að taka við stjórnartaumunum í landinu. Og sú er enn skýringin nú, þegar hann stjórnar með tilskipunum í nafni hersins, en flokkurinn felur sig að tjaldabaki.

Í morgun var of snemmt að átta sig á viðbrögðum Pólverja. Nokkrir verkalýðsleiðtogar í Gdansk höfðu komizt hjá handtöku. Þeir höfðu hvatt þjóðina til að leggja niður vinnu, unz hinir handteknu hefðu verið látnir lausir og herlögum aflétt.

Stjórnvöld hleyptu í útvarp áskorun Glemp erkibiskups til fólks um að sýna stillingu og grípa ekki til ofbeldis, þótt traðkað hefði verið á mannréttindum, saklausir menn verið handteknir og mannfyrirlitning verið sýnd.

Kaþólska kirkjan hefur mikil áhrif í landinu og yfirmaður hennar, Glemp erkibiskup, hefur reynt að miðla málum milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingar. Sú viðleitni virðist hafa beðið skipbrot í herlögum gærdagsins.

“Ég mun biðja ykkur, þótt ég verði að biðja á hnjánum: Hefjið ekki styrjöld milli Pólverja. Fórnið ekki lífi ykkar, bræður og verkamenn, því að verð hvers mannslífs verður lágt,” sagði Glemp erkibiskup í gær.

Í upphafi aðgerðanna reyndi 20 manna herlagastjórn Jaruzelskis að fá Lech Walesa verkalýðsforingja til að hvetja verkamenn til að láta af verkfallshugmyndum, en hann fékkst ekki til þess. Enginn bilbugur er á öðrum leiðtogum.

Líklegt virðist, að meirihluti þjóðarinnar muni fylgja áskorunum um verkfall og jafnframt fylgja áskorunum um að sýna hvergi valdbeitingu. Það mun því reynast kommúnistaflokknum erfitt að láta Jaruzelski berja þjóðina til hlýðni.

Deila hinna frjálsu verkalýðssamtaka við kommúnistaflokkinn og ríkisstjórnina hefur nú staðið í tæplega hálft annað ár. Oft hefur verið ófriðlegt á þessu tímabili, en það er fyrst nú, að ráðamenn flokksins hafa misst stjórn á sér.

Herlögin og fangelsanirnar eru sögð miða að því að hindra borgarastyrjöld og sovézka hernaðaríhlutun. Hið síðara kann rétt að vera, því að skuggi Kremlverja hefur hvílt eins og mara á Póllandi frá valdatöku kommúnista.

Í dag sendum við kveðjur stoltri þjóð, sem bíður þögul í skauti þess, sem verða vill. Hún mun líklega ekki sýna hernum mótþróa, en hún mun líklega ekki heldur vinna fyrir hann eða flokkinn að baki hans, – ekki hlýða, en ekki heldur beita valdi.

Héðan úr fjarlægu öryggi Íslands berast hinum hrjáðu Pólverjum kannski gagnslausar, en alténd heitar og innilegar kveðjur með óskum um, að mál þeirra muni snúast til betri vegar, þrátt fyrir ofbeldi hers og flokks.

Jónas Kristjánsson

DV

Daufgerð stjórnarandstaða.

Greinar

Sjaldan hefur farið eins lítið fyrir stjórnarandstöðu og þeirri, sem verið hefur utan valda síðustu tvö árin tæp. Tilraunir hennar til að láta að sér kveða hafa að verulegu leyti farið út um þúfur. Hún er nánast gleymd og grafin.

Helzt er hægt að finna hana á síðum Morgunblaðsins. Nánast daglega í þessi tæpu tvö ár hefur baksíða þess verið lögð undir heimsendafyrirsagnir af íslenzkum efnahagsmálum. Ef við tryðum þeim, værum við öll flúin af landi brott.

Nú vill svo til, að betra er að lifa hér en í flestum nálægum löndum. Kaupið er að vísu lægra, en á móti kemur, að atvinna er nóg. Í öðrum löndum er svo komið, að atvinna er sjaldfenginn lúxus þeim, sem koma úr skólum.

Þetta er svo sem ekki ríkisstjórninni að þakka fremur en öðrum slíkum, sem hafa verið við völd á undanförnum áratugum. En þessari má þó sennilega þakka, að sparifjáreigendur geta nú ávaxtað fé sitt í fyrsta sinn í áratugi.

Einna sárast svíður stjórnarandstöðunni að geta ekki sigað launþegasamtökunum á ríkisstjórnina. Þetta ástand hefur verið tilefni síendurtekinna frýjunarorða, meðal annars í formi baksíðufrétta í Morgunblaðinu.

Alþýðusambandið hefur af langri reynslu áttað sig á, að prósentuhækkun launa segir tiltölulega lítið um kaupmáttinn. Önnur atriði ráða þar meiru, annars vegar efnahagsástandið og hins vegar aðgerðir stjórnvalda.

Í sjálfu sér skiptir litlu, hvort laun hækka um 3%, 30% eða 300%. Verðbólgan kemur þessu öllu út í eitt. Meira máli skiptir, að atvinna sé næg og að gerðir stjórnvalda skerði ekki hlut launamanna af svokallaðri þjóðarköku.

Ef launþegasamtökin treysta þessari ríkisstjórn örlítið betur en sumum fyrri, er það náttúrlega böl fyrir stjórnarandstöðuna, sem bölsótast meira á síðum Morgunblaðsins en í sölum hins háa alþingis. Og þetta böl er þungt nú um stundir.

Úr öllu þessu kann að rætast, ef ríkisstjórninni tekst ekki að halda verðbólgunni niðri við 40%, hafandi tekið við henni í 60%. Fari bólgan nú upp að nýju, getur stjórnarandstaðan tekið gleði sína eftir tæpra tveggja ára táradal.

Lukkan hefur leikið við sjónhverfingameistara hæstvirtrar ríkisstjórnar. Sumir telja, að sjónhverfingarnar geti gengið endalaust, að böllin muni kontinúerast út í hið óendanlega. Þau hafa að minnsta kosti gert það hingað til.

Þeir eru hins vegar sárafáir, sem telja, að stjórnarandstaðan hafi eitthvað markvert um þessi mál að segja. Menn lesa heimsendafyrirsagnir Morgunblaðsins sem eins konar hitamæli á skapvonzku og ergelsi stjórnarandstöðunnar.

Þetta er ákaflega hastarlegt, því að virk og öflug stjórnarandstaða er hornsteinn lýðræðis og efnahagslegra framfara. Ef stjórnarandstaðan leggur upp laupana, svo sem hér hefur gerzt, er lýðræðið ekki lengur í fullu gildi.

Fyrst þarf stjórnarandstaðan að koma Morgunblaðinu upp á jörðina, svo að þjóðmáladeilur verði trúverðugar á nýjan leik. Síðan þarf hún að koma sér upp stjórnmálamönnum, sem fólkið í landinu nennir að hlusta á.

Við búum við velsæld, sem er byggð á sandi. Og það er dapurlegt að búa við stjórnarandstöðu, sem er gersamlega fyrirmunað að sýna fólki fram á, að svo sé. Þetta er eitt stærsta vandamál þjóðarinnar um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkaréttur og ríkisstyrkur.

Greinar

Gamansamur framkvæmdastjóri Flugleiða tók fyrsta leiðara þessa sameinaða dagblaðs og sneri honum upp á sameiningu Flugfélagsins og Loftleiða fyrir rúmum átta árum. Grein hans með árnaðaróskum birtist hér í blaðinu á miðvikudaginn.

Flugleiðamenn telja sameiningu síðdegisblaðanna vera staðfestingu þess, að rétt hafi verið að sameina flugfélögin tvö á sínum tíma. Í stórum dráttum hafi sömu rök legið að baki hjá flugfélögunum og nú hjá dagblöðunum.

Gamansemina mætti framlengja með því að ímynda sér, að Flugleiðir dreifðu nú fréttatilkynningu, þar sem fram kæmi, að þær mundu í fleiri atriðum en sameiningunni einni hafa sama hátt á og þetta sameinaða dagblað.

Framkvæmdastjórar Flugleiða gætu þá enn leitað fanga í leiðurum blaðsins og snúið upp á sjálfa sig. Til þess er kjörinn leiðarinn frá áðurnefndum miðvikudegi. Í breyttri útgáfu Flugleiða mundu upphafsorðin þá hljóða:

“Ákveðið hefur verið, að Flugleiðir æski hvorki ríkisstyrks né þiggi hann, ef boðinn verður. Enda getur flugfélag því aðeins talizt óháð og frjálst, að það sé ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera.”

Samlíking Dagblaðsins & Vísis annars vegar og Flugleiða hins vegar hlýtur að vera afar ófullkomin, nema samræming verði einnig á þessu sviði. Enda mundu Flugleiðir þá losna við mikið af þeirri gagnrýni, sem þær hafa sætt.

Svo gamanseminni sé haldið áfram, mætti hugsa sér, að á móti þessari aðlögun Flugleiða að stefnu hins sameinaða dagblaðs komi önnur aðlögun blaðsins að stefnu flugfélagsins. Upphafsorð bréfs blaðsins til stjórnvalda mundu þá hljóða svo:

“Vegna smæðar hins íslenzka dagblaðamarkaðar förum við vinsamlegast fram á, að ekki verði leyfð sala annarra blaða en Dagblaðsins & Vísis á Akureyri, Ísafirði, Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Amsterdam og nokkrum fleiri stöðum.

Augljóslega veldur það ýmsum rekstrarerfiðleikum, ef blaðið þarf að sæta því, þegar flogið er með það til Akureyrar í hádeginu, að með morgunfluginu hafi fjögur önnur dagblöð verið flutt þangað í beinni samkeppni við okkur …”

Bréfið gæti auðvitað verið lengra og átakanlegra. En þar skilur á milli Flugleiða annars vegar og Dagblaðsins & Vísis hins vegar, að blaðið er alveg ófáanlegt til að setja ráðamenn þjóðarinnar í slíkan bobba.

Í staðinn yrðum við að biðja Flugleiðir um að feta einnig á þessu sviði braut blaðsins, svo að samlíkingin geti orðið fullkomin. Mundi þá áðurnefnd fréttatilkynning Flugleiða hljóða svo við mikinn fögnuð þjóðarinnar:

“Ákveðið hefur verið, að Flugleiðir æski hvorki ríkisstyrks né þiggi hann, ef boðinn verður. Enda getur flugfélag þá aðeins talizt óháð og frjálst, að það sé ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera.

Jafnframt hafa Flugleiðir afsalað sér öllum einkaleyfum til áætlunarflugs innan lands og utan. Fyrirtækið telur eðlilegt, að nokkur önnur flugfélög fái líka að keppa á þessum flugleiðum, hugsanlega á öðrum tímum dagsins.”

Flugfélög annars vegar og dagblöð hins vegar geta sameinazt til að bæta stöðu sína. Samanburðurinn nær þó skammt, ef flugfélagið heimtar bæði einkarétt og ríkisstyrk, en dagblaðið hafnar hvoru tveggja. Þá verður gamansemin að alvöru.

Jónas Kristjánsson

DV

Biðlund í velgengni.

Greinar

Einna ljósasti þáttur velgengni þessa sameinaða dagblaðs er auglýsingaflóðið, sem hefur sett efnisskipan þess úr skorðum fyrstu dagana og gerir enn. Ekki má búast við, að þetta breytist að ráði á þeim tæpu þremur vikum, sem lifa til jóla.

Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir, að auglýsendur í hvoru dagblaði um sig vildu auglýsa í hinu sameinaða blaði. Hins vegar kom á óvart, hversu fljótir nýir auglýsendur voru að taka við sér og hinir fyrri að auka við sig.

Á móti hefur blaðið takmarkaða möguleika á stækkun að sinni. Valda því bæði hinar gífurlegu annir starfsfólks við undirbúning prentunar og svo ýmsir tæknilegir þröskuldar á borð við stærð og afkastagetu vélakosts.

Til að byrja með getum við aðeins haft tvöfalt blað á laugardögum. Við gerum ráð fyrir að geta komið út 48 síðna eins litar blaði á mánudögum og allt að 40 síðna tveggja lita blöðum aðra daga vikunnar. Þetta er of lítið.

Sem betur fer er efnismagn hins sameinaða dagblaðs þó mun meira en var fyrir í hvoru blaði um sig, þrátt fyrir auglýsingaflóðið og stækkunartakmörkin, sem hér hefur verið lýst. Lesendur fá mun meira lesefni en áður.

Þessi aukning er í bili ekki eins mikil og við hefðum kosið. Hún verður meiri, þegar auglýsingaflóðinu linnir að tæplega þrem vikum liðnum. Þá loksins fær sameinaða dagblaðið sinn eiginlega og ráðgerða heildarsvip.

Jafnframt höfum við verið að gera tilraunir með skipan efnis í blaðið og verðum að halda því áfram næstu daga. Fyrir bragðið hafa sumir efnisþættir verið á ferðinni um blaðið og jafnvel út úr því og inn í það.

Af þessu leiðir, að lesendur hafa ekki að öllu leyti getað gengið að ákveðnum efnisþáttum á föstum stöðum í blaðinu. Þetta stendur þó til bóta, því að tímabili tilraunanna fer senn að ljúka og blaðið að festast í formi.

Í millibilsástandinu, sem hér hefur verið lýst, biðjum við lesendur um biðlund og þolinmæði. Sameinað dagblað verður ekki endanlega fullskapað á einum degi, allra sízt á tíma hins fjöruga viðskiptalífs aðventunnar.

Áskrifendur fyrirrennaranna hafa haldið tryggð við hið sameinaða dagblað. Þar að auki hafa margir nýir bætzt við, sem áður voru að hvorugu blaðinu áskrifendur, en keyptu kannski í lausasölu annað hvort eða bæði.

Lausasalan hefur einnig verið meiri en spáð var fyrirfram. Við vitum ekki enn, hvort því ræður eðlileg forvitni um nýjungar. Við vitum ekki, hvort þetta fólk bætist í hóp hinna varanlegu lesenda, en vonum það auðvitað.

Ef hinir gömlu og nýju kaupendur sýna hinu sameinaða dagblaði biðlund á tíma auglýsingaflóðs, tækniþröskulda og tilrauna, erum við sannfærð um, að innan skamms nær blaðið því efnismagni og efnisvali, sem þeir eiga skilið.

Við stefnum að því að gefa út blað, sem felur í sér alla efnisþætti fyrirrennaranna. Við ætlum aðeins að fella niður tvíverknaðinn, sem áður var. Þetta hefur okkur tekizt að mestu leyti, en ekki öllu.

Þar á ofan stefnum við að nýjum efnisþáttum og auknum. Við teljum okkur vel í stakk búna til þess, um leið og rýmið fer að aukast á síðum blaðsins. Eins og lesendur bíðum við þess með eftirvæntingu. Og teljum dagana til jóla.

Jónas Kristjánsson

DV

Dagblað án ríkisstyrks.

Greinar

Ákveðið hefur verið, að Dagblaðið & Vísir æski hvorki ríkisstyrks né þiggi hann, ef boðinn verður. Enda getur dagblað því aðeins talizt óháð og frjálst, að það sé ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera.

Blaðastyrkir eru nú tvenns konar. Annars vegar veitir ríkið dagblöðum og landsmálablöðum fjárstyrk, sem mun á næsta ári nema rúmlega hálfri þriðju milljón nýkróna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem nú er fyrir þingi.

Hlutur dagblaðanna af þessu fé er greiðsla fyrir eintök, sem ríkið kaupir í einu lagi og lætur senda ýmsum stofnunum. Oftast hafa þetta verið um 200 eintök af hverju blaði, þar á meðal Morgunblaðinu, sem aðeins þiggur þennan hluta.

Hins vegar kaupir ríkið 250 eintök af hverju dagblaði án þess að fá þau. Nemur sú upphæð rúmri milljón nýkróna á núverandi verðlagi. Þennan hluta þiggja dagblöðin önnur en Morgunblaðið og Dagblaðið & Vísir.

“Við höfum ekki lesendur fyrir þessi blöð, svo að við erum ekkert að fá þau til að stafla þeim upp. Við lítum á þetta sem styrk til blaðanna.” Þetta sagði embættismaður fjármálaráðuneytisins í blaðaviðtali í fyrra.

Samtals er gert ráð fyrir, að ríkið verji á næsta ári meira en 3,5 milljónum nýkróna til að styrkja blöð. Þessi upphæð hefur farið ört hækkandi, hraðar en verðbólgan, enda eiga flokkspólitísku blöðin góða að á þingi.

Fyrrnefndi styrkurinn á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að hækka um 50% að þessu sinni, meðan frumvarpið í heild hækkar um 33%. Þar á ofan er venja, að þingmenn hækki styrkinn í skjóli nætur við afgreiðslu fjárlaganna.

Blaðastyrkirnir miða að verndun flokkspólitískra blaða gegn vaxandi ásókn frjálsra og óháðra blaða. Þeir stefna að viðhaldi úreltra stofnana á því sviði fjölmiðlunar, þar sem samkeppni hefur annars verið leyfð.

Jafnframt stefna styrkirnir að lausara sambandi lesenda og dagblaða. Þeir láta lesendur skipta minna máli en áður og velviljaða stjórnmálamenn meira máli. Hástigið er Alþýðublaðið, sem er ekki lesið og lifir á ríkinu.

Sem dæmi um hættuna, sem þessu fylgir, má nefna mál, sem ríkisvaldið höfðaði fyrir nokkrum árum gegn þeim tveimur blöðum, sem nú hafa sameinazt í Dagblaði & Vísi, er þau hækkuðu verð sitt umfram önnur blöð.

Dagblöðin tvö héldu því fram, að opinber fyrirmæli um verð blaða væri skerðing prentfrelsis. Blöðin gætu ekki verið óháð og frjáls nema þau væru seld á verðlagi, sem væri í samræmi við verðbólgu hvers tíma.

Þáverandi ráðherra verðlagsmála sagði, að sjálfstæði blaða á þessu sviði spillti fyrir möguleikum stjórnvalda á að hafa stjórn á verðlagsmálum. Hann gaf til kynna, að í staðinn kæmi til greina að auka blaðastyrkinn.

Verð dagblaða er inni í vísítölunni, en blaðastyrkirnir ekki. Það var, er og verður því freistandi fyrir vísitölufalsara í ráðherrastólum að millifæra með þessum hætti, þótt það spilli tjáningarfrelsi í landinu.

Eitt hlutverk Dagblaðsins & Vísis er einmitt að reyna að vernda fólk fyrir samábyrgð flokkanna af þessu tagi og öðru. Því hlutverki verður ekki hægt að gegna á framfæri hins opinbera. Við höfnum því ríkispeningunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðarmenn sundra.

Greinar

Formaður friðarráðs hollenzku kirkjunnar, Jan Faber, sagði um daginn, að tillögur Reagans Bandaríkjaforseta um afnám meðaldrægra kjarnorkuflauga í Evrópu væru bara einhliða áróður, sem Sovétríkin mundu ekki geta fallizt á.

Ummæli Fabers sýna, hversu mikinn vanda friðarhreyfingin í Evrópu skapar umhverfi sínu. Hún freistar Kremlverja til að reyna að komast upp með nýjan og ógnvekjandi vígbúnað án þess að Vesturlöndum takist að ná jafnvægi.

Vel getur verið, að Kremlverjum og kjarnorkuandstæðingum takist að hindra staðsetningu meðaldrægra kjarnorkueldflauga í flestum löndum Vestur-Evrópu öðrum en Frakklandi og Bretlandi án gagnkvæmni af hálfu Sovétríkjanna.

Í þessu skiptir hið hernaðarlega misvægi minna máli en hið pólitíska. Berskjölduð Vestur-Evrópa verður að taka meira tillit til óska Sovétríkjanna en verið hefur. Finnlandiseringin færist vestur eftir álfunni.

Kremlverjar þurfa ekki að beita hernaðarlegum yfirburðum sínum gegn Vestur-Evrópu. Þeir þurfa aðeins að beita vitneskjunni um, að þessir yfirburðir séu til, – að einhliða hafi Sovétríkin líf allra Vestur-Evrópubúa í hendi sér.

Kremlverjar hafa ekkert upp á að bjóða nema hernaðarlegan mátt. Þeir hafa ekkert aðdráttarafl í hugmyndafræði, efnahagsmálum, skriffinnsku og lífskjörum til að tryggja í heiminum sigur kommúnismans, sem þeir telja óhjákvæmilegan.

Í skjóli vígvélarinnar munu Sovétríkin draga á langinn viðræður um afnám meðaldrægra kjarnorkueldflauga og treysta friðarhreyfingunni í Vestur-Evrópu til að hindra hið pólitíska jafnvægi, sem mundi felast í vestrænum flaugum af því tagi.

Ef þetta tekst að meira eða minna leyti, er líklegt, að einangrunarstefnu aukist mjög fylgi í Bandaríkjunum. Hún hefur þegar náð fótfestu í Hvíta húsinu, þar sem Kaliforníumennirnir fyrirlíta linkind Vestur-Evrópubúa.

Þar vestra vex þeirri skoðun fylgi, að Vestur-Evrópa sé vandræðastaður, þar sem hver höndin sé uppi á móti annarri og þar sem menn vilji velta á Bandaríkjamenn kostnaði og fyrirhöfn við að verja álfuna gegn Kremlverjum.

Bandaríski kjallarahöfundurinn William Safire segir blátt áfram: “Getum við varið Evrópu, sem vill ekki verja sig sjálf?” Þegar svo virtur maður kastar fram slíkri spurningu, mætti hrollur gjarna setjast að Vestur-Evrópubúum.

Friðarhreyfingin í Vestur-Evrópu er ein mesta ógnunin við frið í Evrópu. Þessi ómeðvitaða fimmta herdeild klýfur samstöðu Vestur-Evrópu, fælir Bandaríkjamenn á brott og auðveldar Kremlverjum að ná markmiðum sínum.

Friðarhreyfingin er svipað böl og stjórnarstefnan í Washington, sem hefur á þessu ári einkum falizt í hernaðarlegum mannalátum, vel auglýstum fjárfestingum í nýjum vopnakerfum og ómstríðum andkommúnisma.

Utanríkisstefna Reagans Bandaríkjaforseta er að mörgu leyti afleit. En hann skilur þó, alveg eins og Thatcher hin brezka og Mitterrand hinn franski, að gegn valdsdýrkendum á borð við Kremlverja dugir aðeins að sýna festu.

Eina vonin til að hafa Kremlverja ofan af heimsvaldadraumum er að sýna fram á órofna og eindræga samvinnu vestrænna ríkja, sem komi bæði fram í traustum landvörnum og einnig í sívökulum vilja til samninga um afvopnun.

Jónas Kristjánsson

DV

Núllið í Hvíta húsinu.

Greinar

Henry Kissinger sagði einu sinni um Richard Allen, að hann hefði “næstum þriðja flokks greind”. Þessi sami Allen er nú öryggisráðgjafi Reagans Bandaríkjaforseta. Það er einmitt embættið, sem Kissinger gegndi lengst af fyrir Nixon.

Allen er eitt af mörgum dæmum um hrun bandarískrar utanríkisstefnu á tæplega eins árs valdaferli Reagans. Hvorki forsetinn né nokkur nánustu ráðgjafa hans bera nægt skynbragð á utanríkismál eða hafa á þeim sómasamlegan áhuga.

Reagan hefur loks flutt eina stefnuræðu í utanríkismálum. Á blaðamannafundum hafa svör hans í þeim efnum verið fremur uggvekjandi, að svo miklu leyti sem þau hafa verið meira en marklaus og innihaldslaus froða.

Ekki hefur farið fram hjá áhorfendum að alþjóðamálum, að samband Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Vestur-Evrópu hefur stirðnað á þessu ári. Samt segir Reagan brosandi, að sambúðin sé “betri en nokkru sinni fyrr”.

Bandamennirnir hafa gjarna viljað reyna að setja traust sitt á Alexander Haig utanríkisráðherra vegna reynslu hans sem skrifstofustjóra Nixons á erfiðum tíma og sem yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins.

En staða Haigs er svo veik, að hann stendur ekki undir trausti. Hann hefur átt í stöðugum útistöðum við ráðgjafa forsetans og Caspar Weinberger varnarmálaráðherra. Og sífellt ganga sögur um, að embættisdagar hans séu taldir.

Álit Bandaríkjanna í þriðja heiminum hefur beðið hnekki við brottför Carters úr Hvíta húsinu. Kaliforníumennirnir, sem þar ráða nú ríkjum, virðast aldir upp í fyrirlitningu á fátækum, svo sem dæmin frá Rómönsku Ameríku sanna.

Ætla mætti, að þeir telji alla þá vera kommúnista, sem ekki hafa einkasundlaug í garðinum. Þeir framleiða í stórum stíl kommúnista í Nicaragua, Salvador og Guatemala með því að hossa sérhverjum fóla, sem segist vera andkommúnisti.

Undir niðri eru þeir einangrunarsinnar. Þeir láta sundrunguna í Vestur-Evrópu fara í taugarnar á sér. Þeim finnst slæmt að þurfa að kosta til varna þreyttrar álfu, sem þeim finnst skorta viljann til að verja sig sjálf.

Með Kaliforníumönnunum fylgir andrúmsloft, sem eykur ugg í Vestur-Evrópu um, að Bandaríkin muni ekki standa við skuldbindingar sínar í Atlantshafsbandalaginu, heldur hneigist til að heyja “takmarkað kjarnorkustríð” í Evrópu.

Enginn vafi er á, að valdataka Reagans hefur kynt undir stríðsótta í Vestur-Evrópu og gert ríki álfunnar ótraustari bandamenn en þau voru áður. Hinar fyrirhuguðu meðaldrægu kjarnorkueldflaugar geta orðið fórnardýr þessa ótta.

Huglausir og tækifærissinnaðir stjórnmálamenn Vestur-Evrópu eru á nálum út af miklum vexti samtaka kjarnorkuandstæðinga og gífurlegri þáttöku í útifundum þeirra. Í skammsýni reyna þeir að vinna fylgi þessara hópa.

Þegar Kaliforníumennirnir í Hvíta húsinu átta sig betur á, að sumir bandamennirnir í Vestur-Evrópu eru að hlaupa út undan sér af ótta við kjarnorkuandstæðinga, er hætt við, að þeir sannfærist enn frekar í einangrunarstefnunni.

Þannig hefur vítahringurinn verið á þessu ári og getur orðið verri á hinu næsta. Vestur-Evrópumenn mega sumpart sjálfum sér um kenna. En mestur hluti vandans er þó í Hvíta húsinu. Þar verður að nýju að fæðast vestræn forusta.

Jónas Kristjánsson

DV

Óháður þjóðarfjölmiðill.

Greinar

Eðlilegt er, að menn verði hvumsa, þegar síðdegisblöðin sameinast í eitt dagblað eftir að hafa eldað saman grátt silfur í rúmlega sex ár. Hvernig má vera unnt að strika svo gersamlega yfir gamlar væringar, sem nú hefur verið gert?

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á sex árum. Þróun fjölmiðlunar hefur gert fyrri ágreiningsefni fyrst lítilfjörleg og síðan úrelt. Jafnframt hefur hún hlaðið upp nýjum verkefnum, sem sameinaða krafta þarf til að leysa.

Verkfallið var kornið, sem fyllti mælinn. Það gaf mönnum tíma og tækifæri til að hugleiða, hvort blöðin væru í stakk búin til að bera herkostnað árlegra vinnudeilna og veita lesendum þar á ofan nauðsynlega þjónustu.

Dagblaðamarkaðurinn er enn opinn, þótt blöðum hafi fækkað úr sex í fimm. En hið nýja blað ætlar sér sterkari samkeppnisaðstöðu á þeim markaði en blöðin tvö höfðu áður, hvort í sínu lagi. Við viljum nú sækja fram að nýju.

Bæði blöðin hafa af of veikum fjárhag reynt að halda uppi merki frjálsra og óháðra dagblaða. Með sameiningu kraftanna á enn frekar en áður að vera unnt að veita lesendum óhlutdrægar upplýsingar um staðreyndir og skoðanir.

Hið sameinaða dagblað hefur að meginmarkmiði að starfa óháð flokkum og flokksbrotum, aðilum vinnumarkaðsins, öðrum öflugum valdamiðstöðum þjóðfélagsins og öllum stórum og smáum þrýstihópum, sem láta að sér kveða.

Lesendur fá nú mun stærra blað en þeir fengu áður, án þess að verðið hækki þess vegna. Þeir, sem áður keyptu bæði blöðin, spara sér nú verð eins dagblaðs. Þeir, sem áður keyptu annað blaðið, fá nú meira fyrir peningana.

Sameinaða blaðið er svo stórt, að það rúmar allt efni, sem einkenndi áður hvort blað fyrir sig. Hið eina, sem fellur niður, er tvíverknaðurinn. Lesendur hvors blaðs fá því sitt blað áfram og svo úrval úr hinu til viðbótar.

Við höfum svo ástæðu til að ætla, að sameiningin veiti okkur einnig mátt til að leggja út á nýjar brautir, svo að lesendur fái nýtt efni, sem þeir fengu ekki í blöðunum tveimur. Þannig viljum við stækka lesendahópinn.

Þetta ber að svo skjótlega, að enn hefur ekki tekizt að móta hið sameinaða blað að fullu. Það er sérkennileg og skemmtileg blanda úr foreldrum sínum. Smám saman mun það fá sitt eigið svipmót, þegar það vex úr grasi.

Tæknibreytingar dagblaða og annarra fjölmiðla hafa verið örar á undanförnum árum og verða enn í náinni framtíð. Fjárhagur dagblaðanna tveggja, sem hér hafa sameinazt, leyfði þeim ekki að fylgjast með sem skyldi á þessu sviði.

Með sameiningunni á að verða kleift að afla þeirrar tækni, sem nú og framvegis verður talin nauðsynleg til að hagkvæmni sé í hámarki, tafir sem minnstar, prentgæði sem bezt og upplýsingar til lesenda sem ferskastar.

Verulegur hluti þjóðarinnar fær þetta dagblað í hendur. Við viljum halda góðu sambandi við ykkur öll og fá fleiri í hópinn. Við viljum, að sem flestir sendi línu eða hringi og hjálpi okkur við að móta óháðan og frjálsan þjóðarfjölmiðil.

Við höfum lært af reynslunni og teljum okkur hafa gott vegarnesti til að leggja með lesendum okkar í nýjan áfanga þróunarbrautarinnar. Við vonum, að sú ferð verði okkur öllum sem gagnlegust og ánægjulegust.

Jónas Kristjánsson og Ellert B. Schram.

DV

Horfum fram, ekki aftur.

Greinar

Í nútímanum vegnar þeim þjóðum bezt, sem fljótastar eru að losa sig úr viðjum hefðbundinna atvinnugreina og að leggja út í nýjar greinar. Þær njóta hins mikla arðs, sem fylgir því að vera jafnan í fararbroddi.

Flestar þjóðir leggja því miður mikið af mörkum til að vernda hefðbundnar atvinnugreinar, bæði sem þátt í byggðastefnu og vegna traustrar valdastöðu þessara greina. Hrikalegasta dæmið um slíkt er íslenzkur landbúnaður.

Á alþjóðlegum vettvangi er offramleiðsla í slíkum greinum. Útflutningsuppbótum, margvíslegum öðrum styrkjum og undirboðum er beitt til að koma framleiðslunni út. Þannig brenna flestar þjóðir gífurlegum fjármunum.

Landbúnaðurinn er ekki lengur eina dæmið um slíka byrði. Fjöldi iðngreina er kominn í þennan ofsetna flokk, til dæmis vefnaður, stáliðja og skipasmíðar. Jafnvel bílaiðnaðurinn er að færast yfir í verndaða flokkinn.

Bezta dæmið um hið gagnstæða er tölvutæknin, sem margfaldast með hverju árinu. Einkum er örtölvutæknin spennandi, af því að þar er þenslan mest og möguleikarnir mestir fyrir fjármagnslitla karla eins og okkur.

Í tölvutækninni er lögmálið um mikilvægi stærðar heimamarkaðarins ekki eins ósveigjanlegt og í flestum öðrum greinum. Menn hafa ótal möguleika á að sérhæfa sig í þáttum, sem hafa sérstakt gildi heima fyrir.

Hér á Íslandi eru sjávarútvegur og fiskiðnaður sjálfkjörinn vettvangur fyrir upprennandi þjónustuiðnað í tölvutækni, einkum örtölvutækni. Og raunar hafa þegar verið stigin mikilvæg skref á þessari braut.

Að minnsta kosti tvö íslenzk fyrirtæki framleiða nú eyðslumæla í skip. Þeir sýna, hve mikilli olíu er eytt hverju sinni og hvernig eyðslan breytist með breyttum hraða og breyttu skrúfusniði. Þeir spara þegar milljarða.

Annað þessara fyrirtækja hefur þegar samið um sölu á 2000 eyðslumælum til útlanda. Það er Tæknibúnaður hf., sem hefur selt Simrad í Noregi þessa mæla. Fyrir þá fást um 20 milljónir nýkróna inn í þjóðarbúið.

Og mælarnir eru einmitt framleiddir af þeim, sem einna minnst mega sín, öryrkjunum. Það er fólkið, sem verst gengur að fá vinnu, er setur eyðslumælana saman. Öryrkjarnir eru þannig komnir í hóp mikilvægra starfsmanna.

Menntunargrunnurinn er töluverður hér á landi, þótt skólar mættu gjarna leggja meiri áherzlu á tölvur. Á síðustu árum hefur risið upp nokkur stétt sérfræðinga, sem geta fengizt við uppfinningar og vöruþróun.

Það er meira að segja nokkuð langt síðan Íslendingar urðu fyrstir manna til að framleiða gjaldmælatölvur í leigubíla, einmitt þegar verðbólgan í heiminum gerði slíka mæla nauðsynlega víðar en hér.

Því miður höfðu hugvitsmennirnir þá ekki bolmagn til að fylgja uppfinningu sinni eftir af nauðsynlegum krafti. Það urðu því aðrir, sem erfðu þennan markað, en íslenzka fyrirtækið varð því sem næst gjaldþrota.

Eitthvað erum við að byrja að læra af reynslunni, því að atvinnumálanefnd Reykjavíkur hefur gefið Tæknibúnaði hf. 400 þúsund nýkróna húsaleigustyrk. Þannig eigum við að byrja að styrkja framtíðina og hætta að styrkja fortíðina.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið