Greinar

Millifærslu-ríkisstjórn.

Greinar

Með hverri ráðstöfun, sem líður, kemur betur í ljós, að ríkisstjórnin ræður ekki við verkefni sín. Hún tekur oftar en ekki rangar ákvarðanir, þá sjaldan hún fer út fyrir hin hefðbundnu íhaldsúrræði allra íslenzkra ríkisstjórna.

Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar eru millifærslur. Nú síðast hefur hún tekið rekstrarfé eins fyrirtækis, Seðlabankans, og afhent útflutningsatvinnuvegunum í sárabætur fyrir of litla verðhækkun erlendra gjaldmiðla.

Gengistryggðum afurðalánum verður breytt í innlend lán með föstum vöxtum. Seðlabankinn á hér eftir að greiða 35%. vexti á frysta féð úr bankakerfinu og endurlána það síðan til útflutningsatvinnuveganna með 29% vöxtum.

Þetta er gert í trausti þess, að flestir hafi samúð með útflutningsatvinnuvegunum og fæstir með Seðlabankanum. En ekki kann góðri lukku að stýra, að innikróuð ríkisstjórn skuli telja sig þurfa að grípa til hreinnar vitleysu.

Þar á ofan er ríkisstjórnin með þessu byrjuð að andæfa gegn lögmáli verðtryggingar fjárskuldbindinga. Hún snýr við á miðri leið verðtryggingar og byrjar að millifæra sparifé til vildarvina allra ríkisstjórna, skuldakónganna.

Þetta er auðvitað sama ríkisstjórnin, sem lætur skattgreiðendur ábyrgjast kaup á togurum, sem skuldakóngar ætla að gera út án þess að greiða eina krónu í vexti, hvað þá afborganir. Þetta er svokölluð byggðastefna.

Og þetta er auðvitað ríkisstjórnin, sem farin er að dunda við að færa fé milli deilda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, samkvæmt þeirri brengluðu hugsjón, að peninga skuli taka úr arðbærum rekstri og flytja í taprekstur.

Í fyrstu gerir ríkisstjórnin þetta með því að láta endurgreiðslur gengishagnaðar ekki renna í réttum hlutföllum til einstakra deilda verðjöfnunarsjóðs. Slíkar óbeinar millifærslur gera sama ógagn og beinu millifærslumar.

Ríkisstjórnin leitar án afláts að matarholum, sem hún geti rænt til að verðlauna eymdina. Á fínu máli heitir þetta millifærsla og dugar nokkuð vel í tryggingakerfinu, en hefur hrikalegar afleiðingar í kerfi verðmætasköpunar.

Þótt rétt sé að millifæra til sjúkra, slasaðra, aldraðra, barnþungra og einstæðra, er alrangt að beita sömu aðferðum í atvinnulífinu, sjálfri uppsprettu verðmætanna, sem notuð eru í tryggingakerfinu og annars staðar.

Í efnahagslífinu þarf ríkisstjórnin að hætta millifærslum, svo að atorka, hugvit og auður streymi til þeirra athafna, sem bezt eru hæfar til að halda uppi lífsgæðum í landinu.

Hætta þarf millifærslum frá útflutningsatvinnuvegum með falsaðri gengisskráningu. Í stað þess ber að gera gjaldeyrisverzlun frjálsa. Hætta þarf millifærslum frá sparifjáreigendum með falsaðri vaxtaskráningu. Í stað þess ber að gera vexti frjálsa.

Sömuleiðis ber að hætta styrkjum til atvinnuvega, hvort sem þessir styrkir heita styrkir, óafturkræf framlög, niðurgreiðslur, uppbætur, einkasala eða innflutningshöft.

Því miður fetar ríkisstjórnin hægt en örugglega lengra út í hið gamalkunna fen millifærslna. Efnahagsráðstafanir þessarar viku eru hörmulegt dæmi um, að afturhaldið er að verða ofan á hjá aðþrengdri ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Fjötraður sjávarútvegur.

Greinar

Erfiðleikar sjávarútvegs eru fyrst og fremst pólitískir. Stjórnvöld hafa fyrr og síðar reyrt sjávarútveginn í viðjar núllrekstrar. Einkum hefur mismunandi röng gengisskráning verið notuð til að halda afkomunni í núlli.

Í rauninni er sjávarútvegurinn eina innlenda atvinnugreinin, sem er verulega samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Nýjustu mælingar sýna, að hann er tvöfalt framleiðnari en iðnaður og fimm sinnum framleiðnari en landbúnaður.

Kraftur sjávarútvegs og fiskiðnaðar sést bezt af því, að þeir hafa getað staðizt samkeppni við hliðstæðar greinar í Noregi, sem njóta ríkisstyrkja, er nema 25% útflutningsverðmætis, svo og í Kanada, þar sem styrkir eru einnig miklir.

Samt eru enn vannýttir margvíslegir möguleikar á aukinni framleiðni í sjávarútvegi. Gífurlegur sparnaður mundi til dæmis fylgja minnkun flotans niður í stærð, er hæfir aflamagninu, sem óhætt er að taka úr fiskveiðilögsögunni.

Í þessu ástandi ábyrgjast opinberir sjóðir lán til togarakaupa, þótt vitað sé, að hin nýju skip muni ekki vinna fyrir vöxtum og afborgunum, og þótt vitað sé, að eigendurnir eru fyrst og fremst að gera út á skattgreiðendur.

Sérhvert nýtt skip, sem bætist í flotann, tekur dálítinn afla frá hinum, án þess að tilkostnaður þeirra minnki. Að baki er hreppapólitíkin, sem löngum hefur reynzt okkur dýr, ekki sízt undir hinum nýja titli byggðastefnu.

Alls konar aðferðir hafa verið reyndar til að mæta þessum vanda. Frægust eru skrapdagakerfið í þorskveiðum og kvótakerfi Í ýmsum öðrum veiðum. En ekkert þessara kerfa tekst á við hinn raunverulega vanda of stórs veiðiflota.

Í nokkur ár hefur oft verið bent á, að taka mætti kúfinn af vanda sjávarútvegsins, í fyrsta lagi með því að láta hann njóta réttrar gengisskráningar og í öðru lagi með því að selja takmarkaðan aðgang að þjóðarauðlind hafsins.

Til þess að vita, hvert sé rétt gengi, verður að gefa það frjálst. Við vitum, að það muni lækka töluvert, útflutningsgreinunum til hagsbóta. Enda er fáránlegt, að þjóð útflutningsverzlunar sé að burðast með fast gengi.

Í nýjum tillögum Verzlunarráðs um eflingu þjóðarhags er bent á, að hindra megi eða draga úr verðhækkunum í kjölfar gengislækkunar með því að draga úr eða afnema aðflutningsgjöld. Þar með væru lífskjörin vernduð.

Á móti tekjutapi ríkissjóðs kæmu svo tekjur af sölu veiðileyfa til sjávarútvegs. Hinar gífurlegu tekjur af gengislækkun mundu gera sjávarútveginum kleift að bjóða í takmarkaðan fjölda veiðileyfa á uppboði.

Ef fjöldi veiðileyfa væri miðaður við hagkvæmustu sókn, mundi hin lélegri og dýrari útgerð vinzast úr, svo sem fyrir löngu er orðið tímabært. En getan til greiðslu veiðileyfa er einmitt mælikvarði á framleiðni útgerðarinnar.

Í sjálfu sér mætti líta á þetta sem þríhyrning með niðurstöðu í núlli, ef ekki væri hreinsunin í sjávarútvegi, minnkun sóknar niður í það, sem hæfir stofnstærðum hverju sinni. Uppboð veiðileyfa er hreinasta leiðin að því marki.

Með slíkri hreinsun, samfara frjálsri verzlun með gjaldeyri, væri unnt að losa sjávarútveginn úr pólitískum fjötrum núllrekstrar, sem hafa herzt svo mjög, að ríkisstjórnin er farin að færa fé milli fiskvinnslugreina.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Samræmdir embættismenn.

Greinar

Ein árátta embættismanna er að steypa allt og alla í sama mót. Meðal annars hugsa þeir með hryllingi til þess, að nokkur blæbrigðamunur kunni að vera á starfi áfangaskóla. Úr því hafa þeir nú bætt á venjulegan hátt, með reglugerð.

Með reglugerðinni er ákveðið, að einkunnir skuli gefa í tíu tölustöfum, en ekki í fjórum bókstöfum, svo sem tíðkazt hefur í mörgum þessara skóla. Er þetta til samræmis við grunnskóla og háskóla, sem nota tölustafi.

Rökstyðja má, að of mikil fábreytni sé í fjórum einkunnakostum, einkum í efri endanum, og að hún auki leti kennara við að semja próf og meta úrlausnir. Auk þess skilja flestir betur tölustafi en bókstafi sem mælikvarða.

Á hitt má einnig líta, að bókstafirnir fela í sér fráhvarf frá fyrri einkunnagjöf, sem komin var út í þær öfgar, að heildareinkunn var gefin í eitt þúsund mismunandi stigum, það er í tölum með tveimur aukastöfum.

Mestu máli skiptir þó, að fjölbreytni er til bóta í þessu sem á öðrum sviðum. Með fjölbreytni mótast samanburður og samkeppni. Þá er reynslan látin um að skera úr óvissum atriðum, en ekki reglugerðir úr ráðuneytum.

Rökstyðja má, að betra sé fyrir nemendur að mæta 80% í tímum heldur en 60%. En af hverju þá ekki 100%? Talan 80 er misheppnuð töfraformúla til að samræma mætingaskyldu og akademískt frelsi, tvo ósamræmanlega hluti.

Eðlilegast er, að sums staðar sé mætingaskylda og annars staðar akademískt frelsi í skólum á þessu stigi. Með slíkri fjölbreytni má í háskóla mæla smám saman misjafnan árangur mismunandi aðferða í menntaskólum og fjölbrautaskólum.

Satt að segja eru embættismenn menntamálaráðuneytisins að reyna að láta reglugerð koma í staðinn fyrir reynslu. Þeir eru að skipuleggja atriði, sem alls ekki ætti að skipuleggja, heldur þvert á móti hafa laus í reipunum.

Rökstyðja má, að auðveldara sé að fara milli skóla, ef þeir eru samræmdir. En þá er líka skammt yfir í nýja reglugerð um samræmd próf, enda er áreiðanlega einhver embættismaðurinn að dunda við slíkt í fásinninu.

Samræming milli skóla er marklítil, nema hún feli í sér samræmingu prófa. Á þessu sviði eru gífurlegir möguleikar fyrir verkefnasnauða embættismenn. Og hvernig væri til dæmis að koma á samræmdri stafsetningu fornri?

Íslenzkt þjóðfélag er of samræmt. Reglugerðir eru of margar og of digrar. Embættismenn, sem semja reglugerðir, eru of margir. Hlutirnir eiga ekki að vera einhæfir og staðlaðir, ekki skólarnir frekar en annað.

Háskólinn er farinn að þreifa sig áfram í mati á námsárangri nemenda úr mismunandi tegundum skóla. Smám saman mun safnast þar reynsluforði, sem verður menntaskólum og fjölbrautaskólum gagnlegri en reglugerðir úr ráðuneyti.

Bezt væri að leyfa hverjum skóla að móta sér vinnubrögð og starfsaðferðir. Menn sætta sig betur við ramma, sem þeir taka sjálfir þátt í að smíða. Í þessu sem öðru muni valddreifing leiða til aukins vilja til árangurs.

Þar á ofan er fjölbreytni út af fyrir sig æskilegt markmið. Þjóðfélagið þarf að fá margvíslegt fólk úr skólunum, lærdómsmenn og braskara, uppfinningamenn og sérvitringa, ekki bara samræmda embættismenn fyrir ráðuneytin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Einkarétturinn molnar.

Greinar

Frelsun sjónvarpsins hefur gengið bærilega vel og afskiptalítið af opinberri hálfu. Svo virðist sem siðferðisstyrkur einokunarinnar hafi lamazt svo, að ríkisútvarpið, síminn og lögreglan geta ekki haldið uppi lögum á þessu sviði.

Einkasjónvarpið hefur þróazt úr klúbbum innan fjölbýlishúsa yfir í hrein fyrirtæki, sem leggja þræði í jörð, stefna að þráðlausu sjónvarpi milli hæða og húsa og heimta meira að segja dulbúið afnotagjald af viðskiptavinunum.

Þetta er auðvitað kolólöglegt, enda hafa sjaldan heyrzt þynnri varnir en þær, sem hinir hraðlygnu sjónvarpsstjórar hafa á boðstólum. En þeir hafa komizt upp með þetta, af því að siðferðisstyrkur einokunarinnar er að bresta.

Til skamms tíma leituðu útvarp og sími uppi frjálsar hljóðvarpsstöðvar, þótt þær hefðu hvorki auglýsingar né afnotagjald, og fengu þær gerðar upptækar. Fróðlegt væri að prófa, hvort afskiptasemin yrði nú hin sama.

Áhugamenn um frjálsan útvarpsrekstur hafa lengi barizt án verulegs árangurs. Stjórnmálamenn eru að velta fyrir sér hugmyndum um aðra einokunarrás eða landshlutahljóðvarp, er yrði að verulegu leyti á valdi sveitarstjórnanna.

Almenningur hefur í skoðanakönnunum hvað eftir annað lýst eindregnu fylgi við afnám einokunar útvarps, bæði hljóðvarps og sjónvarps. Í síðustu könnun Dagblaðsins voru af þeim, sem skoðun höfðu, tveir þriðju með frelsi og einn þriðji andvígur.

Svo virðist sem frelsisþróun sjónvarps sé farin langt fram úr hljóðvarpinu. Myndsnældurnar hafa sloppið fimlega gegnum nálarauga einokunarinnar og eru orðnar að hornsteini lokaðra og hálfopinna sjónvarpskerfa.

Þegar borgarráð Reykjavíkur samþykkti með fyrirvörum sjónvarpsþræði í jörð, var það bara að feta í fótspor annarra sveitarstjórna, sem hafa látið slíkt afskiptalaust og jafnvel haft með hönd í bagga. Kapalkerfin eru að vinna sér hefð.

Ef stöðva ætti notkun þráða í Reykjavík, yrði að gera slíkt hið sama úti á landi, þar sem sveitarstjórnarmenn eru víða í fararbroddi hinna brotlegu. Og svo stutt er til næstu kosninga, að stjórnmálamenn þora ekki að styggja stuðningsmennina.

Líklegast er, að smám saman verði lagðir kaplar um allt þéttbýli Íslands. Í fyrstu verða lagðir fárra rása kaplar, sem strax verða úreltir, því að í Bandaríkjunum eru þegar komnir í notkun hundrað rása þræðir.

Slíkir kaplar gera notendum kleift að taka við hvaða sjónvarpsefni sem hverjum sem er kann að detta í hug að senda út. Tengdir heimilistölvum gera þræðirnir notendum einnig kleift að senda upplýsingar til baka.

Smám saman hljóta þræðir að taka við af myndsnældum sem hornsteinar hins frjálsa kerfis. Menn láta sér ekki nægja niðursoðna afþreyingu af snældum og fara að fikra sig út í beinar útsendingar alls konar efnis.

Gervihnettirnir torvelda varnir einokunarinnar. Talið er líklegt, að á næsta ári komist á loft fyrsti hnötturinn, sem Íslendingar geti náð sambandi við með tiltölulega ódýrum, nokkur þúsund króna loftnetum.

Þegar framtakssamir menn eru farnir að horfa á beinar sendingar erlends sjónvarps, verður mjög erfitt fyrir ríkisútvarpið, síma og lögreglu að amast við frjálsum sendingum slíks efnis innanlands. Vígi einkaréttarins hrynja hvert af öðru.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Steingrímur eflir flugið.

Greinar

Steingrímur Hermannsson flugmálaráðherra hefur stuðlað að auknu flugi milli Íslands og Evrópu með því að ákveða að veita Arnarflugi leyfi til að reka áætlunarflug til tveggja borga í Evrópu, Zürich og Hamborgar eða Frankfurt.

Þetta flug mun auka ferðamannastrauminn, bæði til Íslands og frá. Það mun fjölga atvinnutækifærum í flugi, þótt nokkur hluti farþeganna verði frá Flugleiðum tekinn. Og það mun veita Flugleiðum bráðnauðsynlegt aðhald í Evrópuflugi.

Leyfisveitingin er svipaðs eðlis og leyfi þau, sem veitt hafa verið til áætlunarflugs innanlands á leiðum, sem Flugleiðir hafa ekki sinnt. Samkeppnin í millilandaflugi verður því aðeins óbein eins og í innanlandsflugi.

Að vísu getur verið, að Flugleiðir hlaupi upp til handa og fóta, alveg eins og þegar lcecargo var veitt leyfi til áætlunarflugs til Amsterdam. Flugleiðum kom ekki til hugar að fljúga þangað, fyrr en öðrum kom það í hug.

Svoleiðis viðbrögð eru dæmigerð hjá einokunarstofnunum, sem hafa glatað öllu framtaki til stækkunar flugkökunnar og gera bara eins og hinir, svo að hægt sé fyrst að drepa samkeppnina og síðan að leggja niður flugleiðina.

Ef Flugleiðir endurtaka nú sandkassaleikinn frá Amsterdam, er mjög athugandi að túlka það svo, að tímabært sé að veita öðrum flugfélögum í staðinn leyfi til að fljúga á núverandi einkaleiðum Flugleiða innan lands og utan.

Reynsla Bandaríkjamanna sýnir, að aukið flugfrelsi fjölgar farþegum, eykur atvinnu, bætir þjónustu, magnar framleiðni og vinzar úr hin miður reknu flugfélög. Ákvörðun Steingríms er dálítið skref í þá réttu átt.

Orsök og afleiðing.

Armar flokkseigendafélags og stjórnarsinna á landsfundi sjálfstæðismanna deildu hart um, hvort stjórnarmyndunin væri orsök eða afleiðing klofningsins í flokknum. Báðir aðilar höfðu rétt fyrir sér að hálfu og að hálfu ekki.

Hjá stjórnarsinnum er rétt, að rætur klofningsins eru miklu eldri. Milli stuðningsmanna Geirs og Gunnars hefur löngum verið grimm valdabarátta, sem meðal annars hefur komið fram í þeirri mynd, sem Morgunblaðið hefur árum saman gefið Gunnari.

Ekki má heldur gleyma því dæmi frá næstsíðasta landsfundi, er flokkseigendafélagið reyndi að fella Gunnar úr sæti varaformanns. Auk þess hefur það látið semja valdataflsbók til að sýna fram á áratuga Gunnarseitrun í flokknum.

Auk persónuhatursins vilja sumir sjá málefnaágreining að baki þess ágreinings, sem orðinn var fyrir stjórnarmyndun, og vísa meðal annars til leiftursóknarinnar. En satt að segja vegur sá ágreiningur ekki þungt á metunum.

Hjá flokkseigendum er rétt, að stjórnarmyndun Gunnars magnaði klofninginn, sem áður var, um allan helming. Þá varð til sú þrískipting flokksins, sem einkenndi ofsafengnar deilur nýafstaðins landsfundar og virðist óbrúanleg.

Þetta mál er gott dæmi um, að sannleikurinn er oft ekki hvítur og svartur, heldur í einhverjum afbrigðum af gráu. Klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum er sumpart jafngamall ríkisstjórninni og sumpart miklu eldri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Marklaus málefni.

Greinar

Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur lýst andstöðu við, að fleiri en Flugleiðir fái að stunda áætlunarflug til útlanda. Þessi ályktun var borin Flugráði, þegar það fjallaði um beiðni Arnarflugs um flug til nokkurra borga Evrópu.

Eins og oftast, þegar á reynir, var þingflokkur sjálfstæðismanna andvígur frjálsri samkeppni og hlynntur einokun, einkum þó þeirri einokun, sem rekin er á kostnað skattgreiðenda. Um slík mál er mestur einhugur í þingflokknum.

Tveir áratugir eru síðan þingflokkur sjálfstæðismanna studdi frjálsa samkeppni, þegar hann féllst á tillögur Gylfa Þ. Gíslasonar, efnahagsráðherra í viðreisnarstjórninni. Síðan hefur myrkrið aftur skollið á í flokknum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir Framkvæmdastofnun ríkisins, svo framarlega sem þeir sitji þar sjálfir og skammti gjafafé úr vösum skattgreiðenda. Þeir vilja veg ríkisins sem mestan, svo að skömmtunarstjórar hafi sem mest völd.

Í ljósi hinna áþreifanlegu staðreynda er einkennilegt að sjá mörg hundruð fulltrúa einróma láta hafa sig að fíflum, landsfund eftir landsfund, með því að samþykkja hástemmdar yfirlýsingar um frjálsa verzlun og afnám einokunar.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er marklaus í öllum meginatriðum og hefur lengi verið svo. Samþykktir nýafstaðins landsfundar eru enn eitt dæmið um prump, sem þingflokkur sjálfstæðismanna mun ekki taka hið minnsta mark á.

Þess vegna er broslegt að heyra bláeyga sakleysingja kvarta um, að á landsfundi tali menn meira um menn en málefni og að ágreiningurinn í flokknum sé meira um menn en málefni, sem menn séu í stórum dráttum sammála um.

Það er ósköp ódýrt að vera á landsfundi hjartanlega sammála um ágæti einhverra málefna, sem þingmenn flokksins taka svo ekki minnsta mark á, þegar þeir hverfa aftur til síns sósíalíska raunveruleika.

Svo grunnmúruð er einokunar- og ríkisdýrkunin í þingflokki sjálfstæðismanna, að hið lengsta, sem Albert Guðmundsson getur gengið í uppreisn, er að sitja hjá í Flugráði, þegar starfsmenn Flugleiða ákveða þar framhald einokunar.

Marklaust Flugráð.

Algengasta tegund siðblindu hér á landi er sú trú margra, að þeir megi vera dómarar í eigin sök. Séu þeir gagnrýndir, hafa þeir uppi langt mál um efnisatriði, en virðast ekki skilja hinar lýðræðislegu forsendur.

Dagblaðið benti nýlega á, að háttsettur embættismaður rannsóknarlögreglunnar tók að sér að úrskurða í opinberu máli yfirmanns síns og undirmanna. Í svörum hans kom ekki fram neinn skilningur á hinu raunverulega vandamáli.

Tveir starfsmenn Flugleiða greiddu um daginn atkvæði í Flugráði gegn veitingu flugleyfis til Arnarflugs. Annar þeirra hefur síðan sagt, að þeir hafi ekki verið að gæta hagsmuna Flugleiða, heldur tekið efnislega afstöðu.

Í lýðræðisríkjum, öðrum en Íslandi, kæmi ekki til greina, að starfsmenn eins flugfélags séu settir í þann vanda að greiða atkvæði um flugleyfi annars. Séu þeir af tæknilegum ástæðum í slíkri valdastofnun, verða þeir að víkja í atkvæðagreiðslu.

Enda hefur Steingrímur Hermannsson flugmálaráðherra réttilega lýst yfir, að ekkert mark sé takandi á meðferð Flugráðs á þessu máli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Pólitískir kjarnaoddar.

Greinar

Heimsveldin tvö hafa þegar náð jafnvægi í ógnun kjarnorkuhernaðar. Þau geta lagt jörðina í eyði, ekki aðeins einu sinni og ekki bara tvisvar. Frekara kapphlaup þeirra í kjarnorkuviðbúnaði er að verulegu leyti sóun fjármuna.

Skiljanlegt er, að þau vilji smám saman endurnýja þessi tól, bæði með því að gera hittni þeirra nákvæmari og með því að vernda þau fyrir óvæntri skyndiárás hins heimsveldisins. Hvort tveggja ætti að draga úr árásarhneigð hins aðilans.

En Sovétríkin bæta ekki neitt að ráði stöðu sína í kapphlaupi kjarnorkuviðbúnaðar, þegar þau eru nú að koma sér upp 750 nýjum kjarnaoddum í meðaldrægum SS-20 eldflaugum, sem ná til Vestur-Evrópu, en ekki til Bandaríkjanna.

Allar langdrægar eldflaugar Sovétríkjanna ná til Evrópu, þótt áherzlan hafi verið lögð á, að þær nái til Bandaríkjanna. Kjarnaoddar þeirra geta lagt bæði Evrópu og Bandaríkin í eyði. SS-20 eldflaugarnar eru því hernaðarlega óþarfar.

Þegar menn tala um vopn, hneigjast þeir til að flokka þau í ákveðna pakka og tala um jafnvægi í hverjum pakka fyrir sig. Þessi flokkun hindrar þá í að skilja sveigjanleika á borð við notkun langdrægra eldflauga gegn meðalfjarlægum skotmörkum.

Vesturevrópskir friðarsinnar höfðu hægt um sig, þegar Sovétríkin hófu að koma sér upp þessum 750 kjarnaoddum, sem beint er gegn Vestur-Evrópu. Við tækjum meira mark á þeim nú, ef þeir hefðu þá mótmælt hressilega.

SS-20 eldflaugarnar sýna í hnotskurn tvískinnung friðarhreyfinga Vestur-Evrópu. Gagnrýni á flaugarnar er nú seint og um síðir bætt til málamynda aftan við mótmæli þessara hreyfinga gegn meðaldrægum eldflaugum Bandaríkjanna.

Miklu nær væri vesturevrópskum friðarsinnum að hugleiða, hvers vegna í ósköpunum Sovétríkin hafa komið sér upp rándýrum útbúnaði, sem breytir ekki sjálfsmorðsjafnvægi vígbúnaðarkapphlaupsins og er því hernaðarlega óþarfur.

SS-20 flaugarnar eru ekki dæmi um, að ráðamenn Sovétríkjanna séu skyndilega orðnir stríðsóðir. Þær eru raunar ekki hernaðarlegar, heldur pólitískar. Með þeim ætla heimsvaldasinnar einfaldlega að skjóta Vestur-Evrópubúum skelk í bringu.

Einhvern veginn virðist meiri sálræn ógnun felast í sérsmíðuðum vopnum, sem eingöngu er ætlað að hafa þig að skotmarki, heldur en í öflugri vopnum, sem geta haft bæði þig og hinn bandaríska bandamann að skotmarki.

Þetta hefur haft tilætluð áhrif, einkum í Bretlandi, Hollandi og Vestur-Þýzkalandi. Friðarhreyfingar nytsamra sakleysingja fylla raðir sínar fólki, sem finnst staðbundin kjarnorkustyrjöld vera á allra næsta leiti í Evrópu.

Markmiðið er, að þessar hreyfingar verði svo öflugar, að þær sveigi ríkisstjórnir Vestur-Evrópu til einhliða samdráttar í vígbúnaði, svo að Sovétríkin geti hægar beitt Vestur-Evrópu pólitískum þrýstingi.

Hitt gerir minna til, þótt þetta leiði til töluverðrar fækkunar hinna bandarísku, meðaldrægu Pershing-2 eldflauga með 570 kjarnaoddum, sem Atlantshafsbandalagið vill koma fyrir í Vestur-Evrópu á þessum áratug sem svar við SS-20.

Pershing-áætlunin er nefnilega hernaðarlega jafn óþörf og SS-áætlunin, af því að ekki er unnt að auka gereyðingarmáttinn umfram 100%. Meira máli skiptir, að íbúar Vestur-Evrópu láti Kremlverja ekki taka sig pólitískt á taugum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Landsfundar-pattið.

Greinar

Niðurstaðan var patt. Landsfundur sjálfstæðismanna var skemmtileg uppákoma í skammdeginu. Þar fengu armar flokksins tækifæri til liðskönnunar og burtreiða, án þess að úr neinu væri skorið, sem áhorfendum finnst máli skipta.

Liðskönnun og burtreiðar magna samstöðu innan flokksbrota og deyfa hana milli þeirra. Á þann hátt dýpkaði landsfundurinn klofning flokksins. Menn riðu af þingi hálfu sannfærðari en áður um, að sannleikurinn væri í þeirra eigin farangri.

Armarnir hafa náð fastara formi. Í flokksbrotunum hafa risið liðþjálfar og marskálkar, eins konar vísir apparats. Menn brýna vopn sín í kyrrþey og bíða harðvítugri burtreiða í prófkjörum og almennum kosningum.

Sambræðslur urðu með ýmsum hætti á landsfundinum. Flokkseigendafélagið og miðjumenn, þ.e. almennir andstæðingar ríkisstjórnarinnar, tóku saman höndum um vantraust á ríkisstjórnina og um endurkjör Geirs Hallgrímssonar formanns.

Hins vegar náðu miðjumenn og stjórnarsinnar saman í kosningu Friðriks Sophussonar varaformanns. Og loks stóðu allir armar saman að því að vísa frá svonefndum handjárnum á stjórnarsinna og fela þann vanda miðstjórn í hendur.

Öll flokksbrotin í burtreiðunum fengu nokkurn árangur. Beztur var árangur Geirs Hallgrímssonar, sem náði tveimur þriðju hlutum atkvæða til formennsku. Óhjákvæmilegt er að telja það góðan árangur í klofnum flokki.

Landsfundurinn vottaði Geir traust starfandi flokksmanna. Það vegur mjög á móti því vantrausti, sem almennir kjósendur flokksins hafa sýnt Geir í skoðanakönnunum, enda eru starfandi flokksmenn áhrifameiri en almennir kjósendur.

Stjórnarsinnar náðu sínum fjórðungi atkvæða, bæði í formannskjöri og í yfirlýsingu um vantraust á ríkisstjórnina. Raðir þeirra riðluðust ekki undir þrýstingi og þeir gátu sýnt frambærilegt formannsefni í Pálma Jónssyni.

Þá eignaðist Sjálfstæðisflokkurinn sinn Hamlet. – Að vera eða vera ekki – ræða Ellert B. Schram mun vafalaust varðveitast í ræðusögu Íslands sem dæmi um, hversu mikið drama og hversu mikil tilfinning getur leitt til niðurstöðu í núlli.

Ekki má þó gleyma, að framtak Ellerts eða framtaksleysi dró annars vegar úr líkum á öðru framboði miðjumanna til formanns og stuðlaði hins vegar að því andrúmslofti, sem síðar kom fram í varaformannskjöri Friðriks Sophussonar.

Lítil völd fylgja stöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún gefur ekki einu sinni öruggt fyrirheit um síðari formennsku. En hún vísar þó fram á veginn til kynslóðaskipta, – hefur eins konar táknrænt gildi.

Miðjumenn hagnýttu sér hina þægilegu stöðu í miðjunni og fengu atkvæði ríkisstjórnarsinna til að koma sínum frambjóðanda upp fyrir fulltrúa flokkseigendafélagsins í kosningunni um varaformann Sjálfstæðisflokksins.

Þar með tilkynntu miðjumenn, að valdamiðstöðin í flokknum skyldi ekki fá öll völd í sínar hendur, heldur mundu miðjumenn vera þar þátttakendur, sem taka yrði tillit til, þegar gengið verður til burtreiða á nýjan leik.

Ríkisstjórnin mun starfa áfram, flokkseigendafélagið mun áfram vilja aukin völd í minnkuðum flokki og miðjumenn munu áfram reyna að þreyja þorrann með drauminn um óklofinn stórflokk einhvern tíma í fjarlægri framtíð.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Líflegur landsfundur.

Greinar

Fulltrúar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins munu eiga ýmissa kosta völ, þegar kemur að kosningu formanns og varaformanns flokksins. Ný framboð koma fram annan hvern dag. Og enn fleiri bíða færis í sviptingum landsfundarins.

Valdamiðstöðin í flokknum nýtur takmarkaðs trausts, enda fjölgar þeim stöðugt, sem sjá, að stefna hennar er, að betra sé að hafa mikil völd í litlum flokki en lítil völd í stórum. Fyrir þetta er hún kölluð flokkseigendafélag.

Öflugustu framboðin á landsfundi eru einmitt frá þessu félagi. Geir Hallgrímsson er langbezta formannsefni þess, einfaldlega af því að hann er formaður fyrir og mörgum fulltrúum mun þykja þungbært að rísa gegn slíkum.

Ragnhildur Helgadóttir er ekki síður heppilegt framboð af hálfu flokkseigenda til varaformennsku. Hún fellur nákvæmlega að þeirri kröfu líðandi stundar, að nú loksins verði konur valdar til áhrifa, jafnvel að öðru ójöfnu.

Uppreisnarmenn og stjórnarsinnar koma í annarri sveit, sem alls ekki er eins sterk á landsfundi og hún er meðal almennra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. En hún vill samt sína liðskönnun á landsfundi.

Formannsefni þessa hóps er Pálmi Jónsson og varaformannsefni væntanlega Friðjón Þórðarson, þótt sá síðarnefndi hafi ekki enn, þegar þetta er ritað, gefið neina yfirlýsingu um slíkt. Bæði eru þessi framboð öflug.

Að baki svífur náttúrlega hinn einstæði töframaður íslenzkra stjórnmála, Gunnar Thoroddsen, sem orðinn er nánast þjóðhetja, þrátt fyrir gerðir, misgerðir og vangerðir ríkisstjórnar sinnar, – eða kannski vegna þeirra.

Á milli þessara fríðu hópa er á landsfundi mikill fjöldi fulltrúa, sem seint og illa verða dregnir í dilka. Fjölmennir eru þar fulltrúar, sem eru andvígir ríkisstjórninni, en hafa jafnframt glatað trúnni á Geir.

Mikilvægi þessa hóps sést bezt af því, að á morgni fyrsta landsfundardags höfðu fyrrverandi ráðherrar flokksins og aðrir hornsteinar hans ekki enn látið verða af því að lýsa stuðningi við núverandi formann.

Sumir í þessum hópi gætu hugsað sér að fara í framboð til formanns eða varaformanns, ef þær aðstæður mynduðust á landsfundi, að á þau framboð yrði litið sem málamiðlun, er sæmilega breiður hópur fulltrúa gæti sætt sig við.

Af hálfu stjórnarandstæðinga utan flokkseigendafélags hefur Ellert B. Schram gefið hálfa yfirlýsingu um framboð í formennsku og Friðrik Sófusson heila yfirlýsingu um framboð í varaformennsku. Báðir höfða til ungra fulltrúa.

Erfiðara er að staðsetja framboð Sigurgeirs Sigurðssonar til varaformanns. Hann er ekki Engeyingur og ekki beinlínis í flokkseigendafélaginu, en stendur þó nálægt því og gæti dregið sig í hlé í þágu Ragnhildar.

Frá því að þetta er ritað og þangað til það er lesið, geta frambjóðendur verið orðnir fleiri eða færri. Sjálfur landsfundurinn verður svo vettvangur tilrauna til bandalaga milli einstakra hópa, til dæmis um gagnkvæman stuðning.

Þegar kemur að atkvæðagreiðslu á sunnudaginn, geta frambjóðendur verið orðnir allt aðrir en þeir, sem hér hafa verið nefndir. Fulltrúar geta alls ekki kvartað um, að líf og fjör og leiki skorti í flokki þeirra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Vilja fé til flugstöðvar.

Greinar

Almenningsálitið á Íslandi er fylgjandi þeirri helmingsþátttöku Bandaríkjanna í kostnaði við gerð nýrrar flugstöðvar í Keflavik, sem samið hefur verið um. Þetta kom fram í nýlegri skoðanakönnun Dagblaðsins.

Fólk hefur almennt gert upp hug sinn til málsins. Aðeins 5% hinna spurðu sögðust vera óákveðnir og aðeins 10% vildu ekki svara. Þetta eru mjög lágar hlutfallstölur, gerólíkar þeim, sem við höfum séð í óljósri afstöðu fólks til flokkanna.

64% stuðningur og 21% andstaða við kostnaðarþáttökuna sýna líka skörp skil. Sá fimmtungur þjóðarinnar, sem er andvígur þáttökunni, er að verulegu leyti sami hópurinn og stuðningsfólk Alþýðubandalagsins.

Í skoðanakönnunum hefur árum saman komið í ljós, að fimmtungur eða fjórðungur þjóðarinnar er andvígur dvöl bandaríska hersins og þáttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Sami, fasti minnihlutinn kemur einnig fram í þessari könnun.

Viljayfirlýsing almennings er skýr. 76% þeirra, sem lýsa skoðun, eru fylgjandi kostnaðarþátttöku Bandaríkjanna og 24% eru henni andvígir. Samkomulagið styðja flestir óháðir kjósendur og kjósendur annarra flokka en Alþýðubandalagsins.

Niðurstaðan sýnir í hnotskurn, að það eru mál, sem varða Keflavíkurflugvöll, er greina milli kjósenda Alþýðubandalagsins annars vegar og hins vegar kjósenda þeirra flokka, sem stundum eru kallaðir lýðræðisflokkar eða þá hernámsflokkar.

Niðurstaðan sýnir líka, að neitunarvald Alþýðubandalagsins í ríkisstjórninni gegn viðtöku peninga frá Bandaríkjunum stríðir gegn almenningsálitinu í landinu og skoðunum stuðningsmanna hinna tveggja afla ríkisstjórnarinnar.

Spurt var um helmingsþátttöku, af því að það er niðurstaða samkomulags milli Bandaríkjanna og Íslands. Í svörum fjölmargra kom þó fram, að þeir vildu gjarna, að kostnaðarhlutdeild Bandaríkjanna væri enn meiri.

Einnig vísuðu menn til svonefndrar aronsku, sem felst í stuðningi við auknar greiðslur af hálfu Bandaríkjanna, einkum á sviðum, sem telja mætti til almannavarna, svo sem varanlega vegagerð og smíði neðanjarðarbyrgja.

Skoðanakönnunin sýnir, að aronskan er við góða heilsu, þrátt fyrir lítið umtal á allra síðustu árum. Væntanlega verður það tilefni þess, að Dagblaðið kanni fylgi aronskunnar sérstaklega við fyrstu hentugleika.

Fyrir nokkrum árum mátti í grófum dráttum segja, að 70% þjóðarinnar styddi aronsku og að rúmlega helmingur afgangsins væri andvígur dvöl bandaríska herliðsins og þáttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Skoðanakönnunin bendir einnig til, að svonefnd friðarhreyfing í Evrópu, sem sumir vilja kalla uppgjafarhreyfingu, nýtur ekki mikils fylgis hér á landi og ekki meira fylgis en verið hefur um langan aldur. Hún hefur verið sérvizka og er enn.

Almenningur telur, að kostnaðarþáttaka Bandaríkjanna í flugstöðinni sé eðlileg afleiðing aðgreiningar borgaralegs og hernaðarlegs flugs, af hönnun stöðvarinnar sem loftvarnabyrgis og af yfirtöku hersins á gömlu flugstöðinni.

Þetta almenningsálit nær hins vegar ekki fram að ganga að sinni, af því að Alþýðubandalagið hefur komið þeirri ár sinni fyrir borð í ríkisstjórninni, að það hafi neitunarvald gegn umtalsverðum breytingum þar syðra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ritskoðun Pósts og síma.

Greinar

Ekki er nóg forsmánin, að póstburðarfólk hafi neitað að bera út blað, heldur er haldinn fundur með aðstandendum þess, þar sem óskað er, að þeir biðjist afsökunar á skoðunum sínum! Þetta gerðist ekki í Uganda, heldur í Kópavogi.

Skyldum við næst eiga von á, að einhver rútubílstjórinn og sérleyfishafinn neiti að dreifa einhverju dagblaðinu, til dæmis af því að það hafi verið andvígt nýjustu umsókn sérleyfishafa um tiltekna prósentuhækkun fargjalda?

Það er ekki í verkahring Pósts og síma eða einstakra starfsmanna og sérleyfishafa þessarar einkaréttarstofnunar að ákveða, hvort efni, sem fer um hendur hennar, feli í sér réttar skoðanir eða rangar, hæfar skoðanir eða vanhæfar.

Pósti og síma hefur sem einkaréttarstofnun verið falið að sjá um dreifingu hljóðvarps, sjónvarps og prentaðs máls, hvort sem eitthvað af þessu efni er stofnuninni eða einstökum starfsmönnum hennar að skapi.

Allt öðrum stofnunum í þjóðfélaginu hefur verið falið að ákveða, hvort skoðanir varði við lög eða ekki. Á það reynir mjög sjaldan, af því að samkeppni ríkir í prentuðu máli og auðvelt er að koma gagnskoðunum á framfæri.

Hafi starfsmenn Pósts og síma eitthvað við að athuga gagnrýni blaðs á fáránlega lélegum útburði og nenni þeir ekki að koma svörum sínum á framfæri, geta þeir snúið sér til dómstóla. En þeir geta ekki tekið að sér dómsvaldið.

Sem harðskeyttur samningsaðili á vinnumarkaði þarf prentarastéttin stundum að sæta harðvítugri gagnrýni í prentuðum fjölmiðlum. Aldrei hefur samt heyrzt, að prentarar teldu í sínum verkahring að ritskoða ósanngjarna gagnrýni.

Sennilega er ekki hægt að ætlast til, að allt starfsfólk Pósts og síma hafi stjórnarskrána á rúmstokknum. Hins vegar á að vera hægt að krefjast af þeim, sem komast þar til mannvirðinga, að þeir láti Kópavogsatburði ekki gerast.

Fyrstu viðbrögð Pósts og síma við ritskoðun póstburðarfólks í Kópavogi voru þau, að hún væri að vísu ekki rétta leiðin, en skiljanlega þætti fólkinu sárt að þurfa sjálft að bera út gagnrýni á eigin verk!

Lin og léleg viðbrögð ráðamanna Pósts og síma, allt frá umdæmisstjóra upp í forstjóra, eru dæmi um, að þeir eru ekki hæfir til að halda uppi einkarétti stofnunarinnar. Og ráðherra er samsekur, nema hann veiti þeim ærlegt tiltal.

Getuleysi Pósts og síma.

Athyglisvert er, að dagblöðin forðast eftir mætti að nota þjónustu Pósts og síma. Í þéttbýli nota þau eigin dreifingarkerfi og að nokkru leyti einnig í dreifingu frá Reykjavík til annarra þéttbýlisstaða.

Sumpart stafar þetta af því, að þjónusta Pósts og síma er of dýr, jafnvel þótt sérstakir taxtar gildi um prentað mál. En einkum er þessi þjónusta að hluta til of svifasein fyrir blöð, sem þurfa að vera samdægurs á leiðarenda.

Þessi viðhorf dagblaðanna eru dæmi um, að mikilvægir þættir íslenzkrar póstþjónustu eru í ólestri, svo sem oftast vill verða, þegar einkaréttarstofnun nýtur hvorki aðhalds að utan né stjórnunar að innan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kröfur hins sterka.

Greinar

Hreyfingin gegn auknum kjarnorkuviðbúnaði á Vesturlöndum byggist meðal annars á tveimur röngum forsendum. Hin fyrri er, að Sovétríkin hafi látið af heimsvaldastefnu, og hin síðari, að jafnvægi sé í kjarnorkuviðbúnaði.

Ráðamenn Sovétríkjanna eru engan veginn stríðsóðir. Og þeir eru hættir að lesa Marx og Lenín kvölds og morgna. En eigi að síður eru þeir enn sannfærðir um, að þeim beri að vinna að óhjákvæmilegum heimssigri skipulags þeirra.

Heimsvaldastefna Sovétríkjanna kemur í bylgjum eftir aðstæðum hverju sinni. Tímabilum útþenslu fylgja tímabil slökunar, þegar sáð er til nýrrar útþenslu, meðal annars með því að svæfa Vesturlönd á verðinum.

Einn mikilvægasti þáttur þessarar heimsvaldastefnu er hinn óbeini þrýstingur. Sovétstjórnin þarf ekki að senda hermenn til Vestur-Evrópu til að ná þar ítökum. Henni nægir að sýna fram á hernaðarlega yfirburði.

Nú er í hámarki ein af mörgum friðarsóknum Sovétríkjanna. Hún miðar eins og hinar að því að gera Vestur-Evrópu hálf-hlutlausa, reka fleyg milli hennar og Norður-Ameríku, til dæmis með því að gera Vestur-Evrópu kjarnorkuvopnalausa.

Því hernaðarlega veikari sem Vestur-Evrópa verður og því þreyttari sem Bandaríkjamenn verða á að sjá um varnir Evrópu, þeim mun meira munu ráðamenn Vestur-Evrópu hneigjast að tillitssemi við hagsmuni Sovétríkjanna.

Litli kallinn, sem lifir í skugga hins stóra og vopnaða, neyðist alltaf til að taka tillit til hagsmuna hins stóra. Hann verður fyrst að haga hinum ytri samskiptum samkvæmt því og síðan einnig breyta eigin heimilishögum.

Fásinna er að halda, að Sovétríkin muni láta hlutlausa eða hálf-hlutlausa Vestur-Evrópu í friði. Ráðamönnum Sovétríkjanna mun framvegis eins og nú telja sér stafa hætta af velmegun og auði Vesturlanda og sér í lagi af hugsjónum þeirra.

Til að vernda fanga sína fyrir hugsjónum Vesturlanda, hugsanahætti og hagkerfi, þykjast ráðamenn Sovétríkjanna þurfa að ná skugga sínum á loft í Vestur-Evrópu, bæði til að hemja hættuna við rætur hennar og hindra útþenslu hennar.

Eina leiðin til að halda skugga Sovétríkjanna frá Vestur-Evrópu er að hafa aðstöðu til að svara hernaðarlega í sömu mynt. Hernaðarlegt jafnvægi er hið eina, sem heldur aftur af heimsvaldastefnu ráðamanna Sovétríkjanna.

Langt er síðan Bandaríkin höfðu yfirburði í kjarnorkuviðbúnaði. Upp á síðkastið eru það Sovétríkin, sem hvað eftir annað hafa verið fyrst til að færa kjarnorkuviðbúnað á nýtt og stærra svið. SS-eldflaugarnar eru nýjasta dæmið.

Athyglisvert er, að félagar heimsfriðarráða og lúterskra friðarráða og annarra samtaka nytsamra sakleysingja fóru engar gönguferðir né héldu neina mótmælafundi, þegar Sovétríkin beindu þessum meðaldrægu kjarnorkuflaugum að Vestur-Evrópu.

Hitt er svo rétt, að jafnvægi í viðbúnaði þarf ekki nauðsynlega að felast í tölulegum samanburði kjarnaodda og annarra hergagna. Vesturlönd geta haldið jafnvægi með færri tólum, ef þau nægja til að halda aftur af Sovétstjórninni.

En óþægilegast er að hugsa til, að ráðamenn Sovétríkjanna velti fyrir sér, hvort þeir muni næstu árin hafa mátt til að veita Vesturlöndum þvílíkt högg, að Sovétríkin muni lifa af svarið. Slíkum mætti fylgir nefnilega kröfuharka.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Akranes tekur forustuna.

Greinar

Sameiginlegt prófkjör stjórnmálaflokkanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar verður haldið á Akranesi í janúar. Þátttakendur fá afhenta kjörseðla með nöfnum frambjóðenda allra flokka, en mega aðeins merkja við hjá einum flokki.

Þetta er mikil framför frá þeim prófkjörum, sem hingað til hafa verið haldin. Það auðveldar flokkunum að hafa þau opin almennum stuðningsmönnum, sem ekki vilja gerast formlegir félagsmenn með skírteini og stimpil.

Með sameiginlegu prófkjöri er tryggt, að kjósendur taki aðeins þátt í prófkjöri eins flokks, hafi aðeins áhrif á skipun þess framboðslista, sem þeir hyggjast styðja. Þar með er úr sögunni veigamikil gagnrýni á opin prófkjör.

Hingað til hafa opin prófkjör verið auðveldari hjá fjölmennum stjórnmálaflokkum eins og Sjálfstæðisflokknum heldur en fámennum á borð við Alþýðuflokkinn. Akranesfordæmið gerir öllum flokkum kleift að hafa opið prófkjör.

Menn, sem fara milli flokka í prófkjöri, hafa ekki haft marktæk áhrif í Sjálfstæðisflokknum, af því að þeir hafa drukknað í fjöldanum. Hins vegar er hugsanlegt, að slíkir hlaupamenn hafi getað haft áhrif hjá Alþýðuflokknum.

Samkomulag stjórnmálaflokkanna á Akranesi er því mjög til fyrirmyndar. Það sýnir, að til eru framámenn í stjórnmálum, sem eru reiðubúnir til samstarfs yfir flokksmörk til að efla forsendur lýðræðis í landinu.

Næsta skref á þessari lýðræðisbraut er að fá alþingi til að sameina prófkjör og kosningar með því að lögfesta – eða lögleyfa að minnsta kosti – óraðaða lista, svo að kjósendur lista geti sjálfir raðað frambjóðendum hans.

Hingað til hafa verið dæmi þess, að þeir, sem hafa orðið undir í prófkjöri, reynast linir í baráttu fyrir þann lista, sem þeir hafa tekið þátt í að velja. Þetta hefur verið notað gegn prófkjörum, bæði hinum opnu og lokuðu.

Ef enginn veit niðurstöðu prófkjörs, fyrr en niðurstaða sjálfra kosninganna er fengin, væri afnumin hin síðari af tveimur mótbárum, sem prófkjör hafa hingað til þurft að sæta. Og lýðræðið fengi byr undir báða vængi.

Samkomulag stjórnmálaflokkanna á Akranesi er mikilvægur frelsiskyndill í skammdeginu, ánægjuleg andstæða auvirðilegs og fyrirlitins flótta Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá áralangri og flekklausri hefð opinna prófkjara

Loks hugsað um aldraða.

Stofnun Öldrunarráðs Íslands markar tímamót í tilraunum manna til að koma á endurbótum í málaflokki, sem hingað til hefur verið sorglega vanræktur. Í ráðinu hefur náðst samstarf allra aðila, sem þegar vinna að málum aldraðra.

Jafnframt hafa þingmenn úr ýmsum flokkum tekið vel tillögu Péturs Sigurðssonar og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins um, að alþingi skipi sjö manna nefnd til að sjá um aðgerðir á ári aldraðra, sem verði 1982.

Þá hefur Helgi Seljan endurflutt tillögu sína um, að reynt verði að nýta bújarðir, sérstaklega ríkisjarðir, sem dvalarheimili fyrir aldraða. Og loks starfar um þessar mundir stjórnskipuð nefnd að frumvarpsbálki um öldrunarmál.

Af öllu þessu má sjá, að senn má vona, að hin vanræktu öldrunarmál komist í sviðsljósið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Tveir með reisn.

Greinar

Þátttaka í stjórnmálum er ekki alltaf örugg leið til óvinsælda. Ráðherrarnir Gunnar Thoroddsen og Ólafur Jóhannesson afsönnuðu það í skoðanakönnun Dagblaðsins, þar sem fólk var spurt, hvaða stjórnmálamann það teldi merkastan.

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra varð raunar langefstur með 160 atkvæði af 600 í fyrsta sæti og samtals 218 atkvæði í þau þrjú sæti, sem gefinn var kostur á. Samkvæmt þessu er Gunnar í miklum metum hjá rúmum þriðjungi kjósenda.

Ólafur Jóhannesson utanríkisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra fylgdi í humátt á eftir Gunnari með 82 atkvæði í fyrsta sæti og samtals 142 atkvæði í sætin þrjú. Ólafur er þannig í miklu áliti hjá tæpum fjórðungi kjósenda.

Hvorugur þessara manna er forustumaður stjórnmálaflokks. Ólafur hefur afsalað völdum í Framsóknarflokknum til Steingríms Hermannssonar og Gunnari Thoroddsen hefur aldrei verið hleypt að raunverulegum völdum í Sjálfstæðisflokknum.

Vinsældir Gunnars eru enn athyglisverðari fyrir þá sök, að hann situr ekki á friðarstóli í flokki sínum eins og Ólafur, heldur er hann uppreisnarmaður, sem þarf að sæta versta umtali íslenzkra stjórnmálamanna.

Um aðra er ekki að ræða í þessum samanburði. Stökkið frá þessum tveimur vinsældakóngum niður í venjulega flokksformenn og ráðherra er svo gífurlegt, að það sker beinlínis í augu. Að Gunnari og Ólafi frátöldum ríkir tómið eitt.

Alþýðubandalagið virðist þó hafa komizt lengst í kynslóðaskiptum í forustunni. Af stjórnmálamönnum þess er hinn nýlegi formaður, Svavar Gestsson, langefstur, í þriðja sæti með 54 atkvæði samtals. Þar skyggir enginn flokksbróðir á hann.

Hinir tveir ungu ráðherrar Alþýðubandalagsins eru í hæfilegri fjarlægð, en þó langt ofar öðrum flokksmönnum. Hjörleifur Guttormsson er í sjöunda sæti með 23 atkvæði og Ragnar Arnalds í níunda sæti með 15 atkvæði.

Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, geldur hugsanlega vinsælda forvera síns. Hann er þó í fjórða sæti könnunarinnar með 40 atkvæði og ekki einn einasta annan framsóknarmann við sjóndeildarhringinn.

Einn þekktasti uppreisnarmaður íslenzkra stjórnmála, Albert Guðmundsson, er í fimmta sæti með 28 atkvæði. Hann er annar af tveimur lítt þægum sjálfstæðismönnum, sem fær í könnuninni betri útkomu en sjálfur flokksformaðurinn.

Geir Hallgrímsson getur engan veginn talizt sæmdur af sjötta sætinu á 28 atkvæðum, þar af aðeins 9 í efsta sæti. Hann er þó formaður langsamlega fjölmennasta og vinsælasta stjórnmálaflokks í landinu.

Af sjálfstæðismönnum koma næstir ráðherrarnir Friðjón Þórðarson með 8 atkvæði og Pálmi Jónsson með 7 atkvæði, svo og Matthías Bjarnason með 7 atkvæð. Þannig mega uppreisnarmenn einnig vel við una í annarri víglínu.

Hinn flokkurinn, sem á við forustuvanda að stríða, er Alþýðuflokkurinn, þar sem Vilmundur Gylfason náði áttunda sætinu á 17 atkvæðum meðan Kjartan Jóhannsson flokksformaður varð að sætta sig við tíunda sætið á 15 atkvæðum.

Skoðanakönnun Dagblaðsins bendir til, að þessir 13 nafngreindu menn séu hinir raunverulegu stjórnmálamenn landsins og að þar af séu aðeins tveir, sem hafi umtalsverða reisn umfram hið gráa meðallag.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þingmenn á villigötum.

Greinar

Lýðræði er langskásta þjóðskipulag, sem upp hefur verið fundið. Það er eina skipanin, sem felur í sér verulega endurnýjunarhæfni. Það er eina ræðið, sem gerir byltingar og kollsteypur óþarfar, af því að það felur í sér hægfara síbyltingu.

Íslendingar geta hrósað happi að vera í hópi um það bil 25 lýðræðisríkja í heimi 150 ríkja heims. Það eru sérstök forréttindi að fá að búa við sæmileg mannréttindi, dálítið frelsi og töluverðan jöfnuð með borgurum ríkisins.

Hjá sumum lýðræðisþjóðum kristallast lýðræðið í kjöri forseta. Hjá öðrum kristallast það í kjöri þings, sem síðan velur þjóðinni ríkisstjórn. Við búum við síðara kerfið, sem virðist nokkurn veginn jafn gjaldgengt og hið fyrra.

Eigi að síður er lýðræði okkar ekki eins virkt og það ætti að vera. Við kjósum fulltrúa okkar með hangandi hendi og bölvum ýmist í hljóði eða upphátt yfir því, að í rauninni sé ekki um neitt að velja. “Þeir bregðast allir,” segjum við.

Stjórnmálin minna á vængjahurðir hótela. Flokkarnir eru ýmist úti eða inni. Utan stjórnar stunda þeir ábyrgðarlaust lýðskrum, en innan stjórnar ábyrgðarfull íhaldsúrræði. Að baki mismunandi kenninga eru fjórir eins flokkar.

Hvassviðrin á alþingi, sem síðan enduróma í fjölmiðlum, eru að töluverðu leyti marklausar leiksýningar, þar sem leikararnir skipta léttilega um hlutverk við stjórnarbreytingar. Enda líta þeir á sig sem lífsreynda atvinnumenn.

Einn bezti kostur íslenzkra þingmanna er, að þeir eru ekki fjárhagslega spilltir. Mútuþægni hefur blessunarlega aldrei orðið plagsiður hér á landi, þótt hún hafi lengi tíðkazt víða erlendis, jafnvel í lýðræðisríkjum.

Með þessum orðum er ekki verið að hreinsa íslenzka stjórnmálamenn af fjármálalegu misferli. Því miður felst starf þeirra í reynd að töluverðu leyti í misferli, þótt þeir séu yfirleitt ekki að reyna að auðgast sjálfir.

Íslenzkir stjórnmálamenn eru önnum kafnir við að skipuleggja og millifæra, gefa fé og lána, niðurgreiða og bæta upp, ríkisstyrkja og -ábyrgjast, veita leyfi og ráða fólk. Það er eins og þeir haldi sig vera framkvæmdastjóra fyrirtækis.

Sumir þingmenn eru ráðherrar. Aðrir sitja í bankaráðum og sjóðastjórnum. Enn aðrir sitja í nefndum, sem vasast í að stjórna hlutum, þótt það sé verkefni, sem er sízt við hæfi nefnda. Og allir eru þeir með þessu að brenna peningum.

Ekki verður hjá því komizt, að sumir stjórnmálamenn séu ráðherrar. Að öðru leyti ættu þeir að venja sig af því að vera með puttana ofan í öllu, því að það er yfirleitt til tjóns. Í staðinn ættu þeir að vanda sig betur við smíði laga.

Árangur athafna stjórnmálamanna er einkennilegt hagkerfi, þar sem sjávarútvegur er ekki rekinn, heldur reiknaður á núll, – þar sem landbúnaður trónir efst í gulltryggðum reikningsstóli, – þar sem iðnþróun er nánast bönnuð í raun.

Árangurinn felst líka í einokunarstofnunum, sem kasta tómötum á haugana, – ríkisstyrktum hallærisfyrirtækjum, sem bráðum verða ríkisrekin – og í endalausri röð opinberra bitlinga handa flokksbræðrum, vinum og vandamönnum.

Þegar ástandið er orðið þannig, að hálf þjóðin afneitar flokkunum samkvæmt skoðanakönnunum, er orðið tímabært fyrir stjórnmálamenn að hætta að kenna fjölmiðlum um lánleysi sitt og byrja að haga sér eins og stjórnmálamenn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið