Greinar

Þegar “allir” vita.

Greinar

Næst á eftir landbúnaði er einna leiðinlegast að fjalla um Flugleiðir hér í leiðurum. Á þessum tveimur sviðum er einna erfiðast að koma að heilbrigðri skynsemi, því að við freka og rökhelda þrýstihópa er að etja.

Talsmenn slíkra þrýstihópa láta sér ekki nægja lítt rökstuddar fullyrðingar að hætti stjórnmálamanna, heldur eru þeir ófeimnir við að setja fram alrangar fullyrðingar þvert á allar staðreyndir málsins, svo sem nýleg dæmi sanna.

Sem stjórnmálamaður segir Steingrímur Hermannsson flugmálaráðherra, að tap sé á innanlandsflugi Flugleiða. Þessi fullyrðing er ekki beinlínis röng, heldur aðeins óviss, því að ráðherrann er að tala um bókhaldsatriði.

Enginn veit, hvort Snorri Sturluson hefur kostað sjónvarpið tvær eða fimm milljónir króna. Það fer eftir, hvernig reiknað er. Hið sama gildir um innanlandsflug Flugleiða. Ekki er sama, hvar fastakostnaðurinn er bókfærður.

Síðan talsmenn Flugleiða fóru að taka aukinn þátt í umræðu um flugfrelsi, hefur umræðan færzt á lægra svið. Leiðinlegt er að þurfa að leggja sig niður við að hrekja falsið, en þó verður stundum ekki hjá því komizt.

Einn kunnasti flugmaður fyrirtækisins sagði nýlega í blaði: “Eins og allir þekkja hefur hin svonefnda “Open-Sky”-stefna Carters … orðið til þess, að nánast öll flugfélög þar vestra hafa orðið að draga saman seglin.”

Málsgrein flugmannsins hefst á orðunum “Eins og ALLIR þekkja”. Lífsreyndir menn staðnæmast jafnan við þennan blákulda, sem mjög oft er skeytt framan við fullyrðingar, er raunar engir þekkja, af því að þær eru kolrangar.

Flugfrelsið í Bandaríkjunum hefur þvert á móti aukið flugveltuna. Mörg gömul offitu-flugfélög hafa orðið að draga saman seglin, en hjá yngri og dugmeiri flugfélögum hefur aukningin orðið mun meiri en sem því nemur.

Þar gildir gamla, góða markaðsreglan, að lækkað verð hefur í för með sér aukinn farþegafjölda langt umfram lækkaða verðið. Heildarveltan eykst í flugi, flugfélög vanda betur reksturinn og neytendur njóta góðs.

Einn framkvæmdastjóra Flugleiða sagði nýlega í blaði: “Ég mun … sýna fram á, að “flugkakan” … um áætlunarflugið er ekki til skiptanna og að samgöngum okkar sé betur borgið með einu sterku félagi heldur en mörgum veikburða.”

Gallinn við þessa röksemdafærslu er, að ekki er til nein tiltölulega fastmótuð “flugkaka”. Aukin samkeppni lækkar verð og stækkar flugkökuna, svo sem reynslan hefur sýnt í amerísku flugi og á öðrum sviðum lífsbaráttu í viðskiptum.

Þegar Icecargo fór að fljúga á lágum fargjöldum til Amsterdam og Flugleiðir fóru að herma eftir, var hin svonefnda “flugkaka” stækkuð. Ef Arnarflug fær að fljúga til Evrópu, mun þessi kaka stækka enn frekar.

Vel getur verið, að talsmenn Flugleiða geti hermt upp á núverandi ríkisstjórn heimskuleg einokunarloforð, sem löngu liðin ríkisstjórn gaf í trássi við hagsmuni almennings og íslenzks flugs. Enda gera þrýstarar Flugleiða það óspart.

Því má skjóta á ská þeirri ábendingu til stjórnmálamanna í valdastólum, að þeir eru þar til að gæta hagsmuna almennings, efla samkeppni og auka íslenzkt flug, en ekki til að þjónusta illa stjórnuð fyrirtæki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Út skal illt blóð.

Greinar

Sláturtíðin er hafin í Sjálfstæðisflokknum. Nú telur flokkseigendafélagið sig loksins hafa nægan styrk til að láta sverfa til stáls og losa flokkinn við hið illa blóð, sem allt of lengi hafi fengið að renna um æðar hans.

Embættismenn flokksins hafa reiknað niðurstöður kosninga til landsfundar og telja þær flokkseigendum hagstæðar. Ekki sé þar að vísu blóðþyrstur meirihluti, en nógu margir þó, sem reynast muni forustunni tryggir á örlagastund.

Fræg Morgunblaðsgrein Gísla Jónssonar menntaskólakennara er bezta dæmið um þá spennu, sem hefur hlaðizt upp í tíð núverandi ríkisstjórnar. Greinin minnti á vestfirzka píslarsögu frá galdraöld, svo geigvænlegur var Óvinurinn.

Hin vanstillta grein sýnir vel, hversu djúpt hatrið er orðið á Gunnari Thoroddsen og öllum hans árum, Albert Guðmundssyni og öllum hans árum. Og hún fékk auðvitað þann viðhafnarsess og það viðhafnarform, sem blaðinu þótti hæfa.

Jafnframt hefur ríkisstyrkt málgagn flokkseigendafélagsins fikrað sig út í ritbann á greinum frá sumum þeim sálum, sem leiðzt hafa til fylgis við Óvininn mikla og vilja halda uppi vörnum fyrir hans svarta og synduga atferli.

Sigurður Hafstein er látinn setja fram tillögur um framhald hinna opnu prófkjara, sem tíðkazt hafa í Sjálfstæðisflokknum, svona til að búa til logn fyrir storminn, sem varð svo á fundi fulltrúaráðsins í Reykjavík.

Fundardaginn birtist í viðhafnarsæti og viðhafnarformi málgagns rétttrúaðra grein Jónasar Elíassonar um lokun prófkjara. Og síðan kom Sigurður á fundinn með skrifaða ræðu um hin illu áhrif eigin tillögu um opið prófkjör.

Reiði réttlætisins beinist ekki aðeins að Óvininum og árum hans, heldur öllum þeim, sem í óviðurkvæmilegu léttlyndi hafa látið undir höfuð leggjast að þylja heitstrengingar á hverjum morgni, – að hinum veiklunduðu meðreiðarsveinum.

Friðrik Sófusson er ekki talinn hafa verið nógu skeleggur gegn hinu illa og Guðmundur Karlsson er grunaður um fylgi við Friðrik. Hinni heilögu reiði hefur lostið niður og hún brennt fjárveitinganefndarstól Guðmundar.

Hinir veiklunduðu sjá nú ritað á vegginn, að pólitískir dagar þeirra kunni einnig að vera taldir, ef þeir ekki sjái að sér, geri iðrun og yfirbót og fari að þylja píslarsögur Gísla Jónssonar og Halldórs Blöndal á hverju kvöldi.

Árarnir illu skulu úr flokknum. Þeir mega gjarnan rotta sig saman um sérstök framboð, beint eða óbeint undir sjálfstæðisnafni. Aðalatriðið er, að þeir eru “að minnsta kosti miklu minni sjálfstæðismenn” eins og Matthías Bjarnason orðar það.

Hið hreina orð má ekki litast af villutrúarsetningum. Sjálfstæðisflokkurinn má minnka, því að reikull fjöldinn skiptir minna máli en hin hreina hjörð stuðningsmanna flokkseigenda undir merki leiftursóknar.

Sumir efasemdarmenn flokksins munu nú beygja sig undir vald flokkseigenda, – með það að leiðarljósi, að flokkurinn sé langur, en flokkseigendafélagið stutt, og að friður sláturtíðar sé betri en enginn friður.

Aðrir munu gæla við áhættuna af sérstökum framboðum, haldnir ótta við, að sagan hafi lítið dálæti á slíku og láti þau stundum fjara út í tímans rás. Það er einmitt útkoman, sem flokkseigendafélagið reiknar með.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kjarkur og harka vex.

Greinar

Stjórnarandstæðingar meðal sjálfstæðismanna hafa sótt sig í veðrið í skoðanakönnunum Dagblaðsins á þessu ári. Í janúar voru þeir töluvert færri en stjórnarsinnar sama hóps, en eru nú í október orðnir mun fleiri.

Í janúar voru líka vinsældir ríkisstjórnarinnar í hámarki eftir efnahagsaðgerðir áramótanna. Ef litið er til lengri tíma, eitt ár aftur í tímann, hafa stjórnarandstæðingar í hópi sjálfstæðismanna ekki eins mikla ástæðu til að fagna.

Á einu ári hefur hlutfall þeirra aðeins aukizt úr 44% í 45%. Það, sem gerzt hefur, er, að margir fyrrverandi stjórnarsinnar í flokknum hafa orðið óákveðnir í afstöðu sinni, en hafa ekki skipt yfir á væng stjórnarandstæðinga.

Stjórnarsinnum hefur á einu ári fækkað úr 37% í 30% sjálfstæðismanna, meðan hinum óákveðnu kjósendum flokksins hefur fjölgað úr 19% í 25%. Þetta er hin marktæka breyting, sem orðið hefur á viðhorfum sjálfstæðismanna til stjórnarinnar.

Tölurnar 45% andvígir, 30% fylgjandi og 25% óákveðnir segja ekki alla söguna um skiptinguna. Til dæmis hafa hingað til margir sjálfstæðismenn reynzt í könnunum blaðsins vera andvígir ríkisstjórninni, en fylgjandi einstökum ráðherrum.

Hitt skiptir þó mun meira máli, að sjálfstæðismaður er ekki nákvæmlega hið sama og sjálfstæðis-flokksmaður. Skiptingin meðal flokksbundinna manna er án efa miklum mun hagstæðari stjórnarandstöðunni en hér kemur fram að ofan.

Með dálítilli ónákvæmni mætti skipta sjálfstæðismönnum í hina hreintrúaðri flokksbundna og hina breiðtrúaðri óflokksbundna. Og stjórnarandstaðan er auðvitað eindregnari meðal þeirra, sem formlega teljast til flokksins.

Óbeint endurspegla þó tölur könnunarinnar þá stað- reynd, að stjórnarandstæðingar hafa undirtökin í Sjálfstæðisflokknum sem stofnun. Þessi undirtök eru ekki áberandi utan Reykjavíkur, en eru mjög eindregin í Reykjavík, sem ræður úrslitum.

Atkvæðagreiðsla fulltrúaráðsins um prófkjör var mælikvarði á styrkleika. Við venjulegar aðstæður hefði mátt telja hana efnislegt val hálflokaðs prófkjörs í stað opins, en núna fólst í henni valdabaráttan í flokknum.

Augljóst er, að menn á borð við Gunnar Thoroddsen og Albert Guðmundsson fá mun hærra hlutfall meðal óflokksbundinna sjálfstæðismanna en flokksbundinna, öfugt við menn á borð við Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson.

Nærtækasta niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er, að staða Davíðs styrkist á kostnað Alberts í fyrirhuguðu prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Og til þess voru einmitt refirnir skornir í fulltrúaráðinu.

Þessi sprengja er gott dæmi um, að forustumenn stjórnarandstöðunnar í Sjálfstæðisflokknum telja sig hafa hagstæðan byr, svo sem mælzt hefur í skoðanakönnunum Dagblaðsins. Þeir telja sér óhætt að færa sig upp á skaftið.

Morgunblaðið hefur smám saman orðið harðskeyttara í garð stjórnarsinna í flokknum. Eftir langt daður við ritfrelsi er það nú farið að neita svargreinum stjórnarsinna við hörkulegum greinum stjórnarandstæðinga.

Neitun birtingar svargreinar Þóris H. Einarssonar skólastjóra við grófri grein Gísla Jónssonar menntaskólakennara er dæmi um, að svonefnt flokkseigendafélag telur nú aftur kleift að beita Prövdu sinni innan flokks af fullum styrk.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Orðinn of breiður.

Greinar

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi samþykkti fyrir helgina að bjóða hinum flokkunum til sameiginlegs prófkjörs. Sú leið einfaldar skipulag og kemur í veg fyrir, að fólk geti tekið þátt í prófkjöri hjá fleiri en einum flokki.

Með sameiginlegu prófkjöri er girt fyrir þá margumtöluðu hættu, að pólitískir andstæðingar fari að skipta sér af framboði flokks, nema þá að þeir fórni um leið rétti sínum til áhrifa á framboð eigin flokks.

Ekki má þó skilja þetta svo, að mikil hætta sé á ferðum. Í opnum prófkjörum, sem hingað til hafa farið fram, hefur ekki borið á þátttöku annarra flokka manna. Og í engu tilviki hefur slík þáttaka haft áhrif á röð frambjóðenda.

Opnu prófkjörin hafa hins vegar breikkað þá flokka, sem þeim hafa beitt. Þau hafa virkjað fólk, sem er að öðru leyti tregt til formlegrar þátttöku í starfi flokka og verður ekki fáanlegt til að undirrita inntökubeiðnir í flokka.

Þegar Jóhann Hafstein var formaður Sjálfstæðisflokksins, vitnaði hann í biblíuna og sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur”. Í þeim anda mun Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi áfram hafa opið prófkjör.

“Hvort einstaka hægri krati eða framsóknarmaður tekur þátt, skiptir litlu máli. Slíkir vega lítt sem ekkert í heildarniðurstöðu prófkjörs. Aðalatriðið er að fá fjöldann til samstarfs,” sagði Magnús Erlendsson, forseti bæjarstjórnar á Nesinu.

Vandamál opinna prófkjara eru allt önnur en þau, sem hatursmenn þeirra halda á lofti. Þau felast í, að þátttakendur opinna prófkjara hugsa að meðaltali öðruvísi en þáttakendur lokaðra prófkjara og breikka þannig viðkomandi flokk.

Lokuð prófkjör efla gengi þeirra frambjóðenda, sem höfða til flokksbundinna manna. Opin prófkjör efla hins vegar gengi þeirra, sem höfða til almennra kjósenda flokksins. Á þessu getur í reynd orðið töluverður munur.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er skólabókardæmi um þetta ástand. Þar hefur tögl og hagldir hópur manna í kringum svonefnt flokkseigendafélag. Styrkur hópsins er meðal flokksbundinna, en ekki meðal almennra kjósenda flokksins.

Nú geta vel verið viss takmörk fyrir hversu breiður einn flokkur getur orðið, auk þess sem lýðræðislega er æskilegt, að rúm sé fyrir fleiri flokka en einn í Reykjavík! Breiður flokkur lætur síður að stjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið breiður flokkur, sem í vaxandi mæli hefur ekki látið að stjórn þeirra, sem eru við völd í veigamestu stofnunum flokksins. Þannig styðja kjósendur flokksins ríkisstjórn, sem flokkskerfið er andvígt.

Lokað prófkjör er fullkomlega lýðræðisleg leið til að leysa þennan vanda. Það þrengir flokkinn niður í stærð, sem frá sjónarmiði flokkseigendafélags er líklegri til að verða viðráðanleg og sæmilega einhuga.

Lokað prófkjör er rökrétt afleiðing þeirrar grundvallarstefnu flokkseigendafélagsins, að betra sé að hafa mikil völd í litlum flokki en lítil völd í miklum flokki. Á stefnunni byggist óbeitin á opnum prófkjörum.

Í þessari umferð reyndist ekki unnt að loka prófkjörinu alveg. Það verður aðeins hálflokað, þegar frambjóðendur verða valdir til borgarstjórnar í Reykjavík. Í næstu umferð tekst kannski hið rökrétta, – að loka prófkjörinu alveg.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þegar tölur verða hættulegar.

Greinar

Tölur eru yfirleitt sérdeilis nytsamlegar. Þær geta sett flókinn raunveruleika í einfalt form, svo að hægt er að meta hann og bera saman við eitthvað annað. En í höndum stjórnmálamanna geta tölur orðið beinlínis þjóðhættulegar.

Við getum tekið sem dæmi tölur Þjóðhagsstofnunar um 6,6% tap af frystingu, 9,4% hagnað af skreið og 13,1 % hagnað af saltfiski. Þessar tölur sýna í hnotskurn, að verkun í saltfisk og skreið gengur mun betur en frysting.

Raunveruleikinn að baki er samt flókinn. Tölurnar sýna ekki, að sum verkun í saltfisk og skreið er rekin með tapi og að sum frysting er rekin með hagnaði. Tölurnar eru bara meðaltöl af rekstri margra tuga ólíkra fyrirtækja.

Vel rekin og gróin frystihús eru rekin á nálægt núlli um þessar mundir, sem getur engan veginn talizt nógu gott, sérstaklega ekki til frambúðar. Hins vegar er mikið tap á bæði hinum illa reknu og hinum óhófssömu í fjárfestingu.

Hin nýlega verðtrygging hefur sýnt fram á, að margur rekstur er ekki nógu arðbær til að standa undir vöxtum. Þetta er um að kenna rekstrinum og fjárfestingum tengdum honum, en ekki verðtryggingunni, svo sem margir halda.

Verðtrygging á smám saman að leiða til jafnvægis á fjármagnsmarkaði, svo að hæfilegt fjármagn sé til reiðu í arðbæran rekstur. Hingað til hefur mikið af því verið misnotað sem eins konar gjafafé handa kvígildum.

Athafnamenn í fiskvinnslu geta séð tvennt af tölunum hér að ofan. Í fyrsta lagi borgar sig í bili að sveigja sem mest frá frystingu til saltfisks og skreiðar. Í öðru lagi verður að fara varlega í fjárfestingum.

Þjóðhættulegir stjórnmálamenn sjá hins vegar allt annað í tölunum. Þeir sjá, að meðaltalið á fiskvinnslunni í heild er 2% hagnaður. Þeir halda, að málið megi leysa með því að færa peninga frá saltfiski og skreið til frystingar.

Í framkvæmd yrði slíkt mikilvægt skref í þá átt að taka markaðinn endanlega úr sambandi. Millifærslur leiða fljótt til þess, að enginn veit lengur, hvað er hagkvæmt og hvað ekki, og að framleiðni bíður mikinn hnekki.

Þjóðhagslega er auðvitað mun hagkvæmara að láta tölurnar ýta að sinni stærri hluta fiskvinnslunnar til gróðavænlegri þátta heldur en að reyna að frysta núverandi óhagkvæmni með “félagslegum” millifærslum.

Svipaðan lærdóm má líka draga af tölum Þjóðhagsstofnunar um 1,4% tap af bátum, 2,5% tap af litlum skuttogurum og 12% tap af stórum skuttogurum. Eini munurinn er sá, að hér geta þjóðhættulegir stjórnmálamenn ekki millifært.

Að baki þessara talna liggur hin einfalda staðreynd, að fiskiskipaflotinn er orðinn of stór. Hinn mikli fjármagnskostnaður nýrra skipa er svo mikill, að rekstur þeirra getur ekki orðið arðbær, þótt vel sé haldið á spöðunum.

Tapið á nýjustu skuttogurunum er yfir 20% og jafnvel yfir 30%. Þetta sýnir ekki, að verðtrygging sé ósanngjörn. Þetta sýnir bara, að ekki er að sinni rúm fyrir ný og fjármagnsþung skip í fiskiskipaflotanum.

Þeir, sem nú sækja fast í undanþágur til kaupa á skuttogurum, vita af tölunum, að gífurlegur taprekstur mun fylgja í kjölfarið. Þeir eru í rauninni að gera út á skattgreiðendur, – með hjálp þjóðhættulegra stjórnmálamanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Langvinnt tilhugalíf.

Greinar

Tilhugalíf þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar virðist ekki ætla að verða skammvinnt. Það stendur enn, rúmlega hálfu öðru ári eftir stjórnarmyndun. Annað eins tilhugalíf hefur ekki sézt um langan aldur í stjórnmálum landsins.

Sennilega þarf meira en dægurbundna leiðarahöfunda til að skýra þessa ótrúlegu festu í vinsældum ríkisstjórnar, sem meðal annars kemur fram í, að hún nýtur nú heldur meira fylgis en hún gerði fyrir réttu ári.

Á þessum tíma hefur fylgið við ríkisstjórnina aukizt úr 61% í 64% og andstaðan minnkað úr 39% í 36%. Stjórnarandstaðan getur að vísu huggað sig við, að breytingin er svo lítil, að hún getur varla talizt marktæk.

Ennfremur getur það forðað stjórnarandstöðunni frá örvæntingu, að horfinn er vinsældakúfurinn, sem myndaðist hjá ríkisstjórninni í fyrravetur, er hún náði 75% fylgi í skoðanakönnun Dagblaðsins í febrúar.

Breytingin er hins vegar lítil síðan í vor, þegar ríkisstjórnin hafði 69% stuðning í hliðstæðri skoðanakönnun. Enda er sumarið yfirleitt ekki tími pólitískra breytinga og þetta sumar satt að segja verið óvenju friðsælt.

Nú sem fyrr er athyglisvert, að margir segjast ekki vera ánægðir með ríkisstjórnina, þótt þeir styðji hana. Þetta hefur komið og kemur nú greinilega fram í ummælum, sem margir láta flakka með atkvæði sínu.

Þessi munur kom líka fram hjá Vísi, sem spurði ekki um stuðning, heldur ánægju með ríkisstjórnina. Þar komu út lægri tölur hjá stjórninni, þótt hún væri þar líka í öruggum meirihluta. Og verður Vísir þó seint sakaður um stjórnarstuðning.

Sem sýnishorn af stuðningi án ánægju má nefna ummæli eins og: “Ég er ekki ánægður með allt, sem stjórnin gerir, en þetta er samt það skásta, sem til greina kemur.” Eða: “Við eigum ekki völ á öðru betra.”

Einnig er athyglisvert, að fylgið, sem hefur í sumar lekið af ríkisstjórninni, hefur ekki færzt yfir til stjórnarandstöðunnar, heldur fyllt raðir hinna, sem annaðhvort lýsa óákveðinni afstöðu eða vilja ekki svara.

Þessir tveir síðustu hópar eru í nýjustu könnun Dagblaðsins komnir samanlagt upp í þriðjung allra hinna spurðu. Þetta háa hlutfall hlýtur að valda mikilli óvissu, þegar reynt er að spá um framtíð stjórnarstuðnings.

Þeim fer fjölgandi, sem vantreysta bæði stjórn og stjórnarandstöðu, samanber ummæli á borð við: “Það er sami rassinn undir þessum körlum öllum.“ Eða: “Þær eru allar slæmar þessar stjórnir.” Þetta eru stjórnmálamönnum ill tíðindi.

Ríkisstjórnin nýtur þess í skoðanakönnuninni, að hún er almennt talin vera að nálgast loforðið um að koma verðbólgu ársins niður í 40%. Ennfremur hefur peningatraust aukizt í formi gífurlegrar sparifjármyndunar í kjölfar verðtryggingar.

En ýmsar aðrar gerðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki haft á sér varanlegt svipmót. Atvinnulíf hefur að vísu haldizt fjörugt, en mörgum vandamálum hefur verið skotið á frest. Hugrekki er ekki aðall íhaldssamra stjórna sem þessarar.

Hins vegar virðist þjóðin ekki gefin fyrir leiftursóknir, hvorki frá hægri né vinstri. Hún sættir sig við ríkisstjórn, sem með góðum vilja reynir að moða úr gamalkunnum íhaldsúrræðum og hefur lukkuna með sér, þegar á reynir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Farinn er friðarins maður.

Greinar

Látinn er einn merkasti og bezti stjórnmálamaður vorra tíma, Anwar Sadat, forseti Egyptalands. Hann féll í gær ásamt ellefu öðrum mönnum í árás hryðjuverkamanna, þegar hann fylgdist með hersýningu í einu úthverfa höfuðborgarinnar, Kaíró.

Sadat var stundum kallaður einræðisherra. En það var hann ekki. Í innanlandsmálum mátti kalla hann ofríkismann, því að hann fangelsaði stundum andstæðinga sína eða sendi þá í útlegð. En hann drap þá ekki né lék þá grátt.

Í þessum heimi mannvonzku bar Sadat af flestum leiðtogum þriðja heimsins. Ríki hans var ekki ofbeldisríki hers og lögreglu, svo sem orðin er viðtekin venja í öllum þorra ríkja heims. Í Egyptalandi voru mannréttindi virt.

Gagnstætt flestum leiðtogum þriðja heimsins reyndi Sadat að draga úr útgjöldum til hermála og verja fénu frekar til efnahags- og félagsmála. Í þessu náði hann nokkrum árangri og var vel látinn af alþýðu manna í Egyptalandi.

Frægastur er Sadat þó fyrir utanríkismálin og afstöðuna gagnvart Ísrael. Fyrst reisti hann við sjálfsvirðingu Egypta í Jom Kippur stríðinu við Ísrael árið 1973, þegar honum vegnaði mun betur en Nasser hafði vegnað í tvígang.

Mest kom hann á óvart árið 1977, þegar hann kom til Jerúsalem og hóf langvinna og erfiða samninga um frið í botnalöndum Miðjarðarhafs. Sú för var upphafið að einangrun hans meðal araba og um leið upphafið að endalokum hans.

Því miður átti hann þar ekki við stórmenni að tefla, heldur þröngsýnan skæruliðaforingja, sem aldrei skildi og skilur ekki enn, hvað er í húfi. Menachem Begin, forsætisráðherra Ísrael, hélt meiru en hann lét af hendi.

Friðarsamningurinn milli Egyptalands og Ísraels, kenndur við Camp David í Bandaríkjunum, var ekki Begin að þakka, heldur Sadat og öðrum manni með svipaða reisn, Jimmy Carter Bandaríkjaforseta, sem menn munu síðar læra að meta.

Friðarverðlaun Nóbels hefðu þá átt að falla Sadat einum í skaut, en ekki í samlögum með Begin, sem hafði ekki lagt hart að sér við að koma á hinum ótrygga friði, sem nú er allt í einu orðinn mun ótryggari en fyrr.

Sadat þurfti mikinn kjark til að undirrita samning við Ísrael. Honum var útskúfað úr hópi leiðtoga arabaríkja. Í þrjú ár hafa þeir heimtað höfuð hans. Og nú hafa þeir fengið það, enda fagna þeir ákaft og innilega.

Þennan kjark hafði Sadat sýnt oftar en einu sinni á ferli sínum. Tvívegis var hann handtekinn af Bretum á stríðsárunum síðari og eftir stríðið. Og hann hafði ekki verið lengi við völd í Egyptalandi, þegar hann rak 15.000 Rússa úr landi.

Anwar Sadat fæddist hjá alþýðufólki 25. desember 1918. Tvítugur útskrifaðist hann úr herskóla, þar sem hann kynntist Nasser. Þeir stóðu saman í byltingunni 1952. Varaforseti Nassers varð Sadat 1969 og forseti ári síðar, við fráfall Nassers.

Nú er mikilmennið horfið og tómarúmið er komið í staðinn. Forsetakosningar eiga að verða í landinu innan 20 daga. En óvíst er, að þær dugi til að koma á festu, því að Hosni Mubarak varaforseti er að mestu óskrifað blað.

Hinir grimmari, ómerkilegri og hættulegri leiðtogar á svæðinu munu reyna að fylla tómarúmið, sem hefur myndazt við fráfall eins mesta friðarins manns síðustu ára. Eftir lát Sadats er heimurinn hættulegri en áður.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Of dýrt að byggja? Nei!

Greinar

Verðtryggingin hefur kennt þjóðinni að spara á nýjan leik eftir áratuga verðbólgudans. Á aðeins einu ári hefur sparifé í bönkum og sparisjóðum aukizt um 25% umfram verðbólgu eða um 1.000 milljónir króna umfram verðbólgu.

Heill milljarður nýkróna er enginn smápeningur. Hann hefur til dæmis gert Seðlabankanum kleift að auka frystinguna, það er að segja að taka aukinn hluta af fé bankanna til afurðalána og annarra sérþarfa í umsjá Seðlabankans.

Jafnframt hafa bankar og sparisjóðir getað lánað meira en áður. Öll aukningin hefur raunar horfið í hítina, því að enn er eftirspurn lánsfjár meiri en framboð þess. En við stefnum þó greinilega í átt til jafnvægis.

Ef stjórnvöld hvika ekki frá stefnu fullrar verðtryggingar, má búast við, að smám saman myndist heilbrigt jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar sparifjár. Um leið myndast nýr máttur ýmissa þeirra hluta, sem gera þarf.

Sparifjáraukninguna þarf að nokkrum hluta að nota til að bæta hlut húsbyggjenda, sem verðtryggingin hefur óneitanlega leikið nokkuð grátt. Sparifjáraukninguna á að hluta að nota til að gera fólki kleift að byggja á nýjan leik.

Við þurfum að koma upp lánakerfi til húsnæðislána, sem er eins öflugt og hið bandaríska, þar sem bankar lána hiklaust 90-100% kostnaðar, svo framarlega sem þeir geta reiknað út, að tekjur lántakanda standi undir vöxtum og afborgunum.

Með núverandi verðtryggingu gætu menn greitt niður 300 þúsund króna lán með 1.000 króna mánaðargreiðslum í 40 ár, 750 þúsund króna lán með 2.500 króna mánaðargreiðslum í 40 ár og 1.5 milljón króna lán með 5.000 króna mánaðargreiðslum í 40 ár.

Vandinn er í rauninni ekki sá, að of dýrt sé orðið að byggja. Vandinn felst fremur í að ætlast til, að fólk geti eignazt íbúð eða hús að verulegu leyti á aðeins tíu árum. Til slíks á auðvitað að þurfa miklu lengri tíma.

Fullkomið húsnæðislánakerfi mundi gera fólki kleift að búa í samræmi við tekjur. Með 1.000 krónum til aflögu á mánuði í stað húsaleigukostnaðar ættu menn að geta eignazt að minnsta kosti 300 þúsund króna smáíbúð.

Ef greiðslugetan eykst í 2.500 krónur á mánuði, ættu menn að geta selt smáíbúðina og keypt sér 750 þúsund króna íbúð eða hæð. Og ráði menn síðar við 5.000 krónur á mánuði, ættu þeir að geta fengið sér 1.500 þúsund króna einbýlishús.

Með því að gera afborganirnar að mánaðargreiðslum og stilla þeim upp gegn húsaleigugreiðslum, sem sparast við að eignast húsnæði, væri fundin mjög heppileg leið til að gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið.

Þessi leið mundi einnig draga úr þörfinni á óbærilega mikilli vinnuþrælkun og tilheyrandi skerðingu fjölskyldulífs, sem nú fylgir allt of oft hetjulegri baráttu fólks við að koma undir sig fótunum við erfiðar aðstæður.

Auðvitað er þetta hægara sagt en gert. Að lána húsbyggjendum til 40 ára hlýtur að binda gífurlegt fé. Bankarnir ráða tæplega við það núna, einkum þó af því að innlánin eru yfirleitt aðeins bundin til skamms tíma, sex mánaða eða svo.

Með því að fitja upp á nýjum sparnaðarformum til lengri tíma með hærri vöxtum á þó að verða hægt að ná því takmarki, að bankakerfið geti komið á móti húsnæðisstofnun og lífeyrissjóðum og lánað til langs tíma það, sem upp í húsverðið vantar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ekki er sama, hvað starfað er.

Greinar

Falskar tölur opinberra stofnana um framleiðni í atvinnugreinum landsins hafa dregið úr möguleikum raunsæs mats á gildi greinanna fyrir þjóðina. Sérstaklega hefur skort rétt reiknaðar tölur um framleiðni einstakra greina.

Tölur um framleiðni landbúnaðar hafa til dæmis verið byggðar á söluverði afurða hans hér innanlands á vernduðum markaði innflutningsbanns, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Slíkar tölur eru greinilega út í loftið.

Hins vegar er unnt að meta framlag einstakra atvinnugreina til þjóðarbúsins, ef miðað er við raunverulegt markaðsverð. Það er verðið, er gildir á markaði, sem ekki er verndaður og falsaður. Það er alþjóðlega markaðsverðið.

Ingjaldur Hannibalsson, hagfræðingur Félags íslenzkra iðnrekenda, lagði fram nýstárlega framleiðnireikninga á ráðstefnu um atvinnumál höfuðborgarsvæðisins í sumar. Þá reikninga byggði hann á heimsmarkaðsverði.

Sú viðmiðun er rétt, eins og bezt sést af, að við kaupum á heimsmarkaðsverði þær vörur, sem við viljum og fáum að nota frá útlöndum. Sömuleiðis seljum við á heimsmarkaðsverði þær vörur, sem við notum til að afla gjaldeyris.

Ingjaldur gengur lengra í útreikningum sínum. Hann metur kostnað við vinnuafl, hráefni, orku og -fjármagn á einn mælikvarða, reiknaðan í ársverkum sem tilkostnað atvinnugreinanna, útgerðarkostnaðinn, sem deilist í virðisaukann.

Að þeirri deilingu lokinni kemur í ljós, að í fiskveiðum er virðisaukinn á hvert ársverk, það er framleiðnin, 6,3 í fiskveiðum, 3,4 í fiskvinnslu, 2,9 í iðnaði og 1,2 í landbúnaði. Þessar tölur sýna gífurlegan mismun atvinnuveganna.

Af tölunum má sjá, að framleiðni í fiskveiðum er tvöfalt meiri en í fiskvinnslu og iðnaði og rúmlega fimm sinnum meiri en í landbúnaði, – að fiskveiðar hafa haldið uppi þessu þjóðfélagi og landbúnaður hefur haldið því niðri.

Því miður getum við ekki notfært okkur að fullu þennan hluta niðurstöðunnar, af því að þegar hefur verið náð fullri nýtingu og sumpart ofnýtingu fiskistofna. Við getum ekki, þótt við vildum, aukið fiskveiðar frá því, sem nú er.

Þetta reyna stjórnvöld þó með því að leyfa of stóran og stækkandi fiskiskipaflota. Þar með er verið að draga framleiðni fiskveiða niður á stig annarra atvinnugreina, því að samanlagður útgerðarkostnaður vex, en afli ekki.

Um fiskvinnslu gildir hið sama og um fiskveiðar, að hún er háð takmörkuðu aflamagni. Að þessum tveimur greinum frágengnum er því ekki um annað að ræða en að beina sjónum að iðnaði sem vaxtargrein framtíðarinnar hér á landi.

Sagt hefur verið, að iðnaðurinn þurfi að geta tekið við nærri þúsund manns til viðbótar á hverju ári til að tryggja fulla atvinnu í landinu. Í raun hefur iðnaðurinn að undanförnu rétt haldið hluta sínum af heildarmannafla.

Stjórnvöld hafa nærri ekkert gert til að stuðla að iðnaði. Á mörgum sviðum nýtur hann verri kjara en aðrar greinar. Skólakerfið er ekki miðað við, að iðnaðar sé þörf. Og lítil aðstoð fæst við vöruþróun og innflutning tækniþekkingar.

Af tölum Ingjalds má svo sjá, að landbúnaðurinn er hrikalegur baggi, sem heldur niðri lífskjörum þjóðarinnar og varpar skugga á framtíð hennar með því að soga til sín mannafla og fjármagn, sem betur ætti heima í iðnvæðingu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Marklaust einvígi.

Greinar

Flest bendir nú til, að hinn alþjóðlegi skrípaleikur skákmanna geti hafizt í Merano á Ítalíu í dag. Samningamenn einvígismanna hafa náð samkomulagi um ýmis framkvæmdaatriði, sem áður var talið, að vefjast mundu fyrir.

Kortsjnoj fær að leika undir svissneska fánanum og að hlusta á svissneska þjóðsönginn í upphafi einvígis. Karpov fær trégrind undir skákborðið til að hindra spörk frá Kortsjnoj. Dávaldar og miðlar eru komnir á sinn stað.

Kannski finnur þó Kortsjnoj fljótlega, að hann þurfi skothelt gler til að verjast dávaldinum. Og kannski finnur Karpov fljótlega, að hann þurfi öðru vísi lýsingu í salnum þrátt fyrir allt. Friðurinn er næsta ótryggur.

Að mati aðstandenda einvígisins er þó friðvænlegra í upphafi þess en verið hefur við upphaf slíkra um langt skeið, allt frá því fyrir þá tíð, er Fisher og Spasskí tefldu í Laugardalshöll og flugan fannst, sællar minningar.

Sæla aðstandenda byggist þó fyrst og fremst á, að þeir telja unnt að láta fara fram svokallað heimsmeistaraeinvígi í skák upp á þau býti, að útgerðarmenn annars keppendans fái að halda fjölskyldu hins í gíslingu á einvígistímanum.

Skák mun vera eina keppnisgreinin á alþjóðlegum vettvangi, þar sem ríkir siðblinda af þessu tagi. Nokkrar vonir stóðu til, að þetta mundi breytast með tilkomu íslenzks forseta, en þær vonir urðu að engu fyrir tveimur mánuðum.

Að vísu eru sovézk lög að því marki sovézkt innanríkismál, að þau varði ekki við Helsinki-samkomulagið, sem Brezhnev undirritaði. Og alþjóðleg keppnisskilyrði geta engan veginn talizt til sovézkra innanríkismála.

Sorglegt er, hversu langt forseti Alþjóða skáksambandsins hefur talið sig þurfa að ganga til að réttlæta ósigur sinn í þessu hreina og einfalda réttlætismáli, sem allir virðast skilja, nema sumir skákáhugamenn einir.

Af hverju þarf sífellt að endurtaka að “ … varð forsetinn þess áskynja, að nánir ættingjar áskorandans höfðu aldrei lagt fram gilda umsókn fyrir fjölskyldu hans um að ná fundum hans …”. Hvað á svona útúrsnúningur að þýða?

Viktor Kortsjnoj og fjöldi manns hafa lagt mikla vinnu í að ná Bellu og Igor Kortsjnoj úr faðmi Sovétríkjanna og reynt allar hugsanlegar leiðir til að tala um fyrir Kremlverjum. Um þetta á lögfræðilegur dónaskapur ekki við.

Af hverju þarf líka að ítreka að Igor hafi neitað að gegna herþjónustu og verði því að sitja í haldi til næsta vors? Af hverju bætir forsetinn aldrei við skýringum þess, að margir gyðingar vilja ekki gegna sovézkri herþjónustu.

Hafandi gegnt herþjónustu eru þeir taldir búa yfir hernaðarleyndarmálum. Reynslan sýnir, að umsóknum þeirra um að fá að flytjast úr landi er síðan hafnað á þeim sniðugu forsendum, að hernaðarleyndarmál megi ekki fara úr landi.

Nú kann vel að vera, að athafnir Friðriks Ólafssonar leiði til þess, að Kremlverjar viðurkenni eitt af þúsund brotum Helsinki-samkomulagsins og sendi Bellu og Igor vestur fyrir tjald næsta vor. Það verður þakkað hér, þegar þar að kemur.

Hitt er óbreytt, að þetta marklausa, svokallaða heimsmeistaraeinvígi í skák fer fram upp á býti ódrengskapar, sem er til skammar öllum þeim, sem að standa, þar á meðal forsetanum, svo og Íslandi, sem á óbeinan hlut að máli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Tómatar handa rottum.

Greinar

Enn einu sinni hefur Dagblaðið upplýst og sannað með myndum, að Sölufélag garðyrkjumanna fleygir fyrsta flokks tómötum í stórum stíl. Þetta gerir einokunarfyrirtækið til að halda uppi áeðlilega háu verði á hinum, sem eftir eru.

Neytendasamtökin hafa lýst undrun sinni og reiði á þessu athæfi Sölufélagsins. Þau telja ennfremur, að þetta sé brot á samkomulagi og samstarfi, sem varð með þessum aðilum eftir hliðstæða uppljóstrun Dagblaðsins árið 1978.

Þá birti Dagblaðið líka mynd af breiðum tugþúsunda tómata á öskuhaugunum. Fjölmargir urðu mjög reiðir yfir þessari meðferð matvæla. Það leiddi til, að hætt var að sinni að fleygja tómötum og verð þeirra lækkað í staðinn.

Sölufélagið og Neytendasamtökin tóku saman höndum um að koma tómötunum út á lágu verði og nutu til þess kynningar Dagblaðsins. Árangurinn varð þá sá, að hin holla vara nýttist til manneldis og að tekjur garðyrkjubænda urðu meiri en ella.

En Sölufélag garðyrkjumanna virðist alveg hafa gleymt þessari lexíu. Enn læðist það í skjóli nætur til að kasta matvælum á haugana og reynir nú að fela þau með sagi, svo að athæfið festist síður eða ekki á mynd.

Staðinn að verki segir forstjóri Sölufélagsins, að þetta hafi verið allt of rauðir, ofþroskaðir og ósöluhæfir tómatar. Þetta er lygi, af því að fjöldi starfsmanna Dagblaðsins getur vitnað um, að þetta var hin bezta söluvara.

Ennfremur segir forstjórinn, að tómataverð hafi árangurslaust verið lækkað um þriðjung vikuna 24.- 28. ágúst. Meiru hafi verið eytt í auglýsingar en inn hafi komið í tekjur. Þar með hafi fyrirtækið gefizt upp á lækkuninni.

Þessi meinta auglýsingaherferð forstjórans fór framhjá flestum. Miklum meirihluta neytenda var ókunnugt um, að tómatar hefðu verið lækkaðir í verði um þriðjung. Staðreyndin er sú, að Sölufélagið kann ekki að selja.

Miklu nær hefði verið að muna fyrri tíð og snúa sér til Neytendasamtakanna til samstarfs. Trúlega hefði þurft að lækka tómatana meira til að ná markaðsverði, en alténd var nauðsynlegt að segja neytendum frá verðlækkun.

Dagblaðið og sjálfsagt fleiri fjölmiðlar hefðu sjálfsagt ekki talið eftir sér að vekja athygli á, að góð vara mætti ekki fara til spillis, eins og það gerði 1978, þegar tómatafjallið hvarf eins og dögg fyrir sól.

Enginn vandi er að koma út offramleiðslu, ef varan er fyrsta flokks, svo sem íslenzkir tómatar eru yfirleitt, og ef verðið er lækkað nægilega til að almennir neytendur hafi efni á að kaupa vöruna til hversdagsnotkunar.

Söluaðferð fyrirtækisins byggist á, að tómatar séu dýr lúxusvara, sem notuð sé afar sparlega á heimilum. Þetta er í eðlilegu samræmi við markaðslögmál, þegar tómatar eru af skornum skammti á hlutum hinnar árlegu vertíðar.

Hins vegar þarf Sölufélagið að sveigja í sölustefnu, þegar tómatar hrúgast á markaðinn. Þá þarf að líta á þá sem ódýra hversdagsvöru, sem neytendur muni kaupa í töluverðum mæli. Þetta er líka í eðlilegu samræmi við markaðslögmál.

Ekki má heldur gleyma, að ofan á stirðleika Sölufélagsins og vangetu þess til að haga sér eftir aðstæðum bætist svo óhugnanlegt siðleysi, þegar útkoman er sú, að góðum matvælum er fleygt í rotturnar á haugunum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Eftir ýkjuskeið: Ný hefð.

Greinar

Áratug eftir áratug hefur tíðkazt í Menntaskólanum í Reykjavík, að eldri nemendur tolleruðu hina nýju, köstuðu þeim upp í loftið og gripu þá aftur, alveg eins og þegar sigursæl íþróttasveit tollerar þjálfara sinn eða liðsstjóra.

Þetta er ein af mörgum hefðum, sem við sjáum alls staðar, en sennilega ein hin kunnasta. Henni þurfa engar ýkjur að fylgja með nýjum árum. Hún er ekkert frumleg, enda er það ekki í eðli hefða að vera frumlegar. Þær standa óbreyttar fyrir sínu.

Sem hefð er tolleringin hættulaus, bæði limum og fötum. Hún var og er engin vígsla í launhelgun, heldur aðeins einföld og hefðbundin móttökuathöfn frá þeim tíma, er fjárráð ungs fólks leyfðu ekki ótakmörkuð fatakaup.

Síðan hafa komið til sögunnar nýir menntaskólar og fjölbrautaskólar, þar sem nemendur hafa líka viljað koma á fót hefðum. En því miður hefur víðast hvar skort hugmyndaflug til annars en skrumskælinga á eldri hefð, einnig í gamla menntaskólanum.

Móttaka nýrra nemenda í hóp hinna eldri í þessum skólum er yfirleitt samkeppni í meiru, stærra, hrikalegra, yfirgengilegra. Til slíks þarf auðvitað ekki hugmyndaflug, bara ruddaskap, tillitsleysi og ofbeldi.

Í sumum skólum, þar á meðal í MR, minna aðfarirnar svo mjög á brezka einkaskóla, að ætla mætti, að eitthvað sé bogið við þær, að einhver sálræn vandamál liggi að baki þeirra, ef leyfilegt væri að skýra atferli hópa á sálfræðilegan hátt.

En vonandi er þetta bara skortur á átrás hjá æsku, sem ekki fær hana í heilbrigðum íþróttum, meðal annars vegna þess, að skólarnir hafa litla aðstöðu til að bjóða upp á kennslu í íþróttum til orkuúrrásar.

Einhvern tíma hlaut að koma að því, að í einhverjum skóla skapaðist hugmyndaflug til nýs stíls, nýrrar hefðar, sem væri eitthvað annað og meira en skrumskæling á eldri hefð, ekki bara stærri og ýktari útgáfa af hinu eldra.

Þetta virðist hafa tekizt í verzlunarskólanum, þar sem eldri nemendur bjóða nýja velkomna með kaffi og kökum, svona rétt eins og taldist til gestrisni hér á landi fyrr á árum, áratugum og öldum og telst kannski enn.

Með kaffinu og kökunum fylgja ýmsar útskýringar á skólahaldi og félagslífi, svo og skemmtiatriði af hálfu hinna eldri nemenda. Enginn er barinn, málaður, niðurdýfður, fatarifinn eða gervihengdur. Og margir eru bara hissa.

Með þessu bragði hefur Verzlunarskólamönnum tekizt að búa til nýja hefð, sem getur síðan alveg eins og tolleringin haldizt óbreytt áratug eftir áratug, af því að hún er einföld hefð, sem ekki þarfnast endurbóta eða skrumskælinga.

Þetta framtak gæti ef til vill veitt nemendum annarra skóla innsýn í þá staðreynd, að inntökuaðferðir þeirra sjálfra eru dæmi um sára andlega fátækt, skort á hugmyndaflugi og vangetu á að búa til eitthvað alveg nýtt og öðruvísi.

Í þessari þróun mála sjáum við í hnotskurn, hvernig stílaskipti hafa orðið á ótal sviðum í mannkynssögunni. Fyrst ýkja menn fyrri stíl, unz einhverjum dettur í hug eitthvað alveg nýtt, þegar nógu margir eru orðnir þreyttir á ýkjunum.

Hinn nýi stíll, hin nýja hefð draga þó ekki ár gildi hins klassíska forms fyrri stíls, fyrri hefðar, eins og hún var, áður en skrumskælingin kom til sögunnar. Tolleringar gætu áfram staðið fyrir sinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ólafur stakk á kýlum.

Greinar

Ræða Ólafs Jóhannessonar utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku var meðal hinna beztu, sem þar hefur verið flutt fyrir Íslands hönd.

Samkvæmt mannasiðum í heimi sendiherra gat Ólafur ekki nafngreint þann aðila, sem með linnulausri heimsvaldastefnu veldur mestum vandræðum í alþjóðlegum samskiptum. Þar þykir of dónalegt að réttnefna Kremlverja sem glæpamenn.

Helzti galli ræðunnar var, að í henni voru ekki gagnrýnd afskipti Sovétríkjanna af pólskum innanríkismálum, sem koma fram í sífelldum kvörtunum og illa dulbúnum hótunum. Gagnrýni á þessi afskipti átti vel heima í ræðunni.

En fyrsta mál Ólafs var innrás Sovétríkjanna í Afganistan, sem nú hefur staðið heil tvö ár. Á þessum tíma hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvisvar fordæmt þetta brot Kremlverja á fullveldisákvæðum stofnskrár samtakanna.

Um þetta sagði Ólafur m.a.: “ … tel ég fulla ástæðu til að ítreka yfirlýsingu mína með enn meiri þunga en áður. Fullveldi og stjórnmálasjálfstæði allra ríkja verður að virða, ef takast á að draga úr þeirri hættulegu spennu …”

Ólafur nefndi ekki heldur Kreml eða Sovétríkin, þegar hann vék að síbrotum á mannréttindaákvæðum Helsinki-samkomulagsins, sem felast í verulegri minnkun mannréttinda í Sovétríkjunum síðan Brésnjéf undirritaði samkomulagið.

Um þetta sagði Ólafur m.a.: “Því miður hefur reyndin orðið sú, að sum þeirra ríkja, sem taka þátt í þessu samstarfi, hafa sýnt fremur lítinn vilja til að framfylgja vissum veigamiklum þáttum lokasamþykktarinnar.”

Síðan Reagan kom Bandaríkjunum í hóp tveggja risavelda, sem stefna að hernaðarlegum yfirburðum hvort gegn öðru, má segja, að ekki sé ástæða til að geta Sovétríkjanna sérstaklega á því sviði, þótt hernaðarstefna þeirra hafi lengi verið samfelld.

Um þetta sagði Ólafur m.a. : “Vopnakapphlaupið er að því leyti ólíkt öðrum kapphlaupum, að því hraðar, sem menn hlaupa, því meiri líkur eru á að allir tapi. Þess vegna má trygging öryggis ekki snúast um að ná hernaðarlegum yfirburðum.”

Eftir umfjöllunina um Afganistan, Helsinki-svikin og vígbúnaðarkapphlaupið vék Ólafur stuttlega að nokkrum öðrum málum, rétti Ísraelsmanna og Palestínumanna, kynþátta- og ofbeldisstefnu Suður-Afríku og innrás Vietnam í Kampútseu.

Síðan fjallaði Ólafur um vandamál þriðja heimsins og skyldur hinna ríku þjóða, þar á meðal Íslands, sem verða að auka framlög sín til þróunarverkefna, ekki sízt á hinum aðkallandi sviðum orkuöflunar og orkunýtingar.

Þá benti Ólafur á þá staðreynd, að í stórum og vaxandi hlutum heimsins eru brotin grundvallaratriði mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það af hálfu ríkisstjórna, sem taka þátt í samtökunum eins og ekkert sé.

Ólafur gat þó ekki hinnar hörmulegu staðreyndar, að mannréttindi í þriðja heiminum hafa stórlega rýrnað, síðan nýlenduveldin gömlu hurfu af vettvangi. Alþýða manna er mun meira kúguð af innlendri valdastétt en áður af hinni erlendu.

Um þetta sagði Ólafur þó: “ … brot gegn þessari grundvallarreglu gerast æ tíðari í stórum hlutum heims. Ofbeldi og hervaldi er grímulaust beitt að geðþótta stjórnvalda, hvort sem er til að kúga einstaklinga, minnihlutahópa eða heilar þjóðir …”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þriðja skrípareglan.

Greinar

Í landi nokkru rýfur viðskiptaráðherrann einkarétt Sambandsins og Sölumiðstöðvarinnar með því að veita vini sínum og flokksbróður í Íslenzku umboðssölunni undanþágu til freðfiskssölu á Bandaríkjamarkaði.

Jafnframt bannar þessi ráðherra öðrum aðila, Íslenzku útflutningsmiðstöðinni, að rjúfa þennan einkarétt, þótt fyrirtækið hafi í þrjú ár haft undanþágu til freðfisksölu á Bandaríkjamarkaði framhjá Sambandinu og Sölumiðstöðinni.

Í þessu sama landi rýfur samgönguráðherrann einkarétt Flugleiða með því að veita vini sínum og flokksbróður í Icecargo undanþágu til áætlunarflugs til Amsterdam, jafnvel þótt allir vissu, að engin flugvél var til slíks brúks.

Jafnframt frestar þessi ráðherra að veita öðrum aðila, Arnarflugi, undanþágu til áætlunarflugs til nokkurra evrópskra borga, og það á þeim forsendum, að upplýsingar skorti um flugvélakost til áætlunarflugsins!

Auðvitað gerist þetta í landi afkomenda Snorra Sturlusonar, sem var önnum kafinn við að gifta dætur sínar öðrum höfðingjum landsins sér til auðs og valda. Þetta gerist í landi flokksbanda, vináttubanda og fjölskyldubanda.

Erfitt er að tala um skynsama atvinnupólitík í landi, þar sem menn á borð við Tómas Árnason og Steingrím Hermannsson ráða ferðinni með svipuðum vinnubrögðum og Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds beita í mannaráðningum.

Í gegnum skrípaleiki og glæp íslenzkra stjórnmála má þó greina tvö höfuðatriði þjóðlegrar atvinnuvegastefnu. Hið fyrra er, að neytendur og skattgreiðendur skuli halda úti eins miklum landbúnaði og frekast er unnt.

Hið síðara er, að arður sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina skuli hirtur jafnóðum með falskri gengisskráningu, svo að þessar greinar séu reknar á því sem næst núlli, þótt þær séu hin raunverulega verðmætauppspretta þjóðarinnar.

Á síðustu misserum er þó farið að brydda á þriðju reglunni. Hún er sú, að Tómas og Steingrímur, Svavar og Ragnar megi hjálpa einstökum hallærisfyrirtækjum að því marki, sem nemi beinum tekjum ríkisins af viðkomandi atvinnurekstri.

Þetta er brezka stefnan, sem vinstri Gallaghan og hægri Thatcher hafa beitt í raun og þar með komið flestum stærstu fyrirtækjum Bretlands á kaldan klaka. Samkvæmt henni er í lagi, að ýmsir þættir atvinnulífsins skili engu til sameiginlegra þarfa.

Í stað þess að hleypa starfskröftum og fé úr hallærisfyrirtækjum til arðbærra verkefna er vinnu og fjármagni haldið uppi, fyrst í von um betri tíma, en síðan bara til að fresta óþægindum. Enda eru hin arðbæru verkefni óvís í Bretlandi atvinnuleysis.

Þessi stefna er nú kynnt hér, þar sem lausar stöður eru margfalt fleiri en atvinnulaust fólk; þar sem heilir landshlutar hrópa á mannskap. Í landi ótal arðbærra verkefna á að bæta fyrirtækjum við landbúnaðinn á ómagaskrána.

Fjórtán milljónir króna til Flugleiða eru ekki eina dæmið um þetta hugarfar, bara hið frægasta. Þar á að styðja flug, sem sannað er, að verður aldrei fjárhagslega arðbært, meðan haldið er niðri flugfélögum, sem vilja þenjast út.

En í landi Snorra Sturlusonar þýðir lítið að benda á, að því meira sem fjölgað er ómögunum, þeim mun meiri framfærslubyrði er lögð á sjávarútveginn og aðra útflutningsatvinnuvegi, sem halda uppi lífi í þessu landi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Skrautfjöðrin.

Greinar

Sparifé Íslendinga í bönkum og sparisjóðum hefur á einu ári aukizt um 87%. Á sama tíma hefur verðbólgan verið 49%. Raunveruleg aukning sparifjár umfram verðbólgu hefur því numið 25% á þessum tíma. Og þetta er án efa nálægt heimsmeti.

Árangurinn eigum við verðtryggingarstefnunni að þakka. Fólk er farið að spara á nýjan leik, af því að það hefur fengið aðgang að fullkomlega verðtryggðum innlánsformum. Algerlega ný og betri viðhorf fylgja í kjölfarið.

Árangurinn má ekki verða til, að stjórnvöld slaki á klónni og fari að draga úr verðtryggingu fjárskuldbindinga. Ekki er rökrétt að skipta um stefnu, sem gengur vel, heldur ber að stefna að leiðarenda, fullri verðtryggingu útlána.

Mörg fyrirtæki og heilar atvinnugreinar kvarta um, að fjármagn sé orðið of dýrt. Það sé of þungur baggi á rekstrinum. Stjórnmálamenn, sem eru þjálfaðir í að hlaupa á eftir þrýstihópum, eru veikir fyrir slíkum röksemdum.

Hitt er sönnu nær, að rekstur, sem ekki getur greitt lánað fé til baka í jafngóðum verðmætum, er ekki arðbær. Fjármagnið er betur komið hjá hinum, sem geta endurgreitt það, en fá nú of litla fyrirgreiðslu lánastofnana.

Því miður hefur Seðlabankinn tekið sparifjáraukninguna að verulegu leyti frá bönkunum til hinna sjálfvirku forgangsútlána. Þess vegna er ekki enn hægt að átta sig á, hvort aukningin geti leitt til jafnvægis á lánamarkaði.

Eðlilegt framhald af verðtryggingu sparifjár er, að skömmtun og sjálfvirkni verði minnkuð í útlánum og í staðinn verði reynt að koma þar að markaðslögmálum, svo að hið sparaða fé renni til arðbærari verkefna en áður.

Verðtryggingu fjárskuldbindinga er fundið það til foráttu, að hún lami framtak unga fólksins og geri því ókleift að eignast þak yfir höfuðið. En þetta stafar aðeins af því, að stjórnvöld hafa trassað hliðaraðgerðir.

Húsnæðislán þurfa að vera til 40 ára, ekki aðeins hjá húsnæðismálastofnun, heldur líka lífeyrissjóðum og hinu almenna bankakerfi. Þar er vandinn, sem hindrar fólk í að að byggja. Þann vanda verða stjórnvöld að hafa forgöngu um að leysa.

Lúðvík Gizurarson hæstaréttarlögmaður hefur oftar en einu sinni bent á það í kjallaragreinum í Dagblaðinu, að 300 þúsund króna húsnæðislán megi greiða niður á 40 árum með eitt þúsund króna mánaðargreiðslum á núverandi verðlagi.

Á sama hátt mætti greiða niður 750 þúsund króna húsnæðislás með 2,5 þúsund króna mánaðargreiðslum í 40 ár. Því er ljóst, að með 40 ára lánstíma er ódýrara og öruggara að byggja en að þurfa að sæta leigumarkaði.

Það er falskenning, að fólk geti ekki byggt nema með gjafakjörum í vöxtum. Vel er hægt að eignast þak yfir höfuðið, þrátt fyrir fulla verðtryggingu fjárskuldbindinga, ef stjórnvöld skipuleggja nógu löng lán og nógu há lán.

Hin mikla aukning sparifjár er ein helzta skrautfjöðrin í hatti ríkisstjórnarinnar. Þeirri skrautfjöður má hún ekki glopra niður með undanlátssemi gagnvart þrýstihópum, sem vilja fá að endurgreiða lán í rýrðu verðgildi.

Þvert á móti þarf ríkisstjórnin að standa við loforð um fulla verðtryggingu fjárskuldbindinga fyrir áramót, líka á lánum til forréttindagreina. Einnig þarf hún að koma á lengingu og hækkun húsnæðislána og aukinni notkun markaðsafla í útlánum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið