Greinar

Hófsemi endurvakin

Greinar

Brotthlaup öldungadeildar-þingmannsins James Jeffords úr flokki repúblikana í flokk demókrata mun hafa víðtæk áhrif á bandarísk stjórnmál, ekki sízt í utanríkismálum. Ágreiningsefni Evrópu og Bandaríkjanna verða ekki eins hastarleg og þau hefðu ella orðið.

Brotthlaupið hefur fært meirihlutann í öldungadeildinni og formennsku allra nefnda deildarinnar í hendur demókrötum. Joseph Biden tekur við utanríkismálanefnd úr höndum Jesse Helms, sem hefur verið til mikilla vandræða í samskiptum Bandaríkjanna við umheiminn.

Ekki verða öll skiptin til bóta. Fríverzlunarmaðurinn John McCain víkur úr formennsku viðskiptanefndar fyrir verndunarsinnanum Ernest Hollings. Að öðru leyti munu nýjar áherzlur með nýjum mönnum færa Bandaríkin nær sjónarmiðum annarra Vesturlanda.

Frekjulegar ákvarðanir stjórnar George W. Bush forseta um að hafna einhliða ýmsum fjölþjóðasamþykktum munu fá nákvæma meðferð nýs meirihluta í öldungadeildinni. Það gildir meðal annars um lofthjúpssáttmálannn frá 1997 og eldflaugasáttmálann frá 1972.

Minni líkur en áður eru á, að Bush dragi herlið Bandaríkjanna frá Bosníu og Kosovo. Ráðagerðir um eldflaugavarnir munu fá vandaðri meðferð en annars hefði orðið. Almennt verður meira tillit tekið til sjónarmiða bandamanna Bandaríkjanna en Bush virtist ætla að gera.

Fyrir byltuna í öldungadeildinni stóð til að stafla gjafmildum peningamönnum í sendiherrastöður vítt og breitt um Evrópu í stað diplómata og stjórnmálamanna, þar á meðal á mikilvægum og viðkvæmum stöðum á borð við London og París. Þetta verður sennilega stöðvað.

Fyrir byltuna stóð til að senda gamalkunna stuðningsmenn mannréttindabrota til að koma fram fyrir hönd Bandaríkjanna gagnvart Rómönsku Ameríku, þar á meðal Otto Reich og John Negroponte. Nýr meirihluti öldungadeildarinnar mun hakka þessa menn í spað.

Heima fyrir mun hinn nýi meirihluti hindra, að vinir forsetans í olíubransanum í Texas komi á fót olíuvinnslu í friðlöndum Alaska og fái skattaívilnanir fyrir að auka framleiðslu. Nýr meirihluti mun verjast árásum forsetans á vistkerfið, ellilaunafólk, sjúklinga og Hæstarétt.

Bush hefur hefnzt fyrir ofstækið. Hann tók alls ekkert tillit til, að hann fékk færri atkvæði en Al Gore í forsetakosningunum og þar með afar dauft umboð til þjóðfélagsbreytinga. Hann hefur hins vegar hagað sér eins og hann hafi umboð til róttækra breytinga.

Með þessu ögraði hann miðjumönnum í stjórnmálunum, sem eru fjölmennir meðal repúblikana í norðausturríkjunum og miðvesturríkjunum. Hann hagaði sér eins og róttæka suðurríkjadeildin í flokknum hefði náð öllum völdum í landinu. Svo hefur ekki reynzt vera.

Fyrir brotthlaup öldungadeildarmannsins stefndi í óefni í samskiptum Bandaríkjanna við umheiminn, einkum Vesturlönd og Sameinuðu þjóðirnar, svo sem kom í ljós, þegar Bandaríkin féllu í atkvæðagreiðslum úr mikilvægum nefndum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Eftir brotthlaupið á ríkisstjórn Bush afar erfitt með að halda áfram einhliða og samráðslausri utanríkisstefnu, sem erlendis hefur réttilega verið túlkuð sem frekja og yfirgangur. Minni líkur eru á, að Vesturlönd hafni forustu Bandaríkjanna og líti á þau sem róttæklingaríki.

Með valdaskiptunum í öldungadeildinni hefur James Jeffords endurvakið völd hófsamra miðjuafla í stjórnmálunum og gert vestrænni samvinnu mikinn greiða.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífeyrissjóðir ginntir

Greinar

Þessa dagana er Reyðarál í herferð við að fá lífeyrissjóði landsmanna til að verða burðarás hluthafa í fyrirtækinu og hverfa þannig frá þeirri meginskyldu lífeyrissjóða að leggja egg sín í sem flestar körfur, svo að áhætta sjóðfélaga verði sem allra minnst í ellinni.

Reyðarál felur í sér langdýrustu stóriðjuáform, sem komið hafa fram í landinu. Norsk Hydro hefur dregið úr upphaflegum ráðagerðum sínum um hlutafjáraðild og aðrir erlendir fjárfestar hafa ekki verið í biðröð. Þess vegna er reynt að afla hluthafa á innlendum markaði.

Fáir aðilar aðrir en lífeyrissjóðir hafa fjárhagslega burði til að fjárfesta í fyrirtæki, sem kostar hundruð milljarða króna. Stjórnarmenn í mörgum þessara sjóða hafa sumir hins vegar lítið vit á fjármálum og eru því kjörin bráð fyrir þá, sem þurfa að ná sér í mikinn pening.

Tilgangur lífeyrissjóða er að safna peningum og ávaxta þá á traustan hátt, svo að sjóðfélagar eigi fyrir ellinni. Þetta gera sjóðirnir með því að festa peninga í öruggum pappírum, mestmegnis ríkistryggðum skuldabréfum og öðrum skuldabréfum, en minna í hlutabréfum.

Á síðustu árum hafa lífeyrissjóðir í auknum mæli fest peninga sjóðfélaga í útlöndum. Þannig hafa þeir dreift áhættunni enn frekar, svo að staðbundin kreppa á Íslandi skaði sjóðfélaga minna en ella. Atvinnulíf yrði samfellt að fara illa um öll Vesturlönd til að skaða sjóðina.

Andstæðan við þessa hugsun um dreifingu áhættu felst í að leggja mikið fé í eitt staðbundið fyrirtæki og standa þannig og falla með gengi þessa eina fyrirtækis. Slíkt ætti raunar að vera ólöglegt, því að lífeyrissjóðir bregðast þannig öryggishlutverki sínu gagnvart sjóðfélögum.

Hingað til hefur stóriðja á Íslandi verið reist fyrir erlent fé, ef frá er skilin aðild ríkisins að járnblendinu á Grundartanga. Þessar fjárfreku framkvæmdir hafa því lítið sem ekki skert möguleika okkar á að fjármagna annað framtak í landinu. Atvinnulífið hefur ekki verið svelt.

Á þessu verður breyting með kaupum lífeyrissjóða og annarra fjársterkra aðila á hlutafé í Reyðaráli. Þeir peningar verða ekki til ráðstöfunar til annars atvinnulífs í landinu. Fjármagnssvelti mun aukast hastarlega og leiða til aukins þrýsting á vextina, sem eru þó háir fyrir.

Innlend fjármögnun Reyðaráls mun skaða þjóðina til langs tíma. Minna fé en ella verður lagt í nútímalegar atvinnugreinar, sem skapa mikla atvinnu á háum launum. Athafna- og hugvitsmenn munu eiga erfitt með að fjármagna nýgræðing tuttugustu og fyrstu aldar.

Í staðinn er féð sogað inn í gamaldags fyrirtæki af því tagi, sem nú eru nærri eingöngu reist í þriðja heiminum, enda hafa þau tiltölulega hæga arðgjöf og greiða tiltölulega lág laun við bræðslupottana. Fjármögnun Reyðaráls er fávíslegt skref aftur á bak til nítjándu aldar.

Mest skaðast auðvitað Austfirðingar, sem eru að dæma börnin sín til framtíðaratvinnu við að skaka í bræðslupottum í stað þess að leita frama og fjár í atvinnugreinum nýrrar aldar. En þjóðin skaðast öll, því að nýju greinarnar fá minna fé en ella sér til vaxtar og viðgangs.

Með því að láta ginnast af fagurgala Reyðaráls eru stjórnendur lífeyrissjóða að leggja drög að lakari ávöxtun og meiri áhættu sjóðfélaga. Þessir stjórnendur eru að sýna fram á, að þeir séu sjálfir óhæfir til að ber ábyrgð á, að hagur sjóðfélaga verði sem beztur á elliárunum.

Reyðarál og hinir ginntu lífeyrissjóðir dæma þjóðina til hægari hagþróunar á nýrri öld. Þeir eru að leggja egg í eina körfu í stað þess að dreifa þeim sem víðast.

Jónas Kristjánsson

DV

Skoðanafasistar

Greinar

Íslenzkir skoðanafasistar eru ósáttir við fjölbreytni skoðana á málum, sem þeim eru hugleikin, svo sem tóbaksvörnum og kynþáttafriði. Þeir reyna með ýmsum hætti að ofsækja þá, sem ekki vilja binda skoðanabagga sína sömu hnútum og handhafar Stórasannleiks.

Skoðanafasistar á Alþingi hafa samþykkt ný tóbaksvarnalög, sem meðal annars banna umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir tóbaks á annan hátt en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra. Þetta er dæmigerður skoðanafasismi, þjóðfélagslegur rétttrúnaður.

Skoðanafasistum hefur ekki tekizt að banna umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir áfengis, svo sem gæðaprófanir og samanburð. Sennilega verður slíkt skoðanabann fljótlega á verkefnaskrá þeirra, því að tæpast getur áfengi talizt skaðminna fíkniefni en tóbak.

Langur vegur er frá aðvörunum á tóbaksumbúðum, auglýsingabanni, takmörkunum á viðskiptum með tóbak, banni við reykingum á opinberum stöðum og öðrum slíkum aðgerðum yfir í að banna mönnum að viðra skoðanir sínar á tóbaki frá margs konar sjónarhóli.

Skoðanabann stríðir gegn stjórnarskránni, svo og fjölþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem Ísland hefur játazt. Nýju lögin eru því marklaus að þessu leyti. En þau sýna, hversu langt skoðanafasistar eru tilbúnir til að ganga til að tryggja þjóðfélagslegan rétttrúnað.

Að undirlagi skoðanafasista hefur ríkissaksóknari höfðað mál gegn manni, sem hefur viðrað óvinsælar skoðanir á íslenzku þjóðerni og kynþáttamálum. Er hann talinn hafa brotið lög, sem segja, að ekki megi smána fólk vegna þjóðernis, litarháttar og kynþáttar þess.

Langur vegur er frá því að fyrirlíta sérkennilegar og sjaldgæfar skoðanir yfir í að banna mönnum að setja þær fram og refsa þeim síðan, ef þeir verða ekki við því. Furðulegt er, að fáir skuli verða til að gagnrýna ofsóknir skoðanafasista gegn hinum meinta kynþáttahatara.

Því miður er einnig algengt hér á landi, að smákóngar í kerfinu vilji hindra, að einstaklingar, sem hafa komizt að mikilvægum og alvarlegum staðreyndum, svari spurningum fjölmiðla um þau efni. Eitt þekktasta dæmið eru skoðanafasistar Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

Þessi nefnd hefur mánuðum saman ofsótt einn heilbrigðisfulltrúa svæðisins fyrir að svara fyrirspurnum fjölmiðla um alvarlegt heilbrigðisástand í kjúklingaræktun og kjúklingaslátrun á Suðurlandi og nokkrum öðrum skyldum málum. Þeir vilja koma þagnarskyldu á hann.

Vegna upplýsinga heilbrigðisfulltrúans í fjölmiðlum hefur verið gert átak í að laga heilbrigðisástandið á Suðurlandi og gæta þannig hagsmuna neytenda. Heilbrigðisnefndin þakkar honum þetta ekki, heldur leggur hann í einelti. Og hún hefur komizt upp með það.

Armur skoðanafasista teygir sig víða. Í vetur hefur borið á kenningum um, að skipuleggja beri og takmarka nafnbirtingar í fjölmiðlum. Þessir rétttrúnaðarmenn vilja hafa séríslenzkar reglur, sem séu töluvert þrengri en venja hefur verið í vestrænum fjölmiðlum til þessa.

Stuðningsmenn þessa skoðanafasisma virðast fremur kjósa þau vinnubrögð að þrengja hringinn um viðkomandi mann með því að segja frá starfi hans, vinnustað og búsetu, án þess að nefna nafn hans, og varpa þannig grun á nokkra aðra, sem lýsingin gæti líka átt við.

Allur þessi skoðanafasismi sýnir, að grundvallarreglur lýðræðis eru ekki í miklum metum hjá mörgum rétttrúnaðarmönnum, sem hafa höndlað Stórasannleik.

Jónas Kristjánsson

DV

Hryllingsríkið

Greinar

Landnám Ísraelsmanna á hernumdum svæðum í Palestínu er einn af þremur helztu drifkröftum vandræðanna á svæðinu. Landi er rænt af heimamönnum og herskáum landnemum komið fyrir á víggirtum búgörðum. Alþjóðareglur um hernám banna slíkt þjóðernisofbeldi.

Þegar friðarferlið hófst fyrir nokkrum árum, hefði átt að stöðva þetta landnám, sem er fleinn í sál heimamanna. Landtakan hélt þó áfram, hvar í flokkum sem ríkisstjórnir Ísraels stóðu. Þetta óeðlilega ástand hefur grafið undan trausti heimamanna á friðarferlinu.

Þjóðernislega ofbeldið, sem felst í landnámi Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, hefur grafið undan trausti Palestínumanna á heimastjórn Arafats. Í vaxandi mæli er litið á hann sem peð í harmleik friðarferlis og jafnvel sem gísl þess. Menn heimta meiri róttækni.

Málsaðilar eiga báðir sök á ofbeldinu á hernumdu svæðunum, sem er önnur höfuðorsök þess, að friðarferlið hefur farið út um þúfur og kemst ekki í gang á nýjan leik. Ef talið er í mannslífum, eiga Ísraelsmenn margfalt meiri sök en Palestínumenn, sennilega sjöfalt meiri sök.

Ofbeldi Ísraelsríkis gagnvart Palestínumönnum hefur aukizt, síðan heimskunnur hryðjuverkamaður varð forsætisráðherra Ísraels. En það jókst líka meðan kratarnir fóru með völd í landinu. Ofbeldishneigð er snar þáttur í þjóðfélaginu, hver sem er við völd hverju sinni.

Þriðja höfuðorsök vandræðanna á svæðinu er eindreginn og óbifanlegur stuðningur Bandaríkjanna við málstað Ísraels. Þessi stuðningur við útlent hryllingsríki gegnsýrir allt þjóðfélagið í Bandaríkjunum, rétt eins og ofbeldishneigðin gegnsýrir allt þjóðfélagið í Ísrael.

Bandaríkin beita neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í þágu Ísraels eingöngu og einangra sig þar með á alþjóðavettvangi. Bandaríkin halda Ísrael uppi með peningum og hergögnum. Þau hafa ræktað það skrímsli, sem Ísrael er orðið í samfélagi ríkjanna.

Menn eiga erfitt með að ná kosningu til pólitískra starfa í Bandaríkjunum nema þeir lýsi yfir stuðningi við Ísrael. Meira hefur borið á þessu í röðum demókrata og var Bill Clinton versti forseti Bandaríkjanna að þessu leyti. Því miður virðist George Bush ætla að feta sömu leið.

Landnámið, ofbeldið og bandaríska skjólið eru samanlagt þrjár grundvallarforsendur þess, að friðarferlið gengur ekki upp. Ef Bandaríkjastjórn kærði sig um að stöðva landnámið, gæti hún fengið því framgengt með því að kippa að sér hendinni í stuðningi við Ísrael.

Fáránlegt er að halda fram, að lausn málsins felist í, að Palestínumenn felli niður sinn sjöunda hluta ofbeldisins. Afturköllun andófs þeirra getur aldrei orðið fyrsta skrefið til að endurvekja friðarferlið, en gæti hins vegar orðið eitt af skrefunum, sem kæmu í kjölfarið.

Því miður hefur landnám og ofbeldi Ísraels grafið svo undan heimastjórn Palestínumanna, að hún hefur ekki lengur tök á tilfinningum heimamanna. Hún getur ekki lengur skrúfað frá andófi og skrúfað fyrir það aftur. Andófið hefur öðlazt sjálfstætt og skipulagslaust líf.

Hér eftir verður að taka tillit til þessarar breyttu stöðu. Bandaríkin og Ísrael verða fyrst að stíga nokkur skref til sátta, áður en hægt er að fara að reikna með, að traust Palestínumanna á nýju friðarferli hafi aukizt svo mikið, að þeir geti látið af réttmætu andófi sínu.

Meðan Bandaríkjamenn fást ekki til að skilja þetta, verður engin lausn fundin á deilu, sem hefur hörmuleg áhrif á stöðu og álit Vesturlanda í þriðja heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðurinn ferðast víða

Greinar

Hugvit og fjármagn, sem verða til á Íslandi, leita út í heim að tækifærum. Fjölþjóðlegt samkomulag Vesturlanda er um að leggja niður fyrri höft og hömlur, svo að mannauður og peningar geti flætt milli landa. Ísland er sem þjóðfélag þáttur í þessari deiglu markaðarins.

Öflugir háskólabæir á borð við Boston og San Francisco í Bandaríkjunum og Cambridge í Bretlandi soga til sín frumkvöðla í nýjustu tækni og vísindum, af því að þar er mannauðurinn, sem fyrirtæki frumkvöðlanna sækjast eftir. Á slíkum svæðum eru sílikon-dalir nútímans.

Frá sjónarhóli einstakra Íslendinga lítur þetta út sem tækifæri. Vegna samninga við Norðurlönd og Evrópusambandið geta menn leitað að spennandi atvinnu víða um Evrópu. Frá sjónarhóli þjóðfélagsins felst í þessu hætta á atgervisflótta og versnandi samkeppnisstöðu þess.

Á íslenzku fjárfestingarþingi í London kom í ljós, að erlendir ráðgjafar vilja, að enska verði höfuðtunga íslenzkra frumkvöðlafyrirtækja, þau stofni skrifstofu í útlöndum og flytji helzt höfuðstöðvar sínar til staða á borð við Cambridge, þar sem rétta andrúmsloftið sé.

Erlendir fjárfestar hika við lítt þekkt og lítil lönd og ekki síður við tungumál, sem þeir skilja ekki. Þeim finnst löng ferðalög til Íslands vera sóun á tíma sínum. Þeir telja sig ekki geta fylgzt nógu vel með gengi fyrirtækjanna, ef margar slíkar hindranir eru í vegi eftirlitsins.

Við sjáum í hagtölum, að fjármagn, sem myndast á Íslandi, hefur sumpart leitað burt. Fúlgur, sem mynduðust við gjafakvótann í sjávarútvegi, eru horfnar á braut og eigendurnir hafa sumpart fært sig í kjölfarið. Aðeins hluti fjárins nýtist í fjárfestingar innanlands.

Við sjáum líka, að fjármagn, sem myndast af völdum velgengni í rekstri hér á landi, er stundum notað til að nýta kunnáttuna og kaupa hliðstæð fyrirtæki í erlendum löndum. Ef vel gengur, verða fyrirtækin smám saman fjölþjóðleg og höfuðstöðvarnar eru fluttar úr landi.

Tækifæri einstaklinganna geta verið áhyggjuefni ríkisvaldsins, sem ekki getur flutt sig milli landa eins og hugvitið og fjármagnið. Þjóðfélagið leggur til innviði á borð við skóla og götur, en missir síðan af hluta sínum í hagnaðinum, af því að tækifærin eru betri úti í heimi.

Hvert er gagnið af góðum skólum, ef hugvitið fer úr landi? Hvert er gagnið af velgengni fyrirtækja, ef fjármagnið fer úr landi? Svör ríkisvaldsins við slíkum spurningum hljóta sumpart að vera önnur en svör einstaklinganna, sem taka þátt í ævintýrum umheimsins.

Opnun landamæranna er ögrun, sem þjóðfélagið þarf að bregðast við. Getur það fundið leiðir til að sameina tiltölulega lága skatta og tiltölulega góða þjónustu, svo að hugvit og fjármagn sogist frekar inn en út? Eru einhver eftirsóknarverð lífsgæði einkum í boði hér á landi?

Engin einföld svör eru við ögrun nútímans. Ljóst er þó, að ríkisvaldið hefur ekki ráð á að nota skattfé fólks og fyrirtækja til gæluverkefna á borð við varðveizlu byggðar á afskekktum stöðum, þegar hið raunverulega verkefni er að fá fólk til að búa á Íslandi, frekar en í útlöndum.

Ýmis sérstaða getur líklega falið í sér eftirsóknarverð lífsgæði, svo sem svigrúmið í mannfáum víðernum hálendisins, þar sem hvergi blettar háspennulína. Einnig þarf að afnema ýmsa forneskju, sem gerir það að tímafreku tollamáli að fá senda ársskýrslu frá útlöndum.

Mikilvægast er, að ríkisvaldið átti sig á, að opnun landamæranna hefur komið því í harða samkeppni við umheiminn um mannauð og peninga nútímans.

Jónas Kristjánsson

DV

Mislæg Miklabraut

Greinar

Miklabrautin í Reykjavík er hættulegasta og dýrasta gata landsins, af því að þar er mest umferð á landinu og af því að hún hefur orðið útundan hjá stjórnvöldum landsins, sem hafa óbeit á Reykjavík og neita algerlega að úthluta vegafé í samræmi við umferðarþunga.

Slysin hrannast upp á margra akreina gatnamótum, sem ekki eru mislæg. Tryggingafélögin hafa reiknað kostnaðinn af gamaldags gatnamótum og komizt að raun um, að hann skiptir tugum milljóna króna á hverju ári á hverjum einustu gatnamótum Miklubrautar.

Þetta eru fimm gatnamót, fimm af átta verstu gatnamótum landsins, og kosta samtals 300 milljónir króna á ári. Tjónakostnaður einstaklinga, þjóðfélags og tryggingafélaga lækkaði umtalsvert, ef öll þessi gatnamót yrðu mislæg. Það væri hagkvæmasta nýting vegafjárins.

Tjónatölur sýna ekki allan sannleikann. Að baki eru oft skaðar, sem aldrei verða bættir, örorka og andlát. Því hvílir þung ábyrgð á herðum stjórnvalda landsins, sem líta á Reykvíkinga sem annars flokks borgara í landinu og vilja verja vegafé til að bora sem flest göt í fjöll.

Mislæg gatnamót eru ekki aðeins bezta vörnin gegn slysum í umferðinni. Þau hindra þar að auki mengunina, sem hlýzt af því, að menn þurfa sífellt að stöðva bíla sína og taka þá af stað aftur. Kyrrstæðir bílar og bílar, sem eru að fara af stað, eru miklir mengunarvaldar.

Þessi töf í umferðinni sóar ennfremur miklu eldsneyti, svo sem fram kemur í útreikningum, er sýna, að gerð mislægra gatnamóta á fjölförnustu stöðunum er þjóðhagslega hagkvæmasti kostur í vegagerð á landinu. Eftir þessum útreikningum er síðan alls ekki farið.

Samgönguráðuneytinu, Vegagerðinni og Alþingi ber að verja fjármunum vegagerðarinnar í samræmi við heildarhagsmuni þjóðarinnar. Ef þessir aðilar landsstjórnarinnar gegndu skyldu sinni, væru öll gatnamót Miklubrautar þegar komin á verkefnaskrá mislægra gatnamóta.

Það þýðir, að ekki nægir að opna ný gatnamót á Miklubraut á fimm ára fresti. Þá tæki aldarfjórðung að koma upp mislægum gatnamótum á Miklubraut allri. Slíkur hægagangur dugar auðvitað alls ekki. Opna þarf ný gatnamót á Miklubraut annað hvert ár að minnsta kosti.

Dæmigert fyrir fáránleika íslenzkrar vegagerðar er, að fjölförnustu og hættulegustu gatnamót landsins, gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, skuli ekki enn vera komin á vegaáætlun. Það er ekki heil brú í hugarfari, sem felur í sér, að göng í fjöllum hafi forgang.

Tvenn mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og við Snorrabraut gera kleift að loka gatnamótunum við Lönguhlíð. Síðan þarf að reisa önnur tvenn mislæg gatnamót við Háaleitisbraut og síðast en ekki sízt við Grensásveg, þar sem er næstversta umferðarhorn landsins.

Með slíkum aðgerðum næðist viðstöðulaus akstur á Hringbraut og Miklubraut frá Vatnsmýri upp að mótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar, þar sem einnig vantar mislæg gatnamót. Verkefnin eru mörg og brýn og öll eru þau á toppi þjóðhagslegrar hagkvæmni.

Vegakerfi er mikilvægur þáttur í innviðum þjóðfélags. Því greiðari sem umferðin er, þeim mun fljótari verða allir flutningar og þeim mun hagkvæmari verður rekstur fjölskyldna, fyrirtækja og þjóðfélagsins í heild. Vegafénu ber því að verja á sem allra hagkvæmasta hátt.

Það ætti að vera forgangsverk íslenzkrar vegagerðar að koma upp mislægum gatnamótum á öllum umferðarási Miklubrautar á þessum fyrsta áratug aldarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ítalir töpuðu

Greinar

Sigur auðjöfursins og fjölmiðlakóngsins Berlusconis í þingkosningunum var ósigur Ítala, sem sýndu, að þeir létu sér í léttu rúmi liggja þrjá dóma, sem á hann hafa fallið fyrir að svíkja undan skatti, múta stjórnmálaflokki og falsa skjöl, svo og ákæru fyrir að múta dómurum.

Þótt dómunum yfir Berlusconi hafi ekki verið framfylgt, eru þeir framarlega í flokki ótal vísbendinga um fjölbreytta spillingu hans, sem urðu til þess, að tímaritið Economist og nokkur af virðulegustu dagblöðum Evrópu sögðu hann óhæfan til að vera forsætisráðherra.

Maður af tagi Berlusconis gæti aldrei unnið kosningar í neinu ríki Vestur-Evrópu, ekki einu sinni í hinum Miðjarðarhafsríkjunum, Spáni og Grikklandi. Fyrirbærið er sérstakt fyrir Ítalíu, þar sem menn segja enn, að menn “neyðist” oft að brjóta lög til að koma sínu fram.

Því dýpra sem saksóknarar hafa kafað í spillinguna, þeim mun betur hefur komið í ljós, hvernig hún gegnsýrir samskipti í stóru og smáu. Vitneskja um útbreiðslu spillingar hefur ekki hvatt Ítali til gagnaðgerða, heldur gert marga þeirra ónæma fyrir vitneskjunni.

Raunar má víða sjá leifar eins konar lénsskipulags miðalda á Ítalíu. Í stað þess að treysta þjóðfélaginu og stofnunum þess leita menn verndar hjá lénsherra og gerast fylgismenn hans í stóru og smáu. Af þessari orsök hafa mafíur víða orðið ríki í ríkinu á Ítalíu.

Fyrirbærið hefur verið ítarlega kannað af ítölskum félagsfræðingum. Öfugt við lýðræðissinna mynda lénsveldissinnar lítil og léleg félagstengsl í láréttum fleti jafningja, en þeim mun öflugri lóðrétt tengsl yfirmanna og undirmanna, milli lénsherra og lénsmanna.

Berlusconi er einn af “sterku mönnunum”, sem víða hafa komizt til valda í þriðja heiminum, meðal annars vegna þess að kjósendur ímynda sér, að ríkidæmi þeirra smitist yfir í þjóðfélagið. Allir þessir sterku menn hafa orðið þjóðum sínum til ógæfu og fjárhagstjóns.

Andrúmsloftið er annað á Ítalíu en í Vestur-Evrópu almennt. Fjöldi Ítala yppti öxlum, þegar hneykslisferill Berlusconis var tekinn fyrir í erlendum fjölmiðlum og hann sagður óhæfur til stjórnmála. Þeir telja útlendinga ekki skilja svonefndar sérstakar aðstæður á Ítalíu.

Ítalir láta sér margir hverjir líka fátt um finnast, þótt maður, sem hefur mikil áhrif vegna ríkidæmis síns og fjölmiðla sinna, bæti við pólitískum völdum. Þeir skilja ekki, að markviss dreifing valdsins í þjóðfélaginu er einn af mikilvægustu hornsteinum vestræns lýðræðis.

Nú versnar staða Ítalíu í samfélagi þjóðanna. Menn grafa upp gamlar áhyggjur af, að Ítalía sé ekki tækt í myntbandalag evrunnar, af því að Ítalir beiti ekki sömu leikreglum og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu. Traust umheimsins á Ítalíu beið hnekki í þingkosningunum.

Ekki er víst, að Berlusconi verði forsætisráðherra og ekki verða nein ragnarök á Ítalíu, þótt svo yrði. Svigrúmið til rannsókna á spillingu minnkar nokkuð og ríkiskerfið verður meira notað til að þjóna peningalegum sérhagsmunum. Þetta er áfall, en lýðræðiskerfið lifir það af.

Mestu máli skiptir, að Ítalía er grunnmúruð í Evrópusambandinu, sem setur mestu spillingunni stólinn fyrir dyrnar og sér um, að heilbrigðum vinnubrögðum að vestrænum hætti verði beitt á mörgum mikilvægum sviðum í embættisrekstri og stjórnmálum á Ítalíu.

Ekki má heldur gleyma, að helmingur Ítala er saklaus af að hafa stutt Berlusconi. Baráttan milli gildismats lýðræðis og lénsveldis mun halda áfram á Ítalíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsæi og traust

Greinar

Notalegt er þjóðfélag, þar sem fólk treystir hvert öðru, embættismönnum sínum og stjórnmálamönnum, svo og innviðum þjóðfélagsins. Aðgerðir til að efla og tryggja traust manna á samfélaginu eru brýnni þáttur vestræns lýðræðis en frjálsar kosningar á fjögurra ára fresti.

Tugir dæma þess eru í þriðja heiminum, að kosningar séu haldnar reglulega, án þess að vestrænt lýðræði teljist ríkja. Í þessum löndum skortir lög og rétt, frelsi til skoðana, funda og frétta og gegnsæi í innviði þjóðfélagsins. Sukksamir lýðskrumarar ráða ferðinni.

Sum atriði eru svo sjálfsögð og einföld, að við áttum okkur ekki á, að þau séu meðal forsenda lýðræðis. Tökum fasteignaskrána sem dæmi. Með nákvæmri skráningu, sem er gegnsæ og nýtur trausts, geta menn sannað eignarétt sinn án þess að leita skjóls hjá sterkum aðila.

Einn af einföldu þáttunum er, að til skuli vera flugslysanefnd, sem gefur út skýrslur um orsakir flugslysa. Þar sem þær eru gefnar út, eru þær gegnsæjar og opnar fyrir gagnrýni. Líklegt má telja, að slík gagnrýni leiði smám saman til betri vinnubragða í flugslysanefnd.

Svo alvarlegir annmarkar eru á nýrri skýrslu, að fullyrða má, að núverandi flugslysanefnd njóti ekki trausts fólks. Hún er talin skauta léttilega yfir kerfislæg vandræði í flugmálum landsins. En skýrslan er gegnsæ og vekur umræðu, sem getur leitt til endurbóta á kerfinu.

Annað þekkt dæmi í nútímanum er umhverfismat, sem að vestrænni fyrirmynd hefur verið tekið upp við undirbúning stórframkvæmda á borð við orkuver. Með því ferli verður málatilbúnaður gegnsærri og auðveldara verður að koma af stað málefnalegri umræðu.

Hitt er svo líklegt, að í fyrstu umferðum komi í ljós, að ekki sé nógu vel staðið að umhverfismati, ekki sízt þegar verið er að renna stoðum undir framkvæmdir, sem í eðli sínu eru meira pólitískar en hagkvæmar. Slíkt umhverfismat hagsmunagæzlu mun ekki njóta trausts manna.

Þriðja dæmið um gegnsæi og traust er, að vestræn ríki leitast við að draga mikilvæg hlutverk úr höndum rétt kjörinna fulltrúa og fela í hendur embættismanna, sem ekki þurfa að vera á teppinu hjá ráðherrum. Þannig eru seðlabankar og þjóðhagsstofnanir gerðar sjálfstæðar.

Það skerðir traust manna á slíkum stofnunum hér á landi, að ráðamenn skuli vera með nefið niðri í þeim. Forsætisráðherra amast við gagnrýni í skýrslum Þjóðhagsstofnunar, þótt slík gagnrýni þyki sjálfsögð og nauðsynleg hjá þjóðhagsstofnunum nágrannaríkjanna.

Það skerðir líka traust manna á slíkum stofnunum, ef þeim er stjórnað af þreyttum stjórnmálamönnum, sem fá embættið fyrir að hætta að vera fyrir í pólitíkinni. Slík misnotkun á Seðlabankanum rýrir traust manna á honum og spillir getu hans til að valda hlutverkinu.

Einnig er þáttur vestræns lýðræðis, að fólk geti treyst gjaldmiðlinum. Gengi hans má aðeins breytast hægt á löngum tíma. Vegna erfiðleika við að standa undir þeirri kröfu hafa vestrænar þjóðir í auknum mæli farið að nota öflugar myntir á borð við dollar og evru.

Loks má nefna gegnsæi, sem þarf að vera í fjárreiðum stjórnmálanna, svo að fólk sjái, hvernig pólitíkin er fjármögnuð. Lög um opnar fjárreiður eru forsenda gegnsæis, sem er síðan forsenda umbóta, sem að lokum leiða til trausts. Þannig er vestræn lýðræðisþróun.

Í mörgu erum við aftarlega á merinni í þessu ferli vestræns lýðræðis. Leiðtogar okkar fara sér óþarflega hægt við að efla gegnsæi og traust í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Erfið Ameríka

Greinar

Bandaríkin hafa misst sæti sitt í mannréttindanefnd og fíkniefnavarnanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru dæmi um aukna einangrun þeirra á alþjóðavettvangi, sem stafar meðal annars af vaxandi einangrunarhneigð í landinu sjálfu og vaxandi einstefnu þess í alþjóðamálum.

Fallið úr mannréttindanefndinni er sérkennilegt, því að kjöri náðu ríki á borð við Súdan, þar sem engin mannréttindi eru virt. Dauðarefsingin í Bandaríkjunum og neitun þeirra á aðild að Alþjóða stríðsglæpadómstólnum eru léttvæg í alþjóðlegum samanburði mannréttindabrota.

Að vísu féllu Bandaríkin ekki fyrir Súdan, heldur fyrir Frakklandi, Svíþjóð og Austurríki, því að kosningin var svæðisbundin. Eigi að síður eru það heimsviðburðir, þegar frumkvöðull stofnunar Sameinuðu þjóðanna getur ekki lengur náði kjöri í mikilvægustu nefndir þeirra.

Ein helzta skýringin er, að ríki heims eru orðin dauðþreytt á skuldseigju Bandaríkjanna, sem ekki vilja borga hlutfallslega eftir landsframleiðslu eins og ríki Vestur-Evrópu. Þótt kostnaðarhlutdeild Bandaríkjanna hafi verið minnkuð, greiða þau ekki skuldir sínar.

Önnur þungvægasta skýringin er, að bandaríska þingið er orðið svo einangrunarsinnað, að það staðfestir ekki lengur alþjóðlega sáttmála. Þar rykfalla núna um sextíu slíkir sáttmálar, sem fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa raunar skrifað undir, sumir hverjir afar mikilvægir.

Alþjóða mannréttindadómstóllinn og Kyoto-sáttmálinn eru frægustu dæmin um þetta. Án aðildar að slíkum stofnunum eru Bandaríkin máttvana sem heimsveldi. Þau geta beitt umhverfið hótunum og ógnunum, en þau hætta smám saman að geta veitt heiminum forustu.

Framlög á fjárlögum Bandaríkjanna til alþjóðamála hafa rýrnað um helming á tveimur áratugum. Bandaríkin leggja mun lægra hlutfall landsframleiðslu til þróunaraðstoðar en flest ríki Evrópusambandsins og eru nú með lægsta hlutfall sitt frá því að skráning þess hófst.

Jafnframt aukast efnahagslegar ýfingar milli Bandaríkjanna og umheimsins. Árið 1999 voru skráðar viðskiptaþvinganir gagnvart sjötíu ríkjum heims, flestar meira eða minna árangurslitlar. Þær sýna meiri áhuga á að ögra umheiminum en að hafa forustu fyrir honum.

Bandaríkjamenn skilja ekki erlend tungumál og vilja ekki læra að skilja þau. Þeir eiga í samskiptum og samkeppni við evrópska diplómata, sem tala reiprennandi hvert tungumálið á fætur öðru, svo sem greinilegast má heyra á göngum stofnana Evrópusambandsins.

Milljónir manna um allan þriðja heiminn hata Bandaríkin hreinlega eins og pestina vegna hremminga, sem þetta fólk, ættingjar þess og vinir hafa mátt þola af hálfu alls konar harðstjóra, einræðisherra og hreinna brjálæðinga, sem Bandaríkin hafa stutt til valda.

Aukin einangrun Bandaríkjanna á fjölþjóðavettvangi byggist á ýmsum slíkum atriðum. Einnig er að koma í ljós, að máttur þeirra til hernaðarlegra afskipta hefur minnkað, svo sem sjá mátti í Líbanon og Sómalíu. Menn eru því minna hræddir við Bandaríkin en áður.

Einangrunarstefna Bandaríkjanna gæti verið nothæf, ef þau væru sjálfbær og þyrftu ekki að stunda viðskipti og samskipti við umheiminn. Hún kom til álita, áður en Bandaríkin lentu í tveimur heimsstyrjöldum og urðu þungamiðja alls kyns alþjóðasamstarfs. En ekki nú.

Verst er, að áföllin í utanríkismálum eru til þess fallin að efla óbeit Bandaríkjamanna á umheiminum og magna vítahring bandarískrar einangrunarstefnu.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðslögmál biluðu

Greinar

Hækkað matarverð á Íslandi er eðlileg afleiðing af samruna fyrirtækja. Þau leitast við að milda hreggviðri markaðarins með því að sameinast og komast þar með úr samkeppni í fákeppni og síðan úr fákeppni í fáokun og enda síðan í varanlegri sæluvímu einokunar.

Baugur og Kaupás eru í matvörunni komin í flokk með olíufélögunum, tryggingafélögunum, bönkunum og flugfélögunum. Í öllum þessum greinum hefur samkeppni samkvæmt markaðslögmálum liðið undir lok og ný staða komið upp, sem kennslubækurnar ráða ekki við.

Þjóðir og þjóðfélög hagnast meðan markaðslögmálin virka. Þannig lækkaði matvöruverð lengi á Íslandi, stuðlaði að bættum lífskjörum og minni verðbólgu. Nú hefur tekið við tímabil, þar sem matvöruverð hækkar, stuðlar að verri lífskjörum og meiri verðbólgu.

Þetta er staðfest í nýrri skýrslu Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn. Slíkar skýrslur eru gagnlegar til að lýsa okkur í moldviðri málsaðila, en þær koma ekki í stað sjálfvirkra markaðslögmála, hinnar ósýnilegu handar, sem dásömuð er í markaðshagfræðinni.

Við þurfum fleiri svona skýrslur. Við söknum skýrslna um bensínið, tryggingarnar, flugið og bankana. Við viljum til dæmis, að fróðir menn játi, að tilraunir stjórnvalda til samruna banka og þar með aukinnar fáokunar muni skaða hagsmuni þjóðarinnar og þjóðfélagsins.

Bætt verðlagsvitund neytenda getur hjálpað, sérstaklega á fyrri stigum samrunaferilsins, áður en samkeppni breytist í fákeppni, því að fólk hefur ekki í önnur hús að venda, þegar því stigi er náð. Þess vegna er svigrúm til endurbóta í rauninni afar takmarkað hér á landi.

Aðeins síðustu eftirlegukindur sósíalismans trúa, að laga megi stöðuna með gamalkunnu verðlagseftirliti, útreikningum álagningar og öðrum aðgerðum hins opinbera, sem á sínum tíma hækkuðu verðlag. Umræða um álagningu er ekki leið til lausnar vandamálsins.

Bezt væri, ef unnt reyndist að sigrast á eðlislægu fámenni markaðarins hér á landi með því að opna landið á þann hátt, að ný samkeppni komi að utan, rétt eins og brezka flugfélagið Go fór skyndilega að flytja fólk fram og til baka fyrir fimmtán þúsund krónur á mann.

Tilraunir til að opna glugga trygginga og bensíns hafa ekki tekizt. Íslendingar reyndust nógu miklir þrælar kvalara sinna, tryggingafélaganna, til að hafna frelsi að utan. Irving-feðgar sáu það og hættu við að hefja samkeppni í bensíni, þrátt fyrir stuðning Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin er minna samkeppnissinnuð en borgarstjórnin og hefur reynt að knýja fram sameiningu bankanna, svo að einn banki verði úr ríkisbönkunum. Sú sameining mun breyta núverandi fákeppni bankakerfisins í fáokun og skaða bæði þjóðina og þjóðfélagið.

Ef notkun gjaldmiðla yrði gefin frjáls hér á landi, svo að menn gætu farið að reikna og greiða í evrum eða dollurum eða hvaða annarri mynt, sem þeim þóknast, mundi þjóðfélagið opnast betur, samanburður batna og erlendir bankar fengjust hugsanlega til að opna útibú.

Ef Ísland tæki fullan þátt í Evrópusambandinu, mundi landið opnast enn frekar og ýmis samkeppnisfæri eflast að nýju. Ekki er von á góðu meðan stjórnvöld eru andvíg aðild og halda dauðahaldi í sífellt rýrari krónu, til viðbótar stuðningi þeirra við einokunarferli bankakerfisins.

Við erum í erfiðri stöðu. Markaðslögmál hafa dottið úr sambandi á stórum sviðum. Við þurfum því að endurmeta stöðu okkar og leita nýrra og áður óþekktra lausna.

Jónas Kristjánsson

DV

Skothríðin er hafin

Greinar

Skothríð fíkniefnamanna um helgina er einn margra fyrirboða. Í fyrra var framið fíkniefnamorð. Fimm ár eru síðan fíkniefnamenn börðu hnýsinn tollvörð til óbóta. Smám saman færist vandi umheimsins inn í landið og fyrr eða síðar þurfum við að læra að taka á honum.

Án aðgerða verður ástandið svipað og það er orðið víða erlendis, þar sem fíkniefnamönnum hefur tekizt að grafa undan þjóðskipulaginu með ógnunum og ofbeldi, mútum og fyrirgreiðslum. Við sjáum nú þegar, að íslenzk burðardýr þora ekki að segja hverjir réðu þau til verka.

Hér á landi eru að myndast undirheimar, þar sem lög og réttur þjóðfélagsins gilda ekki, heldur miskunnarleysi yfirmanna fíkniefnasölunnar. Þessi harði heimur teygir klærnar upp á yfirborðið og spillir gæzlumönnum þjóðfélagsins, alveg eins og gerzt hefur víða erlendis.

Ekki hefur tekizt að hefta útbreiðslu efnanna. Stóru fíkniefnamálin hófust vegna upplýsinga frá upphafspunkti ferils efnanna en ekki frá endapunktinum. Efnin voru tekin við tollskoðun, en ekki vegna upplýsinga neytenda, sem alls ekki vilja segja til þeirra, sem efnin selja.

Hin svokölluðu stóru fíkniefnamál landsins hafa ekki haft umtalsverð áhrif á markaðinn. Verðsveiflur hafa verið litlar. Það segir okkur, að náðst hefur aðeins í lítið brot efnanna, sem eru í umferð. Verðum við þannig að sætta okkur við síaukna neyzlu og síaukna glæpi?

Fyrir tólf árum benti tímaritið The Economist á, hvernig mætti leysa vandann sem fylgir ólöglegri sölu fíkniefna. Vakin var athygli á lausninni í leiðara DV á þeim tíma og raunar nokkrum sinnum síðan. Nú síðast hefur þekktur lögmaður tekið undir þessi sjónarmið.

Lausnin felst í að lögleiða fíkniefnin, rétt eins og áfengi er löglegt og geðbreytilyf eru lögleg. Salan verði tekin úr höndum glæpamanna og færð í hendur ríkisverzlana eða lyfjabúða. Þar með væri fótunum kippt undan þeirri starfsemi sem núna nagar innviði þjóðskipulagsins.

Neyzla fíkniefna mun aukast, en lögbrot stórminnka. The Economist vísaði á sínum tíma til sérfræðinga, sem höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, sætta sig við aukna neyzlu, en njóta í staðinn aukins friðar og réttlætis.

Vandi neytenda ólöglegra efna snýr ekki aðeins að neyzlunni sjálfri, heldur enn frekar að kostnaðinum og spillingunni við að komast yfir efnin. Vandi þjóðfélagsins felst margfalt meira í ólöglegri starfsemi undirheima heldur en í afleiðingum neyzlunnar uppi á borði.

Þótt mikilvægt sé að hamla gegn neyzlu ólöglegra fíkniefna er enn mikilvægra að hindra myndun hættulegra valdamiðstöðva, sem grafa undan þjóðfélaginu. Sú var niðurstaðan í Bandaríkjunum, þegar áfengisbann var afnumið, og þetta lögmál gildir líka um fíkniefnin.

Ekki má gleyma, að áfengi er leyft, þótt það sé mjög hart fíkniefni og margfalt dýrara og hörmulegra vandamál en ólöglegu fíkniefnin. Ekki má gleyma, að þorri afbrota í landinu er framinn undir áhrifum áfengis og lyfja úr lyfjabúðum, frekar en ólöglegra fíkniefna.

Samt er sala áfengis leyfð í sérstökum ríkisverzlunum og sala geðbreytilyfja leyfð í sérstökum lyfjabúðum. Engar efnisforsendur eru fyrir því að fela undirheimalýð að sjá um sölu annarra fíkniefna en áfengis og geðbreytilyfja og leyfa þeim að grafa undan þjóðfélaginu í leiðinni.

Með því að leyfa raunsæi að leysa hræsni af hólmi sem leiðarljós okkar í baráttunni gegn fíkniefnaheiminum getum við hindrað, að innviðir þjóðfélagsins bresti.

Jónas Kristjánsson

DV

Öfugmæla-verðlaun

Greinar

Flestir eru þeir látnir, sem eiga verðlaun skilið fyrir að veita birtu og yl í þjóðfélagið án notkunar kola eða olíu. Landið var rafvætt og hitaveituvætt fyrir mörgum áratugum, löngu áður en núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Hún á engan þátt í því merka umhverfismáli.

Feður málsins eru löngu liðnir ráðamenn Reykjavíkur, sem stofnuðu Hitaveituna og reistu orkuverið við Ljósafoss. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt neitt nýtt til orkumála, nema vera skyldi aukna áherzlu á stórar stíflur og miðlunarlón orkuvera í þágu stóriðju.

Það er eins og hver önnur sviðsetning, þegar erlendir menn með mikla sýniþörf, þar á meðal Míkhaíl Gorbatsjov, sem hefur of lítið að gera, stofna sérstök samtök fyrir sig í tízkugrein umhverfismála og veita verðlaun út og suður, þar á meðal íslenzku ríkisstjórninni.

Vatnsorkuver og hitaveitur hafa lengi verið sérgrein og stolt Íslendinga. Við teljum þetta að mestu leyti vera hvíta orkuöflun, sem sé sjálfbær og mengi ekki umhverfið. Hingað til höfum við að mestu leyti haldið okkur við framkvæmdir, sem valda ekki miklum skaða.

Við þurfum þó að fara varlega, því að komið hefur í ljós á síðustu árum, að vatnsorkuver eru ekki eins skaðlítil og áður var haldið. Í nóvember síðastliðnum skilaði Alþjóða stíflunefndin tímamótaáliti til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um efnahagsáhrif af stíflum og lónum.

Nefndin skoðaði þúsund stíflur og lón um allan heim og komst að raun um, að þessar framkvæmdir hefðu oftast skaðað efnahag þjóða í stað þess að bæta hann. Mesti vandinn er, að stíflur hindra eðlilegan flutning á aur niður árfarvegi og valda breytingum á jarðvegi.

Aswan-stíflan í Egyptalandi hindrar aur í að bætast við óshólma Nílar og hamlar móti sjávargangi. Nú er sjór farinn að ganga á land í óshólmunum og ógnar milljónum manna. Einnig hefur jarðvegur orðið saltari í Nílardal og gefur minni gróður af sér. Þarna tifar tímasprengja.

Enn verri er vandinn í Kína, þar sem risastíflum og risalónum hefur verið komið fyrir án tillits til hliðarverkana. Eins og í Egyptalandi breytist jarðvegur áveitusvæðanna í Kína og gefur sífellt minna af sér. Þar tifar tímasprengja yfirvofandi hungursneyðar.

Við höfum verið svo heppin á Íslandi, að öflugustu orkuverin byggjast að mestu leyti á rennslisvirkjunum, sem þurfa ekki háar stíflur og mikil miðlunarlón. Þannig hefur Þjórsár- og Tungnaársvæðið að mestu verið virkjað án mikilla breytinga á landslagi svæðisins.

Miðlunarlón hafa hér á landi þann alvarlega galla að vera með breytilegu yfirborði eftir miðlunarþörfum hvers árstíma. Þannig er reiknað með, að hæðarmunur í fyrirhuguðu lóni við Kárahnjúkavirkjun verði yfir 70 metrar. Sveiflan í hæð lónsins á að nema rúmum 70 metrum.

Við lónið verða því víðáttumikil landflæmi, sem stundum eru undir vatni og stundum þurr og eru hvarvetna til óprýði. Samkvæmt biturri erlendri reynslu myndast þarna dauður foksandur og fokleir sem hindrar fjörugróður og stuðlar að gróðureyðingu í nágrenninu.

Miðlunarlón verða aldrei neinn áfangastaður ferðamanna, hvað þá að menn geti haft tekjur af að sigla með ferðamenn um þau. Í Þórisvatni höfum við dæmi um dautt lón af þessu tagi. Það er eyðimörk eins og landið í kring og sýnir okkur, hvernig Hálsalón verður.

Við höfum meira en nóga orku til frambúðar, þótt við förum að ráði Alþjóða stíflunefndarinnar og höfnum mengandi risastíflum og -lónum ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfskaparvíti kjósenda

Greinar

Einkennilegt er, að fólk með kosningarétt telur sig yfirleitt ekki bera neina ábyrgð á gerðum sínum. Það telur eðlilegt að kvarta og kveina yfir gerðum stjórnvalda, en hefur ekki lyft litla fingri til að koma í veg fyrir, að gæzlumenn sérhagsmuna einoki störf Alþingis.

Alþingismenn taka flestir málstað sérhagsmuna fram yfir málstað almannahagsmuna, hvort sem fjallað er um grænmeti eða eitthvað annað, af því að þeir vita, að þeir komast upp með það. Kjósendur munu ekki láta umboðsmenn sérhagsmuna fá makleg málagjöld.

Starf alþingismanna og einkum þeirra alþingismanna, sem Alþingi gerir að ráðherrum, felst einkum í að veita sérhagsmunum brautargengi. Frægust dæmi um slíkt eru í landbúnaði og sjávarútvegi, en sama stefna einkennir líka störf ríkisstjórnar og Alþingis á öðrum sviðum.

Áratugum saman hefur verið bent á þá óhrekjanlegu staðreynd, að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi er rekinn á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Sjálft vinnsluvirðið í greininni er alls ekki neitt og hefur raunar lengst af verið neikvætt á sumum sviðum greinarinnar.

Kjósendur vita vel um þessa umræðu og eru flestir sammála niðurstöðunum. Þeir vita, að þeir eru látnir borga hærri skatta en ella vegna þessa. Þeir vita líka, að þeir eru látnir borga meira fyrir matinn en ella vegna þessa. Þeir gera samt ekkert með þessa vitneskju.

Síðasta áratug var hörkuumræða um gjafakvótann í sjávarútvegi, sem felst í, að auðlindir, sem sjálft þjóðfélagið hefur með verndaraðgerðum bjargað frá hruni, eru afhentar fámennum hópi gæðinga, sem leigja síðan kvótann og selja eins og þeir eigi sjálfa auðlindina.

Kjósendur vita vel um þessa umræðu og eru flestir sammála niðurstöðunum. Þeir vita, að þeir eru látnir borga hærri skatta en ella vegna þessa. Þeir vita raunar, að þetta jafngildir öllum tekjuskatti einstaklinga í landinu. Þeir gera samt ekkert með þessa vitneskju.

Ráðherrar og alþingismenn styðja sérhagsmuni, af því að þeir eru öflugir og samstæðir og leggja sumir mikið fé í kosningasjóði. Ráðherrar og alþingismenn hafna almannahagsmunum, af því að þeir eru lágværir og sundraðir og fjármagna ekki kosningabaráttu.

Ef kjósendur tækju ábyrgð á gerðum sínum og veldu sér umboðsmenn í stjórnmálum eftir hagsmunum sínum sem skattgreiðendur og neytendur, sem um leið eru almannahagsmunir, mundu stjórnmálamenn ekki voga sér að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Svo blindir eru kjósendur á eigin hagsmuni, að fæstir þeirra styðja Neytendasamtökin með aðild sinni, og svo starblindir eru þeir á eigin hagsmuni, að ekkert Skattgreiðendafélag er til, svo vitað sé. Stjórnmálamenn horfa á þetta sinnuleysi og haga sér auðvitað eftir því.

Stjórnmálamönnum er ekki hafnað í skoðanakönnunum og prófkjöri innan flokka, þótt þeir hafi það á samvizkunni að hafa tekið sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Stjórnmálaflokkum er ekki hafnað í kosningum, þótt þeir hafi lagt lóð sitt allt á sömu vogarskál.

Því ættu kjósendur ekki að kvarta og kveina, þótt landbúnaðarráðherra, aðrir ráðherrar, allir þingmenn stjórnarflokkanna og nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hækki matarverð með ofurtollum. Kjósendur ættu heldur að sparka þessum umboðsmönnum sínum úr starfi.

Meðan kjósendur neita að gæta hagsmuna sinna sem neytendur og skattgreiðendur er engin von til þess, að stuðningi við þrönga sérhagsmuni linni í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hatur á höfuðborg

Greinar

Iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hefur lagt sig í líma við að tefja mikla stækkun álversins við Grundartanga, svo að hún leiði síður til frekari frestunar álvers í Reyðarfirði, sem er flokknum mjög hjartkært, enda er það lengra frá hinu mjög svo hataða höfuðborgarsvæði.

Norðurál við Grundartanga afkastar núna 90 þúsund tonnum af áli á ári. Leyfi er fyrir 90 þúsund tonna afköstum til viðbótar, en ráðamenn fyrirtækisins vilja stækka það upp í 300 þúsund tonna afköst. Til þess þarf nýtt umhverfismat, sem ráðherra hefur komið í veg fyrir.

Ráðamenn Norðuráls eru þekktir fyrir að ganga rösklega til verka. Stuðningsmenn Reyðaráls óttast, að mikil og ör stækkun Norðuráls muni leiða til, að ekki verði talið efnahagslega ráðlegt að reisa umdeilt Reyðarál á sama tíma vegna ofþenslu í framkvæmdum í landinu.

Engar efnislegar ástæður eru fyrir framferði ráðherrans. Norðurál er hagkvæmur stóriðjukostur, sem veldur miklu minni umhverfisdeilum en Reyðarál, er kallar á flutning tuttugu fallvatna milli farvega og gríðarlega stíflu og lón með afar breytilegu vatnsyfirborði.

Valgerður Sverrisdóttir er ekki að vinna fyrir þjóðina í ráðuneytinu, heldur gegn henni. Hún er að reyna að tefja hagkvæmar framkvæmdir við höfuðborgarsvæðið, svo að umdeildar framkvæmdir í strjálbýlinu fái forgang. Hún er dæmi um ofbeldishneigðina í höfuðborgarhatrinu.

Ráðherrar Framsóknarflokksins eru ekki einir um að reyna að níða skóinn niður af höfuðborgarsvæðinu. Samgönguráðherra hefur lagt sig fram við að fresta framkvæmdum við mislæg gatnamót á því svæði, svo að þau sogi ekki peninga frá jarðgöngum gegnum fjöll.

Engar efnislegar ástæður eru fyrir framferði ráðherrans. Mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu stuðla að hagkvæmni í flutningum mjög margra og draga þar að auki úr slysum, en jarðgöngin eru ákaflega dýr og hafa ekki nema brotabrot af nýtingu gatnamótanna.

Efnahagslega er augljóst, að þjóðin hefur meira gagn af mislægum gatnamótum Miklubrautar og nokkurra þverbrauta hennar, svo og mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og nokkurra þverbrauta hennar heldur en af jarðgöngum í fjöllum milli afskekktra héraða.

Sturla Böðvarsson er ekki að vinna fyrir þjóðina í ráðuneytinu, heldur gegn henni. Hann er að reyna að tefja hagkvæmar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, svo að umdeildar framkvæmdir í strjálbýlinu fái forgang. Hann er dæmi um ofbeldishneigðina í höfuðborgarhatrinu.

Hvar í flokki sem þeir standa vinna ráðherrarnir gegn hagsmunum þess rúmlega helmings þjóðarinnar, sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Þeim er hjartanlega sama um, að fólk á þessu svæði missi vinnuna, þegar þeir eru að flytja opinberar stofnanir með handafli á afskekkta staði.

Þeim er líka hjartanlega sama um, að þessar stofnanir verða lélegri þjónustustofnanir en þær voru áður vegna aukins skorts á sambandi þeirra við fólk. Þeir líta ekki á opinberar stofnanir sem þjónustu, heldur aðferð við að útvega störf í kjördæmum, sem þeim eru hjartkær.

Alveg er líka sama, hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn á mann í stöðu landbúnaðarráðherra. Allir kappkosta þeir að okra á fólki í skjóli landbúnaðareinokunar, af því að það býr flest á höfuðborgarsvæðinu og telst því ekki menn með mönnum.

Furðulegt er, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu skuli áratug eftir áratug láta þessa tvo stjórnmálaflokka komast upp með markvisst hatur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíð trúir Atkins betur

Greinar

Nokkrir næringarfræðingar eru með böggum hildar yfir því, að forsætisráðherra skuli ekki leita næringarráða hjá þeim, heldur fara í smiðju bandarísks töfralæknis og fá leyfi hans til að megra sig með aðferðum, sem fela meðal annars í sér egg og beikon í morgunverð.

Í stað þess að amast við aðferðum, sem virðast koma forsætisráðherranum að gagni, væri þessum næringarfræðingum og ýmsum fleiri slíkum nærtækara að spyrja sig, hvers vegna ráð næringarfræðinga hafa komið viðskiptavinum þeirra að átakanlega litlu gagni.

Íslenzkum næringarfræðingum virðist mörgum hverjum ósýnna um að fylgjast með fræðunum eftir að þeir koma úr skóla en mörgum öðrum stéttum sérfræðinga. Að minnsta kosti virðast greina- og bókahöfundar íslenzkrar næringarfræði sumir vera harla úreltir.

Á síðasta áratug tuttugustu aldar varð almennt vitað, að fitumyndun í líkama fólks stafar einkum af óstýrilátri insúlínframleiðslu líkamans, sem stafar einkum af óhóflegu kolvetnisáti þess, einkum þó neyzlu einfaldra sykurtegunda, sem bætt er út í flest matvæli fólks.

Þótt vestrænar þjóðir, og þar á meðal Íslendingar, hafi stórminnkað fituát sitt að ráði næringarfræðinga, hafa þær haldið áfram að þyngjast skelfilega. Það stafar af, að kolvetnisrík fæða á borð við pöstur og pítsur og sykurblönduð pakkafæða eru orðin að þjóðarréttum.

Léttmjólk og undanrenna hafa tekið við af feitri nýmjólk og alls konar fituskertar smjörvörur hafa tekið við af feitu smjöri, svo sem auðveldlega má sjá í rekkum stórmarkaða. Samt hafa Íslendingar haldið áfram að fitna, enda er sykri óspart mokað í mjólkurvörur.

Á líkamsræktarstöðvum halda sumir næringarfræðingar pöstum og sykurdrykkjum að fólki og stuðla þannig að vítahring kolvetna-insúlíns-offitu. Síðan skrifa þessir úreltu næringarfræðingar greinar í blöð og skrifa bækur, þar sem sykur er talinn ódýr og hollur orkugjafi.

Ekki er nóg með, að íslenzkum næringarfræðingum virðist mörgum hverjum vera ókunnugt um uppgötvanir á samhengi sykurs, insúlínframleiðslu og offitu, heldur geta þeir ekki heldur skilið, hvers vegna offitufólk fer ekki varanlega eftir ráðum þeirra, heldur gefst upp.

Ekki gengur að láta fólk hætta varanlega að reykja tóbak með sölu á nikótíntyggjó og nikótínplástrum, af því að sjálft fíkniefnið, nikótínið, er áfram notað. Alveg á sama hátt er ekki hægt að láta offitufólk hætta matarfíkn með því að halda fíkniefnunum áfram í fæðunni.

Sérfræðingum í áfengisfíkn dettur ekki í hug að láta fíklana hafa svo mikið sem eitt bjórglas á viku, af því að þeir vita, að það viðheldur fíkninni. Á sama hátt ber ekki að láta tóbaksfíkla hafa nikótíntyggjó og nikótínplástur og ekki láta kolvetnisfíkla hafa einfaldan sykur.

Næringarfræðingar virðast margir hverjir ekki skilja hugtakið fíkn. En það hugtak skýrir þó, hvers vegna offitufólk getur ekki fylgt ráðum um mataræði. Það ræður einfaldlega ekki við sig, þegar það situr andspænis fíkniefnunum. Líkaminn heimtar sitt blóðsykurflipp.

Forsætisráðherra hefur tekið upp aldarfjórðungs gamla og grófa aðferð Atkins læknis, sem mörgum hefur reynzt vel, enda er hún óneitanlega áhrifamikil. Á síðustu árum hafa komið fram mildari og hægari, en hollari aðferðir, sem fela meðal annars í sér grænmeti.

Næringarfræðingar ættu ekki að amast við ágætri megrun forsætisráðherra heldur fara að kynna sér hin nýju fræði, sem lýsa þætti fíknar og insúlíns í offitu.

Jónas Kristjánsson

DV