Greinar

Sterkir boða ógæfu

Greinar

Þegar persónugervingur íslenzkrar spillingar bað þjóðina í síðustu kosningum um að veita sér brautargengi til að berjast gegn spillingu, voru aðeins örfá prósent þjóðarinnar reiðubúin að trúa. Það segir okkur, að fáir Íslendingar séu reiðubúnir að trúa hverju sem er.

Hins vegar er um það bil helmingur Ítala reiðubúinn að trúa, að persónugervingur ítalskrar spillingar, Silvio Berlusconi, sé bezti kostur þjóðarinnar sem nýr forsætisráðherra eftir þingkosningarnar í maí, þótt hann hafi reynzt lélegur og skammlífur landsfaðir árið 1994.

Ennfremur er um það bil helmingur Perúmanna reiðubúinn að trúa, að persónugervingur þarlendrar spillingar, Alan Garcia, sé bezti forsetakosturinn í úrslitakjörinu í maí eða júní, þótt hann hafi reynzt skelfilegur forseti landsins árin 1985­1990 og hafi lengi verið landflótta.

Eftir er að sjá, hvort lýðskrumararnir á Ítalíu og í Perú ná hinum eftirsóttu embættum. Hitt er víst, að tjón Ítala verður minna en Perúmanna, af því að hinir fyrrnefndu búa við þingræði, en hinir síðarnefndu við forsetaræði, þar sem forsetinn er kosinn beinni kosningu.

Vegna meiri valddreifingar við þingræði heldur en við forsetaræði eru meiri líkur á, að Ítalir geti varizt misbeitingu valds heldur en Perúmenn. Sá hefur reynzt galli forsetaræðis í fátækum löndum, að landsfaðirinn misbeitir valdinu til að afla sér aukinna valda.

Þannig hafa forsetar Suður-Ameríku flestir orðið að hálfgerðum eða algerum einræðisherrum, þar á meðal sá, sem nýlega flúði frá Perú rúinn trausti. Það var Alberto Fujimori, sem lengi vel var einn helzti ástmögur þeirra, sem telja vestrænt hagkerfi vera allra meina bót.

Þannig hafa nánast allir forsetar Afríku orðið að meira eða minna trylltum einræðisherrum, sem hafa stórskaðað þjóðir sína og sumir hverjir skilið þær eftir í þvílíkum rústum, að óbætanlegt má telja. Margir þeirra náðu völdum með stuðningi kjósenda í kosningum,

Lýðræði að vestrænum hætti felst nefnilega ekki bara í kosningum. Þær eru nauðsynlegur þáttur lýðræðis, en ekki fullnægjandi. Þrír aðrir þættir skipta ekki minna máli, í fyrsta lagi lög og réttur, í öðru lagi skoðana-, funda, mál- og eignafrelsi og í þriðja lagi valddreifing.

Lýðræði gagnast ekki, nema allir þessir fjórir þættir séu meira eða minna virkir. Valddreifingin er ekki léttvægari en hinir þættirnir, enda má sjá, að skortur á henni hefur víðast hvar orðið lýðræði fjötur um fót í þriðja heiminum og raunar einnig í ríkari löndum.

Valddreifing er ýmiss konar. Á einn veg er valdi dreift milli framkvæmda-, löggjafar- og dómsvalds. Á annan veg er valdi dreift milli sveitarstjórna, landsstjórnar og fjölþjóðasamtaka. Einnig eru til stofnanir úti í bæ, sem hafa áhrif á gang mála, svo sem þrýstihópar af ýmsu tagi.

Því miður hafa ráðamenn á Vesturlöndum og ráðamenn fjölþjóðastofnana í viðskiptum og fjármálum verið of blindir á nauðsyn valddreifingar. Þeir hafa trúað, að sterkir menn tryggi bezt, að lánað eða gefið fé komi fátækum þjóðum að notum, þótt reynslan sýni annað.

Mestu vandamál þjóða, ríkja og heimshluta stafa einmitt af sterkum mönnum á borð við Hitler, Stalín, Maó, Milosevits og svo framvegis endalaust. Reynslan er miklu betri af veikum leiðtogum, sem þurfa að þrúkka hver við annan um framgang mikilvægra mála.

Íslendingar eru vel settir í flokki þjóða, sem meira eða minna hafa alla fjóra þætti lýðræðis í góðu lagi og lenda því ekki í hremmingum af völdum sterkra leiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíð lemur Halldór

Greinar

Staða Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni hefur hríðversnað. Smám saman hefur forsætisráðherra tekið þar öll völd og valtað yfir samstarfsflokkinn eftir hentugleikum og jafnvel eftir landsfrægum reiðiköstum sínum, sem hafa gerzt æ tíðari upp á síðkastið.

Nýlega tók forsætisráðherra völdin af iðnaðar- og viðskiptaráðherra við skipun stjórnar Búnaðarbankans og rifti samkomulagi, sem utanríkisráðherra hafði gert um breytta skipan bankaráðsins. Hann gerði báða þessa ráðherra Framsóknarflokksins að ómerkingum.

Nýjasta og bezta dæmið um niðurlægingu Framsóknarflokksins eru viðbrögð hans við afnámi Þjóðhagsstofnunar, sem forsætisráðherra gaf fyrst í skyn og herti síðan á, þegar farið var að ræða málið. Formaður Framsóknar vældi lítillega og þingflokkurinn þegir þunnu hljóði.

Hér er aðeins verið að ræða þann þátt þessara mála og annarra slíkra, sem snýr að samstarfi stjórnarflokkanna. Hann felst í, að forsætisráðherra stýrir málum í ráðuneytum Framsóknar, gerir samstarfsráðherra að ómerkingum og spyr þá ekki álits á mikilvægum málum.

Vel kann að vera, að efnislegar ástæður séu fyrir yfirgangi forsætisráðherra í garð flokks utanríkisráðherra. Til dæmis eru flestir ráðherrar Framsóknarflokksins ekki mikilla sanda eða sæva. Í mörgum tilvikum er ástæða til að taka fram fyrir hendur þeirra.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur til dæmis unnið það afrek að liggja á umsókn um stækkun Norðuráls í Hvalfirði, af því að hún óttast, að sú stækkun leiði til enn frekari frestunar Reyðaráls fyrir austan. Tafirnar hafa nú fryst undirbúninginn að stækkun Norðuráls

Álver eru nefnilega byggðamál, en ekki efnahagsmál í augum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra, sem bæði vilja frekar álver í sínu kjördæmi en í kjördæmi Vestlendinga. Þessi viðhorf ráðherranna gefa fróðlega innsýn í sjúkan hugarheim Framsóknar.

Í máli Þjóðhagsstofnunar hefði verið eðlilegt að taka málið upp í ríkisstjórninni, úr því að athugun í forsætisráðneytinu hafði tekið þá stefnu, að gott væri að leggja stofnunina niður. Forsætisráðherra kaus að gera það ekki, því að hann vildi niðurlægja Framsókn.

Það hefur honum tekizt. Svo vel hefur honum gengið að aga utanríkisráðherra, aðra ráðherra og þingmenn Framsóknarflokksins, að þeir létu hann valta yfir sig og hreyfðu alls engum mótbátum í umræðum á Alþingi. Með fingursmelli getur hann lagt niður stofnun.

Engu máli skiptir, hvort reiðiköst forsætisráðherra í garð biskups, öryrkja, Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila eru náttúruleg eða tilbúin. Það, sem máli skiptir, er, að þau eru helzta stjórntæki hans, aðferð hans til að fá aðra til að standa og sitja eins og honum þóknast.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins telja sig hafa himinn höndum tekið í forustumanni, sem lætur aðra valdamenn skjálfa á beinunum, hvort sem þeir eru innan flokks eða utan. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja fyrst og fremst sterkan leiðtoga að hætti fátækrar Suður-Ameríku.

Kjósendur Framsóknarflokksins hafa hins vegar unnvörpum flúið forustumann, sem ekki getur varizt ofbeldi og tuðar bara niður í bringuna; forustumann, sem er svo rúinn trausti, að hann getur ekki einu sinni haft áhrif á, hver er kosinn varaformaður í hans eigin flokki.

Halldór Ásgrímsson er búinn að vera sem stjórnmálamaður, svo er Davíð Oddssyni fyrir að þakka. Sú er helzta ástæða þess, að Framsókn er í rúst.

Jónas Kristjánsson

DV

Samsæri gegn heilsunni

Greinar

Samkeppnisráð hefur komið upp um víðtækt samsæri innlendra grænmetisheildsala gegn neytendum eins og það er orðað í úrskurði ráðsins, þar sem það sektar Sölufélag garðyrkjumanna, Ágæti og Mötu um 105 milljónir króna fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum.

Rannsókn ráðsins leiddi í ljós, að árið 1995 mynduðu þessi fyrirtæki einokunarhring til að draga úr samkeppni og hækka verð á grænmeti til neytenda. Samsæri af þessu tagi varðar við landslög, en því miður eru ekki til nein lög, sem ná yfir önnur og alvarlegri samsæri.

Stjórnmálaöflin og landbúnaðarkerfið í landinu hafa áratugum saman stundað samsæri gegn neytendum með því að leggja hindranir í vegi samkeppnisvöru frá útlöndum. Þetta hafa þau á síðustu árum gert með því að leggja tímabundna ofurtolla á innflutt grænmeti.

Samsæri stjórnmálaafla og landbúnaðar felur ekki aðeins í sér árás á fjárhag almennings, heldur einnig á líf hans og heilsu. Það hefur nefnilega leitt til þess, að neyzla grænmetis á mann er hér á landi ekki nema helmingur af neyzlunni á mann á Vesturlöndum almennt.

Fyrir löngu var vísindalega staðfest, að neyzla grænmetis þarf að vera miklu meiri en hún er á Íslandi. Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur gefið út staðla, sem hvetja til tvöfaldrar grænmetisneyzlu á við þá, sem er hér á landi. Engar breytingar hafa hins vegar orðið hér.

Um þessar mundir er neyzla grænmetis að stóraukast í Evrópu vegna sjúkdóma, sem hafa komið upp í nautgripum og leitt til stórfellds niðurskurðar í Bretlandi og á ýmsum öðrum stöðum. Fólk flýr í hrönnum frá kjötneyzlu yfir í neyzlu grænmetis, sem talin er öruggari.

Þetta geta Evrópumenn, af því að þeir þurfa ekki að þola sams konar samsæri og íslenzkir neytendur. Fólk á Íslandi hefur hreinlega ekki ráð á að bæta heilsuna með þessum hætti, af því að stjórnmálaöfl og landbúnaðarkerfi nota ofurtolla til að gera grænmeti óhóflega dýrt.

Samsæri íslenzku grænmetisheildsalanna bliknar í samanburði við pólitíska samsærið gegn lífi og heilsu Íslendinga. Það er pólitíska samsærið, en ekki viðskiptasamsærið, er hefur gert grænmeti að dýrustu matvælum landsins, sem fólk notar aðeins sem meðlæti.

Í nágrannalöndunum hefur orðið viðhorfsbreyting ráðamanna, sem ekki sér stað hér á landi. Í Þýzkalandi er kominn til skjalanna landbúnaðarráðherra, sem stefnir ekki aðeins að tilfærslu á neyzlu úr kjöti yfir í grænmeti, heldur sérstaklega yfir í lífrænt ræktað grænmeti.

Lífrænt ræktað grænmeti, sem felur í sér miklu minna af skaðlegum efnum en venjulegt grænmeti, er sums staðar í Evrópu orðinn einn tíundi hluti grænmetisneyzlunnar og fer ört vaxandi. Hér er neyzla lífrænt ræktaðs grænmetis hins vegar innan við einn af hundraði.

Lífrænt grænmeti er heldur dýrara en annað grænmeti. Þegar íslenzku ofurtollarnir leggjast á það, verður það svo dýrt í verzlunum, að fólk, sem tæpast hefur ráð á öðru grænmeti, lætur sig ekki dreyma um að kaupa það grænmeti, sem felur í sér mestu hollustuna.

Smákrimmarnir í Sölufélagi garðyrkjumanna, Ágæti og Mötu fá makleg málagjöld, en engin lög ná yfir stóru glæpamennina í stjórnmálunum og landbúnaðarkerfinu, enda sitja þeir meira eða minna í skjóli kjósenda, sem virðast sætta sig við að láta fara svona með sig.

Það bezta við smákrimma-dóminn er, að hann vekur athygli á rotnu verndunarkerfi, sem býður heim samsæri gegn heilsu þjóðarinnar í skjóli stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Andskotast í útlendingum

Greinar

Samband Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hefur hríðversnað síðan George W. Bush tók við forsetavöldum í Bandaríkjunum í upphafi þessa árs og voru þó ágreiningsefnin næg fyrir. Í fyrsta skipti er talað í alvöru um, að leiðir fari að skiljast með þessum bandamönnum.

Hæst ber svik Bush við kosningaloforð sitt um stuðning við Kyoto-sáttmálann um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Svikin framdi hann að undirlagi stóru olíufélaganna í Texas, sem voru umsvifamest í greiðslu kostnaðar við kosningabaráttu hans.

Áður en Bush komst til valda voru Bandaríkin og Vestur-Evrópa hægt og bítandi að ná samkomulagi um staðfestingu sáttmálans, sem hefði jafngilt því, að hann kæmist til framkvæmda. Það tókst ekki á fundi í Haag í vetur, en ætlunin var að reyna aftur í Bonn í sumar.

Vestur-Evrópa telur sanngjarnt, að iðnríki Vesturlanda taki fyrsta skrefið í minnkandi útblæstri, þar sem þau bera ábyrgð á rúmlega helmingi útblástursins og Bandaríkin ein ábyrgð á fjórðungi. Eðlilegt sé, að þróunarlöndin komi ekki til skjalanna fyrr en í annarri umferð.

Næsthæst ber fráhvarf Bush frá tilraunum til sátta milli Suður- og Norður-Kóreu, þrátt fyrir eindregna hvatningu Kim Dae Jung, forseta Suður-Kóreu og friðarverðlaunahafa Nóbels í fyrra, um að halda áfram. Raunar var fráhvarfið blautur hanzki í andlit Kim Dae Jung.

Þetta kom illa við Vestur-Evrópu, einkum Þýzkaland, sem telur sig hafa góða reynslu af samskiptum innan klofins ríkis, þegar Austur-Þýzkalandi var haldið á lyfjum í formi vestræns fjármagns, unz landið hrundi í fangið á Vestur-Þýzkalandi og vestrænni hugmyndafræði.

Fyrir valdatöku Bush voru ýmis ágreiningsefni milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. Hæst ber þar eindreginn peninga- og hernaðarstuðning Bandaríkjanna við hryðjuverkaríkið Ísrael, sem þverbrýtur alla alþjóðasamninga um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Samband Ísraels og Bandaríkjanna hindrar eðlilega nálgun í samskiptum hins vestræna heims og heims múslíma. Ráðamenn Vestur-Evrópu höfðu vænzt þess, að Bush viki frá stefnu Bills Clinton, sem var mjög háður fjárstuðningi Ísraelsvina í kosningabaráttu sinni.

Bush hefur hins vegar hvergi vikið frá stuðningi Bandaríkjanna við krabbamein Miðausturlanda. Hann hefur ekki heldur vikið frá tilraunum forvera síns til að beita Vestur-Evrópu viðskiptaþvingunum til að hindra merkingar á umbúðum erfðabreyttra matvæla.

Erfðabreytt matvæli eru svo ný af nálinni, að rannsóknir á hugsanlegri skaðsemi þeirra eru skammt á veg komnar. Fyrstu niðurstöður benda til, að þau geti aukið ofnæmi og óþol hjá fólki. Þess vegna vill Vestur-Evrópa, að erfðabreytt matvæli séu greinilega merkt á umbúðunum.

Bardagi Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu hefur oft verið harður í Heimsviðskiptastofnuninni og stundum erfitt að sjá, hvor aðilinn sé óbilgjarnari. Oft leynast dulin viðskiptahöft í reglugerðum, sem sagðar eru settar af öðrum tilefnum. Nú er talið, að harkan færist í aukana.

Bush er forseti stórauðugra sérhagsmunahópa, sem vilja beita ríkisvaldinu fyrir sig. Þar eru olíurisar og lyfja-risar einna fremstir í flokki. Fautaskapur þeirra kann að valta yfir þriðja heiminn, en er síður en svo líklegur til að fá Vestur-Evrópu til að leggja niður rófuna.

Verra er, ef ímyndarfræðingar Bush hafa rök fyrir að telja hann auka fylgið heima fyrir með því að andskotast í útlendingum yfirleitt, öðrum en Ísraelsmönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Mannvonzka á þingi

Greinar

Þjónusta alls þorra alþingismanna við þrönga sérhagsmuni innlendrar framleiðslu og einokunarheildsölu grænmetis felur í sér glæpsamlega árás á heilsu þjóðarinnar. Ofurtollar Alþingis á innfluttu grænmeti eru hvorki meira né minna en hrein mannvonzka.

Vegna ofurtollanna er grænmeti svo hrikalega miklu dýrara en á öðrum Vesturlöndum, að neyzla þess nemur innan við helmingi þess, sem ráðlagt er af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og innan við helmingi þess, sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Það er alls ekki ný bóla, að paprikan fari yfir 700 krónur kílóið. Hún hefur gert það árvisst, síðan ofurtollarnir voru settir. Hækkunin gerist alltaf einu sinni á ári, þegar út rennur tímabil tollfrelsis á innfluttu grænmeti eftir reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Fyrir löngu var allt vitað, sem menn þurftu að vita um hollustu grænmetis og nauðsyn þess að stórauka hlut þess í fæðuvali þjóðarinnar. Alþingismenn vissu um það, þegar þeir settu ofurtolla á grænmeti á sínum tíma. Þeir vissu, að þeir voru að skaða heilsu þjóðarinnar.

Eins og venjulega tóku þeir þrönga sérhagsmuni í kjördæmum sínum fram yfir almannahagsmuni. Það gera þeir, hvenær sem þeir fá færi á slíku. Og það gera þeir enn þann dag í dag, þegar þeir ramba út og suður í vangaveltum um, hvort ofurtollarnir séu í lagi.

Alþingi setti lögin og landbúnaðarráðherrar allra tíma hafa túlkað þau í botn, þar á meðal sá núverandi. Í fyrradag kom enn í ljós á Alþingi, að mannvonzkan á sér öruggt skjól í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og hjá Vinstri grænum og Frjálslyndum.

Það versta við lögin er, að þau veita landbúnaðarráðherra svigrúm til misnotkunar, sem núverandi landbúnaðarráðherra hefur ekki síður notfært sér en fyrirrennarar hans. Þess vegna er ábyrgð hans mest og því getur hann ekki falið sig að baki alþingismanna.

Málflutningurinn til stuðnings ofurtollunum er með endemum. Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslyndra og Vestfirðinga, bullaði botnlausa vitleysu á þingi í fyrradag um gin- og klaufaveiki, rétt eins og paprika og annað grænmeti hafi gin og klaufir.

Að undanförnu hefur greinilega komið fram, að landbúnaðarráðherra og förunautar hans hyggjast misnota fárið og æðibunuganginn út af gin- og klaufaveikinni í Evrópu til að treysta í sessi takmarkanir á innflutningi búvöru og herða innlenda einokun.

Engum heilvita manni hefur dottið í hug, að gin- og klaufaveiki eða kúariða eða aðrar uppákomur af slíku tagi í verksmiðjuframleiðslu alidýra fylgi grænmetisneyzlu og allra sízt neyzlu lífrænt ræktaðs grænmetis, sem mjög lítið er framleitt hér á landi.

Þvert á móti er augljóst, að skipti úr kjöti í grænmeti í neyzlu fólks kemur í veg fyrir, að það skaðist af sjúkdómum, sem kunna að fylgja kjöti. Alþingismenn koma einmitt í veg fyrir þessa brýnu tilfærslu í neyzlu með því að halda ofurtollum á sjálfri hollustuvörunni.

Að lokum skal það ítrekað, svo að ekki fari milli mála, að lög Alþingis um ofurtolla og túlkun landbúnaðarráðherra á þeim fer langt út fyrir hefðbundna gæzlu þröngra sérhagsmuna. Hún felur í sér glæpsamlega atlögu þessara málsaðila að sjálfu heilsufari þjóðarinnar.

Hér er ekki aðeins verið að gagnrýna þá, sem settu lögin á sínum tíma, heldur alla þá, sem nú tala út og suður og hindra þannig, að lögin verði afnumin.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættuleg sölumennska

Greinar

Viðskiptafulltrúar okkar í Vesturheimi og ýmis íslenzk fyrirtæki hafa komið upp sameiginlegu vörumerki, sem undirstrikar hreinleika og gæði íslenzkrar framleiðslu. Þetta er virðingarverð tilraun, sem hingað til hefur borið nokkurn árangur, en er um leið fremur hættuleg.

Markaðssetning hefur tilhneigingu til að ýkja raunveruleikann og getur leitt til bakslags, þegar sannleikurinn kemur í ljós. Ekki er nóg að byggja upp ímynd, þótt oft sé hægt að fljóta lengi á henni. Fyrr eða síðar nálgast hættan, að viðskiptavinir telji sig svikna.

Ýmsar forsendur valda því, að markaðsmenn vilja kynna Ísland sem hreint og ómengað land, þar sem framleidd sé hrein og ómenguð vara og veitt hrein og ómenguð þjónusta. Hæst ber þar hreint loft, hreint vatn og hreinan sjó, sem allt þrennt er þó minna hreint en af er látið.

Vandinn eykst enn, þegar farið er að kanna einstakar atvinnugreinar ofan í kjölinn. Nánari skoðun leiðir í ljós, að sjávarútvegur er ekki sjálfbær á Íslandi. Nokkurn veginn allir stofnar nytjafiska eru á niðurleið við Ísland og hafa verið um nokkurra áratuga skeið.

Opinber stjórnvöld og ráðamenn í sjávarútvegi hafa ekki treyst sér til að vinna að þátttöku Íslands í vestrænni gæðastýringu vöruvöndunar, hreinlætis og sjálfbærni í sjávarútvegi, undir eftirliti óháðra vottunarstofa, sem veita alþjóðlega viðurkennda stimpla á umbúðirnar.

Fyrr eða síðar spyrja bandarískir neytendur, hvers vegna íslenzkar sjávarafurðir í búðunum eru ekki með viðurkenningarstimpli Marine Stewartship Council eða annarra stofnana af svipuðum toga. Að lokum kemst í bandaríska fjölmiðla, að íslenzk vara nær ekki máli.

Í stað þess að vera með á nótunum, þegar nýir möguleikar opnast af þessu tagi, bölsótast hagsmunaaðilar sjávarútvegsins á Fiskiþingi gegn afskiptum erlendra umhverfisvina af íslenzkum sjávarútvegi og Fiskifélagið gefur út danska bók um vitleysur umhverfisvina.

Erlendis keppast hins vegar framsýnir framleiðendur og kaupmenn við að snúa örlögunum sér í hag. Þannig eru keðjur stórmarkaða og risafyrirtæki á borð við Unilever að taka saman höndum um að gerast umhverfisvæn og snúa stefnu sjálfbærs sjávarútvegs sér í hag.

Þannig er lífið. Sumir ákveða að vera í vinningsliðinu og haga málum sínum í samræmi við það. Aðrir vilja ekki láta segja sér fyrir verkum, þrjózkast við og hafa allt á hornum sér. Þeir eru í tapliðinu. Þar hefur íslenzkur sjávarútvegur markað sér stöðu með stuðningi ríkisins.

Svipaða sögu væri að segja af vörum landbúnaðarins, ef hægt væri að koma þeim á markað í útlöndum. Fyrr eða síðar mundi koma í ljós, að íslenzkur landbúnaður er ekki sjálfbær og getur ekki á núverandi grundvelli aflað sér alþjóðlega viðurkenndra stimpla um sjálfbærni.

Ráðamenn landbúnaðarins hafa árum saman varið tugum milljóna af fé skattborgaranna til að reyna að búa til séríslenzka skilgreiningu á vistvænni búvöru, sem ekki er í neinu samræmi við fjölþjóðlega stimpla, er markaðurinn erlendis hefur samþykkt að telja góða og gilda.

Í stað þess að reyna að finna, hvernig megi breyta sjávarútvegi og landbúnaði með sem ódýrustum hætti til að þessir atvinnuvegir eða hlutar þeirra nái máli samkvæmt fjölþjóðlegum stöðlum, eru undirmálsmenn að reyna að finna leiðir til að komast hjá því að breyta neinu.

Þeir, sem vilja lifa af í utanríkisviðskiptum, komast til lengdar ekki hjá því að sveigja sig að veruleikanum og afla sér viðurkenndra stimpla, sem selja vöruna.

Jónas Kristjánsson

DV

Rætur kynþáttahaturs

Greinar

Eftir ósigra í Burgenlandi og Styriu í fyrra hefur kynþáttahatursflokkur Jörgs Haider enn tapað í héraðskosningum í Austurríki, í þetta sinn í Vínarborg, þar sem fylgið fór úr 28% niður í 20% um helgina. Saman er þetta þrennt vísbending um, að sóknin hafi stöðvazt.

Svipað hefur verið að gerast í ýmsum öðrum löndum Vestur-Evrópu. Kynþáttahatarar í Noregi hafa átt í erfiðleikum að undanförnu. Flokkur þeirra í Frakklandi hefur klofnað og tapað fulltrúum í kosningum. Í Danmörku hefur flokkur þeirra ekki náð neinu flugi enn.

Annars staðar eru þetta víðast hvar áhrifalausir smáflokkar á jaðrinum. Óeðlilega háar fylgistölur í Austurríki benda til, að þar séu sérstakar aðstæður, sem séu víti til að varast. Oftast hefur samanburðar verið leitað við Þýzkaland, þar sem kynþáttahatarar fá lítið fylgi.

Eftir síðari heimsstyrjöldina hreinsuðu Þjóðverjar sig af nazismanum og Hitler, voru einlægir í sinni yfirbót og voru á þeim grundvelli teknir inn í samfélag vestrænna þjóða. Austurríki, föðurland Hitlers, gerði hins vegar enga yfirbót á virkri aðild sinni að nazismanum.

Síðan gerðist það á síðasta áratug tuttugustu aldar, að flóttamenn frá styrjöldum og fjöldamorðum Balkanskaga flúðu hópum saman norður til Austurríkis, þar á meðal mikill fjöldi múslíma, sem skera sig á ýmsan hátt úr austurrísku þjóðfélagi, til dæmis í klæðaburði.

Ætla hefði mátt, að Austurríkismenn væru vanir fjölbreytni í háttum og siðum, því að landið er afgangur af fyrstu tilrauninni frá tímum Rómarveldis til að búa til fjölþjóða stórveldi með virkri þátttöku margra þjóða, svo sem Ungverja, Tékka, Slóvena og Feneyinga.

En munurinn er sá, að hinar mörgu þjóðir keisaradæmis Habsborgara í Vínarborg sameinuðust allar í kaþólskri trú. Þótt alls konar og ólík tungumál hafi öldum saman verið töluð á götum borgarinnar, var fólkið allt af sama menningarheimi hins heilaga keisaradæmis.

Hinir nýju innflytjendur í Vínarborg fylgja hins vegar margir grísku kirkjunni, sem ræður ríkjum í Serbíu og enn fleiri játa trú á Allah, sem er við völd í Bosníu og Kosovo. Þeir koma af svæðum, sem öldum saman tilheyrðu öðru stórveldi, soldánsins í Miklagarði.

Reynslan sýnir, að fólk á tiltölulega auðvelt með að samlagast innan menningarheima, en lendir í vanda, ef það flytur milli þeirra. Þannig eiga allar vesturkristnar þjóðir auðvelt með að taka sameiginlega þátt í vestrænu lýðræði. Pólverjar samlagast til dæmis Íslendingum.

Fólk frá menningarheimi Íslams flytur hins vegar með sér önnur sjónarmið, þegar það kemur til Vesturlanda og á erfitt með að laga sig að vestrænum háttum. Til dæmis er staða múslímskra kvenna svo miklu veikari en vestrænna, að það jaðrar við lögbrot á Vesturlöndum.

Eðlilegt er, að vestrænar þjóðir vilji ekki samþykkja, að sumir hættir múslíma flytjist með þeim. Þannig hafa Frakkar reynt að tyrkneskri fyrirmynd að banna andlitsslæður stúlkna og kvenna í skólum. Mál af svipuðu tagi eru farin að koma upp hjá hótelkeðju í Noregi.

Að vestrænni sýn er slæðan tákn um undirgefni konunnar og er þannig opinber yfirlýsing, sem stangast á við grundvöll vestræns lýðræðis, jafnrétti kynjanna. Að mati múslíma eru opinber afskipti af slæðum hins vegar dæmi um menningarlegt ofbeldi stjórnvalda.

Þverstæðan í öllu þessu er, að það er ekki ímyndaður líkamlegur munur kynþátta, sem veldur mestum vanda, heldur raunverulegur munur menningarheima.

Jónas Kristjánsson

DV

Schengen er gott mál

Greinar

Það er ekki Schengen-samkomulaginu að kenna, að stækkun Leifsstöðvar kostar fjóra milljarða króna. Stækkunin leysir dýrari verkefni en að tengja Ísland ferðafrelsi milli fjórtán landa í Vestur-Evrópu. Fyrst og fremst er verið að auka afköst stöðvarinnar.

Þótt umferð um Leifsstöð sé ekki mikil miðað við stærð stöðvarinnar, er álagið misjafnt yfir daginn. Flugleiðir reka tengiflug yfir Atlantshaf, sem felur í sér, að afgreiða þarf margar flugvélar á nokkurn veginn sama tíma. Álagið er snemma morguns og síðdegis.

Miðað við núverandi aðstæður er því réttara að segja kostnaðinn við stækkun Leifsstöðvar einkum fela í sér opinberan styrk við stefnu Flugleiða í Atlantshafsflugi. Aðeins fjórðungur stækkunarinnar felur í sér sjálfa landamæravörzlu Schengen-svæðisins.

Aðild að Schengen kostar milljarð í framkvæmdum og mikinn rekstur, en alls ekki eins mikinn og andstæðingar aðildarinnar vilja vera láta. Fyrir kostnaðinn fáum við nánari tengsli við stærsta markað heims og sitjum þar við sama borð og aðrar þjóðir samstarfsins.

Þetta er okkur mikilvægt á tímum andstöðu ýmissa helztu stjórnmálaafla landsins við aukið Evrópusamstarf Íslands og á tímum minnkandi verðmætis Efnahagssvæðis Evrópu. Meðan ráðamenn okkar standa í vegi aðildar að Evrópusambandinu er Schengen ágætt skref.

Samt er ástæðulaust að neita því, að ýmsar hættur verða áleitnari við aðildina að Schengen. Sérstaklega er mikilvægt, að hún leiði ekki til, að glæpamenn í skipulögðum mafíuhópum eigi auðveldara með að ferðast til Íslands vegna afnáms vegabréfaskoðunar.

Flestir mafíumenn eru ekki eftirlýstir, hafa gild vegabréf og geta komizt hjá því að nota hótel, þar sem fylla þarf út skráningarkort. Það setur óneitanlega að fólki hroll, þegar ráðamenn segja, að eftirlit með glæpamönnum flytjist af landamærunum og út á göturnar.

Óbreytt tollaeftirlit felur í sér, að ekki verður auðveldara en áður að smygla inn hættulegum efnum, en það kemur ekki í veg fyrir innflutning hættulegs fólks. Þess vegna ber að leggja sérstaka áherzlu á virka aðild að samstarfi Schengen-ríkjanna gegn mafíumönnum.

Mikilvægt er, að íslenzk löggæzla nýti sér markvisst aðganginn að tölvuskrám Schengen um meira en milljón eftirlýsta menn og um milljónir annarra mikilvægra atriða, sem varða glæpastarfsemi innan og utan Evrópu. Þannig getur Schengen hert varnir okkar.

Viðbótin við Leifsstöð verður tekin í notkun á morgun, þegar farþegar frá Bretlandi fara um sérstaka vegabréfaskoðun, sem farþegar frá öðrum löndum Vestur-Evrópu þurfa ekki að sæta. Bretar eru ennþá utan aðildar að Schengen eins og Írar og Svisslendingar.

Ríki Vestur-Evrópu velja sér rétti á hlaðborði möguleikanna. Bretland er í Evrópusambandinu, en ekki í Schengen, þar sem Ísland er aðili, án þess að vera í Evrópusambandinu. Flest ríki Evrópusambandsins, en ekki öll, eru að taka upp evruna sem mynt.

Þessi fjölbreytni möguleikanna gerir mörk Evrópusambandsins óskýrari en ella. Hún hefur fært okkur Evrópska efnahagssvæðið, sem lengi hefur gefizt okkur vel, þótt gildi þess fari nú að minnka. Fjölbreytnin hefur núna fært okkur tækifæri Schengen-samstarfsins.

Meðan landsfeðurnir hafa að leiðarljósi, að Ísland hafni Evrópusambandinu, er brýnt að taka sem mestan þátt í samstarfi Evrópu á afmörkuðum sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Risar gegn fólki

Greinar

Skuggahliðar fjölþjóðafyrirtækja hafa komið vel í ljós í fréttum að undanförnu, sérstaklega í þriðja heiminum, þar sem sum þeirra taka höndum saman við siðlaus og gerspillt stjórnvöld um að mjólka auðlindir og markaði með hörmulegum afleiðingum fyrir almenning.

Olíurisinn Shell hefur undanfarin ár verið að eyðileggja óshólma árinnar Níger. Olían lekur þar um allt, fælir veiðidýr og drepur fiska og rústar efnahagslegar forsendur fyrir lífi fólksins á svæðinu. Ríkisstjórnin í Nígeríu hefur ekkert gert til varnar almenningi.

Um sjö milljónir manna bjuggu til skamms tíma í óshólmunum og næsta nágrenni þeirra. Fólkið hefur ekki lengur náttúruna sér til viðurværis, af því að hún hefur verið eyðilögð. Olíulekinn á svæðinu jafngildir tíu Exxon Valdez slysum og hækkar hitann á svæðinu.

Sömu sögu er að segja af olíufélögum víðar í þriðja heiminum. Nú síðast hefur verið vakin athygli á, að stjórnvöld í Súdan hafa hrakið heila ættbálka burt af víðáttumiklum svæðum, svo að olíufélagið Lundin Oil geti fengið frjálsar hendur til að athafna sig.

Olíurisarnir eru ekki einu fjölþjóðafyrirtækin, sem stunda glæpi í þriðja heiminum. Í fyrra birtust í bandarískum blöðum rannsóknafréttir um framgöngu lyfjarisa í þriðja heiminum, þar sem þau múta stjórnvöldum til að ná fram ógeðfelldum markmiðum sínum.

Lyfjarisarnir prófa hættuleg lyf í skjóli spilltra stjórnvalda í þriðja heiminum, selja þriðja heiminum útrunnin lyf á uppsprengdu verði, falsa niðurstöður rannsókna á aukaverkunum lyfja og ráða morð- og ofbeldissveitir til að hafa hemil á þeim, sem gagnrýna framferðið.

Fræg eru dæmi um, að íþróttavörurisar á borð við Nike, sem reknir eru áfram af tærri gróðafíkn, nota þræla í verksmiðjum sínum í þriðja heiminum og að skipafélög með hentifána gera slíkt hið sama. Þrælunum er haldið niðri með ofbeldi, nauðgunum og morðum.

Fjölþjóðleg risafyrirtæki hafa mörg hver tekið upp vinnubrögð mafíunnar. Þau spilla stjórnvöldum með mútum og stjórna markaðinum með ofbeldi. Á Vesturlöndum taka þau vaxandi þátt í stjórnmálum með því að hækka greiðslur til kosningabaráttu vildarvina sinna.

George W. Bush hlaut gífurlegan fjárstuðning olíurisa og lyfjarisa til að ná völdum í Bandaríkjunum í upphafi þessa árs. Völdin eru síðan meðal annars notuð til að knýja ístöðulitlar ríkisstjórnir í þriðja heiminum til að sjá gegnum fingur við atferli fjölþjóðarisanna.

Að ósk olíurisa í Texas hefur Bush þegar afturkallað kosningaloforð sitt um takmörkun á útblæstri koltvísýrings í Bandaríkjunum. Þar með hefur hann kippt fótunum undan fyrirhuguðu samkomulagi helztu auðþjóða heims um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta skiptir miklu, því fjórðungur af losun koltvísýrings í heiminum er bandarískur. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa í framhaldi af Kyoto-ráðstefnunni gert ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi um koltvísýringinn, nú síðast í Triest á Ítalíu fyrr í mánuðinum.

Eftir stefnubreytingu Bush eru horfur á samkomulagi nánast engar. Það mun hafa skaðleg áhrif á vistkerfið í heiminum og valda fyrst miklum hörmungum í þriðja heiminum, því að þar hafa menn litla fjárhagslega burði til að mæta afleiðingum upphitunar andrúmsloftsins.

Gróðafíknir og siðlausir fjölþjóðarisar eru orðnir stærsti óvinur mannkyns. Baráttan gegn vinnubrögðum þeirra verður eitt helzta verkefni nýrrar aldar

Jónas Kristjánsson

DV

Lærdómsrík kosning

Greinar

Slæleg þátttaka Reykvíkinga í atkvæðagreiðslunni um flugvöllinn í Vatnsmýri stafaði ekki af áhugaleysi borgaranna eða skorti á kynningu málsins. Þvert á móti tröllreið umræðan þjóðfélaginu um nokkurra vikna skeið. Allir virkir borgarar gátu vitað, hvað var á seyði.

Fjölmiðlar tóku málinu opnum örmum, sérstakleg dagblöðin, sem birtu greinar ótrúlegs fjölda nafngreindra manna. Ruslpóstur kom inn um allar lúgur. Meira að segja lifnaði samgönguráðuneytið við til að senda öllum Reykvíkingunum bænarskrá um að halda vellinum.

Þannig kom í ljós, að fólk og stofnanir höfðu nægan áhuga á málinu til að ganga fram fyrir skjöldu, en allt kom fyrir ekki. Niðurstaða fékkst ekki, annars vegar af því að tveir af hverjum þremur borgarbúum komu ekki á kjörstað og hins vegar vegna jafnteflis fylkinganna.

Þetta er áfall fyrir milliliðalaust lýðræði, þá stefnu að láta borgarana ráða ferðinni beint í þverpólitískum málum. Eftir hina dýrkeyptu reynslu Reykjavíkurborgar um helgina er hætt við, að sveitastjórnir fari framvegis gætilega með þetta tæki og forðist það jafnvel alveg.

Úr því að Reykvíkingar komu ekki á kjörstað í jafn umdeildu máli og þessu, er ekki við þátttöku þeirra að búast í öðrum málum, sem ráðamönnum gæti dottið í hug að láta kjósa um. Eina leiðin er sú, sem víðast er farin erlendis, að láta greiða atkvæði samhliða kosningum.

Víða í Bandaríkjunum taka kjósendur afstöðu til margvíslegra mála heima í héraði á tveggja ára fresti, þegar almennar kosningar eru háðar. Þannig fást marktæk svör við brýnum spurningum. Aðeins Svisslendingar fást til að mæta á kjörstað utan almennra kosninga.

Borgarstjórn Reykjavíkur hefði betur frestað atkvæðagreiðslunni um flugvöllinn fram í sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Fimmtán mánaða frestun skiptir litlu í máli, sem hefur fimmtán ára gerjunartíma. Á þann hátt hefði náðst næg þátttaka til marktækrar niðurstöðu.

Borgarstjórinn í Reykjavík getur svo sem túlkað niðurstöðuna sem dauft umboð til að láta gera skipulag, sem gerir ráð fyrir, að flugvöllurinn í Vatnsmýri hverfi eftir fimmtán ár, en sú leið hefði raunar verið greiðfærari, ef hún hefði ekki borið málið undir atkvæði borgarbúa.

Þar sem búið er að kjósa einu sinni um flugvöllinn í Vatnsmýri, verður væntanlega ekki kosið um hann aftur. Pattstaða atkvæðagreiðslunnar í flugvallarmálinu heldur því áfram. Þeir, sem vilja halda vellinum, telja sig ekki hafa verið kveðna í kútinn í atkvæðagreiðslunni.

Einn ljós punktur var á atkvæðagreiðslunni. Hún sýndi, að fara verður varlega í að treysta á tæknina, rétt eins og Bandaríkjamenn máttu reyna í fyrra. Margir kjósendur létu undir höfuð leggjast að ýta á hnapp til að staðfesta kjörið og eyðilögðu þannig atkvæði sitt.

Í handvirkum kosningum þarf enga staðfestingu. Menn krossa bara og málið er búið. Í stafrænu kosningunni um helgina þurftu menn fyrst að merkja og síðan að staðfesta. Slíkt getur verið auðvelt í augum tölvuvædds fólks, en þarf alls ekki að vera öðrum ljóst, svo sem öldruðum.

Kjörstjórnin í Reykjavík féll í bandarísku gildruna. Ef stafrænni kosningu að hætti flugvallarkosningarinnar væri beitt í alvörukosningum, er hætt við eftirmálum, ef munur frambjóðenda reynist vera minni en fjöldi atkvæðanna, sem ógildast af tæknilegum ástæðum.

Gott var að fá aðvörun núna. Ef farið verður út í rafrænar kosningar hér á landi, þarf aðferðin að vera öllum skiljanleg, líka þeim, sem eru óvanir tölvum.

Jónas Kristjánsson

DV

Land tækifæra-skorts

Greinar

Tíu af hundraði landsframleiðslunnar í Finnlandi eru borin upp af erlendri fjárfestingu, en aðeins tvö af hundraði hér á landi. Þetta segir okkur, að fjárglöggir erlendir aðilar með auraráð eru fimmfalt fúsari að festa peninga sína í Finnlandi en hér á landi.

Finnland og Svíþjóð eru orðin lönd tækifæranna á Vesturlöndum. Hátæknibyltingin í löndunum tveimur sogaði til sín erlent fjármagn á síðari hluta nýliðins áratugar. Svo hratt gerðist þetta í Svíþjóð, að sum árin tvöfaldaðist erlend fjárfesting milli ára.

Fjárfesting í hlutabréfum hefur önnur áhrif en lán, sem þarf að endurgreiða. Þess vegna teljast hlutabréf í eigu útlendinga ekki til skulda þjóðarbúsins. Lántökur í útlöndum eru því lakari þróunarkostur en sala á hlutabréfum íslenzkra fyrirtækja til erlendra aðila.

Hagvexti okkar hefur síðan 1997 verið í of miklum mæli verið haldið uppi af lántökum í útlöndum. Löng erlend lán voru lengst af um og innan við 50% af landsframleiðslunni, en fóru í fyrra upp í 86%, sem er hæsta hundraðstala, sem mælzt hefur í sögunni.

Sömu sögu er að segja af erlendum skammtímalánum. Þau voru lengi svipuð og gjaldeyrisforðinn, en hafa nú á fáum árum rokið upp undir þrefaldan gjaldeyrisforða. Allar þær viðmiðunartölur, sem hér hafa verið nefndar, eru langt yfir alþjóðlegum hættumörkum.

Erlendar skuldir þjóðarinnar í heild fóru í fyrra sem hlutfall af landsframleiðslu yfir meðaltal Afríku, sem er mest skuldsetta álfa heimsins. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra, hvað sem ríkisstjórnin segir. Við verðum að snúa af braut endalausrar skuldasöfnunar.

Því miður mun ástandið enn versna á þessu ári. Viðskiptahallinn gagnvart útlöndum verður svipaður og í fyrra samkvæmt spám fjármálastofnana, rúmlega níu af hundraði landsframleiðslunnar. Þetta er fjórða árið í röð með stjarnfræðilegum viðskiptahalla.

Að hluta stafar viðskiptahallinn að vísu af miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í útlöndum og er að því marki réttlætanlegur, svo framarlega sem skynsamlega er fjárfest. Mikilvægt er, að öryggissjóðir landsmanna séu sumpart fjárfestir utan við séríslenzkar hagsveiflur.

Að mestum hluta felur viðskiptahallinn þó í sér hættulega skuldsetningu, sem hlýtur að enda með ósköpum. Lánstraust þjóðarinnar hlýtur að dofna eins og Afríkuríkjanna í sama flokki. Við þurfum að breyta innstreymi fjármagns úr lántökum yfir í hlutabréfasölu.

Fjárfestingartraust felur í sér meira traust en lánstraust gerir. Við getum haft lánstraust, þótt erlendir aðilar efist um, að öll lánin fari í nógu arðbæra hluti, en við höfum ekki fjárfestingartraust, nema erlendir aðilar telji, að hlutafé þeirra fari til arðbærra þarfa.

Því miður eru ekki líkur á, að erlendir aðilar hafi mikið álit á ráðagerðum stjórnvalda um hrikalegar fjárfestingar í stórvirkjun við Kárahnjúka og álveri á Reyðarfirði. Það verður í fyrsta skipti í sögunni, að stóriðja hér á landi er ekki borin uppi af erlendu hlutafé.

Í stað þess að gæla við risaeðluhugmyndir, sem njóta lítils trausts fjárfesta í útlöndum, ber stjórnvöldum að reyna að hlúa að menntun og símenntun í hátækni og öðrum nútímafræðum, svo að hér á landi kvikni viðskiptatækifæri, sem freisti erlendra hluthafa.

Það ætti að vera meginverkefni íslenzkra stjórnvalda að búa í haginn fyrir aðstæður, sem sannfæri erlenda fjárfesta um, að Ísland sé land tækifæranna.

Jónas Kristjánsson

DV

Framtíð Vatnsmýrar

Greinar

Ríkið og Reykjavíkurborg eru í þann veginn að ákveða að velja langþráðu tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð stað á Faxaskálsvæðinu beint í fluglínu aðalbrautar flugvallarins í Vatnsmýri. Hinir opinberu aðilar gera tæpast ráð fyrir hléum á sinfóníum við flugtök og lendingar.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi eru nýlega farin að gamna sér við að reisa bryggjuhúsahverfi á uppfyllingu í fluglínu þessarar sömu aðalbrautar flugvallarins. Í því tilviki sem hinu fyrra eru stjórnvöld óbeint að gera ráð fyrir, að dagar gamla flugvallarins í Vatnsmýri séu taldir.

Innanlandsflugið flyzt til Keflavíkurvallar fljótlega eftir að stjórn Bandaríkjanna ákveður að leggja niður eftirlitsstöðina á Íslandi. Hernaðarþarfir heimsveldisins hafa gerbreytzt frá dögum kalda stríðsins. Nú steðja hættur að Bandaríkjunum úr öðrum áttum en norðri.

Þegar þar verður komið sögu, mun öllum ljóst vera, að ríkið getur ekki tekið á sig rekstur Keflavíkurvallar án þess að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Þá verður miklu ódýrara að reisa innanlandsflugstöð við Leifsstöð en að leggja nýjan flugvöll á einhverjum þriðja stað.

Við flutninginn lengjast ferðir frá húsdyrum til húsdyra um þrjátíu mínútur í innanlandsflugi og fargjald hækkar um 2%. Það er nú allur vandinn. Auðvitað finnst fólki í erindisrekstri slíkt ekki gott, en fjölskyldur í einkaerindum hafa þegar tekið bílinn fram yfir flug.

Nokkur atvinna mun flytjast með innanlandsfluginu, en það eru smámunir í samanburði við aðra atvinnu, sem verður til í fyrirtækjum, er koma sér fyrir á svæðinu. Reykjavík fær til ráðstöfunar land, sem jafngildir tveimur Austurbæjum milli Lækjargötu og Snorrabrautar.

Í háskólanum hafa menn áætlað, að hækkun á verðgildi Vatnsmýrar og nágrennis við langþráð brotthvarf flugvallarins nemi frá þrjátíu milljörðum króna og upp í fimmtíu milljarða. Borgarland, sem hingað til hefur verið nánast arðlaust, verður allt í einu gulls ígildi.

Frá sjónarmiði borgarinnar og borgarbúa getur fátt verið óhagkvæmara en að leggja miðbæjarland undir innanlandsflug. Fólk og fyrirtæki í Vatnsmýrinni munu leggja stórfé í sköttum til Reykjavíkurborgar, ekki bara hundrað sinnum meira en nú kemur þaðan frá flugrekstri.

Með flutningi innanlandsflugsins fær Reykjavíkurborg frábært og einstakt tækifæri til að skipuleggja viðbót við gamla miðbæinn. Um það geta menn verið sammála, hvort sem þeir vilja byggja mikið eða lítið á svæðinu, hvort sem menn vilja fremur háhýsi eða fuglatjarnir.

Margs konar sjónarmið og hagsmunir rúmast í senn í Vatnsmýrinni. Þótt mikið verði byggt í Vatnsmýrinni, verður unnt að koma upp samfelldu útivistarsvæði frá Tjörninni upp að Elliðaárvatni, eins konar framlengingu á hinum vinsæla Elliðaárdal alla leið niður í miðbæ.

Með atkvæðagreiðslunni um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri fá borgarbúar einstakt tækifæri til að ákveða að flýta fyrir því, að borgin auðgist af veraldlegum og náttúrufarslegum verðmætum í senn. Slíkt tækifæri til beinna afskipta af málinu kemur ekki nema einu sinni.

Þótt kjósendur geti ekki beinlínis ákveðið framtíð Vatnsmýrar í atkvæðagreiðslunni, geta þeir þvingað frambjóðendur og framboðslista til að lofa því í kosningabaráttunni að ári að rýma svæðið við fyrstu hentugleika, hvort sem það verður eftir fimmtán ár eða fyrr.

Ráðagerðir um tónlistarhöll og ráðstefnumiðstöð í annarri fluglínu aðalbrautar vallarins og bryggjuhverfi í hinni eru góðir fyrirboðar um framtíð Vatnsmýrar.

Jónas Kristjánsson

DV

Í gíslingu lyfjarisa

Greinar

Komið hefur í ljós, að nýja verkjalyfið OxyContin, sem hefur á allra síðustu árum selzt fyrir meira en milljarð dollara í Bandaríkjunum með stuðningi læknastéttarinnar, hefur skæðar aukaverkanir. Það hefur átt þátt í að drepa 120 manns og dánartalan fer ört hækkandi.

Framleiðandinn borgaði heilu ráðstefnurnar fyrir lækna, allan ferðakostnað þeirra og borgaði þeim þar á ofan fyrir að kynna lyfið fyrir starfsfélögum. Læknirinn Peter Leong hefur skýrt frá, hvernig framleiðandinn reyndi hvað eftir annað að múta honum til að ávísa lyfinu.

OxyContin er angi af miklu stærra og verra máli. Samkvæmt rannsóknum dagblaðanna Washington Post og New York Times og fleiri aðila stunda fjölmörg þekktustu lyfjafyrirtæki heims glæpastarfsemi til að koma einkaleyfalyfjum á markað með sívaxandi okurprísum.

Komið hefur í ljós, að lyfjafyrirtækin kosta ekki bara lækna sem einstaklinga, heldur heilu háskólasjúkrahúsin og sérfræðitímaritin. Vegna fjárhagslegra hagsmuna er gert lítið úr aukaverkunum nýrra lyfja og dregin fjöður yfir rannsóknir, sem sýna fram á slíkar verkanir.

Dæmi hafa verið að hrannast upp um, að vísindamenn, sem hafa komizt að aukaverkunum, eru annað hvort látnir fela niðurstöður sínar eða þeir eru ofsóttir. Þeir missa störf sín hjá háskólastofnunum. Fyrirtæki í almannatengslum eru ráðin til að rægja þá skipulega.

Mestur hluti rekstrarkostnaðar lyfjarisanna fer ekki í vísindalegar rannsóknir, heldur í markaðssetningu og óbeinar mútur á borð við greiðslur til lækna, háskólasjúkrahúsa og sérfræðitímarita. Allir þessir aðilar hafa beinan hag af að dansa eftir pípu lyfjarisanna.

Nú er svo komið vestan hafs, að réttar upplýsingar um skaðsemi lyfja er miklu frekar hægt að fá í góðum dagblöðum heldur en í sérfræðiritum. Meira að segja New England Journal of Medicine hefur verið staðið að því að birta greinar lækna, sem voru á mála lyfjarisanna.

Við sjáum hluta af þessum þrýstingi hér á landi, til dæmis í áherzlunni á notkun geðbreytilyfja, sem eðli sínu samkvæmt eru fíkniefni. Þannig eru Íslendingar látnir gleypa 10.000 Prozak-töflur á hverjum morgni og þannig er Rítalíni troðið ofan í óþæg börn í skólum landsins.

Lyfjarisarnir ráða ekki aðeins ávísunum lækna og niðurstöðum rannsókna. Þau hafa mikil áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Til dæmis er fátækum ríkjum hótað viðskiptabanni, ef þau taka í notkun ódýr lyf, sem lyfjaframleiðendur telja vera stælingu á sínum lyfjum.

Þetta ástand á eftir að versna mikið vestan hafs eftir valdatöku George W. Bush sem forseta. Lyfjarisarnir áttu meiri þátt í að fjármagna kosningabaráttu hans en flestar aðrar greinar atvinnulífsins. Nú verður ríkisvaldinu beitt harðar en áður í þágu glæpamanna lyfjaiðnaðarins.

Mestu glæpir lyfjarisanna hafa beinzt gegn þjóðum þriðja heimsins. Greinaröð í Washington Post hefur fjallað um skelfilegar aðferðir, sem hafa verið færðar í stílinn í nýrri skáldsögu eftir John Le Carré og þannig komizt til skila hjá fólki, sem fylgist illa með fréttum.

Ríki og þjóðfélög þurfa að koma sér upp virkum aðferðum til að verjast áhlaupi alþjóðlegra lyfjarisa, sem reyna með hjálp lækna, rannsóknastofnana og fagtímarita að pranga inn á okkur sífellt dýrari lyfjum og telja okkur trú um, að einkaleyfalausu lyfin virki ekki eins vel.

Lyf eru sum hver margfalt dýrari en þau þurfa að vera og miklu hættulegri en af er látið. Þjóðir þurfa markvisst að forðast að lenda í vítahring eða gíslingu lyfjarisa.

Jónas Kristjánsson

DV

Hátækni-skatturinn

Greinar

Ýmsir skemmtilegir kostir opnast til skattlagningar í framhaldi af hugmyndaríkri reglugerð menntaráðherra um höfundagjald á auða geisladiska og diskabrennara á þeim forsendum, að hugsanlega verði þessi tækni notuð af einhverjum til að fjölfalda hugverk annarra.

Nærtækast er auðvitað að skattleggja pappír, því að hugsanlegt er, að einhverjum detti í hug að nota þá tækni til að ljósrita bækur og önnur hugverk. Einnig mætti skattleggja farþega í millilandaflugi, af því að einhverjum þeirra kynni að detta í hug að smygla áfengi.

Skatturinn á auða geisladiska og diskabrennara gengur lengra en aðrir skattar af slíku tagi, að tæknin er ekki bundin við eina starfsgrein, það er að segja afritun á tónlist og öðrum höfundaréttarvörðum hávaða. Þessi tækni er notuð almennt í hátæknigeiranum.

Geisladiskar og diskabrennarar eru til dæmis notaðir til að varðveita gögn. Á fjölmiðlum eru geisladiskar orðnir algengasta leiðin til að varðveita gögn á borð við texta, myndir og síður. Ekkert af þessari starfsemi kemur höfundarétti tónskálda eða annarra hið minnsta við.

Margt gerræðið er smærra í sniðum en þetta gerræði menntaráðherra. Skatturinn á geisladiska hækkar verðið til þeirra, sem kaupa þá í miklu magni, úr 50 krónum í 70 krónur. Í því tilviki er skatturinn 40%. Í heild nemur skatturinn hundruðum þúsunda á mörg fyrirtæki.

Við venjulegar aðstæður mundu DVD-diskar, sem rúma þúsundir megabæta, taka á þessu ári við af CD-R -diskum, sem rúma hundruð megabæta. Búast má við, að reglugerð menntaráðherra tefji þessa þróun, af því að skattur hans á fyrrnefndu diskana er tvöfalt hærri.

Kjarni málsins er, að ráðherrann er að tilhlutan Alþingis að skattleggja einn í þágu annars. Pólitíkusarnir gætu alveg eins tekið upp á að skattleggja kennara í þágu múrara og sjómenn í þágu bænda, ef einhver hagsmunahópur gerist nógu frekur og hávaðasamur.

Menntaráðherra ver reglugerðina með tilvísun til þess, að svona sé farið að í Evrópusambandinu. Margt gott hefur komið þaðan, en ekki eru gæðin þó sjálfvirk. Vel getur verið, að sumt sé misráðið af því, sem mönnum getur dottið í hug í því annars ágæta sambandi.

Hvort sem er á meginlandi Evrópu eða norður á Íslandi þá hefur reglugerð um skatt á hátækni í þágu höfunda á öðru sviði þau áhrif að tefja fyrir þróun hátækni í þessum heimshluta, sem þó er einfær um að dragast aftur úr Bandaríkjunum án hins nýja skatts.

Afstaða Evrópusambandsins skaðar okkur, af því að hún kemur sennilega í veg fyrir, að kærumál héðan verði tekin gild fyrir evrópskum dómstólum. Þess vegna verður tæpast hægt í þessu tilviki að hnekkja gerræði íslenzkra stjórnvalda eins og oft hefur verið unnt.

Íslenzk hátækni og íslenzk gagnasöfnun munu því ekki leita réttlætis í Evrópu, heldur hugsa Alþingi og menntaráðherra þegjandi þörfina. Þessar stofnanir hafa sýnt forgangsröðun sína, þar sem popparar eru ofarlega á listanum en hátækni og gagnasöfnun neðarlega.

Benda má ráðherranum á aðra frumlega leið til skattlagningar. Hún er sú, að tónabúðir tölvuskrái viðskiptavini sína og síðan séu allir þeir skattlagðir, sem ekki eru á þeirri skrá, af því að hugsanlega gætu þeir verið að fjölfalda hávaða heima í stað þess að fara í búðirnar.

Ráðherrann lifir í gömlum hugarheimi, sem ekki hefur lagað sig að nýjum aðstæðum og getur ekki tekið við nýrri tækni án þess að hlaða steinum í götu hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpir gegn fortíðinni

Greinar

Talebanar í Afganistan eru bandarískur uppvakningur frá lokum kalda stríðsins, þegar frelsisbarátta Afgana gegn Sovétríkjunum sálugu var fjármögnuð að vestan. Talebanar voru grimmustu stríðsmennirnir og fengu miklu meiri fjárstuðning en aðrir hópar baráttunnar.

Þetta var gott dæmi um einnota utanríkisstefnu, þar sem eingöngu skipti máli að ná árangri á líðandi stund. Ekkert var hugsað um, hvað gera ætti við skrímslið, þegar Rússarnir væru farnir. Enda hefur uppvakningurinn reynzt valda Afgönum og öðrum ógn og skelfingu.

Nýjasta birtingarmynd trúarofstækis Talebana er að eyðileggja menningarsöguleg verðmæti, þar á meðal risavöxnu Búdda-stytturnar í Bamian. Ofstækið er hliðstætt öðru framferði þessa hóps, sem lýsir sér einnig í takmarkalitlu hatri á framförum, sem koma úr vestri.

Allir aðilar hafa sameinazt um að fordæma Talebana fyrir að spilla menningarsögu Afgana, þar á meðal öll þekktustu ríki Islams, enda er ofstækið nýtt í sögu þeirra trúarbragða. Grískar og rómverskar og aðrar minjar hafa verið látnar í friði í heimi Islams öldum saman.

Tyrkir hafa öldum saman horft á Soffíukirkju í Miklagarði. Persar hafa öldum saman horft á Persepolis við Shiraz. Sýrlendingar hafa öldum saman horft á Palmyru. Þannig hafa Afganar öldum saman horft á gamlar minjar, þótt þær séu ættaðar frá öðrum trúarbrögðum.

Talebanar eru því miður ekki einir um trúarofstækið. Stórvirkust hafa verið kínversk stjórnvöld, sem hafa látið brjóta Búdda-hof í Tíbet hundruðum saman í markvissri tilraun til að eyða menningarsögu landsins og eyða þannig vegprestum í þjóðernisbaráttu landsmanna.

Indversk stjórnvöld stöðvuðu ekki ofstækismenn úr röðum Hindúa, þegar þeir eyðilögðu 16. aldar moskuna í Ayodhya árið 1992, enda voru þeir stuðningsmenn ríkisstjórnarflokksins Bharatiya. Þau hirða ekki um, þegar eldar eru bornir að kristnum kirkjum í landinu.

Serbar tóku upp á því í Bosníustríðinu að gera atlögu að menningarsögulegum minjum Islams og kaþólskrar trúar. Þeir reyndu að sprengja upp hina einstæðu borg Dubrovnik og sprengdu margar moskur í landinu. Króatar og Bosníumenn fóru að svara í sömu mynt.

Serbar brenndu meira að segja bókasöfn til að koma í veg fyrir, að andstæðingar þeirra gætu leitað til fortíðarinnar um heim bókanna. Þeir fetuðu í þessu sem ýmsu öðru í fótspor Hitlers, sem lét brenna bækur opinberlega á torgum úti, enda mun hneisa Serba lengi standa.

Villimenn af tagi Talebana, Kínverja, Indverja og Serba voru ekki fyrirferðarmiklir í veraldarsögunni fyrr en undir miðja tuttugustu öld. Krossfarar fyrri tíma réðust ekki beinlínis að menningarsögunni, þótt þeir fremdu ótal önnur illvirki. Árásir á fortíðina eru nýtt fyrirbæri.

Vesturlönd þurfa að byrja að taka á þessari tegund villimennsku nútímans eins og öðrum tegundum hennar. Við hlið nýja alþjóðadómstólsins um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni þarf að koma fjölþjóðlegur dómstóll, sem fjallar um glæpi gegn menningarsögu mannkynsins.

Draga þarf stjórnvöld Afganistans og Kína, Indlands og Serbíu til ábyrgðar fyrir menningarsöguleg illvirki, sem framin hafa verið á yfirráðasvæðum þeirra á síðustu árum, ekki síður en fyrir önnur illvirki gegn mannkyninu. Þessa nýju tegund glæpa þarf að stöðva strax.

Bandaríkjastjórn ber að hafa forustu um stofnun slíks dómstóls, því að þarlend stjórnvöld vöktu upp skrímslið, sem núna fer hamförum í eyðimörkum Afganistans.

Jónas Kristjánsson

DV