Greinar

Að orðnum hlut

Greinar

Leiðarar DV um aðgerðir bandarískra stjórnvalda til að varðveita friðhelgi heilsufarsupplýsinga um fólk hafa vakið reiði ráðamanna deCode Genetics, sem vilja ekki, að varpað sé skugga á hina vandamálafríu mynd, sem þeir gefa af væntanlegu gagnasafni sínu.

Aðgerðir brezku ríkisstjórnarinnar í einkamálaþætti heilsufarsupplýsinga voru einnig til umfjöllunar í margræddum leiðara DV. Þar gera stjórnvöld ráð fyrir, að verndin bili, upplýsingar berist til tryggingafélaga og vinnuveitenda og geti valdið fólki fjárhagstjóni.

Brezka ríkisstjórnin hefur sérstaklega tekið á þessum þætti, hvernig fólki verði bætt, ef það fær lakari tryggingu eða lakari vinnu út á arfgenga sjúkdóma í ættinni eða jafnvel hvorki tryggingu né vinnu. Þar hyggst ríkið taka afleiðingum gerða sinna.

Hér á landi var einkaréttur deCode keyrður í gegn án þess að gert væri ráð fyrir þeim möguleika, að illa færi. Það er í samræmi við þá pólitísku venju hér á landi að gera í bjartsýni ráð fyrir, að allt fari á bezta veg og gera engar ráðstafanir til að mæta hugsanlegum vanda.

Hér á landi hafna stjórnvöld til dæmis umhverfismati á sjókvíaeldi á þeim forsendum, að eldislaxinn ógni ekki umhverfinu, sýkist ekki og sleppi ekki úr kvíunum. Samt eru til rannsóknir í nágrannalöndum okkar, sem sýna hið gagnstæða, að þessi vandamál eru stórfelld.

Miklu nær væri að gera ráð fyrir vandamálum strax í byrjun og reyna að haga málum frá upphafi á þann veg, að auðveldara en ella sé að bregðast við ótíðindum. Það hefðu íslenzk stjórnvöld átt að gera í gagnagrunnsmálinu og ættu nú að gera vegna laxeldis í sjókvíum.

Bjartsýni er góðra gjalda verð, en hún má ekki verða svo hamslaus, að menn gleymi varúðarráðstöfunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Sextíu dollarar orðnir níu

Greinar

Samkvæmt nýju, bandarísku reglugerðinni um verndun persónulegra upplýsinga um heilsufar fólks mega fræðimenn nota upplýsingarnar til að stunda rannsóknir, en alls ekki afhenda utanaðkomandi gagnabönkum á borð við deCode Genetics slíkar upplýsingar

Blaðurfulltrúi deCode Genetics fer með rangt mál um þetta atriði eins og önnur atriði málefnisins. Á sama tíma fer hann með rangt mál um önnur atriði, sem varða hagsmuni fyrirtækisins, er hann vinnur fyrir, enda er það hlutverk blaðurfulltrúa að styðja sína menn.

Í kranablaðamennsku-morgunþætti Ingólfs Margeirssonar á Rás 2 á miðvikudag hélt blaðurfulltrúinn óátalið fram, að gengi hlutabréfa deCode hafi til áramóta ekki lækkað meira en Nasdaq-vísitalan. Þetta er röng fullyrðing, gengi bréfanna hefur lækkað miklu meira.

Í öllum þessum málum er blaðurfulltrúinn að gæta hagsmuna fyrirtækis, sem frá upphafi hefur ekki greint rækilega milli ímynda og raunveruleika, fyrirtækis, sem í fyrra hafði lag á að láta fólk borga sextíu dollara fyrir hlutabréf, sem nú eru aðeins níu dollara virði.

DeCode Genetics reynir að gera lítið úr áhrifum bandarísku reglugerðarinnar um verndun persónulegra heilsufarsupplýsinga, af því að fyrirtækið stendur í samningum við íslenzkar heilbrigðisstofnanir og vill ekki, að slæmar fréttir frá útlöndum trufli samningaferlið.

Almennt er skynsamlegt fyrir fólk að fara varlega í að trúa gæzlumönnum sérhagsmuna umfram þá, sem engra hagsmuna hafa að gæta í umræðuefninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Rándýr sjókvíalax

Greinar

Kvikmynd BBC um hætturnar af laxeldi hefur sýnt, að kæruleysi stjórnvalda í löndum Norður-Atlantshafs á sér enga stoð í niðurstöðum rannsókna, sem sýna hver á fætur annarri, að eldislaxinn framleiðir margvísleg vandamál, sem menn vita ekki, hvernig megi að ráða við.

Eldiskvíar í sjó eru gróðrarstía sjúkdóma og sníkjudýra, sem þar er haldið niðri með lyfjagjöfum, en breiðast út í náttúrulega fiskistofna, sem eiga leið um firðina. Þar á meðal er villtur lax, sem ekki hefur aðgang að sömu varnarlyfjum og eldislaxinn í kvíunum.

Þetta hefur leitt til hruns náttúrulegra laxastofna í Noregi og Skotlandi. Sumar ár hafa hreinlega tæmzt af laxi og í öðrum finnst aðeins reytingur af sloppnum eldislaxi, en lítið af náttúrulaxi. Hagsmunir fiskiræktar stangast þannig á við hagsmuni hefðbundinna laxabænda.

Til viðbótar við uppsöfnuð áhrif af lyfjagjöf hefur komið í ljós, að þrávirk eiturefni hlaðast margfalt meira upp í eldislaxi en náttúrulegum laxi. Vísindamenn eru því byrjaðir að vara við of mikilli neyzlu á eldislaxi, það er að segja meiri neyzlu en sem nemur einni máltíð á viku.

Þetta skaðar ímynd eldislaxins, sem auglýstur hefur verið sem einstök hollustufæða, rík af Omega-3 fitusýrum, sem fólk ætti helzt að borða oft í viku hverri. Nú verður ekki lengur hægt að auglýsa eldislax á svona róttækan hátt, því að hann er fullur af þrávirkni og lyfjum.

Í þriðja lagi hefur lengi verið vitað um, að eldiskvíar í sjó leiða til mikilla breytinga í umhverfinu. Þær hafa til dæmis valdið stjórnlausum vexti þörungagróðurs, sem stíflar loftblöndun sjávar og veldur miklum fiskidauða. Þetta hefur reynzt vera þrálátt vandamál í Noregi.

Í fjórða lagi hefur komið í ljós, að víða er eldislax orðinn vanskapaður af þrautpíndum tilraunum til að auka vöxt hans og vaxtarhraða í harðri lífsbaráttu milli eldisstöðva. Menn eru rétt að byrja að rannsaka, hvaða áhrif þetta getur haft á fólk, sem neytir framleiðslunnar.

Svo getur farið, að sams konar áfall verði á markaði fyrir eldislax og orðið hefur á markaði fyrir nautakjöt. Fólk áttar sig allt í einu á, að stjórnvöld hafa lengi gert lítið úr mikilli hættu og haldið leyndum niðurstöðum rannsókna. Þá grípur um sig snögg skelfing neytenda.

Hér á landi ríkir villta vestrið á þessu sviði í skjóli handónýtra stofnana á borð við umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun ríkisins, sem í þessum málum sem flestum öðrum umhverfismálum gefa linnulaust út ábyrgðarlausa úrskurði um, að ekki þurfi umhverfismat.

Til dæmis hefur kærulaus skipulagsstjóri ríkisins ákveðið, að fyrirhugað sjókvíaeldi á norskum laxi í Berufirði skuli ekki sæta umhverfismati. Þetta hefur verið kært til umhverfisráðherra, sem áður hafði hafnað kæru vegna sömu niðurstöðu um eldi í Mjóafirði.

Núverandi umhverfisráðherra og núverandi skipulagsstjóri hafa á ýmsum sviðum reynzt vera róttækir fylgjendur sóðaskapar í umhverfismálum. Þau hafa þegar skaðað framtíðarhagsmuni vistkerfis lands og sjávar og munu áfram skaða þá, svo lengi sem þau verða við völd.

Svo getur farið, að sjókvíaeldi verði hagkvæm atvinnugrein hér á landi. Hún verður það hins vegar aldrei, ef svo illa er staðið að málum, að stjórnvöld afneita staðreyndum á borð við niðurstöður vísindalegra rannsókna á síðasta áratugi og sæta síðan óviðráðanlegum afleiðingum.

Sérstaklega eru ámælisverðir úrskurðir róttæks skipulagsstjóra, sem fullyrðir út og suður um vísindaleg efni, sem hann hefur greinilega ekki kynnt sér hið minnsta.

Jónas Kristjánsson

DV

Blaðurfulltrúinn

Greinar

Í samræmi við langvinnt frjálslyndi í umgengni við sannleikann hefur deCode Genetics ráðið sér blaðurfulltrúa til að fara með rangt mál í hagsmunagæzlu fyrirtækisins, svo sem slíkra er plagsiður. Það er jafnan sorglegur endir á blaðamennskuferli að gerast blaðurfulltrúi.

Umræðuefni blaðurfulltrúans er ný reglugerð bandaríska alríkisins um verndun persónuupplýsinga. Þessi reglugerð var sett í samræmi við lög, sem bandaríska þingið setti árið 1996 með eindregnum stuðningi beggja þingflokka. Reglugerðin er því ekki flokkspólitísk.

Gail R. Wilensky, heilbrigðisráðgjafi George W. Bush, verðandi forseta, segir, að repúblikönum sé ekki síður en demókrötum annt um, að lögin frá 1996 verði virk. Janlori Goldman, forstjóri einkamálaverkefnis Georgetown University, segir reglurnar vera stórsigur neytenda.

Höfuðtilgangur nýju reglugerðarinnar er að vernda einkamál í upplýsingum um heilsufar fólks. Samkvæmt henni verða læknar, lyfjabúðir og sjúkrastofnanir að fá skriflegt samþykki sjúklinga áður en þeir láta frá sér fara upplýsingar, sem varða heilsufar þeirra.

Það mun kosta heilsuiðnaðinn átján milljarða dollara á næstu tíu árum að framkvæma anda reglugerðarinnar. Sérhver sjúklingur fær við komu sína bækling um rétt sinn og um geymsluaðferðir upplýsinga og um rétt hans til að fá afrit af hverju einasta orði um hann sjálfan.

Einkamálaverndin nær til skrifaðra og prentaðra upplýsinga, talaðs máls og upplýsinga í tölvum. Skriflegt samþykki sjúklings þarf fyrir einföldustu atriðum á borð við vottorð. Hvert nýtt skref í meðferð sjúklingsins kallar á nýtt samþykki hans fyrir meðferð upplýsinga.

Sjúklingar eiga samkvæmt reglugerðinni rétt á að sjá og fá afrit af hverju einasta orði, sem um þá stendur í gögnum stofnana heilsuiðnaðarins. Þeir eiga líka rétt á fá þessar upplýsingar leiðréttar, ef þeir telja þær vera á einhvern hátt villandi eða skaðlegar fyrir sig.

Allar stofnanir á þessu sviði þurfa að koma sér upp ákveðnu ferli við meðferð einkamála. Sérstakur umboðsmaður sjúklinga á hverri stofnun mun aðstoða sjúklinga og verða við kvörtunum þeirra og fyrirspurnum. Brot á reglugerðinni valda háum sektum og varðhaldi.

Mikinn tíma tók að koma málinu á koppinn. Á fjórum árum frá setningu laganna til setningar reglugerðarinnar, var leitað umsagna. 50.000 athugasemdir bárust. Nú er reglugerðin orðin að veruleika og verður komin til fullra framkvæmda um öll Bandaríkin eftir aðeins tvö ár.

Samkvæmt reglugerðinni er því aðeins hægt að afhenda gögn um sjúkling að fenginni sérstakri heimild dómstóls í ferli lögreglurannsóknar. Alls ekki er gert ráð fyrir, að fyrirtæki á borð við deCode Genetics geti komizt í sjúkraskrár eða aðrar heilsufarsupplýsingar um fólk.

Það liggur í hlutarins eðli, að bandaríska reglugerðin kemur í veg fyrir, að upplýsingar um heilsufar fólks verði notaðar á sama hátt og gert verður hér á landi í þágu einkaleyfis deCode Genetics. Bandaríkin eru hluti fyrsta heimsins, en Ísland er hluti þriðja heimsins.

Rækilegar fréttir af reglugerðinni hafa birzt í bandarískum fjölmiðlum og eru þær aðgengilegar í gagnabönkum þeirra. Allir, sem áhuga hafa á málinu, geta því komizt að raun um, að blaðurfulltrúi deCode Genetics fer í öllum atriðum, stórum og smáum, með rangt mál.

Hins vegar er gott, að fulltrúinn skyldi fara að blaðra, því að það gefur færi á að ítreka upplýsingar, sem hafa birzt í DV og Morgunblaðinu um reglugerðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Kúvending í Noregi

Greinar

Óhjákvæmilegt er, að það hafi áhrif á Íslandi, þegar norska ríkisstjórnin hættir við að reisa þrjú vatnsorkuver þar í landi á þeim grundvelli, að stórvirkjanir séu orðnar úreltar og skaði umhverfið of mikið. Nægir að benda á, að norska ríkið á 40% í Norsk Hydro.

Hingað til hefur flokkur jafnaðarmanna í Noregi verið flokkur stóriðjusinna, en miðflokkarnir haft meiri áhuga á umhverfisverndun. Hin óvænta yfirlýsing Jens Stoltenbergs forsætisráðherra í nýársávarpi sínu markar því þáttaskil í umhverfismálum Noregs.

Nú, þegar stærsti stjórnmálaflokkurinn hefur snúið við blaðinu, má heita að öll breiðfylking norskra stjórnmálaflokka hafi snúist á sveif með umhverfissinnum. Íslenzkir umhverfissinnar mega því vænta hljómgrunns, þegar þeir gagnrýna gerðir Norsk Hydro á Íslandi.

Holur hljómur er í tilraunum Norsk Hydro til að þykjast aðeins vera aðili að byggingu álvers á Reyðarfirði en ekki stórvirkjana, sem því fylgir. Augljóst er, að Kárahnjúkavirkjun verður því aðeins reist, að Norsk Hydro vilji verða einn helzti eigandi Reyðaráls.

Norska stjórnin verður sökuð um tvískinnung, ef hún reynir að hreinsa til í stóriðjunni heima fyrir, en lætur viðgangast, að norskt ríkisfyrirtæki notfæri sér græðgi nokkurra aðila í þeim hluta þriðja heimsins, sem heitir Ísland. Hún mun segja Norsk Hydro að fara varlega.

Íslenzkir umhverfissinnar eiga því töluverð sóknarfæri í Noregi með aðstoð norskra umhverfissinna. Vakin verður athygli á, hvernig Norsk Hydro hefur hingað til getað leikið tveimur skjöldum og hagað máli sínu eftir aðstæðum og viðmælendum hverju sinni.

Það bætir enn stöðuna, að sá framkvæmdastjóri Norsk Hydro, sem áður gaf umhverfisvænstu yfirlýsingar fyrirtækisins um Reyðarál, er núna orðin aðalforstjóri fyrirtækisins. Það eykur líkur á, að fyrirtækið stígi enn varfærnari skref en það hefur gert hingað til.

Áramótaávarp Jens Stoltenbergs sýnir himin og haf milli nýrra sjónarmiða, sem ríkja þar í landi og suður eftir allri Evrópu, og gamalla sjónarmiða, sem enn ríkja í þriðja heiminum og á Íslandi, þar sem stundargræðgi veiðimannaþjóðfélagsins er enn við völd.

Að þessu leyti eins og svo mörgu öðru hefur Ísland staðnað. Meðan Evrópa er á fleygiferð inn í 21. öldina er Ísland enn að berjast við vandamál 19. aldar. Á 21. öld verður það mannauðurinn, sem ræður gengi þjóða, en á 19. öld voru það auðlindir lands og sjávar.

Áramótaávarp norska forsætisráðherrans sýnir einnig, að þar í landi hefur byggðastefna vikið fyrir öðrum og brýnni hagsmunum þjóðfélagsins. Norðmenn reisa ekki lengur orkuver og álver til að þjóna staðbundnum hagsmunum gegn umhverfishagsmunum heildarinnar.

Þetta eru mikil tímamót, því að hingað til hefur Noregur gengið allra ríkja lengst í byggðastefnu. Henni hefur nú verið skákað með áhrifamiklum hætti, sem hlýtur að enduróma á Íslandi, þar sem margir hafa leitað fyrirmynda í Noregi að byggðastefnu fyrir Ísland.

Fréttirnar frá Noregi eru áfall fyrir hvort tveggja í senn, byggðastefnu og stóriðjustefnu á Íslandi, hvað sem einstakir ráðherrar og hagsmunaaðilar kunna að segja. Þær eru hvatning öllum þeim, sem vilja vekja þjóðfélagið af 19. aldar áráttu og halda inn í 21. öldina.

Uppspretta auðs, velmegunar og lífsgæða Íslendinga á 21. öld mun liggja í virkjun mannauðs, en ekki í 19. aldar stóriðju og öðrum spjöllum lands og sjávar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þar borgarar, hér þegnar

Greinar

Með stuðningi beggja þingflokka gaf Bandaríkjaforseti fyrir áramótin út nýjar reglur um vernd sjúkraupplýsinga, sem ganga miklu lengra en tillögurnar, er ekki náðu fram að ganga hér á landi, þegar deCODE genetics fékk einkaleyfi til að safna slíkum upplýsingum.

Hér á landi vildu ríkisstjórn og meirihluti Alþingis ekki, að almenningur yrði spurður leyfis. Tillögur um upplýst samþykki náðu ekki fram að ganga, enda var forsætisráðherra mikið í mun, að lögin yrðu samþykkt eins og frumvarp þeirra kom frá deCODE genetics.

Í Bandaríkjunum verður hér eftir að fá skriflegt leyfi sjúklinga fyrir notkun gagna um þá, hvort sem er í stórum atriðum eða smáum. Fá þarf endurtekið leyfi í sumum tilvikum, svo sem þegar slíkar upplýsingar gætu haft áhrif á stöðu sjúklingsins í þjóðfélaginu.

Sérstaklega er stefnt að því, að slíkar upplýsingar komist ekki til vinnuveitenda og tryggingafélaga, sem gætu mismunað fólki á grundvelli þeirra. Bandaríska þingið fól forsetanum árið 1996 að setja slíkar reglur og tryggingafélögin hafa fyrir sitt leyti samþykkt nýju reglurnar.

Í Bretlandi hafa stjórnvöld ekki gengið eins langt til móts við sjónarmið neytenda á þessu sviði. Þau hafa hins vegar gengið lengra í að vernda fólk fyrir fjárhagslegum afleiðingum af misnotkun á sjúkrasögu þess. Þau ákváðu fyrir áramót að tryggja fólk fyrir slíku.

Ef tryggingafélög í Bretlandi neita að tryggja fólk eða setja því afarkosti í iðgjöldum vegna upplýsinga um heilsufar þess, mun ríkisvaldið hér eftir sjá um þær tryggingar. Þannig er stefnt að því, að fólki sé ekki útskúfað vegna dreifingar á atriðum úr sjúkrasögu þess.

Í hvorugu landinu er talið, að dulkóðun upplýsinga tryggi, að sjúkrasaga fólks komist ekki til aðila, sem hafa aðstöðu til að setja þessu fólki stólinn fyrir dyrnar. Bandaríkjamenn banna ósamþykkta söfnun slíkra gagna og Bretar gera ráðstafanir vegna afleiðinganna.

Gert er ráð fyrir, að í framtíðinni muni vinnuveitendur með réttu eða röngu hafa upplýsingar um heilsufar atvinnuumsækjenda og tryggingafélög sömu upplýsingar um heilsufar þeirra, sem sækja um líftryggingu. Hér á landi hafa stjórnvöld hins vegar engar áhyggjur.

Þetta endurspeglar misjöfn viðhorf stjórnvalda til almennings. Í engilsaxnesku löndunum er ströng hefð persónuréttinda, sem hafa mótast í aldalangri baráttu við einvaldsherra af guðs náð og forréttindastéttir fyrri tíma. Þar er fólk talið vera fullgildir borgarar.

Hér á landi var aldrei háð slík sjálfstæðisbarátta fólksins. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga var barátta innlendrar yfirstéttar embættismanna gegn erlendum embættismönnum. Eftir sigurinn tók íslenzk yfirstétt við hlutverki lénsherranna. Fólk var áfram talið vera þegnar.

Þar sem Íslendingar eru þegnar fremur en borgarar, láta menn hér sumt yfir sig ganga, sem aldrei gæti gerzt meðal Engilsaxa og raunar ekki heldur meðal Skandínava. Frægasta dæmið er einkaleyfi deCODE genetics á notkun heilsufarsupplýsinga án upplýsts samþykkis fólks.

Margir Íslendingar sýna valdinu taumlausa undirgefni. Þetta má til dæmis sjá af umgengni fólks við ráðherra á mannþingum. Af þessu má ráða, að þegninn sitji enn fastur í þjóðarsálinni, en borgarinn sé ekki enn kominn til skjalanna. Og landsfeður haga sér samkvæmt þessu.

Í skjóli hlýðinna þegna sinna talar forsætisráðherra niður til Hæstaréttar, forseta Íslands og allra þeirra, sem efast opinberlega um gerðir einvaldsherrans.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt mun breytast

Greinar

Þeir, sem nú fæðast inn í nýja öld og nýtt árþúsund, munu sennilega flestir lifa svo lengi, að þeir nái að deyja frá allt öðruvísi heimi en við þekkjum núna. Breytingarnar verða enn meiri en þær hafa orðið á æviskeiði þeirra, sem fæddust fyrir einni öld og urðu langlífir.

Stórmál 20. aldar munu víkja fyrir öðrum stórmálum á 21. öld. Kotbúskapur strjálbýlis hefur þegar vikið fyrir háskólagreinum þéttbýlis, svo að byggðastefna mun síður flækjast fyrir okkur í framtíðinni. Veiðimennska sjávarútvegs mun fljótt breytast í skipulegt fiskeldi.

Með farsælli skipan lífeyrismála mun barátta kynslóðanna ekki verða hörð á öldinni. Þegar hver safnar sjálfur sínum lífeyri, mun breytt aldursskipting ekki leiða til pólitískra illdeilna um tekjuskiptingu. Stéttabarátta 20. aldar er þar á ofan nánast horfin um þessi aldamót.

Baráttan um auðlindirnar var hörð undir lok aldarinnar, en mun ekki einkenna nýja öld vegna ört minnkandi vægis sjávarútvegs. Baráttan um réttlætið var hörð undir lok aldarinnar, en mun ekki einkenna nýja öld vegna aukinnar auðsældar og betri trygginga.

Við sjáum nú þegar, að gömul flokkaskipting á grunni baráttu milli byggða, atvinnuvega, aldurshópa, kynja og stétta, hefur leitt til miðjumoðs, sem þýðir í raun, að gömlu ágreiningsefnin eru að deyja. Til sögunnar koma ný ágreiningsefni, sem flokkakerfið á eftir að höndla.

Þátttaka okkar í fjölþjóðlegu samfélagi auðveldar okkur aðlögun að nýjum tíma. Stóru þjóðfélögin á Vesturlöndum taka yfirleitt miklu fyrr en við á vandamálum og búa til margvíslega ramma, sem Íslendingar verða að hlíta og vilja hlíta til þess að geta áfram skipt við útlönd.

Umhverfi mannkyns verður eitt af allra stærstu málum 21. aldar. Í auknum mæli verða þjóðir heims að taka saman höndum til að hindra varanleg umhverfisslys. Fyrstu skrefin hafa verið stigin, svo að ekki er ástæða til að efast um, að þjóðum heims muni takast þetta.

Lok síðustu aldar einkenndust af hatrömmum ágreiningi Íslendinga í umhverfismálum. Allra fyrstu loturnar hafa þegar verið háðar í baráttu, sem mun í auknum mæli kljúfa þjóðina í ósættanlegar fylkingar, sem munu berjast um pólitísk völd í landinu á næstu áratugum.

Ný stéttaskipting mun leysa eldri skiptingar af hólmi. Þjóðfélagið mun í auknum mæli skiptast í fjölmennari hóp hinna afskiptalausu og fámennari hóp hinna virku. Hinir afskiptalausu munu deyja lifandi inn í sjónvarpsskjáinn og sólarströndina og einkalífið yfirleitt.

Hinir virku munu hafa aðgang að mun betri þekkingu á nýhafinni öld en forverar þeirra höfðu á hinni síðustu. Þeir verða vel í stakk búnir til að stjórna vestrænu nútímasamfélagi á skynsaman hátt í umboði hinna, sem sitja fyrir framan skjáinn og hafast ekki að.

Fólk er þegar að öðlast færi á lífsstíl, sem felur í sér bætt mataræði, góða hreyfingu, aukin afskipti af samfélaginu og annað það, sem gefur lífinu fyllingu og tilgang. Það verða ekki lengur fáir útvaldir, heldur fjöldi manns, sem lifir lengi og lifir vel fram í háa elli.

Lífsstíll hinna aðgerðalausu mun hins vegar verða margfalt dýrari vandi á nýrri öld. Sífellt dýrari aðgerðum og dýrari lyfjum verður beitt til að hjálpa þeim, sem missa heilsuna framan við sjónvarpið og eru ófærir um að taka ábyrgð á eigin lífi, eigin heilsu og eigin afskiptaleysi.

20. öldin snerist um að skaffa og skipta. Hin 21. mun hins vegar snúast um nýjan lífsstíl og nýja stéttaskiptingu og ný viðhorf til stöðu mannkyns í náttúrunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Áður framselt fullveldi

Greinar

Hæstiréttur er hafður fyrir rangri sök, þegar hann er sakaður um að hafa tekið sér löggjafvarvald í hendur með þeim úrskurði, að lög um skerðingu örorkubóta vegna tekna maka standist ekki stjórnarskrána. Hann er að bregðast við fyrri dreifingu löggjafarvaldsins.

Núverandi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hafa samið við önnur ríki og við ýmis samtök ríkja um skuldbindingar, sem fela í sér framsal á hluta fullveldis Íslendinga. Þessir fjölþjóðlegu samningar og sáttmálar hafa síðan verið staðfestir af Alþingi og öðlazt lagagildi.

Hópur þýðenda er önnum kafinn við að þýða reglugerðir Evrópusambandsins á íslenzku. Eftirlitsnefnd Evrópska efnahagssvæðisins veitti samt íslenzkum stjórnvöldum nýlega ákúrur fyrir að vera að dragast aftur úr við að innleiða evrópskar reglur hér á landi.

Það var ekki Hæstiréttur, sem ákvað, að Ísland yrði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur ríkisstjórn og Alþingi. Það var ekki Hæstiréttur, sem ákvað, að Ísland yrði aðili að Evrópudómstólnum og Mannréttindadómstóli Evrópu, heldur ríkisstjórn og Alþingi.

Dómstólar hinnar nýju Evrópu hafa reynzt athafnasamir. Þeir hafa knúið dómstóla einstakra ríkja til að breyta grundvallarviðhorfum. Þannig er til dæmis ekki lengur öruggt, að einstaklingar tapi málum, sem þeir höfða gegn stjórnvöldum í sínu landi.

Þegar nógu margir Íslendingar hafa áfrýjað úrskurðum Hæstaréttar til evrópskra dómstóla og unnið málin, fara auðvitað smám saman að renna tvær grímur á Hæstarétt. Dómurum hans finnst auðvitað niðurlægjandi að úrskurðir þeirra skuli ekki halda í útlöndum.

Fyrr á áratugum eins og á fyrri öldum starfaði Hæstiréttur eins og framlengdur armur ríkisvaldsins og úrskurðaði jafnan ríkinu í vil gegn einstaklingum. Þetta er núna að breytast, þegar Hæstiréttur er kominn undir smásjána hjá yfirdómstólum úti í Evrópu.

Dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins er markaður þessari öru þróun á fjölþjóðavettvangi. Dómarar Hæstaréttar vita, að málinu hefði verið áfrýjað til Evrópu, ef þeir hefðu úrskurðað ríkinu í vil. Þeir kærðu sig ekki um að verða sér enn til minnkunar.

Hæstiréttur reynir að búa til kenningu um, að andi stjórnarskrárinnar feli í sér hugtök, sem ekki voru til, þegar hún var smíðuð í gamla daga, eða feli í sér útvíkkun eldri hugtaka. Þess vegna segir hann, að lögin um skerðingu örorkubóta standist ekki stjórnarskrána.

Í rauninni hefði Hæstiréttur bara átt að segja: Við þurfum að taka tillit til, að íslenzk stjórnvöld hafa sett Hæstarétt undir eftirlit evrópskra og annarra fjölþjóðlegra dómstóla, sem fylgja þróun þjóðfélagsins hraðar en löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið á Íslandi gera.

Ríkisstjórnin heldur hins vegar, að hún geti bæði átt kökuna og étið hana. Hún heldur, að hún geti afsalað íslenzku valdi til fjölþjóðlegra dómstóla og eigi að síður geti hún hagað sér eins og lénsherrar fyrri alda. Þess vegna er ríkisstjórnin í fýlu eftir dóm Hæstaréttar.

Núverandi landsfeður hafa á löngu valdaskeiði fengið snert af valdshyggju og eiga erfitt með að taka afleiðingum undirskrifta sinna og fyrirrennara sinna á fjölþjóðavettvangi. Þetta er algengt fyrirbæri í mannlífinu og breytist fyrst með nýjum og hógværari landsfeðrum.

Það merkilega í máli þessu er, að ástæða skuli vera til að fagna því, að núverandi og fyrrverandi landsfeður skuli hafa framselt hluta af fullveldinu til útlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Kennileiti byggðagildru

Greinar

Helzta markmið snjóflóðavarna er ekki lengur að koma í veg fyrir, að fólk lendi í snjóflóðum, heldur að hindra, að það flytji suður. Í þessu skyni er ákveðið að beita dýrari aðferðum, sem ná lakari árangri og eru þar að auki í óþökk margra þeirra, sem búa á hættusvæðum.

Varnargarðar eru reistir í stað þess að kaupa hús á hættusvæðum, taka þau úr ábúð og flytja nýbyggingarsvæði frá hættusvæðum. Sveitarstjórnir telja hættu á, að fólk flytji úr bænum, ef það geti losað um eignir sínar. Uppkaupin kunni að leysa fólk úr byggðagildrunni.

Í Bolungarvík á að reisa varnargarða fyrir 520 milljónir króna. Fyrir þá upphæð mætti kaupa 50­60 hús. Á hættusvæði eru hins vegar ekki talin vera nema 14­40 hús. Því er ljóst, að varnargarður er dýrari en húsakaup og er samt engan veginn örugg vörn gegn snjóflóðum.

Margir íbúar, sem hafa lent í snjóflóðum, vilja heldur flytjast á öruggari stað í sveitarfélaginu, heldur en að búa undir varnargarði. Þeir telja sér ekki vera rótt undir garðinum. Garðarnir megna ekki að veita fólki þá öryggistilfinningu, sem búferlaflutningur veitir.

Í fjárhagsdæminu hér að ofan er ekkert tillit tekið til óprýðinnar af varnargörðum, sem verða allsráðandi í landslagi og yfirbragði bæja á borð við Bolungarvík. Þeir munu líta út eins og tröllsleg ábending um, að menn séu staddir á endimörkum hins byggilega heims.

Byggðagildran hefur með þessu fengið dramatíska birtingarmynd í formi varnargarða. Áður hafði hún tekið á sig margar aðrar myndir, sem allar reyna að koma í veg fyrir, að fólk flytji úr bænum, og tryggja, að það verði að fara slyppt og snautt, ef það lætur slag standa.

Byggðagildra felst meðal annars í, að sveitarfélög fjárfesta í atvinnulífi í stað þess að fjárfesta í félagslegri þjónustu. Rekstur, sem beint eða óbeint er á vegum bæjarfélags, gengur verr en annar rekstur. Fjármagnið brennur upp í stað þess að nýtast samfélaginu.

Þar á ofan eru bæjarbúar hvattir til að taka sem hluthafar beinan þátt í þessum atvinnurekstri. Það fé brennur upp eins og annað og nýtist fólki ekki til að auka svigrúm sitt til ákvarðana um framtíðina. Það situr uppi með rangar fjárfestingar í pappírum og stórhýsum.

Ein nýjasta mynd byggðagildrunnar er, að verkalýðsfélög svæðisins nota lífeyrissjóði félagsmanna til að kaupa hlutabréf í hallærisfyrirtækjunum, sem bæjarfélögin eru sífellt að reyna að koma á fætur á nýjan leik. Þannig festi Lífeyrissjóður Vestfjarða fjármagn í Básafelli.

Framtíðarhagsmunum sjóðfélaga og öryggi þeirra á elliárunum er stefnt í hættu með því að brenna lífeyri þeirra í staðbundnum fyrirtækjum. Þetta er ein ógeðfelldasta mynd byggðagildrunnar, því að hún skerðir möguleika fólks á að eiga sómasamlega fyrir elliárunum.

Ýmsir þættir byggðagildrunnar mynda einn vítahring, sem knúinn er handafli sveitarstjórna. Fyrirtæki falla í verði og leggja upp laupana. Íbúðarhús falla í verði og verða illseljanleg. Fólk missir vinnutekjur og tapar lífeyri. Og nú er því sagt að hírast undir varnargörðum.

Allt er þetta ferli til þess fallið að draga kjarkinn úr heimafólki. Vegna tekjumissis, eignarýrnunar og þjónustuskerðingar hefur það minna fjárhagslegt svigrúm en ella til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína. Það situr fast í vítahring byggðagildranna.

Ekki má búast við, að þessir staðir verði girnilegri til búsetu, þegar tröllauknir varnargarðar verða orðnir að helzta kennileiti og einkennistákni þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Hamlað gegn einokun

Greinar

Hliðstæð voru viðbrögð Landsbankans og Odda við banni Samkeppnisráðs við yfirtöku þessara fyrirtækja á Búnaðarbankanum í fyrra tilvikinu og Steindórsprenti-Gutenberg í hinu síðara. Þetta skaðar okkur, sögðu þeir, af því að við þurfum að keppa við útlönd.

Þau telja sig þurfa að ná meirihlutaaðstöðu á innlendum markaði til að geta mjólkað innlenda markaðinn og náð þar í peninga til að niðurgreiða tilraunir til að komast inn á erlendan markað. Þetta getur verið gott fyrir þau, en er örugglega vont fyrir innlenda neytendur.

Við sjáum mjög gott dæmi um þessa misnotkun einokunaraðstöðu hjá Flugleiðum. Þær nota hana til að niðurgreiða farseðla fyrir útlendinga og ná þannig markaðshlutdeild í flugi yfir Norður-Atlantshaf. Verð á farseðlum útlendinga er mun lægra en verð fyrir Íslendinga.

Í öllum vestrænum löndum eru til stofnanir til að gæta hagsmuna heilbrigðrar samkeppni og gera það í raun. Íslenzka stofnunin hefur hingað til ekki tekið það hlutverk alvarlega og því kom það mörgum á óvart, að hún skyldi stöðva bankasameiningu ríkisstjórnarinnar.

Umhverfisráðherra hefði ekki verið í vandræðum með viðbrögðin. Við skulum leggja niður Samkeppnisráð, hefði hún sagt, þetta er skálkaskjól fyrir róttæklinga. En viðskiptaráðherra er ekki eins forstokkuð og gefur sér þá forsendu, að þessi niðurstaða hafi verið í myndinni.

Samkeppnisstofnanir eru til á Vesturlöndum vegna brotalamar í kenningakerfi markaðsbúskapar. Ekki hefur enn fundizt nein lausn af hálfu markaðarins á viðleitni fyrirtækja til að komast í ráðandi markaðsaðstöðu og nota síðan aðstöðuna til að hækka verðlag á nýjan leik.

Hvergi er meiri þörf á slíku andófi en einmitt á Íslandi, þar sem fáokun ríkir í mörgum atvinnugreinum, í flugi, í vöruflutningum, í eldsneyti og í tryggingum. Hjá bönkunum kemur þetta fram í miklu meiri vaxtamun inn- og útlána en þekkist í nokkru öðru vestrænu ríki.

Þótt komið hafi verið upp Samkeppnisstofnun og -ráði á Íslandi, hafa ráðamenn þjóðarinnar fremur talið það vera upp á punt og til að slá ryki í augu umheimsins heldur en að vinna gegn fáokun og einokun, sem ráðamenn okkar hafa yfirleitt reynzt vera hæstánægðir með.

Íslenzk stjórnvöld eru meira að segja enn að úthluta einkaleyfum til að hindra samkeppni. Frægasta dæmið um það er bandaríska fyrirtækið deCODE Genetics, sem undir heitinu Íslenzk erfðagreining fékk einkarétt til að setja íslenzkar sjúkraskýrslur í einn gagnabanka.

Það er ríkjandi hagfræðikenning á Vesturlöndum, að samþjöppun valds á hverjum markaði fyrir sig verði skaðleg, þegar hún fer yfir visst mark. Menn eru ekki alveg sammála um hvert markið sé, enda fer það dálítið eftir aðstæðum í hverju landi og hverri grein.

Samkeppnisráð telur 53% hlutdeildar í innlánum vera of mikla markaðshlutdeild Landsbanka og Búnaðarbanka og 64% bóka- og tímaritaprentunar vera of mikla markaðshlutdeild Odda og Steindórsprents-Gutenberg. Hvarvetna á Vesturlöndum hefði niðurstaðan orðið eins.

Um leið og þessum niðurstöðum er fagnað er ástæða til að benda á, að bann við sameiningu leysir ekki allan vanda. Erlend og íslenzk reynsla sýnir, að tvö eða þrjú fyrirtæki eiga mjög auðvelt með að koma upp samráði, sem skaðar neytendur ekki minna en sameining.

Útkoman markar þó tímamót, því að rofið hefur verið skarð í notalegt samkomulag ráðamanna og stórforstjóra um að mjólka megi íslenzka neytendur að vild.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkt höfumst við að

Greinar

Flokksmennska er ein tegund blaðamennsku, sem var útbreidd fyrir mörgum áratugum, en er nú horfin að mestu. Helzt eimir eftir af henni hjá Ríkisútvarpinu, þar sem yfirmenn eru þá aðeins ráðnir, að þeir hafi flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins upp á vasann.

Vændismennska er þeim mun meira stunduð og gætir ýmissa sérhagsmuna úti í bæ. Mest er hún stunduð á sértímaritum, til dæmis þegar tímarit birtir viðtöl við bókarhöfunda eigin forlags en ekki annarra. Sjónvarpsstöðvar birta slíkt efni, m.a. frá auglýsingastofunni Zink.

Leigumennska hefur lengi verið öflug hér á landi. Hún er einkum rekin á auglýsinga- og kynningarstofum blaðamanna, sem taka að sér að sjá um fjölmiðlasamskipti fyrir stofnanir, samtök og fyrirtæki og reyna að nota gömul sambönd sín inni á ritstjórnum alvörufjölmiðla.

Kostunarmennska hóf innreið sína með sjónvarpi. Stofnuð hafa verið blaðamennskufyrirtæki, sem fá hagsmunaaðila til að fjármagna þætti, er fjalla um efni, sem skiptir miklu fyrir sama hagsmunaaðilann, hvort sem það eru samtök útvegsmanna eða ríkisstjórnin.

Sölumennska hefur ótal myndir í fjölmiðlun. Skemmtileg tegund er stunduð á Strik.is, þar sem snarlega eru birtir ritdómar, eingöngu ákaflega jákvæðir, um bækur í tæka tíð, svo að tilvitnanir í miðilinn komist í auglýsingar bókaútgefenda og auglýsi miðilinn um leið.

Kranamennska hefur lengi verið mikið stunduð og efldist mjög við tilkomu sjónvarpsviðtala. Hún felst í að skrúfa frá einu sjónarmiði, en ekki öðrum. Þessi tegund hefur gengið í endurnýjun lífdaganna með tölvupósti, sem auðvelt er að klippa og líma á síður.

Kjaftamennska er í mikilli tízku um þessar mundir, enda ódýrt og vel þegið sjónvarpsefni, sérstaklega ef hinir málglöðu geta verið skemmtilegir á köflum. Efni skemmtikraftanna er ekki fróðlegt, en drepur tíma nútímafólks, sem skjárinn hefur tekið í gíslingu.

Frægðarmennska er skyld atvinnugrein. Hún felst í að taka frægt fólk og láta það leika hlutverk blaðamanna. Þetta þjónar persónuáhuga gíslanna við sjónvarpsskjáinn og getur framleitt kostuleg viðtöl, þar sem alls engar upplýsingar koma fram, er neinu máli skipta.

Kynóramennska er sérhæfð hliðargrein í bransanum. Hún þjónar kynórum ungra stráka, sem eru ekki komnir í færi og hefur að markmiði að mynda inn í klofið á nafngreindum stúlkum íslenzkum. Höfundarnir telja, að strákarnir verði með þessu til friðs í þjóðfélaginu.

Kíkismennska myndar fræga fólkið og hrópar upp yfir sig: Sjáið fínu kjólana, sjáið sætu stúlkurnar, sjáið flottu pörin! Allt fræga fólkið er ofsalega hamingjusamt á myndunum. Samkvæmt könnunum nýtur þessi blaðamennska mikils trausts og hæfir þar skel kjafti.

Í öllum þessum tíu ofangreindu hornsteinum nútímans ríkir áhugi á velferð venjulegrar og hefðbundinnar blaðamennsku og áhyggjur af, að hún fari “yfir strikið” í rannsóknum sínum á ýmsu því, sem aflaga fer í hinu fullkomna ímyndarþjóðfélagi hornsteinanna.

Venjuleg og hefðbundin blaðamennska er fyrirferðarlítil innan um alla þessa fjölbreytni sérhæfingarinnar, enda þykir ekki fínt að grafast fyrir um staðreyndir og birta þær, jafnvel hinar óþægilegu. Hún er ekki eitt af tízkufyrirbærum ímyndarþjóðfélags nútímans.

Eðlilegt er, að sú blaðamennska, sem ein skiptir máli, sé undir smásjá ofangreindra tíu hornsteina þjóðfélagsins, sem eru bara að vinna fyrir kaupinu sínu

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnvöld sitja eftir

Greinar

Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum kemur skýrt fram í afnámi fjárveitinga til náttúruverndarsamtaka, rétt eins og stefna hennar í siðamálum vísinda er að leggja niður vísindasiðanefnd. Hún vonar, að óþægindin hverfi, ef hún þrengi hag stofnana eða slátri þeim.

Vandinn er sá, að ný fyrirbæri, sem stofnuð eru til að vera þæg og góð, njóta einskis trausts úti í bæ, hvort sem það er vísindasiðanefnd ríkisstjórnarinnar eða þögull fínimannsklúbbur, sem þykist styðja náttúruvernd undir forustu fyrrverandi landbúnaðarráðherra.

Óbeit ríkisstjórnarinnar á umhverfisvernd er mikil og endurspeglar raunar skoðanir háværs minnihluta meðal þjóðarinnar, sem lítur á málefnið sem eins konar helgislepju eða fílabeinsturn, svo notað sé orðalag eins þeirra á ráðstefnu um framtíð lifibrauðs Húsavíkur.

Í þessum hópi eru fjölmennir verktakar á borð við þann, sem stjórnar Kópavogi og vill ólmur láta reisa blokkir við Elliðavatn. Þar er á ferðinni fyrirhyggjulaus framtakssemi, svo notað sé orðalag Orra Vigfússonar, þegar hann gagnrýndi sjókvíaeldi á Austfjörðum.

Fyrirhyggjulaus framtakssemi er einmitt það, sem hefur hingað til einkennt Íslendinga eins og flestar þriðja heims þjóðir, sem eru að reyna að brjótast til álna. En við verðum að kunna að breyta viðhorfum okkar, þegar við höfum komizt í álnir og getum farið að njóta lífsins.

Meirihluti þjóðarinnar er samkvæmt skoðanakönnunum kominn á þá skoðun, að tími sé kominn til að leggja niður hamslausa framtakssemi og fara að gæta langtímahagsmuna okkar af að vernda umhverfið fyrir verkfræðingum og pólitískum verkefna-útvegsmönnum.

Milli meirihlutans og minnihlutans í umhverfismálum er mikið djúp, sem verður seint brúað. Ríkisstjórnin hefur í heild tekið sér eindregna stöðu með minnihlutanum og verður vonandi látin gjalda þess í næstu kosningum. Sigurför umhverfisverndar verður ekki hamin.

Þrýstingurinn er mikill og vaxandi. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að raflínur beri að grafa í jörð en ekki hengja upp í stálturna í óbyggðum. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að velja verður um, hvort Mývatn á að vera náttúruparadís eða skammvinnt verksmiðjuþorp.

Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að engin sérstök þörf er á að malbika niður í fjöru og reisa íbúðarturna við náttúruvinjar, þar sem nóg rými er fyrir slíkt annars staðar. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að haga verður búfjárbeit í samræmi við burðargetu landsins.

Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að brautargengi þjóðarinnar í framtíðinni fer eftir allt öðrum atvinnugreinum en stóriðju. Og sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að landið er ekki eign okkar, heldur í varðveizlu okkar fyrir hönd komandi kynslóða. Sjálfbær hugsun er að síast inn.

Við þurfum í bili að sæta umhverfisráðherra sem seldi sannfæringu sína fyrir embættið og gengur svo mikinn berserksgang í andstöðu við umhverfið, hvort sem það er Mývatn eða Eyjabakkar, að hún fær upp á móti sér opinbert ráð, sem skipað er henni til ráðgjafar.

Svo tamt og ljúft er ráðherranum að fara með rangt mál, að hún fer létt með að segja útlend umhverfissamtök styðja stefnu sína og ber því síðan við, að hún hafi hitt borðalagða menn á umhverfisfundinum í Haag og talið, að þar færu talsmenn umhverfissamtaka.

Feiknarmikið verk er eftir við að skipta út stjórnmálamönnum og fá til starfa aðra, sem vilja starfa með meirihluta þjóðarinnar að verndun umhverfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrkeypt monthús

Greinar

Allir koma af fjöllum, sem ábyrgð áttu að bera, þegar minnzt er á kostnað við innréttingu þjóðmenningarhúss í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Allra sízt tekur forsætisráðherra neinum afleiðingum gerða sinna, er 300 milljón króna áætlun varð að 400 milljón króna kostnaði.

Bakgrunnur málsins er, að þjóð, sem ekki á nothæft þjóðminjasafn og enn síður náttúruminjasafn, fær í staðinn dæmigert monthús, sem hefur lítið safnagildi og er einkum notað fyrir hanastél hins opinbera, rétt eins og ekki hafi verið til nóg af slíkum húsum hjá ríkinu.

Forsætisráðherra bjó til tvær fínimannsnefndir Þjóðmenningarhúss, aðra skipaða helztu ráðuneytisstjórum ríkisins og hina skipaða fyrrverandi forseta Alþingis og fleira fínu fólki. Þessum virðulegu nefndum til halds og trausts átti að vera Framkvæmdasýsla ríkisins.

Úr þessu varð botnlaus óráðsía. Lóðarframkvæmdir einar fóru 200% fram úr áætlun og enduðu í 44 milljónum króna. Að mestu fóru þeir peningar í að búa til montreið að höfuðdyrum hússins, sem lokið var við á síðustu stundu með því að leggja nótt við dag.

Forsætisráðherra segist ekki hafa vitað um þetta og raunar hafa spurt við opnun hússins í vor, hvort allt væri í lagi með fjármálin, og sér hafi verið sagt, að svo væri. Síðan hafi sannleikurinn komið í ljós í sumar og Ríkisendurskoðun skilað skýrslu um málið í haust.

Samkvæmt þessu var búið að eyða 400 milljónum króna og opna húsið formlega áður en menn vissu, að þeir væru komnir langt fram úr heimildum. Í alvörulöndum hefðu nokkrir fínimenn fengið að fjúka af minna tilefni, en hér á landi tekur aldrei neinn ábyrgð á neinu.

Svo forstokkaðir eru ábyrgðarmennirnir, að málið var ekki lagt fyrir fjárlaganefnd þingsins í haust. Þingmenn fengu fyrst að vita um það nýlega og það með eftirgangsmunum. Ríkisendurskoðun þagði meira að segja þunnu hljóði á hverjum fundinum á fætur öðrum.

Sjálfur lá forsætisráðherra í þrjá haustmánuði á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. Þannig var það ekki fyrr en um síðustu mánaðamót, að fjárveitingavaldið fékk að vita, hvernig peningum skattborgaranna hafði verið grýtt á tvist og bast í Þjóðmenningarhúsi.

Forsætisráðherra segir, að menn læri af þessu. Breytt verði verklagsreglum við opinberar framkvæmdir hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Áður hafa menn þó fengið tækifæri til að læra af fyrri óráðsíu í framkvæmdum forsætisráðuneytisins, en ekki notað tækifærið.

Frægt var, hvernig verkfræðingar og aðrir sérfræðingar léku lausum hala við endurbætur og viðgerðir á Bessastöðum. Þá eins og nú stafaði sukkið af, að ekkert virkt kostnaðareftirlit var af hálfu fína fólksins í framkvæmdanefndinni. Reikningarnir bara flæddu inn.

Önnur dæmi sýna ennfremur, að Ríkisendurskoðun er yfirleitt ekkert gefin fyrir að upplýsa vinnuveitanda sinn, Alþingi, um vandræði í kerfinu. Hún heldur í rauninni að hún sé í vinnu hjá ríkisstjórninni og hafi það hlutverk að halda niðurstöðum í lengstu lög frá Alþingi.

Fyrir Þjóðmenningarhús vissu menn, að eftirlitslausar fínimannsnefndir eru ávísun á vandræði í framkvæmdum og að Ríkisendurskoðun er ekkert að flíka fjárhagslegum vandamálum í kerfinu. Spurningin er, hvort menn læri nokkuð frekar í þetta sinn en í fyrri skiptin.

Ef þessar glötuðu 400 milljón krónur hefðu farið í að opna þjóðminjasafn og efna til veglegs náttúruminjasafns, hefðu landsfeður eitthvað til að monta sig af.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykur er sæluduft

Greinar

“Kross þinn Jesú kæri / þá kemur að höndum mér / gefðu hann hjartað hræri / hvergi í burt frá þér / gleðinnar sykri stráðu á hann.” Þannig orti Bjarni Gissurarson fyrir um það bil þremur öldum og er það í fyrsta skipti sem sykurs er getið á íslenzkri tungu.

Næstu hálfa aðra öldina kemur sykur aðeins fyrir tvisvar í íslenzkum heimildum. Þeim fjölgar svo á síðari hluta nítjándu aldar, þegar höfðingjar fara að kaupa innfluttan sykur. Það er hins vegar ekki fyrr en á 20. öld, að sykur verður almenningseign hér á landi.

Sykur var lítt þekktur í Evrópu fram á sautjándu og átjándu öld, þegar ódýr reyrsykur fór að berast frá nýlendunum í Ameríku. Mannslíkaminn var engan veginn undir það búinn að taka við þessu hreina efni, sem nú er orðið að einni af helztu fæðutegundunum.

Það er eins og með brennivínið, að sumir þola sykur og aðrir ekki. Nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum benda til, að 75% þeirra, sem þjást af offitu, séu sykurfíklar. Þeir þjást af rugli í insúlínframleiðslu og insúlínvirkni og meðfylgjandi boðefnarugli í heilanum.

Að því leyti er sykur í flokki með öðrum fíkniefnum, sem valda rugli í framleiðslu og virkni boðefnanna dópamíns og serótoníns, öðru hvoru eða hvoru tveggja. Án skilnings á þessu næst ekki árangur af baráttu gegn menningarsjúkdómum, sem tengjast offitu.

Manneldisráð víða um hinn vestræna heim hafa hvatt fólk til að borða minni fitu og hafa náð þeim árangri, að fituneyzla hefur minnkað um fimmtung. Samt hefur offita aukizt og næringarsjúkdómar farið ört vaxandi, allt frá sykursýki yfir í hjarta- og æðasjúkdóma.

Hin hefðbundna næringarfræði, sem hefur verið kennd af gömlum kennslubókum, skilur ekki hugtakið fíkn. Það gerir ekki heldur hið íslenzka Manneldisráð né sú næringarfræði, sem kennd er á líkamsræktarstöðvum, þar sem menn drekka orkudrykki og éta orkuduft.

Þessir aðilar halda blákalt fram, að sykur sé ágætis krydd og bragðgóður orkugjafi. Fyrrum landlæknir Bandaríkjanna, C.E. Koop, telur hins vegar, að sykur sé vanabindandi fíkniefni, sem veldur því, að fólk missir stjórn á mataræði sínu og verður að sykurfíklum.

Á síðasta áratug 20. aldar fóru að hrannast upp í Bandaríkjunum niðurstöður rannsókna, sem benda til, að sykur sé mun skæðari en áður var talið. Nú er algengt að telja sykur með áfengi og tóbaki í hópi þeirra þriggja fíkniefna, sem valda þjóðfélaginu mestu tjóni.

Áður höfðu þúsundir félagsmanna samtakanna Overeaters Anonymus komist að þeirri niðurstöðu, að þeir næðu engum árangri í megrun nema kippa viðbættum sykri úr fæðuhringnum. Það er sykurinn, sem fellir fólk og fær það til að þyngjast óeðlilega á nýjan leik.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna fólk fitnar og fær menningarsjúkdóma, þótt það fari eftir ráðum manneldisráða, sem boða minni fituneyzlu. Þetta er skýringin á því, hvers vegna fólki tekst ekki að halda lengi út mataræði, sem það lærir í vel meintum megrunarbókum.

Ef sykur er fíkniefni, skýrist margt af sjálfu sér. Þá skiljum við hvers vegna fólki tekst ekki að hafa það mataræði, sem það vill hafa; hvers vegna það missir stjórn. Þá skiljum við, hvers vegna menningarsjúkdómar halda áfram að hrannast upp á þekkingaröld.

“Gleðinnar sykur” var orðalag Bjarna Gissurarsonar fyrir þremur öldum. Hann komst nær skilningi á sykri sem sæludufti en margir þeir, sem síðar komu.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópa stjórnar Íslandi

Greinar

Hurð skall nærri hælum í Brussel á mánudaginn, er landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna ákváðu að hlífa fiskimjöli að nokkru leyti við banninu, sem sett hefur verið á notkun kjötmjöls. Samkvæmt ákvörðun þeirra má áfram nota fiskimjöl í fiskirækt og í ræktun svína og alifugla, en ekki lengur í ræktun jórturdýra.

Utanríkisráðherra Íslands, utanríkisráðuneytið og sendimenn Íslands í löndum Evrópusambandsins unnu gott starf í þröngri stöðu máls, sem bar að með óvenjulegum hraða. Í samstarfi við Norðmenn utan bandalagsins og Breta og Dani innan þess hafðist varnarsigur.

Enginn efast um, að fiskimjöl var haft fyrir rangri sök, þegar því var slengt með kjötmjöli á bannlista Evrópusambandsins fyrir helgina. Ekkert bendir til samhengis fiskimjöls við Creutzfeld-Jakobs-heilahrörnun. Varnarstríðið hafði styrk af því að vera málefnalegt.

Málið er einkar athyglisvert og lærdómsríkt. Við getum spurt okkur, hvað gerist næst. Hvað er til ráða, ef Evrópusambandið bannar sölu á fiskafurðum með meiru en ákveðnu lágmarki af díoxíni? Þá er miklu meira í húfi en mjölið eitt og málefnastaða okkar mun veikari.

Ekki stoðar að segja, að díoxínið í Norðurhöfum hafi borizt þangað frá löndum Evrópusambandsins með hafstraumum og sé því bara komið til föðurhúsanna. Ef almenningur í Evrópu verður skelfingu lostinn út af díoxíni, verða ekki gefin út nein upprunavottorð.

Skyndibannið við kjötmjöli og að hluta til fiskimjöli stafar af hræðslu stjórnmálamanna í ríkjum Evrópusambandsins við dauðskelkaðan og fokreiðan almenning, sem veit núna, að hann hefur lengst af fengið rangar upplýsingar, sem miðuðu eingöngu að því að róa fólk.

Brezkir stjórnmálamenn hafa verið staðnir að lygum, sem hafa leitt til, að Creutzfeld-Jacobs-heilahrörnun hefur margfaldazt í Bretlandi og flutzt út til Frakklands. Áður hafa franskir stjórnmálamenn verið staðnir að lygum um, að blóðbankar þar í landi hafi aðeins ómengað blóð.

Í hverju málinu á fætur öðru hafa stjórnmálamenn verið staðnir að glæpsamlega röngum fullyrðingum til að friða fólk og þannig tafið fyrir, að tekið yrði á málum í tæka tíð. Þessir stjórnmálamenn eru núna rúnir mannorði sínu og verða nánast að fara huldu höfði.

Stjórnmálamennirnir, sem nú eru við völd í ríkjum Evrópusambandsins hafa margir hverjir lært af þessu og þora ekki annað en að hlaupa upp til handa og fóta, þegar hneykslin springa út. Þeir vilja ekki, að almenningur telji þá fara sér of hægt við að grípa í taumana.

Af ótal gefnum tilefnum hefur almenningsálitið í löndum Evrópusambandsins tekið völdin af trausti rúnum stjórnmálamönnum. Enginn veit, hvar eða hvenær reiði almennings lýstur niður næst. Díoxín-mengun í fiski af norðurslóðum gæti verið næsta hneykslismálið.

Ekki er síður lærdómsrík staða Íslands utan Evrópusambandsins. Við höfum þar engan atkvæðisrétt, þótt við sætum ákúrum fyrir að þýða ekki reglugerðir sambandsins á íslenzku með nægum hraða. Við verðum í raun að sitja og standa eins og sambandinu þóknast.

Flest er það til bóta, sem við fáum frá sambandinu með þessum hætti. Hinu er ekki að leyna, að heldur er það fátækleg staða að þiggja endalausa röð reglugerða frá sambandinu, en hafa á móti engan atkvæðisrétt í þeim fáu málum, sem varða hagsmuni okkar sérstaklega.

Þegar díoxínið verður afgreitt í Evrópusambandinu væri það hagur okkur að vera þar innanbúðarmenn.

Jónas Kristjánsson

DV