Greinar

Ágengir og ábyrgir

Greinar

Við því er að búast, að linir fréttastjórar, sem hafa atvinnu af að líma fréttatilkynningar úr tölvupósti inn á síður dagblaða, finnist berin súr, þegar annars staðar er verið með ærinni fyrirhöfn að grafa upp fréttir, sem skipta lesendur máli og gefa innsýn í þjóðfélagið.

Mikilvægt er fyrir lesendur að átta sig á, um hvað er verið að tala, þegar sögumönnum er kennt um ótíðindi. Þá er oftast blandað saman tvennu, annars vegar viðfangsefnum fjölmiðlanna og hins vegar vinnubrögðum þeirra. Þessir tveir ásar eru engan veginn samhliða.

Það er gilt umræðuefni, hvort fjölmiðlar komi of nálægt einkalífi fólks í leitinni að upplýsingum. En það er allt annað umræðuefni en hitt, hvort upplýsingarnar, sem finnast við gröftinn séu áreiðanlegar eða ekki. Fjölmiðlar geta hæglega verið ágengir og ábyrgir í senn.

Sumir fjölmiðlungar hafa hag af að reyna að koma því inn hjá fólki, að átakalítil kranablaðamennska þeirra sé ábyrg og vönduð, en hinir séu skítugir, sem vinna að uppgreftri staðreynda, er liggja ekki á lausu. Sumir notendur sjá gegnum þessa kenningu, en aðrir ekki.

Ef Washington Post væri gefið út á Íslandi, mundu kranablaðamenn halda fram, að það væri sorprit. Það gerðu raunar stéttarbræður þeirra vestan hafs, þegar blaðið varð frægt af Watergate-skrifum. Þeir töldu blaðið stunda ábyrgðarlitlar æsifréttir um góðborgara.

Mikilvægt er, að lesendur átti sig á, að hvorki er ábyrgðarlítið að grafa eftir staðreyndum né traustvekjandi að bíða eftir fréttatilkynningum, sem streyma úr krana tölvupóstsins. Sem betur fer sýna notkunartölur fjölmiðla, að margir eru þeir, sem átta sig á þessu.

Hér á landi eru ekki fjölmiðlar á borð við þá, sem umdeildastir eru erlendis. Íslenzkir fjölmiðlar eru allir nærfærnari í skrifum en vestrænn meðalfjölmiðill. Þeir, sem halda öðru fram, hafa ekki flutt nothæf dæmi því til stuðnings, enda þyrfti að grafa eftir slíku.

DV hefur leitazt við að fylgja ströngum vinnureglum. Ein helzta þeirra segir, að afla skuli tveggja sjálfstæðra heimilda að uppljóstrunum. Önnur af þeim helztu segir, að ekki skuli skrúfað einhliða frá krana, heldur sé aflað mismunandi sjónarmiða í umdeildum málum.

Kranablaðamenn þurfa engar slíkar vinnureglur. Þeir sitja bara við kranann og taka ekki til hendinni. Til að bæta sér upp hlutskiptið koma þeir sér saman um að kenna sögumönnum um ótíðindin og afla sér þannig siðferðilegrar undirstöðu fyrir aðgerðaleysi sínu.

Lesendur verða auðvitað að velja og hafna og gera það á ýmsa vegu. Óneitanlega eru sumir hallir undir þann draum, að ótíðindi gerðust ekki, ef þau væru látin liggja milli hluta í fjölmiðlum. Aðrir telja ekki henta lífi sínu að fá vitneskju um ýmislegt misjafnt í þjóðfélaginu.

Ef allir hugsuðu eins og kranablaðamenn og fylgismenn þeirra, mundi þjóðfélagið smám saman læsast og grotna niður að innan, án þess að greftinum verði náð út. Á endanum mundi fara illa fyrir þjóð, sem vildi lifa í ímynduðum heimi, þar sem allt er slétt og fellt.

En hinir eru sem betur fer fleiri, sem vilja láta grafa upp staðreyndir, sem ekki liggja á lausu, hvort sem þær eru notalegar eða óþægilegar. Þess vegna nýtur ábyrg og ágeng fréttamennska vaxandi vinsælda um þessar mundir, meðan harðnar á dalnum við suma kranana.

Aðalatriðið er, að sífellt fleiri átti sig á, að ábyrg vinna og ágeng vinna eru engar andstæður, heldur þvert á móti oftar hliðstæður í þjóðfélagi, sem opna þarf betur.

Jónas Kristjánsson

DV

Kranablaðamennska

Greinar

Vottur af umræðu hefur orðið á vefnum um leiðara DV fyrir viku, þar sem gagnrýnd var kranablaðamennska í sumum fjölmiðlum og froðusnakk í öðrum. Kveinuðu sumir þeirra, sem töldu að sér eða sínum vegið, og er það vel. En fáir skildu sjálf hugtökin, sem rædd voru.

Einn kjaftaskurinn vissi ekki, hvernig sú regla er hingað komin, að fréttamaður afli fleiri en einnar sjálfstæðrar heimildar að frétt. Hann gaf í skyn, að það gæti verið frá Bild Zeitung. Vita þó allir, að þetta er bandarísk regla stórblaða, sem frægust varð á Washington Post.

Með Watergate-málinu urðu þáttaskil í vestrænni fréttamennsku. Á dagblöðum hafa verið teknar upp nýjar verklagsreglur, þar sem þær voru ekki til áður, einkum ættaðar frá bandarískum stórblöðum. Þessar reglur eiga að tryggja, að fréttir séu eins réttar og kostur er.

Raunar kom í ljós, að kjaftaskurinn lagði ekki mikið upp úr verklagsreglum, enda hafði hann ekki verið langlífur í fréttamennskunni. Það var ekki verklagið, sem hann var einkum ósáttur við, heldur umræðuefnin, sem oft snertu einkalíf fólks of mikið að hans mati.

Raunar er það eðlilegra og nærtækara umræðuefni, hvort fjölmiðlar gerist of persónulegir, heldur en hvort sjálft verklag þeirra sé í lagi. Það er sígilt vandamál, hvenær einkamálin enda og opinberu málin byrja, en seint verða stórglæpir taldir vera einkamál.

Kranablaðamennska er hugtak, sem einn pólitíski vefmiðillinn skilur ekki. Hún felst í, að fjölmiðill fer að því leyti ekki eftir verklagsreglum, að hann skrúfar frá einu sjónarmiði í fréttaflutningi, án þess að leita annarra sjónarmiða, ef ætla má, að þau séu til.

Þessi regla gildir fyrir fréttamanninn, en ekki álitsgjafann. Sá síðarnefndi getur dregið misjöfn sjónarmið inn í röksemdafærslu sína, en þarf það ekki, enda er hann bara álitsgjafi. Stundum telja álitsgjafar sum sjónarmið svo vitlaus, að ekki þurfi að ræða þau.

Góðir fjölmiðlar reyna að gæta jafnvægis í skoðunum með því að draga inn álitsgjafa úr ýmsum áttum. DV birtir til dæmis daglega skoðanir með og móti ákveðinni fullyrðingu í þjóðmálaumræðunni. Í kjallaragreinum blaðsins birtast iðulega svargreinar við leiðurum þess.

Það er góð regla dagblaða að skilja skoðanir frá fréttum, svo að lesendur viti að hverju þeir ganga á hverjum stað. Í fréttahlutanum eiga lesendur að geta treyst því, að ekki sé skrúfað frá krana eins sjónarmiðs, nema einhver málsaðili hafi ekki viljað láta ná í sig.

Frá þessari reglu hefur töluvert verið vikið á sumum dagblöðum, en einkum þó í sjónvarpi, sem byggir allt of mikið á einhliða viðtölum. Ríkissjónvarpið leyfir til dæmis útgerðarmönnum að kosta heilan framhaldsþátt um ágæti núverandi gjafakvóta í sjávarútvegi.

DV telur líka ástæðu til að vara við efnistökum ýmissa vinsælla kjaftaska í sjónvarpi, sem leika eins konar millibils-hlutverk skemmtikrafta og álitsgjafa. Þeir fara sjaldnast eftir leikreglum á borð við þær, sem góð dagblöð víða um heim og hér á landi hafa tamið sér.

Sérstaklega er varhugavert, þegar slíkir kjaftaskar byrja að herma eftir pokaprestum og hefja hræsnissöng um tillitsleysi fjölmiðla til að magna kveinstafi viðmælenda sinna. Snöktandi Nixon í Watergate-málinu hefði verið fínn viðmælandi íslenzkra kjaftaska.

Fjölmiðlar þurfa í senn að hafa gott verklag, vera ágengir og hafa bein í nefinu til að baka sér óbeit margra, ekki sízt smárra og stórra kónga í samfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Brenglað lýðræði

Greinar

Frá íslenzkum sjónarhóli er sérkennilegt, að árum og áratugum saman virðist framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum hafa verið á þann hátt, að mikill vafi getur leikið á úrslitum. Hér á landi hefur verið og er óhugsandi, að lagaþrætur geti risið um, hvaða atkvæði séu gild.

Endurvéltalning gataðra atkvæðaseðla er engin nýjung í Bandaríkjunum. Menn hafa kosningar eftir kosningar vitað, að við hverja endurvéltalningu fyllist gólfið af litlum miðum, sem koma úr götunum. Því oftar, sem véltalið er, þeim mun fleiri atkvæði verða gild.

Augljóst er, að úrslit kosninga mega ekki hanga á bláþræði mats á því, hvort götunarvélin hafi skilað hlutverki sínu eða hvort miðinn hangi enn í gatinu. Þótt menn viti þetta, hafa menn áfram notað þessa hættulegu tækni við atkvæðagreiðslur víðs vegar í Bandaríkjunum.

Eftir þá lögfræðilegu úfa, sem nú eru risnir vestan hafs, er útilokað, að þessi aðferð verði framar notuð. Þótt talsmenn frambjóðandans Bush segi véltalningu öruggari en handtalningu, er ljóst af dæmunum frá Flórída, að véltalning í götunarvélum er algerlega út í hött.

Hér á landi væri óhugsandi að deila um, hvenær skuli hætta að telja. Hér dytti engum í hug, að hætt yrði að telja fyrr en öll vafaatriði hafa verið skýrð og úrskurðuð. Enda hafa íslenzkir lögmenn enga atvinnu af að vefengja, að birtar atkvæðatölur endurspegli vilja kjósenda.

Bandaríkjamenn þurfa ennfremur að staðla atkvæðaseðla, svo að ekki verði notaðir seðlar, þar sem nöfn frambjóðenda eru í tveimur dálkum og atkvæðareiturinn í einum dálki milli þeirra. Þessi undarlega tegund seðla hefur vakið lögfræðilegar deilur til viðbótar hinum.

Þar sem búið er að vefengja með gildum rökum, að götunarvélar skili hlutverki sínu og að undarlegir atkvæðaseðlar skili hlutverki sínu, fæst ekki lýðræðislega heiðarleg niðurstaða í Flórída, nema endurtalið sé í öllu ríkinu og endurkosið í kjördæmum skrítnu seðlanna.

Þar sem bandaríska lýðræðiskerfið hefur ekki burði til að taka heiðarlega á því undirstöðuatriði lýðræðis, að vilji kjósenda fái að koma í ljós, verður ekki endurtalið meira og enn síður endurkosið. Bush verður því að lokum skipaður forseti án þess að hafa umboð kjósenda.

Hinn vestræni heimur þarf að sæta því í fjögur ár, að forusturíkið hafi ekki lýðræðislega kjörinn forseta. Sú byrði bætist við hin augljósu vandræði af breytingu þjóðskipulagsins úr lýðræði yfir í auðræði, þar sem fjármagn ræður mestu um framgang stjórnmálamanna.

Svo er komið, að bandarískir þingmenn geta fremur talizt umboðsmenn hagsmunaaðilanna, sem fjármögnuðu kosningabaráttu þeirra, heldur en kjósenda. Að minnsta kosti hagar mikill hluti þeirra sér þannig á þingi, að ekki er hægt að efast um, hverjum þeir þjóna í raun.

Tilraunir til að koma böndum á fjárausturinn í bandarískum kosningum hafa ekki borið neinn árangur. Þeir forsetaframbjóðendur, sem vildu gera eitthvað í málinu, voru felldir í forvali innan flokkanna. Ljóst er því, að auðræði mun enn vaxa í bandarísku þjóðskipulagi.

Bandaríkjamenn geta lagað og munu væntanlega laga tæknilega framkvæmd kosninga og talningar, svo að þeir verði ekki lengur að athlægi meðal vestrænna þjóða. Þeir munu vafalítið hafa burði til að koma kosningum hið fyrsta í það horf, að þær endurspegli vilja kjósenda.

Hitt verður þyngra að hamla gegn yfirfærslu lýðræðis í auðræði. Þótt allt verði með lýðræðislega felldu á yfirborðinu, ríkir auðræði í auknum mæli undir niðri.

Jónas Kristjánsson

DV

Eftir Haag er heimavinna

Greinar

Fremur er ástæða til að lofa en lasta, að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fór út um þúfur í Haag um helgina og verður fram haldið á næsta vori. Þau býti, sem reynt var að bjóða í lokin, voru þess eðlis, að þau hefðu aukið loftslagsmengun af mannavöldum.

Vandinn stafar af nokkrum ríkjum, sem ekki vilja taka þátt í heimsátaki á þessu sviði og verja allri orku umboðsmanna sinna til að komast undan aðild. Ísland er í hópi þessara ríkja, sem hafa ekkert jákvætt til málanna að leggja, eingöngu meinta sérhagsmuni sína.

Í ljósi alvöru málsins er ótækt, að ráðstefna um framkvæmd Kyoto-sáttmálans snúist nær eingöngu um tilraunir þessara ríkja til að hlaupast undan merkjum og tilraunir sáttasemjara til að brúa gjána milli þessara fáu hagsmunapotara og meginþorra ríkja heimsins.

Í þessum svonefnda Regnhlífarhópi eru það eingöngu Bandaríkin, sem skipta máli. Stjórnvöld þar hafa áttað sig á, að langur vegur er frá almenningsálitinu vestra yfir í álit bandarískra þingmanna. Þeir eru hallir undir álit mengunarfyrirtækja, sem borga kosningabaráttuna.

Því skiptir ekki máli, hvaða samkomulag er gert á fjölþjóðavettvangi um miklar, litlar eða engar varnir gegn auknum flóðum og stormum, ágangi sjávar og tilfærslu hafstrauma og fiskistofna. Bandaríska þingið mun neita að staðfesta hvaða samkomulag, sem verður ofan á.

Ekki eru horfur á, að ástandið batni að sinni að þessu leyti í Bandaríkjunum. Ferlið er óheft í áttina frá lýðræði almennings yfir í auðræði stórfyrirtækja. Þeir þingmenn, sem nú hafa verið kjörnir til tveggja ára, eru ekki fulltrúar almennings, heldur óhefts peningavalds.

Baráttan fyrir endurheimt jafnvægis í lofthjúpnum færist nú að miklu leyti inn í Bandaríkin, þar sem eru öflugustu umhverfisverndarsamtök heimsins. Þau eru að átta sig á, að styrjöldin vinnst ekki á fjölþjóðavettvangi, heldur í kosningum innanlands í Bandaríkjunum.

Bandarísk umhverfissamtök hljóta að leggja aukna áherzlu á að setja þingmenn á svartan lista, ef þeir eru hallir undir mengunarhagsmuni. Þau hljóta að beina kröftum sínum til að fá kjósendur til að skipta þeim út fyrir umhverfissinna í næstu kosningum.

Hið sama verða raunar umhverfissinnar einnig að gera í öðrum ríkjum Regnhlífarhópsins. Þeir, sem telja breytingar á loftslagi jarðar stefna í óefni, þurfa að taka höndum saman um að setja þá stjórnmálamenn á svartan lista, sem hafa unnið gegn umhverfissjónarmiðum.

Ósigurinn í Haag verður til að stappa stálinu í fólk. Mikil reiði er um allan heim vegna vangetu ríkisstjórna heims til að staðfesta inntak Kyoto-sáttmálans og framkvæma hann. Ríkisstjórnirnar munu fara undan í flæmingi og vísa sök á hendur Regnhlífarhópnum.

Framvindan er fyrirsjáanleg. Loftslagið þarf að versna enn, áður en það byrjar að batna. Við munum sjá fleiri og verri flóð og storma og við munum sjá hafið ganga á land í auknum mæli. Að lokum vöknum við til vitundar um, að manngerð mengun er komin úr böndum.

Ekki má gleyma því, að samstaða Evrópusambandsins að Bretlandi undanskildu á fundinum í Haag var áfangasigur, sem lofar góðu um, að ekki verði gefið eftir fyrir mengunarsinnum á borð við ríkisstjórn Íslands, þegar fundinum verður fram haldið á næsta vori.

Á meðan þurfa menn að vinna heimavinnuna sína, fara niður í grasrótina í hverju ríki fyrir sig og beina spjótum sínum að gæzlumönnum mengunarhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Niðurlæging í Haag

Greinar

Ísland er aðili að fámennum ríkjahópi, sem kallaður er Regnhlífarhópurinn og talinn standa í vegi fyrir fjölþjóðlegu samkomulagi um verndun lofthjúps jarðar. Á loftmengunarráðstefnunni í Haag beindu umhverfisvinir spjótum sínum einkum að þessum hópi ríkja.

Fyrir hópnum fara Bandaríkin með Kanada á aðra hönd og Ástralíu á hina. Evrópusambandið vill ganga mun lengra í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og telur þennan hóp vilja túlka Kyoto-sáttmálann aftur á bak, það er taka upp meiri mengun.

Evrópusambandið og samtök umhverfisvina saka Regnhlífarhópinn um að nota Haag-fundinn ekki til að taka þátt í að vernda lofthjúp jarðar, heldur til að búa til smugur fyrir sig, svo að þau þurfi ekki að leggja í kostnað við að taka á vandanum fyrir sitt leyti.

Ríkisstjórn Íslands kann vel við sig í þessum hópi auðugra ríkja, sem ekki vilja taka til hendinni í umhverfismálum, og þá ekki sízt Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, sem kerfisbundið úrskurðar náttúru Íslands í óhag, hvenær sem hún telur sig hafa tækifæri.

Misheppnuð barátta hennar fyrir Eyjabakkavirkjun er frægasta dæmið um þetta. Hún hefur líka heimilað frekari námavinnslu í botni Mývatns. Hún hefur hafnað umhverfismati á sjókvíaeldi á norskum laxi í Mjóafirði og mun sennilega einnig hafna slíku mati í Berufirði.

Siv er ekki eini umhverfisóvinur Íslands, aðeins sá, sem starfar með mestum fyrirgangi. Samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er almennt hallt undir róttæka verkfræðiáráttu af ýmsu tagi. Það kemur til dæmis fram í Elliðavatnsmálinu í bæjarstjórn Kópavogs.

Sameinuð verkfræðiárátta þessara flokka krefst þess, að byggð séu fjölbýlishús við eina helztu náttúruperlu höfuðborgarsvæðisins. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er einn við völd, svo sem á Seltjarnarnesi, var hins vegar í miðju kafi hætt við að spilla náttúruperlum.

Það er eins og þessir tveir flokkar magni það versta upp hvor hjá öðrum, þegar þeir starfa saman. Frumkvæði að náttúruspjöllum kemur þó oftast frá Framsóknarflokknum, sem er að þessu leyti þveröfugur við norræna systurflokka sína, sem allir eru mjög grænir.

Verkfræðiáráttu verður líka vart utan flokkanna tveggja. Þekktar eru tillögur um að hlaða landfyllingar úti í sjó víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu, einmitt þar sem land hefur sigið alla 20. öldina og mun síga enn hraðar á 21. öldinni vegna loftslagsbreytinga.

Meðal íslenzkra kjósenda hefur orðið mikil vakning í umhverfismálum á undanförnum árum. Hæst náði hugarfarsbreytingin í vel heppnaðri aðför að ráðgerðum ríkisstjórnarinnar um Eyjabakkavirkjun. Flest bendir til, að umhverfisáhugi fari enn vaxandi meðal fólks.

Ljóst er, að þjóðin stendur ekki einhuga að baki hinu sorglega hlutverki, sem ríkisstjórnin valdi henni á loftslagsfundinum í Haag. Þjóðarviljinn fer ekki saman við ríkisstjórnarviljann og verkfræðiáráttuna. Og þeim fjölgar, sem vilja taka virkan þátt í baráttunni.

Framundan eru spennandi átakatímar. Fólk mun í auknum mæli taka pólitíska afstöðu á grunni skoðana sinna á umhverfinu, á meðferð ríkisins á ósnortnu víðerni hálendisins, á meðferð sveitarfélaga á náttúruvinjum, á stöðu þjóðarinnar í landinu almennt.

Niðurlæging Íslands í Haag getur orðið herhvöt til að efla stuðning þjóðarinnar við náttúru landsins og magna andstöðu hennar við ógæfusöm stjórnvöld.

Jónas Kristjánsson

DV

Sögumenn og ótíðindi

Greinar

Tölvupóstur var í fullum gangi og framleiddi kolrangar rokufréttir af yngsta manndrápsmáli ársins, þegar hlé varð í alvörufréttum fjölmiðla af málinu. Við slíkar aðstæður rifjast upp, hversu mikilvægt er, að fólk hafi aðgang að árvökulum og öruggum fjölmiðlum.

Á DV erum við stolt af algerri forustu í nýjum og réttum fréttum af málinu. Stoltið stafar ekki sízt af hinni miklu fyrirhöfn, sem fór í að afla tveggja eða fleiri óháðra heimilda að hverjum þætti málsins, svo sem lengi hefur verið regla fréttamiðla, sem taka sig alvarlega.

Áherzla DV á öruggar heimildir er jafngild áherzlu blaðsins á birtingu upplýsinga um allar hliðar umdeildra mála. Fréttastofa blaðsins reynir að forðast kranablaðamennsku, sem felst í, að skrúfað er frá einni heimild eða einum álitsgjafa, sem gefa ófullkomna mynd.

Einhliða kranablaðamennska hefur hins vegar magnazt í þjóðfélaginu, einkum við tilkomu sjónvarps og sjónvarpsviðtala. Hún hefur líka haft áhrif á prentaða fjölmiðla, til dæmis Morgunblaðið, sem hefur í seinni tíð í vaxandi mæli vikið frá hefðbundnum vinnureglum.

Það hlýtur til dæmis að hafa komið lesendum Morgunblaðsins á óvart, að skólastjóri Hestaskólans í Ölfusi hrökklaðist úr starfi og var vísað úr Félagi tamningamanna, eftir að blaðið hafði ítrekað birt algerlega einhliða fréttir af frábærri fyrirmyndar-skólastjórn hans.

Hér á DV höfum við óhjákvæmilega fundið fyrir mikilli áherzlu, sem Morgunblaðið leggur á að birta þráhyggju miðaldra poppara, sem hefur ekki enn jafnað sig eftir að hafa uppgötvað, að hann getur ekki ritstýrt DV. Aldrei hefur Morgunblaðið leitað sjónarmiða mótaðilans.

Með tilkomu Skjás eins og Striks hefur nýtt vandamál farið að ríða húsum. Tímafrek leit að upplýsingum víkur fyrir sveitum kjaftaska, sem hafa meikað það eða eru að meika það í samræmi við ákveðna tízku, sem felst í að verða fyrirhafnarlítið frægur eða ríkur.

Slíkir kjaftaskar stunda froðusnakk saman tveir eða fleiri í sjónvarpsþáttum og gefa yfirlýsingar um fjölmiðla, sem eru að vinna vinnuna sína. Meginþemað er, að þeir, sem grafast fyrir um heimildir og ónáða álitsgjafa út og suður, verði sjálfir óhreinir af greftrinum.

Þetta er eitt afbrigða gömlu reglunnar um, að sögumanni er kennt um ótíðindin. Hræsnarar sumra fjölmiðla sameinast sumum helgislepjumönnum úr klerkastétt og kvarta um, að vinnandi fjölmiðlar séu aðgangsharðir, tillitslausir, frekir, ósvífnir og jafnvel gulir.

Af ýmsu efni Morgunblaðsins má ráða, að blaðið líti fremur á sig sem opinbera stofnun en fjölmiðil. Af ýmsu efni sjónvarps og veraldarvefs, undir forustu Skjás eins og Striks, sem gefa tóninn, má ráða, að þáttastjórar líti fremur á sig sem kaffihúsakarla eða skemmtanastjóra.

Hver verður auðvitað að velja sér hlutskipti við hæfi. Um þessar mundir er greinilega vinsælt að velja leiðir í fjölmiðlun, sem víkja frá hefðbundnum svita við að afla fjölbreyttra heimilda og margs konar álits og hossa sér í staðinn á alls konar vaðli til að skemmta fólki.

Kjaftaskar, sem hvorki kunna að afla heimilda né mundu nenna því, ef þeir kynnu, sitja saman á skjánum og eru að meika það með því reyta af sér athugasemdir um þá fjölmiðla, sem forðast þessa tízku og eru enn að grafast fyrir um það, sem er að gerast í þjóðfélaginu.

DV hefur fyrir sitt leyti valið. Blaðið mun áfram verja ómældum tíma til að grafast fyrir um mál í samræmi við góðar verklagsreglur vestrænna alvörufjölmiðla.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýbúar eru afgangsstærð

Greinar

Þótt núverandi félagsmálaráðherra hafi gengið langt í að reyna hossa sér í fjölmiðlum vegna innflutnings nýbúa til landsins, hefur ráðuneytið staðið illa að málum. Nýbúarnir einangrast of mikið í sínum hópum og verða ekki eðlilegur þáttur í samfélaginu á hverjum stað.

Þetta kemur greinilega fram, þegar börnin fara að ganga í skóla. Mörg hver njóta þau sín illa vegna takmarkaðrar kunnáttu í tungumáli kennslunnar. Þau hafa minni möguleika en aðrir á að rífa sig upp til mennta og síðan til álna og áhrifa. Þau verða hálfgerð undirstétt.

Það sorglega í málinu er einmitt, að innflutningur nýbúa er lítið annað en hagsmunamál hnignunarbyggða, sem geta ekki mannað færibönd fiskvinnslunnar, af því að heimafólkið sækir suður, þar sem fjölmennið er og þar sem tækifærin eru. Litið er á nýbúa sem vinnuafl.

Ef svo fer fram, verður ástandið svipað og í öðrum Evrópulöndum, þar sem menn hafa reynt að leysa tímabundna mannaflaþörf með nýbúum án þess að fylgja málinu eftir á leiðarenda. Þegar þrengist aftur um vinnu hrannast upp vandamál, sem menn sáu ekki fyrir.

Eitt vandamálið er öfund heimamanna, sem missa vinnu, af því að margir nýbúar eru duglegri að bjarga sér en þeir. Í þessum jarðvegi vaxa upp hatursfullar skallabullur, sem efna til illinda við nýbúa og fylla dólgasveitir þjóðernisflokka af ýmsu tagi víðs vegar um Evrópu.

Annað vandamál er sá hluti nýbúa, sem ekki nær fótfestu í nýju þjóðfélagi og myndar lokuð samfélög, sem eru meira eða minna á framfæri hins opinbera og leiðast stundum yfir í skipulagða glæpi af ýmsu tagi. Slík undirheimasamfélög hafa vaxið víða um Evrópu.

Meðal afleiðinganna af öllu þessu er uppgangur þjóðernisflokka í mörgum Evrópulöndum, takmarkanir á innflutningi nýbúa og ýmsar brotalamir í samfélaginu. Við höfum ekki ráð á að endurtaka öll þau mistök, sem mörg ríki Vestur-Evrópu hafa gert á þessu sviði.

Möguleikarnir eru miklir. Nýbúar flytja með sér siði og hefðir, sem geta leitt til ánægjulegrar aukningar á fjölbreytni í annars einhæfu þjóðfélagi. Þekkt dæmi er af matargerð og veitingamennsku, sem verður fjölbreyttari, þegar nýbúar láta til sín taka á því sviði.

Við eigum að geta auðgað samfélagið með nýbúum, ef við opnum þjóðfélagið betur fyrir þeim og leyfum okkur þann munað að læra af siðum þeirra og hefðum. Af slíkri deiglu á Ísland að geta orðið öflugri aðili að heimsmarkaði vöru og þjónustu, menningar og afþreyingar.

Við gerum á móti þá kröfu, að nýbúar fallist fyrir sitt leyti á aðlögun að háttum heimafólks, einkum þeim er varða þjóðskipulagið, svo sem ríkistungumálinu og leikreglum vestræns lýðræðis. Úr þessu á að geta orðið ágætur vefur, þar sem íslenzki þátturinn er öflugastur.

Félagsmálaráðuneytið fer mikinn, þegar vinnuafl skortir á Blönduósi og þegar koma þarf mannlausum íbúðum í verð á Blönduósi. Ráðuneytið er að þjónusta sveitarfélög, atvinnurekendur og íbúðaeigendur, en ekki nýbúa, og notar þá til tímabundinnar lausnar vandamála.

Flestir þeir, sem að málinu koma, líta í rauninni á nýbúa sem eins konar farandverkafólk, sem gott sé að nota í uppsveiflu, en síðan megi sparka, þegar kemur að niðursveiflu. Menn líta á nýbúa sem afgangsstærð og horfast ekki í augu við ábyrgðina til langs tíma.

Þessu hugarfari þarf að breyta, ekki sízt í félagsmálaráðuneytinu, ef við ætlum að forðast mistök annarra þjóða og viljum virkja nýbúa sem þátt í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stíflur valda tjóni

Greinar

Alþjóðlega stíflunefndin skilaði á fimmtudaginn áliti sínu til Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, ýmissa ríkisstjórna, orkuveitna og stórfyrirtækja, sem standa að nefndinni og fjármagna hana. Niðurstaðan er, að stíflur vatnsorkuvera séu oft skaðlegar efnahag þjóða.

Niðurstaða nefndarinnar mun leiða til þess, að Alþjóðabankinn og fleiri fjölþjóðlegar lánastofnanir munu framvegis fara miklu varlegar í að lána fé til virkjana vatnsfalla. Langtímaáhrif stíflugerðar verða hér eftir könnuð miklu betur en áður hefur verið gert.

Í sviðsljósi skýrslunnar eru hinar miklu breytingar, sem verða á umhverfinu af völdum stíflugerðar. Meðal annars myndast mikill aur og koltvísýringur, þannig að vatnsorka er ekki lengur talin hin hreina og vistvæna orka, sem margir Íslendingar hafa viljað trúa.

Nefndin hefur einnig kannað efnahagslegar afleiðingar eittþúsund virkjana víðs vegar um heiminn. Niðurstaðan er, að ávinningur hefur verið langt undir væntingum og í ýmsum tilvikum beinlínis neikvæður. Eru þó ekki enn öll kurl komin til grafar í skráningu langtímaáhrifa.

Fyrir Íslendinga er sérstaklega athyglisverð sú niðurstaða nefndarinnar, að pólitískar ástæður, en ekki efnahagslegar, valdi oft virkjunum fallvatna. Fjölyrt sé um hagnað af orkuverunum, en í rauninni sé verið að útvega mönnum vinnu og að þjónusta sérhagsmuni.

Við þekkjum dæmið um pólitískt orkuver frá Grímsárvirkjun á Héraði, sem var svo vatnslítil, að erfitt var að fá vatn í steypuna. Nú stendur enn til að virkja pólitískt á Héraði, svo að menn geti fengið tímabundna vinnu og verktakar aflað sér tímabundinnar veltu.

Af taugaveiklun ráðamanna félagsins Afls fyrir Austurland má ráða, að landauðn verði á Austfjörðum, ef ekki verði af framkvæmum við Kárahnjúka. Af skýrslu Alþjóðlegu stíflunefndarinnar má hins vegar ráða, að byggðaáhrif orkuvera séu síður en svo jákvæð.

Raunar sagði forstjóri Norsk Hydro, þegar hann kom í haust, að fyrirtæki hans hefði áhyggjur af áhrifum Reyðaráls á innviði atvinnulífsins á Austfjörðum, þótt samstarfsaðilar hans á Íslandi virtust ekki hafa þær. Hann fylgist með umheiminum, en íslenzku aðilarnir ekki.

Við sjáum á loftslagsráðstefnunni í Haag og í skýrslu Alþjóðlegu stíflunefndarinnar, hvað er að gerast í umheiminum. Við kostnað af stóriðju þarf að bæta kostnaði við mengunarkvóta og við kostnað af orkuveri þarf að bæta kostnaði við fjölmörg neikvæð áhrif.

Hingað til hefur slíkt ekki verið gert í dæmum þeirra, sem gamna sér við Kárahnjúkaver og Reyðarál. Draumsýnir duga skammt, þegar til kastanna kemur. Þá neyðast málsaðilar til að fara að taka tillit til kostnaðarliða, sem alþjóðasamfélagið er að verða sammála um.

Þegar búið er að reikna allan kostnað í dæmið, verður komið undirverð á orkuna frá Kárahnjúkavirkjun, svo að ekki svarar kostnaði að leggja út í ævintýrið. Eigi að síður munu menn streitast við að reyna að virkja, af því að málið er pólitískt, en ekki efnahagslegt.

Þannig hefur framvinda stóriðjumála verið að staðfesta og mun áfram staðfesta þær skoðanir, sem koma fram í skýrslu Alþjóðlegu stíflunefndarinnar, að slík mál séu keyrð fram af pólitískum hagsmunum, en hinn efnahagslegi ávinningur sé aðeins hafður að yfirvarpi.

Því meiri tími, sem líður, þeim mun fleiri gögn hrannast upp og þeim mun erfiðara verður fyrir menn að leggja allt undir veðmálið um Afl fyrir Austurland.

Jónas Kristjánsson

DV

Halldór tapar í Haag

Greinar

Tillögur íslenzku ríkisstjórnarinnar um sérstaka undanþágu til stóriðjumengunar fyrir smáríki á borð við Ísland hafa engan hljómgrunn á alþjóðaráðstefnunni í Haag um framvindu loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þingið telur sig hafa öðrum hnöppum að hneppa.

Vísindasamfélagið í heiminum hefur náð samkomulagi um, að breytingar af mannavöldum á andrúmslofti jarðar séu orðnar mun alvarlegri en áður var talið og séu þegar farnar að leiða til vandræða. Fræðimenn hafa komið sér saman um skýrslu, sem liggur fyrir ráðstefnunni.

Ekki skiptir minna máli, að flóð og stormar undanfarinna mánaða og missera eru í auknum mæli talin stafa af mengun af mannavöldum. Að minnsta kosti hefur það haft áhrif á Evrópusambandið, sem samþykkti nýlega herta umhverfisstefnu fyrir fundinn í Haag.

Evrópusambandið er í Haag upptekið af að ná samkomulagi við Bandaríkin, sem vilja meira svigrúm eða meiri undanbrögð að sögn annarra. Rætt um heimild til viðskipta með mengunarkvóta og frádrætti fyrir ríki, sem hjálpa þróunarlöndum til að bæta umhverfið.

Ekki verður þess vart í Haag, að neinn hafi áhuga á að opna fyrir undanbrögð á borð við þau, að ríki, sem notar vatnsorku til álvinnslu, fái undanþágu frá mengunarreglum, sem samþykktar voru í Kyoto 1997 á vegum Sameinuðu þjóðanna og bíða nú staðfestingar ríkja heims.

Þá benda nýjustu rannsóknir, sem liggja fyrir fundinum í Haag, til þess, að þar verði ekki veittur afsláttur fyrir skógrækt, því að í ljós hefur komið hjá borgarorkuveitunni í Tokyo og raunar víðar, að slíkar undanþágur hafa hreinlega öfug áhrif við það, sem ætlað var.

Með vaxandi tilfinningu ríkisstjórna heims fyrir umfangi vandans í andrúmsloftinu dofna líkur fyrir nýju álveri á Reyðarfirði. Vafasamt er, að Norsk Hydro geti sóma síns vegna átt þátt í að reisa álver í ríki, sem neitar að staðfesta Kyoto-sáttmálann og Haag-útfærslu hans.

Líklegasti kosturinn í stöðunni er, að við slíkar aðstæður verði heimilað að kaupa mengunarrétt handa Reyðaráli. Sá kostnaður verður mjög hár, leggst auðvitað ofan á annan kostnað við álverið og leiðir til þrýstings á, að undirverðið á rafmagninu verði lækkað enn frekar.

Ekki er víst, að samkomulag náist milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á ráðstefnunni í Haag. Hugsanlega þarf enn frekari storma og flóð til að nógu margir átti sig á alvarlegum breytingunum í andrúmsloftinu. Því kunna umhverfissóðar að fá frekari gálgafrest.

Það breytir því ekki, að markmiðin um minni losun gróðurhúsalofttegunda, sem voru sett í Kyoto, verða notuð, þegar kemur að staðfestingu. Ef menn hafa reist álver í millitíðinni, verða þeir að greiða afturvirkt fyrir það í beinhörðum peningum, en ekki með skógrækt.

Tilraunir utanríkisráðherra Íslands til svigrúms innan Kyoto-sáttmálans til að koma upp álveri heima í kjördæminu hafa lent í auknum mótbyr á ráðstefnunni, sem nú stendur yfir í Haag. Þar hrista menn hausinn yfir undanbrögðum og vífilengjum Halldórs Ásgrímssonar.

Ef samið verður í Haag, mun samkomulagið byggjast á friðarsamningi milli sjónarmiða Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, en sérsjónarmið Halldórs verða að engu höfð, beinlínis af því að stóru aðilarnir þurfa ekki að kaupa atkvæði til að komast að niðurstöðu í málinu.

Eftir stendur, að utanríkisráðherra Íslands hefur orðið sér og þjóð sinni til minnkunar. Íslendingar eru taldir til umhverfissóða, sem nota undanbrögð og vífilengjur.

Jónas Kristjánsson

DV

Fer kringum eigin lög

Greinar

Forsætisráðherra virðist sjá eftir að hafa lagt fram lagafrumvarp um upplýsingaskyldu stjórnvalda og fengið það staðfest á Alþingi. Að minnsta kosti sagði hann frá því á hádegisverðarfundi sagnfræðinga um daginn, hvernig hann fari kringum lögin og eyði áhrifum þeirra.

Davíð Oddsson lýsti því í smáatriðum, hvernig hann fari að þessu. Hann skrifi minna niður, haldi síður dagbækur um gestakomur og láti ekki skrifa fundargerðir, nema það sé beinlínis skylt. Hann talaði að vísu um stjórnmálamenn almennt, en átti við sjálfan sig.

Að minnsta kosti hefur menntaráðherra þveröfug sjónarmið. Björn Bjarnason skrifar allt hjá sér, stórt og smátt, og birtir meira að segja á vefnum hugsanir sínar og fréttir af samskiptum við annað fólk. Hann stundar opna stjórnsýslu að hætti aldar tölvupósts og vefsíðna.

Forsætisráðherra sagði á fundunum, að fjölmiðlum sé ekki treystandi fyrir upplýsingum. Í skjóli innra griðabandalags fari þeir með getgátur, fullyrðingar og brenglaðar fréttaskýringar, sem standi óhaggaðar, því að ekki séu á boðstólum upplýsingar um hið gagnstæða.

Samkvæmt hugmyndafræði gegnsærrar stjórnsýslu er einmitt komið í veg fyrir getgátur, fullyrðingar og brenglaðar fréttaskýringar með því að loka ekki að hætti Davíðs, heldur opna fyrir aðgang að opinberum gögnum að hætti laganna um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Forsætisráðherra dró hins vegar þá ályktun, að leyndarhyggja sín væri nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir upplýsingaleka til fjölmiðla á viðkvæmu stigi málasýslu hjá stjórnvöldum. Slíkur upplýsingaleki hefur að hans mati ekki æskileg áhrif á niðurstöðu mála.

Þannig býr hann til rökfræðilega vítarunu, sem lítur svona út: Fjölmiðlar fara með rangar fréttir, af því að þeir hafa ekki aðgang að upplýsingum, sem stafar af því, að slíkur aðgangur gæti spillt viðkvæmum málum með vafasömum fréttum og því má ekki upplýsa fjölmiðla.

Erfitt er að sjá tilgang með undarlegri ræðu forsætisráðherra á hádegisverðarfundi sagnfræðinga. Að minnsta kosti þekkja þeir vítarunur, þegar þeir heyra þær og láta sér fátt um finnast. Hins vegar er alltaf leiðinlegt, þegar landsfaðir verður sér opinberlega til minnkunar.

Í rauninni var hann að tala um allt annað mál, alkunna þráhyggju sína út af því að hafa misst Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í einkavæðingu til annarra aðila en voru honum þóknanlegir, enda sagði hann sagnfræðingunum, að fjölmiðlar hefðu farið með rangar fréttir af málinu.

Davíð Oddsson þykist vita sannleikann um þetta eins og hann þykist vita sannleikann um meinta aðför nokkurra kaupsýslumanna að gengi krónunnar í sumar. Hann geymir samt rökin fyrir sannleika sínum með sjálfum sér, því að ekki sagði hann sagnfræðingunum frá þeim.

Eitt er að geta ekki dulið gremju sína út af öðrum gangi mála en forsætisráðherra er þóknanlegur, en annað er að ganga á fund sagnfræðinga og fara með lélega vítarunu um, að ekki skuli láta fjölmiðla og sagnfræðinga hafa upplýsingar, af því að fjölmiðlar flytji rangar fréttir.

Þetta gerist þegar menn hafa árum saman lifað innan í eins konar einkablöðru með dansandi jámenn kringum sig, syngjandi hrifningar- og lofsöngva. Þá geta menn bilað á þann veg, að þeir telji sig óskeikula og missi tök á nauðsynlegri rökhyggju í framsetningu mála.

Verst er, að leyndarþrá forsætisráðherra rýrir aðgang sagnfræðinga að opinberum gögnum, þegar þeir gera upp atburðarás stjórnmálanna á valdaskeiði hans.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosningafurða í Flórída

Greinar

Ekki verður gæfulegt fyrir George Bush að verða forseti Bandaríkjanna út á framkvæmd kosninganna í Florida undir stjórn bróður hans. Næsta öruggt er, að forgörðum hafa farið þúsundir og ef til vill tugþúsundir atkvæða, sem ætluð voru Al Gore í einni sýslunni.

Pat Buchanan, einn frambjóðenda til forseta, hefur sjálfur viðurkennt, að Gore eigi mörg atkvæði, sem voru sett á Buchanan í Palm Beach sýslu. Tölfræðin sýnir, að Buchanan fékk þar talin meira en tíu sinnum fleiri atkvæði hlutfallslega en hann fékk í öðrum sýslum.

Kjörseðillinn í þessari sýslu var af ólöglegri gerð, sem leiddi til þess, að aftan við reit Gore voru tveir hringir, sá efri fyrir atkvæði greidd Buchanan og sá neðri fyrir atkvæði greidd Gore. Ör, sem vísaði á neðri reitinn, átti að leiðbeina kjósendum Gore á réttan reit.

Verra er, að meira en nítján þúsund atkvæði voru lýst ógild í þessari sömu sýslu, af því að gatað hafði verið við nöfn Gore og Buchanan í senn. Demókratar segja, að þessi tvígötun hafi verið tæknileg villa, enda hafi hún lítt komið fram í kosningunni um þingmenn í sömu sýslu.

Margar fleiri ásakanir hafa komið fram um vafasama framkvæmd kosninganna í Palm Beach, sem er fremur fátækt hverfi, þar sem eru margir svertingjar og stuðningur við Gore er eindreginn. Stutt er í grunsemdir um, að tæknivillurnar hafi verið viljandi framdar.

Ekki er hægt að halda fram, að kjósendur í þessu hverfi séu vitgrennri en kjósendur í öðrum fátækrahverfum, enda höfðu repúblikanar síðdegis í gær ekki komið fram með sannfærandi mótrök gegn ásökunum um furður í framkvæmd og talningu í þessari sýslu.

Ef kosningar og talning í Palm Beach hefðu farið fram með eðlilegum hætti, væri Al Gore núna yfirlýstur rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Óhlutdrægir aðilar eru sammála um, að óreiðan í framkvæmd kosninganna í Palm Beach hafi fyrst og fremst komið niður á Gore.

Ekki verður séð, að til lengdar verði hægt að neita að handtelja í þremur sýslum Florida og kjósa upp á nýtt í Palm Beach. Endurtalningin hefur verið framkvæmd í vélum, sem samkvæmt sumum fréttum eiga það til að hlaupa yfir göt, ef pappírsrifið hangir í gatinu.

Að öðrum kosti verður litið svo á, að Bush-fjölskyldan sé mafía, sem hafi stolið forsetakosningunum með því að misnota aðstöðu ríkisstjórans og þáverandi formanns kjörstjórnar í Florida, Jeb Bush, bróður frambjóðandans. Slíkt getur tæpast gerzt í Bandaríkjunum árið 2000.

Þegar eftir var að endurtelja aftur í Palm Beach og um 2000 utankjörstaðaatkvæði, hafði George Bush 327 atkvæði umfram Al Gore í Florida. Þessar lágu tölur blikna í samanburði við þær þúsundir eða tugþúsundir atkvæða, sem fóru forgörðum í Palm Beach sýslu.

Framkvæmd kosninganna í Florida er gífurlegt áfall fyrir Bandaríkin. Þau senda eftirlitsmenn til að fylgjast með kosningum víða um heim, en geta svo ekki sjálf lýst yfir réttu kjöri Al Gore sem forseta, af því að atkvæðum var viljandi eða óviljandi stolið af honum í Florida.

Engin sátt getur orðið í Bandaríkjunum um niðurstöðu, sem lætur ruglið í Palm Beach gilda sem niðurstöðu forsetakosninganna. Þess vegna verður að kjósa aftur í þeirri sýslu, þótt óhlutdrægir aðilar átti sig á, að efnislega hafa Bandaríkjamenn þegar valið Gore.

Það er ávísun á öngþveiti, ef ráðamenn í Florida ætla að reyna að þverskallast við leiðréttingu mála og hindra þannig, að þjóðarviljinn nái fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræði er margslungið

Greinar

Kosningar eru aðeins einn af nokkrum þáttum lýðræðis. Víða um heim eru haldnar kosningar í ríkjum, sem ekki geta talizt lýðræðisríki. Jafnvel þótt ekki sé haft rangt við í kosningum ríkja á borð við Perú og Singapúr eru þessi ríki af öðrum ástæðum ekki lýðræðisríki.

Ekki ríkir lýðræði nema valdi sé skipt. Ekki ríkir lýðræði í ríkjum, þar sem landsfeður nota dómstóla sem tæki í baráttu sinni við að halda völdum, svo sem í Perú og Singapúr. Á þessum grunni hvílir reglan um skiptinguna í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Ekki ríkir lýðræði nema við aðstæður skoðanafrelsis í margvíslegum myndum, þar á meðal prentfrelsi. Ekki ríkir lýðræði í ríkjum, þar sem landsfeður nota sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar sem tæki í baráttu sinni við að halda völdum, svo sem í Perú og Singapúr.

Ekki ríkir lýðræði nema allir séu jafnir fyrir réttlátum lögum. Ekki ríkir lýðræði í ríkjum, þar sem fólk og fyrirtæki verða að sæta geðþóttaákvörðunum stjórnvalda, svo sem í Kína og Sovétríkjunum. Leikreglur þurfa í senn að vera réttlátar og fastmótaðar og aðgengilegar.

Samkvæmt þessu ríkir ekki lýðræði nema í örfáum tugum ríkja, fyrst og fremst í Evrópu og Norður-Ameríku. Margir tugir annarra ríkja þykjast vera lýðræðisríki vegna heiðarlegra kosninga. Og flest afgangsríkin láta kosningar fara fram, en hafa rangt við í þeim.

En lýðræði getur verið ábótavant á Vesturlöndum, þótt fylgt sé formsatriðum valddreifingar, skoðanafrelsis og jafnréttis fyrir réttlátum lögum. Sem dæmi um það má nefna síaukinn áhrifamátt fjármagns í kosningum, svo sem við höfum séð í Bandaríkjunum að undanförnu.

Í krafti fjármagns kaupa menn sér athygli kjósenda og ráðamanna og vefja sumum þeirra um fingur sér. Fjármagn kaupir frambjóðendur, ryður þeim braut og stýrir síðan gerðum þeirra við völd. Þannig hefur lýðræðið spillzt og orðið að baráttu milli sérhagsmuna.

Bandaríkjamenn hafa sett lög til að sporna við þessu, en þau eru ófullkomin og þarfnast gagngerðrar endurnýjunar og útvíkkunar. Hér á landi eru ekki til nein lög um gagnsæi í fjármálum stjórnmálaflokka og annarra aðila, sem standa að framboðum til starfa í stjórnmálum.

Annað dæmi um lýðræði, sem ekki virkar nógu vel, er áhugaleysi kjósenda, sem skýrt kemur fram í Bandaríkjunum, þar sem aðeins annar hver maður hirðir um að nota kosningarétt sinn. Sums staðar er notuð sú vafasama patentlausn að sekta menn fyrir að kjósa ekki.

Ekki hefur fundizt neitt gott ráð gegn þessu áhugaleysi, sem virðist fara vaxandi. Moldviðri kosninga verður þéttara með hverjum áratugnum sem líður og fælir kjósendur frá þátttöku. Vonandi finnast leiðir til að endurvekja vilja kjósenda til að taka sinn þátt í lýðræðinu.

Þriðja dæmið, sem stundum er notað um illa virkt lýðræði er hins vegar ekki rétt. Það er ekki galli lýðræðis, að það velji ekki beztu mennina til forustu. Það er ekki hlutverk lýðræðis að velja betri menn en önnur stjórnkerfi. Kostur lýðræðis er bara að geta skipt um þá.

Lýðræði er hins vegar ekki fasteign, sem endist án viðhalds. Lýðræði þarf að rækta með því að slípa agnúa. Sérstaklega er brýnt að setja leikreglur, sem hamla gegn því, að áhrif séu keypt í krafti fjármagns. Því miður hafa engar slíkar reglur enn verið settar hér á landi.

Lýðræði er margslungið fyrirbæri, sem hefur gefizt vel á Vesturlöndum og víðar. Það hefur lyft þjóðum úr sárustu fátækt og losað hug þeirra og hag úr læðingi.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðugir og án afsökunar

Greinar

Jarðvegsrannsóknir sýna, að sögualdarfólk reið um háreista skógarlundi upp fyrir Hvítárvatn, þar sem fundizt hafa kolagrafir frá þeim tíma. Síðan reið það á algrónu landi yfir Kjöl, unz skógar tóku við í heiðalöndum norðan Hveravalla. Á allri þessari leið var landið algróið.

Eini langi fjallvegurinn, sem ekki var algróinn, var Sprengisandur, þar sem fólk þurfti að ríða á ógrónu um 20 kílómetra kafla á sandinum hæstum. Þá var næga beit og nóg vatn að hafa í Ódáðahrauni, sem nú er svo þurrt og laust, að sandfokið ógnar byggð í Mývatnssveit.

Á þessum tíma var land nokkurn veginn algróið upp í 800 metra hæð og skógar náðu 400 metra hæð. Landið jafnaði sig fljótt eftir eldgos og aðrar náttúruhamfarir. Þannig var landið, sem forfeður okkar tóku að láni hjá landvættunum fyrir rúmlega ellefu hundruð árum.

Meðan náttúruhamfarir voru einar um hituna, ógnuðu þær ekki lífríki landsins. Maðurinn þurfti að koma til skjalanna með skógarhöggi og ofbeit. Hálendið fékk þó að mestu að vera í friði fram eftir öldum, enda voru stundaðar fráfærur og sauðfé var lítt eða ekki rekið á afrétti.

Lokahnykkurinn á tilræði forfeðra okkar við landvættina varð, þegar hálendið var tekið undir sauðfjárbeit seint á 19. öld og með vaxandi þunga fram eftir 20. öld. Á þessum síðustu og verstu áratugunum voru víðerni landsins rústuð af langöfum okkar og öfum og feðrum.

Landeyðing tuttugustu aldar stafaði ekki af illri nauðsyn fátæks fólks. Hún stafaði beinlínis af ríkidæmi þjóðarinnar, sem græddi á sjávarútvegi og gat ausið milljörðum króna á hverju ári til að þenja sauðfjárhald út fyrir allan þjófabálk. Við höfum alls enga afsökun.

Þjóðin eyddi landinu hraðast, þegar hún var orðin ríkust. Hún notaði auðlegð sína til ótakmarkaðs stuðnings við sauðfjárrækt, sem framleiddi óseljanlega vöru. Fjöldi fullorðins sauðfjár var kominn upp fyrir 800.000, þegar menn gáfust upp og fóru að takmarka styrkinn.

Undanfarna tvo áratugi hefur sauðfé fækkað mikið og gróður er víða kominn í jafnvægi, þótt ekki sé farið að endurheimta þann, sem áður hafði glatazt. Sumir afréttir eru þó enn á undanhaldi, einkum á eldvirka beltinu, sem greinilega þarf algera friðun til að jafna sig.

Þótt mikið af unnizt á afmörkuðum svæðum, fer því þó fjarri, að vörn hafi verið snúið í sókn. Við þurfum að leggja harðar að okkur við að skila landvættunum aftur þeim verðmætum, sem forfeður okkar fengu lánuð hjá þeim. Til þess höfum við meira en nóg af seðlum.

Enn er því miður nóg af hryðjuverkamönnum, sem hata landið og vilja reisa steypublokkir umhverfis Elliðavatn, fækka þeim stöðum, þar sem ekki sést til rafmagnslína, reisa stíflur og safna í uppistöðulón með breytilegu vatnsborði, eyða gróðurverum í skjóli jökla.

Sú verkfræðilega árátta, að landið beri að nýta sem mest, á greiðan aðgang að ríkisstjórnarflokkunum, hvort sem þeir starfa saman að orkumálum á landsvísu eða að skipulagsmálum í Kópavogi. Þetta er ekki efnahagsleg árátta, því að auðlegð okkar rís á öðrum grunni.

Við eigum ekki landið, sem við búum í. Við getum í mesta lagi sagt, að við höfum fengið það til láns og varðveizlu, svo að afkomendur okkar geti einhvern tíma samið frið við landvættina. Við þurfum því að skera upp herör gegn hatursmönnum hinna ósnortnu víðerna.

Sigursæl barátta gegn Eyjabakkavirkjun var aðeins léttur undanfari stríðsins, sem verður háð á næstu árum fyrir hönd landvætta gegn hryðjuverkamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Versnandi veðurspá

Greinar

Vísindasamfélagið í heiminum er orðið nokkurn veginn sammála um, að jörðin sé að hitna af mannavöldum og að afleiðingarnar verði illviðráðanlegri en hingað til hefur verið talið. Þetta kemur fram í þúsund blaðsíðna milliríkjaskýrslu Alþjóðlegu veðurstofunnar.

Mikill fjöldi vísindamanna hefur lagt efni til skýrslunnar, sem verður lögð fram á alþjóðlegum fundi í Haag síðar í þessum mánuði, framhaldsfundi hinnar frægu Kyoto-ráðstefnu árið 1997. Vísindaleg andmæli við hinar svartsýnu niðurstöður eru orðin hverfandi.

Þetta er þveröfugt við það, sem Bjorn Lomborg telur í bók sinni: “Hið sanna ástand heimsins”, sem hefur verið gefin út af hagsmunaðilum mengunar í nokkrum löndum, þar á meðal Íslandi. Hann taldi Kyoto-samkomulagið hafa gengið of langt í dýrkeyptum gagnaðgerðum.

Með hliðsjón af nýjum gögnum, sem hafa bætzt við á allra síðustu árum, hafa loftsslagsfræðingar komizt að raun um, að ástandið hafi stórversnað síðan málin voru skoðuð árin 1990 og 1995 og að breytingarnar stafi af mannavöldum, en séu ekki eðlilegar sveiflur.

Skýrslan gerir ráð fyrir, að tímamót hafi orðið á þessu sviði um 1980. Fram að þeim tíma hafi verið hægt að líta á hækkun hitastigs sem sveiflu í tíðarfari, en síðan hafi ferlið verið með þeim hætti, að maðurinn einn hafi getað verið orsakavaldur og geti einn lagað stöðuna aftur.

Vandamálið felst mest í óbeinum áhrifum hækkunar hitastigs, einkum þeim, að sjór er farinn að ganga á land og mun stefna byggðum við sjávarsíðuna í hættu. Ennfremur mun breytingin færa til fiskistofna, þannig að þorskur flytur sig frá Íslandi norðar í höf.

Reiknað er með, að stormar og flóð verði tíðari en áður, svo sem menn hafa þegar tekið eftir. Þetta er einkum alvarlegt fyrir stormasvæði eins og Ísland. Þannig má búast við margvíslegum vandræðum á Íslandi, þótt hækkun hitastigs ein út af fyrir sig geti verið notaleg.

Því er nú slegið föstu, að hækkun hitastigs stafi af losun lofttegunda af völdum mannsins, einkum brennslu á kolum og olíum, en einnig af ýmiss konar stóriðju, svo sem áliðnaði. Því er Kyoto-fundurinn ekki lengur talinn hafa gengið of langt, heldur fremur of skammt.

Frá síðustu ísöld hefur hitinn á jörðinni ekki hækkað um meira en 5 stig alls á Celcius. Skýrslan fyrir Haag-fundinum gerir ráð fyrir, að á nýrri öld muni hitinn geta hækkað um 6 stig á Celcius. Þá verður enginn Vatnajökull lengur til að gefa orku í Kárahnjúkavirkjun.

Ástæða er að vekja athygli á, að málið er ekki lengur þess eðlis, að hægt sé að afgreiða það út af borðinu sem enn eina heimsendaspána. Vísindasamfélagið er í stórum dráttum sammála um stöðuna og mun beita ríki heimsins miklum þrýstingi til samræmdra gagnaðgerða.

Skýrslan og fundurinn í Haag munu leiða til aukinna krafna um, að ríki heimsins staðfesti skömmtunarkerfi loftmengunar, sem samþykkt var í Kyoto og fari að leggja drög að enn harðari mengunarskömmtun, sem miðist við nýjustu niðurstöður vísindalegra rannsókna.

Þetta ferli mun minnka svigrúm ósvífinna stjórnmálamanna til að komast undan Kyoto-reglunum og búa til sjónhverfingar til að verja álver á Reyðarfirði. Stækkun Norðuráls ein út af fyrir sig fer langt út fyrir þá mengunaramma, sem okkur voru settir í Kyoto árið 1997.

Núverandi stefna stórvirkjana og stóriðju á Íslandi verður vafalaust endurskoðuð, þegar menn átta sig á, að þeir hafa ekki frítt spil, þegar hætta steðjar að.

Jónas Kristjánsson

DV

Sápuópera þáttastjóra

Greinar

Í bandarískum fjölmiðlum hefur undanfarnar vikur verið fjallað um í drep, hvort Al Gore sé lyginn og George Bush sé heimskur. Hvorugu er til að dreifa. Samt hefur umræðan um þessar ímyndanir öðlazt sjálfstætt líf, sem hefur skyggt á aðra þætti kosningabaráttunnar.

Fjöðrin, sem varð að hænum, felst í, að Gore hefur stundum verið ófeiminn við að túlka málsaðild sína í hærri kantinum og að Bush hefur stundum komizt klaufalega að orði, þegar hann hefur ekki skoðað mál ofan í kjölinn. Þetta gerir hvorugan vanhæfan sem forseta.

Að baki umræðunnar um lygi annars og heimsku hins felst breyting í fjölmiðlun. Fyrir nokkrum áratugum voru fjölmiðlar einkum dagblöð, sem þá voru eindregin málgögn annars málsaðilans og fluttu það mál, sem frambjóðandinn vildi koma á framfæri við kjósendur.

Síðan urðu dagblöðin óháð og fóru að gæta óhlutdrægni í framsetningu sinni. Áfram voru það frambjóðendur, sem gáfu tóninn, þannig að kosningabaráttan einkenndist af þeim atriðum, sem frambjóðendur lögðu áherzlu á. Þetta ástand er það, sem nú ríkir í kosningum á Íslandi.

Bandarísk fjölmiðlun er komin á þriðja stigið, sem felst í að sjónvarpið hefur tekið við af dagblöðum sem hreyfiafl kosninga. Í vaxandi mæli koma frambjóðendur beint fram við kjósendur sem sviðspersónur og eru metnir eins og leikarar eða leikmenn. Þeir eru orðnir stjörnur.

Þáttastjórar eru allt öðruvísi hliðverðir en gömlu greinahöfundarnir. Nú er fjallað í sjónvarpinu um, hvort framganga þessa frambjóðandans eða hins hafi uppfyllt áður fram settar væntingar þáttastjóra eða brugðist þeim. Smám saman eru byggðar upp ímyndaðar persónur.

Í hugarheimi þáttastjóra rekur framboðin ýmist undan veðrum eða að þau ná áttum. Snemma í kosningabaráttunni eru búnir til persónugallar hvors frambjóðanda og síðan fjallað endalaust um þá fram og aftur. Smíðaðir eru brandarar um lygi annars og heimsku hins.

Munurinn á þessu þriðja stigi og hinum tveimur fyrri er, að frambjóðandinn og fulltrúar hans hafa misst tökin á umræðunni. Þeir geta ekki lengur komið á framfæri málefnum frambjóðandans og verða þess í stað að bregðast við ímyndarheimi þáttastjóra í sjónvarpi.

Forsetaframbjóðendurnir háðu þrjá málfundi í sjónvarpi. Málefni fundanna hafa alveg fallið í skugga umræðu bandarískra þáttastjóra um, hvort öðrum frambjóðandanum hafi tekizt að komast hjá að mismæla sig og hinum hafi tekizt að komast hjá að ýkja gildi sitt.

Á málfundi númer tvö varð Bush að þylja smáatriði til að sýna fram á, að hann gæti það og Gore varð að vera ljúfmannlegur til að sýna fram á, að hann gæti það. Þeir voru að bregðast við ímynduðum persónuleika, sápunni, sem þáttastjórar höfðu áður búið til handa þeim.

Svo kvarta menn um, að of lítill munur sé á frambjóðendunum. Það er alrangt. Djúp gjá er milli sjónarmiða þeirra. Meðferð þeirra á forsetaembættinu verður gerólík. Auðvelt á að vera fyrir kjósendur að taka til þeirra afstöðu, sem byggist á grundvallarsjónarmiðum.

Þetta sjá menn hins vegar ekki fyrir leiksýningunni eða kappleiknum, sem þáttastjórar sjónvarps hafa framleitt. Í moldviðrinu sjást helzt ímynduð persónueinkenni og ímyndaðir gallar. Kosningabaráttan er orðin að einni sápuóperunni til viðbótar öllum hinum.

Mikilvægt er að finna sem fyrst fjórða stig fjölmiðlunar í kosningabaráttu, svo að menn hætti að rugla saman persónum í framhaldsþáttum og stjórnmálamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV