Greinar

Þar sem smjörið drýpur

Greinar

Fjórir af hverjum tíu landsbyggðarbúum vilja flytjast til höfuðborgarsvæðisins og þrír af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins vilja flytjast til útlanda. Þessi niðurstaða skoðanakönnunar DV í gær sýnir greinilega, að Reykjavík er ekki endastöð byggðaröskunar á Íslandi.

Þrepahlaup búferlaflutninga á Íslandi er frá sveitum til sjávarplássa, frá sjávarplássum til kaupstaða, frá kaupstöðum til Reykjavíkur og frá Reykjavík til útlanda. Sumir koma við á öllum þessum stöðum, aðrir stíga eitt skref og enn aðrir taka þau flest eða öll í einu stökki.

“Enn erum við að flytja”, sagði Stefán Jónsson rithöfundur í einni Hjaltabókinni. Íslendingar hafa alltaf verið að flytja og eru enn að flytja. Stundum stafar það af illri nauðsyn, en oftast eru það þó tækifærin, sem freista. Þéttbýlið býður meiri fjölbreytni og möguleika.

Mikilvægasti þáttur þessara flutninga er atgervisflóttinn. Þeir, sem hafa áræði eða menntun, flytja sig um set, af því að þeir treysta sér til að ná árangri á nýjum stað. Hinir, sem varfærnari eru og minna menntaðir, treysta sér síður til að hleypa heimdraganum.

Ríkisvaldið hefur í vaxandi mæli litið á hluta þessa ferlis sem vandamál, það er að segja flutning fólks til höfuðborgarsvæðisins, en hefur um leið lokað augunum fyrir flutningnum til útlanda. Milljörðum króna er varið árlega í ótal anga svokallaðs jafnvægis í byggð landsins.

Atkvæði eru látin vega þyngra í strjálbýli en þéttbýli. Spöruð er vegagerð í Reykjavík til að bora göng í dreifbýlinu. Hefðbundnum landbúnaði er beinlínis haldið gangandi með ríkisfyrirgreiðslum. Þannig er á ýmsan hátt reynt að koma í veg fyrir, að fólk flytjist búferlum.

Stundum hefur byggðastefnan orðið að byggðagildru. Fólk er hvatt til að reisa sér hús á verðlitlum stöðum. Fólk er hvatt til að leggja hlutafé í verðlítil fyrirtæki. Sveitarfélög setja fé sitt í áhættu í stað þess að nota það til þjónustu við fólk. Síðan hrynur þetta dæmi.

Gallinn við alla þessa dýru fyrirhöfn er, að Reykjavík er ekki endastöðin, heldur umheimurinn. Ef ráðamenn misþyrma höfuðborgarsvæðinu eins og núverandi vegamálaráðherra er að reyna, þá dregur það úr getu þess svæðis til að hamla gegn atgervisflótta til útlanda.

Kalifornía heillar tölvusnillingana, New York og London heilla fjármálasnillingana, sólarstrendur Spánar og Karíbahafs heilla þá, sem hafa nóga peninga og vilja hafa það náðugt. Þriðji heimurinn heillar ævintýramenn. Og Norðurlönd heilla þá, sem vilja mildara samfélag.

Spurningin er ekki, hvort Bolungarvík geti keppt við stórborgir, sólarstrendur og samfélag í útlöndum, heldur hvort höfuðborgarsvæðið geti það. Eina byggðastefnan, sem að gagni getur komið, er sú, sem snýst um, hvernig draga megi úr flótta atgervis og peninga til útlanda.

Staðbundnar atvinnugreinar á borð við landbúnað, fiskvinnslu og iðnað freista ekki lengur fjármagns og starfskrafta. Álvinnsla er meira að segja orðin fátæktargrein, sem þjóðir reyna að koma yfir á herðar þriðja heimsins. Í dag gilda frjálsar greinar á borð við hugbúnað.

Byggðastefna á Íslandi á ekki að snúast um, hvort fólk flýr smábyggðir eða ekki, heldur hvort byggð helzt í landinu yfirleitt eða ekki. Með því að efla svæðið, sem helzt getur haldið til jafns við útlönd, er bezt hlúð að framtíð hins örsmáa nútímaþjóðfélags á Íslandi.

Skoðanakönnun DV sýnir, að Íslendingar vita, hvar smjörið drýpur. Sumir eru farnir að flýja land meðan stjórnvöld streitast við að verja Bolungarvík.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykurfíkn

Greinar

Ef við komum í bókabúð í Bandaríkjunum, getum við séð tugi mismunandi bóka, sem mæla með mismunandi aðferðum við að öðlast kjörþyngd og halda henni. Í bókabúðum hér á landi er úrval bóka á ensku minna, en af fáanlegum bókum fjalla æði margar um megrun.

Einn gárunginn sagði vestanhafs, að ekki væru allar þessar mismunandi bækur á boðstólum, ef ein þeirra virkaði. Í þessu er mikill sannleikur. Það má ljóst vera, að fólki gengur afar illa að fara til lengdar eftir vel meintum ráðleggingum allra þessara megrunarbóka.

Sama er að segja um þá ráðgjöf, sem fer framhjá öllum slíkum bókum og segir fólki að borða minna og fara eftir opinberum manneldismarkmiðum. Þau markmið eru ágæt og byggja yfirleitt á næstnýjustu upplýsingum, en þau gera fáum kleift að halda sér í kjörþyngd.

Á sama tíma og upplýsingar um manneldismarkmið og hóflegt át annars vegar og upplýsingar um margvíslegar megrunaraðferðir hins vegar þenjast út með miklum hraða, heldur fólk áfram að þyngjast. Í Bandaríkjunum eykst offita fólks gegndarlaust, um 5% á ári.

Í skoðanakönnun DV í fyrradag kom fram, að 30% Íslendinga eru ósáttir við holdafar sitt. Margir þeirra hafa vafalaust reynt að bæta stöðuna, en ekki tekizt það. Í sama blaði kom fram, að offita barna er orðin eins mikil hér á landi og vestan hafs og vex hröðum skrefum.

Ljóst má vera, að fólk vill fara eftir ráðleggingum, sem það fær, en getur það ekki. Á því er ekki nema ein skýring. Í matnum hljóta að vera fíkniefni, sem haga sér eins og önnur fíkniefni og heimta meiri og meiri mat. Margir geta ekki varizt þessum fíkniefnum í fæðunni.

Á allra síðustu árum hafa augu manna beinzt að viðbættum sykri sem helzta fíkniefninu í daglegri fæðu manna. Í Bandaríkjunum hafa félagar í Overeaters Anonymus í fjörutíu ár haft viðbættan sykur efstan á blaði fíkniefna, sem þeir megi alls ekki snerta.

Rannsóknir allra síðustu ára í Bandaríkjunum benda til, að fíkn stafi af boðefnarugli í heilanum, sem sé sumpart ættgengt og stafi sumpart af umhverfisáhrifum. Gildir þá einu, hvort fíknin snúist um efni á borð við áfengi og tóbak eða atferli á borð við spilamennsku.

Sameiginlegt með allri fíkn, hvort sem hún snýst um fíkniefni eða fíkniatferli, er, að sumir ánetjast henni vegna boðefnarugls í heilanum. Ekki hefur enn verið sannað, að viðbættur sykur sé eitt þessara fíkniefna, en það mundi skýra ofát milljóna Vesturlandabúa.

Þegar ný viðhorf koma fram á borð við þau, að sykur sé eitur, sem valdi óstöðvandi matarfíkn, er eðlilegt, að hefðbundnir næringarfræðingar dagi uppi með kenningar úr gömlum kennslubókum og séu ekki með á nótunum. Næringarfræðin hefur aldrei skilið fíkn.

Ef við setjum viðbættan sykur á bekk með alkóhóli, nikótíni, læknadópi og ólöglegum fíkniefnum, þá gengur dæmið upp. Þá skiljum við, af hverju fólki tekst ekki þrátt fyrir mikla erfiðismuni að fara eftir ráðleggingum manneldisráða og vel meintra megrunarbóka.

Ef sykur er fíkniefni, er skiljanlegt, að vestrænar þjóðir séu að þyngjast með ógnarhraða á sama tíma og þekking á næringu eykst og dreifist hröðum skrefum. Þá er líka ljóst, að hefðbundnar aðferðir duga ekki gegn offitunni og leita þarf í nýjar smiðjur til úrbóta.

Hér á landi hefur á síðustu dögum sprungið út umræða um viðbættan sykur sem eitur og sykur sem fíkniefni. Umræðan er frábær, þótt sumum sé lítt skemmt.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitísk Evrópuskák

Greinar

Stuðningur við aðild að Evrópusambandinu er mikill hér á landi, þótt ekki nái hann meirihluta. Fyrr í þessum mánuði sýndi skoðanakönnun DV, að 55% voru andvíg inngöngu og 45% voru fylgjandi henni. Því er greinilegt, að aðildin er til umræðu, hvað sem hver segir.

Þar sem tveir af stóru stjórnmálaflokkunum hafa tekið eindregna afstöðu gegn aðild að sambandinu, er freistandi fyrir hina tvo stóru flokkana að hnykkja á þreifingum í átt til stuðnings við sambandið. Á kjósendamarkaði stuðningsmanna ætti að vera von á góðri veiði.

Reikningsdæmið er einfalt. Samtals höfðu róttæku flokkarnir til hægri og vinstri, andstæðingar aðildar, Sjálfstæðisflokkurinn og Græna vinstrið, 64% fylgi kjósenda í skoðanakönnun DV í fyrradag, sem er mun meira en 55% andstaða kjósenda við inngöngu.

Miðjuflokkarnir tveir, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, sem hafa gælt við Evrópuaðild, höfðu hins vegar samtals ekki nema 32% fylgi kjósenda í þessari síðustu könnun, á sama tíma og stuðningurinn við inngöngu í Evrópusambandinu nemur 45% meðal kjósenda.

Samkvæmt þessu ættu Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin að geta aukið vinsældir sínar meðal kjósenda með því að taka upp eindreginn stuðning við aðild að Evrópusambandinu. Það væri stórsigur fyrir þessa flokka að geta aukið fylgið um ofangreint bil, úr 32% í 45%.

Hafa verður í huga, að umræðan um aðild að Evrópusambandinu fer fram í skugga eindregnari yfirlýsinga andstæðinga en stuðningsmanna í stjórnmálaflokkunum og beinna yfirlýsinga forsætisráðherra um, að málið eigi raunar alls ekki að vera til umræðu.

Ef Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin ákveða að stefna að þátttöku í Evrópusambandinu og fara að sækja málið af sama þunga og andstöðuflokkarnir gera á hina vogarskálina, ætti það að vekja fleiri kjósendur til umhugsunar um, að þátttaka kunni að vera vænleg.

Höfuðborgarsvæðið mun fá 33 þingmenn af 63 í næstu alþingiskosningum. Þar sem meirihluti kjósenda á þessu svæði, 52%, er fylgjandi aðild, er freistandi fyrir stjórnmálaflokka að taka af skarið í Evrópumálunum, ef þeir eru sérstaklega að slægjast eftir fylgi á þessu svæði.

Teikn eru á lofti um, að andstaða fólks á landsbyggðinni geti farið að linast. Umboðsmenn hagsmunaaðila byggðastefnu og landbúnaðar hafa verið á ferðum til Bruxelles til að kynna sér málið og hafa komið til baka fremur ánægðir með sjóði og styrki á þeim bæ.

Ef kjósendur, sem láta staðbundna hagsmuni ráða för, fara að átta sig á ríkidæmi og örlæti Evrópusambandsins, má búast við sveiflu á landsbyggðinni í afstöðu til sambandsins. Á skömmum tíma getur stuðningur við sambandið orðið að meirihlutaskoðun landsbyggðarfólks.

Landbúnaðarráðherra sagði nýlega í viðtali, að Evrópusambandið væri klúbbur hinna ríku, og dró þá ályktun, að Íslendingar ættu ekki erindi þangað. Svo getur farið, að kjósendur samsinni því, að sambandið sé klúbbur hinna ríku og vilji einmitt þess vegna vera með.

Við höfum fylgzt með, hvernig Evrópa hefur sífellt orðið ríkari síðustu áratugi og hvernig Evrópusambandið hefur hjálpað við að lyfta fátækum ríkjum upp í vestræna auðsæld. Við þurfum ekki annað en að fara til Írlands til að sjá, hvílík stakkaskipti hafa orðið á jaðarsvæði.

Kjósendur geta fyrirvaralítið áttað sig á, að þátttaka í Evrópusambandinu er trygging fyrir vaxandi auðsæld á Íslandi, hvernig sem árar hjá okkur að öðru leyti.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykur er eitur

Greinar

Við búum í manngerðum heimi, sem fellur ekki vel að þörfum okkar. Hann kallar á lífsstíl, sem skaðar okkur. Til dæmis hreyfum við okkur lítið og borðum óhollan mat. Þetta leiðir til stórfelldra heilsuvandræða, einkum hjá þeim, sem hafa fengið áhættuþætti sjúkdóma í arf.

Lengi hefur verið vitað, að við borðum of mikið af hertri dýrafitu og of lítið af grænmeti og ávöxtum. Minna hefur farið fyrir vitneskju um vandræði, sem stafa af þeim sykri, sem bætt er í matvæli ofan á þann sykur, sem fyrir er í þeim. Nú er þetta sem betur fer að lagast.

Í DV á laugardaginn sagði Jón Bragi Bjarnason, prófessor í lífefnafræði, frá ýmsum hættum, sem fylgja viðbættum sykri, svo sem offitu, aukinni blóðfitu, auknu kólesteróli, aukinni sykursýki og auknum kransæðasjúkdómum. “Sykur er eitur,” sagði prófessorinn.

Áður hefur Helgi Valdimarsson læknaprófessor skýrt frá öðrum hættum tengdum sykri, svo sem sveppaóþoli. Aðrir fræðimenn hafa tengt sykur við krabbamein. Um þessar mundir er í Bandaríkjunum að byrja að ryðjast fram holskefla rannsókna, sem beinast að sykri.

Jón Bragi prófessor sagði einnig fullum fetum, að sykur væri sterkt fíkniefni. Það skýrir, hvers vegna fólk á erfitt með að venja sig af notkun viðbætts sykurs. Sykurneyzla kallar á meiri sykurneyzlu og stöðvun neyzlu kallar á fráhvarfseinkenni með tímabundinni vanlíðan.

Í Bandaríkjunum eru fjölmenn samtök sjálfshjálpar þeirra, sem hafa þjáðst af offitu og fylginautum hennar. Þetta fólk telur sig þurfa að varast ýmsa fæðu og alls staðar er þar sykur langefstur á blaði, ofar en fita. Hér á Íslandi tala foreldrar um sykurfyllerí í barnaafmælum.

Gegn þessum nýstárlegu kenningum talar afturhaldssamt Manneldisráð og ýmsir áhrifamiklir næringarfræðingar hér á landi, sem telja viðbættan sykur vera í lagi og jafnvel “bráðhollan” upp að vissu marki, svo að minnt sé á nýlega blaðagrein formanns Manneldisráðs.

Ekkert óeðlilegt er við, að þunglamaleg ríkisstofnun sé ekki með á nótunum, þegar breytingar eru örar og vísindasamfélagið er að skipta um skoðun. Slíkt er eðli stofnana af slíku tagi. Við þurfum því enn að bíða eftir, að ríkisvaldið fari að taka á sykri eins og hann á skilið.

Sem fulltrúi ríkiskerfisins hefur Manneldisráð lengi þverskallazt við að fá magn viðbætts sykurs tilgreint á umbúðum matvæla. Ráðið ber því við, að slíkt sé ekki í samræmi við reglur Evrópusambandsins. Sú túlkun er langsótt og skaðleg, enda hefur aldrei reynt á hana.

Manneldisráð hefur ekki heldur sinnt þeirri höfuðskyldu að vinna innan kerfisins að bráðnauðsynlegri grænmetisneyzlu með því að fá fellda niður ofurtolla á grænmeti, einkum lífrænt ræktuðu grænmeti. Þannig er Manneldisráð heilsufarslega næsta ónýt stofnun.

Offita og menningarsjúkdómar tengdir offitu munu á næstu árum verða eitt alvarlegasta og dýrasta heilbrigðisvandamál vestrænna þjóða. Í Bandaríkjunum eykst offita um 5% á ári um þessar mundir og svipað er að gerast hér. Því er nú kominn tími til að bregðast við af hörku.

Fyrsta skrefið er, að ríkisvaldið láti tilgreina á umbúðum matvæla, hve miklum sykri sé bætt í þau. Þá geta þeir, sem hafa áttað sig á hættunni, varað sig á slíkum mat. Annað skrefið er að færa núverandi tolla af grænmeti og yfir á sykur og viðbætt sykurinnihald matvæla.

Þetta er mikið hagsmunamál fyrir ríkið, sem horfist í augu við, að viðbættur sykur verði smám saman ein af helztu orsökum mikils sjúkrakostnaðar á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Borðalagðar pappalöggur

Greinar

Fyrir tæpu ári var löggæzla skorin niður með breytingum á fjárlögum. Þar að auki leiddu sérstakar takmarkanir á notkun lögreglubíla til þess, að löggæzla minnkaði á þjóðvegum landsins. Ennfremur var sett sérstakt eftirvinnubann á baráttu lögreglunnar gegn fíkniefnum.

Samhliða þessu hefur verið reist nýtt bákn við Skúlagötu 21, glæsilega merkt Ríkislögreglustjóranum með ákveðnum greini. Þar sitja menn og hanna skrautlega búninga af tuttugu gráðum handa sérstakri sveit dáta, sem fylgir dómsmálaráðherra á fundaferðum hennar.

Hámarki náðu skrautsýningar ráðherrans á blaðamannafundi í júlí, milli niðurskurðar fjárlaga og áminningarbréfs ráðuneytisins til sýslumanna. Ekki dugði ráðherranum minni fundarumgerð en flugskýli Landhelgisgæzlunnar og fjölmenn sveit borðalagðra dáta.

Á fundinum kom fram, að ráðherrann lifir í sérstökum einkaheimi, þar sem hún getur boðað stórkostlegt átak í umferðareftirliti, án nokkurs tillits til þeirra fjármuna, sem hún og félagar hennar í ríkisstjórninni verja til málaflokksins samkvæmt ákvörðunum í fjárlögum.

Enn var ráðherrann í fyrradag á kjósendafundi með borðalögðum dátum Ríkislögreglustjórans með ákveðnum greini. Þar skýrði hún nýja aðferð í baráttunni gegn fíkniefnasölum, sem bætir fyrir, að fíkniefnalögreglan hefur mánuðum saman aðeins mátt vinna dagvinnu.

Aðferð ráðherrans felst í, að hún “mun fylgjast grannt með fíkniefnadeildinni” að eigin sögn. Í samræmi við annars heims andrúmsloftið á fundi ráðherrans lagði einn fundarmanna til, að pappalöggur yrðu settar upp á svæðinu til að minna fólk á tilvist lögreglunnar.

Einn sýslumanna landsins tók í sama streng í blaðaviðtali í gær, þegar hann hafði rakið peningaleysi löggæzlunnar. “Ætli við verðum bara ekki að hafa pappalöggur. Það er í tízku í dag.” Þannig verður einkaheims dómsmálaráðherrans væntanlega minnzt í framtíðinni.

Pappalöggurnar á Reykjanesbraut hafa óviljandi orðið að einkennistákni embættisfærslu dómsmálaráðherrans. Þær eru raunar áþreifanlegasta dæmi sýndarveruleikans, þar sem ekkert samhengi er á milli yfirlýsinga á skrautsýningum og raunveruleika vaxandi peningaleysis.

Það er nefnilega hægt að þreifa á pappalöggunum og jafnvel setja þær í skottið á bílnum. Hið sama verður varla sagt um tuttugu mismunandi gráður borðalagðra dáta Ríkislögreglustjórans með ákveðnum greini. Þær sveitir eru fyrir framan speglana í Skúlagötu 21.

Við þurfum lítið á þessum borðalögðu sveitum að halda, ekki einu sinni við móttöku erlendra gesta ríkisvaldsins. Einfalt er að hætta að bjóða hingað fúlmennum, sem æsa fólk til mótmæla, en snúa sér bara að vammlausum fyrirmennum, sem nóg er til af.

Í stað sveitar borðalagðra dáta af tuttugu mismunandi gráðum er hægt að mæta erlendu stórmenni með því að framkvæma ríkisstjórnarsamþykkt, sem runnin er frá landbúnaðarráðherra, það er að segja með sveit fallegra, vel hærðra og hlýlegra hesta af íslenzku kyni.

Kjósendur virðast telja eðlilegt, að landsfeður lofi öllu fögru og jafnvel heilum milljarði, þegar mikið liggur við í kosningabaráttu, en gleymi því jafnóðum eftir kosningar. Hitt hefur komið mörgum á óvart, að ráðherra lifi áfram í skrautsýningum eftir kosningar.

Kannski er þarna komið fordæmi fyrir pappamönnum á Alþingi og að enda svo skopleik íslenzkra stjórnmála með því að koma okkur upp kjósendum úr pappa.

Jónas Kristjánsson

DV

Fáokun eykur kostnað

Greinar

Samhengi kostnaðar og tekna er óbeint og takmarkað, hvort sem samkeppni ríkir eða ekki. Samkeppni styðst þó við þetta samhengi, þegar fyrirtæki þróa aðferðir til að lækka kostnað sinn og síðan verð afurða sinna til að geta lækkað verðið og náð betri markaðshlutdeild.

Þegar eitt fyrirtæki er komið með meira en helmings markaðshlutdeild á sínu sviði, svo sem sameinaður Landsbanki og Búnaðarbanki í almennum bankaviðskiptum, hætta samkeppnislögmál að virka og við taka fáokunarlögmál, sem við þekkjum betur úr ríkisrekstri.

Hvort sem ríkir samkeppni eða fáokun, þá miðast tekjur í rekstri síður við kostnað heldur en mat á því, hvað markaðurinn þolir. Þannig koma nýjar uppfinningar yfirleitt inn á markað á tiltölulega háu verði, sem lækkar síðan, þegar aðrir koma í kjölfarið og samkeppni eykst.

Sagan segir okkur, að einokun uppfinningamannsins breytist smám saman í samkeppni markaðsþjóðfélags, sem síðan breytist smám saman með samruna í fáokun. Mikilvægir þættir íslenzks athafnalífs eru komnir á þetta síðasta stig fráhvarfs frá markaðsbúskap.

Bankarnir verða komnir á lokastig þessa ferils, þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn sameinast. Við þekkjum ekki dæmi þess í útlöndum, að slík sameining hafi verið viðskiptamönnum til hagsbóta. Þvert á móti hefur hún reynzt leiða til verðhækkana á þjónustu.

Stuðningsmenn sameiningarinnar segja, að með henni náist hagræðing, sem leiði til minni heildarkostnaðar, er síðan geti skilað sér í minni mun á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum, þannig að bankinn taki minna í sinn hlut í vaxtamun. Þessi firra styðst ekki við neina reynslu.

Þvert á móti leiðir sameining bankanna til þess, að þeir geta betur en áður sett viðskiptamönnum sínum stólinn fyrir dyrnar. Sameiningin mun ekki leiða til þess að nýja báknið þurfi minna í sinn hlut og geti minnkað vaxtamuninn. Þvert á móti mun græðgi báknsins aukast.

Við þekkjum þetta ferli af lögmálum Parkinsons og Péturs. Alltaf er matsatriði, hver skuli vera kostnaður í rekstri. Ráðamönnum ríkisfyrirtækja og fáokunarfyrirtækja finnst jafnan, að þeir þurfi meiri tekjur og beita ráðandi markaðsstöðu sinni til að afla þeirra.

Gróðabilið, sem myndast við þetta, er síðan fyllt upp með kostnaði. Ráðnar eru silkihúfur hver upp af annarri. Sérhver starfsmaður reynir að fylla tómarúm aðgerðaleysis með athöfnum, sem hafa ekkert rekstrarlegt gildi, en gefa þá tilfinningu, að menn séu önnum kafnir.

Þetta gerist einmitt vegna hins vanmetna hagfræðilögmáls, að samhengi tekna og kostnaðar er yfirleitt lítið og óbeint, en samhengið er aftur á móti yfirleitt mikið og beint milli tekna annars vegar og hins vegar mats á því, hvað markaðurinn þolir við aðstæður hverju sinni.

Þetta ættu allir að vita, sem kalla sig hagfræðinga, viðskiptafræðinga eða fjármálafræðinga. Samt hefur ótrúlegur fjöldi þeirra lýst yfir stuðningi við fyrirhugaða sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sumir af hreinni fáfræði, en aðrir í vondri trú og hagsmunagæzlu.

Með sameiningu tveggja helztu stofnana almennra bankaviðskipta er ríkið enn að efla fáokun sem sérkenni íslenzks atvinnulífs. Ríkisstjórnin er að staðfesta, að hún vilji bankafáokun til hliðar við benzínfáokun, tryggingafáokun, flugfáokun, orkufáokun og símafáokun.

Viðskiptamenn bankanna munu tapa á sameiningunni. Vaxtamunur mun aukast til lengdar, því að reynslan sýnir að algild lögmál fáokunar láta ekki að sér hæða.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandarísk Ísraelsfirra

Greinar

Erfitt er að leita byrjunarreits í vítahring á borð við þann, sem sífellt magnast fyrir botni Miðjarðarhafs. Óhjákvæmilegt er þó að staðnæmast við þá staðreynd, að hver Bandaríkjaforsetinn á fætur öðrum hefur gengið framar fyrirrennaranum í blindum stuðningi við Ísraelsríki.

Að baki þessa er sú skoðun bandarískra kosningafræðinga, að frambjóðendur til þings og forsetaembættis í Bandaríkjunum eigi enga möguleika, ef þeir séu taldir linir í stuðningi við Ísrael. Enda hafa fræðingarnir hjá Gore og Bush sagt þeim að gefa hvergi eftir á þessu sviði.

Á löngum tíma hefur þetta ferli styrkt Ísraelsmenn í þeirri trú, að þeir geti farið fram eins og þeim þóknist. Bandaríkin og bandaríska þjóðin muni sjá þeim fyrir peningum og pólitískum stuðningi, svo og öflugustu fáanlegu hergögnum gegn grjótkasti Palestínumanna.

Þannig hefur Ísrael orðið æxli, sem dregur næringu sína frá Bandaríkjunum og leikur lausum hala án tillits til vestrænna hagsmuna. Vegna þessa æxlis geta Vesturlönd ekki náð eðlilegum samskiptum við lönd Íslams og vegna þessa æxlis er olíuverð komið upp til skýjanna.

Mál hafa mótast þannig, að meirihluti Ísraela lítur á sig sem herraþjóð og Palestínumenn eins og hunda, sem njóti ekki verndar alþjóðlegra samþykkta um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Ísraelsmenn leika hlutverk Þjóðverja á hernumdum svæðum heimsstyrjaldarinnar.

Ísraelar yppta öxlum, er hermenn þeirra taka hundrað Palestínumenn af lífi í uppþotum, en ganga af göflunum, er tíu Ísraelsmenn eru drepnir á móti. Hið sama gera raunar Clinton Bandaríkjaforseti og Albright utanríkisráðherra hans. Menn gera sér grófan mannamun.

Vaxandi hroki og yfirgangur Ísraela í Palestínu veldur sífellt meira hatri hinnar hernumdu þjóðar, sem býr þar á ofan við þá ógæfu að hafa lélegan foringja, sem hefur látið ráðamenn Bandaríkjanna draga sig á asnaeyrunum, þannig að hann hefur glatað trausti þjóðar sinnar.

Arafat hefur laskazt pólitískt af friðarferlinu og hefur ekki lengur tök á Palestínumönnum. Hann reynir því að sigla milli skers og báru. Hann getur ekki kveikt og slökkt á óeirðum og hefur undanfarnar vikur orðið að halda í humátt á eftir hinum róttækari öflum í landinu.

Enn verri er staðan á hinum vængnum, þar sem Barak forsætisráðherra hefur ekki reynzt hafa bein í nefinu á borð við suma fyrirrennara sína, svo sem Begin og Rabin. Þeir gátu fetað friðarferlið, en Barak leitar sífellt skjóls í málóðri ofsaþjóðernisstefnu að hætti Hitlers.

Tvennt vantar til að koma raunhæfu friðarferli aftur í gang. Í fyrsta lagi verða deiluaðilar að skipta út hinum ónothæfu forustumönnum sínum. Í öðru lagi þarf Bandaríkjastjórn að byrja að setja trylltu Ísraelsríki stólinn fyrir dyrnar. Því miður er hvorug forsendan í augsýn.

Á meðan verða forustumenn annarra vestrænna ríkja að beita forustumenn Bandaríkjanna vaxandi þrýstingi. Evrópumennirnir í þessum hópi verða að benda á siðleysi Ísraels og hagsmuni Vesturlanda af stöðugu og hóflegu olíuverði og af útbreiðslu vestrænna sjónarmiða.

Síðasta atriðið gleymist oft. Vestræn sjónarmið lýðræðis, laga og réttar, dreifingar valdsins og jafnréttis hafa breiðst út víða um heim, til dæmis til Austur-Evrópu, Indlands og fleiri ríkja í Asíu, en hafa að mestu farið framhjá þjóðum Íslams vegna vestræns stuðnings við Ísrael.

Með Ísraelsfirru sinni eru Bandaríkin smám saman að glutra niður forustu sinni fyrir Vesturlöndum og skaða stöðu vestrænnar hugmyndafræði í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðskiptabanni aflétt

Greinar

Eðlilegt er, að Vesturveldin aflétti nú þegar viðskiptabanni á Serbíu, þar sem skrímslið með engilsvipinn er flúið af hólmi og löglega kjörinn forseti hefur náð völdum í landinu. Forsendur viðskiptabannsins á Serbíu eru því hamingjusamlega brostnar.

Slobodan Milosevic var hinn illi andi Serba og stóð fyrir endurteknu áreiti við nágranna þeirra. Hann átti mikinn þátt í að gera áreitið óvenjulega fólskulegt með því að senda brjálæðinga á vettvang til að fremja sögufræg illvirki, sem lengi verða blettur á Serbum.

Vegna voðaverka Serba í Króatíu, Bosníu og Kosovo hefur verið stofnaður fjölþjóðlegur stríðsglæpadómstóll í Haag, sem hefur þegar dæmt nokkra Serba og á eftir að dæma fleiri, þótt höfuðpaurarnir hafi ekki enn náðst. Milosevic er eftirlýstur stríðsglæpamaður.

Vojislav Kostunica hlaut tilskilinn meirihluta atkvæða í forsetakosningunum 24. september, þrátt fyrir umfangsmiklar atkvæðafalsanir af hálfu stuðningsmanna Milosevics. Þegar falsanir atkvæða nægðu ekki, var gripið til þess ráðs að reyna að falsa úrslitin.

Þetta sætti þjóðin sig ekki við og tók völdin í landinu á fimmtudaginn var. Engar blóðsúthellingar urðu, því að hvorki her né lögregla höfðust að. Völdin láku einfaldlega úr höndum Milosevics, sem reyndist harla vinafár, þegar viðhlæjendur hans létu sig hverfa.

Þótt viðskiptabanni verði núna aflétt, fer því fjarri, að samskipti Serbíu og umheimsins komist af sjálfu sér í eðlilegt ástand. Vijislav Kostunica er róttækur þjóðernissinni, sem afneitar ábyrgð Serba á voðaverkum og sakar Atlantshafsbandalagið um stríðsglæpi.

Kostunica hefur sagt, að Milosevic verði ekki framseldur stríðsglæpadómstólnum í Haag. Sennilega þýðir það, að hann verði ekki heldur fús til að framselja ýmsa helztu brjálæðingana á borð við Radovan Karadzic og Ratko Mladic í hendur alþjóðlegrar réttvísi.

Meðan Kostunica og mikill meirihluti Serba lifa í afneitun voðaverkanna er engin ástæða til, að Vesturveldin geri meira en að aflétta viðskiptabanni. Stuðningur við efnahagslega uppbyggingu Serbíu af vestrænni hálfu kemur ekki til greina að svo komnu.

Raunar er Kostunica svo róttækur þjóðernissinni, að hann sagði nýlega, að Serbar muni hvorki þiggja hjálp að vestan né austan við uppbyggingu landsins. Sú yfirlýsing einfaldar málið og dregur úr líkum á, að vestrænir leiðtogar freistist til að ausa fé í Serbíu.

Með byltingunni 5. nóvember hafa vandræði Balkan-skaga ekki verið leyst. Hins vegar hafa skyndilega myndazt forsendur til að þróa smám saman samskipti Serba annars vegar og annarra þjóða skagans hins vegar á þann veg, að sárin grói á löngum tíma.

Serbía hefur ekki í einni svipan hætt að vera krabbamein Balkanskagans. En versta æxlið hefur allt í einu verið skorið og sjúklingnum getur batnað með tíð og tíma. Eitt skref er upphafið að sérhverju löngu ferðalagi og Serbar hafa stigið þetta fyrsta skref.

Ósigur skrímslisins með englasvipinn er mikill sigur fyrir Evrópu og vestræna hugmyndafræði. Forsendur lýðræðislegs samfélags hafa verið endurreistar í drungalegasta afkima álfunnar. Ljósið að vestan mun óhjákvæmilega lýsa upp þessar leifar miðalda.

Balkanskagi var á tuttugustu öld kveikjan að tveimur heimsstyrjöldum. Þess má nú vænta, að skaginn verði friðsamur á tuttugustu og fyrstu öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Fáokun olíufélaganna

Greinar

Sökudólgar hins háa olíu- og benzínverðs á Íslandi eru ekki bara ríkisvaldið og olíuríkin, þótt olíufélögunum hafi bærilega tekizt að skjóta þessum málsaðilum fyrir sig í vörninni. Ef innkaupsverð og skattar eru dregnir frá, kemur í ljós, að eftir stendur allt of hátt verð.

Allar þjóðir, stórar og smáar, standa nokkurn veginn jafnfætis á hráefnismarkaði olíunnar, eins og hann mælist í Rotterdam. Dæmi úr íslenzkri verzlun sýna, að smáir kaupmenn geta orðið aðilar að stórum keðjum, sem ná beztu afsláttum út á mikil viðskipti sameiginlega.

Eigi að síður er gjaldið, sem íslenzku olíufélögin taka, mun hærra en þekkist annars staðar í Evrópu. Verð án skatta á 95 oktana benzíni er tólf krónum hærra á lítrann en í stóru löndunum í Evrópu og átta krónum hærra en í ýmsum smáríkjum, sem búa við sérstakar aðstæður.

Sem dæmi um fámennt ríki má nefna Luxemborg, þar sem verð án skatta á 95 oktana benzíni er átta krónum lægra en hér. Sem dæmi um landlukt ríki, sem ekki hefur aðgang að ódýrum sjóflutningum, má nefna Austurríki, þar sem verðið er líka átta krónum lægra en hér.

Þetta verður að hafa í huga, þegar talsmenn íslenzku olíufélaganna bera við langri siglingu hingað. Sjóflutningar eru ódýrustu flutningar, sem til eru. Nokkurra daga sigling til Íslands getur ekki bætt mörgum krónum á hvern lítra ofan á verðið, sem aðrar þjóðir greiða.

Ef tekið er tillit til fjarlægðar og smæðar markaðarins, má með sanngirni segja, að verðið, sem íslenzku olíufélögin taka sjálf til sín, sé að minnsta kosti fimm krónum of hátt á hvern lítra af 95 oktana benzíni. Sá verðmunur er hreinn aukakostnaður þjóðarinnar af fákeppni.

Það fer ekki framhjá neinum, sem fylgist með benzínverði, að svo undarlega vill til, að þeir, sem reikna verðþörfina hjá olíufélögunum, komast alltaf að nákvæmlega sömu niðurstöðu á nákvæmlega sama tíma. Þetta heitir á máli olíufélaganna, að þau hafi ekki samráð um verð.

Við búum við hálft þriðja olíufélag og tilheyrandi fáokun á markaði. Þetta kostar þjóðina um það bil fimm krónur á hvern lítra af 95 oktana benzíni. Þessar krónur fara samkvæmt hagfræðilögmálum í óeðlilega dýran rekstur fáokunarfyrirtækja og í eignasöfnun þeirra.

Þetta er nákvæmlega sama sagan og í ýmsum öðrum mikilvægustu greinum verzlunar og þjónustu á Íslandi. Hvarvetna eru eitt, tvö eða þrjú félög, sem skipta með sér markaði og halda uppi á háu verði. Þess vegna borgum við of mikið fyrir lán og tryggingar, flug og fragt.

Rugludallar stjórnmálanna vilja sameina banka, þótt þeir séu þegar orðnir svo fáir, að um hreina fáokun er að ræða og fjögurra til sex prósenta hærri vaxtamun en í öðrum löndum Evrópu. Staðreyndin er sú, að við búum við vaxtaokur í skjóli fáokunar á bankamarkaði.

Við þekkjum ástandið í tryggingunum, þar sem félögin safna ótrúlega digrum sjóðum í skjóli fáokunar. Flugfargjöld hafa lengi verið sorgarsaga, sem allir þekkja, enda eru fræg dæmi um, að miklu dýrara er fyrir Íslendinga en útlendinga að fljúga með Flugleiðum.

Hingað til hafa íslenzkir neytendur virzt njóta þess að láta kvelja sig með þessum hætti. Tilraunir til samstöðu bíleigenda hafa farið út um þúfur. Hagsmunaaðilar hafa meira kveinað undan svipuhöggum fákeppninnar og eru nú að ræða svör við háu verði á olíu og benzíni.

Við val á viðbrögðum ættu þeir að muna eftir, að hátt verð á olíu og benzíni stafar meðal annars af okri hálfs þriðja olíufélags í skjóli langt leiddrar fáokunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt og -illindi

Greinar

Álit Auðlindanefndar var langrar biðar virði, óvenjulega ítarlegt og yfirgripsmikið, vel rökstutt og skýrt fram sett. Enn merkilegri er sáttin, sem náðist um niðurstöðuna meðal nefndarmanna, sem valdir höfðu verið með hliðsjón af fjölbreytilegum sjónarhólum þeirra.

Nefndarsáttin og textastíllinn er glæsilegur endir á efnahagspólitískum ferli Jóhannesar Nordal. Sem formaður nefndarinnar vann hann það afrek að stilla saman strengi allra níu nefndarmanna í eina hljómkviðu, sem á að vera öllum áhugamönnum skýr og skiljanleg.

Niðurstöðurnar ná að vísu hvergi nærri eins langt og ákjósanlegt hefði verið. Uppboðsleiðin, sem kölluð er fyrningarleið í plagginu, er ekki nógu þungt á metunum. Of langt er gengið til móts við sérhagsmuni kvótaeigenda í því skyni að slá vopnin úr hendi þeirra.

Á hinn veginn fellur niðurstaðan ekki heldur að óskum hagsmuna-gæzlumanna í pólitíkinni. Forsætisráðherra segist sjálfur hefði kosið aðra útkomu, en segist um leið kunna að meta þessa tilraun til að ná sáttum í þjóðfélaginu. Tilraunin sé stóratburður í samtímasögunni.

Aðrir hagsmuna-gæzlumenn í pólitíkinni hafa síður kunnað að hemja gremju sína. Sjávarútvegsráðherra og formaður vinstri grænna hafa hvor um sig talað um niðurstöðuna sem ágætt plagg inn í væntanlega umræðu um enn frekari sátt í þjóðfélaginu um þetta mál.

Spyrja má þessa hagsmuna-gæzlumenn, hvaða sátt í þjóðfélaginu geti verið meiri sátt en kraftaverkið í auðlindanefndinni. Hvaða aðrar niðurstöður finnast, sem eru nær meðaltals-sjónarmiðum en þessar? Í þjóðfélagi, sem leikur á reiðiskjálfi, hvenær sem minnst er á kvóta?

Hagsmuna-gæzlumennirnir eiga raunar við sátt milli þjóðarsáttar annars vegar og hagsmuna umbjóðenda þeirra hins vegar. Þannig verði til dæmis ekki valin fyrningarleið í aflakvótanum og þannig verði aukið hlutfall veiðigjaldsins látið renna til byggðamála.

Sú verður einmitt framvinda málsins, að hagsmunaaðilar munu beita umboðsmönnum sínum til að krukka í niðurstöðurnar og fá nýja útkomu, sem er fjær raunverulegri þjóðarsátt, en nær hagsmunum umbjóðendanna. Um slíka útkomu verður samt engin þjóðarsátt.

Sjávarútvegsráðherra, formaður vinstri grænna og aðrir slíkir hafa sjálfsagt afl til að skekkja útkomuna. Niðurstaðan verður þá engin þjóðarsátt til langs tíma, heldur enn eitt ofbeldið, sem leiðir til hatrammrar umræðu og klofnings í þjóðfélaginu, svo sem verið hefur.

Þótt nefndarmenn auðlindanefndar hafi næga víðsýni til að standa að niðurstöðu, sem í einhverjum atriðum er hverjum einasta nefndarmanni ekki að skapi, verður ekki hið sama sagt um íslenzka pólitíkusa. Þeir munu breyta þjóðarsátt nefndarinnar í ný þjóðarillindi.

Í þjóðarsátt nefndarinnar er þegar búið að gera ráð fyrir, að helmingur auðlindagjaldsins í sjávarútvegi renni til sjávarplássa. Þar er þegar búið að gera ráð fyrir, að fyrning kvóta gerist á löngum tíma, svo að kvótaeigendur geti lagað rekstur sinn að skilyrðum hvers tíma.

Í þjóðarsátt nefndarinnar er þegar búið að reikna afkomu fiskveiðanna og spá í burði þeirra til að standa undir auðlindagjaldi, hvort sem það er í formi fyrningar eða veiðigjalds. Þannig er þegar búið að taka tillit til sérhagsmuna í varfærinni niðurstöðu nefndarinnar.

Forsætisráðherra hefur raunar minnt gæzlumenn sérhagsmuna á, að til lítils sé að setja svona vinnu af stað, ef menn ætli ekki að taka mark á henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Afskekkta álverið

Greinar

Það sker í augu, að sölumenn Kárahnjúkavirkjunar veifa núna jarðgöngum milli byggða á Austfjörðum framan í ráðamenn Norsk Hydro til að sýna fram á aukið framboð af mannauði í nágrenni Reyðarfjarðar og reyna þannig að lífga við áhuga þeirra á Reyðaráli.

Með þessu er búið að bæta kostnaði jarðganganna við fyrirhugaðan virkjunarkostnað. Verið er að bjóða niðurgreiðslu ríkisins á orkuverði Landsvirkjunar og gera Reyðarál að stærsta styrkþega Íslandssögunnar. Dæmið var vitlaust áður, en nú tekur steininn úr.

Tilefnið er afdráttarlaus yfirlýsing forstjóra áldeildar Norsk Hydro um, að Austfirðir séu fámennis vegna ekki heppilegur staður fyrir álver. Hann segir meira að segja, að risastórt álver geti orðið skaðlegt annarri og fyrirferðarminni framleiðslu á Austurlandi.

Það sker líka í augu, að Eivind Reiten forstjóri gerir grín að forustumönnum Reyðaráls og Afls fyrir Austurland með því að vekja sérstaka athygli á, að þeir hafi engar áhyggjur af félagslegum áhrifum álversins, þótt yfirmenn Norsk Hydro séu uppteknir af þeim.

Yfirlýsingin táknar ekki, að Norsk Hydro sé hætt við aðild að Reyðaráli. Hún felur frekar í sér, að íslenzkir samstarfsaðilar verði að leggja harðar að sér við að láta ríkið útvega fyrirtækinu á kostnað skattgreiðenda þá innviði, sem hann telur skorta austur á fjörðum.

Við munum því sjá á næstu tveimur árum ýmsar ráðagerðir pólitíkusa um sértækan stuðning skattgreiðenda við Austfirði til þess að gera þá álvershæfa. Þar með eru talin göng milli fjarða meðan léleg umferðarmannvirki valda stórslysum á höfuðborgarsvæðinu.

Á sama tíma munu Landsvirkjun og Reyðarál skammta okkur konfektmola úr hnefa í formi niðurstaðna rannsókna á borð við þá, að strönd Héraðsflóa muni ekki breytast mikið við stíflur, sem fylla lón af aur í stað þess að hleypa honum fram til sjávar.

Ekki mun takast að láta tímann vinna með Kárahnjúkavirkjun og Reyðaráli á þennan hátt, því að önnur atriði koma á móti. Óhjákvæmilegt er, að efasemdir muni vaxa hjá íslenzkum lífeyrissjóðum um, að skynsamlegt sé fyrir þá að standa undir Reyðaráli.

Tilgangur lífeyrissjóða er að varðveita sparifé Íslendinga, svo að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af ellinni. Áhættufjárfesting í afskekktum þungaiðnaði er utan rammans. Vitrænna er fyrir lífeyrissjóðina að dreifa áhættunni með því að kaupa erlend verðbréf.

Lífeyrissjóðir voru upphaflega ginntir til að taka þátt í undirbúningi Reyðaráls. Hætt er við, að fljótlega fari að hitna undir sumum fulltrúum lífeyrissjóðanna, þegar menn fara að átta sig betur á, að þeir eru að leika sér óvarlega með afar viðkvæma öryggisfjármuni.

Tíminn vinnur líka gegn Reyðaráli á þann hátt, að fleiri Íslendingar munu smám saman átta sig á, að auðsuppspretta í framtíðaratvinnu felst ekki í láglauna-þungaiðnaði á borð við álver, heldur í hálauna-þekkingariðnaði á borð við tölvur og hugbúnað.

Ennfremur fjölgar stöðugt þeim Íslendingum sem átta sig á, að kominn er tími til að varðveita stærstu ósnortnu víðerni Evrópu. Þessi víðerni hálendisins eru í auknum mæli að verða helzti hornsteinn og einkennistákn tilveru Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar.

Um langt skeið hafa allar fréttir af Reyðaráli verið þess eðlis, að talsmenn þess hafa þurft að hlaupa upp til handa og fóta til að reyna að takmarka tjónið.

Jónas Kristjánsson

DV

Óeirðir í Seattle og Prag

Greinar

Alþjóðavæðing og þjónusta við gráðug fjölþjóðafyrirtæki er ekki alvarlegasta vandamál stofnana á borð við Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Heimsviðskiptastofnunina, sem sæta núna óeirðum, hvar sem þær halda fundi sína, fyrst í Seattle og síðast í Prag.

Vandinn felst fyrst og fremst í þeim misskilningi, að þriðja heiminum beri að endurgreiða slíkum stofnunum einhverjar fjárhæðir, sem þær hafa lánað valdhöfum í þriðja heiminum, í fullri vissu þess, að þeir og skjólstæðingar þeirra stælu meira eða minna af lánunum.

Minnisstætt skólabókardæmi um ruglið í lánveitingum er fjárausturinn til Rússlands. Þeim peningum var nánast öllum stungið undan í skjóli Jeltsíns, sem þá var forseti landsins. Þeim var sumpart sóað og sumpart voru þeir fluttir á einkareikninga í vestrænum bönkum.

Þegar fénu var mokað í skjólstæðinga Jeltsíns, vissu ráðamenn þessara stofnana af fyrri reynslu um gervallan þriðja heiminn, að miklu af því yrði stolið, þótt sjálft umfang glæpsins í Rússlandi hafi komið þeim á óvart. Þeir geta ekki vikizt undan samábyrgð á glæpnum

Ef James Wolfensohn í Alþjóðabankanum og Horst Köhler í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lána glæpamönnum, sem víðast hvar ráða ríkjum í þriðja heiminum, vita bankastjórarnir, að mikið af fénu fer á einkareikninga, en ekki til þeirra þarfa, sem höfð eru að yfirvarpi.

Þeir geta ekki ætlazt til, að eymdarþjóðir þriðja heimsins, sem ekki hafa hagnazt neitt á þessum lánum, endurgreiði fjármálastofnunum neitt af því fé, sem þannig hefur verið ráðstafað. Þeir geta ekki heldur neitað vitneskju um ástand, sem þekkt hefur verið áratugum saman.

Þess vegna er óþarfi að fjölyrða mikið um, hvort Wolf-ensohn og Köhler séu orðnir svo meyrir út af óeirðum í Seattle og Prag, að þeir vilji sem óðast gefa eftir mikið af skuldum þriðja heimsins. Til þessara skulda var stofnað á siðlausan hátt og þær ber allar að afskrifa.

Auðvitað eiga Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki að lána, án þess að tryggt sé, að allir peningarnir skili sér í tilskilin verkefni. Sú trygging fæst ekki, nema stjórnarfar í viðkomandi landi fylgi vestrænum reglum um gegnsæi, réttaröryggi og valddreifingu.

Ofan á bjánaleg útlán hafa slíkar stofnanir gerzt sekar um afturhaldssamar kröfur til þriðja heimsins í efnahags- og fjármálum. Þessar kröfur eru framleiddar af “annars flokks hagfræðingum”, samkvæmt orðum Josephs Stiglitz, sem lengi var aðalhagfræðingur Alþjóðabankans.

Stiglitz hefur til gamans bent á, að efnahagsleg og peningaleg velgengni Bandaríkjanna á síðasta áratug stafaði af, að í hvívetna gerðu stjórnvöld nákvæmlega það, sem hagfræðingar Alþjóðabankans sögðu þeim að gera ekki, allt frá skattalækkunum yfir í aukin ríkisútgjöld.

Hitt er svo minna mál, hvort fjölþjóðafyrirtæki hafi makað krókinn óhæfilega mikið í skjóli þeirra stofnana, sem predikað hafa svokallaða alþjóðavæðingu í markaðsmálum. Það er ljóður á ráði þessara stofnana, en er ekki sjálfri hugmyndafræði alþjóðavæðingar að kenna.

Siðferðilegt hrun Heimsviðskiptastofnunar, Alþjóðabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðs stafar ekki af, að opinn heimsmarkaður sé röng stefna, heldur af siðferðilega rangri útlánastefnu og óviðurkvæmilegum stuðningi forstjóranna við stórglæpamenn í þriðja heiminum.

Ofangreindar alþjóðastofnanir eiga því fyllilega skilið þær óeirðir, sem þær hafa sætt, allt frá Seattle til Prag, og munu væntanlega um síðir læra af mistökum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstæki í byggðastefnu

Greinar

Mikill mannauður glataðist, þegar Landmælingar Íslands voru fluttar með handafli ráðherra upp á Akranes. Beztu starfsmennirnir vildu ekki láta flytja sig, þótt fjarlægðin frá höfuðborgarsvæðinu sé með minnsta móti. Sumir þeirra tóku upp samkeppni við stofnunina.

Afleiðingin varð sú, að Mál og menning fór að framleiða aðgengilegri og vinsælli kort en Landmælingarnar. Þar á ofan naut Mál og menning þess að vera nær erlendum ferðamönnum og meginhluta íslenzka markaðarins. Tekjur Landmælinganna snarminnkuðu við flutninginn.

Þegar opinberar stofnanir eru fluttar út á land, er ekki tekið tillit til þessara tveggja atriða, annars vegar mannauðsins, sem fórnað er við flutninginn, og hins vegar aukinnar fjarlægðar frá meginhluta markaðarins. Brýnir hagsmunir eru látnir víkja fyrir byggðastefnu.

Á svipaðan hátt var dregið úr áhrifamætti Ferðamálaráðs með því að flytja höfuðstöðvar þess til Akureyrar. Erlendir ferðamenn eru fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Þar eykst straumur þeirra einnig mest og einungis þar er skortur á gistirými.

Nú er verið að flytja Byggðastofnun til Sauðárkróks. Fórnað er öllum mannauði stofnunarinnar nema einum manni og spillt er aðgengi mikils meirihluta viðskiptamanna stofnunarinnar. Eini kosturinn er sá, að stofnunin er verr í stakk búin til að reka byggðastefnu.

Áður hafði Húsnæðismálastofnun verið breytt í Íbúðalánasjóð, sem settur var niður á Sauðárkróki, langt frá þungamiðju tölvuþjónustunnar í landinu. Tölvukerfið hrundi og sækja varð alla tækniþjónustu suður. Mánuðum saman urðu miklar tafir við afgreiðslu mála.

Nú hafa helztu ofstækismenn byggðastefnunnar, þingmenn Bolungarvíkur, ákveðið að flytja hluta af bankaþjónustu Byggðastofnunar án útboðs til Bolungarvíkur. Það er minna skemmdarverk en þau, sem hér hafa verið rakin að ofan, en sýnir vel hagsmunapotið.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa að fara að átta sig á aðstæðum. Verið er að spilla atvinnu margra samborgara og engin veit hvar öxin lendir næst. Um leið er verið að gera hverja stofnunina á fætur annarri verr hæfa til að gegna þjónustu sinni við landsmenn í heild.

Framsóknarflokknum verður að vísu ekki hnikað, þótt kjósendur höfuðborgarsvæðisins flýi hann. En hitt er ljóst, að hafi menn á því svæði ekki atvinnu eða sporzlur af stuðningi við Framsóknarflokkinn, ætti stuðningurinn að flokkast undir eins konar sjálfseyðingarþörf.

Ein flenging í kosningum ætti hins vegar að nægja Sjálfstæðisflokknum til svo sem tíu ára. Nú er ástandið í flokknum þannig, að helztu ofstækismenn byggðastefnunnar ráða lögum og lofum á Alþingi, en meintir þingmenn höfuðborgarsvæðisins hafast ekki að til varnar.

Við þetta blandast nýfengið og ákaflega óhagkvæmt hatur margra ráðamanna Sjálfstæðisflokksins á höfuðborginni vegna tímabundinna valdahlutfalla í borgarstjórn. Tímabært er orðið að refsa flokknum fyrir þetta og láta hann velja að nýju, hvaðan hann vill hafa fylgi.

Geðlitlir þingmenn höfuðborgarsvæðisins þola, að duglegir ofstækismenn úr Bolungarvík og víðar gangi berserksgang gegn hagsmunum höfuðborgarsvæðisins og komi meðal annars í veg fyrir, að með bættum umferðarmannvirkjum sé unnt að draga úr slysum.

Við næstu kosningar kemur helmingur allra þingmanna af höfuðborgarsvæðinu. Þá er brýnt, að kjósendur svæðisins taki umboðið af öllum aumingjunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrjú brýn verkefni

Greinar

Þótt margt sé jákvætt í samanburði Íslands í samkeppnishæfni við önnur lönd, er meðaltalið óþægilega lágt að mati Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar í Davos. Við erum í 24. sæti af 59 þjóðum, næst á eftir Portúgal og næst á undan Malasíu, langt að baki Vesturlanda almennt.

Grundvöllur þessa mats eru ýmsir þættir, sem stofnunin í Davos telur vera undirstöðu hagvaxtar í framtíðinni. Niðurstaðan er því sú, að Ísland muni á komandi árum dragast aftur úr vestrænum löndum, ef við breytum ekki þeim þáttum, sem draga okkur niður.

Það eru tiltölulega takmörkuð og áþreifanleg atriði, sem við þurfum að lagfæra. Ekkert þeirra á að koma okkur á óvart, því að mikið hefur verið fjallað um þau öll á opinberum vettvangi, ekki sízt hér í leiðurum þessa blaðs. Þau hafa hins vegar ekki náð eyrum ráðamanna.

Hluti vandans felst í, að pólitíska kerfið og ráðuneytakerfið er fámennara og því veikara en í flestum öðrum löndum. Tilviljanakennt er, hvaða framfaramál eru tekin upp og hver eru skilin eftir, af því að ekki er til mannskapur og tími til að sinna þeim öllum sem skyldi.

Skattar á meðaltekjur Íslendinga eru með því mesta sem þekkist í heiminum. Til þess að hægt sé að lækka meðaltekjuskatta, þarf ríkið að draga saman seglin á þjóðhagslega óhagkvæmum sviðum, svo sem í fjáraustri til smábyggðastefnu og til hefðbundinna atvinnuvega.

Hlutfallsleg framlög Íslendinga til rannsókna og þróunar eru með hinum lægstu, sem þekkjast í heiminum. Ríkið þarf sjálft að auka vísindaframlög sín um leið og fyrirtækjum og einstaklingum verði veittur skattaafsláttur út á fjárstuðning þeirra við vísindalegar rannsóknir.

Þjóðhagslegur sparnaður okkar er hlutfallslega séð með því lægsta, sem þekkist í heiminum. Enginn sparnaður er að baki íburðarmikilla frétta af kaupum og sölum á pappírum af ýmsu tagi. Svo virðist sem brask með pappíra sé fyrst og fremst rekið með dýrum lántökum.

Ekki hafa dugað hinar hefðbundnu leiðir að veita fjármagnstekjum fríðindi umfram vinnutekjur með lægri tekjuskatti, 10% í stað 40­50%. Vafasamt er, hvort hægt er að ganga lengra á þeirri braut. Við eðlilegar aðstæður væri raunar eðlilegt, að þessar prósentur væru jafnar.

Til eflingar sparnaðar í landinu þarf flóknari aðgerðir. Ráðast þarf að andrúmslofti eyðslu og sóunar. Íslendingar virðast ginnkeyptir fyrir auglýsingum, sem telja þeim trú um, að þeir þurfi nauðsynlega á margvíslegum óþarfa að halda. Kaupæði okkar gengur út yfir allan þjófabálk.

Skólar geta hjálpað með því að benda krökkum á, að fólk þarf ekki á öllu því að halda, sem það langar til að kaupa, og benda á, að sparnaður eykur svigrúm til skynsamlegra ákvarðana um framtíðina. Ríkið getur hjálpað með auglýsingum til mótvægis eyðsluhvatningu.

Mestur árangur mun þó nást með aukningu þess skyldusparnaðar, sem felst í greiðslum fólks til lífeyrissjóða. Reynslan sýnir, að þessi skyldusparnaður er alfa og ómega alls sparnaðar á Íslandi. Hækka þarf greiðslur í sameignar- og séreignasjóði upp í 15­20% af launum.

Ef ráðamenn okkar gæfu sér tíma til að sinna þessum þremur atriðum sérstaklega: of háum sköttum, of litlum vísindapeningum og of litlum sparnaði, væri á tiltölulega skömmum tíma unnt að hala Ísland upp úr 24. sæti í samkeppnishæfni upp í t.d. 5. sæti við hlið Írlands.

Samanburður stofnunarinnar í Davos er okkur mikilvægt hjálpartæki til að finna, hvar skórinn kreppir og hvar okkar menn þurfa að taka á honum stóra sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Verjandinn er sammála

Greinar

Dæmdur sakborningur með allt á hælunum getur borubrattur sagt, að verjandi sinn sé sér sammála, lögmenn séu sem betur fer ekki alltaf sömu skoðunar, dómarar séu mannlegir og geti gert mistök. Þetta er efnislega það, sem utanríkisráðherra sagði í fjölmiðlum um helgina.

Eini munurinn á utanríkisráðherranum og dæmda sakborningnum er, að sá fyrrnefndi verður ekki settur inn. Hann er þeim mun hortugri, vísar í lögfræðinga utanríkisráðuneytisins, sem telji sig ekki hafa gert neitt af sér með framlengingu flugstöðvarstjóra í eitt ár.

Sá er einn tilverugrundvöllur lögfræðinga ráðuneyta að framleiða eftir pöntun álitsgerðir, sem leiða í ljós sakleysi ráðherra sinna og ráðuneytisstjóra. Þeir hafa alltaf gert það og munu alltaf gera, rétt eins og verjendur hafa alltaf varið skjólstæðinga sína og munu alltaf gera.

Stöðvarstjóramálið er í stuttu máli þannig vaxið, að utanríkisráðherra þurfti að koma framsóknarkvígildi á opinbert framfæri. Hann gerði það í þrepum, fyrst með því að setja manninn í stöðu flugstöðvarstjóra á Keflavíkurflugvelli í eitt ár og síðan framlengja hann í eitt ár.

Þegar loksins verður tekið á umsóknum manna eftir að þessi tími er liðinn, geta ráðherrann og undirmenn hans í stjórn Leifsstöðvar sagt, að framsóknarkvígildið hafi tveggja ára reynslu í starfi og sé vel að því komið, enda hafi aðrir umsækjendur enga reynslu í slíku starfi.

Þá verður þægilega fallið í skuggann, að allir umsækjendur höfðu í upphafi meiri og betri starfsreynslu en framsóknarkvígildið, sem þekkt var fyrir það eitt að hafa komizt upp á kant við landslög. Fyrir næstu kosningar verður utanríkisráðherra sloppinn fyrir horn.

Vafasamt er, að það taki því að henda þetta skítamál enn einu sinni á lofti í leiðara dagblaðs. Engin slík mál hafa nein varanleg áhrif á kjósendur, sem halda sínu striki og endurkjósa jafnan þá, sem spilltastir eru og hafa raunar meira traust á þeim en öðrum pólitíkusum.

Svona hefur þetta alltaf verið. Þegar litið er til baka yfir íslenzkar embættaveitingar, má sjá, að meirihluti allra embættismanna þjóðarinnar eru pólitísk kvígildi, sem ekki gátu unnið fyrir sér með eðlilegum hætti, þegar þau voru skipuð í þakkarskyni fyrir flokkshollustu.

Kjósendur geta ekki varið sig með því, að þeim hafi ekki verið kunnugt um spillingu umboðsmanna sinna í stjórnmálunum. Fjölmiðlar hafa jafnan bent á pólitískar mannaráðningar, en það hefur ekki orðið til siðvæðingar innan stjórnmálaflokkanna eða meðal kjósenda þeirra.

Hluti skýringarinnar kann að vera, að alvörufjölmiðlun á Íslandi er umfangslítil miðað við vestrænar stórþjóðir, þar sem fer fram raunveruleg pólitísk umræða milli álitsgjafa utan stjórnmálaflokka. Þar hefði utanríkisráðherra fengið svo á baukinn, að hann ætti ekki viðreisnar von.

Ef utanríkisráðherra Bretlands eða Bandaríkjanna notaði það opinberlega sem afsökun fyrir framferði sínu, að lögfræðingar ráðuneytisins væru sér sammála, væri það tekið sem dæmi um, að hann væri óhæfur ráðherra. Þjóðfélagið í heild væri sammála um þá niðurstöðu.

Íslenzka ástandið verður óbreytt meðan starfandi félagar helztu stjórnmálaflokka vilja hafa það svona eða sætta sig við það. Þeir breyta ekki viðhorfi sínu fyrr en þeir meta stöðuna svo, að hún muni valda fylgistjóni í kosningum. Ekki hefur enn þótt ástæða til slíks mats.

Spilling í mannaráðningum ríkisins er algerlega á ábyrgð kjósenda, sem meðal annars telja siðblindan utanríkisráðherra vera hinn merkasta stjórnmálamann.

Jónas Kristjánsson

DV