Greinar

Lofaður sé Stóri bróðir

Greinar

Ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála og einn af helztu höfundum kvótalaganna hefur með ráðherravaldi verið gerður að hæstaréttardómara til að tryggja meirihluta í dómstólnum með kvótanum. Í þessu skyni gekk ráðherra framhjá reyndum héraðsdómurum.

Þetta atvik er gott dæmi um takmarkanir lýðræðis á Íslandi, annars vegar of litla skiptingu valds og hins vegar of lítið aðhald almennra leikreglna. Það sýnir líka, hversu nauðsynlegt var fyrir okkur að gangast undir fjölþjóðavald Evrópska efnahagssvæðisins.

Frá Evrópu kemur krafan um, að lýðræði sé annað og meira en kosningar á fjögurra ára fresti og alræði ráðherra þess á milli. Þar er krafizt skiptingar ríkisvaldsins á marga staði. Þar er krafizt laga og reglugerða, sem fela í sér leikreglur fyrir alla jafnt.

Aðild okkar að evrópskri samvinnu hefur gert Hæstarétt að fífli. Hvað eftir annað hafa dómar hans verið gerðir afturreka á meginlandinu og íslenzka ríkið neytt til að greiða ríkisborgurum bætur, ef þeir hafa haft bein í nefinu til að sækja réttlæti til Bruxelles.

Stjórnvöld tregðast við að læra af þessari reynslu. Þau nota skipunarvald ráðherra yfir dómsvaldinu til að skekkja dóma í þágu kerfisins. Þau semja lög og reglugerðir til eflingar sérréttinda forréttindahópa, sniðganga til dæmis leikreglur í þágu kvikmyndagerðar.

Dálæti kjósenda og stjórnvalda á gerræðisvaldi ráðherra minnir á ástand fyrri alda hér á landi, þegar innlendir embættismenn stóðu þvert fyrir rétti almúgans. Þá sóttu duglegir bændur rétt sinn til kóngsins í Kaupinhafn. Nú sækja menn rétt sinn til Bruxelles.

Meðvitundarleysi íslenzkra kjósenda gagnvart vestrænum leikreglum lýðræðis, skiptingu ríkisvaldsins og annarri takmörkun þess felur í sér afsal borgaralegra réttinda og um leið afsal fullveldis í hendur Stóra bróður í Bruxelles, sem leiðréttir íslenzk stjórnvöld.

Gildi hinnar óbeinu aðildar okkar að Evrópusambandinu felst ekki nema að litlu leyti í efnahagslegum ávinningi af aðgangi að markaði. Miklu meira máli skiptir aðgangurinn að vestrænum leikreglum og jöfnu réttlæti fyrir alla, vernd gegn gerræði ráðherra.

Íslenzka ríkið er hins vegar oftast og ekki sízt núna rekið í þágu forréttindafyrirtækja, er fá sérleyfi og einkaleyfi á vegum ríkisins, svo sem kvóta og gagnagrunn, og hafa aðstöðu til að kaupa ríkisfyrirtæki fyrir lítið og breyta ríkiseinokun í einkaeinokun.

Röð dæmanna ætti að skelfa kjósendur. Síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar voru gefnar kolkrabbanum. Bifreiðaeftirlitinu var breytt í einkaeinokun, sem hélzt árum saman. Fjárfestingarbanka atvinnulífsins átti að afhenda kolkrabbanum á silfurfati, en tókst ekki.

Forsætisráðherra okkar skiptir skapi, þegar forréttindadæmið gengur ekki upp. Refsivöndurinn er hafður á lofti og gerræðið er skammt undan. Allt þetta láta kjósendur sér vel líka og munu staðfesta hið séríslenzka ástand í næstu alþingiskosningum.

Áður hefur verið sagt hér í leiðara, að ekkert sé það að á Íslandi, sem ekki megi laga með því að skipta um kjósendur. Það er nefnilega kjarni málsins, að íslenzka ráðherraveldið hefur blómstrað í skjóli kjósenda. Meðan þeir kveina ekki, heldur gerræðið sínu striki.

Við þessar aðstæður er eðlilegt að ljúka hverjum degi með því að prísa Stóra bróður í Evrópusambandinu, sem sættir sig ekki við séríslenzka vitleysu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjöldamorðingi á þingi

Greinar

Eftir viku mun Alþingi Íslendinga heiðra einn þekktasta fjöldamorðingja, sem nú er uppi, Li Peng, forseta kínverska þingsins. Hann er einn helzti ráðamaður Kína og átti mikinn þátt í fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar í Beijing 4. júní 1989.

Li Peng fær viðhafnarmóttökur á Alþingi, þar sem ráðamenn munu bukka sig og taka í blóði drifna hönd hans. Með því munu þeir innsigla velþóknun sína á vinnubrögðum Li Peng og pólitíska glæpaflokksins, sem ræður ríkjum í Kína og raunar nokkru víðar.

Þessi móttaka er þar að auki ámælisverð fyrir þá sök, að kínversk stjórnvöld hafa sýnt Íslandi frekju og lítilsvirðingu með tilraunum til afskipta af innanríkismálum okkar og hótunum um refsiaðgerðir vegna opinberrar heimsóknar ráðamanns frá Taívan.

Taívan er starfrækt sem fullvalda lýðræðisríki með flutningi valds milli stjórnmálaflokka í kosningum, með frjálsum fjölmiðlum, lögum og rétti. Skipan þjóðmála er þar með svipuðum hætti og hér, sem hlýtur að leiða til vinsamlegra samskipta og kaupsýslu.

Ekkert af því, sem greinir lýðræðisríki frá öðrum ríkjum, er sjáanlegt í Kína. Til dæmis hafa erlend fyrirtæki rekið sig á, að þau njóta ekki verndar laga og réttar í Kína, ef ráðamönnum hentar að kúga þau. Kína er land geðþóttaákvarðanna af hálfu glæpamanna.

Verktakar og fjárfestar um allan heim hafa farið illa út úr viðskiptum við Kína. Samt eru Orkuveita Reykjavíkur og Virki að hætta sér í sama svartholið og lakkrísverksmiðjan fræga á sínum tíma. Í tilviki orkuveitunnar er óbeint um fé skattborgara að ræða.

Þingið í Kína gegnir ekki sama hlutverki og Alþingi Íslendinga. Þingið í Kína er fyrirfram skipulögð leiksýning til að fagna ákvörðunum stjórnvalda. Alþingi Íslendinga er hins vegar virkur aðili að þjóðmálunum, að vísu minni máttar aðili, en virkur samt.

Vafasamar eru opinberar heimsóknir milli stofnana, sem gegna svona misjöfnu hlutverki, jafnvel þótt allt væri að öðru leyti með felldu. Mestu máli skiptir þó, að nóg er til af hugsanlegum gestum frá löndum, sem búa við þá skipan þjóðmála, sem við höfum hér á landi.

Raunar ættu lýðræðisríki heims með Bandaríkin og ríki Evrópusambandsins í broddi fylkingar að fara að flokka samskipti við ráðamenn ríkja, þar á meðal heimsóknir, eftir því, hversu náið þeir fara eftir ákvæðum stofnsamþykkta Sameinuðu þjóðanna.

Það er í þágu framvindu lýðræðis og frjálsrar kaupsýslu í heiminum, að samskipti séu sem mest og greiðust milli ríkja, sem fara í öllu eftir leikreglunum, en stigmögnuð frysting sé á samskiptum við þau ríki, sem víkja langt frá þessum leikreglum.

Ef við tökum Serbíu og Írak sem dæmi, þá væri öflugra að banna landgöngu yfirstéttarfólks á Vesturlöndum heldur en að beita efnahagslegum refsiaðgerðum, sem koma harðast niður á almenningi. Glæpalýðnum finnst t.d. vont að geta ekki verzlað í París.

Það er gersamlega út úr kú, að Alþingi skuli einmitt bjóða hingað stjórnanda leiksýningar, sem á ekkert skylt við þingræði; alræmdum ofbeldismanni, sem stóð fyrir einu þekktasta blóðbaði síðustu áratuga; fulltrúa ríkis, sem hefur sýnt Íslandi dónaskap.

Dagurinn 2. september verður dagur niðurlægingar Alþingis, þegar þingforsetar munu stilla sér upp í röð til að hneigja sig fyrir og taka í höndina á Li Peng.

Jónas Kristjánsson

DV

Stalín fór og Pútín kom

Greinar

Munurinn á Pútín og Stalín er fyrst og fremst sá, að Stalín hafði mikinn tíma til að koma upp ógnarstjórn sinni, en Pútín er rétt að byrja feril sinn. Hugarfar þeirra er svipað, það sama og ræktað var áratug eftir áratug með embættismönnum Sovétríkjanna sálugu.

Sameiginlegt einkenni er sjúkleg tortryggni og leyndarþrá. Á valdatíma Pútíns hafa yfirlýsingar stjórnvalda færzt í horf Stalíns, hvort sem fjallað er um sjálfstjórnarhéraðið Tsjetsjeníu eða kafbátinn Kúrsk. Staðreyndir eru ekki einu sinni aukaatriði í yfirlýsingum kerfisins.

Eftir kafbátaslysið gáfu yfirvöld út margvíslegar og misvísandi yfirlýsingar um orsakir þess. Þótt engar væru þær eins, áttu allar það sameiginlegt að koma hvergi nærri staðreyndum málsins. Stjórnvöld fundu enga þörf til að upplýsa almenning um raunverulega stöðu mála.

Pútín vildi ekki fá útlendinga til aðstoðar við björgun, en neyddist til þess, af því að fólk trúði ekki fréttum kerfisins. Hann sér nú eftir að hafa látið undan, því að athuganir Breta og Norðmanna á kafbátnum gera kerfinu ókleift að flytja frekari rangfærslur um stöðu mála.

Pútín lenti í vandræðum með tortryggnina og leyndarþrána í máli kafbátsins Kúrsk. Hann komst hins vegar upp með rangar upplýsingar um gang og stöðu styrjaldarinnar í Tsjetsjeníu. Í því máli var rússneskur almenningur reiðubúinn að trúa orðum arftaka Stalíns.

Tortryggni rússneska kerfisins, arfsins frá sovézka kerfinu, hefur greinilega komið fram í máli Alexanders Nikitins, eftirlaunaskipstjóra úr flotanum, sem vann skýrslur fyrir norska umhverfisstofnun um kjarnorkuvélar í ryðgandi kafbátahræjum við Kolaskaga.

Í tæp fimm ár hefur Nikitin verið kærður níu sinnum fyrir njósnir, sumpart fyrir brot á leynilegum lögum og sumpart fyrir brot á afturvirkum lögum. Pútín hefur verðlaunað helzta ofsækjanda Nikitins með því að gera hann að sérstökum yfirvarðhundi sínum í Pétursborg.

Blaðamaðurinn Grigori Pasko var dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir njósnir, er sýnd var í sjónvarpi myndbandsupptaka hans af herskipi flotans, þegar það var að fleygja kjarnorkuúrgangi í Japanshaf. Nokkrir tugir rússneskra umhverfissamtaka sæta nú ákærum stjórnvalda.

Pútín er sérstaklega uppsigað við umhverfissinna, enda urðu Sovétríkin sálugu mesta umhverfisslys, sem hnötturinn hefur orðið fyrir frá upphafi sagnfræðinnar. Undir stjórn hans leggur rússneska kerfið sérstaka áherzlu á að varðveita leyndarhjúpinn um þessa mengun.

Á Vesturlöndum vita menn, að lýðræði er allt annað og meira en kosningar. Vestrænt lýðræði felur í sér gegnsætt stjórnarfar og upplýsingaskyldu, dreifingu valdsins á marga staði, skipti á ríkisstjórnarflokkum, lög og rétt. Flest eru þetta atriði, sem eru eitur í beinum Pútíns.

Hann beitir leynilegum og afturvirkum lögum gegn þeim, sem honum er illa við. Hann reynir að safna öllu valdi í sínar hendur. Hann reynir að gera stjórnarfarið eins ógegnsætt og hægt er. Þetta allt lærði hann í leyniþjónustunni KGB, sem var hans fyrri vinnustaður.

Pútín fór í stríð við Tsjetsjeníu til að æsa þjóðernisofsa upp í Rússum og fá þá til að styðja sig í kosningunum á þessu ári. Þannig falla stalínsk vinnubrögð að rússneskum kjósendum, sem hafa kynslóð eftir kynslóð ekki þekkt annan sannleika en þann, sem kemur að ofan.

Vesturlönd eiga eftir að hafa mikil óþægindi af stjórnvöldum Rússlands, sem sigla beitivind í átt til þess ástands, sem ríkti í Sovétríkjunum sálugu.

Jónas Kristjánsson

DV

Auður sjór á norðurpól

Greinar

Fjölþjóðlegur hópur vísindamanna, sem kom til norðurpólsins á rússneskum ísbrjóti fyrir helgina, komst að raun um, að þar var auður sjór. Slíkt hefur ekki gerzt í 50 milljón ár, svo vitað sé og er talið mikilvægt sönnunargagn í umræðunni um hækkun hitastigs jarðar.

Sigla varð ísbrjótnum Jamal níu kílómetra frá pólnum samkvæmt GPS-mælingu til þess að hægt væri að taka hina hefðbundnu pólarmynd af leiðangursmönnum. Þegar ísbrjótnum var siglt til pólsins fyrir sex árum, var ísþykktin tveir til þrír metrar á sjálfum pólnum.

Þetta er í samræmi við mælingar á meðalþykkt ísþekjunnar í norðurhöfum. Hún hefur á skömmum tíma minnkað úr þremur metrum í tæpa tvo metra og heildarrúmmál hennar minnkað um helming. Fræðimenn eru nú farnir að tala í alvöru um, að ísþekjan sé að hverfa.

Á sama tíma hafa rannsóknir í Bandaríkjunum leitt til þeirrar niðurstöðu, að fjórðungur af losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið stafi af náttúrulegum ástæðum á borð við eldgos og skógarelda og þrír fjórðu hlutar vegna afskipta mannkynsins af umhverfi sínu.

Til skamms tíma hafa stórfyrirtæki í mengunargreinum borgað stórfé til rannsókna, sem eiga að draga í efa, að samhengi sé milli losunar gróðurhúsalofttegunda og hækkunar hitastigs í heiminum og eiga að draga í efa, að hiti sé að hækka í heiminum og að það sé hættulegt.

Nú hafa ráðamenn margra þessara fyrirtækja snúið við blaðinu og tekið upp stuðning við samtök gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Að eigin frumkvæði hafa þeir sett fyrirtækjunum markmið um minnkandi mengun og segja þau ekki kosta eins mikið og áður hafði verið talið.

Með nýjum rannsóknum og auknum flótta í liði fyrirtækja í orkugeiranum fækkar stuðningsmönnum sjónarmiða umhverfisfjandsamlegrar ríkisstjórnar Íslands og hagsmunaaðila í orkumálum og sjávarútvegi. Þá er nú helzt að finna í austri hjá ríkisstjórn Rússlands.

Þar er fólk ofsótt fyrir að fylgjast með mengun og kært fyrir iðnaðarnjósnir. Frægasta dæmið er Alexander Nikitin, sem hefur níu sinnum á fimm árum verið ákærður fyrir góða og fræðilega skýrslu á vegum Norðmanna um kjarnorkuúrgang rússneska norðurflotans.

Afleiðingar hækkunar hitastigs á hnettinum eru margvíslegar, sumpart góðar og sumpart vondar. Ef breytingin gerist hratt, verða vondu afleiðingarnar meiri, af því að umhverfið þarf langan aðlögunartíma. Sums staðar geta auknir þurrkar til dæmis leitt til eyðingar jarðvegs.

Fyrir Ísland verður flutningur fiskistofna eitt erfiðasta málið. Þeir hafa hingað til flutt sig til eftir hitastigi og kunna margir bezt við sig við mörk heitra og kaldra strauma. Ef sjávarhiti eykst og straumaskil færast norðar, kunna fiskistofnar að leita í átt til norðurpólsins.

Allt samhengið ætti að vera stórmál fyrir þjóð, sem er háðari frumvinnslugreinum en flestar auðþjóðir heimsins. Losun gróðurhúsalofttegunda og breytingar á hitastigi í lofti og í sjó ættu að vera ofarlega á gátlistum hagsmunaaðila í þessum greinum og ríkisstjórnarinnar.

Í staðinn leggur forsætisráðherra lykkju á leið sína í hátíðaræðum til að veitast að Kyoto-sáttmála ríkja heims um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Og utanríkisráðherra flækist um heiminn til að reyna að hafa ráðamenn ofan af stuðningi við Kyoto-sáttmálann.

Róður þeirra þyngist, því að upp hlaðast gögn, sem benda til, að mannkynið í heild og Íslendingar sérstaklega muni lenda í erfiðleikum vegna þessarar mengunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ljósleiðari heimilanna

Greinar

Reykjavíkurborg hyggst gefa öllum borgarbúum kost á öflugu netsambandi fyrir menntun og myndsíma, sjónvarp og stafræn samskipti, verzlun og öryggiskerfi. Þetta verður gert með sérstakri knippatækni í ljósleiðurum, sem lagðir verða til allra heimila.

Meirihluti Reykjavíkurlistans telur, að fyrirtækið Lína.Net, sem er að mestu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, hafi eitt yfir að ráða tækni frá símafyrirtækinu Ericsson, sem geri þetta einstæða stórvirki kleift á skömmum tíma á fjárhagslega skynsamlegan hátt.

Minnihluti Sjálfstæðisflokksins efast um þetta og vill láta bjóða verkið út í stað þess að semja við Línu.Net. Efasemdirnar eru ekki trúverðugar, því að undirbúningur málsins hefur staðið lengi og öllum fyrirtækjum á þessu sviði verið gefinn kostur á að bjóða þjónustu.

Tölvuráðgjafi borgarinnar telur, að enginn annar en Lína.Net geti boðið þjónustuna um þessar mundir. Önnur fyrirtæki kunna að geta eitthvað svipað, þegar fram líða stundir, en verðið frá Línu.Neti er svo gott, að ástæðulaust er að bíða með hendur í skauti.

Ef nýja tæknin virkar, virðist einsýnt, að Sjálfstæðisflokkurinn getur aðeins tapað á tilraunum sínum til að tefja málið. “Þetta er flokkurinn, sem reyndi árið 2000 að koma í veg fyrir ljósleiðara inn á hvert heimili”, verður sagt í næstu kosningabaráttu.

Þegar um uppgötvanir er að ræða, fer samanburður milli fyrirtækja eftir því, hvort þau hafa yfir hinni nýju tækni að ráða eða ekki. Þegar um þróaða framleiðslu er að ræða, sem margir geta boðið, fer samanburðurinn einkum eftir því verði, sem fyrirtækin geta boðið.

Þótt útboð geti ekki útvegað borgarbúum ódýrari aðferð við að fá ljósleiðara inn á hvert heimili, þá er útboð venjulega ódýrasta leiðin, þegar þjónusta er keypt. Þess vegna hefur borgin ákveðið að hafna einokun Landssímans og bjóða út símaþjónustu fyrir sig.

Athyglisvert er, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hyggjast ekki láta bjóða út símaþjónustu á vegum ríkisins. Áhugi flokksins á kenningum um markaðsgildi útboða fer eftir ýmsu öðru en málefnalegum forsendum.

Þegar margir aðilar geta boðið símaþjónustu, er eðlilegt, að stórir viðskiptaaðilar á borð við ríki og borg bjóði þjónustuna út. Þegar aðeins einn aðili getur boðið upp á tækninýjung, er eðlilegt að grípa gæsina, í stað þess að tefja málið með langvinnu útboðsferli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar þá stefnu, að útboð skuli ekki fara fram, ef þau eru í óþökk Landssímans, en þau skuli hins vegar fara fram, ef þau beinast gegn keppinautum Landssímans. Þetta er eini sameiginlegi þráðurinn í fjarskiptastefnu flokksins.

Annaðhvort lánast ljósleiðaravæðing heimilanna í Reykjavík eða ekki. Um það mun málið snúast í næstu borgarstjórnarkosningum. Allt bendir til, að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna hafi afhent meirihluta Reykjavíkurlistans áróðursvopn á silfurfati.

Öflugt netsamband sérhvers heimilis verður væntanlega ein helzta skrautfjöður borgarinnar á næstu árum. Reykvíkingar komast í fararbrodd þróunar fjarskiptatækni fyrir almenning. Þetta er glæsilegt og hagkvæmt markmið, sem er og verður borginni til sóma.

Meirihlutanum í Reykjavík ber að halda sínu góða striki í þróun fjarskiptatækni fyrir alla borgarbúa og láta úrtölur minnihlutans ekki tefja fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Kyoto-andstaða linast

Greinar

Regnhlífarsamtök bandarískra stórfyrirtækja gegn Kyoto-sáttmálanum um takmörkun á losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda hafa glatað áhrifamætti og yfirburðastöðu í umræðunni að undanförnu. Ýmis stórfyrirtæki hafa lagzt á hina sveifina síðustu misserin.

Stórfyrirtæki á borð við Intel, DuPont, British Petroleum og bandaríska landsvirkjunin American Electric Power eru hætt að styðja regnhlífarsamtökin Global Climate Coalition og eru farin að styðja Pew Centre, sem er helzta baráttustofnunin gegn losun lofttegundanna.

Forustumenn þessara fyrirtækja og annarra slíkra hafa aflað sér ytra eftirlits með útblæstri verksmiðja sinna og hafa að eigin frumkvæði sett sér markmið um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þau telja þetta ódýrara en áður var talið og geta leitt til hagkvæmari rekstrar.

Um leið verða úreltar kenningar Bjørn Lomborgs í bókinni Hið sanna ástand heimsins, sem kom út á íslenzku fyrir nokkrum dögum á vegum Fiskifélags Íslands. Bókin kemur of seint til að þjóna málstað þeirra, sem vilja spara fiskiskipaflotanum breyttan vélakost.

Lomborg hélt því fram að hætti Global Climate Coalition, að markmið Kyoto-sáttmálans væru ekki nógu vel skilgreind og að þau væru of dýr. Of miklum fjármunum yrði varið til að verjast meintu vandamáli, sem alls ekki væri sannað að væri neitt vandamál.

Nú hafa þeir hins vegar orðið ofan á vestan hafs, sem telja, að losun gróðurhúsalofttegunda af mannanna völdum hækki hitastig á jörðinni, að það sé mannkyninu hættulegt og verði því mjög dýrt um síðir og að aðgerðir gegn þessari þróun séu ekki tilfinnanlega dýrar nú.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Eftir kúvendingu bandarískra stórfyrirtækja verður erfiðara fyrir forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands, svo og Fiskifélagið, Landsvirkjun, Reyðarál og aðra andstæðinga Kyoto-samkomulagsins að sá efasemdum um það hér á landi.

Þess er skemmst að minnast, að ekki er nema rúmur áratugur síðan ríki heimsins sömdu um bann við losun ózoneyðandi efna. Þá var spáð, að framkvæmdin yrði of dýr, en svo reyndist ekki. Markmið samkomulagsins náðust og nú vænta menn, að ózongötin fari að minnka.

Reynslan af ózonmálinu er svipuð og reynslan af öðrum aðgerðum stórfyrirtækja í þágu umhverfisins. Þær hafa ekki reynzt eins dýrar og andstæðingarnir héldu fram. Í mörgum tilvikum telja forvígismenn fyrirtækjanna, að reksturinn sé betri og ódýrari eftir aðgerðirnar.

Almennt er að ryðja sér til rúms í heiminum vistvæn stefna fyrirtækja og samtaka þeirra. Þeir aðilar, sem áður ollu umhverfi mannsins mestum skaða, eru nú fremstir í flokki þeirra, sem reyna að bæta umhverfið. Þessi stefnubreyting markar þáttaskil í umhverfisvernd.

Um leið vekur þetta athygli á einkennilegri stöðu mála hér á landi, þar sem stjórnarflokkarnir báðir og forustumenn þeirra hafa skipað sér í raðir helztu umhverfisóvina heims, reyna að troða upp á okkur óþörfum virkjunum og álverum og rægja Kyoto-sáttmálann við hvert færi.

Þarfara væri fyrir hagsmuni okkar, að landsfeðurnir styddu þróun í átt að sjálfbærum rekstri atvinnulífsins í sátt við umhverfið og framtíðina. Sjávarútvegur og landbúnaður okkar eiga því miður langt í land og því þarf að hefja réttan umhverfisferil sem allra fyrst.

Við eigum hvorki landið, hafið né loftið. Við höfum bara fengið þetta til varðveizlu fyrir hönd afkomendanna. Við höfum ráð á að haga okkur samkvæmt því.

Jónas Kristjánsson

DV

Ragnarökin brugðust

Greinar

Fyrir meira en fjörutíu öldum var upplýst á egypzkri steinristu, að heimur versnandi færi. Æ síðan hafa heimsendaspár verið vinsælar. Raunar hafa ragnarök og dómsdagur orðið að hornsteini mikilvægra trúarbragða og á þessari öld tilefni fræðilegra trúarbragða.

Margir tóku trú á bók Rachel Carson, Vorið þagnar, sem kom út 1963. Síðan tók við bók Paul Ehrlich, Fólksfjölgunarsprengjan, sem kom út 1968. Endimörk vaxtar eftir Meadows og Meadows kom út 1972 og Hin sökkvandi örk eftir Norman Myers kom út 1979.

Skemmst er frá því að segja, að spár þessara bóka rættust ekki. Fólksfjölgun hefur hægt mikið á sér og mun stöðvast við ellefu milljarða. Fátækt og hungur fer jafnt og þétt minnkandi. Nóg verður lengi enn til af olíu og annarri orku og nóg af öllum mikilvægum málmum.

Þótt menn hafi glatað trú á ofangreindar bækur, ganga enn aftur tölur og fullyrðingar úr þeim. Ennfremur hafa komið til skjalanna nýir spámenn. Fremstur þeirra er Lester Brown, sem rekur Worldwatch Institute og gefur á hverju ári út svartsýnt ársrit um Ástand heimsins.

Nú er komin út á íslenzku dönsk bók eftir Bjørn Lomborg, Hið sanna ástand heimsins, þar sem hann fer yfir ýmsar tölur og fullyrðingar ofangreindra bóka og ársrita og annarra slíkra og kemst að þeirri niðurstöðu, að ástand heimsins sé allt annað og betra en þar er lýst.

Dæmigert um þetta er súra regnið, sem var ógnvaldurinn um 1989, en hefur fallið í gleymsku, þegar skógarnir létu undir höfuð leggjast að deyja. Annað er fullyrðingin um, að regnskógarnir séu að hrynja, sem einkum er haldið fram af Claude Martin hjá World Wildlife Fund.

Staðreyndin er sú, að skógar hafa nánast ekki minnkað og að enn standa eftir 80% af upprunalegum regnskógum. Minnkunin nemur um 0,7% á ári. Aðeins 5% af skógum heims standa undir allri timbur- og pappírsþörf mannkyns. Pappírsskógar Norðurlanda eru sjálfbærir.

Þar með er ekki sagt, að menn eigi að sætta sig við minnkun regnskóga, aðeins að menn eigi að miða við réttar tölur, þegar þeir fjalla um málið. Ástand umhverfisins er ekki nógu gott, en það er ekki eins afleitt og margir vilja vera láta og í flestum tilvikum endurnýjanlegt.

Nóg er til af góðu drykkjarvatni í heiminum, en misjafnt eftir stöðum og víðast hvar er illa er farið með það, einkum í fátæku löndunum. Úthöf og strendur eru fljót að jafna sig eftir heimsfræga olíuleka. Sorp og eiturefni hlaðast ekki upp í umhverfinu í hættulegum mæli.

Enginn fótur er fyrir þeirri margnotuðu tölu, að 40.000 tegundir lífvera deyi út á hverju ári. Það er vitleysa upp úr bók Myers, sem menn éta hver upp eftir öðrum, Edward O. Wilson með mestum árangri árið 1992 í bókinni Fjölbreytni lífsins. Rétt tala er innan við 400.

Sumpart hafa hrakspár ekki rætzt vegna þess að fólk hefur gripið í taumana. Árið 1987 var samið um bann við notkun ózoneyðandi efna. Samkvæmt því eiga ózongöt himinhvolfsins að vera í hámarki í ár og minnka síðan. Spennandi verður að vita, hvort það gerist.

Við þurfum ekki heimsendaspár til að vita, að hvorki sjávarútvegur né landbúnaður Íslands eru sjálfbærir. Við sjáum, að afli flestra nytjafiska fer jafnt og þétt minnkandi á hverju ári. Og við vitum, að miklu af gróðurþekju Íslands hefur verið eytt á ellefu öldum Íslandsbyggðar.

Bók Lomborgs er gagnleg, því að hún segir öllum, sem vilja vernda umhverfi mannkyns, að til langs tíma er farsælast að fara með réttar tölur um aðsteðjandi vanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættulegur flugvöllur

Greinar

Eitthvað meira en lítið er að á flugvellinum í Reykjavík, þegar afturkalla þarf á síðustu stundu lendingarleyfi, sem flugvél hefur þegar fengið. Eitthvað meira en lítið er að á flugvellinum í Reykjavík, þegar önnur flugvél er fyrir á flugbrautinni, sem á að nota.

Það breytir engu, þótt flugmálayfirvöld segi, að slíkt komi stundum fyrir, jafnvel í útlöndum. Þau sögðu það líka fyrir fjórtán árum, þegar erlendir fjölmiðlar sögðu að gefnu tilefni frá árekstrahættu flugvéla við Reykjavíkurflugvöll. Þetta er bara sinnulítið yfirklór.

Heilbrigð dómgreind segir okkur, að slysahætta við Reykjavíkurflugvöll aukist, þegar flugbrautir eru lokaðar vegna endurbóta. Þá er ekki hægt að nota hagstæðustu vindátt og þá er minna svigrúm fyrir flugvélar, sem verið er að færa til á flugvellinum.

Ekki er víst, að flugslysanefnd finni beint samband milli almennra eða tímabundinna aðstæðna á flugvellinum og ákveðins flugslyss. En óbeina sambandið er öllum sýnilegt. Flugvöllurinn er öryggisvandamál og enn meira vandamál á viðgerðartímanum.

Áratugum saman hefur verið bent á, að það gangi ekki til lengdar, að innanlandsflugið sé rekið frá borgarmiðju Reykjavíkur. Hvenær verða flugslys ekki í Skerjafirði, heldur í miðborginni? Sinnulítil flugmálayfirvöld geta ekki staðið undir þeirri ábyrgð.

Í stað þess að plástra í holurnar á flugbrautum til bráðabirgða eru samgönguráðuneytið og flugmálastjórn nú að verja mánuðum og hálfum öðrum milljarði króna til að gera flugvöllinn varanlegan og það meira eða minna í óþökk borgaryfirvalda.

Þessi hálfi annar milljarður verður síðan notaður til að rökstyðja, að svo mikið sé búið að leggja í Reykjavíkurflugvöll, að óhagkvæmt sé að flytja innanlandsflugið annað. Þessi sami hálfi annar milljarður hefði dugað til að breikka veginn suður á Keflavíkurflugvöll.

Er það virði öryggis farþega og borgarbúa að samgöngur í lofti innanlands séu hálfum tíma sneggri frá Reykjavík en Keflavík? Er áætlunarflugi ekki hvort sem er lokið eða að ljúka til annarra staða en Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða og Vestmannaeyja?

Eina góða röksemdin fyrir framhaldslífi Reykjavíkurvallar er, að hann kemur í veg fyrir framkvæmd hugmynda félagsins Betri byggðar um þétta byggð í Vatnsmýrinni í stað eðlilegrar þróunar perlufestarbyggðar höfuðborgarsvæðis frá Reykjanesbæ að Borgarnesi.

Þótt flugvöllurinn hafi þann kost að taka pláss, sem annars yrði hugsanlega notað til skaðlegra ráðagerða í skipulagsmálum borgarinnar, er hætt við, að flugslysið í Skerjafirði geti sett strik í þá röksemdafærslu. Það er ekki bæði hægt að éta grautinn og eiga hann.

Er ekki skárra að sæta undarlegu og skammsýnu borgarskipulagi embættismanna Reykjavíkur heldur en ótraustu og sinnulitlu öryggi flugmálstjórnar og samgönguráðuneytisins? Af tvennu illu er verra að setja traust sitt á þá, sem bera ábyrgð á flugvellinum.

Flugslys á Íslandi hafa flest orðið vegna veðurskilyrða og landslags. Fátt er um slys við lendingar og flugtök, nema í Reykjavík. Tilviljun kann að ráða því, að eitt slíkt slys hefur einmitt orðið, þegar völlurinn er í lamasessi vegna óskynsamlegra endurbóta.

Hvort sem samband flugslyss og viðgerða er beint eða óbeint, þá hefur bætzt við þungvæg röksemd fyrir því, að innanlandsflugið verði flutt úr borgarmiðju.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkalíf peninga

Greinar

Slæma útreið fengu tilraunir nokkurra forustumanna ungra sjálfstæðismanna til að vekja athygli á, að friðhelgi einkalífsins eigi að ná til álagningarskrár skatta. Þeir lentu að vísu aðeins óbeint í klóm fjölmiðla, en beinlínis í klóm reiðs almennings, sem vildi komast í skrárnar.

Ekki var við að búast, að hugmyndafræðingunum tækist það, sem fjármálaráðuneytinu hefur ekki lánazt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir á síðustu árum. Almenningsálitið er fylgjandi opnum álagningarskrám og hefur notið stuðnings Alþingis gegn leyndarþrá ráðuneytismanna.

Eftir uppákomuna eru leyndarsinnar fjær því en áður að ná fram svipaðri skilgreiningu á víðáttu einkalífs og gildir í sumum nálægum löndum, þar sem álagningarskrár eru ekki birtar. Íslendingar eru frá fornu fari vanir því, að þessar skrár liggi frammi í kaupfélaginu.

Aðgangur að álagningarskrám er eins konar kjötkveðjuhátíð á Íslandi. Í nokkra daga á ári fá menn að gramsa í því, sem aðrir menn telja heilagt, og geta haft stór orð um getu sumra til að koma tekjum sínum hjá skatti, áður en grár hversdagsleikinn ríður aftur yfir.

Opnar álagningarskrár hafa þann lýðræðislega kost að stuðla að gegnsæi í þjóðfélaginu. Þær þrengja möguleika kerfisins á að varðveita göt á skattakerfinu og þrengja möguleika þeirra, sem eindregnast vilja komast hjá því að greiða opinber gjöld. Þær gera suma menn hlægilega.

Í þessu efni sem ýmsum öðrum takast á kennisetningar um friðhelgi einkalífs og gegnsæi lýðræðisþjóðfélags. Það getur verið álitamál eftir aðstæðum á hverjum stað og tíma, hvar skuli draga mörkin. Leyndarsinnaðir embættismenn hafa ráðið of miklu um skilgreininguna.

Að baki tilrauna forustumanna ungra sjálfstæðismanna eru tilraunir skoðanabræðra þeirra víða um heim til að víkka hugtak einkalífsins og láta það ná til peninga og fyrirtækja, rétt eins og þessi lögformlegu fyrirbæri séu eins konar persónur, sem hafi eigið líf og eigin sál.

Með því að kalla fyrirtæki lögpersónur er verið að gefa í skyn, að persónuvernd eigi að ná til fyrirtækja og fjármagns. Oft ráða samkeppnishagsmunir því, að ráðamenn fyrirtækja reyna að virkja hugtak friðhelginnar í þágu sjónarmiða sinna. Og þeim tekst það stundum.

Mikilvægt er að gera greinarmun á þörfum fólks fyrir friðhelgi einkalífs, til dæmis á heimili sínu, og á peningalegum og rekstrarlegum hagsmunum af ýmsu tagi, sem reyna að sigla undir fölsku flaggi friðhelginnar. Hinar umdeildu álagningarskrár eru dæmi um þetta.

Erlendis eru farin að sjást merki þess, að þrengt verði að möguleikum fjárhagslegra hagsmuna til að fela sig í skjóli persónuverndar. Evrópusambandið og Bandaríkin gerðu í vor hríð að smáríkjum, sem hafa reynt að græða á bankaleynd í þágu peningaþvottar af ýmsu tagi.

Bankaleyndarríki á borð við Lichtenstein eru að lenda í vaxandi erfiðleikum í samskiptum sínum við umheiminn. Refsiaðgerðir Evrópusambandsins geta orðið því dýrt spaug. Svisslendingar eru skref fyrir skref að draga úr bankaleynd sinni til að sefa bandaríska reiði.

Þótt hagsmunaskákin teflist fram og aftur, má sjá þá meginlínu á Vesturlöndum, að vörnin þyngist hjá þeim, sem vilja bregða leyndarhjúp yfir rekstur og fjármálaumsvif fyrirtækja og einstaklinga. Krafan um gegnsætt samfélag verður sífellt þyngri á metaskálunum.

Þess vegna er holur hljómur í tilraunum til að víkka hugtök einkalífs og friðhelgi frá persónum yfir á peningalega og rekstrarlega hagsmuni á borð við skatta.

Jónas Kristjánsson

DV

Fólk, fé og fyrirtæki

Greinar

Ekkert er ríkinu fast í hendi nema sagan og kannski tungan. Fólk kemur og fer, fé kemur og fer og fyrirtæki koma og fara. Ef vel gengur, sogast fólk, fé og fyrirtæki inn í landið. Ef illa árar, flýr fólk, fé og fyrirtæki af landi brott. Ísland er bara brautarstöð í hringiðunni.

Þegar Íslenzk erfðagreining hóf rekstur hér á landi, tókum við allt í einu eftir því, að úti um heim var fullt af langmenntuðum Íslendingum, sem vildu koma heim að námi loknu, en fengu ekki fjárhagsleg færi á því, fyrr en þetta merkilega hálaunafyrirtæki var stofnað.

Því menntaðra og hæfara að öðru leyti sem fólk er, þeim mun betri kost hefur það á vali starfsvettvangs. Ef því geðjast ekki að tekjum eða öðrum aðstæðum hér á landi, sogast það annað, þar sem betur er boðið. Þetta er atgervisflóttinn, sem oft hefur hrjáð íslenzka ríkið.

Þýzka ríkið er fyrir sitt leyti orðið svo örvæntingarfullt, að það hefur sett í gangi ferli, sem miðar að því að soga til landsins tíuþúsund tölvumenntaða Indverja til að efla samkeppnishæfni þjóðfélagsins á tímum mikilla framfara í tölvutækni. Þetta er nýjung, markviss atgervissókn.

Fé leikur enn frekar lausum hala. Ef menn selja kvóta eða eignast mikið fé á annan hátt, reynist þeim létt að flytja peningana úr landi. Menn fjárfesta í erlendum rekstri og flytja síðan á eftir fénu, öðrum ríkjum til gagns, en íslenzka ríkið fær ekkert fyrir sinn snúð.

Stundum er þetta ferli beinna og einfaldara. Peningamenn setjast einfaldlega í helgan stein á einhverjum Bahama-eyjum nútímans og skilja ekkert eftir sig í upprunalandinu. Þeir gerast fyrrverandi Íslendingar og verða sem slíkir ekki lengur mjólkaðir af íslenzku ríkisvaldi.

Fyrirtæki fjárfesta í erlendum fyrirtækjum, dreifa rekstri sínum um víðan völl og flytja jafnvel höfuðstöðvar sínar milli landa. Íslenzk erfðagreining þarf ekki að flytja, því að þetta er bara heiti á rekstri bandaríska fyrirtækisins deCode Genetics, sem á heima í Delaware.

Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa flutt rekstrarafgang sinn til útlanda, styðja þar efnahagslífið og veita þar atvinnu. Tölvufyrirtæki eru komin með skrifstofur víða um heim og geta í einu vetfangi flutt höfuðstöðvar sínar þangað. Ríkisvaldið fær engu um þetta ráðið.

Fólk, fé og fyrirtæki gæta hagsmuna sinna í hringiðunni og þeir þurfa ekki að fara saman við hagsmuni ríkisvaldsins, sem eitt er staðbundið við Ísland og getur ekki flúið annað, ef illa árar. Ríkið þarf því að tefla skákina þannig, að fólk, fé og fyrirtæki vilji vera hér.

Ríkið þarf því að gæta hófs í álögum sínum, án þess að víkja frá velferðinni, sem er einn af hornsteinum þess, að fólki líði vel í siðmenntuðu þjóðfélagi hér á landi. Ríkið verður að velta hverri krónu fyrir sér og má til dæmis ekki sukka með peninga í smábyggðastefnu.

Sérstaklega er mikilvægt, að peningar ríkisins nýtist vel til að mennta unga fólkið feiknarlega mikið og vel, til að halda uppi góðu heilsufari í landinu og til að halda uppi ómenguðu umhverfi og ósnortnu víðerni. Allt slíkt stuðlar að því að halda fólki og fé og fyrirtækjum.

Þótt allt þetta verði vel og samvizkusamlega gert, heldur landið áfram að vera brautarstöð í hringiðunni. Ríkið getur aldrei lagzt á lárviðarsveigana. Gera verður ráð fyrir, að nánasti umheimur sé alltaf að bæta sig. Ríkið þarf því að hlaupa hratt, bara til að halda jöfnu.

Aðalatriðið er, að ríkið hætti gæluverkum sínum og beini atorku sinni fremur að því að láta fólki, fé og fyrirtækjum líða betur hér á landi en annars staðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandarískur ófriður

Greinar

Vegna eindregins stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael náðist ekki samkomulag milli Palestínu og Ísraels á fundinum í Camp David. Ísraelar þykjast vissir um stuðning Bandaríkjanna, ef samningar takast ekki og róstur hefjast að nýju á hernumdum svæðum þeirra í Palestínu.

Með peningum og vopnum hafa Bandaríkin gert Ísrael að voldugu herveldi, sem fer sínu fram án tillits til víðtækari hagsmuna Bandaríkjanna. Ef stjórnvöld í Bandaríkjunum linast í stuðningnum, á Ísrael vísa hjálp þingmanna, sem óttast þrýstihópa stuðningsmanna Ísraels.

Clinton Bandaríkjaforseti hefur gengið lengra en fyrri forsetar í stuðningi við Ísrael. Meðan hann er við völd, verður þess ekki að vænta, að Ísrael verði látið gjalda fyrir stífni í friðarsamningum við Palestínu og fyrir ítrekuð brot á Óslóar-samkomulaginu um skil á landi.

Ekki er von á friði á valdasvæði Ísraels, meðan Bandaríkjastjórn fæst ekki til að setja hnefann í borðið og krefjast þess, að Ísrael standi við gerða samninga og fari að öðru leyti eftir alþjóðlegum samningum, svo sem um bann við pyntingum fólks á hernumdum svæðum.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna snýst í of miklum mæli um stuðning við óstýrilátt og ofbeldishneigt Ísrael og gríðarlegar mútur til Egyptalands til að halda þar uppi ólýðræðislegu lögregluríki, sem sér í staðinn um að rjúfa samstöðu íslamskra ríkja gegn yfirgangi Ísraels.

Þetta pólitíska rugl er eðlilegt framhald af fyrra rugli Bandaríkjanna í utanríkismálum, þar sem helztu bófar rómönsku Ameríku, Afríku og Asíu hafa verið studdir til pólitískra valda, af því að þeir þóttust vera á móti kommúnisma eða vera hallir undir bandaríska hagsmuni.

Sagan sýnir, að stuðningur Bandaríkjanna við bófa í útlöndum hefur ekki borgað sig. Leppríkið í Ísrael mun einnig verða þeim dýrkeypt áður en upp er staðið. Fyrr eða síðar verður blóðbað í Palestínu, sem mun gera bandaríska kjósendur afhuga stuðningi við Ísrael.

Það truflar utanríkisstefnu vestrænna þjóða gagnvart heimi íslams og öðrum heimshlutum að hafa ofbeldishneigt Ísrael á bakinu fyrir tilstilli Bandaríkjanna. Það dreifir vestrænum kröftum í baráttunni fyrir útbreiðslu vestrænna hugmynda um skipan þjóðfélagsmála.

Evrópumenn og stjórnvöld í Evrópu hafa áttað sig á, hvernig Ísrael hefur orðið að pólitísku æxli í Miðausturlöndum. Evrópusambandið hefur til dæmis fyrir löngu lýst yfir, að austurhluti Jerúsalems og gamli miðbærinn í borginni tilheyri ekki Ísrael heldur Palestínu.

Vatíkanið og Palestína hafa samið um skipan mála í gömlu Jerúsalem í framtíðinni, en Ísrael hefur neitað að taka þátt í slíku samstarfi. Augljóst er, að Jerúsalem er sögulega og tilfinningalega borg þrennra trúarbragða og enn þann dag í dag byggð fólki þrennra trúarbragða.

Vissir um stuðning Bandaríkjanna í ágreiningi við nágranna sína og umheiminn yfirleitt hafa Ísraelar sem þjóð valið blóðugu leiðina. Þeir hafa kosið sér til valda ófriðarsinna, sem senda jarðýtur á hús Palestínumanna og láta reisa ísraelskar byggðir á palestínsku landi.

Ísraelar hafa kosið að gerast blóði drifin herraþjóð í hernumdu landi og brjóta hverja einustu grein alþjóðareglna um mannréttindi og meðferð hernuminna þjóða. Þeir hafa kosið að gerast æxli, sem ekki verður læknað með endurteknum tilraunum til friðarsamninga.

Meðan Ísraelar eru vissir um takmarkalausan stuðning bandarískra þingmanna og eindreginn stuðning Bandaríkjastjórnar munu þeir ekki semja um frið.

Jónas Kristjánsson

DV

Fréttamiðlun raskast

Greinar

Einn fréttamiðillinn enn hefur bætzt við. Fréttir netmiðla keppa við fréttir annarra fjölmiðla um athygli fólks á tíma mikils framboðs afþreyingar af ýmsu tagi. Fyrir einni öld voru fréttir helzt sagðar í blöðum, en nú koma þær líka í útvarpi, sjónvarpi og á netinu.

Mesta furða er, hversu vel dagblöð hafa staðizt samkeppnina. Þunglamatækni þeirra stenzt ekki öðrum fjölmiðlum snúning í hraða. Þau segja ekki fréttir í beinni útsendingu. Samt eru þau svo vinsæl, að notendur vilja borga fyrir þau, en ekki aðra fréttamiðla.

Sérhver nýr fréttamiðill er sumpart viðbót við fjölmiðlaneyzlu fólks og tekur sumpart frá hinum, sem fyrir eru. Með almennri tölvueign og almennri nettengingu á tölvum má búast við, að fréttir netmiðla spilli afkomu einhverra þeirra fjölmiðla, sem fyrir eru.

Samt er athyglisvert, að netmiðlar koma ekki af neinu afli inn í fréttaheiminn. Þeir treysta sér ekki til að biðja notendur um greiðslu fyrir vikið, heldur treysta eingöngu á auglýsendur. Enda eru fréttir netmiðla enn að mestu uppsuða úr dagblaðafréttum.

Ekki hefur fundizt nein aðferð til að fá notendur netfrétta til að greiða fyrir þjónustuna, ekki frekar en tókst á sínum tíma að fá notendur útvarpsfrétta og sjónvarpsfrétta til að greiða fyrir hana. Fréttir eru í öllum þessum miðlum fluttar í opinni dagskrá.

Bandaríkin eru forustuland í þróun fjölmiðla. Þar verða nýjungar til og breiðast síðan um heiminn. Nýjar rannsóknir vestra sýna, að aukin notkun netfrétta er sumpart hrein viðbót við fréttanotkun fólks og sumpart tekin frá sjónvarpsnotkun þess, en ekki blaðalestri.

Að vísu sígur blaðalestur einnig, en þar eru tölur samt háar enn. Enn lesa tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum dagblöð reglulega, en notkun kvölddagskrár sjónvarps hefur sigið úr þremur af hverjum fjórum niður í einn af hverjum tveimur.

Það, sem hefur gerzt í Bandaríkjunum, er, að nýju kynslóðirnar, sem eru aldar upp við netið, láta fréttir þess koma í stað sjónvarpsfrétta. Aðeins fjórði hver notandi netfrétta horfir einnig á sjónvarpsfréttir. Þetta spáir illu um framtíð sjónvarps sem fréttamiðils.

Hlutföllin, sem hér hafa verið nefnd, eiga eingöngu við almennar sjónvarpsstöðvar með almennum fréttum, en ekki sérhæfðar stöðvar, sem flytja afmarkað efni á borð við íþróttir, fjárfestingar eða náttúruskoðun. Sérhæft fréttasjónvarp blómstrar áfram.

Sennilega eru Bandaríkjamenn byrjaðir að átta sig á, að leikhús fremur en fréttaflutningur er eðli fréttasjónvarps eins og annars sjónvarps. Fólk er þar farið að bila í þeirri trú, að fréttir hljóti að vera sannar, af því að fólk hafi séð þær eigin augum í sjónvarpinu.

Persaflóastríðið var sagt sigur sjónvarps sem fréttamiðils. Menn trúðu slíku þá, þótt sumir hafi reynt að benda á, að beztu fréttir af því stríði komu í brezku útvarpi og góðum dagblöðum. Menn vita nú, að sjónvarpið gaf veruleikafirrta og falsaða mynd af stríðinu.

Fyrir framan sjónvarpsvélar er sumpart framleiddur og verður sumpart ósjálfrátt til sérstakur sýndarveruleiki, eins konar leikhús, sem þarf ekki að vera í neinu sambandi við veruleikann, sem við heyrum um í útvarpi og lesum um í dagblöðum eða vikuritum.

Ef gengi fjölmiðla breytist hér að bandarískum hætti, má búast við, að leikrænar fréttir sjónvarps eigi erfiða framtíð í aukinni fréttasamkeppni nýrra fjölmiðla.

Jónas Kristjánsson

DV

Fíkniefni eru núna óheft

Greinar

Þegar sólarstrandarhátíð ungmenna var haldin í Nauthólsvík um daginn, hélt lögreglan því fram, að hún hefði séð þekkta fíkniefnasala í hópnum. Samkvæmt því veit lögreglan um suma fíkniefnasala án þess að gera neitt í því. Það vekur efasemdir um hæfni hennar í starfi.

Ef lögreglan getur ekki tekið fíkniefnasala höndum vegna skorts á sönnunargögnum, ætti hún að geta fylgt þeim eftir, hlerað síma þeirra og fundið slóðir til heildsalanna, sem sjá götuhornasölum fyrir efnum. Hún ætti að geta rakið slóðina frá endapunkti viðskiptanna.

Reynslan sýnir, að þetta getur hún ekki. Allur þorri fíkniefna, sem lagt er hald á, finnst í innflutningi, það er að segja í gámum úr skipum, í pósti og við komu farþega á Keflavíkurvelli. Það eru tollverðir, sem finna efnin, þótt lögreglan taki svo við málunum og fylgi þeim eftir.

Stóru fíkniefnamálin í fréttum fjölmiðla hafa undantekningarlaust hafizt vegna upplýsinga frá upphafspunkti ferils efnanna en ekki vegna upplýsinga frá endapunkti hans. Þetta segir athyglisverða sögu um árangursleysi baráttunnar gegn fíkniefnaneyzlu í landinu.

Ekki er síður merkileg sú staðreynd, að verðlag fíkniefna sveiflast ekki, þótt hald sé lagt á stóra farma af fíkniefnum í innflutningi. Það segir okkur, að innflutningurinn sé svo mikill, að ekki sjái högg á vatni, þótt tollgæzlan detti einstöku sinnum í lukkupottinn.

Fyrir nokkrum árum opnaðist svigrúm fyrir bjána, sem fóru ógætilega og létu kerfið taka sig í bakaríið. Það er eina umtalsverða breytingin, sem orðið hefur í viðskiptaheimi fíkniefna. Bjánarnir sitja nú á bak við lás og slá og hafa látið yfirvegaðri heildsölum eftir markaðinn.

Niðurstaða kosningaloforða og annarrar hræsni stjórnmálamanna er því sú, að fíkniefnamarkaðurinn heldur sínu striki með óskertu framboði og verðlagi fíkniefna, þótt upp komi fíkniefnamál, sem kölluð eru stór. Þau eru samt ekki nógu stór til að raska markaðinum.

Í ljósi þessa ástands er óhætt að kalla þá hræsnara, sem eru andvígir því, að sala ólöglegra fíkniefna verði tekin úr höndum glæpaflokka og afhent ríkisvaldinu, og segja, að slík lögleiðing fíkniefna muni auka fíkniefnaneyzlu og þar með magna óhamingju og ógæfu í landinu.

Reynslan sýnir okkur, að þvert á móti má búast við óbreyttri óhamingju og ógæfu í landinu, ef viðskiptin yrðu flutt frá glæpaflokkum til löggiltra fíkniefnasala á borð við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins og lyfjabúðirnar í landinu. Óheft ástand verður ekki meira óheft.

Ríkið stundar sjálft verzlun með fíkniefni, sem eru verri viðureignar en sum ólöglegu fíkniefnin og sama er að segja um sum lyfin, sem afgreidd eru gegn lyfseðli samkvæmt heimild löglegra yfirvalda. Það þjónar engum tilgangi að láta annað gilda um ólögleg fíkniefni.

Með því að kippa sölunni úr höndum ólöglegra aðila og fela hana ríkinu og umboðsmönnum þess, er fótunum kippt undan glæpaflokkum, sem hvarvetna hafa reynzt þjóðfélaginu hættulegastir. Þannig missir ríkið ekki hluta af valdi sínu í hendur forríkra glæpakónga.

Baráttan gegn fíkniefnum hefur nefnilega tvíþætt gildi. Það er ekki bara mikilvægt að hamla gegn neyzlunni, heldur er líka mikilvægt að koma í veg fyrir myndun hættulegra valdamiðstöðva, sem grafa undan sjálfu þjóðskipulaginu með ógnunum og mútum og glæpum.

Þeir, sem býsnast yfir skoðunum af þessu tagi, skipa sér í flokk ómerkilegra hræsnara, sem hafa ekkert málefnalegt fram að færa til lausnar fíkniefnavandans.

Jónas Kristjánsson

DV

Beðið eftir aðgerðum

Greinar

Þegar menn vilja ekki fást við vandamál, er þægilegast fyrir þá að segja, að vandamálið sé ekki til. Þegar forsætis- og fjármálaráðherra vilja ekki taka á verðbólgunni, er þægilegast fyrir þá að segja, að verðbólga sé ekki svo slæm og að lætin út af henni gangi út í öfgar.

Málgagn ríkisstjórnarinnar fékk um helgina himnasendingu í ráðgjafa Clintons Bandaríkjaforseta, sem sagði verðbólgu geta verið ágæta, að minnsta kosti ef hún færi ekki yfir 10%. Í sumum tilvikum gæti verið betra fyrir þróunarlönd að hafa hana meiri frekar en minni.

Ráðgjafinn var að vísu að tala um lönd, þar sem atvinnuleysi er margfalt meiri vandi en við höfum séð hér á landi síðustu sextíu árin. Hann var að tala um skipulega verðbólgu sem tæki í baráttu gegn atvinnuleysi í fátækum ríkjum, ekki um verðbólgu í löndum fullrar atvinnu.

Ef sérstaklega er fjallað um ríku löndin í heiminum, það er að segja í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, eru allir sérfræðingar sammála um, að vont sé að hafa meiri verðbólgu en nágrannaríkin. Í öllum þróuðum löndum er lagzt af hörku gegn því, að verðbólga fari yfir 2%.

Svo hart var gengið fram í Evrópusambandinu, að ríki fengu ekki að taka þátt í sameiginlegum gjaldmiðli, nema þau kæmu verðbólgunni niður fyrir eðlileg vikmörk frá meðaltali. Ítalir náðu þessum eftirsótta árangri í tæka tíð, en Grikkir ekki fyrr en í annarri umferð.

Til þess að koma verðbólgunni niður á stig, sem talið er þolanlegt í ríku löndunum, var ráðizt í uppskurð á ríkiskerfinu, sparnaður hins opinbera aukinn og verklegum framkvæmdum frestað, opinberar skuldir greiddar niður og reynt að búa til svigrúm fyrir blómlegt atvinnulíf.

Með þessu er almennt talið, að mikill sigur hafi unnizt. Það er sams konar sigur og vannst hér á landi, þegar verðbólgu var komið niður í svipaðar tölur og í viðskiptalöndunum. Við þurftum enga ráðgjafa Clintons til að segja okkur, að þetta hafi verið okkur vond breyting.

Okkur er í fersku minni hvílíkur munur er á 10­20% verðbólgu annars vegar og 2­3% verðbólgu hins vegar. Vinnumarkaðurinn róaðist og vinnudeilur urðu fátíðari, menn fóru að geta hugsað til langs tíma. Ísland varð að þroskuðu viðskiptalandi í samfélagi auðugra ríkja.

Nú er verðbólgan hins vegar farin af stað aftur. Meðan hún er um og innan við 2% í alvörulöndunum, er hún hér komin upp í tölur á bilinu 5­7% og fer heldur vaxandi. Við þetta hefur rýrnað trú manna á verðgildi gjaldmiðilsins og margir eru farnir að losa sig við krónur.

Seðlabankinn hefur neyðzt til að kaupa krónur fyrir gjaldeyri til að hamla gegn áhlaupi á krónuna. Hann hefur hækkað og hækkað vexti til að sporna gegn þenslunni. Bankarnir hafa einu sinni haft forustu um, að verzlun með gjaldmiðla var hreinlega stöðvuð í tvær stundir.

Nú er komið að endimörkum þess, sem Seðlabankinn getur gert. Hann getur ekki endalaust hækkað vexti langt upp fyrir það, sem þekkist með þróuðum þjóðum. Hann getur ekki endalaust keypt krónur fyrir gjaldeyri. Og ekki dugar að stöðva gjaldeyrisviðskipti aftur og aftur.

Mánuðum saman hafa helztu málsaðilar, þar á meðal Seðlabankinn, hvatt ríkisstjórnina til að grípa til aðgerða til að stöðva þessa uggvænlegu þróun. Hún hefur verið hvött til að skera niður útgjöld, fresta opinberum framkvæmdum og draga úr öðrum umsvifum sínum.

Meðal þeirra, sem máli skipta í ríkisstjórninni, virðist hins vegar ekki vera áhugi á að verða við óskum um að standa vörð um festu og öryggi í peningabúskapnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Varað við leigubílum

Greinar

Leigubílaokur getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir stétt leigubílstjóra í heild og fyrir ferðaþjónustuna í heild, þótt einstakir leigubílstjórar geti um tíma makað krókinn með því að misnota einkaleyfi samgönguráðuneytisins og vanþekkingu erlendra ferðamanna.

Prag í Tékklandi er gott dæmi um þetta. Á flugvellinum féflettu leigubílstjórar ferðamenn, sem þurftu að fara til borgarinnar. Því hefur verið sett þar upp skrifstofa, þar sem ferðamenn upplýsa, hvert þeir ætla að fara og fá stimplað, hvað þeir eigi að borga.

Allar leiðsögubækur ferðamanna, sem máli skipta, vara fólk við leigubílstjórum í Prag. Hvort sem þú flettir í Eyewitness, Insight eða Lonely Planet, þá er sama sagan á ferð. Fólki er ráðið frá að taka leigubíla í Prag og því er bent á ýmsar leiðir til að forðast þá.

Gamlar syndir lifa í leiðsögubókum, jafnvel þótt upprunalegt ástand hafi verið lagað. Langt er milli nýrra útgáfna og fólk notar oft mun eldri útgáfur en þá nýjustu. Þannig getur verið erfitt að losna við óorð, sem menn koma á sig með tímabundinni gróðafíkn.

Straumur upplýsinga um hættusvæði fyrir ferðamenn er orðinn miklu hraðari en áður. Ferðamenn, sem verða fyrir slæmri reynslu af leigubílstjórum á Keflavíkurflugvelli, segja frá því í nokkrum umræðuhópum, sem starfræktir eru á veraldarvefnum.

Þessum frásögnum er haldið til haga af ritstjórnum stóru ferðatímaritanna og ferðahandbókanna, sem kanna málið og fá staðfest, að ekki sé allt með felldu í leigubílaakstri frá Keflavíkurflugvelli. Skriða vandamálsins er runnin af stað og verður ekki stöðvuð.

Ef ferðamálastjóri heldur í alvöru, að þetta valdi ferðaþjónustunni í landinu ekki búsifjum, er hann búinn að missa tilfinninguna fyrir markaðinum eða hefur ekki kynnt sér, hvernig upplýsingar flæða hraðar og grimmar í nútímanum en þær gerðu áður fyrr.

Samgönguráðherra getur ekki vikið sér undan ábyrgð á málinu með yfirlýsingu um, að til greina komi að víkka svæðaskiptingu leigubíla seinna. Þetta er bara hefðbundinn ráðherravaðall, sem kemur að engu gagni á líðandi stund, þegar skriðan er að renna af stað.

Samgönguráðuneytið gaf út reglugerðina, sem veitir fámennum hópi manna einkaleyfi til leigubílaaksturs frá Keflavíkurvelli. Nú þegar dæmi hrannast upp um misnotkun þessa einkaleyfis, getur ráðherra hætt að blaðra og afturkallað einkaleyfið fyrirvaralaust.

Sérstaklega er þetta mál hættulegt fyrir stétt leigubílstjóra í heild. Ef margir útlendingar heyra eða lesa, að íslenzkir leigubílstjórar séu glæpamenn, sem menn eigi að forðast, er hætt við að markaður fyrir leiguakstur þrengist frá því, sem annars hefði orðið.

Veruleikinn kann að vera skárri en hér hefur verið lýst. Verkfalli langferðabílstjóra kann að ljúka strax. Fyrnast kann yfir okur leigubílstjóra. Allt kann að falla aftur í ljúfa löð. En eftir situr, að staðbundin einkaleyfi til leiguaksturs eru úrelt og skaðleg.

Hinn seki í þessu máli er fyrst og fremst samgönguráðuneytið, sem gefur út staðbundin einkaleyfi handa skálkum og dregur einkaleyfin ekki til baka, þegar skálkarnir misnota þau. Ráðuneytið bjó til skortinn, sem leiðir gróðafíkla af vegi dyggðarinnar.

Dæmið frá Prag sýnir, að tímabundin gróðafíkn getur haft afleiðingar, sem eru þúsund sinnum dýrari en sem nemur illa fengnum gróða nokkurra skálka.

Jónas Kristjánsson

DV