Greinar

Margslunginn trúarhiti

Greinar

Fyrrverandi biskup og biskupsfaðir fór fjarri öllu velsæmi, þegar hann líkti gagnrýnendum ýmissa þátta kristnihátíðar við nazista. Ummæli hans voru dapurleg móðgun við milljónir fórnardýra nazismans. Með samanburðinum gerði biskupinn örlög þeirra lítilfjörleg.

Léleg aðsókn kristnihátíðar er orsök streitunnar hjá hinni kirkjulegu fjölskyldu á Íslandi, þar sem gamli biskupinn og nýi biskupinn, aðalpresturinn, tónsmiðurinn og almannatengillinn eru allir í einni og sömu fjölskyldunni og taka in solidum inn á sig erfiða stöðu mála.

Lúterska ríkiskirkjan rændi kristnihátíðinni og gerði hana að herkvaðningu sinna manna með feiknarlegum auglýsingum og áróðri. Herkvaðningin fór gersamlega út um þúfur og er orðin tilefni aukinnar umræðu um bága stöðu ríkiskirkjunnar í hugskoti fólksins í landinu.

Það voru mistök að gera kristnihátíð að lúterskri innansveitarkróníku. Ríkiskirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í lífi þjóðarinnar sem opinber helgisiðastofnun á mikilvægum stundum, en kveikir ekki mikinn trúarhita í brjóstum fólks. Hún er deild í stjórnarráðinu.

Japanir ganga enn lengra en Íslendingar á þessu sviði. Þeir hafa tvenn óskyld trúarbrögð í senn, ganga í hjónaband að Búddasið og deyja inn í Shintosið. Þetta veldur þeim engum geðklofa, enda er um formlega helgisiði að ræða, en ekki neina persónulega trúarreynslu.

Þannig væri hægt að taka ásatrú inn í íslenzka trúarbatteríið sem aðra deild í kirkjumálaráðuneytinu. Eins og hún er stunduð í Ásatrúarfélaginu virðist hún ekki kveikja mikinn trúarhita í hjörtum manna, en gagnast vel til helgisiða við mikilvægar stundir í lífi fólks.

Sumir telja það ríkiskirkjunni helzt til gildis, að hún taki upp pláss trúarinnar í tilveru þjóðarinnar og dragi þannig úr útþenslu sértrúarsafnaða, þar sem ríkja fjörug messugerð og miklir ræðuskörungar, endurskírnir og persónuleg trúarreynsla að bandarískum hætti.

Trúarhiti leynist víðar í þjóðfélaginu en í viðurkenndum söfnuðum á skrá Hagstofunnar. Viku eftir mislukkaða kristnihátíð flykktust Freysdýrkendur í langtum stærri hópum á óvenjulega langvinna graðhestasýningu, sem stóð klukkutímum saman og dögum saman.

Í lokaatriðinu var Freyr leiddur inn á völlinn í gervi kraftaverkahestsins Orra frá Þúfu við trylltan fögnuð safnaðarins, þar sem heitasta ósk manna er að vinna í happdrætti, þar sem dregið er um, hvaða öndvegishryssur megi njóta sæðis hans fyrir 350.000 krónur hver.

Trúarhiti og trúarofstæki leika lausum hala í kaffistofur hestamanna, þar sem gerður er samanburður á kraftaverkahrossum. Ef Ásatrúarfélagið drægi úr Óðinsdýrkun sinni og sneri sér að arftökum Hrafnkels Freysgoða og Fals í Efstadal, mundi hagur þess vænkast að mun.

Freyjudýrkun er einnig útbreidd hér á landi, studd sögupersónum Halldórs Laxness og ímynd Bjarkar söngkonu, þar sem konan stígur fram sem dularfullt náttúruafl, kynorkumögnuð álfkona, eins konar móðir Jörð. Freyja birtist þjóðinni í gervi Úu og Bjarkar.

Náttúrudýrkun hins forna siðar hefur læðst inn í viðskiptalífið á Íslandi, þar sem ferðabransinn gerir út á Orra frá Þúfu, Úu og Björk. Sveitarfélög láta meira að segja prenta nákvæm kort af byggðum álfa og huldafólks og bjóða upp á skipulagðar ferðir milli þessara staða.

Trúarhiti Íslendinga er margslunginn og mestallur utan ríkiskirkjunnar, þótt menn virði hana sem helgisiðastofnun. Kristnihátíðin opinberaði þetta.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzkur sjarmör

Greinar

Norðurlandamenn hafa smám saman misst fyrri áhuga á Íslandi og því, sem þar kann að vera að gerast. Í bolta- og söngvakeppni heldur fólk með nágrönnum sínum, þar á meðal Íslendingum, þegar eigin þjóð sleppir, en gömlu Íslandsvinirnir safnast smám saman til feðra sinna.

Í staðinn hefur risið nýr hópur fólks, sem tengist Íslandi órjúfanlegum böndum. Það eru eigendur íslenzkra hesta, sem flykkjast hingað þúsundum saman á tveggja ára fresti til að fylgjast með landsmóti hestamanna og hittast hitt árið á heimsleikum íslenzkra hesta.

Margt af þessu fólki kemur sér fyrir í áhorfendabrekkunni með regngalla sína og teppi, kaffibrúsa og mótaskrá og er þar dag eftir dag frá morgni til kvölds í sex keppnisdaga samfleytt. Þetta er um fjórðungur fjöldans, sem við sjáum á myndum af áhorfendabrekkunni.

Áhugamenn um Íslandshesta gera margt fleira. Þeir kaupa reiðtygi og annan búnað í hestavöruverzlunum, þeir fara í reiðtúra og hestaferðir um byggðir og óbyggðir landsins, kaupa gúmmískó í kaupfélaginu og þeir leita að draumahestinum til að taka með sér heim.

Um allan heim, en mest í Evrópu, snýst líf tugþúsunda fjölskyldna um íslenzka hestinn. Hann er þungamiðjan í lífi þeirra, ræður frístundum þess og vinaböndum. Íslenzki hesturinn er áhugamál, sem heltekur fólk og ryður öllu öðru til hliðar. Íslenzki hesturinn er sjarmör.

Það er ekki nóg með, að hann hafi varðveitt fornan góðgang, sem horfinn er víðast annars staðar, heldur er hann mannelskur umfram aðra hesta, ljúfur og hlaupaglaður, svo sem bezt kemur fram í frjálsum rekstri um fjöll og firnindi, ósnortin víðerni þessa strjálbýla lands.

Þótt Íslendingar séu sjálfir aukahjól í þessu innilega sambandi, fer ekki hjá því, að sameiginlegt áhugamál framkalli vinabönd. Í frístundum ferðast sumir íslenzkir hrossabændur í góðu yfirlæti milli góðbúa vina sinna í útlöndum til að endurgjalda heimsóknir til Íslands.

Fjármagn og atvinna flæðir umhverfis þetta áhugamál. Þótt dæmi séu um, að hrossakaupin sjálf séu undir borðum, er meirihluti heildarviðskiptanna uppi á borði, verzlun með búnað og gögn, hestaflutningar innanlands og til útlanda, þjálfun og kennsla, ferðalög og gisting.

Hundruð ungra Íslendinga starfa tímabundið á þessu sviði í útlöndum, aðrir hafa komið sér þar fyrir og tugir þeirra hafa keypt sér þar jarðir. Hér á landi starfa hundr-uð erlendra ungmenna við þjálfun og umgengni við hesta. Samanlagt er gífurleg seðlavelta í greininni.

Stjórnvöld hafa fengið síðbúinn áhuga, mest að frumkvæði Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Risið hefur frábært móts- og æfingasvæði í Víðidal við Elliðaár og sjóðir hafa verið stofnaðir til framgangs greininni.

Mesta landsmót sögunnar hefur verið haldið við beztu aðstæður í Víðidal og verður driffjöður enn frekari vinatengsla og viðskipta. Íslenzki hesturinn mun áfram auka kyn sitt og vinna ný lönd um allan heim, þar sem honum verður hvarvetna tekið sem heimilisvini.

Hvort sem hestarnir eru fæddir í útlöndum eða í víking frá Íslandi, þá bera þeir nánast undantekningarlaust íslenzk nöfn, enda er það eitt af markmiðum alþjóðasambands eigenda íslenzkra hesta. Sörlar og Blesar, Vanadísir og Freyjur eru að breiðast út um heim.

Íslenzki hesturinn heima og erlendis er sendiherra og sjarmör landsins, sívirk auglýsing íslenzkrar framleiðslu og þjónustu, verðmæt auðlind, sem ekki þverr.

Jónas Kristjánsson

DV

Tungumál guðs

Greinar

Vísindamenn hafa lært tungumál guðs við sköpun mannsins. Í því eru aðeins fjórir bókstafir, sem raðast á ýmsa vegu í þriggja milljarða röð bókstafa í 23 bókarköflum. Þannig raðast erfðavísar í bókarkafla litninga og mynda heila bók erfðamengis hvers manns.

Þótt vísindin séu komin á slóð guðs með því að finna mestallt handritið að sköpun mannsins, eiga þau langt í land við að nota þá þekkingu til að búa til Snorra-Eddur sköpunarverksins. En þau eru komin á slóðina og hingað til hefur ekkert getað stöðvað vísindin.

Á næstu árum munu verða stórstígar framfarir í staðsetningu veikleika mannsins í þessari miklu lífsins bók. Nú þegar vita vísindamenn mikið um, hvar í litningum sjúkdómar eiga rætur sínar og vilja afla sér nánari staðsetningar með hinni nýju þekkingu.

Vitað er, að alzheimer er í fyrsta litningi, ristilkrabbi í öðrum litningi, lungnakrabbi í þriðja litningi, parkinson í fjórða litningi og svo framvegis. Næsta skref verður að staðsetja slík vandamál nánar, svo að skipta megi inn heilum erfðavísum fyrir gallaða.

Flestir sjúkdómar eiga sér rætur í veikleikum í genamengi mannsins, sem magnast við ytri aðstæður, eins og segir í spakmælinu, að fjórðungi bregði til fósturs. Þannig eiga hjartamein, krabbamein, áfengismein og raunar flest líkamsmein rætur sínar í erfðavísum.

Lífsskilyrði og lífsstíll ráða svo í mörgum tilvikum, hvort þessi mein verða hættuleg heilsu manna. Mikil áherzla verður því lögð á hvort tveggja í senn, að breyta lífsskilyrðum og lífsstíl fólks og að laga það, sem aflaga hefur farið, með íhlutun í erfðamengi þess.

Ekkert þýðir að efast um réttmæti innrásar sérfræðinga inn á verksvið guðs. Engin leið er að sjá það ferli fyrir sér, að siðfræðilegar eða guðfræðilegar efasemdir muni hemja sókn vísindanna innar á þau svæði, sem hingað til hafa verið talin einkalönd guðs.

Pólitískur ótti við villta vestur erfðafræðinnar í einkageiranum hefur leitt til þess, að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands hafa knúið aðilana tvo, sem langfremst standa, til að leggja saman þekkingu sína og færni og opinbera lífsbókina öllum lýðum.

Annar þessara aðila er bandaríska einkafyrirtækið Celera og hinn er brezk-bandaríska rannsóknastofnunin National Human Genome Research Institute. Þeir hafa verið að finna upp hjólið samtímis, en munu nú væntanlega snúa bökum saman og skipta verkum.

Vegna þessa samstarfs yfir Atlantshafið verður líklega ókleift að búa til einkaleyfavædda einokun í rannsóknum á þessu sviði. Það þýðir, að miklu fleiri geta tekið þátt í kapphlaupinu og að framfarir fræðanna verða sennilega enn örari hér eftir en hingað til.

Ekki er hægt að sjá, að þessi niðurstaða muni skaða önnur fyrirtæki, sem ætla sér hlut í frekari þróun málsins, svo sem þau fyrirtæki, sem starfa á Íslandi, deCODE genetics og Urður Verðandi Skuld. Þvert á móti gæti birting gagna hjálpað slíkum fyrirtækjum.

Athyglisvert er þó, að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands kusu að hafna einkaleyfum og að krefjast opinberunar gagna, en fóru ekki leið íslenzku ríkisstjórnarinnar að gefa einu gæludýri sínu ókeypis einokun á erfðaupplýsingum um lífs og liðna Íslendinga.

Ekki er ofsagt, að uppgötvun tungumáls guðs á sjálfri lífsbókinni og opinberun upplýsinganna feli í sér mesta afrek og mestu tímamót vísindasögunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Eflum trúboð lýðræðis

Greinar

Franski utanríkisráðherrann neitaði að skrifa undir svonefnda Varsjár-yfirlýsingu hundrað ríkisstjórna lýðræðisríkja um framgang lýðræðis í heiminum. Hann sagðist andvígur því, að vestræn ríki reyndu að þvinga lýðræði eins og trúarbrögðum upp á þjóðir heimsins.

Rúmlega hundrað ríki hafa undirritað yfirlýsinguna og þar á meðal Ísland. Með því eru ríkin ekki að gera annað en að staðfesta enn einu sinni sáttmála og yfirlýsingar frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, rétt eins og gert var fyrir meira en áratug með svonefndum Helsinki-sáttmála.

Sá undarlegi misskilningur sést oft, að mismunandi viðhorf þjóða liggi að baki misjafns dugnaðar ríkisstjórna við að fara eftir sáttmálum og yfirlýsingum, sem þær hafa játazt með aðild að Sameinuðu þjóðunum og ýmsum öðrum fjölþjóðaplöggum, sem byggð eru á sama grunni.

Sterkast kom þetta fram af hálfu nokkurra einræðisherra í Suðaustur-Asíu, þar sem efnahagsþróun var góð. Þeir sögðu, að sínu fólki hentaði föðurleg umsjá, enda væri það í samræmi við menningararfleifð svæðisins. Vestrænt lýðræði væri þar aðflutt truflun.

Eftir efnahagskreppuna í Suðaustur-Asíu hefur botninn dottið úr kenningu einræðisherranna. Komið hefur í ljós, að ýmsir hornsteinar vestræns lýðræðis eru nauðsynlegir þjóðum þriðja heimsins, ef þær vilja sækja jafnt og þétt fram til bættra lífskjara að vestrænum hætti.

Stjórnarskipti eru nauðsynleg til að spilling grafi ekki um sig. Skipting valdsins er nauðsynleg til að halda uppi öruggu rekstrarumhverfi laga og réttar. Frjáls fjölmiðlun er nauðsynleg til að fólk viti, hvað sé á seyði og sé fært um að taka skynsamlegar efnahagsákvarðanir.

Þetta kemur til viðbótar margvíslegri staðfestingu þess, að þjóðir þriðja heimsins sækjast eftir svokölluðum trúarbrögðum lýðræðis, þótt einræðisherrarnir hafi fullyrt annað. Almenningur vill heiðarlegar leikreglur, öryggi dóms og laga, frjáls skoðanaskipti og stjórnarskipti.

Undir lok tuttugustu aldar bötnuðu aðstæður lýðræðis verulega. Sovétríkin hrundu og kenningin um sérstakt austrænt lýðræði varð siðferðilega og efnahagslega gjaldþrota. Því eru nú betri aðstæður fyrir útþenslu lýðræðis en hafa verið frá upphafi Sameinuðu þjóðanna.

Helsinki-sáttmálinn var upphafið að hruni Sovétríkjanna. Þjóðir Austur-Evrópu sóttu til hans styrk til að rísa upp og varpa af sér oki steinrunninna trúarbragða. Vonandi verður Varsjár-yfirlýsing þessarar viku upphaf nýrrar sóknar lýðræðis gegn harðstjórum heimsins.

Margt er hægt að gera. Sérstaklega er mikilvægt að frysta þá harðstjóra, sem víkja af vegi fyrra lýðræðis, svo sem Alberto Fujimori í Perú og Mahathir Mohamed í Malasíu, úr fínimannsklúbbum landsfeðra, og láta Vladimir Putín í Rússlandi vita, að hann sé á gráu svæði.

Allt efnahagslegt og viðskiptalegt vald í heiminum er hjá þeim helmingi ríkja heims, sem fer meira heldur en minna eftir forsendum lýðræðis eins og þær eru skráðar í stofnskjölum Sameinuðu þjóðanna. Það gefur færi á að efla trúboð lýðræðis um allan helming á nýrri öld.

Þetta trúboð stríðir ekki gegn hefðum og draumum almennings í þriðja heiminum. Það eflir þvert á móti mannlega reisn fólks um allan heim um leið og það stuðlar að efnahagslegri velgengni þess Því meira lýðræði, því færri verða stríðin og því öflugri verða viðskiptin.

Orð franska utanríkisráðherrans hljómuðu eins og flugusuð í hljómkviðu ríkjanna hundrað, sem skrifuðu undir trúarjátningu lýðræðis í Varsjá í þessari viku.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífsstíll og mataræði

Greinar

Ekkert samband er milli útgjalda þjóða til heilbrigðismála og árangurs þeirra í heilbrigðismálum samkvæmt nýrri rannsókn, sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur látið gera. Góð heilsa og langar ævilíkur virðast fremur ráðast af öðrum atriðum en útgjöldum þjóðanna.

Íslendingar fara meðalveginn í þessum samanburði, eru í 14. sæti í útgjöldum og 15. sæti í frammistöðu í heilbrigðismálum. Við förum líka bil beggja í eigin þátttöku fólks í sjúkrakostnaði, sem er 16% hér, en er 18% í Noregi og 25% að meðaltali í iðnríkjum Vesturlanda.

Staða Bandaríkjamanna er einna verst í þessum samanburði. Þeir verja mestu til heilbrigðismála, 13,7% þjóðarframleiðslunnar, en ná samt ekki nema 37. sæti vegna skaðlegs lífsstíls og mikillar misskiptingar lífsins gæða, sem takmarkar aðgang fólks að kerfinu.

Andstæðan við Bandaríkjamenn eru hinir jafnréttissinnuðu Bretar, sem verja ekki nema 5,8% þjóðarframleiðslunnar til heilbrigðismála og ná þó 18. sæti í samanburðinum. Meðan auðmagn skammtar aðgang vestra, nota Bretar biðlista fyrir háa og lága í sama skyni.

Fyrir þær þjóðir, sem vilja spara í heilbrigðismálum, er betra að læra af Japönum en Bretum. Hinir fyrrnefndu verja að vísu heldur meira til heilbrigðismála, 7,1% þjóðarframleiðslunnar, svipað og við, en ná góðri heilsu og langri ævi, eru í 10. sæti í frammistöðunni.

Munur Japana og flestra annarra er, að þeir leggja mesta áherzlu á forvarnir og lífsstíl, svo að fólk þarf minna á heilbrigðiskerfinu að halda en fólk á Vesturlöndum. Heilbrigðisgeiri Japana stendur undir nafni, en er ekki helber sjúkdómageiri að vestrænum hætti.

Frammistaða Norðurlandaþjóða hlýtur að valda þeim vonbrigðum og leiða til umræðna um markmið og tilgang heilbrigðiskerfisins. Athyglisvert er, að Norðmenn standa sig bezt með 6,5% kostnað og árangur í 11. sæti, og Danir standa sig verst með 8% kostnað og árangur í 34. sæti.

Ekki verður hjá því komizt að gera því skóna að mismunur Norðmanna og Dana felist fyrst og fremst í misjöfnum lífsstíl, þar sem Norðmenn eru miklir útivistarmenn, sem reykja og drekka fremur lítið, en Danir eru innisetumenn, sem reykja og drekka úr hófi fram.

Athyglisverður er árangur Frakka og Ítala, sem tróna í efstu sætum listans yfir árangur í heilbrigðismálum. Þeir verja heldur meira fé til heilbrigðismála en við gerum, 9,8 og 9,3%, en ná þó fremur árangri sínum vegna mataræðis, sem er í góðu samræmi við nútímaþekkingu.

Við getum ekki náð sama árangri og Frakkar og Ítalir af því að við höfum ekki sama aðgang að góðum og hollum mat. Við búum við ríkisvald, sem tekur hagsmuni landbúnaðarins fram yfir heilsuhagsmuni þjóðarinnar og takmarkar innflutning búvöru með ofurtollum.

Hagsmunagæzla ríkisins sprengir upp verð á grænmeti hér á landi og veldur því, að neyzla grænmetis er miklum mun minni en annars staðar á Vesturlöndum. Hagsmunagæzla ríkisins beinir neyzlunni að harðri fitu, mjólk og kjöti, af því að það hentar innlendri framleiðslu.

Greiðasta leið okkar til meiri árangurs í heilbrigðismálum, langrar ævi og góðrar heilsu, felst í að leggja niður ofurtolla á innfluttum matvælum, svo að venjulegt fólk á venjulegum tekjum hafi ráð á mataræði í samræmi við markmið Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

Samkvæmt tölum stofnunarinnar skiptir hins vegar litlu, hvort við verjum meira eða minna fé til heilbrigðismála. Lífsstíll og mataræði eru lykilatriðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvirkar almannavarnir

Greinar

Viðbrögð almannavarna við jarðskjálftanum fyrir viku voru nánast engin. Veðurstofan vanmat skjálftann, öryggisfjölmiðlar tóku sumpart seint og sumpart alls ekki við sér, björgunarsveitir voru ekki kallaðar út og neyðarstöðin á Laugalandi var ekki opnuð.

Atburðarásin varð eins og ekkert skipulag almannavarna við jarðskjálftum væri til. Varnaraðgerðir komu smám saman eins og af sjálfu sér, þegar stundarfjórðungarnir voru farnir að líða hver af öðrum og menn áttuðu sig smám saman á umfangi vandans.

Veðurstofan hafði ekki dómbæran mann á jarðskjálftavakt og hélt fram, að jarðskjálftinn væri ekki nema brot af því, sem hann reyndist vera. Réttar fréttir af styrkleikanum komu fyrst frá Bandaríkjunum og síðan frá óháðri jarðskjálftastofu á Selfossi.

Veðurstofan er fjölmenn stofnun með hverjum sérfræðingnum upp af öðrum. Ódýrara væri að semja við ellilaunafólk um að fylgjast í vaktavinnu með heimasíðum bandarískra veðurstofa og ýta á viðeigandi hnappa, þegar þar er sagt frá hamförum á Íslandi.

Ekkert sjálfvirkt kerfi fór af stað til að koma upplýsingum á framfæri í síopnum fjölmiðlum ríkisins. Lögreglan benti á útvarpið, sem hafði lítið til málanna að leggja, meðan starfsmenn þess flýttu sér í vinnuna. Ríkissjónvarpið hafði bara áhuga á fótbolta.

Engin sjálfvirk öryggistenging fór í gang, þannig að fréttir kæmu til bráðabirgða beint frá Almannavörnum eða Veðurstofunni meðan fréttamenn væru á leiðinni í vinnuna, enda var alls enginn á vakt á fyrri staðnum og enginn kunnáttumaður á hinum síðari.

Á Suðurlandi hafa verið æfð viðbrögð við stórum skjálftum. Enginn setti þessi viðbrögð í gang að þessu sinni. Öryggismiðstöðin á Laugalandi var aldrei opnuð, þótt hún væri nálægt þungamiðju atburðanna. Kalltæki björgunarsveitamanna þögðu þunnu hljóði.

Enginn reyndi að hringja skipulega á bæi til að kynna sér, hvort slys hefðu orðið eða fólk lent í sjálfheldu. Engin tilraun var gerð til að fara skipulega milli bæja til að kanna, hvort björgunaraðgerða væri þörf. Það var eins og allir væru að horfa á fótbolta.

Árvökulir björgunarsveitamenn urðu sjálfir að koma sér á framfæri og forvitnast um, hvort ekki væri eitthvað fyrir þá að gera. Þannig liðu fyrstu klukkustundirnar meðan smám saman var að koma í ljós, að við höfðum verið heppin að þessu sinni.

Atburðarásin var nákvæmlega eins og engar almannavarnir væru til í landinu, engin skipulögð neyðaráætlun með fyrir fram ákveðnu ferli ákvarðana og aðgerða. Menn tóku smám saman við sér, spiluðu eftir eyranu og fóru ekki eftir áður þjálfuðu ferli.

Þetta vekur spurningar um, hvort við þurfum að kosta Almannavarnir af opinberu fé, hvort við þurfum að kosta jarðskjálftavakt af opinberu fé, hvort við þurfum að kosta öryggisfjölmiðla af opinberu fé? Fengist betri þjónusta með því að bjóða hana út?

Auðnuleysi kerfisins um síðustu helgi kom að ofan. Það voru miðstöðvar helztu þátta almannavarna, sem brugðust. Almennir björgunarsveitamenn voru reiðubúnir og almenningur hafði burði til að bjarga sér. Fólk náði sér í réttar fréttir á bandarískum heimasíðum.

Það merkilega er, að trausti rúið kerfi almannavarna hagar sér eins og ekkert hafi í skorizt og gerir enga tilraun til að finna, hvers vegna það fraus.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann hristi baukinn

Greinar

Verið getur, að höfuðborgarbúar séu sjálfumglaðir, eins og raunar hefur oftar verið sagt um íbúa Norðausturlands, en öfugmæli felast í að segja Reykvíkinga sjálfhverfa sem slíka. Engir landsmenn eru minna uppteknir af búsetu sinni en einmitt íbúar Reykjavíkur og nágrennis.

Skólameistari Menntaskólans á Akureyri setti fram róttækustu fordóma byggðastefnunnar í skólaslitaræðu síðasta laugardags. Hann fór mikinn í gagnrýni á sveitaþorpsmenningu Reykjavíkursvæðisins og einsýna, sjálfumglaða og sjálfhverfa íbúa borgríkisins.

Engar rannsóknir staðfesta tilgátur skólameistarans, en reynslan segir okkur, að sumt fólk úti á landi er oft upptekið af búsetu sinni, en höfuðborgarbúar sjaldan. Menn eru oft Akureyringar fyrst og Íslendingar svo, en syðra eru menn bara einfaldlega Íslendingar.

Þetta sjáum við bezt af því, að úti á landi er fremur mikið samband milli þingmanna og kjósenda um ránsferðir í ríkissjóð, en lítið er um slíkt samband á höfuðborgarsvæðinu. Þingmenn þess eru þingmenn þjóðarinnar allrar, en aðrir þingmenn gæta staðbundinna hagsmuna.

Sagnfræði skólameistarans er einkar bágborin. Langt aftur í árþúsund hafa borgríki blómstrað í tugi kynslóða, Babýlon, Aþena, Róm og Singapúr. Ekkert lögmál segir, að borgarmenning geti ekki lifað meira en þrjár kynslóðir og engar horfur eru á, að það gildi um Singapúr.

Ef skólameistarinn hefur rétt fyrir sér um stærð og fjölmenni höfuðborgarsvæðisins, að það nái frá Þjórsá í suðri til Hvítár í vestri og hýsi 200.000 manns, er borgin komin á það stig, að hún hlýtur að vera farin að endurnýja sig sjálf að mestu leyti án aðstoðar landsbyggðar.

Skólameistarinn fordómafulli telur, að skapandi minnihluti komi af landsbyggðum til höfuðborga, svo að þær síðarnefndu gangi ekki úr sér. Ekki þurftu Laxness, Björk og Kári mikla aðstoð landsbyggðarinnar, svo að skólameistarinn skautar líka á þessu sviði á hálum ís.

Raunar væri ágætt, ef einhverjir vildu rannsaka samhengi fæðingarsvæðis og ýmissa afreka, svo og ýmissa persónugalla á borð við einsýni og sjálfumgleði, þótt ekki væri nema til að þrengja svigrúm manna til að vaða á súðum um efni, sem þeir hafa ekkert kynnt sér.

Reykjavík hefur ekki fest sig í sessi sem stórborg og kann að vera ofvaxið sveitaþorp í augum skólameistara úti á landi. En gaman væri að vita, hvar Akureyri situr á þeim mælikvarða. Reykjavík er hins vegar á hraðri siglingu í átt til hefðbundinna einkenna stórborga.

Mikilvægt er, að Reykjavík takist að halda til jafns við erlendar stórborgir. Framtíð íslenzkrar menningar byggist ekki á Akureyri, heldur höfuðborginni. Það lendir á henni að hamla gegn atgervisflótta til útlanda. Víglína íslenzkrar byggðastefnu er um Kvosina, en ekki Gilið.

Annað hvort stendur höfuðborgarsvæðið eða fellur og þar með stendur Ísland eða fellur. Annað hvort vilja menn búa á höfuðborgarsvæðinu eða þar sem tækifærin eru úti í heimi. Þetta er staðreyndin að baki aðdráttarafls borgríkisins og magnar öfund og vanstillingu úti á landi.

Smám saman kom í ljós, hvað skólameistarinn var að fara. Honum sárnar, að sífellt fækkar þeim, sem sækja um skólavist. Hann vill leysa málið með því að láta ríkið reisa fleiri heimavistir á Akureyri og freista þannig fleiri til að koma. Hann var að hrista stafkarls baukinn.

Hingað til hafa slíkir fremur reynt að lofa sig en að lasta aðra. En svo getur runnið á menn móður málflutnings, að þeir sjáist ekki fyrir í ofstæki og fordómum.

Jónas Kristjánsson

DV

Burðarþol er ekki allt

Greinar

Mannvirki á Suðurlandi stóðust jarðskjálftann á laugardaginn. Þök féllu ekki og veggir stóðu uppi, þótt sumir færðust til. Þetta góða burðarþol er mikil framför frá árinu 1896, þegar 3692 hús hrundu á Suðurlandi, og sýnir, að menn hafa lært nokkuð af reynslu fyrri jarðskjálfta.

Hins vegar kom í ljós, að frágangur húsa á svæðinu var í mörgum tilvikum mun lakari en burðarþolið. Hlaðnir veggir reyndust vera spilaborgir, svo sem búast mátti við. Þeir hrundu, þótt húsin stæðu að öðru leyti uppi. Í sumum tilvikum féllu vikurplötur ofan í rúm.

Jarðskjálftinn varð sem betur fer á miðjum degi. Að næturlagi hefði hann getað valdið slysum á sofandi fólki og jafnvel manntjóni. Okkur ber að læra af þessari heppni og finna leiðir til að ganga betur frá húsum. Ekki er nóg, að burðarþol burðarveggja fari eftir reglugerðum.

Það sýnir andvaraleysi manna á fyrri áratugum, að eitt af hverjum tíu húsum á Suðurlandi er hlaðið úr holsteini, þótt alla öldina hafi verið vitað, að reikna má með sjö stiga jarðskjálftum á svæðinu. Þetta er svipuð fásinna og smíði íbúða á þekktum skriðu- og snjóflóðasvæðum.

Síðan farið var að smíða reglugerðir um burðarþol hafa menn haldið áfram að reisa milliveggi úr léttum steinhellum, sem reistar eru á rönd. Slíkar hleðslur hafa auðvitað engan burð og eru hrein manndrápstæki í jarðskjálftum. Þær hefði skilyrðislaust átt að banna fyrir löngu.

Betra er seint en aldrei að gefa út reglugerð um frágang húsa á skjálftasvæðum. Þegar hafizt verður handa við að lagfæra tjón og greiða það af sameiginlegu tryggingafé, er mikilvægt, að ekki verði gengið aftur frá húsum á sama vonlausa háttinn og hingað til hefur verið leyft.

Flest brýnustu öryggistækin stóðust skjálftann á laugardaginn, þar með taldar brýr og leiðslur, aðrar en hitaveitur. Símstöðvar og bílsímastöðvar stóðust vandann, en gemsastöðvar fóru sumar hverjar úr sambandi um tíma. Alvarlegast var, að FM-útvarp lokaðist í hálftíma.

FM-útvarpið á Suðurlandi kemur frá sendi í Vestmannaeyjum, þar sem vararafstöð var svo illa og aulalega búin, að hún tók ekki við af aðalrafstöðinni fyrr en eftir rúmlega hálftíma hlé. Þetta er eitt af því, sem snarlega þarf að kippa í liðinn að fenginni reynslu.

Ríkissjónvarpið staðfesti veruleikafirringu sína með því að sýna boltaleiki, þegar þjóðin þurfti á fréttum að halda. En það gerði ekki mikið til, því að þjóðin hefur lært að venjast því, að vegna boltafíknar segi sú stofnun ekki einu sinni fréttir á hefðbundnum fréttatímum.

Jarðskjálftinn á laugardaginn var 6,5 stig á Richter og segir ekki fyrir um, hvað muni gerast við 7 stiga skjálfta eins og urðu árin 1896 og 1912. Munurinn á 6,5 og 7 er margfaldur á kvarðanum, sem notaður er. Þetta var því alls ekki hinn margumtalaði Suðurlandsskjálfti.

Því er ekki hægt að fullyrða, að þau öryggisatriði, sem stóðust þennan skjálfta, muni einnig standast mestu skjálfta, sem samkvæmt reynslunni geta orðið á þessu svæði. En við vitum, að það, sem brást, muni einnig bregðast í meiri skjálfta, ef ekkert verður að gert.

Þótt mörgum finnist tjónið hafa orðið mikið og það muni vafalaust nema háum fjárhæðum, þegar allt verður saman talið, má kalla þetta fremur ódýra viðvörun um, að einblínt hafi verið á burðarþol mannvirkja, en síður hugað að öðrum atriðum, sem hættuleg geta verið.

Fyrir tveimur árum sinntu heimamenn lítt úttekt Verkfræðistofnunar Háskólans á stöðu mála. Jarðskjálftinn á laugardaginn ætti að geta vakið þá til verka.

Jónas Kristjánsson

DV

Endir markaðshyggju

Greinar

Markaðshyggjan er komin á leiðarenda sem hugmyndafræði. Í málefnaumræðu erlendis, einkum í Bandaríkjunum, er í auknum mæli litið á hana sem tímabundið þrep í þróun lýðræðisríkja. Lítið fer fyrir verjendum hennar í umræðunni. Það er eins og þeir hafi misst móðinn.

Hagsmunir stórfyrirtækja og þjóðfélags fara ekki lengur að öllu leyti saman. Í auknum mæli lítur viðskiptaheimurinn á markaðsráðandi stöðu sem markmið. Samruni og uppkaup fyrirtækja eru orðin að faraldri, sem gerbreytir samspili markaðsins og þjóðfélagsins.

Samkeppni er hratt að breytast í fákeppni og fákeppni er hratt að breytast í fáokun og fáokun er hratt að breytast í einokun. Einhvers staðar á þessu ferli hættir markaðurinn að vinna með þjóðfélaginu með lækkuðu verðlagi og fer að vinna gegn því með hækkuðu verðlagi.

Við höfum búið við þetta hér á landi, þar sem samkeppni á matvörumarkaði lækkaði matvöruverð fram eftir síðasta áratug aldarinnar og var einn mikilvægasti þáttur bættra lífskjara. Síðan kom fáokun til sögunnar undir lok aldarinnar og fór að hækka verðlag að nýju.

Hér á landi er vegna fámennis þjóðarinnar löng reynsla af skaðlegum áhrifum fáokunar í benzíni, tryggingum, farþegaflugi og vöruflutningum á landi og á sjó. Hér í blaðinu hefur oft verið talað um þetta sem dæmi um, að lokamarkmið allrar samkeppni væri einokun.

Einkavæðing ríkiseinokunar hefur heima og erlendis opnað mönnum sýn á galla markaðshyggjunnar. Yfirleitt er slæm reynsla af einkavæðingunni. Við minnumst einkavæðingar einokunar í bifreiðaskoðun og Bretar minnast einkavæðingar einokunar járnbrauta.

Við munum bera skaða af fyrirhugaðri sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sem mun þrengja kosti venjulegra notenda bankaþjónustu. Við munum líka bera skaða af fyrirhugaðri einkavæðingu símaeinokunar, sem mun þrengja kosti venjulegra símnotenda.

Barátta bandarískra stjórnvalda gegn hugbúnaðareinokun Microsoft er sögulegt framhald af fyrri baráttu ríkisvaldsins gegn olíurisanum Standard Oil og bandaríska símafélaginu. Með mistæku handafli stjórnvalda og dómstóla er reynt að stýra einokunarferlinu til baka.

Hér á landi eru stjórnvöld nánast markvisst að framkalla ferli, sem bandarísk stjórnvöld eru að reyna að stöðva. Þetta misræmi stafar af, að íslenzk stjórnvöld eru enn hugfangin af töfrum markaðshyggjunnar, en bandarísk stjórnvöld eru orðin miklu raunsærri.

Fólk er að átta sig á málefnalegri hnignun markaðshyggjunnar í sumum vestrænum löndum, einkum í Bandaríkjunum. Menn hafa fengið óbeit á ýmsum stofnunum, sem taldar eru vígi markaðshyggjunnar, svo sem Heimsviðskiptastofnuninni, og láta verkin tala.

Fólk sér hnattvæðingu fáokunarfyrirtækja, sem sæta engu marktæku aðhaldi, af því að armur einstakra ríkja nær ekki til þeirra. Nú er svo komið, að óeirðir verða nánast hvar sem talsmenn hnattvæðingar koma saman á vegum fjölþjóðlegra sjóða og viðskiptastofnana.

Varanlegur brestur er orðinn milli markmiða þjóðfélagsins annars vegar og markmiða risafyrirtækja hins vegar við umsnúning markaðshyggjunnar yfir í fáokunarhyggju. Markaðurinn er að breytast úr aflvél lífskjarabóta yfir í einkavædda og verðbólgna einokun.

Vestræn þjóðfélög munu fyrr eða síðar bregðast við þessu með margefldri neytendavernd og stórtækari handaflsaðgerðum gegn fáokunarfyrirtækjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Flóttamenn flýja suður

Greinar

Þótt mannúðinni sé flaggað hátt á stöng, þegar tekið er við erlendum flóttamönnum hér á landi, eru byggðahagsmunir oftast undir niðri. Sveitarfélög úti á landi sækjast eftir flóttafólki til að manna færiböndin við sjávarsíðuna og til að fjölga burðarásum samfélagsins.

Í reynd hefur fæstum byggðum haldizt á flóttafólki, helzt Hornafirði og Dalvík. Næstum allir eru farnir frá Blönduósi og Ísafirði. Þetta endurspeglar að nokkru leyti misjafna framkvæmd málsins og misjafna möguleika sveitarfélaganna til að standa undir þessu merki.

Eftir á að hyggja var ábyrgðarlaust að leyfa Blönduósi að taka við erlendum flóttamönnum, því að þar eru atvinnufæri lítil. En freistingin var mikil, því að ríkið lagði fram eina milljón króna með hverjum flóttamanni og ráðherrann er þingmaður kjördæmisins.

Eiginhagsmunapotið að baki dreifingar flóttamanna um landið er hættuspil. Við sjáum það af sögu undanfarinna áratuga á meginlandi Evrópu, að fyrst eru flóttamenn velkomnir, þegar þeir manna störf, sem aðrir vilja ekki lengur sinna, en uppskera síðar hatur letingja.

Þannig urðu Tyrkir burðarás í atvinnulífi Þýzkalands, þegar allt lék í lyndi. Þegar atvinna fór svo að dragast saman, reyndust margir Tyrkir vera betri starfsmenn en margir heimamenn, sem misstu vinnuna og gerðust útlendingahatarar og þjóðernisofstækismenn.

Við verðum að gæta þess vel að haga málum á þann veg, að ekki komi til útlendingaofsókna á borð við þær, sem hafa orðið víðast hvar í Vestur-Evrópu. Við verðum að ná flóttafólkinu inn í þjóðfélagsmynztur landsins og gera það að mikilvægum borgurum í þjóðfélaginu.

Það gerum við ekki með því að flytja það til afskekktra staða, þar sem enginn vill búa, nema hann eigi þar rætur. Venjulegir Íslendingar vilja flytjast suður á mölina og þar kunna erlendir flóttamenn líka bezt við sig. Þeir hafa ekki sömu tilfinningar til Blönduóss og innfæddir hafa.

En útlendingar kunna sem betur fer að bjarga sér og flytjast suður, þar sem mannhafið er nógu mikið til að skapa fjölbreytt atvinnufæri. Höfuðborgarsvæðið er deiglan, sem hentar samruna þjóðerna og menningarheima. Það er svæði, sem auðgast af framandi fólki.

Íslendingar eru einstaklega einangraðir í erfðum og menningu. Við höfum þess vegna gott af að blandast útlendingum. Því er innflutningur fólks heppilegur, meðan nóg er við að vera í þjóðfélaginu og útlendingar taka ekki atvinnu frá þeim lötustu í hópi heimafólks.

Til frambúðar mun okkur samt ekki skorta fólk til ófaglærðra starfa. Okkur vantar fyrst og fremst fólk á nýju sviðunum, þar sem skólakerfi okkar hefur ekki náð að anna eftirspurn. Okkur vantar raunar útlendinga til vinnu í hálaunastörfum fremur en láglaunastörfum.

Þýzka ríkisstjórnin hefur séð misræmið og hefur ákveðið að freista indverskra hugbúnaðarfræðinga þúsundum saman. Þeir þykja afar hæfir í starfi, en hafa allt of lítil tækifæri heima fyrir. Þjóðverjar ætla nú að fleyta rjómann ofan af þessum falda fjársjóði.

Af hverju reynum við ekki að dreifa slíkum áburði á ört stækkandi akur stafrænna athafna hér á landi? Við getum breytt örum vexti hugbúnaðargerðar í sprengingu og þar með gert Ísland að einu sílikonsvæða heimsins. Til þess höfum við ekki burði án aðstreymis viðbótarfólks.

Það er hins vegar borin von, að hægt sé að nota útlendinga til að halda uppi byggð á afskekktum stöðum, þar sem Íslendingar vilja ekki einu sinni sjálfir búa.

Jónas Kristjánsson

DV

Uppgjör kynslóðanna

Greinar

Af langvinnri umræðu í fjölmiðlum um kjör aldraðra mætti halda, að þjóðfélagið hafi hlunnfarið þennan aldurshóp umfram aðra aldurshópa í þjóðfélaginu. Er þá vísað til þess, að síðustu ár hafa kjör aldraðra batnað nokkru hægar en annarra hópa þjóðfélagsins.

Eflaust er nærri lagi, sem sagt hefur verið, að tekjur eftirlaunafólks hafi lækkað hlutfallslega árin 1995­1998 úr 61% í 54% af tekjum vinnandi fólks. Einnig er eflaust nærri lagi, að eftirlaunafólk þurfi um 67% af fyrri vinnutekjum til að halda óbreyttum lífsstíl.

Þetta segir hins vegar engan veginn alla söguna. Í fyrsta lagi hafa kjör aldraðra batnað, þótt þau hafi batnað minna en annarra í hinni miklu uppsveiflu kjara, sem varð á síðari hluta tíunda áratugarins. Afstæðar tölur um lífskjör eru ekki sama og rauntölur.

Í öðru lagi er brýnt að hafa hliðsjón af öllu kjarauppgjöri kynslóðanna. Slíkt uppgjör er vel þekkt í hagtölum frá vestrænum löndum, en hefur ekki farið fram í neinni alvöru hér á landi. Lausleg athugun bendir þó til óhagstæðrar stöðu ungra og ófæddra.

Ríkisvaldið er sífellt að flytja fé milli kynslóða. Með því að byggja upp varanlega innviði á borð við vegi og hafnir er það að þjóna komandi kynslóðum. Með því að skulda þessar framkvæmdir er það aftur á móti að fresta greiðslunum yfir til komandi kynslóða.

Með því að skoða heildardæmi skattheimtu í þjóðfélaginu, eflingu innviða þess til langs tíma og breytingar á skuldastöðu hins opinbera til langs tíma er með nokkuð flóknum reikningi hægt að segja, hvert fjármagnið sé að renna í uppgjöri kynslóðanna.

Á þriðja fjórðungi síðustu aldar var uppgjörið afar óhagstætt ungum og ófæddum. Þá var óðaverðbólga og fullorðið fólk eignaðist skuldlausar íbúðir með undraskjótri brennslu á verðgildi skuldanna og varð aldrað á vildarkjörum á kostnað komandi kynslóða.

Undir lok aldarinnar hafði þetta lagazt töluvert. Ríkisvaldið var hætt að safna skuldum til að eiga fyrir rekstri líðandi stundar. Sá ósiður hafði að mestu aflagzt að senda reikning óskhyggjunnar til skattgreiðenda framtíðarinnar. Núna er sú aðferð lítið notuð.

Samkvæmt lauslegu kynslóðauppgjöri er Ísland 8% frá kynslóðajafnvægi. Skattar þyrftu að hækka um 8% til að borga niður sameiginlegar skuldir, svo að þær lendi síður á ungum og ófæddum. Þetta er alls ekki mikið ójafnvægi í fjölþjóðlegum samanburði.

Ástandið er skelfilegt í sumum löndum, einkum þeim, sem búa við gegnumstreymi lífeyris á vegum ríkisins, en ekki uppsöfnun hans á vegum lífeyrissjóða, sem við þekkjum hér á landi. Svíar eru með 42% skekkju frá kynslóðajafnvægi og Frakkar 64%.

Í samanburði milli vestrænna landa erum við vel sett með lífeyrissjóði okkar og aðeins 8% skekkju frá kynslóðajafnvægi. Með nýjum reglum um sparnað í þjóðfélaginu er uppsöfnun lífeyris enn að batna hér á landi, þannig að senn verða kjör aldraðra prýðileg.

Þegar öldruðum dugar ekki uppsöfnun eigin lífeyris og umboðsmenn þeirra fara með háværar kröfur á hendur ríkinu, verður að hafa í huga, að ríkið þarf einnig að gæta hagsmuna ungra og ófæddra í heildaruppgjöri peningastraums milli kynslóðanna.

Hinir ungu og ófæddu eiga sér hins vegar ekki þrautreynda og harðskeytta talsmenn eins og hinir öldruðu, sem láta í sér heyra á nánast hverjum degi.

Jónas Kristjánsson

DV

Nú geta allir höggvið

Greinar

Hafrannsóknastofnunin liggur vel við höggi þessa dagana. Þótt árum saman hafi verið farið að tillögum hennar um aflamagn, hafa fiskistofnar haldið áfram að minnka. Menn draga því fræðimennsku hennar í efa. Gamlir og nýir skottulæknar eru aftur komnir á kreik.

Vandi Hafrannsóknastofnunar er ekki aðeins ótraust viðfangsefni hennar, sem er lifandi fiskur í sjó, heldur líka alls konar aukabyrðar, sem lagðar hafa verið á aflatillögur hennar, svo sem ábyrgð á ranglátu skömmtunarkerfi og hlut þess að verndun fiskistofnanna.

Síbreytilegar aðstæður í náttúrunni valda sveiflum, sem oft fara langt út fyrir spár Hafrannsóknastofnunar. Oftast reynist ástandið verra en gert hafði verið ráð fyrir, sem getur bent til, að stofnunin hneigist til að smitast af takmarkalausri bjartsýni flestra hagsmunaaðila.

Í vörnum stjórnmálamanna og hagsmunaaðila fyrir ranglátu gjafakvótakerfi hefur því kerfi vísvitandi verið ruglað saman við árlegar aflamagnstillögur Hafrannsóknastofnunar. Þessir aðilar hafa sagt, að viðhalda þurfi kvótakerfinu, af því að það verndi fiskistofna.

Ekkert samhengi er milli leyfilegs heildarafla annars vegar og aðferða við skiptingu aflans. Hins vegar hefur hentað stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum að draga Hafrannsóknastofnun inn í gjafakvótann. Það hefur um leið skert traust fólks á henni og skaðar hana nú.

Stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar hafa dregið upp mynd af nánast fullkomnu kerfi, þar sem reiknilíkön vísindamanna ákveði heildarafla, sem skiptist milli aðila með veiðireynslu og leiði til trausts viðhalds fiskistofna umhverfis landið, er sé öfundarefni annarra þjóða.

Utanríkisráðherra hefur verið duglegastur við að koma þeirri firru á framfæri, að íslenzka fiskveiðistjórnarkerfið í heild og þar með talinn gjafakvótinn, sé sífellt aðdáunarefni, hvar sem hann fari um heiminn og muni innan skamms verða eins konar útflutningsafurð.

Þetta er þvæla, sem dugar ráðherranum ekki lengi. Allar tölur sýna, að veiðar Íslendinga eru langt frá því að vera sjálfbærar. Nánast allir fiskistofnar hafa verið ofveiddir, sumir um langan aldur, aðrir í nokkur ár. Heildarmyndin er hægfara hnignun lífríkisins.

Ef menn hefðu borið gæfu til að halda reiknilíkönum Hafrannsóknastofnunar utan við óskylda hagsmunagæzlu á borð við gjafakvótann, nyti stofnunin meira trausts og væri betur í stakk búin til að mæta gagnrýni skottulækna, sem nú hafa leikvöll umræðna að mestu fyrir sig.

Mest fer að venju fyrir þeim, sem segja, að ekki eigi að skammta aflamagn, heldur leyfa öllum að veiða að vild, svo að stofnar grisjist eðlilega og leiði af sér færri og stærri fiska. Þessi aðferð er mest notuð um allan heim og hefur alls staðar leitt til hruns og hörmunga.

Að auki ber í fyrsta skipti töluvert á annarri og lúmskri kenningu um, að taka beri aukið tillit til svokallaðra fiskifræða sjómannsins, sem er fínt hugtak ímyndunarfræðinga yfir það, sem áður voru kallaðir fordómar skammsýnna hagsmunaaðila og eru alls ekkert annað.

Því miður hefur hinn nýi og sennilega fremur ístöðulitli sjávarútvegsráðherra látið fallerast fyrir hinu nýja hugtaki. Það bendir til, að hann muni heimila nokkru meira aflamagn en Hafrannsóknastofnunin mælir með og þar með enn draga úr fiskistofnunum.

Það mun reynast honum auðvelt, því að traustið á Hafrannsóknastofnun hafði áður verið rýrt með því að draga hana að ósekju inn í rifrildið um gjafakvótann.

Jónas Kristjánsson

DV

Áróður fyrir erfðabreyttu

Greinar

Umhverfisráðherra hefur boðað áróðursherferð fyrir erfðabreyttum matvælum undir merki fræðsluherferðar. Fyrsta skrefið var ráðstefna í vor, þar sem tjaldað var nokkrum sérfræðingum, er höfðu séð ljósið og töldu andstöðu neytenda ekki vera á rökum reista.

Þegar íslenzkir ráðherrar tala um nauðsyn á að upplýsa almenning, meina þeir nánast alltaf, að reka beri áróður fyrir málstað, svo að almenningur fallist á hann. Þannig töluðu þeir um Fljótsdalsvirkjun og heilsugagnagrunn og þannig tala þeir nú um erfðabreytt matvæli.

Hvorki umhverfisráðherra né sérfræðingar hennar hafa hugmynd um, hvort erfðabreytt matvæli séu skaðleg, geti verið skaðleg eða alls ekki. Reynslan sýnir í þessu efni sem öðrum, að hver étur upp úr sínum poka. Fræðimenn hafa skoðun þess, sem borgar fyrir fræðin.

Í Bandaríkjunum segja fræðimenn á vegum ríkisbáknsins, að erfðabreytt matvæli séu ekki skaðleg. Í Evrópusambandinu halda fræðimenn á vegum báknsins hins vegar fram, að mikið eigi enn eftir að rannsaka til að geta haldið fram, að sennilega séu þau ekki skaðleg.

Þetta endurspeglar deilu milli Bandaríkjanna, sem vill selja erfðabreytt matvæli, og Evrópusambandsins, sem ekki vill kaupa þau. Niðurstaðan verður væntanlega sú skynsamlega, að skylt verður að merkja sérstaklega á umbúðir slíkra matvæla, hvernig í pottinn er búið.

Mikill hvellur varð fyrir nokkru í Evrópusambandinu, þegar upp komst, að dálítið af erfðabreyttum repjufræjum hafði óvart komizt í sendingu frá Kanada. Svíar og Frakkar ætla að eyða öllum ökrum, sem repjan komst í, en Bretar og Þjóðverjar ætla ekki að gera það.

Misjöfn sjónarmið austan og vestan hafs stafa einkum af misjöfnu áliti neytenda. Í Evrópu tala menn um Frankenstein-fæðu, sem þeir vilja ekki kaupa, en Bandaríkjamenn hafa til skamms tíma látið sér fátt um finnast. Ýmislegt bendir til, að það síðara sé að breytast.

Það sést af því, að bandarísk fyrirtæki hafa, það sem af er þessu ári, verið að lýsa formlega yfir, að þau hafni erfðabreyttum hráefnum í ýmis matvæli. Þannig hafa nokkur fyrirtæki hafnað slíkum efnum í barnamat og McDonalds er farið að hafna erfðabreyttum kartöflum.

Tvískinnungur er í ýmsum þessum yfirlýsingum, því að McDonalds notar enn erfðabreytta grænmetisolíu og Heinz notar enn erfðabreytta tómatsósu, þótt kartöflur og barnamatur þessara fyrirtækja sé laus við slíkt. Fyrirtækin eru enn að tvístíga og hlusta á markaðinn.

Talið er, að sjö tíundu hlutar matvæla í verzlunum Bandaríkjanna séu erfðabreyttir. Það mun því kosta framleiðendur stórfelldar fjárhæðir að skrúfa fyrir dæmið. Margir hafa þó neyðzt til að gera slíkt til að reyna að verja markað sinn í löndum Evrópusambandsins.

Gera má ráð fyrir, að erfðabreyttur sé meira en helmingur bandarískra matvæla í íslenzkum búðum. Væntanlega verða fyrir áramót settar hér á landi evrópskar reglur um merkingu erfðabreyttra matvæla, svo að neytendur geti sjálfir valið slíkar vörur eða hafnað þeim.

Þessar nýju reglur verða því miður marklausar meðan ekki er neitt opinbert eftirlit með því, hvort merkingar á umbúðum matvæla séu yfirleitt réttar eða ekki. Með tilvísun til laga vísar Hollustuvernd slíku eftirliti eindregið frá sér. Neytendaverndin er því í algeru núlli.

Umhverfisráðherra leysir ekki vanda erfðabreyttra matvæla með áróðri svokallaðra sérfræðinga, sem ekki hafa hugmynd um, hverjar séu staðreyndir málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Kristnihátíð í gíslingu

Greinar

Ríkiskirkjan hefði betur gengið hóflegar fram í hrokanum, þegar hún gerði þúsund ára kristnihald á Íslandi að lúterskri innansveitarhátíð með rækilegri stéttaskiptingu kirkjudeilda, þar sem mönnum er vísað til vistar eftir því, hvar í flokki þeir standa.

Ríkiskirkja okkar kom hvergi að friðsamri og hagnýtri kristnitöku Íslendinga fyrir árþúsundi. Hún kom ekki til sögunnar fyrr en hálfri sjöttu öld síðar, þegar hún ruddist til valda í landinu með aftökum og gripdeildum í skjóli erlends vopnavalds.

Ef haldin væri þúsund ára kristnihátíð á eðlilegan hátt, mundi kaþólska kirkjan skipa annað öndvegið, því að hún vann það afrek að kristna þjóðina nánast baráttulaust á nánast einum degi fyrir þúsund árum og að láta ekki hné fylgja kviði í sigurvímunni.

Hitt öndvegið mundi ásatrúarsöfnuðurinn skipa, því að forverar hans áttu meginþátt í að búa til sátt, sem hélt almennum friði í landinu á tíma mestu hugmyndahvarfa Íslandssögunnar. Aðild ásatrúar mundi minna á sáttina, sem varð um þessi fyrri siðaskipti.

Hafa má til marks um, að fólk er almennt fylgjandi söguskoðun af þessu tagi, að sjaldan er minnzt þeirra Marteins biskups Einarssonar og Daða Guðmundssonar í Snóksdal, en þeim mun meiri hetjur eru Þorgeir Ljósvetningagoði og Jón biskup Arason.

Íslenzka ríkiskirkjan býr hins vegar í eigin hugarheimi með fremur lítilli aðild þjóðarinnar, en í skjóli rentunnar frá hinu opinbera. Ef ríkisaurunum væri kippt undan lúterskunni, yrði hún ekki fyrirferðarmeiri í þjóðlífinu en aðrir söfnuðir í landinu.

Um siðferðilega stöðu lúterskunnar í kirkjusögu kristninnar þarf ekki að segja margt annað en að benda á, að í fyrra játaði hún skriflega í sögufrægu samkomulagi, að enginn ágreiningur væri um kennisetningar milli hennar og kaþólskunnar.

Lúterskan kom til sögunnar á siðferðilega erfiðu tímabili í sögu kaþólskunnar og var studd til valda í norðanverðri Evrópu í skjóli veraldlegra foringja, sem ágirntust eignir kirkjunnar og sölsuðu þær undir sig. Þannig kynntust Íslendingar lúterskunni.

Hinar sögulegu staðreyndir málsins gefa ekki tilefni til neins hroka af hálfu biskupsstofu. Miklu fremur ættu þær að vera ríkiskirkjunni tilefni til lítillætis, þar sem hún samþykkti og staðfesti smæð sína í hinu stóra samhengi kristnitökunnar og kristnisögunnar.

Ríkiskirkjan hefur tekið kristnihátíð í gíslingu í samræmi við veraldarsýn, þar sem biskupsstofa er í sjöunda himni og öðrum skipað út frá henni í lægri og óvirðulegri himnum, sumum vísað til Hestagjár eða í Skógarhóla og sumir látnir greiða salernisgjald.

Samkvæmt þessari sjálfhverfu veraldarsýn lútersku ríkiskirkjunnar eru Krossinn og hommar í neðsta og lélegasta himninum í Hestagjá og ásatrúarmönnum vísað út fyrir tíma og endimörk himnanna, þar sem Skógarhólar leika hlutverk eins konar forgarðs helvítis.

Niðurstaðan er, að haldin verður eins konar lútersk innansveitarhátíð í sumar, en engin þúsund ára kristnihátíð. Ríkiskirkjan hefur rænt hátíðinni og gert hana að engu, rétt eins og hún rændi þjóðarauðnum fyrir hálfri fimmtu öld og flutti hann úr landi.

Arftakar Þorgeirs Ljósvetningagoða og Jóns Arasonar eiga meira erindi á þúsund ára kristnihátíð heldur en arfakar Daða í Snóksdal og Marteins biskups.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki sérlega fínn kóngur

Greinar

Abdullah II Jórdaníukóngur, sem var hér í heimsókn í lok síðustu viku, er ekki sérlega fínn félagsskapur. Ríki hans er ekki lýðræðisríki á vestrænan mælikvarða. Harðstjórn yfirvalda hefur raunar farið vaxandi síðan Abdullah tók við af föður sínum Hussein í fyrra.

Um síðustu áramót voru tólf samvizkufangar í fangelsum Jórdaníu. Fjögur hundruð manns voru handtekin af pólitískum ástæðum á árinu og sextíu þeirra hlutu dóma hjá Öryggisdómstóli ríkisins, sem ekki fer eftir alþjóðlegum stöðlum. Pyndingar eru stundaðar í fangelsum.

Sem dæmi um ástandið í Jórdaníu má nefna, að ritstjóri og útgefandi kvennablaðsins Sawt al-Mar’a voru handteknir í fyrra eftir að hafa birt viðtal við jórdanskan þingmann, sem gagnrýndi forstjóra Öryggismálastofu Jórdaníu. Engar sakir var hægt að finna gegn þeim.

Skömmu fyrir áramót voru sett útgáfulög í Jórdaníu, sem ekki standast alþjóðlega staðla, svo sem Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórn landsins hefur að vísu lýst yfir, að hún ætli ekki að framkvæma hörðustu ákvæðin, en þau standa þó enn.

Suleiman al-Hamdan al’Ajarmeh lézt í fyrra af völdum pyndinga í Öryggismálastofu Jórdaníu, annar fangi missti fjórar táneglur og hinn þriðji fótbrotnaði. Játningar samvizkufanga í fyrra voru í tugum tilvika fengnar með pyndingum, sem skjalfestar hafa verið af Amnesty.

Þetta gerist í tiltölulega menntuðu og þróuðu samfélagi Jórdaníu, þar sem fólk er almennt mjög háttvíst. Raunar geta Jórdanir státað af nokkur þúsund ára sögu hámenningar. Þeir eiga ekki skilið arfakóng, sem hagar sér eins og hann eigi líf og limi fólksins í landinu.

Þótt ástandið sé verra í mörgum löndum, þar á meðal í sumum nágrannalöndum Jórdaníu, svo sem Ísrael, er engin ástæða til að hlaða veizluboðum á smáfanta á borð við Abdullah II. Þeir túlka boð vestræns fyrirfólks sem staðfestingu þess, að þeir megi vera harðstjórar.

Kóngurinn í Jórdaníu og fagra drottningin hans eru semsagt ekki fólk, sem venjulegt og heiðarlegt fólk vildi taka í hendina á og sitja með til borðs. Ástæðulaust er fyrir forseta Íslands að setja ráðherra og embættismenn í þá stöðu að þurfa að bugta sig fyrir slíku fólki.

Sem þingmaður efndi núverandi forseti Íslands til kynna við vafasama náunga í röðum valdamanna í þriðja heiminum, svo sem Mexíkó og Víetnam. Það var sagt gert af viðskiptaástæðum, en ekki verður þó sagt, að neinn hafi orðið loðinn um lófana við að heilsa slíkum.

Ef forsetinn hyggst halda áfram að bjóða hingað illa siðuðum valdhöfum, er kominn tími til að stinga við fótum. Lýðræðissinnum ber skylda til að efna til mótmæla. Leiðara á borð við þennan ber að birta á heimsóknartíma, en ekki eftir hann af kurteisisástæðum.

Meginorsök þess, að lög og réttur dreifist hægt um þriðja heiminn og að alþjóðleg viðskipti eiga erfitt uppdráttar, er andvaraleysi vestrænna ráðamanna og kaupsýslumanna fyrir meginþáttum lýðræðis. Með meiri hörku gegn harðstjórum má ná hraðari árangri.

Með meiri áherzlu á að knýja valdahafa til laga og réttar, til lýðræðis og mannréttinda, skapast betra andrúmsloft og meira öryggi fyrir samskipti og viðskipti af hvers konar toga. Vestrænir ráðamenn, sem flaðra upp um harðstjóra, spilla vestrænum langtíma-hagsmunum.

Frá þessum sjónarhóli var heimsókn Abdullah II Jórdaníukonungs til Íslands utarlega á gráa svæðinu, misráðið gestaboð, sem má ekki verða til eftirbreytni.

Jónas Kristjánsson

DV