Greinar

Ríkisverzlun fíkniefna

Greinar

Mafíur komust til áhrifa í Bandaríkjunum á bannárunum fyrir stríð. Gróðann notuðu þær meðal annars til að grafa undan þjóðskipulaginu og setja sig í stað ríkisvaldsins. Mörgum áratugum eftir afnám vínbannsins lifa mafíurnar góðu lífi á verzlun fíkniefna.

Það, sem gilti þá um vínbann, gildir núna um fíkniefnabann, ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur um allan hinn vestræna heim. Á svarta markaðinum græðast miklir fjármunir, sem eru meðal annars notaðir til að hefja mafíur nútímans yfir lög og rétt landsins.

Andstæðingar þjóðfélagsins eiga auðveldari leik nú en þá, því að fíkniefni eru minni að fyrirferð og auðveldari í flutningi en áfengi. Enda ná yfirvöld aðeins tangarhaldi á litlu broti ólöglegra fíkniefna og allur þorri glæpamanna á því sviði gengur laus.

Þeir, sem nú hafa verið leiddir fyrir rétt í stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar, bera aðeins ábyrgð á litlum hluta fíkniefnasölu í landinu. Ekki eru nein merki þess, að fíkniefnum hafi fækkað í umferð. Þvert á móti hefur offramboð lækkað markaðsverð þeirra.

Vandamál þjóðfélagsins af fíkniefnum eru einkum tvenns konar. Annars vegar eru örlög einstaklinganna, sem ánetjast fíkniefnum og kostnaður við tilraunir til endurhæfingar þeirra. Hins vegar er hnignun margvíslegra innviða, sem halda uppi þjóðfélaginu.

Þau fíkniefni, sem hafa verið lögleidd, skaða fíkla og valda miklum kostnaði, en þau grafa ekki undan sjálfu þjóðskipulaginu, af því að ekki myndast neinar mafíur umhverfis þau. Áfengi og prozak grafa ekki undan lögum og rétti á sama hátt og hass og maríjúana.

Þjóðfélagið hefur sjálft yfirtekið heildverzlun og smásölu áfengis og falið læknastéttinni að skammta aðgang að fíkniefnum á borð við prozak. Þannig takmarkar það bölið við fíknina eina og afleiðingar hennar og ver sig gegn valdasamkeppni af hálfu forhertra mafía.

Um nokkurt skeið hafa lærðir menn leitt þung rök að því, að afnema beri bann við sölu fíkniefna og flytja söluna inn í gegnsætt viðskiptakerfi uppi á borði. Tímaritið Economist hefur hvað eftir annað gengið fram fyrir skjöldu í baráttu fyrir því, að fíkniefni verði leyfð.

Markmiðið er að ná tökum á mafíum heimsins og hindra þær í að grafa undan lögum og rétti með mútum og ógnunum, sem hafa áhrif á lögreglumenn, saksóknara, dómara, fréttamenn, stjórnmálamenn og aðra þá, sem koma einna mest að rekstri þjóðskipulagsins.

Ef gróðinn er tekinn úr höndum mafíanna og færður í hendur ríkisvaldsins, losnar það við hættulegasta keppinautinn og fær tækifæri til að stýra verðlagi og hafa áhrif á neyzlu fíkla, auk þess sem það dregur úr glæpum, sem fíklar fremja til að fjármagna neyzlu.

Leiddar hafa verið líkur að því, að fíklum muni fjölga við lögleiðingu fíkniefna, þótt sumir vefengi raunar algerlega, að svo muni verða. Alltjent þarf að fara fram einhvers konar mat á misjöfnu vægi vandamála við svartan markað og gegnsæja verzlun.

Hingað til hafa slíkar hugleiðingar verið gargaðar niður og svo verður enn að þessu sinni. Hitt má ljóst vera, að dag hvern er svarti markaðurinn að grafa undan þjóðskipulaginu jafnt á Íslandi sem annars staðar á Vesturlöndum og sífellt sígur á ógæfuhliðina.

Ríkisverzlun fíkniefna kemur fyrr eða síðar. Því fyrr, sem þjóðfélagið tekur lifibrauðið af mafíum, þeim mun traustari verða hornsteinar laga og réttar í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðhelg kamfýla

Greinar

Í vestrænu alvöruríki væri yfirdýralæknir rekinn fyrir vanrækslu í starfi, þegar komið hefur í ljós, að kamfýla er á fullu í kjúklingakjöti á fyrstu mánuðum þessa árs. Hann lofaði í fyrra að herða eftirlit með sóðabælum kjúklingaframleiðslunnar, en hefur ekki staðið við það.

Yfirdýralæknir starfar innan geira landbúnaðarráðuneytisins og hagar sér í samræmi við það grundvallarlögmál þess, að hagur og þægindi framleiðenda skuli jafnan vera tekinn fram yfir hag og heilsu neytenda. Nú sem fyrr vill hann ekki segja frá því, hverjir séu sóðarnir.

Eins og fyrri daginn hefur kamfýlan mælzt í kjúklingasláturhúsi Reykjagarðs á Hellu. Ráðamenn þess sverja af sér alla ábyrgð eins og fyrri daginn og vísa sök á ónafngreinda framleiðendur, sem að þessu sinni eru ekki aðeins í kjördæmi landbúnaðarráðherra.

Embættismenn á vegum umhverfisráðuneytisins deila ábyrgðinni á svínaríinu með embættismönnum á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Hollustuvernd ríkisins tók í vetur forustu í verndun kamfýlunnar með frægum málsverði, þar sem heilbrigðisnefndir átu kjúklinga.

Þetta var eins konar hópefli af hálfu Hollustuverndar í stíl við það frumkvæði brezka landbúnaðarráðherrans fyrir nokkrum árum að snæða brezka hamborgara opinberlega til að sýna fram á, að hann fengi ekki kúariðu. Enginn dó af kjúklingunum og allir voru kátir.

Hópefli Hollustuverndar og heilbrigðisnefnda hefur leitt til þess, að látið er duga að frysta kamfýluna og neytendur eru áminntir um að elda kjúklingana vel og lengi, svo að kamfýlan í þeim drepist. Þennan lága heilbrigðisstaðal hafa heilbrigðisnefndir samþykkt.

Þar á meðal er heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hefur slegið róttækt af fyrri kröfum sínum um heilbrigða kjúklinga og getur nú sætt sig við, að Reykvíkingar fái kamfýlusýkta kjúklinga, svo framarlega sem þeir kaupi þá frysta. Borgaryfirvöld eru orðin hluti af samsærinu.

Yfirdýralæknir og forstjóri Hollustuverndar hafa forustu fyrir aðgerðum, sem eiga að koma í veg fyrir óhæfilega iðni starfsmanna heilbrigðiseftirlits við að koma upp um kamfýlu og leka í fjölmiðla upplýsingum um sóðana, svo sem talið er hafa gerzt á Selfossi í fyrra.

Frá upphafi hefur kamfýlumálið borið öll einkenni hefðbundinnar gæzlu staðbundinna framleiðsluhagsmuna í Suðurlandskjördæmi. Dýralæknar eru verktakar hjá framleiðendum, sem þeir eiga að rannsaka, og heilbrigðisnefndarmenn eru sveitarstjórnarmenn svæðisins.

Framleiðendur, dýralæknar og heilbrigðisnefndarmenn eru saman í helzta kvöldverðarklúbbi svæðisins. Þeir voru í fyrra sammála um, að vandamálið væri ekki kamfýlan, heldur óviðurkvæmileg iðni tveggja heilbrigðiseftirlitsmanna á Selfossi við að upplýsa málið.

Dýralæknarnir njóta verndar yfirdýralæknis, heilbrigðisnefndarmenn njóta verndar forstjóra Hollustuverndar, framleiðendur njóta verndar sveitarstjórnarmanna og landbúnaðarráðherrans, sem er þingmaður kjördæmisins. Heilsa og hagsmunir neytenda komast hvergi að.

Síðan kamfýlu-skandallinn varð í fyrra hafa embættin árangurslaust reynt að finna leiðir til að minnka upplýsingaleka. DV getur þó upplýst, að Móakjúklingur hefur að þessu sinni bætzt í hóp sóðanna, sem í fyrra voru Ásmundarstaðir, Holtakjúklingur og Reykjagarður.

Munur Íslands og nágrannalandanna er sá, að þar er kamfýlan hundelt, en hér er hún svo friðhelg, að leyndarráðsmenn hennar halda embættum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðargersemar

Greinar

Tvær þjóðargersemar þessarar aldar, Björk Guðmundsdóttir og Halldór Laxness, eiga ýmislegt sameiginlegt, þótt annað sé misjafnt. Þau eiga sér kjarna í sterkri sjálfsmynd, sem gerir þeim kleift að vinna ótrauð að metnaðarfullum markmiðum sínum og víkja hvergi frá þeim.

Slíka samlíkingu má ekki teygja of langt, enda var Halldór Laxness klassískur rithöfundar og Björk er tónlistarmaður í poppi. Halldór náði ekki almennri viðurkenningu hér á landi fyrr en eftir nóbelsverðlaun, en Björk hefur nánast frá upphafi búið við atlæti þjóðar sinnar.

Enginn nær árangri af þeirra tagi án þess að vita nákvæmlega, hvað hann vill gera, og án þess að víkja öllu öðru til hliðar. Enginn nær árangri af þeirra tagi, ef hann hlustar meira á aðra en á innri rödd. Enginn nær árangri af þeirra tagi án hreins einstrengings í listinni.

Enginn nær árangri af þeirra tagi án þrotlausrar vinnu, sem byggist á kröfunni um, að ekki megi láta neitt frá sér fara fyrr en maður er sjálfur orðinn fyllilega ánægður. Hin sterka sjálfsmynd krefst þess, að verkin endurspegli fullkomnunaráráttu hinnar sterku sjálfsmyndar.

Snilligáfa er sviti að níu tíundu hlutum. Það er ekki nóg að fá góðar hugmyndir. Þær fást ódýrt í kippum. Hugmyndunum verður að fylgja þrotlaus vinna, sem byggist á innri metnaði og sjálfsaga og lýkur ekki fyrr en höfundurinn telur sjálfur niðurstöðuna fullkomnaða.

Við sjáum sömu þætti aftur og aftur, snilligáfu og fullkomnunaráráttu, hlustun á innri rödd og þrotlausa vinnu, sterka sjálfsmynd, sem er óskyld sjálfstrausti. Margir slíkir þættir eru ofnir saman í vað þeirra fáu listamanna, sem við erum sammála um, að séu þjóðargersemar.

Hér á landi sem annars staðar eru gefin út tímarit um gervifrægð með myndum af borubröttu skammtímafólki, sem er frægt fyrir það eitt að vera frægt, en hefur aldrei gert neitt, sem máli skiptir. Það fer með rulluna sína og síðan er því skipt út fyrir næsta gervimann.

Gervifræga fólkið og áhangendur þess þjást af veikri sjálfsmynd. Þetta fólk vill vita, hvað markaðurinn segir hverju sinni, og hagar sér í samræmi við hann. Það hefur ekki innri rödd til að hlusta á og það hefur ekki þrautseigju og úthald til að ná árangri á neinu sviði.

Þjóðargersemar Íslendinga á þessari öld eru alger andstæða gervifólksins. Halldór Laxness vissi sem unglingur, að hann yrði rithöfundur og mundi ekki taka á neinu öðru verki. Hann stóð við þetta og gekk sem sérvitringur sinn grýtta og langa veg inn í þjóðarsálina.

Undanfarin misseri hefur Björk Guðmundsdóttir átt sem listamaður í stöðugum listrænum ágreiningi við samstarfsmann sinn við gerð kvikmyndarinnar, sem fékk gullpálmann í Cannes um helgina. Erjurnar voru neistinn, sem kom kvikmyndinni á þennan leiðarenda.

Til þess að standa á sínu þarf sterka sjálfsmynd og fylgja henni eftir, hvort sem menn gera það með látum eða með hægð. Menn neita að lina listrænan metnað sinn. Halldór Laxness var talinn vera snyrtilegur umrenningur, sem ekki nennti að vinna, og Björk er talin gribba.

Halldór Laxness á þátt í sjálfsímynd Íslendinga með ótal persónum, allt frá Bjarti í Sumarhúsum yfir í Úu af Snæfellsnesi. Björk Guðmundsdóttir á ef til vill eftir að eignast þátt í sjálfsímynd Íslendinga með nýstárlegri innsýn í heima álfa og annarra náttúruvætta.

Við þurfum tæpast meira en tvær þjóðargersemar á hverri öld til að geta fullyrt, að þjóðin hafi þrátt fyrir annmarka sína gengið til góðs götuna fram eftir veg.

Jónas Kristjánsson

DV

Stuðlað að sykursýki

Greinar

Hollustuvernd ríkisins og Manneldisráð bera hluta ábyrgðar á hraðri útbreiðslu sykursýki hér á landi. Þessar stofnanir, sem hafa breitt úr sér við Ármúlann, hafa ekki orðið við óskum um að fá merkt á umbúðir matvæla, hve mikill viðbættur sykur sé í þeim.

Vörur frá Bandaríkjunum bera yfirleitt slíkar merkingar, en hvorki innlendar vörur né vörur frá Evrópu. Hollustuvernd og Manneldisráð hafa lagt lóð sitt á evrópsku vogarskálina og þannig reynt að koma í veg fyrir, að neytendur sjái, hve mikið matur er sykraður.

Fyrir örfáum áratugum var sykursýki fremur lítið vandamál hér á landi. En nú eru um fimm þúsund Íslendingar komnir með sykursýki. Aukningin stafar meira eða minna af vondu mataræði nútímafólks, þótt að grunni til sé sjúkdómurinn arfgengur.

Hollustuvernd ríkisins og Manneldisráð hafa fylgt þeirri þráhyggju næringarfræðinnar, að kolvetni sé sama og kolvetni og að sykur sé eins og hvert annað nytsamlegt kolvetni, þótt rannsóknir hafi fyrir löngu leitt í ljós, að viðbættur sykur sé varhugaverð fæða.

Vitneskjan um hættuna af viðbættum sykri er útbreiddust í Bandaríkjunum. Því var það fyrsta ríkið, sem skyldaði framleiðendur og seljendur matvæla til að merkja á umbúðir, hve miklum sykri væri bætt út í vöruna ofan á náttúrulegt sykurmagn hennar.

Hollustuvernd ríkisins og Manneldisráð hafa reynt að leggja stein í götu bandarískra matvælamerkinga hér á landi og haft uppi kröfu um, að seljendur slíkrar vöru lími lakari evrópskar merkingar ofan á þær bandarísku til að draga úr upplýsingum til neytenda.

Engum, sem ekur um Ármúlann í Reykjavík, dylst, að Hollustuvernd ríkisins hefur ekki vaxið hægar en útbreiðsla sykursýkinnar. Eitthvað af þeim mannskap ætti að geta litið upp úr úreltum kennslubókum og farið að fylgjast með þróun mála vestan hafs.

Sömuleiðis væri gott, ef eitthvað af þessum mannskap væri aflögu til að kanna, hvort upplýsingar á umbúðum matvæla séu í samræmi við raunveruleikann. Staðreyndin er sú, að óprúttnir geta birt á umbúðum það, sem þeim sýnist, án minnsta ótta við eftirlit.

Hollustuvernd vísar jafnan á heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, sem augljóslega eru engan veginn í stakk búnar til að láta rannsaka efnainnihald grunsamlegra matvæla. Hollustuvernd hefur hins vegar nægan mannskap til að láta til sín taka á þessu sviði.

Skynsamlegt væri fyrir ríkisvaldið að fara framhjá verkkvíðinni Hollustuvernd og fá þriðja aðila til að annast eftirlitið. Til dæmis mætti fela Neytendasamtökunum gegn gjaldi að taka að sér að láta gera rannsóknir á sannleiksgildi umbúðamerkinga.

Kostnað við slíka verktöku mætti fjármagna með því að lækka greiðslur ríkisins til Hollustuverndar, sem er orðin að meiri háttar bákni í ríkiskerfinu, án þess að þess sjái umtalsverðan stað í manneldismálum. Þetta er dæmigert apparat, sem snýst kringum sjálft sig.

Ófært er, að ónýtar stofnanir standi í vegi framfara í heilsufari þjóðarinnar. Ríkisvaldinu ber að taka af skarið og efna á annan hátt til þjónustu, sem auðveldar fólki að átta sig á innihaldi matvæla og auðveldar því að treysta upplýsingum um þetta innihald.

Umbúðamálið er tvíþætt, annars vegar eru sykurmerkingar matvæla ófullnægjandi og hins vegar eru merkingar matvæla falsaðar í sumum tilvikum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hópefli Samfylkingar

Greinar

Samfylkingin er ekki enn komin svo langt á ferli sínum, að hún geti farið að taka þátt í að móta umheim sinn. Hún er enn á stigi hópeflis, sem náði hámarki á landsfundi flokksins í vor. Þar gerði nýr formaður flokksins skýran greinarmun á “okkur” og “hinum” í pólitíkinni.

Þetta var líklega nauðsynlegt í stöðunni, enda voru málsaðilar fegnir að geta komið sér átakalítið upp nýju forustuliði í flokknum og hætt að flokka liðsmenn eftir fyrri keppnisliðum þeirra. Til þess þurfti róttækt hópefli og það tókst bærilega á landsfundinum.

Samfylkingin hefur kastað af sér tötrum Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka og tekið sér stöðu sem stækkaður Alþýðuflokkur með kostum hans og göllum. Hún er Alþýðuflokkur með slæðingi af krötum úr öðrum flokkum á miðju og til vinstri í pólitíkinni.

Samfylkingin hefur líka erft stöðu Alþýðuflokksins sem sérfræðings í könnun á víddum grárra svæða siðferðis og víkkun endimarka þeirra. Hún háði 60 milljón króna kosningabaráttu án þess að geta skýrt, hver borgaði. Og boðsbréf landsfundar frímerkti hún á Alþingi.

Sem formann valdi hún eina frambærilega fulltrúann, sem þó er þeim annmarka háður að mega ekki sjá pólitísk slagsmál án þess að steypa sér sjálfur út í þau. Hann nýtur slíkra slagsmála enn meira en núverandi sendiherra í Washington, þegar sá var formaður forverans.

Þetta getur hentað ágætlega um hríð, sérstaklega meðan verið er að fá félagsmenn til að átta sig á, að þeir eru í þessu liði en ekki einhverju öðru liði. Þegar kemur að hrossakaupum um völdin í þjóðfélaginu, getur slagsmálahyggja orðið nýja flokknum fjötur um fót.

Liður í hópefli Samfylkingarinnar eru kaldar kveðjur, sem nýkjörinn formaður sendi öðrum flokkum, sem starfa með flokksbræðrum hans í Reykjavíkurlistanum og hliðstæðum stjórnmálahreyfingum á nokkrum öðrum stöðum. Þessar kveðjur munu valda langtímavanda.

Næsta þolraun stjórnmálanna verða borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík, sem vinstri menn munu áreiðanlega tapa, af því að þeir eru ekki lengur í sameiningarstuði, heldur í innbyrðis slagsmálastuði, sem stafar af róttækum aðferðum hópeflingar í Samfylkingunni.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sem sáttasemjari á miðju og vinstra kanti stjórnmálanna litla ástæðu til að þakka nýjum formanni Samfylkingarinnar fyrir framtak hans á sviði pólitískra slagsmála milli allra þeirra aðila, sem verða að standa að Reykjavíkurlistanum.

Ef aftur tekst að sameina þrjá flokka að baki Reykjavíkurlistanum, verður það slíkt átakaverk, að of lítil orka verður aflögu til að heyja baráttu við Sjálfstæðisflokkinn um meirihlutann. Nú þegar hefur skoðanakönnun sýnt, hversu ótraustir eru fætur Reykjavíkurlistans.

Fátt bendir til annars en, að Sjálfstæðisflokkurinn nái borginni með glæsibrag, renni sér létt í þingkosningar ári síðar og myndi áfram stjórn, þar sem leifar Framsóknarflokksins verða notaðar til brýnustu óhæfuverka hverju sinni, svo sem venja hefur verið undanfarin ár.

Þannig bendir fátt til, að Samfylkingin marki spor í stjórnmálunum næstu árin. Hún er ekki nógu siðavönd og of slagsmálafíkin til að geta aflað sér almannatrausts sem hornsteinn stjórnarmyndana. Hún mun fljótlega fá á sig yfirbragð og orðspor gamla Alþýðuflokksins.

Sem oftar má segja um sjúklinginn, að líðan hans er eftir atvikum góð, hann fái nauðsynlega áfallahjálp og sé í stöðugu hópefli, studdu af slagsmálum foringjans.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrossakaup um gæluverk

Greinar

Enn einu sinni hefur mest sátt náðst á Alþingi um það, sem vitlausast er. Með hrossakaupum samgöngunefndar Alþingis undir forustu samgönguráðherra hefur verið ákveðið að auka vegaframkvæmdir úr rúmlega 52 milljörðum í rúmlega 61 milljarð á næstu fimm árum.

Níu milljarða aukning vegaframkvæmda er dæmigerð kreppuráðstöfun, sem áður var gripið til, þegar atvinnuleysi gerði vart við sig. Þá skar Alþingi niður vegafé í fjárlögum fyrir jól og jók það síðan aftur að vori, þegar Dagsbrún og verktakar heimtuðu fleiri atvinnutækifæri.

Vegaframkvæmdir voru líka ráð Adolfs Hitlers til að koma Þýzkalandi út úr atvinnuleysi kreppunnar miklu við upphaf fjórða áratugar tuttugustu aldar. Þær aðstæður eru hins vegar ekki hér á landi árið 2000, þegar atvinnulífið keyrir á fullum dampi og vinna er næg.

Allir hagfræðingar, sem DV hefur talað við í fréttum undanfarinna daga, eru sammála um, að auknar vegaframkvæmdir séu olía á eld þenslunnar. Þjóðhagsstjóri orðaði það svo: “Það er alveg ljóst, að auknar framkvæmdir af þessu tagi stuðla að aukinni þenslu.”

Við erum um það bil að ofkeyra góðærið yfir í þenslu, sem lýsir sér í miklum viðskiptahalla gagnvart útlöndum og aukinni verðbólgu, sem er orðin tvöföld verðbólga viðskiptalanda okkar. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun hafa varað við þessu, en ríkisstjórnin hlustar ekki.

Þungavigtarmenn ríkisstjórnarinnar eru allir lögfræðingar úr ríkisgeiranum, en hvorki hagfræðingar né athafnamenn úr einkageiranum. Þeir taka efnahagsmál hóflega alvarlega og enn síður kjördæmapotarar Alþingis, sem keppast bara um að ræna og rupla ríkissjóð.

Formaður samgöngunefndar Alþingis hefur skyndilega fengið mikinn áhuga á vegi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur, af því að báðir staðir verða í kjördæmi hans við næstu kosningar. Samgönguráðherra hefur sjálfur áhuga á brú yfir Kolgrafarfjörð, sem er í hans kjördæmi.

Gæluverk af þessu tagi geta orðið góð í framtíðinni, en eru engan veginn nærtæk á þenslutíma. Þau eru þættir í hrossakaupum stjórnmálamanna úr öllum kjördæmum landsins. Þau eru hrossakaup, sem varða ekkert hagsmuni þjóðarinnar og ganga sumpart gegn þeim.

Hinar fyrirhuguðu framkvæmdir eru misjafnar, sumar arðbærar og aðrar arðlausar. Breikkun Reykjanesbrautar borgar sig þjóðhagslega á þrettán mánuðum, Austfjarðagöngin á meira en hundrað árum, en Siglufjarðargöngin munu aldrei borga sig þjóðhagslega.

Til samanburðar má nefna Sundabraut, sem ekki er í pakkanum, en mundi borga sig þjóðhagslega á hálfu þriðja ári. Í öllum þessum tölum er miðað við 1000 króna veggjald og 2% vexti. Valið á verkefnum er þannig greinilega ekki í neinu samhengi við arðsemi.

Af reynslu fyrri ára er ekkert, sem bendir til, að þjóðhagslegt tjón þensluframkvæmda á borð fyrir fyrirhugaða vegagerð verði vegið upp með eflingu byggða víða um land. Fólki hefur síður en svo fækkað minna á stöðum, sem hafa fengið boruð göt í fjöll til samgöngubóta.

Enn alvarlegri er reynsla nágranna okkar í Færeyjum, sem urðu gjaldþrota vegna illrar meðferðar fjár, meðal annars borunar gata í fjöll. Þetta hefur kostað svo mikið, að þeir hafa núna ekki ráð á að gerast sjálfstæð þjóð. Við vorum heppin að hafa ekki Sturlu fyrr á öldinni.

Endurtekin hrossakaup um arðlítil og arðlaus gæluverkefni minna okkur hvað eftir annað á, að því meira, sem tímarnir breytast, því meira eru þeir eins.

Jónas Kristjánsson

DV

Frímerktur flokkur

Greinar

Sorglegt var að lesa skrifstofustjóra Alþingis verja stuld Samfylkingarinnar á póststimpli Alþingis með því að segja, að þingmenn verði sjálfir að gæta meðalhófs. Hann lét þess ógetið, hvorum megin við meðalhófið væri stuldur á 16.000 póststimplunum.

Alþingi tekur löglegan þátt í ýmsum kostnaði þingmanna og þingflokka, greiðir rekstrarkostnað þeirra upp að skilgreindu marki, sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Alþingi á ekki að taka neinn þátt í kostnaði umfram þann, sem þar er skilgreindur.

Alþingi kemur umfram þetta ekkert við, hvað þingflokkar eða þingmenn telja sig þurfa að verja miklu til að halda uppi sambandi við kjósendur. Þeir verða að gera slíkt á eigin kostnað. Og allra sízt kemur Alþingi við boðsbréf til aðalfundar Samfylkingarinnar.

Það er eins og margir átti sig ekki á, að stofnanir þjóðfélagsins eru margs konar og hafa hver sitt verksvið og sínar tekjur. Alþingi er ekki sama og ríkisstjórn, ekki sama og stjórnmálaflokkar og ekki sama og þingmenn. Menn verða að vita, hvað er hvað.

Ekki er nýtt, að menn rugli saman opinberum sjóðum og öðrum sjóðum. Stundum hafa ráðherrar verið staðnir að því að rugla saman ríkissjóði og einkakostnaði sínum og sinna. Þannig ætlaði nýr iðnaðarráðherra að fjármagna afmæli sitt um daginn.

Munurinn á iðnaðarráðherra og þingflokksformanni Samfylkingarinnar er þó mikill, því að ráðherrann sá um síðir eftir öllu saman og lofaði að endurgreiða ríkinu það, sem hún hafði haft af því. Þingflokksformaðurinn er hins vegar enn staffírugur í spillingunni.

Studd öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar hefur hún varið þjófnaðinn á póststimpli Alþingis. Hún sér greinilega ekkert rangt við hann. Spilling hennar er einföld og barnsleg: Flokkur hennar þarf að eiga samskipti við fólk og skattgreiðendum ber að borga.

Samfylkingin hefur enga tilraun gert til að endurgreiða stuldinn og biðja forláts á þeim, sem hafa verið settir yfir lítið. Þess vegna er ástæða til að vara kjósendur við því að setja þetta lið yfir mikið. Þeir eru hættulegastir, sem eru einlæglega spilltir.

Þeir, sem reyna að stela meira en hálfri milljón króna í litlu embætti með þröngu svigrúmi, munu reyna að stela margföldum upphæðum í háum ráðherraembættum með víðu svigrúmi. Þeir, sem eru einlæglega spilltir, nýta sér alltaf svigrúmið til fulls.

Skrifstofa Alþingis reynir að hylma yfir spillingunni með því að neita að gefa upplýsingar. Vafalaust mun hún halda fram, að rúmlega ársgömul lög Alþingis um upplýsingaskyldu stjórnvalda nái ekki til sjálfs Alþingis. Þannig er hugarfar innstu koppa búrsins.

Þegar þingmenn og oddvitar þeirra eru svo einlæglega spilltir sem þetta dæmi sýnir og þegar skrifstofustjóri Alþingis muldrar um meðalhóf í spillingu, er kominn tími til að opna fjárreiður Alþingis og leyfa kjósendum að meta, hvað sé spilling.

Allan kostnað, sem ekki fellur innan ramma hinna skilgreindu fjárhæða, sem falla þingmönnum og þingflokkum í skaut lögum samkvæmt, þarf að sundurliða á hvern þingmann. Undir það falla póstburðargjöld og umfangsmeiri liðir á borð við ferðakostnað.

Mörgum mun svo verða minnisstætt, að stjórnmálaflokkur skuli einmitt hefja göngu sína og stimpla sig í þjóðarvitundina með þjófnaði úr opinberum sjóði.

Jónas Kristjánsson

DV

Hér verður fíkniefnastríð

Greinar

Fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi veltir tveimur milljörðum króna á ári. Hann er orðinn umsvifamikil atvinnugrein og á eftir að vaxa enn frekar, ef við drögum dám af öðrum þjóðum hér eftir sem hingað til. Æ fleiri munu slægjast eftir skjótfengnum auði þessa markaðar.

Hráefniskostnaður greinarinnar er tiltölulega lágur og því mikið svigrúm fyrir annan rekstrarkostnað, svo sem mútugreiðslur og greiðslur fyrir önnur óhæfuverk af ýmsu tagi. Við erum rétt að byrja að sjá framan í þá fylgifiska, sem annars staðar tengjast fíkniefnum.

Reynslan er hvarvetna hin sama. Upp rísa glæpaflokkar, sem oft kallast mafíur og einkennast af algeru samvizkuleysi og ofbeldishneigð. Þeir grafa undan þjóðskipulaginu með því að brjóta sér leið gegnum virkin, sem vestrænar þjóðir slá utan um lög og rétt.

Seint og um síðir hafa þjóðir eins og Ítalir og Bandaríkjamenn tekið ögruninni og ráðizt með þungum fórnum og ærinni fyrirhöfn gegn vágestinum. Við erum svo heppin að vera með seinni skipunum og getum lært af reynslu annarra að vera fljótari en þeir að grípa í taumana.

Fíkniefnakóngarnir ráðast ekki aðeins að lífi og heilsu ógæfusamra viðskiptamanna sinna, heldur grafa þeir undan sjálfu þjóðskipulaginu. Þeir leitast við að hámarka markaðshlutdeild og gróða með því að grafa undan getu þjóðfélagsins til að hamla gegn uppgangi þeirra.

Aðferðirnar eru ýmist ógnanir eða mútur. Menn eru beygðir með beinum eða óbeinum ógnunum um líkamstjón eða fjárhagstjón eða freistað með beinum eða óbeinum mútum, hvort tveggja til að haga störfum sínum á þann hátt, að fíkniefnakóngar hafi rekstrarsvigrúm.

Í eldlínunni eru einkum löggæzlumenn, sem eiga að gæta laga og réttar á þessu sviði; saksóknarar, sem eiga að höfða mál; dómarar, sem eiga að ákveða refsingar; blaðamenn og fréttamenn, sem eiga að segja frá málunum; og stjórnmálamenn, sem eiga að setja lögin.

Í eldlínu fíkniefnastríðsins eru einnig fíklar í hörðum og dýrum fíkniefnum. Erlend dæmi sýna, að þeir eru oft úr bezt stæðu lögum þjóðfélagsins og hafa stundum aðstöðu til að vera birgjum sínum innan handar, þegar kemur að sjálfum innviðum þjóðfélagsins.

Ef aðilar úr þessum mikilvægu hópum hafa ekki nú þegar verið beittir þrýstingi á vegum fíkniefnakónga, mun það gerast á morgun eða hinn daginn. Við lifum ekki lengur í einangruðum og vernduðum heimi sakleysingja. Nútíminn er kominn inn á gafl til okkar.

Nú þegar eða senn mun reyna á borgaralegar dygðir margra einstaklinga og getu þjóðfélagsins til að styðja við bakið á þeim. Koma þarf á fót samstarfi aðila, sem málið varðar, og byggja upp varnir gegn innrásinni, sem verður fyrr en síðar samvizkulaus og ofbeldishneigð.

Þeim mun ákveðnar, sem gengið verður fram í að koma upp varnarkerfi þeirra aðila, sem standa í eldlínunni af hálfu þjóðfélagsins, þeim mun auðveldara verður fyrir einstaklinga innan varnarsveitanna að standast áhlaup óvinarins, hvort sem þau verða blíð eða grimm.

Ekki er eftir neinu að bíða. Fíkniefnamarkaðurinn er kominn upp í tvo milljarða króna á hverju ári og hefur hundruð milljóna til ráðstöfunar til að vernda hagsmuni sína gegn tilraunum samfélagsins til að verja fólk fyrir vörunum, sem fíkniefnakóngar hafa á boðstólum.

Við skulum ekki fara í grafgötur um, að hér verður stríð eins og annars staðar. Við skulum vera undirbúin, þegar kemur að næstu orrustum þessa stríðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Lík börn leika bezt

Greinar

Gaman var að sjá fyrrverandi og núverandi Evrópusambandsráðherra, þau Emmu Bonino frá Ítalíu og Chris Patten frá Bretlandi, valta yfir Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á málþingi um utanríkismál með nokkur hundruð ritstjórum í Boston.

Kissinger hefur löngum verið einkennistákn svonefndrar raunsæisstefnu, sem felur í sér að gæta vestrænna utanríkishagsmuna án sérstaks tillits til vestrænnar hugmyndafræði á borð við mannréttindi. Svonefndir “tíkarsynir” eru studdir, ef þeir eru “okkar tíkarsynir”.

Stefna Kissingers hefur orðið eftirminnilega gjaldþrota víða um heim, með áhrifamestum hætti í Chile, þar sem Bandaríkin munu þurfa áratugum saman að hafa mikið fyrir því að vinna upp tjónið, sem bandarísk utanríkisstefna varð fyrir með stuðningi við geðsjúkling.

Þau Bonino og Patten bentu á nákvæmlega það sama og hefur mörgum sinnum verið ítrekað hér í blaðinu, að svokölluð raunsæisstefna að hætti Kissingers er afar óhagkvæm, en hugsjónastefna af vestrænni hálfu er hins vegar afar hagkvæm, styður hagsmuni Vesturlanda.

Það er í þágu Vesturlanda, að sem víðast um heim ríki svipað stjórnarfar og á Vesturlöndum, stjórnarfar, sem byggist á lögum og rétti, jafnrétti borgaranna og skilgreindum mannréttindum alls almennings, þar á meðal skoðanafrelsi, prentfrelsi og upplýsingafrelsi.

Það hentar einnig vestrænni kaupsýslu að starfa með ríkjum, þar sem leikreglur eru svipaðar og á Vesturlöndum. Stjórnvöld í þriðja heiminum umgangast erlend fyrirtæki gjarnan af sömu fyrirlitningu og þau umgangast fólkið í landinu, beita þau ofbeldi og öðru gerræði.

Kína er gott dæmi um gerræðisríki, sem beitir íbúana gerræði og hagar sér af svipuðu gerræði gagnvart erlendum fjárfestum, sem hafa verið svo óheppnir að hrífast af draumórum um óendanlega markaðsmöguleika í ríki, sem telur meira en heilan milljarð íbúa.

Chris Patten sagði beinlínis á fundinum: “Bezt er að fjárfesta í ríkjum, sem sýna íbúum sínum mesta mannúð.” Og Emma Bonino sagði: “Mannréttindi og lýðræði þjóna hagsmunum alþjóðasamfélagsins í bráð og lengd.” Hún taldi, að Vesturlöndum bæri að fylgja slíkri stefnu.

Ef Vesturlönd beina viðskiptum sínum einkum til þeirra ríkja, sem hafa vestrænar leikreglur eða þróast hratt í átt til þeirra, verður það til þess að efla hag þessara ríkja umfram önnur og freista ráðamanna annarra ríkja til að feta inn á sömu braut laga og mannréttinda.

Ef Vesturlönd beita efnahagslegu afli sínu til að stækka áhrifasvæði vestrænna leikreglna, eru þau að búa í haginn fyrir traustan alþjóðamarkað, sem hagnast öllum málsaðilum. Gagnkvæma traustið, sem nú ríkir í vestrænum viðskiptum, mundi þá ríkja á mun stærra svæði.

Á nokkrum áratugum hafa safnazt upp ótal dæmi þess, að hagsmunir mannréttinda og kaupsýslu fara saman. Margir kaupsýslumenn hafa farið flatt á að ímynda sér að hætti Kissingers, að gott sé að skipta við ríki, þar sem harðstjórar hafi röð og reglu og haldi fólki í skefjum.

Niðurstaða málsins er einföld. Lögræði og mannréttindi eru ekki bara falleg hugsjón, heldur hagkvæm aðferð við að reka ríki, sem reynist sérstaklega vel í fjölþjóðlegum samskiptum, einkum viðskiptum, enda sýna dæmin, að lýðræðisríki fara ekki í stríð hvert við annað.

Það fer bezt á, að saman vinni þau ríki, sem hafa svipaðar leikreglur. Að baki viðskiptasagnfræði síðustu áratuga er hin gamalgróna staðreynd, að lík börn leika bezt.

Jónas Kristjánsson

DV

Feimnismál ljósmynda

Greinar

Ljósmyndir af persónum hafa á undanförnum árum orðið sífellt umfangsmeiri þáttur íslenzkra ættfræðirita, sem blómstra betur en nokkru sinni fyrr. Vinsældir þessa efnis sanna enn einu sinni, að persónufræði er sem fyrr mikilvægur þáttur í lífi þjóðarinnar.

Tölvunefnd er sem oftar úti á þekju í íslenzku samfélagi og hallar sér í staðinn að vafasömum fræðisetningum utan úr heimi. Nú vill hún amast við, að ljósmyndir af fólki séu birtar í ættfræðilegum gagnabönkum, sem verða senn settir upp á veraldarvefnum.

Persónufræði á netinu er eðlilegt framhald af persónufræði á pappír. Hún verður mikilvægur þáttur í lífi þjóðarinnar alveg eins og ættfræðiritin hafa verið og eru enn. Tölvunefnd verður frekar lögð niður en að hún fái að komast upp með að skemma þetta.

Hugmyndin um, að ljósmyndir af fólki séu einkamál þess, er hluti af tilraunum til að víkka hugtak friðhelgi einkalífsins, studdar ýmsum hagsmunum, sem vilja forðast hnýsni af ýmsu tagi. Markmiðið er oftast að geta flokkað ýmis feimnismál sem einkamál.

Þetta gengur svo langt, að menn gætu freistast til að telja ýmis yfirvöld ímynda sér, að peningar hafi sitt eigið einkalíf og að fyrirtæki hafi sitt eigið einkalíf. Þótt peningar og fyrirtæki geti átt sín leyndarmál, er fáránlegt að flokka þau undir friðhelgi einkalífs.

Meðal feimnismála eru lágir skattar fólks, sem býr við glæsilegan kost, léleg háskólapróf hátt settra embættismanna, barneignir lækna utan hjónabands og nú síðast ljósmyndir af Íslendingum holt og bolt. Allt eru þetta mál, sem varða samfélagið á ýmsan hátt.

Fjármálaráðuneytið er stofnun, sem trúir, að peningar og fyrirtæki hafi sál, sem beri að verja fyrir hnýsni. Það reyndi fyrir tveimur árum að brjóta lög til að koma í veg fyrir, að fólk geti flett upp í skattskrám og tókst að lokum að veikja lögin með reglugerð.

Hæstiréttur varð að athlægi, þegar hann reyndi að hindra, að barneignir lækna utan hjónbands kæmu fram í læknatali Vilmundar Jónssonar landlæknis. Tölvunefnd verður núna að athlægi, þegar hún reynir að koma í veg fyrir myndbirtingar á netinu.

Tölvunefnd hefur á ýmsan annan hátt skaðað samfélagið. Hún reyndi að spilla möguleikum fólks á að gægjast í bifreiðaskrána til að sjá tjónasögu bíla og komast þannig að raunverulegu verðgildi þeirra. Hún vildi vernda gamla spillingu í bílaviðskiptum.

Tölvunefnd hefur áður komið við sögu íslenzkrar persónufræði. Hún hefur áður reynt að gera fólki kleift að stýra því, sem stendur um það í ættfræðiritum. Hún túlkar feimnismál sem einkamál. Hvenær hyggst hún reyna að hefja ritskoðun á íslenzkri sagnfræði?

Allt er árangurslaust þetta brölt í tölvunefnd og gerir ekki annað en að veikja málstað hennar, þegar hún á í erfiðleikum með að koma á framfæri raunverulegum framfaramálum. Hvorki fólk né ríkisvald tekur mark á nefnd, sem staðin er að endurtekinni flónsku.

Vara ber við hagsmunum af útvíkkun hugtaks friðhelginnar. Gera þarf skýran mun á einkamálum og feimnismálum, persónum og lögpersónum, sálum og peningum. Ef það er ekki gert, lenda menn út á þekju, svo sem sannazt hefur í afskiptum af ættfræði.

Tölvunefnd mun ekki takast að hindra okkur í að hafa ánægju af að fletta myndum af samborgurunum í væntanlegum netbönkum íslenzkrar persónufræði.

Jónas Kristjánsson

DV

Spilað með lífeyri

Greinar

Kominn er tími til, að Alþingi þrengi svigrúm lífeyrissjóða til að spila með peninga, sem eiga fremur að veita sjóðfélögum áhyggjulaust ævikvöld heldur en að gefa sjóðstjórum tækifæri til að gera sig breiða í fjármálaheiminum, því að til þess hafa þeir enga burði.

Dæmi sýna, að sjóðstjórar hafa stundum hætt sér út á of hálan ís. Frægast var, þegar stórir lífeyrissjóðir seldu hlutabréf í banka, af því að sjóðstjórnarmaður fékk ekki stjórnarsæti í bankanum. Í kjölfarið hækkuðu hlutabréf í bankanum og sjóðfélagar töpuðu töluverðu fé.

Persónulegur metnaður má ekki stjórna fjárfestingum lífeyrissjóða. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum verka- og verzlunarfólks eiga ekki að geta notað aðstöðu sína til að kaupa sér stóla til að spila fína menn í stjórnum fyrirtækja, sem lífeyrissjóðirnir eiga hlutabréf í.

Alvarlegasta dæmið er aðild sjóðstjóra verzlunarfólks að vonlausu fjármáladæmi undirbúningsfélags álvers á Reyðarfirði. Allir nema sjóðstjórar og nokkrir starfsmenn Landsvirkjunar vissu, að fyrirhugað álver lífeyrissjóða gæti ekki staðið undir sér án niðurgreiddrar orku.

Norsk Hydro hafði fyrst og fremst áhuga á álverinu sem milliliður, ætlaði að selja því hráefnið og kaupa af því afurðirnar. Norska fyrirtækið ætlaði að ginna íslenzka lífeyrissjóði til að bera hitann og þungann af sjálfri áhættunni við rekstur fjárhagslega vonlauss álvers.

Í sjávarplássum landsins þekkjum við dæmi þess, að lífeyrissjóðir hafa verið misnotaðir til vanhugsaðra tilrauna til að blása lífi í dauðvona fyrirtæki. Það hefur leitt til þess, að fólk, sem missti atvinnuna og tapaði hlutafé, glataði líka hluta af uppsöfnuðum rétti til lífeyris.

Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að styðja staðbundin fyrirtæki, ekki frekar en það er hlutverk þeirra að fjármagna íbúðir sjóðfélaga. En sjóðstjórum hefur reynzt erfitt að átta sig á, að áhætta er utan við verksvið sjóða, sem stofnaðir eru til að varðveita lífeyri fólks.

Ríkið hefur fyrir hönd ríkissjóðs mikilla hagsmuna að gæta. Ef lífeyrissjóðakerfið gengur ekki upp og sumir lífeyrissjóðir geta ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna óráðsíu sjóðstjóra, verður ríkisvaldið beitt þrýstingi til að hlaupa fjárhagslega undir bagga.

Af fenginni reynslu er tímabært, að Alþingi taki tillit til þeirra dæma, sem rakin hafa verið hér að ofan, og setji sjóðstjórum þrengri skorður við spilamennsku með ævikvöld sjóðfélaga. Reglurnar þurfa að vera svo traustar, að ríkissjóður þurfi ekki að gyrða upp um sjóðstjóra.

Þrengri reglur mega þó ekki draga úr möguleikum lífeyrissjóða á að dreifa áhættunni með því að festa hluta af peningum sínum í útlöndum. Slík dreifing áhættunnar kemur að gagni, ef verr gengur á Íslandi en í öðrum löndum, enda reynir þá meira á lífeyrissjóði en ella.

Reglur um fjárfestingu lífeyrissjóða erlendis ættu að þjóna sama hlutverki og reglur um fjárfestingu þeirra innanlands, takmarka svigrúm sjóðstjóra til að taka óþarflega mikla áhættu og takmarka svigrúm þeirra til að misnota aðstöðuna til að spila fína menn úti í bæ.

Ekki má reka lífeyrissjóði með sama hugarfari og aðrar fjármálastofnanir. Miða verður við tilgang sjóðanna. Þess vegna verður öryggi að vera í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Lífeyrissjóðir mega ekki láta hleypa sér út í kapphlaup um sem mesta ávöxtun á sem stytztum tíma.

Reynslan sýnir, að sjóðstjórnir og sjóðstjórar hafa ekki burði til að taka einir ábyrgð á þessu án aðstoðar laga, sem þrengi svigrúm þeirra til að spila með lífeyri.

Jónas Kristjánsson

DV

Örlagavaldur Færeyja

Greinar

Poul Nyrup Rasmussen er orðinn mikill örlagavaldur í sögu Færeyinga. Nú síðast hefur forsætisráðherra Danmerkur gert þá hrönnum saman afhuga sjálfstæði. Nýjasta skoðanakönnunin bendir til, að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur sjálfstæði að svo komnu máli.

Þetta tókst forsætisráðherranum á fundi með færeysku landsstjórninni fyrr í vetur, þegar hann lagði óvænt fram harðar tillögur um hraða minnkun stuðnings ríkissjóðs Danmerkur við Færeyinga, ef þeir framkvæmdu ráðagerðir landsstjórnarinnar um sjálfstæði eyjanna.

Þar með steypti hann grundvellinum undan vinsældum færeyskra stjórnmálaflokka, sem styðja sjálfstæði og mynda landsstjórnina, og bætti stöðu færeyskra krata, sem eru afar Danmerkursinnaðir. Skoðanakönnunin sýnir, að stjórnarflokkar Færeyja hafa misst meirihlutafylgið.

Ekki er hægt að sjá neina skynsamlega ástæðu fyrir þessari hörku Rasmussens í tilraunum til að viðhalda sambandi, er kostar danska ríkissjóðinn sem svarar tíu milljörðum íslenzkra króna á ári, nema þá, að hann renni hýru auga til hugsanlegra olíulinda á Færeyjagrunni.

Áður hafði forsætisráðherrann lagt meira af mörkum en nokkur annar til að koma Færeyingum á kaldan klaka, er hann kom hinum gjaldþrota Færeyjabanka af herðum Den Danske Bank yfir á herðar færeyska landssjóðsins með röngum upplýsingum um stöðu bankans.

Raunar bera danskar ríkisstjórnir, sem mestmegnis hafa verið skipaðar krötum, mikla ábyrgð á fjárhagslegri stöðu Færeyja. Þær keyptu hvað eftir annað stuðning þingmanna Færeyja á danska þinginu til að ná naumum meirihluta til stjórnarmyndunar í Danmörku.

Til að launa stuðninginn var dönsku ríkisfé ausið í Færeyjar og Færeyjabanka. Af hálfu Færeyinga var þetta stutt sníkjustefnu sambandssinna og smábyggðastefnu krata, sem óprúttnir útvegsmenn, fiskverkendur, endurskoðendur og stjórnmálamenn notfærðu sér óspart.

Færeyingar bera sjálfir mikla ábyrgð á stöðu mála. Þeir hafa ekki haft bein í nefinu til að hafna sukkstefnu Sambandsflokksins og Jafnaðarflokksins á liðnum áratugum. Þeir hafa ornað sér við dönsku eldana og ímyndað sér, að efnahagur Færeyja sé ekki sýndarveruleiki.

Með þingmeirihluta sjálfstæðissinna á færeyska landsþinginu fyrir tveimur árum vöknuðu vonir um, að Færeyingar væru farnir að átta sig á, að koma þyrfti efnahagslífi eyjanna á raunhæfan grundvöll og að þeir væru reiðubúnir að kaupa sjálfstæðið því verði.

Landsstjórnin nýja vildi semja við Dani um hægfara afnám danskra styrkja til að fá tíma til að laga efnahagslíf Færeyja að veruleikanum. Forsætisráðherra Danmerkur kom henni hins vegar í opna skjöldu með tillögu, sem hefði komið sjálfstæðum Færeyjum á kaldan klaka.

Ef Poul Nyrup Rasmussen hefði viljað semja og losna við fjárausturinn í Færeyjar á löngum tíma, hefði hann lagt fram mildari tillögur. Hann vildi hins vegar ekki semja, heldur halda Færeyjum í sambandinu með öllum þeim kostnaði danska ríkissjóðsins, sem því fylgir.

Mikill fjöldi færeyskra kjósenda metur núna stöðuna þannig, að bezt sé að kyssa á vöndinn, fresta sjálfstæði langt inn í framtíðina og halda áfram að orna sér við danska peninga. Þetta er sú staða, sem danski forsætisráðherrann vildi framkalla og hefur tekizt að framkalla.

Færeyingar eru leiksoppur óprúttinna stjórnmálamanna og eigin veiklyndis, þegar kemur að pólitískri ákvörðun, sem Íslendingar hafa fyrir löngu tekið.

Jónas Kristjánsson

DV

Mestur mannauður

Greinar

Okkur hefur gengið vel á undanförnum árum, raunar betur en flestum öðum þjóðum, sem við berum okkur saman við. Samkeppnishæfni þjóðarinnar hefur aukizt í samanburði við aðrar þjóðir. Við höfum á tveimur árum hækkað úr 19. sæti í 10. á heimslistanum.

Við erum aftur komin í flokk með þjóðum Norður-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem við viljum vera. Velgengni okkar hlýtur að vekja nokkra athygli og draga að okkur suma þá, sem vilja fjárfesta í mannauði og traustum innviðum rekstrarumhverfis.

Þetta eru þau atriði, sem valda mestu um góða stöðu okkar á heimslista Alþjóðastofnunar stjórnunarþróunar. Raunar erum við í efsta sæti listans í mannauði og hefur oft verið ástæða til að fagna af minna tilefni. Þetta er bezta auglýsingin, sem þjóðin getur fengið.

Hagnýtar rannsóknir hafa eflzt í atvinnulífinu, en grundvallarrannsóknir hafa setið á hakanum í samanburði við aðrar þjóðir, einkum vegna fjárskorts rannsóknastofnana á vegum ríkisins. Með því að leiðrétta þetta getum við tryggt stöðu okkar betur.

Þótt margt hafi batnað hjá okkur, eru enn til atriði, sem draga okkur niður í fjölþjóðlegum samanburði. Alþjóðavæðing atvinnulífsins er enn á lágu stigi, styrkleiki hagkerfisins ekki nógu mikill og stjórnun fyrirtækja er síður en svo nógu góð hér á landi.

Stjórnvöldum ber að gæta þess af alefli að hleypa verðbólgunni ekki aftur lausri. Á síðasta ári byrjaði sá draugur að láta á sér kræla á nýjan leik, en nýgerðir kjarasamningar ættu að geta vegið þungt á metaskálunum við að kveða gamla óvininn niður aftur.

Stjórnvöld þurfa einnig að greiða fyrir innkomu erlendra fyrirtækja í þeim geirum atvinnulífsins, þar sem samkeppni hefur breytzt í fákeppni og síðan í fáokun. Við höfum séð þessa óheillaþróun í bönkum, í flugi, í benzíni, í tryggingum og í neyzluvöru.

Hræringar í millilandaflugi eru jákvæð merki. Samvinnuferðir-Landsýn hafa tekið upp samkeppni og á leiðinni er brezkt lággjalda-flugfélag. Mikilvægt er, að innviðum laga og stjórnsýslu sé hagað á þann hátt, að það auðveldi innkomu nýrra fyrirtækja á markað.

Við verðum aldrei varanlega samkeppnishæf við samanburðarþjóðir fyrr en við höfum búið til trausta innviði og ramma fyrir alþjóðlega samkeppni á íslenzkum heimamarkaði. Erlend fyrirtæki flytja okkur aukna þekkingu og efla mannauðinn í landinu.

Jafn brýnt er, að íslenzk fyrirtæki haldi áfram að hasla sér völl í útlöndum eins og þau hafa verið að gera, þótt sums staðar hafi illa gengið. Ef íslenzk stjórnun verður ekki samkeppnishæf í fjölþjóðlegum samanburði, verður góð staða okkar ekki varanleg.

Eðlilegt er, að menn misstígi sig í fyrstu tilraunum til að starfa í erlendu rekstrarumhverfi. Smám saman byggist upp þekking og reynsla, sem gerir þessi skref markvissari og traustari. Raunar byggjum við á gamalli og góðri reynslu í fiskréttaverksmiðjum.

Við eigum í senn að stefna að miklum ítökum íslenzkra aðila í erlendu atvinnulífi og miklum ítökum erlendra aðila í innlendu atvinnulífi. Við eigum að standa á krossgötum í vestrænu samfélagi kaupsýsluþjóða og líta til allra átta eftir tækifærum.

Við skulum opna allar gáttir viðskipta og framleiðslu og leyfa íslenzkum mannauði að magnast og njóta sín til hagsbóta fyrir landið og landsmenn alla.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðaveigar og sálarylur

Greinar

Endurteknir harmleikir afbrota minna okkur á, að hér á landi er allur þorri afbrota framinn undir áhrifum áfengis. Ólögleg fíkniefni og læknislyf koma oft við sögu, en áfengisneyzla er þó yfirleitt uppistaða afbrotanna. Auk þess er hún einn af helztu slysavöldum hér á landi.

Það eru bjór og brennivín, sem eru uppistaðan í þjóðarharmleik Íslendinga. Ungt fólk kemur út í lífið án þess að geta haft samskipti við aðra án þess að liðka fyrir þeim með bjór fyrst og síðan brennivíni. Þaðan liggur leiðin yfir í ólögleg fíkniefni og læknislyf til viðbótar.

Þetta ferli er stutt eindreginni áfengisdýrkun Íslendinga. Hún sést bezt á venjulegum mannamótum, sem fara öðru vísi fram hér á landi en í siðmenntuðum löndum. Á árshátíðum og þorrablótum verður hversdagslegt fólk um síðir blindfullt og slefar hvert í eyru annars.

Börnin venjast við, að foreldrar komi af og til heim á skallanum um miðja nótt og verji fyrri hluta næsta dags í timburmönnum. Drykkjuveizlur í heimahúsum efla boðskapinn um, að ótæpileg drykkja sé þjóðfélagslega viðurkennd aðferð til að sleppa fram af sér taumunum.

Hagsmunaaðilar framleiðslu, innflutnings og smásölu áfengra drykkja hafa öflug ítök í stjórnmálum, sérstaklega ungliðadeildum, og hafa sjálft Verzlunarráð Íslands sem múrbrjót í tilraunum til að auka aðgengi fólks að áfengi og draga úr opinberum gjöldum, sem lögð eru á það.

Hagsmunaaðilar framleiðslu kosta sýndarrannsóknir, sem sagðar eru benda til, að sumt áfengi, að minnsta kosti rauðvín, sé hollt fyrir heilsuna og hreinsi að minnsta kosti æðarnar. Sannleikskjarninn í þessum fullyrðingum er, að vínber eru holl, en þau fást án áfengis.

Drykkfelldum fjölmiðlungum er annt um að koma á framfæri hverri nýrri sýndarrannsókn á vegum hagsmunaaðila, sem sýni fram á, að einhvers konar áfengi hafi einhvers konar jákvæð áhrif á heilsuna. Hin raunverulegu dæmi heima og erlendis sýna hið gagnstæða.

Skilaboðin um nytsemi áfengis í félagslífi, siðmenningu og heilsufari dynja á ungu fólki, sem sumt hvert er af erfðafræðilegum og öðrum ástæðum í áhættuhópum áfengisfíknar. Sumir verða hvítflibbarónar, aðrir venjulegir rónar, sumir afbrotamenn, aðrir aka fullir.

Nóg er til af hlutfallstölum um tíðni áfengisfíknar hér á landi og oft er talað um, að 15­20% Íslendinga lendi í erfiðleikum vegna hennar. Að minnsta kosti er um að ræða fjölmennan minnihlutahóp, sem skiptir tugum þúsunda. Meðferð sjúkdómsins er oftast erfið og stundum ókleif.

Munurinn á Reykjavík annars vegar og London, Kaupmannahöfn og Amsterdam hins vegar er meðal annars sá, að hér er ekki hægt að ganga að næturlagi um Austurstræti eins og við getum áhyggjulaust á Leicester Square, Kongens Nytorv og Dam. Áfengi veldur mismuninum.

Löggæzlan hefur meira eða minna gefizt upp á að halda uppi lögum og rétti í miðborg Reykjavíkur og dómstólar nota áfengisneyzlu sem afsökun til að draga úr refsingum samkvæmt kenningunni: “Hann var fullur, greyið”. Þetta eru skilaboð yfirvalda um linkind gagnvart áfengi.

Það er sama, hversu oft við verðum vör við, að áfengi er ekki bara böl, heldur einkennisböl Íslendinga, sem virðast ekki geta litið framan í annað fólk án þess að vera undir áhrifum. Þvert ofan í staðreyndir eru skilaboðin í þjóðfélaginu þau, að áfengi sé heppilegt slökunarlyf.

Meðan skilaboðin eru þessi, munum við áfram frétta af nýjum og nýjum harmleikjum afbrota, sem eiga upphaf sitt í svokölluðum guðaveigum, sem lífgi sálaryl.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjávarútvegur göslara

Greinar

Fiskveiðar okkar eru því miður ekki sjálfbærar, þótt landsfeður og hagsmunaaðilar fullyrði stundum, að stjórnkerfi fiskveiða geri auðlindinni kleift að endurnýja sig eðlilega. Nánast allir nytjastofnar við landið eru á niðurleið, sumir ört og aðrir hægt og sígandi.

Þorskurinn er líka á niðurleið, þegar til langs tíma er litið, þótt hann sé oftast nefndur sem dæmi um velgengni kvótakerfisins. Þorskveiði jókst að vísu á síðari hluta síðasta áratugarins, en það bætti ekki upp samdráttinn, sem hafði orðið áratugina á undan.

Ef skammtíma bylgjusveiflur þorskveiða eru jafnaðar út, sést bein lína, sem stefnir niður á við. Fram á sjötta áratuginn var heildarafli þorsks á Íslandsmiðum um 500.000 tonn á ári. Á tíunda áratugnum var heildaraflinn kominn niður í um það bil 200.000 tonn á ári.

Karfaaflinn hefur hrunið um helming frá 1994, úr rúmlega 140 þúsund tonnum í tæplega 70 þúsund tonn. Grálúðan hefur hrunið úr tæplega 60 þúsund tonnum árið 1989 í rúmlega 10 þúsund tonn. Ufsaaflinn hefur hrunið úr 100 þúsund tonnum í 30 þúsund tonn.

Síðan rækjan fór að gefa sig 1997 og 1998 er ýsan eini mikilvægi nytjastofninn, sem hefur haldið stöðu sinni nokkurn veginn óbreyttri. Það er ekki merkilegur verndunarárangur af fiskveiðistefnu, sem sögð er vernda auðlindir hafsins betur en aðrar slíkar.

Tjón okkar af ofveiðinni er meira en tölurnar hér að ofan lýsa. Þær segja aðeins frá því beina fjárhagstjóni, sem þegar er orðið. Þær mæla hins vegar ekki óbeina tjónið, sem við eigum eftir að sæta í kjölfar þess að komast ekki í fjölþjóðlega gæðastjórnarklúbba.

Slíkir klúbbar verða mikilvægir í framtíðinni. Stærstu matvælafyrirtæki heims hafa undanfarið lagt mikla áherzlu á að afla sér ímyndar vörugæða, hreinlætis og sjálfbærrar umgengni við auðlindir á borð við fiskistofna. Unilever fer þar fremst í flokki.

Norsk Hydro hefur reynt að afla sér svipaðrar ímyndar á sviði stóriðju. Þegar ráðamenn þess áttuðu sig á, að Reyðarál mundi eyða þessari nýju ímynd, fóru þeir að tala í kross og hlupust síðan á brott frá lagsbræðrum sínum í hópi íslenzkra göslara.

Landsfeður Íslands og hagsmunaðilar leggja mikla áherzlu á að útmála vonzku þessara útlenzku sjónarmiða og stappa stálinu hver í annan að láta ekki deigan síga. Hetjuskapur þeirra minnir á Þorgeir Hávarsson, þar sem hann hékk í hvönninni.

Þessi sjálfseyðingarhvöt íslenzkra skrípakarla var ítrekuð á Fiskiþingi í vetur, þar sem hagsmunaaðilar sjávarútvegs í sögufrægasta vælukór landsins grétu sáran yfir vondum umhverfisvinum í útlandinu, sem ætluðu að banna Íslendingum að veiða fisk.

Þrjú ár eru síðan Orri Vigfússon lagði til, að Ísland yrði ekki eftirbátur annarra í sjávarútvegi nútímans, heldur tæki forustu í nýjum samtökum um óháðar vottunarstofur og gæðastýringu, sem fæli í sér áherzlu á vöruvöndun, hreinlæti og sjálfbærar fiskveiðar.

Unilever og World Wildlife Fund tóku hins vegar forustuna í sameiningu og eru að framkalla nýjan veruleika í sjávarútvegi, sem endar með því, að auglýst verður á umbúðum með stimpli frá vottunarstofum, að varan sé ekki frá íslenzkum göslurum.

Í sjávarútvegi og stjórn sjávarútvegsmála höfum við látið stjórnast af skammsýnum bjánum, sem eiga eftir að valda okkur enn meira tjóni en þegar er orðið.

Jónas Kristjánsson

DV