Greinar

Tölur án innihalds

Greinar

Ef utanríkisráðuneytið semdi skýrslu um kosti og galla aðildar fólks að Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, mundi það finna út 1.500 króna árlegan kostnað við aðildina og engar tekjur á móti, ekki einu sinni styrki handa íslenzkum landbúnaði og afskekktum byggðum.

Þótt ráðuneytið hefði allar krónutölur aðildar að stjörnuskoðunarfélaginu á hreinu, stæði ekkert í skýrslunni, sem máli skipti. Þar væri ekkert um aðgang félagsmanna að stjörnukíki, félagsheimili, fræðibókasafni og samvistum við aðra áhugamenn um sama málefni.

Þannig er skýrsla ráðuneytisins um aðild að Evrópusambandinu. Þar er allt á hreinu um átta milljarða kostnað af aðildinni á hverju ári og fimm milljarða endurgreiðslur, einkum til landbúnaðar og afskekktra byggða. En tölurnar segja lítið um innihald sambandsins.

Augljóst er, að peningar streyma í bandalaginu frá ríkum þjóðum til fátækra þjóða. Samt hafa ríkar þjóðir gengið inn, af því að þær hafa séð, að allar þjóðir hafa grætt á aðildinni, ekki sízt þær, sem ríkastar voru. Aðild að Evrópusambandinu reiknast ekki sem núllsumma.

Aðildin felur í sér aðild að stórum markaði, aðild að evrópskri mynt, aðild að evrópskum möguleikum, aðild að evrópskum stöðugleika, aðild að ákvörðunum, sem nú eru teknar að okkur forspurðum og síðan þýddar á íslenzku í ráðuneytum landsins til notkunar á Íslandi.

Einnig er augljóst, að fámennar þjóðir ráða minna í bandalaginu en fjölmennar. Samt hafa fámennar þjóðir gengið inn, af því að þær hafa séð, að allar þjóðir hafa grætt á aðildinni, ekki sízt þær, sem fámennastar eru. Evrópusambandið hefur reynzt smáþjóðum gullnáma.

Ennfremur er augljóst, að samkeppni vex við inngöngu í bandalagið. Matvælaiðnaður hefur verið nefndur sem dæmi. Höfðað er til hræðslu fólks við samkeppni, sem sé af hinu illa, þótt reynsla vestrænna þjóða segi skýrum stöfum að allir málsaðilar græði á aukinni samkeppni.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins felur í sér, að réttur til staðbundinna veiða byggist á veiðireynslu á þeim slóðum. Í fiskveiðilögsögu Íslands hafa nánast eingöngu Íslendingar veiðireynslu og hafa því einir rétt til veiðanna samkvæmt sjávarútvegsstefnu bandalagsins.

Ef Íslendingar hefðu ekki haft pólitíkusa á borð við utanríkisráðherra að stjórnmálamönnum um langan aldur, værum við fyrir löngu gengnir í Evrópusambandið, ættum sjávarútvegsráðherra þess og hefðum allra þjóða mest áhrif á frekari framvindu fiskveiðistefnunnar.

Það þýðir hins vegar ekki að segja fólki, að skerðing fullveldis yfir fiskimiðum sé af hinu góða. Það þýðir ekki að segja fólki, að Evrópusambandið sé ekki núllsumma. Það þýðir ekki að segja fólki, að beztu liðina vanti í dæmi átta milljarða útgjalda og fimm milljarða tekna.

Af ýmsum slíkum ástæðum mun skýrsla utanríkisráðuneytisins styrkja Íslendinga í þeirri trú, að ekki sé ráðlegt að ganga í Evrópusambandið og bezt sé að fylgjast með framvindunni, helzt um aldur og ævi. Menn munu vitna í reikningsdæmið og sjávarútvegsstefnuna.

Vinnubrögð af þessu tagi hafa þegar leitt til þess, að við höfum setið af okkur möguleika á að eignast ráðherra í Evrópusambandinu. Við höfum setið af okkur möguleika á að koma gengisfestu í ferðaþjónustuna og auka þar með arðsemi hennar. Við munum sitja fleira af okkur.

Hnípin og kvíðin þjóð, sem óttast erlenda strauma og sér hættur í hverju horni, velur sér landsfeður við hæfi og fær um Evrópusambandið skýrslur, sem hæfa henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Brunað suður göngin

Greinar

Jarðgöng hafa ekki hjálpað Flateyri, Siglufirði og Ólafsfirði. Atvinnulíf hefur oftast gengið treglega og fólki hefur fækkað hraðar en áður. Síðan göngin komu hafa menn getað flúið árið um kring. Og nú vilja Siglfirðingar önnur göng til viðbótar þeim, sem fyrir eru.

Við þekkjum að reynslunni, að opinber starfsemi hverfur smám saman af hagkvæmnisástæðum út fyrir göng. Embætti ríkisins flytjast til Ólafsfjarðar og Akureyrar, síðan skólarnir og loks bæjarstjórnin sjálf. Lítum bara á reynslu Flateyringa af göngunum fyrir vestan.

Gerð jarðgangna á það sammerkt með annarri byggðastefna hins opinbera, að hún stöðvar ekki þróunina og hægir ekki einu sinni á henni. Fólk hefur jafnt og þétt verið að flytjast suður alla tuttugustu öldina og mun halda áfram að flytjast suður á tuttugustu og fyrstu öld.

Áhrifasvæði jarðgangnanna á Vestfjörðum væri nánast komið í eyði, ef ekki hefði komið himnasending flóttamanna frá útlöndum, sem halda uppi vestfirzku atvinnulífi um þessar mundir. Innflutningur nýbúa er raunar eina byggðastefnan, sem hefur verkað hér á landi.

Reynsla okkar af göngum, öðrum en í Hvalfirði, bendir ekki til neinnar arðsemi af þeim. Hún sýnir ekki, að göng séu eign, sem unnt sé að meta til fjár eins og ýmsar aðrar eignir ríkisins, svo sem banka, landssíma og landsvirkjanir. Göng afskrifast þvert á móti umsvifalaust.

Þess vegna væri rangt að fara að tillögu samgönguráðherra um að nota tekjur af sölu ríkiseigna til að fjármagna jarðgöng. Slíkar tekjur á að nota til að greiða niður skuldir ríkisins. Ef reyta á verðmætar eignir af ríkinu er lágmarkskrafa, að skuldir þess minni að sama skapi.

Íslenzkir pólitíkusar eru vísir til að éta út eignir ríkisins og skilja það eftir slyppt, ef þeir komast gagnrýnislaust upp með að velja auðveldustu leiðina hverju sinni. Þess vegna er nauðsynlegt, að haldið verði uppi fræðilegri gagnrýni á veruleikafirrt hugmyndaflug þeirra.

Vegna eignastöðu ríkisins er óráðlegt að taka lán til að grafa göng og auka þannig skuldirnar án þess að arðbærar eignir komi á móti. Hins vegar mætti ríkið taka lán til að auka flutningsgetu helztu samgönguæða höfuðborgarsvæðisins, því að þjóðhagslegur arður er af slíku.

Þar sem arðsemismunur er á jarðgöngum í strjálbýli og samgöngubótum í þéttbýli, er skynsamlegt að fjármagna jarðgöng af aflafé ríkisins, þótt taka megi lán til að fjármagna aðgerðir, þar sem umferð er mikil. Svigrúmið er meira í framkvæmdum, sem gefa af sér arð.

Þar með höfum við íslenzka byggðastefnu í hnotskurn. Valið stendur milli arðlausra verkefna í þágu byggðastefnu og arðbærra verkefna í þágu almennrar hagþróunar landsins. Að venju verður fundin pólitísk millileið, sem blandar saman arðlausum verkum og arðbærum.

Hitt má svo ljóst vera, að jarðgöng eiga það sammerkt með annarri fjárfestingu í byggðastefnu, að þau hindra fólk ekki í að flytjast þangað, sem það vill flytjast. Allir milljarðarnir, sem sáð er á hverju ári í byggðastefnu, falla í grýtta jörð. Fólk sogast áfram í átt til tækifæra.

Unga fólkið sér ekki framtíðartækifæri sín við færibönd fiskvinnslunnar. Það sér þau heldur ekki við bræðslupotta álveranna. Eins og í öðrum vestrænum löndum verða það einkum flóttamenn frá enn verra ástandi, sem munu sætta sig við færibönd og bræðslupotta.

Hvar sem göng verða grafin, mun unga fólkið bruna gegnum þau alla leið suður, þar sem það væntir tækifæra í tengslum við hátækni tuttugustu og fyrstu aldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Gott á ykkur

Greinar

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu sendir þau skilaboð til ykkar, að þið berið sjálf fulla ábyrgð á gerðum ykkar og aðgerðaleysi, en getið ekki vænzt þess, að kæruglaðir sérvitringar og dómskerfið hlaupi í skarðið. Þjóðin fái þau lög, sem hún eigi skilið.

Þótt úrskurðurinn verði kærður til fjölþjóðlegra dómstóla, er óvíst, að það breyti miklu. Þeir kunna að komast að sömu niðurstöðu og Hæstiréttur, að fiskveiðistjórnarlögin rúmist innan ramma réttlætis, enda er algengt, að lög og reglur skekki jafnræði borgara.

Hefð er fyrir byggðastefnu, sem stríðir gegn jafnræði. Komið hefur verið á fót greiðsluhlutdeild notenda ýmissar þjónustu ríkisins, sem leiðir til þess, að fátæklingar nota þjónustuna síður en efnafólk. Einkavæðing hefur oft reynzt vera einkavinavæðing.

Ýmis fleiri dæmi má rekja um, að margs konar mismunun rúmast innan ramma þjóðskipulagsins, þótt erlendir dómstólar hafi í öðrum tilvikum þrengt að möguleikum löggjafarvalds og framkvæmdavalds til að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Í hinum vestræna heimi ríkir sífelld barátta milli sérhagsmuna og almannahagsmuna, þar sem hinir fyrrnefndu eru studdir góðu skipulagi og miklum fjármunum. Dæmi um það er yfirburðastaða framleiðenda handvopna og tóbaks í Bandaríkjunum.

Ef kjósendur eru eins sannfærðir um nauðsyn réttlætis og jafnræðis í fiskveiðistjórnun og ítrekaðar skoðanakannanir benda til, geta þeir einfaldlega látið þá sannfæringu stjórna gerðum sínum, þegar þeir taka þátt í kosningabaráttu og kjósa sér fulltrúa.

Fyrir síðustu kosningar var meira eða minna ljóst öllum þeim, sem skilja vildu, hvaða stjórnmálamenn og hvaða stjórnmálaflokkar styddu núverandi yfirburðastöðu sérhagsmuna í fiskveiðistjórnun og hverjir ætluðu að láta þá víkja fyrir almannahagsmunum.

Eyjabakkamálið er enn alvarlegra dæmi um vannýtta möguleika kjósenda á að hafa áhrif á gang mála. Fyrir síðustu kosningar var meira eða minna ljóst öllum þeim, sem höfðu skilningarvitin opin, hverjir ætluðu að bera umhverfissjónarmiðin ofurliði.

Það voru ekki kjósendur, sem stöðvuðu fórnfæringar Fljótsdalsvirkjunar. Að hluta voru það umhverfisvinir, sem skutu Norsk Hydro skelk í bringu, en að stærstum hluta voru það peningalegar staðreyndir brostinna gróðavona, sem tóku fram fyrir hendur Alþingis.

Í báðum þessum tilvikum var eindreginn vilji þjóðarinnar í annarri metaskálinni fyrir og eftir alþingiskosningarnar í fyrra, en kjósendur ákváðu samt að leggja lóð sitt í hina metaskálina. Það þýðir svo ekki að koma á eftir og kvarta yfir alþingismönnum.

Ef kjósendur vilja láta helztu hjartans mál sín, eins og þau mælast í skoðanakönnunum, ná fram að ganga, verða þeir að láta þau njóta forgangs fram yfir önnur sjónarmið, þegar þeir velja sér stjórnmálaflokka og alþingisfulltrúa. Þetta hafa þeir ekki gert.

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu er þörf áminning til kjósenda um, að enginn getur fjarlægt pólitíska ábyrgð þeirra á réttlæti og ranglæti, jafnræði og mismunun. Hæstiréttur hefur staðfest fullveldi Alþingis, sem starfar á vegum kjósenda sjálfra.

Erlendis refsa kjósendur stundum flokkum og fulltrúum sérhagsmuna á kjördegi, en hér fá þeir að ólmast að vild. Þið eruð ykkar eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Samsæri gegn ungu fólki

Greinar

Byggðagildrur taka á sig ýmsar myndir. Ríki og sveitarfélög beita margvíslegum ráðum til að frysta liðna tíma í atvinnuháttum og búsetu. Á hverju ári er milljörðum varið í byggðagildrur, án þess að árangur hafi verið eftirtektarverður. Unga fólkið lætur ekki ánetjast.

Ríkið, stofnanir þess og sjóðir borga láglaunafyrirtækjum fyrir að starfa í byggðagildrum. Sveitarfélög byggðagildranna brenna sameiginlegum peningum íbúanna í hlutafé hallærisfyrirtækja, meðan önnur sveitarfélög geta notað sína peninga óskerta í þjónustu fyrir íbúana.

Með múgæsingu smábyggða-þjóðernis er almenningur í þessum sveitarfélögum fenginn til að leggja hlutafé í staðbundið sukk og fallast á síðbúnar og lágar launagreiðslur. Íbúarnir fara því sjálfir fjárhagslega halloka í samanburði við þá, sem ekki búa í byggðagildrum.

Staðbundnir lífeyrissjóðir bregðast trúnaði við félagsfólk og sóa lífeyri þess í staðbundna erfiðleika atvinnulífsins. Þannig er ekki bara ráðizt að nútíð íbúa byggðagildranna, heldur er framtíð þeirra fórnað líka. Þeir geta ekki notið áhyggjulauss ævikvölds til jafns við aðra.

Einna alvarlegast er samsærið gegn unga fólkinu. Það er hvatt til að hafa skólagöngu stutta og koma heldur til starfa við færibönd láglaunafyrirtækisins. Það er hvatt til að byggja sér verðlaust íbúðarhús, borga vinnuveitandanum hlutafé og láta lífeyrissjóðinn sóa sparifénu.

Meðan stór hluti þjóðarinnar er kominn á fulla ferð inn í 21. öldina, reynir byggðagildran að frysta 19. öldina á eins konar byggðasöfnum hér og þar um landið. Stórfenglegasta afturhaldsemi af þessu tagi er byggðagildra Fjarðarbyggðar og félagsins Afl fyrir Austurland.

Ráðamenn sveitarfélagsins og hugsjónafélagsins reyna að tromma upp múgæsingu heimamanna til stuðnings því, að álver verði reist á Reyðarfirði til að koma í veg fyrir, að unga fólkið afli sér menntunar til starfa 21. aldar hvar sem er í landinu og hvar sem er í heiminum.

Þeir sjá fyrir sér trygga vaktavinnu unga fólksins við að kraka í bræðslupottum álvers á Reyðarfirði á heldur hærra kaupi en það hefði haft við færibönd fiskvinnslunnar, en neiti sér um tækifærin, sem nútíminn veitir æskunni umfram þá, sem voru ungir í gamla daga.

Það vita allir, sem vita vilja, að unga fólkið dreymir hvorki um færibönd né bræðslupotta. Þess vegna ber Fjarðabyggð annaðhvort að gera staðinn gildandi í atvinnugreinum 21. aldar eða gefa unga fólkinu frelsi til að leita þeirrar aldar á framfarasinnaðri slóðum.

Í álvers-offorsi sínu lætur Fjarðabyggð hjá líða að búa í haginn fyrir atvinnugreinar 21. aldar, til dæmis með því að leggja mikla áherzlu á menntun unga fólksins í hugbúnaðargreinum og með því að bjóða hugbúnaðarfyrirtækjum lága húsaleigu og góðar tengingar við netið.

Svo langt gengur ruglið, að kennari fyrir austan var sakaður um að mennta unga fólkið burt af svæðinu. Sú ásökun sýndi byggðagildruna í sinni svæsnustu mynd. Menn líta á unga fólkið eins og ánauðuga lénsbændur og ráðast á þá, sem vilja veita því frelsi til að velja sjálft.

Byggðagildra er glæpur og byggðagildra Fjarðabyggðar er mikill glæpur. Hún er glæpur gegn ungum og ófæddum Austfirðingum, tilraun til að draga úr vilja þeirra til að nýta sér tækifæri nútímans. Hún er glæpur vælukjóa, sem hafa gefizt upp á baráttunni fyrir betra lífi.

Samsærið gegn ungum Austfirðingum hefur sem betur fer sprungið. Byggðagildrumönnum hefur ekki tekizt að dæma þá til lífstíðar-ánauðar við bræðslupottana.

Jónas Kristjánsson

DV

Sameining er böl

Greinar

Hrollvekjandi hefur verið að sjá fögnuð ráðherra og ráðunauta út af fyrirhugaðri sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þeir halda fram í fúlustu alvöru, að sameiningin muni hafa í för með sér lægri vexti og lægri þjónustugjöld hjá viðskiptamönnum bankanna.

Þegar fjöldi fyrirtækja í hverri atvinnugrein er kominn niður fyrir ákveðið lágmark, er frekari sameining ekki viðskiptamönnum til hagsbóta. Þetta höfum við séð í olíuverzlun og tryggingum, matvöruverzlun og farþegaflugi. Samkeppni breytist í fákeppni, sem breytist í fáokun.

Fjármálastofnanir eru orðnar svo fáar hér á landi, að sameining þeirra verður viðskiptamönnum til bölvunar. Vandinn er tiltölulega lítill í sameiningu Íslandsbanka og Fjárfestingarbankans, af því að síðari bankinn starfar nánast ekkert á markaði einstaklinga og einyrkja.

Þeim mun meira er böl almennings af sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sem báðir eru fyrirferðarmiklir á almennum markaði. Bönkum á slíkum markaði fækkar úr þremur í tvo við slíka sameiningu, ef staðbundnir sparisjóðir eru ekki taldir með.

Sérstakt áhyggjuefni er að sjá fögnuð stjórnmálamanna, sem ættu stöðu sinnar vegna að reyna að gæta hagsmuna almennings. Nýi bankaráðherrann fer þar fremstur og gefur þar með litlar vonir um, að hún gæti hagsmuna almennings við frekari framvindu bankasameiningar.

Auðvitað hefur sameining hliðstæðra fyrirtækja hagræðingu í för með sér. Unnt er að fækka afgreiðslustöðum og segja upp starfsfólki. Þessi hagræðing er til að byrja með notuð til að auka arðsemi hlutafjár í þessum bönkum og kemur hluthöfum þeirra einum að gagni.

Þegar fram í sækir, eflist fáokunin hins vegar og stofnanir fáokunar fara að semja um markaðinn sín á milli. Við brottfall samkeppninnar minnkar hagræðingin aftur, en arðsemisþörf hluthafanna ekki, og viðskiptamennirnir verða enn einu sinni sem oftar látnir borga brúsann.

Öll samkeppni stefnir að einokun. Fyrirtæki, sem vel gengur, bola öðrum úr vegi eða kaupa þau. Smám saman fækkar fyrirtækjum og fyrri samkeppnislögmál hverfa í skuggann. Sérstaklega er hætt við þessu hér á landi, þar sem allur markaður er lítill og fyrirtæki yfirleitt fá.

Við höfum bezt séð þetta í þróun matvöruverzlunar síðustu áratugi. Með tilkomu Hagkaups og síðar Bónuss fór vöruverð í landinu lækkandi, verðbólga minnkandi og hagur almennings batnandi. Verzlanir þessar gerðu á sínum tíma meira fyrir fólk en samanlögð stéttarfélögin.

Þegar sameining í matvöru náði ákveðnu stigi, snerist þetta við. Það byrjaði í hittifyrra og ágerðist í fyrra, að vöruverð fór hækkandi á nýjan leik. Þær fáu keðjur, sem eftir voru, komu sér fyrir í ákveðnum hillum á markaðinum og leyfðu verðinu smám saman að stíga.

Áhugamenn um arðsemi fyrirtækja og hag hluthafa geta fagnað þessari þróun, sem fjarlægir áhættuna og gerir lífið þægilegt. Þeir, sem hins vegar hafa atvinnu af því að gæta hags almennings, hafa litla ástæðu til að fagna og forsætisráðherra hefur ekki dulið gremju sína.

Í ljósi erlendrar og innlendrar reynslu er furðulegt, að hér skuli dögum saman verið sunginn fagnaðaróður fyrirhugaðrar sameiningar Landsbanka og Búnaðarbanka. Eru ráðherrar svona heimskir eða eru þeir svona forstokkaðir? Eða eru það ráðgjafar, sem stjórna ruglinu?

Bankasameining breytir fákeppni í fáokun og saumar fjárhagslega að þeim viðskiptamönnum, sem ekki hafa burði til að sækja bankaþjónustu til útlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Frekjur haltra af velli

Greinar

Það kemur ekki á óvart, að fjárfestar í Reyðaráli hafa áttað sig á, að þeir væru á villigötum með þrepabyggt álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun með uppistöðulóni á Eyjabökkum. Þeir voru síðastir allra til að átta sig á, að dæmið gekk alls ekki upp fjárhagslega.

Um og eftir áramótin hafa opinberlega komið fram skýr gögn og útreikningar, sem sýna, að hvort tveggja er óhagkvæmt, 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun með Eyjabakkalóni. Baráttumenn framkvæmdanna hafa ekki átt svör við þessu.

Norsk Hydro var þar að auki viðkvæmt fyrir gagnrýni í Noregi á aðild fyrirtækisins að mesta umhverfisslysi nútímans hér á landi. Forráðamenn þess voru fyrir löngu byrjaðir að draga í land með sífellt dauflegri yfirlýsingum um fjárhagslega hlutdeild sína.

Á endanum var málið komið í þá stöðu, að ráðamenn lífeyrissjóða landsmanna áttu að bera fjárhagslega höfuðábyrgð á framkvæmdum, sem hefðu rústað væntingar sjóðfélaganna um áhyggjulaust ævikvöld. Þeir sáu ljósið síðastir allra og sögðu að lokum pass.

Á þessum tímamótum er lærdómsríkt að líta yfir furðulegan feril málsins, frekjuna og offorsið, sem einkenndi það allan tímann. Ástæða er til að undrast, að Landsvirkjun skuli hafa varið milljörðum til undirbúnings framkvæmda, sem fjárfestar hafa nú hafnað.

Í ljós kom, að Landsvirkjun hefur ekki hæfa reiknimeistara til að meta fjárhagshliðar ýmissa virkjunarkosta. Starfsmenn stofnunarinnar, sem tóku þátt í umræðunni í vetur, urðu sjálfum sér og stofnuninni til skammar. Eitthvað mikið er að á þeim bæ.

Ekki er minni ástæða til að efast um dómgreind ríkisstjórnar, sem ólmaðist eins og naut í flagi, hafnaði öllum málamiðlunartilraunum, keyrði út á yztu nöf á gráu svæðunum, hafnaði lögformlegu umhverfismati og klauf þjóðina í tvær andstæðar fylkingar.

Sérstaklega er athyglisverð staða Framsóknarflokksins, sem er systurflokkur mjög grænna, norrænna miðflokka landsbyggðarinnar. Hér hefur þessi flokkur hins vegar gerzt and-grænn, nánast svartur, og er sem óðast að tapa fylgi sínu yfir til vinstri grænna.

Hvaða dómgreindarskortur knúði þrjá ráðherra Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra, umhverfisráðherra og fyrrverandi iðnaðarráðaherra til að smíða sér pólitískar líkkistur á þennan hátt? Hvernig gat kjördæmispot eins þeirra leitt þá í slíkar ógöngur.

Raunar varð ósigur þeirra ljós um leið og þáverandi iðnaðarráðherra lagðist beinlínis niður í sína pólitísku líkkistu og lét flytja sig á elliheimili pólitíkusa í Seðlabankanum. Samt héldu hinir tveir áfram að þylja gömlu klisjurnar í vaxandi vonleysi.

Eftir meira en þriggja milljarða króna útgjöld Landsvirkjunar er málið komið aftur á byrjunarreit. Eyjabakkalónið er endanlega úr myndinni og allar framkvæmdir verða að sæta lögformlegu umhverfismati, sem ríkisstjórnin hafði svo mikið fyrir að hindra.

Fram undan er önnur borgarastyrjöld í umhverfismálum og í það skiptið um verndun stærsta ósnortna víðernis í Evrópu. Þjóðin á eftir að taka afstöðu í þeirri deilu, en nú þegar er ljóst, að í þeim umgangi neyðast stjórnvöld til að fara eftir settum leikreglum.

Þeir, sem nú hafa verið staðnir að peningaaustri, röngu fjármunamati, kjördæmispoti og pólitískri frekju, munu koma haltrandi til þeirrar styrjaldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Indland er bandamaður

Greinar

Ferð Clintons Bandaríkjaforseta til Indlands og Pakistans markar tímamót í alþjóðapólitík. Vandræðaríkinu Pakistan hefur verið skipt út sem bandamanni og það látið víkja fyrir fjölmennasta lýðræðisríki jarðarinnar, Indlandi, sem loksins hlýtur vestrænan sess við hæfi.

Indland er eðlilegur bandamaður Vesturlanda. Það hefur áratugahefð lýðræðislegra stjórnarhátta, þrískiptingar ríkisvaldsins, eðlilegra stjórnarskipta, málfrelsis og mannúðar og hefur á síðustu árum eflt markaðsbúskap í stað ríkisforsjár með góðum árangri.

Indland er síður en svo vandamálalaust ríki, enda er það eiginlega heil heimsálfa með milljarði íbúa, ótal tungumálum og ævafornri stéttaskiptingu. En landið hefur lengi verið klettur í hafi ótryggrar Asíu og mjakast hægt og örugglega götuna fram eftir vegi.

Menningarheimur Indlands er að því leyti líkur menningarheimi Japans og Rússlands og ólíkur menningarheimi Íslams og Kína, að hann fellur að hugmyndafræði vestræns lýðræðis og markaðsbúskapar. Þetta mun skipta máli í átökum menningarheimanna á 21. öld.

Pakistan er hins vegar dæmi um veruleg aðlögunarvandamál margra íslamskra ríkja. Þar skiptast á um völd lýðræðislega kjörnir þjófar og valdaránsmenn hersins, enda er flest á fallanda fæti í landinu, þjóðartekjur fara minnkandi og fjárhagslegt gjaldþrot blasir við.

Nú er við völd valdaránsmaður úr hernum, Pervez Musharraf, sem lengst gekk fram í fyrra við að stofna til vandræða innan landamæra Indlands í Kasmír. Hann ofsækir stjórnarandstæðinga og hefur rekið hæstaréttardómara fyrir að vilja ekki sverja sér trúnaðareiða.

Clinton Bandaríkjaforseti varði fimm dögum í glaumi og gleði í Indlandi og varði síðan dagparti í Pakistan eins og hann væri í óvinaríki, neitaði að láta mynda sig með Musharraf og flutti sjónvarpsávarp um, að stjórn hans yrði að skipta um stefnu eða einangrast ella.

Skyndilega er liðinn sá tími, þegar Pakistan var hálfgert leppríki Bandaríkjanna, teflt fram gegn óformlegu sambandi Indlands og Sovétríkjanna sálugu. Nú er kalda stríðið fyrir löngu að baki og fyrir jafn löngu tímabært að skipta út bandamönnum á þessu svæði.

Um leið sjást þess merki í bandaríska þinginu, að menn eru að átta sig á, að misráðnar hafa verið langvinnar gælur Bandaríkjanna við Kína og að endurskoða þurfi ráðagerðir um aðild alræðisríkisins að alþjóðlegum félagsskap markaðsbúskapar í Heimsviðskiptastofnuninni.

Kína er ekki ríki laga og réttar, heldur geðþótta, þar sem vestrænir fjárfestar hafa glatað og munu áfram glata fé sínu. Kínastjórn er útþenslusinnuð, ofbeldishneigð og siðlaus, hefur í frammi styrjaldarhótanir, sem engum öðrum ríkisstjórnum heimsins mundi detta í hug.

Kínastefna bandarískra stjórnvalda er feilnóta, ættuð frá Nixon og Kissinger, sem þóttust ranglega hafa vit á alþjóðapólitík. Nú er færi á að losna við þessa pólitík, sem skaðar hagsmuni Vesturlanda, og efla í þess stað sambúð við lýðræðisríki markaðsbúskapar í Asíu.

Indland er næstum eins fjölmennt ríki og Kína og verður vænlegri bandamaður í upphafi nýrrar aldar, traustari aðili í fjárhagslegum samskiptum og ólíklegt til að reka rýtinginn í bak Vesturlanda. Þess vegna ber Vesturlöndum að efla Indland til forustu í Asíu.

Það er gömul saga, að pólitískt og fjárhagslega er farsælast að eiga samskipti við þá, sem hugsa svipað og hafa svipaðar leikreglur og maður þekkir sjálfur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki teflon-húðaður

Greinar

Forsætisráðherra er ekki teflon-húðaður, þrátt fyrir öll fyrri merki þess. Eftir margar atrennur hefur Davíð Oddssyni loksins tekist að verða óvinsæll. Atlaga hans að auglýsingum öryrkja var fjöðrin, sem réð úrslitum á vegasaltinu. Kvóti Davíðs reyndist vera takmarkaður.

Auglýsingar öryrkja voru ekki eina umræðuefnið, sem var forsætisráðherra andstætt í vetur. Umræðan um fjárreiður stjórnmálaflokka hefur í heild sinni verið stjórnarflokkunum öndverð og mest þeim, sem héldu uppi vörnum, forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Á einum ársfjórðungi hafa óvinsældir forsætisráðherrans fjórfaldast og vinsældirnar minnkað um fjórðung. Þetta er í fyrsta skipti á ferli hans, að óvinsældirnar eru meiri en vinsældirnar. Svona getur farið, þegar ósigrandi hetjur storka örlögunum einu sinni of oft.

Hnekkir Davíðs skiptir máli, ekki aðeins sem viðvörun fyrir hann sjálfan, heldur einnig þá meðreiðarmenn hans, sem hafa upp á síðkastið reynt að stæla vinnubrögð hans í hroka og yfirgangi gagnvart umhverfi sínu, einkum þó fjármálaráðherrann og krónprinsinn Geir Haarde.

Svo langt hefur geðleysi stuðningsmanna hetjanna gengið, að farið var að tala um sjálfspyndingarþörf, þótt raunin sé sú, að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins telja það verkefni forustumanna sinna en ekki sjálfs sín að hafa skoðanir á hlutunum og framkvæma þær.

Þar sem töfraljómi forsætisráðherra hefur dofnað í myrkri örorkunnar, er hugsanlegt, að kjósendur fari að átta sig á, að ekki er allt, sem sýnist. Það er ekki Framsóknarflokkurinn einn og hinir ógæfusömu ráðherrar hans, sem bera ábyrgð á rangri stjórnarstefnu.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins eru hornsteinar gjafakvóta sægreifanna í sjávarútvegi, milljarðasukksins í landbúnaði, ofbeldis ríkisvaldsins gegn ósnortnum víðernum landsins og einkavinavæðingar alla leið á yztu nöf ókeypis afhendingar á sjúkraskrám landsmanna.

Geðlausir stuðningsmenn sættu sig við allt þetta, meðan þeir töldu, að forsætisráðherra skaffaði okkur góðæri. Nú er hins vegar svo komið, að Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki vara við verðbólgu, sem ekki er lengur hin sama og í nágrenninu, heldur þreföld á við hana.

Á þessum ársfjórðungi, sem álit manna á forsætisráðherra hefur hrunið, hefur Samfylkingin reytt af Sjálfstæðisflokknum fylgi, sem nemur sex­sjö þingmönnum. Ef Samfylkingin er að ná vopnum sínum eftir heils árs formannsleysi, er flokkur allra stétta kominn í vanda.

Ef sú staða verður nú varanleg í könnunum, að stjórnarandstaðan haldi til jafns við ríkisstjórnarflokkana, má búast við, að ríkisstjórnin fari að gæta betur að sér. Ef hún keyrir vondu málin af minna offorsi en áður, hefur þjóðin haft nokkurt gagn af sinnaskiptum vetrarins.

Við megum þá kannski eiga von á, að varlegar verði farið í ofbeldið gegn ósnortnum víðernum landsins, að einkavæðingin feli síður í sér afhendingu einokunar í hendur einkavina og að linað verði á skjaldborg stjórnvalda um gjafakvótann í sjávarútvegi.

Hitt vitum við, að hvorki munu eldur né brennisteinn knýja stjórnarflokkana til að koma upp sömu reglum um fjárreiður stjórnmálamanna og -flokka og gilda í öðrum vestrænum löndum. Það sem eftir er af jarðvist Framsóknarflokksins byggist á núverandi leyndarhjúp.

Aðalatriðið er þó, að teflon-húðin er brostin, enda er hún til lengdar engum holl, ekki þeim, sem hana ber, og enn síður værukærum og geðlitlum kjósendum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hausaveiðar

Greinar

Tölvufyrirtækið Oz hyggst fjölga starfsmönnum sínum hér á landi um 150 og rúmlega tvöfalda mannafla sinn og mannauð. Það ætlar að greiða starfsmönnum sínum verðlaun fyrir að gerast hausaveiðarar á markaði hæfileikafólks í margs konar tölvutækni.

Í skólum, sem útskrifa fólk á þessu sviði, hefur einnig orðið vart við hausaveiðara, sem bjóða nemendum afbragðs kjör fyrir að koma til starfa hjá fyrirtækjum þeirra eftir lokapróf. Þessi aðferð hefur lengi tíðkazt við beztu háskólana vestan hafs.

Það er nýtt hér á landi, að nám og þekking séu svo verðmæt í sjálfu sér, að fyrirtæki séu með útsendara á sínum vegum til að ná í þá, sem skara framúr. Breytingin sýnir, að hér á landi er til fjárhagslega verðmætur mannauður, sem nýtist til arðbærra verka.

Ráðamenn menntamála hafa stundum gortað af, að mikil áherzla hafi verið lögð á tölvutækni í menntakerfi þjóðarinnar. Reynslan sýnir þó, að betur má, ef duga skal. Feiknarlegur mannauður er enn óbeizlaður vegna skorts á margs konar menntun við hæfi.

Við erum síður en svo eina þjóðin, sem á erfitt með að fylgjast með tímanum í menntunargeiranum. Þýzka ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að stuðla að innflutningi 20.000 manns á sviðum margs konar tölvutækni til að bæta upp skort á innfæddum.

Fyrirgreiðsla þýzkra stjórnvalda felst væntanlega í fjárhagslegri fyrirgreiðslu við flutninga til landsins og í flýtimeðferð við veitingu ríkisborgararéttar. Ríkisstjórnir fleiri vestrænna ríkja íhuga að fylgja í kjölfarið til að efla samkeppnishæfni ríkja sinna.

Eitt af því kostulega við hin nýju hátekjustörf hjá hátæknifyrirtækjum nútímans er, að nám og starf kosta tiltölulega lítið í búnaði. Á nýjum sviðum nýrrar aldar er fremur fjárfest í hálaunum og mannauði heldur en í láglaunum og dýrum búnaði gamla tímans.

Á sama tíma og hátæknifyrirtæki, sem bjóða gull og græna skóga, leita í örvæntingu að mannauði við hæfi, eru ráðamenn þjóðarinnar eins og útspýtt hundskinn við að reyna að útvega niðurgreidd láglaunastörf við að kraka í bræðslupottum álvers á Reyðarfirði.

Á sama tíma og gæfusamur hluti þjóðarinnar stendur þegar föstum fótum í atvinnulífi 21. aldar og sér fyrir sér bjarta hátekjuframtíð, er annar hluti þjóðarinnar undir forustu ríkisvaldsins enn að ösla mýrar 19. aldar undir merkjum stóriðju og smábyggðastefnu.

Á sama tíma og ríkið borgar milljónir króna á hverju ári á hvert starf í landbúnaði og reynir að ná saman fjárfestingu, sem kostar tugi milljóna á hvert starf í stóriðju, getur það ekki séð af nokkrum tugþúsundum króna til að framleiða hvert starf í hátækni.

Ef öll sú pólitíska orka, sem nú fer í að hamla gegn 21. öldinni, sem nú fer í smábyggðastuðning við atvinnuvegi 19. aldar, færi í að efla menntun og þjálfun í atvinnugreinum 21. aldar, ætti engin þjóð í heiminum betri fjárhagslega framtíð en Íslendingar.

Allt ber að sama brunni. Unga fólkið vill fremur háar tekjur en lágar, hátækni fremur en landbúnað og stóriðju. Fyrirtæki í tölvutækni þyrstir í mannauð og halda úti hausaveiðurum til að geta stækkað hraðar og hraðar. 21. öldin hvíslar ekki, heldur kallar hátt.

Tímabært er, að ráðamenn okkar snúist fremur á sveif með þessari þróun heldur en að sóa fé okkar og fyrirhöfn í fen, sem þóttu fín í þeirra ungdæmi.

Jónas Kristjánsson

DV

Schengen og flóttamenn

Greinar

Eftir slæma framkomu Íslendinga við flóttamenn af gyðingaættum fyrir síðustu heimsstyrjöldina, hafa viðhorf okkar til nýbúa að mestu verið sómasamleg, allt frá því að þýzkar flóttakonur gerðust bústólpar víða um sveitir landsins eftir lok heimsstyrjaldarinnar.

Flóttafólk frá Víetnam og svartir íþróttamenn hafa samt fundið fyrir, að stutt er í kynþáttahatur, einkum hjá illa gefnu og illa menntuðu fólki, svo sem títt er víða um lönd. Slíkir fordómar megna hér ekki að fá skipulagða útrás í stjórnmálaflokkum að evrópskum hætti.

Það hjálpar okkur, að Rauði krossinn og stjórnvöld hafa lagt áherzlu á að reyna að gera nýbúum kleift að verða virkir aðilar að þjóðfélaginu, svo að þeir einangrist ekki í skuggahverfum atvinnuleysis. Yfirleitt hafa nýbúar ekki síður en innfæddir orðið nýtir þjóðfélagsþegnar.

Það hjálpar okkur líka, að nánast alla þessa áratugi hefur full atvinna ríkt í landinu. Þar af leiðandi hefur ekki komið upp öfund á borð við þá, sem við sjáum víða um heim, þegar illa gefnir og illa menntaðir heimamenn missa atvinnu í hendur framsækinna nýbúa.

Raunar er litið á nýbúa sem þátt í byggðastefnu í sumum byggðum, er hafa búið við fólksflótta. Þær hafa keppzt um að bjóða stjórnvöldum aðstæður til að auðvelda aðlögun þeirra. Má segja, að frekar ríki hér á landi umframeftirspurn en offramboð á þessu sviði.

Matargerðarlist má nefna sem dæmi um framlag víetnamskra flóttamanna til auðgunar íslenzkri menningu. Innfæddir Íslendingar hafa lært að kynnast austrænni matreiðslu, sem áður var okkur framandi, en er nú orðinn hluti af aukinni fjölbreytni í íslenzkri hefð.

Skemmtilegasta dæmið um sátt heimamanna og nýbúa er hin árlega þjóðahátíð, sem haldin er á Vestfjörðum í tilefni af alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna. Þar koma saman Vestfirðingar af 44 þjóðum, sem leggja hver sitt af mörkum til margþættrar og auðugrar dagskrár.

Nýbúar eru orðnir 7% allra Vestfirðinga, án þess að komið hafi til neinna sjáanlegra vandræða. Það bendir til, að við getum áfram haldið að auðga þjóðina víðar um land á þennan hátt, án þess að lenda í sömu ógöngum og ýmsar vestrænar þjóðir, sem verr voru undirbúnar.

Verkefni aðlögunar nýbúa fær nýja vídd, þegar Ísland verður aðili að Schengen-samkomulagi flestra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins um sameiginleg ytri landamæri. Aukið svigrúm fólksflutninga innan Evrópu er ávísun á aukna strauma ólöglegra flóttamanna um álfuna.

Óþægindin af aukinni og óskipulagðri aðsókn erlends fólks geta hæglega vakið upp fordóma, sem áreiðanlega blunda með Íslendingum eins og öðrum. Þess vegna er brýnt, að undirbúningur Schengen-aðildar taki á því, hvernig hægt sé að aðlaga óvænta flóttamenn.

Sérstaklega er brýnt að koma í veg fyrir innreið skipulagðra glæpaflokka, sem reynsla annarra Evrópuríkja sýnir, að eiga auðveldast allra með að framvísa peningum, farseðlum, skilríkjum og öðrum gögnum. Með öllum tiltækum ráðum þarf að kæfa mafíur í fæðingu.

Reynslan af erlendum mafíum á drjúgan þátt í uppgangi öfgaflokka gegn nýbúum í mörgum löndum Evrópu, til dæmis í Austurríki, þar sem öfgaflokkur útlendingahaturs er kominn í ríkisstjórn. Við megum alls ekki framleiða hliðstæðan stjórnmálavanda hér á landi.

Um leið og við göngum í Schengen, verðum við að efla víddir aðlögunar erlendra flóttamanna að leikreglum og siðvenjum, svo að við getum haldið áfram að taka við.

Jónas Kristjánsson

DV

Frá haga til maga

Greinar

Skaðlegar eru hugmyndir landbúnaðarráðherra um að færa matvælaeftirlit úr umhverfisráðuneytinu í landbúnaðarráðuneytið, sem er gamalgróin hagsmunagæzlustofnun landbúnaðarins og mun sem slík draga fjöður yfir vandamálin og ekki gæta hagsmuna neytenda.

Kamfýla og salmonella hafa komið upp í kjördæmi ráðherrans, af því að embættismenn í landbúnaðargeiranum stóðu sig ekki sem skyldi. Það voru hins vegar vökulir starfsmenn heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem blésu í aðvörunarlúðra, þegar átti að þagga málin niður.

Sveitarstjóri Rangárvallahrepps gagnrýndi þessa embættismenn heilbrigðiseftirlitsins hér í blaðinu í gær og sagðist vilja, að þeir störfuðu í kyrrþey og létu almenning ekki vita af málum, heldur reyndu að koma þeim á framfæri við rétta málsaðila fyrir luktum dyrum.

Skoðanir landbúnaðarráðherrans og sveitarstjórans eru nákvæmar eftirlíkingar af þeim skoðunum, sem hafa sett allt á annan endann í heilbrigðiseftirliti víða um Evrópu. Embættismenn og stjórnmálamenn hafa þar reynt að halda leyndum vandræðum á borð við kúariðu.

Þegar málin loksins komust upp, varð af stórtjón, af því að menn höfðu glatað trausti á yfirlýsingar embættismanna og stjórnmálamanna. Fólk trúði engu, sem þeir sögðu. Þess vegna trúa menn ekki núna, þegar sömu embættismenn segja erfðabreyttan mat vera í lagi.

Reynslan sýnir, að heilbrigðiseftirlit þarf að starfa fyrir opnum tjöldum til þess að fólk beri traust til þess. Ef farið er að draga leyndarhjúp yfir vandamálin, meðan þau eru í uppsiglingu, munu svik komast upp um síðir og fólk hætta að trúa yfirlýsingum um, að allt sé í lagi.

Landbúnaðarráðuneytið er eindregið sérhagsmunaráðuneyti með langa sögu óvildar við neytendur að baki sér og getur aldrei orðið samnefnari fyrir traust milli kerfis og neytenda. Matvælaeftirlit á vegum hlutdrægs landbúnaðarráðuneytis verður haft í flimtingum.

Raunar er ekki heldur til fyrirmyndar að hafa matvælaeftirlitið í sveitarstjórnageira umhverfisráðuneytisins. Sveitarstjórnir hafa staðbundinna hagsmuna að gæta eins og kom í ljós á Hellu í fyrrasumar og hafa síðan verið ítrekaðir í málflutningi sveitarstjórans á Hellu.

Hella er svo lítið pláss, að það skiptir miklu máli, að góð sala sé í afurðum fyrirtækis, sem hefur tugi manna í vinnu. Ef salan bregzt vegna ótta neytenda við vöruna missa menn atvinnu. Þess vegna vildu ráðamenn á Hellu koma í veg fyrir að kamfýlan kæmist í hámæli.

Matvælaeftirlit er fyrst og fremst heilbrigðismál og á heima í heilbrigðisráðuneytinu. Ef komið verður upp samræmdu kerfi matvælaeftirlits “frá haga til maga” eins og landbúnaðarráðherra hefur orðað það, á að koma því eftirliti fyrir í heilbrigðisgeiranum sjálfum.

Við höfum kennslubókardæmin allt í kringum okkur, bæði hér heima og erlendis. Við vitum af dæmum, að sérhagsmunatengdir aðilar eiga erfitt með að gæta almannahagsmuna. Við vitum af dæmum, að eftirlit þarf að starfa fyrir opnum tjöldum, en ekki fyrir luktum dyrum.

Á vegum forsætisráðuneytisins hefur nefnd um nýskipan matvælaeftirlits starfað fyrir luktum dyrum og kynnt ráðherrum sjónarmið sín. Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu ferli, alveg eins og ástæða er til að hafa áhyggjur af yfirlýsingum landbúnaðarráðherra.

Matvælaeftirlit mun ekki njóta trausts, fyrr en því verður komið fyrir hjá hagsmunalausum aðilum í heilbrigðisgeiranum, sem starfa fyrir opnum tjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV

Bölvuðufjöll

Greinar

Blaðamaðurinn Rorbert Carver hefur skrifað átakanlega bók, Bölvuðufjöll, um Albaníuferð árið 1996 þegar alræðisflokkur kommúnista hafði verið hrakinn frá völdum, frjálsar kosningar voru komnar í móð og trúarbragðastríð á Balkanskaga voru rétt að byrja.

Albanía hafði ekki flutzt til vestræns nútíma með nýjum stjórnarháttum, heldur horfið inn í balkanskt myrkur ættbálkarígs og blóðhefnda. Nærri allt atvinnulíf hafði verið rústað, hvergi fannst heil rúða í verksmiðjum og enga heiðarlega vinnu var að hafa.

Fólk lifði á molum af borði spillingar valdhafa, á ránum og efnahagsaðstoð, á smygli og vændi. Til fjalla stunduðu menn kvikfjárrækt og gengu vopnaðir með kindum sínum. Annars staðar töldu menn það fyrir neðan virðingu sína að leggja hönd að verki.

Þetta var þá land ýmissa trúarbragða. Flestir voru íslamskir, en margir kaþólskir. Hvergi verður þess vart í allri vargöldinni, sem bókin lýsir, að neinn hafi haft minnsta áhuga á trúarbrögðum, hvað þá að þeir hafi valið sér andstæðinga með tilliti til trúarbragða.

Trúarstríðin, sem síðan einkenndu Balkanskaga, voru því ekki náttúruleg, heldur tilbúin af mannavöldum. Glæpamenn í röðum stjórnmálamanna mögnuðu upp trúardeilur og breyttu þeim í stríð til að efla valdastöðu sína og græða fé á misnotkun hennar.

Á þessum slóðum felst framtak í að verða sér úti um vestræna efnahagsaðstoð. Albanía, Bosnía og Kosovo lifa á henni og Makedónía og Svartfjallaland vonast til að geta lifað á henni. Það á ekki að koma neinum á óvart, þótt endurreisn svæðisins gangi ekki neitt.

Verra er, að skipulagðir og óvenjulega harðsvíraðir glæpaflokkar af þessum svæðum eru farnir að ryðja sér til rúms í Vestur-Evrópu og jafnvel í Norður-Ameríku. Þeir leggja stund á fíkniefnasölu og vændi, gripdeildir og smygl, svo og fjárkúgun kaupsýslumanna.

Hernámsliði Vesturlanda hefur gersamlega mistekizt að koma á lögum og rétti í Bosníu og Kosovo. Það er eins og vestrænt fólk eigi erfitt með að skilja, að bak við hvítar skyrtur og snyrtilegt hálstau leynist frumstæð ofbeldishugsun ættbálkarígs og blóðhefnda.

Fráleitt er, að nauðsynlegt andóf vestrænna ríkja gegn ofbeldi og útþenslu Serbíu þurfi að leiða til öfga á hinn veginn, að Vesturlönd verði að fjárhagslegum bakhjarli glæpalýðs í nágrannalöndum Serbíu, sem grefur beinlínis undan lögum og rétti á Vesturlöndum.

Mikilvægast er að hætta draumórum um friðsamlega sambúð fólks í fjölþjóðaríkjum. Einfaldast er að lýsa yfir landamærum og hjálpa mönnum til að forða sér yfir þau, ef þeir búa vitlausu megin þeirra. Síðan geta Vesturlönd takmarkað sig við að gæta landamæra.

Rómverjar reyndu fyrir rúmum tveimur árþúsundum að koma upp rómverskum friði á Balkanskaga. Kommúnistar reyndu eftir síðari heimsstyrjöldina að koma upp júgóslavneskum friði á Balkanskaga. Hvorugt tókst, af því að móttökuskilyrði skorti hjá fólki.

Efnahagsaðstoð kemur ekki að neinu gagni, ef fólk kærir sig ekki um að vinna, af því að það sé fyrir neðan virðingu þess. Miklu nær er að nota aðstöðu Vesturlanda til að grafa kringum rætur glæpahringa, sem eiga upptök sín í forneskju Balkanskagans.

Ófært er, að alls konar ólöglegt athæfi skuli blómstra í skjóli vestræns hervalds og vera þar á ofan eina útflutningsafurð svæðisins til Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipbrot þjónkunar

Greinar

Hótanir Kínastjórnar í garð Taívans eru ekki innantómar. Ætlunin er að þröngva stjórn eyríkisins til viðræðna og undirritunar samninga um innlimun þess í Kína meginlandsins. Hótunin snýst ekki um innrás, heldur um skyndiárás á hernaðarmannvirki Taívans.

Kínverski herinn leggur ofurkapp á skammdrægar eldflaugar. Fyrir fimm árum átti hann fjörutíu, en eftir fimm ár mun hann eiga átta hundruð slíkar eldflaugar. Þá mun hann geta þurrkað út loftvarnir, flugvelli, fjarskipti og flota Taívana á 45 mínútum án þess að hiksta.

Bandarísk hermálayfirvöld hafa engin svör við þessu. Áætlanir þeirra gera ráð fyrir hefðbundinni innrás Kínverja. Þau gera ekki ráð fyrir, að Kínverjar hafi lært af aðferðum Atlantshafsbandalagsins, sem lagði til atlögu gegn Serbíu úr lofti, án þess að gera innrás.

Að loknu leifturstríði munu Taívan og Bandaríkin standa andspænis gerðum hlut. Þá verður sem fyrr freistandi að fara leið Neville Chamberlains, sem hélt, að hann gæti friðað Hitler með eftirgjöfum, en uppskar í staðinn aukna framhleypni hans og nýjar kröfur.

Í uppnámi eru meginþættir Kínastefnu Bandaríkjanna allt frá dögum Nixons fram á daga Clintons. Hún felst í að friðmælast við Kínastjórn og reyna að juða henni inn í hefðbundin milliríkjasamskipti að vestrænum hætti. Kínastjórn lítur á allt slíkt sem vestræna linku.

Þegar kínverski herinn ógnaði Taívan fyrir síðustu kosningar á eynni með því að skjóta flugskeytum í þá áttina, reyndu bandarísk hermálayfirvöld að friða Kínverja með því að frysta vopnasölu til Taívans. Þess vegna telur Kínastjórn, að ógnanir sínar skili góðum árangri.

Sagnfræði 20. aldar á að hafa kennt okkur, að eftirgjafir af tagi Chamberlains og Clintons leiða ekki til friðar, heldur til styrjaldar. Sagnfræði Kínaveldis um aldir og árþúsundir á að hafa kennt okkur, að stjórnvöld í Kína munu ekki hætta, þegar þau hafa gleypt Taívan.

Þau hafa augastað á öllu hafinu milli Filippseyja, Malasíu og Víetnams og telja raunar Víetnam eiga að vera hluta Kínaveldis sem og smáríki á borð við Bútan, Nepal og Mongólíu. Þessi útþenslustefna er mesta ógnunin við jafnvægi og frið í heiminum við upphaf 21. aldar.

Innri ólga er mikil og vaxandi í Kína. Meðal annars eru að aukast ofsóknir gegn friðsömu trúfólki, svo sem hugleiðslufólki í Falun Gong, kristnum mönnum og búddistum. Aukin iðnvæðing kallar á sjálfstæða hugsun, sem alræðisflokkur kommúnista á erfitt með að hemja.

Lausnin á vandamálum innri ófriðar hefur löngum verið að framleiða vandamál ytri ófriðar og sameina þjóðir um hann. Þannig hefur Pútín tryggt sér sigur í forsetakosningum í Rússlandi með því að sameina þjóðina í stuðningi við sóðalega innrás hans í Tsjetsjeníu.

Ágreiningur er innan valdaklíku kommúnista í Kína. Jiang Zemin forseti fer fyrir harðlínumönnum, sem hafa ráðið ferðinni að undanförnu. Meðan harðlínan leiðir til eftirgjafa erlendra ríkja mun hún eflast í sessi, en riða til falls, ef erlend ríki segja: Hingað og ekki lengra.

Bandaríkjaþing getur fellt viðskiptasamninginn, sem Clinton hefur látið gera við Kína, Evrópa getur hafnað upptöku viðræðna um viðskiptasamning við Kína, ekki verði boðin aðild að Heimsviðskiptastofnuninni og loftvarnir verði efldar í nágrannaríkjum Kína.

Kosturinn við nýjustu hótun Kína er, að hún hefur opinberað, að þjónkunarstefna bandarískra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Kína hefur beðið skipbrot.

Jónas Kristjánsson

DV

Teppalagning auðræðis

Greinar

George Bush hefur slæman feril í umhverfismálum sem ríkisstjóri í Texas. John McCain hefur hins vegar góðan feril í umhverfismálum sem þingmaður. Samt voru auglýsingar í umhverfismálum meðal þess, sem varð McCain að falli í stóru prófkjörshrinunni í síðustu viku.

Tveir auðugir vinir Bushs stofnuðu samtök, sem borguðu teppalagningu auglýsinga gegn McCain, þar sem haldið var fram, að hann hefði ekki staðið sig í umhverfismálum. Enginn þeirra, sem stóðu að samtökunum, hafði áður sýnt neinn feril til stuðnings umhverfismálum.

Þetta sýnir, hvað hægt er að gera, ef nóg er til af peningum og ófyrirleitni. Þá er hægt að segja með árangri, að svart sé hvítt og að hvítt sé svart. Sumir sáu gegnum áróðurinn og aðrir ekki, en meðalniðurstaðan varð, að fleiri urðu fráhverfir McCain en snerust til hans.

Það er gamalkunn staðreynd, að margir fara að trúa lyginni, ef hún er endurtekin nógu oft. Þar sem lygin á í samkeppni við sannleikann, hafa menn hingað til verið hræddir við að teppaleggja kosningabaráttu með öfugmælum. Í bandarísku forkosningunum var sá múr rofinn.

Þar sem menn hafa nú séð, að teppalagning lyganna ræður úrslitum um, hver verður forsetaefni annars af stóru flokkunum í Bandaríkjunum, má búast við, að fjandinn verði laus í framtíðinni. Hann mun líka koma til Íslands, því að hér læra menn fljótt nýjabrumið.

Kjósendur á Íslandi eru ekkert ólíkir kjósendum í Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum. Þeir hafa að meðaltali ekki þroska til að sjá gegnum lygina. Þótt hún fæli suma frá, eru þeir fleiri, sem hlaupa eftir henni, jafnvel þótt aðgangur sé að réttum upplýsingum.

Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum tala nú í auknum mæli um, að auðræði sé að leysa lýðræði af hólmi. Bush varði 5,2 milljörðum íslenzkra króna til að sigra McCain og fékk að auki milljarðastuðning í óbeinum auglýsingum á borð við ofangreinda teppalagningu.

Ástandið er engan veginn alvont í Bandaríkjunum. Hvergi í heiminum er meira gegnsæi í þjóðmálunum. Nánast allt er vitað um, hvaðan peningar koma í kosningabaráttu og hvert leið þeirra liggur. Þess vegna er hægt að kortleggja vandann þar, vega hann og meta.

Hér á Íslandi eru hins vegar engin lög til að vestrænum hætti um fjárreiður stjórnmálaflokka og kosningabaráttu einstaklinga og flokka. Ríkisstjórnarflokkarnir eru andvígir gegnsæi. Þess vegna höfum við ekki sömu varnir gegn auðræðinu og Bandaríkjamenn hafa þó.

Við sáum það þegar í fyrra, að flokkur, sem ekki getur útvegað sér meira en tíu milljónir króna í kosningabaráttu með eðlilegum hætti, ver sextíu milljónum króna til hennar. Við höfum sterkan grun um, hvernig Framsóknarflokkurinn er rekinn, en getum ekki sannað það.

Með vaxandi auðsæld íslenzkra stórfyrirtækja má búast við, að peningar frá þeim streymi í auknum mæli til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka, sem eru þessum fyrirtækjum að skapi. Með innleiðingu auðræðis verður áróður ósvífnari og þéttari en hann hefur verið.

Ef kjósendur væru næmari fyrir rökum og raunveruleika, gæti lýðræðið staðið sig gegn innreið auðræðis og staðreyndir staðið sig gegn teppalagningu lyginnar. En fréttirnar að vestan tala sínu máli. Nógu margir kjósendur eru nógu blindir til að grafa undan lýðræðinu.

Kosningabarátta Bushs gegn McCain sýnir, að ástandið er orðið þannig, að með auðmagni er hægt að ná árangri í að segja, að svart sé hvítt og að hvítt sé svart.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsæi í fjárreiðum

Greinar

Milljarðafyrirtæki getur slett einni milljón króna í kosningabaráttu stjórnmálaflokks, sem ekki er þóknanlegur, og hælzt um af því, ef umræða um flokkastyrki verður óþægileg, en látið þóknanlegan flokk frá tvo tugi milljóna og jafnframt haldið fram, að hann hafi ekkert fengið.

Styrkir til flokka og pólitíkusa eru ekki aðeins bein framlög fyrirtækjanna. Þau geta líka látið flokka og menn hafa aðstöðu, sem sparar þeim peninga. Þannig má fela í bókhaldi fyrirtækja reikninga fyrir vörur og þjónustu, sem þau nota ekki sjálf, heldur láta flokkum og mönnum í té.

Í bókhaldi milljarðafyrirtækis má fela húsaleigu, símaleigu, tækjaleigu og hvers kyns aðra þjónustu fyrir stjórnmálaflokka og jafnvel launagreiðslur á vegum þeirra. Það mundi kosta nákvæma lögreglurannsókn að finna slíka fyrirgreiðslu og kerfið hefur enga lyst á slíku.

Raunverulega mætti reka alla starfsemi stjórnmálaflokks og alla kosningabaráttu hans innan bókhalds óviðkomandi fyrirtækja. Það takmarkast að vísu af, að skrýtið þætti, að flokkur hefði alls engan rekstur. Hann verður því að sýna fram á einhvern rekstur í bókhaldi sínu.

Forstokkaður eða ófróður talsmaður milljarðafyrirtækis getur því kotroskinn haldið fram, að fyrirtæki hans hafi styrkt Samfylkinguna um heila milljón króna, en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi ekki fengið krónu, enda hafi þeir ekki farið fram á slíkt.

Þess vegna nægir ekki að setja lög um birtingu reikninga stjórnmálaflokka og birtingu á skrám yfir styrktaraðila umfram einhverja lágmarksupphæð. Lögin þurfa líka að ná til óbeinnar fyrirgreiðslu í þágu flokka og pólitíkusa, sem falin er í reikningum óviðkomandi fyrirtækja.

Auðvelt er að fara í kringum lagaákvæði um birtingu upplýsinga um óbeina fyrirgreiðslu. Því þarf að gera ráð fyrir stikkprufum samkvæmt tilviljanaúrtaki og ströngum viðurlögum við brotum, ef þau komast upp. Annars verða lög um fjárreiður stjórnmálanna bitlaus með öllu.

Nánast öll vestræn ríki önnur en Ísland hafa komið sér upp lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka. Lögum þessum er yfirleitt ekki ætlað að torvelda stuðning við flokka, heldur að gera þann stuðning gegnsæjan, svo að kjósendur viti, hverjir séu í innilegustu ástarsambandi við flokkana.

Helmut Kohl, fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, braut slík lög. Fyrir það hefur hann og flokkur hans, Kristilegi demókrataflokkurinn, sætt ámæli, fylgistapi og opinberum rannsóknum. Þýzkaland er nefnilega vestrænt lýðræðisríki, þar sem farið er að ströngum leikreglum.

Að undirlagi kjósenda er Ísland hins vegar bananalýðveldi, þar sem ekki tekst að koma á lögum um gegnsæi stjórnmálaflokka, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns. Bananakóngurinn afgreiðir slíkt jafnhraðan út af borðinu sem hræsni.

Gegnsæi er ein af helztu forsendum lýðræðis og markaðsbúskapar. Atriði, sem máli skipta, eiga ekki að vera falin fyrir borgurum, kjósendum, fjárfestum, starfsmönnum og almenningi yfirleitt. Þannig eru tryggðar heiðarlegar leikreglur í stjórnmálum, viðskiptum og fjármálum.

Það sker Ísland frá hinum vestræna heimi, að kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks láta sér vel líka, að flokkar þessir standi ár eftir ár gegn lögum um gegnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka. Íslenzkir kjósendur hafa einfaldlega ekki þroska til að halda uppi lýðræði.

Þetta er einn af mörgum þáttum í mynztri, sem veldur því, að stjórnmál á Íslandi verða bezt skilin með því að líta á þau sem sýndarveruleika í bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV