Greinar

Í sátt við land og þjóð

Greinar

Ýmsir forustumenn í landbúnaði hafa komið auga á brýn verkefni, sem áður voru ekki hátt skrifuð í greininni. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra vill bæta hreinleikaímynd landbúnaðarins, sem hann telur hafa beðið hnekki á undanförnum mánuðum.

Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, sagði á Búnaðarþingi, að landbúnaðurinn yrði að starfa í sátt við umhverfi sitt. Vandamál mengunar, jarðvegseyðingar, hormónanotkunar og fleiri þátta megi ekki skaða umhverfið og rýra traust almennings á greininni.

Sumir aðrir forustumenn eru hins vegar forstokkaðir sem fyrr. Aðalsteinn Jónsson, formaður Samtaka sauðfjárbænda, sagði í gær, að ekki væri ofbeit á hálendi Íslands og að raunar væri alls engin ofbeit í landinu. Um leið kaus hann að gagnrýna þá, sem vilja vernda villigæsir.

Þannig hafast menn ýmislegt að. Sumir reyna að byggja upp traust, sem aðrir eru að eyða á sama tíma. Fræðimenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar eru sammála um, að ofbeit eigi víða þátt í gróðureyðingu og að víða þurfi að friða hálendi.

Nánar tiltekið þarf á Suðurlandi að friða hálendi Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og á Norðurlandi þarf að friða hálendi Þingeyjarsýslna, Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðar. Vísindamenn í landbúnaðargeiranum telja þessi svæði óhæf til beitar.

Mikilvægur er nýfenginn skilningur ýmissa ráðamanna í landbúnaði á, að greinin þurfi að starfa í sátt við land og þjóð. Þessum skilningi þarf að beita víðar en í friðun lands. Hann nýtist líka til að koma í veg fyrir, að stofnanir landbúnaðarins reyni að svindla á gæðakröfum.

Það er ekki séríslenzkt fyrirbæri, að stofnanir landbúnaðarins reyni að skekkja hugtök til að spara vinnu og kostnað. Þannig hefur landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna lengi reynt að skilgreina lífrænan landbúnað á þann hátt, að hann nái til erfðabreyttra matvæla.

Nú hefur bandaríska ráðuneytið gefizt upp á þessu og viðurkennt, að alþjóðlegi markaðurinn hefur án afskipta ríkisvalds komið sér upp skilgreiningu á lífrænum landbúnaði, sem er grundvöllur trausts almennings og hærra markaðsverðs á búvöru, sem fær lífræna stimplinn.

Það, sem bandaríska ráðuneytinu tókst ekki, með mátt heimsveldis að baki sér, mun íslenzku ráðuneyti smáríkis ekki takast. Enginn sátt verður við þjóðina og enn síður við alþjóðlega markaðinn um séríslenzkar reglur um lífrænan eða vistvænan eða sjálfbæran landbúnað.

Vegna óbeitar á ströngum alþjóðareglum um lífræna ræktun hafa íslenzkar stofnanir landbúnaðarins viljað búa til séríslenzkar og ríkisreknar reglur, sem séu þannig lagaðar að íslenzkum aðstæðum, að það kosti litla vinnu og litla peninga að laga landbúnaðinn að þeim.

Í framhaldi af skynsamlegum yfirlýsingum ráðherra og bændaformanns á Búnaðarþingi geta stofnanir landbúnaðarins nú hætt að reyna að framleiða opinbera gæðastimpla fram hjá alþjóðareglum og viðurkennt alþjóðareglur eins og bandaríska ráðneytið hefur gert.

Næsta ljóst má vera, að aldrei fæst nein lífræn, vistvæn eða sjálfbær vottun á lambakjöti, sem framleitt er við aðstæður ofbeitar. Vottanir um slíkt á vegum ríkisstofnunar munu aldrei öðlast það traust, sem ráðherra og bændaformaður segjast vilja afla landbúnaðinum.

Þegar topparnir eru farnir að skilja nauðsyn þess, að greinin starfi í sátt við land og þjóð, er stigið fyrsta skrefið í átt til skynsamlegs landbúnaðar á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðsstyrkir í listum

Greinar

Þær fjórar íslenzku kvikmyndir, sem mesta aðsókn hafa fengið um dagana, eru Með allt á hreinu eftir Ágúst Guðmundsson, Dalalíf eftir Þráin Bertelsson, Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson, með yfir 95.000 áhorfendur hver.

Athyglisvert er, að þessar kvikmyndir voru sáralítið styrktar af opinberu fé, fengu á núvirði rúmlega tvær milljónir króna hver að meðaltali. Þær tölur eru alger skiptimynt í samanburði við þá styrki, sem nú eru veittir og nema oft yfir tuttugu milljónum króna á mynd.

Þær myndir, sem einna minnsta aðsókn hafa hlotið, 3.000-6.000 áhorfendur, hafa einmitt fengið yfir tuttugu milljón krónur hver að meðaltali í opinberum styrkjum. Út úr þessu má lesa, að öfugt samhengi sé milli áhuga áhorfenda og úthlutunarnefnda á kvikmyndum.

Erfitt er að halda fram í alvöru, að Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna séu ómerkari kvikmyndir en Myrkrahöfðinginn, Hin helgu vé, Draumadísir og Ein stór fjölskylda. Að minnsta kosti voru gagnrýnendur sáttir við fyrrtöldu kvikmyndirnar.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir úthlutunarnefndir að ákveða, hvaða verkefni í kvikmyndagerð séu þess verðug að fá mikla styrki og hvaða verkefni séu aðeins lægstu styrkja virði. Sagan reynist úthlutunarnefndum jafnan harður dómur, þótt þær reyni að fara eftir reglum.

Niðurstaðan af þrotlausu erfiði úthlutunarnefnda og ómældu fjármagni þeirra er, að þær myndir, sem ganga bezt, mundu hafa náð endum saman án aðildar úthlutunarnefndanna, og að þær myndir, sem ganga verst, ná ekki endum saman þrátt fyrir nefndir og tapstyrki.

Nokkrum sinnum hefur verið bent á leið úr þessum vanda. Hún felst í, að úthlutunarnefndir spari sér erfiðið og afhendi áhorfendum valdið til að ákveða, hvaða myndir eigi að styrkja, svo að hér á landi séu framleiddar sem flestar myndir, er falla í kramið hjá áhorfendum.

Þannig sé líklegast, að hér á landi séu framleiddar kvikmyndir, sem þjóðin vilji fremur sjá en innfluttar kvikmyndir. Þannig sé innlendur kvikmyndaiðnaður styrktur til að halda uppi samkeppni við það vinsælasta, sem framleitt er af slíku tagi á erlendum vettvangi.

Ef menn segja, að með slíkri aðferð væri verið að styrkja lágkúru, sem félli í kramið hjá skrílnum, verða menn jafnframt að halda fram, að Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna séu lágkúra, en fyrrnefndar botnmyndir séu hins vegar göfug list.

Þar sem ekki er hægt að sjá neinn gæðamun milli kvikmynda með háa og lága styrki, er einfaldara að vísa málinu til áhorfenda, svo að kvikmyndastjórar séu hvattir til að búa til kvikmyndir, sem fólk vill sjá. Styrkjakerfið sé beinlínis notað til að ýkja lögmál markaðarins.

Aðferðin felst í að borga kvikmyndagerðarmanninum fasta krónutölu í meðgjöf með hverjum seldum aðgöngumiða. Sömu aðferð má raunar nota til að styrkja rithöfunda, tónlistarmenn, myndlistarmenn og aðra listamenn, sem selja almenningi aðgang að verkum sínum.

Það væri kvikmyndagerðarmanni mikil hvatning til góðra verka að vera öruggur um að fá í styrk 1.000 krónur ofan á hvern seldan miða. Eins væri það rithöfundi sambærileg hvatning að vera öruggur um að fá í styrk 500 krónur ofan á ritlaun af hverju seldu eintaki.

Aldrei hefur verið sýnt fram á það með rökum, að markaðsvæðing styrkjakerfa í listum hefði rýrara menningargildi en núverandi fálm úthlutunarnefnda.

Jónas Kristjánsson

DV

Dapurt óperuball

Greinar

Árlega óperuballið í Vínarborg í fyrradag var aðeins svipur hjá fyrri sjón. Erlend stórmenni Evrópu létu ekki sjá sig. Austurríkismenn urðu að sætta sig við bananakónginn Nursultan Nazarbayev frá Kazakhstan og Ludmillu Kuchma, eiginkonu bananakóngsins í Úkraínu.

Vestrænir stjórnmálamenn, sem áður höfðu tekið boðinu, drógu sig í hlé eftir stjórnarskiptin í Austurríki. Sama gerðu stórfyrirtæki, sem höfðu tekið á leigu óperustúkur fyrir rúma milljón króna stykkið. Catherine Deneuve og Claudia Cardinale neituðu að koma.

Yfirstéttin í Austurríki reytir hár sitt í örvæntingu. Sendiherrar landsins fá ekki lengur að taka þátt í matarboða-sirkusum utanríkisráðuneyta og fína fólksins á Vesturlöndum. Landið er í selskapslegri einangrun eftir innreið útvatnaðra nýnazista í ríkisstjórn.

Þótt ýmsir segi, að Evrópusambandið og ráðamenn í sumum vestrænum löndum hafi farið offari í viðbrögðum við stjórnarskiptunum í Austurríki, sjást engin merki þess, að frystingunni linni. Þvert á móti hefur hún fallið í fastan farveg, sem meðal annars lýsti sér á óperuballinu.

Á margan hátt er Austurríki hentugur blóraböggull. Nazisminn átti þar rætur sínar. Eftir stríðið spöruðu Austurríkismenn sér heilaþvottinn, sem Þjóðverjar tóku á sig. Austurríkismenn hafa aldrei horfzt í augu við fortíð sína, meðan Þjóðverjar hafa gert upp sakirnar við hana.

Flokkur Jörgs Haider er sem útvatnaður nýnazistaflokkur alvarlegra fyrirbæri en útvatnaður nýfastistaflokkur Gianfrancos Fini, sem komst um tíma í ríkisstjórn á Ítalíu. Ítalski fasisminn var mun vægara tilfelli en austurríski nazisminn og var til dæmis lítið fyrir kynþáttahatur.

Því er eðlilegt, að viðbrögðin við stjórnarskiptunum í Austurríki séu nú harðari en þau voru við stjórnarskiptunum á Ítalíu fyrir hálfum áratug. Þau snerta viðkvæmari strengi í stjórnmálalífi Evrópu, afstöðu almennings til innflytjenda frá fátækum og fjarlægum löndum.

Með frystingu Austurríkis eru vestrænir stjórnmálamenn og Evrópusambandið að senda skilaboð til almennings í eigin löndum. Verið er að segja öfgasinnuðum Belgum og Frökkum, Dönum og Þjóðverjum að gæta sín. Stuðningur við öfgaflokka geti skaðað viðkomandi þjóðir.

Eftir uppistandið út af öfgaflokki Haiders geta menn ekki lengur gamnað sér við, að taka megi vesturevrópska öfgaflokka í ríkisstjórnir. Gefið hefur verið fordæmi, sem ekki gefur mikið svigrúm til undanbragða. Flokkar kynþáttahaturs hafa varanlega verið settir í frystikistuna.

Vesturlönd verða jafnframt að taka á vandamálum, sem eru uppspretta fylgisaukningar slíkra flokka. Innflytjendur eiga víða erfitt með og vilja helzt ekki aðlagast nauðsynlegu lágmarki af siðum og hefðum þeirra þjóða, sem sýna þeim gestrisni. Þeir mynda undirheima, stundum hættulega.

Vesturlönd þurfa að verja miklu meiri orku og fé í að gera innflytjendum grein fyrir, hver sé lágmarksaðlögun að siðum og hefðum hvers umhverfis, og gera þeim kleift að öðlast þessa lágmarksaðlögun, til dæmis með starfsfræðslu, félagsfræðikennslu og tungumálanámi.

Með þessum fyrirvara verður ekki séð, að Evrópusambandið og ráðamenn ýmissa aðildarríkja þess séu á hálum ís í aðgerðunum gegn Austurríki. Þær takmarkast við selskapslíf og mannleg samskipti innan ríkjasambands, sem hefur æðri markmið en flokkur Jörgs Haider.

Aðgerðirnar gegn Austurríki voru ekki stundaræði, heldur markviss aðgerð á takmörkuðu sviði til að brjóta brýr að baki Vesturlanda í baráttu gegn kynþáttahatri.

Jónas Kristjánsson

DV

Þér var nær

Greinar

Enn einu sinni hefur nýr keppinautur á markaði orðið að lúta í lægra haldi fyrir þeim, sem fyrir var. Íslandsflug hefur hætt samkeppni við dótturfélag Flugleiða, sem gat í skjóli móðurfélagsins þolað samkeppni um verð, því að of margir flugfarþegar tóku ekki þátt í leiknum.

Þegar Íslandsflug kom til skjalanna, lækkaði verð í innanlandsflugi. Þegar það er horfið af samkeppnisleiðum, má búast við, að verð fari smám saman að hækka aftur. Fljótlega verður dýrara að fljúga innanlands en til útlanda, þar sem samkeppni er hafin á nýjan leik.

Við höfum oft séð þetta gerast. Nýir aðilar koma til skjalanna í ástandi einokunar eða fáokunar og bjóða niður verð, almenningi til hagsbóta. Gamli aðilinn notar auð sinn til að jafna verðið og bíður síðan þolinmóður eftir því, að samkeppnisaðilinn gefist upp.

Leikurinn jafnast ekki, af því að Íslendingar láta ekki nýja aðilann njóta þess, að hann leiddi inn lága verðið. Þeir fagna því, að gamla fyrirtækið þurfi að lækka verðið og halda áfram að skipta við það. Þetta leiðir til þess, að þeir fá gamla, háa verðið í hausinn aftur.

Áður hafa misheppnazt tilraunir til samkeppni í innanlandsflugi og millilandaflugi, í vöruflutningum á landi og á sjó, í tryggingum og olíuverzlun. Það stafar af því, að Íslendingar halda tryggð við kvalara sína og gera þeim kleift að sitja af sér tímabundna samkeppni.

Þar sem borgaraleg hugsun er ákveðnari en hér, svo sem í Bandaríkjunum, neita menn að gerast þrælar gamalla stórfyrirtækja. Þar tekst nýjum fyrirtæknum oft að ryðja sér til rúms með lágu verði, af því að þar flytja hlutfallslega miklu fleiri viðskipti sín en gerist hér.

Í þetta blandast byggðastefna úti á landi og þjóðleg stefna í þéttbýli. Dæmigerð er Akureyri, sem er fræg fyrir að hafna fyrirtækjum að sunnan, er flytja með sér lágt verð. Þau fá lítil viðskipti og flýja af hólmi, en Akureyringar sitja eftir með háa og heimagerða verðið.

Ísland er svo lítið hagkerfi, að óeðlilega mikill hluti verzlunar og þjónustu er á gráu svæði milli fákeppni og fáokunar, þar sem þrjú eða færri fyrirtæki skipta með sér nærri öllum markaði á hverju sviði. Fákeppni breytist í fáokun og fáokun breytist í einokun.

Á síðustu misserum hefur fákeppni í smásöluverzlun verið að breytast í fáokun. Fyrirtæki hafa sameinazt og blokkirnar hafa tekið upp samráð um verð. Þetta heftur leitt til þess, að verðbólga hefur látið á sér kræla á nýjan leik og er nú orðin tvöföld á við evrópska verðbólgu.

Stjórnvöld hafa engin tæki til að grípa inn í og gæta hagsmuna almennings. Menn verða að læra af reynslunni að bjarga sér sjálfir. Aðeins lítill hluti fólks tekur þátt í að halda uppi samkeppni og halda niðri verði með að flytja viðskipti sín til nýrra aðila með lágt verð.

Aðferðin gegn fáokun og einokun er einföld. Rómverska og brezka heimsveldið beittu henni. Hún felst í að deila og drottna, styðja þá litlu gegn hinum stóra. Ef einhver hinna litlu verður stærstur, færist aðferðin yfir á hann. Þetta er leiðin til að halda uppi virkri samkeppni.

Aðferðin felst í, að menn styðja alltaf þá, sem eru nýir og minni máttar, og hafna viðskiptum við þá, sem eru ráðandi á hverjum markaði hverju sinni. Þannig héldu Bretar jafnvægi á meginlandi Evrópu öldum saman og þannig halda neytendur uppi sívirkri samkeppni.

Íbúar Akureyrar, Vestmannaeyja, Egilsstaða og svæðanna umhverfis höfðu í hendi sér að halda uppi samkeppni í flugi, en neituðu sér um það. Þér var nær.

Jónas Kristjánsson

DV

Vara og fíkniefni í senn

Greinar

Frá sjónarhóli viðskipta og hagfræði er verzlun með áfenga drykki eins og hver önnur verzlun, sem eigi að fylgja lögmálum markaðarins, svo sem afnámi einkasölu. Dreifing áfengis megi vera á vegum allra, sem hafa leyfi til að reka verzlun með aðrar vörur fyrir neytendur.

Frá sjónarhóli læknisfræða nútímans er áfengi hættulegt fíkniefni, sem reynist mörgum um megn, einkum vegna erfðafræðilegra orsaka og vegna illviðráðanlegra umhverfisáhrifa. Samkvæmt skilgreiningu fræðanna líkist áfengissýki hverjum öðrum sjúkdómi.

Viðskiptasjónarmið ráða ferð Evrópusambandsins í verzlunarmálum áfengis. Litið er á hindranir gegn slíkri verzlun sem hverjar aðrar viðskiptahindranir, sem beri að ryðja úr vegi innan evrópska markaðarins. Sambandið hefur beitt Norðurlönd þrýstingi í þessa átt.

Svíar, sem hafa einkasölu eins og við, hafa farið undan í flæmingi og beitt fyrir sig læknisfræðilegum sjónarmiðum og þá ekki síður hinum félagslegu, því að ofneyzla áfengis hefur feiknarleg áhrif í þjóðfélaginu og stýrir meðal annars flestum glæpum og slysum.

Ótal rannsóknir hafa sýnt, að áfengisneyzla fylgir aðgangi að áfengi. Því greiðari og ódýrari sem aðgangurinn er, þeim mun meiri er neyzlan, þeim mun líklegra er, að fólk ánetjist fíkniefninu og þeim mun fleiri verða glæpirnir og slysin. Sænska stefnan vill hafa vit fyrir fólki.

Vegna mikilla áfengisvandamála kusu íslenzk stjórnvöld á sínum tíma að fara sænsku leiðina og reyna að hafa vit fyrir fólki. Aðferðirnar hafa mildazt með áratugunum og felast nú einkum í, að smásala áfengis er í sérverzlunum ríkisfyrirtækis, sem tollar vöruna óspart.

Forsjárhyggjan á Íslandi byggist aðeins á þjóðfélagslegum sjónarmiðum, en alls ekki hinum læknisfræðilegu. Hvorki Hæstiréttur né Stjórnarráðið viðurkenna áfengissýki sem sjúkdóm, þótt það sé gert hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og styðjist við ótal rannsóknir.

Áratugum saman hafa vísindamenn erlendis vitað, að áfengissýki er sumpart arfgengur sjúkdómur, sumpart tengdur illviðráðanlegum umhverfisáhrifum og sumpart nokkurs konar sjálfskaparvíti. Að öllu þessu leyti er áfengissýki alveg eins og hjartamein og krabbamein.

Áfengissýki lýsir sér líkamlega eins og aðrir sjúkdómar, breytir starfi boðefna og ruglar starfsemi heilans. Erfitt er að snúa við, ef vandinn hefur fengið að þróast. Rétt eins og úrræði gegn hjartameini og krabbameini gagnast úrræði gegn áfengismeini ekki öllum.

Ef læknisfræðilegu sjónarmiðin næðu fram að ganga hér á landi, mundi aukast fyrirstaða gegn auknum aðgangi að áfengi. Auðvelt er að framreikna kostnaðinn af sjúkdómi, sem ánetjar 15­20% þjóðarinnar svo hastarlega, að batalíkur eru töluvert innan við helming tilvika.

Kostnaður við meðferð áfengissýki er barnaleikur í samanburði við kostnað af glæpum og slysum af völdum áfengis. Allur þorri glæpa og flest slys, að sjálfskaparvíti íþróttaslysa frátöldu, byggjast á neyzlu áfengis, stundum í bland við hættuleg læknislyf eða ólögleg fíkniefni.

Eðlilegt væri að merkja áfengi aðvörunarmiðum eins og tóbak. Möguleikar forsjárhyggju takmarkast að öðru leyti af möguleikum fólks til að brugga sjálft og smygla og af hagsmunum, sem við höfum af móttöku erlendra ferðamanna, sem margir vilja óheftan aðgang að áfengi.

Núverandi skipan verðlags og sölu áfengis er dæmigerð millileið milli forsjárhyggju og markaðshyggju. Hún er heiðarleg tilraun til að sætta ósættanleg sjónarmið.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðasti bærinn í dalnum

Greinar

Frumkvöðlar og kaupsýslumenn nútímans hér á landi hafa áttað sig á, að velsæld þjóðarinnar í náinni framtíð felst ekki í að framkvæma gamla drauma um álver og stórvirkjanir, heldur í að rækta menntun og hugvit þjóðarinnar á mestu framfarasviðum hvers tíma.

Dæmi um auðlindir nýrrar aldar eru hugbúnaðargerð og önnur tölvutækni, erfðarannsóknir og líftækni. Slíkar greinar kosta fyrst og fremst fjárfestingu í menntun og hugviti, en síður í áþreifanlegum mannvirkjum, svo sem verksmiðjum, orkuverum og stíflugörðum.

Ef þjóðfélag hyggst standast samkeppni við forustuþjóðir heimsins, verður það að unga út hæfu fólki á þenslusviðum hvers tíma. Aðrar auðlindir hverfa algerlega í skugga þessarar kröfu og gera lítið annað en að flækjast fyrir því, að þjóð komist í fararbrodd.

Mannvirki kosta gríðarlega peninga. Fjárfesting í gamaldags atvinnuvegum á borð við raforkuvinnslu og álvinnslu er gríðarleg á hvern starfsmann og gefur lítinn arð í samanburði við þær greinar, sem eru í fararbroddi efnahagsþróunar Vesturlanda á hverjum tíma.

Fjárfesting í auðlindum menntunar og hugvits kostar miklu minna á hvern starfsmann og getur gefið ótrúlegan arð, sem Íslendingar eru fyrst núna að átta sig á, að sé innan seilingar, þegar íslenzk fyrirtæki á slíkum sviðum hafa lyfzt úr engu til feiknarlegra verðmæta.

Við búum því miður við pólitísk stjórnvöld, sem eru frosin í gömlum tímum og hafa því ekki getað leikið það eftir stjórnvöldum nágrannalandanna að vísa stórvirkjunum og stóriðju til þriðja heimsins og nota sparnaðinn til að búa í haginn fyrir þekkingariðnað.

Slagurinn um Fljótsdalsvirkjun og Reyðarál er síðasti slagur fortíðar og framtíðar í atvinnu- og efnahagslífi Íslands. Þar er á ferðinni gamall og úreltur draumur, sem hefur breytzt í martröð byggðastefnu, er stefnir í taprekstur á hvoru tveggja, orkuveri og stóriðju.

Stjórnvöld leggja ofurkapp á, að takmörkuðu fjármagni og lánsfjármöguleikum þjóðarinnar sé veitt í farveg martraðarinnar á Austurlandi í stað þess að snúa sér í átt til framtíðarinnar og leggja sömu peninga í hugbúnað og tölvutækni, erfðarannsóknir og líftækni.

Vandinn er auðvitað sá, að þjóðin lifir á þremur öldum í senn. Meðan hluti þjóðarinnar hefur sótt inn í 21. öldina, lifa aðrir enn á 19. öldinni. Hinir síðarnefndu sjá sér þá von bjartasta í lífinu að komast í tæri við atvinnuvegi, sem voru vaxtarbroddur 19. aldar.

Í stað þess að mennta austfirzk ungmenni til aðildar að veruleika 21. aldar eru ráðamenn nokkurra sveitarfélaga á Austurlandi að berjast fyrir því, að orku þessara ungmenna verði beint að því að skaka á venjulegu skítakaupi í bræðslupottum á Reyðarfirði.

Á sama tíma eru ýmsir aðrir foreldrar í landinu að búa börn sín undir tíma, þar sem árlegar bónusgreiðslur einar eru hærri en árslaun við bræðslupotta á Reyðarfirði. Ungmenni á höfuðborgarsvæðinu búa ekki við dragbíta á borð við sveitarstjórnir á Austfjörðum.

Hvort sem Fljótsdalsvirkjun og Reyðarál verða að veruleika eða ekki, marka þau þáttaskil í atvinnusögu okkar. Þau eru síðasti bærinn í dal fortíðarinnar, áður en við tekur nýr tími, þar sem heilabúið í mannfólkinu verður eina auðlindin, sem máli skiptir.

Þjóðin mun láta herkostnaðinn við martröðina sér að kenningu verði. En hún á enn kost á að spara sér alveg þetta morð fjár og læra samt af reynslunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Pútín er nýr Stalín

Greinar

Andrei Babitsky, fréttamaður Radio Liberty í Tsjetsjeníu hafði lengi farið í taugar Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, af því að fréttir hans voru réttar og stungu í stúf við lygavefina, sem Pútín lét semja um stríðið. Því var Babitsky handtekinn á eftirlitsstöð 16. janúar.

Babitsky hefur ekki sézt síðan. Sennilega hafa menn Pútíns myrt hann. Þeir neituðu í tvær heilar vikur að hafa handtekið hann, unz þeir þóttust skyndilega hafa afhent hann skæruliðum Tsjetsjena 3. febrúar. Þeir sýndu greinilega falsaða mynd af þeim meinta atburði.

Allt er málið einkar stalínskt. Fyrst er maðurinn sagður ekki til og svo er hann afhentur. Hann er sagður afhentur Tsjetsjenum, af því að hann hafi sjálfur beðið um það. Allt er þetta sama gamla lygin og Stalín stundaði og nákvæmlega í gamla ósvífna stílnum hans.

Alexander Khinshtein, blaðamaður við Komsomolets, slapp naumlega 17. janúar, er menn komu að flytja hann nauðugan á geðveikrahæli. Sú aðferð var notuð af KGB á sínum tíma og hefur verið endurvakin af Pútín, sem er alinn upp í KGB og Stasi í Austur-Þýzkalandi.

Pútín hefur tekið upp fleiri siði úr gömlum kennslubókum. Hópi erlendra blaðamanna var sýnt friðsælt tölvuver í skóla í þeim hluta Tsjetsjeníu, sem rússneski herinn hafði náð á sitt vald. Eini gallinn við Pótemkín-tjaldið var, að ekkert rafmagn hafði verið lagt í skólann.

Eins og á tímum Stalíns mættu hópnum hópar af syngjandi Tsjetsjenum, sem dönsuðu þjóðdansa með hamingjusvip. Þannig er lygavefurinn spunninn af KGB, sem núna heitir FSB, nákvæmlega eins og hann var spunninn, þegar svart var hvítt í Sovétríkjunum sálugu.

Enginn vottur af sönnun hefur komið fram um, að Tsjetsjenar hafi valdið sprengingum í íbúðablokkum í Moskvu og víðar. Herferðin gegn þeim er því byggð á yfirvarpi. Hún heitir frelsun á máli Pútíns og manna hans, en varðar þó við alþjóðareglur um stríðsglæpi.

Einkennilegt er að frelsa fólk með því að sprengja hús þess, ræna eignum þess og myrða það af handahófi, pynda það og nauðga því í fangabúðum. Um þetta eru rækileg gögn hjá fjölþjóðastofnunum, en Pútín heldur áfram þeim sið Stalíns að sýna syngjandi dansflokka.

Aðgerðir Pútíns í Tsjetsjeníu eru skipulagt þjóðarmorð gegn fólki, sem formlega séð telst vera borgarar í Rússlandi. Þær sýna viðhorf stjórnvalda til borgara í eigin landi. Með Pútín hefur stjórnarfar í Rússlandi horfið aftur til Sovétríkjanna eins og það var á tímum Stalíns.

Áhugamál Pútíns komu greinilega í ljós á fundi svonefnds Sambands sjálfstæðra ríkja í lok janúar, þar sem hann vildi hvorki ræða fríverzlun né Tsjetjeníu, heldur eingöngu um aukið samstarf leyniþjónustanna í þessum arftakaríkjum Sovétríkjanna sálugu.

Sem betur fer eru Rússland og Samband sjálfstæðra ríkja efnahagslegir dvergar, sem geta lítið spillt fyrir úti í hinum stóra heimi. Rússland hefur þó mikið af kjarnorkuvopnum og nýjan Stalín á toppnum, sem gerir lífið í heiminum hættulegra en það var á tíma Jeltsíns.

Því miður eiga utanríkisþjónustur vestrænna stórvelda erfitt með að kyngja því, að dálæti þeirra á Jeltsín hefur leitt Pútín til valda. Þess vegna reyna þær að gera lítið úr þeirri staðreynd, að stjórnarfar í Rússlandi Pútíns siglir hraðbyri í átt til stjórnarfars Sovétríkja Stalíns.

Vesturlandabúar eiga strax að stöðva vestræn lán til Rússlands. Þau eru notuð til þjóðarmorða og annarra glæpa gegn mannkyninu á vegum hins nýja Stalíns.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkur gegn borg

Greinar

Mann fram af manni hafa samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins lagt sig fram um að reyna að draga úr eða fresta gerð samgöngumannvirkja í Reykjavík, einkum mislægra gatnamóta, og standa í ýmiss konar þvargi þessu tengdu við borgarstjórann í Reykjavík.

Á næstsíðasta kjörtímabili mátti telja, að þetta væri bara eitt ruglið enn úr Halldóri Blöndal, sem síðan var settur af sem ráðherra. Því miður hefur komið í ljós, að arftakinn er öllu verri. Sturla Böðvarsson er þegar kominn á fulla ferð í stríð gegn Reykvíkingum.

Ekki er fótur fyrir þeirri fullyrðingu ráðherrans, að borgin sé vanbúin að hefja framkvæmdir með Vegagerðinni á þjóðbrautum í borginni. Þvælan virðist enda hafa þann eina tilgang að hlýja um hjartarætur róttækum andstæðingum Reykjavíkur í kjördæmi ráðherrans.

Smákóngar Sjálfstæðisflokksins í kjördæmum landsbyggðarinnar telja sér margir hverjir hag í að tala illa um Reykjavík og reyna að bregða fæti fyrir hagsmuni borgarinnar. Kjósendur í þessum kjördæmum kunni vel að meta auðsýnda óbeit á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki sést, að þingmenn flokksins í Reykjavík reyni að hafa hemil á róttæklingum á borð við Halldór og Sturlu. Ráðherrarnir Davíð Oddsson, Geir Haarde og Björn Bjarnason láta sér fátt um finnast, enda telja þeir, að kjósendur í Reykjavík muni ekki refsa sér fyrir það.

Vanhugsað væri að telja þetta réttu leiðina að hjarta borgarbúa. Kjósendur eru að vísu lítilsigldir, en áhættusamt hlýtur þó að vera að reyna að kúga Reykvíkinga til fylgilags við flokk, sem hvað eftir annað er staðinn að róttækri andstöðu við hagsmuni borgarinnar.

Töluvert er um það utan höfuðborgarsvæðisins, jafnvel á Suðurnesjum, þar sem menn ættu að vita betur, að öfundazt sé í garð borgarinnar og borgarbúa. Til dæmis hefur Hjálmar Árnason þingmaður varið Fljótsdalsvirkjun með skítkasti í fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Við því er að búast, að skillitlir stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum gæli við róttæklinga í röðum óbeitarmanna höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar eru það hagsmunir stórra stjórnmálaflokka, að slíkar sálnaveiðar í gruggugu vatni valdi flokknum ekki beinum skaða.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í fúlustu alvöru að láta menn á borð við umrædda samgönguráðherra taka flokkinn í gíslingu sem baráttutæki gegn hagsmunum höfuðborgarsvæðisins, er hugsanlegt, að kjósendur manni sig upp í að taka afstöðu gegn óvildarflokki sínum.

Kjósendur kunna fyrr eða síðar að átta sig á, að atkvæði greitt Davíð, Geir og Birni í Reykjavík nýtast til að koma róttæklingum á borð við Halldór og Sturlu fyrst á þing og síðan í ráðherrastóla, er þeir nota til að nudda sér utan í þá, sem öfunda suðvesturhornið.

Stórir stjórnmálaflokkar eru dæmdir til að reyna að sigla milli skers og báru í viðkvæmum málum eins og þeirri tilfinningu sumra íbúa landsbyggðarinnar, að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi ylinn af kjötkötlunum, og taka af festu á öfundinni, sem oft fylgir þessu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur vikizt undan að hemja róttæklingana og fyrir bragðið lent í þeirri gíslingu, sem hér hefur verið rakin og sem ætti að öllu eðlilegu að leiða til þess, að kjósendur í væntanlegum þremur höfuðborgarkjördæmum hafni forsjá flokksins.

Það getur ekki endalaust verið ókeypis, að óvandaðir samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins hagi sér eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins séu óvinaþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV

Molar hrjóta ekki af borðum

Greinar

Ekkert af stórauknum þjóðartekjum Bandaríkjamanna í fyrra skilaði sér til launafólks, sem sætti örlítilli tekjurýrnun upp á 1%. Þetta sýnir misbrest á hagfræðikenningunni um, að molar af borðum hinna ríku hrjóti niður á gólf til hinna fátæku.

Ekkert sjálfvirkt samband þarf að vera milli velmegunar atvinnulífsins og lífskjara launafólks og enn síður milli almennrar velmegunar og lífskjara þeirra, sem minnst mega sín. Þetta samband er að nokkru leyti handvirkt og ræðst af pólitískum sjónarmiðum.

Eins og í Bandaríkjunum hefur bilið milli ríkra og fátækra aukizt hér á landi. Það kemur fram í ýmsum myndum, svo sem aukinni ásókn í aðstoð félagsmálastofnana, auknum kvörtunum frá samtökum aldraðra og í nýrri skýrslu Rauða krossins um fátækt á Íslandi.

Umfang vandans er hins vegar hlutfallslega minna hér á landi en í mörgum öðrum löndum, að Norðurlöndum frátöldum. Ekki er dýrt fyrir þjóðfélagið að beita handvirkum aðferðum til að gæta þess, að bilið milli ríkra og fátækra minnki frekar en að það aukist.

Afnám tekjutengingar bóta almannatrygginga er pólitískt handafl, sem mundi bæta stöðuna, ef ráðamenn landsins kærðu sig um. Hækkun bóta almannatrygginga til jafns við útreiknaðar meðalkjarabætur launafólks er líka pólitískt handafl, sem mundi halda óbreyttu bili.

Sérstakar ráðstafanir í þágu þeirra, sem hafa lítinn eða engan lífeyrissjóð og þurfa að lifa á ellilífeyri, eru handvirk aðgerð, sem hefur þann kost, að hún er ekki til langframa, af því að sífellt fjölgar þeim, sem njóta lífeyrissjóða, og greiðslur sjóðanna batna stöðugt.

Stöðu barna hjá einstæðum mæðrum og í fjölmennum fjölskyldum láglaunafólks má bæta með því að auka barnabætur og afnema tekjutengingu þeirra. Slíkar aðgerðir eru enn eitt pólitíska handaflið, sem mundi efla velferðarkerfið, ef ráðamenn landsins kærðu sig um.

Kjarni málsins er, að ekki er sjálfvirkt samband milli góðæris í þjóðfélaginu og velferðar þeirra, sem minnst mega sín. Kenningin um, að brauðmolum rigni yfir fátæklingana eins og endurnar á Tjörninni, hefur verið hrakin af hagtölum hér á landi sem og erlendis.

Velferðin er handvirk ákvörðun pólitískra stjórnvalda. Þau geta að vísu ákveðið að koma upp sjálfvirkni á einstökum sviðum, svo sem í tengingu bóta við breytingar á ýmsum hagtölum, en önnur stjórnvöld geta síðar komið til skjalanna og breytt tengingunum.

Ef forsætisráðherra fer í fýlu út af skýrslu Rauða krossins um fátækt á Íslandi, þýðir það í raun, að hann hefur ákveðið, að ríkisstjórn hans skuli ekki hafa áhuga á að beita pólitískum aðferðum við að halda óbreyttu bili milli ríkra og fátækra, hvað þá að minnka bilið.

Ekki gildir lengur gömul klisja hátíðlegra stunda, að íslenzkt þjóðfélag sé stéttlaust. Þjóðin er að skiptast í lög eftir aðstöðu, tekjum og eignum. Bilið milli fólks er að breikka á öllum þessum sviðum. Það er pólitísk ákvörðun, hvort hamla eigi gegn þessu eða ekki.

Hér er ekki verið að tefla um mikla fjármuni í samanburði við annað pólitískt handafl stjórnmálanna, svo sem gríðarlegan áhuga ráðherra og þingmanna á að verja nokkrum milljörðum króna á hverju ári til að grafa jarðgöng víða um land og halda uppi kindum.

Í samræmi við áhugamál okkar höfum við valið okkur landsfeður, sem hafa ákveðið, að í lagi sé, að bilið milli ríkra og fátækra breikki sjálfvirkt í góðærinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Herkostnaður við þétta byggð

Greinar

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þolgæði samtakanna Betri byggðar við þróun ráðagerða um 20.000 manna byggð á Reykjavíkurflugvelli og 20.000 manna byggð úti í sjó við Akurey og Engey. Viðvörunarbjöllur hringja, þegar borgarapparatið sjálft er farið að taka þátt.

Við höfum slæma reynslu af skipulagsskrifstofu borgarinnar og getuleysi pólitískra fulltrúa til að hafa stjórn á henni. Einna alvarlegast hefur verið vanmat borgarapparatsins á þörf helztu umferðaræða borgarinnar fyrir gott svigrúm og mislæg gatnamót.

Svo illa var þrengt að Miklubraut og Vesturlandsvegi, að reisa varð flóknar og dýrar götuljósabrýr við Höfðabakka og Skeiðarárvog í stað þess að geta komið þar fyrir einfaldari og ódýrari brúm með fullkomnum vegaslaufum til að tryggja viðstöðulausa umferð.

Enn vitlausari var sú ákvörðun að hætta við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðin stefnir í öngþveiti, auk þess sem mengun eykst mjög við að stöðva þarf bíla við umferðarljós, hafa þá þar í hægagangi og koma þeim á ferð aftur.

Ljóst má vera, að ekki verður reist 40.000 manna byggð vestan Snorrabrautar og Öskjuhlíðar án þess að margfalda álagið á Miklubraut, er einnig þarf að mæta þeirri aukningu, sem reynslan sýnir, að verður af öðrum ástæðum. Þessi mikla byggð er ávísun á martröð.

Dæmið gengur ekki upp nema fjórar akreinar verði í hvora átt á Miklubraut og öll gatnamót hennar verði mislæg. Og komið verði upp Fossvogsbraut fyrir vallarbyggðina fyrirhuguðu og endurbætt Sæbraut fyrir eyjabyggðina, hvor um sig með mislægum gatnamótum.

Tvöföldun íbúa Reykjavíkur vestan Elliðaáa kollvarpar fyrra mati á innviðum stofnlagna, allt frá götum yfir í vatnsæðar og skolpleiðslur. Kostnað við breytta innviði stofnkerfa samgangna og annarrar þjónustu þarf að taka með í reikningsdæmi 40.000 manna byggðar.

Óvíst er, að borgarbúar kæri sig um mikla Fossvogsbraut og mikla Sæbraut, hvora um sig með mislægum gatnamótum, ofan á núverandi þörf fyrir mislæg gatnamót við þvergötur Miklubrautar. Slíkt mundi rýra gildi búsetu í næsta nágrenni þessara gatna.

Ef taka á tillit til hagsmuna núverandi byggðar vestan Elliðaáa og reyna að hafa hemil á hljóð- og sjónmengun, verður ekki séð, að komizt verði hjá að setja umferðarholræsin nýju ofan í stokka eða göng, sem hleypir upp kostnaði við tvöföldun íbúafjöldans á svæðinu.

Menn eru að gamna sér við þéttingu byggðar í þjóðfélagi ásóknar í einbýli við aðstæður nægs landrýmis, hvort sem litið er til svæðisins milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar eða til svæðisins milli Mosfellssveitar og Borgarness. Hver er þessi þörf fyrir þéttingu?

Er ekki ódýrara að grafa göng undir Hellisheiði og bæta Árborg við höfuðborgarsvæðið? Er ekki hægt að beita draumórum um innilokaða byggð að hætti stríðshrjáðra og innimúraðra Evrópuborga einhvers staðar utan við mjótt nes hinnar gömlu Reykjavíkur?

Gott er að taka saman höndum um að losna við flugvöllinn, sem af fjárhagslegum ástæðum á hvergi heima nema á Keflavíkurvelli. En má ekki bara endurheimta óskipulagða Vatnsmýri í stað þess að reisa þar átta hæða byggð, sem er ljótust allra byggða í útlöndum?

Ekki eru nein merki þess, að þjóðin eða borgararnir sækist með vaxandi velmegnun eftir færi á að búa í þéttum röðum átta hæða kastala milli umferðarholræsa.

Jónas Kristjánsson

DV

Hér talar “óvinur bænda”

Greinar

Hagur sauðfjárbænda væri nú annar og betri, ef fyrir nokkrum áratugum hefði verið tekið mark á þeim, sem sögðu, að heppilegast væri að nota ríkisstyrkina til að borga mönnum fyrir að hætta fjárbúskap, svo að hinir, sem eftir sætu, gætu haft þolanlega afkomu.

Fyrir nokkrum áratugum var séð fyrir, að neyzla lambakjöts mundi minnka með auknu fæðuúrvali og lögun íslenzks matarsmekks að erlendum fyrirmyndum. Einnig, að sókn á erlendan markað mundi ekki takast, því íslenzkt kjöt væri ekki samkeppnishæft.

“Óvinir íslenzkra bænda” voru þeir kallaðir, sem spáðu rétt um framvinduna. Kerfið hamaðist um á hæl og hnakka á kostnað skattgreiðenda og neytenda, en allt kom fyrir ekki. Tugum milljarða var sóað til einskis og fátækir sauðfjárbændur urðu sífellt fátækari.

Þessu ferli er ekki lokið. Þjóðin mun verða enn fráhverfari lambakjöti á næstu árum, enda eru sífellt að bætast við kynslóðir, sem aldar eru á pítsum og pöstum. Reikna má með, að neyzla lamba- og kindakjöts fari niður fyrir 15 kíló á mann á ári á allra næstu árum.

Kominn er tími til, að menn viðurkenni þessa staðreynd og hagi sér samkvæmt því. Enn fremur er kominn tími til, að menn viðurkenni, að mistekizt hefur hver tilraunin á fætur annarri til að sækja fram með þessa vöru í útlöndum, allt fram á þennan dag.

Samt er rúm fyrir sauðfjárrækt hér á landi í framtíðinni, helmingi minni framleiðslu en hún er í dag. Til þess að ekki fari allir sauðfjárbændur á höfuðið í einum pakka er brýnt að færa allan stuðning við greinina í farveg uppkaupa ríkisins á framleiðslurétti.

Slík greiðsla fyrir að hætta verður að vera háð því skilyrði, að sauðfjárbóndinn færi sig ekki yfir í aðra búvöru, sem einnig er að meira eða minna leyti á framfæri ríkisins. Stuðningurinn verður á endanum að koma að fullu fram í samdrætti í búvöruframleiðslu.

Líklega mun markaðsjafnvægi nást með um 500 sérhæfðum sauðfjárbændum. Því færri, sem þeir verða, þeim mun betri verður afkoma þeirra. Þetta er bara markaðslögmál, sem landbúnaðarkerfið hefur lengi hunzað og þar með skaðað skjólstæðinga sína.

Markaðurinn þolir því meiri sauðfjárrækt, sem hún verður fjölbreyttari. Rúm er fyrir framleiðslu lífræns lambakjöts í samræmi við fjölþjóðlega staðla. Áhugi neytenda á slíkri búvöru vex hratt með hverju árinu. En bændakerfið hefur haft horn í síðu slíkra staðla.

Í staðinn hefur kerfið reynt að búa til nýja skilgreiningu, sem kosti bændur minna, til dæmis svokallaða vistvæna framleiðslu, sem því miður nýtur hvorki fjölþjóðlegra staðla né annarrar viðurkenningar markaðarins. Slík hliðarspor hamla gegn lífrænni ræktun.

Einnig er rúm fyrir sölu lambakjöts undir vottuðum vörumerkjum tilgreindra staða eins og í frönsku rauðvíni. Vinna má sérmarkaði fyrir lambakjöt, sem ræktað er á sérstöku landssvæði við sérstakar beitaraðstæður, til dæmis Laufskálaheiðarlömb eða Svalbarðslömb.

Svigrúm til framleiðslu lambakjöts er til, en það er takmarkað, eins og svonefndir “óvinir bænda” sögðu fyrir nokkrum áratugum. Menn verða að laga sig að þessum raunveruleika og haga stefnunni þannig, að bændur verði fáir, en hafi sómasamlega afkomu.

Einnig er orðið tímabært að gera helztu “óvini bænda” að heiðursfélögum í samtökum bænda fyrir að hafa aldrei vikizt undan að segja bændum sannleikann.

Jónas Kristjánsson

DV

Gróðafíkn í grasrótinni

Greinar

Sala almennings á heimild til nota á sjúkraskrám sínum í gagnagrunn deCode hefur ekkert með siðalögmál að gera. Þetta er bara tilraun til að láta markaðslögmál nútímans gilda í þágu fleiri en þeirra, sem hafa þægilega aðstöðu hafa til að græða mikla peninga.

Samkvæmt markaðslögmálunum hljóta að felast verðmæti í rétti fólks til að banna innsetningu skjala um sig. Hver einstaklingur fyrir sig hefur einokun á sínum þætti og getur reynt að gera sér mat úr því. Ef allir notuðu slíkan rétt, yrði enginn gagnagrunnur.

Ekki þýðir hins vegar fyrir hvern fyrir sig að skreppa inn í deCode og reyna að selja aðganginn að sínum gögnum. Það þýðir örugglega ekki heldur fyrir 5.000 manns að láta gera það fyrir sig sameiginlega. En tvær grímur kynnu að renna á menn, ef þeir væru 20.000.

Bandaríkjamenn eru sérfræðingar í að láta alla vinna fyrir einn og einn fyrir alla. Frægust hafa orðið prófmálin, sem rekin hafa verið fyrir hönd tugþúsunda manna gegn tóbaksframleiðendum og ýmsum öðrum, sem framleiða skaðlega vöru undir fölsku flaggi.

Fólk virðist ekki þurfa að taka neina áhættu með því að taka þátt í aðgerðinni. Engin fjárútlát eru boðuð. Menn þurfa bara að undirrita beiðni um úrsögn úr gagnagrunninum og umboð handa lögmönnum til að gera sem mest úr hugsanlegum verðmætum.

Eins og í Bandaríkjunum taka lögmenn prósentu af því sem kann að innheimtast, en vinna að öðrum kosti ókeypis. Þessi aðferð er vinsæl í Bandaríkjunum eins og dæmin sanna, en fróðlegt verður að sjá, hvort menn kveikja á þessu á sama hátt hér á landi.

Ef deCode stendur andspænis því að missa 20.000 manns úr grunninum af hugmyndafræðilegum ástæðum og aðra 20.000 af peningalegum ástæðum, munu ráðamenn fyrirtækisins fara að byrja að reikna kosti og galla þess að semja við umboðsmenn hópsins.

Til að byrja með mun deCode neita öllum samningum og saka umboðsmennina ýmist um öfund eða illgirni, eins og forstjórinn hefur raunar þegar gert. Áfram munu ráðamenn deCode stinga við fótum, þangað til kemur að einhverjum töfrafjölda, sem fær þá til umþóttunar.

Eftir er að sjá, að Íslendingar líkist Bandaríkjamönnum og taki sig saman tugþúsundum saman um að búa til stórt sameiginlegt verðgildi úr mörgum smáum. Fyrri reynsla af samstöðu manna í hagsmunamálum bendir ekki til, að ástæða sé til að vænta mikilla afreka.

Nytsamlegt er samt, að málið sé prófað. Við lifum í þjóðfélagi, þar sem hinir auðugu og voldugu nota markaðslögmálin hiklaust til að bæta stöðu sína á kostnað hinna. Það er engan veginn siðlaust, að smælingjarnir geri sameiginlega tilraun til slíks hins sama.

Þótt illa hafi gengið að fá menn til samstöðu til aðgerða gegn bensínhækkunum, verður að hafa í huga, að fjárhagslegur ávinningur hvers og eins var ekki áþreifanlegur. Dæmi er hins vegar um, að menn hafi tekið við sér, ef væntanlegur gróði þeirra sjálfra var augljós.

Mikil þátttaka í kennitölubraski vegna útboða á hlutafé í bönkum bendir til, að margir Íslendingar séu tilbúnir að hafa örlítið fyrir því að ná sér í aukapening fyrir ekki neitt. Munurinn var þó sá, að þá gat sérhver framkvæmt verkið án samstarfs við aðra í stórum hópi.

Ef nógu öflugur hópur myndast um þetta mál, hefur fengizt staðfesting á, að markaðslögmál gildi að fullu hér á landi. Gróðafíknin sé komin í grasrótina sjálfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Decaux yfirborgarstjóri

Greinar

Reykjavíkurborg hefur gert dularfullan samning við danska fyrirtækið Decaux um auglýsingar á biðskýlum og skiltum. Samningurinn minnkar þjónustu við borgarbúa, rýrir umferðaröryggi, eykur lagna- og orkukostnað borgarinnar og skerðir beinlínis fullveldi hennar.

Nýju og glæru biðskýlin koma í stað rauðu verðlaunaskýlanna, sem voru falleg og vindheld í senn. Þau nýju eru ekki vindheld vegna breiðra raufa við jaðar glersins og veita því minna skjól. Borgin hefur þannig minnkað þjónustu sína við notendur strætisvagnanna.

Í kaupbæti hefur borgin veitt Decaux leyfi til að setja upp 43 frístandandi auglýsingaskilti á eftirtakanlegum stöðum. Staðsetning allra skiltanna fer eftir undanþáguákvæði í svokallaðri skiltareglugerð borgarinnar og fá ekki aðrir en Decaux að njóta slíkrar undanþágu.

Til að bæta gráu ofan á svart, hefur borgin samið um að bera sjálf kostnað við lagnir að skiltunum og borga rafmagnið. Þannig hefur borgin kostnað af skiltunum, en engar tekjur á móti. Þetta samningsatriði mun fara í kennslubækur sem dæmi um fábjánaleg viðskipti.

Auglýsingarnar fjölga slysum, því að margir fipast í akstri við að reyna að lesa textann eða skoða myndirnar. Ekkert fær borgin í staðinn fyrir skert umferðaröryggi, svo að þetta atriði eitt var næg ástæða til að gera ekki skiltasamninginn við danska fyrirtækið Decaux.

Raunar hefur borgin neitað öðrum um að setja upp skilti á þessum stöðum, beinlínis vegna neikvæðra áhrifa slíkra skilta á umferðaröryggi. Svör borgarinnar við slíkum beiðnum fela beinlínis í sér yfirlýsingu um, að samningurinn við Decaux ógni öryggi fólks.

Ofan á allt þetta klúður virðist fullveldi borgarinnar hafa verið skert. Samkvæmt honum hefur Decaux frumkvæði að vali staða fyrir skiltin, en nefndir á vegum borgarinnar geta gert rökstuddar athugasemdir við staðarvalið. Borgin þarf að þrúkka við fyrirtækið.

Decaux kaus að setja skiltin niður á þeim stöðum, sem mest bar á, þar á meðal fyrir framan stjórnarráðið og skrifstofu forseta lýðveldisins. Borginni tókst að fá þessi tvö skilti færð yfir götuna, en önnur skilti eru á þeim stöðum, sem danska fyrirtækið hefur ákveðið.

Ráðamenn fyrirtækja og stofnana, sem lenda í skugga skiltanna, hafa kvartað, enda var ekkert samráð haft við þá. Þeir segja, að skiltin skyggi á útstillingarglugga og valdi þrengslum á gangstéttum framan við verzlanir sínar. Borgin svarar slíkum kvörtunum ekki.

Ráðmenn borgarinnar hafa sýnt furðulegan skort á dómgreind í viðskiptum sínum við Decaux. Þeir hafa óhreinkað og vanhelgað eftirtektarverðustu staði borgarinnar með auglýsingum án þess að fá neitt fyrir borgina og borgarana í staðinn, nema aukinn kostnað.

Með samningnum við Decaux hafa ráðamenn borgarinnar orðið að athlægi, skapað sér óvild margra og gefið stjórnarandstöðunni kjörið tækifæri til að hossa sér á dómgreindarleysi meirihlutans. Samningurinn er svo fúll, að annarleg sjónarmið hljóta að hafa ráðið.

Málið er eins ófarsælt og slík mál geta orðið. Skiltin skera í augu um alla borg, upplýst á kostnað almennings allar götur til næstu kosninga, þegar meirihlutanum verður velt upp úr vitleysunni og hann spurður um baksamninga, sem hljóta að vera orsök ógæfunnar.

Skiltin eru lýsandi dæmi um, að ráðamenn Reykjavíkurlistans hafa tapað áttum og eru með sama framhaldi dæmdir til að tapa borginni í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þorsteinn og þjóðnýtingin

Greinar

Hagfræðikennari við háskólann hefur óbeint varpað fram þeirri spurningu í blaðagrein, hvort Þorsteinn Vilhelmsson í Samherja hafi tapað tveimur milljörðum króna á því að selja rúmlega fimmtung fyrirtækisins fyrir þrjá milljarða króna en ekki fimm milljarða.

Samkvæmt sölunni verðleggja Þorsteinn og Kaupþing, kaupandi bréfanna, fyrirtækið og veiðiheimildir þess á fjórtán milljarða króna. Hagfræðikennarinn hefur hins vegar reiknað út, að verðmæti veiðiheimildanna einna sé tuttugu til tæplega þrjátíu milljarðar króna.

Ef miðað væri við verð á markaði, væri verðgildi heimildanna tæplega fjörutíu milljarðar króna. Reiknimeistarinn telur slíkt jaðarverð hins vegar ekki raunhæft og lækkar verðgildið um nærri helming, en fær samt út misræmi milli þess og sölu bréfa Þorsteins.

Af þessu ályktar greinarhöfundurinn Þórólfur Matthíasson, að kaupverðið endurspegli það álit hlutafjármarkaðarins, að senn verði farið að taka gjald fyrir not af auðlindum sjávar. Þorsteinn og Kaupþing hafi verið sammála um, að miða verð hlutabréfanna við það.

Markaðurinn hefur gnægð tækifæra til að átta sig á, að blómaskeið gjafakvótans í sjávarútvegi mun fyrr eða síðar hníga til viðar, þrátt fyrir harðskeyttan stuðning beggja flokka ríkisstjórnarinnar. Svo mörg vötn falla í farveg endurskoðunar, að viðnámið mun bila.

Í fyrsta lagi er meirihluti þjóðarinnar andvígur gjafakvótanum samkvæmt hverri könnuninni á fætur annarri. Í öðru lagi eru héraðsdómar og dómar í Hæstarétti farnir að falla á þann veg, að gjafakvótakerfi ríkisstjórnarinnar standist ekki stjórnarskrána.

Í þriðja lagi hafa tillögur um annars konar stjórn fiskveiða orðið slípaðri og girnilegri. Pétur Blöndal alþingismaður hefur lagt til, að öllum veiðiheimildum verði dreift til allra landsmanna og áhugahópur þekktra borgara hefur lagt fram tillögur um uppboð heimilda.

Tillögur hópsins eru nánast samhljóða tillögum, sem oft hafa verið viðraðar í leiðurum þessa blaðs. Þær gera ráð fyrir, að núverandi aflaheimildir rýrni um 20% á ári og mismunurinn boðinn út á opnum markaði. Þannig verði uppboðskerfi til í áföngum á fimm árum.

Þessi tillaga kemur heim og saman við mat Þorsteins Vilhelmssonar og Kaupþings á raunverulegu verðgildi núverandi veiðiheimilda. Aðlögunartíminn gæti auðvitað verið styttri eða lengri. Í tillögu Péturs Blöndal er gert ráð fyrir 20 árum eða 5% aðlögun á hverju ári.

Munurinn á tillögu Péturs og áhugahópsins felst aðallega í, að Pétur vill, að afgjald auðlindarinnar renni beint til almennings, en hópurinn vill, að það renni til ríkissjóðs, hugsanlega til að draga úr annarri skattlagningu hins opinbera eða til að lækka skuldir þess.

Tillögurnar fela ekki í sér neinar breytingar, sem draga úr núverandi kostum kvótakerfisins í varðveizlu og viðgangi fiskistofna og í leit sjávarútvegsins að eins mikilli hagkvæmni í rekstri og kostur er á. Allt tal bananakónga um heimsendatillögur er hreint bull.

Nánast má líta á það sem kaldhæðni óumflýjanlegra örlaga, að nánast samtímis leggur hópur þekktra borgara fram tillögu um þjóðnýtingu auðlindarinnar á fimm árum og einn helzti kvótakóngur landsins semur við hlutabréfafyrirtæki um verð, sem endurspeglar þetta.

Hvort þetta gerist hratt eða hægt fer eftir því, hvort Hæstiréttur staðfestir Vatneyrardóminn í ár eins og hann staðfesti Valdimarsdóminn í fyrra.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræði bananalýðveldis

Greinar

Lýðræði felst ekki í því einu að fá að endurkjósa fjórflokkinn á fjögurra ára fresti, þótt margir haldi, að hér eigi milli kosninga að ríkja eins konar ráðherraveldi, þar sem samkór meirihluta alþingismanna staðfesti allar gerðir ríkisstjórnar og einstakra ráðherra.

Kosningaréttur er bara einn þáttur af miklu reipi lýðræðis, eins og það var skilgreint í bandarísku og frönsku byltingunum fyrir rúmlega tveim öldum og er enn skilgreint af vestrænum ríkjum og samtökum þeirra. Einn er þessi þáttur lítils virði og framleiðir ekki lýðræði.

Réttlæti er annar þáttur lýðræðisins. Það felst í vel skilgreindum leikreglum, sem ná til allra borgara, einkum í stjórnarskrá og lögum. Þessi þáttur hefur styrkzt hér á landi, fyrst vegna styttingar biðlista fyrir dómstólum og síðan vegna afskipta evrópskra dómstóla.

Íslenzkir dómstólar og jafnvel Hæstiréttur eru farnir að dæma með hliðsjón af viðhorfum dómstóla í Strasborg og Bruxelles. Þetta sparar fólki í mörgum tilvikum fé og tíma og gerir fleirum kleift að njóta þess réttlætis, sem erlend réttlætiskennd hefur fært okkur.

Erlend afskipti af íslenzkum dómum hafa líka eflt þriðja þátt lýðræðisins, sem er afnám forréttinda á borð við kvóta, einkaleyfi og sértækar aðgerðir stjórnvalda. Íslenzkir dómstólar og jafnvel Hæstiréttur þora ekki annað en að dæma með hliðsjón af útlendum siðum.

Dómar í kvótamálum eru frægasta dæmið um upplausn þeirra forréttinda, sem kjörnir fulltrúar og ríkisstjórn deila til þeirra, sem eru í náðinni. Einkaleyfi á rekstri gagnagrunns er hins vegar dæmi um mál, þar sem menn verða áfram að sækja réttlæti úr suðri.

Ef frá er skilinn ótti íslenzkra dómstóla við æðri dómstóla í útlöndum er afar veikur sá hlekkur lýðræðis hér á landi, sem lýtur að afnámi forréttinda. Ráðherrar og atkvæðavélar þeirra á þingi telja enn, að stjórna beri með sértækum aðgerðum, kvótum og einkaleyfum.

Fjórði þáttur lýðræðis er skoðanafrelsið, sem hér er í góðu lagi. Allir tjá hug sinn og hafa aðgang að hugsunum annarra. Fjölmiðlar eru nógu margir til að gefa fjölbreytta mynd af lífinu og tilverunni. Ný tækni tölvusamskipta virðist munu efla þennan þátt enn frekar.

Fimmti þáttur lýðræðisins er jöfnuður borgaranna, en deilt er um, hversu langt hann eigi að ganga. Annars vegar fara þeir, sem telja velferð eiga að vera sem mesta og hins vegar þeir, sem telja velferð líðandi stundar verða að víkja fyrir aukinni arðsemi atvinnulífsins.

Íslenzka velferðarríkið er í sæmilega góðu jafnvægi milli þessara tveggja túlkana á því, hver eigi að vera jöfnuður borgaranna. Í erlendum samanburði má þó fullyrða, að Ísland skipar sér í þann kant vestrænna ríkja, sem mesta áherzlu leggja á velferðarríkið.

Þannig er íslenzkt lýðræði ofið úr fleiri þáttum en kosningarétti, sumum sterkum og öðrum veikum. Vandi okkar felst í, að við höfum almennt ekki tileinkað okkur lýðræðishyggju, heldur höfum við meðtekið kerfið að mestu leyti að utan, sumpart vegna þrýstings.

Þetta veldur því, að of margir þingmenn og ráðherrar telja, að lýðræði felist í, að alvaldir ráðherrar stjórni með tilskipunum, undanþágum, kvótareglum, sértækum aðgerðum, einkaleyfum, stöðuveitingum flokksmanna og ýmsu öðru ofbeldi, sem þingmenn staðfesta síðan.

Þegar forsætisráðherra veitir Hæstarétti föðurleg ráð um, hvernig dæma skuli í kvótamálum, er það ein birtingarmynd ástands, sem kallast bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV