Greinar

Bubbi kóngur í ellilaunastöðu

Greinar

Fyrst man ég eftir Davíð Oddssyni sem borgarstjóra í boði hjá Steingrími Hermannssyni í ráðherrabústaðnum, sennilega fyrir 22 árum. Tilefni hanastélsins er löngu gleymt, en myndin lifir enn. Menn voru tveir og þrír saman á stangli í stofunni, fimm umhverfis Steingrím og tólf kringum Davíð.

Davíð stóð sperrtur og sagði skemmtilegar sögur, hverja á fætur annarri. Menn mændu á sögumann og hlógu óskaplega. Davíð átti partíið eins og hann átti eftir að eiga landið allt. Þarna kom hann fram sem fullgerður og fullreyndur stjórnmálamaður, sem skyggði meira að segja á gestgjafann.

Þar sem allir eru góðir, þegar þeir eru gengnir, verður hér ekki rifjað upp allt það, sem DV hefur haft út á Davíð að setja sem forsætisráðherra síðan 1991. Enda er það svo margt á fjórtán árum, að marga leiðara þarf til að rekja það. Hér verður frekar minnst á það, sem jákvætt er um hann að segja.

Davíð hefur alltaf borið höfuð og herðar yfir stjórnmálamenn samtímans. Hann hefur átt fjölbreytt vopnabúr, allt frá góðlátlegri gamansemi yfir í grimmd eltingaleiks við erfiða einstaklinga. Hann hefur alltaf stjórnað sinni hljómkviðu og kunnað að segja “svona gera menn ekki”, þegar það átti við.

Engum hefur dugað að etja við Davíð, hvorki sem borgarstjóra né sem forsætisráðherra. Það eina, sem hann hefur ekki ráðið við, eru veikindin, sem byrjuðu að hrjá hann fyrir ári. Þau eru örugglega forsenda þess, að hann hefur nú ákveðið að segja skilið við pólitíkina og leita skjóls í Seðlabankanum.

Helzta einkenni Davíðs sem forsætisráðherra er hið sama og flestra annarra slíkra, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur teflt fram. Hann hefur verið sósíaldemókrat eins og hinir. Ekki er hægt að finna hársbreidd milli hans og sænskra krata, sem hafa einkavætt ríkið og magnað velferðarkerfið.

Þetta hefur Davíð gert við erfiðari skilyrði en forverar hans. Á vakt Davíðs hefur frjálshyggjan risið og hnigið og meðal annars sett mark sitt á vinahóp hans. En eigi að síður hefur Ísland fylgt sænskri stefnu á vaktinni, meðal annars magnað fæðingarorlof og liðkað til fyrir hommum og lesbíum.

Davíð varð frægur fyrir Bubba kóng í herranótt Menntaskólans í Reykjavík árið 1969, fyrir 36 árum. Það er stílbrot hans í endataflinu að sætta sig við ellilaunastöðu í Seðlabankanum.

Sex spurningar í borgarmálum

Greinar

Skemmtilegt væri að fá svör við nokkrum spurningum um stjórn borgarinnar. Þetta eru spurningar, sem oft hafa verið settar fram, en enginn reynt að svara, hvorki flokkarnir, sem hafa borið ábyrgð á stjórn Reykjavíkurlistans á borginni í rúman áratug, né Sjálfstæðisflokkurinn, sem vill nú taka við.

Í fyrsta lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvað eigi að gera við báknið, sem Reykjavíkurlistinn hefur framleitt. Þar sem áður var einn starfsmaður, svo sem borgarlögmaður, borgarhagfræðingur og félagsmálastjóri, eru nú komnar heilar stofnanir, hver á sínu sviði. Mannaflinn hefur margfaldazt.

Í öðru lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort halda eigi áfram að reyna að gera leikskóla ókeypis, svo sem borgin lofaði fyrr á þessu ári. Hafa útsvarsgreiðendur efni á þessu og þá hvernig? Engin fjárhagsáætlun var framleidd um þetta og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu.

Í þriðja lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort halda eigi áfram að tosa fólk upp í strætó með því að spilla fyrir akstri einkabíla. Tregða Reykjavíkurlistans við að koma upp mislægum gatnamótum á horni Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar er skólabókardæmi um skaðlega kreddufestu.

Í fjórða lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort halda eigi áfram að ögra íbúum í löngu byggðum hverfum með ráðagerðum um að þétta byggð með því að þrengja að fólki og spilla útsýni þess. Hafa arfaflokkar Reykjavíkurlistans eða Sjálfstæðisflokkurinn marktæka stefnu á þessu sviði?

Í fimmta lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort byggja eigi fjarlæg hverfi um holt og hæðir að bandarískri fyrirmynd eða byggja háhýsi hvert ofan í öðru að baki borgarmúra að evrópskri fyrirmynd. Frambjóðendur tregðast við að gefa skýr svör um helztu forsendu borgarskipulags.

Í sjötta lagi væri gott að fá skiljanleg svör við, hvort arfaflokkar Reykjavíkurlistans eða Sjálfstæðisflokkurinn eru reiðubúnir að leggjast á hugmyndafræðinga borgarskipulags, sem hafa lengi rekið eigin skipulagsstefnu, án þess að kjörnir fulltrúar borgarbúa hafi getað stungið við fótum.

Betra væri að fá svör við slíku í staðinn fyrir ítrekaða þvælu um, hvort menn séu of ungir eða of gamlir, nógu karllegir eða nógu kvenlegir til að vera borgarstjórar.

DV

Óviðurkvæmileg tíðindi af morði

Greinar

Bezti dálkahöfundurinn kvartaði nýlega yfir “langdregnum lýsingum” DV “á morði á Hverfisgötu, dæmigerðum íslenzkum glæp þar sem allir voru fullir og ruglaðir og svo fjölskylduhögum morðingjans”. Þar á Egill Helgason við, að DV upplýsti, að morðinginn væri sonur dæmds morðingja.

“Hvað er maður ekki að fatta”, sagði Egill að lokum. Þetta minnir mig á svipaða niðurstöðu Loga Bergmanns Eiðssonar í bloggi um löngu gleymt mál á heimasíðu blaðamanna, þegar hann sagði: “Hef ég misst af einhverju?” Í báðum tilvikum er um að ræða menn, sem misstu af einhverju, eru ekki að fatta.

Egill lýsir því, sem honum finnst draga úr frásagnargildi morðsins, að málið var dæmigert íslenzkt, allir voru fullir og ruglaðir og að sagt var frá ættartengslum morðingja. Þar talar hann einmitt frá sjónarhóli yfirstéttarmanns, sem les gáfaðar kjallaragreinar í Spectator, en fattar ekki fréttir.

Alvöru fréttaflutningur finnst ekki í kjallaragreinum í Spectator eða Guardian, New York Times eða Washington Post. Þar eru gáfumenn heimsins að ræða heimsins gagn og reyna að sjá á þeim nýja vinkla. Atburðir gerast hins vegar, morð og fellibyljir, ástir idolstjörnu og miðaldra píanóleikara.

Fréttir í fínum blöðum snúast ekki um efni dálkahöfunda eða leiðarahöfunda. Þær lykta af þangi, mold, blóði, svita, tárum. Þannig eru fréttir líka í Guardian og New York Times. Þar er fjallað um alvörumál og ekki skafið utan af hlutunum eins og því miður hefur allt of lengi tíðkazt hér á landi.

Morgunblaðið er fínt fyrir þá, sem eru komnir á virðulegan aldur og farnir að lesa minningargreinar, eina blaðið utan kaþólsku, sem hefur þá sérstöðu. En fjöldinn allur af ungu fólki, sem ég hef hitt, skilur alls ekki texta blaðsins úr kauphöllum og ráðhúsum, stjórnarráði og prestsetrum.

Margir gera sér grein fyrir, að fjölmiðlun getur snúizt um fleira en áhugaefni miðaldra leiðara- og dálkahöfunda, sem heyra að minnsta kosti í tveimur ráðherrum, fimm þingmönnum og tíu embættismönnum á viku. Fyrir utan fílabeinsturninn er heimur fullur af fólki. Fjölmiðlun getur líka snúizt um það.

Agli er velkomið að leiðast langar fréttir af “íslenzku” morði, þar sem allir voru “fullir og ruglaðir”. En svarið við spurningunni er: “Þú ert ekki að fatta lífið í landinu.”

DV

Frétt ársins: Líkið lifir

Greinar

Frétt ársins birtist í Fréttablaðinu í vikunni. Hinn þrautskammaði og örþreytti Reykjavíkurlisti mundi ná meirihluta í borgarstjórnarkosningum, ef þær væru haldnar núna, þótt flokkarnir, sem standa að listanum, mundu kolfalla sjálfir, ef slíkar kosningar væru haldnar núna.

Reykjavíkurlistinn nýtur enn náðar helmings kjósenda, þrátt fyrir mörg og stór mistök á þremur kjörtímabilum; þrátt fyrir augljósan hroka forstjóra, sem hafa verið allt of lengi við völd; þrátt fyrir augljósa þörf lýðræðis fyrir útskiptingu allra valdhafa á fárra kjörtímabila fresti.

Kjósendur í Reykjavík treysta Reykjavíkurlistanum, þótt þeir treysti ekki Samfylkingunni, enn síður Vinstri grænum og alls ekki Framsóknarflokknum eða Frjálslyndum. Þótt búið sé að afskrifa líkið og blása til aðferða við að velja fólk á lista flokkanna, þá lifir líkið enn og ögrar flokkunum.

Margt hefur verið fyrirsjáanlegt í framvindu reykvískra stjórnmála síðustu vikur. Ráðamenn meirihlutans hafa um skeið greinilega verið örmagna í samstarfinu og stefnt beint til sérframboðs. En enginn sá fyrir, að hinn dauði væri sterkari en Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú nálgast völdin.

Mannleg mistök eru hér fyrst og fremst að baki. Forusta Reykjavíkurlistans hefur skort manndóm og úthald. Hún hefur gefizt upp fyrir sefjandi kröfum í röðum flokkanna um styrkleikamælingu í sérframboðum þeirra. Hún hefur gefizt upp á að lægja öldur. Hún er bara ekki nógu hörð af sér.

Ef forustan hefði haft vit á að vinna fyrir mánuði þær skoðanakannanir, sem Fréttablaðið hefur nú unnið, hefðu aðildarflokkar Reykjavíkurlistans horfzt í tæka tíð í augu við staðreynd lífsins: Sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. Þetta spakmæli er nú komið í ljós, of seint.

Engin leið virðist vera til að vinda ofan af því ferli, sem hafið er innan samstarfsflokka Reykjavíkurlistans. Áfram munu þeir marséra til sjálfsmorðs í kosningunum, færandi Sjálfstæðisflokknum borgina á silfurfati. Þetta er raunar skelfilegt dæmi um botnlaust getuleysi stjórnmálamanna.

Líkið verður ekki grafið upp, þótt það lifi. En ferlið allt er dæmi um, hve mikill hæfileikaskortur ríkir hjá því liði, sem valizt hefur til pólitískrar forustu fyrir okkur.

DV

Bloggarar verða steinhissa

Greinar

Mörgum finnst þeir vera heima hjá sér, þegar þeir setjast við tölvuna og rasa út á heima- eða bloggsíðu sinni. Þegar undarlegar skoðanir þeirra og ruddaleg framsetning þeirra vekja athygli úti í bæ, koma þeir af fjöllum og segja þessi skrif vera sitt einkamál, sem komi engum við nema sér.

Sá, sem fer út á veraldarvefinn með óheflaðar skoðanir á mönnum og málefnum, er auðvitað kominn á opinberan stað, þar sem allir geta séð hann. Þótt menn sitji heima hjá sér og bölsótist innan veggja heimilisins, er allt þetta orðið eign heimsins, þegar ýtt hefur verið á takkann “submit”.

Persónuvernd hefur að vísu þá skoðun, að einkaheimur fólks fylgi því eins og blaðra út af heimilinu inn á kaffihús og skemmtistaði, sundstaði og reiðskóla. Sú skoðun styðst hins vegar ekki við neinn raunveruleika á Vesturlöndum og nýtur ekki neins stuðnings í dómvenju dómstóla á Vesturlöndum.

Ef til vill gæti Persónuvernd á fimmta glasi gert sér í hugarlund, að þessi blaðra einkaheimsins fylgdi bloggi og öðru skítkasti út um allan veraldarvefinn. En trauðla finnst ábyrgur aðili í samfélaginu, sem léti sér detta slíkt í hug. Veraldarvefurinn getur aldrei orðið einkamál eins né neins.

Auðvitað er tekið upp í fjölmiðlum, þegar menntaskólakennari bloggar og kallar nemendur í tilgreindum bekk rassálfa, sem hún þurfi að brjóta snyrtilega niður, segir þá vera ólæsa með öllu og svo framvegis. Eða þegar hún segir Barnaland vera uppáhaldsheimasíðu “matsjó” karla í verkamannavinnu.

Auðvitað er líka tekið upp í fjölmiðlum, þegar forstjóri útvarpsins á Suðurlandi bloggar og fer hörðum orðum um persónur og leikendur í fréttum líðandi stundar. Hvorki forstjórinn né menntaskólakennarinn geta komið af fjöllum, þegar ruddaleg ummæli þeirra vekja athygli fjölmiðla.

Að undirlagi Persónuverndar er komið í tízku að segja allt vera einkamál. Fólk er talið vera í einkamálablöðru, þegar það fer af heimilum sínum út á opinbera staði, svo sem skemmtistaði og kaffihús. Stutt er í, að fólk verði talið búa í einkamálablöðru, er það opinberar fordóma í bloggi.

Niðurstaðan verður þó sú, að sérhver verður að gera sér grein fyrir, að birting efnis í ólæstu formi í bloggi á netinu er útgáfa, sem lýtur sömu lögmálum og önnur útgáfa.

DV

Pólitísk rúst Reykjavíkurlistans

Greinar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi framboða í Reykjavík er tímabær. Hún sýnir í hnotskurn erfiðleika arftaka R-listans, þar sem Samfylkingin ein mælist með frambærilegt fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar á góðri siglingu með 54% fylgi meðal borgarbúa og níu fulltrúa af fimmtán.

Framsóknarflokkurinn mælist ekki með teljandi fylgi og engan borgarfulltrúa. Það er auðvitað sanngjarnt miðað við feril flokksins í málum, sem varða borgina. Frá upphafi hefur flokkurinn talið sig gæta hagsmuna dreifbýlis gegn lýðnum á mölinni, einkum gegn ofurvaldi Reykjavíkur í þjóðfélaginu.

Varla er hægt að telja 5% fylgi Framsóknar mælikvarða á störf hans innan R-listans. Í andarslitrum listans var Framsókn eini flokkurinn sem reyndi að bera klæði á vopnin. Útkoman sýnir, að kjósendur hafa ekki verðlaunað flokkinn fyrir jákvæða afstöðu til framhaldslífs Reykjavíkurlistans.

Frjálslyndir mælast með enn minna fylgi, 2%. Þar með ætti að vera fallin eina markverða tilraun flokksins til að hasla sér völl í sveitarstjórnum landsins. Ólafur F. Magnússon aflar ekki flokknum neins fylgis umfram harðasta grunnfylgi hans í skoðanakönnunum á landsvísu. Nema síður sé.

Útkoma vinstri grænna er fremur dauf, þótt könnunin gefi þeim 9% fylgi og einn fulltrúa. Það er ekki gott vegarnesti flokks, sem hefur ítrekað mælst með tveggja stafa tölu í skoðanakönnunum á landsvísu. Kannski eru sumir að refsa vinstri grænum fyrir að sprengja Reykjavíkurlistann.

Það er nýtt mynztur, að Reykjavíkurlistinn sé úr sögunni og allir flokkar bjóði fram út af fyrir sig. Sú kosningabarátta hefst með þessari skoðanakönnun, sem sýnir glæsilegt forskot Sjálfstæðisflokksins og eindreginn meirihluta í borginni. Það þýðir, að baráttan mun snúast um Sjálfstæðisflokkinn.

Gallinn við könnunina er, að rúmur þriðjungur kjósenda tekur ekki afstöðu. Í þeim hópi eru vafalaust þeir fjölmennir, sem voru búnir að gefast upp á R-listanum og eru ekki reiðubúnir að fyrirgefa aðstandendum hans umbúðalaust. Arfaflokkar listans eiga því nokkra möguleika á að sækja þangað fylgi.

Niðurstaðan er, að sviðsljósið hefur færzt af erfingjum hins þreytta Reykjavíkurlista yfir á Sjálfstæðisflokksins, sem hefur lengi verið fjarri ábyrgð á mistökum borgarstjórnar.

DV

Vinnan styttist ekki

Greinar

Þekktasti framtíðarfræðingurinn, Alvin Tofler, spáði árið 1970, að menn mundu hafa svo mikinn tíma aflögu árið 2000, að þeir mundu ekki kunna að nýta hann. Árið 2000 er liðið og vinnutíminn hefur ekki stytzt að ráði. Vinnuvikan er að vísu komin niður í 35 tíma í Frakklandi, en það er sér á parti.

Bandaríkjamenn tala í alvöru um, að Frakkar séu gamaldags og muni af samkeppnisástæðum ekki komast upp með svona stutta vinnuviku. Í Bandaríkjunum er vinnuvikan að lengjast, ekki sízt hjá hátekjufólki, sem hrósar sér af langri vinnu og stuttum svefni. Þetta fólk er Stakkanovitsar nýrrar aldar.

Einu sinni var talað um, að tæknivæðing mundi stytta vinnu, en sú hefur ekki orðið raunin. Meðal annars stafar það af, að samkeppni þriðja heimsins hefur þrýst á samkeppnishæfni fyrirtækja í auðríkjunum. Menn verða að vinna lengur til að koma í veg fyrir, að framleiðsla flytjist til þróunarlanda.

Íslendingar eru meðal þeirra, sem lengst vinna. Hér vinna menn til 67 ára eða 70 ára aldurs. Annars staðar hættir fólk um 65 ára gamalt. Þannig vinna 71% Japana á 60-64 aldri og 57% Bandaríkjamanna. Aðeins 17% Frakka vinna lengur en til sextugs. Að þessu leyti er haf milli okkar og Frakka.

Við höfum líka komið upp uppsöfnunarkerfi ellilífeyris, sem felur í sér, að skattgreiðendur framtíðarinnar þurfa ekki að hafa eins miklar áhyggjur af kostnaði við gamalt fólk og þeir þurfa að hafa í Frakklandi og fleiri Evrópulöndum, þar sem ríkið rekur gegnumstreymiskerfi, frestar vandamálinu.

Einstaklingsbundið er, hvort fólk vill hætta að vinna eða vill halda áfram að vinna. Sumpart er ein tegund vinnu skemmtilegri en önnur og sumpart hafa menn mismunandi gott lag á að láta sér líka vel við vinnu. Eðlilegt virðist vera, að gefa fólki kost á vali um vinnutíma og vinnulok.

Það hlýtur að teljast súrt fyrir marga að geta ekki stytt vinnudaginn og hætt fyrr á vinnumarkaði, þrátt fyrir alla vinnusparandi tækni. Miðað við aukningu landsframleiðslu um áratugi, ætti flestum að duga 20 stunda vinnuvika og vinnuæfi til sextugs til að standa undir lifibrauðinu.

Til hvers hefur öll þessi tækni verið, ef menn geta ekki dregið um helming úr vinnu á miðjum aldri og farið að hanga á kaffihúsum um sextugt? Voru hagtölurnar þá bara plat?

DV

Hálf þjóðin komin á prozak?

Greinar

Hefðbundin blaðamennska var í sæmilegum metum í landinu fyrir hálfum eða heilum áratug. Fáir efuðust um, að lyfta þyrfti hér og þar steinum til að sjá, hvernig pöddur þeyttust fram og til baka. Nú er öldin önnur, hálf þjóðin telur ekki við hæfi, að fjallað sé um svokölluð einkamál.

Það er eins og hálf þjóðin hafi á fáum árum orðið sátt við stöðu sína í tilverunni og hafi engar spurningar um, hvort rétt sé staðið að málum. Svið einkamála hefur verið víkkað út, til dæmis fyrir tilverknað Persónuverndar. Enda eru flestir fjölmiðlar ljúfari en þeir voru fyrir þremur árum.

Efahyggja hefur látið undan síga. Menn taka orð fyrirmanna góð og gild og sumir telja það jafnvel vera landráð að efast um þau. Almennt er talið, að guð gefi þeim hæfileika, sem hann hefur gefið embætti. Endalaus röð hneykslismála fær ekki hnikað velþóknun hálfrar þjóðarinnar á stjórnarháttum.

Hálf þjóðin býr í hugarheimi, þar sem hún tekur gott og gilt, að ráðamenn segi: Treystu mér. Það kemur greinilega fram, að hálf þjóðin trúir fyrirfram, þegar hagsmunaaðilar af ýmsu tagi halda fram, að fjölmiðlar fari með rangt mál. Raunar telur þetta fólk almennt, að fjölmiðlar ljúgi.

Nú er ástandið orðið þannig, að rót kemst á hugi margra, þegar fjölmiðlar grafa upp mál og segja sannleikann. Menn segja ekki beint, að oft megi satt kyrrt liggja, en segja í staðinn, að fjölmiðlar taki of lítið tillit til fólks. Það sem áður þótti fín blaðamennska, er nú kölluð gula pressan.

Eins konar Morgunblaðsværa hefur lagzt yfir þjóðina. Menn lifa og hrærast í fullvissu þess, að hver dagur sé öðrum líkur. Fréttir fjalli að mestu leyti um góðverk stofnana og fyrirtækja. Varla falli nokkur blettur á þetta himnaríki. Á endanum deyi fólk í hafsjó minningargreina um ágæti allra.

Verstir eru álitsgjafarnir, einkum þáttastjórnendur, sem telja sig sennilega vera hluta yfirstéttar, er hefur hag af því almannaáliti, að allt sé í fínu lagi hér á landi og að sóðalegt sé að flytja sannar fréttir af öðru tagi. Svo sterk afneitun staðreynda hefði verið óhugsandi fyrir fjórum árum.

Mér finnst ég koma inn í nýtt þjóðfélag, afturhaldssamara og kreddufastara en það var fyrir fjórum árum. Einkum er það þó leiðinlegra. Kannski er hálf þjóðin bara komin á prozak.

DV

Næst er það stríð við Íran

Greinar

Bandaríkjastjórn er að undirbúa stríð við Íran. Forsendurnar eru tvær. Í fyrsta lagi var Íran á sínum tíma efst á lista George W. Bush Bandaríkjanna yfir öxul hins illa í heiminum. Í öðru lagi hefur komið í ljós, að Íran hefur leikið tveimur skjöldum í kjarnorkumálum og verður um síðir kjarnorkuveldi.

Raunveruleg ástæða fyrir stríði við Íran er hins vegar sú, að vegur forsetans og flokks repúblikana fer ört lækkandi í Bandaríkjunum. Spunameistarar flokksins telja, að fátt geti hindrað ósigur í næstu þingkosningum eftir rúmt ár annað en sigursæl árás, sem þjappi Bandaríkjamönnum um leiðtoga sinn.

Auðvitað er vont, að Íran verði kjarnorkuveldi. Það var vont, að Ísrael varð kjarnorkuveldi, en Bandaríkin hafa ekki sýnt miklar áhyggjur af því. Það var vont, að bæði Indland og Pakistan urðu kjarnorkuveldi, en Bandaríkin hafa samt látið það yfir sig ganga. Þau gera sér greinilega mannamun.

Stríðið við Írak er orðið gamalt og óvinsælt. Það er ekki lengur nothæft kosningamál. Nýtt stríð við Íran verður ekki orðið gamalt og óvinsælt í næstu kosningum. Það verður passlega nýtt til að fleyta meirihluta repúblikana á þing fram til næstu forsetakosninga, sem verða eftir rúm þrjú ár.

Bandaríkin geta farið í stríð við Íran, þótt mikið af hernum sé enn upptekið við hernám Íraks. Einkum er flugherinn laus við Írak og getur í einni árás tekið fyrir 5000 skotmörk í Íran. Sérfræðingar stríðsráðuneytisins telja, að ekki verði erfitt að eyðileggja olíulindir og kjarnorkuver Írans.

Sennilega mun árásin á Íran ekki miða að hernámi landsins, því að það verður stærri biti en Írak. Hún mun stefna að því að eyðileggja olíulindir og ýmsa innviði landsins og spilla kjarnorkurannsóknum. Hún mun einnig reyna að æsa upp minnihlutahópa Azera og Kúrda, sem búa innan landamæranna.

Menn vita samt um neikvæð hliðaráhrif. Þeir hafa reynsluna frá Írak, sem er ekki eins fjölmennt ríki og alls ekki með eins sterka innviði og Íran. Menn vita, að stríðið mun framleiða hryðjuverkamenn og rýra öryggi Vesturlanda. Sjítar um allan heim verða harðari óvinir. Olía mun hækka í verði.

Eins og venjulega munu Bretar verða aukahjól stríðsvagnsins og að þessu sinni verður öll Evrópa andvíg. En Bandaríkin nærast á stríði og munu ekki taka mark á andstöðu heimsins.

DV

Nógu margir eru nógu leiðir

Greinar

Gefum okkur, að Framsókn fái einn borgarfulltrúa í kosningum næsta vors. Skoðanakannanir efast um það. En hugsum okkur alla þá, sem Framsókn hefur gefið embætti hjá ríkinu. Þeir væru vanþakklátir, ef þeir mæta ekki á kjörstað og tryggja holdgervingi bananalýðveldisins einn borgarfulltrúa.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær tæplega 50% atkvæða, svipað og skoðanakannanir segja um þessar mundir, þarf hann að semja við eina fulltrúa Framsóknarflokksins um meirihluta í borginni. Teljið þið ekki líklegt, að Framsókn vilji sama mynztrið og hefur gefið henni svo margt feitt hjá ríkinu?

Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokknum tekst ekki að semja um stjórn borgarinnar á Sjálfstæðisflokkurinn líklega kost á að semja við Frjálslynda flokkinn, sem verður þá aftur búinn að ná inn Ólafi F. Magnússyni, er einu sinni var í Sjálfstæðisflokknum og vill aftur komast í hlýjuna.

Allar líkur benda til, að Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki hreinum meirihluta, en hafi tvo möguleika á samstarfi, þar sem hann er yfirgnæfandi sterki aðilinn. Þar með verður Vilhjálmur eða Gísli Marteinn borgarstjóri eða einhver annar galdrakarl, sem flokkurinn telur munu gefa þessa niðurstöðu.

Þetta er ástæðan fyrir því, að hrun Reykjavíkurlistans mun færa Sjálfstæðisflokknum Reykjavík á silfurfati. Við því var ekkert að gera, listinn hafði staðið sig svo illa, að engin leið var að halda uppi stemmningu fyrir honum. Það var gustukaverk hjá Vinstri grænum að veita honum náðarhöggið.

Úti í kuldanum verða Vinstri grænir og Samfylkingin og sá þriðji aðili, sem nær ekki samkomulagi við Sjálfstæðisflokk. Það var alltaf sérkennilegt að hafa Framsókn innanborðs í Reykjavíkurlistanum. Það hélzt svo einkum fyrir harðfylgi Alfreðs Þorsteinssonar, sem tók ekki mark á flokkseigendum.

Þótt Samfylkingin og Vinstri grænir verði úti í kuldanum á næsta kjörtímabili í Reykjavík, eiga þessir flokkar nokkra möguleika á að ná meirihluta í landstjórninni ári síðar. Það stafar af sömu ástæðunni og tapið í borginni. Menn verða orðnir jafnleiðir á ríkisstjórnnni og borgarmeirihlutanum.

Í stórum dráttum gildir sami vandinn um ríkisstjórnina og um Reykjavíkurlistann. Hvor tveggja er búinn að vera of lengi við völd. Eðli lýðræðis er að skipta út seint og um síðir.

DV

Sagan um bananalýðveldið

Greinar

Ég hef alltaf talið Ísland til bananalýðvelda. Allt frá því að ég uppgötvaði fyrir fjórum áratugum, að ég þyrfti að vera á vegum stjórnmálaflokks til að fá húsnæðislán. Ég neitaði og sagði húsnæðismálastjórn að hún væri bananalýðveldi. Mér skildist, að ég væri fyrsti maðurinn sem hafnaði kerfinu.

Þegar útlendingar hafa spurt mig um orðið, hef ég alltaf komið af fjöllum, svo vanur er ég orðinn bananalýðveldinu. Kannski hef ég komið óorði á þjóðfélagið, þegar ég svara því til, að Ísland sé og hafi verið bananalýðveldi eins lengi og minni mitt nái. Það sé engan veginn normal vestrænt ríki.

Rétt er að taka strax fram, að Ísland var þá ekki og er nú ekki fullkomið bananalýðveldi. Ýmsir þættir í rekstri ríkisvaldsins eru ekki bananalýðveldi. Sumir ráðherrar, þingmenn, embættismenn, dómarar og löggur eru ekki aðilar að bananalýðveldinu. En hinir eru býsna margir og áhrifamiklir.

Davíð Oddsson er kóngur bananalýðveldisins. Hann húðskammaði Hæstarétt í Vatnseyrarmálinu og öryrkjamálinu. Hann skammaði Umboðsmann alþingis í símtali. Hann lét skipa frænda sinn og nánasta vin í Hæstarétt. Hann lét skipa aumingja sem fréttastjóra útvarpsins. Hann lét gefa sér eftirlaunalög.

Dæmin eru óendanleg. Þau snúast ekki endilega um, að ráðamenn gefi fyrirskipanir. Þeir eru gefnari fyrir að haga sér á ógnandi hátt, svo að undirsátar fari að skjálfa. Halldór Ásgrímsson hefur tekið þetta upp eftir Davíð. Þeir hafa búið til kerfi, þar sem undirsátar titra af skelfingu.

Davíð og Halldór og allir aðrir bavíanar bananalýðveldisins þurfa ekki að skipa fyrir. Undirsátarnir hoppa kringum þá og reyna að túlka látbragð þeirra og spá í skoðanir þeirra. Þetta gildir ekki bara um undirsátana, heldur alla þá, sem telja sig geta haft gott af góðri umgengni við kóngana.

Davíð hatar suma, heitt og innilega. Hann var einkum ósáttur við, að einkavæðing Fjárfestingabankans og Búnaðarbankans lenti í öðrum höndum en ráð var fyrir gert. Hann hefur lengi verið ósáttur við, að upp rísi í þjóðfélaginu peningaleg valdaöfl, sem ekki eru í sæmilegu vinfengi við kóngana.

Löngu fyrir Baugsmál var Ísland bananalýðveldi. Hvernig sem það mál fer, mun landið áfram vera bananalýðveldi. Allt til þess tíma, er Davíð kóngur verður öllum gleymdur og grafinn.

DV

Leki varð að verzlunarvöru

Greinar

Ríkissaksóknari hefur viðurkennt, að leiðbeiningar um aðgang fjölmiðla að ákæruskjölum séu úreltar. Ákæruvaldið hefur ekki lagað sig að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Því hefur ákæran í Baugsmálinu vikum saman verið leyndarmál, sem hefur auðvitað gefið tilefni til margvíslegra sögusagna.

Einn vandinn, sem þetta veldur, er skipulagður leki til fjölmiðla. Ákæruskjöl geta þannig orðið verzlunarvara, þar sem sá fjölmiðill fær aðgang, sem gefur kost á ákveðinni meðferð málsins. Þannig fékk Fréttablaðið aðgang gegn því að leyfa lögfræðingum Baugs að hafa skoðun á meðferð blaðsins.

Hömlur á birtingartíma og skoðun á efni blaðsins úti í bæ stríðir tvímælalaust gegn siðareglum Fréttablaðsins. Í leiðara blaðsins var reynt að skýra, hvernig það geti gerzt. Því má segja, að meðferð blaðsins á málinu hafi í upphafi verið gegnsæ, þótt vikið hafi verið út af vegi dyggðarinnar.

Hinn fjölmiðillinn, sem fékk aðgang að ákæruskjölunum og varnargreinum lögmanna Baugs, var brezka blaðið Guardian, sem vafalaust hefur ekki gert neinn samning um tímasetningu eða innihald fréttarinnar. Guardian er eitt sómakærasta blað í heimi og gerir enga samninga, sem geta skaðað þá stöðu.

Guardian var eitt af fyrstu blöðum í heimi, sem setti sér siðareglur. Það hafði líka forustu um að koma á fót embætti umboðsmanns lesenda, sem á að gæta þess að siðareglunum sé fylgt í rauninni. Menn geta vefengt, að Guardian hafi rétt fyrir sér, en mjög erfitt er að saka blaðið um hlutdrægni.

Egill Helgason segir í pistli, að greinarnar í Guardian hljóti að teljast ansi jákvæðar fyrir Baug, þeir séu að ná að stjórna umræðunni ansi vel enn sem komið er, það sé næstum eins og þeir hafi skrifað fréttina sjálfir. Síðasti hluti málsgreinar Egils er áreiðanlega skrifaður í ógáti.

Menn geta vissulega haft áhrif á umræðuna með því að leka efnisþáttum skipulega til fjölmiðla. En hvorki Guardian né Ian Griffiths, viðskiptablaðamaður ársins í Bretlandi, láta neinn ritskoða sig eða tímasetja. Og Guardian velur sjálft að slá upp meintum stuldi á hamborgara og pylsu í fyrirsögn.

Vænisýki væri óþörf í þessu lekamáli í heild, ef gegnsæi væri hornsteinn í kerfinu. Þá hefði ákæran verið opinberuð um leið og hún var afhent og hún ekki orðið verzlunarvara.

DV

Össur er borgarstjórinn

Greinar

Össur Skarphéðinsson yrði fínn borgarstjóri í Reykjavík. Hann losnaði við steinbarn í maganum, þegar hann tapaði formannskjöri Samfylkingarinnar fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hann er farin að blogga ákveðið og skemmtilega og sýna önnur merki þess, að hann sé að finna sig að nýju.

Reykjavíkurlistinn þarf lausn á borð við hann til að halda borginni í byggðakosningum að ári. Undirbúningur mála af hálfu listans hefur verið í steik í sumar. Listinn hefur vikum saman verið í þeirri stöðu, að allar fréttir úr borginni eru vondar og verstar þær sem koma úr sáttanefnd.

Þeir Reykvíkingar, sem reyna að fylgjast með, hafa það á tilfinningunni, að minni háttar flokksjálkar séu í sátta- eða framboðsnefnd að reyna að búa til nýtt kerfi ráðamanna, sem tryggi hagsmuni hinna ýmsu eigenda Reykjavíkurlistans. Kjósendur hafa hins vegar ekki áhuga á þessum hagsmunum.

Allir hinir mörgu stjórar Reykjavíkurlistans bera ábyrgð á slæmri stöðu listans í mikilvægum máli, einkum þó á rugli í skipulagsmálum, sem virðist engan enda ætla að taka. Listinn getur ekki einu sinni breytt strætisvagnaferðum án þess að lenda í því klúðri að ná breytingunni ekki fram strax.

Frá því í vor hefur frumkvæði í umræðu um borgarmál verið í höndum Sjálfstæðisflokksins. Allt þetta samanlagt hefur leitt til þess, að fylgi Reykjavíkurlistans hefur sigið niður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aðstandendur listans sjá, að þeir verða að standa saman til að tapa ekki borginni.

Lausnin er að fá mann að utan, einhvern sem er laus við ábyrgð á gerðum Reykjavíkurlistans á kjörtímabilinu, sem getur komið með nýja vinda og hagað málum þannig, að góðar fréttir fari að koma að nýju úr borginni. Reykjavíkurlistinn verður að endurfæðast með nýju blóði og með nýjum vindum.

Össur Skarphéðinsson er rétti maðurinn á þessum stað og tíma. Mjög auðvelt er að sjá hann fyrir sér sem borgarstjóra með reisn, sem gæti minnt á velmegtardaga Davíðs Oddssonar. Hann væri fínn í tækifærisræðum og hann ætti auðvelt með að halda hinum ýmsu örmum Reykjavíkurlistans á þægilegu snakki.

Ef ráðamenn listans líta upp úr sandkassanum, má þeim ljóst vera, að með einu höggi er hægt að sópa vandamálunum út af borðinu og sannfæra kjósendur um betri tíð með blóm í haga.

DV

Einkamála- og spillingarvæðing

Greinar

Fyrir þremur árum hætti ég í daglegri blaðamennsku. Þá var hún í sæmilegum metum í þjóðfélaginu. Fáir blaðamenn settu efni og auglýsingar í einn graut og skilgreining á einkalífi var þrengri en hún er orðin núna, þegar ég kem aftur inn í þjóðfélag, sem er nýtt fyrir mér og næsta óviðkunnanlegt.

Fyrir 1990 var óþekkt, að blaðamenn litu fjárlegsaugum á starf sitt. Ég man eftir einum ungum manni á síðasta áratug aldarinnar, sem kom í starfið og hélt, að hann hefði fengið lén til að hossa vinum sínum. Hann missti starfið á sekúndubroti og fleiri fylgdu ekki í kjölfarið í minni tíð.

Þá var litið á einkalíf, sem eitthvað, sem færi fram á heimilum, en ekki á opinberum stöðum. Sagt var frá fyllríi ráðherra í Leifsstöð, þegar Íslendingar fengu Bermúdaskál í bridge-verðlaun. Núna þykir mörgum skelfilegt, er blöð eða tímarit birta myndir af frægu fólki við slíkar aðstæður.

Svo brenglað er fréttamatið orðið, að helzti álitsgjafi þjóðarinnar kvartar um, að slegið sé upp ómerkilegum smáatriðum í fréttum, svo sem að posi hafnaði krítarkorti ríkasta manns landsins og að landsliðsþjálfari í handbolta hafi gerzt flugdólgur og farið frá borði í fylgd lögreglu.

Allt varð vitlaust, þegar sagt var frá skilnaði opinberasta manns landsins. Þótt hann sé orðin að deild í Sjóvá með skilmálum um einkalífið og þótt hann hafi í áratugi ort og sungið um nánustu einkamál sín, telja álitsgjafar, að ekki megi segja frá, er konan í ástarljóðunum hefur makaskipti.

Bullið í almenningsáliti nútímans er stutt af álitsgjöfum og fjölmiðlungum, sem hafa sannfærzt um, að meira máli skipti í fjölmiðlun að taka tillit til fólks en að segja sannleikann. Það bull er nýtt fyrir mér, rétt eins og mér kemur á óvart, hversu frjálslega fjölmiðlugar umgangast landamæri efnis.

Á örfáum árum hafa öll mörk riðlast milli auglýsinga og efnis. Þetta byrjaði í sjónvarpi, hefur tröllriðið litlum útvarpsstöðvum og einkennir flest tímarit, sem stofnuð hafa verið. Jafnvel aldraður góðborgari á borð við Árvakur lætur leggja textreklame á borð við Lifun inn í Morgunblaðið.

Álitsgjafar og fjölmiðlugar hafa litlar áhyggjur sýnt af slíkri spillingu, en þeim mun meiri áhuga á að efla svigrúm einkalífs á kostnað sannleikans. Svei þeim öllum saman.

DV

Baráttan gegn sjálfsmorðsárásum

Greinar

Hasib Hussain var 19 ára, þegar hann sprengdi sig með öðru fólki í strætó í London 7. júlí. Hann hafði aldrei gengið í skæruliðaskóla á vegum al Kaída eða Osama bin Laden. Germaine Lindsay var líka 19 ára, þegar hann sprengdi sig við sama tækifæri, sonur kristinna foreldra frá Jamaíku.

Komið hefur í ljós, að skæruliðar sjálfsmorðsárása eru ekki endilega frá Afganistan og Írak. 11. september 2001 á Manhattan voru þeir frá Egyptalandi og Sádi-Arabíu, sem eru bandamannaríki. 7. júlí 2005 í London voru þeir heimamenn, fæddir á Bretlandi. Hvenær verða þeir innfæddir og hvítir?

Ráðþrota eru þeir, sem hafa atvinnu af að gæta öryggis fólks á Vesturlöndum. Þeir hafa engar frambærilegar ráðagerðir um að koma í veg fyrir, að almenningur bíði bana í árásum aðila, sem hafna vestrænu samfélagi og vilja hefna vestrænna hernaðaraðgerða í útlöndum. Þeir hafa reynt að nota útlitið.

Ekki tókst betur til en svo, að brezkar sérsveitir skutu til bana rafvirkja frá Brasilíu, Jean Charles de Menezes, sem aldrei hafði komið nálægt hryðjuverkum. Megum við eiga von á meiri aðgerðum af því tagi, árásum sérsveita, lögreglu og almennings á fólk, sem útlits vegna gætu verið múslimar?

Aðgerðir vegna útlits fólks eru ekki til þess fallnar að draga úr hættu á hryðjuverkum. Í bezta falli leiða þær til fjölgunar í hópi hinna ofsareiðu. Er þó nóg unnið að því fyrir í Afganistan og Írak að fjölga í þeim hópi. Þar framleiða herir Vesturlanda hundruð skæruliða daglega.

Óvinurinn er orðinn heimasmíðaður. Hussain og Lindsay urðu ofstækismenn í Bretlandi, ekki í þriðja heiminum. Slíkir læra á netinu, hvernig á að búa til sprengju úr áburði. Þeir lesa þar, hvers vegna þeir eigi að fórna lífinu í þágu trúarbragða, sem túlkuð eru ofsafengið gegn vestrinu.

Til þess að vinna gegn sjálfsmorðsárásum þurfum við að skilja, hvers vegna hryðjuverkamenn hafa öruggt skjól af vinveittu fólki, hvort sem er í Írak eða í London. Við þurfum að átta okkur á, að eitthvað mikið er að, þegar venjulegt fólk heldur hlífiskildi yfir fjöldamorðingjum.

Lausnin er ekki í hernaðar- og lögregluaðgerðum, heldur í auknum skilningi á því, hvað það er, sem gerir skæruliðum kleift að valda blóðbaði í Bagdað og London og New York.

DV