Greinar

Norskir leika tveim skjöldum

Greinar

Norsk Hydro hefur framkvæmdastjórann Eyvind Reiten til að segja, að fyrirtækið hætti ekki við álver á Reyðarfirði, þótt frekari umhverfisathugana verði krafizt, og upplýsingafulltrúann Thomas Knutzen til að segja, að slík frestun málsins gerbreyti forsendum þess.

Norsk Hydro hefur framkvæmdastjórann Eyvind Reiten til að segja, að síðari stækkun álversins á Reyðarfirði sé forsenda framkvæmda við fyrsta áfanga þess, og upplýsingafulltrúann Thomas Knutzen til að segja, að fyrirtækið hafi engar tryggingar fyrir slíkri stækkun.

Norsk Hydro leikur skipulega tveim skjöldum í tilraunum sínum til að fá Íslendinga til að reisa álver á Reyðarfirði, enda segir Knutzen, að Ísland sé eina Evrópulandið, sem geti hýst 480 þúsund tonna álver. Á íslenzku þýðir þetta, að Ísland eitt vilji slíkt álver.

Framlag Norsk Hydro til álversins fyrir austan á fyrst og fremst að vera þekking og reynsla. Innan við 10% af heildarhlutafénu verður í peningum. Norsk Hydro ætlar einnig að leggja álverinu til hráál til úrvinnslu og selja umheiminum álið, sem frá því kemur.

Norsk Hydro hyggst taka sitt á þurru sem eigandi alls framleiðsluferilsins frá báxítinu til fullunninna afurða, svo og sem eigandi þekkingar og reynslu í áliðnaði. Afkoma fyrirtækis á Reyðarfirði, sem Norsk Hydro á að litlu leyti, skiptir litlu máli í heildarsamhenginu.

Íslenzkir lífeyrissjóðir og þar með gamlingjar framtíðarinnar á Íslandi eiga að taka áhættuna af því, hvort sjálft álverið verði rekið með samkeppnishæfum hagnaði. Landsvirkjun og þar með raforkunotendur framtíðarinnar á Íslandi eiga að taka sams konar áhættu.

Álver, sem kaupir þekkingu og reynslu af Norsk Hydro, kaupir hráál af Norsk Hydro og selur Norsk Hydro álstykki er ekki annað en þræll Norsk Hydro, þótt keðjubréfastjórar íslenzkra fjárfestingarbanka reyni að telja fjárfestum trú um þolanlega afkomu.

Norsk Hydro er að misnota Ísland með blekkingum og hafa fé af vitleysingum. Þetta gerir fyrirtækið sem norskt ríkisfyrirtæki í fullu samráði við norsk stjórnvöld, sem einnig leika tveim skjöldum í framgöngu sinni gagnvart Íslandi og í slíkum málum almennt.

Norsk stjórnvöld kosta útgáfu Arctic Bulletin, tímarits World Wildlife Fund, til að kaupa sér frið í umhverfismálum. Stjórnendur Norsk Hydro halda fundi með trúgjörnum fulltrúum sömu samtaka til að segja þeim það, sem þeir vilja heyra um álverið á Reyðarfirði.

Með margvíslegum tvískinnungi af slíku tagi drepa norsk stjórnvöld og Norsk Hydro á dreif andstöðu umheimsins við fyrirhugað álver á Reyðarfirði og hvika hvergi frá fyrri ákvörðunum. Markmiðið er að eignast viðskiptaþræl, sem á sér engrar undankomu auðið.

Það er rétt sem Thomas Knutzen segir. Annað eins álver verður hvergi reist í Evrópu. Það stafar af, að þar vilja engir slíkt álver. Svisslendingar hafa losnað við öll sín álver. Þjóðverjar eru að losa sig við sín, þar á meðal losnuðu þeir við eitt gamalt og lélegt til Íslands.

Fyrir milligöngu íslenzkra stjórnmálamanna eiga íslenzkir ellilaunamenn og raforkunotendur að verða bjálfarnir fyrir vagni Norsk Hydro og norskra stjórnvalda. Með því að leika tveim skjöldum hefur þessum aðilum tekizt að sigla málinu framhjá ýmsum skerjum.

Þótt yfirmönnum Norsk Hydro takist með blekkingum og tvískinnungi að koma sér upp viðskiptaþræl á Íslandi tekst þeim ekki að fela staðreyndir málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Keðjubréfabankar

Greinar

Hefðbundin keðjubréf mundu blómstra hér á landi, ef þau væru lögleg. Við þurfum þó ekki að sakna þeirra, því að þau blómstra í nýrri mynd hjá bönkum og verðbréfadeildum þeirra og hjá sjálfstæðum verðbréfafyrirtækjum, sem spila með væntingar síðbúinna fjárfesta.

Ýmsar slíkar stofnanir og ráðamenn þeirra benda á miklar hækkanir, sem orðið hafa á verðgildi ýmissa hlutabréfa. Í huganum framlengja síðbúnir fjárfestar hækkunarþróun fortíðarinnar inn í framtíðina og freistast til að taka þátt í keðjubréfafaraldri nútímans.

Seinheppnir fjárfestar hafa aðgang að varnaðarorðum þeirra, sem benda á, að verðmæti hlutabréfa sé í sumum tilvikum komið upp fyrir eðlilegar væntingar um arðgreiðslur á næstu árum. Seinheppnir þátttakendur keðjubréfa voru líka varaðir við á sínum tíma.

Happdrættisárátta fólks lætur ekki að sér hæða. Fólk hlustar ekki á úrtölur, heldur stekkur ósynt út í sjóinn til hákarlanna og væntir þess, að hlutabréfa-verðþróun næstu vikna, mánaða og ára verði alveg hin sama og hún var á síðustu vikum, mánuðum og árum.

Síðbúnir fjárfestar öfunda þá, sem sagðir eru hafa keypt hlutabréf í deCODE genetics fyrir tíu dögum og selt þau aftur með milljónahagnaði í gær. Þær upplýsingar falla í skuggann, að fyrirtækið þyrfti að vera rekið með tugmilljarðahagnaði til að standa undir væntingum.

Einn háskólakennari sagði í viðtali við DV á laugardaginn, að fyrirtækið, sem nú er rekið með miklu tapi, þurfi að skila 25 milljarða hagnaði á ári, ef það byrjar nú þegar að græða, og 150 milljarða hagnaði á ári, ef það byrjar ekki að græða fyrr en eftir 15 ár.

Þetta skiptir að vísu ekki öllu máli. Aðalatriðið er, að einhverjir fjárfestar séu enn síðbúnari en ég. Það sé að minnsta kosti ein umferð eftir í keðjubréfafaraldrinum. Á væntingum af því tagi byggist verðþróun hlutabréfa hér á landi sem annars staðar í heiminum.

Lykilstarfsmenn keðjubréfastofnana nútímans kynda undir faraldrinum, enda eiga þeir sjálfir hlutabréf í töfrafyrirtækjunum. Menn hafa velt vöngum yfir því á opinberum vettvangi, hvort slíkt sé löglegt, en siðferðilega minnir það á gömlu keðjubréfafyrirtækin.

Markaðslögmálin gera ráð fyrir, að menn sjái fótum sínum forráð. Við búum hins vegar við svo ungan og ófullkominn hlutabréfamarkað í þjóðfélagi langvinns góðæris og hagvaxtar, að menn eiga erfitt með að skilja, að sápukúlur geti sprungið, þegar sízt varir.

Reynslan sýnir, að ráðamenn fjármálastofnana halda sig sem mest á gráu svæðunum. Strangari lög um fjármálastofnanir og virkara eftirlit með þeim mundu því milda vaxtarverki hlutabréfamarkaðarins og halda aftur af keðjubréfakóngunum, sem þar ráða ríkjum.

Við sjáum þó frá Bandaríkjunum, að gamall og gróinn hlutabréfamarkaður hindrar ekki hátt gengi hlutabréfa í fyrirtækjum á borð við netbókaverzlunina Amazon, sem ætíð hefur verið rekin með miklu tapi og verður sennilega rekin með auknu tapi á næstu árum.

Í heimi tækifæranna hljóta að vera hættur við hvert fótmál. Opinberar aðgerðir geta ekki hindrað, að síðbúnir fjárfestar þurfi að fjármagna gróða keðjubréfastofnana og keðjubréfakónga nútímans. Peningar leita alltaf burt frá þeim, sem ekki kunna með þá að fara.

Aðalatriðið er, að einhverjir nenni að segja fólki, að bankar og verðbréfafyrirtæki nútímans verðskuldi svipað vantraust og keðjubréfafyrirtækin gömlu.

Jónas Kristjánsson

DV

Væntingar síðbúinna fjárfesta

Greinar

Verð hlutabréfa var til skamms tíma metið eftir formúlum um hlutföll stærða, sem koma fram í ársreikningum fyrirtækjanna. Reiknað var með, að rekstur þeirra, einkum hlutföll hagnaðar og hlutafjár, segðu til um, hversu góður fjárfestingarkostur þau væru.

Í nokkur ár hefur þetta ekki nægt, því að reynslan sýnir, að betra er að miða við væntanlegan rekstur en undanfarinn rekstur. Fyrirtæki rísa og hníga. Þau eru misjafnlega vel staðsett til að mæta aðstæðum, sem verða á þeim tíma, þegar fjárfestingin á að skila arði.

Þess vegna hafa menn fjárfest í áhættusömum framtíðarfyrirtækjum á borð við netvafrafyrirtækið Netscape, netbókaverzlunina Amazon og netþjónustuna America Online. Og þess vegna hafa menn fjárfest hér á landi í fyrirtækjum á borð við DeCode Genetics.

Á skömmum tíma hefur komið í ljós, að ekki nægir að spá um framtíðarhag þessara fyrirtækja, heldur verða fjárfestar fremur að gera sér grein fyrir væntingum þeirra fjárfesta, sem á eftir þeim koma. Spurningin er, á hvaða verði munu þeir síðar kaupa bréfin mín.

Væntingar síðbúinna fjárfesta eru reikningsdæmið, sem hefur tekið við af reikningsdæminu um tekjur og gjöld í ársreikningum. Þannig kemst verðgildi fyrirtækja langt upp fyrir ítrustu væntingar um gengi fyrirtækjanna sjálfra í náinni eða fjarlægri framtíð.

Hlutabréf í Amazon voru til skamms tíma á stjarnfræðilegu verði, þótt fyrirtækið hefði frá upphafi verið og er enn rekið með himinháu tapi, sem fyrirsjáanlegt er, að fari fremur vaxandi en minnkandi í framtíðinni. Menn fjárfestu í væntingum síðbúinna fjárfesta.

Til þess að fá sómasamlegan arð af hlutabréfum, sem nú eru seld í DeCode, sem er verðlagt á 135 milljarða króna, þarf fyrirtækið að hafa tíu milljarða króna arð á ári frá þeim degi, sem bréfin eru keypt. Fyrirtækið er hins vegar rekið með gífurlegu tapi.

Menn kaupa ekki hlutabréf í DeCode á grundvelli arðsins eða tapsins, heldur á grundvelli væntinga sinna um væntingar síðbúinna fjárfesta, sem muni að lokum eignast pappírana. Þetta er afar flókin hugsun, sem tæpast er á færi nema harðskeyttra pókerspilara.

Þessi hlutabréfaleikur hefur þjóðhagslegt gildi, því að hann sogar sparifé til nútímalegra atvinnugreina, þar sem vísindi og rannsóknir, tölvutækni og veftækni eru í fyrirrúmi. Þessar atvinnugreinar ættu erfitt uppdráttar, ef fagfjárfestar væru enn að fletta ársskýrslum.

Þar sem meirihluti áhættufyrirtækja nær hvorki stóra vinningnum né getur teflt sér í þá stöðu að vera gleypt af öðru áhættufyrirtæki, glata margir fjárfestingu sinni. Það er herkostnaðurinn við tilfærslu fjármuna úr gamaldags farvegum yfir í hátæknifarvegi nútímans.

Fólk á undir engum kringumstæðum að taka lán til að kaupa hlutabréf í slíkum tízkufyrirtækjum, sem hafa gert aðra moldríka. Það á ekki heldur að fórna sparnaði til elliáranna í sama skyni. Það á eingöngu að nota til þess peninga, sem það getur sætt sig við að glata.

Fjárfesting í áhættusömum töfrafyrirtækjum er fyrst og fremst verkefni atvinnumanna, sem kunna að reikna út væntingar síðbúinna fjárfesta og hafa vita á að losa sig við pappíranna eða selja fyrirtækið á réttu andartaki. Nútíma hlutabréfaviðskipti minna á keðjubréf.

Við munum fljótt reka okkur á, að það er skammgóður vermir að telja allt munu endalaust rísa, einnig verðgildi bréfanna, sem risu brattast í gær og í fyrradag.

Jónas Kristjánsson

DV

Bylting gefur fordæmi

Greinar

Nýgerður kjarasamningur verzlunarmanna er bylting. Í fyrsta skipti í sögu vinnumála hér á landi er samið um 90.000 króna lágmarkslaun, 36 stunda vinnuviku og 14% greiðslur í lífeyrissjóð. Samningurinn mun vekja eftirtekt og öfund langt út fyrir raðir verzlunarfólks.

Viðsemjendur annarra stéttarfélaga segja auðvitað, að samningur verzlunarmanna hafi ekki fordæmisgildi. Það er innantómt slagorð, því að samningurinn veldur þrýstingi á samningamenn launþega, sem án efa mun hafa áhrif á niðurstöður annarra kjarasamninga.

Áður námu greiðslur í lífeyrissjóð 10% af launum, þar af 6% frá atvinnurekendum. Samkvæmt samningi verzlunarfólks nema greiðslur í lífeyrissjóð þeirra hér eftir 14%, þar af 8% frá atvinnurekendum. Viðbótin rennur í hina nýju séreignadeild lífeyrissjóðsins.

Áður voru greiðslur í séreignasjóði og séreignadeildir heimilar, en nú eru þær umsamdar hjá verzlunarmönnum. Lífeyriskerfi með 10% greiðslu í sameignarsjóð og 4% greiðslu í séreignasjóð hlýtur í tímans rás að gerbreyta lífsskilyrðum fólks á eftirlaunaaldri.

Einn af hornsteinum velferðar er eftirlauna- og örorkukerfi með uppsöfnun peninga, sem tryggir fólki mannsæmandi lífskjör, þótt hlutfall vinnandi fólks af heildarmannfjölda fari ört lækkandi. Slíkt öryggi fæst ekki í eftirlaunakerfum flestra vestrænna ríkja.

Með samningi fjölmennasta stéttarfélags á Íslandi um stóraukið lífeyrisöryggi hefur Ísland tekið hreina og klára forustu Vesturlanda á einu mikilvægasta sviði velferðar almennings. Það er fordæmi, að góðærið er notað til að tryggja fólki áhyggjulaust ævikvöld.

36 stunda vinnuvika verzlunarfólks er einnig bylting. Loksins er stigið stórt skref í átt til þeirra drauma, að vísindi og tækni, hagvöxtur og öryggisnet færi fólki aðgang að auknum frístundum. Fjögurra daga vinnuvika er loksins komin í augsýn hér á landi.

Það er ein harðasta kenning markaðssinnaðra hagfræðinga, að þjóðir geti ekki leyft sér að stytta vinnuvikuna vegna samkeppni annarra þjóða með lengri vinnuviku. Frakkar hafa undanfarið verið átaldir fyrir að hafa frumkvæði að því að rjúfa 40 stunda múrinn.

Ekki hafa rætzt hrakspár um erfitt gengi Frakka. Þvert á móti er rífandi gangur í atvinnulífi Frakka, meiri en hjá öðrum stórþjóðum Evrópu. Stytting vinnuvikunnar hefur ekki reynzt vera sá skratti, sem markaðssinnaðir hagfræðingar hafa málað á vegginn.

Í stað gömlu taxtanna koma nú 90.000 króna lágmarkslaun verzlunarmanna og frjálsir samningar þar fyrir ofan. Þetta eru markaðslaun með gólfi, sem lyftir lægst launuðu hópunum. Þekkt krafa úr þjóðmálunum er orðin að raunveruleika hjá verzlunarfólki.

Með kjarasamningi verzlunarmanna er staðfest, að gegn ráðum markaðssinnaðra hagfræðinga verður komið á fót gólfi, sem skilgreinir lágmark mannsæmandi lífskjara. Þetta munu önnur stéttarfélög áreiðanlega telja vera fordæmi, hvað sem atvinnurekendur segja.

Félagsmenn annarra stéttarfélaga eru smám saman að átta sig á byltingunni í kjarasamningi verzlunarfólks. Þeir munu þrýsta umboðsmönnum sínum í sömu átt, hvort sem viðsemjendum af hálfu atvinnurekenda líkar betur eða verr. Þannig virkar fordæmisgildið.

Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna, að byltingin í kjarasamningi verzlunarmanna mun óhjákvæmilega enduróma um allt þjóðfélagið á næstu mánuðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífeyrissjóðir fjárfesti erlendis

Greinar

Fjárfesting íslenzkra lífeyrissjóða í innlendum fyrirtækjum hefur hættur í för með sér, sem eru svipaðs eðlis og fjárfesting staðbundinna lífeyrissjóða í fyrirtækjum staðarins. Í báðum tilvikum felst vandamálið í, að sjóður og fyrirtæki eru sömu megin á sveiflunni.

Hér í blaðinu og víðar var gagnrýnt í fyrra, að Lífeyrissjóður Vestfjarða og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja höfðu fjárfest í staðbundnum fyrirtækjum, sem síðan féllu í verði eða fóru á hausinn. Fólk missti í senn atvinnuna og varð fyrir skerðingu á lífeyri sínum.

Freistandi er að líta til lífeyrissjóða sem tækis til að lyfta atvinnulífi, rétt eins og fyrrum voru þeir taldir tæki fólks til að koma þaki yfir höfuðið. Hvorugt er hlutverk lífeyrissjóða. Þeir eiga ekki að gera annað en að varðveita lífeyri félagsmanna og ávaxta hann sem bezt.

Í sumum sjávarplássum hafa lífeyrissjóðir sogazt inn í vítahring deyjandi fyrirtækja, þar sem starfsfólk, sveitarfélög og lífeyrissjóðir hafa hlaupið undir bagga með þeim afleiðingum, að fyrirtækið andaðist ekki eitt, heldur hrundi allt samfélagið á staðnum með því.

Mörgum mun finnast undarlegt, að nú sé fitjað upp á þessu aftur og reynt að túlka það á landsvísu, einmitt þegar flestir virðast telja, að kaup á hlutabréfum feli undantekningarlaust í sér gróða. En á tímum feitu áranna sjö þurfa menn að muna eftir mögru árunum sjö.

Álag á lífeyrissjóði er minna í góðæri en í hallæri. Til dæmis nýta menn síður til fulls möguleika sína til að fá metna örorku, sem þeir gera hins vegar, þegar harðnar á dalnum og vinna verður stopulli. Lífeyrissjóðir þurfa að vera sterkastir, þegar atvinnulífið er veikast.

Ef skynsamlegt er, að staðbundnir lífeyrissjóðir dreifi áhættunni með því að fjárfesta á landsvísu, þá hlýtur einnig að vera skynsamlegt fyrir lífeyrissjóði á landsvísu að dreifa áhættunni með því að fjárfesta á vestræna vísu, það er að segja í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ef atvinnulífið á Íslandi gengur almennt betur en atvinnulífið gengur almennt á Vesturlöndum, þá verður lífeyrisþrýstingur minni en hann væri, ef atvinnulífið gengur lakar á Íslandi en á Vesturlöndum. Erlend fjárfesting lífeyrissjóða vinnur á móti sveiflunni.

Svo lokaðir eru menn fyrir rökhyggju, að skammt er síðan einn seðlabankastjórinn ávítaði lífeyrissjóði, sem voru að byrja að fjárfesta í útlöndum. Miklu nær hefði verið að hrósa þeim, sem höfðu frumkvæði að því að treysta stöðu lífeyrissjóðanna til langframa.

Nú er einmitt tími og tækifæri til að vekja athygli á þessum staðreyndum. Peningar fljóta um þjóðfélagið og fjármálastofnanir berjast um skuldarana. Því er minni hætta en ella á því, að fjárskortur í þjóðfélaginu valdi því, að menn renni gráðugum augum til lífeyrissjóða.

Innlendar fjárfestingar reyndust vel á síðari hluta síðasta áratugar. Lífeyrissjóðirnir náðu flestir 6­8% raunávöxtun á ári, sem er sambærilegt við fjárfestingu í útlöndum. Ekki er hins vegar ráðlegt að búast við, að öll pappírsdæmi gangi upp á nýbyrjuðum áratug.

Í vaxandi mæli eru hlutabréf ekki keypt á verðgildi núverandi árangurs fyrirtækja, heldur á ímynduðum væntingum síðbúinna fjárfesta um hugsanlegt verðgildi fyrirtækjanna langt inni í framtíðinni. Hlutabréfamarkaðurinn er sumpart orðinn að eins konar póker.

Við slíkar aðstæður er rétt fyrir lífeyrissjóði að dreifa áhættu sinni út fyrir landsteinana og fjárfesta í þeirri vissu, að Vesturlöndum í heild muni vegna vel.

Jónas Kristjánsson

DV

Það gerist ekki hér

Greinar

Fáir hefðu trúað fullyrðingum fyrir þremur mánuðum um, að landsfaðir Þýzkalands í sextán ár, 1982­1998, persónugervingur trausts manna á þýzka markinu og þýzku efnahagslífi, sjálfur Helmut Kohl, væri sekur um athæfi, sem getur kostað hann fimm ára fangelsi.

Nú er svo komið, að annan hvern dag birtast nýjar upplýsingar um stórfellt fjármálamisferli Kohls og helztu samstarfsmanna hans á sextán ára valdatíma. Þær snúast um mútur og þakkargreiðslur vopnasala og stóriðjumanna til frammámanna kristilegra demókrata.

Wolfgang Hüllen, formaður fjármálanefndar þingflokksins, hefur framið sjálfsvíg. Manfred Kanther, fyrrum innanríkisráðherra, hefur sagt af sér þingmennsku. Wolfgang Schäuble, arftaki Kohls sem formaður flokksins, hefur beðizt afsökunar í þýzka þinginu.

Þingið hóf í fyrradag umfangsmikla rannsókn á peningaþvotti, leynisjóðum og mútugreiðslum á vegum kristilegra demókrata. Búizt er við, að rannsóknin taki allt að tveimur árum. Áður var hafin venjuleg lögreglurannsókn á trúnaðarbresti Helmuts Kohl.

Lítill vafi er á, að sextán ára ríkisstjórn Helmuts Kohl var til sölu. Vopnasalar á borð við Karlheinz Schreiber og stóriðjuhringir á borð við Elf-Aquitaine gátu keypt þjónustu hennar með peningum, sem notaðir voru til að halda úti starfi flokks kristilegra demókrata.

Talin er hætta á, að fyrir flokki kristilegra demókrata í Þýzkalandi fari eins og samnefndum flokki á Ítalíu, sem leystist upp í frumeindir og hvarf, þegar saksóknarar ríkisins fóru að beina spjótum sínum að spillingu hans og samböndum við hættulegustu glæpaöfl landsins.

Mál Helmuts Kohl hefur verið að vinda upp á sig í tvo mánuði. Það hefur orðið landi og þjóð að tímabundnum álitshnekki, en mun til lengdar sýna fram á, að stjórnkerfi landsins malar örugglega, þótt það mali hægt. Þjóðverjar hafa burði til að moka sinn pólitíska flór.

Svipaðar hundahreinsanir hafa átt sér stað víða um Vestur-Evrópu. Öllum er kunnur uppskurðurinn á ítölskum stjórnmálum og fall valdamikilla stjórnmálamanna á Spáni og í Belgíu, þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hrundi.

Mikilsverðasta dæmið um opnun leyndardóma evrópskra stjórnmála var afsögn allra ráðherra Evrópusambandsins á síðasta ári vegna misferlis með peninga, annarra afglapa og aðgæzluleysis í starfi. Vestrænt lýðræði sigrast smám saman á misnotkun pólitísks valds.

Allar hljóta þetta að vera undarlegar fréttir norður í bananalýðveldinu Íslandi, þar sem ekki eru einu sinni lög á borð við þau, sem Helmut Kohl braut og stökktu Bettino Craxi úr landi. Hér segja menn bara eins og Kohl “treystið mér” og komast léttilega upp með það.

Óhætt mun vera að fullyrða, að atburðir á borð við þá, sem hafa verið að gerast í Þýzkalandi, munu ekki gerast á Íslandi í náinni framtíð, ekki af því að íslenzkir stjórnmálamenn taki Helmut Kohl fram að siðgæði, heldur af því að lýðræðislegt aðhald virkar ekki hér á landi.

Hér komast fjármálastjórar stórfyrirtækja upp með yfirlýsingar um lítinn og engan stuðning þeirra við stjórnmálaflokka án þess að nokkur tilraun sé gerð til að prófa innra sannleiksgildi þeirra eða hvort verið sé að snúa út úr sannleikanum með orðalagi um formsatriði.

Hér á landi er ekki til neitt opinbert ferli til að rannsaka, hvort innlend og erlend stórfyrirtæki geti keypt sér pólitíska hlýju, einkaleyfi og sértækar fyrirgreiðslur.

Jónas Kristjánsson

DV

Fögnuður með fyrirvara

Greinar

Samkvæmt nýrri reglugerð landbúnaðarráðuneytisins verður næsta haust bannað að selja hér á landi tilbúinn áburð, sem hefur meira en 10 millígrömm af kadmíum á hvert kíló af fosfór. Hingað til hefur lágmarkið hér verið 50 millígrömm og 50­100 milliígrömm í Evrópu.

Þessi hertu mörk munu gera íslenzkan landbúnað vistvænni en hann hefur verið og afurðir hans hollari. Um leið fela þau í sér, að verið er að styðja innlendan áburðariðnað á kostnað landbúnaðarins, sem verður að greiða fyrir dýrari áburð en ella hefði verið.

Áburðarverksmiðjan hefur í vetur orðið að sæta samkeppni innflutnings á ódýrum áburði, sem stenzt gömlu 50 milliígramma kröfuna, en ekki nýju 10 millígramma kröfuna. Framleiðsla Áburðarverksmiðjunnar stenzt hins vegar nýju 10 millígramma kröfuna.

Deila má um, hvort vegi þyngra í landbúnaðarráðuneytinu, viljinn til að styðja innlenda iðnaðarframleiðslu eða viljinn til að gera innlenda búvöru hollari. Algengt er, að þetta fari saman og hefur það víða um heim orðið ágreiningsefni í viðskiptum ríkja og ríkjasamtaka.

Til dæmis er flókið að meta, hvort andstaða Evrópusambandsins við innflutning erfðabreyttra matvæla frá Bandaríkjunum sé fremur heiðarleg umhyggja fyrir heilsu Evrópubúa eða öllu heldur tilraun til að útiloka samkeppni ódýrs innflutnings að vestan.

Hitt er óhætt að fullyrða, að ekki munu rætast yfirlýstar væntingar ráðuneytisins um aukið svigrúm til útflutnings landbúnaðarafurða og betra verð þeirra. Þær reglur, sem ráðuneytið setur um vistvæna framleiðslu hafa nákvæmlega ekkert gildi utan landsteinanna.

Hins vegar eru alþjóðlegir og fjölþjóðlegir staðlar um lífræna framleiðslu, sem gefur hærra verð en venjuleg framleiðsla. Í lífrænni framleiðslu er tilbúinn áburður alveg bannaður. Ráðuneytið hefur ekki gert marktækar ráðstafanir til að hvetja til slíkrar framleiðslu.

Yfirvöld landbúnaðarins í ráðuneyti og bændasamtökum hafa reynt að bregða fæti fyrir viðurkennda og vottaða framleiðslu lífrænnar búvöru hér á landi, af því að hún kostar miklar breytingar á framleiðsluháttum og leyfir engar ódýrar og séríslenzkar undanþágur.

Í staðinn eru yfirvöld að reyna að byggja upp sérstakar reglur um það, sem þau kalla vistvænan landbúnað. Reglurnar eru klæðskerasaumaðar fyrir landbúnaðinn eins og hann er, svo að kostnaður verði hóflegur. En reglurnar gilda því miður bara fyrir Ísland.

Auðveldara væri að trúa góðum vilja ráðuneytisins um bætta sambúð landbúnaðar við landið, ef það væri ekki bara að finna ódýrar lausnir, heldur styddi einnig tilraunir til að gera landbúnaðinn þannig, að hann standist alþjóðlega staðla um úrvals framleiðslu.

Út af fyrir sig er gott, að minna kadmíum verði hér eftir í áburði, sem notaður er á Íslandi. Enn betra væri, ef það væri ekki sértæk aðgerð, miðuð við sértæka hagsmuni, heldur liður í víðtækum aðgerðum til að gera landbúnaðarafurðir hollari en þær eru núna.

Tíminn mun leiða í ljós, hvort sinnaskipti hafa orðið í ráðuneytinu, hvort það hafi raunverulegan áhuga á að bæta sambúð landbúnaðarins við landið, hvort það vill til dæmis styðja framleiðsluaðferðir, sem fjölþjóðlegt samkomulag er um að fái verðmæta gæðastimpla.

Gæðastimplar, sem íslenzk yfirvöld hyggjast veita, hafa einir út af fyrir sig ekki markaðsgildi og gera lítið annað en að tefja fyrir, að alvörustimplar fáist.

Jónas Kristjánsson

DV

Orð skulu standa

Greinar

Þótt margt hafi gott frá Evrópusambandinu komið og sumt frábært, einkum á sviði mannréttinda, er ekki skynsamlegt að setja allan Evrópupakkann í eins konar þýðingarvél og framleiða þar íslenzk lög og reglugerðir á færibandi án þess að hleypa að heilbrigðri skynsemi.

Dæmi um þetta eru ákvæði nýrra fjarskiptalaga um tilkynningaskyldu vegna hljóðritunar símtala. Áður en svona langsótt skylda verður að lögum, er rétt að kanna, hvort rétt sé þýtt upp úr evrópsku, hvort evrópskan sé rétt túlkuð og hver sé tilgangur ákvæðanna.

Þótt þýðingafæribandið sé ódýrt og þægilegt, þarf að hleypa að heilbrigðri dómgreind. Íslenzkur lagaprófessor hefur bent á, að það séu mannréttindi að fá að hljóðrita eigin samtöl. Hann spyr, hvers vegna þurfi að skipuleggja símtöl fólks að hætti fjarskiptalaganna.

Nýju lögin banna ekki hljóðritanir símtala, en binda þær tilkynningaskyldu, sem flækir málið og fælir fólk og fyrirtæki frá hljóðritun. Fólk þarf til dæmis að geta sett hljóðritun formálalaust af stað, þegar það heyrir dónaskap eða hótanir í síma eða býst við slíku.

Hljóðritanir símtala eru mikilvæg öryggistæki borgaranna. Þau skipta máli fyrir þá, sem sæta ofsóknum í síma, til dæmis umdeilda stjórnmálamenn. Þær eru svo sjálfsögð vörn gegn dólgum, að alls ekki á að takmarka notkun þeirra að hætti nýju fjarskiptalaganna.

Ýmsar tegundir stofnana nota hljóðritanir kerfisbundið, ýmis vegna öryggis eða nákvæmni. Samskipti lögreglu og samskipti í flugi þarf að hljóðrita af öryggisástæðum. Samskipti fjármálastofnana og samskipti fjölmiðla þarf að hljóðrita af nákvæmnisástæðum.

Hraði nútímans krefst þess, að unnt sé að taka fjárhagslegar ákvarðanir í símtölum milli fjármálastofnunar og viðskiptavina þeirra, svo að hægt sé að vísa í símtalið, ef ágreiningur kemur upp. Þetta er jafnt í þágu fjármálastofnana og viðskiptavina þeirra almennt.

Fjölmiðlar tryggja nákvæmni upplýsinga sinna með hljóðritun samtala við heimildarmenn. Hljóðritun er blaðamönnum eðlilegt vinnutæki til að tryggja, að þeir fari rétt með það, sem þeim er sagt. Þetta er í senn í þágu fjölmiðlanna og allra þeirra, sem tjá sig við þá.

Eftir gildistöku nýju fjarskiptalaganna þurfa allir þessir aðilar að gera ráðstafanir til að varðveita eðlilega notkun hljóðritunar. Það er til dæmis hægt að gera með því að spila sjálfvirka aðvörun á símsvara, áður en fólk nær sambandi við skiptiborð þessara stofnana.

Allar slíkar leiðir fela í sér tímasóun, sem hefur þann eina tilgang að fara í kringum vitlaus lög. Einfaldara væri að endurskoða lögin. Samgönguráðuneytið þarf að endurlesa evrópska textann og kanna, hvort hljóðritunarhöft séu í rauninni leið til mannréttinda.

Nútíminn er flókinn. Hann krefst hraða, öryggis og nákvæmni í samskiptum manna. Hann hefur tekið tveimur höndum stafrænni miðlun upplýsinga. Hljóðritun símtala er nauðsynleg aðferð til að koma töluðu máli í svipaðan farveg hraða, öryggis og nákvæmni.

Hljóðritanir stuðla að framgangi hins forna spakmælis, að orð skuli standa. Þær slípa gangverkið í þjóðfélaginu og auka traust í samskiptum, sjálft stoðkerfi lýðræðisins. Leiða má sterk rök að því, að lýðræði og mannréttindi hafi einmitt eflzt við tilkomu hljóðritana.

Samgönguráðuneytinu og Alþingi ber að finna leið úr ógöngunum, svo að leiða megi hljóðritanir að nýju til þess virðingarsætis, sem þeim ber í nútíma samfélagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Einleikur gegn verðbólgu

Greinar

Seðlabankinn getur lítið gert annað í vaxandi verðbólgu en að hækka vextina enn einu sinni í veikri von um, að það slái á hóflitla athafnasemi þjóðarinnar. Þetta er það stjórntæki, sem bankinn hefur til umráða í einmanalegri baráttu sinni gegn verðbólgu í landinu.

Hins vegar eru takmörk fyrir þessum einleik bankans. Vextir hans eru orðnir helmingi hærri en hliðstæðir vextir á Vesturlöndum. Vextir bankans hækkuðu um 0,4% í febrúar í fyrra, um 0,5% í júlí í fyrra, um 0,6% í september í fyrra og loks um 0,8% núna í janúar.

Tölurnar sýna, að Seðlabankinn telur sig þurfa að stíga stærri skref í hvert sinn, sem hann grípur til aðgerða. Enda hefur verðbólgan vaxið ört á tímabilinu og er komin upp í um það bil 9% hraða í janúar. Á sama tíma er verðbólga um það bil 1,5% á Vesturlöndum.

Verðbólgan í fyrra stafaði einkum af þremur þáttum, bensíni, húsnæði og mat. Bensínið lýtur að mestu erlendum verðsveiflum utan valdsviðs stjórnvalda. Aukinn húsnæðiskostnaður er hins vegar bein afleiðing hóflítillar athafnasemi, sem ríkið tekur sjálft þátt í.

Matarhækkanir eru athyglisverðar. Þær sýna, að liðin er sú tíð, að samkeppni í matvöruverzlun sé helzti bandamaður ríkisvaldsins í baráttu gegn verðbólgu. Með hringamyndun hefur myndazt fáokun í matvöruverzlun, sem veldur óeðlilegum verðhækkunum á mat.

Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt málinu mikinn áhuga. Fjármálaráðherra segir meira að segja, að ofangreind talnasaga skipti ekki máli, heldur frekari framvinda talnanna á næstu mánuðum. Þessi viðhorf benda til, að ríkisstjórnin verði fremur sein til gagnaðgerða.

Saman hafa ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir á Alþingi nýlega afgreitt fjárlög fyrir þetta ár. Þá var gott tækifæri til að spyrna gegn verðbólgunni, sem allir vissu að var komin á skrið, en það var ekki gripið. Þetta tómlæti þrengir möguleika stjórnvalda til aðgerða.

Að vísu er mikið af tekjum ríkisins af sölu eigna notað til að lækka skuldir þess. Líta má á það sem eins konar viðnám. En samt ber að hafa í huga, að í öllum rekstri er eðlilegt að sölu eigna fylgi jafnmikil lækkun skulda. Að öðrum kosti er fyrirtækið að éta eignir sínar.

Ríkið hefði átt að nota allar tekjur af sölu eigna til að lækka skuldir sínar, einkum erlendar skuldir, en ekki nota eina einustu krónu af þeim tekjum í reksturinn. Með því að lækka erlendar skuldir eru peningarnir teknir úr innlendri umferð og valda ekki verðbólgu.

Ekki verður betur séð en ríkið verði nú að nýsamþykktum fjárlögum að endurskoða þessi sömu fjárlög og lækka útgjöld eða hækka tekjur. Heppilegasta leiðin til þess er að hefja uppboð á kvótum í sjávarútvegi og nota tekjurnar til að greiða niður erlendar skuldir.

Ýmis fleiri dæmi eru um, að skammtaður sé aðgangur að takmörkuðum auðlindum eða að takmörkuðum markaði. Kvótakerfi eru víðar en í sjávarútvegi og fela öll í sér tekjufæri fyrir ríkisvaldið. Uppboð kvóta fela í sér meiri sanngirni en núverandi kvótaskömmtun.

Fjármálaráðherra fer með rangt mál, er hann segir gagnrýnendur ekki hafa bent á leiðir til úrbóta. Sumar hafa verið nefndar hér og aðrar verið nefndar annars staðar. Það vekur heldur ekki traust, að hann skuli gera lítið úr 9% verðbólguhraða þessa mánaðar.

Viðskiptalönd okkar hafa um það bil 1,5% verðbólgu. Við höfum skaða af allri verðbólgu, sem er umfram það. Ríkisstjórnin þarf að taka hana fastari tökum.

Jónas Kristjánsson

DV

Afturvirkni aðgerðaleysis

Greinar

Sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins væri Íslendingur, sennilega Halldór Ásgrímsson, ef Ísland væri aðili að sambandinu. Þegar Ísland gerist aðili, fær það ekki ráðherra, af því að reglur um ráðherra frá smáríkjum breytast með stækkun bandalagsins til austurs.

Þegar íslenzk stjórnvöld neyðast til að kanna, hver geti orðið niðurstaða samkomulags um aðild að Evrópusambandinu, munu andstæðingar aðildar nota skortinn á aðgangi að ráðherraembætti sem eina helztu röksemd sína gegn aðild Íslands að sambandinu.

Þetta er dæmi um, að gerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda geta breytt aðstæðum á þann veg, að sú leið, sem stjórnvöld hafa valið, virðist í tímans rás ekki vera eins óhagstæð og hún var, þegar ákvörðun um hana var tekin. Aðgerðaleysi framkallar sína eigin réttlætingu.

Forsætisráðherra hefur nýlega ítrekað, að ekki sé vit í að semja um aðild að Evrópusambandinu. Rökin eru hin sömu og áður, að samkomulag um fiskveiðar yrði okkur óhagstætt. Svo viss er hann í hinni sök, að ekki má einu sinni kanna, hvaða samkomulag næst í raun.

Um svipað leyti lýsti forsætisráðherra því yfir á eindreginn og raunar ofsafenginn hátt, að landauðn yrði, ef Hæstiréttur staðfestir túlkun nýgengins héraðsdóms um jafnari rétt manna til aðgangs að fiskveiðikvótum en gert er ráð fyrir í núverandi kvótareglum.

Sameiginlegt með þessum tveimur sjónarmiðum forsætisráðherra er, að hann lítur óvenjulega þröngt á málin í samanburði við sjónarmið margra annarra. Hin þröngu sjónarmið hans styðja hvort annað, því að þau byrgja honum sýn á sameiginlega lausn málanna.

Með uppboðum á leigukvótum, sem forsætisráðherra vill ekki heyra nefnd, má verða við þeim ítrekuðu ábendingum dómstóla, að fiskveiðistjórn verði að haga á betra grundvelli jafnræðis borgaranna. Þá eiga allir jafnan rétt, án þess að fórnað sé arðsemiskröfum.

Uppboð á leigukvótum leysa líka ágreining Evrópusambandsins og Íslands um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögunni. Þegar þjóðfélagið tekur sitt á þurru í leigugjaldi og setur skilyrði um löndun, má verða við óskum um erlenda hlutdeild í aðgangi að kvótauppboðum.

Uppboð á leigukvótum færa eignarhald á fiskinum í sjónum ótvírætt í hendur íslenzka samfélagsins, einnig á þeim fiski, sem erlend veiðiskip fá að veiða á grundvelli tilboða sinna í kvóta og á grundvelli tilheyrandi greiðslu þeirra á leigugjaldi til íslenzka ríkisins.

Þannig getur víð sýn á fleiri en eitt mál í senn leitt til hagstæðrar niðurstöðu í þeim öllum, en þröng sýn á sömu mál leiðir til, að menn sjá ekki möguleika á lausn. Hin þrönga sýn framkallar svo aðgerðaleysi, sem smám saman lokar fyrri möguleikum á lausn mála.

Þessa sömu stjórnunarhætti aðgerðaleysis sjáum við í ráðagerðum um Austfjarðavirkjun. Með því að framkvæma ekki lögformlegt umhverfismat á tilsettum tíma, framleiðir ríkisstjórnin tímahrak, sem hún notar til að hindra slíkt mat, sem hún telur verða óhagstætt.

Þegar henni hefur tekizt að spilla stærsta ósnortna víðerni álfunnar og grafa undan tekjum af ferðaþjónustu, getur hún notað þá útkomu til að rökstyðja ákvörðun sína afturvirkt með því að segja ferðatekjur af hálendinu ekki vera eins miklar og vondir menn hafi fullyrt.

Aðferðir forsætisráðherra henta vel í þjóðfélagi, þar sem langtímaminni fólks spannar tíu daga. Við slíkar aðstæður virðist hann oft hafa haft á réttu að standa.

Jónas Kristjánsson

DV

Ringulreið landsföðurins

Greinar

Margir hafa tjáð sig um nýjasta kvótadóminn og fáir talið hann setja efnahagslífið úr skorðum. Flestir hafa tillögur um, hvernig megi haga fiskveiðistjórn á þann hátt, að hún falli ekki hvað eftir annað fyrir dómstólum landsins. En ríkisstjórnin vill ekki lesa dómana.

Illa getur þó farið, ef ekkert er lært af dómsúrskurðum. Heimsendakenning forsætisráðherra yrði skiljanlegri, ef hann bætti framan við hana orðunum: “Ef ég geri ekkert í málinu”. En slík málsmeðferð er vandamál forsætisráðherra fremur en fiskveiðistjórnar.

Á sama hátt neitaði ríkisstjórnin að fallast á lögformlegt umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar og notaði síðan sitt eigið aðgerðaleysi sem rök fyrir því, að ekki væri tími til að framkvæma matið, því að þá væri hætt við að Norsk Hydro færi að leiðast þófið.

Aðferðin felst í að gera ekkert í málunum og stefna þeim þannig í slíkt óefni, að möguleikunum fækki í stöðunni. Þannig rekur ríkisstjórnin stefnu Fljótsdalsvirkjunar og þannig rekur hún fiskveiðistjórnarstefnu kvótaerfingjans og utanríkisráðherrans frá Hornafirði.

Svo þunnt er þetta roð, að þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði nýjasta kvótadóminn vera skýran og ekki flækja málin neitt. Það er leitun að mönnun utan ríkisstjórnar og stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem stinga höfðinu í sandinn.

Nýjasti dómurinn hlýtur að minna menn enn einu sinni á þá aðferð að halda óbreyttu kvótakerfi, en bjóða kvótann upp til nokkurra ára í senn. Sú leið mun efla arðsemi núverandi kvótakerfis og gefa öllum þeim, sem bjóða mega, jafna möguleika á að ná sér í kvóta.

Formaður útvegsmanna fordæmir þessa leið á þeirri forsendu, að kvótinn muni smám saman safnast til fárra aðila, ef uppboðsleiðin sé farin. En það hefur einmitt verið að gerast í núverandi kerfi. Með kaupum og sölum hefur kvótinn verið að færast á æ færri hendur.

Yfirleitt má segja það um öll arðbær kerfi, að þau valdi samþjöppun í atvinnulífinu. Og það hlýtur að vera hagstæðara, að slík samþjöppun gerist í leigukvótakerfi heldur en í eignarkvótakerfi. Kenning formanns útvegsmanna hittir því fyrir hans eigið hjartans kerfi.

Ef menn vilja líta til annarra sjónarmiða en arðseminnar, til dæmis til félagslegra þátta, þá er unnt að breyta hluta kvótans í byggðakvóta, hvort sem notað er núverandi kerfi eða uppboðskerfi. Í síðara tilvikinu væri hluti kvótans háður skilyrðum um löndunarhöfn.

Uppboðskerfið hefur þann kost umfram núverandi kerfi, að kostnaður byggðastefnunnar verður gagnsær. Sá hluti kvótans, sem háður væri skilyrðum, mundi fara á lægra verði en óháði hlutinn. Mismunurinn væri herkostnaðurinn af byggðastefnu, sýnilegur öllum.

Byggðakvóti er frábær leið til að sýna fram á haldleysi byggðastefnu. Sveitarfélög hafa farið þannig með sinn hlut, að öllum má ljóst vera, að núverandi byggðakvóti er ávísun á botnlausa spillingu við úthlutun. Á endanum er kvótinn seldur úr héraði og síðan vældur út nýr.

Án þess að dregið sé í efa, að ýmsar aðrar breytingar á núverandi kerfi muni vernda arðsemi útgerðar og fylgja lögum og stjórnarskrá, þá sýnist uppboð tímabundinna kvóta vera öflugasta og einfaldasta leiðin, ágætlega rökstudd af innlendum og erlendum sérfræðingum.

Eina ringulreiðin í stöðunni er sú, sem landsfaðirinn og kvótaerfinginn geta framleitt með því að lesa ekki dómsúrskurði og gera ekkert til að laga málin.

Jónas Kristjánsson

DV

Mismunað í skattheimtu

Greinar

Senn fer að koma að því, að menn skrái, hvað gjalda beri keisaranum. Ríkið heimtir mikið fé af fólki og gefur um leið færi á ýmsum undanþágum. Mikils er um vert að átta sig á, hvar tækifæri eru til lækkunar eigin skatta og að hafa aðstöðu til að nýta sér það.

Hlutur hinna ríku hefur farið batnandi í hlutfalli við aðra. Tekjur af vinnu þola hærri álagningu en tekjur af peningum og pappírum. Eignir í steypu þola hærri álagningu en eignir í peningum og pappírum. Ójafnvægi milli tekjuleiða og sparnaðarleiða hefur aukizt.

Skattkerfið bætir stöðu þeirra, sem eiga miklar eignir umfram íbúðir sínar, í samanburði við meðalfólk, sem á ekki miklar eignir umfram íbúðirnar. Af eigin húsnæði greiða menn bæði eignaskatt og fasteignaskatt. Kerfið refsar mönnum þannig fyrir að eiga steypu.

Þróunin ætti að vera í hina áttina, til aukins jafnræðis milli sparnaðarforma. Almenn ættu skattar að vera með sem minnstum og helzt engum undantekningum, því að þannig verður skattprósentan lægst. Á því græða allir, sem hafa lítil færi á skattalegum útúrdúrum.

Þjóðfélagið væri í senn réttlátara og arðsamara, ef hér væri 18% flatur virðisaukaskattur, 25% flatur tekjuskattur og 1% flatur eignaskattur. Þetta væri hægt, ef undantekningar væru afnumdar. Ríkið fengi raunar meiri tekjur en áður, því að undanbrögð mundu minnka.

Einnig væri gagnlegt, ef horfið yrði frá því að nota skatta sem tæki til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og þeir einskorðaðir við tekjuöflunina. Tekjujöfnun á að reka á annan hátt, einkum með greiðslum á vegum Tryggingastofnunar til skilgreindra velferðarhópa.

Tekjujöfnun ríkisins á að felast í ellilaunum, örorkulaunum, barnalaunum og atvinnuleysislaunum. Þjóðfélagið á að ákveða, hver eiga vera kjör þeirra, sem ekki hafa fullar eigin tekjur, og reka þá kjarajöfnun í sérstöku launakerfi, en ekki rugla með því skattkerfið.

Þegar hér er talað um flata skatta, er átt við eina prósentutölu í hverjum skatti, án tillits til upphæðar og án tillits til uppruna. Þannig ættu tekjur af peningum að skattleggjast eins og tekjur af vinnu og eign í pappírum að skattleggjast eins og eign í steypu.

Ennfremur er hér átt við, að ekki sé sett gólf á skattstofna, heldur byrji skattar að telja frá fyrstu krónu. Þannig borgi menn sama tekjuskatt af öllum sínum tekjum og öllum tegundum tekna, en njóti á móti mun lægri skattprósentu en menn þurfa nú að þola.

Flestir mundu vilja borga 18% virðisaukaskatt í stað 24,5%, 25% tekjuskatt í stað 40% og 1% eignaskatt í stað 1,45%, þótt á móti komi afnám undantekninga, sem hér hefur verið rakið. Kerfið yrði einfaldara og réttlátara, arðsamara og gegnsærra, venjulegu fólki til góðs.

Skattar eru ekki vinsælir. Nauðsynlegt er, að fólk finni, að allir séu jafnir fyrir þeim. Því hlutlausari sem skattar eru, þeim mun minni óbeit hafa menn á þeim. Sérstaklega er mikilvægt, að fólk finni, að ekki sé verið að hygla sérhópum á kostnað alls almennings.

Öll frávik frá flötum og hlutlausum skattprósentum eru um leið frávik frá eðlilegum markaðsbúskap hagkerfisins. Þau fela í sér tilraun stjórnvalda til að deila og drottna, umbuna sumum á kostnað annarra. Þau eru afurð stjórnlyndis, sem hagfræði nútímans hafnar.

Fyrir löngu er orðið úrelt, að ríkisvaldið sé að reyna að stýra þróun með hvatningu hér og hindrun þar. Bezt er að láta markaðsöflin sjálf um að velja sér farvegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Seðlabankastjóri

Greinar

Seðlabankastjórar alvöruríkja eru yfirleitt hálærðir menn, en ekki aflóga pólitíkusar. Þetta kom greinilega fram í skrá yfir erlenda seðlabankastjóra, sem birtist hér í fjölmiðlum snemma vetrar. Þeir koma ekki blóðugir upp að öxlum úr persónupólitíkinni.

Í mestu alvöruríkjunum er seðlabankastjórinn aðeins einn. Svo er til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem traust manna á algerlega sjálfstæðum seðlabankastjóra skiptir efnahagslífið og einkum þó verðbréfamarkaðina meira máli en traust manna á sjálfum forseta landsins.

Með því að gera ráð fyrir auglýsingum eftir umsóknum um starf seðlabankastjóra gerir íslenzki löggjafinn ráð fyrir, að einhvers konar úrval eigi sér stað fyrir opnum tjöldum, svo að traust manna á embættinu megi vera mikið, eins og þar er til dæmis í Bandaríkjunum.

Ef veitendur embættisins velja eigi að síður úr eigin hópi mann, sem stendur öðrum umsækjendum langt að baki, er lausnin ekki sú, að breyta lögum á þann hátt, að óþarft sé að auglýsa starfið og hin séríslenzka spilling kotríkisins öðlist eins konar opinbera viðurkenningu.

Forsætisráðherra hefur talað eins og það sé eitthvert náttúrulögmál, að seðlabankastjórar komi úr hópi aflóga stjórnmálamanna. Þetta er rangt. Forsætisráðherra er ekki handbendi örlaganna, heldur hefur hann skipunarvaldið og getur beitt því í samræmi við góða siði.

Forsætisráðherra er ekki stikkfrí í málinu. Hann valdi Finn Ingólfsson í starfið sem hluta af samkomulagi stjórnarflokkanna um helmingaskipti í aðgangi að kjötkötlum ríkisins. Hann ber sjálfur ábyrgð á, að maður, sem ekki nýtur trausts, er orðinn seðlabankastjóri.

Iðnaðarráðaherrann hafði verið með harðskeyttustu stjórnmálamönnum landsins, hafði olnbogað sig upp valdastiga Framsóknarflokksins með því að valta yfir þekkt flokksfólk. Er hann var orðinn ráðherra, rak hann sjálfan ráðuneytisstjórann umsvifalaust úr starfi.

Slíkt er einsdæmi og hafði ráðuneytisstjórinn raunar ekki unnið sér neitt til saka. Finnur Ingólfsson vildi hins vegar skapa sér betra svigrúm í ráðuneytinu og sveifst einskis til þess. Hann gekk lengra en nokkrum ráðherra hefur dottið í hug á síðustu áratugum stjórnmálanna.

Eftir alla framgöngu sína segir ráðherrann, að sér hafi fundizt næða of mikið um stjórnmálamenn í síðustu kosningum! Hann telur sig sem sagt sjálfur mega fara fram með ofbeldi, en fer síðan að væla, þegar gerð er hríð að honum og formanni flokksins í kosningum.

Seðlabankinn er enginn staður fyrir pólitíska slagsmálahunda og ekki heldur fyrir aflóga eintök af því tagi. Að vísu er frábært að losna við iðnaðarráðherrann úr stjórnmálunum og koma honum fyrir á stað, þar sem ekki er svigrúm til pólitískra ofbeldisverka.

Eðlilegra hefði samt verið að maður á aldri ráðherrans færi út á vinnumarkaðinn og reyndi þar fyrir sér, þótt ekki nema til að sýna fram á, að hann sé ekki orðinn aflóga fyrir miðjan aldur. Með sama framhaldi verður fljótlega þurrð á feitum embættum í ríkiskerfinu.

Sem seðlabankastjóra á að ráða valinkunna og varkára, óumdeilda og virðulega háskólakennara, stjórnendur fjármálastofnana eða yfirmenn úr Seðlabankanum sjálfum, svo að þjóðfélagið telji embættið skipta miklu máli og að það sé engin skiptimynt í hrossakaupum.

Ferill ráðherrans og skipun hans í stöðu seðlabankastjóra með handafli forsætisráðherra er skýrt dæmi um, að kjósendur hafa gert Ísland að bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Ómar Ragnarsson

Greinar

Fram eftir tuttugustu öldinni skilgreindu tunga og saga okkur sem þjóð og voru hornsteinn tilveru okkar. Þetta var okkur innprentað í kennslubókum, einkum Íslandssögu Jónasar frá Hriflu, eindregið stutt af flestum, sem telja mátti til menningarvita og athafnamanna.

Þegar leið á öldina, fóru þessi tengsl að dofna, meðal annars vegna framfara og auðsældar í landinu. Íslendingar fóru að trúa á mátt sinn og megin og töldu sig margir hverjir ekki þurfa hækjur úr fortíðinni. Þjóðernislegt rótleysi var fylgifiskur breytinganna.

Nú við aldarlok hefur snögglega aftur komizt á eins konar ómeðvitað samkomulag menningarvita og athafnamanna um, að þjóðin hafi hornstein. Þennan hornstein finna þeir í ósnertri náttúru hálendisins, sem tekið hefur á sig dulúðugan helgiljóma landvættanna.

Ein birtingarmynd þessa samkomulags er fyrirhafnarmikill gerningur listamanna, sem settu niður texta fyrsta erindis þjóðsöngsins, greyptan í steina, á fyrirhuguðu stíflusvæði Eyjabakkalóns. Á táknrænan og myndrænan hátt voru Eyjabakkar teknir í fóstur þjóðarinnar.

Vel stæðir athafnamenn standa nú fyrir söfnun tugþúsunda undirskrifta, studdir þekktustu nöfnum þjóðarinnar. Nánast allir vilja skrifa undir, nema þá bagi austfirzkur uppruni eða flokkspólitískur tilvistarvandi. Þjóðin hefur sameinazt í stuðningi við óséð landsvæði.

Ferðahópar hálendisins styðja hin ósnortnu víðerni, hvort sem þeir fara þangað í flugvélum eða jeppum, vélsleðum eða hestum eða bara á eigin fótum. Þessir afar ólíku ferðahópar eiga fátt annað sameiginlegt en tilfinninguna fyrir dularmagni íslenzkra óbyggða.

Einn maður stendur öðrum fremur að baki þessara nýju viðhorfa. Það er Ómar Ragnarsson fréttamaður, sem hefur í heilan áratug verið að sýna okkur hálendið og lýsa því fyrir okkur á tungumáli, sem flestir skilja, hvar í framangreindum hópum sem þeir standa.

Sífelldar ferðasögur Ómars hafa síazt inn í þjóðarvitundina. Hann hefur ekki verið að prédika neitt, bara verið að rabba við fólk á máli, sem það skilur. Frásögn hans hefur í vaxandi mæli einkennzt af djúpri virðingu fyrir óbeizluðum krafti og fagurri birtu íslenzkra öræfa.

Nýútkomin bók Ómars, Ljósið yfir landinu, gefur okkur samþjappaða innsýn í áhrifamátt frásagna hans, allt frá tæknilegum smáatriðum ferðamennskunnar yfir í lýsingar hans á fegurð og ógn hinnar ósnortnu víðáttu. Fornir landvættir eru þar hvarvetna á stjái.

Ómar hefur ekki einn og óstuddur breytt grundvallarsjónarmiðum Íslendinga og fært okkur nýjan hornstein, nýja viðmiðun. Margir hafa átt hlut að máli. En þáttur Ómars er langsamlega stærstur. Hann er aldamótamaður nútímans og eins konar spámaður nýrrar aldar.

Seint og um síðir hafa gæzlumenn úreltra hagsmuna í ríkissjónvarpi Sjálfstæðisflokksins áttað sig á, hversu hættulegur er spámaðurinn. Vinsæl sjónvarpsþáttaröð Ómars um þjóðgarða og víðerni í Bandaríkjunum og á Íslandi hefur því verið fryst í miðjum klíðum.

Vegna fréttaþátta Ómars erum við farin að átta okkur á, að við eigum ekki Eyjabakka og getum ekki veitt Alþingi umboð til að fara með slíkt eignarhald. Eyjabakkar eru eign ófæddra afkomenda okkar. Hlutverk okkar er það eitt að skila þeim ósnortnum til framtíðarinnar.

Eftir tímabil rótleysis getum við aftur skilgreint okkur. Nú eru það landvættir, er hafa tekið við hlutverki, sem hafði reynzt vera tungu og sögu um megn

Jónas Kristjánsson

DV

Illindi leysa sættir af hólmi

Greinar

Síðustu ár tuttugustu aldar hefðu átt að geta verið pólitískt friðsæl hér á landi. Fennt hafði yfir ýmsan ágreining, sem varð tilefni núverandi flokkaskipunar í stjórnmálum. Hugtök á borð við hægri og vinstri höfðu dofnað og eru núna varla nema svipur hjá fyrri sjón.

Fjórflokkurinn varð til fyrir mörgum áratugum og er við beztu heilsu undir lok aldarinnar. Samt eru grundvallaratriði skipulagsins meira eða minna grafin í gleymsku. Þótt flokkarnir hafa misjafna afstöðu í sumum málum, eru það ekki hefðbundnu ágreiningsefnin.

Að baki eru ýmsar deilur, sem áður klufu þjóðina. Kalda stríðinu er lokið. Afstaðan til Atlantshafsbandalagsins skiptir fólki ekki lengur í fylkingar. Deilur um utanríkismál eru sáralitlar aðrar en um viðhorfið til Evrópusambandsins, sem er nýlegt fyrirbæri.

Lokið er þorskastríðum og lagðar af landhelgisdeilur við Breta og Norðmenn. Samningaferill og tæknilegar útfærslur skiptu þjóðinni stundum í fylkingar fyrr á árum og áratugum. En þjóðin lifir núna í sátt við niðurstöður þessara mála og hyggst gera það áfram.

Almenni vinnumarkaðurinn er hættur að vera verksvið átaka. Forustumenn stéttarfélaga hafa tekið trú á stöðugleikann sem hornstein lífskjara félagsmanna sinna og vilja sízt af öllu rugga bátnum. Þeir kvarta um tillitsleysi stjórnvalda, en gera ekkert í málunum.

Almennt má segja um hvort tveggja, grundvallaratriði flokkaskipulagsins og síðari tíma sérmál, að sátt hefur náðst í þjóðfélaginu og tekið broddinn úr deilunum. Menn hafa þjarkað fram og aftur og fundið millileiðir, sem eru eitt helzta einkenni lýðræðisríkja nútímans.

Samt logar allt í illdeilum í þjóðfélaginu undir lok aldarinnar. Ný mál hafa komið til sögunnar og klofið þjóðina í fylkingar. Meðal þeirra eru gjafakvóti, Kárabanki og Eyjabakkar, allt saman dæmigerð sérmál, sem áður kölluðu á pólitíska lagni við lausn deilna.

Meirihluti þjóðarinnar hefur verið andvígur gjafakvóta í fiskveiðum og eyðingu Eyjabakka og mjög stór og rökfastur minnihluti hefur verið andvígur því, að sjúkraskrár þjóðarinnar væru gefnar. Áður fyrr hefðu svona fjölmenn og öflug sjónarmið leitt til millileiða.

Með auknum aflaheimildum hefði verið hægt að úthluta viðbótinni í samræmi við gagnrýni á gjafakvótann, bjóða hana upp eða afhenda sjávarplássum. Verðleggja hefði mátt sjúkraskrár, svo að þjóðfélagið fengi beinan hagnað af því að afhenda verðmæti til afnota.

Bent hefur verið á ýmsar millileiðir í málum Eyjabakka, allt frá virkjun jarðhita yfir í verðlagningu umhverfisþátta. Ekki hefur verið stiginn millimetri til móts við slíkar hugmyndir, ekki einu sinni fallizt á, að Norsk Hydro væri gefið færi á að skýra tvísagnir.

Sá er nefnilega munur núverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og allra annarra ríkisstjórna í manna minnum, að þær fyrri voru hallar undir málamiðlanir og sættir í ágreiningsefnum, en þessi ríkisstjórn nærist og dafnar beinlínis af spennu og illindum í þjóðfélaginu.

Sumpart stafar þetta af, að stjórnmálamenn hafa áttað sig á, að menn taka sem kjósendur ekkert mark á eigin skoðunum sem borgarar. Flokksmenn halda áfram að kjósa foringja sína, þótt þeir taki ekkert tillit til skoðana þessara flokksmanna. Málefni kljúfa ekki flokka.

Þar sem nógu margir Íslendingar hafa þörf fyrir að láta kúga sig, fá þeir leiðtoga, sem uppfylla þessa þörf. Þess vegna ríkja illindi í þjóðfélaginu, en ekki friður.

Jónas Kristjánsson

DV