Áður lífleg umræða um eyðingu Eyjabakka hefur breytzt í eintal þeirra, sem eru andvígir ýmsum eða öllum þáttum Fljótsdalsvirkjunar og álvers á Reyðarfirði. Stuðningsmenn framkvæmdanna láta lítið á sér bera, enda hafa þeir rækilega verið kveðnir í kútinn.
Að undanförnu hafa engir málsmetandi menn og nánast eingöngu hagsmunaaðilar tekið til máls til stuðnings framkvæmdunum. Það er Landsvirkjun og starfsmenn hennar, sveitastjórnarmenn í Fjarðabyggð og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi.
Af hálfu stuðningsfélags virkjunarinnar fyrir austan hafa andstæðingarnir verið skilgreindir. Það eru snobbar og grænmetisætur í þéttbýli, þeir sem eru kunnir erlendis fyrir list eða kaupsýslu á sviði þekkingargreina og annað fólk, sem hefur misst átthagatengsl.
Eyjabakkamálið er raunar einstakt fyrir þá sök, að á annan veg tala nánast allir, sem óvenjulega miklum árangri hafa náð í menningu og sérþekkingu á ýmsum sviðum, en hinn flokkinn skipa starfsmenn hagsmunaaðila og nokkrir ölmusumenn af Austurlandi.
Þessi staða skiptir Alþingi auðvitað engu máli. Langt er síðan ljóst var, að staðfesting framkvæmdanna yrði samþykkt þar með nánast öllum styrk stjórnarflokkanna. Þingmenn hafa gengisfallið, en að öðru leyti heldur flokksbundið líf Alþingis sinn vanagang.
Tveir þingmenn Suðurnesja hafa beðið siðferðishnekki. Annar er formaður iðnaðarnefndar Alþingis, Hjálmar Árnason, sem hindraði, að Norsk Hydro fengi tækifæri til að útskýra fyrir nefndinni, hvað fyrirtækið ætti við með misvísandi yfirlýsingum sínum.
Hinn er Kristján Pálsson, sem notaði stuðning sinn við Eyjabakka sérstaklega til að koma sér inn á þing í vor, en hefur að fengnum stuðningi kjósenda snúið við blaðinu og það án þess að fá 30 silfurpeninga ráðherradóm að launum eins og Siv Friðleifsdóttir fékk þó.
Málið hefur skýrzt. Gífurlegur taprekstur verður á orkuverinu með tilheyrandi verðhækkunum hjá almennum notendum. Norsk Hydro ætlar enga ábyrgð að taka á rekstri álversins, en hafa velferð þess í hendi sér með því að sjá því bæði fyrir aðföngum og afurðasölu.
Framkvæmdirnar verða olía á eld ört vaxandi verðbólgu í landinu og grafa undan margvíslegum öðrum og arðbærum athöfnum, sem krefjast efnahagslegs stöðugleika. Framkvæmdirnar eru ekkert annað en hefðbundin byggðastefna í ýktu og áður óþekktu magni.
Andófið mun halda áfram, þótt Alþingi fallist á framkvæmdirnar. Norsk Hydro mun í auknum mæli koma upp um sig og standa í eldlínunni, enda hefur fyrirtækið leikið tveimur skjöldum og gefið misvísandi yfirlýsingar, sem henta aðstæðum hverju sinni.
Andófið mun sennilega einnig beinast að íslenzkum lífeyrissjóðum, sem hyggjast fara með sparifé sjóðfélaga inn í spilavítið hjá Norsk Hydro og leyfa því að ákveða áhrif hækkana í hafi á gengi hlutabréfa í álverinu. Aðild lífeyrissjóðanna er glórulaus trúgirni og einfeldni.
Atkvæðagreiðslan á Alþingi er kjósendum þung áminning. Svona fer, þegar kjósendur taka ekki atkvæðisrétt sinn alvarlega og taka ekki afleiðingum eigin skoðana. Búið verður að eyðileggja Eyjabakka, þegar tækifæri gefst til að refsa skillitlum þingmönnum.
Engu máli skiptir, þótt með rökum sé valtað kruss og þvers yfir ölmusumenn og aðra gæzlumenn hagsmuna. Eyðing Eyjabakka færist óðfluga nær veruleikanum.
Jónas Kristjánsson
DV