Greinar

Samfylkingin sefur og sefur

Greinar

Samfylkingin þarf strax að taka sig í gegn, koma straumlínulagi á málefni sín og velja sér nýja forustu. Lýðræðið gerir ráð fyrir, að stjórnarandstaða sé virk og geti veitt stjórnvöldum aðhald, en Samfylkingin liggur meira eða minna í dvala vikum og mánuðum saman.

Vandi Samfylkingarinnar felst ekki í, að fólk og fjölmiðlar tali um þetta og furði sig á niðurlægingu hennar. Vandi hennar felst í niðurlægingunni sjálfri, en ekki í umtali annarra um hana. Því miður er algengt, að fólk og félög í afneitun rugli þessu tvennu saman.

Samfylkingin er í afneitun. Forustusveit hennar og virkir félagsmenn neita að horfast í augu við raunveruleikann og kenna öllum öðrum um, hvernig fyrir henni er komið. Fjölmiðlarnir eru sagðir vondir við hana og ekki sýna henni næga biðlund og skilning.

Ekklar og ekkjur geta komizt upp með sálgæzluþvælu af þessu tagi, en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn kemst ekki upp með að velta sér upp úr skorti á biðlund og skilningi annarra. Ríkisstjórnin er í ýmsum vondum málum, sem kalla strax á virka stjórnarandstöðu.

Formaður Samfylkingarinnar var vel látin og vinsæl, en hefur greinilega ekki heilsu og úthald til að standa í daglegri varðstöðu og eftirliti. Vikum saman er hún meira eða minna frá vinnu og hefur þess á milli lítið frumkvæði, svarar bara spurningum fjölmiðla.

Samfylkingin hefur sem stjórnmálaafl nánast óheftan aðgang að fjölmiðlum. Hún þarf talsmann, sem heldur daglega uppi umræðu og andófi. Núverandi ástand er með öllu óþolandi og hefur þegar leitt til, að Græna vinstrið er tekið við sem eiginleg stjórnarandstaða.

Seinagangur Samfylkingarinnar við að ganga frá skipulagsmálum sínum og forvera sinna er öllum ljós, sem á horfa. Flokkar og fyrirtæki eiga ekki að tala um biðlund og skilning, heldur taka til hendinni. Annars koma aðrir og taka upp merkið. Þannig er lífið.

Það gengur ekki, að sveitir gamalla forustumanna úr hálfdauðum og dauðum stjórnmálaflokkum vafri um í nafni Samfylkingarinnar og tali út og suður um málefni hennar og þjóðarinnar, hver með sínu kreddunefi. Fólk missir trú á pólitík, sem birtist á þennan hátt.

Stjórnarandstaða felst í mörgu fleiri en þátttöku í málfundum Alþingis hluta úr ári. Allt árið þarf daglega að koma sjónarmiðum á framfæri í fjölmiðlum og á fundum um allt land. Þegar Alþingi situr ekki, á að vera góður tími til að sinna slíkum þáttum stjórnarandstöðu.

Samfylkingin hefur sóað tíma sínum í ársþriðjung. Hún hefur hreinlega legið í dvala í allt sumar. Hún virðist engu nær um samræmingu sjónarmiða og hún virðist engu nær um það, hver eigi að taka að sér að leiða hana og hafa forustu um stjórnarandstöðu.

Á meðan lekur niður traust fólks á öllum, sem koma að forustu Samfylkingarinnar eða eru orðaðir við hana. Margrét Frímannsdóttir er komin í mínus í könnunum, sömuleiðis Jóhanna Sigurðardóttir og hillingin mikla í eyðimörkinni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Annað forustufólk Samfylkingarinnar kemst ekki á blað, jafnvel ekki það, sem er á kaupi hjá ríkinu sem stjórnmálamenn árið um kring. Fundarsalir og fjölmiðlar eru lausir árið um kring. Lífið í landinu leggst ekki í dá. Það er bara Samfylkingin sem sefur og sefur.

Sumir áhrifamenn í Samfylkingunni hafa séð þetta, en tala fyrir daufum eyrum þeirra, sem eru svo ánetjaðir afneituninni, að þeir sjá ekki eymdina og volæðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Saumað að tóbaki

Greinar

Þriggja áratuga rannsókn á rúmlega tuttugu þúsund Íslendingum hefur sýnt, að reykingar eru ein helzta dánarorsök landsmanna. Samanburður reykingafólks og reykleysingja sýnir, að tóbak veldur ekki aðeins krabbameini, heldur líka hjarta- og æðasjúkdómum.

Rannsóknin sýnir, að reykingar margfalda líkur á ótímabærum dauða. Þær auka einnig líkur á ömurlegum aðdraganda dauðans, þar á meðal uppskurðum, lyfjameðferðum og langlegum, því að sjúkdómarnir, sem tóbakið framkallar, eru ekki lambið að leika sér við.

Sagan um glataða soninn í Biblíunni fær byr undir báða vængi í rannsókninni. Þeir, sem hætta að reykja, hreinsast að innan og bæta mörgum heilbrigðum árum við ævi sína. Þetta gildir um alla aldurshópa, en græddu árin eru því fleiri, sem menn hætta fyrr að reykja.

Hins vegar er hægar sagt en gert að hætta að reykja eins og margir þekkja. Nikótínið í tóbaki er eitt allra skæðasta fíkniefni, sem þekkist. Það ánetjar menn hratt og heldur fast í þá. Alkóhól og ýmis ólögleg fíkniefni eru ekki eins vanabindandi og tóbakið.

Krabbameinsfélagið, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og ýmsir aðrir halda námskeið fyrir þá, sem vilja hætta að reykja. Sjálfsagt er fyrir fólk að fá sérfræðilega aðstoð af slíku tagi, ef reynslan sýnir, að ekki ganga upp tilraunir þess til að hætta að reykja af eigin rammleik.

Umburðarlyndi umhverfisins gagnvart tóbaki fer ört minnkandi. Á flestum vinnustöðum má ekki lengur reykja. Víða eru heilu húsin reyklaus og sums staðar má ekki heldur reykja á lóðunum. Fólk er farið að tala opinskátt um vondu lyktina af reykingafólki.

Bannað er að auglýsa tóbak hér á landi, en nýliðar komast í tæri við erlendar auglýsingar, sem sýna glansmynd af Marlboro-manninum, er síðan dó kvalafullum dauða úr krabbameini. Þannig fylla nýir tóbaksþrælar skörð þeirra, sem hætta eða veslast upp.

Í Bandaríkjunum hafa verið lögð fram rækileg og fjölbreytt gögn, sem sýna, að tóbaksframleiðendur hafa áratugum saman vitað um skaðsemi tóbaks og meira að segja haft samráð um að auka nikótínið í tóbakinu til að fíknin nái sem fyrst tökum á nýliðum í reykingum.

Með stórfelldum greiðslum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hefur tóbaksfyrirtækjum til skamms tíma tekizt að stunda glæpi sína í skjóli stjórnmálanna, einkum í Bandaríkjunum, en einnig í Evrópu. Nú eru teikn á lofti um, að múturnar dugi ekki lengur.

Með rúmlega 200 milljarða dollara dómsátt hefur tóbaksfyrirtækjunum tekizt að forða sér frá dómi í máli, sem samtök ríkja í Bandaríkjunum höfðuðu gegn þeim. Einstaklingar og samtök einstaklinga eru farin að vinna tugmilljóna dollara skaðabætur í málaferlum.

Nú er sjálf Bandaríkjastjórn komin á vettvang og krefst skaðabóta fyrir útlagðan heilbrigðiskostnað af völdum reykinga. Þar er um að ræða 500 milljarða dollara kostnað á aldarfjórðungi. Því er að þrengjast hringurinn um fíkniefnagreifa tóbaksiðnaðarins.

Stjórnvöld á Vesturlöndum geta varla vikizt undan almennu banni við tóbaksauglýsingum. Á endanum komast þau ekki heldur hjá því að sækja ráðamenn tóbaksfyrirtækjanna til persónulegrar ábyrgðar fyrir eindreginn brotavilja þeirra, skjalfestan í gögnum.

Hér á landi vakna spurningar um málsaðild ríkisvaldsins, sem hefur heildsölu eins eitraðasta fíkniefnis veraldar að meiriháttar tekjulind ríkissjóðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Ógnvaldur beygir sig

Greinar

Forsætisráðherra varð að beygja sig. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins verður seldur í opnu útboði, þar sem hver aðili eða hópur skyldra aðila má ekki kaupa meira en 6%. Þetta þýðir, að fleiri aðilar en kolkrabbinn einn geta tekið þátt í að bjóða í hlutabréfin.

Forsætisráðherra hafði sagt, að skammta bæri aðgang að kaupunum með forvali og að selja bæri 51% bankans til samstæðs hóps. Þetta var ávísun á, að kolkrabbinn einn, undir forustu Eimskipafélagsins, hefði burði til að bjóða í bréfin. Þetta var gamla einkavinavæðingin.

Skoðun forsætisráðherra var sett fram sem viðbrögð við sölu Kaupþings og sparisjóðanna á fjórðungi bankans til fyrirtækja utan kolkrabbans. Forsætisráðherra var að segja fjármálafólki, að hann gæti með handafli stýrt einkavæðingunni í farveg einkavinavæðingar.

Það eina, sem situr eftir af innrás forsætisráðherra í bankageirann, er ákvörðun um að selja afganginn af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í einu lagi. Áður hafði verið gert ráð fyrir, að það yrði gert í áföngum til að fjölga bjóðendum og hækka tilboð þeirra.

Athyglisvert er, að togstreitan um aðferðafræði einkavæðingarinnar snýst ekki um, hvernig megi fá sem mesta peninga í ríkiskassann, heldur hvernig megi haga handafli á þann hátt, að sumir hafi betri aðstöðu en aðrir til að bjóða í hlutina. Þannig er Ísland enn.

Forsætisráðherra hefur í vaxandi mæli leikið hlutverk ógnvalds. Hann vill hafa neitunarvald um skipun mikilvægustu starfa atvinnulífsins og geta skipað fyrirtækjum landsins til sætis við veizluborð leifanna af skömmtunarkerfi fyrri áratuga. Annars reiðist hann.

Margir skjálfa af tilhugsun um reiði forsætisráðherra. Þeim fer þó fjölgandi, sem kæra sig kollótta um, hvort þeir séu í náðinni eða ekki. Atvinnulífið er orðið svo fjölbreytt, að einn kolkrabbi og einn forsætisráðherra geta ekki lengur ráðið ferðinni í stóru og smáu.

Samkvæmt skoðanakönnunum er almenningur ánægður með núverandi forsætisráðherra, sem sameinar hlutverk landsföður og ógnvalds. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, að Davíð Oddsson geti skipað þetta virðingarsæti eins lengi og hann kærir sig um.

Þjóðfélagið hefur hins vegar breytzt svo mikið, að allt vald er ekki lengur á einum stað. Landsfeður geta ekki lengur skammtað aðgang að öllum kjötkötlum, sem máli skipta. Þeir geta ekki stýrt umræðunni í þjóðfélaginu. Þeir geta bara ráðið vini sína í opinber embætti.

Hlutfallslegt vægi ríkisvaldsins hefur minnkað. Menn geta leyft sér að sitja ekki og standa eins og forsætisráðherra skipar fyrir. Auðvitað reiðist hann, þegar valdið sáldrast niður milli fingra hans og hótanir um handafl ganga ekki lengur upp. En lífið heldur áfram.

Valddreifingin í þjóðfélaginu minnkar ekki einokun og fáokun á hverju sviði fyrir sig. En hún dregur þræðina úr höndum hinna fáu útvöldu og dreifir þeim á fleiri hendur. Lýðræði skánar og þjóðarhagur eflist við fjölgun á miðstöðvum valda og ákvarðana í þjóðfélaginu.

Opið útboð og reglur um hámarkskaup skyldra aðila í sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er dæmi um, að stjórnmálin eru að missa tökin á fjármálunum og að hugsanlegt er orðið, að einkavinavæðingin breytist smám saman í einkavæðingu að útlendum hætti.

Menn hafa heyrt hótanir landsföðurins um beitingu handafls og dregið sínar ályktanir. Þegar brestir hlaupa í ógnvaldið, hljótast af því keðjuverkanir.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólguspár eldast illa

Greinar

Í upphafi þessa árs spáðu Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun um 2,5% verðbólgu á árinu öllu. Þá þegar taldi DV í leiðara þessar spár vera rangar, sagði verðbólguna örugglega mundu fara mun hærra, hugsanlega yfir 5%. Nú er ljóst, að verðbólgan fer yfir 6% á þessu ári.

Í leiðara DV var sagt, að Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun væru húsbóndahollar stofnanir, sem ekki vildu valda ríkisstjórninni erfiðleikum í aðdraganda alþingiskosninga. Þjóðhagsstofnun svaraði gagnrýninni fullum hálsi, en svör hennar hafa reynzt vera ómerk orð.

Samfylkingin reyndi að gera verðbólguna og innflutningshallann að kosningamáli í vor, en uppskar ekki annað en aðhlátur úr Háskólanum, þar sem helzti brandarakarlinn hefði mátt vita betur. Enginn vildi frekar en venjulega hlusta á boðbera válegra tíðinda.

6% verðbólga í umheimi 2% verðbólgu er mjög alvarlegt mál, þótt sumum henti pólitískt að loka augunum fyrir því. Eftir áramótin hefjast kjarasamningar að nýju og þá munu forkláruðustu bjartsýnismenn sjá, að óhófleg verðbólga hleður upp óþægilegum vandamálum.

Það eina, sem hefur farið öðruvísi en sjá mátti fyrir í janúar þessa árs, er hækkun benzínverðs á alþjóðamarkaði. Sú hækkun er þó ekki meiri en svo, að hún nemur ekki einu sinni mismuninum á 5% og 6% hækkun. Ríkissjóður hefur hins vegar magnað hana með skatti.

Fyrir utan benzín- og fasteignaverð sker verðhækkun matvæla í augu. Þau hafa hækkað um 6% á einu ári. Sú hækkun var fyrirsjáanleg, enda hefur DV nokkrum sinnum varað við því í leiðurum, að aukin fákeppni á matvörumarkaði mundi magna verðbólguna í landinu.

Samráðin í fákeppni matvörumarkaðarins felast í að halda prósentubilum milli tegunda verzlana eftir þjónustustigi þeirra, en ýta öllu verðlaginu svo hægt upp á við, að enginn taki eftir því meðan það er að gerast. Þannig hefur matvara hækkað um 6% á einu ári.

Forsætisráðherra hefur af annarlegum ástæðum tekið undir þessa lýsingu á ástandi matvörumarkaðarins. Það hentar honum að sjá með röntgenaugum, þegar meintir óvinir eru að maka krókinn, en setja kíkinn jafnan fyrir blinda augað, þegar kolkrabbinn þarf að fita sig.

Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn áttu í ársbyrjun að geta séð fram á meginhluta fasteignaverðbólgunnar, alla matvöruverðbólguna og hluta benzínverðbólgunnar. Verðbólguspár þessara stofnana í upphafi árs stöfuðu annað hvort af fáfræði eða húsbóndahollustu.

Nú er fyrri forstjóri kominn aftur til Þjóðhagsstofnunar og eðlilegri hljóð farin að heyrast þaðan. Þar og annars staðar eru menn sammála um, að verðbólgan sé orðin svo grafalvarleg, að stjórnvöld þurfi að grípa til aðgerða til að hægja á framkvæmdagleði þjóðarinnar.

Þegar er ljóst, að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun og Reyðarfjarðarálver verða eins og eldur á olíu núverandi verðbólgu. Þessar framkvæmdir eru því þjóðhagslega óhagkvæmar um þessar mundir, burtséð frá kenningum um, að þær séu almennt séð úreltar og ekki vistvænar.

Vextir eru óhjákvæmilega farnir að hækka og munu halda áfram að hækka, þótt vaxtastig sé hér þegar komið himinhátt yfir það, sem þekkist í nágrenninu. Með háum vöxtum á að dempa framkvæmdagleðina. Þetta er gamalkunnugt lyf, sem hefur miklar aukaverkanir.

Við verðum á næstu misserum að borga brúsann af of lágum verðbólguspám í byrjun kosningaárs og tilheyrandi frestun aðgerða fram í óefni líðandi stundar.

Jónas Kristjánsson

DV

Áður óþekktar óvinsældir

Greinar

Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra má vel við una þessa dagana. Óvinsældir hennar sem stjórnmálamanns eru að vísu töluverðar, en hafa á síðustu misserum algerlega horfið í skugga feiknarlegra óvinsælda tveggja annarra ráðherra Framsóknarflokksins.

Finnur Ingólfsson orkuráðherra og Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra búa við meiri óvinsældir en áður hafa þekkzt í skoðanakönnunum. Álit fólks á þeim er nærri eingöngu neikvætt. Þau eru ekki umdeild eins og Davíð Oddsson, heldur hreinlega afskrifuð.

Finnur Ingólfsson hefur unnið fyrir óvinsældum sínum á löngum tíma með gegndarlausri stóriðjuþrjózku, sem senn mun leiða til mesta umhverfisslyss aldarinnar hér á landi. Hann starfar í skjóli flokksformannsins, sem beitir honum fyrir sig í Fljótsdalsvirkjun.

Siv Friðleifsdóttir siglir hins vegnar inn í sviðsljósið beint á botninn. Hún keypti ráðherradóminn því verði að skipta um skoðun á umhverfismati Fljótsdalsvirkjunar. Hún má varla opna munninn án þess að tapa fylgi, svo ógætin er hún í innantómum fullyrðingum.

Svo óvinsæl eru þau tvö, að samanlagðar óvinsældir annarra stjórnmálamanna komast ekki í hálfkvisti við þau tvö. Er þá undanskilinn Davíð Oddsson, enda falla miklar óvinsældir hans í skugga enn meiri vinsælda, sem eru hinum megin á vogarskálunum.

Vinsældakönnun DV skiptir íslenzkum stjórnmálamönnum í fjóra flokka. Davíð Oddsson er einn og sér í flokki sem umdeildur landsfaðir. Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Geir H. Haarde eru saman í flokki þeirra, sem njóta töluverðs álits.

Síðan koma fyrirlitnu framsóknarmennirnir þrír, Finnur og Siv á botninum og Ingibjörg í humátt á eftir þeim. Í fjórða flokki er forustulið Samfylkingarinnar, fremur óvinsælt, en ekki áhugavert að mati kjósenda. Í fimmta flokki eru svo hinir, sem engu máli skipta.

Halldór Ásgrímsson er einn þeirra, sem kallaðir hafa verið teflon-menn í útlöndum. Hann hefur kvóta í þanþoli kjósenda. Honum er ekki legið á hálsi fyrir að vera frumkvöðull umhverfisslyssins á Austurlandi, heldur er öðrum ráðherrum flokksins kennt um það.

Þótt Halldór njóti þess að geta farið sínu fram í flokknum, telst hann ekki í hópi þeirra mikilhæfu manna, sem rækta eftirmenn og sá þannig til framtíðar. Umhverfis hann í ráðherrastólunum eru fyrirlitnir jámenn, sem kjósendur munu ekki treysta til forustu.

Vont er fyrir stjórnmálaflokk að hafa aðeins einn frambærilegan mann á toppnum og víðáttumikla eyðimörk allt í kring. Verra er fyrir stjórnmálaflokk, þegar toppmaðurinn leggur sig fram við að gæta þess, að sjálfstætt hugsandi fólki sé ýtt til hliðar í flokknum.

Þótt framsóknarmönnum hafi þótt og þyki enn sem þeir séu vel settir með óumdeildan formann, er hætt við, að sagnfræðin fari hrjúfari höndum um Halldór Ásgrímsson í framtíðinni, þegar komið hefur í ljós, að hann mun skilja flokk sinn eftir í rjúkandi rúst.

Áratugum saman var Framsóknarflokkurinn í milliþungavigt. Undir forustu Halldórs og hinna óvinsælu jámanna hans hefur flokkurinn krumpast niður í smáflokksstærð og mælist í skoðanakönnunum á svipuðu róli og Samfylkingin og Græna vinstrið.

Engum íslenzkum flokksformanni hefur tekizt að safna með sér í ríkisstjórn slíku einvala-botnliði óvinsældafólks, sem Halldóri Ásgrímssyni hefur tekizt.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjandmenn fallast í faðma

Greinar

Jarðskjálftarnir í Tyrklandi og Grikklandi hafa breytt gagnkvæmum viðhorfum þjóðanna. Grikkir sendu hjálparsveitir til Tyrklands og síðan sendu Tyrkir hjálparsveitir til Grikklands. Tyrki hefur boðið slösuðum Grikkja nýra sitt og annað boð farið í hina áttina.

Grikkir og Tyrkir eru aldagamlir fjandmenn, enda ráða Tyrkir hinum forna Miklagarði og miklu landi í Anatólíu, sem áður tilheyrði honum. Snemma á þessari öld var hatrið svo mikið, að fram fóru gagnkvæmar þjóðahreinsanir beggja vegna landamæranna.

Kýpurdeilan hefur verið óleyst áratugum saman og oft verið ófriðlegt í sundunum milli eyja Grikkja og meginlands Tyrkja. Nató hefur löngum haft áhyggjur af þessum aðildarríkjum sínum. Og Grikkir hafa brugðið fæti fyrir inngöngu Tyrkja í Evrópusambandið.

Ísinn var brotinn fyrir nokkrum árum, þegar gríska leikkonan Melina Mercouri heimsótti Miklagarð sem menntaráðherra Grikkja í tilefni alþjóðaþings ritstjóra. Fram að þeim tíma höfðu ráðamenn ríkjanna ekki stundað gagnkvæmar kurteisisheimsóknir.

Með nýjum valdamönnum fraus ástandið á nýjan leik, þótt ekki syði upp úr. En jarðskjálftarnir hafa sýnt, að undir frostinu var jarðvegurinn reiðubúinn til sáningar. Hafnar eru gagnkvæmar birtingar greina ritstjóra og dálkahöfunda um samskipti þjóðanna tveggja.

Komið hefur í ljós, að hjá almenningi er jafn auðvelt að rækta ást og hatur. Er ráðamenn á ýmsum sviðum fara af annarri sveifinni og leggjast á hina, fylgir fólkið með. Sameiginlegt skipbrot á borð við hörmungar jarðskjálfta kemur svo friðarferli á fljúgandi skrið.

Allt er þetta brothætt. Til valda geta komizt stjórnmálamenn á borð við Milosevic í Serbíu, sem nærist á því að magna þjóðernisofstæki og nágrannahatur kjósenda. Við sjáum af því dæmi, hversu auðvelt er að trylla heila þjóð til brjálæðislegra ódæðisverka.

Grikkir og Tyrkir hafa verið heppnari en Serbar, þótt ýmis ljón hafi verið á vegi þeirra. Grikkir hafa stutt óhæfuverk Serba gegn Albönum í Kosovo, en Tyrkir hafa stutt varnir Albana. Þá hafa Tyrkir stundað grimmdarlegar ofsóknir gegn minnihlutahópi Kúrda.

Hvorug þjóðin getur talizt til engla, nema síður sé. Samt hefur verið jarðvegur fyrir hina skyndilegu þíðu milli þjóðanna, þegar þær eru farnar að hjálpast að í erfiðleikum sínum, rétt eins og Norðurlandaþjóðir mundu gera. Hið góða blundar undir vetrarfrosti.

Mikilvægt er, að önnur ríki Atlantshafsbandalagsins stuðli að þessu með því að sýna, að friður borgi sig frekar en ófriður. Það hefur um skeið og verður enn um sinn höfuðverkefni bandalagsins að tryggja evrópskan frið um allan Balkanskaga og alla Anatólíu.

Með betri samskiptum verður síðan hægt að gera pólitísk hrossakaup um stöðu Kúrda í Tyrklandi annars vegar og aðild Tyrkja að Evrópusambandinu hins vegar. Slík hrossakaup mundu marka þau tímamót, að loksins yrði varanlegur friður um gervalla Evrópu.

Ýmis Evrópuríki, einkum Spánverjar, hafa mikla og góða og nýlega reynslu af sáttum við minnihlutahópa í landinu. Slíka reynslu ættu Tyrkir að geta notfært sér í samskiptum við Kúrda og fengið þar með hinn eftirsótta aðgöngumiða að forríku Evrópusambandi.

Ekkert er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Jarðskjálftarnir í Tyrklandi og Grikklandi hafa opnað leið til evrópsks friðar og vestrænnar farsældar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kamfýlumenn eitra enn

Greinar

Staðreyndir kamfýlumálsins eru ljósar. Veikindasprenging hefur orðið í þjóðfélaginu, einkum af völdum framleiðslukeðju Ásmundarstaða, Reykjagarðs og Holtakjúklings og af völdum varnarhrings, sem heilbrigðisyfirvöld Suðurlands hafa slegið um sóðana.

Um 3.000 manns hafa veikzt á þessu ári, margfalt fleiri en áður. Á laugardaginn var viðtal í DV við ungan mann, sem varð ósjálfbjarga, lá í sjö vikur og hefur ekki öðlazt fullan mátt enn. Hann er einn þeirra, sem íhuga samstarf um málaferli gegn kjúklingasóðum Suðurlands.

Aðgerðir hins opinbera í málinu eru líka einfaldar og ljósar. Eftirlitsmönnunum, sem sömdu skýrsluna um sóðahring Ásmundarstaða, Reykjagarðs og Holtakjúklings, hefur verið vikið frá þessu eftirliti og kallaðir til yfirheyrslu hjá lögreglu og umhverfisráðuneyti.

Formaður heilbrigðisnefndar Suðurlands stjórnar ofsóknum gegn eftirlitsmönnum. Hann er sveitarstjóri á Hellu og stjórnarformaður Gámastöðvarinnar. Með honum í hagsmunagæzlu fyrir Suðurlandssóðana eru héraðslæknir og héraðsdýralæknir svæðisins.

Hvað eftir annað hefur komið í ljós, að sýktir eru 80% kjúklinga frá sóðakeðjunni Ásmundarstaðir, Reykjagarður og Holtakjúklingur. Yfirlæknir sóttvarna á Íslandi segir þetta hlutfall “ófært” og bendir á, að hættumörk séu í Noregi talin vera við 10% sýkingu.

Hér á landi eru engar reglur um, hversu mikil kamfýla megi vera við framleiðslu kjúklinga. Í þessu tilviki er hún áttföld á við það, sem væri í Noregi talin vera næg ástæða til að stöðva framleiðsluna um sinn, reka forstjórann, loka húsakynnum og sótthreinsa þau.

Hér á landi fá sóðar að halda áfram iðju sinni óáreittir, en neytendur eru hvattir til að forðast sýkingu með því að elda kjúklingana svo grimmdarlega, að þeir verða ólseigir. Þetta minnir á ráðleggingar til fólks, sem hefur orðið fyrir náttúruhamförum í Tyrklandi.

Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins á Suðurlandi hafa varað við kamfýlugerlinum frá Ásmundarstöðum, Reykjagarði og Holtakjúklingi síðan 1995. Í fjögur ár hafa ráðamenn heilbrigðismála í héraði daufheyrzt við ábendingunum og látið sem ekkert hafi í skorizt.

Svo langt hefur ruglið gengið á þessu árabili, að starfsmenn sóðakeðjunnar hafa hvað eftir annað orðið veikir af kamfýlu, án þess að það hafi orðið ráðamönnum heilbrigðismála í héraði tilefni til að reyna að koma vitinu fyrir þá, sem stjórna sóðaskapnum.

Þung er fjögurra ára ábyrgð formanns heilbrigðisnefndar Suðurlands, héraðsdýralæknis og héraðslæknis á Hellu, sem hafa sameinazt um að halda málinu leyndu og að ofsækja eftirlitsmennina, er þorðu að koma upp um sunnlenzka samsærið gegn neytendum.

Málið sýnir, að staðbundnum aðilum er ekki treystandi fyrir heilbrigðiseftirliti í þágu almannaheillar. Þeir eru saman í fínimannsklúbbum svæðisins, gæta hagsmuna hver annars í samskiptum þeirra við umheiminn og hylma meðal annars hver yfir öðrum.

Um leið er málið einn af mörgum áfellisdómum yfir umhverfisráðuneytinu, sem fer með þennan málaflokk. Það hefur ekki mótað reglur um meðferð kamfýlu og hefur tekið þátt í ofsóknum gegn eftirlitsmönnum, en hefur ekki lyft litla fingri til aðstoðar neytendum.

Málið sýnir einnig, að sóðaskapur er sumu fólki eðlislægur. Það sér ekkert athugavert við umgengni um matvæli, sem öðrum finnst forkastanleg.

Jónas Kristjánsson

DV

Orðstír Framsóknar í veði

Greinar

Enn eru til náttúruvænir framsóknarmenn, sem gera meira en að þvo hendur sínar af skítverkum utanríkisráðherra, orkuráðherra og umhverfisráðherra. Verjendur orðstírs flokksins hafa fundað með sér og einn þeirra kært ríkisstjórnina fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.

Tilraunir þremenningana til að sökkva Eyjabökkum í þágu álbræðslu á Reyðarfirði hvíla á hæpnum forsendum, sem stríða gegn skuldbindingum okkar á fjölþjóðlegum vettvangi um leyfileg mengunarmörk hér á landi og um verndun skilgreindra náttúruvinja.

Í peningadæminu er til dæmis ekki gert ráð fyrir kostnaði við að borga fyrir rétt til mengunar í samræmi við fjölþjóðlegar ákvarðanir í Ríó og Kyoto. Raunar er gert ráð fyrir, að Norsk Hydro og íslenzkir meðeigendur þess fái rafmagnið undir kostnaðarverði.

Orkusamningar Landsvirkjunar við álver hafa í seinni tíð orðið slík feimnismál, að peningaupphæðirnar eru leyndarmál. Þegar hefur verið samið um, að orkan til álversins á Reyðarfirði verði “samkeppnishæf”, sem þýðir, að hún eigi að vera ódýrari en annars staðar.

Fyrirhugað álver á Reyðarfirði er tímaskekkja, sem byggist á, að Norsk Hydro fær ekki lengur að byggja slíkar verksmiðjur heima fyrir og verður að leita til þriðja heimsins, þar á meðal til Austfjarða. Á Vesturlöndum er almennt verið að rífa álver og engin verið að reisa.

Álverið í Hvalfirði er gamalt álver frá Þýzkalandi, sem fyrri eigendur neyddust til að rífa. Svissarar hafa losað sig við öll álver heima fyrir, en græða á millifærslum vegna álvera sinna í þriðja heiminum. Það sama ætlar Norsk Hydro að gera við íslenzka samstarfsaðila.

Þótt Norsk Hydro sé ekki meirihlutaaðili á Reyðarfirði, útvegar það bauxítið, sem er hráefni verksmiðjunnar, og selur álið, sem hún framleiðir. Norska fyrirtækið er á báðum endum ferilsins og hefur í hendi sér hver verður afkoma íslenzku meðeigendanna.

Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur Eyjabakkalóni og allur þorri þjóðarinnar fylgjandi nýju umhverfismati. Það náttúrutjón, sem þessi meirihluti þarf að sæta, ætti að skipta milljörðum króna í reikningsdæmi orkuverðsins.

Álver á Reyðarfirði er ekki efnahagslegur ávinningur fyrir Ísland, heldur staðbundið byggðastefnumál. Þar er verið að tefla tilfinningaríkum sjónarmiðum austfirzkrar byggðastefnu gegn köldum efnahagslegum sjónarmiðum þjóðarinnar og sjónarmiðum náttúruverndar.

Stóriðja er dýrasta aðferð, sem hugsast getur til að varðveita byggð. Engin atvinnugrein gefur eins lítið af sér í atvinnutækifærum á hverja einingu í fjárfestingu. Með álveri er verið að skjóta gæs með fílabyssu, svo illa hentar stóriðja hlutverki sínu á Reyðarfirði.

Framsóknarflokkurinn hefur axlað ábyrgðina á þessari glæfralegu ögrun við hagsmuni og skoðanir þjóðarheildarinnar. Þrír ráðherrar flokksins hafa haft sig í frammi í máli þessu og seldi ein þeirra raunar fyrri skoðun sína á málinu fyrir ráðherraembættið.

Því er ánægjulegt að Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður og ýmsir aðrir virkir flokksmenn hafa ekki látið valta yfir sig, þrátt fyrir útilokunartilraunir formannsins, og eru með auknum krafti að berjast fyrir því, að Framsóknarflokkurinn haldi reisn sinni.

Ekkert getur mildað almenna fordæmingu þjóðarinnar á flokknum annað en, að forusta hans verði knúin til að láta af einstrengingi sínum á Eyjabökkum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þanþol okkar er ótrúlegt

Greinar

Við þolum bensínhækkunina og mundum hafa þolað enn meiri hækkun. Engin samtök eru um gagnaðgerðir í málinu, enda segir reynslan, að bensínnotkun sé óháð verðlaginu. Í ýtrustu tilvikum geta menn sameinazt um að þeyta bílflautur en ekki um að nota strætó.

Menn nota bíla sína jafnmikið, hvort sem bensínlítrinn kostar 60 krónur, 80 krónur eða 100 krónur. Þess vegna er skynsamlegt fyrir olíufélög og fjármálaráðuneyti að hækka bensínið sem allra mest. Það gefur mest í kassann og kostar bara tímabundið væl.

Að vísu eru takmörk fyrir þanþoli arðrænds fólks, en þau mörk hafa ekki fundizt enn í benzíni. Þau hafa hins vegar fundizt á ýmsum öðrum sviðum. Með uppsprengdu verði á grænmeti í skjóli innflutningsbanns og ofurtolla hefur tekizt að halda grænmetisneyzlu í lágmarki.

Erlendis er paprika matur, en hér er hún skraut, sem er sett á mat, enda kostar hún mánuðum saman um það bil 600 krónur kílóið. Sameiginlegt mat nógu margra neytenda er, að verð á papriku sé fyrir utan allan þjófabálk og þess vegna kaupa menn lítið af henni.

Í einokunar- og fáokunarkerfinu, sem ríkir hér á landi, gagnstætt nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins, byggist velgengni okrara á því að teygja þanþol hinna arðrændu til hins ýtrasta án þess að það bresti. Í bensínverðinu hefur slíkt ekki gerzt enn.

Samanburðarathuganir hafa leitt í ljós, að þanþol Íslendinga er meira en nágrannaþjóðanna. Þess vegna eru neyzluvörur dýrari hér en í samanburðarlöndum, hvort sem þær eru innlendar að uppruna eða innfluttar. Kók er 30­156% dýrara hér en á meginlandi Evrópu.

Áhugi okkar á afsláttarkjörum deyfir tilfinningu okkar fyrir eðlilegu verðlagi. Við hugsum svo mikið um afstæðar tölur, að við missum sjónar á raunverulegum tölum. Við fögnum því að geta kríað út 20% afslátt af vöru, sem er 80% dýrari en hún ætti að vera.

Sá, sem kaupir slíka vöru, telur sig hafa sparað 20%, þótt hann hafi í rauninni tapað 25%. Með slíkum hugsunarhætti fagna menn því að geta sparað 5% með því að dæla sjálfir bensíninu. Þeir fagna líka að geta sparað 5% með því að verzla í réttri verzlanakeðju.

Svo mikil fáokun er komin í matvöruverzluninni, að samkeppnin felst í þröngu verðbili milli tegunda verzlana með tilliti til þjónustu. Þetta verðbil helzt milli ára, en verðið á matvörumarkaðinum í heild skríður upp á við í leit að efri mörkum þanþols neytenda.

Okkur er svo ósýnt um að gæta hagsmuna okkar, að við fengumst ekki einu sinni til að taka þátt í ódýrum bílatryggingum, sem Félag íslenzkra bifreiðaeigenda bauð. Í þess stað sátum við sem fastast hjá gömlu kvölurunum og biðum þess, að þeir lækkuðu verðið.

Af því að nógu margir sitja sem fastast, tekst tryggingafélögunum að drepa af sér nýju samkeppnina og fara síðan að láta tryggingagjöldin síga upp á við í nýrri leit að efri mörkum þanþols þjóðarinnar. Þetta er leikur greinda kattarins að heimsku músinni.

Í þessu ástandi er ástæðulaust fyrir fjármálaráðherra að gera því skóna, að ríkissjóður kunni að gefa eitthvað eftir af milljörðunum, sem hann hefur grætt á hækkun bensínverðs á árinu. Hver verður til þess að refsa ráðherranum fyrir háa verðið í næstu kosningum?

Bensínokur hefur ekki áhrif á hegðun kjósenda í kosningum. Því er ráðherranum óhætt að létta sér starfið með því að þenja bensínverðið sem allra mest.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherra skemmtir sér

Greinar

Nýi landbúnaðarráðherrann hefur uppgötvað hestinn og fær tæpast hamið hrifningu sína á hestamótum heima og erlendis. Þegar skagfirzkir refir gaukuðu að honum plaggi í hita hrifningar á Vindheimamelum, fannst honum ekkert mál að gefa út skuldaviðurkenningu.

Fyrir rúmri viku samþykkti ráðherrann fyrir hönd ráðuneytis síns, að ríkið gæfi 150 milljónir króna á fimm árum til skagfirzkrar hestamennsku. Hann lofaði upp í ermi ríkisstjórnar, fjárlaganefndar og Alþingis að skekkja markaðsöflin í þágu Skagfirðinga.

Allt, sem Skagfirðingar eiga að gera fyrir peningana, er þegar verið að gera á vegum ýmissa samtaka, ríkisins sjálfs og samkeppnisfyrirtækja. Skagfirðingar eiga að uppgötva hjólið að nýju á kostnað skattborgaranna og gefa öðrum hestamönnum landsins langt nef.

Þetta líkist því, að sjávarútvegsráðherra uppgötvaði skyndilega þorsk og ákvæði í hrifningarvímu að gefa Skagfirðingum helminginn af öllum þorskkvóta landsins, togara og frystihús í ofanálag. Mörg er spillingin í landinu, en þessi tegund er sú vitlausasta.

Hestamennsku hefur farið hnignandi í Skagafirði í samanburði við aðra landshluta. Aðeins 15% sýndra ræktunarhrossa koma fram á sýningum í Skagafirði. Unglingastarf er áberandi minna en í ýmsum öðrum sýslum, sem hafa tekið við merkinu af Skagafirði.

Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir reiðhöll, sem einstaklingar og félög reisa fyrir eigin reikning annars staðar í landinu. Þeir eiga að borga Skagfirðingum fyrir að halda mót og sýningar, sem ýmis félög og landssamtök gera nú þegar með glæsibrag.

Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir markaðsstarf, sem nú þegar er unnið á vegum samtaka bænda og útflytjenda. Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir skóla og námskeið, sem ríki, félög og fyrirtæki halda nú þegar fyrir eigin reikning.

Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir að sigla í kjölfar ýmissa aðila, sem þegar hafa tekið tölvutækni í þjónustu sína fyrir eigin reikning, setja upp gagnabanka, spjallrás og veftímarit og búa til ferðakort, sem þegar hefur verið undirbúið annars staðar.

Dæmið í heild er illa grundað byggðastefnumál, sem á að leiða til reiðhallar á Sauðárkróki, hestakennslu í fjölbrautaskólanum þar, upplýsingamiðstöðvar í Varmahlíð, betra mótssvæðis á Vindheimamelum og eflingar Hestasports í samkeppni við aðrar hestaferðaskrifstofur.

Listin við byggðastefnu er að mjólka skattborgarana án þess að skaða beinlínis aðra atvinnustarfsemi í landinu. En ráðagerðir landbúnaðarráðherra fjalla því miður um að spilla samkeppnisaðstöðu ýmissa félaga og landssamtaka og ótal fyrirtækja og einstaklinga.

Ef ríkið á 150 milljónir aflögu til hrossa, er miklu nær að verja peningunum í atriði, þar sem félagslegt framtak og einstaklingsframtak duga skammt. Má þar nefna rannsóknir á hrossasjúkdómum á borð við spatt og sumarexem, sem leika hrossaútflutninginn grátt.

Ef ríkið vill styðja framtak félaga og einstaklinga á þessu sviði, er miklu nær að fela þeim mörgu samtökum, sem fyrir eru í landinu, að ráðstafa peningunum og setja aðeins það skilyrði, að féð sé ekki notað til að skekkja markaðsbúskap og samkeppni í atvinnulífinu.

Gott gæti verið fyrir ríkisstjórnina að setja hömlur á ferðir hrifnæmra ráðherra á skemmtanir, þar sem bragðarefir láta þá gefa út skuldaviðurkenningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Landshlutar leggjast í kör

Greinar

Samið hefur verið um, að hlutar af símaþjónustu stórfyrirtækis flytjist austur og vestur á firði. Enn fremur hefur verið samið um, að hlutar af einfaldri forritun tölvufyrirtækis flytjist til Indlands. Í þessum dæmum leika íslenzk sjávarpláss sama hlutverk og Indland.

Þetta ferli byrjaði erlendis með því að bandarísk fyrirtæki fluttu símaþjónustu sína til Indlands, þar sem fólk hefur góða menntun og talar góða ensku, en hefur takmörkuð tækifæri og krefst ekki hárra launa. Síðan hefur ferlið undið upp á sig og nær til flóknari starfa.

Nú er forritun smám saman að flytjast til Indlands, sem siglir upp virðingarstigann í flokki láglaunasvæða. Íslenzku sjávarplássin eru hins vegar að fara inn á lægsta þrepið og fagna ákaft að fá tækifæri til að svara í síma fyrir stórfyrirtæki ríka fólksins í Reykjavík.

Svo langt hefur minnimáttarkennd gengið í dreifbýli Íslands, að menn borga beinlínis fyrir að fá til sín láglaunastörf. Fyrir tveimur árum borgaði Rangárhreppur stórfé fyrir að gerast hluthafi í vinnufatagerð gegn því, að tvö störf yrðu stofnuð við saumaskap á Hellu.

Tæplega er unnt að líta svo á, að indverskt ástand ríki á Austfjörðum og Vestfjörðum. Atvinna er rífleg á þessum svæðum og meðaltekjur hlutfallslega háar. Samt eru ráðamenn svæðanna farnir að hugsa eins og yfirvofandi sé fátækt og atvinnuskortur að indverskum hætti.

Ráðamenn fjarðabyggða telja sig samt sjá fyrir, að atvinna og tekjur muni hrynja. Fólk sé að hugsa sér til hreyfings og reyna að koma húsnæði sínu í verð, áður en eignir verði verðlausar. Þeir telja sig hamla gegn þessu með því að útvega fólki störf við sauma og síma.

Ráðamenn íslenzkra fjarðabyggða hafa gefizt upp á hefðbundinni lífsbaráttu. Þeir telja ekki, að sjávarútvegur haldi byggðum uppi, enda muni kvótaerfingjar flytja suður að hætti utanríkisráðherra. Þeir vanmeta líka gróðavænlega framtíð í grænni ferðaþjónustu.

Uppgjöfinni fyrir austan og vestan má líkja við þekkt fyrirbæri fyrri tíma, þegar miðaldra fólk gafst upp á erfiðri lífsbaráttu og lagðist skyndilega í kör, þótt það hefði ekki áður sýnt eindregin öldrunarmerki. Þannig eru landshlutar farnir að leggjast í kör á miðjum aldri.

Álver í héraði er hreinn happdrættisvinningur að mati þeirra, sem hafa gefizt upp í minnimáttarkennd sinni. Eignir hækka aftur í verði og utanaðkomandi álversmenn sjá um, að menn hafi öruggt lífsviðurværi. Eyjabakkar eru lítils virði í þriðja heimi Íslands.

Líta má á verndun Eyjabakka sem lúxus hátekjufólks á höfuðborgarsvæðinu, rétt eins og breytt viðhorf til náttúruverndar á Vesturlöndum almennt eru fylgifiskur auðsældar almennings. Sveitarstjórnarmenn í körinni telja Austfirðinga ekki hafa efni á slíkum lúxus.

Afstætt er, hvenær fólk er orðið svo ríkt, að það hafi efni á náttúruvernd. Fátæk húsfreyjan í Brattholti taldi sig hafa efni á að neita að selja Gullfoss fyrr á öldinni, en efnaðir ráðamenn á Austfjörðum eru of fátækir til að geta séð af miðlunarlóni á Eyjabökkum.

Spurningin um fátækt er í rauninni spurningin um andlega fátækt. Húsfreyjan í Brattholti var auðug, af því að hún hafði sjálfsvirðingu, sem er af skornum skammti hjá ráðamönnum Austfjarða, er hafa unnvörpum lagst í kör og heimta framfæri byggðanna af álveri.

Munur Indlands og Austfjarða er, að þar eru forritarar að vinna sig upp úr þriðja heiminum, en hér eru ráðamenn Austfjarða að tryggja fólki sínu körina.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnmálaarmur kolkrabbans

Greinar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman verið pólitískur armur nokkurra gamalgróinna einokunar- og fáokunarfyrirtækja, sem auðguðust á sínum tíma af forgangi að takmörkuðum gæðum þess tíma, svo sem bankalánum ríkisbankanna á neikvæðum vöxtum.

Fyrir þessa þjónustu hafa stórfyrirtækin haldið Sjálfstæðisflokknum fjárhagslega á floti. Þess vegna eru fjármál flokka lokuð bók á Íslandi, þótt þau séu opin í nágrannaríkjum okkar beggja vegna Atlantshafsins. Sjálfstæðisflokkurinn hindrar birtingu þessara gagna.

Aukið réttlæti í þjóðfélaginu að vestrænni fyrirmynd hefur dregið úr ofurvaldi stórfyrirtækjanna. Innleiðing raunvaxta í hagkerfinu leiddi til falls fyrirtækjahringsins að baki Framsóknarflokksins, hringsins sem áður var kenndur við Samband, en nú við smokkfisk.

Sjálfstæðisflokknum hefur gengið betur en Framsóknarflokknum að standa vörð um hagsmuni hinna fjárhagslegu umbjóðenda sinna. Honum hefur tekizt að framkvæma svokallaða einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem einkavinavæðingu í þágu svonefnds kolkrabba.

Frægðardæmið var úthlutun síldar- og fiskimjölsverksmiðja ríkisins til vildarvina Sjálfstæðisflokksins, þótt hærra tilboð hefði borizt í þær úr annarri átt. En nú er Davíð reiður, því að flokknum hefur mistekizt að stýra einkavæðingu Fjárfestingarbankans í þessa átt.

Af því tilefni hafa enn einu sinni verið rifjaðir upp kaflar úr fyrirgreiðslu- og misnotkunarsögu íslenzkra stjórnmála. Þekktur lögmaður hefur rakið í langri blaðagrein, hvernig misnotað bankakerfi kolkrabbans hrakti Stöð 2 í faðm bandarísks alvörubanka.

Eftir langt hlé, sem varð Sambandinu að falli, er einkavæðing ríkisfyrirtækja að taka við af neikvæðum vöxtum fyrri tíma sem aðferð kolkrabbans til nýrrar auðsöfnunar. Þótt stjórnmálaarmi hans hafi orðið fótaskortur í Fjárfestingarbankanum, gefast honum önnur færi.

Davíð hefur sagt, að áfallið í Fjárfestingarbankanum geti leitt til breyttra aðferða við að selja afganginn af bankanum. Með þessu er hann að segja, að hann stjórni bananaríki, þar sem leikreglum sé breytt eftir veðri og vindum til að gæta hagsmuna umbjóðenda hans.

Reynt verður að haga sölu Landssímans á þann veg, að hann renni saman við Íslandssíma eða falli á annan hátt í faðm kolkrabbans. Sérstök áherzla verður lögð á að ná á sitt vald ljósleiðara símans og gera hann að hornsteini ljósvakamiðils, sem leysi Ríkisútvarpið af hólmi.

Á sama tíma eru fyrirtæki á vegum kolkrabbans, einkum Eimskipafélagsins, skipulega að ná fiskveiðikvóta á sitt vald með kaupum á ráðandi hlutum í margs konar fyrirtækjum í sjávarútvegi. Með sama áframhaldi verður kolkrabbinn senn að stærsta sægreifa landsins.

Það fer í taugar þeirra, sem stjórna samkeyrslu Sjálfstæðisflokksins og kolkrabbans, að til séu aðilar í þjóðfélaginu, sem geti boðið í hluta einkavæðingarinnar og þar með hækkað gjaldið, sem kolkrabbinn þarf að borga fyrir hana. Því geta menn ekki dulið gremju sína.

En ný færi munu gefast kolkrabbanum, þar sem þjóðin hefur sætt sig við, að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni landinu með langvinnum stuðningi Framsóknarflokksins. Fólkið í landinu flækist ekki fyrir einkavinavæðingunni, heldur eru það leikreglur vestræns hagkerfis.

Meðan stjórnmálaarmur kolkrabbans nýtur trausts til að fara með ríkisvaldið skapast ótal tækifæri til að framkvæma einkavæðinguna sem einkavinavæðingu.

Jónas Kristjánsson

DV

Bæklaðir skylmingaþrælar

Greinar

Frá heimsleikunum í Sevilla hefur það verið helzt í fréttum, að íslenzku keppendurnir gátu ekki keppt eða urðu að hætta keppni vegna meiðsla. Bakið gaf sig, meiðsli í hálsi tóku sig upp og tognun varð í nára. Keppendur lifðu á hnífsegg milli heilsu og bæklunar.

Svipuð saga var sögð í fréttum af boltaleikjum Íslendinga heima og erlendis. Leicester-keppandinn var sagður meiddur og Bolton-keppandinn að braggast. Tveir leikmenn KR voru sagðir hafa brotnað og tveir leikmenn Breiðabliks slasazt, allir fjórir í sama leiknum.

Á fimmtudaginn var öll forsíða íþróttafrétta eins dagblaðsins lögð undir slysafréttir. Íslenzkur leikmaður í Wuppertal er með brotna hnéskel og verður frá keppni í þrjá mánuði. Heimsmeistarinn í 100 metra hlaupi kvenna var borinn af velli með meiðsli í mjóbaki.

Endalausar sjúkrasögur íþróttafrétta sýna, að eitthvað meira en lítið er í ólagi. Meðan annað kemur ekki í ljós verður haft fyrir satt, að álag og kröfur í frjálsum íþróttum og boltaleikjum séu orðnar svo úr hófi fram, að bæklun sé að verða lokastigið á ferli ofuríþróttamanna.

Afreksmenn íþrótta sluppu yfirleitt vel frá ferli sínum fyrir svo sem fjórum áratugum, misjafnlega fyrir tveimur áratugum, en afreksmenn nútímans mega búast við að verða bæklar til æviloka. Þetta hefur gerzt hægt og örugglega með vaxandi kröfum um ofurárangur.

Afreksmenn íþrótta eru í auknum mæli að minna á gladíatora hringleikahúsanna í Rómaveldi. Þeir eru í hávegum hafðir, knúnir áfram af æstum pupli, en síðan kastað fyrir róða, þegar ekki er hægt að nota þá meira. Keppnismenn eru skylmingaþrælar nútímans.

Undir lokin snerist líf Rómverja og raunar síðar Miklagarðsmanna um hringleikahús og paðreima. Sama saga er að gerast nú hjá fjölmennum hópum, sem sitja límdir fyrir framan sjónvarpið og horfa á slysin gerast, í boltaleik, í frjálsum, í kappakstri, í hnefaleikum.

Lengi vel voru það einkum austantjaldslönd, sem keyrðu íþróttamenn sína út á hnífsodd bæklunar með ofurþjálfun og lyfjanotkun. Eftir hrun kommúnismans í Evrópu hefur vítahringur ofálags og undralyfja haldið áfram að magnast um heim allan, líka hér á landi.

Á líkamsræktarstöðvum bryðja menn stera eins og hvert annað súkkulaði og fletta auglýsingabæklingum um fæðubótarefni, töfradrykki og megrunarduft. Slysadeildir íslenzkra sjúkrahúsa meðhöndla fleiri slys af völdum íþrótta en áfengis og er þá mikið sagt.

Pupullinn heimtar árangur og fær hann. Heilaþvegnir afreksmenn eru lamdir áfram af þjálfurum til að ná árangri, sem er betri en heimsmet voru fyrir fáum áratugum, en ná skammt nú á tímum. Afleiðingin er líkamleg bæklun fólks, þegar líf þess er rétt að hefjast.

Þetta er ekkert annað en þrælahald, rétt eins og hjá Rómerjum og Austur-Þjóðverjum. Afreksfólk er gert að vélum, sem keyrðar eru í botn og síðan afskrifaðar, þegar bæklunina ber að höndum. Og það er múgurinn í sjónvarpssófunum, sem ber ábyrgðina.

Skylmingaþrælar nútímans standa í þungamiðju vítahrings og sjónvarpsmúgurinn á jaðri hans. Þetta allsherjar Colosseum nútímans er síðan knúið af gífurlegum peningahagsmunum þeirra, sem fjármagna áhorfsfíknina til að vekja athygli á vörum og þjónustu.

Gladíatorar nútímans eru gripnir ungir, heilaþvegnir og ofþjálfaðir. Þeir hamast í hringleikahúsi sjónvarpsins og gera sér ekki grein fyrir aðvífandi bæklun.

Jónas Kristjánsson

DV

Að meika það

Greinar

Söngleikur með því dæmigerða nafni Jesus Christ Superstar var framinn í Austurbæjarbíói fyrir nokkrum áratugum. Hann er minnisstæður, því að annars vegar söng þrautþjálfaður Jón Sigurbjörnsson hlutverk Kaífasar og hins vegar gauluðu popparar í hljóðnema.

Einkennilegt var að hlusta á Kaífas syngja og sjá Jesúm og hina popparana hoppa í kring með hljóðnemana. Þarna var samanburður hámenningar og lágmenningar í hnotskurn, annars vegar heyrðist í rödd og hins vegar í poppurum, sem voru að reyna að meika það.

Í hámenningu geta gagnrýnendur og listaskýrendur sundurgreint getu listamanna í skilgreinanlega þætti og rætt efnislega um misjafna getu þeirra á hverju sviði. Listmálari býr yfir tækni í sérstakri meðferð lita og rithöfundur hefur lag á stuttum málsgreinum.

Þannig var hægt að ræða Jón Sigurbjörnsson sem söngvara, tala um sterkar hliðar hans og veikar, bera saman við aðra söngvara á svipuðu sviði og komast að raun um, að innanlands væri enginn honum fremri á afmörkuðu sviði. Listamannsgæðin voru mælanleg.

Í lágmenningu skipta aðrir þættir meira máli. Miklu fleiri eru kallaðir og miklu erfiðara er að reyna að átta sig á, hver sé betri en annar. Tízkusveiflur skipta máli. Menn meika það með því að vera á réttum stað á réttum tíma. Og menn eru framleiddir af fyrirtækjum.

Fyrir mörgum árum áttaði DV sig á, að hljómdiskaútgefandi falsaði sölutölur á þann hátt, að diskur komst efst á metsölulista áður en eitt einasta eintak hafði verið selt af honum. Blaðið varð að setja upp flókið mælingakerfi til að koma í veg fyrir þessa blekkingu.

Slíkur vandi væri óhugsandi í bókaútgáfu hér á landi. En við sjáum þess merki í Bandaríkjunum, að bókaforlög snúast í vaxandi mæli um miðlungsbækur, sem skrifstofumenn semja undir nafni fræga fólksins, en hefðbundnar alvörubækur týnast í auglýsingaflóðinu.

Ekki er hægt að framleiða listamenn á sama hátt og brezkar hljómdiskagerðir og bandarískar bókaútgáfur framleiða súperstjörnur með því að hafa skynbragð á, hvaða atriði muni verða í tízku allra næstu misserin eða hvaða atriðum verði hægt að koma í tízku.

Í poppaða heiminum snýst málið um að meika það og verða súperstjarna, venjulega um skamma hríð, fram að næstu auglýsingaherferð. Núna undir lok tuttugustu aldar er þetta ferli að verða alls ráðandi, en áhugi á langvinnri klassík að verða sérvizka gamalmenna.

Breytingin frá klassískum bókmenntum, myndlist og tónlist yfir í poppaðar bókmenntir, myndlist og tónlist er samfara öðrum breytingum í þjóðfélaginu. Málið snýst ekki lengur um gæðasamanburð, heldur tízkutengdar aðstæður til að meika það eða láta meika sig.

Við getum jafnvel eygt skyld atriði á öðrum sviðum. Menn meika það að verða landlæknir með því að vera þægur við ríkisstjórnina í vísindasiðanefnd. Menn meika það að verða umhverfisráðherra með því að skipta um skoðun á uppistöðulóni á Eyjabökkum.

Í lágmenningu í listum, embættisfærslu og stjórnmálum meika menn það eða meika ekki. Sundurgreinanleg og skilgreinanleg gæði eru ekki að baki, heldur rétta trikkið, hvort sem það felst í talnafölsun á metsölulista eða sölu á fyrri skoðun sinni í umhverfismálum.

Þjóðfélag, sem snýst um lágmenningu, dregur fljótlega dám af henni. Þeir, sem ekki meika það í poppinu, geta kannski meikað það í pólitík eða sölu undralyfja.

Jónas Kristjánsson

DV

Garður er granna sættir

Greinar

Spakmæli eru sem aldagamall reynslubrunnur oft gagnlegri leiðarljós en kennisetningar nútímans. Dæmi um slíkt er friðarviðleitni Vesturlanda á Balkanskaga, sem hefur að leiðarljósi þá fáránlegu kenningu, að rétt sé að kenna hatursmönnum að lifa saman í friði.

Þessi vonlausa viðleitni hófst í Bosníu fyrir nokkrum árum og verður nú endurtekin í Kosovo, þótt menn hefðu átt að læra af reynslunni frá Bosníu. Vandræðin stafa einkum af Bandaríkjunum, þar sem menn telja suðupott þjóða vera efsta tilverustig mannsins.

Deila má um, hvort tekizt hafi að bræða saman þjóðir í Bandaríkjunum. Að minnsta kosti hefur fólk af afrískum og rómönskum uppruna ekki lagazt að neinu meðaltali, sem kalla mætti bandarískt. Vandamál fjölþjóðaríkisins hafa engan veginn verið leyst þar vestra.

Frá Bandaríkjunum kemur kenningin um, að innprenta beri þjóðum Balkanskaga að lifa saman í friði. Sú kenning hefur leitt til óraunhæfra aðferða Vesturlanda við að halda þar uppi friði og efla velsæld. Nær hefði verið að leita leiðsagnar í aldagömlum spakmælum.

Garður er granna sættir segir eitt spakmælið. Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að halda frið milli nágranna er að reisa girðingu milli þeirra, svo að ljóst sé, hvað sé hvers. Flóknasta og dýrasta leiðin er hins vegar að þvinga fólk inn í sameiginlega girðingu.

Einfaldasta og ódýrasta aðgerðin til eflingar friði á Balkanskaga er að reisa girðingu umhverfis Serbíu, þar sem alls engir nema Serbar séu öðrum megin og alls engir Serbar séu hinum megin. Vesturlönd gætu þá tekið að sér að vakta eina girðingu í stað stórra svæða.

Eini vandinn við girðinguna er að finna, hvorum megin Svartfjallaland og Vojvodina eigi að lenda. Ljóst er, að Kosovo öll ætti að vera vestan hennar og að Bosníu ætti að skipta eftir einfaldaðri útgáfu af núverandi markalínu milli svæða Serba og svæða annarra þjóða.

Hermenn, löggæzlumenn, erindrekar og hjálparstarfsmenn af Vesturlöndum eru á þönum um stór svæði í árangurslausri friðar- og uppbyggingarviðleitni. Glæpaforingjar heimamanna taka ekki mark á tilskipunum að vestan og stela mestallri fjárhagsaðstoðinni.

Sem dæmi um árangursleysi löggæzlunnar má nefna, að verst ræmdu stríðsglæpamenn Bosníu, þeir Radovan Karadzic og Radko Mladic, ganga enn lausir og fara allra sinna ferða. Ekki hefur heldur tekizt að hindra Albana í að hefna harma sinna á Serbum í Kosovo.

Tekið hefur verið saman, hversu miklu af vestrænu hjálparfé hafi verið stolið í Bosníu. Það eru rúmlega 70 milljarðar íslenzkra króna, sem er rosalega mikið fé. Umsvifamestu þjófarnir eru forseti Bosníu, Alija Izetbegovic, og sonur hans, Bakir Izetbegovic.

Um spillinguna í Bosníu hefur verið samin 4000 blaðsíðna leyniskýrsla, sem komizt hefur í hendur New York Times. Sem lítið dæmi úr henni má nefna, að Vesturveldin saka borgarstjórann í Sanski Most, Mehmed Alagic, um 358 aðskilda þjófnaði á vestrænu hjálparfé.

Ástæðulaust er að sóa peningum til uppbyggingar, ef þeim er meira eða minna stolið. Einfaldara og ódýrara er að láta heimamenn sjálfa ráða því, hvort þeir vilja byggja fyrir eigin rammleik, og takmarka afskipti Vesturlanda við það eitt að stía hatursmönnum í sundur.

Við balkanskar aðstæður þýðir ekki að segja mönnum að elska hver annan. Nærtækara er að fara eftir spakmælinu, sem segir, að garður sé granna sættir.

Jónas Kristjánsson

DV