Greinar

Þyrnirósa-þjóð

Greinar

Nokkur hundruð Íslendinga létu fyrir tæpu ári ginnast til að kaupa sig inn í gróðavon í sölu á undraúðanum Waves, sem sagður var allra meina bót. Greiddu þeir frá 100.000 krónum upp í rúmlega 200.000 krónur fyrir að komast á rétta hillu í píramída-sölukerfinu.

Svo ýkt var dæmið, að ekki var heil brú í neinu. Erlendir fagurgalar sungu um sérstöðu Íslendinga í fremstu víglínu sölumennskunnar, sem fyrirhuguð var um allan heim. “Við ætlum að gera ykkur að súperstjörnum”. Fyrir þessu féllu menn unnvörpum.

Venjulegt fólk á að vita, að óheilindi og oftrú búa yfirleitt að baki píramída-sölukerfum. Það á að vita, að undralyf utan apóteka koma yfirleitt ekki að neinu gagni. Það á að kunna að gæta sín á sölumönnum, sem reiða í þverpokum hrósið um fórnardýr sín.

Ofan á þetta bættist, að DV sagði í fréttum á þessum tíma, að úðinn hefði að geyma efni, sem væru bönnuð hér á landi, og að fréttaritari blaðsins í Kaliforníu hefði aðeins fundið pósthólf í verzlunarmiðstöð, þar sem höfuðstöðvar framleiðslunnar áttu að vera.

Fólk vildi bara ekki hlusta á staðreyndir. Það vildi ekki hlusta á neitt, sem truflaði glansmyndina. Mörg hundruð manna voru sannfærð um, að þau væru dottin í lukkupottinn og mundu græða milljónir króna án mikillar fyrirhafnar. Því gekk það í gildruna.

Skilningarvitin lokuðust fyrir þeirri frétt, að heilbrigðisráðuneytið hafði látið kanna allar vörurnar og upplýst, að sala þeirra allra yrði bönnuð vegna innihaldsins. Skilningarvitin lokuðust fyrir þeirri frétt, að höfuðstöðvar úðans í Kaliforníu voru bara alls ekki til.

Íslendingar virðast veikari fyrir rugli af þessu tagi en flestar aðrar vestrænar þjóðir. Ímyndunarafl okkar er minna heft af raunvísindum. Menn trúa á happdrættisvinninga. Menn telja, að unnt sé að spá fyrir um óorðna hluti. Menn tala gegnum miðla við látið fólk.

Það leiðir af sjálfu sér, að hér á landi trúa menn á allrameinalyf utan lyfsölukerfisins. Einu sinni hét það Áli og nú heitir það Herbalife, sem megrar og fitar eftir þörfum. Waves komst aldrei á flug, ekki vegna skorts á trúgirni, heldur vegna óreiðu hjá aðstandendum.

Píramída-sölukerfi njóta vinsælda meðal fáfróðra þjóða. Þannig urðu nýfrjálsir Albanar gjaldþrota tugþúsundum saman fyrir áratug. Hér á landi hafa slík kerfi gosið upp hvað eftir annað. Þetta er sama kerfið og notað er um allan heim í fíkniefnabransanum.

Það væri gagnlegt fyrir okkur að kanna, hvað það geti verið í þjóðarsálinni, sem gerir okkur ginnkeypt fyrir draumnum um skjótfengna gróðann, happdrættisvinninginn, undralyfið. Er það sama genið og dáleiðir okkur til að kaupa fótanuddtæki þúsundum saman?

Hér eru kolbítar í öskustó, sem bíða eftir að verða slegnir töfrasprota, svo að þeir rísi á fætur og sigri heiminn. Hér eru Þyrnirósur, sem bíða eftir, að prinsinn komi með gullskóinn. Hér er fullt af annars hversdagslegu fólki, sem er bjartsýnt og trúgjarnt út í eitt.

Eins og Halldór Laxness sagði í Innansveitarkróníku, þá eru Íslendingar lítt næmir fyrir skynsamlegum rökum. Þetta vita þeir, sem hafa langa reynslu af að reyna að beita rökum í skrifum um menn og málefni. Leiðin að hjarta Íslendinga liggur um aðrar slóðir.

Þess vegna er nú enn von á úðanum fræga, sem mun lækna öll mein þjóðarinnar og flytja hana í eitt skipti fyrir öll á bleika skýið í dansi Þyrnirósar í höllinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðshanzkanum kastað

Greinar

Siv Friðleifsdóttir hefur kastað stríðshanzkanum framan í þjóðina. Hún sagði í fyrradag, að Eyjabökkum yrði að fórna fyrir byggðasjónarmið. Þar með eru orðin kaflaskil í styrjöldinni um verndun gróðurvinja hálendisins. Tími orða er liðinn og tími aðgerða er hafinn.

Hingað til hafa ógæfumenn farið undan í flæmingi og falið sig á bak við innra umhverfismat hjá Landsvirkjun. Þeir hafa haldið opinni voninni um, að þannig verði virkjað á Austurlandi, að hálendisverum verði hlíft. Nú er ljóst, að þeir hafa ákveðið að sökkva Eyjabökkum.

Bardaga orðanna er lokið. Þremenningar Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni og fylgismenn þeirra hafa tapað honum. Engar efnahagslegar eða fjárhagslegar forsendur hafa fundizt fyrir óhappaverki Halldórs Ásgrímssonar, Finns Ingólfssonar og Sivjar Friðleifsdóttur.

Rækilega hefur verið upplýst, meðal annars af öðrum þingmanni Framsóknarflokksins í Reykjavík, Ólafi Erni Haraldssyni, að raunverulegt umhverfismat að hætti nýrra laga mun ekki tefja útboð og framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun, ef af henni yrði í kjölfar matsins.

Þremenningarnir ætla að vinna stríðið, þótt þeir hafi tapað bardaga röksemdanna. Þar með hafa þeir gefið þjóðinni færi á að skríða úr öskustónni og ganga undir eldskírnina, sem hún hefur farið á mis við alla sína sjálfstæðisbaráttu. Nú þarf þjóðin að blása í herlúðra.

Andóf tekur við af orðum sem þungamiðja baráttunnar fyrir sjónarmiðum móður náttúru, sögu og framtíðar. Innan ramma lýðræðis rúmast fleira en fjögurra ára seta vandræðafólks í ráðherrastólum. Þar rúmast líka vopnlaust andóf borgara landsins gegn firringunni.

Andófið þarf að rísa úr grasrótinni, í briddsklúbbunum og gönguklúbbunum, í fjölskyldunum og nágrannahópunum, í stéttarfélögunum og stjórnmálafélögunum. Hinn þögli meirihluti, sem hefur talað í skoðanakönnunum, þarf nú að standa á fætur og láta að sér kveða.

Andóf gegn ólánsverkinu getur tekið á sig ótal myndir og þarf að gera það. Innan þess rúmast fjárhagslegar, efnahagslegar og pólitískar refsiaðgerðir og skæruverkföll gegn öllum þeim, sem leggja hönd að fyrirhuguðu verki, jafnt verktökum sem orkukaupanda.

Andófið þarf að flytja út fyrir landsteinana. Sérstaklega verður viðkvæmt fyrir Norsk Hydro, þegar Norðmenn átta sig á, að fyrirtækið er að gera það hér, sem það fær ekki lengur að gera heima fyrir. Norsk Hydro verður dregið til ótakmarkaðrar ábyrgðar.

Andófsmenn hins þögla meirihluta þurfa samt fyrirfram að átta sig á, að allt, sem hér hefur verið nefnt, mun ekki nægja til að stöðva firringuna. Öll þessi atriði skipta máli, en önnur og meiri þarf eldskírnin að verða, sem að lokum stöðvar framgang málsins.

Það verður ekki fyrr en hinn þögli meirihluti flykkist hundruðum saman á Eyjabakkasvæðið til að hafa vaktaskipti framan við ýtutennurnar, að sigur vinnst. Sá er nefnilega munur Eyjabakka og Torgs hins himneska friðar, að íslenzkir ráðamenn láta ekki drepa fólk.

Ekki borgar sig að hefja vegferð án þess að vita um síðasta kafla hennar. Grasrót andófsins þarf að verða meðvituð um, að hún þurfi að lokum að standa andspænis eldskírninni framan við ýtutennurnar. Þegar hún hefur játazt því, mun sigur hennar verða mikill.

Siv Friðleifsdóttir kastaði stríðshanzka ógæfuliðsins framan í þjóðina í fyrradag. Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri eldskírnar til að sanna tilverurétt sinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ringulreið í Rússlandi

Greinar

Sorglegt er að fylgjast með hraðfara hnignun Rússlands undir óstyrkri stjórn þekktasta drykkjurúts samtímans. Á nokkurra mánaða fresti rís forsetinn úr rekkju og rekur mann og annan, meðan hirð hans sjálfs og helztu braskvinir hennar ræna og rupla þjóðfélagið.

Brottrekstur Stepasjíns og ráðning Pútíns felur í sér örvæntingarfulla tilraun Jeltsíns til að tryggja sér og hirð sinni sem hollastan forsætisráðherra til að varðveita stöðu hópsins í þjóðfélaginu inn í ótrygga framtíð, án tillits til hagsmuna þjóðarinnar í heild.

Kveikjan að þessum síðasta brottrekstri var stofnun kosningabandalags borgarstjórans í Moskvu og nokkurra helztu héraðsstjóra Rússlands, sem talið er munu valta yfir fylgismenn forsetans. Hinum nýja Pútín mun ekki takast að hindra þá sögulegu nauðsyn.

Hnignun Rússlands er ekki aðeins slæm fyrir Rússa, heldur heimsbyggðina alla. Vesturlönd þurfa á að halda öflugu lýðræðisríki við norðurlandamæri Kína og samstöðu milli vesturkristnu og austurkristnu menningarheimanna um eflingu lýðræðis í heiminum.

Því víðar sem lýðræði fer, þeim mun minni líkur eru á styrjöldum milli þjóða. Nútímasagan sýnir, að lýðræðisríki reyna að jafna ágreining sín í milli án vopnavalds. Þau eru enn fremur heppilegasti jarðvegur markaðsbúskapar og auðmyndunar, sem þekkist í heiminum.

Vesturevrópska og norðurameríska lýðræðisbandalagið þarf að hlúa að veikburða lýðræði í rómönsku löndunum í Ameríku, austurkristnu löndunum í Evrópu og Asíu, svo og í Indlandi til þess að tryggja sér bandamenn í stórum og smáum atriðum, sem fylgja lýðræðinu.

Rússland skiptir miklu í þessari heimsmynd, því að það er höfuðríki austurkristninnar. Það gat til dæmis fengið trúbræður Rússa í Serbíu til að leggja niður vopn í Kosovo, þótt hernaðarmáttur þeirra væri nánast óskertur eftir loftárásir Atlantshafsbandalagsins.

Þótt vestrið geti í krafti augljósrar velmegunar sinnar sogað til sín fylgi austurkristinna ríkja á borð við Búlgaríu og Rúmeníu, er miklu meiri fengur í höfuðríkinu sjálfu, sem býr yfir öflugum kjarnorkuvopnum og teygir sig alla leið austur til Kyrrahafs.

Til dæmis er mikilvægt, að helztu vopn Rússlands lendi ekki í óreiðu og finnist síðar í höndum einhvers af hinum mörgu tækifærissinnum í röðum hryðjuverkastjóra víðs vegar um Asíu. Núverandi ringulreið í Rússlandi eykur líkur á dreifingu ógnarvopna.

Ef einhver glóra væri í stjórnarfari Rússlands, væri hægt að hjálpa því til traustara lýðræðis og aukinnar velmegunar. Því miður er stjórnarfarið á vegum Jeltsíns forseta með þvílíkum endemum, að allt fjármagn, sem útvegað er, hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Júris Luzhkov borgarstjóri og héraðsstjórarnir eru svo sem ekki fínustu pappírar, en vart er hægt að hugsa sér, að ástandið versni frá því, sem nú er. Raunar hefur lengi verið óskynsamlegt að leggja traust sitt á herðar útbrunnins róna, sem hefur gert Rússland að öreiga.

Því miður er fátt hægt að gera í stöðunni. Áfram verður að verja fé til að hindra, að Rússland verði gjaldþrota, og reyna á meðan að halda lífi í frjálsri fjölmiðlun og öðrum þáttum, sem varðveita von um, að einhvern tíma gerist Rússar ábyrgir í kjörklefanum.

Enn verðum við trúa, að Rússar muni um síðir ganga til sætis í hópi rótgróinna og auðugra lýðræðisríkja heims og leggja lóð sitt á vogarskál þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Leifur norski og alfræðibókin

Greinar

Samkvæmt heimild allra heimilda var Leifur heppni norskur, en ekki íslenzkur. Encyclopædia Britannica velkist ekki í vafa um ágreiningsefnið, sem Íslendingar hafa löngum haft mikið fyrir að fá túlkað sér í hag í Bandaríkjunum, heimalandi alfræðibókarinnar.

Raunar gengur heimild allra heimilda lengra, því að í norska kaflanum segir, að “norskir sæfarar hafi verið heimskunnir, allt frá dögum Eiríks rauða og sonar hans Leifs heppna”. Í kaflanum um Ísland er hins vegar hvergi getið um landafundi, Vínland eða feðgana.

Encyclopædia Britannica birtir raunar nafn Leifs upp á norsku, “Leiv Eriksson den hepne”. Lesendum er óbeint gefið í skyn, að þannig hafi nafn Leifs verið ritað fyrir þúsund árum af því fólki, sem alfræðibókin kallar “Norse” og talaði tungu, sem hún kallar “norse”.

Tilvitnanirnar hér að ofan eru úr vefútgáfu Encylopædia Britannica, þeirri sem blaðamenn og fréttastjórar um allan heim nota, þegar þeir kanna, hvort rétt sé farið með. Þess vegna er þetta heimild allra heimilda, það sem haft er fyrir satt um allan heim.

Þetta er einnig sú heimild, sem menntaráðuneytið íslenzka vill, að verði aðgengileg öllum Íslendingum. Þess vegna hefur hún samið um að greiða í einu lagi fyrir áskrift allrar þjóðarinnar að vefútgáfu Encylopædia Britannica, svo sem rækilega hefur verið auglýst.

Þar sem heimild allra heimilda telur Leif heppna og Eirík rauða hafa verið norska, fundi Grænlands og Vínlands hafi verið afrek norskra sæfara og að “norse” hafi verið töluð á Íslandi í gamla daga, má ljóst vera, að gagnaðgerðir Íslendinga eru á hreinum villigötum.

Engu máli skiptir, hvað Clinton Bandaríkjaforseti fæst til að trúa og tala á hátíðlegum stundum. Engu máli skiptir, hvort hægt er að koma íslenzkri söguskoðun á framfæri við hátíðahöld fína fólksins í Vesturheimi. Það eitt skiptir máli, hvað heimild allra heimilda segir.

Bandaríkjaforsetar koma og fara. Hátíðahöld koma og fara. Fína fólkið kemur og fer. Encyclopædia Britannica blífur hins vegar, daglega skoðuð af hliðvörðum upplýsingageirans og skjólstæðingum menntaráðuneyta. Gagnsókn Íslendinga beinist að röngum aðilum.

Vitneskjan um mikilvægi alfræðibókarinnar og lítilvægi Clintons, hátíðahalda og fína fólksins einfaldar málið um leið. Það, sem menntaráðherra þarf að gera, er að senda vaska sveit hæfra sérfræðinga til höfuðstöðva Encyclopædia Britannica til að skýra málstaðinn.

Stjórnvöld hafa varið miklu fé til að telja Bandaríkjamönnum trú um, að Leifur Eiríksson hafi verið íslenzkur og ætla að verja til þess enn meira fé. Miklu minna kostar að skipuleggja og framkvæma leiftursókn réttra upplýsinga í garði heimildar allra heimilda.

Ef ritstjórar Encyclopædia Britannica viðurkenna, að Leifur heppni hafi verið fæddur á Íslandi og að landnám Grænlands og Vínlands hafi að mestu verið íslenzkt fremur en norskt, er nánast með einu pennastriki hægt að breyta vefútgáfu alfræðibókarinnar.

Það einfaldar málið, að starfsmenn menntaráðuneytisins hljóta að þekkja til innanbúðar hjá heimild allra heimilda eftir undirritun samkomulagsins um áskrift allra Íslendinga. Þeir þurfa því ekki að byrja á að kynna sig, þegar þeir hefja stórskotahríð upplýsinga.

Íslenzk stjórnvöld þurfa aðeins að átta sig á, að söguskoðunarvaldið er ekki hjá fínu fólki í veizlum, heldur hjá þeim, sem skrifa alfræðibók alheimsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Frankenstein-fæðan

Greinar

Í hillum íslenzkra matvöruverzlana er áreiðanlega eitthvað af erfðabreyttum mat, mestmegnis ættuðum frá Bandaríkjunum. Erfðabreyttu vörurnar eru ekki merktar sem slíkar, svo að neytendur geta ekki sjálfir ákveðið, hvort þeir neyta slíkra matvæla eða ekki.

Í löndum Evrópusambandsins hefur verið mikil umræða um erfðabreyttan mat, sem margir vilja forðast. Einkum hefur andstaðan verið hörð í Bretlandi, þar sem þessi matvæli eru jafnan kölluð Frankenstein-fæða. Hér á landi virðast hins vegar fáir hafa áhuga.

Rannsóknir á afleiðingum erfðabreyttra matvæla eru skammt á veg komnar, eru á ýmsan hátt misvísandi og hafa ekki leitt til neinna beinna sannana um skaðsemi þeirra, þótt sumar niðurstöður bendi í þá átt. Í Evrópu vilja menn fara varlega meðan þekkingar er aflað.

Framleiðendur erfðabreyttra matvæla í Bandaríkjunum hafa aukið afköst móður jarðar um tugi prósenta. Því geta þeir undirboðið keppinauta sína, sem ekki framleiða erfðabreytt matvæli, til dæmis evrópska keppinauta, ef aðgangur fæst að evrópskum markaði.

Evrópusambandið hefur í vaxandi mæli tekið forustu í andstöðunni við erfðabreyttu matvælin. Það leggur steina í götu innflutnings slíkra matvæla og krefst þess, að þau séu merkt sem slík, svo að neytendur viti, hvort þeir séu að nota erfðabreytt matvæli eða ekki.

Bandaríkjastjórn er andsnúin merkingum og hefur fengið Heimsviðskiptastofnunina nýju til að fallast á, að Evrópa sé með þessu að vernda landbúnað sinn á lævísan hátt. Stofnunin hefur þar á ofan heimilað Bandaríkjunum að leggja refsitolla á evrópskar vörur.

Ef Heimsviðskiptastofnunin heldur fast við þá stefnu, að andstaða við erfðabreytt matvæli feli í sér dulbúna vernd evrópsks landbúnaðar, er hún komin út á svo hálan ís, að vafasamt er, að hún fái staðist til lengdar. Hún stefnir raunar hraðbyri í átt til sjálfsmorðs.

Krafan um sérmerkingu erfðabreyttra matvæla á ekki að geta orðið tilefni svona harðra viðbragða af hálfu Bandaríkjastjórnar og Heimsviðskiptastofnunarinnar. Með henni er bara verið að kasta boltanum til neytenda, en ekki verið að banna Frankenstein-fæðuna.

Margir sérfróðir aðilar telja rétt að ganga miklu lengra og banna alla framleiðslu og innflutning erfðabreyttra matvæla, unz betri þekking hefur náðst á afleiðingum tilrauna. Þeir telja, að menn ráði ekki við andann, sem þeir eru að hleypa úr lampa Aladíns.

Neytendur í Evrópu og einkum í Bretlandi hafa tilhneigingu til að styðja þá, sem varlega vilja fara. Brezka kúafárið og belgíska kjúklingafárið hafa valdið því, að almenningur trúir varlega fullyrðingum um, að hitt og þetta sé í góðu lagi í matvælaframleiðslunni.

Hér á landi vilja menn ekkert vita af viðskiptastríðinu um erfðabreyttu matvælin. Hagsmunir innlends landbúnaðar valda því eigi að síður, að Ísland verður fljótt að feta í fótspor Evrópusambandsins og taka upp sömu boð og bönn og sömu kröfur um merkingar.

Samt er umhugsunarefni, að slíkt verður ekki gert til að vernda íslenzka neytendur eða gera þeim kleift að vernda sig sjálfir, heldur til að vernda landbúnaðinn, sem ekki framleiðir erfðabreytt matvæli. Við fáum því flutta inn rétta lausn á röngum forsendum.

Einnig er umhugsunarefni, að hér bætist við enn eitt dæmið um, að Evrópusambandið hefur endanlega tekið við hlutverki ábyrga heimilisföðurins á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Margir kallaðir en fáir útvaldir

Greinar

Pólitíska moldviðrið út af lokun Sæunnar á Ólafsfirði sýnir, hversu erfitt er að úthluta opinberum stuðningi, svo að öllum líki. Byggðakvóti er verðmæt auðlind, þar sem margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Þeir, sem ekki fá, verða að vonum harla ókátir með niðurstöðuna.

Ekki verður séð, að rangt hafi verið staðið að úthlutun byggðakvótans. Alþingi setti um hann lög, sem Byggðastofnun hefur reynt að fara eftir. Samkvæmt síu laganna er Ólafsfjörður of stór og öflugur bær til að komast gegnum nálarauga skömmtunarkerfisins.

Alþingismenn, sem settu lögin sjálfir, eru farnir að heimta, að Byggðastofnun líti fram hjá texta laganna og veiti fyrirtæki á Ólafsfirði sérstaka fyrirgreiðslu, að því er virðist vegna þess, að forstjóri þess hafði sérstaklega hátt, þegar hún skellti hurðum og læsti.

Dæmið sýnir í hnotskurn, að úthlutun er aldrei sanngjörn. Hún er í innsta eðli sínu mismunun. Þar á ofan liggur í hlutarins eðli, að meiri líkur eru á, að hún verðlauni skussa, heldur en þá, sem hafa staðið sig vel og byggt upp blómlegan rekstur á eigin fótum.

Við rekum okkur sífellt á þá staðreynd, að markaðslögmálin ein eru sanngjörn. Þau mismuna ekki og þau verðlauna ekki skussa. Þau grisja garð atvinnulífsins og gefa þeim plöntum svigrúm, sem bezt vaxa. Þannig eflist þjóðarhagur mest og hraðast.

Um leið felst grimmd í hlutleysi markaðslögmálanna. Bæjarstjóri Ólafsfjarðar lýsir þeim vítahring, að nú flytjist atvinnulausar konur frá Ólafsfirði með börn sín og lögheimili eiginmanna sinna og þar með verði ógætilega skuldsettur bærinn af útsvarstekjum þeirra.

Raunar er engin byggðastefna þjóðinni hagkvæm önnur en sú, sem tryggir byggð í landinu gagnvart útlöndum. Ef allir vilja búa í nágrenni Kvosarinnar, á að leyfa þeim það, án þess að leggja fyrir þá sérstakar byggðagildrur fyrir hönd plássa, sem eru á undanhaldi.

Vilji þjóðfélagið draga úr þungum straumi þjóðarinnar til höfuðborgarsvæðisins, kostar það mikið skattfé, sem nýtist ekki í annað, og þar á ofan misklíð á borð við þá, sem risin er út af því, hvort sanngjarnt sé eða ekki, að Sæunn á Ólafsfirði njóti opinberrar fyrirgreiðslu.

Staðreyndin er sú, að fólksflutningar í landinu eru svo stríðir, að velviljað ríkisvald hefur ekki fé til að hamla gegn þeim. Með úthlutun byggðakvóta til fámennra byggða á undanhaldi er hægt að klóra smávegis í bakkann, en ekki að snúa við augljósri byggðaþróun.

Sú byggðastefna, sem rekin er hér á landi, er smábyggðastefna, sem getur linað þjáningar hér og þar um tíma, en fær ekki hamlað gegn tímans þunga straumi. Hún er eins konar guðsþakkarverk stjórnmálamanna, sem henda skildingum í útvalda fátæklinga.

Vafalaust hafa einhverjir grátið, þegar í eyði lögðust Dritvík og Djúpalón, þar sem sést ekki tangur né tetur af stórveldistíma fyrri alda. Vafalaust hafa aðrir grátið, þegar Hornstrandir lögðust í eyði og breyttust í eftirsótta náttúruvin. En markaðslögmálin fengu að ráða.

Þjóðfélag getur kosið sér að sækja fram veginn og halda til jafns við önnur þjóðfélög í umhverfi sínu. Það getur líka valið þá leið að leggjast í varðveizlu fortíðar og verja til þess fjármunum sínum, svo að það breytist í eins konar byggðasafn fátæktar og fortíðar.

Gagnslaust er hins vegar að kasta skildingum í sérvalda smælingja í þeirri von, að almættið taki viljann fyrir verkið og fyrirgefi þjóðinni syndir hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Skjaldborg kamfýlumanna

Greinar

Kamfýlugerlamálið er einfalt dæmi um, að staðbundnir og pólitískir hagsmunir eru teknir fram yfir almannahagsmuni. Kjúklingabúinu að Ásmundarstöðum hefur ekki verið lokað og sýkingarsvæðið hreinsað, og ekki hefur lögreglan rannsakað vinnuferli Holtakjúklings.

Málið er einfalt. Um 40 manns sýktust af kamfýlugerli á ári hverju fram eftir áratugnum. Árin 1996 og 1997 tvöfölduðust tilvikin upp í um 90 á ári. Í fyrra tvöfölduðust þau aftur og urðu alls 220. Í ár hafa þau enn tvöfaldazt og eru komin í 255 sýkingar á miðju ári.

Áður var kamfýlugerill lítt þekktur hér á landi eins og í Noregi og í Svíþjóð. Á fáum árum hefur sprenging orðið í skráðum veikindum af völdum hans hér á landi, án þess að heilbrigðisyfirvöld hafi tekið af festu á málinu. Raunar hefur sýkingunum verið haldið leyndum.

Könnun í fyrrahaust benti til, að ástandið hjá Holtakjúklingi væri alvarlegt. Tveir þriðju hlutar mældra kjúklinga höfðu kamfýlugeril, allir frá því fyrirtæki. Samt gerðist ekkert og hefði ekki gerzt, ef Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefði ekki tekið á sig rögg í sumar.

Að mati pólitískt skipaðrar Heilbrigðisnefndar Suðurlands er frumkvæði starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands nógu alvarlegt til að krefjast lögreglurannsóknar á frumkvæðinu, þótt ekki sé talin ástæða lögreglurannsóknar á Holtakjúklingi og Ásmundarstaðabúinu.

Einn alþingismaður, Hjálmar Árnason, sem ætlar að bjóða sig fram í kjördæmi Rangárvallasýslu í næstu kosningum, hefur sagt, að starfsmenn eftirlitsins hafi brotið lög um þagnarskyldu. Alþingismaðurinn hefur hins vegar ekki neinar áhyggjur af heilsu neytenda.

Umhverfisráðuneytið, hinn nýi landlæknir og Hollustuvernd ríkisins segja ekki ástæðu til að verða við kröfu Neytendasamtakanna um að innkalla vörur frá Ásmundarstaðabúinu. Landlæknir segir þó, að búast megi við fleiri tilvikum kamfýlusýkingar á næstunni.

Héraðsdýralæknir, heilsugæzlulæknir og heilbrigðisnefndarformaður svæðisins, allir í sama fínimannsklúbbnum, bera blak af Holtakjúklingi. Héraðsdýralæknirinn hefur miklar tekjur af fyrirtækinu og segir starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafa farið offari.

Forstjóri Holtakjúklings hefur áður lent í svipuðu máli, þegar hann var stjórnarformaður annars fyrirtækis, sem olli illræmdri sýkingu af völdum kjúklinga í Búðardal. Ítrekuð ástæða er því til að spyrja, hvort hann sé fær um að stjórna fyrirtæki í matvælaiðnaði.

Holtakjúklingur hefur áður lent í fréttum fyrir sóðaskap, þegar DV upplýsti, að úrgangi kjúklingasláturhússins á Hellu var formálalaust veitt út í Rangá. Þá var blaðið sakað um að fara offari, en ráðamenn neyddust til að knýja sláturhúsið til úrbóta í frárennslismálum.

Við höfum þannig reynslu af röð vandamála, sem tengjast einni persónu og einu fyrirtæki. Við sjáum hvernig ráðamenn í héraði og landsstjórn slá skjaldborg um fyrirtækið og saka fjölmiðla og starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um ofsóknir gegn því.

Skelfilegast við þetta mál er, að það er tilviljun, að við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands starfa tveir menn, sem taka starf sitt alvarlega. Ef þeir hefðu ekki samið skýrslu um ástandið á Ásmundarstöðum án vitundar ráðamanna í héraði, vissu neytendur ekki enn um gerilinn.

Mál þetta sýnir, að ráðamönnum í héraði og landsstjórn er skítsama um heilsu neytenda og vilja ná sér niðri á þeim, sem komu upp um sóðaskapinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgarstjórn skaðar Laugardal

Greinar

Umhverfisslys borgarstjórnar Reykjavíkur í Laugardal minnkar ekki við, að stjórnmálaandstæðingar hafi í vetur verið samþykkir því að mestu eða að forverar þessara andstæðinga hafi fyrir aldarþriðjungi sett það inn á borgarskipulagið við allt aðrar aðstæður.

“Þeir voru ekkert skárri en ég”, er borgarstjóri að segja, þegar hún afsakar sig með tilvísun til fyrrverandi og núverandi pólitíkusa borgarinnar. Röksemdafærsla borgarstjórans hefur frá ómunatíð fylgt billegum pólitíkusum, sem ekki nenna að verja málstaðinn.

Á sama hátt beita ráðherrar ríkisstjórnarinnar því fyrir sig, að forverar þeirra hafi á sínum tíma samþykkt virkjun, sem færir Eyjabakka í kaf. “Ekki benda á mig”, segja Halldór, Finnur og Siv, alveg eins og Ingibjörg Sólrún. Lélegir pólitíkusar vísa frá sér ábyrgð.

Umhverfisslysin hófust snemma í Laugardal. Fyrsta stórslysið varð, þegar leyft var að byggja í Skeifunni og Fenjunum í stað þess að búa til beina tengingu milli gróðurvinjanna í Laugardal, Elliðaárdal og Fossvogsdal. Á þeim tíma skildu fáir gildi opinna svæða.

Lungu borgarinnar skipta miklu, hvort sem þau eru notuð til útivistar eða ekki. Þau skapa víddir, draga úr innilokunarkennd og bjóða útivistarkosti, sem síðar meir verða mikils metnir af fólki, þegar áhugi á náttúru og útivist hefur aukizt enn frá því, sem nú er.

Sú plága hefur löngum fylgt borgaryfirvöldum að telja sig þurfa að þétta byggðina til að ná fram meiri hagkvæmni. Þetta varð einkum til vandræða á fyrra valdaskeiði vinstri flokkanna í Reykjavík og hefur aftur verið sett á oddinn af ráðamönnum Reykjavíkurlistans.

Afleiðingarnar hafa ekki bara orðið umhverfisslys, heldur einnig umferðarslys. Hanna hefur orðið ný umferðarmannvirki á dýran, óhagkvæman og hættulegan hátt, af því að svigrúm þeirra er of lítið. Þannig var til dæmis byggt ofan í núverandi Höfðabakkabrú.

Skipulagsfræðingar hafa aldrei getað svarað einfaldri spurningu: Hvers vegna þarf að skipuleggja allt núna, í stað þess að leyfa hlutunum að dankast, svo að eitthvað sé eftir fyrir afkomendur okkar að skipuleggja, þegar aðstæður eru orðnar allt aðrar en þær eru núna?

Í Laugardal er afar vinsæl borgarstofnun, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, vinsæll áningarstaður barnafólks. Hvorn garð um sig þarf að þrefalda að stærð til að mæta kröfum náinnar framtíðar. Grasgarðinn þarf líka að vera hægt að stækka, þegar tímar líða fram.

Með því að leyfa byggingu Landssíma- og skemmtihúsa á þessu gróðursæla svæði er borgarstjórinn í Reykjavík að þakka fyrir kosningapeninga og hindra umtalsverða stækkun hinna vinsælu garða, þrengja þróunarkosti og skaða langtímahagsmuni.

Þótt menn hafi árið 1962 ekki séð þörfina fyrir opin svæði í Laugardal, er hægt að sjá hana árið 1999. Þess vegna ber borgaryfirvöldum að fella úr gildi úrelt skipulagsákvæði og samþykkja ný, sem taka tillit til, að ýmsu getur farið fram í borgarlífinu á aldarþriðjungi.

Því ber að afturkalla skaðlegar hugmyndir borgaryfirvalda um byggingu símahúss og skemmtihúss í Laugardal og leyfa afkomendum okkar að ráða, hvað verður gert við svæðið. Á meðan má einfaldlega hafa þar tún og beitiland fyrir húsdýr og hesta.

Fólk má ekki bíta sig í gamlar ákvarðanir frá frumstæðari tímum. Tíminn er fugl, sem flýgur hratt og flytur okkur ný gildi með nýjum kynslóðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Reynt að stela innviðunum

Greinar

Flestum finnst eðlilegt, að samfélagið eigi sjálft helztu innviði sína, svo sem samgöngumannvirki á borð við vegi, hafnir og flugvelli, þótt aðrir eigi tækin, sem nota innviðina, svo sem bíla, skip og flugvélar. Slík mannvirki eru raunar einn af hornsteinum ríkisvaldsins.

Sárafáar undantekningar eru til. Hvalfjarðargöng voru talin áhættusöm framkvæmd og því var hún afhent einkaaðilum með þeim skilmálum, að mannvirkið rynni til ríkisins að liðnum ákveðnum úreldingartíma fjárfestingarinnar. Göngin verða því ríkiseign að lokum.

Stundum gleyma menn, að símakerfi landsins er að hluta samgöngumannvirki á borð við vegi, hafnir og flugvelli. Burðarlínur símakerfisins eru raunar engu ómerkari en helztu mannvirki annarra samgönguþátta. Þær ætti ekki að láta í hendur fyrirtækja úti í bæ.

Ljósleiðarakerfi landsins er burðarás síma, tölvusamskipta og sjónvarps. Það var að meirihluta kostað af varnarliðinu á Keflavíkurvelli til að tengja völlinn við eftirlitsstöðvar í öllum landshornum og er þannig um leið sjálft æðakerfið í öryggismálum landsins.

Landssíminn er öðrum þætti þjónustufyrirtæki, sem notar ljósleiðarana í samkeppni við önnur fyrirtæki, sem vilja veita þjónustu í síma, tölvusamskiptum eða sjónvarpi. Þetta er það, sem þarf að skilja í sundur, þegar þjónustuhlutverk Landssímans verður einkavætt.

Við þurfum að eiga sérstaka ríkisstofnun utan um ljósleiðarana, þótt við gefum allt frjálst í umferðinni um þá, rétt eins og ríkið á vegina og veitir öllum frjálsan aðgang að þeim. Við megum ekki vera upp á einkavædda einokun komin á þessu mikilvæga samgöngusviði.

Landssímann má alls ekki selja sem einn einokunarpakka. Skilja verður milli ólíkra rekstrarþátta hans og selja símaþjónustuna sér og margmiðlunina sér, en halda stofnæðakerfinu eftir í sérstakri stofnun, sem hefur samgöngu- og öryggisskyldur ríkisins á herðunum.

Ástæða er til að óttast, að ríkisstjórnin sé höll undir hugmyndir um söluferli, sem leiði til þess, að ríkiseinokun breytist í einkaeinokun. Stofnaður hefur verið sérstakur Íslandssími, sem ekki keppir í þjónustu, heldur bíður færis að kaupa sig inn í Landssímann.

Einn helztu ráðamanna Íslandssíma sat í framtíðarnefnd Landssímans og nú hefur stjórnarmaður Íslandssíma verið gerður að framkvæmdastjóra Landssímans. Við sjáum þegar fyrir okkur ferli, þar sem Landssíminn verði einkavinavæddur upp á rússnesku.

Ef ráðagerð þessi tekst, verður það meiriháttar framsal landsréttinda í hendur einkaaðila og minnir helzt á framsal auðlinda sjávar í hendur sægreifanna. Munurinn er sá, að auðlindaframsalið var margra ára ferli, en símann hyggjast menn fá með einum hælkrók.

Þjóðin er svo upptekin af brauði og leikjum, að hún hefur ekki mátt til að skipta sér af þessu. Hún reynist í skoðanakönnunum vera andvíg framsali auðlinda sjávar í hendur sægreifanna, en hefur ekki burði til að taka afleiðingum skoðana sinna í einrúmi kjörklefans.

Einkavinir ríkisvaldsins hafa tekið eftir auðnuleysi íslenzkra kjósenda, sem láta allt yfir sig ganga, ef þeir fá bara brauð og leiki. Kolkrabbinn gengur því hreint til verks að þessu sinni og ætlar sér að eignast og einoka ljósleiðarakerfi landsins með einu pennastriki.

Enn er tími til að átta sig á nýrri birtingarmynd einokunarinnar og rísa gegn framsali landsréttinda í samgöngum eins og í auðlindum lands og sjávar.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðsþakkaverk ráðherra

Greinar

Hafa má til marks um afturhaldssemi íslenzka stjórnkerfisins, að enn tíðkast, að hver ráðherra hafi að meðaltali um átta milljónir króna á ári til að gefa húsgangsmönnum fyrir sálu sinni, rétt eins og höfðingjar fyrri alda, sem dreifðu skildingum til beiningamanna.

Þannig gefur forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar aura til að klifra fjallið Ama Dablam, landbúnaðarráðherra aura til alþjóðlegrar ráðstefnu samkynhneigðra í Hollandi og menntamálaráðherra aura til minningarathafnar um Allen Ginsberg í New York.

Sameiginlegt einkenni allra guðsþakkaverka ráðherranna er, að tilviljun ræður, hver verður fyrir mildi höfðingjans. Ein björgunarsveit fær aura, en ekki hinar 20. Ein ráðstefna fær aura, en ekki hinar 200 Ein minningarathöfn fær aura, en ekki hinar 2000..

Þannig var þetta fyrr á öldum, þegar höfðingjar fóru um stræti og létu þjóna sína dreifa skildingum til brots af þeim bágstöddu, sem urðu á vegi þeirra. Ekki var spurt, hverjir væru verðastir gjafanna, því að þetta voru guðsþakkaverk, sem gerðu höfðingjana hólpna.

Það sem skilur lýðræðisþjóðfélag nútímans frá þjóðfélögum fyrri tíma er samt einmitt andstæðan við þessa gömlu guðsþakkaaðferð við að dreifa peningum um þjóðfélagið. Geðþóttaákvarðanir fyrri tíma hafa verið leystar af hólmi af fastmótuðum leikreglum réttarríkisins.

Til að jafna aðstöðumun í þjóðfélaginu eru sett upp form og reglur, sem farið er eftir. Þannig eru kerfisbundnir afslættir í skattakerfinu og öllum útveguð skólaganga og heilsugæzla nánast ókeypis. Þeir, sem fullnægja ákveðnum skilyrðum njóta jöfnunarinnar.

Í lýðræðisþjóðfélagi er reynt að finna leikreglur, sem segja, hvernig skuli dreifa peningum til björgunarsveita, svo að úthlutunin geti verið helzt sjálfvirk með öllu, en að öðrum kosti byggð á faglegu mati. Úrelt er, að ráðherrar mismuni björgunarsveitunum persónulega.

Við búum við afdankað kerfi guðsþakkaverka ráðherranna, af því að lýðræðishugsun hefur ekki náð að skjóta rótum. Það gleður hjarta ráðherranna að finna þakklæti hinna heppnu, sem lofa og prísa hann fyrir gjafmildina, rétt eins og ölmusumenn og aumingjar fyrri alda.

Það er hluti af íslenzku þjóðfélagi, að ráðherrar fái hver átta milljón króna sjóð á hverju ári til að gefa fyrir sálu sinni. Annars staðar í heiminum færi slík úthlutun fram eftir fyrirfram skilgreindum reglum á vegum faglegs aðila eða væri helzt sjálfvirk með öllu.

Hér ákveður menntamálaráðherra hins vegar persónulega, að meiri þörf sé á ritun bókar um sögu Loftleiða og Flugleiða í Luxemborg en annarra bóka á íslenzku og að nokkrir fjölbrautarskólanemar frekar en aðrir Íslendingar fari í heimsókn til Evrópusambandsins.

Einna skrautlegust eru guðsþakkaverk iðnaðarráðherra, sem tíðkar að gefa nýsköpunarstyrki til þeirra, sem lengst ganga í að apa það eftir, sem aðrir voru búnir að gera styrkjalaust. Styrkir ráðherrans ættu að heita eftiröpunarstyrkir, en ekki nýsköpunarstyrkir.

Fyrir utan átta milljónir á hvern ráðherra hafa ráðuneytin ýmsa óskipta liði til guðsþakkaverka framhjá lögum og reglum þjóðfélags, sem stærir sig af jafnrétti borgaranna. Þetta gerir ýmsum lykilmönnum ráðuneyta kleift að baða sig í lofi og prísi stafkarla.

Þannig starfar staðnað afturhaldsþjóðfélag, sem af og til er knúið gegn vilja sínum til framfara og aukins lýðræðis með tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvikmyndir ógna okkur

Greinar

Kvikmyndagerð er orðin að meiri háttar ógnun við vestrænt nútímasamfélag. Erfitt er að komast undan linnulausum ofbeldissýningum, sem meira að segja er lætt að okkur í auglýsingum innan í friðsælum fréttatímum, þar sem fólk á bara von á Kosovo-fréttum.

Kvikmyndastjórar í Hollywood hafa um langt skeið reynt að yfirkeyra hver annan og sínar fyrri kvikmyndir með firrtara ofbeldi en nokkru sinni fyrr. Heimsmynd margra kvikmynda, sem auglýstar eru sjónvarpi, er ekki í neinu samhengi við veruleika daglegs lífs.

Draumaverksmiðjan er í vaxandi mæli að breytast í verksmiðju martraða, þegar ekki er unnt að komast hjá þeirri áleitnu hugsun, að geðveikt fólk sé að sníða kvikmyndir fyrir geðveikt fólk. Staðreyndin er hins vegar, að markaðurinn kallar á þessar gerðir kvikmynda.

Ógeðið er inni á gafli hjá fólki í kvikmyndasýningum og kvikmyndaauglýsingum í sjónvarpi, sem hefur tekið við uppeldishlutverki heimilanna. Ómótuð börn sitja lon og don fyrir framan nýja uppeldistækið og eru þá ekki að trufla önnum kafna foreldra á meðan.

Lengst af var erfitt að sýna fram á bein tengsli milli ofbeldis í kvikmyndum og afsiðunar fólks. Í seinni tíð hafa rannsóknir þó bent til, að ofbeldiskvikmyndir séu þáttur í flóknu orsakasamhengi, þar sem vopnaeign, fíkniefni og félagslegt samhengi skipta líka máli.

Fjöldamorð í bandarískum menntaskólum eru ein afleiðing vítahrings, þar sem ofbeldiskvikmyndir eru einn þátturinn af mörgum. Kvikmyndir, sem sýna afsiðaðan gerviheim á myndrænan hátt, stuðla að afsiðun hins raunverulega heims vestrænna lýðræðisríkja.

Þjóðskipulag okkar stendur og fellur með leikreglum, sem meðal annars fela í sér, að lög og réttur koma í stað ofbeldis. Þegar þjóðfélagið afsiðast smám saman, meðal annars fyrir áhrif kvikmynda, holast leikreglurnar að innan og síðast fellur þjóðskipulagið sjálft.

Norðmenn hafa gengið þjóða lengst í að reyna að verjast ásókn martraðanna frá Hollywood. Þeir hafa harðskeytt kvikmyndaeftirlit, sem klippir kvikmyndir og bannar. Enn harðari er Óslóborg, sem á sjálf tæplega þriðjung af öllu sætaframboði bíóa í landinu.

Á Íslandi hefur verið reynt að fara meðalveg, sem er algengur á Vesturlöndum. Kvikmyndir eru merktar með aldurstakmörkunum, sem óbeint minna á viðvaranir á tóbaksumbúðum og áletranir um erfðabreytingar, sem Evrópusambandið er að láta setja á matvæli.

Hins vegar vantar jarðveginn fyrir merkingar af slíku tagi. Börnin læra hvorki heima hjá sér né í skólum að lesa innihaldslýsingar og viðvaranir á umbúðum. Það gildir um þetta eins og önnur svið neyzlu, að almenningur er að mestu leyti viljalaus leiksoppur seljenda.

Ástæða er til að ætla, að háar tölur í aldursbanni hvetji suma frekar en letji til notkunar á ógeðslegum kvikmyndum. Bezt væri raunar að banna þær alveg, en það er ekki raunhæft, af því að þær munu smjúga um gervihnetti gegnum möskva siðalögreglunnar.

Neyzluþjóðfélög Vesturlanda munu drukkna í ofbeldiskvikmyndum, fíkniefnum og annarri kaldrifjaðri framleiðslu, nema þeim takist að ala upp neytendur, sem eru færir um að velja og hafna af allsnægtaborðinu, sem otað er að þeim af mikilli og vaxandi markaðstækni.

Að óbreyttu munu Vesturlönd hljóta sömu örlög og Rómaveldi og önnur heimsveldi fyrri tíma, að ná hátindi veldis út á við, en grotna að innan og hrynja.

Jónas Kristjánsson

að er að þeim.

DV

Nóttin verður löng í Serbíu

Greinar

Slobodan Milosevic er ekki stóra vandamálið í arfaríkjum Júgóslavíu á Balkanskaga. Engan vanda leysir að leggja fimm milljónir dollara til höfuðs honum. Hann er að vísu með afbrigðum kaldrifjaður, en ýmsir aðrir helztu stjórnmálamenn Serba eru enn verri.

Við vitum af langri og biturri reynslu, hvar við höfum Milosevic. Slægð hans er orðin öllum opin bók, jafnvel ráðamönnum Vesturveldanna, sem árum saman ímynduðu sig vera að semja við hann um hitt og þetta. Menn vita, að hann mundi roðna, ef hann segði satt.

Stjórnarandstæðingurinn Vuk Draskovic er raunar enn þjóðernissinnaðri en Milosevic, ákaflega tækifærissinnaður, ýmist innan eða utan stjórnar, síður en svo traustvekjandi. Zoran Djindjic er talinn í húsum hæfur á Vesturlöndum, en nýtur sáralítils fylgis í Serbíu.

Sjálfur hefur Milosevic um 20% fylgi í Serbíu, sama fylgi og fyrir stríðið í Kosovo. Uppþot víða um landið sýna, að margir landa hans eru honum reiðir, en það er ekki fyrir brjálaða framgöngu manna hans í Kosovo, heldur fyrir að láta herinn leggja á flótta.

Í stríðslok var vígamáttur Serbahers nánast óskertur. Sem dæmi má nefna, að einungis þrettán skriðdrekar höfðu verið eyðilagðir í loftárásum Vesturveldanna. Mannfall var sáralítið í hernum fram á allra síðustu daga. Hann hefði vel getað varizt lengi enn.

Rússar fengu Milosevic til að gefast upp með því að segja honum, að hann væri með framgöngu sinni búinn að koma sér úr húsi hjá þeim og ætti þaðan engrar hjálpar að vænta. Serbía stóð ein í heiminum, með stuðningi nokkurra rómantískra sagnfræðinga á Íslandi.

Serbar sjálfir eru vandamál Balkanskaga. Þeir hafa komið sér upp sagnfræði, sem réttlætir allar gerðir þeirra. Þeir styðja til valda ofstækis- og ofbeldismenn og eru upp til hópa sannfærðir um, að fólkið í Kosovo hafi flúið undan loftárásum Atlantshafsbandalagsins.

Hættulegt er að gæla við hugmyndir um valdarán í Serbíu að undirlagi Vesturveldanna. Jarðvegurinn í landinu er með þeim hætti, að upp úr honum rísa nánast eingöngu óbótamenn í stjórnmálum. Þegar Milosevic fer, er líklegt, að eftirmaðurinn verði engu skárri.

Óráðlegt er að hafa önnur afskipti af innanríkismálum Serba en að koma í veg fyrir, að ofbeldishneigð þeirra komi niður á Ungverjum á sjálfstjórnarsvæðinu Vojvodina og Svartfellingum. Enn þarf að verja nánasta umhverfi þjóðarinnar fyrir Íslandsvininum Arkan.

Ekki er síður óráðlegt að fara að ráðum Martti Ahtisaari Finnlandsforseta og styrkja endurreisn innviða og atvinnulífs landsins. Engin ástæða er til að byrja á neinu slíku fyrr en Serbar hafa sem þjóð horfzt í augu við glæpina, sem framdir hafa verið í nafni þeirra.

Vesturveldin hafa nóg að gera og borga við að byggja upp innviði og atvinnulíf þeirra svæða, sem Serbar hafa rústað í Bosníu og Kosovo, svo og til að treysta lýðræði í löndunum í kring, Makedóníu, Albaníu, Búlgaríu og Ungverjalandi, sem studdu stríð Vesturveldanna.

Óformlegt bandalag ríkja Balkanskaga gegn Serbíu hefur gefið Vesturveldunum góðan jarðveg til að efla samstarf við þau og stuðla að varanlegu lýðræði og efnahagsframförum á skaganum, á svipaðan hátt og gerðist í Mið-Evrópu eftir andlát Varsjárbandalagsins.

En að sinni er enginn jarðvegur fyrir vestrið í Serbíu, þar sem lærðir og leikir ásaka Milosevic fyrir það eitt að hafa tapað Kosovo í hendur villutrúarmanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Samkeppnisráð fann töfrabil

Greinar

Samkvæmt niðurstöðum Hæstaréttar og Samkeppnisráðs er til eitthvert þröngt töfrabil, þar sem fyrirtæki eða samsteypur fyrirtækja verða markaðsráðandi og þar af leiðandi áhyggjuefni. Sé komið upp fyrir þetta bil, er ekki lengur tilefni til aðgerða af opinberri hálfu.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð Samkeppnisstofnunar gegn yfirtöku Flugfélags Íslands á Flugfélagi Norðurlands á þeim forsendum, að markaðshlutdeild fyrrnefnda félagsins hefði verið orðin 85­90% fyrir samrunann og það því búið að verða markaðsráðandi áður.

Samkeppnisráð hefur nú þrengt túlkun Hæstaréttar með því að úrskurða að yfirtaka Baugs á 10-11 verzlunarkeðjunni stríði ekki gegn samkeppnislögum, af því að Baugur hafi fyrir samrunann verið orðinn markaðsráðandi með um það bil 50% af smásölumarkaðinum.

Samkvæmt þessu vitum við, að einhvers staðar vel innan við 50% markaðshlutdeildar er til eitthvert töfrabil, þar sem fyrirtæki brjóta í bága við 18. grein samkeppnislaga, ef þau gleypa annað fyrirtæki. Þetta gæti verið einhvers staðar á bilinu 30­40%.

Við getum ekki ímyndað okkur, að fyrirtæki með 20% markaðshlutdeild sé markaðsráðandi. Algengt er hér á landi, að fyrirtæki séu með 20% markaðshlutdeild án þess að vera stærsta fyrirtækið á markaðinum.Töfrabilið hlýtur því að vera 30­40% markaðshlutdeild.

Ef fyrirtæki á einokunarbraut hefur komið sér upp úr þessu þrönga bili, er það orðið stikkfrí fyrir Samkeppnisráði, svo sem dæmið sannar. Þetta þrengir að sjálfsögðu svigrúmið til að beita samkeppnislögum og gerir þau að ónýtu tæki gegn einokunarhneigð.

Freistandi er að álykta 85­90% niðurstöðu Hæsaréttar vera léttgeggjað rugl og 50% niðurstöðu Samkeppnisráðs vera botnlaust rugl. Samt verður að viðurkenna, að orðalag 18. greinar samkeppnislaga kann að vera svo villandi, að það geri lögin máttlaus með öllu.

Ef Alþingi er þeirrar skoðunar að samkeppnislög séu nauðsynlegur hemill á einokunartilburði, þarf það að flýta sér að laga 18. greinina í haust. Í nýrri grein þarf að skilgreina, á hvaða bili markaðshlutdeildar er ástæða til að hafa áhyggjur af einokunarhneigð fyrirtækja.

Þótt ábyrgðin sé á endanum Alþingis, verður ekki hjá því litið, að Samkeppnisráð hefur farið frjálslega með niðurstöðu Hæstaréttar. Þótt einokun sé að mati dómstólsins fullnustuð við 85% markaðshlutdeild, þýðir það ekki, að hún sé einnig fullnustuð við 50%.

Samkeppnisráð hefur sjálft ákveðið að spila sig stikkfrí í einokun og getur ekki falið sig á bak við dóm Hæstaréttar. Ráðið hefur teygt og togað sérlunduðu rökfræðina í dómi réttarins langt út fyrir gráa svæðið og gert hana að hreinum og séríslenzkum skrípaleik.

Við getum orðað þetta svo, að dómur Hæstaréttar kann að standast skoðun æðri og betri dómstóla úti í Evrópu, en úrskurður Samkeppnisráðs mun ekki standast neina skoðun. Dómstóllinn er byrjaður að laga sig að umheiminum, en ráðið er það engan veginn.

Kjarni málsins er, að Samkeppnisstofnun hefur ekki nennt að taka efnislega afstöðu til málsins eða verið knúið til að gera það ekki, nema hvort tveggja sé. Tilvísun ráðsins til dóms Hæstaréttar er yfirklór til að réttlæta niðurstöðu, sem fengin er á annan hátt.

Sú óbeina niðurstaða Samkeppnisráðs, að einokun sé fullnustuð við 30­40% markaðshlutdeild, kann svo að verða Pandórukistill, sem gaman væri að hvolfa úr.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekta hestar og Camembert

Greinar

Nýr landbúnaðarráðherra okkar vill fá lækkaða tolla á íslenzkum hestum í útlöndum í kjölfar fréttar í DV um, að þýzka tollgæzlan sé að rannsaka meint tollsvik í innflutningi þeirra. Mikið er í húfi, því að hestar eru eina arðbæra útflutningsafurð landbúnaðarins.

Evrópskir tollar á íslenzkum hestum og eftirlit af hálfu tollgæzlu eru nákvæm endurspeglun íslenzkrar landbúnaðarstefnu. Þýzkir framleiðendur íslenzkra hesta njóta stuðnings yfirvalda við að vernda atvinnu sína nákvæmlega eins og íslenzkir bændur njóta.

Við getum tekið dæmi af ostinum Camembert, sem fundinn var upp í Frakklandi árið 1791. Innan Evrópusambandsins má enginn annar nota þetta heiti um eftirlíkingar af ostinum, en utan sambandsins er mikið um falsaðan Camembert, þar á meðal á Íslandi.

Nú má flytja til Íslands raunverulegan Camembert frá Frakklandi, en þá er settur á hann nokkur hundruð prósenta tollur til að verja eftirlíkinguna, sem framleidd er hér á landi. Við þurfum því ekki að verða hissa, þótt Evrópumenn geri slíkt hið sama við íslenzka hesta.

Munurinn á Íslandi og Evrópusambandinu er aðeins sá, að þar nema tollarnir nokkrum tugum prósenta, en ráðuneyti Guðna Ágústssonar lætur leggja á tolla, sem nema nokkrum hundruðum prósenta. Ísland er tíu sinnum harðskeyttara en Evrópusambandið.

Við eðlilegar aðstæður í heiminum mundu þeir vera látnir um að framleiða vöruna, sem bezt kunna á hana. Við eðlilegar aðstæður fengju allir að kaupa ekta Camembert án verndartolla og að kaupa ekta Íslandshesta, ræktaða á Íslandi, án verndartolla.

Stefna íslenzkra stjórnvalda á liðnum áratugum og í nútímanum hefur hins vegar stuðlað að því ástandi, að erlendir ræktendur íslenzkra hesta eru orðnir sjálfum sér nógir og vilja hafa heimamarkaðinn í friði fyrir þeim, sem streitast við að flytja hesta frá Íslandi.

Þetta er sjálfsþurftarstefnan, sem við þekkjum einstaklega vel hér á landi. Við eigum að vera sjálfum okkur nóg í framleiðslu búvöru, segja íslenzkir talsmenn kerfisins, sem nú er að drepa hrossaræktina. Þetta er nákvæmlega það, sem erlendir hrossaræktendur vilja.

Við skulum hafa alveg á hreinu, að það er Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra persónulega og allir hans nótar, sem bera ábyrgð á því, að útflutningur íslenzkra hesta er orðinn að fórnardýri stefnunnar, sem þeir hafa rekið áratugum saman og reka enn.

Það bylur því í ráðherranum eins og tómri tunnu, þegar hann grætur tolla á íslenzkum hrossum í útlöndum. Við hann sjálfan er að sakast, en ekki við þau ríki eða ríkjasambönd, sem við höfum samið við um gagnkvæma verndun innlendra landbúnaðarafurða.

Það er íslenzk landbúnaðarstefna, sem hindrar, að eina marktæka útflutningsafurð íslenzks landbúnaðar fái að njóta sín eins og hún á skilið. Um allan heim er mikill og ört vaxandi markaður fyrir íslenzka hesta á góðu verði, en útlendingar hirða markaðinn.

Íslenzkir hestar, ræktaðir við náttúrulegar aðstæður á Íslandi, eru betri en hestar sömu ættar, sem ræktaðir eru við aðrar aðstæður í útlöndum, til dæmis fótvissari og frjálslegri. En þeir eru þó fyrst og fremst ekta, rétt eins og franskur Camembert er ekta vara.

Herferð þýzka tollsins gegn hestum frá Íslandi er bein afleiðing þeirrar skaðlegu og íslenzku stefnu, að hver þjóð skuli vera sjálfri sér nóg í framleiðslu búvöru.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnlausir sniglar

Greinar

Vegamálastjóri og borgarverkfræðingur hafa valdið íbúum höfuðborgarsvæðisins og öðrum þeim, sem þar eiga erindi, gífurlegum kostnaði í eldsneyti og töfum vegna umferðarteppu, einkum á leiðum úr Borgarholti, Mosfellssveit og utan af landi til Reykjavíkur.

Ekki er unnt að sjá, að embættismennirnir hafi tekið neitt tillit til óþæginda notenda við skipulag og útboð framkvæmdanna. Á hverjum stað standa þær yfir mánuðum saman og valda reglubundnum töfum á helztu álagstímum sólarhringsins og vikunnar.

Á sunnudaginn keyrði óreiða embættismanna um þverbak, þegar biðröðin á leiðinni til Reykjavíkur náði upp að Hvalfjarðargöngum. Sú klukkutíma töf er þó smælki í samanburði við samanlagðar tafir fólks, sem daglega þarf að þola ástandið á leið í og úr vinnu.

Ekki er unnt að verja þetta með því að segja, að stórframkvæmdir taki tíma. Í Bandaríkjum eru umferðarbrýr reistar á einum degi. Þar er steypan forunnin og ekki látin harðna á staðnum. Þar er unnið dag og nótt alla daga vikunnar, þegar mikið liggur við.

Í Bandaríkjunum eru brúarstöplar reistir og brúargólf lögð, án þess að þrengja að umferð fyrir neðan. Þannig hefði með hæfilegri forvinnu verið hægt að reisa Skeiðarvogsbrú yfir Miklubraut án þess að fækka á meðan akreinum á Miklubraut úr þremur í tvær.

Auðvitað þarf að hanna mannvirki með tilliti til tækni og tíma við úrvinnsluna. Hönnun verður flóknari og framkvæmd verður dýrari, þegar taka þarf tillit til fólks. En kostnaðaraukinn skilar sér margfalt til þjóðfélagsins, þegar þjónustulund fær að ráða ferðinni.

Hvernig ætla vegamálastjóri og borgarverkfræðingur að fara að, þegar þeim verður falið að hanna og bjóða út mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðin er þyngst á höfuðborgarsvæðinu? Ætla þeir að senda þjóðina í sumarfrí í tvö ár?

Ábyrgðin á óhæfum embættismönnum hvílir að sjálfsögðu á pólitískum yfirmönnum þeirra, samgönguráðherra og borgarstjóra. Þeir eiga að taka í lurginn á starfsmönnum, sem skaða umbjóðendur hinna pólitísku leiðtoga með getuleysi, þekkingarleysi og áhugaleysi.

Erfitt er að flýta þeim framkvæmdum, sem þegar hafa verið boðnar út á forsendum snigilsins og eru unnar samkvæmt þeim. En samgönguráðherra og borgarstjóri geta veitt embættismönnum sínum skriflega og opinbera áminningu og beðizt afsökunar fyrir þeirra hönd.

Embættismenn fara ekki að þjóna fólki fyrr en þeir byrja að fá opinberar ákúrur fyrir skipulagsóreiðu. Fram að þeim tíma hrærast þeir og starfa í tómarúmi, þar sem hönnun framkvæmda lýtur engum utanaðkomandi hömlum neins raunveruleika utan tómarúmsins.

Eftir hrapallega reynslu af stórframkvæmdum ársins í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt, að svona verði aldrei aftur staðið að skipulagi slíkra framkvæmda. Senda verður menn til Bandaríkjanna til að læra, hvernig forðast megi óþægindi almennings.

Þar vestra og raunar víðar í heiminum eru margfalt stærri umferðarmannvirki reist á broti af íslenzkum framkvæmdatíma og með broti af íslenzkum umferðartöfum. Að baki liggur hugsun og tækni, sem íslenzkir vegaverkfræðingar verða að tileinka sér.

Fílabeinsturna vegamálastjóra og borgarverkfræðings þarf að rífa. Bjóða ber út hönnun mannvirkja og gera kröfu um, að framkvæmdir tefji ekki fyrir fólki.

Jónas Kristjánsson

DV