Greinar

Einokun er endastöð

Greinar

Þótt Baugur sé kominn með rúmlega helmings markaðshlutdeild eftir kaupin á verzlunarkeðjunni 10-11, leiðir það ekki til hækkaðs vöruverðs í náinni framtíð. Hins vegar er ástæða til að óttast þessa þróun í átt til fákeppni, þegar litið er lengra fram á veginn.

Einu sinni hafði Hagkaup forustu um lækkun vöruverðs og lækkun verðbólgu á Íslandi. Síðan tók Bónus við þessu hlutverki og nú síðast hafa 10-11 búðirnar gegnt mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Nú eru allar þessar keðjur komnar undir einn hatt Baugs.

Fyrir utan stendur Kaupás með tæplega fjórðungs markaðshlutdeild í keðjunum Nóatúni, 11-11 og KÁ. Tvær stærstu keðjurnar hafa þannig rúmlega þrjá fjórðu hluta alls matvörumarkaðarins og gætu hæglega gert heiðursmannasamkomulag um hóf í samkeppni.

Þetta þrengir kost stjórnvalda. Matvöruverzlunin í landinu hefur á undanförnum áratug verið mikilvægasti bandamaðurinn í lækkandi verðbólgu, vaxandi kaupmætti og auknum vinnufriði í landinu. Snúist dæmið við, verða stjórnvöld hengd, en ekki Baugur.

Neytendur eru á sama báti og stjórnvöld í þessu efni. Ef Baugur og Kaupás fara að gæta hófs í samkeppni sín í milli, sem er tiltölulega einföld ákvörðun tveggja aðila, leiðir það til kaupmáttarskerðingar, sem kemur harðast niður á þeim, sem flesta hafa munna að seðja.

Vandi framleiðenda er annar og meiri. Þeir verða að sæta því, að tveir aðilar ákveði nánast einhliða, hvor út af fyrir sig eða sameiginlega, hvað varan eigi að kosta til Baugs og Kaupáss. Óhjákvæmilegt er, að fákeppnin leiðir til grisjunar í landbúnaði og matvælaiðnaði.

Við erum vitni að heimsþekktu ferli í samskiptum fyrirtækja. Viðskiptafrelsi leiðir til harðnandi samkeppni, sem fyrirtæki svara með samruna til að auka hagkvæmni og losna við kostnaðarsama keppinauta. Samkeppnin breytist í fákeppni og á endanum í einokun.

Síðustu stig ferlisins valda stjórnvöldum, neytendum og framleiðendum staðbundnum vanda, þótt þau séu á ýmsan annan hátt hagkvæm. Þessi staðbundnu vandamál leiða til þess, að stjórnvöld reyna af veikum mætti að spyrna við fótum með lögum og reglugerðum.

Stjórnvöld eiga erfitt með að finna vatnaskilin, enda eru þau breytileg eftir aðstæðum hverju sinni. Spurningin er, hvenær er komið að þeim stað, að vötn renna ekki lengur í átt til hagsældar stjórnvalda og neytenda og fara að renna í öfuga átt við þessa mikilvægu hagsmuni.

Bandarísk stjórnvöld hafa gengið harðast stjórnvalda fram í viðnámi gegn þessu ferli. Þannig var bandaríska símafyrirtækið klippt niður í margar einingar og þannig á ríkið nú í endalausum málaferlum gegn fjölbreyttri einokunaráttu hugbúnaðarrisans Microsoft.

Hér á landi er viðnámið mildara og losaralegra. Óljóst er, hvað Samkeppnisstofnun getur gert í málinu og hvað henni ber í raun að gera. Hún getur svo sem lýst áhyggjum sínum eins og allir hinir, stjórnvöld, neytendur og framleiðendur, og látið að mestu þar við sitja.

Það veikir möguleika stjórnvalda að gera neitt í málinu, að ekki er hægt að reikna með skaðlegum áhrifum af kaupum Baugs á 10-11 búðunum í náinni framtíð. Ef um skaðleg áhrif verður að ræða, munu þau koma svo seint fram, að ekki er þá hægt að grípa í taumana.

Innri þverstæða samkeppninnar er, að hún á sér framtíðarmarkmið og náttúrulega endastöð í einokun og að við vitum ekki, hvort eða hvernig á að bregðast við.

Jónas Kristjánsson

DV

Bændur féflettir

Greinar

Ef Mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga hefði verið selt á frjálsum markaði, hefði fengizt svo miklu meira fyrir það, að þingeyskir bændur hefðu fengið til baka allt það fé, sem þeir áttu inni hjá kaupfélaginu. Í staðinn tapa þeir 140 milljónum króna á hruni fyrirtækisins.

Bændur selja kaupfélögum afurðir og kaupa af þeim nauðsynjar í staðinn. Viðskiptareikningur hjá kaupfélagi hefur löngum verið ávísanareikningur bænda. Margir Þingeyingar áttu nokkur hundruð þúsund krónur inni á viðskiptareikningi hjá kaupfélagi sýslunnar.

140 milljónir króna af inneign bænda á viðskiptareikningum í kaupfélaginu urðu glatað fé, þegar það hrundi um daginn og mjólkurkýr þess var seld með öðrum eignum til að afla fjár upp í sviptingar, sem teldust vera gjaldþrotaskipti, ef um hlutafélag væri að ræða.

Stjórn Kaupfélags Þingeyinga leitaði ekki tilboða, heldur ákvað að selja mjólkursamlagið til Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri fyrir 237 milljónir króna. Engin tilraun var gerð til að finna, hvort þetta væri rétt verð fyrir samlag með 27 milljón króna árlegan hagnað.

Mjólkursamlagið var eina rósin í hnappagati Kaupfélags Þingeyinga. Það framleiddi undir eigin vörumerki mjólkurvörur, sem vakið höfðu athygli um allt land, þar á meðal á hinum erfiða markaði höfuðborgarsvæðisins. Slíkur orðstír er verðmætur, þegar fyrirtæki er selt.

Kaupsýslumenn höfðu lýst áhuga á að kaupa mjólkursamlagið. Starfsmenn fjármálafyrirtækja sundurgreindu ársreikninga þess og mátu það á 350­400 milljónir króna. Og kaupfélagið þurfti einmitt slíka upphæð, 377 milljónir, til að geta staðið í skilum við bændur.

Þegar slíkar upplýsingar eru fáanlegar, er ábyrgðarlaust að afla ekki tilboða í mjólkursamlagið í stað þess að afhenda það KEA á silfurfati. Greinilegt er, að stjórn kaupfélagsins hefur tekið hagsmuni annars kaupfélags fram yfir hagsmuni sinna eigin félagsmanna.

Þetta þætti glæpsamlegt í hlutafélagarekstri og yrði tekið á því sem slíku. Kaupfélög eru hins vegar svífandi fyrirbæri, þar sem erfitt er að skera úr um, hver á hvað og hver ber ábyrgð á hverju. Niðurstaðan er venjulega, að enginn á neitt og enginn ber ábyrgð á neinu.

Kaupfélögin eru hluti valdakeðju, þar sem aðrir helztu hlekkirnir eru stofnanir landbúnaðarins og landbúnaðarráðuneytið. Í þessari keðju hefur löngum verið venja að taka hagsmuni fyrirtækja og stofnana fram yfir hagsmuni bænda, sem litið hefur verið á sem þræla.

Offramleiðslustefnan, sem ríkti um áratugi í landbúnaði, var ekki rekin í þágu bænda. Þeir voru bara vinnudýr stefnunnar, hvattir til að framleiða meira og meira, unz markaðurinn hrundi. Þá voru þeir látnir borga brúsann með kvótakerfi, sem hertist að hálsi þeirra.

Mikilvægt markmið offramleiðslustefnunnar var, að kaupfélög reistu frystigeymslur og kæligeymslur, sem þau síðan leigðu ríkinu fyrir okurverð til að geyma óseljanlegar afurðir, sem biðu útflutnings. Mikilvægt var, að halda þessum geymslum alltaf sneisafullum.

Óvinir bænda voru þeir kallaðir, sem börðust gegn offramleiðslustefnunni á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Bændur trúðu þessu margir, þótt hinn raunverulegi óvinur þeirra væri yfirstéttin, sem réð ríkjum syðra í keðju fyrirtækja og stofnana landbúnaðarins.

Síðan hrundi offramleiðslukerfið og bændur um allt land voru gerðir að fátæklingum. Fyrirlitningin á þeim lifir góðu lífi í ráðstöfun eigna Kaupfélags Þingeyinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Assýringar Balkanskaga

Greinar

Fyrir þremur árþúsundum voru Assýringar plága Miðausturlanda. Með hléum voru þeir öldum saman skelfing fólks í fljótalandi Efrat og Tígris. Fólk hvítnaði, þegar þeir voru nefndir, svo grimmir voru þeir, þegar þeir fóru um og kvöldu alla, sem þeir fundu.

Heimildir um æði Assýringa er ekki aðeins að finna í textum frá þjóðum, sem urðu fyrir barðinu á þeim, heldur eru þær einnig staðfestar í áletrunum þeirra sjálfra. Þar gorta þeir sig af illverkum sínum og lýsa þeim af óhugnanlega sjúklegri nákvæmni.

Allar tilraunir nágrannaþjóða til að hafa hemil á Assýringum fóru út um þúfur. Þeir risu alltaf upp aftur eftir ósigra sína. Það var ekki fyrr en Medar og Babýlóníumenn tóku sig saman um að útrýma vandamálinu, að lagður var grunnur að friði í Miðausturlöndum.

Í veraldarsögunni hafa stundum verið til þjóðir, sem hafa verið nágrönnum sínum til meiri vandræða en títt er um aðrar þjóðir. Þannig stóð Evrópu ógn af Húnum og Mið-Ameríku af Aztekum og þannig hafa Serbar öldum saman verið meginplága Balkanskaga.

Habsborgarar og Ottómanar skiptu löngum með sér skyldum að halda friði á þessu svæði, einkum með því að halda Serbum í skefjum. Þegar gömlu stórveldin hrundu snemma á þessari öld, fóru Serbar aftur á stúfana í assýrískri umgengni við nágranna sína.

Skelfingin, sem Serbar hafa á síðustu árum stráð í kringum sig, er ekki einum Slobodan Milosevic að kenna. Hann nýtur stuðnings meirihluta þjóðar sinnar og hefur ítrekað fengið hann staðfestan. Serbar vilja koma fram við nágranna sína á assýrískan hátt.

Þegar fjallað var um voðaverk Serba í Bosníu og þegar fjallað er nú um voðaverk þeirra í Kosovo, er viðkvæði brottfluttra Serba jafnt sem heimaalinna, að Vesturveldin séu að hefta svigrúm Serba og koma í veg fyrir eign þeirra á sagnfræðilega heilögu landi þeirra.

Aldrei láta þeir, hvort sem þeir búa á Íslandi eða annars staðar í heiminum, í ljósi nokkurn skilning á örlögum fólksins, sem verður fyrir trylltu æði Serba, þegar þeir berja, nauðga, brenna og taka af lífi. Í hugum alls þorra þeirra helgar tilgangurinn öll meðöl, öll.

Óeðli Serba liggur ekki í litningum, heldur er það drukkið með móðurmjólkinni kynslóð eftir kynslóð. Það verður aðeins stöðvað með skilyrðislausri uppgjöf þeirra, hernámi alls landsins og endurmenntun heilla kynslóða eins og í Þýzkalandi eftir heimsstyrjöldina.

Þar sem Vesturveldin hafa glatað hæfninni til að heyja stríð og mega raunar ekki lengur sjá blóð, er þessi kostur ekki lengur í stöðunni. Þess vegna eru loftárásir Atlantshafsbandalagsins gagnslitlar og hafa aðeins hleypt enn verra blóði í hina hatursfullu þjóð.

Hér í blaðinu var fyrirfram varað við þessu stríði, af því að Vesturveldin hafa ekki bein í nefinu til að heyja það í botn. Bent var á skárri kost í vondri stöðu að loka landamærunum og vernda þá, sem eru svo heppnir að vera utan þeirra, en láta hina um örlög sín.

Hins vegar er fráleitt, að Vesturlönd eigi framvegis nein viðskipti eða önnur samskipti við Serbíu eða Serba, hvort sem það eru íþróttamenn eða aðrir. Fráleitt er að veita neinum einasta Serba landvist utan þess helvítis, sem þeir hafa sjálfir framleitt á Balkanskaga.

Þótt Vesturveldin hafi glatað getunni til hernaðar gegn illum öflum, hafa þau nægan mátt til að loka Assýringa nútímans inni í hatri sínu og forneskju.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíð skaffaði

Greinar

Sigursæl kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins var einföld og æsingalaus. Það mannlega sameinaði hún tilvísunum í almælt tíðindi. Hún vakti athygli á foringja flokksins og góðærinu, sem verið hafði á kjörtímabilinu. Í stuttu máli sagði flokkurinn: Davíð skaffaði.

Baráttan vísaði ekki til nútíðar og því síður til framtíðar. Hún var hugsuð í þátíð og höfðaði til þess, að fólk telur sig í framtíðinni geta treyst þeim, sem hafi staðið sig vel í fortíðinni. Tilvísun til reynslu er oft sterkari áróður en loforð um gull og græna skóga.

Markhópur Sjálfstæðisflokksins var sá ríflegi meirihluti kjósenda, sem hefur það töluvert betra núna en hann hafði fyrir fjórum árum. Það var nægilega stór markhópur fyrir stærsta flokk þjóðarinnar, enda reyndist hann vera móttækilegur fyrir áróðrinum.

Stærsti flokkurinn taldi sig hafa ráð á að forðast í kosningabaráttunni að þykjast vera allt fyrir alla. Hann féll ekki í gryfju Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Hann valdi sér markhóp og náði góðu sambandi við hann, en lét smælingja þjóðfélagsins eiga sig.

Þar sem skilaboðin voru skýr, þurfti Sjálfstæðisflokkurinn ekki dýra kosningabaráttu til að koma þeim á framfæri. Hann notaði helmingi minna fé en keppinautarnir tveir notuðu hvor um sig og kom því um leið til skila, að hann væri hófsamur innan um eyðsluseggi.

Græna vinstrið fetaði svipaða braut og Sjálfstæðisflokkurinn og þurfti sáralitla peninga til að koma því á framfæri, að það væri allt öðruvísi flokkur en allir hinir flokkarnir. Hér væri kominn flokkur, sem hefði sérstöðu og nánast sérvizku á öllum helztu sviðum.

Markhópurinn var tiltölulega fámennur, innan við fimmtungur þjóðarinnar. Flokkurinn taldi sig geta leyft sér að hafa á ýmsum sviðum stefnu, sem meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn. Flokkurinn vildi virðast vera eins konar fjölmennur sértrúarsöfnuður og tókst það.

Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði Græna vinstrið kjósendum ekki gulli og grænum skógum, heldur vakti athygli á sérstöðu sinni í pólitíkinni. Þetta þótti traustvekjandi og varð til þess, að nýi flokkurinn náði öllu því fylgi, sem hann hafði fyrirfram sagzt stefna að.

Þessi tvö dæmi sýna yfirvegaða stjórnmálaflokka, sem vissu, hverjir voru vænlegir markhópar og sneru sér að þeim, eyddu litlu fé í baráttuna, lofuðu fáu fögru, og komu á framfæri, fyrir hvað þeir stæðu, fremur en væntanlegar velgjörðir sínar á næsta kjörtímabili.

Aðrir stjórnmálaflokkar geta ýmislegt lært af þessu. Það er til dæmis tvíeggjað að selja sál sína gjafmildum stórhvelum fjármálanna til að fjármagna allt of dýra kosningabaráttu. Það er líka tvíeggjað að þykjast vilja vera allt fyrir alla. Allt vitnar þetta um óráðsíu.

Niðurstaða kosninganna gefur tilefni til að ætla, að vel þegið hlé verði næsta áratuginn á undanhaldi stjórnmálanna yfir í umbúðir og ímyndir án innihalds, fjárhagslegt vændi og hrun góðra siða. Í næstu kosningum verður öllum ráðlegt að fara að slíkum æfingum með gát.

Hingað til hafa ímyndunarfræðingar og auglýsingamenn talið okkur trú um, að leiðin til viðskiptalegrar velgengni felist í því sem næst algeru sambandsleysi umbúða og innihalds, botnlausum ýkjum og hressilegum rangfærslum, fluttum með engilhreinum svip.

Hingað til hefur verið haft fyrir satt, að fólk kunni engin ráð við þessum brögðum og láti teyma sig á asnaeyrunum. En kannski er heimurinn hættur að versna.

Jónas Kristjánsson

DV

Samfylkingin sleikir sárin

Greinar

Eins og Framsóknarflokkurinn á Samfylkingin eftir að útskýra, hver borgaði 60­70 milljón króna kosningabaráttu flokksins. Það geta ekki hafa verið ríkið, flokksmenn og velviljaðir athafnamenn nema að litlum hluta. Meirihluti upphæðarinnar er þar fyrir utan.

Við stefnum í humátt á eftir Bandaríkjamönnum, þar sem stjórnmálamenn og -flokkar eru að meira eða minna leyti í eigu hagsmunaaðila. Stjórnmálamenn verja þar langmestum hluta tíma síns í kosningabaráttu til að safna fé til baráttunnar hjá hagsmunaaðilum.

Ríkið hefur svo mikil völd til að greiða götu stórfyrirtækja og atvinnugreina eða standa í vegi þeirra, að það er hagsmunamál stórforstjóra, að mikilvægir stjórnmálaflokkar og -menn séu þeim vinveittir fremur en andsnúnir. Pólitískt vændi er því í blóma á Vesturlöndum.

Þótt Samfylkingin hafi glutrað sínum 60­70 milljónum í misheppnaða og árangurslitla kosningabaráttu, breytir það ekki því, að einn risaaðili eða örfáir stórir aðilar eiga hönk upp í bak hennar. Þessu samhengi er haldið leyndu fyrir almenningi í okkar lokaða þjóðfélagi.

Framsóknarflokkurinn stóð undir væntingum helztu vildarvina sinna með því að halda völdum í ríkisstjórn, en Samfylkingin stóð ekki undir væntingum sinna vildarvina. Hún fær nú langvinnt tækifæri til að sleikja sárin utan ríkisstjórnar og gera sig bardagafæra.

Ekki var hægt að búast við betri árangri eftir erfiða fæðingu Samfylkingarinnar í vetur. Hún vann varnarsigur með því einu að komast í heilu lagi yfir þröskuld kosninganna og geta farið að snúa sér að því að stofna einn stórflokk úr fjórum aðstandendaflokkum.

Bezt er fyrir Samfylkinguna, að stofnun flokksfélaga og smíði nýs flokkskerfis taki sem stytztan tíma. Dráttur á slíku er til þess eins fallinn að endurvekja minningar um gamlar sælustundir í gömlu smáflokkunum. Nýi flokkurinn þarf að neyta meðan á nefinu stendur.

Meðan Samfylkingin er að ljúka fæðingunni, þarf hún friðarleiðtoga, sem ber klæði á vopnin innanhúss og fær ólíka hópa til að vinna saman í stað þess að grafa hver undan öðrum. Fátt bendir til, að neinn sé betur til þess fallinn en núverandi talsmaður flokksins.

Ósigurinn í kosningunum er ekki Margréti Frímannsdóttur að kenna. Hún hefur staðið sig vel í því hlutverki að halda utan um óstýrilátt lið á þann hátt, að það kemur sem ein heild frá orrahríðinni og getur lokið við stofnun flokksins. Mikið meira var ekki í spilunum.

Þegar næstu kosningar nálgast, þarf Samfylkingin samt að koma sér upp stórforingja, sem hún getur teflt fram með sama hætti og Davíð Oddssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Steingrími Sigfússyni var að þessu sinni hampað af hinum flokkunum í tíma og ótíma.

Við núverandi aðstæður má ljóst vera, að raunverulegur leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi verður Steingrímur Sigfússon, sem hefur kraft og úthald til að standa undir slíku hlutverki. Í núverandi þingliði Samfylkingarinnar finnst tæpast neinn verðugur keppinautur.

Sumir sjá framtíðarforingja í borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún hefur tvíþætta reynslu, annars vegar af því að halda friðinn milli hópanna í Reykjavíkurlistanum og hins vegar af því að lemja duglega á stjórnarandstöðuflokknum.

En erfitt verður að taka Samfylkinguna alvarlega fyrr en hún er búinn að játa fyrir almenningi og skilgreina fjárhagslegar syndir kosningabaráttu sinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kreppan kúrir á næsta skeri

Greinar

Hálfrar aldar samfelldu blómaskeiði viðskiptafrelsis og framfara í heiminum fer senn að ljúka. Arftaki Efnahags- og þróunarstofnunarinnar, Heimsviðskipta-stofnun, er orðin óstarfhæf. Verndarsinnar hafa tekið völdin beggja vegna Atlantshafsins og í þriðja heiminum.

Heimsviðskipta-stofnunin er klofin í herðar niður í deilum um nýjan framkvæmdastjóra. Evrópusambandið er farið að hafa að engu úrskurði dómnefnda stofnunarinnar og Bandaríkin eru farin að innleiða einhliða refsitolla. Verndarsinnar sjá “dumping” í hverju horni.

Fyrir einni öld lifðu forfeður okkar á ofanverðu blómaskeiði frelsis og framfara. Allt frá lokum Napóleonsstríða fram til fyrri heimsstyrjaldarinnar ríkti meira eða minna frelsi á flutningi fólks og varnings milli landa og allar þjóðir græddu á tá og fingri.

Ísland komst inn í lokaskeið þessa tímabils upp úr aldamótunum, þegar erlent fé flæddi inn í landið, meira að segja erlendar landbúnaðarafurðir. Þessu mikla blómaskeiði Íslandssögunnar lauk ekki fyrr en með kreppunni, er herjaði hér sem annars staðar.

Ríkisrekin heimsstyrjöldin fyrri og gríðarlegur kostnaður hennar batt enda á blómaskeiðið og leiddi til kreppunnar miklu, sem leiddi til ríkisrekinnar heimsstyrjaldarinnar síðari. Kreppuaðgerðirnar voru svo afnumdar og efnt í nýtt blómaskeið fyrir hálfri öld.

Þegar forvera Heimsviðskipta-stofnunarinnar var komið á fót fyrir hálfri öld, mundu menn styrjaldirnar miklu og kreppuna miklu milli þeirra. Þeir voru vopnaðir nýrri hagfræðiþekkingu og vissu, að þjóðir græddu á að láta frelsi leysa verndarstefnu af hólmi.

Formúlan er einföld og segir okkur, að meiri þjóðarhagsmunir felist í lágu vöruverði en háu. Mikilvægara sé að tryggja fólki og fyrirtækjum aðgang að ódýrri vöru heldur en að tryggja sérhagsmuni fyrirtækja og atvinnugreina, sem vilja forðast erlenda samkeppni.

Fyrra hagvaxtarskeiðið byggðist á þeirri uppgötvun Breta, að þeir græddu á því að lækka tolla og hömlur einhliða. Með því lækkuðu þeir vöruverð til fyrirtækja og heimila og bjuggu til lífskjör og gróða, sem voru hornsteinn að gífurlegri útþenslu Bretaveldis.

Þessi þekking glataðist í styrjöldunum og kreppunni og er aftur að glatast núna, þegar stjórnmálaflokkarnir eru í ört vaxandi mæli fjármagnaðir af sérhagsmunum, sem vilja láta vernda sig fyrir umheiminum. Við erum því að sjá fyrir endann á blómaskeiði frelsisins.

Í rauninni haga ríki sér eins og gróði eins sé annars tap. Þau láta eins og viðskiptafrelsi sé kaup kaups, þar sem þú fórnar tollum og hömlum gegn því að mótaðilinn fórni tollum og hömlum. Þannig kaupa menn og selja viðskiptafrelsi, sem í sjálfu sér er ókeypis auðlind.

Almenningur hefur aldrei skilið viðskiptafrelsi. Þess vegna hefur verið auðvelt fyrir stjórnmálamenn að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni í viðskiptalífinu. Með aukinni fjármögnun sérhagsmuna á kosningavélum stjórnmálaflokka magnast vítahringurinn.

Evrópusambandið hefur alltaf verið verndarstofnun, sem vill frelsi á stórum innri markaði, en hömlur á samkeppni að utan. Bandaríkin eru á hraðferð til haftastefnunnar að undirlagi þingsins, enda eru þingmenn meira eða minna kostaðir af þröngum sérhagsmunum.

Heimsviðskipta-stofnunin er höfuðlaus og ræður ekki við vítahringinn. Þess vegna siglum við hraðbyri að skerjunum, sem leiddu til heimskreppunnar miklu.

Jónas Kristjánsson

DV

Framsókn fann ekki botninn

Greinar

Hinn nýi og hressi formaður sjónvarpsauglýsinga Framsóknarflokksins var horfinn á sunnudagsmorgni eftir atkvæðatalninguna. Síðan höfum við séð á skjánum þreytulega og áreiðanlega formanninn, eins og kjósendur vilja hafa hann. En þá var það orðið um seinan.

Framsóknarflokkurinn tapaði í senn á suðvesturhorninu og í strjálbýlinu. Í Reykjavík tapaði hann þriðjungi fylgisins og fjórðungi á Reykjanesi. Annars staðar var hlutfallslegt tap flokksins minna, en þó tapaði hann þremur þingmönnum vestan lands og nyrðra.

Framsóknarflokkurinn er orðinn 10% flokkur í Reykjavík og 18% flokkur á landinu í heild. Hann verður einn af litlu flokkunum á því kjörtímabili, sem er að byrja. Sem ríkisstjórnarflokkur mun hann eiga erfitt með að bæta stöðuna að fjórum árum liðnum.

Nýju flokkarnir eru komnir til að vera og munu halda áfram að angra Framsóknarflokkinn. Samfylkingin mun ná vopnum sínum og sækja að honum á miðjunni og Græna vinstrið mun höggva úr honum í byggðamálum alveg eins og það gerði í þessum kosningum.

Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin eyddu mestum peningum í kosningabaráttuna og Framsóknarflokkurinn eyddi langmestum peningum allra flokka á hvern kjósanda sinn. Herferðirnar voru hannaðar af ímyndarfræðingum, báru þess merki og fóru út um þúfur.

Kjósendur áttu bágt með að trúa, að Framsóknarflokkurinn, sem verið hefur aðgerðalítill í ríkisstjórn við að bjarga ungu fólki úr sollinum, ætli að sletta einum af hinum frægu milljörðum sínum í fíkniefnavarnir. Kjósendur tóku þessa fullyrðingu mátulega alvarlega.

Kjósendur þökkuðu Sjálfstæðisflokknum það, sem vel var gert á síðasta kjörtímabili og trúðu ekki loforðum Framsóknarflokksins um milljarð hér og þar. Þeir söknuðu líka gamla formannsins og trúðu ekki leikaranum, sem lék nýjan og hressan formann flokksins.

Í fjölmenninu í Bandaríkjunum er hægt að hanna persónur og stofnanir án nokkurs samhengis við innihaldið, samanber Clinton Bandaríkjaforseta. Hér í fásinninu og návíginu er slíkt margfalt erfiðara. Þetta skildu ekki ímyndarfræðingar Framsóknarflokksins.

Fleiri vandamál steðja að flokknum. Fólk er farið að spyrja, hvaðan honum komi tugmilljónir til að heyja margfalt dýrari kosningabaráttu en áður hefur þekkzt hér á landi. Fæstar þeirra koma frá flokksmönnum eða af Alþingisfé. Flestar koma frá huldumönnum.

Um leið hefur Sverri Hermannssyni tekizt að benda á, að formaður Framsóknarflokksins er sjálfur meiri háttar kvótaerfingi, sem hefur hagsmuni af viðgangi kvótakerfisins, sem hann hefur sjálfur komið á fót. Þetta er staðreynd, sem hér eftir mun aldrei gleymast.

Það eru engar dylgjur að benda á þær tvær staðreyndir, að kosningabarátta Framsóknarflokksins var að umtalsverðu leyti kostuð af ótilgreindum aðilum og að formaður flokksins er stórerfingi að kvóta. Þetta eru atriði, sem kjósendur höfðu í huga og munu áfram muna.

Framsóknarflokkurinn hefur með ósigri sínum í kosningunum engan veginn fundið botninn. Hann þarf áfram að stríða við afleiðingar frétta af hagsmunatengslum, langvinnrar stjórnarsetu og berangursins á miðju stjórnmála, þar sem keppinautar sækja að honum.

Eina bótin í þessu máli er, að formaðurinn er sloppinn úr klóm ímyndarfræðinga og fær núna eftir kosningar að koma fram í sjónvarpi eins og honum er eðlilegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Örninn er enn ofsóttur

Greinar

Skýring er fundin á því, hversu hægt gengur að forða íslenzka haferninum frá útrýmingarhættu. Margir telja sig þurfa að launa honum lambið gráa og sumir láta verkin tala. Nú síðast hefur æðardúnsheildsali brennt hreiðurhólmann Arnarstapa í landi Miðhúsa.

Í greinargerð sinni segist brennumaður ekki mundu syrgja að sjá síðasta örninn við hliðina á geirfuglinum. Hætt er þó við, að þýzkir dúnkaupendur verði hvefsnir, ef atferli íslenzkra dúnsala kemst í hámæli þar ytra. Af því geta hlotizt eftirmál, sem fara úr böndum.

Dúnn er á undanhaldi á erlendum markaði. Af þriggja tonna framleiðslu síðasta árs er eitt tonn ennþá óselt. Samt hefur verðið fallið úr 45 þúsund krónum á kíló í 37 þúsund krónur. Það eru því önnur atriði en örninn, sem hamla gegn arðsemi dúntekju hér á landi.

Á þessum áratug hafa um 40 arnarpör verpt á ári að meðaltali. Fyrir rúmri öld verptu hér yfir 150 pör á ári og var dúntekja þó meiri og brýnni atvinnuvegur í þá daga heldur en hún er núna. Við eigum því langt í land að koma arnastofninum upp í eðlilegt jafnvægi.

Formlega séð er örninn friðaður og bannað að brenna sinu á varpstöðvum hans. Sektir eru þó svo lágar, að þeir, sem telja örninn spilla lifibrauði sínu, munu líta á þær sem hvern annan herkostnað. Þess vegna brenna þeir sinu í gamalkunnum varpstöðvum arnarins.

Marklaust er að hafa lög, sem segja eitt, en meina annað. Ef þjóðin vill forða erninum frá ofsóknum hagsmunaaðila, verður hún að fá sett strangari lög um friðun og margfalt þyngri ákvæði um refsingar. Við getum látið brunann í Arnarhólma marka tímamót.

Stundum gerast þeir atburðir, sem fá fólk til að vakna til meðvitundar. Þannig brugðust menn ókvæða við um allt land, þegar Landsvirkjun drekkti Fögruhverum í sumar. Þá var sagt: Aldrei aftur. Nú hrukku menn aftur við, þegar dúnsalinn brenndi Arnarhólma.

Haförninn er hluti af sjálfsvirðingu þjóðar, sem hefur lært lexíu síðasta geirfuglsins. Hann er sérstæður hluti Íslands og þeirrar ímyndar landsins, sem væntanlega gerir ferðaþjónustu að fjárhagslega mikilvægasta atvinnuvegi þjóðarinnar á fyrsta áratugi nýrrar aldar.

Við þurfum að koma arnarstofninum aftur upp í rúm 150 varppör. Dúnbændur og dúnsalar munu eftir sem áður geta framleitt allan þann dún, sem markaðurinn kærir sig um og vill borga sómasamlega fyrir. Þeir verða bara að lifa við örninn eins og forfeður okkar.

Um áratuga skeið hefur ríkt hér eins konar óöld í samskiptum þjóðarinnar við náttúru landsins. Í nærri öllum tilvikum hafa meintir sérhagsmunir verið látnir njóta vafans og verðmæti umhverfis okkar verið skert. Fyrir löngu er orðið tímabært að snúa þessu við.

Við þurfum að hindra, að bændur reki sauðfé sitt á nýgræðinginn á söndum Mývatnsöræfa. Við þurfum að stöðva frekari hamfarir Landsvirkjunar á hálendinu. Við þurfum að stöðva ofsóknir dúnsala gegn haferninum. Við þurfum að meta umhverfið til verðs.

Innan áratugar verður ferðaþjónusta, sem einkum byggist á sérkennilegu og lítt röskuðu umhverfi, stærri og tekjudrýgri atvinnuvegur en núverandi höfuð-atvinnuvegir þjóðarinnar. Við höfum beina hagsmuni af því að fara að taka til í garðinum okkar.

Örninn verpir ekki í Arnarhólma við Miðhús á Barðaströnd á þessu sumri. Við skulum láta örlög hans verða til að efla friðun arna um allan helming.

Jónas Kristjánsson

DV

Skásta kerfi sem við þekkjum

Greinar

Oft heyrist, að tómahljóð sé í því lýðræði, sem gefi fólki færi á að fara á kjörstað á fjögurra ára fresti til að taka afstöðu til stjórnmálaflokka, sem allir gæti almennra viðhorfa og ýmissa sérhagsmuna og séu fúsir til að svíkja sérloforð sín til að komast til valda.

Mörg sérmál, sem kjósendum er annt um, ganga þversum gegnum flokka og fá ekki afgreiðslu í þjóðaratkvæðagreiðslum, sem tíðkast til dæmis í Sviss og víða í Bandaríkjunum. Slík mál verða alltaf út undan, þegar um þau er fjallað í óbeinu stórflokkalýðræði.

Reynslan sýnir samt, að kjósendur telja lýðræðið vera nógu virkt til að hafa fyrir því að kjósa tvisvar sinnum á fjögurra ára fresti, annars vegar í byggðakosningum og hins vegar í þingkosningum. Þátttaka er meiri í kosningum hér á landi en í flestum öðrum löndum.

Réttur til að velja þingmenn, sem síðan velja ríkisstjórn og setja landinu lög, er hornsteinn lýðræðis, þótt hvert atkvæði skipti litlu máli. Ekkert annað kerfi losar fólk á auðveldan hátt við valdaspillta ráðamenn, sem hafa verið lengur við völd en þjóðinni er hollt.

Kjósendur ganga að vísu með misjafna hugsun að kjörborðinu. Ekki er ný bóla, að margir vilji láta þingmenn skaffa. Í gamla daga voru atkvæði keypt og seld, en nú er meira beðið um þjónustu við víðari sérhagsmuni, einkum þó útvegum fjármagns til byggðastefnu.

Ekki er heldur nýtt, að margir krossi við sitt lið eins og þeir hafa alltaf gert og munu alltaf gera, rétt eins og stuðningsmenn fótboltafélaga. Kannanir sýna raunar, að hollusta við flokka er á undanhaldi. Kjósendur eru fúsari en áður til að taka áhættuna af nýju vali.

Gjalda ber samt varhug við rannsóknum, sem sýna, að kjósendur séu almennt með opinn huga og velti málum fyrir sér jafnvel fram á kjördag. Þetta byggist á svörum þeirra sjálfra og gerir ráð fyrir, að þeir fari með rétt mál og geti metið, hvenær þeir hafi ákveðið sig.

Misjafn sauður er í mörgu kjósendafé. Sjá má af auglýsingum stjórnmálaflokka, að þeir víla ekki fyrir sér grófar sögufalsanir til að bæta ímynd sína. Slíkar auglýsingar eru ekki samdar án þess að einhverjir að baki séu sannfærðir um eymd og heimsku almennings.

Kjósendur eru misjafnlega meðvitaðir um hlutverk sitt á kjördegi. Þeir hafa mismikið kynnt sér menn og málefni. Þeir láta í misjöfnum mæli almannahagsmuni eða sérhagsmuni sitja í fyrirrúmi. Slíkt dregur ekki úr gildi aðferðarinnar við að velja valdamenn.

Lýðræði stendur ekki og fellur með því, að allir kjósendur séu fyllilega meðvitaðir um það, sem þeir eru að gera, og hagi sér í samræmi við það. Lýðræði byggist meira á leikreglunum sjálfum og möguleikanum á að skipta út fólki án þess að það kosti borgarastríð.

Öðrum þræði eru kosningar og aðdragandi þeirra eins konar þjóðhátíð eða eins og risavaxinn kappleikur. Í gamla daga flykktust Miklagarðsmenn á paðreiminn til að sjá bláa og græna liðið keppa. Pólitíkin í dag er einn af paðreimum og hringleikahúsum tilverunnar.

Gerð eru forrit til að reikna þingmenn út og inn eftir niðurstöðum nýjustu skoðanakannana eða samanlögðum niðurstöðum margra. Veðjað er á gamalreynda klára og óþekkta fola. Hástigi nær Eurovision stemmningin um talningarnóttina, þegar tölvur gubba spám í síbylju.

Þannig er lýðræðið sumpart leikur og sumpart alvara, sumpart innantómt og sumpart innihaldsríkt. Það er að vísu vont kerfi, en samt það skásta, sem við þekkjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrjár lexíur baráttunnar

Greinar

Kosningabaráttunni er að mestu lokið, enda er aðeins vika til dóms kjósenda. Þeir fáu, sem enn eiga eftir að ákveða sig, munu flestir gera það á grundvelli áhrifa, sem þeir hafa þegar orðið fyrir. Þess vegna er núna strax óhætt að reyna að brjóta baráttuna til mergjar.

Hér í blaðinu er lokið nærri öllu kosningaefni nema auglýsingum. Lokið er yfirreið um kjördæmin og beinni línu flokksformanna. Kjallaragreinar fjara út um miðja næstu viku og á mánudaginn verður birt tafla um misjafnar áherzlur flokkanna í einstökum málum

Þrjú atriði skera í augu, þegar borin er saman kosningabarátta flokkanna. Í fyrsta lagi er það misjöfn áherzla á flokksformanninn. Í öðru lagi er það misjöfn áherzla á yfirboð í kosningaloforðum. Í þriðja lagi er það misjafn kostnaður flokkanna af framboðum sínum.

Þrír af þeim fjórum flokkum, sem mesta von eiga í þingsætum, láta kosningabaráttuna meira eða minna snúast um formann sinn. Eina undantekningin er Samfylkingin, sem sætir því að hafa ekki gert upp við sig, hver verði leiðtoginn á næsta kjörtímabili.

Margrét Frímannsdóttir er kölluð talsmaður Samfylkingarinnar, sumpart í sárabætur fyrir veika stöðu Alþýðubandalagsins í samanburði við Alþýðuflokkinn. Henni er hins vegar ekki hampað í baráttunni í líkingu við það, sem aðrir hampa sínum formanni.

Langt er síðan DV spáði Samfylkingunni erfiðu gengi í þessum fyrstu kosningum sínum. Bræðingur úr þremur flokkum þarf heilt kjörtímabil í stjórnarandstöðu til að stilla saman strengi og átta sig á hinni nýju stöðu. Skoðanakannanir staðfesta allar þessa gömlu spá.

Sjálfstæðisflokkurinn og Græna vinstrið fara sparlega með kosningaloforðin en því meira grýta Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin þeim út um víðan völl. Verðeiningin í loforðaflóði Framsóknarflokksins er milljarður króna, sem er orðinn “milla” nútímans.

Athyglisvert er, að stjórnarflokkarnir halda hvor sína leið í þessu efni. Sjálfstæðisflokkurinn telur heppilegt að vísa til orðins árangurs á liðnu kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn byrjaði þannig, en söðlaði fljótt um og vísar nú eingöngu til væntanlegs árangurs á því næsta.

Kosningabaráttan einkennist af mikilli fyrirferð í yfirboðum Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í kosningaloforðum. Sumpart stafar það af samkeppni þeirra á miðjunni í stjórnmálunum og sumpart stafar það af taugaveiklun út af erfiðu gengi í könnunum.

Flokkarnir eru missparir á útgjöld í kosningabaráttunni. Framsóknarflokkurinn ver 2,5 milljónum á hvert prósent atkvæða sinna og Samfylkingin ver 2 milljónum. Sjálfstæðisflokkurinn og Græna vinstrið verja hins vegar aðeins tæpri milljón á hvert prósent í fylgi.

Að ókönnuðu máli hefði mátt ætla, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sem flokkur auðmagns greiðastan aðgang að fjármagni og að Samfylkingin ætti peningalega erfitt uppdráttar sem nýtt afl í pólitíkinni. Þessi kenning hefur síður en svo verið staðfest í baráttunni.

Ekkert bendir heldur til, að samband sé milli mikillar fjárhagslegrar fyrirferðar Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og mikillar áherzlu sömu flokka á girnileg kosningaloforð annars vegar og hins vegar á gengi þeirra í framvindu baráttunnar.

Það má læra af undirbúningi þessara kosninga, að gott sé að hafa formann, sem unnt sé að hafa í eldlínunni og að gott sé að hafa hóf á loforðum og útgjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV

Landhernaður er eina leiðin

Greinar

Serbaher er alls ráðandi í Kosovo. Drukknir dátar fara um nauðgandi, brennandi og myrðandi að vild. Þyrlur Serba eiga alls kostar við skæruliða Kosovara, af því að flugmenn Atlantshafsbandalagsins hætta sér ekki niður úr háloftunum þá sjaldan þeir komast á loft.

Markmið Atlantshafsbandalagsins var að koma í veg fyrir þjóðahreinsunina í Kosovo. Það hefur mistekizt. Nató hefur tapað þessu stríði og reynir að hefna sín á Milosevic Serbaforingja með sprengjuárásum, sem ekki hefta brjálsemi Serbahers í Kosovo hið minnsta.

Leiðtogar hins sigraða og smáða bandalags hittust um helgina í Washington til að fá nýjar söguskýringar frá spunameisturum flagarans í Hvíta húsinu. Lítið kom úr þeim sorgarfundi annað en veik von um, að samstaðan í Serbíu bresti áður en samstaðan í Nató brestur.

Ekki er hægt að segja, að tapaða stríðið hafi verið gagnslaust. Fljótlega neyðir það vesturveldin til að endurmeta stöðu fimmtugs hernaðarbandalags, sem koltapaði fyrsta stríðinu, sem það háði. Eftir Kosovo er óhjákvæmilegt að stokka upp spilin í rykföllnu Nató.

Engar áætlanir voru til um eitt eða neitt og því síður neinar varaáætlanir, ef eitthvað færi öðruvísi en ætlað var. Ekkert var vitað um hugsanir og ráðagerðir Milosevics og meðreiðarmanna hans. Ekki hafði einu sinni verið fylgzt með fréttaskýringum í fjölmiðlum.

Vopnabúnaður Atlantshafsbandalagsins reyndist vera meira eða minna ónothæfur. Flugvélarnar komast vegna veðurs ekki á loft nema þriðja hvern dag að meðaltali. Hittni er sáralítil eins og í Írak. Sprengjurnar lenda jafnvel í Búlgaríu eins og þær lentu í Íran í fyrra.

Lykillinn að lausn málsins er að átta sig á, að Milosevic og menn hans meta ekki velgengni sína í steypu, tækjum eða olíu. Þeir meta hana í landi. Þeir hafa náð landi frá Kosovurum og kæra sig kollótta um, þótt Nató skemmi ýmis mannvirki í hefndarskyni.

Arftakar Atla Húnakonungs og Timúrs halta eru á steinaldarstigi. Því er ekkert innlegg í málið að reyna að sprengja þá inn á steinaldarstigið. Þeir nota loftárásirnar til að þjappa um sig trylltri ofstækisþjóð, útrýma efasemdarmönnum og gera nágranna valta í sessi.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur áttað sig á staðreyndum málsins og árangurslaust reynt að fá starfsbræður sína í tapliðinu til að hefja undirbúning landhernaðar. Á sorgarfundinum í Washington kom í ljós, að stefna hans náði ekki fram að ganga.

Samt er landhernaður tiltölulega auðveldur. Hermenn Serba eru upp til hópa illa þjálfaðir drykkjurútar, sem kunna fátt annað en að níðast á almenningi. Það ætti að vera létt og löðurmannlegt fyrir herlið auðríkjanna að valta yfir þá á einni viku með litlum tilkostnaði.

Landhernaður er eina vopnið gegn andstæðingi, sem metur velgengni sína í landi einu saman. Landhernaður er eina leiðin fyrir Nató til að verða trúverðugt að nýju eftir hrakfarir eins mánaðar lofthernaðar. Landhernaður er eina leiðin að markmiðum bandalagsins.

Að því loknu er heppilegast fyrir Nató og bandamenn þess í Austur-Evrópu að taka héruðin Kosovo og Vojvodina af Serbum, sameina Kosovo Albaníu og Vojvodina Ungverjalandi og læsa landamærum þess sem eftir er af aldagamalli uppsprettu vandræða Balkanskagans.

Serbar geta þá nauðgað hver öðrum og myrt hver annan og brennt hver ofan af öðrum á bak við gaddavírsgirðingu, sem verndar umheiminn fyrir æði þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

50 milljónir króna á flokk

Greinar

Þegar tveir stjórnmálaflokkar eru farnir að auglýsa vikum saman fyrir milljón krónur á dag hvor um sig, er eðlilegt, að spurt sé, hver borgi þessi ósköp og hvað hann vilji fá í staðinn. Auglýsingarnar eru hluti herkostnaðar, sem fer í fimmtíu milljónir á hvorn flokk

Augljóst er, að það er ekki litli maðurinn í þjóðfélaginu eða aðrir stuðningsmenn flokkanna, sem leggja fram slíkar upphæðir. Ennfremur er augljóst, að fjársterkir aðilar leggja ekki fram milljónir króna hver fyrir sig án þess að vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð.

DV hefur löngum mælt með, að fjárreiður flokkanna verði gerðar sýnilegar almenningi, svo að hann geti dregið af því ályktanir, ef hann kærir sig um. Þannig eru gerðar sýnilegar fjárreiður fyrirtækja á hlutabréfamarkaði, svo að fjárfestar fái betri innsýn í reksturinn.

Ekki er verið að ræða um að banna eitt eða neitt eða setja þak á upphæðir. Krafan felst aðeins í, að reikningar stjórnmálaflokkanna séu birtir og ennfremur listar yfir þá, sem leggja flokknum til meira en ákveðna lágmarksupphæð, t.d. tuttugu þúsund krónur.

Með framlögum er átt við beinharða peninga og óbeina, svo sem magnkaup á happdrættismiðum, viðskiptaafslátt umfram markaðsafslátt, svo og aðstöðu af ýmsu tagi, svo sem húsnæði og síma. Kjósendur eiga rétt á að vita, hverjir séu helztu vildarvinir flokkanna.

Stjórnmálaflokkarnir njóta þeirra sérstöku fríðinda, að vera ekki skattskyldir. Eðlilegt mótvægi við þessa aðstöðu þeirra er, að þeir séu látnir gera fjárreiður sínar gegnsæjar. Slíkur sýnileiki er einmitt eitt af því helzta, sem greinir lýðræðisríki frá öðrum ríkjum.

Velgengni lýðræðisríkja byggist á leikreglum og gagnkvæmu trausti, rétt eins og markaðs- og viðskiptahagkerfið byggist á leikreglum og gagnkvæmu trausti. Þetta traust verður ekki til úr lausu lofti, heldur afla menn þess með því að leggja spilin á borðið.

Marklaus er sú krafa framkvæmdastjóra stærsta stjórnmálaflokksins, að kjósendur eigi að treysta honum af því bara. Kjósendur treysta því, sem þeir sjá og eiga ekki að þurfa að sætta sig við að treysta því, sem logið er að þeim, ekki frekar en fjárfestar treysta slíku.

Krafan um opnar fjárreiður stjórnmálaflokka er engin sérvizka í DV. Þannig er málum hagað í Bandaríkjunum, Þýzkalandi og ýmsum öðrum nágrannalöndum okkar. Þetta er líka krafa, sem nokkrir íslenzkir háskólakennarar settu fram fyrir rúmlega hálfum áratug.

Það er þeim mun brýnna að setja slíkar reglur hér á landi en annars staðar, að stjórnmálaflokkarnir leika hér á landi í meira mæli hlutverk skömmtunarstjóra lífsins gæða en flokkar í nágrannalöndunum. Okkar hagkerfi er frumstæðara og byggist meira á fyrirgreiðslum.

Þess vegna er rétt, að kjósendur fái að vita, hvaða hagsmunaaðilum er annt um þennan eða hinn stjórnmálaflokkinn. Þvergirðingur ráðamanna flokkanna gegn þessari sjálfsögðu kröfu sýnir í raun, að þar loga fjárhagsleg ástarsambönd, sem ekki þola dagsbirtu.

Þegar tveir stjórnmálaflokkar eru farnir að verja hvor um sig fimmtíu milljónum króna til einnar kosningabaráttu, er leyndarstefnan orðin óverjandi. Margir hljóta að glata trausti á viðkomandi aðilum, af því að þeir átta sig á, að þetta eru í hæsta máta óeðlilegar fjárreiður.

Engin leið til aukins framgangs og fjárhagslegrar velgengni lýðræðis er betri en aukið traust milli aðila og það traust fæst helzt, þegar kerfið er gert gegnsætt.

Jónas Kristjánsson

DV

Norðlenzk vísindi

Greinar

Samkvæmt skoðanakönnun DV í gær er beint samhengi milli auglýsinga stjórnmálaflokka og fylgistaps þeirra. Flokkarnir tveir, sem langmest auglýsa, mestu lofa í auglýsingunum og mesta áherzlu leggja á ímyndarauglýsingar, eru jafnframt að hríðtapa fylgi.

Í sókn eru aftur á móti hinir flokkarnir, sem láta sér að mestu nægja hefðbundna stjórnmálaumræðu á fundum og í fjölmiðlum og auglýsa lítið annað en fundi sína. Þetta einstaka dæmi bendir til, að kjósendur séu ekki eins vitlausir og áróðursmeistarar virðast halda.

Því miður hníga ekki öll dæmi í þessa átt. Norður í landi hefur vel verið tekið þeim ummælum eins ráðherrans, að ekki sé hægt að treysta sunnlenzkum vísindamönnum fyrir rannsóknum á lífríki Mývatns, af því að þeir vilji leggja Mývatnssveit í eyði.

Samkvæmt kenningu ráðherrans eru til margs konar raunvísindi eftir búsetu. Samkvæmt kenningu ráðherrans er hægt að panta niðurstöður raunvísinda eins og hvert annað lögfræðiálit. Ef þér líkar ekki eitt álitið, pantarðu þér bara sjálfur annað geðfelldara.

Rektor Háskólans á Akureyri leikur í þessu sambandi hlutverk soltna hræfuglsins, sem sér matarholu í kenningu ráðherrans og er tilbúinn að taka við rannsóknum úr hendi svokallaðra “sunnlenzkra” vísindamanna, sem ekki komust að þóknanlegum niðurstöðum.

Til eru frægari dæmi um, að menn líti á raunvísindi sem eins konar pöntuð lögfræðiálit. Trofim Denisovich Lysenko var sovézkur búfræðingur, sem að undirlagi Stalíns hafnaði “vestrænum” erfðavísindum og hugðist þannig margfalda kornuppskeru Sovétríkjanna.

Hræfuglarnir flýttu sér að maka krókinn í háskólum Sovétríkjanna. Fimm árum fyrir dauða Stalíns var meira eða minna búið að útrýma vestrænni erfðafræði í háskólunum, drepa nokkra þá helztu af síðustu Móhí-könunum og leggja sovézkan landbúnað í rúst.

Í Sovétríkjum Stalíns og á Norðurausturlandi Halldórs Blöndals eru raunvísindi eitt af mörgum tækjum stjórnmálanna til að sanna Sannleikann. Í hugarheimi þeirra stjórnast vinnubrögð og niðurstöður raunvísindamanna af atriðum á borð við búsetu þeirra.

Hagsmunaaðilar og margir kjósendur í kjördæmi ráðherrans og rektorsins eru sama sinnis. Því ætti að vera unnt að byggja háskólann á Akureyri upp sem norðlenzka stofnum, er komizt að norðlenzkum fremur en sunnlenzkum lögfræðiálitum í raunvísindum.

Við höfum fleiri dæmi um, að hér á landi sé litið á raunvísindi öðrum augum en hefðbundið er að gera á Vesturlöndum. Þannig voru niðurstöður rannsókna á erfðum MS-sjúkdómsins kynntar á blaðamannafundi, með tilheyrandi verðhækkun hlutabréfa í kjölfarið.

Erlendis eru niðurstöður rannsókna í raunvísindum kynntar með ritgerðum, sem fara um flóknar síur, áður en þær eru teknar til birtingar í sérhæfðum fagtímaritum. Þannig er reynt að tryggja, að ekki teljist annað til vísinda en það, sem lýtur ströngum fræðiaga.

Hér á landi er helzta erfðafræðifyrirtækið rekið eins og stjórnmálaflokkur, þar sem fjárfestar eru í hlutverki kjósenda. Það býr yfir ímyndar- og áróðursfræðingum, á í stöðugum útistöðum við meinta öfundarmenn og kynnir niðurstöður með lúðrablæstri í sjónvarpi.

Sem betur fer er þjóðin samt ekki alveg úti að aka, úr því að flokkar tapa fylgi í kjölfar innantómra ímyndarauglýsinga og innantómra loforðaauglýsinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Sálar verða að Pálum

Greinar

Þegar Sál frá Tarsos var kominn langleiðina til Damaskus frá Jerúsalem til að halda áfram ofsóknum sínum gegnum kristnum mönnum, fékk hann eldingu í höfuðið og fór upp úr því að boða kristna trú víða um Miðjarðarhafslönd undir heitinu Páll postuli.

Allt frá tímum postulasögunnar hafa snögg sinnaskipti manna verið talin sæta tíðindum. Svo var, þegar Konstantínus mikli, keisari í Miklagarði, snerist fyrir orrustuna við keppinaut sinn skyndilega til kristinnar trúar, þótt það væri þá enn fámennur trúflokkur.

Einnig þótti tíðindum sæta, þegar helzti fyrirgreiðslumaður íslenzkra stjórnmála síðustu áratuga, þingmaðurinn, kommissarinn, ráðherrann og bankastjórinn, einn höfunda gjafakvótans, snerist skyndilega gegn fyrri stefnu og fór að boða afnám gjafakvótans.

Að vísu hafa kjósendur enn ekki tekið hugarfarsbreyttum Sverri Hermannssyni eins vel og íbúar Rómaveldis tóku Páli postula á sínum tíma. Það getur staðið til bóta, því skammt er liðið frá eldingunni í höfði Sverris og trúboð tekur lengri tíma en einar kosningar.

Minna hefur verið tekið eftir eldingunni, sem slegið hefur í höfuð Halldórs Ásgrímssonar í miðri kosningabaráttunni. Hann er orðinn gerbreyttur frá því, sem var á Laugarvatnsfundinum í upphafi kosningabaráttunnar og boðar nú nýjan og saklausan Framsóknarflokk.

Þá varði hann óbreytt kvótakerfi í sjávarútvegi, sagði andstæðinga miðlunarlóna á hálendinu vera óvini efnahagsþróunar í landinu og taldi enga minni máttar aðila hafa orðið út undan í góðærinu, sem hann og forsætisráðherra höfðu skaffað þjóðinni af mildi sinni.

Nú vill hann skyndilega skattleggja gjafakvótann í sjávarútvegi, er til viðræðu um að hlífa viðkvæmustu hlutum hálendisins við miðlunarlónum og vill fara að leysa alls kyns vanda ýmissa hópa, sem miður mega sín, með milljarðafjárveitingum á sérhverjum pósti.

Fyrir sinnaskiptin birtust auglýsingar, sem sýndu fram á, að öll vandamál þjóðarinnar hefðu verið leyst í stjórnartíð Framsóknarflokksins. Eftir sinnaskiptin birtast auglýsingar, sem sýna fram á, að Framsóknarflokkurinn muni í næstu stjórn bæta fyrir brot sín.

Sál frá Tarsos varð að Páli postula og Flavíus Valeríus varð að Konstantínusi mikla. Spurningin er, hvort þeir Sverrir Hermannsson og Halldór Ásgrímsson verði ekki að skipta um nafn eftir höfuðhöggið, svo að sinnaskiptin verði talin af ætt kraftaverka fyrri tíma.

Ekkert bendir til, að hin frægu sinnaskipti sögunnar hafi verið af hagkvæmnisástæðum. Páll postuli var tekinn af lífi fyrir trúboð sitt og Konstantínus mikli hefði getið valið sér fjölmennari trúflokk til fylgilags. Sinnaskipti þeirra voru einlæg og áhrifamikil.

Væntanlega gildir hið sama um áhrifamennina í helmingaskiptafélagi gæludýrabúðarinnar norður í Atlantshafi. Þar hafi ekki komið að málum neinir ímyndarfræðingar til að segja gömlu jálkunum úr fjórflokkinum, að hugarfarsbreyting sé að verða með þjóðinni.

Væntanlega munu þeir félagar taka sér ný nöfn og mynda saman ríkisstjórn eftir kosningar um afnám gjafakvótans, verndun hálendisins fyrir Finni Ingólfssyni og nokkurra milljarða fjárveitingar til sérhvers hóps þeirra, sem minna mega sín í lífinu.

Gott er til þess að vita, að tími kraftaverkanna er ekki alveg liðinn, þótt öld efnisvísinda hafi lengi ráðið ríkjum. Kannski verða höfuðhöggin að tákni 21. aldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Eins áratugar Sundabraut

Greinar

Þótt bæjaryfirvöld á Siglufirði telji hagsmunamál þjóðarinnar allrar, að grafin verði tvenn jarðgöng þaðan til Ólafsfjarðar, hlýtur gerð Sundabrautar í Reykjavík að vera margfalt meira hagsmunamál þjóðarinnar allrar, því að hún styttir vegferð margfalt fleira fólks.

Þegar landsfeður uppgötva fyrir kosningar, að til ráðstöfunar til vegagerðar séu nokkrir milljarðar, sem ekki fundust áður, væri skynsamlegast að nota þá alla í Sundabraut, en ekki eyrnamerkja þá öllum öðrum kjördæmum en einmitt Reykjavík og Reykjanesi.

Sundabraut er ætlað að liggja frá Sæbraut yfir Kleppsvík, um Gufunes og Geldinganes, yfir Leiruvog, um Álfsnes og yfir Kollafjörð upp á Kjalarnes. Álfsnes og Kjalarnes eru orðin að hluta Reykjavíkurborgar eftir sameiningu hennar og Kjalarneshrepps.

Sundabraut gerir kleift að byggja ný borgarhverfi á Álfsnesi og Kjalarnesi, sem annars mundu valda öngþveiti á núverandi leiðum inn í bæ. Hún styttir einnig leið allra þeirra af landsbyggðinni, sem þurfa að aka til höfuðborgarinnar til að reka erindi sín.

Skynsamlegt er að hafa hóf á kostnaði við gerð Sundabrautar. Brautin þarf ekki að verða minnisvarði um háreista brúarhönnun arkitekta. Brúin yfir Kleppsvík þarf að vera innan hafnarsvæðisins, svo að ekki þurfi að gera ráð fyrir umferð skipa undir hana.

Flytja þarf hafnsækin fyrirtæki við Sævarhöfða í utanverðum Ártúnshöfða á annan stað, svo að ekki þurfi að hanna brúna með tilliti til þeirra. Göng undir Kleppsvík eru ekki góður kostur, því að reiknað hefur verið, að þau lengi leiðina um einn kílómetra.

Einfaldast og ódýrast er að velja innstu leiðina af þeim brúarkostum, sem taldir eru koma til greina, og láta Sundabraut liggja yfir Elliðaárvog um uppfyllingu út af Ártúnshöfða og síðan yfir Grafarvog. Þessi leið felur í sér styttri brúarhöf en aðrar leiðir yfir Kleppsvík.

Athyglisvert er, að torsóttasta verkefnið við gerð Sundabrautar er tenging hennar við gatnakerfi borgarinnar. Ekki er hægt að demba umferðinni af Sundabraut yfir á Sæbraut án þess að gera ráðstafanir til að hindra stíflur af völdum aukins umferðarþunga.

Með mislægum gatnamótum þarf að tryggja viðstöðulausan akstur án umferðarljósa milli Sundabrautar og Sæbrautar. Ennfremur er líklegt, að leggja þurfi framhald Sundabrautar í stokk undir Skeiðarvog að brúnni, sem á að tengja saman Skeiðarvog og Miklubraut.

Þrengslin á þessu svæði minna á, að borgin hefur stundum ekki getað reist umferðarmannvirki á skynsamlegan hátt vegna of mikillar þéttingar byggðar. Frægasta dæmið um þetta er Höfðabakkabrúin, sem vegna nýrra húsa liggur í keng yfir Vesturlandsveg.

Þétting byggðar hefur valdið ýmsum öðrum ófögnuði í borginni. Skeifan og Fenin slitu í sundur möguleikann á samfelldu útivistarsvæði frá Laugardal upp í Heiðmörk. Og nú er enn verið að klípa af Laugardal með því að úthluta lóðum til ýmiss konar stórhýsa.

Gerð brúar yfir Kleppsvík getur hafizt árið 2001 og lokið 2003. Sundabraut þarf árið 2007 að vera komin upp á Álfsnes, því að þá má búast við, að lokið verði uppbyggingu Grafarholts og Hamrahlíðar. Tveimur árum síðar ætti Sundabraut að vera komin upp á Kjalarnes.

Þetta er eins áratugar verkefni, sem ætti að hafa forgang í vegagerð þjóðarinnar, enda býr það yfir margfalt meiri arðsemi en önnur vegagerð í umræðunni.

Jónas Kristjánsson

DV