Greinar

Undarleg Japansferð

Greinar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi lugu fullum hálsi að fjölmiðlum, þegar þau fullyrtu, að ferð þeirra, ásamt Jónu Gróu Sigurðardóttur borgarfulltrúa, til Japans væri ekki á vegum túrbínuframleiðandans Mitsubishi.

Fjölmiðlar hafa náð í dagskrá ferðarinnar, sem er gefin út af umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi og á blaðhaus hans. Hún sýnir, að ferðin snýst um túrbínufyrirtækið, þótt vinum þess sé gefinn smátími til að spjalla við borgarstjórn Tokyo um ljósleiðara í holræsum.

Í fundargerðum borgarráðs, borgarstjórnar og Orkuveitunnar er hvergi að finna stafkrók um, að borgin eða Orkuveitan samþykki að kosta þessa Japansferð. Þetta vakti grun um óheilindi, því að slíkra bókana er þörf, þegar farið er í ferðalög á vegum þessara aðila.

Í reglum borgarinnar er beinlínis bannað, að menn þiggi ferðir á vegum viðskiptaaðila borgarsjóðs og Orkuveitunnar. Borgarstjóri, fulltrúar meirihlutans og minnihlutans eru að brjóta reglur, sem settar hafa verið til að reyna að hamla gegn spillingu hjá borginni.

Mitsubishi hefur selt veitunni tvær túrbínur og hefur fengið í hendur viljayfirlýsingu um þá þriðju án útboðs. Eftirlitsstofnun Efnahagssvæðis Evrópu hefur sent hingað til lands fyrirspurn og kvörtun. Það er fyrsta skref stofnunarinnar í málarekstri gegn spillingu.

Þegar upplýst varð, hvernig lá í málinu, hætti Jóna Gróa Sigurðardóttir við túrbínuferðina til Japans, enda er ekki lengur hægt að verja hana. Gögnin liggja á borðinu og þau sýna öll, að ferðin er á vegum fyrirtækis, sem stundar vafasöm viðskipti við borgarstofnun.

Til að forðast hagsmunaárekstra er það almenn viðskiptaregla á Vesturlöndum, að vinnuferðir stjórnenda séu greiddar af viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, en ekki af viðskiptaaðilum, sem tefla um mikilvæga hagsmuni í samningum við fyrirtækið eða stofnunina.

Athyglisverðast við mál þetta er, hversu reiprennandi stjórnmálamennirnir lugu að fjölmiðlum, þótt þeir hefðu mátt vita, að hið sanna mundi koma í ljós. Þetta sýnir, hvernig hrokinn getur slegið fólk blindu, þegar það er búið að vera lengur við völd en hæfilegt er.

Kannski verður reynt að bakfæra kostnaðinn yfir á Reykjavíkurborg til mæta gagnrýni, sem hér kemur fram og víðar úti í bæ. Það breytir ekki því, að skjölin sýna, að ferðin er farin á vegum viðskiptaaðilans samkvæmt dagskrá, sem gefin er út á bréfsefni hans.

Það breytir ekki heldur því, að ferðin er farin án fjárhagslegs samþykkis þar til bærra stofnana borgarinnar og átti því ekki að vera á kostnað þeirra, þótt hinum spilltu snúist hugur, þegar þeir hafa verið staðnir að því að þiggja Japansferð úr hendi viðskiptaaðila.

Borgarfeður og -mæður hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu vegna skorts á lóðum í Reykjavík. Úthlutun lóða er orðin að takmörkuðum gæðum, sem hafa fengið skömmtunargildi. Slíkt kallar á spillingu, svo sem endranær, þegar menn geta farið að úthluta.

Þetta minnir allt á stjórnarhætti, sem tíðkuðust fyrr á árum hjá borginni, þegar sami flokkurinn hafði verið við völd áratugum saman. Eini munurinn er sá, að spillingin hefur haldið innreið sína heldur hraðar hjá núverandi valdhöfum en búast hefði mátt við.

Hitt verður svo öllum til góðs, að framvegis taki fjölmiðlar og borgarbúar mátulega alvarlega fullyrðingar þeirra, sem hafa það, sem hentugast þykir.

Jónas Kristjánsson

DV

Einmana búraþjóð vestræn

Greinar

Öll ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, nema Ísland, hafa ritað undir Kyoto-sáttmálann um minni losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið. Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki tekur þátt í þeim metnaði mannkyns að skila afkomendum okkar vistlegri hnetti.

Sum vestræn ríki eru orðin svo vistvæn, að þau hafa miklar tekjur af þeirri stefnu sinni. Svisslendingar hafa eflt stöðu sína sem ferðamannaland með því að leggja niður öll álver í landinu og Þjóðverjar hagnast á framleiðslu og sölu umhverfisvænna véla af ýmsu tagi.

Þegar menn og þjóðir setja sér háleit markmið, eru þau hvati til að gera betur en ella. Þeir, sem ná markmiðunum fyrr en aðrir, hafa yfirleitt hag af að selja þekkingu sína og verkkunnáttu til annarra, sem skemmra eru á veg komnir. Þannig hafa Þjóðverjar farið að.

Íslendingar hafa mikla möguleika á að fara á undan með góðu fordæmi og góðum arði. Bezta dæmið um það eru þýzk-íslenzku tilraunirnar til að knýja skip og bíla með vetni. Við getum orðið þjóða fyrstir til að hverfa frá notkun olíu og benzíns og selja öðrum þekkinguna.

Skipti úr olíu og benzíni yfir í vetni verður væntanlega stórtækasta aðgerð mannkyns til að minnka losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið. Þjóðirnar, sem taka forustu í því efni, munu ekki eiga í neinum vandræðum með að standa við háleit markmið sín.

Íslenzka ríkisstjórnin kýs að fara ekki þessa leið. Hún neitar að rita undir Kyoto-sáttmálann, ein vestrænna ríkisstjórna. Hún vekur alþjóðlega athygli á okkur með því að neita að setja sér svipuð markmið og ríkisstjórnir annarra vestrænna ríkja hafa gert.

Fremstur í metnaðarleysinu fer helzti óvinur íslenzkrar náttúru, Framsóknarflokkurinn, með ráðherra utanríkismála og orkumála í broddi fylkingar, formann og varaformann flokksins. Þeir hafa frosið inni með kosningaloforð um vanhugsað álver á Reyðarfirði.

Þetta verða tveir síðustu Íslendingarnir, sem falla frá órum um uppistöðulón í Eyjabökkum. Engum, sem hefur séð myndir og kvikmyndir frá svæðinu, blandast hugur um, að þarna verður aldrei leyft neitt uppistöðulón, hvað sem fjandmenn náttúrunnar bölsótast.

Svo frosnir eru metnaðarleysingjarnir að þeir hafa að undanförnu verið að reyna að túlka orð og gerðir ráðamanna Norsk Hydro um, að álver á Reyðarfirði verði ekki á dagskrá á næstu árum, sem eins konar yfirlýsingu um, að álverið sé samt á dagskrá Norsk Hydro.

Sorglegt er að búa við ríkisstjórn og ráðherra af þessu tagi. Það er niðurlæging fyrir þjóðina í heild á alþjóðavettvangi, að utanríkisráðherra skuli ekki vilja setja þjóðinni sömu markmið í framfaramálum og aðrar vestrænar þjóðir. Það setur okkur á þriðja heims stig.

Túristar ríkisstjórnarinnar hafa verið að gæla við Mexíkó og Malasíu, Mósambík og Malaví. Þeir hafa meira að segja látið sér detta í hug að koma upp sendiráði á slíkum stöðum, eins og þeir séu að reyna að flytja Íslendinga yfir í ömurlega sveit þriðja heimsins.

Samt höfum við dæmin í kringum okkur, sem sanna, að Vesturlönd auðgast hraðar en þriðji heimurinn og að forusturíki umhverfismála hagnast beinlínis á því að setja sér háleit markmið, sem kostar fyrirhöfn að standa við, en framkalla um leið seljanlega þekkingu.

Himinhrópandi er munur viðhorfa framsýnna ráðamanna Þjóðverja og skammsýnna ráðamanna Íslendinga til þeirra mála, sem varða framtíð okkar á jörðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Tyrkland er boðflenna

Greinar

Við þekkjum tvískinnung Tyrklands af viðskiptum Sophiu Hansen við réttarkerfi, sem er vestrænt á ytra borði og austrænt að innihaldi. Í senn sækir Tyrkland um aðild að stofnunum vestursins á borð við Evrópusambandið og færist í átt til austrænnar fortíðar.

Ofsóknir Tyrklands á hendur minnihlutaþjóð Kúrda hafa aukizt með árunum, þótt þær brjóti allar reglur um aðild að vestrænu samfélagi. Svona haga til dæmis Spánverjar sér ekki gegn Böskum. Fara þarf til Serbíu og Íraks til að finna meiri grimmd en þá tyrknesku.

Kúrdar mega ekki tala tungu sína opinberlega. Þeir mega ekki skrifa á henni og ekki heldur kenna hana í skólum. Stjórnmálamenn og blaðamenn, sem segja frá atburðum í Kúrdistan eða lýsa samúð með málstað þeirra, eru umsvifalaust dæmdir til fangavistar.

Sem dæmi um ástandið í Tyrklandi má nefna, að hvergi í heiminum er eins mikið um, að blaðamenn séu ofsóttir, drepnir og fangelsaðir fyrir að sinna störfum sínum. Samt er þetta ríki inni á gafli í vestrænu samfélagi með aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu.

Endalausar tilraunir hafa verið gerðar til að gera Tyrki húsum hæfa á Vesturlöndum. Reynt hefur verið að leiða þeim fyrir sjónir, hvernig vandi minnihlutaþjóða hefur verið minnkaður í Evrópu og hvernig Vesturlönd leysa ágreining sín á milli án hernaðaraðgerða.

Tyrkland lét aðild að Atlantshafsbandalaginu ekki aftra sér frá innrás í Kýpur í skjóli Bandaríkjanna, sem löngum hafa litið á Tyrkland sem bandamann gegn Sovétríkjunum sálugu. Innrásin í Kýpur er eina dæmið, sem til er um hernað Natoríkis gegn öðru Natoríki.

Að undirlagi Mústafa Kemal Ataturk gerði tyrkneski herinn snemma á öldinni tilraun til að gera Tyrkland evrópskt. Tekið var upp latínuletur og vestrænn klæðaburður, stjórnkerfið lagað að evrópskum formum og lagt bann við ýmsum myndum róttækrar íslamstrúar.

En herinn náði bara formsatriðunum, ekki innihaldinu. Tyrkneskir herforingjar hafa aldrei skilið, að vestrið er ekki bara form, heldur einnig innihald, svo sem mannréttindi. Þeir hafa til dæmis aldrei skilið, að pólitísk vandamál leysast ekki með íhlutun hersins.

Hvað eftir annað hefur tyrkneski herinn steypt löglega mynduðum ríkisstjórnum, ef þær hafa staðið sig illa eða gælt við íslamstrú. Þar með hefur herinn komið í veg fyrir, að þarlendir stjórnmálamenn taki út vestrænan þroska með því að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Turgut Özal var sá forsætisráðherra og forseti, sem ákafast þóttist vera vestrænn og harðast reyndi að koma Tyrklandi inn í Evrópusambandið. Samt gerði hann enga tilraun til að lina þau sérkenni, sem hafa alltaf komið í veg fyrir, að Tyrkir væru taldir í húsum hæfir.

Tyrkir kvarta sáran undan, að Evrópusambandið ástundi misrétti í vali aðildarríkja og taki önnur ríki fram fyrir í biðröðinni. Evrópumenn spyrja á móti, hvernig gangi að koma vestrænu innihaldi í tyrknesk form og fá engin nothæf svör, því að ekkert gerist.

Allt frá dögum Ataturk hefur Tyrkland rambað á landamærum austurs og vesturs. Það hefur ekki getað ákveðið, hvar það á heima. Á valdatíma Özal hófust þó gælur við íslam, sem benda til, að smám saman muni Tyrkland finna sér stað í samfélagi íslamskra þjóða.

Tyrkland hefur hunzað ótal tækifæri til að koma til móts við innra eðli vestræns samfélags. Það er boðflenna, sem ekki á heima í Atlantshafsbandalaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Illa undirbúnar hvalveiðar

Greinar

Á tíðum ferðum um heiminn hafa íslenzkir ráðherrar víða þreifað á viðbrögðum við endurnýjun íslenzkra hvalveiða og hvarvetna fengið fálegar viðtökur. Þennan kalda veruleika hafa forsætis- og utanríkisráðherra verið að reyna að segja sjávarútvegsnefnd Alþingis.

Það er ekki nægur undirbúningur hvalveiða, að ráðherrar boði fagnaðarerindið í Mexíkó og Malasíu, Mósambík og Malaví. Það er heldur ekki nóg að efna til enn einnar skoðanakönnunarinnar og leita að þessu sinni álits helztu viðskiptamanna okkar erlendis.

Í skoðanakönnunum erlendis hefur komið í ljós munur á viðbrögðum eftir orðalagi spurninganna. Óundirbúnir eru flestir Vesturlandabúar andvígir hvalveiðum, en geta með ákveðnum skilyrðum, sem tilgreind eru í spurningunni, fallizt á takmarkaðar hrefnuveiðar.

Ef menn heyra þær röksemdir, að hrefnustofninn sé ekki í hættu, heldur telji eina milljón dýra, að kjötið fari til manneldis, að veiðarnar séu hluti þjóðmenningar, að Alþjóða hvalveiðiráðið ákveði aflakvóta og tryggi stærð stofnsins, fara hinir spurðu að verða jákvæðari.

Yfirveguð viðhorf af slíku tagi ráða hins vegar ekki ferðinni. Ef við hefjum hvalveiðar að nýju án þess að hafa breytt viðhorfum fólks í viðskiptalöndum okkar, munum við verða fyrir dýrkeyptum hliðarverkunum, sem hvalveiðitekjur munu ekki standa undir.

Ef það er í alvöru ásetningur þings og þjóðar að hefja hvalveiðar að nýju, er nauðsynlegt að efna til stórfelldrar herferðar í viðskiptalöndum okkar, þar sem reynt verði að sýna fram á, að röksemdir okkar í málinu eigi að vega þyngra á metunum en tilfinningasemin.

Til sparnaðar er brýnt að hafa um þetta samráð við aðra aðila, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, til dæmis í Noregi. Eðlilegt er, að hugsjónaöfl hvalveiða, með meirihluta þjóðanna að baki, efni til fjársöfnunar til að standa undir slíkri herferð á Vesturlöndum.

Eðlilegt er, að ríkin taki einhvern þátt í þessum kostnaði, sem fyrst og fremst ætti þó að hvíla á herðum hugsjónaafla hvalveiðanna. Fyrsta skynsamlega skrefið í átt til hvalveiða felst í að tryggja fjármögnun slíkrar herferðar á hendur almenningálitinu á Vesturlöndum.

Þegar skoðanakannanir hafa leitt í ljós, að tekizt hafi að milda þetta álit nægilega, er hægt að fara að stíga næstu skref, en fyrr ekki. Það er til dæmis óráðlegt að vera með miklar yfirlýsingar um hvalveiðar, meðan viðhorfin eru eins neikvæð og raun ber vitni.

Einnig ber hinum hyggnari í röðum hvalveiðisinna að láta minna bera á fyndnum kenningum róttæklinga um, að veiðar á 250 hrefnum úr 1.000.000 dýra stofni muni létta veiðimönnum samkeppnina við hvalinn og auka aflaverðmæti okkar um milljarða króna á ári.

Þegar reynt verður að hafa vit fyrir útlendingum með upplýsingum og áróðri, er mikilvægt að velja sér vopn rökhyggju og raunhyggju, en skilja fyndnustu fullyrðingarnar eftir heima, því að dreifing þeirra á alþjóðamarkaði mun ekki flýta fyrir hvalveiðum.

Það sýnir innihaldsleysi hinnar árvissu æfinga alþingismanna á sviði þingsályktana um hvalveiðar, að málið skuli ekki vera lagt fyrir eins og hér hefur verið lýst. Það sýnir, að billegir þingmenn eru að gæla við fávísa kjósendur sína, án þess að meina neitt með því.

Við höfum áður lent í að fórna hagsmunum hvalveiða fyrir meiri hagsmuni og munum áreiðanlega lenda í því aftur, ef jarðvegurinn hefur ekki verið undirbúinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Bakslag í prófkjörum

Greinar

Prófkjör Samfylkingar jafnaðarmanna í kjördæmum Norðurlands heppnuðust eins illa og prófkjör hennar heppnuðust vel á suðvesturhorninu. Í stað þess að styrkja Samfylkinguna verða þau til þess að veikja hana. Þau verða vatn á myllu annarra stjórnmálaflokka.

Sérstaklega er alvarlegt, að samanlögð þátttaka Siglfirðinga í prófkjörum Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar skuli vera meiri en sem nemur öllum kjósendafjölda í bænum. Sjá má, að margir Siglfirðingar ætla ekki að kjósa í kosningunum eins og í prófkjörinu.

Siglfirðingar misnotuðu prófkjörsreglur Samfylkingarinnar til að ná í þingmann á kostnað hennar. Þeir fæla um leið skagfirzka og húnvetnska kjósendur frá Samfylkingunni og sömuleiðis fæla þeir burt alþýðubandalagsmenn, sem eru fleiri en kratar í kjördæminu.

Þetta er hagsmunastríð Siglfirðinga á kostnað annarra svæða í kjördæminu og á kostnað fylgis Samfylkingarinnar í kjördæminu. Þingmaður Siglufjarðar verður eins konar sníkjudýr á kjördæminu og Samfylkingunni í skjóli misnotkunar á prófkjörsreglum.

Hvernig sem reynt verður að verja þessa framgöngu, verður ekki hjá því litið, að óheiðarlegt er að taka þátt í prófkjöri flokka, sem menn ætla ekki að kjósa í kosningunum. Því miður sanna ótal önnur dæmi, að þessi óheiðarleiki er landlægur víðar en á Siglufirði.

Svipaða sögu er að segja úr hinu kjördæminu, þar sem smalað var úr íþróttafélögum fólki, sem ekki ætlar að kjósa Samfylkinguna í kosningunum í vor. Þannig tókst að fella reyndan þingmann, sem hefur góðan orðstír og var eitt af ráðherraefnum Samfylkingarinnar.

Augljóst er, að eftir prófkjörið býður Samfylkingin á Norðurlandi eystra ekki upp á neitt ráðherraefni. Þar á ofan er ljóst, að prófkjörið styrkir önnur framboð, einkum græna vinstrið, skaðar þannig Samfylkinguna og dregur úr meðbyr hennar á landsvísu.

Enn má nefna, að smölunin í kjördæmum Norðurlands varð til þess að fella tvær konur úr fyrstu sætum væntanlegra framboðslista og einu þingmannssætum þeirra. Þetta eyðir góðu áhrifunum af velgengni kvenna í prófkjörum Samfylkingarinnar á suðvesturhorninu.

Stundum takast tilraunir til að fá utanflokksfólk til að taka í prófkjöri þátt í að búa til framboðslista og laða það þannig til fylgis við listann, en stundum takast þær ekki. Þær virðast hafa tekizt hjá Samfylkingunni á suðvesturhorninu en síður en svo á Norðurlandi.

Enn má nefna, að sameiginlega opin prófkjör Alþýðuflokks og Alþýðubandalags skekkja hlutföll flokkanna, þar sem auðveldara er að smala fólki úr öðrum flokkum til fylgis við framjóðendur úr Alþýðuflokknum en úr Alþýðubandalaginu. Þetta skaðar innra samstarf.

Sé miðað við úrslit síðustu kosninga, verða ekki nema sjö þingmenn úr Alþýðubandalaginu og þrír úr Þjóðvaka á vegum Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili. Það jafngildir hruni Alþýðubandalagsins og staðfestingu þess, að Samfylkingin er Alþýðuflokkurinn.

Því er formanni Alþýðuflokksins ekki orðið um sel. Eftir prófkjör suðvesturhornsins sagði hann, að þau væru ekki sigur Alþýðuflokksins. Eftir prófkjörin fyrir norðan sagði hann í sárabætur, að formaður Alþýðubandalagsins yrði talsmaður Samfylkingarinnar.

Eftir bakslagið fyrir norðan er ljóst, að prófkjör, þótt oft séu góð, eru ekki alltaf allra meina bót, því að útbreitt siðleysi Íslendinga lætur ekki að sér hæða.

Jónas Kristjánsson

DV

Landvinningar Reykjavíkur

Greinar

Hollendingar hafa reist sinn aðalflugvöll á landi, sem áður var sjávarbotn og Japanir hafa nýlega gert slíkt hið sama. Það er því þekkt aðferð að nota einskismannsland undir flugvöll í þéttbýlum löndum, þar sem hver fermetri lands er þegar nýttur á annan hátt.

Hugmyndin um flugvöll í Skerjafirði byggist ekki á eins brýnum forsendum og hinar erlendu hliðstæður. Hér er verið að losa um landrými nálægt borgarmiðju til þess að nýta hana betur. Íbúðir í Vatnsmýrinni eru til þess fallnar að efla höfuðborgarmiðju í Kvosinni.

Margs þarf að gæta á landi og sjó, þegar ráðizt er í framkvæmdir af þessu tagi. Ekki er gott að breyta Skerjafirði í eins konar skipaskurði milli flugbrauta. Gæta þarf hagsmuna þeirra íbúa, sem hafa fyrir augunum opið svæði Skerjafjarðar eins og hann er nú.

Borgin þarf að svara spurningum um álag á samgöngumannvirki, til dæmis á Miklubraut, Hringbraut, Snorrabraut og Sóleyjargötu, ef heill Kópavogur á að rísa í Vatnsmýrinni. Verður ríkið lipurt við að kosta mislæg gatnamót og fleiri akreinar á götum sem þessum?

Flugvöllur í Skerjafirði er ekki eina hugmyndin, sem snögglega hefur komizt í tízku. Ráðagerðir eru um að vinna land á hafsbotni út af Örfirisey og koma þar fyrir íbúðabyggð. Væri það í fyrsta skipti hér á landi, að nýtt landflæmi er framleitt undir vistarverur fólks.

Tvær spurningar hljóta að vakna, þegar hugmyndir um landvinninga á hafi úti eru komnar á þetta stig. Önnur er, hvort landþrengsli séu orðin hér. Er mikil goðgá, þótt byggja verði með ströndum fram út frá Reykjavík, upp á Kjalarnes og suður með sjó?

Þarf Reykjavík að stækka inn í sig? Hver er hugmyndafræðin á bak við þéttingu byggðar? Við vitum, að hún hefur skaðað borgina í mörgum tilvikum í fortíðinni, svo sem þegar útivistartengsli Laugardals og Elliðaársdals voru slitin með iðnaðarhverfi í Skeifunni.

Er nokkuð við það að athuga, að íbúafjölgun höfuðborgarsvæðisins verði í auknum mæli í nágrannasveitarfélögunum í landnámi Ingólfs eða jafnvel í sveitarfélögum norðan Hvalfjarðarganga og austan Þrengsla? Við búum ekki við hollenzk og japönsk landþrengsli.

Hin spurningin er, hvort menn hafi gert sér grein fyrir, að yfirborð hafs hefur öldum saman verið að hækka á höfuðborgarsvæðinu og að spár um útblástur gróðurhúsalofttegunda í heiminum gera ráð fyrir, að haf gangi á land með stórauknum hraða á næstu áratugum.

Við alla mannvirkjagerð og einkum við byggingu íbúða á hafi úti er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hvað það muni kosta að verja þessi verðmæti gegn eins metra hækkun yfirborðs sjávar, tveggja metra hækkun og enn frekari hækkun, sem er í spilunum.

Þetta eru ekki órar, því að ríki heimsins hafa viðurkennt vandann með því að senda umboðsmenn sína á viðamiklar ráðstefnur í Ríó og Tokyo til þess að rita undir sáttmála um aðgerðir til að reyna að hamla gegn eða hægja á hækkun hitastigs af mannavöldum.

Við skulum því ekki rasa um ráð fram í tilraunum til landvinninga á kostnað hafsins. Við höfum meira rými á landi en Hollendingar og Japanir. Við þurfum að huga að öllum kostnaðarliðum og áhættuþáttum fyrirhugaðra framkvæmda, sérstaklega íbúðabyggða úti í sjó.

Flugvöllur í Skerjafirði er nógu stór biti í hálsi, þótt ekki bætist við fjölmenn íbúðabyggð úti á Sundum. Við skulum ekki gleypa meira en við getum kyngt.

Jónas Kristjánsson

DV

Límið hættir að virka

Greinar

Guggan var keypt 1997 frá Ísafirði til Akureyrar til að ná kvótanum. Nú er því hlutverki lokið og Guggan hefur verið seld úr landi. Fyrst missti ísfirzkt fiskverkafólk vinnuna og nú hafa ísfirzkir sjómenn einnig misst vinnuna. Þetta er saga kvótakerfisins í hnotskurn.

Um leið er þetta angi af stærri sögu, sem hófst vestanhafs og er að breiðast um heiminn. Stjórnendur fyrirtækja einbeita sér að því að fullnægja kröfum hluthafa um ársfjórðungslegan arð og eru sem óðast að leggja niður fyrri áherzlu á stöðu fyrirtækisins í samfélaginu.

Klassíska hagfræðin hefur sagt okkur margt viturlegt. Hún segir okkur, að bezt sé, að hver skari eld að sinni köku innan ramma laga og réttar. Þannig verði meðalávinningur allra sem mestur. Vesturlönd hafa raunar orðið auðug á því að beita klassískri hagfræði.

Tjón ísfirzks fiskverkafólks, ísfirzkra sjómanna og Ísafjarðar sem bæjarfélags verður vegið upp með hagnaði annars fiskverkafólks, annarra sjómanna og annarra bæjarfélaga. Klassíska hagfræðin heimtar beinlínis byggðaröskun til að efla lífsgæði og framfarir.

Áður fyrr var Reykjavík talin endapunktur byggðaröskunarinnar. Þangað mundu peningar og hálaunafólk streyma, þótt leifar útræðis yrðu í nokkrum Dritvíkum og Dagverðareyrum nútímans. En nú fara menn að átta sig á, að Kvosin er ekki endastöð röskunarinnar.

Fyrirtækjum, sem bezt vegnar, opnast leiðir til að setja upp útibú í Stokkhólmi og Los Angeles eða fara beint stytztu leiðina og setja upp aðalstöðvar í Delaware. Eigendur kvóta og hlutafjár setjast að í Eyjahafi eða Karíbahafi, fjarri láréttum Íslandsveðrum.

Klassíska hagfræðin hefur kortlagt margt, en hún leysir ekki margvísleg viðfangsefni utan hagfræðinnar. Með opnun fjölþjóðlegra viðskipta og fjármagnsflutninga hafa myndazt fjölþjóðleg fyrirtæki, sem komast meira eða minna út fyrir lögsögu einstakra ríkja.

Við búum í vestrænum heimi, þar sem samkomulag er um, að ríkisvaldið eitt hafi einkarétt á allri valdbeitingu. Fjölþjóðastofnanir á borð við Evrópusambandið hafa verið að seilast í þetta vald, en eru samt enn mjög veikburða að völdum í samanburði við ríkin.

Fjölþjóðafyrirtækin ganga úr greipum ríkisvaldsins. Þau haga seglum eftir vindi, flytja fjármagn þangað sem það fær að vera í friði og flytja atvinnu þangað sem hlutfall kaups og vinnuframlags er hagstæðast. Þetta setur þjóðir félagslegs markaðsbúskapar í vanda.

Í Bandaríkjunum eru laun forstjóra margfölduð, ef þeir skera niður starfsmannafjöldann um tugi prósenta. Verksmiðjur eru lagðar niður og lifibrauð heilla sveitarfélaga er lagt í rúst af hagræðingarástæðum. Vinnan flytzt til þriðja heimsins, þar sem kaupið er lágt.

Þar sem sveigjanleiki fólks er mestur í heiminum, í sjálfum Bandaríkjunum, hafa menn látið sig hafa þetta og flutt sig um set eftir aðstæðum hverju sinni. En sveigjanleikinn er takmörkunum háður. Menn eiga erfitt með að flytjast í láglaunastöður til Mexíkó.

Bandaríkin eru komin út á haf, þar sem sjókort klassísku hagfræðinnar nýtast ekki lengur. Við erum að leggja út á sama haf. Á þessu ókannaða hafi sinna fyrirtækin ársfjórðungsgróðanum einum og þjóðfélagskerfið byrjar að safna glóðum elds að höfði sér.

Sala Guggunnar er dæmi um, að límið í þjóðfélaginu hættir að virka. Ráðþrota fórnardýr breytinga fá smám saman óbeit á kerfinu og ófriður magnast að innan.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklaust þjark um heitt vatn

Greinar

Erfitt er að sjá, að það komi Hafnarfjarðarbæ neitt við, hvað Orkuveita Reykjavíkur gerir við tekjur sínar af heitavatnssölu í Hafnarfirði, hvort hún greiðir eiganda sínum meiri eða minni arð, hvort hún reisir Perlur fyrir þær eða hvort yfirmennirnir drekka þær bara út.

Samningurinn frá 1973 um heitt vatn í Hafnarfirði frá þáverandi Hitaveitu Reykjavíkur var gerður að frumkvæði Hafnarfjarðar, sem vildi fá ódýrara heitt vatn og spara sér að leggja heitavatnsæðar í bæinn. Samið var um að fá þetta allt á silfurfati frá Reykjavík.

Gáfulegra hefði verið fyrir Hafnarfjörð að kaupa heita vatnið í heildsölu frá Reykjavík og eiga lagnirnar sjálfur, svo að auðveldara væri að slíta viðskiptunum, ef mál þróuðust á þann veg, að samningurinn yrði talinn óhagstæður við nýjar aðstæður aldarfjórðungi síðar.

Skynsamlegt væri fyrir Hafnarfjörð að semja við Orkuveitu Reykjavíkur um að kaupa af henni lagnirnar í Hafnarfirði og öðlast þannig betri stöðu til að bjóða út heitavatnsviðskipti, annaðhvort frá Reykjavík eða Svartsengi eða frá nýjum borholum í Hafnarfirði.

Gagnvart Hafnarfirði kom þáverandi Hitaveita Reykjavíkur fram sem fyrirtæki, er tók að sér ákveðna fjárfestingu og rekstur gegn gjaldi, sem átti að vera sama og hjá gamalgrónum viðskiptamönnum hitaveitunnar í Reykjavík. Þetta var vel boðið hjá hitaveitunni.

Hitaveitan og síðan Orkuveitan hafa staðið við þennan samning í aldarfjórðung. Þessum fyrirtækjum er, eins og öðrum fyrirtækjum í landinu, heimilt að ákveða sjálf, hvernig þau ráðstafa tekjum sínum. Þau eru fjárhagslega ábyrg gagnvart eigendum, ekki viðskiptamönnum.

Ábyrgð gagnvart viðskiptamönnum er af allt öðrum toga. Í samkeppnisástandi ræður markaðurinn verði og gæðum þjónustunnar. Í einokunarástandi er oft samið um að miða við verð og gæði þjónustu á öðrum vettvangi, í þessu tilviki á heimavellinum í Reykjavík.

Þjónustukaupi hefur engan rétt umfram aðra til afskipta af innri málum þjónustusala. Honum kemur við, hvort þjónustan er samkeppnishæf í verði og gæðum, en ekki, hvort sukkað er með tekjurnar af þjónustunni eða þær notaðar til að greiða eigendunum arð.

Á sama hátt á það ekki að koma heilbrigðisráðuneytinu við, hvort heilsustofnanir, sem það gerir þjónustusamning við, nota tekjurnar til að borga læknum eða hjúkrunarfólki meira eða til að borga eigendunum meiri arð. Verð og gæði eiga hins vegar að skipta máli.

Ráðamenn Hafnarfjarðar virðast haldnir sömu efnahagslega skaðlegu áráttunni og ráðamenn heilbrigðisráðuneytisins. Þeir telja sig eiga að hafa afskipti af innviðum fyrirtækja, sem þeir skipta við, fremur en að einbeita sér að samanburði í útkomunni.

Reykjavíkurborg hefur svarað Hafnarfjarðarbæ í sömu mynt með útreikningum um, að hitaveituverð í Hafnarfirði hefði þurft að vera 80% hærra en það er og að tekjurnar frá Hafnarfirði hefðu þurft að vera meira en milljarði króna hærri til að standa undir kostnaði.

Þessir útreikningar Reykjavíkur eru eins marklausir og útreikningar Hafnarfjarðar. Hvor aðili getur endalaust framleitt tölur upp úr eigin poka. Meintur framkvæmda- og rekstrarkostnaður þjónustusala er ekkert innlegg í umræðu um söluverð þjónustunnar.

Það eru ekki innviðir dæmisins, sem skipta máli, heldur útkoman; hvort markaðurinn eða eitthvert markaðs-ígildi ráða verði og gæðum þjónustunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Engin er rós án þyrna

Greinar

Í flestum tilvikum gagnast prófkjör flokkunum, sem standa að þeim, svo sem sést af dæmum síðustu tveggja helga. Ef barátta milli einstaklinga verður ekki neikvæð og niðurstaðan ekki óþægileg frá svæða- eða kynjasjónarmiðum, er betur af stað farið en heima setið.

Sagan kennir okkur að vísu, að ekki er unnt að setja samasemmerki milli niðurstöðu í prófkjöri og stuðnings í kosningum. Nokkur dæmi eru um það, til dæmis hjá Alþýðuflokknum, að fleiri hafa tekið þátt í prófkjöri en síðan hafa stutt flokkinn í kosningunum á eftir.

Þetta stafar af, að flokksleysingjar og allra flokka kvikindi taka óspart þátt í opnum prófkjörum eins og þau tíðkast flest og meira að segja líka í lokuðum prófkjörum eins og hjá Framsóknarflokknum. Menn ganga í flokka eftir þörfum eins og að skipta um jakka.

Prófkjör vekja athygli. Þau sýna líf og fjör. Frambjóðendur fá tækifæri til að beina kastljósinu að sér persónulega fremur en að sameiginlegum málefnum framboðslistans. Persónur höfða meira en málefni til fólks. Með prófkjörum verður pólitíkin persónulegri.

Þeir, sem sigra í prófkjöri, fá forskot á athygli, sem kemur framboðslista þeirra að gagni í sjálfri kosningabaráttunni. Samtök jafnaðarmanna hafa eflt ímynd helztu frambjóðenda sinna í Reykjavík og á Reykjanesi og snúið óþægu almenningsáliti sér í hag.

Af Suðurlandi er Árni Johnsen gott dæmi. Sumir hafa skemmt sér við að gera grín að honum. Eftir mikinn sigur í risavöxnu prófkjöri er ekki lengur hægt að líta á hann sem léttadreng. Hann er orðinn að þungavigtarmanni með öflugt landshlutafylgi að baki sér.

Framsóknarflokkurinn lenti í minni háttar erfiðleikum í prófkjörinu á Norðurlandi vestra, þegar Vestur-Húnvetningar náðu ekki manni á blað. Þá eiga konur erfitt uppdráttar í prófkjörum þess flokks og Sjálfstæðisflokksins. Annars hafa prófkjör gengið vel.

Það skaðar Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík að etja kappi við lista Framsóknarflokksins og Samtaka jafnaðarmanna, sem byggðir eru upp af prófkjöri. Kosningavélin er lakar smurð, stemningin minni og frambjóðendur ópersónulegri en hjá keppinautunum.

Í lofræðu um prófkjör má ekki líta fram hjá miklu og vaxandi vandamáli kostnaðar. Frambjóðendur eru úr eigin vasa, vina og kunningja að leggja út milljón krónur á mann eða meira til að ná sér í vinnu, sem gefur ekki af sér nema þrjár-fjórar milljónir á ári í tekjur.

Samtök jafnaðarmanna á Reykjanesi reyndu að halda kostnaði í hófi með hömlum á auglýsingar. Þau gáfu líka út sameiginlegan bækling fyrir alla. Samt varð baráttan einstaklingunum dýr sem annars staðar. Fleiri en einn hafa vafalítið farið yfir eina milljón í tilkostnað.

Vel heppnuð prófkjör leiða til fjölgunar prófkjöra í framtíðinni og enn meiri útgjalda frambjóðenda sjálfra. Kostnaðarvandamálið þarf að taka fastari tökum, áður en það fer gersamlega úr böndum í spilltum sníkjuherferðum, svo sem dæmin sýna frá Bandaríkjunum.

Þeir vita bezt um þetta, sem hafa aflað sér þingsætis í erfiðum prófkjörum. Þeir ættu að ræða saman þverpólitískt um vandamálið og kanna, hvort ekki er hægt að hamla betur gegn kostnaði í framtíðinni og koma niðurstöðum sínum á framfæri við flokkana.

Engin er rós án þyrna. Að öllu samanlögðu eru prófkjör ágæt og lífleg aðferð til að auka pólitískan áhuga, dreifa valdi til fólks og efla lýðræði í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Klifrað yfir girðingar

Greinar

Í fagurprentuðum áróðursbæklingum frambjóðenda Samfylkingar jafnaðarmanna í Reykjaneskjördæmi má sjá sömu nöfn meðmælenda með ýmsum frambjóðendum í ýmsum flokkum. Það er eins og eina og sama vottunarstofan sé að gæðastimpla margs konar vöru.

Í flokksbundnu prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík fyrir skömmu var smalað nokkur hundruð manns, sem annað hvort voru utan flokka eða í öðrum stjórnmálaflokkum. Menn virtust ekki hafa neinar áhyggjur af að vera í mörgum flokkum samtímis.

Í prófkjöri Samfylkingarinnar á Norðurlandi vestra ætla að fjölmenna framsóknarmenn úr Vestur-Húnabyggð til ná því fram, sem þeim mistókst innan eigin flokks, að ná frambjóðanda úr sveitarfélaginu í öruggt sæti á framboðslista í kosningunum í vor.

Smölun af slíku tagi er gamalkunn hér á landi. Félagsmönnum íþróttafélaga er smalað á prófkjörstað til að styðja einhvern, sem er í félaginu eða talinn hlynntur því. Í kosningunum sjálfum nýtast þessi atkvæði ekki, því að þau eru einnota fyrirbæri í prófkjörsslag.

Með stækkun kjördæma hefur svæðisbundin smölun í prófkjörum orðið algengasta og fyrirferðarmesta greinin á þessum meiði. Menn sameinast þá þversum gegnum flokka til að styðja frambjóðendur, sem eru af svæðinu eða taldir fulltrúar þess af öðrum ástæðum.

Í mörgum þessarar tilvika eru menn að styðja einhvern í prófkjöri, sem þeir ætla alls ekki að styðja í kosningum. Þeir hafa óeðlileg afskipti af skipun framboðslista, sem þeir hafa ekki í hyggju að kjósa. Þeir eru haldnir hreinum og klárum siðferðisbresti.

Annað einkenni þessa klifurs yfir girðingar er, að stjórnmálaflokkar eru almennt ekki hjartkær fyrirbæri í hugum fólks. Menn skipta um þá eins og föt, ef það þjónar öðrum hagsmunum. Menn geta jafnvel hugsað sér að vera í öllum stjórnmálaflokkunum samtímis.

Sumpart stafar þetta af kunningskap við einstaklinga, en oftar þó af hagsmunum. Sumir telja henta sér persónulega að hafa gott veður á ýmsum stöðum í pólitíkinni, af því að íslenzka kerfið er enn svo frumstætt og valdaþjappað, að pólitísk sambönd skipta miklu.

Oftar er þó um svæðisbundna hagsmuni að ræða. Menn líta á pólitískt kjörna fulltrúa sem tæki til að skaffa peninga, í flugvöll, höfn, veg, álver, varnargarð, kvóta, niðurgreiðslu, menningarhús og svo framvegis. Sveitarfélag án þingmanns er sigrað sveitarfélag.

Þessi svæðisbundna spilling stafar af sömu forsendu og persónulega spillingin. Kjósendur telja, að stjórnmál snúist um aðgang að jötunni, en ekki um framfarir og framgang þjóðarinnar. Þeir hafa rétt fyrir sér, af því að íslenzka kerfið er frumstætt og valdaþjappað.

Það er alþjóðlega viðurkennd hagfræði, að pólitísk spilling skaðar þjóðir efnahagslega. Hún beinir straumum fjármagns og fyrirhafnar úr eðlilegum farvegum. Þess vegna er reynt á Vesturlöndum að opna þjóðfélög, svo að straumar geti runnið eðlilega.

Ísland er svo afskekkt land, að stjórnmálamenn hafa talið sér kleift að stinga við fótum og reyna að varðveita ýmiss konar hindranir og skömmtun, sem freista manna. Þess vegna telja svona margir kjósendur á Íslandi, að stjórnmál snúist um aðgang að jötunni.

Stuðningur fólks við prófkjörsframbjóðanda, sem þeir ætla síðan ekki að styðja sem kosningaframbjóðanda, er einfalt dæmi um frumstætt og siðlítið þjóðfélag.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólgan er hafin að nýju

Greinar

Verðbólga má ekki vera meiri hér en í helztu viðskiptalöndum okkar. Umframverðbólga veldur slakari samkeppnisstöðu atvinnuvega og þrýstir upp vöxtum, sem spilla samkeppnisstöðunni enn frekar, svo að úr verður vítahringur ótraustra efnahagsmála.

Um þessar mundir er verðbólga lítil í umheiminum, innan við 2% í viðskiptalöndum okkar. Annars vegar er lítil verðbólga hefðbundin í Bandaríkjunum og hins vegar hefur Vestur-Evrópa náð verðbólgu niður með markvissum aðgerðum til að koma á fót evrunni.

Við höfum ekki agann af evrunni og erum þar á ofan að sigla inn í kosningaár með tilheyrandi losi á bremsum stjórnvalda. Verðbólga verður hér örugglega yfir 3% á árinu og getur hæglega farið yfir 5%. Þetta kemur fram í spám ýmissa stofnana, erlendra sem innlendra.

Að venju eru Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki húsbóndahollar stofnanir, sem ekki vilja valda ríkisstjórninni hugarangri. Þær hafa látið frá sér fara allt of lágar verðbólguspár út í hött og framkalla þannig beinlínis verðbólgu með því að svæfa stjórnvöld á verðinum.

Það er sérstaklega ámælisvert, að íslenzki Seðlabankinn skuli ekki haga sér eins og óháður seðlabanki, svo sem hefur verið í Bandaríkjunum og Þýzkalandi og nú síðast í Bretlandi, eftir að Tony Blair komst til valda. Háður seðlabanki er hættulegur seðlabanki.

Þenslan er orðin svo mikil hér á landi, að vaxtastigið er orðið óraunhæft. Nauðsynlegt að hækka vexti sem allra fyrst og það verulega, en skaða má þjóðina enn frekar með því að fresta hækkuninni fram yfir kosningar til þess að valda ekki óróa á viðkvæmum tíma.

Verðbólgan á Íslandi stafar af ýmsum ástæðum. Einna veigamest er sveiflan af velgengni sjávarútvegs, sem bylgjast um allt þjóðfélagið. Kvótasölu-gróðakerfið magnar sveifluna enn frekar með því að draga peninga til verðbólguhvetjandi fjárfestingar af ýmsu tagi.

Stóriðjudraumar ríkisstjórnarinnar stuðla að óhóflegum athafnavilja. Bjartsýnir slá lán til framkvæmda og vélakaupa. Þeir reikna með að fyrirhuguð stóriðju- og stórvirkjanavelta fleyti sér út úr skuldunum. Almenningur smitast af þessu og sukkar meira en ella.

Margt fleira leggst á sömu sveif. Hagkerfið er lokaðra en vestræn hagkerfi og býður upp á óhagkvæma spillingu. Þannig kemst Eimskip upp með að niðurgreiða pappír fyrir Skeljung í símaskrána og Landssíminn með að afhenda prentsmiðjunni Odda verkið án útboðs.

Í skjóli ríkisrekstrar og innflutningshafta hefur landbúnaðinum tekizt að hækka afurðir sínar í vetur og stuðla þannig að verðbólgu. Þetta fyrirkomulag getur eitt út af fyrir sig komið í veg fyrir, að Ísland taki sæti með alvöruríkjum verðfestu og trausts efnahags.

Ríkisstjórnin hefur ekki hagað málum sjávarútvegs og landbúnaðar á þann hátt, að þaðan komi ekki verðbólga inn í þjóðfélagið. Hún hefur klúðrað ýmsum þáttum einkavæðingar á þann hátt, að einokun hefur haldizt og verðlag einkavinavæðingar hefur hækkað.

Ríkisstjórnin er uppiskroppa með ýmsar aðrar verðbólgubremsur, sem hafa gefizt henni vel á undanförnum árum. Hún bilar núna, þegar röðin ætti að koma að frjálsræðisaðgerðum í sjávarútvegi og landbúnaði og málefnum, sem varða hagsmuni kolkrabbans.

Í slíkri stöðu er afleitt, að helztu stofnanir efnahagsmála skuli vera svo vanþróaðar, að þær taka tillitssemi við ríkisstjórn fram yfir heiðarlegar efnahagsspár.

Jónas Kristjánsson

DV

Samfylking eðalkratans

Greinar

Alþýðuflokkurinn gleypti Alþýðubandalagið og Þjóðvaki gleypti Alþýðuflokkinn í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þjóðvaki er kominn heim og raðaði sér í efstu sæti framboðslistans, en Alþýðubandalagið staðfesti, að það er að niðurlotum komið í pólitík.

Nú kljúfa forverar Alþýðubandalagsins ekki lengur Alþýðuflokkinn og skipta um nafn. Alþýðuflokkurinn hefur snúið taflinu við, klýfur Alþýðubandalagið og skiptir um nafn. En hann er áfram Alþýðuflokkurinn og hefur valið sér týnda eðalkratann í efsta sæti framboðslistans.

Samfylkingin getur ekki vikið sér undan forustu eina eðalkratans í þingmannssætum listans, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var um tíma hrakin úr áttavilltum flokki sínum, en beið síns tíma og er nú komin heim með feiknarlegt fylgi og pálmann í höndunum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur reynzt öðruvísi en aðrir stjórnmálamenn íslenzkir. Hún er málefnaföst fremur en samningalipur. Sem ráðherra tók hún ekki þátt í lúxusleikjum kolleganna. Sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar mun hún egna ferska storma gegn ládeyðunni.

Fyrirhuguð formennska Margrétar Frímannsdóttur í Samfylkingunni er snögglega úr sögunni. Jóhanna Sigurðardóttir er hinn raunverulegi leiðtogi, enda mun væntanlegt prófkjör í Reykjaneskjördæmi staðfesta, að Alþýðuflokkurinn er allsráðandi í Samfylkingunni.

Alþýðubandalagið hefur raunar átt erfitt með að manna sæti sín á sumum framboðslistum Samfylkingarinnar í öðrum kjördæmum. Og væntanlegir þingmenn úr röðum flokksins munu sóma sér vel í útvíkkuðum Alþýðuflokki undir róttækri forustu Jóhönnu.

Með prófkjörinu er Alþýðuflokkurinn loksins kominn heim til sín sem eðalkrataflokkur Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann verður að vísu að skipta um nafn og kalla sig Samfylkingu jafnaðarmanna til að minna á, að hann sé breiðfylking íslenzkrar stjórnarandstöðu.

Þótt margir Alþýðubandalagsmenn séu ósáttir við útkomuna og sumir þeirra hverfi á vit annarra framboða, er ljóst, að prófkjörið í Reykjavík markar þau tímamót, að samfylkingin er ekki lengur höfð að háði og spotti og getur farið að afla sér fylgis óákveðinna kjósenda.

Fram að prófkjörinu birtist samfylking jafnaðarmanna almenningi sem hópur hagsmunagæzlufólks, sem þjarkaði endalaust um hólf og sæti á framboðslistum. Nú er það svartnættisskeið að baki. Samfylkingin er komin með kunnuglegan svip, sem getur aflað fylgis.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar vilja gjarna halda áfram samstarfi sínu eftir kosningar. Eftir prófkjörið í Reykjavík er útvíkkaði krataflokkurinn undir stjórn Þjóðvaka orðinn að sterkri stjórnarandstöðu, sem hefur burði til að velgja ríkisstjórninni undir uggum.

Ekki er enn hægt að sjá, hvort samfylking jafnaðarmanna verður að hliðstæðu afli og jafnaðarflokkar víða um Vestur-Evrópu. Fyrir prófkjör var tómt mál að tala um slíkt, en nú er skyndilega unnt að leika sér að hugmyndum um eitthvert slíkt ferli hér á landi.

Fá eða engin dæmi þess eru hér, að eitt prófkjör valdi slíkum straumhvörfum sem þetta. Fyrirfram var vitað, að í því mundi felast sögulegt uppgjör tveggja stjórnmálaflokka um arfleifð upphaflega Alþýðuflokksins, en útkoman var eindregnari en menn bjuggust við.

Alþýðuflokkurinn hefur gleypt Alþýðubandalagið og Þjóðvaki hefur gleypt Alþýðuflokkinn. Til valda í samfylkingunni hefur brotizt sjálfur eðalkratinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Vondur félagsskapur

Greinar

Ferðaskrifstofa ráðherra gerir víðreist um þessar mundir og leitar sambanda í ýmsum afkimum jarðarinnar. Einkum verða fyrir valinu lönd á borð við Mexíkó, Malasíu og Mósambík, þar sem stjórnarfar er frumstætt, spilling mikil og efnahagur á undanhaldi.

Þótt við getum aldrei ræktað nógu vel allt of stóra markaði okkar í Vestur-Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, þar sem menn eru borgunarmenn fyrir skuldum sínum, er sífellt verið að leita nýrra markaða á furðulegustu stöðum, þar sem enginn borgar neitt.

Helzti túristinn í hópi ráðherranna var heppinn í fyrra, þegar frestað var opinberri heimsókn hans til mesta stórþjófs aldarinnar næst á eftir Markosi sáluga á Filippseyjum. Í millitíðinni var Súhartó velt úr sessi í Indónesíu og ráðherrann hætti þá við ferðina.

Í staðinn hefur hann beint augum sínum til Mósambík, sem er einhvers staðar afskekkt í Afríku og alveg á kúpunni. Þar vill hann opna sendiráð í sameiginlegu húsnæði Norðurlanda og senda þangað diplómat, væntanlega til að selja þangað íslenzka lúxusvöru.

Íslenzkar afurðir eru svo dýrar og eiga að vera svo dýrar, að ekki hafi aðrir efni á að kaupa þær en Evrópumenn, Bandaríkjamenn og Japanir. Að öðrum kosti hrynur útflutningsverðlagið og kreppa heldur innreið sína hér eins og í ferðalöndum ráðherranna.

Ef opna þyrfti sendiráð í Afríku, sem samanlögð hefur ekki nema 1% heimsviðskiptanna, væri eðlilegra að gera það í fjölmennum ríkjum á borð við Egyptaland eða Suður-Afríku heldur en í afskekktum og týndum ríkjum á borð við Mósambík, Malaví eða Malí.

Ráðherrar feta einnig í fótspor forseta Íslands, sem löngum hefur ræktað samskipti við röð glæpamanna, sem hafa áratugum saman ráðið Mexíkó í skjóli umfangsmikillar spillingar og ofbeldisverka. Forsetinn og ráðherrar hvetja til fjárfestingar á þessum stað.

Er menn taka áhættu af löndum á borð við Kína, Víetnam eða Mexíkó, þar sem íbúar eiga óuppgerðar sakir við stjórnvöld, er hætt við, að fjárfestingar í spillingu fari fyrir lítið, þegar byltingin kemur. Þannig gufuðu verðmæti upp í byltingunni í Indónesíu.

Nú er ráðherra á leið til Malasíu, þar sem er við völd Mahatir bin Mohamad, er hefur það að sérstökum áhugamálum að saka Vesturlönd um allt, sem aflaga fer í landinu, og að saka pólitíska andstæðinga ranglega um að þröngva samræði upp á aðra karlmenn.

Vafalaust fær íslenzki ráðherrann að frétta margt af vonzku Vesturlanda og óbeizlaðri kynhneigð óþægra stjórnmálamanna. Hitt verður að draga í efa, að fjárfestingar borgi sig í landi, þar sem ráðamenn telja sig geta fryst þær fyrirvaralaust eftir hentugleikum.

Svo ruglaðir eru túristar ríkisins orðnir af umgengni við vafasama pappíra á afskekktum stöðum, að utanríkisráðherra lét sér detta í hug að láta gamlan kollega og Malaví-fara í sendiráðinu í Washington hafa bréfleg áhrif á dómara í þágu Eimskips.

Dómarinn endursendi auðvitað bréfið ólesið og sagðist ekki mega vera að því að standa í bréfaskiptum við menn úti í bæ meðan hann væri að dæma í málum. Þannig hefur ráðherra okkar réttilega verið stimplaður sem þriðja heims ráðherra í Malasíu-stíl.

Bréfið til bandaríska dómarans sýnir, að nú þarf að stöðva túrisma íslenzkra ráðherra á fjarlægum stöðum, þar sem vondur félagsskapur er á hverju strái.

Jónas Kristjánsson

DV

Ímynduð álver eru góð álver

Greinar

Ímyndað álver Norsk Hydro á Reyðarfirði gegnir sama hlutverki í stórhuga sjónhverfingum ráðherranna Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar og ímyndað álver Atlantsáls, sem aldrei birtist á Keilisnesi, gegndi í sjónhverfingum ráðherrans Jóns Sigurðssonar.

Í báðum tilvikum er þingmaður að reyna að afla sér fylgis í kjördæmi sínu og iðnaðarráðherra að reyna að bæta við afrekaskrána. Jón Sigurðsson gegndi báðum hlutverkunum, en hinir gegna hvor sínum hluta þess, Halldór fyrir austan og Finnur í ráðuneytinu.

Munur málanna tveggja er, að ráðamenn Atlantsáls sögðu jafnan ja og humm, ef þeir voru spurðir, en ráðamenn Norsk Hydro segja nei og humm, ef þeir eru spurðir. Fyrir löngu er orðið ljóst, að ráðamenn Norsk Hydro hafa engan áhuga á reyðfirzku álveri.

Halldór er lentur í þeirri lítt öfundsverðu stöðu að reyna að túlka nei og humm Norsk Hydro sem ja og humm fyrir umbjóðendum sínum fyrir austan. Hann lýsir stefnu Norsk Hydro sem eins konar sjávarföllum, þar sem stundum komi flóð með gæs í öldufaldinum.

Til skamms tíma lék enginn vafi á, að þeir félagar mundu undir vorið framleiða ímyndun nýs flóðs með gæs, sem grípa megi, ef verða mætti til þess að hjálpa mönnum til að ákveða sig í kjörklefanum. Nú er komið babb í bátinn, því að þjóðarviljinn er að snúast.

Komið hefur í ljós, að meirihluti þjóðarinnar og stór minnihluti Austfirðinga vill ekki uppistöðulón á Eyjabökkum. Þar að auki hefur verið sáð efasemdum hjá Austfirðingum um gagnsemi fámenns álvers, sem gæti skaðað aðra og meiri atvinnuhagsmuni á svæðinu.

Eins og Steingrímur Hermannsson lýsti á flokksþingi Framsóknar í nóvember þá er lítill skilningur á umhverfismálum í þeim flokki. Könnun sýnir, að Framsóknarflokkurinn er eini flokkur landsins, þar sem meirihluti er enn fyrir uppistöðulóni á Eyjabökkum.

En framsóknarmenn eiga auðvelt með að skipta um skoðun. Utanríkisráðherra er byrjaður að gefa í skyn, að virkja megi fyrir austan án miðlunarlóns við Eyjabakka. Og upp úr skúffu hefur Landsvirkjun dregið áætlun um miðlun við Kárahnjúka í stað Eyjabakka.

Forsætisráðherra hefur skotið inn í umræðuna skondinni hugmynd um, að nýtt umhverfismat megi fara fram á Eyjabökkum, ef firð verður í áhuga Norsk Hydro, en ekki ef flóð verður í áhuganum. Nei og humm þýðir umhverfismat og ja og humm þýðir ekki umhverfismat.

Samkvæmt þessari hugmynd fer það ekki eftir málefnalegum aðstæðum á Eyjabökkum sjálfum, hvort þar fer fram nýtt umhverfismat, heldur eftir aðstæðum hjá fyrirtæki úti í Noregi. Þetta sýnir stöðu umhverfismála í virðingarstiga áhugamála forsætisráðherrans.

Smám saman eru mál að falla í þann farveg, að herkostnaður umhverfisverndar verði tekinn inn í stórvirkjanakostnað sem eðlilegur þáttur hans. Þegar loksins verður virkjað fyrir austan, verður almennt talið sjálfsagt að varðveita mikilvægar náttúruvinjar.

Einu sinni töluðu verkfræðingar í alvöru um að virkja mætti Hvítá framhjá Gullfossi og hleypa síðan vatni á fossinn fyrir ferðamenn á sunnudögum. Til skamms tíma töluðu menn af sama bjánaskap um Dettifoss. Nú er hins vegar farið að fjara undan slíkum skoðunum.

Ímynduð álver á Keilisnesi og í Reyðarfirði eru líklega orðin beztu álverin, þau sem hafa þann eina tilgang að sýna kjósendum, að ráðamenn séu í vinnunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki er sopið kálið í ausu Kára

Greinar

Pyrrhus kóngur í Epírus komst að raun um, að kálið er ekki sopið, þótt í ausuna sé komið. Hann vann hverja orrustuna á fætur annarri, en tapaði samt stríðinu. Hvenær sem hann hafði sigur, mögnuðu Rómverjar gegn honum nýja herflokka og ný vandræði.

Sigur bandaríska fyrirtækisins deCode Genetics á Íslendingum er ekki fyllilega í höfn, þótt stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi á Alþingi knúið í gegn lög um einkarétt fyrirtækisins á fjölvíðum gagnagrunni heilbrigðismála.

Stofnað hefur verið félag til að kynna þjóðinni, hvernig menn geti á einfaldan hátt komið í veg fyrir, að nafn þeirra og kennitala komist inn í fjölvíðan gagnagrunn Stóra bróður í Delaware og til að fylgjast með aðgerðum Landlæknis til að virða vilja þessa fólks.

Undirróður af þessu tagi fær stöðuga næringu frá umræðunni úti í heimi, sem haldið hefur áfram, þótt málinu sé formlega lokið hér á landi. Eitt mesta áfall gagnagrunnsmanna er grein í New York Times eftir fremsta erfðafræðing heims, Lewontin í Harvard.

Það verður hvellur í Harvard og vísindaheiminum almennt, þegar búið er að þýða á ensku, að forstjóri deCode Genetics telur Lewontin vera þekktan öfgamann og strengbrúðu íslenzks fræðimanns. Hætt er við, að þetta magni enn frekari vandræði úti í heimi.

Gagnagrunnur deCode Genetics er orðinn að meiri háttar umræðuefni í ýmsum þekktustu prentfjölmiðlum heims, New York Times og Washington Post, Le Monde og The New Yorker, Newsweek og Guardian. Að meðaltali er umræðan gagnagrunninum stórlega í óhag.

Hvorki umræðan í heild né grein Lewontins sérstaklega er móðgun við Íslendinga, þótt Kári Stefánsson haldi slíku fram. Móðgunin er eldri og felst í samþykkt gagnagrunnslaganna á Alþingi. Öll umræðan síðan í útlöndum er ekki annað en eftirmáli við móðgunina.

Á liðnu hausti risu vonir um, að sættir mundu takast í gagnagrunnsmálinu um brottfall sérleyfis og aukna persónuvernd. En deCode Genetics og umboðsmenn þess í landsstjórninni vildu, þegar á reyndi, ekki sætta sig við annað en fullan sigur í frumvarpsbardaganum.

Þegar valtað er yfir andstæðinga eins og gert hefur verið í gagnagrunnsmálinu hér á landi, er ekki auðvelt að meta, hvort sigurinn er varanlegur eða aðeins stundarfriður. Eftir sigra í orrustum í Heraclea og Asculum varð Pyrrhus að bíða lægri hlut í Beneventum.

DeCode Genetics hefði grætt mikið á að fara með löndum í málinu, fallast á tilgangsleysi sérleyfisins og samþykkja harðari persónuvernd. En forstjórinn vildi ekki annað en fullan sigur og þarf því að sæta linnulausri andstöðu þeirra, sem hann valtaði yfir.

Það eru fleiri seigir en Rómverjar. Svo er um þá, sem standa í Mannvernd að baki Sigmundi Guðbjarnasyni, fyrrum háskólarektor. Svo er einnig um þá, sem standa í Harvard að baki Lewontin erfðafræðingi. Svo er einnig um stóru alvörufjölmiðlana úti í heimi.

Það er hægt að hafa ráðamenn Íslands og meirihluta Íslendinga að fífli. Það er hægt að halda fram hverju sem er í deilum innan okkar vasaútgáfu af þjóðfélagi foringjadýrkunar. En það er ekki hægt að hafa alla Íslendinga að fífli og enn síður frjálsa umheiminn.

Forstjóri deCode Genetics í Delaware þarf sífellt að ná vopnum sínum og á af ýmsum slíkum ástæðum erfitt með að súpa kálið, sem komið er í ausu hans.

Jónas Kristjánsson

DV