Greinar

Víkkað verksvið bandalags

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur lagt til, að verksvið Atlantshafsbandalagsins verði víkkað og látið ná til varna gegn hættum, er hafa tekið við af kalda stríðinu sem helzta ógnunin við öryggi vestrænna ríkja. Ber þar hæst neðanjarðarstarfsemi og hryðjuverk af ýmsu tagi.

Vestur-Evrópuríkin hafa yfirleitt staðbundnari áhugamál og hafa verið treg til að flækja sig í víðtækari mál. Þau hafa hins vegar ekki getað bent á, hver skuli vera tilgangur Atlantshafsbandalagsins, þegar óvinurinn sjálfur er horfinn af sjónarsviðinu fyrir áratug.

Raunar hefur komið í ljós, að allt frumkvæði í Atlantshafsbandalaginu kemur frá Bandaríkjunum. Evrópuríkin voru með japl og jaml og fuður í málefnum Bosníu fyrst og síðar Kosovo. Það voru Bandaríkin, sem loksins tóku af skarið og fengu hina í lið með sér.

Samt eru Bosnía og Kosovo á jaðri Vestur-Evrópu, en ekki Bandaríkjanna. Meðal sparnaðarsinna í bandarískum stjórnmálum hefur heyrzt, að endurskoða þurfi þátt Bandaríkjanna í kostnaði við hernaðarbandalag með daufgerðum ríkjum, sem tími varla að verjast.

Grundvallarspurningin er, hvort ástæða sé til að halda með miklum tilkostnaði uppi hernaðarbandalagi, þegar kalda stríðið er búið. Bandaríkjastjórn hefur flutt tillögu að svari við þessari spurningu, en evrópska áhugaleysið mundi að lokum leiða til andláts bandalagsins.

Mörg ríki eru nú að vinna að smíði kjarnavopna, efnavopna og veiruvopna. Pakistan og Indland hafa nýlega sprengt í tilraunaskyni. Samkvæmt síðustu fréttum safnar Persía til sín atvinnulausum vísindamönnum frá Rússlandi á sviðum efna- og veiruvopna.

Bandarískir hernaðarfræðingar hafa fjallað um hættuna af útbreiðslu slíkra vopna. Bent hefur verið á, að hryðjuverkamenn geti flutt þau á laun til einhvers vestræns ríkis og hótað að beita þeim, ef ekki verði fullnægt einhverjum pólitískum skilyrðum.

Á hinn bóginn má líka benda á, að mestur hluti þessarar hættu stafar frá íslömskum ríkjum og hópum, sem hafa óbeit á Bandaríkjunum vegna eindregins stuðnings þeirra við erkióvin íslams, Ísrael, sem meðal annars þverbrýtur alþjóðareglur um hernám landsvæða.

Miklu einfaldara væri og öruggara fyrir vestrænar þjóðir, ef Bandaríkin hættu stuðningi við ofbeldishneigt ofsatrúarríki gyðinga og Vesturlönd tækju upp gott samstarf við ríki íslams heldur en að setja upp flókið varnarkerfi gegn íslömskum hryðjuverkamönnum.

Áhyggjur í Vestur-Evrópu út af hugmyndum Bandaríkjastjórnar um víkkað athafnasvið Atlantshafsbandalagsins stafa meðal annars af því, að menn vilja ekki taka þátt í sérhæfðum áhugamálum Bandaríkjanna, sem stangast beinlínis á við vestræna hagsmuni.

Víkkun Atlantshafsbandalagsins til nýrra sviða er skynsamleg, ef hún felur um leið í sér fráhvarf Bandaríkjanna frá eindregnum stuðningi við Ísrael, svo að unnt verði að byggja upp einlægan og varanlegan frið milli hinna vestrænu og íslömsku menningarheima.

Öryggismál Vesturlanda eru orðin meira pólitísk en hernaðarleg. Hjálpa þarf orþódoxu austri til að komast í félag með kaþólsku vestri eftir hrun Sovétblokkarinnar. Varðveita þarf hinn góða frið við japanska menningarheiminn og taka meira mark á risavöxnu Indlandi.

Í heimi misjafnra menningarblokka er samt líka þörf fyrir útvíkkað Atlantshafsbandalag, er hefur skilgreind og afmörkuð markmið, sem aðildarríkin samþykkja.

Jónas Kristjánsson

DV

Ófriður á elliheimilinu

Greinar

Framvinda samfylkingar jafnaðarmanna hefur verið eins og nokkrum sinnum hefur verið spáð í leiðurum þessa blaðs. Söguleg sátt er að verða um krataflokk með Margréti Frímannsdóttur og Svavari Gestssyni á tindinum, um eins konar öfugan Héðin Valdimarsson.

Vegna þurrðar á þingsætum getur samfylkingin ekki staðið við heiðursmannasamkomulag við Kvennalistann og er að ýta honum út úr samfylkingunni, enda á sá flokkur lítið erindi inn í sögulega sátt tveggja elliflokka, sem báðir kenna sig við alþýðu gamla tímans.

Samfylkingin hefur þegar misst frá sér róttæklinga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem vafalaust fylkja sér um Ögmund Jónasson, og róttæklinga náttúrufriðunar, sem vafalaust verða samferðamenn Hjörleifs Guttormssonar. Og Möðruvellingarnir fara heim.

Alþýðubandalagið er raunar orðið að rúst. Margrét og Svavar flytja fátt annað með sér í búið en hina sögulegu sátt eina saman. Fyrir opnum tjöldum eru vaðmáls-sósíalistar og fífilbrekku-sósíalistar farnir annað, svo og semínaristar, kvótagreifar og Möðruvellingar.

Einnig hefur kvarnast úr Alþýðuflokknum, þótt hljóðar hafi farið. Ljóst er af skoðanakönnunum, að Sjálfstæðisflokkurinn dregur um þessar mundir til sín allt það fylgi, sem hingað til hefur rambað eftir aðstæðum og pólitísku veðurfari milli hans og Alþýðuflokksins.

Eftir situr mild og öldruð samfylking bæjarradikala og hófsamra verkalýðsleiðtoga, sem sker sig frá öðrum flokkum fyrir að hafa nánast ekkert fylgi meðal yngstu kjósendanna, 18­24 ára. Það er skelfilegt veganesti nýs flokks að höfða alls ekkert til nýrra kjósenda.

Í síðustu kosningum höfðu samfylkingarflokkarnir samanlagt fylgi um þriðjungs allra kjósenda. Nú er fylgið komið niður í fimmtung á landsvísu, eins og hjá Framsóknarflokknum einum. Þessu er hægt að lýsa þannig, að kjósendur hafi gefið samfylkingunni langt nef.

Samfylking jafnaðarmanna hefur aðgang að glæsilegum málefnum, verndun ósnortinna víðerna, endurheimt kvótans úr höndum sægreifa, afnám sérleyfa og einkaleyfa handa gæludýrum stjórnarflokkanna. Enginn flokkur veður í betri málefnum en samfylkingin.

Þetta nýtist henni ekki, sennilega af því að þátttakendur í skoðanakönnunum og væntanlega einnig kjósendur fara ekki mikið eftir málefnum, heldur meira eftir mönnum. Fólk forðast stjórnmálamenn, sem hafa ekki einu sinni burði til að koma sér saman um framboð.

Það er ekki nóg af hafa málefni, ef leiðtogaefnin eru svo heillum horfin, að þau standa í langvinnum og ótraustvekjandi illdeilum um skipun framboðslista. Þau hafa gert sig ber að því að vera hræðslubandalag nokkurra þingmanna, sem eru að verja atvinnu sína.

Því getur farið svo, að flokkarnir, sem standa að nauðgun náttúrunnar, framsali gjafakvótans í hendur sægreifa, veitingu sérleyfa og einkaleyfa í þágu gæludýra sinna, muni fara með svo mikinn sigur af hólmi í vor, að þeir geti farið að krukka í stjórnarskrána.

Ef til vill kemur síðar eitthvað gott úr samfylkingunni annað en söguleg sátt á elliheimili stjórnmálanna. Áfallið í þingkosningunum í vor kann að leiða til, að spilin verði stokkuð að nýju í von um betri mannspil. Sáttin getur orðið sterkara afl í kosningum ársins 2003.

En það er tímaskekkja að vera að hreinsa upp gamalt ósætti þreyttra stjórnmálaflokka, þegar stjórnmálin snúast um, hvernig við eigum að feta inn í nýja öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn þrískipting valdsins

Greinar

Þrískipting valdsins hefur að mestu verið marklítið form hér á landi, innflutt frá vestrænum þjóðum, sem fyrir tveimur öldum töldu sig þurfa að gera upp reikningana við forréttindastéttir sínar. Hún var þar vel heppnuð tilraun til að hindra handhafa framkvæmdavaldsins í að ná alræðisvaldi í þjóðfélaginu.

Hér hafa löggjafarvaldið og dómsvaldið verið minni máttar í samskiptum við framkvæmdavaldið, bæði embættismenn og ríkisstjórn. Alþingi hefur afgreitt lagafrumvörp úr ráðuneytum á færibandi og dómstólar hafa jafnan dregið taum framkvæmdavaldsins.

Þótt innihald valddreifingar hafi verið svona slappt, hefur formið verið harðara. Meðal annars er Hæstarétti skylt að standa vörð um stjórnarskrána í úrskurðum sínum, þegar ráðherrar láta atkvæðavélar sínar á Alþingi samþykkja lög, sem brjóta gegn henni.

Þetta hefur skyndilega breytzt. Hæstiréttur hefur úrskurðað, að afgreiðsla ráðuneytis á máli hafi verið röng, af því að lögin, sem afgreiðslan byggðist á, hafi strítt gegn stjórnarskránni. Þetta hefur glætt vonir um, að Ísland sé farið að feta sig í átt til vestrænna ríkja.

Orsök stefnubreytingar Hæstaréttar kemur að utan. Með aðild okkar að fjölþjóðlegum samtökum og sáttmálum, einkum á vettvangi Evrópu, höfum við meðal annars skuldbundið okkur til að fylgja ákveðnum forsendum og að hlíta úrskurðum af þeim vettvangi.

Þetta hefur á síðustu árum leitt til þess, að einstaklingar, sem telja sig ekki hafa náð réttlæti hjá íslenzkum dómstólum, hafa sótt mál sín til evrópskra dómstóla og unnið þau. Þar með hefur Hæstiréttur orðið sér til minnkunar, sem hann sættir sig ekki lengur við.

Dómur Hæstaréttar í kvótamálinu bendir til, að hann hafi ákveðið að læra af biturri reynslu allra síðustu ára og fara að taka meira tillit til hinnar vestrænu stjórnarskrár okkar, þótt það kunni að espa einræðisherra í ríkisstjórnum og atkvæðavélar þeirra á Alþingi.

Í kjölfar úrskurðarins hefur Hæstiréttur mátt sitja hljóður undir margendurteknum dónaskap einræðishneigðra ráðherra, sakaður um þokukennda röksemdafærslu, niðurrifsstarfsemi, efnahagsleg hryðjuverk, fjarlægð frá veruleikanum og tilraun til valdaráns.

Ekki stenzt ein einasta af ásökunum ráðherra í garð Hæstaréttar. Þau vandræði, sem nú hafa skapazt, eru ekki afleiðing úrskurðarins, heldur hinnar undarlegu túlkunar, sem felst í nýju lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er hún, sem er hryðjuverkamaðurinn.

Ríkisstjórnin gat lagt fram frumvarp með nýju skömmtunarkerfi aðgangs í takmarkaða auðlind, sem ekki bryti gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Þar með hefði kúrsinn verið leiðréttur, lögin samræmd stjórnarskránni og fiskistofnanir varðveittir.

Með því að ögra Hæstarétti með frumvarpi, sem engu breytir efnislega, framleiðir ríkisstjórnin vandræði. Þau leiða til málaferla, sem vafalaust enda í Hæstarétti og síðan áfram úti í Evrópu, ef einræðishneigðum ráðherrum tekst að kúga Hæstarétt til undirgefni.

Stjórnvaldskreppunni linnir ekki fyrr en stjórnarflokkarnir ná annaðhvort nægu meirihlutafylgi til að breyta stjórnarskránni í þágu gæludýra sinna og segja um leið skilið við vestrænt samfélag eða sætta sig við þrískiptingu valdsins og vestrænar leikreglur.

Þetta uppgjör getur tekið langan tíma. Það er eigi að síður nauðsynlegt og leiðir vonandi á endanum til þess, að Íslandi verður tryggt sæti í vestrænu samfélagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Tæknidómur eða efnisdómur

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að túlka veiðiréttardóm Hæstaréttar svo þröngt, að hann hafi eingöngu fjallað um lagatæknilegt atriði, en ekki efnislega um jafna stöðu borgaranna fyrir lögunum. Þar með hafi öll umræðan um dóminn verið stormur í vatnsglasi.

Um leið segir ríkisstjórnin óbeint, að ýmsar hugleiðingar í dómnum um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi séu óviðkomandi niðurstöðunni og hafi dottið þar inn fyrir einhvern misskilning eða óra. Enda hafa helztu ráðherrarnir fjallað um Hæstarétt sem moðhaus.

Raunar sagði utanríkisráðherra, að svo gæti farið, að breyta þyrfti stjórnarskránni, ef dómur Hæstaréttar fæli í sér þá efnislegu niðurstöðu, að óheimilt væri að úthluta auðlindum hafsins til lokaðs hóps. Væntanlega þarf þá að taka úr henni mannréttindaákvæðin.

Til þess að þurfa ekki að breyta stjórnarskránni til að verja gjafakvótakerfið hefur ríkisstjórnin ákveðið að segja okkur, að það sé í rauninni allt í lagi með dóminn. Hæstiréttur hafi bara verið að gamna sér við lagatæknilegt atriði og farið um leið ógætilega með orð.

Ekki kemur á óvart, að ríkisstjórn, sem svo hastarlega varðveitir ókeypis einkaleyfi til fiskveiða, skuli berjast ákaft fyrir nýju einkaleyfi til smíða og reksturs gagnagrunns og vera að undirbúa þriðja einkaleyfið til leitar og rannsókna á örverum á háhitasvæðum.

Öll þessi mál falla í farvegi sameinaðrar hugsjónar stjórnvalda og gæludýra þeirra um að taka sameiginleg verðmæti þjóðarinnar og ráðstafa þeim í þágu gæludýranna, hvers eðlis sem þessi verðmæti eru. Þetta getur ekki verið annað en hreint hagsmunabandalag.

Ríkisstjórnin áttar sig á, að með lagafrumvarpinu er hún að kalla á ný málaferli, sem munu enda í Hæstarétti, er verður að ákveða, hvort hann hafi sjálfur rambað ógætilega í orðavali um lagatæknilegt atriði eða hafi verið að fjalla um efnisatriði málsins.

Í versta falli vinnur ríkisstjórnin tíma fram yfir kosningar, því að tefja má nýju málin nógu lengi til að ekki verði dæmt í þeim í Hæstarétti fyrr en á næsta hausti. Um framhaldið má nota gömul einkunnarorð stjórnmálamanna um, að komi tímar, komi ráð.

Eftir frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á margumtalaðri fimmtu grein laganna um stjórn fiskveiða er ljóst, að engu verður að sinni breytt í þeim atriðum, sem mestum átökum hafa valdið í þjóðfélaginu. Slíkt verður að bíða nýrrar dómsniðurstöðu.

Jafnframt heldur lífið áfram. Menn geta á meðan haldið áfram að rífast um, hvort það sé í samræmi við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og sáttmála, sem ríkið hefur gert á fjölþjóðavettvangi, að réttur til veiða í sameiginlegri auðlind sé afhentur þröngum hópi.

Á annarri síðu DV í gær fjölluðu þrír kunnir lögmenn um dóminn og lagafrumvarpið, einn sem styður ríkisstjórnina og tveir, sem telja Hæstarétt hafa verið að fjalla um efnisatriði. Í þessum þremur viðtölum kristallast sjónarmiðin, sem til umræðu eru í málinu.

Einn þremenninganna er Hörður Einarsson, sem sagði nýlega í blaðagrein, að vandinn gæti ekki falizt í mannréttindum, heldur í forréttindum. “Þegar lögbundin forréttindi stangast á við stjórnarskrárbundin mannréttindi, hljóta forréttindin að víkja”, sagði Hörður.

Tímans straumur er hægur, en þungur. Með skipulegu andófi mun ríkisstjórninni aðeins takast að tefja en ekki að hindra framgang mannréttinda

Jónas Kristjánsson

DV

Kvörnin malar hægt, en malar

Greinar

Merkasti fjölþjóðasáttmáli aldarinnar er fimmtíu ára í dag. Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur að vísu oftar verið brotinn en í heiðri hafður, meira þó á fyrri áratugum hans en hinum síðari. Hann er kvörn, sem malar afar hægt en örugglega.

Handtaka óbótamannsins Pinochets frá Chile er dæmi um, að mannréttindasáttmálinn sígur fram með vaxandi þunga. Helztu úrþvætti heimsins geta ekki lengur valsað um heiminn í skjóli valda sinna. Þeir eru komnir á flótta og hlaupnir í felur fyrir umheiminum.

Öldurnar frá mannréttindasáttmálanum eru meira að segja farnar að ná til Íslands, þar sem Hæstiréttur er fyrir erlend áhrif farinn að dæma með lítilmagnanum gegn ríkisvaldinu. Dómurinn í kvótamálinu segir þann einfalda hlut, að allir skuli jafnir fyrir lögunum.

Settir hafa verið upp sérstakir dómstólar fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Bosníu og Rúanda. Nú síðast hefur verið komið á fót heildardómstóli fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu hvar sem er í heiminum. Kvörnin malar hægt, en hún malar.

Nýlega var gripinn stjórnandi stríðsglæpanna í Srebrenica og færður til dómstólsins í Haag. Hringurinn fer að þrengjast um Mladic og Karadzic og kannski verður sjálfur Milosevic tekinn að lokum. Allt væri þetta óhugsandi nema vegna svipu mannréttindasáttmálans.

Tyrkir komast ekki inn í vestrænt samfélag, af því að þeir falla á mannréttindabrotum sínum. Þeim hefur ekki tekizt að leysa sérþarfir Kúrda á sama hátt og Spánverjar eru að leysa sérþarfir Baska og Katalóna, og Bretar eru farnir að reyna að leysa sérþarfir Norður-Íra.

Vestrænu skilaboðin til Tyrkja hafa verið og eru skýr. Fallið frá mannréttindabrotum ykkar og við tökum ykkur fagnandi inn í vestrænt samfélag og gerum ykkur ríka. Þetta gerðum við gagnvart bláfátækum Spánverjum, þegar þeir vörpuðu af sér hlekkjum Francos.

Eitt merkasta afkvæmi mannréttindasáttmálans er Helsinki-yfirlýsingin, þar sem Sovétríkin féllust á mannréttindi. Það var upphafið að endalokum hins illa heimsveldis, frelsun Austur-Evrópu og inngöngu hennar í vestrænt samfélag velmegunar og velferðar.

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur getið af sér fjölmarga viðbótarsáttmála, þar sem farið er nánar ofan í einstök atriði sáttmálans, og ýmsa svæðisbundna sáttmála, þar sem hnykkt er á honum. Lengst hefur þessi þróun komizt í Vestur-Evrópu.

Bandaríkin hafa setið eftir í þessari þróun. Þegar kvartað er yfir mannréttindabrotum valdhafa í þriðja heiminum, vísa þeir ævinlega og jafnharðan til skráðra mannréttindabrota í Bandaríkjunum. Það hamlar þróuninni, að sjálft heimsveldið skuli sitja eftir.

Bandaríkin eru til dæmis eitt fárra ríkja, sem ekki eru aðilar að nýja, alþjóðlega mannréttindadómstólnum. Það rýrir gildi dómstólsins og er um leið niðurlæging fyrir Bandaríkin, sem mega gæta sín að einangrast ekki í fjölþjóðastjórnmálum með Ísraels-æxlið á bakinu.

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur í fimm áratugi og er enn rægður af harðstjórum þriðja heimsins. Þeir skjóta sér á bak við meintar íslamskar eða asískar hefðir, þar sem mannréttindi eru ekki eins ofarlega á blaði. Þessar meintu hefðir eru tilbúnar.

Mannréttindi eru algild, stangast ekki á við Múhameð eða Konfúsíus. Mannkyni öllu mun vegna því betur sem mannréttindasáttmálinn er betur í heiðri hafður.

Jónas Kristjánsson

DV

Sautjándu aldar sérleyfi

Greinar

Útgáfa sérleyfa og einkaleyfa var algeng á Vesturlöndum á tímum forréttindastétta fyrir frönsku stjórnarbyltinguna. Á sautjándu öld voru tekjur af sérleyfum helzta tekjulind franska ríkisins. Með nýjum reglum um jafnræði borgaranna hurfu sérleyfin smám saman.

Afnám sérleyfa byggist á hagfræði og mannréttindum. Auðhyggja og markaðsbúskapur Vesturlanda segja það bezt til hagsældar, að frelsi leysi úthlutun leyfa af hólmi. Enn fremur er það pólitískur hornsteinn Vesturlanda, að allir séu borgarar og séu jafnir fyrir lögunum.

Innihald frönsku byltingarinnar og bandarísku stjórnarskrárinnar hefur í rúmar tvær aldir farið fram hjá Íslendingum, þótt við höfum tekið upp ytri form Vesturlanda. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra talar ekki um Íslendinga sem borgara, heldur sem þegna.

Þeir, sem nota orðið þegnar um ríkisborgara Íslands, eru ekki enn orðnir lýðræðissinnar að innræti. Þeir lifa enn í heimi forréttindastétta, sem tíðkuðust, áður en jafnræði borgaranna var hafið til vegs á Vesturlöndum. Þeir geta ekki leitt okkur götuna fram eftir vegi.

Ekki þarf að koma neinum á óvart, að ríkisstjórn Íslands er eina stjórnin á Vesturlöndum, sem á í útistöðum vegna tilrauna sinna til að vernda gömul sérleyfi og koma nýjum á fót. Hún er sautjándu aldar fyrirbæri, sem kærir sig hóflega um lýðræði né markaðsbúskap.

Ríkisstjórnin berst á tvennum vígstöðum um þessar mundir. Hún er að reyna að knýja fram sérleyfi í þágu bandarísks fyrirtækis til að reka víxltengdan gagnabrunn í heilbrigðismálum. Og hún er að reyna að snúa út úr Hæstaréttardómi um ólögleg sérleyfi í útgerð.

Ríkisstjórnin er ekki búin að bíta úr nálinni, þótt hún knýi fram gagnabrunns-sérleyfi og búi til sjónhverfingar í kringum útgerðar-sérleyfi. Það hamlar henni, að við búum við ytri form lýðræðis og jafnræðis og höfum þar að auki játast undir þau í fjölþjóðlegum sáttmálum.

Þegar Hæstiréttur hefur einróma samþykkt að segja A, er hann vís til að segja B. Dómurinn um aðgang að fiskimiðum snerist um kæru, sem beindist að fimmtu grein ólaga um stjórn fiskveiða. Aðrar kærur kunna að beinast að öðrum greinum þeirra, til dæmis sjöundu.

Að svo miklu leyti sem Hæstiréttur kann að víkja frá jafnræðisreglu þjóðskipulagsins höfum við öðlast góða reynslu af skjóli hjá fjölþjóðadómstólum úti í Evrópu. Það gildir bæði um frekari málaferli vegna sérleyfa í útgerð og vegna sérleyfis í rekstri gagnabrunna.

Ljóst er, að ballið er rétt að byrja, ef ríkisstjórnin og atkvæðavélar hennar á Alþingi reyna að snúa út úr dómi Hæstaréttar gegn sérleyfum í útgerð. Ekki er víst, að ríkisstjórnin ráði við afleiðingar tilrauna sinna til að vernda sautjándu aldar sérleyfi í aðgangi að útgerð.

Einnig má búast við, að ólögin um sérleyfi fyrir gagnabrunn bandarísks fyrirtækis muni verða kærð upp í Hæstarétt og áfram til Evrópu. Sérleyfishyggja stjórnvalda kann að verða orðin skattgreiðendum dýr, þegar ríkið er búið að greiða allar skaðabæturnar.

Ein þverstæðan í málinu er, að sennilega getur bandaríska gagnabrunnsfyrirtækið að afturkölluðu sérleyfi krafið ríkið um skaðabætur fyrir að hafa bakað fyrirtækinu kostnað með því að vekja væntingar, sem ríkið gat síðan ekki staðið við. Þannig borgar það tvisvar.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að velja til landsforustu sautjándu aldar sérleyfasinna, sem ekki skilja markaðshyggju og jafnræðishyggju Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Enginn er jafnari en annar

Greinar

Niðurstaða Hæstaréttar er ekki óskýr. Hann bendir einfaldlega á, að stjórnarskráin segi, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum. Það stríði gegn stjórnarskránni að setja og nota lög, þar sem sumir eru jafnari en aðrir. Þess vegna sé ólöglegt að gefa sægreifum kvótann.

Niðurstaða Hæstaréttar veldur engum vandræðum í þjóðfélaginu. Þeim hafa hins vegar valdið pólitískir umboðsmenn sérhagsmuna, sem hafa komið á fót sérstökum forréttindum nokkurra fyrirtækja. Hæstiréttur er bara að benda á, að þessum ólögum verði að eyða.

Niðurstaða Hæstaréttar veldur engri réttaróvissu. Þvert á móti skýrir hún það, sem áður virtist fela í sér þverstæður. Nú hafa héraðsdómarar skýra og eindregna forskrift til að styðjast við, þegar þeir taka við flóði mála, þar sem menn endurheimta jafnræðisrétt sinn.

Ekkert er flókið við lagfæringuna. Einfalt er að breyta lögum um stjórn fiskveiða í það horf, að þau samræmist stjórnarskránni. Það gerist bezt með því að bjóða kvótann út eða með því að koma á veiðigjaldi, sem endurspegli markaðslögmál framboðs og eftirspurnar.

Svo vel vill til, að ríkið hefur sjálft fyrir hönd þjóðarinnar framleitt núgildi auðlindarinnar með því að takmarka veiðar í fiskistofna, sem áður voru að hruni komnir fyrir tilverknað sægreifa. Ríkið eitt getur gert auðlindina sjálfbæra og gerir það fyrir hönd allra.

Til skamms tíma studdu margir gjafakvótann, af því að þeir töldu hann halda atvinnu heima í héraði. Þeir hafa hins vegar séð, að gjafakvótinn gengur kaupum og sölum milli landshluta og er fullfær um að leggja byggðir í eyði án nokkurs tilverknaðar Hæstaréttar.

Ríkisstjórnin er nú að finna lögmenn til að snúa út úr dómi Hæstaréttar og finna leiðir til að komast hjá því að framkvæma efnisatriði hans. Svo miklir sérhagsmunir eru í húfi, að ríkisstjórnin getur ekki sætt sig við þá hugsun, að jafnrétti borgaranna víki þeim til hliðar.

Við höfum strax séð tóninn. Það er nóg að breyta fimmtu greininni, segir sjávarútvegsráðherra. Þetta voru bara fimm dómarar, sem sýnir, að Hæstiréttur tók málið ekki alvarlega, segir forsætisráðherra. Hvað hefði hann sagt, ef einhver dómarinn hefði skilað séráliti?

Reiðilestur ráðherra segir meira um þá sjálfa en um Hæstarétt, sem komst að svo eindreginni niðurstöðu, að enginn dómari skilaði séráliti. Hæstiréttur telur nefnilega tvímælalaust, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og að gæludýr séu ekki jafnari en önnur dýr.

Við sjáum fyrir, að ráðherrarnir geti grafið upp nokkra þekkta lögmenn til að úrskurða, að dómi Hæstaréttar megi fullnægja með orðalagsbreytingum einum og óbreyttum gjafakvóta. Þetta mun valda miklum vandræðum, því að þá hefjast málaferli fyrir alvöru.

Enginn friður verður fyrr en pólitískir umboðsmenn sérhagsmuna missa annaðhvort sín pólitísku völd eða gefast upp fyrir dómstólaþvargi. Vígstöðvarnar verða tvennar í senn, annars vegar í væntanlegum alþingiskosningum og hins vegar í dómsölum landsins.

Eina leiðin fyrir pólitísku umboðsmennina til að verja ójafnræðið er að fá svo mikið fylgi í næstu kosningum, að þeir hafi atkvæðamagn til að breyta stjórnarskránni á þann hátt, að leyfilegt sé að hygla sægreifum og öðrum gæludýrum, sem vilja hafa sérleyfi og einkaleyfi.

Þar með hafa skapazt aðstæður til að fram fari pólitísk orrusta um, hvort hér skuli vera vestrænt þjóðfélag eða þjóðfélag, þar sem gæludýr séu jafnari en önnur dýr.

Jónas Kristjánsson

DV

Forréttindi úrskurðuð óheimil

Greinar

Hæstiréttur hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að Alþingi hafi verið óheimilt að gefa sægreifum einum aðgang að auðlindum hafsins. Hæstiréttur segir í nýjum úrskurði, að þessi mismunun sé stjórnarskrárbrot. Hún brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Hefðbundið er, að Hæstiréttur styðji málstað stjórnvalda gegn smælingjum. Upp á síðkastið hefur hann stundum verið gerður afturreka með slíkt fyrir fjölþjóðadómstólum í Evrópu. Úrskurðurinn bendir til, að hann vilji ekki lengur sitja í skammarkróknum.

Niðurstaðan er mikið áfall fyrir Alþingi, bæði þegar framsal auðlinda var upphaflega ákveðið af ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks og svo aftur nýlega, þegar hnykkt var á því af núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Áfall núverandi Alþingis er þó meira, því að nýju lögin voru sett eftir mikla umræðu um stjórnarskrána og réttlætið í þjóðfélaginu, en í gamla daga vissu menn síður, hvert þeir voru að fara. Núverandi Alþingi átti að vita, að sægreifalög þess voru stjórnarskrárbrot.

Ef Alþingi bregzt ekki vel og skjótt við úrskurði Hæstaréttar, má búast við, að landsmenn allir fari smám saman hver fyrir sig að höfða mál gegn ríkinu til þess að fá hver sinn hluta í þjóðareign fiskimiða. Þingið verður talið ábyrgt fyrir öllum uppákomum af því tagi.

Óhjákvæmilegt er, að Alþingi taki ólög sín til endurskoðunar nú þegar og láti flest annað sitja á hakanum á meðan. Ef það vill halda lífi í kvótakerfinu, ber því að finna skömmtunarleið, sem ekki tekur sérhagsmuni sægreifa fram yfir hagsmuni annarra landsmanna.

Bezta leiðin til varðveizlu kerfisins er auðvitað sú, sem margir hafa oft sagt, að veiðikvótarnir verði boðnir út og allir hafi jafnan rétt til að bjóða í þá. Þar með er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar höfð í heiðri og engum pólitískum gæludýrum afhent neitt á silfurfati.

Útboð veiðileyfa er í senn réttlætismál í samræmi við stjórnarskrána og hagkvæmnismál í samræmi við vestræn markaðslögmál. Veiting einkaleyfa og sérleyfa af hvers konar tagi hefur í meira en tvær aldir verið talin úrelt hagstjórnartæki á Vesturlöndum.

Hæstiréttur gefur stjórnvöldum svigrúm til að finna almenna lausn á hneykslismáli sínu. Í úrskurðinum er ekki sagt, að sækjanda málsins, Valdimar Jóhannessyni, skuli afhentur umbeðinn kvóti, heldur aðeins, að synjun ráðuneytisins hafi verið stjórnarskrárbrot.

Forvígismaður einkaleyfa og sérleyfa, hinn síreiði forsætisráðherra, hefur þegar séð fyrir sér, að fara megi undan dómi Hæstaréttar í flæmingi með því að hafa lögin um forréttindi sægreifa tímabundin og framlengja þau eftir þörfum, svo að þau teljist ekki varanleg.

Hagsmunagæzluflokkar sægreifanna munu beita öllum finnanlegum undanbrögðum til að komast hjá málefnalegum viðbrögðum við úrskurði Hæstaréttar. Fyrstu ummæli forsætisráðherra benda til, að áherzla verði lögð á að finna leið, sem varðveiti forréttindin.

Samt segir Hæstiréttur beinlínis, að ólögin felist í, að réttur þeirra, sem áttu skip á öndverðum níunda áratugnum sé annar en hinna, sem áttu þau ekki. Erfitt verður fyrir forsætisráðherra og aðra hagsmunagæzlumenn sægreifanna að snúa út úr þessum orðum.

Hæstiréttur hefur nefnilega upplýst, að gæzlumenn sérhagsmuna geti ekki tekið þjóðareign og afhent gögn og gæði hennar fámennum hópi gæludýra.

Jónas Kristjánsson

Þau leiðu mistök urðu í leiðara fimmtudags, að vitnað var í ónafngreindan varaþingmann Framsóknarflokks á Austfjörðum en átti að vera fyrrverandi varaþingmann Alþýðubandalags. Er beðizt velvirðingar á þessu víxli.

DV

Auðlindir á Austfjörðum

Greinar

Málflutningur til stuðnings miðlunarlóni á Eyjabökkum hefur orðið einna brenglaðastur í blaðagrein á Austfjörðum, þar sem austfirzkum andstæðingum virkjunarinnar var legið á hálsi fyrir að vera kennarar og hafa atvinnu af að mennta Austfirðinga burt af svæðinu.

Greinarhöfundur og varaþingmaður Framsóknarflokksins var með þessu að segja, að skólanám væri skaðlegt á Austfjörðum, af því að það leiddi til, að unga fólkið á svæðinu öðlaðist menntun, sem gerði því kleift að brjóta af sér átthagafjötrana og flytjast af svæðinu.

Framsóknarmaðurinn var með þessu að gera nokkra kennara á Héraði ábyrga fyrir þeirri stefnu stjórnvalda, að allir Íslendingar skuli hafa sem jafnastan aðgang að menntun, hvar sem þeir búa á landinu. Sem slíkir væru kennararnir hættulegir austfirzkum hagsmunum.

Varaþingmaðurinn hélt áfram og málaði á vegginn eymd Austfirðinga, þegar þeir væru farnir að hafa atvinnu af auvirðilegri þjónustu við ferðamenn. Væntanlega telur hann Austfirðinga öðlast meiri reisn af að skarka með stöngum í bræðslupottum álversins.

Austfirðingar eiga mikla möguleika í ferðaþjónustu, einkum ef þeim tekst annars vegar að nýta nálægð sína við hafnir í Norðvestur-Evrópu og koma upp öflugri ferjusamgöngum og hins vegar að stöðva ferðamenn við að skoða fagra og merkilega staði í fjórðungnum.

Austfirðingar hafa þegar mikla atvinnu af ferðaþjónustu í fjórðungnum og hafa að undanförnu fest mikið viðbótarfé í gistihúsum. Þeir geta nýtt sér enn betur náttúrufegurð fjórðungsins og farið að leggja áherzlu á ósnortið víðerni á svæðunum inn til Vatnajökuls.

Þetta hefur verið og getur áfram verið traust þróun frá ári til árs. Hún veldur engum kollsteypum, en styður innviði Austfjarða, einkum þeirra sveitarfélaga, þar sem fólk áttar sig bezt á möguleikum ferðaþjónustu, sem getur innan tíðar orðið aðalatvinnugrein svæðisins.

Framkvæmdir við stóriðju og stór orkuver valda hins vegar snöggu umróti í fjórðungnum og miklum peningaflaumi, sem losar um fólk og fær það til að fljóta á brott eftir umrótinu og peningunum, þegar hvort tveggja streymir til framkvæmda í öðrum landshlutum.

Allar framkvæmdir, sem eru tímabundnar, eru að því leyti skaðlegar, að þær skilja eftir sig vandræði, þegar þeim er lokið. Sjálf orkuverin og iðjuverin þurfa lítinn mannskap til rekstrar, ekki nema lítið brot af þeim mannafla, sem vel skipulögð ferðaþjónusta þarf.

Sumir austfirzkir sveitarstjórnamenn sjá í hillingum tekjur af stóriðjuveri. Samt hafa þeir ekki tekið saman samanburð á þessum tekjum og tekjum af ótalmörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, til dæmis ekki tekjuvon af ferðaþjónustu á ósnortnum víðernum Austfjarða.

Til langs tíma litið verða Austfirðingar auðugri af ferðaþjónustu út um alla firði og dali en af álveri Norsk Hydro á Reyðarfirði. Sá auður mun koma jafnt og þétt og hlaða utan á sig á heilbrigðan hátt, en ekki koma í einu athafnastökki og fjara út í fámennum rekstri.

Ekki má heldur gleyma þeim innra auði, sem Austfirðingar munu sjálfir hafa af návist við og auðvelt aðgengi að ósnortnum víðernum, sem þingmaður þeirra, Hjörleifur Guttormsson, hefur rækilega lýst í bókum Ferðafélags Íslands. Sá auður verður lagður á vogarskálarnar.

Sem betur fer fjölgar ört þeim Austfirðingum, sem hafna ömurlegu svartsýnisrausi varaþingmanns Framsóknarflokksins og sjá birtuna af nýrri öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Létta leiðin ljúfa í borginni

Greinar

Forustulið Reykjavíkurlistans telur, að meirihluti borgarbúa sætti sig hærri útsvör fyrir aukna þjónustu. Skoðanakannanir hafa sýnt, að ekki er einhlítt til vinsælda að skera niður útgjöld, því að margir þeir, sem vilja aukna þjónustu, átti sig á kostnaði við hana.

Þetta er önnur mikilvægasta ástæða þess, að meirihlutinn í Reykjavík telur óhætt að hækka útsvarið úr 11,24% í 11,99%, sem er mikil hækkun. Hin mikilvægasta ástæða hækkunarinnar er, að hún verður gleymd, þegar kemur að næstu borgarstjórnarkosningum.

Eftir tæplega fjögur ár getur borgin væntanlega boðið einsetta skóla, nokkurn veginn næga leikskóla og margvíslega aðra þjónustu, sem meirihluti kjósenda mun samkvæmt skoðanakönnunum taka fram yfir lægri útsvör. Þetta hefur magnað reiði forsætisráðherra.

Hækkendum útsvars mun reynast erfiðara að svara forustumönnum stéttarfélaga, sem finnst borgin hafna stuðningi við síðustu þjóðarsátt milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, er meðal annars fólst í 1% lækkun tekjuskattsins, sem rennur til ríkisins.

Sveitarfélögin neituðu raunar að taka þátt í þjóðarsáttinni og bera ekki ábyrgð á henni. Ef þau hækka útsvarið, baka þau sér því ekki annað en tímabundna reiði málsaðila hennar. Meirihlutinn í Reykjavík hyggst því standa af sér ásakanir ráðamanna stéttarfélaga.

Grunnskólarnir eru stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga, um 38% að meðaltali. Miklar launahækkanir kennara vega þyngst í hækkuðum fjárlögum sveitarfélaga milli ára. Þær voru upphafið að vangaveltum sveitarstjórnarmanna um hærri útsvör á næsta ári.

Þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna, voru samhliða færðar tekjur frá ríkinu til þeirra. Síðan reyndust sveitarfélögin vera veikari viðsemjandi á vinnumarkaði en ríkið hafði verið og sættu mun dýrari kennarasamningum en gert hafði verið ráð fyrir.

Sumir segja, að ríkið hafi svindlað kennurum upp á sveitarfélögin, og ráðamenn sveitarfélaga hafa heyrzt segja, að réttast væri að skila þeim aftur. Málsaðilar voru þó í góðri trú á sínum tíma og sveitarfélögin verða sjálf að axla ábyrgð af kjarasamningum sínum.

Fæst sveitarfélög eiga góðra kosta völ. Þau hafa áður fullnýtt útsvarsheimildir sínar og verða að draga saman framkvæmdaseglin eða halda áfram að safna skuldum að hefðbundnum hætti sveitarfélaga eða fara blandaða leið samdráttar og skuldaaukningar í senn.

Nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu höfðu svigrúm til að fara þriðju leiðinu og hækka útsvarið. Þau ætla ekki að notfæra sér svigrúmið, heldur reyna að skera niður útgjöldin. Reykjavík fer hins vegar léttu leiðina ljúfu og fórnar mestum hluta svigrúmsins.

Raunar gengur Reykjavíkurlistinn enn lengra með því að ráðgera að flytja eignarhluta rafmagnsveitunnar í Landsvirkjun yfir á borgarsjóð, þegar veitustofnanir borgarinnar verða sameinaðar í eina stofnun. Þetta lagar skuldastöðu borgarsjóðs bókhaldslega séð.

Fráleitt er að telja rekstur borgarinnar svo góðan, að ekki megi spara þar í stað þess að hækka útsvar og millifæra eignir. Fjárhagslegar aðgerðir meirihluta borgarstjórnar draga úr líkum á, að tekið sé í alvöru á rekstrarvandamálunum og eru því ámælisverðar.

Hinu er samt ekki að leyna, að Reykjavíkurlistinn mun sennilega græða á þessu að fjórum árum liðnum, þegar hann hrósar sér af þjónustu borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Rakalaus Landsvirkjun

Greinar

Landsvirkjun fékk sér nýlega hagfræðing til að reikna út, að stórorkuver og stóriðjuver undanfarinna ára hafi verið hagkvæm. Hann komst að þessari niðurstöðu að hætti Landsvirkjunar með því að líta fram hjá liðum, sem eru nauðsynlegir í reikningsdæminu.

Kostnaður við virkjun Blöndu var ekki tekinn inn í reikningsdæmið fyrr en árið 1995, þótt orkuverið hafi verið reist á grundvelli stóriðjudrauma, sem brugðust. Almennir notendur voru árum saman látnir borga virkjun, sem hafði stóriðju að helztu forsendu.

Miklu mikilvægari þáttur er, að hvorki Landsvirkjun né hinn leigði hagfræðingur hennar gera nokkra tilraun til að meta til fjár aðra hagsmuni, sem sumpart stangast á við hagsmuni fyrirtækisins, svo sem hagsmuni ósnortins víðernis, sem eru almannahagsmunir.

Landsvirkjun er hvorki ríkið né þjóðin. Það, sem kann að vera gott fyrir Landsvirkjun, þegar hún hefur hagrætt Blöndu í reikningsdæmi sínu, þarf ekki að vera gott fyrir ríkið eða þjóðina. Til eru aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir ferðaþjónustu og hagsmunir lífsgæða.

Ferðaþjónusta er stærri þáttur þjóðarbúsins en stóriðjan og veitir margfalt fleira fólki atvinnu, þar á meðal úti á landi, svo sem á Austfjörðum. Ferðaþjónusta hefur vaxið örar en aðrar atvinnugreinar á landinu og á enn bjartari framtíð, ef söluvara hennar fer batnandi.

Ekki þarf lengi að fletta íslenzkum ferðabæklingum eða tímaritinu Iceland Review til að sjá, að mikilvægasta söluvara íslenzkrar ferðaþjónustu er ósnortið víðerni, þar sem ekki sjást nein mannvirki. Með framgangi hugsjóna Landsvirkjunar rýrnar þessi söluvara.

Sú sérstaða Íslands að geta enn boðið ósnortin víðerni til skoðunar er áþreifanleg stærð í þjóðhagsreikningum og getur orðið margfalt stærri, ef rök verða tekin fram yfir tilfinningar nærsýnnar Landsvirkjunar. Við þurfum að taka þessa stærð skýrar inn í þjóðhagsspár.

Útgefendur ferðabæklinga og landkynningarrita höfða til þess, að ósnortið víðerni landsins geti hlaðið rafhlöður þreyttra og strekktra borgarbúa í útlöndum. Svipað hlýtur að gilda um rafhlöður Íslendinga sjálfra, sem einnig þurfa að hvílast eftir amstur hversdagsins.

Þáttur ósnortins víðernis í lífsgæðum okkar er hluti af reikningsdæmi okkar, rétt eins og aðgangur okkar að skólum og sjúkrahúsum. Þetta eru verðmæti, sem hljóta að verða þáttur í útreikningi þjóðhagsstærða í náinni framtíð, rétt eins og ferðaþjónustan er orðin.

Við höfum vítin að varast sums staðar í útlöndum, svo sem í Rússlandi, þar sem óheft stóriðjustefna hefur eitrað land og loft og rúið þjóðina lífsgæðum, sem aldrei verða endurheimt, þótt stóriðjuverin standi eftir án nokkurra verkefna eins og draugar í eyðimörkinni.

Landsvirkjun flutti inn annað vandamál frá Rússlandi. Hún samdi um verktöku við rússneskt mafíufyrirtæki, sem er illa þokkað víða um heim og hefur hér orðið til mikilla vandræða. Viðskipti þessi eru til marks um dómgreindarskort ráðamanna Landsvirkjunar.

Hingað til hafa stjórnendur Landsvirkjunar fengið að vaða með línur sínar og lón kruss og þvers yfir landið eins og þeir ættu það einir. Nú eru Íslendingar sem betur fer byrjaðir að átta sig á, að það eru fleiri hagsmunir, sem koma að ósnortnu víðerni landsins.

Rök ráða því, að nú verði Landsvirkjun settur stóllinn fyrir dyrnar og við förum að gæta annarra hagsmuna í ferðaþjónustu og lífsgæðum okkar sjálfra.

Jónas Kristjánsson

DV

Sérleyfið sjálft er vandinn

Greinar

Meirihluti heilbrigðisnefndar Alþingis bætir böl með því að búa til annað meira, með því að leggja til við Alþingi, að ráðherra verði heimilað að skattleggja sérleyfishafa erfðafræðilegs gagnabrunns í framtíðinni, ef hagnaður sérleyfishafans reynist verða mikill.

Hugmyndin um sjálfdæmi ráðherra er angi af þeirri áráttu Alþingis að koma sér hjá afgreiðslum með því að veita ráðherrum heimildir út og suður. Þetta valdaafsal hefur framleitt séríslenzkt ráðherraveldi, sem hefur hingað til leitt til margvíslegra geðþóttaákvarðana.

Auð ávísanablöð af þessu tagi eiga ekki að vera í umferð. Það brýtur gegn lýðræði og markaðshagkerfi í senn að framkalla öryggisleysi um framvindu mála. Ef sérleyfi deCode Genetics á Íslandi er gjaldskylt, á að segja þegar í upphafi, hvernig og hvert gjaldið skuli vera.

Enginn vafi er á, að sérleyfi hafa verðgildi, að minnsta kosti í augum þeirra, sem um þau sækja. Verðgildið er annars vegar hægt að mæla með ákveðnu hlutfalli af veltu eða skýrt skilgreindum hagnaði og hins vegar með útboði, þar sem umsækjendur verðleggja sérleyfið.

Segja má, að heilbrigðisnefnd hafi stigið örstutt skref í átt til skilnings á málinu, þegar hún er farin að ræða gjaldtöku fyrir sérleyfið. Hún er samt enn langt frá þeirri lausn málsins, að ekki verði gefið út sérleyfi, heldur veitt gjaldskylt frelsi öllum, sem um sækja.

Samkeppnisstofnun segir raunar í umsögn sinni um frumvarpið, að sérleyfi á gerð og rekstri gagnabrunnsins brjóti gegn reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Verða lögin væntanlega gerð afturreka eins og önnur séríslenzk vitleysa, svo sem ýmsir dómar Hæstaréttar.

Eins og mál hafa þróazt er skrítið, að höfundar frumvarpsins, að forstjóra deCode Genetics meðtöldum, skuli ekki hafa dómgreind til að gera sér grein fyrir hættunni frá innlendum og erlendum stofnunum, sem eiga að vaka yfir heiðarlegum samkeppnisháttum.

Einn af frumkvöðlum deCode Genetics hefur bent á, að fyrirtækið þurfi alls ekki sérleyfi. Það geti náð markmiðum sínum eftir sömu leiðum og önnur fyrirtæki. Frumkvöðlar eru verndaðir af innlendum og alþjóðlegum reglum um höfunda og uppfinningar.

Fyrir mánuði var sagt í leiðara DV, að tími væri kominn til, að deiluaðilar slíðruðu sverðin í deilunni um erfðafræðilegan gagnabrunn deCode Genetics, þannig að farið yrði bil beggja í sjónarmiðum um persónuvernd og fallið frá hugmyndinni um ólögmætt sérleyfi.

Því miður hafa mál ekki fallið í þennan farveg, þótt opnað hafi verið fyrir gjaldtöku í heilbrigðisnefnd Alþingis. Forstjóri deCode Genetics hefur enn forsætisráðherra í taumi og ráðherrann hefur enn hinn þögla meirihluta í taumi gegn þorra vísindasamfélagsins.

Enn hefur ekkert gerzt, sem bendir til annars en, að lögin um gagnabrunninn verði staðfest í núverandi mynd að mestu leyti og þar með verði opnað fyrir varanlegar illdeilur og andóf, þar á meðal kærur til erkibiskupa í Bruxelles, Strassbourg og Luxembourg.

Ríkissjóður Íslands á engan endurkröfurétt á hendur deCode Genetics, ef ráðamenn landsins veita því sjálfviljugir sérleyfi, sem leiðir til skaðabótakrafna af hálfu annarra aðila, sem telja sig málið varða, og refsiaðgerða af hálfu stofnana, ríkja eða Evrópusambandsins.

Flest bendir til, að með illu verði knúið fram gagnagrunnsfrumvarp, sem hefur verið vanhugsað í öllum sínum útgáfum og hefur lítið skánað í meðförum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hreinsunareldur?

Greinar

Markmið sameiningar jafnaðarmanna hefur lækkað niður í sögulega sátt Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og er um það bil að lækka enn frekar niður í kosningabandalag nokkurra þingmanna um atvinnu sína á tímum einstæðs fylgishruns í stjórnarandstöðu.

Langur vegur er frá gömlum draumum um, að samfylkingu félagshyggjuflokka í borgarstjórn Reykjavíkur megi yfirfæra á landsvísu. Strax varð ljóst, að Framsóknarflokkurinn taldi Reykjavík tveggja messa virði, en vill að öðru leyti fátt af A-flokkunum vita.

Langur vegur er frá draumum sumra um, að yfirfæra megi sigra jafnaðarmanna víðs vegar um Vestur-Evrópu á íslenzkar aðstæður. Langdregin og loðin stefnuskrá sameiningarframboðsins hindraði þetta strax, auk þess sem sigurleiðtogi hefur aldrei verið í augsýn.

Um þessar mundir eru A-flokkarnir að bíta af sér Kvennalistann, sem hafa átti til skrauts í samkvæminu. Þegar þeir áttuðu sig á, að skrautið var ekki ókeypis, fór áhugi þeirra að daprast, enda var hann í ósamræmi við óskir þingmanna um framhald á atvinnu sinni.

Á liðnu hausti hefur samfylkingin staðið í ströngu við túlkun og málsvörn óvinsællar stefnuskrár, við ósæmilegt skæklatog um hlutafjáreign einstakra framboðsaðila í samfylkingunni, við sams konar skæklatog um stöðu einstakra þingmanna. Þessi harmleikur stendur enn.

Um leið hefur hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnt, að samfylkingin nýtur lítils stuðnings kjósenda. Hún fær í mesta lagi 20% fylgi og tólf þingmenn, það er að segja sögulegt lágmark. Enda stendur metnaður hennar ekki lengur til meiri stjórnmálaframa að sinni.

Enn alvarlegra er, að samfylkingin hefur aðeins 8% fylgi meðal yngstu kjósendanna og er þannig að sigla inn í framtíðina sem fámennur sértrúarflokkur. Ekki einu sinni þessi staðreynd fær adrenalínið til að renna í æðum dasaðra og máttvana samfylkingarsinna.

Þetta gerist, þegar flokkar samfylkingarinnar eru allir í stjórnarandstöðu og ættu að geta nýtt sér hefðbundna fylgisaukningu slíkra flokka. Í staðinn hefur þeim tekizt að ýta frá sér Evrópukrötum, vaðmálssósíalistum og fífilbrekku-konum og er orðin að fámennum klúbbi.

Eftir sitja hinir bæjarradikölu höfundar sameiningarinnar og þurfa nú að þola togstreitu þingmanna um pláss í reiða strandskips, þar sem hinir neðstu munu sogast í burtu með útfalli kosninganna. Ekkert stendur eftir af væntingunum, sem tengdust Reykjavíkurlistanum.

Í hremmingunum halda sameiningarmenn í vonina um, að ósigurinn í næstu kosningum verði ekki annað en nauðsynlegur hreinsunareldur hinnar sögulegu sáttar A-flokkanna tveggja. Í rústum dómsdags finnist upphafspunktur göngunnar inn á óþekkta ódáinsakra.

Með þessari metnaðarlitlu óskhyggju eru sameiningarsinnar að fresta umtalsverðum þætti uppgjörsins við fortíðina fram yfir kosningar, af því að þær einar séu færar um að sýna fram á, að nýir leiðtogar þurfi að taka við af slagsmálahundum líðandi stundar.

Í leiðurum þessa blaðs hefur löngum verið spáð, að sameiningin mundi koðna niður í farvegi sögulegrar sáttar Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og að fylgi muni kvarnast í aðrar áttir. Þetta er allt að koma í ljós og reynist ekki vera ungu fólki girnilegur kostur.

Ef til vill er þetta ferli eins konar söguleg nauðsyn, eins konar goðsaga um dómsdag og upprisu. Ef til vill leynist langtímabirta að baki skammtímahrunsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafnlausar skoðanir

Greinar

Mörg þeirra mála, sem núna brenna heitast á okkur, eru þess eðlis, að annað sjónarmiðið á sér enga heimahöfn meðal stjórnmálaflokkanna. Kosningarnar í vor verða ekki neinn kostur í stöðu margra kjósenda, sem sjá hvergi tekið undir sín mál af neinni alvöru.

Margir eru þeir, sem vilja gerast aðilar að Evrópusambandinu, af því að þeir telja, að slíkt efli samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og bæti lífskjör fólks, magni réttlæti í landinu og dragi úr möguleikum vondra stjórnmálamanna innlendra að verjast þessu öllu.

Eftir samstöðu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags er ekki lengur unnt að vænta heimahafnar fyrir þessi sjónarmið hjá Alþýðuflokknum. Samkvæmt málefnasamningi segja þessir flokkar sameiginlega pass í málefnum Evrópu. Heimahöfn Evrópukrata er horfin.

Margir eru þeir, sem vilja koma auðlindum hafsins aftur í þjóðareign og hefja uppboð á þeim takmarkaða aðgangi, sem að þeim er. Þeir telja þetta vera réttlætismál og leið heiðarlegs markaðsbúskapar, þegar skömmtun er óhjákvæmileg á takmörkuðum gæðum.

Enginn stjórnmálaflokkur eða samsteypa býður eindregið þennan kost í stöðunni, ekki einu sinni flokkurinn, sem segist vera lengst til vinstri og þá væntanlega mesti sameignarflokkurinn. Forustumaður þess flokks er raunar einn helzti málsvari sægreifanna.

Margir eru þeir, sem vilja hindra, að einni eða fleirum af helztu náttúruperlum landsins verði sökkt í miðlunarlónum orkuvera og lagðar raforkulínur um ósnortin víðerni landsins. Þeir vilja til dæmis, að Þjórsárver og Eyjabakkaver fái að halda sér eins og þau eru.

Enginn stjórnmálaflokkur eða samsteypa býður eindregið þennan kost í stöðunni, nema flokkur Hjörleifs Guttormssonar, en kjósendur hans verða þá í leiðinni að sætta sig við vaðmálssósíalisma í landbúnaði og stuðning við sægreifa gegn almannahagsmunum.

Margir eru þeir, sem vilja ekki, að lögmál markaðsbúskapar séu brotin með því að veita einu fyrirtæki sérleyfi á mikilvægum sviðum heilbrigðisrannsókna, og vilja ekki, að mannréttindi séu brotin með hættulegri krosstengingu persónuupplýsinga á einum stað.

Enginn stjórnmálaflokkur býðst til að lýsa því yfir, að hann vilji láta afturkalla forréttindin án þess að skaðabætur verði greiddar, af því að forustuliði forréttindafyrirtækisins sé kunnugt um, að pólitískur ágreiningur sé og muni verða um veitingu forréttindanna.

Hér hafa verið rakin fjögur dæmi um útbreidd sjónarmið, sem eiga hvergi heima í kosningabaráttunni. Til skamms tíma nutu sjónarmið af slíku tagi helzt skjóls hjá Alþýðuflokknum, sem jafnframt var þekktur sem valdaflokkur af ótryggum stuðningi við eigin stefnu.

Eftir samstöðu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hafa með öllu horfið haldlitlar væntingar um sérstöðu Alþýðuflokksins. Samstaðan er nokkurn veginn nákvæmlega eins og flokkur og tvíburaflokkur Framsóknar og Sjálfstæðis og býður því engan kost í stöðunni.

Því miður er ekki jarðvegur fyrir stjórnmálaflokk, sem setti mál af þessu tagi á oddinn. Þótt hægt væri að ná saman framboðsliði heiðarlegs og vel metins fólks, sem hefði náð árangri í starfi hvert á sínu sviði, þá mundu kjósendur aðeins gefa slíku framboði þrjú þingsæti.

Þessi íhaldssömu viðhorf kjósenda eru myllusteinn um háls þeirra sjálfra og valda því, að stjórnmál snúast í raun um fyrirgreiðslur í þágu pólitískra gæludýra.

Jónas Kristjánsson

DV

Tilkynningarskylda Framsóknar

Greinar

Formaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti um helgina, að hann væri hinn ánægðasti með viðhorf formanns Framsóknarflokksins til Evrópusambandsins, enda hefði formaðurinn fyrirfram sýnt sér stefnuræðuna, sem hann ætlaði að flytja á flokksþingi sínu um helgina.

Tilkynningarskylda Framsóknarflokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum er eðlileg afleiðing af góðum takti í stjórnardansi flokkanna. Flokkarnir hafa nálgast hvor annan svo mjög, að erfitt er að greina milli þeirra, enda er sjálfgefið, að þeir starfi saman eftir kosningar.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að hálfs annars áratugar gömul ákvörðun um stórvirkjun á Austurlandi skuli standa, án þess að fram fari umhverfismat á sama hátt og skylt er að gera, áður en ráðizt er í aðrar virkjanir.

Flokkarnir eru sammála um að afgreiða málið með þessum tæknilega hætti og taka ekki tillit til þess málefnalega sjónarmiðs, að í þessu máli sem öðrum þurfi að reikna dýrar frádráttarhliðar inn í reikningsdæmi, sem fyrir fimmtán árum voru einhliða talin jákvæð.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að standa fast að baki fyrri ákvarðana um, að auðlindir hafsins hafi verið og séu enn eign nokkurra útgerðarfyrirtækja, en almenningur megi kaupa sig dýrum dómum inn í þessa eign.

Flokkarnir eru sammála um að drepa málefnakröfunni um þjóðareign auðlinda hafsins á dreif með því að fleygja til þjóðarinnar ruðum á borð við, að einhver hluti heimilda til aukningar á veiði frá því, sem nú er, geti farið framhjá eignaskiptum útgerðarfyrirtækja.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að eftir yfirlýsingu forsætisráðherra í sumar megi nú ræða um, hvort Ísland eigi að ræða við Evrópusambandið um möguleika á einhvers konar aðild, án þess að í því felist nokkur ákvörðun um að stefna að slíkri aðild.

Flokkarnir eru sammála um, að ótímabært sé að taka mark á Evrópusinnum, sem telja, að viðskiptahagsmunum og fjármálahagsmunum, vísindahagsmunum og menntunarhagsmunum, réttlætishagsmunum og velferðarhagsmunum okkar sé bezt borgið í sambandinu.

Framsóknarflokkurinn staðfesti um helgina, að flokkarnir eru sammála um, að stefna frjáls markaðsbúskapar skuli víkja fyrir óskum bandarísks fyrirtækis um sérleyfi á heilsugagnagrunni um Íslendinga, enda hefur flokknum alltaf liðið vel sem skömmtunarstjóra.

Flokkarnir eru sammála um, að ekki sé þörf á að hlusta á þau 95% fræðimanna á fjölmörgum sviðum, sem hafa kvatt sér hljóðs um gagnagrunninn og finna honum flest til foráttu. Flokksþingið át úr lófa ráðherranna á þessu sviði sem öðrum framangreindum sviðum.

Athyglisvert er, að þessir tveir hjartanlega sammála stjórnmálaflokkar eru einmitt þeir, sem harðast hafa staðið gegn kröfunni um, að flokkar opni fólki sýn inn í fjármál sín, svo að sjá megi, í hversu miklum mæli hvaða stórfyrirtæki standa undir rekstri þeirra.

Þetta eru einmitt flokkarnir, sem áratugum saman hafa ýmist bitizt um misjafnan aðgang kolkrabbans og smokkfisksins að ríkiskötlunum eða gert með sér helmingaskiptafélag um aðganginn. Þetta eru flokkar útvalinna sérhagsmuna gegn almannahagsmunum.

Þar sem auðugu sérhagsmunirnir í þjóðfélaginu eru farnir að renna í einn og sama farveg, munu flokkarnir tveir geta unnið saman um ófyrirsjáanlega framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV