Greinar

Sami gamli flokkurinn

Greinar

Um helgina mun Framsóknarflokkurinn staðfesta á flokksþingi sínu, að hann sé ekki umhverfisvænn stjórnmálaflokkur. Að hefðbundnum sið mun hann ítreka, að staðbundnir sérhagsmunir skuli ráða, hvernig og hvenær íslenzkri náttúru skuli verða misþyrmt.

Áður einkenndi andúð Framsóknarflokksins á náttúru landsins, að hann studdi jafnan af mikilli hörku óheft sauðfjárhald og vaxandi ofbeit á hálendi. Þessi ofbeit var úrslitaatriði í flóknu samspili náttúrunnar og olli mestu gróðurspjöllum, sem þekkjast í Evrópu.

Þótt hin eindregna ofbeitarstefna Framsóknarflokksins hafi hrunið vegna þeirra ytri aðstæðna, að lambakjöt seldist ekki, þá hefur enn ekki tekizt að snúa vörn í sókn í gróðurdæmi landsins. Rannsóknir sýna, að náttúran er enn á undanhaldi fyrir mannanna verkum.

Þegar eldgos og hvassviðri voru ein um hituna, var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru og landnámsmenn gerðu til kola á Kili. Örlagavaldurinn í mestu gróðureyðingu Evrópu er því sauðfjárræktin, sem nú er í andarslitrunum eftir faðmlög Framsóknarflokksins.

Hamslaus stórvirkjana- og stóriðjustefna hefur nú tekið við af stefnu hamslausrar sauðfjárræktar hjá þeim stjórnmálaflokki, sem um langt skeið hefur farið með völd í öllum helztu valdastofnunum landeyðingar, landbúnaðar-, iðnaðar- og umhverfisráðuneytunum.

Helztu ráðamenn flokksins tala í fúlustu alvöru um að umturna gróðri hálendisins með stíflugörðum og að mynda þar uppistöðulón, sem hlutverks síns vegna verða með breytilegri vatnshæð og geta því ekki myndað gróðursæla bakka eins og venjuleg vötn gera.

Helztu ráðamenn flokksins hafa varpað fram hugmyndum um kaup og sölu á heimskunnum náttúruperlum, til dæmis að fórna Eyjabökkum til að varðveita megi Þjórsárver. Þetta eru óforbetranlegir fjandmenn náttúru landsins, sannir Framsóknarmenn.

Ráðamenn flokksins munu á þinginu flagga óraunhæfu mati Landsvirkjunar á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju, þar sem allt of lítið og nánast ekkert tillit er tekið til herkostnaðarins. Þeir munu mála á vegginn engilbjarta mynd af framtíð austfirzkra hagsmuna.

Það sem skilur stóriðju frá öðrum atvinnuvegum nútímans, svo sem tölvuvinnslu og ferðaþjónustu, er annars vegar, að hún krefst gífurlegrar fjárfestingar að baki hvers atvinnutækifæris, sem hún skapar, og hins vegar, að hún á erfitt með að laga sig að aðstæðum.

Þetta gildir jafnt um orkuverin eins og iðjuverin, svo sem við höfum séð af virkjun Blöndu, þar sem óheftir stóriðjudraumar andstæðinga íslenzkrar náttúru leiddu til gífurlegrar fjárfestingar, sem skilaði engum arði árum saman og bar jafnframt mikla vaxtabyrði.

Stóriðjudraumarnir hunza hagsmuni ferðaþjónustu, sem munu aukast á næstu árum eins og þeir hafa gert á undanförnum árum. Engin vitræn úttekt hefur farið fram á afleiðingum stóriðjudrauma ráðamanna Framsóknarflokksins á afkomu í ferðaþjónustu.

Alvarlegasti þáttur málsins er skorturinn á reisn, sem einkennt hefur stjórn Framsóknarflokksins á málaflokkunum, sem snerta risavaxna skuld þjóðarinnar við náttúru Íslands. Ráðamenn flokksins tala eins og við enn þann dag í dag aumingjaþjóð á hungurmörkum.

Flokksþing Framsóknar um helgina mun staðfesta, að ekkert hafi breyzt. Flokkurinn sé enn eins fjandsamlegur náttúrunni og hann hefur jafnan verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Lögreglustjóri ofsóttur

Greinar

Í leiðurum þessa blaðs hefur stundum verið lýst megnri óánægju með máttlausa og geðlausa embættisfærslu lögreglustjórans í Reykjavík, einkum í málum, sem varða ölæði og ofbeldi á almannafæri og einnig þeim, sem varða ólöglegar auglýsingar á áfengi.

Blaðið hefur jafnframt fagnað frumkvæði nýs varalögreglustjóra gegn ölæði og ofbeldi á almannafæri, en ekki séð neina breytingu á friðhelginni, sem ólöglegar auglýsingar áfengis njóta hjá embættinu. Hinir nýju vindar mættu blása meira, ef vel ætti að vera.

Dómsmálaráðuneytið hefur á ýmsan hátt reynt að blása lífi í embætti lögreglustjórans í Reykjavík og fá tekin þar upp alvarlegri vinnubrögð, meiri stjórnsemi og aðhald af hálfu yfirmanna. Sem dæmi má nefna viðbrögð við dularfullu hvarfi fíkniefna úr vörzlu lögreglu.

Ráðuneytið þarf þó að fara að leikreglum í þessu sem öðru. Aðgerðir þess gegn lögreglustjóranum í Reykjavík hafa margar hverjir verið á gráu svæði, svo að ekki sé meira sagt. Meðal annars hafa þær falið í sér leka á völdum upplýsingum úr skýrslum um starfsemina.

Fjölmiðlar geta ekki treyst leka ráðuneytisins, því að þar hefur ekki komið fram allur sannleikur málsins, heldur einungis þættir, sem slitnir úr samhengi við önnur atriði gætu orðið til þess að niðurlægja og fjarlægja máttlausan en um leið vammlausan lögreglustjóra.

Dómsmálaráðuneytið hafði frumkvæði að lögum um sérstakt embætti ríkislögreglustjóra til þess eins að draga úr valdi lögreglustjórans í Reykjavík. Það setti sérstakan varalögreglustjóra til höfuðs honum. Og nú hefur það smíðað skipurit til að gera hann valdalausan.

Áratugum saman hefur ekki sést neitt annað dæmi um svona langvinnar og þrautseigar tilraunir til að grafa undan embættismanni, sem hefur ekki gert annað af sér en að vera linur yfirmaður. Þessar tilraunir gefa greinargóða lýsingu á hugarfari dómsmálaráðherra.

Með hreinni og beinni aðferðum hefði verið unnt að knýja fram virkari stjórn á lögreglunni í Reykjavík og spara persónulegar ofsóknir, sem grafa ekki aðeins undan einstaklingum, heldur starfsemi lögreglunnar í heild. En undirferlið hentar ráðherranum betur.

Það nær ekki nokkurri átt, að til tímabundinna þæginda séu lög og skipurit sérsniðin að tilvist ákveðinna einstaklinga, en ekki að langtímaþörfum stofnana, sem halda áfram að lifa, löngu eftir að farnir eru þeir, sem lögin og skipuritin voru upphaflega sniðin að.

Dómsmálaráðherra hefur sjálfur óspart beitt pólitískum ráðningum kvígilda á borð við þá, sem varð, þegar forveri hans réð hæglátan sýslumann úr röðum framsóknarmanna sem lögreglustjóra í Reykjavík. Þannig er fullt af linum embættismönnum í kerfinu.

Það er óviðurkvæmilegt að taka einn slíkan embættismann og ofsækja hann með þeim hætti, sem dómsmálaráðherra hefur gert árum saman. Sá verknaður allur verður honum til lítillar sæmdar, þegar metinn verður pólitískur ferill hans, sem senn er á enda.

Yfirleitt er hrollvekjandi að hugsa til þess, að einn hatursfullur ráðherra skuli geta misnotað sjálft innanríkisráðuneytið til ofsókna gegn einstaklingum. Ef hægt er að beita því gegn lögreglustjóranum, er þá ekki líka hægt að beita því gegn almenningi yfirleitt?

Það eru fleiri en framsóknarmenn, sem hafa óbragð í munninum við að horfa upp á undirferli og ofsóknir af hálfu dómsmálaráðuneytisins og ráðherra þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Skilaboð pílagrímanna

Greinar

Yfirstétt Alþýðubandalagsins er nýkomin úr vel auglýstri skemmtiferð og kurteisisheimsókn til Kúbu, þar sem einræðisherrann Castro hefur lengi hindrað eðlilega efnahagsþróun með því að halda dauðahaldi í nánast útdauðar kennisetningar Sovétríkjanna sálugu.

Með í för íslenzku pílagrímanna voru nokkrir þekktir kaupsýslumenn, sem sagðir eru hafa áhuga á að koma upp viðskiptasamböndum við ríkisrekin fyrirtæki Kúbu. Feta þeir í fótspor annarra, sem hafa ræktað drauma um viðskipti við alræðisstjórnir í Víetnam og Kína.

Sameiginlegt einkenni þessara ríkja er, að þar eru við völd alræðisflokkar, sem stjórna með geðþóttaákvörðunum. Vestrænar leikreglur gilda þar ekki, hvorki í ákvörðunum stjórnvalda né í niðurstöðum dómstóla, svo sem vestræn fyrirtæki hafa mátt þola í Kína.

Sameiginlegt einkenni ríkjanna er, að bjartsýnir iðjuhöldar og kaupsýslumenn frá Vesturlöndum tapa þar fjárfestingum sínum í hömlulausum tilraunum til að auka markaðshlutdeild sína í heiminum. Þannig eru vestrænar fjárfestingar í Kína orðnar rústir einar.

Þá sjaldan að Vesturlandabúum tekst að koma ár sinni fyrir borð í viðskiptum við ríkisfyrirtæki alræðisríkja, lenda þeir í að hafa verið öfugum megin við sagnfræðina, þegar alræðinu er vikið frá völdum og við taka aðrir, sem refsa kaupahéðnum fyrir stuðning við alræðið.

Það er gömul saga og ný, að fáir læra af reynslu annarra. Þess vegna voru þekktir kaupsýslumenn í föruneyti Alþýðubandalagsins á Kúbu að láta sig dreyma um, að þeir gætu haft peninga upp úr einhvers konar viðskiptum við Kúbu og jafnvel fjárfestingum þar.

Yfirstétt Alþýðubandalagsins með formanninn og þungavigtarmanninn í broddi fylkingar, Margréti Frímannsdóttur og Svavar Gestsson, telur merkilega þróun hafa átt sér stað á Kúbu. Castro sé síður en svo nokkurt nátttröll, enda leyfi hann erlenda fjárfestingu.

Raunar er orðið hefðbundið, að formaðurinn fari árlega til Kúbu eins og fyrirrennarar hennar fóru árlega til Sovétríkjanna. Kúba er þannig tekin við sem hin eina og sanna sovét-fyrirmynd, síðan það skammlífa þjóðskipulag leið undir lok í öðrum ríkjum heims.

Castro vildi að vísu ekki hitta forustusveit og kaupsýslumenn Alþýðubandalagsins, enda telur hann líklega meiri fjárhagslegan slæg í utanríkisráðherra Spánar, sem var þar í kurteisisheimsókn á sama tíma. Urðu Íslendingarnir að skoða útimarkaði í staðinn.

Gera verður ráð fyrir, að hin vel auglýsta pílagrímsferð hafi ekki verið meðvitundarlaus, heldur sé tilgangur hennar að senda íslenzkum kjósendum og væntanlegum samstarfsaðilum einhver skilaboð frá Alþýðubandalaginu nokkrum mánuðum fyrir kosningar.

Skilaboðin eru hins vegar svo undarleg, að erfitt er að skilja þau. Er Margrét að segja væntanlegum kjósendum klofningsframboðsins, að Alþýðubandalagið sé enn sama gamla Alþýðubandalagið þrátt fyrir A-flokka-framboðið? Er hún að senda Alþýðuflokknum þessi skilaboð?

Alþýðubandalagið er nánast í rúst um þessar mundir. Heilu félögin hafa horfið á braut eða verið lögð niður. Það er orðin stór spurning, hvort Alþýðubandalagið leggi yfirleitt svo mikið fylgi með sér inn í A-flokka-framboðið, að það taki því að hafa fyrir slíku samstarfi.

Skilaboðin frá Kúbu eru á þessu stigi ekki til þess fallin að auka traust óráðinna kjósenda á A-flokka-framboðinu. Pílagrímarnir þurfa að túlka þau betur.

Jónas Kristjánsson

DV

Aumt er Ísland

Greinar

Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki hefur skrifað undir Kyoto-bókunina um takmörkun á losun efna, sem valda loftslagsbreytingum. Bandaríkin urðu fyrir helgina síðust annarra ríkja til að undirritað bókunina og skilja Ísland eitt eftir í yfirlýstum flokki sóða.

Vegna erfiðra samskipta framkvæmdavalds og löggjafarvalds í Bandaríkjunum er líklegt, að forseti þeirra treystist ekki til að knýja undirritunina gegnum þingið fyrr en að liðnum næstu kosningum eftir tvö ár. Tímann mun hann nota til að undirbúa framkvæmdina.

Tregða Íslands stafar ekki af ósanngjarnri meðferð áhugamála landsins á alþjóðafundum í Kyoto og Buenos Aires um loftmengun. Samkvæmt Kyoto-bókuninni má Ísland auka losun mengunarefna lítillega, þótt önnur vestræn ríki taki á sig að minnka hana hjá sér.

Tregða Íslands stafar ekki af minni möguleikum okkar en annarra á að draga úr mengun. Við getum endurskoðað stefnu okkar í stærð og afli fiskiskipa og veiðarfæra. Við getum einnig unnið að breyttri orkunotkun skipavéla yfir í hreinni olíu og síðar yfir í vetni.

Við getum fylgzt betur með tilraunum til að taka upp nýja orkugjafa í bílum, svo sem vetni eða rafmagn. Síðast en ekki sízt þurfum við að reikna upp á nýtt kostnaðar- og tekjudæmi stóriðju, þannig að við teljum okkur ekki lengur trú um, að öll stóriðja sé arðbær.

Orkuver og orkuveitur valda umhverfisspjöllum, sem við þurfum að reikna gjaldamegin í dæminu vegna skaðlegra áhrifa þeirra á ferðaþjónustu, sem er miklu arðvænlegri búgrein heldur en stóriðjan og veitir margfalt fleira fólki vinnu á hvern milljarð í fjárfestingu.

Verðið fyrir orku til stóriðju hefur alltaf verið lágt og er svo óhagstætt í nýjustu samningum, að það er ríkisleyndarmál. Við megum ekki vita, hvað rafmagnið kostar til nýja álversins við Grundartanga og við megum ekki vita, hvað Norsk Hydro fæst til að borga.

Vegna verðsveiflna eru stóriðjuver og einkum álver svo áhættusöm fjárfesting, að erlendis hafa sum hver snögglega orðið gjaldþrota og skilið orkusala og starfsmenn eftir með sárt ennið. Minni rekstrareiningar eiga auðveldara með að mæta sveiflum í umhverfinu.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstjórnin, undir forustu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, berst svo hart gegn aðild að Kyoto-bókuninni, er draumurinn um risavaxið álver Norsk Hydro á Austurlandi, sem mun valda mikilli mengun og eyðileggja náttúruperlur.

Sérstaða Íslands gegn Kyoto-bókuninni er orðin óþægilega áberandi eftir að Bandaríkin skrifuðu undir hana. Ísland er skyndilega komið í sviðsljósið sem mesti sóðinn meðal vestrænna ríkja og mun verða að taka langvinnum afleiðingum af illu umtali umheimsins.

Sérstaðan skaðar hagsmuni okkar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi á svipaðan hátt og sjálfseyðingarhugsjón hvalveiða mun gera, ef hún verður að veruleika. Við eigum á hættu, að öflugir hópar á sviði umhverfismála beini geiri sínum gegn íslenzkum hagsmunum.

Miklu hagkvæmara væri fyrir okkur að taka forustu í sjónarmiðum umhverfisverndar og afla okkur ímyndar sjálfbærrar umgengni við auðlindir sjávar og lands, meðal annars í samræmi við tillögur Orra Vigfússonar hjá Laxveiðisjóði Norður-Atlantshafsins.

Því miður er okkur stjórnað af þröngsýnum búrum, sem eru svo fastir í flórnum, að þeir sjá ekki ljósið og halda áfram að skaða umhverfi okkar og efnahag.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðurinn er mettaður

Greinar

Smáhvelin, sem fiskiskip landa í skjóli nætur, nægja til að fullnægja eftirspurn. Innlendur og erlendur markaður fyrir hvalkjöt er þegar mettaður. Engan fjárhagslegan tilgang hefur að leyfa hvalveiðar formlega á nýjan leik, því að engir kaupendur eru að afurðunum.

Þótt þorri þjóðarinnar sé fylgjandi endurreisn íslenzkra hvalveiða, byggist sú skoðun ekki á neinum efnahagslegum rökum. Hvalveiðar eru Íslendingum trúar- og tilfinningaatriði. Menn vilja ekki láta grænfriðunga og bandarískar kerlingar stjórna sér.

Engin markaðsrök eru á færi þingmanna á borð við Guðjón Guðmundsson, sem reyna að slá ódýrar pólitískar keilur á stuðningi við hvalveiðar. Þeir hafa ekki sagt okkur og geta ekki sagt okkur, hverjir eigi að standa undir kostnaðinum með því að kaupa afurðirnar.

Sér til þæginda hafa menn gleymt hrakför síðasta hvalkjötsgámsins um erlendar hafnir, þar sem honum var hvarvetna úthýst og á endanum hrakinn heim til Íslands aftur. Þannig mun fara um frekari tilraunir Íslendinga til að koma hvalafurðum sínum í verð.

Meira að segja Japanir hafa fyrir löngu beygt sig fyrir staðreyndum lífsins og hafa árum saman ekki þorað að kaupa svo mikið sem eitt gramm af hvalaafurðum. Úr því, að Japanir vilja ekki kaupa af okkur, hverjir eiga þá að gera það. Kannski Guðjón Guðmundsson?

Nú liggja Japanir í efnahagskreppu og eru háðir fjárhagslegum björgunaraðgerðum Vesturlanda. Þeir munu því á næstu árum enn síður en áður láta sig dreyma um að fara að kaupa hvalkjöt á nýjan leik. Þeir verða framvegis sem hingað til að halda að sér höndum.

Allur þorri íslenzku þjóðarinnar vill þannig leggja út í kostnað við hvalveiðar, án þess að nokkrar tekjur komi á móti. Ekki er það gæfuleg rökhyggja, enda minnir hún á Mosfellinga í Innansveitarkróníku Laxness, þegar þeir ályktuðu út og suður um kirkjustað sveitarinnar.

Þar segir Halldór meðal annars, að Íslendingar séu svo frábitnir rökbyggju, að þá setji hljóða, hvenær sem komið sé að kjarna máls. Þetta er nákvæmlega það, sem þeir gera, þegar þeir eru spurðir að því, hver eigi að borga kostnaðinn af fyrirhuguðum hvalveiðum.

Látum vera, þótt lélegustu þingmennirnir telji henta sér að elta vitleysuna. Sorglegri er frammistaða þeirra, sem betur mega sín. Ef viti bornir menn tækju saman höndum um að segja fólki sannleikann um hvalveiðidrauminn, mætti reyna að kveða hann niður.

Hvaða þýðingu hefur það til dæmis fyrir Þorstein Pálsson sjávarútvegsráðherra að flytja mörgum sinnum á hverju ári í átta ár þungorðar ræður um, að það sé forgangsverkefni sitt að hefja hvalveiðar að nýju. Hvers vegna segir hann ekki þjóðinni staðreyndir?

Davíð Oddsson nýtur svo miklar hylli fólks, að menn vilja í öllu lúta vilja hans, jafnvel gefa erlendu fyrirtæki ókeypis sérleyfi til að reka krosstengdan gagnagrunn í heilbrigðismálum. Getur hann ekki notað þungavigt sína til að játa bitran veruleikann fyrir fólki?

Hvað með þessar löngu lestir hagsmunastjóra útflutningsatvinnuveganna, sem hafa gert sér erindi upp í ráðuneyti til að grátbiðja um, að hvalveiðar verði ekki hafnar að nýju, svo að önnur utanríkisviðskipti megi áfram blómstra? Af hverju þora þeir ekki að blása?

Hvalveiðistefna Íslendinga er eins og vitlausraspítali, þar sem gæzlumennirnir þora ekki að segja sjúklingunum annað en það, sem þeir vilja heyra.

Jónas Kristjánsson

DV

Sátt um gagnagrunn

Greinar

Kominn er tími og komnar eru forsendur til að ná sáttum í deilunum um rekstur krosstengds gagnagrunns í heilbrigðismálum. Flokkadrættirnir eru farnir að skaða þjóðina, svo sem sést af, að hefnigjarn heilbrigðisráðherra velur landlækni með hliðsjón af deilunni.

Nýkomið og rækilegt álit Lagastofnunar háskólans getur orðið grundvöllur sátta í málinu. Þar koma fram hugmyndir um, hvernig breyta megi frumvarpi ríkisstjórnarinnar, svo að það standist íslenzk lög og stjórnarskrá og lög og reglur Evrópska efnahagssvæðisins.

Áður hefur oftar en einu sinni komið fram, að mikill meirihluti þjóðarinnar vill, að gagnagrunninum verði komið upp og vill láta honum í té upplýsingar um sig. Þetta vegur þungt á móti vel rökstuddum kenningum fræðimanna um, að persónuvernd hans sé ótrygg.

Lagastofnun bendir á ýmis atriði, sem betur megi fara og skýrar megi segja í frumvarpinu. Skynsamlegt er af Alþingi að taka þessi atriði upp, svo að síður komi til langvinnra eftirmála fyrir evrópskum dómstólum, sem neyðst hafa til að taka við hlutverki Hæstaréttar.

Í áliti Lagastofnunar er rækilega fjallað um einkaréttinn eða sérleyfið, sem minna hefur verið fjallað um en persónuverndina. Þar kemur fram, að nauðsynlegt er að setja svo strangar reglur um sérleyfið, að vafasamt er, að það henti erfðagreiningarfyrirtækinu að fá það.

Hér í blaðinu hefur nokkrum sinnum verið bent á, að sérleyfi er óþarft. Uppfinningar og hugvit eru varin með íslenzkum, evrópskum og alþjóðlegum lögum um skráningu einkaleyfa og um höfundarétt. DeCode Genetics getur notað þessar varnir eins og aðrir frumkvöðlar.

Heppilegast væri, að Kári Stefánsson viðurkenndi þennan sannleika og félli frá kröfunni um sérleyfi. Að öðrum kosti þarf að breyta frumvarpinu í samræmi við álit Lagastofnunar og setja þær skorður við misnotkun á sérleyfinu, sem raktar eru rækilega í álitinu.

Lagastofnun segir, að allir verði að hafa jafnan aðgang að upplýsingum úr grunninum á sömu kjörum, ekki megi mismuna rekstraraðilum, þar á meðal ekki sérleyfishafanum sjálfum. Það þýðir, að DeCode Genetics má ekki njóta betri viðskiptakjara en aðrir notendur.

Reglur um magnafslætti verði að vera gegnsæjar. Ennfremur þurfi DeCode Genetics að skilja fjárhagslega milli rekstrar gagnagrunnsins og annarrar starfsemi sinnar. Til greina komi að banna sérleyfishafanum hreinlega að gera annað en að reka gagnagrunninn sjálfan.

Þetta eru nokkur mikilvægustu atriðin, sem Lagastofnun háskólans telur, að breyta þurfi, svo að lagafrumvarpið um krosstengdan gagnagrunn standist 54. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bönnuð er misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Þótt meirihluti Alþingis sé fús til að gera hvað sem er til að þjónusta vilja forsætisráðherra og forstjóra DeCode Genetics, þá verður ekki séð, að stjórnvöldum henti að knýja frumvarpið fram í núverandi formi, ef síðan verða endalausir eftirmálar fyrir dómstólum úti í heimi.

Betra er að nota álit Lagastofnunar til þess að endurbæta frumvarpið. Slíkt mun afla málinu stuðnings margra þeirra, sem annars hefðu sig í frammi í kærumálum. Allra bezt væri svo, að frumvarpið fæli í sér opinbera gjaldtöku fyrir aðgang að sérleyfi.

Síðan mætti selja forstjóra DeCode Genetics sjálfdæmi um, hvort hann þurfi yfirleitt sérleyfi, ef ekki fæst annars konar sérleyfi en það, sem heiðarlegt má teljast.

Jónas Kristjánsson

DV

Fámenni og fáokun

Greinar

Stigið hefur verið skref í átt til fáokunar í heildsölu á nýlenduvöru. Verzlunarkeðjan 10-11 er farin að kaupa pakkavörur sínar hjá Aðföngum, sem er innkaupafyrirtæki Hagkaups, Nýkaups og Bónusar. Fleiri verzlanir eru á sömu leið inn í hlýjuna hjá þeim stóra.

Samruni hefur verið hraður í nýlenduvöruverzlun á undanförnum árum. Myndast hafa öflugar keðjur, þær sem nefndar voru hér að ofan og auk þess Nóatún, 11-11 og Nettó. Þessar keðjur hafa barizt af hörku og sameiginlega haldið niðri vöruverði í landinu.

Samkeppnin í smásölunni hefur átt umtalsverðan þáttí að halda verðbólgu í skefjum hér á landi á allra síðustu árum og hefur jafnvel leitt til verðhjöðnunar á sumum tímabilum. Þetta hefur bætt lífskjör almennings og auðveldað ríkisvaldinu efnahagsstjórnina.

Því miður er endanlegt markmið allrar samkeppni að komast í einokun. Það er eins og að setjast í helgan stein eftir stormasama ævi og láta peningana velta til sín fyrirhafnarlaust. Með samkeppni stefna fyrirtæki að því að fækka keppinautum og sitja ein eftir á fleti.

Spurningin er, hvenær þetta ferli hættir að vera neytendum til hagsbóta og fer að verða þeim skaðlegt. Fólk hrökk við, þegar helztu keppinautarnir, Bónus og Hagkaup, féllust í faðma, sameinuðust fyrst um aðföng og rugluðu síðan hreinlega saman reytum sínum.

Fátt hefur enn komið fram, sem bendir til, að stofnun Baugs og síðan Aðfanga hafi þrengt kosti neytenda. Enn er hörð samkeppni í vöruverði í smásölu. Enn eru verzlunarkeðjur í fararbroddi þeirra, sem bæta lífskjör þjóðarinnar og efla þjóðhagslegt jafnvægi.

Að vísu hefur nokkuð borið á, að góðar vörur hafi horfið úr hillum og lakari komið í staðinn, sennilega vegna þeirrar yfirburðastöðu, sem Aðföng hafa náð í heildsölunni. Enginn getur keppt við aðila, sem hefur forgang að viðskiptum allra stærstu keðjanna.

Við vitum ekki, hvort viðskipti 10-11 keðjunnar við Aðföng verða skurðpunkturinn, sem snýr samkeppnisdæminu við. Við vitum ekki, hvort þrengd fákeppni í heildsölunni hefur neikvæð áhrif á verðlag í smásölu. Við getum ekki dæmt þennan einstaka atburð.

Hitt er ljóst, að dæmið hlýtur fyrr eða síðar að snúast við. Með vaxandi samruna og myndun ráðandi viðskiptablokka á afmörkuðum sviðum kemur að lokum að því, að neytendur hætta að græða og fara að tapa. Þetta er ekki séríslenzkt, heldur alþjóðlegt vandamál.

Með lögum um einokun og hringa hafa stjórnvöld á Vesturlöndum reynt að hindra, að hagstæð samkeppni breytist í óhagstæða fáokun. Sums staðar hefur verið bannaður samruni, sem felur í sér, að markaðshlutdeild á afmörkuðu sviði fari yfir ákveðna prósentu.

Slík lög hafa verið umdeild, enda er erfitt að meta í tölum, á hvaða punkti samkeppni breytist í fáokun. Fáokun felst líka í fleiru en samruna og hærri markaðshlutdeild. Hún felst til dæmis líka í myndun viðskiptablokka, sem ná yfir röð samliggjandi viðskiptasviða.

Flugleiðir eru til dæmis í netmiðju kerfis, sem spannar erlenda ferðamenn, hvort sem þeir nota flug, bílaleigur, hópferðabíla, ferðaskrifstofur, hótel eða veitingahús. Á hverjum stað er ferðamanninum vísað á önnur fyrirtæki innan keðjunnar, en ekki á hin fyrir utan.

Þótt ekki þurfi að blása í herlúðra út af viðskiptum 10-11 við Aðföng sérstaklega, er almennt gott, að fólk haldi vöku sinni á fámennum og fáokunarhneigðum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítt skipulagður flótti

Greinar

Öðruvísi væri um að litast í landbúnaði, ef tekið hefði verið mark á kenningum, sem settar voru fram í leiðurum forvera þessa blaðs fyrir aldarfjórðungi og síðan ítrekaðar mörgum sinnum á hverju ári. Þá væri afkoma bænda ekki eins dapurleg og hún er nú.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum og allt of seint byrjað að gera sumt af því, sem auðveldara hefði verið fyrir aldarfjórðungi. Þau hafa dregið úr framlögum til landbúnaðar og notað hagnaðinn til að kaupa framleiðslurétt af bændum til að auðvelda þeim að bregða búi.

Með því að fresta aðgerðum í tvo áratugi töldu stjórnvöld bændum trú um, að þeir þyrftu ekki að laga sig að markaðsaðstæðum. Þau bjuggu jafnframt til hrikalegt kostnaðardæmi, sem dró úr getu ríkissjóðs til að auðvelda bændum að laga sig að aðstæðum.

Fyrir aldarfjórðungi var augljóst, að landbúnaðurinn gæti ekki og mundi ekki geta selt afurðir sínar úr landi, af því að verndarstefna gildir með fleiri þjóðum en okkur. Þá var einnig augljóst, að innanlandsmarkaðurinn mundi dragast saman með breyttum lífsháttum.

Hér í blaðinu var spáð, að markaður til langs tíma yrði fyrir um það bil 2.000 bændur. Þeir voru þá nærri 5.000. Síðan hefur þeim fækkað niður í 3.000 og á enn eftir að fækka um 1.000. Það eru einkum sauðfjárbændur, sem eru enn alltof margir miðað við markaðinn.

Vandræði bænda byggjast einkum á því óláni að standa sífellt öfugum megin í markaðslögmáli framboðs og eftirspurnar. Verðlag þrýstist niður, þegar framleiðsla er meiri en eftirspurn. Þetta er eitt af þessum einföldu lögmálum, sem margir eiga erfitt með að skilja.

Með því að borga bændum fyrir að búa áfram og framleiða sem mest voru stjórnvöld áratugum saman að framlengja ójafnvægi, sem hefur alltaf verið bændum í óhag, þótt fæstir þeirra hafi viljað skilja það. Þeim væri í hag að finna nýtt jafnvægi sem allra fyrst.

Enn hafa stjórnvöld aðeins tekið á þeim hluta vandans, sem snýr að lokuðum innanlandsmarkaði. Enn hefur ekki verið horfzt í augu við þá augljósu framtíð, að markaðurinn mun opnast fyrir erlendri búvöru vegna fríverzlunarsamninga, sem ríkið verður að gera.

Titölulega fáir, öflugir og sérhæfðir bændur eru miklu betur í stakk búnir að mæta síðari hluta vandans heldur en margir og skuldugir bændur með fjölbreyttan búskap, einkum ef hann er af hefðbundnu tagi. Þeir, sem nú þegar lepja dauðann úr skel, hafa litla von.

Loðdýramenn og hrossaræktendur eru dæmi um sérhæfða bændur, sem geta mætt ótryggri framtíð, ef þeim fjölgar ekki um of. Þeir hafa fundið glufur á erlendum markaði, sem geta gefið góðar tekjur, ef menn gæta þess að hefja ekki eitt offramleiðsluæðið enn.

Lífrænir bændur eiga líka möguleika, ef menn falla ekki í þá gryfju að ímynda sér, að unnt sé að ljúga því að útlendingum, að íslenzkur landbúnaður sé meira eða minna lífrænn eins og hann er núna. Blekkingar verða til þess eins, að markaðurinn hrynur.

Fáir aðrir en loðdýra-, hrossa- og lífrænir bændur eiga færi í útflutningi. Aðrir verða að sæta innlendum markaði, sem mun áfram minnka, hægt og sígandi í mjólkurvörum og hraðar í kjötafurðum, einkum af sauðfé. Áróðursherferðir munu áfram mistakast.

Fyrir aldarfjórðungi tóku menn illa ráðum af þessu tagi. Þess vegna varð undanhaldið ekki skipulegt, heldur hröktust menn slyppir úr einu víginu í annað.

Jónas Kristjánsson

DV

Ævilöng útlegð frá völdum

Greinar

Aðstandendur samfylkingar jafnaðarmanna fljóta sofandi að feigðarósi. Þeir eru lítilþægir í kröfum til sjálfs sín um árangur tilraunarinnar. Þeir horfa sljóum augum á lítið fylgi í hverri skoðanakönnun á fætur annarri og algert fylgisleysi meðal ungra kjósenda.

Það er engan veginn frambærilegur árangur sögulegrar sameiningar Alþýðuflokks og Alþýðubandalags að geta skrapað saman 20% fylgi kjósenda og aðeins 8% fylgi meðal yngstu kjósendanna, þeirra sem eru 18­24 ára. Þetta gefur fáa þingmenn og daufa framtíð.

Stefnuskráin er hluti vandans. Hún er misheppnuð tilraun til að fara bil beggja í ýmsum sjónarmiðum, sem ekki gefa færi á neinni millileið. Hún byggist á ofmati á gildi svonefndrar normaldreifingar, þar sem flestir eru taldir vera nálægt miðju, en fáir á jöðrunum.

Pólitíski veruleikinn er hins vegar fjölvíður og felst í þyrpingum fólks á ýmsum stöðum, en eyðum á milli. Þannig voru að minnsta kosti tvær þyrpingar augljósar í Alþýðubandalaginu, bæjarradikalar á höfuðborgarsvæðinu og vaðmálssósíalistar á landsbyggðinni.

Bæjarradikalarnir eru tiltölulega sáttir við sameininguna, enda höfundar hennar. Vaðmálssósíalistarnir eru hins vegar að hverfa á braut, enda hafa þeir óbeit á Alþýðuflokknum og standa nálægt Framsóknarflokknum og hefðbundnum atvinnuvegum til sjávar og sveita.

Svipaða sögu er að segja í Alþýðuflokknum. Þar eru annars vegar tiltölulega sáttir bæjarradikalar, sem eru höfundar sameiningarinnar, og frjálshyggjufólk, sem er að hverfa á braut, enda hefur það óbeit á Alþýðubandalaginu og styður eindregið vestrið og nútímann.

Þetta er einfölduð mynd af flóknara mynztri, en nægir til að skýra, hvernig fylgið hrynur af fylkingu, sem hefur samið sér stefnuskrá á línum bæjarradikala, þar sem vaðmálssósíalistar og frjálshyggjumenn sjá fátt við sitt hæfi. Stefnan er ekki, þar sem fólkið er.

Annar hluti vandans er forustuliðið, forna dæmið um gamalt vín á nýjum belg. Þetta eru ekki leiðtogar frá náttúrunnar hendi. Það getur ekki hrifið með sér fólk inn á nýjar brautir. Það getur ekki rofið gamlar hömlur hefðbundinna þyrpinga pólitískra skoðana.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur í tvígang getað þetta fyrir félagshyggjufólk í Reykjavík. Davíð Oddsson hefur á sama hátt getað haldið saman sundurleitum Sjálfstæðisflokki og þanið hann út. Samfylkingu jafnaðarmanna skortir slíkt fólk með kröftugt aðdráttarafl.

Þótt sæmileg sátt sé um, að Margrét Frímannsdóttir sé hæfust forustufólksins til að verða formaður samfylkingarinnar, þá hefur henni ekki tekizt að verða segull, sem sogar til sín misjafnar þyrpingar jafnaðarmanna. Hún er bara skásti kosturinn af gömlu lummunum.

Hún er eins konar Oscar Lafonteine í flokki, sem vantar Gerhard Schröder. Hún er eins konar Neil Kinnock í flokki, sem vantar Tony Blair. Til þess að verða söluhæf vara á kjósendamarkaði þarf samfylking jafnaðarmanna töluvert kröftugra aðdráttarafl.

Nútíminn er þannig, að stilla þarf saman söluhæfum leiðtoga og almennt orðaðri stefnuskrá, sem fjallar um jöfnuð og félagshyggju og lætur sér ekki verða fótaskortur á nákvæmum útfærslum, sem gera ekkert annað en að stuða einhverja þyrpingu kjósenda.

Meðan samfylkingin horfist ekki í augu við kröfur kjósenda, verður hún einn af smáflokkunum með 15 þingmenn á Alþingi og ævilanga útlegð frá völdum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrengdur kostur illmenna

Greinar

Flest okkar vilja hafa frelsi til að fara þangað, sem okkur langar til að fara, þegar við höfum tíma og peninga. Við viljum ekki, að okkur sé meinað að heimsækja staði, sem aðrir fá að koma til. Þetta gildir ekki sízt um þá, sem hafa nóg af tíma og fé til umráða.

Langflestir staðanna, sem fólk vill fara til, eru innan marka Evrópusambandsins. Þar eru London og París, Kaupmannahöfn og Amsterdam, Róm og Aþena. Þar eru Costa del Sol og Costa Brava, Mallorca og Kanarí, Algarve og Lignano. Þar eru skíðalöndin í Ölpunum.

Ef handtaka hryðjuverkamannsins Pinochets í London leiðir til, að hann verði framseldur til Spánar, þar sem sem hann er eftirlýstur fyrir morð, er stigið mikilvægt skref í þá átt, að illmenni heimsins þori ekki að stíga fæti á umráðasvæði Evrópusambandsins.

Fjársterkir óþokkar hafa ýmsar ástæður til að sakna þess að geta ekki lengur komizt til Evrópu. Sumir vilja leita sér þar lækninga eins og Pinochet. Aðrir vilja komast í næturklúbba og fínimannsklúbba. Einhverjir þeirra vilja sjá sögufræga staði með eigin augum.

Aukin áherzla á mannréttindi er ein afleiðing þess, að vinstri miðjan hefur tekið völdin um nærri alla Evrópu. Thatcher eða Mayor hefðu látið Pinochet í friði. En það gerði Blair ekki. Hann lét taka einræðisherrann höndum og framselur hann vonandi fljótlega til Spánar.

Ekki er einungis sanngjarnt, að Pinochet mæti örlögum sínum á Spáni. Ekki er síður mikilvægt, að öðrum fúlmennum heimsins séu send þau skilaboð, að þeir skuli ekki hætta sér í þann heimshluta, sem flestir vilja heimsækja, ef þeir hafa til þess tíma og fé.

Pinochet er einn þeirra, sem telur eðlilegt að láta kvelja og drepa þúsundir manna, af því að þeir hafa aðrar skoðanir á pólitík en hann. Hann er rakinn óþverri eins og raunar margir fleiri, en var svo ógætinn, að láta nokkra Spánverja fylgja Chilemönnum í dauðann.

Erfitt er að hamla gegn því, að nótar Pinochets taki völd á ýmsum stöðum í þriðja heiminum. Reynslan sýnir, að efnahagslegar þvinganir ná takmörkuðum árangri og koma fremur niður á saklausum almenningi en glæpamönnunum, sem verið er að reyna að siða.

Viðskiptaþvinganir á Írak draga til dæmis ekkert úr prjáli og eyðslu Saddams Husseins, en færa almenningi í landinu ómældar hörmungar. Þessa leið má aðeins fara að vel athuguðu máli og með vel skilgreindum markmiðum, sem líklega er unnt að þvinga fram.

Persónulegar þvinganir á hendur óbótamönnunum sjálfum, nánustu ættingjum þeirra og samstarfsmönnum, eru hins vegar auðveldar í framkvæmd og hafa engar sjáanlegar aukaverkanir í för með sér. Heft ferðafrelsi skerðir lífsgæði þeirra, sem eiga það skilið.

Það verður áfall fyrir úrhrök mannkyns, ef þau verða formlega eftirlýst í einstökum löndum Evrópusambandsins og síðan framseld, hvar sem til þeirra næst á þessu mikilvæga svæði heimsins. Þessi hefting ferðafrelsis er refsing á tungumáli, sem þau skilja.

Í framhaldi af réttmætri handtöku Pinochets í London og væntanlegu framsali hans til Spánar er mikilvægt, að lönd evrópska efnahagssvæðisins taki þessa aðferð upp á arma sína og setji um hana fastar reglur, svo að pólitískum hryðjuverkamönnum séu þær ljósar.

Handtaka Pinochets sýnir breytt gildismat með nýjum tímum og nýjum herrum. Hún er dæmi um, að þjóðum heims tekst stundum að stíga spor fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrælahald flutt inn

Greinar

Technopromexport er rússneskt ríkisfyrirtæki, sem hvergi starfar á Vesturlöndum, nema hér og í Grikklandi, þar sem fjármálaspilling er mikil samkvæmt nýlegri fjölþjóðaúttekt. Félagið starfar í nokkrum löndum þriðja heimsins, þar sem mannréttindi eru lítil.

Landsvirkjun ber alla ábyrgð á þessu fyrirtæki. Af tilboði þess í framkvæmdir hér á landi mátti strax ráða, að það mundi nota rússneska þræla í stað íslenzkra starfsmanna til þess að ná verkinu. Með því að taka tilboðinu tók Landsvirkjun á sig ábyrgð af þessu.

Starf fyrirtækisins á vegum Landsvirkjunar felur í sér tilraun íslenzka samstarfsaðilans til að ná niður virkjunarkostnaði hér á landi með því að brjóta á bak aftur löggilda kjarasamninga. Það skýrir, hversu dauflega Landsvirkjun hefur tekið á málinu.

Síðan hefur bætzt við samábyrgð lélega mannaðra eymdarstofnana á borð við heilbrigðiseftirlitið á Suðurlandi og vinnumálaeftirlit félagsmálaráðuneytisins. Þessar stofnanir hafa horft á hneykslið magnast án þess að manna sig upp í að gera neitt af viti í málinu.

Framganga og fullyrðingar fulltrúa hinna rússnesku verktaka hér á landi hafa verið með slíkum endemum, að fyrir löngu hefði verið búið að reka þá úr landi annars staðar á Vesturlöndum. Hér hanga þeir hins vegar í skjóli máttvana og örvasa ríkisstofnana.

Opinberi geirinn hefur reynzt gersamlega ófær um að gæta laga og réttar við þetta verk. Það var eingöngu fyrir hatramma framgöngu nokkurra verkalýðsfélaga, að upplýstar hafa verið skuggahliðar á vanheilögu hjónabandi Landsvirkjunar og Technopromexport.

Eftir að ótal yfirlýsingar fulltrúa rússneska fyrirtækisins hér á landi hafa ekki reynzt hafa við rök að styðjast, er félagsmálaráðherra enn að tuða um, að hann hafi ekki ástæðu til að vantreysta mönnunum. Þessi yfirlýsing hans er auðvitað mesta fjarstæða.

Nánast öll verktaka í Rússlandi og fylgiríkjum þess er rekin á mafíugrunni eins og raunar mestur hluti atvinnulífsins þar eystra. Þessi mafíukapítalismi, sem tók við af gamla ríkisrekstrinum, hefur á örskömmum tíma rúið þessa fjölmennu þjóð inn að skinni.

Gjaldþrot blasir við verktökum í Rússlandi um þessar mundir, af því að ríkið getur ekki lengur borgað neitt. Technopromexport er því í samstarfi við einkafyrirtækið Elektrosevkavmontaj um lagningu Búrfellslínu. Þetta verk er liður í að ná fótfestu í auðugum ríkjum.

Ódýrir þrælar eru það eina, sem þessi fyrirtæki hafa að bjóða umfram vestræn fyrirtæki, svo sem fram hefur komið hér á landi. Ef þrælahöldurum tekst að ryðjast inn á íslenzkan markað í skjóli ódýrs vinnuafls, er búið að brjóta löglega kjarasamninga á bak aftur.

Við þurfum að læra af þessari reynslu eins og annarri. Við þurfum framvegis að hafa gætur á stjórnendum Landsvirkjunar, sem hafa haldið verndarhendi yfir mafíósum í gleði sinni yfir að geta sniðgengið kjarasamninga til að ná niður virkjunarkostnaði.

Við höfum við búið við næg vandræði af hálfu Landsvirkjunar, svo sem eyðingu náttúruverðmæta til að geta selt niðurgreidda orku til stóriðju á kostnað almennings, þótt ekki bætist við, að þessi óvinveitta einkaleyfisstofnun reyni að brjóta niður löglega kjarasamninga.

Mál þetta hefur gefið bláeygum Íslendingum örlitla innsýn í skuggalega harmaveröld rússnesks þrælahalds, sem við megum alls ekki flytja inn í landið.

Jónas Kristjánsson

DV

Góð málamiðlun

Greinar

Eðlilegt er, að þingmenn, sem sækja fylgi sitt einkum til gömlu kjördæmanna, sem náðu yfir einstakar sýslur, séu ekki sáttir við, að þær sýslur verði litlir og minni hlutar af allt öðrum kjördæmum en áður. Þess vegna er Páll Pétursson ráðherra óánægður þessa dagana.

Sérstök nefnd áhrifamanna allra þingflokka hefur orðið sammála um tillögur að nýjum kosningalögum og nýrri kjördæmaskipan, sem fela meðal annars í sér miklar breytingar á mörkum kjördæma til þess að tryggja, að enginn hafi minna en hálfan atkvæðisrétt.

Til þess að ná þessu hálfa réttlæti eru Húnavatnssýslur skildar frá Norðurlandi og settar með Vesturlandi og Vestfjörðum; Austur-Skaftafellssýsla skilin frá Austurlandi og sett með Suðurlandi; og Suðurnes skilin frá Reykjaneskjördæmi og sett með Suðurlandi.

Svo virðist sem Hornfirðingar séu ekki alveg andvígir því að flytjast frá Austurlandi til Suðurlands. Suðurnesjamenn eru meiri efasemdamenn í málinu, en verða þó svo fjölmennur hluti hins stækkaða Suðurlandskjördæmis, að þeir eiga að geta sætzt á málið.

Helzt eru það Húnvetningar, sem eiga erfitt með að vera slitnir úr hefðbundnu Norðurlandssamhengi og vera settir sem áhrifalítill minnihluti með Vestlendingum og Vestfirðingum. Þess vegna hefur Páll Pétursson á Höllustöðum orðið höfuðandstæðingur tillagnanna.

Í þjóðfélaginu og flestum stjórnmálaflokkunum er hörð andstaða gegn algerri jöfnun atkvæðisréttar. Tillaga, sem felur í sér minnkun mismunar niður í eitt atkvæði á dreifbýliskjósanda og hálft atkvæði á þéttbýliskjósanda, er skynsamleg málamiðlun í stöðunni.

Skýrari línur fengjust auðvitað, ef komið yrði á fót einmenningskjördæmum eða allt landið gert að einu kjördæmi. Fyrri aðferðin mundi leiða til meira misvægis atkvæðisréttar, meira misvægis á þingfylgi flokka og efla stöðu smákónganna, hvers í sínu héraði.

Sanngjarnast væri eitt kjördæmi fyrir eina þjóð í einu landi. Þá væri atkvæðisréttur þjóðarinnar jafn og þingstyrkur flokkanna í samræmi við kjörfylgi þeirra. Samgöngur innan slíks kjördæmis eru auðveldari en samgöngur voru í litlum kjördæmum gamla tímans.

Þar sem hvorki er stuðningur við einmenningskjördæmi né eitt kjördæmi, varð að finna málmiðlum um leið á borð við þá, sem kjördæma- og kosningalaganefndin hefur valið sér. Sem málamiðlun er tillagan mun einfaldari og betri en núverandi fyrirkomulag.

Þingmannafjöldi kjördæmanna verður svipaður og úthlutun jöfnunarsæta verður þess vegna tiltölulega einföld. Til dæmis verður ekki þörf fyrir flakkarann, sem er eins konar jóker í núverandi kerfi. Nýja kerfið er í heild gegnsærra og þess vegna heilbrigðara.

Nefnin gerir af sanngirni ráð fyrir, að flokkar geti fengið jöfnunarþingmenn, þótt þeir hafi ekki kjördæmakosna þingmenn, ef þeir ná 5% fylgi yfir landið í heild. Þetta felur í sér, að 5% fylgi er talið skilja milli kraðaks annars vegar og lýðræðis hins vegar.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að lagðar séu í kerfið einfaldari leiðir en nú til að breyta mörkum kjördæma eða þingmannafjölda kjördæma, ef misvægi atkvæðisréttar vex að nýju upp fyrir eitt atkvæði á móti hálfu. Minna ætti því að verða um kollsteypur í reglum.

Ef frá eru taldar ófullkomnar tillögur um röðun fólks á framboðslista og breytingar á þeirri röð, eru niðurstöður nefndarinnar góð málamiðlun í stöðunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindamáli drepið á dreif

Greinar

Hugmynd forsætisráðherra í eignarhaldsmálum auðlinda hafsins er, að vel stæðir borgarar, sem flestir eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, geti keypt sig inn í hluta auðlindarinnar og að þessi kaup verði niðurgreidd, annaðhvort af ríkinu eða af fyrirtækjum sægreifa.

Þetta er uppvakning gamallar umræðu um almenningshlutafélög, sem Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður hóf endur fyrir löngu, en náði þá ekki eyrum margra. Forsenda hugmyndarinnar var, að æskilegt væri, að sem flestir væru óbeinir aðilar að rekstri.

Almenningshlutafélög Eykons eru hið bezta mál og eiga framtíðina fyrir sér, þótt varlega beri að fara í niðurgreiðslur á hlutafé. Þetta framfaramál er samt óviðkomandi núverandi umræðu um, hvernig þjóðin geti endurheimt auðlindirnar úr höndum sægreifa.

Sú hugmyndfræði er á allt öðru sviði en hugmyndafræði almenningshlutafélaga, þótt þær stangist alls ekki á og geti að sumu leyti skarast. Krafan um endurheimt auðlindanna er krafa um réttlæti og krafa um eðlilegt markaðsgengi á aðgangi að auðlindum hafsins.

Með því að skammta aðgang að auðlindunum hefur ríkið skapað sumum forgang fram yfir aðra. Með þessari takmörkun á aðgangi hefur tekizt að lífga fiskistofna við, svo að til verða gífurleg aflaverðmæti, sem ekki fengjust, ef aðgangur hefði ekki verið skammtaður.

Eðlilegt er, að ríkið fái fyrir hönd þjóðarinnar eitthvað í sinn hlut fyrir að hafa endurreist fiskistofna og gert útgerð hagkvæma á nýjan leik. Einnig er eðlilegt, að sægreifar hafi engan forgang umfram aðra að því að hagnast á aðgangs-skömmtun almannavaldsins.

Einfaldasta lausnin er, að ríkið staðfesti þjóðareign á auðlindunum og bjóði upp þann aðgang, sem skömmtunarkerfið leyfir. Þar með finnst markaðsgengi á þessum aðgangi, alveg eins og að um þessar mundir er að finnast markaðsgengi á Landsbankanum.

Áður en ákveðið var að finna markaðsgengi Landsbankans á frjálsum markaði voru kallaðir færustu sérfræðingar til að meta verðgildi bankans. Þeir mátu auðvitað verðgildið vitlaust, eins og menn gera alltaf, þegar þeir neita að láta markaðinn um hituna.

Auðvitað væri samt framkvæmanlegt að reikna verðgildi aðgangsins að auðlindunum. Munurinn á útreiknuðu verði og uppboðsverði er markaðsfræðilegur munur, rétt eins og munurinn á fámennum hlutafélögum og almenningshlutafélögum er hagfræðilegur munur.

Útboð og almenningshlutafélög eru gagnleg hagstjórnartæki, sem varða sjávarútveg ekki sérstaklega, þótt þau nýtist honum eins og öðrum þáttum þjóðfélagsins. Fólk hefur hins vegar ekki verið að tala um hagstjórnartæki í umræðunni um eignarhald auðlinda.

Annaðhvort misskilur forsætisráðherra þessa umræðu eða þá, sem líklegra er, að hann vilji misskilja hana. Tilgangur hans er þá væntanlega að drepa málinu á dreif með því að beina áhuga kjósenda Sjálfstæðisflokksins með sjónhverfingu inn á aðrar brautir.

Þar sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru margir hverjir meðteknir af því, sem formaður þeirra segir þeim að trúa hverju sinni, má búast við, að forsætisráðherra takist að snúa umræðunni um eignarhald auðlinda að nokkru leyti yfir í umræðu um hlutafélagaform.

Þess vegna verða aðrir aðilar umræðunnar að muna, að hún snýst um, að þjóðin endurheimti eign, sem stjórnmálamenn stálu og afhentu sægreifum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hóflegur ríkisrekstur

Greinar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar endurspeglar ráðherraskipti fjármála. Það er betra en frumvörp síðustu ára, enda gerir það ráð fyrir, að góðærið verði ekki notað til að auka hlut ríkisbúsins af þjóðarbúinu, heldur notað til að grynnka á skuldum ríkissjóðs.

Heildarskuldir hins opinbera eru um þessar mundir byrjaðar að lækka eftir langt hækkunartímabil. Þær eru komnar niður fyrir 50% af landsframleiðslu og munu fara niður undir 40% á næsta ári, ef fjárlagafrumvarpið stenzt. Ríkið er þannig hætt að lifa um efni fram.

Allt frá árinu 1985 hafa útgjöld ríkisins verið meiri en tekjur þess. Það þýðir, að rekstrarkostnaði samfélagsins var að hluta velt yfir á herðar afkomenda okkar með vöxtum og vaxtavöxtum. Ein króna af hverjum tíu hefur farið í að greiða vexti af þessum skuldum.

Þótt skuldasöfnun af þessu tagi hafi löngum þótt ásættanleg víðar á Vesturlöndum en hér, er ekki til neitt lögmál, sem segir, að annað megi gilda um fjármál ríkissjóðs en fjármál heimilanna. Sérhverri kynslóð ber að skila eigum, en ekki skuldum, til afkomendanna.

Fjárlagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir, að tekjur af sölu eigna ríkisins, til dæmis í bönkum, verði notaðar í reksturinn, heldur notaðar til að minnka skuldirnar. Með sölu stóreigna hefur ríkið fengið tækifæri til óráðsíu, sem ríkisstjórnin hyggst ekki nota sér.

Á kosningaárum hefur ríkisstjórnum fyrri tíma reynzt auðvelt að kaupa sér frið og vinsældir með frjálslegum fjárlögum, sem fela í sér skuldasöfnun. Í þetta sinn lætur ríkisstjórnin tvöfalt tækifæri fram hjá sér fara, annars vegar góðærið og hins vegar einkavæðinguna.

Hvað sem segja má um þessa ríkisstjórn á öðrum sviðum, verður ekki hægt að saka hana um ábyrgðarlausa fjármálastefnu á kosningaári. Þótt æpt sé úr öllum áttum á aukin fjárframlög, hefur hún ákveðið að spyrna við fótum af fullri fjárhagslegri ábyrgð og einurð.

Hér er eingöngu verið að hrósa niðurstöðutölum fjárlaga, en ekki innihaldi þeirra að öðru leyti. Í einstökum liðum er illa farið með peninga, svo sem í heilbrigðisráðuneytinu, sem fær í sinn hlut 7­8% landsframleiðslunnar, en er samt að missa allt niður um sig.

Hér er ekki heldur verið að hrósa öðrum þáttum stjórnarstílsins en fjárlagafrumvarpinu einu. Ríkisstjórnin hefur enga burði til að taka á neinu af þeim málum, sem heitast munu brenna á þjóðinni á næsta kjörtímabili, öðrum en fjármálum ríkisins.

Ríkisstjórnin er ekki að endurmeta afstöðu landsins til viðskiptalanda okkar á meginlandi Evrópu og til sameiginlegs gjaldmiðils þeirra. Hún er ekki að endurmeta verðgildi ósnortins víðernis og víkja frá efnahagslega úreltum virkjana- og stóriðjudraumum.

Ríkisstjórnin er ekki að endurmeta eignarhald þjóðarinnar á auðlindum hafsins og endurheimta það úr höndum sægreifanna. Hún er ekki að endurmeta fábjánalegt og endurgjaldslaust framsal erfðafræðilegra upplýsinga í hendur amerísks ævintýrafyrirtækis.

Með þessari gagnrýni er ekki verið að segja, að einhver önnur stjórnmálaöfl í landinu muni bjóða þjóðinni betri lausnir og trúverðugar lausnir á þessum mikilvægu framtíðarverkefnum. Fátt bendir raunar til, að skynsamlegir kostir verði í boði á næsta vori.

Og ríkisstjórnin hefur það umfram aðra flokka og flokkasamsteypur, að henni er heldur betur treystandi til að hafa áfram hóf á ríkisfjármálunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Illa rekið ráðuneyti

Greinar

Svo mikið fé fer til heilbrigðismála hér á landi, að unnt á að vera að reka heilbrigðiskerfið á sómasamlegan hátt, þannig að biðlistar sjúkrahúsa styttist frekar en lengist, fátækt fólk treystist til að nota þjónustuna og árleg tölfræði sýni batnandi heilsu þjóðarinnar.

Innbyggð verðbólga í kerfinu veldur því hins vegar, að óbreytt magn þjónustu hækkar í kostnaði milli ára. Þannig stækkaði sneið heilbrigðismálanna af landsframleiðslunni frá ári til árs, unz náð var svo stórri sneið, að þjóðfélagið hefur ekki treyst sér til að gera betur.

Síðan hefur flest verið á hverfanda hveli í heilbrigðisgeiranum. Ríkinu hefur ekki tekizt að halda uppi óbreyttri þjónustu á óbreyttu verði. Fjárveitingar til sjúkrastofnana hafa verið skornar niður, deildum lokað, og tekin upp þátttaka sjúklinga í ýmsum kostnaði.

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki reynzt vandanum vaxið. Því hefur til dæmis ekki tekizt að skilgreina, hvers vegna hér eru sífelldar kjaradeildur í heilbrigðisgeiranum, þótt kostnaður hans og hlutdeild launa í kostnaðinum sé hinn sami og á Norðurlöndum.

Heilbrigðisráðuneytinu hefur ekki heldur tekizt að forgangsraða verkefnum í geiranum á þann hátt, að sómasamlega sé staðið að þeim verkefnum, sem hann á annað borð tekur að sér. Í staðinn hefur komið flatur niðurskurður, sem sýnir uppgjöf ráðuneytisins.

Víða úti á landi eru elliheimili rekin undir yfirskini sjúkrastofnana og á kostnað heilbrigðisgeirans, þótt slík starfsemi eigi heima annars staðar. Þetta er gert að undirlagi óprúttinna pólitíkusa, sem eru að reyna að hlaða framkvæmdum og rekstri í kjördæmi sín.

Af því að heilbrigðisráðuneytið er veikt ráðuneyti, hefur það ekki hamlað gegn slíkri misnotkun á peningum til heilbrigðismála. Raunar hefur ekkert komið í ljós, sem bendir til, að ráðuneytið hafi reynt að marki að verjast þessu, enda er það meira eða minna meðsekt.

Mikilvægast er, að ráðuneytið geti tekið frumkvæði í málum og sé ekki sífellt að berjast við afleiðingar fyrri ákvarðana. Varnarstríð í tímahraki leiðir til, að það neitar að horfast í augu við staðreyndir og heimtar bara flatan niðurskurð á síðustu mánuðum ársins.

Úr því að hæfileikar til skipulags og rekstrar eru ekki á lausu í ráðuneytinu, þarf að kaupa til sérfræðiþjónustu, svo sem víða er gert. Skilgreina þarf, hvaða þjónustu ríkið vill veita í heilbrigðismálum og hvaða verð það er að borga fyrir ýmiss konar þjónustu.

Ef sambærileg þjónusta er dýrari á einum stað en öðrum, er eðlilegt, að þar séu seglin dregin saman, en fremur aukin starfsemin á hinum stöðunum, þar sem tekst að framkvæma sömu þjónustu með minni tilkostnaði. Þannig má beita markaðslögmálum af skynsemi.

Ráðuneytið hefur hins vegar ekki hugmynd um, hvað markaðslögmál eru. Það hefur ekki tök á neinum þeim vopnum, sem einkareksturinn hefur til að minnka kostnað og auka hagnað. Það er varnarlaust fórnardýr reglunnar um innbyggða verðbólgu kerfisins.

Þetta leiðir til gerræðislegra neyðarráðstafana, sem væru óþarfar, ef heilbrigðisráðuneytið hefði skilgreind og framkvæmanleg markmið, vissi um misjafnan kostnað við sömu þjónustu og beitti allri þessari þekkingu og tækni til að ná tökum á sökkvandi skipi sínu.

Dæmigert er svo, að þetta lélega ráðuneyti skuli ekki geta undirbúið ráðherra sinn til að koma sómasamlega fram fyrir hönd þess, þegar mikið liggur við.

Jónas Kristjánsson

DV