Greinar

Skákmenn hossa mafíósa

Greinar

Kirsan Iljíumzhínov, forseti sjálfstjórnarhéraðsins Kalmykíu í Rússlandi, er mafíósi, sem ræður héraðinu í skjóli þess, að veikur armur rússneskra stjórnvalda nær ekki lengur til úthéraða. Helzta áhugamál þessa mafíósa er að gera héraðið að skákmiðstöð heimsins.

Í sumar lét Iljíumzhínov myrða Larisu Judinu, 53 ára gamla ömmu, af því að hún hafði skrifað um ýmsa spillingu og lögleysu í héraðinu. Hann hafði áður komið í veg fyrir, að blað hennar væri prentað þar, en hafði ekki getað hindrað, að það væri prentað utanhéraðs.

Rannsóknarlögreglumenn frá Moskvu könnuðu málið. Niðurstaðan var sú, að Sergei Stepashin, þáverandi innanríkisráðherra Rússlands, sagði, að þetta væri dæmigerður mafíuglæpur. Og Jeltsín Rússlandsforseti sagði, að lögreglunni í Kalmykíu væri ekki treystandi.

Iljíumzhínov komst til valda á kosningaloforðum um að gera Kalmykíu að eins konar Kúveit, þar sem hver íbúi ætti gemsa. Síðan hefur hann hagað sér gerræðislega, látið myrða þá, sem standa í vegi hans, rænt öllu steini léttara í héraðinu og fengið sér sex Rollsa.

Eitt af áhugamálum ódæðismannsins er að láta birta um sig teiknimyndasögu í Batman-stíl. Annað áhugamál hans er, að gera Kalmykíu að skákveldi. Með mútum hefur honum tekizt að verða forseti Alþjóða skáksambandsinsins og halda ólympíuskákmót í Kalmykíu.

Iljíumzhínov er skrípamynd af hinum gamalkunna Campomanesi, sem varð ríkur af því að stela fé á Filippseyjum í skjóli Marcosar, þáverandi forseta og stórtækasta þjófs aldarinnar, og notaði peningana til að kaupa sér atkvæði í forsetaembætti skáksambandsins.

Skákmenn hafa löngum látið sig hafa það, að forsæti Alþjóða skáksambandsins gengi kaupum og sölum. Þetta varð þeim álitshnekkir á valdatíma Campomanesar, sem var þó bara þjófur, en er orðið verra núna, þegar ruglaður mafíósi og morðingi er orðinn sambandsforseti.

Til þess að geta haldið ólympíuskákmót í Elista, höfuðborg sjálfstjórnarhéraðsins, hefur Iljíumzhínov stolið öllu fé, sem átti að fara til rekstrar barnaheimila, skóla og sjúkrahúsa. Fyrir þá peninga er íslenzka ólympíusveitin nú komin til Kalmykíu að tefla skák.

Margar vestrænar skáksveitir sátu heima frekar en að óhreinka sig á ránsfé mafíósans. Það gerðu íslenzkir skákmenn hins vegar ekki, enda sáu þeir sér færi á að komast í efra sæti á mótinu, ef betri skákþjóðir mættu ekki til leiks. Þetta eru menn lítilla sanda og sæva.

Margir hafa þá skoðun, þegar það hentar skammtímahagsmunum þeirra, að ekki beri að skipta sér af því, sem þeim komi ekki við. Íslenzka skáksambandið hefur á þessum grundvelli ákveðið, að siðalögmál þurfi ekki að hindra íslenzka skákmenn í að fara til Kalmykíu.

Ef almennt væri hugsað svona á Vesturlöndum, væri illt í efni. Það er einmitt aðallega fyrir margs konar þrýsting frá Vesturlöndum, að þjófar og morðingjar á borð við Iljíumzhínov hafa hrökklazt frá völdum í þriðja heiminum og líðan fólks þar orðið bærilegri.

Þess í stað eru íslenzkir skákmenn orðnir hluti af skrautsýningu austur í Elista. Ólympíumótið nær þó ekki því markmiði að fella í gleymsku óhæfuverk á borð við morðið á Larissu Judínu. Það þvær ekki mafíósann, en óhreinkar þá, sem taka þátt í sýningunni.

Við munum ekki klappa, þegar Íslendingarnir koma heim og guma af að hafa náð góðum árangri í skjóli þess, að betri skákmenn höfðu ekki lyst á að mæta.

Jónas Kristjánsson

DV

Gagnagrunns-skaðabætur

Greinar

Skynsamlegt er að horfa til Bandaríkjanna, þegar við viljum öðlast sýn inn í framtíðina. Algengt er, að þar vestra sjáist fyrst merki þess, sem síðar heldur innreið sína austan hafs, þar á meðal á Íslandi. Nýjungar til góðs og ills eiga gjarna upptök sín í Bandaríkjunum.

Þar vestra hrannast nú upp dæmi þess, að tryggingafélög neiti heilbrigðu fólki um tryggingar vegna meingena í forfeðrum þess. Einnig hrannast þar upp dæmi þess, að fyrirtæki neiti heilbrigðu fólki um atvinnu, nema það reynist í erfðaprófi vera án meingena.

Tryggingafélög vilja ekki viðskiptavini og atvinnurekendur vilja ekki starfsmenn, sem tölfræðilega eru líklegri en aðrir til að fá ýmsa arfgenga sjúkdóma. Þar sem flestir algengustu og dýrustu sjúkdómar nútímans eru að nokkru leyti arfgengir, er mikið talið vera í húfi.

Enginn vafi er á, að þessi ameríkanisering mun flytjast hingað eins og önnur. Hér verður hins vegar ljóst, hvaðan þær upplýsingar koma, sem leiða til, að tryggingafélög framtíðarinnar munu neita fólki um tryggingu og atvinnurekendur neita því um atvinnu.

Það verður líka deginum ljósara, að þeir, sem fyrir þessu verða, munu sækja skaðabætur í hendur ríkisins, sem hyggst á næstu mánuðum veita bandarísku fyrirtæki sérleyfi til að setja saman miðlægan gagnagrunn með ógrynni erfða- og ættfræðilegra upplýsinga.

Þetta gerir ekki gagnagrunninn endilega skaðlegan. Þetta þýðir samt, að málsaðilar þurfa þegar í upphafi að gera sér grein fyrir líklegum kostnaði vegna skaðabótaskyldu. Ríkið kann að þurfa að borga fórnarlömbum mikið fyrir að hafa veitt deCode Genetics leyfi.

Þar með hefur þriðja spurningin bætzt við þær tvær fyrri, sem enn kalla á svör stjórnvalda. Hinar tvær spurningarnar eru um veitingu sérleyfis og um útstrikunarrétt fólks. Þær hafa komið fram í ýmsum útgáfum og þeim ekki svarað á frambærilegan hátt.

Staðan er enn sú, að ríkið hyggst veita sérleyfi og gefa það, þótt hvort tveggja sé hagfræðilega úreltur gerningur. Staðan er enn sú, að ríkið hyggst leggja frumkvæðiskröfu að útstrikunum á herðar þeirra lifandi og látnu, sem ekki vilja hafa neitt um sig í gagnabankanum.

Þverstæðan í öllu þessu er, að það eru einmitt upplýsingar um látið fólk, sem geta orðið afkomendum þeirra að fótakefli löngu síðar. Þess vegna er nauðsynlegt, að stjórnvöld átti sig á, að hér er um að ræða viðkvæmar og verðmætar upplýsingar en ekki gjafavöru.

Umbylta þarf gagnagrunns-frumvarpinu. Koma þarf betur en áður til móts við sjónarmið úr umræðunni um persónuvernd. Samtengdar upplýsingar í miðlægum gagnagrunni eru hundraðfalt viðkvæmari en stakar skýrslur, sem legið kunna að hafa á glámbekk.

Aðganginn að sjúkraskýrslunum á síðan að selja eða bjóða upp, af því að eðlilegt afgjald að mati markaðarins á jafnan að koma fyrir afhendingu verðmæta. Ríkisvaldið getur notað peningana til að bæta stöðu heilbrigðismála og til að eiga fyrir síðari skaðabótakröfum.

Umræðan um gagnagrunnsfrumvarpið er orðin mikil og hafa gagnrýnendur þess haft fullan málefnasigur. Stjórnvöld hafa enga afsökun fyrir því að leggja það fram eftir mánaðamótin án þess að breyta því fyrst til samræmis við samfelldan áfellisdóm umræðunnar.

Vont var að stjórnvöld skyldu gefa íslenzkum sægreifum auðlindir hafsins. Verra er, ef þau gefa bandarísku fyrirtæki auðlindir erfða- og ættfræðinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsýni heimilanna

Greinar

Þúsundkallarnir fjúka fyrir lítið í föstudagsinnkaupum sumra heimila, ef dæma má af því, sem fólk hefur í vörukerrum sínum við kassana í matvöruverzlunum. Svipaða vangá má sjá á götunum af nýkeyptum bílum af bilanagjörnum og endingarlitlum tegundum.

Samanlögð endurspeglast eyðslan í rúmlega 400 milljarða skuldum heimilanna, sem hafa aukizt um rúma 40 milljarða frá sama tíma í fyrra. Þetta þýðir, að fólk hefur ekki bara lagt út sem nemur allri 8% kaupmáttaraukningunni, heldur 12% skuldasöfnun að auki.

Meðan þjóðfélagið verður flóknara með hverju árinu, hefur þekking og kunnátta almennings í viðskiptum aukizt hægar en þekking og kunnátta í sölumennsku og markaðssetningu. Í sumum tilvikum er farið með neytendur eins og viljalaus reköld innkaupafíkla.

Þeir, sem minnst mega sín í lífinu, sýna oft minnsta aðgæzlu í umgengni sinni við peninga. Þeir hafa ekki frekar en aðrir hlotið neina neytendafræðslu í skólum og nýta sér síður en aðrir gagnlegar upplýsingar, sem birtast á neytenda- og viðskiptasíðum dagblaðanna.

Þeir, sem lengi hafa fylgzt vel með slíkum fréttum, vita, að mikla kaupmáttaraukningu má hafa af aðgát í viðskiptum. Lesendur bílasíðna DV vita til dæmis margir hverjir, að rannsóknir sýna, að bílategundir endast mismunandi lengi og bila mismunandi mikið.

Lesendur DV og forvera þess hafa áratugum saman haft aðgang að neytendasíðum, þar sem gerður er samanburður á verði og gæðum og fjallað um margvíslega aðra hagsmuni neytenda. Frá upphafi hefur þetta efni verið einn meginstólpanna í sérstöðu DV.

Hingað til hafa neytendasíður mest fjallað um matvæli, aðrar heimilisvörur og -þjónustu, en minna um kaup og rekstur á eignum, svo sem húsnæði og bílum og minnst um verðmæta pappíra af ýmsu tagi, sem gegna vaxandi hlutverki í fjármálum alls almennings.

Á þessu verður breyting í dag. Til viðbótar við neytendasíður, sem birtast hversdagslega í blaðinu, verður á fimmtudögum fjögurra síðna samfelldur efnisflokkur, þar sem fjallað er um tilboðsverð, um mat og heimilisvörur, um fastar og lausar eignir og um pappíra.

Verðkannanir verða þungamiðjan, verðkannanir á einstökum vörum og vöruflokkum, þjónustu og þjónustuflokkum. Við berum saman seljendur og förum stundum út fyrir landsteinana af því tilefni. Með gæðakönnunum fyllum við svo myndina enn betur.

Í dag er verðkönnun á gemsum. Einnig er fjallað um innkaupavenjur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra og benzínsparnað Þórarins Sigþórssonar tannlæknis. Ennfremur um misjöfn áhrif kreppunnar í Austurlöndum á eign fólks í ýmsum verðbréfasjóðum.

Svo að upplýsingarnar komist sem bezt til skila, er efnið gert myndrænt. Þannig viljum við stuðla betur en áður að því gamla hlutverki DV að auðvelda lesendum sínum lífsbaráttuna og hjálpa þeim við að taka betri og yfirvegaðri þátt í lífskjarabyltingu nútímans.

Við reiknum með, að þetta leiði ekki aðeins til bætts fjárhags þeirra, sem notfæra sér efnið, heldur hafi líka þau óbeinu áhrif, að auglýsingar og önnur markaðssetning verði fólki gagnlegri með því að gera meira en áður ráð fyrir, að neytendur séu viti borið fólk.

Nútíminn færir okkur auknar flækjur og aukin tækifæri. Með þekkingunni öðlumst við betri tækifæri til að gera það, sem okkur langar til að gera.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðför að forseta

Greinar

Áður en bandaríski þingmaðurinn og nefndarformaðurinn Henry Hyde tók forustu í þinginu um að auglýsa einkamál Clintons forseta hafði hann sjálfur haldið framhjá með giftri konu og eyðilagt hjónaband hennar. Clinton hafði þó aðeins verið að dufla við ógiftar konur.

Þingmaðurinn var í senn hórkarl og hjónadjöfull og er að því leyti verri en forsetinn. Það má hafa til marks um dæmigerðan bjálka í eigin auga. Tæplega helmingur nýrra þingmanna hefur skilið vegna framhjáhalds og má einnig hafa það til marks um grjótkast úr glerhúsi.

Enginn minnsti vafi er á, að rannsóknardómarinn Starr og meirihluti repúblikana í þinginu eru að reyna að koma höggi á demókratann í forsetastóli. Með milljarða kostnaði hefur ekki tekizt að sýna fram á neitt annað en að forsetinn hefur logið til um framhjáhald.

Flestir reyna að fela framhjáhald sitt og grípa til lyginnar, þegar í harðbakkann slær. Það þýðir ekki, að þeir hinir sömu séu slíkir lygarar að eðlisfari, að þeir séu ófærir um að gegna ábyrgðarstörfum. Gamalt máltæki segir, að allt sé leyfilegt í ástum og stríði.

Að vísu vill svo til, að forsetinn hefur á stjórnmálaferli sínum sýnt eindreginn vilja til að fegra sögu sína og stöðu, svo að mörgum finnst líklegt, að ósannindi hans í einkamálum endurspegli grundavallarbrest í skaphöfn hans, sem geri hann óhæfan til embættis síns.

Forsetinn liggur því vel við höggi repúblikana. Eftir því sem sögurnar verða nákvæmari og myndrænni, þeim mun fleiri komast á þá skoðun, að hann sé eða hafi verið gerður óhæfur um að gegna embættinu. Völdin í landinu munu þá færast meira í hendur þingsins.

Sá hængur er þó á ráðagerðinni, að Gore varaforseti mun taka við, ef Clinton verður hrakinn frá völdum. Varaforsetinn er flekklaus í einkamálum sínum og fær í forsetastóli svo vænt forskot á keppinautinn um sætið, að Gore má heita öruggur um að hljóta kosningu.

Repúblikanar veðja hins vegar á, að það sé eðli Clintons að gefast aldrei upp, enda hafi hann á ferli sínum tekið trú á mikla þrautseigju og lagni sína við að koma sér úr vondum klípum. Þeir vona, að hann haldi fast í stólinn og bíði eftir kraftaverki, sem ekki komi.

Þótt þetta gangi eftir, eru repúblikanar ekkert betur settir en demókratar í næstu forsetakosningum. Þeir verða sagðir ófærir um að skipa embætti, sem þeir hafa markvisst niðurlægt og eyðilagt. Þeir verða sakaðir um að hafa gert forsetaembættið varanlega óvinnufært.

Repúblikanar hafa enga langtímasýn yfir afleiðingar aðfararinnar að forsetanum og forsetaembættinu. Þeir eru aldir upp í þjóðfélagi skammtímalausna, þar sem fyrirtæki verða að sýna mikinn og batnandi árangur í uppgjöri tvisvar eða fjórum sinnum á ári.

Sérfræðingar skammtímalausna telja, að röð slíkra lausna jafngildi langtímalausn. Þeir geti á hverjum tíma leyst þau mál, sem upp komi. Hitt er þó líklegra, að sigur í einu máli framkalli ófyrirséðar hliðarverkanir, sem geri sumar skammtímalausnir verri en engar.

Bandarískir kjósendur ákveða svo auðvitað að lokum, hver græðir til skamms og langs tíma á aðför repúblikana að forsetanum og forsetaembættinu. Munu kjósendur haga sér eftir því, sem ætlast er til af grjótkösturum úr glerhúsi og sérfræðingum í pólitísku skítkasti?

Kjósendur vestra eru tvístígandi. Niðurstaðan verður sú sem jafnan, að þeir fá til langs tíma þá stjórnmálamenn, þingmenn og forseta, sem þeir eiga skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Venjulegar vífilengjur

Greinar

Þegar hin nýja stefnuskrá félagshyggjuflokkanna er skoðuð, þarf að hafa í huga, að slík gögn eru ekki lykilþáttur í lífi íslenzkra stjórnmálaflokka, enda hafa íslenzkir kjósendur almennt ekki miklar áhyggjur af mismun slíkra gagna og gerða flokkanna í valdastólum.

Sem dæmi má nefna, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins og fjölmargir óháðir kjósendur eru hjartanlega sáttir við, að flokkurinn styðji frjálsa og óhefta samkeppni í stefnuskrá, en vinni í ríkisstjórn að útgáfu sérleyfa, einkaleyfa og annarra fríðinda og forréttinda.

Almennt eru kjósendur ekki í hlutverki frjálsborins borgara, þegar þeir styðja stjórnmálaflokk, heldur í hlutverki fylgisveins. Þeir styðja flokk á sama hátt og þeir styðja fótboltafélag á borð við Manchester United, vilja að hann skori mörk og sé ekki í vífilengjum.

Í tilviki Sjálfstæðisflokksins er ekki einu sinni hægt að lesa úr stefnuskránni almenna staðsetningu flokksins í hinu pólitíska mynztri. Í gerðum annarra flokka hefur stundum og stundum ekki verið unnt að finna tón, sem minnir óljóst á texta í stefnuskrám þeirra.

Sameinaða félagshyggjuframboðið hefur vaðið fyrir neðan sig, þegar það vill ræða Evrópusambandið á kjörtímabilinu, en ekki ganga til liðs við það fyrr en að undangenginni skoðanakönnun. Þetta er heiðarleg yfirlýsing um, að framboðið sé ráðþrota í málinu.

Framboðið hefur líka vaðið fyrir neðan sig, þegar það segir Bandaríkjamenn sjálfa hafa áhuga á að losna frá Keflavíkurvelli og að styðja beri þá í slíkri viðleitni þeirra, þó með tilliti til atvinnuhagsmuna á Suðurnesjum. Með þessu vísar framboðið málinu frá sér.

Það er fáránlegt af bjálfa í Atlantshafsbandalaginu að nafni Klaus-Peter Klaiber og utanríkisráðherra Íslands að vera sammála um, að þetta feli í sér eitthvert endurvakið gegnherílandi. Þvert á móti er þetta eindreginn stuðningur við stefnu ríkisstjórnarflokkanna.

Utanríkisráðherra er bara að reyna að slá ókeypis keilur í pólitíkinni. En maðurinn frá NATÓ er tvíheimskur. Í fyrsta lagi skilur hann ekki umræðuefnið. Í öðru lagi kemur honum það ekki við. En við skiljum betur rækilegar ógöngur NATÓ í Bosníu og Kosovo.

Framboðið reynir að róa konur, sem ekki líta á sig sem eins konar fylgistúlkur Manchester United með því að kasta fram sérstöku jafnréttisráðuneyti og tólf mánaða fæðingarorlofi. Þegar til kastanna kemur, verður hvorugt loforðið efnt. Við skulum bara veðja.

Framboðið reynir að skilja á milli sín og annarra flokka svo og vinstri flokks Steingríms Sigfússonar með því að vilja láta taka gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Þetta kann að verða táknið, sem óháðir kjósendur muna eftir í kjörklefanum.

Framboðið reynir að slá vopnin úr höndum vinstri flokks Hjörleifs Guttormssonar með því að minna á skyldur ríkisins við Kyoto-bókunina, sem undirrituð hefur verið og kemur í veg fyrir geigvænlega stóriðju og frekari yfirgang Landsvirkjunar á hálendinu.

Auðvitað vill framboðið svo, að allir hafi það gott, séu á góðu kaupi, fái áfallahjálp á sjúkrahúsum og aðgang að sérstökum umboðsmanni sjúklinga, borgi ekkert fyrir menntun og fái félagslegar íbúðir. Það ætlar svo að kanna á næstunni, hvað góðviljinn muni kosta.

Samkvæmt fyrri reynslu er líklegt, að kjósendur taki hóflegt mark á öllu þessu. Helst er líklegt, að þeir staðnæmist við loforðið um auðlindaskattinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þakkað fyrir góðærið

Greinar

Kjósendur eru sáttir við ríkisstjórnina og telja sér vel borgið undir verndarvæng hennar. Góðærið er einkum þakkað Sjálfstæðisflokknum með hreinu meirihlutafylgi. Hvort tveggja kemur skýrt fram í skoðanakönnunum um fylgi stjórnmálaflokkanna og ríkisstjórnarinnar.

Meirihluti okkar hefur það gott og sér fram á bættan hag á næstu misserum. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst að meðaltali um 6,9% á síðasta ári og eykst um 8,3% á þessu ári. Samanlögð aukning þessara tveggja ára er 15,8%, þrefalt meiri en í viðskiptalöndum okkar.

Að baki þessa liggur mikill hagvöxtur, að meðaltali 4% á ári í hálfa öld, sem jafngildir 2,5% vexti á mann á ári. Síðustu tvö árin og á þessu ári er vöxturinn heldur meiri, um 5% á ári. Hagvextinum hefur verið veitt rækilega út í kaupið, svo að fólk er almennt ánægt.

Ísland er rétt ofan við mitt blað í fjölþjóðlegri skýrslu um samkeppnishæfni landa, í 19. sæti af 46 þróuðum löndum. Við búum við góðan mannauð og efnahag, svo og sveigjanleika í atvinnulífi, en stöndum okkur miður í vísindum og tækni, svo og í alþjóðavæðingu.

Það getur orðið langtímavandamál, hve lítinn áhuga stjórnvöld hafa á vísindum og tækni, þegar til kastanna og peninganna kemur, og hve andvíg þau eru aukinni þátttöku í evrópsku samstarfi. En kjósendur hafa ekki enn áttað sig á mikilvægi slíkra langtímamála.

Nærtækara vandamál felst í miklum og ört vaxandi halla á viðskiptum okkar við umheiminn. Fyrstu sex mánuðina í fyrra nam hallinn 3,3 milljörðum króna en komst upp í 24 milljarða króna sömu mánuði þessa árs. Þrátt fyrir mikil efni eyðum við um efni fram.

Góðæri feitu áranna er þannig ekki nægilega beitt til að safna til mögru áranna. Ábyrgari stjórnvöld mundu lagfæra ramma fjármála á þann hátt, að þeir hvettu fólk til að spara meira og eyða síður um efni fram. En kjósendur verðlauna ekki slíka ábyrgðartilfinningu.

Með auknum útgjöldum til vísinda og tækni, með aðild að Evrópusambandi og nýjum gjaldmiðli Evrópu, með skattareglum, sem hvetja til aukins sparnaðar, væri unnt að virkja góðærið enn betur til framtíðarheilla. En kjósendur sætta sig greinilega við stöðuna.

Enda er ástandið í stórum dráttum gott. Almenningur fær að taka fullan þátt í góðærinu og leyfir sér ýmsan nýjan lúxus. Atvinna er aftur orðin traust og áhyggjur manna út af framtíðinni eru því minni en þær voru fyrir nokkrum árum. Fólk lifir meira í deginum.

Við þessar aðstæður styðja kjósendur ríkisstjórnina og höfuðflokk hennar, Sjálfstæðisflokkinn. Eina truflunin, sem getur orðið á núverandi stöðu mála, er, að Framsóknarflokkurinn fari svo illa út úr kosningunum á næsta vori, að hann kenni stjórnarsamstarfinu um.

Eindregnasti stuðningsmaður núverandi stjórnarsamstarfs innan Framsóknarflokksins er formaðurinn sjálfur, fremur litlaus og alvörugefinn. Ef flokkurinn telur sér henta að tefla fram meira spennandi formanni, kann flokkurinn að halla sér að nýju til vinstri.

Flest bendir til, að samruni A-flokkanna muni ekki að sinni leiða til aukinna áhrifa þeirra í landsmálunum. Ef vinstri stjórn kemst á laggirnar eftir kosningarnar, verður það vegna innri mála Framsóknarflokksins, en ekki vegna hrifningar kjósenda á sameiningunni.

Í góðæri velja kjósendur óbreytt ástand af eðlilegum ástæðum. Þar sem ekki sér fyrir enda góðærisins, sér ekki heldur fyrir enda núverandi stjórnarsamstarfs.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir trufla gangverkið

Greinar

Heilbrigðisráðuneytið stendur í viðræðum við innlenda og erlenda aðila um stofnun lyfjaverksmiðju suður á Möltu og virðist stolt af því. Ráðuneytið lifir enn í gæludýraheimi, þar sem allt framtak, er máli skiptir, liggur um sali fullmektugra ráðuneytismanna.

Steininn tekur úr, þegar ráðuneyti, sem ekki getur rekið veikindageirann á Íslandi, hyggst styðja framtak í þriðja heiminum. Hagfræði nútímans hefur brenglazt verulega á leiðinni inn á Hlemmtorg, því að ríkisafskipti af atvinnulífi eru nú til dags yfirleitt talin til ills.

Hér á landi hefur markaðsbúskapurinn löngum verið brenglaður á þann hátt, að framtaksmenn hafa sumir hverjir haft meiri áhuga á að virkja aðstöðumun í ríkiskerfinu en að stunda samkeppni úti í kuldanum. DeCode Genetics er gott dæmi um slíkt brenglað framtak.

Í stað þess að sækja um ýmis einkaleyfi á jafnræðisgrundvelli almennra regla um verndun uppfinninga hér á landi sem annars staðar, svo og á grundvelli nýlegra Evrópureglna um verndun gagnagrunna, telur DeCode Genetics sig þurfa sérstök einkalög frá Alþingi.

Erlendis stofna menn lyfjaverksmiðjur eða koma á fót gagnagrunnum, ef þá langar til þess og geta fengið fjárfesta til liðs við sig. Þessir aðilar kanna markaðshorfur, en eru ekki að eyða tímanum í að reyna að afla sérstakra forréttinda, sérleyfa eða einokunar umfram aðra.

Til er opinber einkaleyfastofnun, sem starfar eins og hliðstæðar stofnanir á Vesturlöndum. Hún verndar uppfinningamenn og aðra eigendur hugmynda fyrir því um ákveðinn tíma, að uppfinningum þeirra og hugmyndum sé stolið. Hún er hluti af næturvörzlu ríkisvaldsins.

Ríkið á ekkert erindi í framtaki af neinu tagi. Hlutverk ríkisins er að vera næturvörður borgaranna, sjá um öryggi þeirra og setja almennar leikreglur, sem valda því, að allir vita, að hverju þeir ganga. Ríkið má ekki fyrir neinn mun hampa einum umfram aðra í framtaki.

Hlutverk og hlutverkaskipting ríkis og atvinnulífs eru skýr á Vesturlöndum. Hér á landi hefur hins vegar löngum borið á þeirri áráttu að leita skjóls hjá ríkinu, flýja úr kulda frjálsa markaðarins inn í hlýjuna hjá ráðuneytunum, sem geta gefið gæludýrum forréttindi.

Þannig hafa menn fengið einkarétt á að okra á framkvæmdum á Keflavíkurvelli, á farþegum í flugi og með áætlunarbílum, á notendum talsíma og svo framvegis. Vegna þrýstings frá umheiminum hefur slíkur einkaréttur undanfarið verið á undanhaldi hér á landi.

Innst inni vilja embættis- og stjórnmálamenn samt varðveita möguleika sína til að deila og drottna eins og í gamla daga. Þessi árátta er eins áberandi á vegum stjórnmálahreyfinga, sem þykjast vera málsvarar markaðshyggju, og hinna, sem kenna sig við félagshyggju.

Til dæmis er forsætisráðherra orðinn helzti baráttujaxl þeirrar stefnu að gefa DeCode Genetics sérstaka aðstöðu í skjóli ríkisins og stendur í því skyni í ofbeldishneigðum bréfasendingum til læknafélagsins. Hann er orðinn einn helzti fjandmaður markaðshyggjunar.

Á sama tíma er heilbrigðisráðherra að baða sig í þeim órum, að hún og ráðuneytið hafi eitthvað að leggja til lyfjaverksmiðju suður á Möltu, sem kemur íslenzkum veikinda- eða heilbrigðismálum ekkert við og á bara að vera hefðbundið áhættumál hins frjálsa markaðar.

Meðan kjósendur sætta sig við, að stjórnmálamenn trufli gangverkið með sérstökum forréttindum gæludýra, fáum við seint öflugan markaðsbúskap hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Bresnjev er upprisinn

Greinar

Þegar ævi Jevgenís Prímakovs er rakin, er þess sjaldan getið, að hann tók háskólapróf sitt í hagfræði. Samt talar enginn um, að hann beri hagfræðiþekkingu með sér í stól forsætisráðherra Rússlands. Enda var það hagfræði Sovétríkjanna sálugu, sem hann lærði.

Prímakov gekk snemma í kommúnistaflokk Sovétríkjanna og var þar félagi fram í andlát flokksins. Hann var handgenginn Bresnjev Sovétleiðtoga, gerðist yfirmaður leyniþjónustunnar alræmdu, KGB, og var jafnan einn mesti kaldastríðsmaður Sovétríkjanna.

Frá gamalli tíð og fram á þennan dag hefur Prímakov látið sig málefni Miðausturlanda miklu varða og verið þar Vesturlöndum óþægur ljár í þúfu. Hann hefur til dæmis haldið verndarhendi yfir Saddam Hussein Íraksforseta og stutt yfirgang hans á alþjóðavettvangi.

Þegar Prímakov tók við embætti utanríkisráðherra af Kósírev fyrir þremur árum, breyttust samskipti austurs og vesturs snögglega til hins verra. Á valdatíma Kósírevs var Rússland á hraðri ferð inn í samfélag vestrænna þjóða. Prímakov sneri blaðinu við, snöggt og hart.

Pólitísk og hernaðarleg samskipti Rússlands og Vesturlanda hafa frosið á valdatíma Prímakovs. Áheyrnaraðild Rússa að sumum stofnunum Atlantshafsbandalagsins hefur ekki leitt til nálgunar austurs og vesturs, heldur verið notuð í hefðbundnum njósnatilgangi.

Aðild Rússa að stórveldafundum um Kosovo hefur lamað tilraunir Vesturlanda til að hafa hemil á Milosevits Serbíuforingja, sem nýtur eindregins stuðnings Prímakovs. Endurtekning Bosníuhryllings í Kosovo fer fram í skjóli hins nýja forsætisráðherra Rússlands.

Prímakov hefur líka eindregið stutt ríkjasambandið við Hvíta-Rússland hins róttæka harðlínumanns Lúkasjenkos, sem er verri einræðisherra en flestir aðrir slíkir hafa verið í Austur-Evrópu. Óhætt er því að fullyrða, að ákveðið mynztur sé í gerðum Prímakovs.

Eins og venjulega reyna spunamenn vestrænna utanríkisráðuneyta að gera gott úr ógæfunni og telja sér og öðrum trú um, að Prímakov sé í rauninni bezti karl. Þeir stagast meira að segja á, að Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi sungið með honum dúett.

Eystrasaltslöndin eiga ekki von á góðu hjá Prímakov. Vesturlönd eru ekki heldur búin að bíta úr nálinni. Þau munu komast að raun um, að hinn nýi forsætisráðherra Rússlands reynir af öllum mætti að koma í veg fyrir, að áhugamál þeirra nái fram að ganga í heiminum.

Afskipti Prímakovs af umheiminum munu öll hníga í þá átt að gera líf fólks ótryggara og erfiðara og dýrara en það var áður. Allur hans stjórnmálaferill frá upphafi og fram á síðasta dag hefur haft að meginþema að verða Vesturlöndum til sem mestra vandræða.

Því miður verður Prímakov miklu valdameiri forsætisráðherra en fyrirrennarar hans hafa verið. Þeir sátu upp á náð og miskunn Jeltsíns forseta, sem hefur verið að missa völdin úr höndum sér á síðustu vikum. Prímakov er því ekki eins háður honum og hinir voru.

Það væri hrein sjálfseyðingarhvöt Vesturlanda að halda áfram að kasta peningum í Rússland á valdatíma Primakovs. Hann mun ekki nota peningana skynsamlega í efnahagsmálum, heldur mun hann nota þá til að grafa undan vestrænum áhrifum í heiminum.

Menn gera of lítið úr ótíðindunum, þegar þeir segja Prímakov bara vera fastan fyrir. Réttara er að segja, að nú sé Breshnjev upprisinn í mynd Prímakovs.

Jónas Kristjánsson

DV

Burt með rónann

Greinar

Efnahagur Rússlands er hruninn. Seðlabanki landsins hefur á aðeins hálfum mánuði látið prenta innistæðulausar rúblur fyrir að meintu verðgildi um 150 milljarða íslenzkra króna. Þetta jafngildir 17% rýrnun á verðgildi rúblunnar, sem er í frjálsu falli þessa dagana.

Ríkisvaldið hefur misst eigur sínar í hendur nokkurra auðhringa, sem neita að borga skatta og skyldur. Þess vegna getur ríkið ekki greitt starfsmönnum sínum laun og stendur andspænis mótmælaaðgerðum og uppþotum. Hungur sverfur að fólki, sem áður var bjargálna.

Auðhringafurstarnir ráða gerðum Jeltsíns forseta að mestu. Þeir vilja hafa Tsjernómyrdín sem forsætisráðherra, af því að hann kemur úr þeirra hópi og gætir hagsmuna þeirra. Þeir knúðu fram seðlaprentun til að fresta því, að bönkum í eigu þeirra yrði lokað.

Einkum vilja auðhringafurstarnir þó áfram hafa hálfdauðan róna sem forseta. Hann eyðir mestum hluta tímans í kojufyllirí í sumarhúsi sínu, en birtist einstaka sinnum í Moskvu til að rugla dæmið og reka ráðherra. Á meðan geta auðhringarnir makað krókinn.

Hrun vestræns hagskipulags í Rússlandi stafar ekki af því, að það henti ekki öðrum ríkjum en Vesturlöndum. Að vísu hefur komið í ljós, að kaþólsk austantjaldslönd eru mun fljótari að verða efnahagslega vestræn heldur en orþódox austantjaldslönd á borð við Rússland.

Hrunið stafar að nokkru leyti af, að of geyst var farið í kerfisbreytinguna, meðal annars að kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, svo og að ráði ýmissa bandarískra ráðgjafa, sem kallaðir voru austur, þegar Rússar ætluðu snögglega að verða vestrænir.

Í Rússlandi vantaði mikið af undirbyggingu vestræns hagkerfis. Það vantaði heiðarleikann í stjórnsýsluna, hálaunaða embættismenn, sem ekki láta múta sér. Það vantaði vestræna þjóðfélagsumræðu og vestrænt valdajafnvægi ýmissa geira þjóðfélagsins. Því fór, sem fór.

Ráðamenn Vesturlanda bera hluta ábyrgðarinnar. Þeir studdu of hraðar aðgerðir, sem leiddu til, að óheftur dólga- og mafíukapítalismi leysti miðstýringuna af hólmi. Þeir hafa jafnan sett traust sitt á Jeltsín forseta, sem er alveg óhæfur um að stjórna einu eða neinu.

Afdrifaríkastur hefur orðið stuðningur ráðamanna á Vesturlöndum við rónann á rúmstokknum. Þeir hafa ímyndað sér, að Jeltsín tryggði festu í siglingu Rússlands í átt til vestræns þjóðskipulags. Hann hefur hins vegar reynzt vera helzta hindrunin á þeirri siglingu.

Síðara kjörtímabil Jeltsíns forseta hefur verið samfelld harmsaga. Þjóðarhagur og þjóðarreisn hafa rústast svo gersamlega vegna stjórnleysis hans og yfirgangs auðhringafursta og annarra mafíósa, að löng bið verður á, að Rússland geti aftur farið að sigla í vesturátt.

Erfitt er að sjá glætu í þjóðmálum Rússlands. Þótt Tsjernómyrdín sé afleitur, eru þó verri þeir, sem sagðir eru munu leysa hann af hólmi, annað hvort Prímakov utanríkisráðherra, sem er andvígur öllu vestrænu, eða Lúzhkov Moskvuborgarstjóri, sem er hreinn mafíósi.

Í stöðunni kann að reynast bezt að leysa þingið upp og efna til nýrra kosninga. Nýtt þing verður þó ekki leiði-tamara forsetanum, sem er sjálfur stóra vandamálið í Rússlandi. Með nýju þingi rísa ný átök um skipun forsætisráðherra og önnur pólitísk ágreiningsefni.

Ekkert gerist af viti í málum Rússa fyrr en róninn hefur sagt af sér sem forseti. Þá fyrst geta þeir hafið langa og erfiða siglingu í átt til velsældar Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Frægðarhvalur

Greinar

Koma háhyrningsins Keikós til Vestmannaeyja er skemmtilegur gerningur í fásinninu. Hann er sumpart jákvæður, ef íslenzkir málsaðilar hafa vit á að forðast að taka ábyrgð á framtíð söguhetjunnar í nýjum heimkynnum, sem geta hæglega orðið henni að aldurtila.

Lætin út af einum háhyrningi eru merkileg. Fólk er frá sér numið, einkum vestanhafs, en einnig hér á landi. Unnvörpum hafa menn viljað fórna fjármunum sínum og fyrirhöfn í hugsjónina um að frelsa nafngreinda háhyrninga, hvort sem þeir heita Willy eða Keikó.

Margt þetta fólk hefur ekki lyft litla fingri og mun ekki gera það til að hjálpa unglingum í klóm fíkniefnaneyzlu eða til að draga úr hungrinu í heiminum, sem leiðir fimmtíu börn til bana á hverjum klukkutíma. Vandamál heimabyggðar eða heimsbyggðar heltaka ekki fólk.

Munurinn byggist einhvers staðar djúpt í torskilinni undirvitund fólks og magnast síðan við skipulega herferð ímyndar- og markaðsfræðinga, sem hafa gífurlegar tekjur af upphlaupi á borð við flutning Keikós. Sérfræðingarnir leika á undirvitund fólks eins og hljóðfæri.

Almenningur hefur ætíð verið hafður að ginningarfífli. Munur nútíma og fortíðar á því sviði er fyrst og fremst, að þekking og tækni loddaranna hefur aukizt mun hraðar en þekking og tækni fólks til að verjast þeim. Keikó er bara brot af þessum ójafna leik.

Við sjáum hvarvetna í kringum okkur, að vara og þjónusta er ekki lengur seld á eigin forsendum, heldur á grundvelli upphlaups í kringum ímyndaða afslætti, tryggðarsamninga, gerninga af ýmsu tagi, vörumerki á fatnaði íþróttafólks og svo framvegis endalaust.

Hlutverk frægðarfólks fer vaxandi í sölumennsku. Afreksmenn bera auglýsingar framan og aftan á sér. Þeir mæla með vöru og þjónustu, sem þeir hafa ekki hugmynd um hver er og nota raunar ekki sjálfir. Og leiðitamur almenningur vill endilega kaupa þessa vöru.

Heilu tímaritin eru gefin út um ekkert annað en meint líf frægðarfólks, félagslíf þess og ástalíf, gerninga og merkisdaga. Aðrir fjölmiðlar ljósvaka og pappírs fylgja í humátt á eftir. Þetta er óhjákvæmilegt, af því að það selur betur en fréttir af fíkniefnaneyzlu og hungri.

Keikó er kominn í tölu frægðarfólks. Hann er nafn, sem fólk hefur áhuga á, rétt eins og það hefur áhuga á Björk og Davíð Oddssyni. Nafnlaus fíkniefnaunglingur í miðbænum og nafnlaust hungurbarn í Afríku eru hins vegar ekki í fókus. Það er Keikó, sem skiptir máli.

Pólitíkin dregur ekki síður dám af þessu. Þannig ræðst framtíð hvalveiða Íslendinga ekki af rannsóknum, sem sýna fram á, að stofnarnir þola töluverða veiði. Hún ræðst ekki heldur af rannsóknum, sem sýna fram á, að enn meiri tekjur er að hafa af hvalaskoðun.

Skoðanakannanir sýndu til skamms tíma, að Íslendingar vildu vekja upp hvalveiðar, þótt þær mundu stefna útflutningi sjávarafurða í mikinn háska og spilla tekjum af hvalaskoðun. Afstaða þjóðarinnar með hvalveiðum byggðist ekki á rökum, heldur tilfinningum einum.

Sama er uppi á teningnum, þegar Keikó er kominn til Íslands og fólk snýr við blaðinu. Það er ekki reikningsdæmi, heldur frægðarhvalur í Eyjum, sem veldur því, að fólk leggst gegn hvalveiðum. Keikó framkallar tilfinningar sem hindra endurnýjun íslenzkra hvalveiða.

Þótt niðurstaðan kunni að vera rétt, er forsendan röng. Sorglegt er, að fagmannlega markaðssettur tízkuhvalur skuli stjórna mikilvægri ákvörðun í lífi þjóðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Teknir í nefið

Greinar

Íslenzkur forstjóri erfðafyrirtækis í Delaware tók forsætisráðherra okkar í nefið í fyrravetur og fékk honum í hendur frumvarp til að láta Alþingi samþykkja. Ef forsætisráðherra hefði þá þegar vitað um, að þjóðin vildi líka láta taka sig í nefið, væri frumvarpið orðið að lögum.

Skoðanakönnun DV um meirihlutastuðning þjóðarinnar við lagafrumvarp deCode Genetics birtist eftir að Alþingi hafði ákveðið að fresta málinu til hausts og endurskoða það í millitíðinni. Sú endurskoðun hefur farið fram og frumvarpið er orðið illskárra en það var.

Mikil umræða hefur farið fram um málið. Er óhætt að segja, að höfundar og stuðningsmenn frumvarpsins hafa tapað þessari umræðu í nánast öllum atriðum, sem máli skipta. Samt verður frumvarpið að lögum, af því að forsætisráðherra og þjóðin vilja láta taka sig í nefið.

Upplýst er, að það er fyrirtæki í Delaware, sem fær einkaleyfið. Forstjóri þess hefur lýst áhuga á að flytja það til Íslands til að friða gagnrýnendur fram yfir afgreiðslu Alþingis. Þegar einkaleyfið er komið í höfn, mun hann finna út, að annmarkar séu á slíku.

Upplýst er, að úrelt er að veita einkaleyfi á þessum tímum samkeppnishugsjóna. Ef verið væri að stofna Áfengisverzlun ríkisins eða Íslenzka aðalverktaka núna, mundu fyrirtækin engin einkaleyfi fá. Einkaleyfi í höndum deCode Genetics er hrapalleg tímaskekkja.

Þótt fyrrum væri talið hagkvæmt að veita einkaleyfi í fiskútflutningi til að halda uppi verði í útlöndum, þykir slíkt ekki hagkvæmt lengur. Þótt svo væri, mundi hagfræði nútímans segja okkur, að slíkt einkaleyfi eigi ekki að gefa, heldur leigja þeim, sem bezt býður.

Upplýst er, að persónuverndar er ekki gætt í málamiðlunarfrumvarpinu. Menn verða sjálfir að hafa frumkvæði að því að banna notkun upplýsinga um sig. Látið fólk getur ekki haft slíkt frumkvæði. Upplýsingar um látið fólk geta síðan skaðað lifandi afkomendur þess.

Forsætisráðherra og ýmsir fleiri hafa skýrt frá, að fyrir nokkrum áratugum og raunar til skamms tíma hafi persónulegar upplýsingar um fólk legið á glámbekk í heilbrigðisstofnunum. Þetta virðist hugsað sem röksemd fyrir því, að ekki þurfi að gæta slíkra upplýsinga nú.

Þetta er svipað og að segja, að úr því að Landsvirkjun hafi áður eyðilagt Hágönguhveri, megi hún líka eyðileggja Eyjabakka og Þjórsárver. Upplýsingar um, að hlutir hafi ekki verið í lagi áður, geta aldrei orðið forsenda þess, að þeir megi ekki heldur vera í lagi framvegis.

Ekki má heldur gleyma, að stakar og ótengdar upplýsingar gamla tímans hafa ekki skapað neina hættu á borð við þá, sem stafar af krosstengdum upplýsingum. Því meira sem ólíkar upplýsingar eru sameinaðar og gerðar miðlægar, þeim mun meiri líkur eru á misnotkun.

Þótt frumvarpið sé enn meingallað frá sjónarmiði vestrænnar hagfræði og vestrænnar persónuverndar, verður það að lögum í vetur, af því að austrænt þenkjandi forsætisráðherra, þægur meirihluti Alþingis og heimskur meirihluti þjóðarinnar vilja láta taka sig í nefið.

Menn fagna því, að forsætisráðherra hefur sent læknum eitt hinna frægu bréfa sinna í stíl þeirra, sem hann hafði áður sent Sverri Hermannssyni og Heimi Steinssyni. Þetta er sá stjórnunarstíll, sem þrælaþjóðin hefur ákveðið, að henti stöðu sinni í þróunarstiganum.

Allt er þetta auðvitað samkvæmt leikreglum. Ef nógu margir vilja láta taka sig í nefið, þá eru þeir teknir í nefið og draga hina með sér, sem sjá blekkinguna.

Jónas Kristjánsson

DV

Húnaþing og Austurríki

Greinar

Reykvíkingar voru heppnir, að örnefndanefnd var ekki til, þegar nafn borgarinnar var valið á síðustu öld. Nafn hennar endar á “vík”, sem ekki er frambærileg ending á byggðarnafni að mati nefndarinnar, sem hefur amast við ýmsum nöfnum á sameinuðum byggðum.

Auk þess er Reykjavík stærri en sem nemur gamla örnefninu. Borgin hefur lengi náð til jarða á borð við Laugarnes og Korpúlfsstaði og nær nú einnig til jarða á borð við Brautarholt og Saurbæ á Kjalarnesi. Hún ætti eiginlega að heita Reykjavíkurognágrennisborg.

Svipuð er gæfa Kópavogsbúa og annarra, sem búa á stöðum, þar sem örnefndanefnd hefur ekki fengið að ráða nafngiftum. Verri er kostur Hvergerðinga, sem búa við vegpresta, sem vísa á “Hveragerðisbæ”, og annarra, sem hafa talið sig þurfa að hlíta sérvizku nefndarinnar.

Engin ástæða er til að slengja endingum á borð við sveit, bæ og borg aftan við heiti sameinaðra sveitarfélaga til að sýna fram á, að þau séu sveitarfélög, en ekki eitthvað annað. Engin ástæða er heldur til að gera harðar kröfur um nákvæmni í örnefnastöðu byggðanna.

Reykjavíkurborg er sjaldséð samheiti á opinberum skrifstofum borgarinnar og Kópavogskaupstaður er enn sjaldgæfara samheiti á opinberum skrifstofum kaupstaðarins. Langyrði af slíku tagi festast yfirleitt ekki í sessi og víkja fyrir því, sem lipurt er að nota í tali.

Ástæðulaust er fyrir þau sveitarfélög, sem sameinuð hafa verið undanfarin misseri, að taka athugasemdir örnefndanefndar bókstaflega. Það er fornleg sérvitringanefnd, sem er illa í stakk búin að veita leiðsögn um nöfn á nýjum fyrirbærum í byggðaþróun þjóðarinnar.

Húnaþing er frábært nafn á sameinuðum hreppum Vestur-Húnavatnssýslu, sem örnefndanefnd hefur hafnað. Ef Austur-Húnvetningar bera einhvern tíma gæfu til að sameinast, geta þeir kallað sig Húnabyggð. Vestur-Húnvetningar voru á undan og hafa fyrsta val.

Austurríki er ekki síður frábært nafn á sameinuðu sveitarfélagi Norðfirðinga, Eskfirðinga og Reyðfirðinga. Því hefur skotið upp í daglegu tali, sem er jafnan góðs viti um langlífi ólöggiltra heita. Auk þess er kostur, að sveitarfélag skeri sig úr öðrum í vali á enda nafns.

Árborg er frambærilegt nafn á sameinuðu sveitarfélagi Selfyssinga, Eyrbekkinga, Stokkseyringa og nágranna, þótt Flói hefði sem gamalt heiti á svæðinu verið djarfara og styttra val. Það eru embættismenn, sem hafa talað um Árborgarsvæðið, þegar þeir meina Flóann.

Örnefndanefnd er komin í verri ógöngur en mannanafnanefnd, sem þó hefur þrengra hlutverk, er felst í að gæta hagsmuna íslenzkrar tungu og hagsmuna þolenda nafngifta. Vandi örnefnanefndar væri nægur, þótt hann takmarkaðist við þess konar atriði.

Nöfn eins og Húnaþing, Austurríki og Árborg stríða hvorki gegn hagsmunum íslenzkrar tungu né hagsmunum þolenda nafnanna, fólksins í byggðunum. Ekki er ástæða til að hafa sérstaka nefnd til að amast við öðrum ágreiningsefnum í nöfnum nýrra sveitarfélaga.

Meðan lög og reglur gera ráð fyrir, að nöfn nýrra sveitarfélaga séu borin undir örnefndanefnd, er skynsamlegt að gera ráð fyrir, að um mistök sé að ræða, sem ástæðulaust sé að taka alvarlega. Síðan ber að afnema afskipti örnefndanefndar af nafngiftum nýrra sveitarfélaga.

Hraklegast er þetta mál fyrir örnefnanefnd, sem er ágæt til síns brúks, en er eins og fiskur á þurru landi, þegar hún fjallar um Húnaþing og Austurríki.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitískur flagari

Greinar

Clinton Bandaríkjaforseti er jafn hæfur eða óhæfur til að vera forseti Bandaríkjanna, þótt hann hafi haldið framhjá í einkalífinu einu sinni eða oftar eða hvenær sem færi hefur gefizt. Slíkt gerðu forsetarnir Kennedy og Johnson og voru ekki verri forsetar fyrir það.

Kvennaflagarar geta nýtzt sem pólitíkusar, þótt þeir séu leiðinlegir og vanþroskaðir sem persónur og gersamlega óhæfir sem eiginmenn og fjölskyldufeður. Þótt segja megi allt þetta um Clinton, er ekki sjálfgefið án nánari skoðunar, að hann geti ekki verið forseti.

Það gildir þó um forsetann fremur en um aðra flagara, að sá þáttur persónuleika hans hefur einkennt pólitíska hegðun hans allan stjórnmálaferil hans. Hann hefur sí og æ komizt í siðferðileg vandræði og þjálfað með sér slípaða tækni við að kjafta sig út úr þeim.

Clinton er mikill samskiptatæknir. Hann á auðvelt með að tala fólk til, hvort sem það eru lagskonur eða kjósendur. Hann hefur smám saman talið sér trú um, að sér séu allir vegir færir, hann geti með heiðarlegum svip og liðugu tali logið sig út úr hvaða klípu sem er.

Rannsóknin á meintu misferli forsetans hefur varpað kastljósi á vanþroska forsetans. Hann hefur frá upphafi ferils síns hvað eftir annað lent í vandræðum í einkalífi, í fjármálabraski og í stjórnmálum. Hann hefur sloppið fyrir horn og ekki látið segjast af reynslunni.

Rannsóknin hefur líka varpað kastljósi á frjálslega umgengni Clintons við sannleikann. Honum finnst nóg að reyna að sýna fram á, að tæknilega séð hafi hann ekki farið með ósannindi, þótt ljóst sé, að hann hafi hagrætt sannleikanum til að leiða fólk á villigötur.

Forsetinn hefur reynzt vera langþjálfaður lygalaupur, sem gerir hárfínan og jafnvel lögfræðilegan greinarmun á hreinni lygi annars vegar og hins vegar tilraunum sínum til að komast út úr fjölmörgum persónulegum, peningalegum og pólitískum vanda á lífsleiðinni.

Sem flagari í pólitík og einkamálum er Clinton orðinn að fíkli, sem hvað eftir annað kastar sér út í siðferðileg vandræði af hroka þess, sem telur sig geta kjaftað sig út úr öllum vanda. Hann er flagarafíkill eins og sumir aðrir eru áfengisfíklar, spilafíklar eða kynfíklar.

Nú er allur ferillinn að koma í ljós og taka á sig heilsteypta hryllingsmynd. Forsetinn hefur logið að vinnufélögum sínum, meira að vinum sínum og mest að fjölskyldu sinni. Öllum þessum varð málið ljóst, þegar hann flutti lélegt sjónvarpsávarp sitt á þriðjudaginn.

Ávarpið sýndi líka, að Clinton hefur enn ekkert lært. Hann er enn að fegra hlutina og leita tæknilegra leiða til að villa um fyrir fólki án þess að ljúga beint. Afsökunarbeiðni hans var því gersamlega hol, ein af mörgum áhættum sem flagarinn hefur tekið sem fíkill.

Málið er nú í höndum bandarísku þjóðarinnar, sem hingað til hefur reynzt auðtrúa og haldið tryggð við forsetann eins og konurnar halda gjarna tryggð við flagarann. Andvaralaus hefur hún leyft hinum pólitíska flagara að kjafta sig í tvígang inn í Hvíta húsið.

Sem forseti hefur Clinton haldið mynztri flagarans. Hann stjórnar fáu og snýst eftir vindum hverju sinni, hvort sem þeir koma frá skoðanakönnunum eða álitsgjöfum í umhverfi hans. Markmið flagarans er eitt: Vera vinsæll og halda áfram að vera vinsæll.

Fólk hefur fengið færi að sjá, að ekki er nóg, að menn séu bláeygir og heiðarlegir á svip, einlægir og liðugir í tali, til þess að óhætt sé að fela þeim æðstu völd.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrjú lögmál einkavæðingar

Greinar

Þrjú grundvallaratriði þarf að hafa í huga, þegar opinberar stofnanir, aðstaða eða fyrirtæki eru seld eða afhent, hvort sem um er að ræða banka eða sjúkraskýrslur, póstþjónustu eða mjölverksmiðjur. Þessi einföldu atriði hafa ekki verið höfð í heiðri hér á landi.

Í fyrsta lagi þarf að tryggja, að einokun, sem oft tengist ríkisrekstri, sé ekki flutt yfir á markaðinn við söluna. Einkavædd einokunarfyrirtæki hækka verð á þjónustu sinni, svo sem enn einu sinni kom í ljós við myndun einokunarfyrirtækisins Bifreiðaskoðunar Íslands.

Þegar fáokunarfyrirtæki á borð við ríkisbankana eru sett á hlutafjármarkað, þarf að haga sölunni á þann veg, að samkeppni aukist frekar en að bönkum fækki. Þess vegna er hættulegt að selja Búnaðarbankann á þann hátt, að eftir sitji Landsbanki og Íslandsbanki.

Fáránlegast af öllu fáránlegu er að búa til nýja einokunaraðstöðu fyrir erlent vildarfyrirtæki og gefa því beinlínis aðstöðuna, svo sem gert er ráð fyrir í lagafrumvarpi um miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála í einkahöndum fyrirtækis í Delaware í Bandaríkjunum.

Í öðru lagi þarf að hámarka tekjurnar af sölu ríkiseigna. Það gerist ekki með því að reikna út, að einn Búnaðarbanki eigi að kosta 10 milljarða króna og að einn miðlægur gagnagrunnur heilbrigðismála sé 20 milljarða króna virði og nota síðan þá útreikninga við söluna.

Útreikningar eru ágætir til að spá í spilin, en geta ekki komið í stað útboðs, er leyfir markaðinum að ákveða, hvert sé markaðsvirði þess, sem verið er að selja. Það er grundvallarlögmál núgildandi markaðs-hagfræði, að markaðurinn einn getur ákveðið verðgildi hluta.

Við útboð þarf að haga málum þannig, að hvatt sé til sem hæstra tilboða. Það er gert með því að meta, hvaða útboðsstærðir og útboðsskilmálar henti bezt á ýmiss konar markaði. Þannig má til dæmis bjóða út ríkisbanka sumpart í stórum og sumpart í litlum einingum.

Það glæðir kaupvilja almennings, ef gefinn er kostur á að bjóða í lítið magn hlutabréfa og það glæðir kaupvilja fagfjárfesta, ef einnig er gefinn kostur á að bjóða í stóra pakka, sem gefa von um áhrif á stjórn fyrirtækisins. Útboð séu þannig samræmd ýmsum aðstæðum.

Í þriðja lagi þarf að nota tekjur af sölu ríkiseigna til að minnka skuldir ríkisins, en ekki til daglegra rekstrarþarfa þess. Eignir eiga að koma á móti skuldum eins og rekstrartekjur eiga að koma á móti rekstrargjöldum. Ekki má spilla höfuðstólnum í bókhaldi ríkisins.

Þetta er sérstaklega mikilvægt, þegar seld eru stór fyrirtæki á borð við banka eða landssíma, þar sem milljarðar og jafnvel tugir milljarða eru í húfi. Slíkum summum má ekki hleypa út í daglega veltu ríkissjóðs, heldur nota þær að fullu til að minnka langtímaskuldir hans.

Því miður eru horfur á, að tekjur af fyrirhugaðri sölu hlutafjár í ríkisbönkum muni að hluta verða notaðar til að lina rekstrarþjáningar líðandi stundar hjá ríkissjóði í stað þess að nota þær að fullu til að minnka skuldir hans. Þetta er algengt vandamál í þriðja heims ríkjum.

Við sölu ríkiseigna hefur þessara þriggja meginsjónarmiða hingað til ekki verið gætt sem skyldi. Engin teikn eru á lofti um, að þeirra verði betur gætt við fyrirhugaða sölu og annað framsal ríkiseigna. Beztu dæmin um það eru sjúkraskýrslurnar og bankarnir.

Svona stórar ákvarðanir má alls ekki taka án þess að byggja algerlega á almennt viðurkenndum hagfræðilögmálum, sem eru hornsteinar vestrænna hagkerfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Forseta ber að forðast deilur

Greinar

Sem forseti Íslands gagnrýndi Vigdís Finnbogadóttir ráðamenn frjálsu kvennaráðstefnunnar í Kína fyrir þremur árum fyrir að setja Kínastjórn úrslitakosti um að fara að reglum Sameinuðu þjóðanna um slíkar ráðstefnur. Forsetinn taldi þetta vera stríðsyfirlýsingu.

Þessi gagnrýni forsetans var röng og bar vitni um dómgreindarbrest, enda var hún gagnrýnd í leiðara þessa blaðs og víðar. Forsetinn hafði gengið fram fyrir skjöldu í viðkvæmu deilumáli á alþjóðavettvangi og lagt lóð sitt á vogarskál gegn mannréttindum.

Forseti Íslands var á þessum tíma aðili að víðtækum undirlægjuhætti ráðamanna á Íslandi gagnvart Kínastjórn, þar sem í fararbroddi voru þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra okkar. Þá höfðu menn fengið glýju í augun af stærð og veldi Kína.

Afskipti þáverandi forseta Íslands af kvennaráðstefnunni í Kína mörkuðu þáttaskil í viðhorfum til hennar sem forseta. Sumir, sem jafnan höfðu stutt kosningu og endurkosningu hennar, sögðu, að nú væri hún búin að sitja of lengi. Enda bauð hún sig ekki fram aftur.

Nú hefur nýr forseti gengið fram fyrir skjöldu í viðkvæmu deilumáli um Íslenzka erfðagreiningu. Á Hólahátíð þjóðkirkjunnar á sunnudaginn sagði Ólafur Ragnar Grímsson frumvarp ríkisstjórnarinnar um einkarétt þess fyrirtækis vera “þröngt og ófært einstigi”.

Fyrrverandi forseti fór í slaginn til stuðnings valdhöfum okkar, en núverandi forseti fer í hann gegn valdhöfunum. Fyrrverandi forseti hafði efnislega rangt fyrir sér, en núverandi forseti hefur efnislega rétt fyrir sér. Að öðru leyti eru málin af svipuðum toga.

Til langs tíma er skaðlegt, að sjálft sameiningartákn þjóðarinnar taki þátt í umræðu um viðkvæm deilumál, hvort sem þeir hafa rétt eða rangt fyrir sér og hvort sem þeir styðja valdhafana eða ganga gegn þeim. Slík málsaðild skaðar stöðu forsetans í þjóðfélaginu.

Auðvelt var að komast að þessari niðurstöðu á sínum tíma, þegar forsetinn var hlaupinn í björg með tröllum. Það er erfiðara nú, þegar forsetinn er að vara okkur við tröllunum. Eigi að síður verður að hafna aðstoð forsetans í frumvarpsmáli Íslenzkrar erfðagreiningar.

Þetta er ekki spurning um, hver hafi vald á málinu og hver ekki. Óumdeilanlegt er, að við búum við þingstýrt ráðherralýðræði, þar sem forsetinn tekur engar ákvarðanir, sem máli skipta. Þetta er spurning um, hvort forsetinn geti verið þátttakandi í opinberri umræðu.

Fyrstu forsetar Íslands gættu þess vel að halda einingu um embættisfærslu sína með því að lýsa ekki persónulegum skoðunum á umdeildum málum. Afskipti fyrrverandi forseta af kvennaráðstefnunni í Kína voru alger og óskiljanleg undantekning frá þeirri reglu.

Núverandi forseti hefur áður þreifað á þátttöku í opinberri umræðu, meðal annars með því að hvetja til aukinna útgjalda til vegagerðar í Barðastrandarsýslu. Nú hefur hann stigið skrefinu lengra og er kominn á miðjan vígvöll helzta ágreiningsefnis þjóðarinnar.

Verst er fordæmisgildið. Með því að bjóða ágreining um embættisfærslu forsetans er verið að breyta því í framtíðinni, hverjir sækist eftir embætti forsetans og hvernig þeir gegni því. Það er til langs tíma verið að gera embættið pólitískara en það hefur verið.

Þótt þjóðin vilji nú samkvæmt skoðanakönnunum hlaupast í björg með tröllum, er það ekki hlutverk forsetans að snúa henni á slóðina til byggða.

Jónas Kristjánsson

DV