Greinar

Einkaleyfi og útboð

Greinar

Liðin er sú tíð, að einu fyrirtæki var gefið einkaleyfi á smásölu mjólkur og mjólkurvöru í Reykjavík. Þessi kreppuarfur var lagður niður, þegar hversdagsleg hagfræði hélt innreið sína í þjóðmálin og menn áttuðu sig á, að einkaleyfi eru þjóðhagslega óhagkvæm.

Þannig hafa einkaleyfi í farþegaflugi verið lögð niður, bæði innanlands og milli landa. Afnám þeirra var enn harðsóttara en í mjólkinni, því að stjórnmálamenn allra flokka gættu hópum saman sérhagsmuna einkaleyfishafans og neituðu að gæta almannahagsmuna.

Enn eru til leifar einkaleyfa. Til dæmis eru sérleyfi veitt til fólksflutninga með áætlunarbílum, þótt hagfræðin segi, að þau leiði til hærri fargjalda. Slík sérleyfi yrðu aldrei tekin upp nú á tímum, en skrimta enn, af því að erfitt er að losna við gamla hagsmunagæzlu.

Stundum hafa fjölþjóðlegir samningar og samtök komið íslenzkum almannahagsmunum til hjálpar gegn sérhagsmunum. Þannig neyddust ráðamenn þjóðarinnar til að afnema einkaleyfi í farþegaflugi og þannig verður barizt gegn einkaleyfi Íslenzkrar erfðagreiningar.

Einkaleyfum er stundum skipt upp milli margra aðila eftir ákveðnum reglum. Sérleyfi áætlunarbíla og leigubíla eru gömul dæmi um það. Þekktasta dæmið er kvótinn í sjávarútvegi, þar sem auðlindum hafsins var skipt upp og þær gefnar þröngum hópi útgerðarfyrirtækja.

Innan ýmissa stjórnmálaflokka er vaxandi andstaða við þetta framsal auðlinda, stofnuð hafa verið samtök gegn því og boðað nýtt stjórnmálaafl með andstöðu við kvótann að hornsteini. Engum blöðum er um að fletta, að einkaleyfi kvótakerfisins á í vök að verjast.

Svo snýst dæmið snögglega við. Ráðamenn þjóðarinnar hafa ákveðið að gefa afkvæmi bandarísks fyrirtækis einkaleyfi til að reka miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála. Þar á ofan gerist það enn furðulegra, að almenningur styður gjöfina samkvæmt skoðanakönnun.

Þetta einkaleyfi er í ætt við hin gömlu og úreltu einkaleyfi, sem rakin voru hér að ofan og jafngildir því, að ríkið taki upp afturhvarf til fortíðar og veiti til dæmis einum aðila einkaleyfi til rekstrar útvarps og sjónvarps. Enda stenzt einkaleyfið tæpast fjölþjóðareglur.

Einkaleyfi Íslenzkrar erfðagreiningar er óskylt einkaleyfum þeim, sem uppfinningamenn geta sótt um hjá þar til gerðum einkaleyfastofum hins opinbera. Íslenzk erfðagreining hefur ekki sótt um einkaleyfi af því tagi, enda er ekki um neina uppfinningu að ræða.

Ef ráðamenn þjóðarinnar telja, að veiting einkaleyfis geri miðlægan gagnagrunn heilbrigðismála verðmætari en ella, geta þeir reynt að bjóða út leyfið og afhent þeim, sem bezt býður. Það er algild aðferð markaðshagkerfisins til að finna, hvert sé verðgildi hlutanna.

Útboð eru eina hagfræðilega rétta aðferðin til að finna hversu verðmætar ríkis- eða þjóðareigur eru. Þannig er skynsamlegt að bjóða út veiðikvótann og gagnagrunninn, svo og að haga útboðsreglum þannig, að sem allra flestir geti boðið í hann sem allra hæst verð.

Hitt er svo annað mál, hvort ríkið á það, sem það hyggst gefa gæludýri sínu frá Delaware í Bandaríkjunum, en ætti að bjóða út. Samkvæmt lögum frá í fyrra eiga sjúklingar upplýsingar í sjúkraskrám sínum, en ekki hinar opinberu stofnanir, sem geyma skrárnar.

Sé um að ræða verðmæta eign, sem ríkið má ráðskast með, er ekkert vit í öðru en að efna til útboðs gagnagrunnsins á þann hátt, að sem allra hæst tilboð berist.

Jónas Kristjánsson

DV

Aukið afskiptaleysi

Greinar

Vaxandi afskiptaleysi fólks af slysum og ofbeldisverkum er angi breytinga á þjóðfélaginu, ein af skuggahliðum þess, að ópersónulegt þéttbýlissamfélag leysir persónulegt strjálbýlissamfélag af hólmi. Í stað þess að allir skipti sér af öllum, skiptir enginn sér af neinum.

Sama fólkið hagar sér á misjafnan hátt eftir því, hvort það er statt í fjölmenni eða í fámenni. Fólk kemur öðrum til hjálpar í einrúmi, en lætur kyrrt liggja, ef það sér aðra verða vitni að sams konar atburðum. Fálætið er ekki innbyggt, heldur fer oft eftir aðstæðum hverju sinni.

Hætta er á ferðum, þegar glæpamenn gera ráð fyrir að geta stundað fíkniefnasölu eða ofbeldi í fjölmenni án afskipta annarra aðila. Þegar samhjálp borgaranna fer að bila, er hætt við, að glæpahringir taki völd á þeim svæðum, þar sem afskiptaleysi almennings er mest.

Til að hamla gegn glæpum í fátækrahverfum erlendis hefur með góðum árangri verið gripið til þess ráðs að útvega eftirlaunafólki íbúðir með góðu útsýni yfir götur. Fíkniefnasala og ofbeldi á erfiðar uppdráttar í umhverfi, þar sem borgarar vaka hver yfir hagsmunum annars.

Löggæzlumenn og sveitarstjórnir geta hvatt til samstarfs fólks um nágrannavörzlu á viðkvæmum stöðum og kennt fólki að láta lögregluna vita símleiðis án þess að leggja sjálft sig í hættu. Útbreidd notkun þráðlausra síma auðveldar slíka nágrannavörzlu.

Þetta nær svipuðum árangri og myndavélar, sem settar hafa verið og settar verða upp á afbrotasvæðum miðborga, þar sem lítið er um, að fólk á bak við glugga verði vitni að atburðum. Þjóðfélagið verður að halda uppi slíkum vörnum á tímum vaxandi ópersónuleika.

Ekki eru allir reiðubúnir að bretta upp ermar og lenda í átökum. Með áróðri má hvetja vegfarendur til að nota bílsíma og gemsa til að koma upplýsingum á framfæri við rétta aðila, án þess að fólk leggi sig sjálft í hættu við að hafa bein afskipti af atburðum, sem það sér.

Erlendis gengur flóttinn inn í afskiptaleysið sums staðar svo langt, að efnafólk reisir sér heimili í afgirtum hverfum með varðmönnum og sækir vinnu í afgirta skrifstofuturna með varðmönnum, en innri og fátækari borgarhverfi lúta óformlegri stjórn glæpamanna.

Þjóðfélagsbreytingar kalla á aukna fræðslu um skyldur borgaranna hver við annan. Foreldrar, sem aldir eru upp í annars konar þjóðfélagi, eru margir hverjir vanbúnir að fræða börn sín um þetta. Skólakerfið hefur ekki áttað sig á þessari nýju þörf, en getur gert það.

Skyldur borgara hver við annan ná lengra en til nauðsynlegustu varna gegn útbreiðslu ofbeldis og annarrar lögleysu. Borgaralegt þjóðfélag leggur líka þær skyldur á herðar öllum, að þeir hafi almennt afskipti af öðrum málum en sínum eigin, þar á meðal pólitískum.

Lýðræðiskerfi nútímans stenzt ekki til lengdar, ef afskiptaleysi þéttbýlisins heldur innreið sína í stjórnmálin. Ef menn hætta að líta á það sem skyldu sína að hafa afskipti af opinberum málum, taka mafíósar völdin í pólitíkinni eins og á götum fátækrahverfa.

Áhuga- og afskiptaleysi af opinberum málum, öðrum en hreinni hagsmunagæzlu, fer vaxandi meðal ungs fólks. Minna en áður er um, að ungt fólk reyni að bæta umheiminn, en meira um, að það reyni að laga sig að ytri aðstæðum eins og þær eru hverju sinni.

Eitt af lykilorðum nútímans er afskiptaleysi, afleiðing breyttra þjóðfélagshátta, en ekki endilega óhjákvæmileg afleiðing þeirra, ef vörnum verður við komið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekkert lært endalaust

Greinar

Vesturveldin hafa í þrítugasta skipti á þessu ári sagt Milosevic Serbaforingja, að yfirgangur hans í Kosovo verði ekki þolaður, rétt eins og þau sögðu honum þrjú hundruð sinnum, að yfirgangur hans í Bosníu yrði ekki þolaður. Þetta voru og eru hótanir án innihalds.

Vesturveldin hafa í tíunda skipti á þessu ári sagt Milosevic, að hann megi búast við hernaðaríhlutun vegna yfirgangs hans í Kosovo, rétt eins og þau sögðu honum hundrað sinnum, að hann mætti búast við hernaðaríhlutun vegna yfirgangs hans í Bosníu.

Þegar hernaður Serbaforingjans hófst í Kosovo, sögðu fulltrúar Vesturveldanna, að þeir hefðu lært af reynslunni frá Bosníu og mundu grípa í taumana, áður en af hlytust stríðsglæpir og þjóðarmorð. Þrátt fyrir þessa fullyrðingu hafa þeir ekkert lært af reynslunni.

Það er grundvallaratriði í ágreiningi ríkja eins og fólks yfirleitt, að innihaldslausar hótanir duga í mesta lagi einu sinni eða tvisvar, en verða síðan ekki bara gagnslausar með öllu, heldur verri en engar. Slík eru einmitt áhrif sífelldra hótana í garð Serbaforingjans.

Full reynsla er fyrir því, að Milosevic gengur jafnan fram á yztu nöf. Full reynsla er fyrir því, að hann lítur á eftirgjafir af hálfu viðsemjenda sinna sem ávísun á að stíga feti framar. Samskipti við hann eru að þessu leyti mjög svipuð samskiptum við Íraksforingja.

Samskipti Vesturveldanna við Serbíu eru gott dæmi um almennan greindarskort í utanríkisþjónustu og hernaðarstjórn vestrænna ríkja og samtaka þeirra, svo sem Atlantshafsbandalagsins. Þessir aðilar hafa árum saman verið úti að aka og ekkert lært af reynslunni.

Í rauninni eru hótanir hinna greindarskertu fyrst og fremst misheppnuð tilraun til að friða fólk heima fyrir, þar sem almenningur hefur lesið í blöðum um og horft í sjónvarpi á voðaverk Serbaforingjans og manna hanns, fyrst í Króatíu, síðan í Bosníu og loks í Kosovo.

Vesturveldin þurfa að gera upp við sig, hvort þau hafa bein í nefinu til að standa við hótanir sínar. Ef þau hafa það ekki, eiga þau að láta Milosevic í friði og ekki reyna að telja ofsóttu og brottreknu fólki trú um, að einhverrar hjálpar sé að vænta frá lýðræðisríkjum vestursins.

Milosevic stjórnar bláfátækri þjóð, sem býr af hans völdum við þrengri kost með hverju árinu. Til að dreifa huga fólksins frá bágindum þess beitir hann þjóðernislegum órum um Stór-Serbíu og hefndir fyrir meintar misgerðir Tyrkja og annarra fyrir mörgum öldum.

Milosevic hefur tekizt að trylla meira en hálfa þjóð til að styðja útþenslu Serba með þjóðahreinsunum. Þær felast í, að annað fólk er með ofsóknum hrakið á brott, svo að Serbar geti setzt að í staðinn. Þetta tókst að nokkru í Bosníu, þar sem Serbar náðu miklu landi.

Útþensla Serba í Kosovo byrjaði með því, að Milosevic tók sjálfstjórnina af íbúunum og setti landið undir stjórn Serba. Síðan hóf hann menningarlegar ofsóknir gegn íbúunum og loks hernaðarlegar. Þær hafa aukizt í takt við loforð Serbíuforingjans um hið gagnstæða.

Tilgangslaust er að reyna að sveigja Milosevic og hinn tryllta meirihluta Serba til hlýðni með efnahagslegum refsiaðgerðum. Lifibrauð er ekki efst á óskalista fólks, sem hefur það að hugsjón að nauðga fólki, pynda það og drepa til þess að hræða ættingja þess í burtu.

Annaðhvort neyðast Vesturveldin til að kosta flóttamannabúðir í Albaníu fyrir allan þorra íbúa Kosovo eða þau hunzkast til að fara í síðbúið stríð við Serbíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Tuttugu nægja ekki

Greinar

Kjósendur hafa enn ekki orðið hugfangnir af sameiginlegu framboði vinstri manna. Stuðningurinn við það takmarkast við flesta stuðningsmenn flokkanna þriggja, sem standa að framboðinu. Samkvæmt skoðanakönnun DV getur framboðið vænzt tuttugu þingmanna.

Á þessu verður að hafa þann fyrirvara, að saman er reiknað fylgi nýja framboðsins og gömlu flokkanna, sem að því standa. Þannig er gert ráð fyrir, að þeir, sem nú segjast styðja Alþýðuflokk og Alþýðubandalag, styðji sameinaða framboðið, þegar ekki er kostur á hinu.

Með enn meiri velvilja er unnt að líta á tuttugu manna þingstyrk sem sómasamlega stöðu við þær aðstæður, að sameiginlegt framboð hefur nýlega verið samþykkt og fylgi þar með kvarnast úr köntunum, einkum úr landbúnaðar- og útgerðarkanti Alþýðubandalagsins.

Minni hætta er á brottfalli kjósenda úr stéttarfélagakantinum. Ögmundur Jónasson hefur einn minna vægi en samanlagðir verkalýðsleiðtogar flokksins, sem nánast allir styðja eindregið nýja framboðið. Og Steingrímur J. Sigfússon verður seint maður verkalýðsins.

Hugsanlegt er, að Ögmundur og Steingrímur og einhverjir fleiri, jafnvel Svavar Gestsson, nái saman á grundvelli vinstri hreintrúar, sem hafni útvatnaðri breiðfylkingu. En erfitt verður að skilgreina, hver sú kaþólska sé og enn erfiðara að markaðssetja hana.

Enginn stjórnmálamaður á vinstri vængnum hefur gerzt persónugervingur hins nýja framboðs. Næst því kemst Margrét Frímannsdóttir, sem nýtur mikilla og vaxandi vinsælda í skoðanakönnum DV og hefur þá sérstöðu, að nánast engir fetta fingur út í hana.

Það sem helzt háir Margréti sem foringjaefni vinstra framboðsins er, að reynslan bendir ekki til, að hún hafi orkufrekt úthald til sífelldra og fyrirvaralausra pólitískra slagsmála upp úr þurru, svo sem hefðbundið er, að krafizt sé af leiðtogum stórra flokka.

Þeir, sem áhyggjur hafa af skorti á bardagagleði, benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Jón Baldvin Hannibalsson, sem bæði magnast í eldlínunni. Gallinn við þessar ábendingar er, að hvorugt þeirra er í framboði og að ekkert bendir til, að þau verði tilleiðanleg.

Kosningabaráttan í vetur mun snúast um þann þriðjung kjósenda, sem annaðhvort vill ekki svara í skoðanakönnunum eða segist ekki hafa gert upp hug sinn. Þetta pólitíska lausagöngufólk hefur lengi rambað milli framboðslista og ráðið úrslitum alþingiskosninga.

Pólitíska lausagöngufólkið er næmara fyrir meintum persónum stjórnmálamanna en málefnum þeirra. Hugtök eins og Vilmundur, Albert og Sverrir skipta meira máli í hugum þess en meira eða minna ósannaðar kennisetningar um, hvernig reka skuli þjóðfélagið.

Því gildir enn, sem áður hefur verið sagt, að örlög sameiginlegs framboðs á vinstri væng ráðast hvorki í málefnanefndum, sem samþykkja stefnuskrá, né á landsfundum, sem samþykkja sameiginlegt framboð, heldur ráðast örlögin af því, hver verður foringi.

Þótt sameiginlegt framboð vinstri manna hafi að undanförnu komizt yfir þröskulda málefnanefnda og landsfunda, er stærri hindrun enn í vegi þess. Hún felst í þeirri margtuggnu staðreynd, að leiðtogi og lausafylgis-veiðari nýja flokksins hefur ekki fundizt enn.

Núverandi staða dugar framboðinu í fjórtán til tuttugu þingmenn, sem jafngildir ósigri. Til þess að verða gjaldgengt í pólitík þarf nýja framboðið mun fleiri.

Jónas Kristjánsson

DV

Bankar seldir Pétri og Páli

Greinar

Ekki er sama hvernig ríkisbankarnir verða seldir. Við höfum víti einkavinavæðingar að varast, svo sem SR-mjöl, Kögun, Bifreiðaskoðun og Lyfjaverzlun Íslands. Gæludýr stjórnarflokkanna hafa erft einokunarstöðu ríkisins í krafti forgangs, mismununar eða aðstöðu.

Pétur Blöndal alþingismaður hefur lagt til, að tækifærið verði notað til að efla þátttöku almennings í rekstri atvinnulífsins. Hverjum borgara verði gert kleift að kaupa bankahlutabréf í áskrift fyrir 5.000 krónur á mánuði. Þannig verði meirihluta eignaraðildarinnar dreift.

Minnihluti hlutafjárins verði síðan settur á uppboð, þar sem Pétur býst við, að hlutirnir fari á háu verði. Á aðalfundum geti fjölmenn samtök úr hópi almennings att til kapps við fjársterku aðilana, sem venjulega sitja einir að kötlunum, þegar ríkisfyrirtæki eru seld.

Samanburður við útlönd hefur sýnt, að íslenzkir bankar og sjóðir eru mun verr reknir en aðrir. Heimskuleg útlán hafa leitt til mikilla afskrifta sem fjármálastofnanirnar hafa neyðzt til að bæta sér upp með óeðlilega miklum mismun innláns- og útlánsvaxta.

Síðan hefur komið í ljós, að sumir bankastjórar ríkisbankanna hafa verið of uppteknir af að koma sér í fríar laxveiðar og fríar utanlandsferðir, að þeir hafa ekki haft sinnu á að passa upp á útlánin. Ríkisrekstur viðskiptabankanna verður því ekki lengur varinn.

Bankarnir eru svo risavaxin fyrirtæki, að hættulegt er að selja þá í of stórum skömmtum. Þá mun of mikill hluti eftirspurnarinnar takmarkast við helztu fáokunarfyrirtæki landsins, sem mesta peninga hafa til umráða, og verðið taka mið af takmarkaðri eftirspurn.

Með áskriftarsölu til almennings gerir Pétur ráð fyrir, að meiri slagur verði milli fáokunarfyrirtækjanna um afganginn af hlutafénu, þannig að hagnaður ríkissjóðs verði ekki minni, þótt almenningur fái sinn hlut á undirverði, á hálfvirði samkvæmt tillögu Péturs.

Hann vill, að fólki verði bannað að selja pappírana fyrstu tvö eða þrjú árin, svo að það venjist við að eiga hlutabréf og fylgjast með breytingum á verðgildi þeirra. Þannig verði unnt að efla áhuga margra á að halda lengi í bréfin, svo að þau leki ekki inn í fáokunina.

Gott væri að gefa starfsfólki líka tækifæri til að kaupa í áskrift ákveðið magn hlutafjár á föstu undirverði, þannig að forgangsflokkarnir væru tveir, áður en kæmi að hákörlunum, sem berðust á endanum um fjórðung hlutafjárins. Slíkt væri tilbrigði við tillögu Péturs.

Slíkar leiðir hefta getu stjórnmála- og embættismanna og gæludýra þeirra í fáokunarfyrirtækjunum til að misnota einkavæðinguna og breyta henni í einkavinavæðingu. Með slíkum leiðum næst sátt í þjóðfélaginu um annars óvinsæla einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Breyting ríkisfyrirtækja í almenningshlutafélög er aðeins hálf lausnin. Samhliða þarf að haga málum á þann veg, að fyrirtækin haldi ekki áfram að vera einokunarfyrirtæki. Þegar Landssíminn og Íslandspóstur verða seldir, þarf um leið að lina tök þeirra á markaðinum.

Sala ríkisbanka er brýnasti og umfangsmesti þáttur einkavæðingar ríkisfyrirtækja. Mikið er í húfi, að vel takist til. Við höfum tvenns konar víti að varast, víti hörmulegs rekstrar bankanna, og vítin, sem við höfum séð í sölu annarra ríkisfyrirtækja á liðnum árum.

Tillga Péturs felur í sér skynsamlega leið til að dreifa sölunni á langan tíma og efla getu almennings til að keppa við fáokunarfyrirtækin um stjórnartaumana.

Jónas Kristjánsson

DV

Eiðfaxi og Ljónshjarta

Greinar

Löngu eftir að bandaríska hefur rutt íslenzku úr vegi og Íslendingar aflagðir sem sérstök þjóð munu íslenzk nöfn lifa góðu lífi vítt um lönd í nöfnun tugþúsunda og jafnvel hundraða þúsunda íslenzkra hesta. Hvarvetna verða til Brúnkur og Gránar, Sörlar og Eiðfaxar.

Tæplega hundrað þúsund íslenzkir hestar með íslenzkum nöfnum eru nú til utan landsteinanna. Tugþúsundir erlendra fjölskyldna hafa íslenzka hestinn að þungamiðju tómstunda sinna og mynda um þær þúsundir klúbba, sem saman mynda öflug samtök.

Á sama tíma og barizt er um að halda sjávarútvegssýningu, sem laðar 500 útlendinga til landsins, er í inndölum norður í landi haldin hrossasýning, sem dregur til sín meira en 2.500 útlendinga, er kæra sig kollótta um sjúkdómsfréttir og harkalegar veðurspár.

Af umræðum á Netinu má ráða, að erlendir eigendur íslenzkra hesta líti með fögnuði til þess, að landsmót íslenzkra hesta verði hér eftir haldin á tveggja ára fresti í stað fjögurra áður. Þess vegna má búast við metaðsókn þeirra á landsmótið í Reykjavík árið 2000.

Landsmót eru ótrúleg gjaldeyrislind í samgöngum og ferðaþjónustu. Þau er þó bara toppurinn á ísjakanum, sem einnig felur í sér hestaferðir um óbyggðir, hrossasölur, reiðtygjaverzlun og útgáfu bóka og myndbanda. Tugir íslenzkra þjálfara eru á þönum milli landa.

Birtingarmyndir þessa vaxandi æðis eru margar. Á landsmóti íslenzkra hesta í Hollandi stígur glæsileg kona og álverseigandi úr Rolls Royce og kveður einkabílstjórann. Hún er með íslenzka hunda í för, er klædd íslenzkri lopapeysu og er á gúmmískóm.

Þannig hefur íslenzki hesturinn breytt lífsstíl þúsunda manna. Erlendir ræðumenn á markaðsþingi hrossamála í Eyjafirði á mánudaginn sögðu hver á fætur öðrum sömu söguna af því, hve djúpstæð og varanleg breyting yrði á lífi eigenda íslenzkra hesta.

Milli 2.000 og 3.000 hestar eru fluttir út árlega. Fjöldinn takmarkast fyrst og fremst af, að ekki tekst að rækta fleiri hesta, sem henta þessum markaði. Þýzki ræðumaðurinn á markaðsþinginu sagði þetta stafa af röngum áherzlum í vali ræktunarhrossa.

Erlendi markaðurinn vill þæga og skapgóða, en ekki lata fjölskylduhesta, ganghreina og taumlétta töltara. Slíkir hestar mótast bezt í hestaleigum og hestaferðalögum. Aldrei er nóg framboð af slíkum hestum, meðan flóknir og örgeðja keppnishestar seljast hægt.

Sala á hrossum til útlanda er aðeins upphafið af viðskiptum, sem hlaða utan á sig. Menn telja sig þurfa að koma til Íslands og fara í hestaferðir. Menn kaupa íslenzk reiðtygi, föt, bækur og myndbönd. Menn semja við þjálfara og reyna að leita uppi gúmmískó.

Þótt aldagömul hefð sé fyrir, að hrossakaupin sjálf séu utan við lög og rétt og skatta, eru allir aðrir þættir þessara viðskipta uppi á borðinu og leggja drjúgt með sér til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Gróðinn af hestamennsku flyzt þannig um allt þjóðfélagið.

Bílaflotinn á landsmóti hestamanna í Eyjafirði var dýrasti floti, sem saman hefur verið kominn á einn stað í landinu fyrr og síðar. Drekarnir með kerrurnar báru vitni um, að hestamennska í víðtækum skilningi er að ryðja sér til rúms sem meiri háttar atvinnuvegur.

Nokkrir Bandaríkjamenn, sem ekki áttu heimangengt, notuðu landsmótstímann til að skeggræða á Netinu, hvort nota megi Ljónshjarta sem hestsnafn.

Jónas Kristjánsson

DV

Postularnir Páll og Sverrir

Greinar

Efnahagsleg stjórnmálastefna Sverris Hermannssonar er ekki ný af nálinni. Hún er hin sama og lengi hefur verið mælt með hér í blaðinu, uppboð á kvótum í sjávarútvegi og afnám stuðnings við þá, sem bezt mega sín. Þetta er góð stefna, sem enginn flokkur fylgir í raun.

Spurningin er hins vegar, hvort rétti maðurinn til að fara fyrir þessari stefnubreytingu sé sá, sem var þingmaður auðmannavinaflokksins; kommissar mestu sukkstofnunar lýðveldisins; ráðherra í ríkisstjórn, sem fann upp kvótann; og annálaður sukkari sem bankastjóri.

Ef til vill getur Sverrir kjaftað sig frá þessu, rétt eins og hann þykist nú ætla að berjast fyrir jafnrétti kynjanna, hafandi nýlega sýnt í fréttaviðtali í sjónvarpi þá mestu kvenfyrirlitningu, sem þar hefur sést árum saman. En allt er þetta þó í meira lagi ótrúverðugt.

Sverrir er að ýmsu leyti vel fallinn til pólitískra sálnaveiða. Hann er með orðheppnari Íslendingum, hefur fjölbreyttari orðaforða en aðrir stjórnmálamenn og bezt vald þeirra á íslenzkri tungu. Þar á ofan er hann kjaftfor með afbrigðum, stundum á einkar gamansaman hátt.

Páll postuli var slíkur skörungur og átti skuggalega fortíð eins og Sverrir. Páll fékk vitrun á heiðinni eins og Sverrir á biðlaunatímanum, hætti að ofsækja sannleikann og fór að boða hann vítt um keisaradæmið. Hann breytti fámennri kristni í heimstrúarbrögð.

Munurinn á þeim Páli og Sverri er þó sá, að Páll sá og skildi villu síns vegar, en Sverrir virðist ekki hafa hugmynd um, að hann eigi yfirleitt neina fortíð á þeim pólitísku sviðum, sem hann fjallaði um á fundi sínum með væntanlegum stuðningsmönnum vestur á Ísafirði.

Jarðvegurinn var undir kristni búinn á tíma Páls postula og undir afnám forréttinda á tíma Sverris postula. Einhver hlýtur að taka upp merkið, hvort sem Sverrir gerir það eða einhverjir aðrir. Alþýðuflokkurinn segist raunar þegar hafa þá stefnu, sem Sverrir boðar.

En Alþýðuflokkurinn er ekki trúverðugur fremur en kommissarinn fyrrverandi. Sá flokkur er fyrst og fremst þekktur fyrir að gleyma góðum málum, þegar hann kemst í ríkisstjórn. Og í samstarfi við Alþýðubandalagið verður hann ekki duglegri við afnám forréttinda.

Alþýðubandalagið hefur hingað til verið málsvari sérhagsmuna-forréttinda á borð við kvóta í sjávarútvegi og landbúnaði. Eftir hjónaband þess og Alþýðuflokks verður erfiðara en áður fyrir Ágúst Einarsson og aðra málsvara efnahagslegs réttlætis að breyta kerfinu.

Þörfin er mikil. Stærstu tveir stjórnmálaflokkarnir eru eindregnir stuðningsmenn sérréttinda fyrir þá, sem bezt mega sín. Þeir styðja forréttindi markaðsráðandi stórfyrirtækja. Þeir styðja gjafakvóta handa útgerðarfyrirtækjum. Þeir styðja ríkisrekstur landbúnaðarins.

Það er kjósendum að kenna, að stjórnmálaflokkarnir skuli komast upp með að haga sér eins og þeir gera. Ef Sverri Hermannssyni tekst að vekja marga kjósendur til vitundar um sjálfskaparvítið, getur hann eins og Páll bætt fyrir brot sín sem eins mesta kerfiskarlsins.

Þótt kjósendur hafi keypt margt um dagana og sumt óséð, eru þeir tæpast ginnkeyptir fyrir leiðtogaefni í gömlum stjórnmálamanni, er boðar þeim nýja trú, sem gengur þvert á allt, sem hann áður gerði, án þess að hafa beðizt neinnar afsökunar á skrautlegri fortíð sinni.

Við höfum reynslu af postulum Alþýðuflokksins og postulanum Sverri. Það verða einhverjir aðrir, sem leiða kjósendur til himnaríkis hins pólitíska réttlætis.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaðmálsflokkur í burðarliðnum

Greinar

Þrír af hverjum tíu fulltrúum á landsfundi Alþýðubandalagsins studdu tillögu, sem var andstæð tillögunni um sameiginlegt framboð vinstri flokkanna í þingkosningunum að ári. Búast má við, að svona stór minnihluti muni láta að sér kveða á einhvern hátt.

Sumir minnihlutamenn munu sætta sig við að hafa lent í minnihluta og ekki segja skilið við meirihlutann, enda gerir lýðræði ráð fyrir, að minnihlutar beygi sig. Aðrir munu ekki telja sig geta verið áfram á báti með meirihluta, sem hafi gerbreytt forsendum aðildar.

Stuðningur við sameiginlegt framboð er eindregnastur meðal ungra flokksmanna í þéttbýlinu og baráttufólks stéttarfélaga í einkageiranum. Þessi tvö öfl hafa löngum reynt að knýja fram þá niðurstöðu, sem hafði sigur á landsfundi Alþýðubandalagsins um helgina.

Sameiningarsinnar stefna að flokki, sem minnir á brezka Verkamannaflokkinn og krataflokka víðs vegar um Norður- og Vestur-Evrópu. Slíkur flokkur hentar ekki hluta af fylgismönnum Alþýðubandalagsins, sem munu leita pólitískrar útrásar utan hans.

Fylgismenn núverandi gjafakvótakerfis í sjávarútvegi, einkum á Norðausturlandi og Austfjörðum vilja ekki taka þátt í flokki, sem telur kerfið siðlaust og vill ná auðlindinni úr höndum úrgerðarmanna. Kvótasinnar munu fylkja sér um nýjan flokk Steingríms J. Sigfússonar.

Auðvelt verður fyrir þetta fólk að ná sambandi við fylgismenn ríkisrekna kvótakerfisins í landbúnaði, sem vilja ekki efla framgang hugmynda Alþýðuflokksins á því sviði. Þannig verður hægt að mynda varnarbandalag um ríkjandi hagsmuni í fiskveiðum og landbúnaði.

Steingrímur er sjálfkjörinn foringi þessara hópa, enda mun hann þar á ofan ná til gömlu kommanna, sem enn eru á móti Atlantshafsbandalaginu og jafnvel Evrópusambandinu. Úr öllu þessu verður heilsteyptur íhaldsflokkur, sem uppnefndur verður vaðmálsflokkur.

Víða um Evrópu eru áhrifalitlir flokkar af slíku tagi á jaðri stjórnmálanna. Á jaðrinum eru líka flokkar græningja, sem ekki hafa fundið samleið með krataflokkum Evrópu. Hjörleifur Guttormsson er sjálfkjörinn leiðtogi slíks flokks hér á landi, ef hann kærir sig um.

Þótt ekki sé augljóst samhengi milli vaðmálssinna og græningja, er ekkert sem bannar, að málsaðilar geti búið til hagkvæmnisbandalag um einn jaðarflokk, sem héldi uppi vörnum fyrir allt gamalt og gróið, náttúruna, bændurna, útgerðarmennina og einangrun landsins.

Steingrímur og Hjörleifur hafa hvor sitt bakland, sem þeir gætu samnýtt. Óljósara er bakland þriðja uppreisnarmannsins, Ögmundar Jónassonar, formanns opinberra starfsmanna. Ekki hafa sézt nein merki þess, að opinberir starfsmenn vilji hlíta pólitískri leiðsögn hans.

Ögmundur er hins vegar fulltrúi þeirra sjónarmiða, að betra sé að hafa lítinn flokk með skýrar línur en stóran flokk með óskýrar línur. Hann gæti lagt með sér eitthvert þéttbýlisfylgi hreintrúarmanna, sem sætta sig ekki við hina nýju breiðtrúarstefnu meirihlutans.

Smám saman mun koma í ljós, hvort hinar ýmsu tegundir óánægju ná saman og hversu sterkt afl þær verða sameiginlega eða hver í sínu lagi. Það ræðst raunar mest af því, hversu sannfærandi framhaldið á ferli meirihlutans í yfirvofandi A-flokka samstarfi verður.

Frumkvæðið er að því leyti enn í höndum meirihlutans, að gengi minnihlutans mun á næstu mánuðum ráðast mest af því, hvernig meirihlutanum tekst til.

Jónas Kristjánsson

DV

Dreginn á asnaeyrunum

Greinar

Eftir lýsingum Clintons Bandaríkjaforseta í hita leiksins að dæma hefur Kína tekið við af Japan sem helzti bandamaður Bandaríkanna í Asíu. Jafnframt vill hann, að Taívan verði sameinað Kína, að vísu á friðsamlegan hátt. Loks telur hann Indland vonda kallinn í Asíu.

Kínaferðir fyrri forseta Bandaríkjanna hafa sumar fallið í gleymsku, þegar frá líður, og svo kann að verða um þessa. Markmið hennar er fyrst og fremst að komast í bandarískar fréttir fyrir annað en meint kvennafar og vafasöm fjármál. Það hefur tekizt bærilega.

Bandamaður Bandaríkjanna hefur efnahagsstyrk á stærð við Spán og fer illa með erlenda fjárfesta. Hann á eftir að ganga gegnum hremmingaskeið, sem fylgir innreið lýðræðis og ýmis önnur ríki hafa þegar gengið gegnum, svo sem Japan, Rússland og Indland.

Meðan Bandaríkjaforseti baðar sig í ljósi hins himneska friðar eru þessi ríki og fleiri að færa sig á taflborði heimsmálanna. Það gerist samkvæmt reglunni um, að leikur á einum stað leiði til mótleikja á öðrum stöðum. Bandalag við einn leiðir til árekstra við aðra.

Ekki er heil brú í bandalagi Bandaríkjanna og Kína, ekki hugmyndafræðibrú, ekki viðskiptabrú, ekki mannréttindabrú, ekki kjarnorku-afvopnunarbrú og alls ekki heimsveldisbrú. Kínaferð Clintons hefur skaðað hagsmuni Bandaríkjanna á öllum þessum sviðum.

Að sjálfsögðu lítur Rússland núna á sig sem innikróað af þessu bandalagi og sömuleiðis Indland. Japan telur sig hafa verið niðurlægt af Bandaríkjunum á erfiðum fjármálatíma gengislækkana og bankahruns. Þessi breyttu viðhorf kosta eitthvað á taflborði heimsvaldanna.

Sí og æ hafa Bandaríkin fallið fyrir þeirri freistingu að leggja lag sig við einræðisherra og harðstjóra af dálæti á friði og ró í ríkjum þeirra og af hræðslu við hverja höndina upp á móti annarri í öðrum ríkjum, sem hafa lagt í þrautagönguna á þrönga veginum í átt til lýðræðis.

Sí og æ hafa Bandaríkin lent í vanda, þegar einræðisherrarnir og harðstjórarnir hafa hrunið af valdastóli. Þannig hata Indónesar Bandaríkin fyrir Suharto og þannig hata Persar Bandaríkin fyrir Reza. Og þannig munu Kínverjar um síðir hata Bandaríkin fyrir Jiang.

Kínabandalagið er afleiðing minnisleysis. Langtímaminni skortir í bandaríska utanríkisstefnu, sem dettur sí og æ í sömu gryfjurnar. Þetta gerir ríkinu ókleift að reka skynsamlega heimsveldisstefnu að hætti rómversku og brezku heimsveldanna, sem stóðu um aldir.

Sumpart stafar þetta af áhugaleysi Bandaríkjamanna á utanríkismálum. Greiðslur á skuld við Sameinuðu þjóðirnar voru í vetur felldar á þingi með viðauka um fóstureyðingar. Þannig eru utanríkismálin fangi innanríkismála og Kínaferðin afleiðing meintra kvennamála.

Lík börn leika bezt, einnig í alþjóðamálum. Vesturlöndum kæmi bezt að efla tengsl við þau ríki þriðja heimsins, þar sem stjórnvöld sækja vald sitt til þjóðarinnar eins og á Vesturlöndum. Án lýðræðis verður markaðsbúskapur veikur og viðskipti áhættusöm.

Til langs tíma litið borgar sig að sinna betur ríkjum á borð við Rússland og Indland, Tyrkland og Persíu, þar sem stjórnir hvíla á lýðræðisgrunni, heldur en að leggja lag sitt við ríkisstjórnir, er sitja ofan á púðurtunnu almannavilja, sem enga fær eðlilega útrás.

Árangur Kínaferðar Clintons varð enn skelfilegri en óttazt var. Hann hefur þar látið draga sig fram og aftur á asnaeyrunum til að fá frið frá fréttum um konur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ættfræðiáhuginn speglaður

Greinar

Der Spiegel mótar meira en nokkur annar fjölmiðill opinbera umræðu í Þýzkalandi. Vinna liggur niðri hjá flestum ráðamönnum stjórnmála, stjórnsýslu og stórfyrirtækja snemma á mándagsmorgnum, meðan þeir fletta blaðinu og leita að efni, sem getur varðað þá mikils.

Ísland er sjaldséður gestur í þessu þykka og þéttskrifaða tímariti. Í gær var sá þagnarmúr rofinn og birt löng grein um ráðagerðir Íslenzkrar erfðagreiningar. Greinin er gagnrýnin og mun efla þá, sem hafa áhuga á að fylgja eftir efasemdum sínum um fyrirtækið.

Greinin er síður en svo nein móðgun við Íslendinga eins og forstjóri Íslenzkrar erfðagreiningar hefur haldið fram. Gagnrýnin beinist eingöngu að honum og fyrirtæki hans, en ekki að Íslendingum í heild. Flest gagnrýnisatriðin eru raunar áður kunn hér á landi.

Við vitum sjálf, að ættfræðiáhugi okkar er meiri en flestra annarra þjóða, svo sem sést af ótal stéttatölum og niðjaritum. Það er engin móðgun við okkur, að Spiegel skuli vekja athygli á þessari staðreynd og tengja hana við stuðning okkar við Íslenzka erfðagreiningu.

Spiegel gerir hins vegar grín að þeirri endurteknu kenningu forstjóra Íslenzkrar erfðagreiningar, að óhætt sé að treysta fyrirtækinu, því að það mundi glata réttindum sínum og þannig tapa mestu sjálft, ef það færi óvarlega með persónulegar upplýsingar um fólk.

Spiegel bendir á losaralega meðferð upplýsinga, sem fóru milli SÁÁ og Íslenzkrar erfðagreiningar sem dæmi um, að kenning forstjórans sé marklaus. Raunar vitum við, að tvisvar sinnum á örstuttum ferli hafa eftirlitsaðilar talið sig þurfa að slá á putta Kára Stefánssonar.

Rökstuddar ástæður eru því til að óttast, að upplýsingar úr Íslenzkri erfðagreiningu geti lekið út og spillt stöðu fólks gagnvart atvinnurekendum og líftryggingafélögum. Við þá umræðu bætir Spiegel þeirri ábendingu, að upplýsingarnar þurfi ekki einu sinni að vera réttar.

Því má til dæmis beita í undirróðri gegn stjórnmálamanni, að heyrzt hafi, að komið hafi í ljós hjá Íslenzkri erfðagreiningu, að hann hafi í æsku verið hjá geðlækni vegna meints stuldar á klámspólum af myndbandaleigu og að ólögleg fíkniefni hafi þá mælzt í blóðinu.

Spiegel hefur eftir ónefndum viðmælendum sínum íslenzkum, að orðrómur af einhverju slíku tagi geti ráðið úrslitum um framtíð stjórnmálamannsins, því að menn trúi lekanum frá Íslenzkri erfðagreiningu, þótt hann sé meira eða minna rangfærður eða færður í stílinn.

Að öðru leyti er gagnrýnin í Spiegel kunnugleg þeim, sem hafa fylgzt með umræðunni hér heima fyrir. Gagnrýnendur vilja, að viðurkennt sé, að fólk eigi sjálft sjúkra- og persónuupplýsingar um sig og geti bannað, að þær verði settar í hrærivél gagnabankans.

Áhrifamiklir læknar munu sjá til þess, að málin verði vel viðruð, þegar einkaréttarfrumvarp Íslenzkrar erfðagreiningar verður endurflutt á næsta þingi, væntanlega í breyttri og mildari mynd. Málum verður síðan fylgt eftir alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Mikilvægt er, að næsta vetur verði fundin leið, sem gætir hagsmuna minnihlutafólks gagnvart Stóra bróður um leið og hún gerir kleift að stofna hér á landi ættfræðilegan heilsufarsbanka, er leiðir af sér rannsóknir, sem eru til þess fallnar að bæta heilsu og líðan fólks.

Fráleitt er að afgreiða hina gagnrýnu Spiegel-grein sem móðgun við Íslendinga. Hún flækir hins vegar málið fyrir þeim, sem vilja láta hunza athugasemdir.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfseyðing góðærisins

Greinar

Þeir, sem gera það gott í góðærinu, kaupa of mikið af bílum, fara of mikið í utanlandsferðir og nota peningana yfirleitt of mikið í rekstur líðandi stundar. Þetta veldur geigvænlegum halla á utanríkisviðskiptunum, æsir til verðbólgu og grefur þannig undan sjálfu góðærinu.

Nauðsynlegt er, að ábyrgir og áhrifamiklir aðilar brýni sem mest fyrir fólki, sem er aflögufært, að það setji peninga góðu áranna í ávöxtun til notkunar á mögru árunum eða í ellinni. Það eyði ekki peningunum, heldur safni þeim og láti þá vinna fyrir sig.

Þetta eru auðvitað margtuggin sannindi langt aftur í Mósebók, en flytjast því miður ekki greiðlega milli kynslóða. Í andrúmslofti eyðslunnar verður hver ný kynslóð að læra að spara, því miður of oft af biturri reynslu. Langtímahugsun hefur ekki reynzt fólki auðveld.

Stjórnvöld hafa takmörkuð tæki til að hafa áhrif á þetta. Í tengslum við kjarasamninga hefur ríkisstjórnin lofað að lækka tekjuskattinn um 4% um næstu áramót og sturta þannig hálfum öðrum milljarði króna inn á sóunarmarkað bílakaupa og utanlandsferða.

Ekki er góð latína að ganga á bak orða sinna, þótt slíkt hafi jafnan komið fyrir ríkisstjórnir hér á landi. Slíkt grefur undan trausti og getur hæglega orðið kjósendum minnisstætt nokkrum mánuðum síðar, þegar þeir ganga að kjörborðinu í alþingiskosningum næsta árs.

Þess vegna neyðist ríkisstjórnin til að lækka skatta um áramótin, þótt hagfræðin segi, að við núverandi skilyrði sé nauðsynlegt að hækka skatta. Þess vegna verður að leita annarra úrræða við að þrýsta fólki til ákvarðana, sem eru í þágu þess sjálfs og þjóðarinnar í heild.

Það má gera með því að hækka vexti. Því hærri sem vextir eru, þeim mun líklegra er, að fólk leggi fyrir til að græða vexti og þeim mun líklegra er, að það tími ekki að lifa um efni fram. Hærri vextir dempa líka óhóflega framkvæmdaþrá og þenslu í atvinnulífinu.

Þessi aðferð er þeim annmarka háð, að útlánavextir eru hér hærri en í nágrannalöndunum og hefta samkeppnishæfni atvinnulífsins. Munurinn stafar einkum af lélegum bankarekstri og af herkostnaði við að halda Íslandi og krónunni utan við Evrópusamstarfið.

Auðvitað væri unnt að stokka upp bankakerfið, kasta út pólitísku kvígildunum og hefja ábyrgar lánveitingar. Og auðvitað væri unnt að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sem gjaldmiðil. En þetta eru of stórar ákvarðanir fyrir ríkisstjórn lítilla sanda og sæva.

Þá er aðeins eitt eftir, sem getur dregið úr óhjákvæmilegri vaxtahækkun. Gera má ýmsan sparnað girnilegri fyrir fólk, þótt varhugavert sé að mismuna sparnaðarformum of of. Sérstaklega væri áhugavert að búa í haginn fyrir stóraukinn lífeyrissparnað fólks.

Ný lög gera fólki kleift að leggja til hliðar meira en þau 4+6%, sem flestir kjarasamningar gera ráð fyrir. Þau gera fólki einnig kleift að velja milli sameignar- og séreignasjóða í þeim lífeyrissparnaði, sem umfram er. Með skattfríðindum mætti þrýsta á þessa þróun.

Þjóðhagsstofnun spáði nýlega 24 milljarða viðskiptahalla á þessu ári. Sú spá mun reynast of væg, þegar hver stéttin á fætur annarri áttar sig á kúgunargildi þess að nota þensluna á vinnumarkaði og segir hreinlega störfum sínum lausum til þess að láta kaupa sig til baka.

Ef stjórnvöldum tekst ekki að búa í haginn fyrir minni viðskiptahalla, fer verðbólgan á skrið. Þá heldur rugl fyrri áratuga innreið sína í þjóðfélagið að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV

Langþráð atkvæðagreiðsla

Greinar

Á landsfundi sínum er Alþýðubandalagið að reyna að segja skilið við skrautlega fortíð sína og hefja aðild að óvissri framtíð. Fæðingarhríðirnar hafa verið langvinnar, en nú er svo komið, að jafnvel Svavar Gestsson er að verða uppiskroppa með nothæfar frestanir.

Nokkrir þingmenn hafa einangrazt í andstöðunni, en grasrótin styður nánast öll sameiginlegt framboð með Alþýðuflokki og Kvennalista að tæpu ári. Að þessu sinni verður atkvæðagreiðslu ekki frestað, af því að þolinmæði sameiningarsinna er loksins þrotin.

Fylgi mun kvarnast úr köntunum. Hjörleifur Guttormsson stofnar flokk græningja og Steingrímur Sigfússon getur orðið framkvæmdastjóri hjá gjafakvóta-útgerðar-auðvaldinu á Norðausturlandi. En lífið í flokknum verður léttara, þegar búið er að taka á málinu.

Eftirsjá er í Hjörleifi, sem þekkir umhverfismál betur en nokkur annar Íslendingur og gæti gert gagn á því sviði, ef hann rækist í flokki. En hann er því miður ekki umhverfisvænn í pólitískri sambúð og hefur málað sig út í horn í ágreiningsmálum flokksins.

Sennilegast er, að úr ösku gömlu flokkanna rísi fyrirbæri sem líkist jafnaðarflokkum Evrópu. Það er eins konar vinstri flokkur, sem hlustar eftir því, hvað sé vinsælt. Slíkur flokkur mun ekki lengi láta gamlar stefnuskrár verða sér fjötur um fót á atkvæðaveiðum.

Meðan fyrrum formaður Alþýðubandalagsins er úti í heimi að mæla með stækkun Atlantshafsbandalagsins, geta gamlir flokksfélagar hans haldið áfram að muldra hver í barm annars um, að þeir séu enn á móti NATO. En þeir hafa áttað sig á, að enginn er að hlusta.

Gamli tíminn er liðinn og gömlu málin með honum. Gömlu hanarnir vekja ekki neinn til dáða. Orka nýja flokksins mun fara í að finna sinn Tony Blair eða sinn Felipo Gonzales. Hinn útvaldi verður síðan látinn sjá um kúrsinn meðan hann fiskar vel.

Vinnan í málefnanefndum sameiningarinnar einkenndist af, að menn höfðu ekki nokkurn minnsta áhuga á að láta málefnin þvælast fyrir sér. Utanríkismálastefna nýja flokksins var fyrirhafnarlaust ákveðin á sárafáum fundum, sennilega ólesin af sumum.

Hjörleifur og Steingrímur skiluðu séráliti hvor í sinni nefnd, þegar menn nenntu ekki að hlusta á þá. Gömlu hanarnir munu fara mikinn á landsþinginu, en fáir nenna að eiga orðastað við þá. Tími umþóttunar er liðinn og nú verða atkvæðagreiðslur látnar ráða.

Fundurinn snýst ekki um, hvort greiða skuli atkvæði, heldur um að greiða atkvæði. Ef málamiðlun finnst, sem er annað en þunnt yfirvarp fyrir þá, sem lízt illa á þróunina, er sameiningarferlið orðið ónýtt. Slíkan kaleik geta sameiningarsinnar ekki sýnt áhorfendum.

Framundan er erfiður tími. Nýi flokkurinn þarf að velja sér talsmenn á öllum sviðum. Val þeirra kostar valdabaráttu, því að þeir verða ígildi eins konar ráðherra í skuggaráðuneyti. Síðan þarf að reyna að hindra að þeir tali óþarflega mikið í kross á almannafæri.

Bagalegastir verða þingmenn gamla tímans í aflögðu flokkunum. Þeir valda nýja flokknum tjóni, þótt þeir tali í tómarúmi. Á þessu þarf væntanleg forusta að taka, því að hefðbundin kosningabarátta fer að töluverðu leyti fram í þingsölum síðasta vetur kjörtímabils.

Því fyrr sem nýi flokkurinn finnur sinn Tony Blair eða sinn Felipo Gonzales, þeim mun meiri líkur eru á, að flokkurinn fái frambærilega ímynd hjá kjósendum.

Jónas Kristjánsson

DV

Dæmið gengur ekki upp

Greinar

Nánast öll auðríki heims önnur en Bandaríkin leggja 8­10% landsframleiðslu sinnar til heilbrigðismála. Þetta eru sömu fjárhæðir á mann, því að ríkidæmi þjóðanna er svipað. Þar sem Ísland er í hópnum, ættu heilbrigðismál okkar að vera í eins konar jafnvægi.

Laun eru 65­70% af kostnaði heilbrigðisstofnana hér á landi eins og í hinum löndunum í sama flokki. Af því mætti ætla, að kjör starfsfólks sjúkrastofnana væru svipuð hér á landi og í nágrannalöndunum. En það dularfulla í málinu er, að svo er alls ekki.

Við búum við þrálátt styrjaldarástand í kjaramálum starfsfólks sjúkrastofnana, sem segir, að hliðstæð kjör séu mun hærri í löndum með sama tekjustig og sama hlutfall heilbrigðiskostnaðar af heildarkostnaði. Þessa dagana höfum við horft á einn slaginn í því stríði.

Einfaldast er að telja skýringuna felast í að kostnaður heilbrigðisstofnana dreifist á fleiri starfsmenn hér á landi en í nágrannalöndunum og minna komi því til skiptanna á hvern starfsmann. Meðan annað kemur ekki í ljós, er eðlilegt að hafa þetta fyrir satt.

Annaðhvort felur þetta í sér yfirmönnun á sumum heilbrigðisstofnunum eða þá að sumpart er verið að sinna öðrum og töluvert mannfrekari verkefnum en í nágrannalöndunum. Fróðlegt og nytsamlegt væri að rannsaka, að hve miklu leyti hvor skýringin stenzt.

Sums staðar úti á landi eru sjúkrahús notuð sem þáttur í byggðastefnu. Þar er fjölmennt starfslið við tiltölulega einfalda heilbrigðisþjónustu, sem í sumum þáttum rambar á jaðri elliheimilisrekstrar. Kostnaður á sjúkling eða legudag er óeðlilega hár á þessum stöðum.

Sums staðar í þjóðfélaginu er boðin einföld heilbrigðisþjónusta á tiltölulega lágu verði, 6.000 krónur á sjúkling á dag, svo sem á heilsustofnuninni í Hveragerði. Á sumum öðrum stöðum er ríkið að borga 10­20.000 krónur á sjúkling á dag fyrir svipaða þjónustu.

Það athyglisverðasta við þennan samanburð er, að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki sýnt frambærilegan áhuga á að nýta sér sem mest þær stofnanir, sem minnst taka fyrir þjónustuna. Þrálátur fjárskortur hefur ekki eflt kostnaðarvitund þess hrjáða ráðuneytis.

Eðlilegt er, að sérhæfð sjúkahúsþjónusta kosti mikið, í sumum tilvikum meira en 20.000 krónur á dag. Þá er spurningin sú, hvort ákvarðanir um slíka þjónustu séu teknar hér á landi með öðrum og sjálfvirkari hætti en tíðkast í öðrum löndum á sama tekjustigi.

Þar sem sérhæfð sjúkrahúsþjónusta er umtalsverður og vaxandi hluti heilbrigðiskostnaðar þjóðarinnar, er eðlilegt, að einhvers staðar í kerfinu sé kannað, hvort við leyfum okkur meiri útgjöld á afmörkuðum sviðum heldur en menn leyfa sér í nágrannalöndunum.

Við lifum á tímum, þar sem tækni og efnafræði hafa fært okkur meiri tækifæri til sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu, en kerfið stendur undir. Þetta misræmi hefur leitt til þess, að nú verður að forgangsraða verkefnum. Við verðum að sætta okkur við að sumt sé of dýrt.

Forvígismenn í heilbrigðismálum hafa getað leyft sér að ræða þetta viðkvæma mál á ráðstefnum og gera ekkert í því. Nú er slíkt ekki lengur hægt, því að starfsfólk heilbrigðisstofnana hefur fundið leið til að minnka kjaramun Íslands og nágrannalandanna.

Ört vaxandi fjárskortur heilbrigðisgeirans hlýtur að þvinga ráðamenn til að finna, á hvaða sviðum hans við leyfum okkur meiri munað en aðrar auðþjóðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðslögmálið magnast

Greinar

Hjúkrunarfræðingar beita lögmáli framboðs og eftirspurnar til að ná betri kjörum. Meirihluti þeirra hefur sagt upp störfum og gengur út um mánaðamótin. Þannig stökkva ekki margir út í óvissuna, nema þeir hafi von um annað starf úti í bæ eða úti í heimi.

Lögmál framboðs og eftirspurnar er farið að virka á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Til lítils er fyrir opinbera starfsmenn að krefjast umtalsverðra kjarabóta, nema þeir hafi uppi í erminni, að þjóðfélagið eða umheimurinn vilji nota vinnu þeirra fyrir meira fé.

Sumpart stafar þessi kaupkröfutækni af auknum atvinnutækifærum í þjóðfélaginu almennt og sumpart af aukinni þörf fyrir fólk með menntun og reynslu hjúkrunarfræðinga. Sumpart stafar þetta af aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum í nágrannalöndunum.

Svo virðist sem notkun lögmálsins hafi þegar haft áhrif á gang viðræðna um lausn. Ljóst er, að kjör hjúkrunarfræðinga munu batna sem svarar nokkrum tugum prósenta. Um helgina var búið að saxa ágreininginn niður í hundrað milljónir króna samtals.

Sjúkrahúsin eru ekki búin að bíta úr nálinni, þótt samkomulag náist við hjúkrunarfræðinga. Uppsagnir hafa þegar borizt frá 150 læknariturum, lyfjatæknum, og matvælafræðingum, vafalaust einnig á þeim forsendum, að þeir sjái atvinnutækifæri í umhverfinu.

Hætt er við, að niðurstaðan leiði til niðurskurðar í þjónustu sjúkrahúsgeirans. Launakostnaður er meira en helmingur sjúkrahúskostnaðarins, sem er síðan hlutfallslega meiri hér á landi en í flestum vestrænum löndum. Því virðist sennilegt, að störfin séu of mörg.

Fyrir svo sem áratug virtust heilbrigðismál vera í góðum farvegi hér á landi. Menn væntu þess að fá góða og síbatnandi sjúkrahúsþjónustu, ef þeir þyrftu á henni að halda. Nú sjá menn fram á biðlista og forgangsröðun, þótt þjóðartekjur hafi aukizt á áratuginum.

Í heilbrigðiskerfinu og einkum sjúkrahúsgeiranum er innbyggð verðbólga, sem felst annað hvort í, að óbreytt þjónusta verður dýrari eða að óbreyttir peningar kaupa minni þjónustu. Eftir uppsögnum að dæma virðist innbyggða verðbólgan ekki stafa af of háu kaupi.

Innbyggða verðbólgan stafar sumpart af nýjum og dýrum lyfjum og nýrri og dýrri tækni, sem menn færa sér í nyt. Sumpart stafar hún af fjölgun stjórnenda á ýmsum stigum. Sjúkrahúsunum hefur láðst að festa hendur á þessari verðbólgu og hafa hemil á henni.

Heilbrigðiskerfið tekur núna um 8% af landsframleiðslunni, meira en í flestum nálægum löndum. Sjúkrahúsin eru þyngst á fóðrunum í þessum geira. Þess vegna er ótrúlegt, að unnt verði að halda uppi óbreyttri þjónustu, þegar núverandi deila hefur verið leyst.

Skoðanakönnun hefur verið beitt til að halda fram, að fólk vilji greiða meira fé til heilbrigðismála. Finna þarf, hvort þjóðin vilji borga meiri skatta í þessu skyni eða taka féð af öðrum póstum. Einnig þarf að finna, hvort dýrar skekkjur leynist í rekstri sjúkrahúsanna.

Þegar ríkisvaldið hefur tekið fjárhagslegum afleiðingum af innreið markaðslögmálsins á sjúkrahúsin, má reikna með, að það reyni að spara á móti með þeim eina hætti, sem sjáanlegur er í stöðunni, með því að minnka þjónustuna, með biðlistum og forgangsröðun.

Ríkið hefur reynt að spara með því að halda lögmáli framboðs og eftirspurnar fyrir utan sjúkrahúsin. Það hefur nú mistekizt, svo að leita verður nýrra leiða.

Jónas Kristjánsson

DV

Opnum gluggana

Greinar

Í þjóðhagslogninu, sem nú ríkir, er gott tækifæri til að undirbúa næstu skref lands og þjóðar fram á veg. Þótt vel ári í sjávarútvegi, er nú sem endranær nauðsynlegt að efla forsendur, sem geta gert okkur hæfari til að lifa og blómstra í umheimi vaxandi samkeppni.

Ekki er langt síðan talið var eðlilegt eða að minnsta kosti þolanlegt, að verðbólga á Íslandi væri meiri en í nágrannalöndunum og að hér mætti fella gengið nokkurn vegin árvisst. Nú dettur engum í hug, að verðbólga og gengislækkanir séu þolanleg fyrirbæri.

Lengi var það talið jafngilda náttúrulögmáli, að ekki þekktist hér á landi kerfislægt atvinnuleysi. Við komumst svo að raun um það á síðasta áratugi aldarinnar, að atvinnuleysi getur jafnan verið handan við hornið, ef bilun verður í nýsköpun í atvinnulífinu.

Með samanburði við nágranna getum við séð, hvar við stöndum vel að vígi og hvar við þurfum að bæta okkur. Á sumum sviðum erum við í fremstu röð þjóða, en á öðrum sviðum höfum við dregizt aftur úr. Það ætti að vera pólitískt forgangsmál að fjarlægja fótakeflin.

Sem stendur er atvinna góð, enda hefur langtímahagvöxtur numið 4% á ári að meðaltali. Menntunarstig þjóðarinnar er í betra lagi, svo að svigrúm er til að fara inn á nýjar brautir, þegar þær gefast, svo sem erfðagreiningu, hvalaskoðunarútgerð og hugbúnaðargerð.

Af fjölþjóðlegum samanburði má þó sjá, að Ísland er aðeins í þrítugasta sæti í samkeppnishæfni. Við stöndum lakar að vígi en flestar Evrópuþjóðir. Kunnar eru flestar orsakir þess, að við náum ekki ofar á listann, en við gerum bara of lítið til að ryðja þeim úr vegi.

Aðstaða vísinda og tækni er léleg hér á landi. Einkaframtakið lætur sitt eftir liggja á því sviði, ef frá er skilið fyrirtæki Kára Stefánssonar. Ríkið er eini stóri kostunaraðili vísinda og er raunar stöðugt að reyna að spara með því að skera niður útgjöld til vísinda.

Vextir eru um tveimur prósentustigum hærri hér á landi en í nálægum löndum. Sumpart stafar það af óhóflegri þörf lélegra banka og annarra fjármálastofnana fyrir vaxtamismun. Sumpart stafar það af fjárfestingarlegri einangrun landsins og of litlum sparnaði fólks.

Í fjölþjóðlega samanburðinum er það liðurinn alþjóðavæðing, sem er okkur óhagstæðastur. Við tökum minni þátt í efnahagslegu fjölþjóðasamstarfi en nágrannarnir, einkum með því að vera ekki í Evrópusambandinu og taka ekki þátt í evrópska gjaldmiðlinum.

Með þátttöku í Evrópu og evrunni mundum við auðvelda okkur að fást við ýmis önnur vandamál okkar, svo sem of litla fjárfestingu í vísindum og tækni, of háa vexti, of veikburða fjármálaþjónustu, of litlar fjárfestingar af hálfu útlendinga og of mikið vægi frumframleiðslu.

Til að tryggja betur framtíð barna okkar þurfum við að létta af stefnu einangrunar og einstefnu á hefðbundna atvinnuvegi, slípa flæði peninga með því að láta krónuna víkja fyrir evrunni og síðast en ekki sízt með því að ganga í Evrópusambandið, þar sem hlutirnir gerast.

Fyrir Íslandi hefur um langt skeið farið ríkisstjórn hægfara íhaldsmanna og einangrunarsinna, sem einblína á sjávarútveg, neita yfirleitt að ræða hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og eru raunar eins og fiskar á þurru landi, þegar þeir stíga á land erlendis.

Við þurfum að brjótast úr þessum viðjum íhalds og einangrunar, opna gluggana til umheimsins og hleypa inn þeim straumum, sem gefast öðrum þjóðum bezt.

Jónas Kristjánsson

DV