Greinar

Vinir Keikós bera ábyrgðina

Greinar

Málum Keikós verður að haga þannig, að Íslandi eða Íslendingum verði ekki kennt um mistök, til dæmis í staðsetningu sjókvíarinnar. Ekki má verða hægt að segja, að allt hafi verið í lagi, meðan hann var fyrir vestan, en síðan hafi allt farið úrskeiðis hér á landi.

Þessi mál eru þannig vaxin, að málefni hafa jafnan og munu áfram víkja fyrir tilfinningum. Sem veiðimannaþjóð höfum við jafnan og munum áfram vanmeta ofsafengnar tilfinningar almennings, einkum vestan hafs, í garð hvers konar hvala, stórra og smárra.

Þótt við séum meira eða minna ekkert nema áhorfendur að sjónarspili Íslandsferðar háhyrningsins, getur reiði almennngs í útlöndum vegna ótímabærs dauða hans hæglega beinzt gegn landinu, sem tók við honum og sem þekkt er að hvalveiðistefnu.

Þess vegna er nauðsynlegt að ganga rækilega frá öllum forsendum. Láta verður aðstandendur Keikós undirrita gögn um, að þeir einir taki alla ábyrgð á ákvörðunum, sem þeir einir hafa tekið, þar á meðal þeirri, að koma háhyrningnum fyrir í Klettsvík.

Óhætt er að segja, að fyrirhuguð staðsetning sjókvíarinnar við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn hafi komið kunnugum á óvart. Menn óttast, að stórbrotið umhverfi Klettsvíkur hafi ráðið því, að skyndilega skiptu vinir Keikós um skoðun og hættu við Eskifjörð.

Tugir skipa sigla um innsiglinguna á hverjum sólarhring, nótt sem nýtan dag. Af því leiðir hávaða og mengunarhættu, auk þess sem árekstarhætta verður, ef einhverjir vinir Keikós frá útlöndum eru að spóka sig við víkina á kajökum, gúmbátum eða jullum.

Mengun getur einnig stafað frá skipum og öðru athafnalífi hafnarinnar í Eyjum, svo og frá skolpi bæjarins, sem rennur því miður óhreinsað í sjó. Íslendingum verður kennt um, ef einhver mengun af slíku tagi gerir frægasta háhyrningi heimsins lífið leitt.

Nauðsynlegt er, að íslenzkir málsaðilar í Stjórnarráðinu og bæjarstjórninni dragi saman upplýsingar um efasemdir af þessu tagi og ýmsar fleiri, svo sem hættuna á fárviðri á þessu svæði, og láti aðstandendur Keikós skrifa undir, að þeir hafi kynnt sér þær.

Engin ástæða er til að efast um, að vinir Keikós séu af heilum hug að reyna að búa honum bærilegar aðstæður. Enginn veit hins vegar, hvað upp á kann að koma, ef illa fer og hver reynir að bjarga sér sem bezt hann getur frá reiði fáfróðs almenningsálits.

Við þurfum líka að gæta okkar á, að eitt skref leiði ekki til annars á þann hátt, að niðurstaðan verði önnur en reiknað var með í upphafi. Sitjum við ef til vill uppi með áhorfendapalla upp eftir öllum Heimakletti, áður en við vitum, hvaðan á okkur stendur veðrið?

Allt mál Keikós er samofin flækja heitra tilfinninga og kaldrifjaðrar peningahyggju. Margir fá glýju í augun, ef þeir sjá sér færi á að taka þátt í að græða á hræsninni, sem jafnan fylgir slíkum þverstæðum. Glýjan sú getur villt mönnum sýn og rænt þá ráði.

Að flestu leyti hafa íslenzkir málsaðilar brugðizt rétt við hugmyndinni um heimflutning hins víðförla háhyrnings. Sjálfsagt er og eðlilegt að reyna að greiða fyrir málinu eins og hægt er að gera innan ramma laga og heilbrigðrar skynsemi. Það hefur verið gert.

Við þurfum bara að hafa skjalfest á hreinu, að þeir, sem einir taka lykilákvarðanir í máli þessu, taki líka einir á sig ábyrgðina af þeim lykilákvörðunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Torgið, Taívan og Tíbet

Greinar

Rómverjar og Bretar kunnu að varðveita heimsveldi um aldir. Rómverjar deildu og drottnuðu með því að styðja önnur ríki gegn keppinautum sínum. Bretar gerðu það sama með því að styðja öflug Evrópuríki gegn ríkinu, sem var þeim erfiðast á hverjum tíma.

Þannig studdu Bretar Prússa fyrst gegn Habsborgaraveldi Austurríkis, þegar það hafði teygt sig um Ítalíu, Spán og Niðurlönd og síðan gegn Napóleonsveldi Frakklands, þegar það hafði teygt sig austur og suður um alla Evrópu. Bretar borguðu heilu stríðin fyrir Prússa.

Ef Kína er á eins mikilli stórveldissiglingu og menn Clintons Bandaríkjaforseta vilja vera láta, ættu þeir að efla samskipti við öflug ríki á borð við Sovétríkin, Indland og Japan, sem þurfa að rýma til fyrir áhrifum Kína, fremur en að hvetja Kínastjórn til aukinna afskipta.

Ofan á það, sem sagnfræðin ætti að geta kennt fávísu liði Clintons, bætist sú augljósa staðreynd, að Sovétríkin, Indland og Japan eru eins konar lýðræðisríki, þar sem flokkar skiptast á um völd, en Kína er alræðisríki, sem vinnur gegn bandarískri hugmyndafræði.

Bandaríkin hafa ekki aðeins truflað valdajafnvægi Asíu með Kínagælum sínum, heldur einnig með gælum við alræðisríkið Pakistan, sem studdi Talebana til valda í Afganistan. Með bandarískum peningum, sem fóru um Pakistan, var komið á hryllingsstjórn í Afganistan.

Þegar Indverjar sáu þann kost í herkví Kínverja og Pakistana að gera tilraunir með kjarnorkuvopn, ætlaði allt vitlaust að verða í Bandaríkjunum. Nú beita þau Indland efnahagslegum refsiaðgerðum, meðan Kína nýtur beztu kjara í viðskiptum, þrátt fyrir sínar tilraunir.

Komið hefur í ljós, að stuðningur Bandaríkjanna við japanska jenið í síðustu viku var ekki liður í samkomulagi um fjármálaúrbætur í Japan, svo sem venja er við slíkar aðstæður. Þetta var pólitísk ákvörðun, sem tekin var af mönnum Clintons í þágu Kínastjórnar.

Ef japanska jenið hefði fallið, hefði kínverska júanið og dollarinn í Hong Kong fallið líka. Það hefði verið áfall fyrir Kína eftir nýlega gengislækkun þar árið 1995. Kínastjórn hvatti Bandaríkjastjórn til að styðja jenið, svo að röðin kæmi ekki næst að eigin gjaldmiðlum.

Kínastjórn hefur Clinton og menn hans að fíflum í hverju málinu á fætur öðru. Hún fékk ferð Clintons færða fram á afmæli ofbeldisins á Torgi hins himneska friðar og fékk hann til að skoða torgið. Hvort tveggja er táknræn framganga samkvæmt kínverskri hefð.

Dagskrá ferðar Clintons undirstrikar, að Bandaríkin hafi fallizt á atburðina á Torgi hins himneska friðar, rétt eins og villimennsku Kínastjórnar gegn sérkennilegum menningarheimi Tíbets og sífelldar tilraunir hennar til að grafa undan stjórnvöldum eyríkisins Taívans.

Kínastjórn notar fávísi og siðleysi Clintons til að efla kröfu sína um, að Kína taki við af öxli Bandaríkjanna og Japans sem Asíuveldið mikla. Þessa efldu stöðu mun hún nota til að láta vestræna hugmyndafræði víkja fyrir hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins.

Samt er Kína ekkert stórveldi í raun. Stærð efnahagsins er sama og Spánar. Erlendar fjárfestingar eru svipaðar og í Brasilíu, ef frá eru taldir brottfluttir Kínverjar. Fjárhagsleg þátttaka Kína í vörnum gegn gengishruni gjaldmiðla í Asíu er einn tíundi af framlagi Japans.

Samt hafa menn Clintons Bandaríkjaforseta ákveðið að líma sig á ráðamenn Kína og vaða eldinn til að þjónusta þá sem bezt í stórveldisdraumum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðji foringjaflokkurinn

Greinar

Þótt ótrúlegt megi virðast, eru vinstri flokkarnir að skauta á góðu rennsli í átt til sameiginlegs framboðs í alþingiskosningunum að ári. Allar málefnanefndir flokkanna þriggja, nema utanríkismálanefnd, hafa þegar skilað drögum að stefnu hins sameiginlega framboðs.

Flest bendir til, að allra hörðustu vaðmálssinnar Alþýðubandalagsins, með Hjörleif Guttormsson í broddi fylkingar, verði skildir eftir. Aðrir armar flokkanna þriggja geti náð saman, í sumum tilvikum um það, sem Hjörleifur kallar “hinn minnsta samnefnara”.

Auðvitað er ekki stórbrotin stefna í samstarfsmálum Evrópu að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Á sömu forsendum gæti flokkur haft þá stefnuskrá að fylgja jafnan því, sem vinsælast er í skoðanakönnunum á hverjum tíma.

Jóhann Hafstein vitnaði í Biblíuna og sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur.” Hann var að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Og ætli flokkar sér að verða jafn fjölmennir og sá flokkur, þurfa þeir að geta skautað létt yfir margvíslega mismundi sjónarmið innanflokks.

Erfiðast er að skilja, hvernig íhald og framsókn sameinast í pólitík. Grunnágreiningur hefur alltaf verið um, hvort varðveita eigi hið gamla eða hlúa að hinu nýja. Alþýðubandalagið hefur verið helzti íhaldsflokkurinn og Alþýðuflokkurinn helzti framsóknarflokkurinn.

Málin hljóta að verða snúin, þegar farið er að fjalla um mál á borð við landbúnað og jafnvægi í byggð landsins, náttúruvernd og virkjun fallvatna, erlendar fjárfestingar og gjafakvóta í fiskveiðum. Allt eru þetta mál, þar sem stangast á verndun hins gamla og sókn í hið nýja.

En Sjálfstæðisflokknum hefur tekizt ágætlega að rúma allar þessar þverstæður og fleiri til. Þar á ofan líður honum bezt í helmingaskiptum við annan flokk, sem rúmar líka þetta allt og meira til. Hvor stjórnarflokkurinn um sig er í senn íhalds- og framsóknarflokkur.

Því skyldi sameinaður stjórnmálaflokkur á vinstri vængnum ekki getað skautað jafn léttilega yfir málefnaágreining milli þeirra? Því skyldu frjálshyggjudeild Alþýðuflokksins og vaðmálsdeild Alþýðubandalagsins ekki geta skautað saman til valda í alþingiskosningum?

Alls staðar í kringum okkur eru flokkar að breytast úr skýrt skilgreindum málefnaflokkum í foringjaflokka, sem aðeins í blæbrigðum eru málefnalega öðru vísi en hinir. Því skyldi ekki rísa hér flokkur Ingibjargar Sólrúnar eins og flokkur Davíðs og Halldórs?

Minnkað hefur áhugi kjósenda á skýrt skilgreindum málefnaágreiningi. Þeim mun meiri áhuga hafa þeir á sterkum foringja, sem þeir telja í aðalatriðum vera á réttum nótum. Liðinn er tími hvassra málefna og skýrs ágreinings að hætti Hjörleifs Guttormssonar.

Þannig hafa allir náð saman í málefnanefndunum, stundum með aðferð hins minnsta samnefndara, nema Hjörleifur, sem fer í sérframboð á Austfjörðum, nær þar ekki kjöri og mundi einangrast á þingi, þótt hann næði kjöri. Tími hans aðferða er einfaldlega liðinn.

Fólk styður ekki lengur hugsjónamenn, sem vilja ná völdum til að framkvæma langan málefnalista. Fólk styður atvinnumenn, sem vilja ná völdum til að hafa völd. Hjörleifur mun vafalaust spyrja, hvers vegna fólk styðji slíka, enda er eðlilegt, að spurt sé: “Til hvers?”

Kjósendur hafa engin svör á reiðum höndum. En undir niðri telja margir, að sterkir atvinnumenn séu farsælli en hugsjónamenn á skautasvelli stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Keikó bjargar hvölunum

Greinar

Flutningur Keikós höfrungs til Íslands táknar endanlegan sigur hvalavina yfir hvalveiðisinnum á Íslandi. Með þessari frábæru leikfléttu mun bandarískum hvalavinum takast að fá Íslendinga endanlega ofan af hvalveiðihugsjónum sínum og það með góðu.

Veitingamenn í Vestmannaeyjum geta ekki haft hvalkjöt á matseðlinum, þegar útlendir hvalavinir eru farnir að flykkjast til Eyja og flagga gullkortunum sínum. Þegar til kastanna kemur, mun hugsjón peninganna verða yfirsterkari hugsjón hvalveiðanna.

Nú þegar leggja hvalaskoðunarferðir meira til þjóðarbúsins en hvalveiðar mundu gera, ef þær yrðu leyfðar að nýju. Nokkur sveitarfélög við sjávarsíðuna hafa gert hvalaskoðun að helzta vaxtarbroddi atvinnulífsins og fleiri munu feta gróðaslóð hvalavináttunnar.

Hugsjón hvalveiða hefur verið á tveggja áratuga skipulegu undanhaldi hér á landi. Fundnar voru upp “veiðar til innanlandsneyzlu” og “vísindaveiðar”, unz Japanir þorðu ekki lengur að kaupa hvalaafurðir héðan af ótta við refsiaðgerðir Bandaríkjamanna.

Allan þennan tíma hefur meirihluti þjóðarinnar stutt hvalveiðar í skoðanakönnunum. Þjóðernishugsjón hvalveiðanna hefur aldrei bilað, þótt smám saman hafi á tveimur áratugum verið að koma í ljós, að hún væri bæði óframkvæmanleg og ákaflega dýrkeypt.

Lengi ímynduðu menn sér, að unnt væri að sameina hugsjón og peningadýrkun með því að selja útlendingum hvalaafurðir. Komið hefur í ljós, að svo er ekki. Ekki þora einu sinni Japanir, sem nú í vikunni voru peningalega dregnir í land af Bandaríkjunum.

Enn ímynda Íslendingar sér, að unnt sé að selja mönnum hvalaskoðunarferðir og selja þeim síðan hvalkjöt í kvöldmatinn. Þegar vinum Keikós verður svo boðin amma hans í matinn, munu þeir bara taka hugsjónakokkinn og fleygja honum í sjóinn.

Hin einfalda staðreynd þessa máls er, að peningarnir tala. Þegar sjávarsíðan er farin að hafa miklar tekjur af hvalavináttu og Vestmannaeyjar eru orðnar að heimkynnum frægasta höfrungs heims, verður ekki aftur snúið. Sögu íslenzkra hvalveiða er endanlega lokið.

Helztu aðmírálar hins hægfara undanhalds hafa verið ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson. Sá síðarnefndi sá hættuna, sem stafaði af heimferð Keikós og svaraði umsókninni neitandi. Hann tók fram, að slíkum umsóknum yrði framvegis neitað.

Davíð Oddsson veit hins vegar, að hvorki er hægt að éta kökuna og eiga hana, né að éta hvalinn og eiga hann. Hann hefur feiknarlega lítið álit á Þorsteini hugsjónamanni og flýtti sér að taka fram fyrir hendur hans, þegar heimferð Keikós var orðin að alvörumáli.

Halldór Ásgrímsson hefur í tvo áratugi slegið ódýrar keilur innanlands á þrautseigju sinni við að framleiða lokleysur í fjölþjóðastofnunum til stuðnings vonlausum hvalveiðum. Gaman verður að fylgjast með, hvernig hann meltir stöðuna, sem nú er komin upp.

Engu máli skiptir, hvort hvalastofnar þoli hvalveiðar eða ekki. Þetta mál hefur fyrir löngu yfirgefið slóðir raka og rökleysu, en flýgur á þöndum vængjum tilfinninga. Með því að taka við Keikó hefur íslenzka ríkið endanlega beygt sig fyrir einfaldri staðreynd.

Meirihluti þjóðarinnar verður senn að kyngja hetjuskap sínum og hugsjón sinni, því að glóandi peningarnir hafa talað og greitt atkvæði með hvölunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Spurningum sópað af borði

Greinar

Forsætis-, utanríkis- og bankaráðherra hafa hnýtt endahnút á bankamál. Afsögn Sverris og félaga í Landsbankanum verður látin nægja. Ráðamenn Búnaðarbankans munu fá að vera í friði og það sama gerist í Seðlabankanum, þegar svipað sukk kemur þar í ljós.

Málin eru komin í farveg Ríkisendurskoðunar, sem mun komast að raun um, að það sama gildi um Búnaðarbankann og Seðlabankann, að bókhaldslög hafi ekki verið brotin og að bankaráðin séu einfær um að halda uppi nauðsynlegum aga á bankastjórum.

Aðeins eitt mál er í farvegi Ríkissaksóknara, sem mun komast að raun um, að refsivert athæfi hafi ekki verið framið í málefnum Lindar. Það sé ekki refsivert að vera meðvitundarlaus. Það sé ekki refsivert að sukka. Það sé ekki refisvert að stunda óráðsíu í fjármálum.

Niðurstaða hvellsins verður, að mál bankanna verða látin niður falla. Sverri og félögum hefur verið fórnað til að friða fólkið í landinu, en hindruð verður frekari uppstokkun í helmingaskiptafélagi bankakerfisins. Öldurnar mun lægja og allt verða eins og áður var.

Engin tilraun verður gerð til að búa til leikreglur um, hvernig skuli fara með svokallaða gleymsku, sem lýsir sér í vantalningu á sjálftekt eigin hlunninda. Því munu embættismenn áfram gefa rangar upplýsingar. Séu þeir staðnir að verki, segja þeir bara: “Æ, ég gleymdi.”

Engin tilraun verður gerð til að búa til leikreglur um, hversu meðvitundarlitlir eða -lausir mega vera eftirlitsmenn eigenda, svo sem bankaráðsmenn. Þeim mun áfram geta verið algerlega ókunnugt um sukk og óráðsíu í fyrirtækjunum, sem þeir eiga að líta eftir.

Engin tilraun verður gerð til að fá botn í, hvers vegna Ríkisendurskoðandi lætur flest kyrrt liggja, sem ekki varðar beinlínis við bókhaldslög, og hvers vegna honum finnst í lagi, að ofan á laun sín þiggi hann persónulega greiðslur frá fyrirtækjunum, sem hann fylgist með.

Engin tilraun verður gerð til að kanna, hvort bankaráðherra hafi bakað sér siðferðilega ábyrgð með því að gefa Alþingi villandi upplýsingar um stöðu Lindar fyrir tveimur árum og hindra þannig uppljóstrun eins grófasta sukk- og óráðsíumáls áratugarins.

Engin tilraun verður gerð til að kanna þá frétt Sverris Hermannssonar, að reynt hafi verið að koma á samráði milli Eimskipafélags Íslands og hluta af stjórnendum Landsbankans um að gera Samskip gjaldþrota eins og Hafskip höfðu verið áður gerð gjaldþrota.

Engin tilraun verður gerð til að kanna, hvort stjórnmálaflokkar, önnur samtök eða svonefnd gæludýr af ýmsu tagi hafi fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur í bönkunum. Enginn botn fæst í, hvernig bankarnir gátu tapað tugum milljarða í útlánum á þessum áratug.

Allt eru þetta dæmigerð verkefni sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis, einnar eða fleiri, að venju vestrænna lýðræðisríkja. Slík nefnd getur fengizt við mál á gráa svæðinu, þar sem bókhaldslögum sleppir og mat á góðum siðum og vinnureglum tekur við.

Slík rannsóknarnefnd Alþingis að vestrænum hætti verður ekki skipuð, af því að ráðherrarnir þrír hafa úrskurðað, að hún sé ólýðræðisleg. Þar með hefur öllum ofangreindum málum verið sópað út af borðinu og ábyrgðin skilin eftir hjá stjórnarflokkunum tveimur.

Enda mundi hrikta í þjóðfélaginu, ef almenningur fengi til dæmis að vita, hvernig pólitískt tengdum bönkum tókst að tapa tugum milljarða á fáum árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fróðlegt sukk

Greinar

Bönd Landsbankamálsins hafa borizt að bankaráðinu síðan lögmaður á þess vegum hvítþvoði bankastjórana og taldi eðlilegt að milda þeim starfslokin með fullum launum og fríðindum í átta mánuði, það er tuttugu milljóna króna verðlaunaveitingu af hálfu bankans.

Svo margir aðilar eru orðnir flæktir í Landsbankamálið, að nauðsynlegt er, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að skilgreina flækjuna. Slíkar nefndir þykja sjálfsagðar í lýðræðisríkjum beggja vegna Atlantshafsins, þótt hér telji skelfdir ráðherrar þær ógnun við lýðræðið.

Alls engar málefnaforsendur eru að baki æsingi forsætis- og utanríkisráðherra á Alþingi vegna tillagna um rannsóknarnefnd. Í nágrannalöndum okkar eru slíkar nefndir taldar efla lýðræði með því að styrkja eftirlitshlutverk þjóðþingsins, sem hér á landi er afar veikt.

Ekki bætir úr skák, að eftirlit af hálfu Ríkisendurskoðunar hefur reynzt takmarkað. Komið hefur í ljós, að Ríkisendurskoðandi er einn af strákunum og hefur verið önnum kafinn við að útvega sér sjálfum einkatekjur hjá fyrirtækjum, sem eru undir eftirliti stofnunar hans.

Laxavandræði hafa leynzt víðar í ríkisbönkunum og rangar upplýsingar víðar verið gefnar. Búnaðarbankinn er að minnsta kosti að nokkru leyti í sömu súpu og Landsbankinn, sem kemur á óvart, því hingað til hefur hann verið talinn betur og hóflegar rekinn banki.

Rannsóknarnefnd Alþingis gæti meðal annars reynt að finna, hve víðtæk sé spilling, sem felst annars vegar í óhóflegri sjálftöku stjórnenda á fríðindum sér til handa og í röngum upplýsingum þeirra um málin, þegar þeir eru orðnir hræddir um, að böndin berist að sér.

Lindarmálið hefur leitt í ljós, að sumir ráðherrar vissu um það í smáatriðum fyrir nokkrum árum, en bankaráðherrann vissi svo lítið á sama tíma, að hann svaraði fyrirspurn á Alþingi á þann veg, að ætla mætti að ekkert sérstakt hefði verið athugavert við það fyrirtæki.

Núverandi bankaráðherra virtist ekki vita um sukkið í Lind, þegar hann var spurður um það á Alþingi. Hann virtist ekki heldur vita um laxasukk Landsbankans, þótt hann hefði verið í laxveiði með einum bankastjóranum á kostnað bankans. Hann virðist meðvitundarlaus.

Rannsóknarnefnd Alþingis gæti meðal annars reynt að finna, hve mikið sé um, að gælustrákar á vegum stjórnmálaflokka séu að sukka með fé almennings í skjóli meðvitundarleysis og hvort núverandi bankaráðherra sé starfhæfur, ef hann er árum saman meðvitundarlaus.

Í Landsbanka- og Lindarmálum hefur farið mikið fyrir meðvitundarleysi ráðamanna. Fyrrverandi formaður banakaráðs Landsbankans reyndist hafa verið meðvitundarlaus á vikulegum fundum í sjö ár með bankastjórununum, rétt eins og hann væri bankaráðherra.

Öll málin, sem drepið hefur verið á hér að ofan, hverfa í skuggann fyrir því almenna vandamáli, að opinberir bankar og sjóðir hafa á þessum áratug tapað tugum milljarða króna af almannafé í útlánasukki, meðal annars til gæludýra á vegum stjórnmálaflokka.

Samanlagt eru mál þessi þannig vaxin, að linur ríkisendurskoðandi kemst hæglega að raun um, að farið hafi verið eftir bókhaldslögum og ríkissaksóknari kemst hæglega að raun um, að engin lög hafi verið brotin. Þess vegna þarf Alþingi að skipa rannsóknarnefnd.

Nefndin ætti að reyna að finna, hvernig sukk og spilling gátu þrifizt í bákninu og hvernig koma megi í veg fyrir, að slíkt endurtaki sig í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Úr Niflungahringnum

Greinar

Fyrir tveimur árum hótaði Davíð Oddsson forsætisráðherra Sverri Hermannssyni bankastjóra bréflega að nota ellefu milljarða tap Landsbankans og 900 milljóna tap Lindar til að láta reka bankastjórana, ef hann sæi ekki um, að bankinn fylgdi vaxtastefnu stjórnvalda.

Í framhjáhlaupi er athyglisvert, að forsætisráðherra skuli fyrir meira en tveimur árum hafa vitað nákvæmlega um 900 milljóna sukkið, sem bankaráðherra sver nú og sárt við leggur að hafa ekki vitað um, þegar hann gaf Alþingi rangar upplýsingar um málið.

Sverrir gaf eftir og var ekki rekinn. Hann vissi, að skilaboð formanns Flokksins voru þungvægari en formlegt valdakerfi bankans, þar sem bankastjórar heyrðu undir bankaráð, sem þá heyrði undir Alþingi. Í bréfinu talaði landseigandi við einn lénsherra sinna.

Bréfið hefur verið birt og gefur góða innsýn í hugarheim ráðamanna, sem minnir meira á þriðja heiminn en nágrannalöndin. Lög og reglur og hefðir víkja fyrir afrískum geðþótta, sem gengur þvert á allar leikreglur og form, sem gilda í lýðræðisríkjum nútímans.

Forsætisráðherra var ekki að lækna sukkið í rekstri bankans heldur nota það sem skiptimynt í ágreiningi um vexti. Enda fór svo fyrir tveimur árum, að ekkert var gert í málum bankans, sem hafði tapað ellefu milljörðum, þar af tæpum milljarði á einni Lind.

Forsætisráðherra fór ekki réttar boðleiðir samkvæmt bókfærðu skipulagi. Hann leit svo á, að sem formaður Flokksins gæti hann skákað þeim herrum, sem höfðu fengið lén á vegum flokksins. Þetta reyndist vera alveg rétt hjá honum, enda er Ísland þriðja heims ríki.

Svipað hugarfar kom fram hjá Sverri Hermannssyni, þegar hann var löngu síðar rekinn vegna allt annarra mála, laxveiða sinna. Þá lagðist hann í herferð gegn spillingu annarra, ekki til að bæta heiminn, heldur til að hefna sín á þeim, sem höfðu stjakað við honum.

Sverrir ljóstraði upp um bankaráðherra og utanríkisráðherra vegna óráðsíustráks á framfæri þeirra, þingmann af Vestfjörðum fyrir ósiðlega yfirtöku einokunarfyrirtækis og ríkisendurskoðanda fyrir fjárhagslega misnotkun embættisins. Aðra sukkara lét hann í friði.

Bankastjórinn fyrrverandi og forsætisráðherrann núverandi eru aftan úr grárri forneskju, þar sem hefnd og hroki, lén og níðsla réðu ferð, áður en farið var að búa til formlegar umgengnisreglur til að byggja upp flókin nútímaríki. Þeir koma úr Niflungahringnum.

Á ytra borði ríkir hér svipað þjóðskipulag og í nágrannalöndunum, þar sem forfeður manna urðu að fórna lífinu til að losna undan kúgurum fortíðarinnar. Undir niðri ríkir fortíðin samt áfram hér á landi, enda var forfeðrum okkar gefið lýðræði á silfurfati.

Stjórnunarstíll fyrrverandi borgarstjóra og núverandi forsætisráðherra væri ekki framkvæmanlegur í nágrannalöndnum. Hann virkar hér á landi, af því að millistjórnendur þjóðfélagsins líta á sig sem lénsherra, sem hafi þegið lén sín úr hendi Davíðs konungs.

Venjulega fer stjórnunarstíll að hætti Niflungahringsins fram í síma og er því ekki skjalfestur. Bréfið til bankastjórans er einstakt í sinni röð, af því að það gefur svart á hvítu innsýn í svörtustu forneskju, sem menn grunaði, að væri til, en gátu ekki sannað.

Og þjóðin er því miður bara feitur þræll, sem lætur bjóða sér lénsskipulag í lok tuttugustu aldar, af því að frelsið hefur aldrei fest rætur í brjósti hennar

Jónas Kristjánsson

DV

Enginn auður án lýðræðis

Greinar

Hremmingar fjármála Austur-Asíu hafa ekki snert Indland og munu ekki gera það í náinni framtíð. Indland er vestrænt lýðræðisríki, sem er búið að losa sig við ýmis vandamál, sem valdshyggjumenn nágrannalanda þess í austri hafa reynt að koma sér hjá að leysa.

Þjóðhagsmál Indlands eru gamaldags útgáfa af vestrænum þjóðhagsmálum. Efnahagur þess færi á flug, ef landið losnaði við ríkisafskiptastefnu Kongress-flokksins og sjálfsþurftarstefnu núverandi valdhafa þjóðernissinna. Að öðru leyti er Indland í góðum málum.

Þegar austur fyrir Indland kemur, taka við hin svonefndu asísku gildi, sem ráðamenn margra landa hafa teflt fram gegn vestrænum gildum. Til skamms tíma þóttu asísku gildin afar lærdómsrík, en nú talar enginn um, að Vesturlönd geti nokkuð lært af þeim.

Kreppa ríður húsum Austur-Asíu um þessar mundir. Verst eru leikin Indónesía, Suður-Kórea og Malasía, en einnig hriktir í stoðum Japans, Taívans, Filippseyja, Singapúrs, Hong Kong og Kína. Verðgildi japanska jensins hefur hríðlækkað og mun enn lækka.

Þessi ríki hafa yfirleitt búið til óþarflega mikla framleiðslugetu í iðnaði og þjónustu með verndarstefnu í innflutningi samfara sóknarstefnu í útflutningi, rétt eins og gerzt hefur í íslenzkum landbúnaði. Þau hafa byggt upp óráðsíubanka, sem minna á Landsbankann.

Um tíma héldu bjartsýnismenn, að Japanir væru nógu sterkir efnahagslega til að standast hremmingarnar og fjármagna viðreisn nágrannaríkjanna. Reynslan sýnir hins vegar, að þeir ráða ekki við eigin vandamál og telja sig ekki aflögufæra gagnvart nágrannaríkjunum.

Um tíma héldu bjartsýnismenn, að Kína mundi sleppa við gengislækkun. Nú er bara spurt, hvenær kínverska júanið lækki í verði, en ekki hvort svo verði. Gengislækkunin mun framkalla frekari hraðaaukningu Austur-Asíu á leiðinni niður eftir kreppugorminum.

Rætur vandans eru hin austrænu gildi, sem framan af var einkum haldið fram af Lee Kuan Yew, valdhafanum í Singapúr, og í seinni tíð meira af Tung Chee, hinum nýja lepp Kínastjórnar í Hong Kong. Undirleik annast ráðamenn í Malasíu. Að baki hefur Kínastjórn glott.

Asísku gildin eru sögð felast í áherzlu á fjölskylduna, fremur en einstaklinginn, virðingu fyrir hinum eldri, þar á meðal valdhöfum, einnig áherzlu á menntun fremur en framtak, trú á röð og reglu, notkun samráðs í stað samkeppni, og meiri áherzlu á skyldur en réttindi.

Gamlir valdhafar þessa heimshluta, með Lee Kuan Yew í broddi fylkingar, hafa meira að segja gabbað gamla þjóðhöfðingja á Vesturlöndum til að flytja tillögu um, að til hliðar við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna verði sett yfirlýsing um skyldur manna.

Allt er rotið að baki hugmyndafræðinnar um hin austrænu gildi. Þar þrífst spilling og efnahagslegt gæludýrahald í skjóli virðingarinnar fyrir hinum eldri, trúarinnar á röð og reglu og notkun samráðs í stað samkeppni. Þetta hefur tröllriðið asísku bönkunum.

Nú eru lönd svonefndra asískra gilda rétt að byrja að súpa seyðið af kenningakerfinu. Gjaldmiðlarnir hríðfalla og verksmiðjum er lokað. Atvinnuleysingjar hrekjast út á gaddinn og finna þá ekki föðurlegu umhyggjuna, sem þeir höfðu vænzt í skjóli hinna asísku gilda.

Hin vestrænu gildi eru nefnilega ekki staðbundin við vestrið. Án vestræns lýðræðis geta þjóðir ekki orðið ríkar til lengdar. Ekki heldur þjóðir Austur-Asíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Andvana fæddur flokkur

Greinar

Svigrúm ætti að vera fyrir nýjan stjórnmálaflokk við aðstæður, þar sem gömlu flokkarnir taka annaðhvort sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni eða hafa forsögunnar vegna ekki traust fólks til að gæta almannahagsmuna, þótt þeir þykist ætla að gera það.

Skoðanakannanir sýna, að mikill meirihluti fólks er ósáttur við, að auðlindir sjávar séu afhentar fámennum hópi útgerðarmanna og gangi þar kaupum og sölum og meira að segja í arf. Stjórnarflokkarnir og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn hunza óbeitina á þessu.

Skoðanakannanir sýna, að mikill meirihluti fólks er ósáttur við, að ósnortnum víðernum hálendisins sé skipt í fjörutíu renninga handa fámennustu sveitahreppunum til að ráðskast með. Stjórnarflokkarnir og ýmsir stjórnarandstöðuþingmenn hunza óbeitina á þessu.

Hingað til hafa flokkarnir skákað í því skjólinu, að fólk hefur skammvinnt minni. Þegar kemur að kosningum, láta flestir smala sér í gömlu dilkana, þótt þeir hafi áður verið ósáttir við löngu gleymt mál. Þess vegna eru sérhagsmunamálin keyrð áfram á Alþingi.

Stundum hafa menn stutt rokuflokka inn á þing, ekki með varanlegan stuðning í huga, heldur sem refsingu gamla flokksins, afmarkaða í tíma. Þannig hafa nýir flokkar risið og hnigið, af því að kjósendur þeirra voru undir niðri áfram tryggir fylgismenn annarra flokka.

Reynslan sýnir líka, að lukkuriddarar nota nýja flokka sér til pólitísks framdráttar og reynast gjarna illa, þegar þeir fá þátt í völdum. Þannig flutu vafasamir fuglar inn á þing og jafnvel upp í ráðherrastól í skjóli tímabundinna vinsælda flokks Alberts Guðmundssonar.

Stjórnmálaflokkur Sverris Hermannssonar mun aldrei ná svo langt, þótt hann kunni að raka saman fylgi fyrir vestan og reyna að virkja andstöðuna við framsal almannahagsmuna. Kjósendur utan Vestfjarða munu flestir sjá gamla, spillta stjórnmálagosann á ferð.

Vestfirðingar eru ekki að gæta almannahagsmuna í andstöðunni við kvótakerfið. Þeir eru að reyna að ná meiri veiðiréttindum til Vestfjarða. Þeir eru reiðir stjórnvöldum fyrir samdrátt vestfirzkra veiðiheimilda, en eru engan veginn að reyna að bæta kerfið.

Við verðum að gera skýran mun á vestfirskri andstöðu við núverandi kvótakerfi og andstöðu þjóðarinnar við afsal auðlinda í hendur útgerðarmanna. Flokkur Sverris Hermannssonar mun ekki gæta almannahagsmuna, hvort sem hann þykist ætla það eða ekki.

Margir þakka Sverri fyrir að hafa veitt þjóðinni innsýn í ýmsa aðra þætti sérhagsmunagæzlu stjórnmálaflokkanna. Margir njóta þess að sjá Finn Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson engjast á þingi út af uppljóstrunum Sverris um innviði kerfisins.

Auðvitað felst ósigur fyrir Finn í því að þurfa að leita uppi tvo lögmenn úti í bæ til að verja rýran málstað sinn eins og hver annar sakborningur, sem fær lögmann til að verja mál sitt fyrir rétti. Allir skúrkar geta fengið lögmenn úti í bæ til að útskýra sakleysi sitt.

En Sverrir er ekki rétti maðurinn til að ryðja um borðum sérhagsmunagæzlumanna í musteri lýðræðisins. Hann er sjálfur einn frægasti hagsmunagæzlumaður landsins og lenti ekki í sveit með hinum réttlátu fyrr en hinir ranglátu höfðu kastað honum fyrir borð.

Þótt íslenzkir kjósendur séu hinir mestu sauðir, munu þeir þó ekki láta bjóða sér hinn gamalkunna Sverri Hermannsson undir sauðargæru almannahagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinstra framboð á upphafsreit

Greinar

Við myndun meirihluta í sveitarstjórnum eftir kosningarnar hefur komið í ljós, að Framsóknarflokknum lætur betur að starfa með Sjálfstæðisflokknum en sameiginlegu framboði á vinstri vængnum. Sveitarfélögum hægra mynzturs hefur fjölgað úr þremur í níu.

Ekki er heldur hægt að sjá, að vinstri framboðunum falli betur að starfa með Framsóknarflokknum en Sjálfstæðisflokknum. Fyrra mynztrið sést í myndun meirihluta í fimm sveitarfélögum og hið síðara í fjórum. Frá vinstri vængnum séð eru hægri flokkarnir tveir.

Þetta staðfestir, að Framsóknarflokkurinn verður ekki aðili að vinstra framboði í alþingiskosningum að ári. Þátttaka hans í slíku samstarfi í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Vestmannaeyjum stafar eingöngu af staðbundnum aðstæðum.

Úrslit kosninganna hvetja hvorki né letja til samstarfs Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista á landsvísu. Að meðaltali náðu þessir flokkar sameiginlega svipuðu fylgi og þeir náðu áður samtals hver í sínu lagi. Þeir héldu sínu, en unnu ekki ný lönd.

Villandi er að reikna atkvæði vinstri framboða upp í rúmlega 43% fylgi, því að framsóknarfylgið í Reykjavík og víðar er inni í tölunni. Því er langt frá, að væntanlegt samframboð á vinstri vængnum haldi til jafns við 43% fylgi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum.

Hitt er svo líka rétt, að sveitarstjórnarkosningarnar reyndust vera létt æfing við hagstæð skilyrði fyrir vinstra framboð á erfiðari landsvísu. Í grasrót flokkanna hefur verið efnt til samstarfs, sem ráðríkir héraðshöfðingjar á þingi munu tæpast geta staðið gegn.

Íslenzk stjórnmál hafa fallið í þann farveg, að þau snúast meira um sterka leiðtoga en málefnalegan ágreining flokka, sem hefur farið ört dofnandi. Hægri vængurinn hefur sinn Davíð í húsi, en vinstri vængurinn hefur enn ekki Ingibjörgu Sólrúnu.

Komið hefur fram í hverju málinu á fætur öðru, að í landsmálunum er lengstur vegur milli frjálshyggjuafla Alþýðuflokksins og vaðmálsafla Alþýðubandalagsins. Sameiginlegt framboð flokkanna stendur því og fellur með sterkum leiðtoga, sem blæs á ágreininginn.

Enginn flokksformaður eða fyrrverandi formannsframbjóðandi á vinstri vængnum getur haldið til jafns við Davíð. Jóhönnu Sigurðardóttur vantar að vísu ekki traust almennings, en hana skortir lagni til að halda saman andstæðum vængjum vinstra framboðs.

Engin önnur leið virðist vera úr leiðtogaraunum vinstri aflanna en að leita ásjár þeirrar stjórnmálakonu, sem hefði fengið enn fleiri atkvæði, ef hún hefði verið alein á framboðslistanum, en listinn fékk allur. Hún heldur aga á liði sínu og getur tekið Davíð í nefið.

Ekki má þá gleyma, að Ingibjörg Sólrún er borgarstjóri Framsóknarflokksins eins og annarra framboðsafla Reykjavíkurlistans. Hún þarf að spila úr því vandamáli eins og loforðum um tryggð við borgarstjórastólinn, ef hún tekur vinstri forustu á landsvísu.

Sveitarstjórnarkosningarnar hafa ekki fært drauma um sameiginlegt framboð vinstra fólks nær veruleikanum. Staðan er svipuð og hún var fyrir kosningar. Grasrótin getur unnið saman, en höfðingjarnir tæpast. Og Ingibjörg Sólrún hefur engin færi gefið enn.

Ef til vill verður eftirlátið Sverri laxveiðimanni að slá pólitískar keilur út á andstöðu þjóðarinnar við flest helztu mál núverandi ríkisstjórnar sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Jeltsín syrgir óháða fjölmiðla

Greinar

Jeltsín Rússlandsforseti sagði á fundi í Moskvu í fyrri viku með ritstjórum fjölmiðla frá mörgum löndum, að fjármálafurstar hefðu þar í landi að nokkru tekið við fyrra ritskoðunarhlutverki stjórnvalda á sovéttímanum. Taldi hann þetta einnig vera vestrænan vanda.

Austurrískur talsmaður viðstaddra tók að nokkru undir sjónarmið Jeltsíns. Sumir fjölmiðlar á Vesturlöndum eru smám saman að breytast úr fjölskyldufyrirtækjum í opin fjölmiðlunarfélög og síðan að renna inn í fjölgreinasamsteypur, jafnvel á alþjóðavettvangi.

Kunnugt er, að fjölmiðlar í eigu fjármálafurstans Rupert Murdoch, þar á meðal Times, eiga erfitt með að fjalla á málefnalegan hátt um Kína, af því að það kynni að setja hagsmuni hans í Kína í hættu. Er þó veldi hans enn sem komið er takmarkað við fjölmiðlun eina.

Atburðarás fjölmiðlunar hefur verið hröð í Rússlandi á þessum áratug. Stýring stjórnvalda hrundi snögglega og tugþúsundir fjölmiðla blómstruðu. Á sama tíma náðu fjármálafurstar tökum á framleiðslutækjum ríkisvaldsins, mynduðu samsteypur og keyptu fjölmiðla.

Rússnesku samsteypurnar eiga banka, olíufélög, fjölmiðla og margt annað. Víðtækir hagsmunir þeirra á ýmsum sviðum atvinnulífsins hafa mikil áhrifa á innihald fjölmiðla, svo sem fram hefur komið í aðdraganda kosninga. Þær eru orðnar ríki í ríkinu.

Eðlilegt er, að spurt sé, hvort Rússland sé á einum áratug að stökkva yfir tímabil, sem hefur staðið nokkra áratugi á Íslandi og nokkrar aldir í Bandaríkjunum, þar sem það hefur staðið lengst á Vesturlöndum. Þetta er tímabil óháðra fjölmiðla, tímabil Washington Post.

Tiltekin dæmi sýna, að hætta er á ferðum, þegar annað hvort gerist, að áður óháðir fjölmiðlar renna inn í samsteypur á öðrum sviðum atvinnulífsins eins og hefur gerzt í Rússlandi eða þenjast út fyrir landamæri einstakra ríkja, svo sem hjá Murdoch fjármálafursta.

Til skamms tíma var talið, að lesendur, hlustendur og áhorfendur mundu sjá um, að þetta gerðist ekki. Fjölmiðlar mundu glata trausti notenda sinna, ef þeir færu að þjóna öðrum hagsmunum en þeirra. Nú eru margir farnir að efast um, að notendur axli þetta hlutverk.

Misnotkun Murdochs á Times hefur ekki skaðað blaðið að ráði í samkeppninni við önnur blöð. Misnotkun rússneskra fjármálafursta á sjónvarpsstöðvum þar í landi hefur lítil áhrif haft á notkun stöðvanna. Notendur virðast ekki vilja taka að sér eftirlitshlutverkið.

Þetta er mikilvæg orsök ferilsins, sem felst í, að minnkandi gengi ríkisvaldsins í lýðræðisríkjum leiðir ekki til vaxandi gengis kjósenda, heldur hagsmunaaðila, ekki bara fjármálafursta, heldur einnig samtaka og stofnana af ýmsu tagi, sumpart utan og ofan landamæra.

Eins og Davíð er Jeltsín að reyna að sveigja fréttaflutning sjónvarpsstöðva að pólitískum hagsmunum, svo sem fram hefur komið í tengslum við verkfallsaðgerðir námumanna. Komið hefur í ljós, að báðir hafa þeir misst tökin, Jeltsín í hendur fjármála- og mafíufursta.

Í Rússlandi og sums staðar á Vesturlöndum eru að mótast nýjar og áður óþekktar aðstæður í fjölmiðlun, sem kalla á ný form og nýjar leikreglur. Hver verður hlutur notenda, þegar furstar stjórnmála, fjármála og glæpa taka saman höndum um að villa fólki sýn?

Hitt er svo ljóst, að almenningur getur sjálfum sér einum um kennt, sé farið að síga á efri hluta Washington Post tímabils vestrænnar og óháðrar fjölmiðlunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir velja sérhagsmunina

Greinar

Þegar landsfeður okkar velja milli almannahagsmuna og sérhagsmuna, hallast þeir yfirleitt á sveif með hinum síðarnefndu. Til dæmis þóttust þeir vera að staðfesta þjóðareign á auðlindum hafsins, en voru í rauninni að afhenda útgerðarmönnum eignarhaldið.

Nýjasta dæmið af þessu tagi er stjórn hálendisins, sem landsfeðurnir hafa afhent fjörutíu fámennishreppum í fjörutíu hrepparenningum, þótt mótmælabylgja hafi risið með þjóðinni. Hún hefur skollið á daufum eyrum landsfeðranna og tindáta þeirra á Alþingi.

Skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi andstöðu þjóðarinnar við þennan gerning. Flestar stofnanir og samtök eru sama sinnis og þjóðin, þótt þær séu ósammála um aðra þætti hálendismála. Landsfeðurnir þrýstu samt málinu gegnum málþóf á Alþingi.

Landsvirkjun og vegagerðin vilja framkvæmdir á hálendinu, náttúruverndar- og ferðamálastofnanir hafna þeim. Þótt þessir aðilar séu á öndverðum meiði, eru þeir sammála þorra þjóðarinnar um, að stjórnsýslan sé betur komin í höndum ríkisins en hreppanna.

Fundaályktunum og mótmælum rigndi yfir alþingismenn, ekki sízt þá, sem kjörnir voru af umbjóðendum utan fámennishreppanna fjörutíu. Samt barði forsætisráðherra í borðið og sagðist láta þingið sitja svo lengi fram eftir sumri sem þyrfti til að koma málinu fram.

Stundum eru almannahagsmunir þögulir, en sérhagsmunir háværir. Slíku var hvorki til að dreifa, þegar auðlindir hafsins voru afhentar útgerðarmönnum, né þegar auðlindir hálendisins voru afhentar fámennishreppunum fjörutíu. Skýringin á þrjózkunni liggur dýpra.

Þeir landsfeður, sem nú sitja að völdum, og þeir, sem áður hafa setið þar, vita, að almenningur refsar þeim ekki fyrir að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Menn æmta um stund, en láta síðan reka sig í hefðbundna dilka, þegar til kastanna kemur.

Sauðfjáreðli almennings lýsir sér í fleiri myndum. Menn gráta hástöfum yfir meðferð tryggingafélaga á sér. Þegar samtök bíleigenda fá nýtt tryggingafélag til að bjóða betri kjör, færa bíleigendur ekki tryggingar sínar, heldur bíða eftir lækkun gömlu kúgaranna sinna.

Af því að íslenzkir neytendur vilja áfram vera hjá kúgurum sínum, fást nýir aðilar tæpast til að koma inn á fáokunarmarkaðinn hér á landi. Af því að íslenzkir kjósendur vilja áfram styðja kúgara sína, endurspegla íslenzk kosningaúrslit einhver af fyrri úrslitum.

Skeytingarleysi neytenda og kjósenda um almannahagsmuni kastar landsfeðrum í faðm sérhagsmuna. Því er ekki hægt að kenna fyrrverandi og núverandi landsfeðrum einum um ofurvald sérhagsmunanna. Neytendur og kjósendur geta sjálfum sér um kennt.

Á grundvelli þekkingar landsfeðra á sauðfjáreðli kjósenda hefur verið byggt upp svonefnt ráðherralýðræði. Það er séríslenzkt fyrirbæri, þar sem framkvæmdavaldið lætur löggjafarvaldið færa sér vald til að þjónusta sérhagsmuni eftir geðþótta landsfeðra á hverjum tíma.

Þannig hefur verið byggt upp opinbert kerfi banka og sjóða, sem hefur á þessum áraug brennt nokkrum tugum milljarða í þágu gæludýra af ýmsu tagi. Þannig er milljörðum brennt á hverju ári í þágu fyrirtækja og stofnana, sem hvíla á herðum landbúnaðarins.

Íslenzk stjórnmál snúast einkum um sérhagsmuni, aðgang stjórnmálamanna að valdi til geðþóttaákvarðana um afhendingu almannagæða í hendur gæludýra.

Jónas Kristjánsson

DV

Jarðsambandið

Greinar

Byggðakosningarnar eru svo lítið mál fyrir helztu stjórnmálamenn landsins og aðra þingmenn, að þeir gátu setið á maraþonfundum á Alþingi fram í síðustu viku kosningabaráttunnar. Þeir töldu sín ekki þörf fyrr eða þá að heimamenn töldu ekki þörf fyrir þá fyrr.

Þetta sýnir, hve laus tengsli eru milli byggðamála og landsmála. Þótt fylgi flokka á hverjum stað endurspegli að nokkru stöðu flokksins í því kjördæmi eru yfirleitt sérstakar aðstæður á hverjum stað, sem rjúfa þetta mynztur. Sérhver byggð hefur pólitíska sérstöðu.

Nú er lítið um, að kjósendur líti á atkvæði sitt í byggðakosningum sem skilaboð til pólitíkusa á landsvísu. Þess hefur ekki orðið vart í könnunum að undanförnu, að kjósendur séu með annað í huga en byggðamál. Þeir taka ekki einu sinni mark á bombum.

Vafasamt er því að túlka byggðakosningarnar í dag sem létta æfingu fyrir þingkosningar að ári. Kjósendur eru í dag að kjósa fulltrúa, sem standa þeim nær en þingmenn, til að fjalla um mál, sem standa þeim nær en landsmál, svo sem skóla, götur og veitukerfi.

Samt er víðast hvar boðið fram undir merkjum hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka eða samsteypna þeirra. Kosningavélarnar eru meira eða minna þær sömu og þær eru í alþingiskosningum. Þannig tengjast byggðakosningarnar landsmálapólitíkinni á beinan hátt.

Höfuðsérkenni þessara byggðakosninga er, að Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalag og Kvennalisti bjóða ekki fram hver gegn öðrum annars staðar en í Hafnarfirði. Um allt land standa þessir flokkar saman að framboði í ýmiss konar mynztrum, en elda hvergi grátt silfur.

Slíkt samstarf í grasrót byggðanna hlýtur út af fyrir sig að teljast vera létt æfing fyrir þingkosningarnar að ári. Ef samstarfsmönnum gengur sæmilega eða vel, verður það þeim hvatning að færa sig upp á skaftið og reyna að endurtaka leikinn í þingkosningunum.

Reykjavík hefur þá sérstöðu, að þar stendur Framsóknarflokkurinn með A-flokkunum að framboði og getur ekki annað, af því að segja má, að sagnfræðin hafi lagt öllum þessum flokkum þá skyldu að herðar að verja meirihlutann, sem þeir sóttu fyrir fjórum árum.

Víða er kosið í nýjum og stærri byggðum. Bylgja sameiningar hefur risið að undanförnu. Heilar sýslur eru orðnar að einni byggð. Þetta stafar beinlínis af nútímanum, sem leggur byggðum meiri byrðar á herðar en litlu hrepparnir ráða við. Nema kannski Skorradalur.

Í sameiningarbyggðunum er verið að móta ný mynztur, sem munu skipta máli fyrir framhaldið næstu árin. Þess vegna verður ekki síður áhugavert að skoða niðurstöður kosninganna almennt á slíkum stöðum en að skoða, hvernig A-flokkunum gengur sérstaklega.

Hafnarfjörður er svo heimur út af fyrr sig, sem seint mun samlagast umhverfi sínu, uppspretta rokufrétta. Þar eru flokkar klofnir og sameinaðir sitt á hvað. Þar eru sex listar í boði með alvörufylgi samkvæmt könnunum, en ekki þrír eða færri eins og annars staðar.

Íslenzkir kjósendur hafa löngum tekið mark á byggðakosningum með því að taka þátt í þeim. Kosningaþátttaka hefur sýnt, að fólk telur atkvæði sitt skipta máli. Svo verður vafalaust einnig í dag, því að kannanir benda til, að fólk hafi tekið afstöðu til framboðslista.

Meðan fólk lætur sig varða, hvernig málum sinnar byggðar er skipað, er samhengi milli grasrótar og valds og lýðræðið hlýtur að teljast vera starfhæft.

Jónas Kristjánsson

DV

Hliðvarzlan er úrelt

Greinar

Flestir fjölmiðlar landsins höfðu um miðjan vetur nasasjón af þeim fjármálum borgarstjórnarframbjóðanda, sem hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni síðustu tvær vikur. Á öllum fréttastofunum var ákveðið að láta kyrrt liggja, þar sem pólitík gat verið í spilinu.

Þetta er hefðbundin hliðvarzla fjölmiðla, eins konar skömmtun á upplýsingum. Afar sjaldan er samkomulag milli fjölmiðla um slíka hliðvörzlu og svo var ekki heldur að þessu sinni. Á hverjum fjölmiðli fyrir sig var sama ákvörðun tekin án samráðs við hina fjölmiðlana.

Ástæður hliðvörzlunnar eru oftast þær, að fjölmiðillinn þarf að varðveita traust lesenda og telur hlaup á eftir viðkvæmum rokufréttum geta skaðað þetta traust, einkum ef síðar kemur í ljós, að hagsmunaaðilar úti í bæ hafi komið rokufréttinni á flot í eigin þágu.

Skylt þessari hliðvörzlu er samkomulag fjölmiðla og annarra aðila um að fresta birtingu upplýsinga fram til ákveðinna tímamarka. Þannig hefur fjármálaráðuneytið til dæmis kynnt fjölmiðlum efni fjárlagafrumvarps fyrirfram, svo að þeir fái góðan tíma til að skoða það.

Þetta hefur sett fjölmiðla í vanda, ef þeir hafa verið að afla sömu upplýsinga eftir öðrum leiðum. Með samkomulagi við ráðuneytið er fjölmiðillinn að binda hendur sínar, því að engin leið er að greina á milli þess, sem lekið er í fjölmiðla og hins, sem liggur á lausu.

Þannig hefur DV undanfarin ár hafnað að taka þátt í fundum ráðuneytisins um fjárlagafrumvarpið. Með þeim hætti einum telur blaðið sér unnt að birta fyrirfram fréttir af innihaldi fjárlagafrumvarps. Þannig hætti samkomulag um hliðvörzlu að virka á því sviði.

Hliðvarzla fjölmiðla hefur byggzt á fákeppni. Fullburða fréttastofur eru aðeins fimm á landinu. Fimm fréttastofur geta þagað yfir rokufréttum, annað hvort með samráði eða án samráðs. Þegar fréttastofurnar eru orðnar hundrað eða þúsund, hrynur hliðvarzlan.

Netið gerir hliðvörzluna úrelta. Hver einasti borgari getur sett upp eigin fréttastofu á sinni heimasíðu. Hann þarf ekki að kaupa dýr tæki, prentvél upp á hálfan milljarð eða ljósvakakerfi upp á annað eins. Hann kaupir bara forrit fyrir nokkur þúsund krónur.

Fyrstir á vettvang eru hagsmunaaðilar, sem telja sig þurfa að koma sjónarmiðum eða upplýsingum ómenguðum á framfæri. Þannig hefur menntaráðherra um nokkurt skeið rekið eigin heimasíðu, þar sem hann gefur til dæmis fjölmiðlum einkunn fyrir frammistöðu.

Þannig var hliðvarzla fjölmiðla í fjármálum borgarfulltrúans sprengd í loft upp af heimasíðu tveggja manna, sem töldu sig hafa harma að hefna. Nánast samtímis og án samráðs ákváðu þá hefðbundnu fjölmiðlarnir, að málið hefði verið opnað og væri orðið húsum hæft.

Með þessum atburði lýkur formlegri hliðvörzlu af hálfu hinna hefðbundnu fjölmiðla. Þróunin hefur gert hana úrelta. Sú breyting er í sjálfu sér hvorki góð né vond. Hún felur bara í sér nýjan tíma með nýjum leikreglum, sem starfsmenn fjölmiðla þurfa að venjast.

Áfram munu hefðbundnir fjölmiðlar telja sig þurfa að varðveita og efla traust notenda sinna. Þeir geta hins vegar ekki lengur gert það með því að þegja þunnu hljóði, meðan rokufréttir leika lausum hala á Netinu. Þeir verða að taka á málum og gera það hratt.

Vandi fólksins er þó meiri en fjölmiðlanna. Þegar hliðvarzlan hverfur, þarf fólk að leggja harðar að sér við að meta fréttir, sem steðja að úr þúsund áttum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fullvalda Færeyjar

Greinar

Kominn er þingmeirihluti í Færeyjum fyrir fullveldi eyjanna í konungssambandi við Danmörku á svipaðan hátt og varð á Íslandi árið 1918. Nýja landsstjórnin í Færeyjum er skipuð fulltrúum fullveldisflokkanna, sem unnu mikinn sigur í þingkosningum fyrir skömmu.

Nýja landsstjórnin stefnir að þjóðaratkvæðagreiðslu í Færeyjum innan skamms um fullveldi með konungssambandi og síðar að annarri þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2000 um stjórnarskrá Færeyja. Óhjákvæmilegt er, að dönsk stjórnvöld fallist á þessa málsmeðferð.

Færeyingar eru að stíga erfitt skref en rétt. Fullveldið verður þeim ögrun eins og Íslendingum á sínum tíma. Það mun hafa í för með sér ýmsa erfiðleika, einkum í fjármálum. En það mun um leið framkalla aukna ábyrgðartilfinningu, einkum í meðferð fjármuna.

Veraldarsagan stefnir um þessar mundir eindregið í átt frá sambandsríkjum til þjóðríkja. Færeyingar bera öll einkenni þjóðar. Þeir hafa skýr landamæri gagnvart umheiminum; þeir tala sitt eigið mál, sem einnig er ritmál; og þeir eru meðvitaðir um sérstöðu sína sem þjóð.

Mikilvægasti þáttur fullveldisferilsins er að gera upp fjármálin við Danmörku. Nú fá Færeyjar sem svarar tíu milljörðum íslenzkra króna á ári frá Danmörku í beinan styrk. Þennan styrk þarf að afnema í áföngum, svo að viðbrigðin verði ekki hættuleg fullveldinu.

Enn fremur þarf að gera upp skuldastöðu landanna. Annars vegar skuldar færeyski landssjóðurinn Danmörku sem svarar sextíu milljörðum íslenzkra króna og hins vegar á landssjóðurinn inni skaðabætur frá ríkissjóði Danmerkur og Den Danske Bank.

Skaðabæturnar stafa af yfirtöku færeyska landssjóðsins á Færeyjabanka í kjölfar rangra upplýsinga frá Danmörku um stöðu bankans, sem hafði verið í eigu Den Danske Bank. Ekki má búast við, að skaðabæturnar vegi þungt á móti heildarskuldum landssjóðsins.

Að einhverju og ef til vill að töluverðu leyti kunna Færeyingar að geta höggvið í skuldirnar með samningum við olíurisa um leit að olíu á færeyska landgrunninu. Flest bendir til, að finna megi olíu á vinnanlegu dýpi undir hafsbotninum við Færeyjar.

Fjárhagslegir erfiðleikar Færeyja stafa að miklu leyti af of miklum aðgangi að dönskum peningum. Það minnir að sumu leyti á Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem hafði óheftan aðgang að ódýru fé og fór síðan á hausinn, þegar raunvextir komu til sögunnar.

Sjávarútvegurinn í Færeyjum hafði komizt upp á lag með að mjólka opinbera sjóði og kassa í skjóli sambandsins við Danmörku og orðið um leið ófær um að standa á eigin fótum. Þetta er nákvæmlega samkvæmt máltækinu, að sterk bein þurfi til að þola góða daga.

Færeysku vandamálin hafa verið ýkt mynd af íslenzkum vandamálum. Munurinn hefur verið sá, að hér hafa menn ekki haft aðgang að dönskum tugmilljörðum og þess vegna síður getað lifað lengi um efni fram. Samt geta Færeyingar lært af okkar mistökum.

Færeyingar eru enn fámennari þjóð en Íslendingar og munu eiga erfitt með að halda úti viðamiklu ríkisbákni. Velgengni fullveldis þeirra verður áreiðanlega háð því, hversu vel þeim tekst til að hafa hemil á umfangi verkefnanna, sem fullveldið leggur þeim á herðar.

Fullveldið verður ögrun, sem getur leyst svo mikla krafta úr læðingi, að svokölluð færeysk vandamál reynast ekki vera annað en hver önnur verkefni.

Jónas Kristjánsson

DV