Greinar

“Ónákvæmir” og yfir aðra hafnir

Greinar

Bankaráð Landsbanka Íslands hefur lýst yfir, að fyrra svar bankans um laxveiðikostnað hans hafi verið “ekki nægjanlega nákvæmt”. Bankaráðið metur það til skorts á nákvæmni, að laxveiðikostnaðurinn reyndist vera rúmlega tvöfalt hærri en logið hafði verið.

Bankaráð, er flokkar muninn á rúmum 18 milljónum króna og tæpum 42 milljónum sem “skort á nákvæmni”, er ekki líklegt til að bregðast við málinu á eðlilegan hátt. Það mun láta bankastjórana biðjast afsökunar og halda síðan áfram að tapa milljörðum í afskrifuð útlán.

Nýjasta uppljóstrun Ríkisendurskoðunar um sukk í Landsbankanum kemur til viðbótar því, sem áður var vitað um óheyrilegan lífsstílskostnað stjórnenda bankans og um kaup bankans á laxveiðileyfum hjá langfrægasta bankastjóra landsins á síðustu árum.

Að ósk bankaráðsins er Ríkisendurskoðun nú að rannsaka allan risnu-, ferða- og bílakostnað bankans á sama fjögurra ára tímabilinu og laxveiðirannsóknin náði til, það er áranna 1994­1997. Bankaráðið hyggst taka ákvörðun um framhald málsins að því loknu.

Boltinn er í höndum bankaráðsins, sem ræður og rekur bankastjóra. Torséð er, að ráðið geti áfallalaust komið sér undan að víkja þeim öllum úr starfi, þótt ekki bætist við fleiri afreksverk en þau þrjú, sem þegar eru komin í ljós, sukk, lygi og misnotkun á aðstöðu.

Sukkið felst í stærðargráðu peninganna, sem eru til umræðu í málinu. Lygin felst í því, sem bankaráðið kallar ónákvæmni. Og misnotkun aðstöðu felst í kaupum bankastjórans fræga á veiðileyfum á kostnað bankans í á, sem hann leigir sjálfur út með félögum sínum.

Aðgerðir bankaráðherrans hljóta síðan að byggjast á mati hans á því, hvort viðbrögð bankaráðsins verði of væg eða ekki. Ef það lætur bankastjórana ekki víkja, tekur það alla ábyrgðina á sínar herðar, þannig að ráðherrann verður þá að láta ráðið taka afleiðingunum.

Við mat bankaráðsins á alvöru málsins bætist svo, að sumir ráðsmenn voru í ráðinu á þeim tíma, sem rannsóknin spannar. Þeir bera því ekki aðeins ábyrgð á eftirmeðferð málsins um þessar mundir, heldur bera þeir með bankastjórunum ábyrgð á afrekaskránni allri.

Þegar málið kemur á borð bankaráðherrans ber honum því ekki aðeins að meta viðbrögð núverandi bankaráðs við afrekum bankastjóranna árin 1994­1997, heldur einnig að meta, hvort framlengdir bankaráðsmenn verði að víkja vegna aðildar að afrekunum sjálfum.

Landsbankinn hefur lengi verið til umræðu og fyrir fleiri vandræði en þau, sem hér hafa verið rakin. Stjórnendur hans gengu lengra en stjórnendur annarra banka í heimskulegum útlánum og þurftu raunar að fá peninga úr ríkissjóði til að komast hjá gjaldþroti.

Stjórnendur bankans hafa ekki tekið neitt mark á umræðunni. Þeir hafa verið svo fjarri raunveruleikanum, að þeir hafa haldið áfram að tapa peningum, sem þeim hefur verið trúað fyrir, og haldið áfram að láta bankann borga lífsstíl, sem þeim finnst vera sér við hæfi.

Sennilega hafa þeir haldið og halda enn, að afrekaskráin komi fólki úti í bæ ekki við. Sennilega hafa þeir haldið og halda enn, að þeir geti hagað sér nokkurn veginn eins og þeim sýnist. Sennilega hafa þeir haldið og halda enn, að þeir séu yfir þjóðfélagið hafnir.

Og sennilega er þetta allt rétt hjá þeim. Yfirlýsing bankaráðsins um “ónákvæmni” bendir til, að allt verði áfram í sömu skorðum, þegar moldviðrinu linnir.

Jónas Kristjánsson

DV

Vefur lýðræðis og þekkingar

Greinar

Við stöndum á þröskuldi nýrrar byltingar í fjölmiðlun. Í kjölfar prenttækni, útvarps og sjónvarps er komin til sögunnar vefmiðlun, sem mun breyta heiminum eins og fyrri byltingar. Þjóðfélag á öld vefmiðlunar verður vafalaust annað en það var fyrir tíð hennar.

Dagblöð gera suma hluti betur en aðrir fjölmiðlar. Útvarp gerir suma hluti betur en aðrir. Sjónvarp gerir suma hluti betur. Sama er að segja um nýja fjölmiðilinn. Hann hefur sérstöðu, sem gerir hann hæfari en aðra fjölmiðla til að þjóna ýmsum hlutverkum.

Hingað til hefur fólk einkum kynnzt vefmiðlun sem framlengdum armi dagblaða. Undanfarin ár hefur efni sumra dagblaða, þar á meðal DV, verið aðgengilegt í heilu lagi fyrir áskrifendur á vefnum. Þetta er mikilvæg viðbót við dreifingarleiðir hefðbundinna dagblaða.

Nú er komið að því, að vefmiðlun sprengi þennan hefðbundna ramma og nýti sér miðilinn til að bjóða fjölmiðlun, sem er annars eðlis en fjölmiðlun dagblaða, útvarps og sjónvarps. Í gær hóf slík fjölmiðlun göngu sína í Vísi, sem er samstarf DV og nokkurra annarra fjölmiðla.

Gagnvirkni er lykilorð framtíðarinnar í hinum nýja miðli. Hann mun meira en aðrir fjölmiðlar byggja tilvist sína á straumi upplýsinga og skoðana í báðar áttir. Hann auðveldar notendum að taka þátt í þjóðfélaginu með því að veita upplýsingar og setja fram skoðanir.

Með einum músarsmelli fá notendur á skjáinn eyðublað, sem þeir geta fyllt út og sent til baka viðbrögð sín við því, sem þeir hafa verið að lesa og skoða á skjánum. Þannig öðlast hin hefðbundnu lesendabréf nýtt og eflt hlutverk í heimi fjölmiðlunar á vefnum.

Flest bendir til, að hin nýja grein fjölmiðlunar muni efla lýðræði. Hliðvarzla af hálfu fjölmiðla verður minni en áður var, en þátttaka almennings meiri. Notendur geta mótað nýja fjölmiðilinn meira en hina fyrri og um leið haft meiri áhrif á umhverfi sitt og þjóðfélagið.

Fleiri tegundir af gagnvirkni fylgja nýja fjölmiðlinum. Ein hin mikilvægasta er gagnvirkni upplýsinga, sem áður voru einangraðar hver á sínum stað. Nú eru þær óðum að tengjast í kross á alla vegu, þannig að hvert svar kallar á nýjar spurningar, sem framkalla ný svör.

Gagnabankarnir eru ein mikilvægasta greinin á þessum meiði. Um nokkurra ára skeið hafa starfsmenn fjölmiðla, svo sem leiðarahöfundar, haft aðgang að risavöxnum upplýsingsöfnum, sem fletta má í eftir leitarorðum. Þetta hefur leitt til aukinnar nákvæmni í skrifum.

Nú er fólk smám saman að fá aðgang að slíkum bönkum, sem áður voru yfirleitt einkum fyrir innvígða. Sérhæft dæmi um það eru ættfræðigreinar um 11.000 Íslendinga, sem hafa birzt í DV á löngum tíma, og eru nú skyndilega auðsækjanlegar í nýja vefmiðlinum.

Stafrænu gagnabankarnir á vefnum munu breyta vinnubrögðum í þjóðfélaginu. Í skólum verður börnum og unglingum kennt að hafa sig eftir upplýsingum, sem finnast í gagnabönkum. Í fyrirtækjum og stofnunum munu starfsmenn venjast við notkun gagnabanka.

Aukin gagnvirkni milli manna eflir lýðræði og aukin gagnvirkni milli upplýsinga eykur þekkingu. Milli þessara tveggja tegunda gagnvirkni verður svo enn ein tegund af gagnvirkni, þannig að lýðræði og þekking eiga að geta eflzt á víxl í þjóðfélagi náinnar framtíðar.

Við stöndum nú á þröskuldi þessarar byltingar. Það er bjart framundan. Við sjáum fyrir okkur betra þjóðfélag, þar sem lýðræði og þekking sitja í öndvegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Róninn rís úr rekkju

Greinar

Jeltsín Rússlandsforseti rís úr rekkju á nokkurra vikna fresti og rekur einhvern til að reyna að sýna fram á, að hann sé enn við völd. Þess á milli lætur hann reka á reiðanum. Og helztu fjármálajöfrar landsins berjast um leifarnar af fyrri verðmætum ríkis og þjóðar.

Jeltsín verður sér jafnan til skammar, þegar hann hittir útlendinga. Hann veit þá hvorki, í hvaða landi hann er, né um hvað er verið að tala. Sumpart stafar það af fornum og nýjum drykkjuskap og sumpart af öðrum sjúkdómum, sem hafa fylgt í kjölfarið.

Þegar forsetar Þýzkalands og Frakklands voru hjá honum um daginn, ímyndaði hann sér, að þeir þrír væru að gera með sér evrópskt bandalag gegn Bandaríkjunum. Hann talaði opinberlega um þessi meintu tímamót, en hinir forsetarnir brostu fánalega og fóru hjá sér.

Auðvitað er afleitt fyrir heimsbyggðina, að einu stærsta ríki þess og einu mesta kjarnorkuveldi þess skuldi vera stjórnað af aðframkomnum róna, sem ekki skipuleggur neitt og spilar pólitík eftir eyranu þá fáu daga í mánuði hverjum, sem hann er á fótum.

Jeltsín hefur um langt skeið verið óútreiknanlegur. Enginn hafði minnsta grun um, að hann tæki skyndilega upp á að reka Tsjernómyrdín forsætisráðherra, hvað þá alla stjórnina eins og hún lagði sig. Slík aðgerð dregur úr þeirri festu, sem nauðsynleg er við stjórnartauma.

Tsjernómyrdín var gefið að sök að hafa ekki greitt opinberum starfsmönnum laun á réttum tíma. Það hafði hann vanrækt, af því að næst á undan hafði honum verið skipað að halda verðbólgunni niðri til að tryggja framhaldið á innstreymi vestrænna peninga.

Afleiðing stjórnarfars Jeltsíns er, að Rússar eru nú verr staddir en þeir voru, þegar Sovétríkin sálugu hrundu af sjálfu sér. Í skjóli hans hafa fjármálafurstar sölsað undir sig mestan partinn af eigum ríkis og þjóðar og skilið þjóðfélagið eftir meira eða minna í rúst.

Fremstur fer þar í flokki Borís Berezovskí, sem hefur það umfram fursta á borð við Vladimír Pótanín að gæta fjárhagslegra hagsmuna forsetans sjálfs. Í leiðinni hefur Berezovskí sankað að sér sem svarar 360 milljörðum íslenzkra króna eða þrennum íslenzkum fjárlögum.

Undir verndarvæng Jeltsíns hefur dólgaauðvald leyst kommúnismann af hólmi. Eigur ríkis og þjóðar hafa verið gefnar auðjöfrum á enn grófari hátt en Síldar- og fiskimjölsverksmiðjur ríkisins á Íslandi voru gefnar kolkrabbanum, sem stjórnar íslenzkri flokkapólitík.

Á sama tíma hafa miðstéttirnar, sem jafnan eru hornsteinn lýðræðis, verið gerðar að öreigum í Rússlandi. Kjölfestuna vantar í þjóðfélag, þar sem annars vegar er fjölmennur öreigalýður og hins vegar auðjöfrar, sem skáka stjórnmálamönnum fram og aftur.

Tilviljanlegar og ruglingslegar tilskipanir að geþótta þjóna í Rússlandi sama hlutverki og lög og réttur gera í vestrænum löndum. Eina leiðin til að hafa mannsæmandi lífskjör er að komast í aðstöðu til að stela. Ástand af slíku tagi grefur að sjálfsögðu undan þjóðfélaginu.

Jeltsín hefur í senn rústað efnahag Rússlands og gert landið hættulegt umhverfi sínu. Í mannkynssögunni er slæm reynsla fyrir því, að misheppnaðir valdhafar grípa stundum til mannskæðra örþrifaráða út á við til að draga athyglina frá stjórnarfarinu heima fyrir.

Þess vegna brosa erlendir forsetar vandræðalega, þegar róninn í Kreml fer með fleipur á almannafæri. Þeir eru hræddir við, að sjúklingurinn fái annars flog.

Jónas Kristjánsson

DV

Úlfar og sauðir

Greinar

Bandarískir neytendur hafa margir hverjir komið sér upp símsvara, sem segir símasölumönnum að leggja á. Sumir hafa fengið sér stimpil með textanum: “Með því að framselja þessa ávísun samþykkir þú að nota ekki neinar upplýsingar, sem koma fram á henni.

Bandarískir neytendur láta gjarna taka nöfn sín og númer út af þjóðskrám, sem hagstofur leigja kaupsýslumönnum. Þeir kanna, hvað sagt er um þá á svörtum listum um greiðslusögu skuldara. Þeir nota peningaseðla, en ekki plast, og neita að gefa upp kennitölur sínar.

Í Kaliforníu gengur þetta svo langt, að helmingur símeigenda hefur látið aftengja númeraflutning símtækja, svo að þeir geti hringt án þess að símanúmer þeirra komi fram á viðtökusímanum. Þeir geta þá spurt um vörur án þess að lenda í símaskrám sölumanna.

Samanlagt sýna slík dæmi, að bandarískir neytendur eru miklu meðvitaðri um stöðu sína heldur en íslenzkir neytendur. Þeir láta ekki bjóða sér neitt, sem þeir kæra sig ekki um. Þeir beita hörku, ef þeim finnst, að kaupsýslumenn láti sér ekki segjast.

Allt er þetta frjálst. Sumir vilja vera á listum, svo að þeim séu sendar upplýsingar eða þeir fái aðgang að gagnlegum tilboðum. Aðrir vilja frið. Niðurstaðan er sú, að menn geti meira eða minna ráðið, hversu samþættir þeir eru eða einangraðir í vefjum viðskiptanna.

Flæði persónulegra upplýsinga er í sjálfu sér hvorki gott né vont. Það skiptir hins vegar máli, að hver einstaklingur ákveði sjálfur, hvort upplýsingar um hann séu öðrum aðgengilegar eða ekki. Slíkar ákvarðanir taka bandarískir neytendur, en íslenzkir ekki.

Bandarískir neytendur hafa líka ákveðnar skoðanir á því, hvaða upplýsingar eigi að koma fram á umbúðum neyzluvöru. Þeir hafa knúið fram umbúðamerkingar, sem um margt taka fram merkingum Evrópusambandsins, er hafa verið teknar upp hér á landi.

Bandarískir neytendur geta til dæmis lesið, hversu mikið er af kolvetnum, fitu og próteini í mat. Og þeir geta lesið, hve miklu af sykri hefur verið hellt í vöruna umfram það, sem er í henni frá náttúrunnar hendi. Þetta geta íslenzkir neytendur hins vegar ekki.

Með líkingu við dýraríkið má segja, að bandarískir neytendur séu úlfar, en íslenzkir neytendur séu sauðir. Svo mikill munur eru á viðhorfum almennings í þessum löndum, að hér sætta menn sig við, að Hollustuvernd kanni ekki réttmæti vörulýsinga á umbúðum.

Neytendaviðhorf eiga hér svo erfitt uppdráttar, að menn halda tryggð við gamla okrarann, þegar ný fyrirtæki koma til sögunnar, bjóða lægra vöruverð og knýja okrarann til að lækka sig. Neytendur flytja þá ekki viðskipti sín, heldur bíða eftir verðlækkun okrarans.

Þessum viðhorfum verður ekki breytt með lagasetningum eða fjárveitingum til neytendavarna, þótt slíkt geti hjálpað til. Það eru fyrst og fremst viðhorf fólksins sjálfs, sem koma í veg fyrir, að það nái rétti sínum. Íslendingar hafa bara ekki áhuga á rétti sínum.

Bandaríkjamaðurinn lítur á sig sem borgara, en Íslendingurinn lítur á sig sem þegn. Það er fleipur eitt, að Íslendingar séu sjálfstæðir í hugsun. Þvert á móti er undirgefni og þrælslund rík í þjóð, sem aldrei í sögu sinni hefur risið upp gegn forréttindastéttunum.

Ef til vill er þetta eitt af því, sem lagast smám saman, þegar byrjað hefur verið að kenna fjármál og neytendamál í skólum í samræmi við nýboðaða skólastefnu.

Jónas Kristjánsson

DV

Grátið í ánni miðri

Greinar

Á sama tíma fyrir einu kjörtímabili stóð Sjálfstæðisflokkurinn andspænis ótíðindum úr skoðanakönnunum, sem voru enn geigvænlegri en þau, sem nú berast. Flokkurinn brást snöfurmannlega við, skipti um hest í miðri á og setti ungan mann í borgarstjórasætið.

Árni Sigfússon stóð sig vel. Hann saxaði verulega á bilið milli listanna tveggja, þótt honum tækist ekki að brúa það alveg. Borgarstjóraefni andstæðinganna var einfaldlega of sterkt og hefur styrkzt enn frekar við að hafa verið borgarstýra Reykjavíkur í eitt kjörtímabil.

Nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn enn frammi fyrir ótíðindum. Allar kannanir allra könnuða sýna marktækan mun á framboðslistunum tveimur. Ekki er sýnt, að unnt sé að beita sama ráði og fyrir fjórum árum. Það hefur einfaldlega ekki fundizt betri frambjóðandi.

En viðbrögðin eru deigari en fyrir fjórum árum. Kosningastjórn og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins láta eins og búið sé að tapa kosningunum. Menn gefast upp og gráta í miðri á, svo sem sést af lesendabréfum í Morgunblaði og dreifibréfum Árna og fleiri í rafpósti.

Hinir deigu leita að sökudólgi fyrir tapi, sem enn hefur ekki átt sér stað. Að árþúsunda hefð hafa þeir fundið hann. Þeir kenna sögumanni um ótíðindin. Þeir segja, að með fölsuðum skoðanakönnunum sé búið að framleiða tap flokksins í væntanlegum kosningum.

Líklegra er, að hagstæðar kannanir allra könnuða hafi sljóvgandi áhrif á fylgismenn Reykjavíkurlistans og dragi úr, að þeir telji brýna þörf á að mæta á kjörstað. Frá sjónarhóli reynslunnar ættu hagstæðar könnunartölur einmitt að vera þeim lista áhyggjuefni.

En kosningastjórn og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins láta mótlætið ekki efla sig til dáða, heldur kyrja grátinn um, að menn séu vondir við sig. Slíkt er engan veginn gott vegarnesti inn í straumþunga baráttunnar, sem fer að magnast fyrir alvöru upp úr páskum.

Ekki er tímabært að finna sökudólg fyrir tapi fyrr en það er orðið raunverulegt. Þá getur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vegið atriði á borð við hlut Halldórs Blöndals samgönguráðherra, sem hefur reynt að tefja samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu.

Ennfremur getur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vegið atriði á borð við óbeit forstjóra kolkrabbans á borgarstjóraefni flokksins fyrir framtak þess í þágu almennings með því að brjótast undan fyrri fáokun þeirra og tilheyrandi okri á bílatryggingum í landinu.

Enginn vafi er á, að sjálft flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins mun gráta þurrum tárum, ef vegur Árna Sigfússonar verður ekki langur í stjórnmálum. Það verða því ærin verkefni að gera upp allar sakir, sem munu finnast heima fyrir í flokknum sjálfum.

Á meðan Árni grætur og kennir sögumanni um ótíðindin, fer Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mikinn og stundar raunverulega kosningabaráttu. Hún sýnir kænsku, hafnar fallkandidötum stuðningsflokka og setur frambjóðanda Grafarvogs við hlið sér á listanum.

Með sama áframhaldi þarf ekki að spyrja að ferðarlokum. Þeir, sem ótrauðir feta vaðið, munu komast alla leið. En þeir, sem eru þegar byrjaðir að dreifa sök á ósigri, sem þeir telja í aðsigi, munu sitja eftir í ánni og ekki komast upp á bakkann hinum megin.

Æðruleysi og kjarkur virðast af skornum skammti hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík um þessar mundir. Skelfingu lostið borgarstjóraefni selur ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífsleikni

Greinar

Fólk er ekki frá náttúrunnar hendi í stakk búið til að lifa nútímalífi. Vettvangur manna í nútíma er afar ólíkur vettvangi forfeðranna kynslóð fram af kynslóð. Við lifum ekki lengur í heimi erfiðis og náttúruafla, heldur í heimi frístunda og tækni, siðmenningar og lýðræðis.

Sjúkdómar eru aðrir en þeir voru á fyrri öldum. Drepsóttir ganga ekki lengur og veirur eru tæpast lengur meira en hvimleiðar. Í staðinn höfum við náð okkur í menningarsjúkdóma á borð við krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, áfengissýki og aðrar fíknir.

Sameiginlegt einkenni slíkra nútímasjúkdóma er, að þeir stafa sumpart af, að sumt fólk tekur í arf líkamlega vangetu til að fást við ýmiss konar aðstæður nútímans og sumpart af því að sumir fara verr en aðrir út úr samskiptum sínum við þessar aðstæður nútímans.

Fjármál fólks eru margfalt flóknari en vöruskipti forfeðranna á fyrri öldum. Menn kaupa og selja vinnu og þjónustu og þurfa að leggja höfuðið í bleyti til að greiða keisaranum ekki meira en keisaranum ber. Við hvert fótmál eru tækifæri til að misstíga sig í fjármálum.

Börnum og unglingum er ekki frekar kennt að fóta sig á hálum vegum fjármála nútímans en þeim er kennt að fóta sig á hálum vegum heilsunnar. Þrátt fyrir langa skólagöngu kunna menn tæpast að gera skattskýrslur og kunna lítið að haga sér á frjálsum markaði.

Nútíminn gengur fyrir þekkingu sem breytist í sífellu. Fólk býr ekki yfir tækni til að afla sér þessarar þekkingar á skömmum tíma eftir þörfum hverju sinni. Menn eru allt of illa læsir á upplýsingar. Þrátt fyrir langa skólagöngu höfum við ekki lært að læra.

Allt of margir flýja veruleikann og fela sig í heimi áfengis og annarra fíkniefna. Aðrir misþyrma heilsu sinni með röngum lifnaðarháttum, lítilli hreyfingu og lélegu mataræði. Sumir rústa fjármál sín með röngum ákvörðunum, byggðum á þekkingarskorti.

Velgengni þjóðarinnar í heild er háð því, að sem flestir kunni að fara með heilsu sína og umhverfi, geti hagað fjármálum sínum og innkaupum skynsamlega, séu færir um að stunda atvinnu nútímans, þoli miklar frístundir og sjái veruleikann að baki stjórnmála.

Samkvæmt nýrri skólastefnu menntaráðuneytisins á að bæta úr þessu. Það er hægar sagt en gert, því að hvorki eru til kennarar, sem kunna að kenna lífsleikni, né heldur eru til námsgögn. En allar ferðir hefjast með einu skrefi, einnig aðlögun okkar að nútímanum.

Nú er ætlunin að stefna að fræðslu um heilsu og umhverfi, fjármál og neytendamál, atvinnulíf og lýðræði, réttindi og skyldur, frumkvæði og sjálfstæði, þekkingartækni og upplýsingalæsi. Þetta eru auðvitað þarfari greinar en sumt af því, sem nú er kennt í skólum.

Með þátttöku í námskeiðum munu sumir kennarar geta tileinkað sér nýju greinarnar. En sumpart kostar þetta nýja kennara með ný viðhorf og nýja þekkingu. Samhliða þessu þarf að byggja upp námsgögn á sviðum, þar sem lítil og léleg eða engin eru til fyrir.

Nú þegar sjálf skólastefnan hefur verið sett fram, er næsta skrefið að finna þá, sem geta kennt kennurum og búið til námsgögn, sem henta ýmsum stigum skólakerfisins. Miklu máli skiptir, að í senn sé haldið vel á spöðunum og vandað vel til allra verka.

Ef vel tekst til, hefur verið efnt til byltingar á lífi og högum þjóðarinnar, sem ætti að gera henni kleift að ráða betur við næstu öld en þá, sem nú er að enda.

Jónas Kristjánsson

DV

Skerða svigrúm valdbeitingar

Greinar

Forstjórar helztu fáokunarfyrirtækja landsins hafa nýlega kvartað yfir hamlandi aðgerðum Samkeppnisstofnunar, rétt eins og fjármálaráðuneytið hefur nýlega kvartað yfir, að Ríkisendurskoðun sé að takmarka svigrúm framkvæmdavaldsins. Hvort tveggja er hrós.

Markmið Ríkisendurskoðunar er að takmarka svigrúm framkvæmdavaldsins til að fara sínu fram. Alþingi rekur þessa stofnun til að auðvelda sér það óvinnandi verk að hafa hemil á sjálfvirkri viðleitni hins sterka geira ríkisvaldsins til að vaða yfir þing og þjóð.

Markmið Samkeppnisstofnunar er sömuleiðis að takmarka svigrúm valdhafa, í því tilfelli atvinnulífsins. Hún á að hjálpa neytendum í hörðum heimi, þar sem fáokunarfyrirtæki, sem eru ráðandi á markaði, reyna að verða einokunarfyrirtæki, sem eru allsráðandi.

Umboðsmaður Alþingis er þriðji hemillinn, sem hefur bakað sér reiði þeirra, sem völdin hafa í þjóðfélaginu. Hrokafullt yfirmannagengi fjármálaráðuneytsins hefur kerfisbundið hunzað bréf hans og misnotað tímann til að magna böl það, sem bréfin áttu að bæta.

Barátta lítilmagnans við hina sterku er sérstaklega erfið á Íslandi. Atvinnulífið var lengst af reyrt í viðjar fáokunar, þar sem annars vegar voru þau fyrirtæki, sem nú eru flokkuð sem kolkrabbinn, og hins vegar þau fyrirtæki, sem nú eru flokkuð sem smokkfiskurinn.

Hvor hópur hafði sinn stjórnmálaflokk til að reka erindi sín. Málið hefur einfaldazt á síðari árum, því að eftir situr í stórum dráttum aðeins einn kolkrabbi með stjórnmálaarm í Sjálfstæðisflokknum. Sá flokkur er fyrst og fremst hagsmunatæki fáokunarfyrirtækjanna.

Með óhjákvæmilegri opnun þjóðfélagsins að vestrænum hætti hafa verið settar á fót stofnanir til að gæta hagsmuna þjóðfélagsins gegn þeim, sem misnota völdin. Umboðsmaður Alþingis, Ríkisendurskoðun og Samkeppnisstofnun eru þekkt dæmi um slíkar stofnanir.

Yfirstéttin á Íslandi hefur neyðzt til að sætta sig við þetta, svo að afurðir Íslands verði gjaldgengar í vestrænum viðskiptalöndum okkar. Hún hefur neyðzt til að leyfa okkur að taka þátt í Fríverzlunarsamtökunum, Evrópska efnahagssvæðinu og Heimsviðskiptastofnuninni.

Vegna þessara samskipta við útlönd er hægt að kæra rangláta dóma Hæstaréttar og samkeppnishamlandi aðgerðir stjórnvalda til ýmiss konar erkibiskupa í Evrópu. Vegna þeirra neyðast stjórnvöld til að láta þýða ótal reglugerðir, sem bæta hag hinna smáu og veiku.

Kolkrabbinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru hins vegar sammála um, að ekki megi vera til umræðu að ganga í Evrópusambandið, því að þá verði enn skert svigrúm kolkrabbans og embættismannagengisins til að efla hina sterku, ríku og gráðugu á kostnað hinna veiku.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt, leggur enn og mun áfrem leggja sitt lóð á sömu vogarskál, enda telur hann sig vera málsvara leifanna af gjaldþroti Sambands íslenzkra samvinnufélaga, eins og við sjáum þær í nokkrum fyrirtækjum, sem kennd eru við smokkfisk.

Árásir á Ríkisendurskoðun og Samkeppnisstofnun fela í sér kúgunartilburði embættismannakerfis og kolkrabba. Því miður er líklegt, að andúð valdhafanna geti minnkað vilja og getu verndarstofnana til að takmarka svigrúm ráðuneyta og fáokunarfyrirtækja.

Eina varanlega vörn þjóðarinnar gegn yfirráðum embættismanna og fáokunarfyrirtækja er frekari opnun þjóðfélagsins og full aðild að Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stefnan kostar og kostar ekki

Greinar

Að venju slær bæjarstjóri Kópavogs ódýra keilu, þegar hann gerir grín að því, að menntaráðuneytið setji fram skólastefnu, einmitt þegar rekstur skóla sé kominn úr höndum ríkisins í hendur sveitarfélaga. Þetta hljómar vel, en er samt rýrt í roðinu, þegar betur er gáð.

Skólastefna getur falizt í að setja meira eða minna fé í rekstur skóla, en þarf ekki að gera það. Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna lítið samhengi milli fjármagns til rekstrar skóla og árangurs þeirra. Hér er ekki unnt að reikna með, að skólar fái stærri sneið af kökunni.

Það gildir um skóla eins og sjúkrahús, að kostnaður þjóðfélagsins við þessar stofnanir er kominn upp að þaki. Það felur í sér, að ekki er pólitísk samstaða um að auka hlutdeild þeirra í þeim takmörkuðu fjármunum, sem til sameiginlegrar ráðstöfunar eru hverju sinni.

Skólastefna menntaráðuneytisins felur í sér breyttar áherzlur, en lítil útgjöld umfram það, sem áður hefur verið ákveðið. Þær fela í sér kostnað við breytta námsgagnagerð og endurmenntun kennara, sem hvort tveggja er fyrst og fremst á verksviði ríkisvaldsins.

Margir aðilar hafa unnið að gerð skólastefnunnar, sem ekki er pólitískt umdeild. Hún felur í sér viðurkenningu skólageirans á, að fyrri áherzlur hafa sumar hverjar ekki staðizt tímans tönn og að tími sé kominn til að rétta af kúrsinn í samræmi við breytta og bætta þekkingu.

Raunveruleg kennsla á í auknum mæli að leysa af hólmi brauð og leiki að hætti Piagets. Enskukennsla á að hefjast í tíu ára bekk, tveimur árum fyrr en nú. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að gera þjóðina gjaldgenga í fjölþjóðlegum samskiptum á stafrænni tölvuöld.

Aukin áherzla verður einnig lögð á stærðfræði og náttúrufræði, sem hingað til hafa verið vanmáttugar í skólakerfinu. Þess er og sérstaklega getið, að saga og landafræði verði sumpart kenndar á eigin forsendum, en ekki bara í samkrulli undir óljósum hatti félagsfræða.

Nýjar námsgreinar eru á stefnuskránni. Þar er gert ráð fyrir kennslu í hyggindum hversdagslífsins, svo sem fjármálum og neytendamálum, réttindum og skyldum fólks. Einnig kennslu í upplýsingum og tækni, svo sem þverfaglega kennslu í tækni við að læra.

Vikið er frá núgildandi staðalstefnu og viðurkennt, að nemendur eru ólíkir einstaklingar, sem hafa ólíkar þarfir. Meiri samfella verður milli skólastiga og oftar tækifæri til að meta stöðuna, til dæmis með samræmdum prófum, sem of lengi hafa hímt í öskustónni.

Æskilegt hefði verið að taka meira tillit til fjölþjóðlegra rannsókna á afkastagetu skóla og breyta áherzlunum enn frekar en gert er í nýju skólastefnunni. En hún er árangur víðtæks samstarfs og dregur dám af meðaltali skoðana, sem komið hafa fram við undirbúninginn.

Ef ríkisvaldið stendur við að endurmennta kennara og bæta námsgögn, er ekki nauðsynlegt, að leggja meira fé í rekstur skóla en ríki og sveitarfélög höfðu áður samið um að gera. Nýja skólastefnan leggur því ekki peningabyrðar á sveitarfélögin og á ekki að gera það.

Hitt er svo rétt, sem sumir gagnrýnendur hafa sagt, að skólastefnan felur í sér ýmsar freistingar til útgjalda. Vafalaust verður þrýst á sveitarfélög að fylla ramma stefnunnar með aðgerðum, sem kosta peninga. Fjölmenn sveitarfélög ráða betur við slíkt en fámenn.

Meðal annars liggur í augum uppi, að lengja þarf skólaárið og koma á samfelldum skólatíma til að ná sama árangri og aðrar þjóðir. Slíkt kostar peninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Verðbólgan er komin í gang

Greinar

Við þurfum að hafa gát á góðærinu. Verðbólgan fór að láta á sér kræla í febrúar. Ef svo fer fram eftir árinu, kemst ársbólgan í 5%, sem er geigvænlegt, þrisvar til fjórum sinnum meira en meðaltalsverðbólga helztu viðskiptalanda okkar í Evrópu, Ameríku og Japan.

Verðbólga er slæmur fylgifiskur góðæris, en alls ekki óhjákvæmilegur. Norðmenn hafa til dæmis búið við langvinnt góðæri, en gæta þess jafnan að hafa verðbólguna á sama róli og aðrar þjóðir. Annars aflagast gjaldmiðillinn og samkeppnishæfnin á alþjóðamarkaði.

Þjóðhagsstofnun spáir að vísu ekki 5% verðbólgu á þessu ári, heldur 2,7%. Hún reiknar með, að verðbólgan haldi ekki áfram með sama hraða og í febrúar. En 2,7% verðbólga er einnig allt of mikil, nákvæmlega tvöföld verðbólga helztu viðskiptalanda okkar.

Flest annað gengur okkur í haginn um þessar mundir. Kaupmáttur fer ört vaxandi. Hann hefur aukizt um 14% samanlagt á þremur árum og mun væntanlega aukast enn um 5­6% á þessu ári. Þetta felur í sér gífurleg og snögg umskipti á lífskjörum fólks.

Bætt staða almennings á ekki að þurfa að leiða til verðbólgu. Vandamálið felst í, að hér er verið að gera fleiri hluti í einu. Á sama tíma og kaupmáttur er aukinn, er líka verið að vernda herkostnað við forna atvinnuhætti og varðveita dýrtíð af völdum fáokunar.

Bætt lífskjör og stöðugt verðlag hafa haldizt í hendur í þrjú ár, af því að létt hefur verið á samkeppnishömlum. Ýmis vara og þjónusta hefur lækkað í verði. Þessi hagstæða þróun hefur verið að fjara út í vetur. Því þurfa stjórnvöld að losa um fleiri hömlur á samkeppni.

Atvinnleysi fer minnkandi og er nú komið niður í 3,6% að meðaltali yfir árið. Þetta er mun minna en þekkist í flestum nágrannalöndum okkar og þýðir í rauninni, að fleiri störf séu laus en sem svarar hinum atvinnulausu. Lengra verður tæpast komið að óbreyttu.

Aðeins með endurmenntun og starfsþjálfun er unnt að hraða flutningi fólks úr samdráttarstörfum yfir í þenslustörf og lækka þannig atvinnuleysistölurnar. Ríkið getur lagt hönd á þennan plóg rétt eins og það getur rutt hindrunum úr vegi innlendrar samkeppni.

Viðskiptahalli verður allt of mikill á þessu ári að mati Þjóðhagsstofnunar, tvöfaldur árshalli tveggja síðustu ára. Eins og verðbólgan er þetta merki um, að lífskjörin séu að batna hraðar en efni standa til. Þessu þarf að breyta, en ekki með að hægja á lífskjarabatanum.

Unnt er að framlengja góðærið án þess að auka viðskiptahallann og vekja verðbólguna að nýju. Það geta stjórnvöld gert, ef þau vilja. Þau geta dregið úr einokun og fáokun með því að bæta samkeppnisskilyrði og þau geta stuðlað að símenntun þjóðarinnar.

Stjórnvöld geta til dæmis hætt afskiptum af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi. Þau geta boðið út fiskveiðikvótann á alþjóðamarkaði. Þau geta selt bankana. Þau geta tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau geta gert stafræn viðskipti og samskipti ódýrari en nú.

Verðbólgan í febrúar og viðskiptahallinn sýna nefnilega, að við erum komin upp að þaki í bættum lífskjörum. Lengra verður ekki haldið í lífskjarasókninni án mikilvægra breytinga á sjálfri þjóðfélagsgerðinni, svo sem þeirra, sem nefndar voru hér að ofan.

Við getum haft til marks um, að við séum komin á rétta leið, þegar ársverðbólgan kemst niður í þau 1,3%, sem hún er að meðaltali í Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Samruni banka skaðar fólk

Greinar

Kominn er einn réttlátur í hóp ranglátra. Nýr formaður bankaráðs Landsbankans vill ekki sameina hann Íslandsbanka. Helgi S. Guðmundsson segist óttast einokun á bankamarkaði og andmælir hugmyndum um samruna, sem fram hafa komið hjá fyrra bankaráðsformanni.

Menn sameina fyrirtæki sumpart til að hagræða, en einkum til að ná betri stöðu á markaði. Landsbankinn er nú þegar langstærstur banka og mundi verða nánast einráður í bankaheiminum, ef annar banki rynni inn í hann. Næg er fáokunin fyrir á þessu mikilvæga sviði.

Hugsanlegt er, að hagræðing næðist með stækkun Landsbankans, en líklegra er þó, að samruni yrði notaður til að spara bankanum óþægindi af hagræðingu. Landsbankinn hefur löngum verið rekinn verst allra banka og getur vel sparað, þótt hann éti ekki aðra.

Viðskiptamenn banka, hvort sem eru fyrirtæki eða einstaklingar, hafa hag af, að bankar séu sem flestir og samkeppnin sem mest. Alþjóðleg reynsla segir, að aukinn fjöldi fyrirtækja í einni grein gagnist viðskiptamönnum vel, en hagræðing með samruna skaði þá.

Fáokun er á bankamarkaði hér á landi og samkeppni banka efnisrýr. Hún birtist okkur fremur sem markaðssetning ímynda en sem hagsbætur fyrir viðskiptamenn. Það sést bezt af, að íslenzkir bankar eru tvöfalt dýrari í rekstri en bankar nágrannalandanna.

Vaxtamunur inn- og útlána er um tveimur prósentustigum hærri hér á landi en annars staðar á Vesturlöndum. Þessi vaxtamunur endurspeglar afleitan rekstur bankanna, sem stafar ekki af smæð þeirra, heldur af röngum ákvörðunum þeirra í útlánum sparifjár.

Á þessum áratug hafa bankarnir sameiginlega tapað 60­70 milljörðum króna af sparifé landsmanna. Þessu fé hafa þeir grýtt í gæludýr, sem ekki hafa skilað peningunum. Fyrir þetta væru allir bankastjórar landsins réttrækir úr starfi, ef réttlæti ríkti í landinu.

Fáokunarbankar þjóðarinnar hafa á aðeins einum áratug tapað einni milljón króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta gegndarlausa bankasukk er einsdæmi á Vesturlöndum og stafar beinlínis af annarlegum sjónarmiðum í lánveitingum bankanna.

Ástæða er til að vara fólk við fullyrðingum stjórnenda verðbréfafyrirtækja um gagnsemi bankasamruna. Verðbréfafyrirtækin eru yfirleitt í eigu bankanna, en ekki óháðir umsagnaraðilar úti í bæ. Þau hafa því hagsmuna að gæta af stuðningi við stækkun og fækkun banka.

Til langs tíma litið verður erfitt að sporna gegn samruna banka. Óheft auðhyggja leiðir smám saman til einokunar. Vegna eignaraðildar sinnar getur ríkisvaldið um sinn tafið aukna einokun í bankakerfinu. En fyrr eða síðar verður hlutafé ríkisbankanna selt einkaaðilum.

Það eina, sem verður viðskiptamönnum banka til bjargar, er frekari þróun alþjóðlegra bankaviðskipta, þannig að Íslendingar geti í auknum mæli fært sér í nyt góða banka í útlöndum. Það gerist, þegar bankaviðskipti færast á Netið, þar sem fjarlægðir skipta engu máli.

Erlendir bankar þurfa þá ekki að leggja í kostnað við efnislega aðstöðu hér á landi, en geta samt boðið íslenzkum viðskiptavinum aðild að miklu minni vaxtamun inn- og útlána en tíðkast hér á landi. Þannig getur þjóðin brotizt undan oki fáokunar íslenzka bankakerfisins.

Meðan tíminn vinnur með okkur er bezt, að stjórnvöld geri sem minnst til að auðvelda bönkunum að níðast enn frekar á viðskiptamönnum sínum en þeir gera nú.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkir pappírsbúkar í rósabaði

Greinar

Aðgerðaleysi fyrrum stórvelda Vestur-Evrópu gagnvart ofbeldi Serba í Kosovo kemur ekki á óvart. Áður hefur komið skýrt fram í málum arftakaríkja Júgóslavíu, að Vestur-Evrópa er orðin alveg ófær um að sinna stórveldishagsmunum á eigin landamærum sínum.

Enn er það fjarlægt stórveldi í annarri álfu, sem bregzt við árásum og aftökum af hálfu Serba í Kosovo, rétt eins og það gerði við hliðstæðum aðgerðum þeirra í Bosníu. Þetta eru Bandaríkin, sem enn eru eina ríki Vesturlanda, sem ekki er haldið hernaðarlegum stjarfa.

Við vitum samt ekki enn, hvort nokkuð verði úr hótunum Bandaríkjastjórnar í garð Serbíustjórnar. Upp á síðkastið hefur hernaðarstefna heimsveldisins fremur komið fram í innantómum hótunum gagnvart andstæðingunum en neinum vilja til að framkvæma þær.

Máttleysi og málleysi fyrrum stórvelda Vestur-Evrópu er sumpart framför frá fyrri stefnu hótana og úrslitakosta af þeirra hálfu í Bosníudeilunni. Þá kom fram, að þvaðrið var marklaust með öllu, enda tók glæpaforinginn Slobodan Milosevic ekki neitt mark á því.

Það hæfir Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi betur að þegja þunnu hljóði gagnvart aftökunum í Kosovo en rífa kjaft gagnvart aftökunum í Bosníu. Þessi aumkunarverðu ríki hafa þó lært af biturri reynslu, að þau eru sagnfræðilega séð ekki nein stórveldi lengur.

Raunar feta þau í fótspor margra fyrri arftakaríkja hámenningar, sem reyndust vera innantómir pappírsbúkar á efri árum, þegar hernaðarhætta steðjaði að utan. Þannig hrundu grísku ríkin fyrir léttri sókn Rómverja og persnesku ríkin fyrir léttri sókn Araba.

Efnahags- og peningalegt vald fer ekki saman við pólitískt og hernaðarlegt vald í samskiptum ríkja. Sagan sýnir, að fámennir hópar hafa um tíma getað náð undraverðum völdum langt út fyrir landamæri sín, jafnvel borgríki á borð við Aþenu, Róm og Feneyjar.

Serbía hefur í tæpan áratug verið gjaldþrota ríki. Lífskjör almennings hafa á þessum tíma hrunið um meira en helming. Rúmlega helmingur þjóðarinnar er atvinnulaus. Meðan venjulegt fólk býr við sult og seyru, raka glæpaflokkar saman fé á smygli og ógnunum.

Þótt Serbía sé efnahags- og peningalegt flak, hefur hún nógan pólitískan og hernaðarlegan kraft til að halda úti fjöldamorðum og annarri sögufrægri villimennsku gagnvart landamæraþjóðum, fyrst Slóvenum, síðan Króötum, svo Bosníumönnum og nú Kosovomönnum.

Þrátt fyrir eymd sína er Serbía stórveldi Balkanskaga. Það stafar af, að ríkið hefur innri kraft til að ráðskast út og suður um málefni annarra. Slíkan kraft er ekki að finna í Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi. Þau eru fyrrverandi heimsveldi og núverandi pappírsbúkar.

Oft steðjar vandi að á evrópsku mörkinni, ekki aðeins á Balkanskaga. Slóvakía hefur valdið vandræðum, Ísrael, Alsír og Albanía. Nánast undantekningarlaust hafa hinir forríku pappírsbúkar hlaupið eins og hálshöggnar hænur út og suður án þess að stýra framvindunni.

Eina undantekningin á þessum áratug er frumkvæði Ítala að afskiptum Vestur-Evrópu af óöldinni í Albaníu. Þar tók af skarið ríki, sem ekki hefur talizt til stórvelda Evrópu, en reyndist hafa meira bein í nefinu en Bretland, Frakkaland og Þýzkaland, þegar á reyndi.

Evrópa er orðin svo rík og þreytt, að hún bíður í rósabaði eftir, að nýr Djengis Khan eða nýr Tímúr halti gerist djarfari en Milosevic og Saddam Hussein hafa verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Skekkjur í skólaskýrslu

Greinar

Marklaus er samanburður Íslands og umheimsins í nýjustu fjölþjóðaskýrslunni um kunnáttu nemenda í raungreinum. Svo miklir annmarkar eru á forsendum nýja samanburðarins, að ekkert stendur eftir af fullyrðingum um betri árangur en í fyrra samanburði.

Þetta var skýrsla um raungreinakunnáttu íslenzkra framhaldsskólanema. Áður höfðu birzt skýrslur um slíka kunnáttu nemenda á tveimur mismunandi stigum grunnskólans, í 7. og 8. bekk annars vegar og í 3. og 4. bekk hins vegar. Þær höfðu sýnt slæma stöðu okkar.

Nýja skýrslan nær ekki til sumra þeirra þjóða, sem beztum árangri náðu í fyrra samanburði, einkum Asíuþjóða. Þetta lyftir Íslandi í röðinni, án þess að aukin kunnátta sé að baki. Niðurstöðurnar draga ekki úr þörf okkar fyrir að kynna okkur skólana í Singapúr.

Nýja skýrslan nær aðeins til þeirra þriggja af hverjum fjórum nemendum, sem kusu að mæta til prófs. Það er mun lakara hlutfall en var að meðaltali hjá öðrum þjóðum. Þar sem gera má ráð fyrir, að hinir lakari hafi setið heima, gefur þetta Íslandi óeðlilega háar tölur.

Nýja skýrslan nær aðeins til þeirra, sem eru í framhaldsskólum. Hlutfallslega færri stunda slíkt nám hér á landi en í flestum samanburðarlöndunum. Þetta skekkir myndina, því að gera má ráð fyrir, að lakara raungreinafólkið heltist frekar úr lestinni í framhaldsskólum.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum þremur stórtæku skekkjuvöldum, stendur enn það, sem sást af fyrri skýrslum, að ástand raungreinakunnáttu á Íslandi er dapurlegt. Því er ekki nokkur ástæða til að nota nýju skýrsluna til að ýta vandanum út af borðinu.

Fremur er ástæða til að ítreka, að skýrslur þessar sýna í heild ekkert samhengi milli árangurs annars vegar og fyrirhafnar hins vegar, eins og hún mælist í fjárframlögum, fjölda kennslustunda og hlutfallslegum fjölda kennara. Fátæk lönd standa sig betur en við.

Þótt getuleysi okkar í raungreinum stafi ekki af of lítilli fyrirhöfn okkar í skólamálum yfirleitt, getur það sumpart stafað af rangri skiptingu menntunarframlaga þjóðarinnar, rangri skiptingu kennslustunda og rangri kennaramenntun. Raungreinar séu öskubuska.

Einnig hefur oft verið bent á, að tízkustraumar í skólastefnu bárust hingað fyrir tveimur áratugum og hafa tröllriðið ráðuneyti, námsstjórum og kennaraháskóla æ síðan. Þetta er stefna fúsks og leikja að hætti Piagets, sem dregur úr líkum á, að nemendur læri að puða.

Lítill árangur í raungreinum er eðlileg afleiðing þeirrar stefnu, að skólar eigi að vera skemmtilegar félagsmiðstöðvar fyrir jafnaðarsinnað fólk, sem líði vel í vinnuhópum, þar sem einn vinnur verkið fyrir alla. Í slíku kerfi er ræktaðir embættismenn, en ekki framtaksfólk.

Opinber umræða á Íslandi ber einmitt merki agaskorts, sem stafar af of lítilli rökfestu og of lítilli tilvísun til staðreynda í málflutningi margra þeirra, sem telja sig eiga erindi á umræðumarkaðinn. Opinber umræða einnkennist í allt of miklum mæli af hreinu blaðri.

Stór hópur skólastjóra fór nýlega til Singapúr til að kynna sér skólana þar og finna mismuninn. Við þurfum líka að kynnast góðri stöðu Hollendinga. Meira gagn er og verður af slíkum ferðum en villandi skýrslu, sem gefur þægilega niðurstöðu í skjóli rangra aðferða.

Þegar skólastjórarnir koma frá Singapúr, skulum við heyra, hvað þeir telja okkur geta lært af þarlendum, svo að þjóðin verði samanburðarhæf og samkeppnishæf.

Jónas Kristjánsson

DV

Saddam er sigurvegarinn

Greinar

Kofi Annan gat ekki komið með Saddam Hussein í járnum frá Bagdað. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ekki hermenn, bara umboð til að semja. Ferð hans varð því sigur forseta Íraks, áður en hún var farin, hver svo sem texti samningsins yrði að lokum.

Framkvæmdastjórinn stóð sig vel. Hann fékk forsetann til að samþykkja nánast allt, sem deilt hafði verið um. Eftirlitsmenn samfélags þjóðanna mega skoða leyndarhverfin, sem kölluð hafa verið hallir Saddams Husseins, eins og aðra grunsamlega staði í landinu.

Gallinn við samninginn er, að Saddam Hussein mun ekki taka neitt meira mark á honum en öðrum samningum, sem hann hefur skrifað undir. Forsetinn mun alls ekki efna loforð sín. Hann hefur aldrei í manna minnum efnt eitt einasta loforð, sem hann hefur gefið.

Þetta var raunar vitað, áður en Kofi Annan fór til Bagdað. Ferðin gat ekki leyst nein vandamál og átti ekki að leysa þau. Hún hefur hins vegar ýtt þeim fram á veginn, svo að Bandaríkin geta sennilega sætt sig við þá ódýru aðferð að lýsa yfir sigri og slíðra sverðin.

Fljótlega mun koma í ljós, að steinar verða lagðir í götu eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þeir fá ef til vill að skoða einhverjar hallir, þegar búið er að flytja eiturbirgðirnar brott. En þeir verða alltaf stöðvaðir og tafðir nógu lengi, þegar þeir eru orðnir heitir.

Eftir svo sem eitt ár verður komið í ljós, að þráteflið er það sama og það var áður. Munurinn verður einkum sá, að fækkað hefur færum helztu andstæðinga vígbúnaðarstefnu Saddams Husseins á að hafa hemil á getu hans til að valda umheiminum vandræðum.

Bandaríkjastjórn er hinn sigraði í málinu. Hún hleypti málinu fram á brún hengiflugs án þess að hafa tök á framhaldinu. Hún lyfti ágreiningnum við Saddam Hussein upp í æðra veldi og eggjaði önnur ríki í eins konar “jihad”, heilagt stríð við hin illu öfl heimsins.

Bandaríkin fengu sanngjarnan stuðning Bretlands og ýmissa fleiri ríkja, svo sem Íslands. Það dugði bara ekki, því að mikilvæg ríki á borð við Frakkland og Rússland, Saudi-Arabíu og Egyptaland þurftu líka að vera með á báti. En slík ríki neituðu alveg að taka þátt.

Bandaríkin geta sjálfum sér um kennt. Þau neyttu ekki meðan á nefinu stóð í Persaflóastríðinu. Bush Bandaríkjaforseti bar ábyrgð á, að sameinaður herafli Vesturveldanna var kallaður heim í miðju kafi, án þess að stjórn Saddams Husseins væri velt úr sessi.

Eftir það var ljóst, að forseti Íraks yrði aldrei knúinn með vopnavaldi til að haga sér að óskum Vesturlanda. Viðskipta- og efnahagsbann er lélegt ígildi styrjaldar og náði ekki tilætluðum árangri. Saddam Hussein tók þjóð sína bara í gíslingu og lét hana svelta heilu hungri.

Reynslan hefur sannfært forseta Íraks um, að eftirgjafir andstæðinga sinna séu veikleikamerki, sem leiði til þess, að knýja megi fram meiri eftirgjafir. Gegn slíkri lífsskoðun duga engir samningar, ekki einu sinni góðir samningar, sem Kofi Annan kemur með frá Bagdað.

Bandaríkin hafa séð gegnum fingur sér við marga geðtrufluðustu afbrotamennina í stétt harðstjóra heimsins og beinlínis varið völd sumra þeirra. Þess vegna fer helgisvipurinn stjórnvöldum Bandaríkjanna ekki vel, þegar þau reyna að blása til heilags stríðs.

Stríðið við Saddam Hussein er tapað. Það tapaðist í Persaflóastríðinu fyrir sjö árum. Samningasigur Kofis Annans í Bagdað hefur engin áhrif á þann sigur.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðlungsveldi og minni veldi

Greinar

Heimsmálin voru einfaldari, þegar risaveldin voru tvö, annað betra og sterkara, en hitt verra og veikara. Eftir andlát Sovétríkjanna eru valdahlutföll í heiminum óskýrari en áður. Einkum hefur daprazt aginn, sem risaveldin höfðu áður á óstýrilátum smáríkjum.

Svæðisbundnir vandræðaseggir ráða meiru en á tveggja póla tímanum. Milosevits Serbíuforseta hefur tekizt að framleiða mikil vandræði á Balkanskaga og Saddam Hussein Íraksforseta hefur hvað eftir annað tekizt að standa uppi í hárinu á samfélagi ríkja.

Áður voru slíkir í skjóli annars hvors risaveldisins og lutu aga, þegar í harðbakka sló. Nú hefur Bandaríkjunum, sem sitja eitt eftir risaveldanna, ekki tekizt að verða heimslögregla. Dæmin sýna raunar, að völd Bandaríkjanna hafa minnkað við andlát Sovétríkjanna.

Sumpart stafar það af víðtækri og gamalgróinni óbeit í Bandaríkjunum á afskiptum af umheiminum. Margir líta svo á, að heimsvandamál séu eitthvað, sem innflytjendur til Bandaríkjanna hafi viljað skilja eftir, þegar þeir fluttu yfir hafið til fyrirheitna landsins.

Að nokkru stafar það af tregðu innan pólitíska geirans í Bandaríkjunum að taka afleiðingunum af stöðu heimsveldis í umheiminum. Bandaríkin borga til dæmis ekki skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar og geta því ekki lengur farið sínu fram á þeim vettvangi.

Í þriðja lagi þolir bandarískt almenningsálit ekki lengur mannfall. Þess vegna flúði bandaríski herinn frá Líbanon og Sómalíu og einkum þó frá Víetnam. Þess vegna hætti herinn við ólokið verk í Persaflóastríðinu. Heimsveldi, sem ekki þolir mannfall, er ekki heimsveldi.

Bandaríkin hafa lyppazt niður í að verða miðlungsveldi, áhrifamest ríkja heims, en samt ófært um að blása vinveittum ríkjum til sameinaðra lögregluaðgerða og ófært um að hafa sitt fram í fjölþjóðlegum samskiptum. Smákóngar standa uppi í hári stóra kóngsins.

Ekkert vald hefur fyllt skarð Sovétríkjanna eða tekið upp slakann í valdi Bandaríkjanna. Rússland er rúst af ríki, með takmarkaða getu til að hafa hemil á fyrri skjólstæðingum Sovétríkjanna, til dæmis í Serbíu og Írak. Og herinn réð alls ekki við uppreisn Tsétsjena.

Evrópusambandið hefur styrkt stöðu sína sem efnahags- og fjármálaveldi og mun gera það enn frekar með innreið evrunnar sem gjaldmiðils. Þetta vald hefur ekki færzt yfir í pólitíkina, þar sem Evrópa rambar enn út suður, þegar eitthvað bjátar á, til dæmis í Bosníu.

Evrópusambandið getur hins vegar eins og Bandaríkin, Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrisstofnunin í krafti peninga sinna haft góð áhrif til að draga úr sveiflum og kreppum í öðrum heimshlutum, þar sem ekkert heimaríki hefur reynzt geta tekið að sér forustu.

Japan hefur sett niður sem miðlungsveldi við kreppuna í Suðaustur-Asíu. Þótt japanskir bankar séu helztu lánardrottnar gjaldþrotanna í Suður-Kóreu, Indónesíu og víðar, horfa japönsk stjórnvöld máttvana á þróun mála og láta Vesturlönd um skipulag gagnaðgerða.

Komið hefur í ljós, að embættismenn stjórna Japan upp að vissu marki, en þar fyrir ofan stjórnar enginn og allra sízt hinir formlegu landsfeður stjórnmálanna. Þegar kemur að viðkvæmum utanríkismálum, segir Japan ævinlega pass. Japan fyllir engin skörð.

Við búum þannig við nokkur minni háttar veldi og eitt miðlungsveldi í heiminum, en risaveldi hafa lagzt af með brotthvarfi Sovétríkja og afturhvarfi Bandaríkja.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindagjald svæft í nefnd

Greinar

Málamiðlunin innan Alþýðubandalagsins um að drepa auðlindagjaldi á dreif með því að setja það í þverpólitíska nefnd fellur vel að þörfum stjórnarflokkanna fyrir að láta líta svo út sem eitthvað sé verið að gera, þegar ekkert er í rauninni verið að gera.

Þess vegna tóku stjórnarflokkarnir vel í þingályktunartillögu Alþýðubandalagsins þessa efnis. Skipun nefndar er gamalkunn aðferð til að fresta óþægilegum málum fram yfir næstu kosningar, svo að þau verði ekki til trafala og óþæginda í næstu kosningabaráttu.

Víðtækt samkomulag á þingi um þessa tillögu staðfestir um leið, að fleygur er milli Alþýðubandalagsins annars vegar og Grósku, Alþýðuflokksins og jafnaðarmanna hins vegar. Það staðfestir, að A-flokkarnir munu ekki ná saman í landsmálum fyrir næstu kosningar.

Veiðileyfagjald skiptir nú þegar árlega milljörðum í sjávarútvegi. Það greiða allir, sem taka kvóta á leigu eða kaupa hann. Annaðhvort greiða þeir beint leigugjald eða þeir greiða vexti og afborganir af fjárfestingu sinni í aðgangi að skömmtuðum verðmætum.

Núverandi veiðileyfagjald rennur ekki í sameiginlegan sjóð landsmanna, heldur í vasa þeirra, sem leigja út kvóta eða selja hann. Að sinni rennur gjaldið að mestu til aðila innan sjávarútvegs, en smám saman verður það að gjaldi til aðila utan sjávarútvegs.

Það gerist með þeim hætti, að sumir sjá hag sínum bezt borgið með því að hætta útgerð og nota leigu- eða sölutekjurnar annaðhvort í öðrum rekstri eða þá sér til lífeyris. Í báðum tilvikum er fjármagnið notað utan gömlu verstöðvanna, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Núgildandi veiðileyfagjald er ranglátt, af því að það rennur ekki til ríkisvaldsins, sem hefur gert auðlindina verðmæta með því að semja við umheiminn um stóra fiskveiðilögsögu og halda uppi skömmtunarkerfi, sem hefur komið í veg fyrir algert aflahrun.

Eðlilegast væri, að þjóðin nyti í heild ávaxtanna af þessu pólitíska afreki sínu og léti jafnframt markaðinn um að ákveða verðgildi auðlindarinnar að núímalegum hætti. Það gerist með því að ríkið bjóði út kvótann á alþjóðamarkaði og taki hagnaðinn á hreinu.

Því miður rúmast svona stór hugsun ekki í músarholum stjórnmálaflokkanna. Þess vegna er þar aðeins deilt um, hvort eigi að afnema svokallað kvótabrask eða ekki og hvort auðlindagjaldið megi fara út úr sjávarútveginum eða ekki. Um annað er ekki rifizt á Alþingi.

Sumir stjórnarþingmenn vilja breyta núverandi kerfi með því að afnema svokallað kvótabrask og taka upp gjald, sem haldist innan sjávarútvegsins en fari ekki úr honum til annarra þarfa þjóðarinnar. Aðrir eru harðir í hagsmunagæzlu fyrir valdamikla heimamenn.

Stuðningsmenn innangreinargjalds og hagsmunagæzlumenn kvótaeigenda eiga sameiginlega alls kostar við þá, sem vilja, að tekjurnar renni til sameiginlegra þarfa og verði notaðar til að lækka skatta í landinu. Þarna á milli er fleygurinn í pólitísku umræðunni.

Styrkleikahlutföll umræðunnar á Alþingi endurspegla ekki skoðanir kjósenda. Úti í þjóðfélaginu er meiri stuðningur við róttækari breytingar. Þess vegna vill meirihluti stjórnmálamanna drepa málinu sem mest á dreif og setja það helzt í langvinna nefnd.

Umræðan á Alþingi í fyrradag var gagnleg, af því að hún auðveldar almenningi að skilja, hvers vegna eðlilegt auðlindagjald nær ekki fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV